Bresk kolaorkuver loka

Einn mikilvægasti þátturinn í orkustefnu breskra stjórnvalda er fyrirhuguð lokun allra stórra kolaorkuvera í landinu. Þessari stefnu lýsti orkumálaráðherra Breta, Amber Rudd, í nokkuð ítarlegu máli í nóvember sem leið. Sbr. umfjöllun á vef breska stjórnarráðsins.

UK-Coal_Rugeley-Power-Station-3Alls eru starfrækt um einn tugur stórra kolaorkuvera í Bretlandi. Samtals nota Bretar um 360-380 TWst af raforku á ári hverju, en notkunin sveiflast talsvert eftir veðurfari hverju sinni. Af heildarnotkuninni koma nú um 20 TWst árlega erlendis frá, þ.e. með sæstrengjum frá öðrum Evrópulöndum.

Af bresku innanlandsframleiðslunni kemur hvorki meira né minna en um þriðjungur raforkunnar frá kolaorkuverunum. Lokanir kolaorkuvera hafa því gríðarleg áhrif á breskan orkumarkað. Og kalla á geysilega fjárfestingu bæði í nýjum gasorkuverum, kjarnorkuverum og sæstrengjum sem flytja raforku. Auk meiri uppbyggingar vindorkuvera og annarrar framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Í grófum dráttum skiptist innanlandsframleiðsla Breta á raforku með eftirfarandi hætti:

  • Kolaorka um 30%.
  • Jarðgas um 30%.
  • Kjarnorka um 20%.
  • Endurnýjanleg orka um 20%.

UK-electricity-generationSamtals er uppsett afl bresku kolaorkuveranna um 20.000 MW eða rúmlega það. Algengt er að hvert kolaorkuver sé nálægt 2.000 MW. Bara á næstu tveimur árum stendur til að loka kolorkuverum sem samtals eru með uppsett afl upp á mörg þúsund MW og framleiða hátt í 10% af allri raforku í Bretlandi. Og árið 2025 á að vera búið að loka öllum stóru kolaorkuverunum - sem nú framleiða um 30% allrar raforku í Bretlandi!

Strax í apríl n.k. (2016) er ráðgert að loka 2.000 MW kolaorkuverinu kennt við Fiddlers Ferry í norðvestanverður Englandi. Og á komandi sumri verður raforkuframleiðslu hætt í 1.000 MW Rugeley-kolaorkuverinu í Staffordskíri skammt austur af Wales. Um sama leyti stendur til að loka 2.000 MW Ferrybridge-kolaorkuverinu í Mið-Englandi. Og lítið eitt norðar í Englandi á að loka 2.000 MW Eggborough-kolaorkuverinu í mars 2017. Og svo framvegis.

UK-Coal_Eggborough-Power-StationRaforkan sme nú er framleidd í þessum stóru kolaorkuverum mun því senn þurfa að koma annars staðar frá. Mjög hægt gengur að reisa ný kjarnorkuver og þess vegna horfa menn einkum til þess að byggja ný gasorkuver. Og um leið fjárfesta ennþá meira í vindorku og auka raforkutengingar við nágrannalöndin.

Það ætti því engum að koma á óvart að bresk stjórnvöld horfi m.a. til þess að sæstrengur verði lagður milli Bretlands og Íslands. Sem að sjálfsögðu er bara eitt af fjölmörgum orkuverkefna sem Bretar eru að skipuleggja. Þar á meðal er sæstrengur til Noregs, sæstrengur til Danmerkur, ný kjarnorkuver og ný gasorkuver.

Þarna má tala um sannkölluð vatnaskil í breskum raforkumálum. Þessi þróun býður upp á margvísleg tækifæri fyrir þá sem geta boðið fram áhugaverð orkuverkefni. Sérstaklega ef þau valda lítilli kolefnislosun, bjóða stöðuga raforkuframleiðslu og samkeppnishæft verð. Þarna er vatnsaflið í algeru lykilhlutverki. Og þegar litið er til orku af þessu tagi er Ísland augljós kostur.

Iceland-UK-bicc-meeting-nov-2013Við vitum ekki ennþá hvort Ísland mun nýta sér þau tækifæri sem orkustefna Bretlands felur í sér. Niðurstaðan þar um mun væntanlega ráðast af tveimur meginatriðum. Í fyrsta lagi því hvort bresk stjórnvöld munu í reynd verða tilbúin að tryggja íslenskri raforku svo hátt verð að verkefnið verði fjárhagslega mjög áhugavert fyrir Íslendinga. Og í öðru lagi mun þetta ráðast af því hvort íslensk stjórnvöld munu grípa slíkt tækifæri - eða láta úrtöluraddir á vegum útlendu stóriðjunnar hér kæfa tækifærið. Loks verður svo einhver að sjálfsögðu að hafa áhuga á að eiga og reka sæstrenginn og fjármagna hann. Þarna eru því ýmsir lausir endar - ennþá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband