Holskefla af kínversku áli

Aluminum smelting is power intensive and adds little value. Álver eru orkufrek og skapa lítinn virðisauka. 

Aluminum-Platts-_little-value_Dec-2015Þessi staðreynd, sem þarna er höfð eftir greiningarfyrirtækinu Platts, kemur ekki í veg fyrir að ál er ákaflega nytsamur málmur. Og álframleiðsla getur skilað mjög góðum hagnaði. Til að svo megi vera er þó oftast nauðsynlegt að umrædd álfyrirtæki ráði yfir allri virðiskeðjunni. Og/eða hafi náð að staðsetja álver í nágrenni við s.k. strandaða orku og njóti þannig einstaklega hagkvæms raforkuverðs.

Þess vegna eru álver t.d. staðsett í nágrenni vatnsaflsvirkjana í Afríku, kolaorkuvera i Kína, gasorkuvera í Persaflóaríkjunum og auðvitað á Íslandi. Fyrir samfélögin koma álverin með fjölmörg störf, sem ella hefðu sennilega ekki orðið til nema etv. löngu síðar með annarri atvinnuuppbyggingu, auk þess að gefa samfélögunum kost á á að beisla hina strönduðu orku sem ella hefði sennilega ekki verið nýtt fyrr en kannski í fjarlægri framtíð.

Afkoma í áliðnaði sveiflast eðlilega upp og niður allt eftir því hvernig framboð og eftirspurn sveiflast. Nú er aftur á móti komið upp það óvenjulega ástand að viðvarandi offramboð er af áli. Þess vegna hefur þrengt að hagnaði i áliðnaðinum og áhættan aukist. Af þeim sökum leita nú hinir hefðbundnu gamalgrónu álframleiðendur leiða til að losa sig við álver. Og einbeita sér þess í stað að annarri kjarnastarfsemi (sbr. einkum Rio Tinto og BHP Billiton) eða því að nýta þekkingu sína á áli og álrekstri til meira virðisaukandi framleiðslu (sbr. einkum Alcoa).

Aluminium-World-Production_1950-2012

Meginástæðan fyrir þessari umbreytingu er að á síðasta hálfum öðrum áratug hefur álveröldin gjörbreyst og hefur þróast yfir í að vera tvískipt. Annars vegar má tala um hinn hefðbundna áliðnað, sem fyrst og fremst eru álfyrirtæki með rætur í Kanada, Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu (þ.e. í hinum vestræna heimi) og að auki nýlegan áliðnað í Persaflóaríkjunum. Hins vegar eru svo álfyrirtækin í nýmarkaðslöndunum og þá fyrst og fremst álverin í Kína (en einnig á Indlandi).

Á örskömmum tíma byggðist upp risavaxinn áliðnaður í Kína. Þar er nú framleitt meira en helmingur af öllu ál heimsins og það hlutfall fer ennþá vaxandi. Áliðnaðurinn í Kína hefur lotið allt öðrum lögmálum en gengur og gerist í okkar vestræna kapítalíska hagkerfi. Þar hafa stjórnvöld beitt sér óspart til að liðka fyrir því að Kína yrði sjálfbært með ál.

Þegar því var náð, fyrir fáeinum árum, hafa kínversk stjórnvöld kannski ætlað sér að draga úr stuðningi við kínverskan áliðnað. En vandinn er sá að kapítalisminn í kommúnistaríkinu tekur oft á sig sérkennilegar myndir. Einstakar héraðsstjórnir í Kína sáu nú tækifæri í því að viðhalda og jafnvel auka stuðning við uppbyggingu álvera. Á sama tíma var byrjað að bera á því að farið væri að hægja á hagvaxtaraukningunni í Kína. Ívilnanir til áliðnaðar voru því kærkomið tækifæri fyrir héraðsstjórnirnar til að vinna gegn því að um og of myndi hægja á hagvexti í viðkomandi héruðum. Þessi aðferð, þ.e. að ívilna áliðnaði, þótti alveg sérstaklega ákjósanleg í héruðum sem búa yfir miklum og aðgengilegum orkulindum. Þar eru kolahéruðin í NV-Kína í fararbroddi, einkum í héraðinu Xinjiang.

Aluminium-Demand-World-and-China-_2014-2020Afleiðing þessarar stefnu kínverskra stjórnvalda er sú að nú er orðið offramboð af áli í Kína og framleiðslugeta álvera alltof mikil. Þetta ástand virðist þó litlu breyta um stefnu stjórnvalda, því ekkert er að slakna á uppbyggingu nýrra álvera þar eystra. Pólitískt séð virðist kínverskum stjórnvöldum ekki fýsilegt að hægja á uppbyggingunni. Þarna leika héraðsstjórnir stórt hlutverk og nánast keppast um að styðja við áliðnað. Þetta ástand hefur nú gjörbreytt álbransanum um allan heim.  

Fram til þessa hefur kínverska álið nær allt verið notað í framleiðslugreinum í Kína. En nú er það ástand breytt; álbirgðir hlaðast upp og offramboð af kínversku áli eykst. Kínversku álfyrirtækin eru að verða sífellt áhugasamari um útflutning, þ.e. að bjóða ál til sölu utan Kína á verði sem er jafnvel umtalsvert lægra en vestræni áliðnaðurinn býður.  

Aluminum-at-harbour-AsiaOg nú er svo komið að vaxandi líkur eru á því að holskefla af kínversku áli skelli senn á vestrænum álmörkuðum. Það yrði til að halda álverði lágu ennþá lengur en mörg álfyrirtæki (og raforkufyrirtæki) hafa verið að vonast til. Þetta er sérstaklega áhyggjuefni fyrir Íslendinga. Á næstu vikum mun ég birta nokkrar greinar hér á Orkublogginu þar sem staðan á álmörkuðum verður skýrð nánar og fjallað ítarlegar um þessa flóðbylgju af kínversku áli, sem virðist byrjuð að streyma hægt en ákveðið inn í flóa og firði vestrænna álmarkaða. Sá straumur af áli gæti orðið nánast óstöðvandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband