Samningsviljugir Bretar

Bresk stjórnvöld eru áhugasöm um að styðja við uppbyggingu nýrra raforkuvera í Bretlandi og efla raforkutengingar við nágrannalöndin. Þess vegna eru Bretarnir t.d. tilbúnir til að tryggja nýju kjarnorkuveri sem samsvarar um 140 USD/MWst til 35 ára.

UK-Power-Spare-Capacity-FT-July-15-2015Af sömu ástæðu eru Bretar nú að vinna að lagningu tveggja nýrra sæstrengja. Þar er um að ræða 1.000 MW Nemo-Link milli Bretlands og Belgíu og 1.400 MW NSN-Link milli Bretlands og Noregs.

Að auki eru ýmsir aðrir sæstrengsmöguleikar til skoðunar og þ.á m. er sæstrengur milli Bretlands og Íslands. Þar gera Bretar ráð fyrir um 800-1.200 MW streng. Sá strengur er kallaður Ice-Link. Og þar er gert ráð fyrir að rafmagn frá Íslandi njóti sérstaklega ríflegs raforkuverðs. Eins og skýrt kom fram á fundi Bresk-íslenska viðskiptaráðsins í liðinni viku.

Það sem er alveg sérstaklega athyglisvert við orkustefnu Breta og stöðu breskra raforkumála, er að þar í landi hefur sjaldan verið jafn mikil hætta á raforkuskorti eins og nú um stundir. Um þetta hefur mátt sjá mikið skrifað i breskum fjölmiðlum undanfarna mánuði, t.d. í Guardian og hjá BBC.

UK-Power-Spare-Capacity-FT-July-15-2015-graphÞessi áhættusama staða á breska raforkumarkaðnum er líkleg til að styrkja samningsstöðu þeirra sem bjóða Bretum aukinn aðgang að orku. Þetta má líka orða þannig að eins og staðan er þarna í dag, þá hefur líklega sjaldan verið auðveldara fyrir bresk stjórnvöld að réttlæta það fyrir breskum almenningi að mikilvægt sé að tryggja aðgang að meiri orku - jafnvel þó sú raforka kunni að verða dýr. Og þá skipti alveg sérstaklega miklu máli að þetta sé orka sem er þess eðlis að hún sé bæði fyrirsjáanleg og geti mætt snöggum álagsbreytingum.

Með hliðsjón af þessu síðastnefnda er íslensk orka miklu betri kostur en t.d. uppbygging dýrra vindorkuvera utan við bresku ströndina. Sem eru mjög dýr kostur og þar að auki skila þau afar óstöðugri orkuframleiðslu og henta ekki til að mæta snöggum álagsbreytingum. Þarna geta eiginleikar íslenska vatnsaflsins nýst alveg sérstaklega vel.

Í þessu sambandi er athyglisvert að bresk stjórnvöld hafa undanfarið verið að tryggja vindorkuverum út af bresku ströndinni raforkuverð sem samsvarar á bilinu 180-240 USD/MWst. Til samanburðar þá er áhugavert að raforkuverðið sem Norðurál (Century Aluminum) og Fjarðaál (Alcoa) greiða fyrir íslensku raforkuna nú um stundir, er um og undir 15 USD/MWst (að auki greiða álverin svo að sjálfsögðu flutningskostnað og því fá Landsvirkjun og Landsnet nú samtals um og undir 20 USD/MWst frá umræddum tveimur álfyrirtækjum). Þessi samanburður hlýtur að vekja okkur til umhugsunar og vitundar um þau arðsemistækifæri sem orkustefna Breta kann að skapa okkur.

Icelink-HVDC-UK-NG-nov-2013-4Í dag er óvenju gott tækifæri til að kanna hvort Bretar séu tilbúnir til samninga um raforkuviðskipti við Ísland. Óvíst er að það tækifæri haldist lengi. Vegna þess að eftir því sem bresk stjórnvöld ná fleiri samningum af því tagi sem verið hefur síðustu misserin (vegna sæstrengja og uppbyggingar vindorkugarða og kjarnorkuvers) er sennilegt að hið þrönga svigrúm sem nú er milli framboðs og eftirspurnar á breska raforkumarkaðnum fari batnandi.

Þess vegna væri skynsamlegt að ganga sem fyrst til formlegra viðræðna við Breta um mögulegan sæstreng milli Íslands og Bretlands. Með það að leiðarljósi að ná samningum sem tryggi Íslandi mjög gott (hátt) verð fyrir orkuna og lágmarki um leið áhættu Íslendinga. Eðlilegt er að íslensk stjórnvöld geri það að forgangsmáli að kanna þetta tækifæri til hlýtar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Orkuverð fer eftir framboði og eftirspurn. Ekkert öruggt í þessum heimi. Ég hefði haldin að við fáum mest ef við nýtum það í iðnað og þá ekki álver. 

Valdimar Samúelsson, 26.9.2015 kl. 22:27

2 identicon

Sæll Ketill - sem og aðrir gestir, þínir !

Ketill !

Hversu auðkeyptur: varstu - fyrir þessum strengs áróðri Harðar Arnarsonar, og létta drengja hans: hjá Landsvirkjun ?

Þú virðist - láta þér í léttu rúmi liggja, þó svo raforkukostnaður ísl. heimila og fyrirtækja / kynni að hækka, um Hundruð %, yrðu þessar heimskulegu draumsýnir innlendra sem útlendra gróða afla, að veruleika.

Það væri allt í lagi: að þú upplýstir okkur lesendur þína / sem og aðra skrifara um, á hverra snærum þú starfar - og iðkar, þessi frámunalegu skrif.

Með: fremur þurrum kveðjum af Suðurlandi - hinum beztu aftur á móti, til Valdimars:: og annarra tortryggnra, við þessum gírugu áætlunum, vina þinna / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 26.9.2015 kl. 23:49

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Óskar Helgi; í stað þess að velta vöngum um störf mín ráðlegg ég þér fremur að þú:
- rökstyðjir það hvað þú álítur rangt við minn málflutning, og að þú 
- rökstyðjir af hverju sæstrengur myndi, að þínu mati, hækka raforkuverð til heimila og fyrirtækja hér um hundruð prósenta.

Einnig ráðlegg ég þér að íhuga af hverju t.d. Íslendingar flytja út fisk og Finnar flytja út timbur og Kanadamenn flytja út olíu og Norðmenn flytja út raforku og Hollendingar flytja út jarðgas.

Ketill Sigurjónsson, 27.9.2015 kl. 09:45

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Í landi þar sem ekki má virkja og ekki reisa flutningslínur og orkuskortur fyrirsjáanlegur, er varla mikið eftir til að selja útá kapal til Bretlands. 

Nema þá með því að byggja kjarnorkuver við ströndina þar sem kapallinn á að fara í sjóinn.  

Hrólfur Þ Hraundal, 27.9.2015 kl. 13:09

5 identicon

Komið þið sælir - á ný !

Ketill !

Ég þarf ekkert - að rökstyðja frekar: í hverju fyrirætlanir þínar / og annarra SKYNDI gróðadrengja felast.

Merkin sýna verkin - jafnt: hjá þér, sem öðrum lukkuriddurum, Ketill minn.

Margir ykkar: ef ekki flestir, sem stokkið hafa á blekkingavagn Harðar Arnarsonar Landsvirkjunar stjóra berið með ykkur, hvaða vegtyllur ykkur féllu í skaut, tækjust fyrirætlanir Harðar og nóta hans, á annað borð.

Undir fyrrihluta ályktunar - Hrólfs Vélfræðings, hér að ofan, má alveg taka undir, flími þínu og ákefð gróða brallsins, til aðvörunar, Ketill síðuhafi.

Minnir okkur jafnframnt óþyrmilega á: starfsemi Albaníu- Ásdísar (Höllu) Bragadóttur, og vinkvenna hennar, í aðför þeirra að Heilbrigðiskerfi landsmanna, undir leiðsögn Kristjáns Þórs Júlíussonar og félaga hans - þessa dagana.  

Með þeium sömu kveðjum - sem seinustu / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 27.9.2015 kl. 14:01

6 identicon

.... þeim: átti að standa þar. Afsakið - fljótfærni nokkra, á lyklaborði mínu.

ÓHH

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 27.9.2015 kl. 14:06

7 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Án þes að gera úttekt á mannorði manna hér fyrir ofan eða málefninu bið ég menn að velta fyrir sér:

NSN-Link milli Bretlands og Noregs er ráðgerður 1.400 MW hann er 730 km.

Ice-Link. yrði 1.000 km. Það er sami endabúnaður á báðum strengjum en 270 km. í viðbót. Það má segja að þetta séu mjög svipaðar fjárfestingar. 

Má ég bæta því við að bestu virkjunnarkostirnir fyrir strenginn er að loka Straumsvík og Norðuráli.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 27.9.2015 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband