Bandarísk vindorka í uppsveiflu

Lesendum Orkubloggsins er vafalítið flestum kunnugt um mikla erfiðleika sem nú herja á hina hefðbundnu orkugjafa. Bæði verð á hráolíu og jarðgasi er með lægsta móti. Og hér á Vesturlöndum er verið að loka hverju kolaorkuverinu af öðru. Aftur á móti er góður gangur víða í virkjun endurnýjanlegrar orku. Og áhugavert að nú eru Bandaríkjamenn loksins að byrja að reisa vindorkuver utan við ströndina; úti í sjó.

USA-Wind-map-offshoreSú fæðing hefur verið löng og erfið. Frægt varð þegar bandarískir „betri borgarar“ börðust gegn því að vindorkuver rísi utan við strönd Cape Cod. Og tókst að tefja það risastóra verkefni í mörg ár (Cape Wind á að verða um 450-470 MW). Það gerir líka svona verkefnum vestra mjög erfitt fyrir að leyfiskerfið er afar flókið og þar reynir bæði á leyfi frá bæjarfélögum, fylkisstjórninni og alríkisstjórninni.

Evrópa er óralangt á undan Bandaríkjunum í uppbyggingu vindorkuvera af þessu tagi. Þar hafa Danir og Þjóðverjar mestu reynsluna, en í dag er uppbygging vindorku utan við ströndina þó hröðust við strendur Bretlands. Og á undanförnum árum hafa m.a. risið þrír stærstu vindorkuklasar heims af þessu tagi, þ.e. í sjó (offshore wind). Sem hver um sig er yfir 500 MW! Og það breska vindorkuævintýri er bara rétt að byrja - með aðkomu danskra og norskra fyrirtækja.

US-Wind-Offshore-BlockÞað er engu að síður mjög góður gangur í vindorkunni vestra. Á liðnu ári (2015) framleiddi ekkert land jafn mikið rafmagn með vindrafstöðvum eins og Bandaríkin. Enda eru norsk fyrirtæki nú farin að horfa til fjárfestingar í slíkri starfsemi þarna vestra. Og nú virðist loksins komið að því að fyrsta vindorkuverkefnið í sjó við strendur Bandaríkjanna nái að verða að veruleika.

GE-Alstom-Wind-Offshore-6MWÞar er um að ræða nettan 30 MW vindorkuklasa, sem nefnist Block Island Wind Farm. Samkvæmt tilkynningu á vefsvæði fyrirtækisins, Deepwater Wind, verður nú fyrir mitt þetta ár búið að reisa þarna fimm turna; hver þeirra með hvorki meira né minna en 6 MW hverfli. Tæknin kemur frá sjálfum Thomas Edison, þ.e. frá General Electric eða öllu heldur frá vindorkufyrirtækinu Alstom Wind (sem GE eignaðist á liðnu ári, 2015, og nefnist núna GE Wind).

Hér í lokin má svo minna á að nú í vikunni sammæltust þeir ljúflingarnir Obama og Justin Trudeau um stóraukið orkusamstarf Bandaríkjanna og Kanada. Með hinni nýju ríkisstjórn Trudeau gætu tækifærin í endurnýjanlegri orku á næstu árum orðið hvað mest spennandi í Kanada. En það er önnur saga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband