23.12.2015 | 18:04
Jólaspaug Samtaka iðnaðarins?
Það var athyglisvert að sjá framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins (SI) skipa sér í flokk grínista nú í vikunni sem leið. Þegar hann spaugaði eitthvað á þá leið að Landsvirkjun bjóði ekki samkeppnishæft raforkuverð, miðað við það sem iðnfyrirtækjum bjóðist í Evrópu og víðar. Orðrétt hljóðaði jólaspaug SI þannig:
Við [Samtök iðnaðarins] höfum einmitt bent á að það verði að horfa til alþjóðlegra raforkumarkaða og samkeppnishæfni okkar í verðum út frá stöðunni í dag. Raforkuverð í Evrópu og víðast hvar í heiminum eru mjög lág um þessar mundir og fátt sem bendir til að þau hækki í bráð. Þau sjónarmið sem réðu ríkjum þegar verðstefna Landsvirkjunar var mótuð fyrir 3-4 árum virðast ekki eiga við núna.
Það sjónarmið framkvæmdastjóra SI, Almars Guðmundssonar, að raforkuverð LV sé ekki samkeppnishæft er augljóslega barrrasta eitthvert grín hjá framkvæmdastjóranum. Svona jólaspaug.
Í frétt á vef Viðskiptablaðsins segir reyndar að þarna hafi umræddur framkvæmdastjóri verið að senda Landsvirkjun tóninn. Sem hlýtur að vera einhver misskilningur hjá Viðskiptablaðinu. Því framkvæmdastjóri SI hlýtur að vita það fullvel að svo til hvergi nokkurs staðar í hinum vestræna heimi bjóðast iðnfyrirtækjum jafn geysilega hagkvæm kjör á raforku í langtímasamningum eins og hér á landi (þar á meðal hjá Landsvirkjun en líka hjá öðrum íslenskum orkufyrirtækjum).
Framkvæmdastjóri SI hlýtur að vita af þeim stóru raforkusölusamningum sem hér hafa verið undirritaðir allra síðustu ár og misseri. Þeir samningar sýna mjög sterka eftirspurn eftir íslenskri raforku. Og afleiðingin er sú að raforka á Íslandi er svo gott sem uppseld - og fyrirsjáanlegt að á næstu árum þurfi að virkja hér talsvert mikið afl til að fullnægja eftirspurninni. Til marks um það er bygging Þeistareykjavirkjunar og fyrirhuguð Hvammsvirkjun í Þjórsá.
Einn af þessum nýju raforkusölusamningum, sem er einmitt tilkominn vegna þess hagstæða raforkuverðs sem hér er í boði hjá Landsvirkjun og fleiri íslenskum orkufyrirtækjum, er samningur LV við Thorsil. Sem hyggst reisa hér kísilvinnslu. Mikilvægi hins hagkvæma raforkuverðs kemur einmitt skýrt fram á glærunni hér að ofan, sem er úr fjárfestakynningu Stefnis, vegna Thorsil, en hún er frá nóvember s.l. (2015). [Athugasemd: Glærur úr umræddri kynningu hafa nú verið fjarlægðar úr þessari grein að beiðni Stefnis. Það breytir engu um efni greinarinnar].
Það á eftir að koma í ljós hvort kísilverksmiðja Thorsil verði örugglega að veruleika. En ef það verður ekki, er engu að síður augljóst að Thorsil er álitið hafa náð hagstæðum raforkusamningum. Og til að geta útvegað Thorsil raforku þarf Landsvirkjun - orkufyrirtæki þjóðarinnar - að ráðast í verulegar virkjunarframkvæmdir. Því eins og áður sagði er raforkan uppseld frá núverandi aflstöðvum.
Vegna Thorsil er nú horft til Hvammsvirkjunar - sem er að mörgu leyti synd því svæðið þar við Þjórsá gegnt Heklu er geysilega fallegt. Og að mati Orkubloggarans er miður að því verði raskað með uppistöðulóni og öðrum virkjunarframkvæmdum. En það er önnur saga. Staðreynd málsins er sú að þarna stendur til að virkja vegna sterkrar eftirspurnar eftir raforku - á verði sem skv. upplýsingum kaupendanna sjálfra virðist þeim prýðilega hagstætt.
Önnur skýr vísbending um að umrædd ummæli framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, Almars Guðmundssonar, hafi verið meira í ætt við uppistand eða grín fremur en raunverulega gagnrýni á LV, er að þar blandaði framkvæmdastjórinn saman raforkuverði í langtímaorkusamningum annars vegar og skammtímasamningum hins vegar (gott ef hann var ekki meira að segja að vitna til orkuverðs á spot-markaði í Evrópu). Auðvitað veit framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins fullvel að slíkur samanburður er varasamur, því verðsveiflur á spot-markaði eru oft mjög miklar.
Vissulega getur langvarandi og einsleit verðþróun á spot-markaði verið nokkuð skýr vísbending um líklega verðþróun í nýjum langtímasamningum. En tengslin þarna á milli eru þó oft afar óviss. Þar að auki getur verið afar áhættusamt fyrir orkufrekan iðnað að eltast við skammtímasveiflurnar. Það vita iðnfjárfestar - og þess vegna eru hagstæðu íslensku langtímasamningarnir svo eftirsóttir sem raun ber vitni.
Það er reyndar fróðlegt að velta því fyrir sér hvað það myndi merkja EF Almar var ekki að grínast. Vill hann þá að Landsvirkjun taki t.d. að undirbjóða önnur raforkufyrirtæki í landinu? Í þessu sambandi skal minnt á að samkvæmt nýlegum samningi milli ON og Silicor Materials virðist hafa verið samið um orkuverð sem er nálægt því sem Landsvirkjun býður nýjum orkukaupendum.
Það væri athyglisvert og reyndar mjög sérkennilegt ef LV tæki skyndilega upp slíka verðstefnu, þ.e. að keyra niður raforkuverð sitt eingöngu til að það myndi lækka í takt við nýlegar lækkanir á spot-verði í t.d. Skandinavíu. Slík verðstefna myndi vafalítið á stuttum tíma valda öðrum íslenskum orkufyrirtækjum miklu tjóni - og eftir atvikum kalla á tilheyrandi viðbrögð af hálfu Samkeppnisyfirvalda. Varla er framkvæmdastjóri SA SI að tala fyrir slíkum vinnubrögðum hjá Landsvirkjun? Þar að auki myndi slík verðtenging við evrópskt spot-verð valda áður óþekktum sveiflum í raforkuverði hér - og það eitt og sér myndi sennilega fljótt fæla frá mörg þau iðnfyrirtæki sem væru að láta sér detta í hug staðsetningu stórra framleiðslueininga á Íslandi. Samanburður Almars er sem sagt bæði á skjön við samkeppnisjónarmið hér innanlands og úr takti við raunverulega eftirspurn eftir íslenskri raforku.
Í þessu ljósi er eiginlega útilokað annað en álykta sem svo að Almar hafi með umræddum yfirlýsingum sínum bara verið að spauga. Enda er jú staðreyndin sú að hér á Íslandi hefur hvert nýja iðnfyrirtækið af öðru verið að falast efir raforku - og náð samningum um orkukaup. Það er sem sagt enginn skortur á eftirspurn eftir íslenskri raforku - heldur þvert á móti mjög öflug eftirspurn.
Auk Thorsil og Silicor Materials má t.d. nefna verkefni PCC við Húsavík sem dæmi um nýlega orkusölusamninga. Fyrir þessi iðnfyrirtæki hlýtur það að vera svolítið undarleg upplifun ef framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins ætlar sér nú að gerast sérstakur talsmaður Century Aluminum og Elkem - í tilefni af því að samningar þeirra um raforkukaup vegna Norðuráls og Járnblendiverksmiðjunnar renna út 2019. En því miður er nokkuð augljóst að ef Almar var ekki að spauga, þá er hann þarna fyrst og fremst orðinn sérstakur talsmaður þessara tilteknu fyrirtækja. Með það að markmiði að reyna að tala raforkuverð niður í mögulegum nýjum orkusölusamningum þessara fyrirtækja við Landsvirkjun. Ef um er að ræða slíka tilraun hjá Almari þá er hún dæmd til að mistakast. Því engar raunverulegar röksemdir eru til annars en að raforkuverðið hækki mjög verulega frá því sem er skv. gömlu samningunum (sem voru gerðir við allt aðrar aðstæður fyrir nærri tveimur áratugum síðan).
Þegar allt kemur til alls er því miður sennilegt að Almar hafi þarna alls ekki verið að spauga. Heldur verið að koma fram sem sérstakur áróðursmeistari Norðuráls og Elkem. Sá áróður kann að þyngjast ennþá meira á komandi mánuðum. En það er nákvæmlega engin ástæða fyrir almenning að hlusta á slíka kveinstafi og ennþá síður að taka mark á því kveini. Fyrir íslenskan almenning er þvert á móti afar mikilvægt að nýting á náttúruauðlindum þjóðarinnar skili góðri arðsemi. Og að sanngjarn hluti þeirrar arðsemi renni til eiganda viðkomandi auðlinda - sem eru fyrst og fremst ríki og sveitarfélög og þar með almenningur. Rétt eins og það skiptir t.d. geysimiklu máli fyrir norskan almenning að nýting norsku olíu- og gaslindanna skili góðri arðsemi - í norska þjóðarbúið. Þetta er ekkert óskaplega flókið.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 5.1.2016 kl. 10:28 | Facebook
Athugasemdir
Er ekki bara verið að auglýsa hér sama verð yfir öll EES/ESB ríkin í orkunni?
Við vitum hvernig fiskifræðin hefur gert hagkvæmar veiðar og fiskinn óviðráðanlega rán-dýran fyrir Íslandsbúa. Það má nefnilega ekki mismuna á milli ólíkra og ósambærilegra ríkja innan EES/ESB!
Þessi fáránlegi Bretastrengsins söguskýring er eiginlega óverjandi afsökun, hjá fyrirtækjum sem eru búin að fara fram hjá öllu sem heitir upplýst og lýðræðisleg umræða!
Það gleymist of oft að verkafólk í heimsveldinu á rétt á mannsæmandi lífi í því ríki sem það starfar!
Þetta orkumál snýst um þrælavæðingu raforkurænandi heimsveldisins bankarænandi. En það má víst aldrei nefna réttindi verkafólks. Það má einungis verðmetna þrælahagnað heimsveldis-bankaræningjanna?
Ja hérna.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 23.12.2015 kl. 23:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.