Mjög langsótt tenging...

NEI! Það er auðvitað alls ekki langsótt að tengja jarðskjálftana við breytingar á hegðun borhola á Hengilssvæðinu. Og sannarlega gott ef aflið hefur aukist - í stað þess að minnka eins og hugsanlega hefði getað gerst.

Ég er reyndar einn af þeim sem finnst fátt fallegra en að sjá gufustrókana rísa upp af Hellisheiði í góðviðri. Og koma út á björtum, stilltum morgni og anda djúpt að mér brennisteinsilminum sem stundum berst þaðan. Já - mér finnst sú lykt í alvöru góð. Hef ekki hugmynd um hvort þetta er "einstakur hæfileiki" eða hvort fleira fólk hefur þennan smekk á lykt.

Mér finnst reyndar fjósalykt líka góð. Líklega þó mest vegna samhengisins. Það var svo gaman að leika sér með Nirði í fjósinu hjá pabba hans, austur á Klaustri. Fíflast í heyinu (þegar Lárus, pabbi hans Njarðar, sá ekki til). Og stundum stríða kúnum aðeins. Og þó meira bolanum, sem alltaf var bundinn við básinn. Og sérstaklega minnist ég Víga; hundsins sem svo lengi var þar á bænum og óx upp með okkur krökkunum. Hann var sannur prýðis sveitahundur. Með gott skap, ekki alltof mannblendinn og sætti sig við það hlutskipti að sofa i þvottahúsinu og fá ekki að koma inn. Þó man ég að í eitt eða tvö skipti, þegar við strákarnir vorum aðeins farnir að stækka, leyfði Njörður Víga að koma inn i eldhús. En þá var mamma hans, hún Ólöf, heldur ekki heima! Já, þetta voru sannarlega skemmtilegir dagar.

Shaybah_sands

Langsótta tengingin hér er mín eigin. Þessi frétt þar sem forstjóri Orkuveitunnar veitir okkur glænýjar upplýsingar um borholurnar í Henglinum, leiddi huga minn nefnilega að Arabíu. Langsótt en satt.

Ég fór nefnilega af einhverjum ástæðum strax að hugsa um olíulindirnar í Arabíu og hvernig staðið er að upplýsingaöflun þar. Sem í raun er engin. Fyrir vikið reyna menn, með aðstoð gervitungla, að fylgjast með mannaferðum í eyðimörkinni. Til að geta gert sér grein fyrir hvort hegðunin bendi til þess að framleiðsla tiltekinna olíulinda sé að aukast eða minnka. Þetta er nefnilega eitthvert mesta hagsmunamál heimsins alls. Og Saudarnir passa svo sannarlega upp á að engar upplýsingar leki út. Jafnvel saklausar ljósmyndir, eins og þessi hér að ofan frá Shaybah svæðinu, eru fremur fátíðar.

saudi-arabia-ghawar-oil-fields-2007-s

Og jafnvel enn betur varðveitt leyndarmál er þróunin á Ghawar svæðinu. Þaðan, djúpt inní sandeyðimörkinni, kemur u.þ.b. helmingurinn af allri olíu Saudanna. Þegar Hubbert-peak verður náð í Ghawar er hætt við að olíuverðhækkanirnar síðustu mánuðina verði hreint grín, miðað við hvað gerist þá. Framleiðslan þarna er nú um 5 milljón tunnur á dag. M.ö.o. skilar þetta eina svæði um 6% af allri olíuframleiðslu heims.

Já - við erum í reynd öll að þræla daglangt vegna svarta gullsins sem kemur þarna upp úr gulum sandinum. Þetta er reyndar örlítið stærra svæði en Laugardagsvöllurinn. Alls um 8.500 ferkílómetrar (mest á lengdina, eins og sjá má myndinni). Það er óneitanlega heillandi að frá þessum eina sandhól, ef svo má segja, skuli meira en 1/20 af allri olíuframleiðslu heimsins koma.

Saudi_Arabia_Haradh-III_satellite_top

Eftir að Saudarnir endanlega yfirtóku olíuiðnaðinn í landinu, árið 1980, hefur ríkisolíufélagið Saudi Aramco setið eitt að svæðinu. Það eina sem við hin fáum að vita, er fengið með nettu iðnaðarnjósnunum okkar. Og reyna að draga ályktanir af myndum eins og hér til hliðar (sem er frá enn öðru olíusvæði Saudanna; Haradh kallast það). "Put or call"?


mbl.is Vísbendingar um að afl borhola á Hengilssvæðinu hafi aukist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir skemmtilegan fróðleiksmola :)

Einir Einisson (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 22:17

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir fróðlegan og skemmtilegan pistil

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.5.2008 kl. 22:47

3 Smámynd: Sigurjón

Jamm, hafðu þökk fyrir þetta.

Sigurjón, 31.5.2008 kl. 00:28

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já, takk líka fyrir fróðlegan og áhugvaerðan pistil

Það er óneitanlega heillandi að frá þessum eina sandhól, ef svo má segja, skuli meira en 1/20 af allri olíuframleiðslu heimsins koma.

Rétt er það, ennig finnst mér heillandi (ef svo má segja...) að hugsa til þess að undir norðurströnd Alaska er líklega að finna meiri vinnanlega olíu og jarðgas en undir allri Saudi-Arabíu! Og það sem meira er, vinnslan þar er með því hagkvæmasta sem gerist, þar þarf hvorki að bora djúpt eða á ská og ekki þarf miklar dælur því olían liggur grunnt, undir þrýstingi og er því jafnvel sjálfrennandi upp úr brunnunum. Eina vandamálið er að flytja olíuna og gasið til hinna 48 ríkjanna, en allt frá því áður en fyrstu sk. "olíukreppunni" var hrundið af stað vestanhafs á áttunda áratugnum, var í undirbúningi að byggja miklar leiðslur í þeim tilgangi. Leiðslur sem enn þann dag í dag myndu geta séð þeim fyrir nægri orku á viðráðanlegu verði og sem innlend framleiðsla myndi ekki skapa þeim neinn vöruskiptahalla. Sú framkvæmd hefur hinsvegar orðið fyrir sífelldum töfum, fyrst vegna umhverfissjónarmiða en líka vegna efnahagslegra sjónarmiða, og ekki síður vegna íþyngjandi lagasetninga. Slagurinn hefur staðið um hver eigi að fá að hagnast á flutningi og sölu eldsneytisins til neytenda, og svo spila sjálfsagt líka inn í það ýmis öfl sem eru ekkert sérstaklega hliðholl efnahagslegu sjálfstæði og styrk Bandaríkjanna! Leiðslan myndi liggja að miklum hluta um Kanada, og þó svo að hugmyndin sé upphaflega þaðan komin var það umhverfismat á frumbyggjasvæðum þeirra sem leiddi til a.m.k. 10 ára seinkunar á undirbúningi verksins. Svo er stofnkostnaðurinn við framkvæmdina gríðarlegur og hefst líklega ekki nema með opinberum stuðningi að einhverju leyti, en slíkt fer illa fyrir brjóstið á þeim sem vilja láta markaðsöflin ráða för. Sérstaklega olíuframleiðendum annars staðar sem eru í samkeppni við þá sem myndu græða á leiðslunni. Mörg þessara félaga eru afar fjársterk og hafa talsverð áhrif í Washington gegnum þrýstihópa sína og beinar mútur jafnvel. Á meðan rifist er um þetta hafa hin olíuháðu Bandaríki N-Ameríku "neyðst" til að selja Saudi-Aröbum heilu fjöllin af stríðstækjum í skiptum fyrir olíu, fjármagna endurreisn Sovétríkjanna í lítt breyttri mynd með hjálp Pútíns og félaga úr Gazprom/KGB (líka í skiptum fyrir olíu), ráðast inn í Írak til að ná þar í olíu og svo mætti lengi telja. Einu "gereyðingarvopn" Saddams voru t.d. þau að hann vildi skipta olíuútflutningi sínum í Evrur í stað dollara, sem hefði haft í för með sér skert aðgengi Bandaríkjanna auk gengisfalls á dollurum og tilheyrandi keðjuverkun sem hefði getað keyrt Bandaríkin í gjaldþrot. Og inn í þetta spila sérstaklega hagsmunir vopnaframleiðenda sem hagnast ekki bara á stríðsbrölti Rumsfelds og félaga, heldur líka á vopnasölu til arabanna. Einnig hagnast þeir á olíuviðskiptasamningum Bush og Pútins sem m.a. gerðu skjóta endurreisn Rússlands sem hernaðarstórveldis mögulega, og viðhalda þannig kröfum um vígbúnað heimafyrir og í Evrópu rétt eins og kalda stríðinu hefði í raun aldrei lokið. Afleiðingin af þessu eru ótalin mannslíf í ólöglegum innrásarstríðum, peningar sem betur hefði verið varið í mannúðlegt uppbyggingarstarf, uppsafnaður vipskiptahalli sem er að keyra allt í gjaldþrot, og ekki síst að sífellt er gengið nær mannréttindum fólks á gjörvöllum vesturlöndum af "öryggisástæðum". Eins og í flestu þarna vestanhafs er það eiginhagsmunasemi, stórfyrirtækjapólitík, og beinlínis fasismi sem standa þjóðinni fyrir þrifum, og reyndar ná áhrifin langt út fyrir landamæri þeirra. Og þeir sem verst verða úti: almenningur að sjálfsögðu.

Guðmundur Ásgeirsson, 31.5.2008 kl. 19:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband