18.7.2014 | 19:12
Styrkja þarf orkusamband Bandaríkjanna og Evrópu
Spennan í samskiptum Evrópu og Rússlands vex. Undanfarin misseri höfum við mátt horfa upp á Rússland innlima Krímskaga frá Úkraínu með aðferðum sem engan veginn standast þjóðarétt (alþjóðalög). Og margt bendir til þess að rússnesk stjórnvöld útvegi vopn til uppreisnarhópa í Úkraínu sem vilja kljúfa landið.
Í kjölfar síðustu atburða velta menn fyrir sér afleiðingunum. Ef það sannast, sem haldið er fram, að uppreisnarmenn hafi skotið niður farþegaþotuna, sem hrapaði í austanverðri Úkraínu í gær, hljóta Vesturlönd að grípa til aðgerða gegn Rússlandi. Í því skyni að fá rússnesk stjórnvöld til að hætta að beita sér gegn stjórnvöldum í Kiev í andstöðu við þjóðarétt.
Slíkar aðgerðir yrðu líklegast í formi strangari og víðtækari viðskiptahindrana, en nú þegar hefur verið komið á. Uns rússnesk stjórnvöld láta af ólögmætum afskiptum af Úkraínu (og jafnvel hverfa með herlið sitt frá Krímskaga - en reyndar kann Krímskaginn að verða einskonar skiptimynd til að friða Rússa).
Rússland byggir útflutningstekjur sínar og efnahag fyrst og fremst á orkuútflutningi. Þar er bæði um að ræða jarðgas og olíu. Rússland er langstærsti gasútflytjandi heims og annar af tveimur stærstu olíuútflytjendunum (ásamt Saudi Arabíu). Ef einhver vill að efnahagsþvinganir bíti gegn Rússlandi væri nærtækast að sá hinn sami myndi sérstaklega beita sér fyrir því að innflutningur ríkja á gasi og/eða olíu frá Rússlandi verði takmarkaður. Og að rússnesk fyrirtæki eins og Gazprom og Rosneft fái ekki fyrirgreiðslu hjá fjármálastofnunum utan Rússlands.
Það virðist þó hæpið að viðskiptaþvinganir af hálfi Bandaríkjanna og Evrópu muni beinast gegn gasútflutningi Rússa. Til þess er gasið of mikilvægt mörgum löndum Evrópu. Að vísu hefur gasframleiðsla í Bandaríkjunum vaxið svo hratt undanfarin ár, að raunhæft væri að flytja bandarískt gas til Evrópu. En til að svo verði þarf að byggja vinnslustöðvar vestra sem umbreyta gasinu í fljótandi form - og það þarfnast mikil undirbúnings og því væru þetta ekki aðgerðir sem gætu bitið á næstu misserum.
Mörg lönd Evrópu eru ekki bara háð rússnesku gasi. heldur einnig olíuinnflutningi þaðan. Þýskaland er t.a.m. stærsti innflytjandinn að rússneskri olíu. Strategískt séð er orðið afar mikilvægt að Bandaríkin og löndin í Evrópu (með Evrópusambandið í fararbroddi) semji um nánara orkusamstarf og jafnvel sameiginlegan orkumarkað í einhverri mynd. Þannig gæti Evrópa minnkað þörf sína fyrir rússneska olíu. Olían sem myndi fylla í það skarð gæti mögulega komið frá löndum eins og Angóla, Nígeríu og Venesúela (en þá yrði olíuútflutningur þessara ríkja t.d. til Kína að minnka).
Það er reyndar svo að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum hefur aukist mikið á síðustu árum. Ennþá eru Bandaríkin þó stærsti olíuinnflytjandi heimsins. Og þurfa þar m.a. að keppa við hið nýja orkuveldi Kínverja. Kína er nú næst stærsti olíuinnflytjandi heimsins. Það er því hæpið að Bandaríkin gætu flutt mikið af olíu til Evrópu. Og þar að auki er fjörutíu ára gamalt olíuútflutningsbann ennþá í gildi í Bandaríkjunum!
En það er staðreynd að minnkandi olíutekjur Rússlands myndu skapa mikinn þrýsting á stjórnvöld þar. Rússland er geysilega háð olíutekjum og olíuverði. Sumir álíta að lágt olíuverð hafi verið meðal mikilvægustu atriðanna sem felldu Sovétríkin - og sennilega er pólitísk framtíð Pútín's ennþá háðari háu olíuverði.
En veröldin er ekki einföld og hugsanlega myndu Kínverjar sjá sér leik á borði að kaupa meiri olíu af Rússum, ef olíusala þaðan til Evrópu drægist mikið saman. Þannig gæti í reynd orðið tilfærsla á olíumarkaði án þess endilega að tekjur Rússlands af olíu myndu minnka að ráði. Slík tilfærsla gæti gert Rússland háðara Kína - og það er ekki endilega ástand sem Vesturlönd sækjast eftir.
Kannski er líklegast að Bandaríkin og Evrópa reyni að koma við kaunin á rússneskum stjórnvöldum með því að þrengja að fjármögnunarmöguleikum landsins og lánsfársmöguleikum Rosneft og Gazprom hjá vestrænum bönkum. Vandinn er bara sá að hagsmunirnir eru orðnir svo samtvinnaðir.
Rosneft er t.a.m. sagt skulda vestrænum bönkum um 40 milljarða USD. Og flest af þeim lánum sem eru næst gjalddaga munu vera lán frá stórum bandarískum bönkum. Nú reynir á hvort Bandaríkin og Evrópuríkin komi i veg fyrir endurfjármögnun þar - og hvort kínverskir bankar munu þá einfaldlega koma til skjalanna?
Í viðbót má svo minnast þess að Exxon Mobil og fleiri bandarísk olíufélög hafa verið að semja við Rosneft um aðkomu að risastórum olíulindum í Rússlandi. Og evrópsku BP og Shell eiga líka mikilla hagsmuna að gæta þar í landi. Það verður því varla einfalt mál fyrir bandarísk og evrópsk stjórnvöld að beita sér með svo afgerandi hætti að Rússland dragi sig í hlé gagnvart Úkraínu. Mun sennilegra virðist að þetta verði fremur máttlausar aðgerðir. Og að menn horfi til þess að tími Pútíns hljóti senn að líða - og þá taki vonandi lýðræðissinnaðri stjórn við í Rússlandi.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:35 | Facebook
Athugasemdir
Í samhengi við ofanritað getur verið áhugavert að lesa greinina "Superpowers Don't Get to Retire" eftir Robert Kagan. Nokkuð líflegar umræður hafa spunnist um þessi skrif, enda hafa menn mismiklar mætur á Kagan. En greinina má finna hér:
http://www.newrepublic.com/article/117859/allure-normalcy-what-america-still-owes-world
Og þar segir m.a.:
Almost 70 years ago, a new world order was born from the rubble of World War II, built by and around the power of the United States. Today that world order shows signs of cracking, and perhaps even collapsing. The Russia-Ukraine and Syria crises, and the world’s tepid response, the general upheaval in the greater Middle East and North Africa, the growing nationalist and great-power tensions in East Asia, the worldwide advance of autocracy and retreat of democracy—taken individually, these problems are neither unprecedented nor unmanageable. But collectively they are a sign that something is changing, and perhaps more quickly than we may imagine. They may signal a transition into a different world order or into a world disorder of a kind not seen since the 1930s.
If a breakdown in the world order that America made is occurring, it is not because America’s power is declining—America’s wealth, power, and potential influence remain adequate to meet the present challenges. It is not because the world has become more complex and intractable—the world has always been complex and intractable. And it is not simply war-weariness. Strangely enough, it is an intellectual problem, a question of identity and purpose.
[...]
Meanwhile, the signs of the global order breaking down are all around us. Russia’s invasion of Ukraine and seizure of Crimea was the first time since World War II that a nation in Europe had engaged in territorial conquest. If Iran manages to acquire a nuclear weapon, it will likely lead other powers in the region to do the same, effectively undoing the nonproliferation regime, which, along with American power, has managed to keep the number of nuclear-armed powers limited over the past half century. Iran, Saudi Arabia, and Russia are engaged in a proxy war in Syria that, in addition to the 150,000 dead and the millions displaced, has further destabilized a region that had already been in upheaval. In East Asia, nervousness about China’s rise, combined with uncertainty about America’s commitment, is exacerbating tensions. In recent years the number of democracies around the world has been steadily declining, while the number of autocracies grows. If these trends continue, in the near future we are likely to see increasing conflict, increasing wars over territory, greater ethnic and sectarian violence, and a shrinking world of democracies.
How will Americans respond?
Ketill Sigurjónsson, 18.7.2014 kl. 23:31
Orkustrengur um kanadísku eyjarnar, Grænland og Ísland til Evrópu frá USA myndi nú líklega gera nokkuð! Kanski stuðla að heimsfriði um leið og við Íslendingar græddum einn ganginn enn. Þá væri líklega hægt að virkja einhverjar bunur í Grænlandi í leiðinni.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 19.7.2014 kl. 00:31
Og þið kallið ykkur Íslendinga ...
Kænugarður, tilheyrði Svíum, þangað til að Ívan grimmi, og Pétur mikli líka. Drápu þá og murkuðu út, og innlimuðu alla Ukraínu inn í Rússaveldi.
Hvað sem svo einhver formaður kommúnistaflokksins hefur gert, breitir ekki mankynsögunni. Krímskagi hefur tilheyrt rússum um óratíð.
Síðan vil ég spyrja ykkur, erum við hér í Evrópu að byðja ykkur um þennan sæstreng? Við viljum ekki hafa sæstrenginn ykkar, frekar en við viljum hafa kanann hérna. Sérðu Evrópu búa ganga um í fylkingum hér, biðjandi Bandaríkjamenn um leggja sæstreng hingað?
Ukraína hefur enga þýðingu, og Bandaríkin eru hnignandi heimsveldi. Þeir eru ofbeldissinnuð ómenni, sem við viljum ekkert með hafa hér. Enn síður viljum við verða háðir Bandaríkjamönnum með orku, þó svo að slíkt sé ofarlega í huga kanans.
Hvað varðar Ukraínu, þá er það skiptir littlu hvor sé við völd ... nasistar, eða rússar. Það er sama skítafílann af þeim báðum.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 19.7.2014 kl. 07:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.