28.1.2016 | 15:59
Raforkunet kynnt í Tromsö
Nú fyrr í vikunni sem er að líða bárust athyglisverð tíðindi norðan frá Tromsö í Noregi. Þangað var m.a. mættur íslenski atvinnuvega- og nýsköpunarráðherrann. Til þess m.a. að greina frá nýrri skýrslu um hagkvæmni þess að tengja raforkukerfi Grænlands, Íslands, Færeyja og Noregs með sæstrengjum.
Skv. frétt á vef Orkustofnunar er skýrslunni ætlað að marka fyrstu skrefin í átt að raforkuflutningskerfi í Norður-Atlantshafi. Gallinn er bara sá að þessi skýrsla er fremur vandræðaleg lesning. Og ástæðan er nokkuð augljós. Skýrsluhöfundar virðast bara alls ekki hafa lagt sig eftir því að kynna sér málið nægjanlega vel.
Þetta er t.a.m. ákaflega áberandi í umfjöllun skýrslunnar um tækni og kostnað við þá neðansjávarstrengi, sem eiga að byggja upp það sem í skýrslunni er kallað North Atlantic Energy Network. Þær heimildir sem byggt er á, eru fjarska fábrotnar og þess virðist lítt hafa verið gætt að kynna sér nýjustu upplýsingar sem um þessi mál fjalla.
Það sker líka í augu að sjá þarna tilvísanir í anda grunnskólaritgerða, þ.e. á almenn uppflettiorð á Wikipediu. Og skýrsluhöfundar virðast ekkert hafa kynnt sér nýlega og fróðlega sérfræðigrein um sæstrengi, sem unnin var á liðnu ári á vegum rannsóknaseturs Evrópusambandsins um orku og samgöngur (EU JRC-IET). Greinin sú ber titilinn HVDC Submarine Power Cables in the World. State-of-the-Art Knowledge og þar er að finna nýtt og greinagott yfirlit um þessa tækni. Ekki er í skýrslunni heldur að finna neina tilvísun í ítarlegasta og nýjasta ritið sem skrifað hefur veið um þessi mál, þ.e. raforkutengingar af þessu tagi, sem er tvímælalaust bókin Renewable Energy Integration - Practical Management of Variability, Uncertainty and Flexibility in Power Grids.
Þess í stað er í umfjöllun skýrslunnar um kostnað háspennustrengja af því tagi sem þetta raforkunet í N-Atlantshafi á að byggja á, einkum vitnað í blaðagreinar og ótilgrein munnleg ummæli á fundum. Þetta eru afskaplega óvísindaleg vinnubrögð - þegar hafðar eru í huga allar þær fjölbreyttu stofnanir sem að þessari vinnu stóðu (f.h. Íslands var það Orkustofnun).
Þá er sumt í íslenska hluta skýrslunnar ákaflega vandræðalegt. Þar segir t.a.m. að á Íslandi séu ekki til neinar opinberar upplýsingar um raforkuverð nema til heimila. Sem er alrangt. Allir sem þekkja til orkumála á Íslandi vita jú að hérlendis liggja fyrir prýðilegar upplýsingar um raforkuverð til annarra en bara heimila. Þannig hefur Landsvirkjun nú í nokkur ár birt í ársskýrslu sinni meðalverð raforku til iðnaðar. Og sá sem þetta skrifar hefur birt bæði meðalverð hér til álvera og raforkuverð til hvers álvers fyrir sig. En skýrsluhöfundar virðast ekkert af þessu vita - eða vilja ekki af því vita.
Ekki síður sérkennilegt er að lesa þann hluta skýrslunnar sem fjallar um samanburð á raforkuverði á Íslandi og í öðrum löndum Evrópu. Þar kemur fram að kapall milli Íslands og Evrópu kunni að vera áhugaverður því raforkuverð til heimila í Evrópu, þ.e. í Evrópusambandinu (ESB), sé um helmingi hærra en á Íslandi.
Í þessum samanburði er miðað við meðalverðið í ESB á fyrri hluta ársins 2012. Sem eru auðvitað afkáralega gamlar upplýsingar til að nota til samanburðar í skýrslu sem er að koma út núna í ársbyrjun 2016. Það sem er þó ennþá kyndugra er að þarna eru bornar saman tölur um raforkuverð til heimila með sköttum. En skattar á raforku eru afar mismunandi frá einu landi til annars (bæði vsk svo og umhverfisskattar sem sum lönd leggja á raforku). Þessi samanburður er sem sagt út í hött eða í besta falli mjög bjagaður og tilgangslaus. Þarna hefði miklu fremur átt að bera saman heildsöluverð á raforku. Og eftir atvikum hefði svo einnig mátt bera saman raforkuverð með flutningskostnaði og loks líka með sköttum ef menn hefðu viljað. En heildsöluverðið er þarna grundvallaratriðið þegar meta á mögulegan ábata Íslands af svona raforkutengingum.
Þá er líka afkáralegt að þarna skuli ekki hafa verið lögð áhersla á að gera samanburð á íslensku raforkuverði við raforkuverð í þeim löndum sem mögulegt væri að tengjast (þar er Bretland nærtækast). Þess í stað er í skýrslunni einungis tilgreint hversu mikill munur er á raforkuverði á Íslandi og meðalverði í ESB. Slíkur samanburður segir lítið sem ekki neitt um ábata Íslands af svona raforkutengingu - bæði vegna þess að þarna er um að ræða meðalverð með sköttum og vegna þess að meðalverð innan ESB segir nákvæmlega ekkert um það hvort það gæti borgað sig að tengjast t.d. Bretlandi eða Írlandi. Það sem þarna skiptir máli í svona samanburði er verðið á því raforkumarkaðssvæði sem kapallinn myndi tengjast við (hvort sem það er Bretland eða annað land) - og þá heildsöluverðið með flutningskostnaði um sæstrenginn en án skatta. Samanburðurinn sem settur er fram í skýrslunni er í reynd gagnslaus.
Að auki má nefna að ekki er einu orði minnst á það í skýrslunni að í sumum löndum Evrópu býðst sérstaklega hátt verð fyrir orku sem flokkast sem endurnýjanleg og/eða lítt kolefnislosandi. Þar er á ferð einhver allra mikilvægasti hvatinn fyrir land eins og Ísland að huga að möguleikanum á tengingu við Evrópu. Og þar er núverandi regluverk hagstæðast í Bretlandi.
Svo er eitthvað kjánalegt við það að skýrsluhöfundar skuli notast við kort sem gefur til kynna að útflutningsleið á íslenskri orku yrði beint yfir Mýrdalsjökul. En það er reyndar smáatriði, enda hljóta allir að vita að sú merking er marklaus. Eftirtektarverðara er að skýrsluhöfundar álíta að mögulega séu mikil tækifæri í að nýta sólarorku á Grænlandi til orkuframleiðslu. Það má svo sem vel vera að slíkt getir reynst hentugt í hinum afar dreifðu þorpum Grænlands - yfir sumartímann þegar sól er hæst á lofti. En ef að fólk vill í alvöru huga að möguleikum á orkuframleiðslu á Norðurslóðum, ætti svona samráðsvettvangur kostaður af opinberu fé kannski að sýna aðeins faglegri vinnubrögð.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.