Sæstrengur skrefi nær

Nuclear-Power-Station_Hinckley-Point-C-UK-IllustrationBreskum stjórnvöldum er mjög umhugað um að efla uppbyggingu nýrra raforkuvera í Bretlandi og auka raforkutengingar Bretlands við önnur lönd. Þar er fyrst og fremst horft til raforku sem aflað er án kolefnislosunar. Samhliða er stefnt að miklum samdrætti í raforkuframleiðslu með breskum kolaorkuverum.

Þessi stefna breskra stjórnvalda kallar á geysilegar nýfjárfestingar í nýjum raforkuverum og nýjum sæstrengjum sem flytja rafmagn. Til að tryggja að af slíkum fjárfestingum verði eru stjórnvöld í Bretlandi reiðubúin að beita ríkissjóði sínum. Fram að þessu hefur sá stuðningur einkum falist í því að tryggja framgang nýrra orkuverkefna; bæði verkefna sem snúa að endurnýjanlegri orku svo og kjarnorku.

UK-China_george-osborne-chinas-vice-premier-ma-kaiSlíkar fjarhagslegar skuldbindingar eru eðlilega umdeildar. Gagnrýnt hefur verið að afar dýrt sé að koma þessari orkustefnu í framkvæmd. Slík gagnrýni hefur leitt til þess að nú hefur verið dregið úr stuðningi við uppsetningu sólarsella. Það eru aftur á móti engar vísbendingar um að bresk stjórnvöld hyggist snúa baki við stærstu og mikilvægustu verkefnunum.

Þess vegna er t.d. líklegt að áfram verði miklum fjármunum varið til að tryggja nýjum vindorkuverum nauðsynlegar tekjur. Og nú síðast í morgun tilkynntu bresk og kínversk stjórnvöld um samkomulag sem gerir ennþá líklegra en áður að Bretland fái nýtt kjarnorkuver við Hinckley Point. Þar hefur kjarnorkuverinu verið tryggt verð sem á núverandi gengi nemur um 140 USD/MWst. Sá samningur nær til raforkusölu í hvorki meira né minna en 35 ár. 

McKinsey-Iceland-Growth-CoverÞetta nýja kjarnorkuver verður 3.200 MW og kostnaðurinn er nú áætlaður sem nemur um 40 milljörðum USD. Þessi gífurlega hái kostnaður er til marks um það hversu dýrt er að byggja ný, öflug og örugg kjarnorkuver í dag. En slíkt telja bresk stjórnvöld afar nauðsynlegt til að tryggja orkuöryggi til framtíðar. Af sömu ástæðu - þ.e. til að efla aðgang að kolefnislausri raforku - eru góðar líkur á að bresk stjórnvöld séu mjög áhugasöm um sæstreng milli Bretlands og Íslands. Og viljug til að greiða þar mjög hátt raforkuverð; verð sem yrði t.d. margfalt það meðalverð sem Landsvirkjun fær vegna raforkusölu til stóriðjunnar.

Þess vegna beitir nú Samál, ásamt álfyrirtækjunum hér, sér fyrir því að tala niður sæstrengsmöguleikann. Álfyrirtækin hér eru orðin því vön að hafa myljandi hagnað af viðskiptum sínum við íslensku raforkufyrirtækin og kæra sig ekki um að fá þar umtalsverða nýja samkeppni. Í þvi sambandi er áhugavert að nú um stundir eru bæði Norðurál (Century Aluminum) og Fjarðaál (Alcoa) einungis að greiða nálægt 15 USD/MWst fyrir raforkuna (án flutnings en með flutningi er orkuverðið til þeirra núna nálægt 20 USD/MWst). Á sama tíma ábyrgjast bresk stjórnvöld raforkuverð frá nýju kjarnorkuveri sem nemur um 140 USD/MWst.

McKinsey-Iceland-HVDCÞarna munar nú um 125 USD/MWst! Þegar búið er að draga frá flutningskostnað um sæstreng (sbr. mat ráðgjafafyrirtækisins McKinsey þar um) má gera ráð fyrir að aukahagnaður Íslands af hverri seldri MWst m.v. verðið frá kjarnorkuverinu næmi um 80-90 USD/MWst. Í ljósi þess að íslensk orka er miklu umhverfisvænni kostur en kjarnorka - svo og með hliðsjón af þeim samningum sem bresk stjórnvöld hafa t.a.m. verið að gera vegna vindorkuvera - má raunar gera ráð fyrir að Íslandi gæti boðist ennþá hærra verð fyrir raforkuna. Þar með gæti hagnaðaraukning vegna hverrar seldrar MWst um sæstreng orðið vel yfir 100 USD.

Til að komast að niðurstöðu um þessar tölur er þó bæði nauðsynlegt og mikilvægt að eiga formlegar viðræður við bresk stjórnvöld. Eins og þau hafa beinlínis óskað eftir. Sú ákvörðun íslenska nýsköpunar- og atvinnuvegaráðherrans að verða ekki við þeim óskum endurspeglar mjög einkennilega afstöðu til íslenskra hagsmuna. Þar eru hagsmunir erlends áliðnaðar bersýnilega teknir fram yfir hagsmuni íslensks almennings. Þarna verða vonandi jákvæðari skref senn stigin. Enda eru nýjustu tíðindin af orkustefnu Breta áhugaverð og sýna að Ísland kann þarna að eiga mjög áhugavert viðskiptatækifæri. Og í ljósi nýjustu tíðinda þá er sæstrengur milli Íslands og Bretlands í reynd skrefi nær nú í dag en hann var fyrir helgina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fjármagnsflæði í heiminum er alltaf að leita að nýjum fjárfestingarverkefnum

Verði af tengingu rafveitukerfis Íslands við umheiminn þá verður það hagkvæmt að kaupa hér rafmagnsframleiðsluna - Landsvirkjun verður seld og rafmagnið hækkar þrefalt einso gerðist með heita vatnið

Hverjir græða - fjármagnseigendur og íslendingar sem fá eingreiðslu

en þessi eingreiðsla er einsog pissa í skóinn - BORGA VERÐUR MARGFALT RAFMAGNSVERÐ

Grímur (IP-tala skráð) 21.9.2015 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband