29.10.2014 | 08:47
Er vit í vindorkuverum á Íslandi?
Virkjun vindorku hefur aukist mikið síðustu áratugi. Í dag er uppsett afl vindorkuvera meira en 300 þúsund MW. Þar af eru um 60 þúsund MW í Bandaríkjunum. Og uppsett afl vindorkuvera í löndunum innan Evrópusambandsins (ESB) er um 120 þúsund MW og þar af meira en 35 þúsund MW í Þýskalandi. Mest er uppsett afl vindorkuvera í Kína; meira en 90 þúsund MW. Til samanburðar þá er allt virkjað afl á Íslandi, þ.a. allar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanirnar hér, vel innan við 3 þúsund MW.
Í leiðara Morgunblaðsins var nýverið gert fremur lítið úr því verkefni Landsvirkjunar að reisa tvær vindrafstöðvar í nágrenni Búrfells; að þarna sé Landsvirkjun að eyða verulegum fjármunum í óþarfa apparat sem fylgi fugladráp og hávaði. Vert er að staldra aðeins við þessi álitamál. Er ekkert vit í því að reisa vindrafstöðvar á Íslandi?
Það er kannski eðlilegt að fólk sé tortryggið gagnvart því að reisa stórar vindrafstöðvar hér. Það er t.d. vel þekkt að verulegur hvinur getur komið frá vindmyllum og það er líka vitað að spaðarnir valda fugladauða. Og sumum þykja háir turnarnir og geysistórir spaðarnir lítil prýði í landslaginu. En það hlýtur þó að vera álitamál hvort þau umhverfisáhrif sem fylgja vindrafstöðvum séu eitthvað meiri eða óæskilegri en áhrifin sem fylgja t.d. vatnsaflsvirkjunum eða jarðvarmavirkjunum. Það er reyndar svo að almennt er fugladauði af völdum vindmylla hverfandi miðað við fugladauða vegna t.d. bifreiða eða fugladauði vegna þess að fuglar fljúga á gluggarúður. Og ef/ þegar til þess kemur að taka þyrpingu vindmylla niður eru varanleg umhverfisáhrif vindorkuvera sáralítil. Virkjun vindorku er því meðal þeirra orkukosta sem hafa minnst óafturkræf umhverfisáhrif.
Helsti hlutlægi mælikvarðinn á það hvort nýting vindorku sé skynsamlegur kostur eður ei hlýtur að vera kostnaðurinn. Þess vegna er vert að staldra hér sérstaklega við það álitamál hvað það kostar að framleiða raforku með vindrafstöðvum.
Í glænýrri skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Ecofys er að finna samanburð á kostnaði mismunandi orkugjafa innan ESB. Þar er notuð sú algenga viðmiðun að bera saman kostnað við byggingu og rekstur orkuveranna og deila þeim kostnaði á raforkuframleiðsluna (á ensku er talað um levelized cost of energy).
Skemmst er frá því að segja að í þessum samanburði Ecofys kemur vindorkan ansið vel út (sérstaklega vindorkuver á landi; vindorkuver utan við ströndina, þ.e. í sjó, eru almennt mun dýrari). Samkvæmt skýrslunni er meðalkostnaður við að framleiða raforku með vindrafstöðvum á landi í Evrópu nálægt 80 EUR/MWst. Og í sumum tilvikum er kostnaður vindorkunnar í Evrópu undir 60 EUR/MWst.
Í öðrum nýlegum samanburði af þessu tagi má sjá ennþá lægri tölur fyrir vindorkuna. Þannig segir í nýrri skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Lazard að algengur kostnaður nýrra vindorkuvera sé nálægt 60 USD/MWst. Og fari á vissum svæðum allt niður í 37 USD/MWst! Í þeim tilvikum er kostnaður vindorkuvera farinn að nálgast það sem kostar að reisa og framleiða raforku í nýrri jarðvarmavirkjun á Íslandi.
Þegar litið er til þessara og annarra sambærilegra athugana sést að virkjun vindorku er afar misdýr - enda er vindur afar mismikill og misstöðugur frá einum stað til annars og nýting vindorkuveranna því misgóð. Algeng nýting er nálægt 25%. En á þeim svæðum þar sem vindskilyrði eru hagstæð er nýtingin mun hærri og stundum nálægt 40% (af þeim löndum sem hafa mest virkjað vindorku er svo háa nýtingu einkum að finna á Nýja-Sjálandi).
Fyrir þá sem vilja sjá hvað er að gerast hjá vindmyllum Landsvirkjunar má benda á að skoða má tölur um framleiðsluna á rauntíma á vef fyrirtækisins. Ekki liggja fyrir opinberlega nákvæmar upplýsingar um það hver kostnaður framleiddrar raforku í vindrafstöðvum Landsvirkjunar er. Enda er skammur tími liðinn frá því vindmyllurnar tvær ofan Búrfellsvirkjunar voru reistar. Í kynningum Landsvirkjunar hefur þó komið fram að nýtingin hefur verið góð; nálægt 40%. Það er svipað eins og best gerist úti í heimi. Og kemur kannski ekki mjög á óvart; við könnumst jú mörg við vindana þarna á mörkum hálendisins ofan Búrfellsvirkjunar (svæðið þarna kallast Hafið).
Ísland er vindasamt land og því ekki ólíklegt að nýting vindorkuvera hér yrði víða góð. Kostnaður við rafmagnsframleiðslu með vindorku hér á landi væri því sennilega oft nálægt neðri mörkum þess kostnaðar sem sjá má tilgreindan í erlendum athugunum á kostnaði vindorku. Við hverju þarna má búast verða þó ætíð tómar getgátur nema með því að reisa hér vindmyllur og sjá hvernig þær reynast - eins og Landsvirkjun hefur nú gert (vindmælingar einar og sér geta aðeins orðið nálgun eða vísbending um líklega nýtingu eða líklegan framleiðslukostnað). Í ljósi þess hversu framleiðslukostnaður vindorkuvera getur farið langt niður þar sem best gerist, hlýtur að teljast eðlilegt og raunar mjög skynsamlegt af Landsvirkjun að hafa ráðist í vindorkuverkefnið. Einungis þannig má fá góð svör við spurningunni sem sett er fram í fyrirsögninni hér í upphafi.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:49 | Facebook
Athugasemdir
Ágæt grein en gerir ekkert til að svara þeirri spurningu hvort vit sé í vindorkuverum á Íslandi.
Það er yfir allan vafa hafið að víða í heiminum er vindorka bæði skynsamlegur og arbær kostur. Þetta gildir víðasthvar þar sem raforkuverð miðast við framliðslu úr kolvetnum.
Í þína grein vantar hinsvegar að gera samanburð á framleiðsluverði vindafls, vatnsafls og raforku úr jarðhitavirkjunum og bera það svo saman við orkuverð á markaði.
Allar erlendu tölurnar um verð vindorku eru mun hærri en það verð sem Íslensku orkufyrirtækin fá fyrir raforku í dag.
Kostur við vindorkuna er að hún er almennt meiri að vetri þegar álag er meira og framleiðslugeta vatnsafls minni en að sumri. LV hefur hinsvegar aldrei gert skýra grein fyrir þessum þáttum.
Og á Íslandi er raforkuverð með þeim endemum að hér er notuð raforka til að famleiða kolvetni! Á heimsvísu er raforka dýr en kolvetni ódýr. Vinnsla og brennsla kolvetna til framleiðslu raforku/hreyfiorku/hita er einn umsvifamesti atvinnurekstur í heimi. Sæstrengur mun að sjálfsögðu kippa fótum undan metanólframleiðslu í Svartsengi.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 29.10.2014 kl. 09:18
Í greininni kemur fram að vindorkuverkefni Landsvirkjunar sé mikilvægt og raunar nauðsynlegt til að unnt sé að svara spurningunni um það hvort nýting vindorku á Íslandi sé skynsamlegur kostur. Að svo stöddu er ekki unnt að svara spurningunni að nákvæmni. En vísbendingar eru um að svarið verði jákvætt - vegna þess að ef framleiðslukostnaðurinn á rafmagni með vindrafstöð hér er nálægt neðri kostnaðarmörkunum er það orðið ansið nálægt því raorkuverði sem ný jarðvarmavirkjun myndi þurfa. Til framtíðar kann því að vera líklegt að vindorka verði nýtt í umtalsverðum mæli hér. En þetta mun skýrast betur eftir því sem meiri reynsla kemst á verkefnið þarna ofan Búrfellsvirkjunar.
Ketill Sigurjónsson, 29.10.2014 kl. 09:42
Það skiptir máli hverjir ætla að kaupa orkuna.
sveitabæjir eða stór-iðnaður?
Hugsanlega er vindorkan of sveiflukennd til að hægt sé að stóla á hana tengt stór-iðnaði.
Jón Þórhallsson, 29.10.2014 kl. 09:52
Já; vindorka verður ekki grunnafl fyrir stóriðju. Í hinu aflokaða íslenska raforkukerfi er nýting vindorku því óhjákvæmilega takmörkuð, en þó mætti vel setja upp nokkur hundruð MW hér í vindafli. Þar að auki geta vindmyllur spilað vel með vatnsafli; þegar vindurinn blæs má spara vatn í miðlunarlónum. Að auki má nýta vindorkuver til að dæla vatni upp í miðlunarlón. Þetta er allt vel þekkt erlendis.
Ketill Sigurjónsson, 29.10.2014 kl. 11:25
Alltaf skal moggi taka skakkan pól í hæðina. Alveg makalaust.
Auðvitað a vindorkan stórkostlega framtíð fyrir sér og þróunin er hröð.
Fuglar? Það mætti þá alveg eins segja að fólk ætti ekki að hafa slíkan óþarfa sem heimilisketti. Kettir drepa fugla mestanpart að gamni sínu.
Alltaf eins og smákrakkar þeir þarna á mogga.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 29.10.2014 kl. 13:20
Nýleg grein um samspil norska vatnsaflsins og evrópskrar vindorku: http://spectrum.ieee.org/green-tech/wind/norway-wants-to-be-europes-battery
Ketill Sigurjónsson, 29.10.2014 kl. 13:47
Ketill ert þú sem sagt til í að útrýma íslenska arnarstofninum fyrir nokkur vindorku megavött? Fyrir utan hvað þessi möstur eru ljót og munu örugglega fæla erlenda ferðamenn frá að koma til landsins!
Einar Lúðvíksson (IP-tala skráð) 3.11.2014 kl. 12:21
Skv. íslenskum lögum, m.a. um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, er ólíklegt að vindmyllur verði leyfðar á kjörsvæðum arna. Það að virkjun vindorku á Íslandi muni fæla ferðamenn frá landinu efast ég stórlega um.
Ketill Sigurjónsson, 3.11.2014 kl. 12:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.