Staða Havyard versnar

Það er vont og það versnar.

Enn syrtir í álinn hjá Havyard. Þessi áður öfluga norska skipasmíðastöð rær nú lífróður við að innheimta útistandandi skuldir og tekjufæra allt sem mögulegt er. Til að reyna að hífa hlutabréfaverðið upp. Sem er þungur róður, því bæði er verkefnastaða félagsins afburðaslök um þessar mundir og sömuleiðis lausafjárstaðan.

Blóðrautt uppgjör Havyard

Í lok febrúar s.l. (2016) birti Havyard uppgjör sitt vegna fjórða ársfjórðungs 2015. Niðurstaðan var vægast sagt döpur. Tekjurnar hrundu á þessum síðasta ársfjórðungi og rekstrarniðurstaðan (EBITDA) eftir árið nam tapi upp á um NOK 35 milljónir.

Havyard_Share-rice_2014-2016Samtals bókfært tap Havyard vegna ársins 2015 nam NOK 79 milljónum. Og áhugavert að hafa í huga að heildarverðmæti fyrirtækisins í kauphöllinni í Osló er núna nánast þessi sama upphæð eða u.þ.b. NOK 80 milljónir. Sem er innan við 1/4 af verðmæti fyrirtækisins í kauphöllinni fyrir sléttu ári. Og einungis um 1/10 af verðmæti fyrirtækisins þegar það var skráð þar á markað fyrir um tveimur árum!

Vandamál Havyard er að fyrirtækið er að missa smíðaverkefni sín eitt af öðru. Og ekki að fá ný verkefni í staðinn. Þetta merkir hrun í tekjum. Það var því bersýnilega nánast happdrættisvinningur fyrir Havyard þegar viðskiptavinur fyrirtækisins, íslenska Fáfnir Offshore, greiddi nú fyrr í mánuðinum tæpar NOK 13 milljónir til Havyard. 

Verkefnastaðan hrynur

Það er athyglisvert að jafnskjótt og þessi greiðsla var innt af hendi af hálfu Fáfnis Offshore til Havyard, tilkynnti Havyard að ekki verður lokið við smíði þjónustuskips fyrir nígerískan kaupanda. Einungis eru um fjórir mánuðir síðan tilkynnt var að smíði þess skips yrði frestað og það afhent 2018 í stað 2017.

Havyard_-vessel-cancelledÞó svo í hinni opinberu tilkynningu sé ekki tiltekið hver sé þarna viðskiptavinurinn, vita allir í bransanum að það er nígeríska fyrirtækið Marine Platforms. Og nú er sem sagt orðið ljóst að ekkert verður af því að Havyard ljúki við þetta skip.

Það vill svo til að sú niðurstaða lá mögulega fyrir strax í október sem leið. Möguleikinn er sem sagt sá að Havyard hafi þá þegar samið við kaupanda skipsins um að fresta tilkynningu um að ekkert verði af smíðinni - fram á næsta ársfjórðung. Enda ekki gott fyrir ársuppgjörið ef slæmar fréttir um þann NOK 700 milljóna díl hefðu komið strax þarna á fjórða ársfjórðungi 2016.

Um þetta skal að vísu ekkert fullyrt. En ég get upplýst lesendur um að það var búið að fullyrða við mig fyrir all löngu síðan, að ekkert yrði af smíðinni fyrir Marine Platforms. Og að nákvæmlega þetta myndi gerast. Það virðist því sem sumir hafi góða innsýn í það hvernig þessi bransi virkar.

Fáfnir Viking færður í sérstakt dótturfélag

Það sem er áhugavert fyrir okkur Íslendinga, er að þarna er um að ræða skipasmíðastöðina sem smíðaði dýrasta skip Íslandssögunnar; Polarsyssel. Og er nú með skrokkinn af Fáfni Viking, sem skv. samningum á að ljúka við og afhenda Fáfni Offshore á næsta ári (2017).

Havyard-Fafnir-Viking-OrderÞað blasir þó við, að afar ólíklegt er að nokkru sinni verði lokið við Fáfni Viking. Á liðnu ári sömdu Fáfnir Offshore og Havyard um að fresta afhendingu skipsins. Og nú hafa birst fréttir um að fyrirtækin séu búin að semja um að Fáfnir Viking verði færður yfir í annað félag (sem sagt úr Fáfni Offshore og í dótturfélag þess).

Þar er hugsunin bersýnilega sú að takmarka áhættu Fáfnis Offshore af útgjöldum vegna Fáfnis Viking. Kannski væri nær að segja að með þessu sé verið að koma skrokknum á Fáfni Viking snyrtilega fyrir í ógjaldfæru félagi. Eftir stendur spurningin hvernig fer um kostnað sem Havyard hefur nú þegar orðið fyrir vegna undirbúnings á smíðinni og ennþá er ógreiddur? Því varla hefur Havyard áhuga á að bera þann kostnað.

Tekur Havyard snúning á Fáfni Offshore?

Að teknu tilliti til erfiðrar stöðu Havyard, er líklegt að fyrirtækið muni þarna nýta alla möguleika til að ná meiri fjármunum af Fáfni Offshore vegna viðskipta fyrirtækjanna. Tíminn mun leiða í ljós hvort Fáfnir Offshore hefur með þessum samningum við Havyard náð að takmarka áhættu sína með þeim hætti sem stjórn félagsins virðist álíta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband