Rafbílavæðing framundan?

Er rafbíllinn loks að verða mikilvægur valkostur bílaeigenda?

BNEF-Car-electric-forecast_2016-2040Bloomberg New Energy Finance (BNEF) virðist álíta að svo sé. Skv. nýrri úttekt BNEF mun sala á rafbílum aukast gríðarlega á komandi árum og áratugum - eða hátt í hundraðfaldast fram til 2040. Og að þá verði árleg sala á nýjum rafbílum um 41 milljónir bíla. Til samanburðar seldust um 460 þúsund svona bílar árið 2015.

Með rafbílum er hér annars vegar átt við hinn raunverulega hreina rafbíl; bíl sem gengur á raforkunni einni saman (Battery Electric Vehicle eða BEV). Og sú raforka kemur að sjálfsögðu frá rafgeymi bílsins; sérhönnuðum rafgeymi sem inniheldur næga orku til að koma bílnum jafnvel hundruð km á einni og sömu hleðslunni. Rafbílum tilheyrir svo einnig annar flokkur, sem er tvinnbíllinn (Plug-In Hybryd Electric Vehicle eða PHEV). Hann er með hlaðanlegan rafgeymi, sem knúið getur bílinn, en bíllinn er einnig með hefðbundna bílvél sem kemur til skjalanna þegar rafhleðslan er uppurin. 

Það sem er sérlega athyglisvert við þessa nýju spá BNEF er hreint ótrúleg fjölgun sem spáð er í nýjum rafbílum án hefðbundinnar vélar (þ.e. BEV). Í dag þekkjum við ýmsa slíka bíla, t.d. Nissan Leaf og Tesla (þar hefur S-týpan verið vinsælust). Söluhæsti bíllinn sem flokkast sem PHEV er aftur á móti Chevrolet Volt.

BNEF-Car-electric-forecast_2016-2040_3Í framhaldi af þessari spá BNEF um ævintýralegan vöxt rafbíla, hefur Bloomberg hreinlega dælt út fréttum um það hvernig rafbíllinn muni senn höggva í eftirspurn eftir olíu. Þar má nefna fyrirsagnir eins og Here’s How Electric Cars Will Cause the Next Oil Crisis, The Peak Oil Myth and the Rise of the Electric Car, Superior Electric Cars are on Their Way, and They Could Begin to Wreck Oil Markets Within a Decade.

Umrædd spá BNEF er mjög á skjön við spár helstu olíuframleiðendanna, hvort sem er t.d. spá OPEC eða spá Exxon MObil. En ef BNEF hefur rétt fyrir sér mun fjölgun rafbíla innan tíu ára létta á eftirspurnina eftir olíu sem nemur um 2 milljónum tunna/dag. Það vill svo til að það magn eitt og sér getur haft gífurleg áhrif á það hvernig olíuverð þróast. Og BNEF álítur að árið 2040 verði fjölgun rafbíla orðin svo mikil að það létti á olíueftirspurn sem nemur um 13 milljónum tunna/dag!

Allir þessi rafbílar munu þurfa aðgang að geysilegu magni af raforku. BNEF álítur að árleg raforkunotkun rafbílaflotans árið 2040 muni nema hvorki meira né minna en 1.900 TWst. Sem er svakalegt magn eða um 10% af allri þeirri raforku sem heimurinn er að nota árlega nú um stundir (nú notar heimurinn um 20.000 TWst árlega).

Tesla-Model-S-P85D-PicturesÞessi þróun yrði lítið vandamál fyrir land eins og Ísland. Því á Íslandi er framleidd langmest raforka sem nokkur þjóð veraldarannar framleiðir (miðað við höfðatölu). Við munum því fara létt með að skaffa orku vegna rafbílaflotans.

Í mörgum örðum löndum mun þróun af þessu tagi aftur á móti geta skapað vandamál. Því erfitt kann að verða að uppfylla hratt vaxandi eftirspurn eftir raforku. Sem um leið kann að skapa Íslandi áhugaverð tækifæri til útflutnings á raforku. Það er því nokkuð augljóst að EF spá BNEF um þróun rafbílanotkunar gengur eftir, er bjart framundan í íslenskum raforkuiðnaði. Og haldiði það verði ljúft að líða hljóðlaust um Svínahraunið!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Bilarnir yrðu væntanlega alltaf hlaðnir á nóttunni á sama tíma og öll önnur rafmagnsnotkun er í lægð.

=Að það ætti að vera til nægt rafmagn.

Jón Þórhallsson, 29.2.2016 kl. 22:27

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Sammála. Hleðslan ætti sér fyrst og fremst stað að næturlagi.

En umfangsmikil rafbílavæðing gæti engu að síður leitt til hærra raforkuverðs (aukin eftirspurn yfir nóttina myndi hækka næturverðið). Og þannig gert útflutning á raforku ennþá áhugaverðari en ella.

Fyrir Ísland er þó stærsti kosturinn við rafbílinn sá að geta með þessu notað innlenda orku til að knýja bílinn í stað innfluttrar. Rafbíllinn verður fyrst og fremst fólksbíll. Vegna þyngdar munu stórir jeppar og ennþá stærri bílar áfram keyra á heðbundnu eldsneyti.

Ketill Sigurjónsson, 29.2.2016 kl. 22:49

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í Noregi var fyrirfram búist við að rafbíllinn yrði bíll númer 2 á heimilinu.

Það fór á annan veg, rafbíllinn varð í langflestum tilfellum bíll númer 1.

Ástæðan er sú að um 90% af notkun bíla felst í því að einn maður er á ferð í borgarumferð, sem er að meðaltali 55 km á dag, sem er langt innan við það sem svona bíll kemst á einni hleðslu, jafnvel í kulda og snatti.

Ómar Ragnarsson, 1.3.2016 kl. 02:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband