Straumhvörfum spáð í raforkumálum heimsins

Nú i aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París er fróðlegt að skoða glænýja framtíðarsýn Alþjóða orkustofnunarinnar (IEA). Þar er höfuðáherslan á mikinn vöxt kolefnislausrar raforku. Spáð er mikilli aukningu í raforkunotkun heimsins næstu áratugina. Og að þar verði langmestur vöxtur í raforku sem unnin er með nýtingu endurnýjanlegra auðlinda.

IEA-WEO-2015-1Í hnotskurn þá spáir IEA því að raforkunotkun heimsins árið 2040 verði 70% meiri en er í dag. Stóru tíðindin í spánni eru þau að kolanotkun í Kína sé að nálgast hámark. Og að snemma á fjórða áratug aldarinnar (þ.e. upp úr 2030) verði endurnýjanleg orka orðin stærsti hlutinn að baki raforkunotkun heimsins (en í dag eru bæði kol og jarðgas langtum mikilvægari í raforkuframleiðslu en endurnýjanleg orka). Og að árið 2040 muni meira en helmingur nýrrar raforkuframleiðslu koma frá endurnýjanlegum auðlindum.

Til að þessi spá gangi eftir þarf gífurlegar fjarfestingar í endurnýjanlegri orku. Svo miklar að sumpart virðist spáin fremur byggja á óskhyggju en raunveruleika hagfræðinnar. Lykilatriðið verður hversu viljugar þjóðir heims eru til að minnka hlutfall jarðefnaeldsneytis í raforkuframleiðslu og styðja við aukna framleiðslu grænnar eða kolefnislausrar raforku.

IEA-WEO-2015-2Gangi spá IEA eftir mun kolefnislosun vaxa miklu hægar en sem nemur vextinum í raforkunotkun. Og að brátt muni kolefnislosun vegna raforkuframleiðslu í heiminum ná jafnvægi.

Hvort þessi spá gengur eftir er auðvitað ómögulegt að fullyrða nokkuð um. Hvort þetta telst raunhæft hjá IEA mun m.a. ráðast af þeim ákvörðunum sem teknar verða á Parísarráðstefnunni nú í byrjun desember. Verði niðurstaðan þar mjög í hag endurnýjanlegrar orku, mun það vafalítið verða til þess að auka ennþá meira eftirspurn eftir raforku frá endurnýjanlegum auðlindum, þ.á m. frá endurnýjanlegum auðlindum Íslands. Þetta eru því sannarlega spennandi tímar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband