Gasæði í Póllandi

Það eru athyglisverðir hlutir að gerast austur í Póllandi þessa dagana.

Í því mikla kolalandi virðist nú í uppsiglingu nýtt og stórbrotið orkuævintýri. Það eru nefnilega vísbendingar um að gríðarlegar gaslindir sé að finna í pólskri jörðu. Og að í framtíðinni verði Pólland einhver stærsti gasframleiðandi Evrópu!

Poland-Gas-shale-basins

Allt snýst þetta um nýju gasvinnslutæknina ("fracking") sem hefur verið að breiðast út vestur í Bandaríkjunum. Fram til þessa hefur Pólland alls ekki verið þekkt fyrir að luma á miklu af gasi. En vegna nýju vinnslutækninnar er nú allt í einu orðið unnt að nálgast þunn gaslög innikróuð í grjóthörðum jarðlögum, sem áður var alltof dýrt að ætla að vinna (s.k. shale gas).

Fyrir vikið hefur upplýsingaskrifstofa banadaríska orkumálaráðuneytisins (EIA) verið að endurmeta mat sitt á vinnanlegum gasbirgðum í jörðu um alla Evrópu. Og viti menn; það er mat EIA að innan Evrópu sé langmesta gasið af þessu tagi að finna í Póllandi.

Þetta nýuppfærða mat frá EIA um pólskt gas hljóðar upp á langtum meira gas en nokkurn óraði fyrir. EIA álítur nefnilega að í Póllandi megi vinna 5.300 milljarða rúmmetra af gasi. Þar með væri Pólland í einu vetfangi með áttundu mestu gasbirgðir veraldar (til samanburðar má t.d. nefna að sannreyndar gasbirgðir í lögsögu Noregs eru áætlaðar rúmir 2.300 milljarðar rúmmetra). Enda eru menn nú farnir að tala um að í framtíðinni muni Pólland verða kallað Katar norðursins.

europe-gas-2007

Þetta eru talsverðar fréttir. Ekki síst sökum þess að gasvinnsla í Póllandi hefur fram til þessa verið sáralítil. Í orkugeiranum hefur Pólland fyrst og fremst verið þekkt sem kolaland og kol knýja nú um 95% af rafmagnsframleiðslu Pólverja. Það er til marks um umfang pólsku kolasvæðanna, að Pólland er níundi mesti kolaframleiðandi heims og ellefti stærsti kolaútflytjandinn. En nú eru sem sagt horfur á að Pólland geti brátt líka byrjað að nýta gas í stórum stíl.

Þarna ekki bara á ferðinni mikil hagsmunir fyrir Pólverja sjálfa - heldur líka alla nágranna þeirra. Pólskt gas gæti orðið hvalreki fyrir Evrópusambandið, sem hefur þurft að horfa upp á að verða sífellt háðara rússnesku gasi. Í því sambandi horfa menn til þess að Pólverjar muni selja stóran hluta gassins til þýskra orkufyrirtækja - sem á næstu árum þurfa að loka öllum kjarnorkuverum í Þýskalandi að skipan þýskra stjórnvalda.

Gazprom-CEO-Aleksei-Miller-and-Putin

En það er er samt alls ekki víst að pólska gasið fari til Þýskalands eða annarra landa innan ESB. Pólska gasið gæti allt eins farið austur á bóginn; til rússneska gasrisans Gazprom!  Gazprom vill tryggja markaðsyfirráð sín með því að kaupa pólska gasið og endurselja það til Evrópu. Í huga Gazprom er aðalatriðið að ekkert ógni gasbissness-módelinu sem fyrirtækið er búið að koma sér upp gagnvart Evrópu. Og að eftirspurnin eftir gasi um Nord Stream og aðrar gasleiðslur þeirra haldist í hámarki.

Það eru spekúleringar af þessi tagi sem sennilega eru einn helsti hvatinn að því að innan stofnana ESB er nú talað um að aðildarríkin þurfi sem allra fyrst að taka upp eina sameiginlega og víðtæka orkustefnu. Ennþá er óljóst hvað í slíkri orkustefnu á að felast. En sennilega eru menn einmitt að líta til þess að tryggja sem bestan aðgang ESB ríkjanna að orkulindum innan sambandsins og sporna gegn því að utanaðkomandi nái tangarhaldi á þeim. Eins og t.d. Rússar.

Putin-Medvedev-posters

Strategískt séð væri slík sameiginleg orkustefna sennilega skynsamlegur kostur fyrir ESB. En það er langt í frá að búið sé að tryggja að pólska gasið verði nýtt innan ESB. Það er nefnilega svo að bandarísk olíu- og orkufyrirtæki hafa náð til sín vinnslurétti á stórum svæðum í Póllandi. Og þau fyrirtæki eru ekki rekin á grundvelli pólítískrar stefnu sem ákveðin er í Brussel, heldur munu þau fyrst og fremst horfa til viðskiptahagsmuna - þegar kemur að því að selja gasið. Og þá má vel vera að rússneska Gazprom muni bjóða best.

Þetta er eiginlega grátlegt fyrir ESB. Gaslindir Póllands hefðu getað verið mikilvægur hlekkur í því að losa um gashramm Rússa. En það er kannski ekki við því að búast að ESB nái þar miklum árangri þegar stjórnarformaður eins mikilvægasta gasflutningafyrirtækis Rússa (Nord Stream), sem að stærstu leyti er í eigu rússneska ríkisins, er fyrrum kanslari Þýskalands!

Poland_UK-company-finds-shale-gaa_Leblen

Enn sem komið er er pólska gasið reyndar bara fræðilegur möguleiki. Niðurstaða þeirra hjá EIA er vissulega byggð á ýmsum góðum gögnum, en eftir er að sannreyna að gasið sé þarna í raun og veru. Það var fyrst nú í sumar sem leið (2011) að menn voru mættir með örfáa bora á pólska grundu. Og pjakkið þá skilaði satt að segja litlum árangri.

Fram til þessa hefur pólska gasæðið aðallega falist í því að vegna peningalyktarinnar streyma landspekúlantar til Póllands og fara þar sem eldur í sinu um pólskar sveitir. Í því skyni að kaupa upp gasvinnslurétt á landi. Sem fyrr segir hafa útsendarar bandarískra orkufyrirtækja verið þar í fararbroddi. Þar má t.d. nefna Chevron, ConocoPhillips, ExxonMobil og Marathon Oil, en einnig ýmsa minni spámenn.

Það fer reyndar hver að verða síðastur að tryggja sér vinnslusvæði í Póllandi. Gasæðið þarna hefur verið þvílíkt  síðustu misserin að búið er að kaupa upp leitarleyfi á svæðum sem nema um þriðjungi af flatarmáli Póllands eða jafnvel rúmmlega það! Og það þó svo enn sé allsendis óvíst hversu auðvelt verði að nálgast þetta gas, sem EIA álítur vera til staðar.

Poland_first shale-gas-well_Lebien

Það verður í fyrsta lagi sumarið 2012 eða jafnvel ekki fyrr en 2013 að eitthvað fer að gerast fyrir alvöru á ökrum Póllands. Gríðarlegar fjárfestingar og framkvæmdir þarf til að vinnslan verði umtalsverð. Til að ná upp sæmilegri vinnslu á hverju leitarsvæði fyrir sig þarf kannski um fimmtíu brunna og hver þeirra kostar líklega rúmar 10 milljónir USD um þessar mundir.

Og jafnvel þó svo árangur af borununum verði góður, þá eru fjölmörg ár í að Pólland verði stór gasframleiðandi. Ennþá eru brunnarnir örfáir og það er mikið langhlaup að byggja upp verulega vinnslu. Og óneitanlega er svolítið kaldhæðnislegt að svona ný vongóð vinnslusvæði búa oft fyrst til forríka landspekúlanta, löngu áður en hin raunverulega auðlindanýting kemst almennilega í gang.

Það eru reyndar ekki allir jafn hrifnir af því að menn séu að stússa í að nálgast þessi þunnu en þéttu gaslög. Aðferðin felst í því að sprengja upp bergið með háþrýstivatni og losa þannig um gasið svo það streymi upp á yfirborðið. Ýmsir hafa áhyggjur af grunnvatnsmenguninni sem þetta getur mögulega valdið. Þ.e. þegar efnablandað háþrýstivatnið brýtur sér leið gegnum bergið djúpt í jörðu, opnar leiðir fyrir innikróað gasið en blandast um leið jarðvegi undir grunnvatninu.

Menn óttast líka jarðskjálftana sem stundum verða við þessa tegund af vinnslu. Það er nefnilega ekki er óalgengt að aðferðinni fylgi smáskjálftar svipaðir þeim sem orðið hafa á Hellisheiði í tengslum við niðurdælingu Orkuveitu Reykjavíkur þar á affallsvatni.

Gas_New-York-anti-fracking-protest

Frakkar hafa meira að segja bannað "frökkun" þar í landi. Það gerðist í sumar, en þau leitarleyfi sem þá var búið að veita gilda þó áfram (öll í sunnanverðu Frakklandi). Sterk andstaða er einnig gegn þessari tegund af gasvinnslu bæði í Þýskalandi og Bretlandi. Það lítur því út fyrir að fjölmennustu ríkin innan ESB ætli ekki að leyfa svona vinnslu innan sinnar lögsögu. Og því varla horfur á að hnignandi gasframleiðsla í vesturhluta Evrópusambandsins rétti úr kútnum á næstunni. En hvort pólska gasið mun streyma vestur á bóginn eða að mestu fyrst fara austur til Rússlands á eftir að koma í ljós. 


Arðsemi Landsvirkjunar

Landsvirkjun hefur tekið upp þá ánægjulegu nýbreytni að kynna stefnu sína og helstu áhersluatriðin í starfsemi fyrirtækisins á opinberum vettvang. Bæði í tengslum við ársfundi fyrirtækisins og með sérstökum fundum þess á milli.

LV-HA-Ardsemi-2Í vikunni sem leið fór fram haustfundur Landsvirkjunar fyrir fullu húsi í stórum sal í Hörpunni. Þar var einkum fjallað um arðsemi fyrirtækisins, með sérstakri áherslu á Kárahnjúkavirkjun, og mikilvægi þess að arðsemin aukist.

Það vakti athygli margra fundargesta og ekki síður fjölmiðla að skv. erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, hefur arðsemi Landsvirkjunar í gegnum tíðina verið afar lág. Og eigandi fyrirtækisins hefur notið sáralítilla arðgreiðslna. Verulegan hluta tímabilsins frá því Landsvirkjun var stofnuð, árið 1965, hefur arðsemin beinlínis verið neikvæð (sbr. grafið hér að ofan, sem er úr kynningu Harðar og má nálgast á vef Landsvirkjunar).

Það var reyndar svo að mest allan þennan tíma var varla raunhæft að raforkuvinnsla Landsvirkjunar skilaði miklum arði. Raforkuverð í heiminum var lágt, kaupendur íslensku raforkunnar voru fyrst og fremst álbræðslur og önnur stóriðja (sem beinlínis þrífst á mjög lágu orkuverði) og lítil samkeppni var um íslensku raforkuna.

CRU-Aluminium Industry-Report-2010-1

Það er aftur á móti umhugsunarefni að munurinn á orkuverði til stóriðju á Íslandi og erlendis virðist hafa aukist talsvert um og upp úr aldamótunum. Árið 2000 tók raforkuverð til nýrra álvera í heiminum almennt að hækka. Í þessu sambandi má vísa til skýrslna ráðgjafafyrirtækisins CRU, sem sýna þetta svart á hvítu (sbr. glæran hér til hliðar). Á sama tíma sat raforkuverðið til álveranna á Íslandi eftir - og er í dag ennþá á sömu slóðum og var fyrir meira en áratug.

Það var einmitt á þessum árum (skömmu fyrir og í kringum aldamótin) sem Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka sömdu um raforkusölu til álvers Norðuráls í Hvalfirði. Orkubloggarinn hefur reyndar ítrekað heyrt að þar hafi umrædd fyrirtæki hreinlega undirboðið Landsvirkjun - sem alls ekki virðist fjarri lagi þegar afkoma þessara fyrirtækja er borin saman. Þarna slógu litlu stóru orkufyriryrtækin tón sem varð a.m.k. ekki til að styrkja samningsstöðu Landsvirkjunar.

Skömmu síðar kom svo að risasamningi Landsvirkjunar við Alcoa. Þar bættist við gífurlegur pólítískur þrýstingur frá þáverandi ríkisstjórn um að ná samningum. Það eitt og sér kann að hafa veikt samningsstöðu Landsvirkjunar verulega og gæti verið meginástæða þess að ekki náðist að semja um hærra raforkuverð.

Karahnjukar-lagoon-night

Forstjóri Landsvirkjunar tók reyndar skýrt fram í erindi sínu að þarna hafi menn gert eins vel og þeir gátu á þeim tíma (þ.e. starfsfólk Landsvirkjunar). En forstjórinn nefndi það sérstaklega að raforkuverðið frá Kárahnjúkavirkjun væri of lágt - og ávinningur þjóðarinnar af virkjuninni væri óverulegur.

Í þessu sambandi má nefna að áður en samið var við Alcoa, þá hafði Norsk Hydro verið að skoða byggingu álvers á Reyðarfirði. En Norsk Hydro lagði þau áform til hliðar eftir að hafa ráðist í aðrar stórar fjárfestingar og taldi sér einfaldlega ekki unnt að bæta enn einu nýju og stóru álveri við að svo stöddu. Af nýlegum samtölum Orkubloggarans við tvo framkvæmdastjóra hjá Norsk Hydro virðist sem menn þar á bæ séu enn að skæla yfir því, að hafa ekki stokkið á byggingu álbræðslunnar á Íslandi. Að þeirra sögn mun jafn hagstæður raforkusölusamningur, eins og bauðst þá á Íslandi, aldrei bjóðast aftur í hinum vestræna heimi.

LV-HA-Ardsemi-3

Það er svo sem auðvelt bæði fyrir Orkubloggarann og Norsk Hydro að vera vitur eftir á. Það er aftur á móti óumdeilanlegt að arðsemi Landsvirkjunar af Kárahnjúkavirkjun hefur enn sem komið er verið talsvert frá upphaflegum væntingum. Nú er bara að vona að álverð hækki brátt á ný (raforkuverðið til Alcoa er tengt álverði) og að vaxtakjör verði hógvær (vegna endurfjármögnunar lána). Að öðrum kosti mun Kárahnjúkavirkjun seint skila þeirri auðlindarentu til þjóðarinnar sem vænta mætti af þeirri miklu náttúruauðlind sem jökulárnar þarna eru.

Í stefnumótun sinni undanfarið hefur Landsvirkjun lagt mikla áherslu á að auka þurfi arðsemi fyrirtækisins. Þar er m.a. litið til þess að ná fram hækkunum á raforkuverði til núverandi stóriðju (jafnóðum og samningar losna eða endurskoðunarákvæði verða virk). Einnig hefur Landsvirkjun kynnt að í nýjum raforkusölusamningum verði miðað við verulega hærra verð en verið hefur fram til þessa.

CRU-Aluminium Industry-Report-2010-2

Í dag er raforkuverðið til stóriðjunnar hér líklega nálægt 25 USD pr. hverja MWst (verðið frá Kárahnjúkavirkjun á síðasta ári var að meðaltali um 27 USD/MWst). Á haustfundinum kynnti Landsvirkjun að í dag bjóði fyrirtækið 12 ára raforkusamninga á 43 USD/MWst. Slíkur samningur fæli það bersýnilega í sér að þá myndi Landsvirkjun hagnast vel af raforkusölunni.

Sumum kann að finnast 43 USD/MWst hljóma sem ansið stórt stökk frá þeim 25-27 USD sem virkjanir Landsvirkjunar eru almennt að skila. En sennilega þurfa næstu virkjanir Landsvirkjunar a.m.k. 30-35 USD/MWst til að fjárfestingin sé réttlætanleg út frá arðsmissjónarmiðum. Nýlegur raforkusölusamningur Landsvirkjunar við Rio Tinto Alcan vegna stækkunar álversins í Straumsvík kann einmitt að hafa verið á þessum nótum. Þ.e. um eða rétt yfir 30 USD/MWst. Það mun einmitt vera algengt orkuverð í raforkusölusamningum vegna stækkunar álvera í heiminum í dag (sbr. glæran frá CRU hér að ofan).

LV-MB-nov-2011-1

Til að skila góðri arðsemi til framtíðar þurfa raforkusölusamningar Landsvirkjunar vegna nýrra virkjana því að vera ansið mikið hærri en verið hefur hjá fyrirtækinu til þessa. Stefna Landsvirkjunar er að hækka arðsemi fyrirtækisins með því að raforkuverðið hér hækki í átt til þess sem gerist á raforkumörkuðum í Evrópu. En að verðið hér verði þó talsvert lægra en í Evrópu. Miklar hækkanir hafa orðið á síðustu árum á evprópskum taforkumörkuðum. Þess vegna er nú svigrúm til að hækka raforkuverð hér verulega OG um leið bjóða mjög samkeppnishæft verð m.v. Evrópu.

Þetta svigrúm ætti að nýtast til að laða hingað ýmis iðnfyrirtæki og þá sérstaklega þau sem kjósa nálægð við Evrópumarkaði. Þar að auki álítur Landsvirkjun mögulegt að raforkuverð í Evrópu eigi enn eftir að hækka mikið á næstu árum. Sem gefi Landsvirkjun enn meiri tækifæri til aukinnar arðsemi í framtiðinni.  

lv-ha-2011-verd-01.png

Í kynningum sínum um þróun raforkuverðs í Evrópu næstu árin og áratugina hefur Landsvirkjun birt spá frá finnska verkfræði- og ráðgjafafyrirtækinu Pöyry, sbr. grafið hér til hliðar (þessi glæra er úr kynningu Landsvirkjunar frá því í vor). Pövry gerir ráð fyrir að raforkuverð í Evrópu muni hækka mjög mikið - og Landsvirkjun sér tækifæri í þeirri þróun. Neðsta línan á grafinu sýnir hvernig Landsvirkjun sér möguleika á því að meðalverð á raforku sem Landsvirkjun framleiðir hækki í takt við verðþróunina í Evrópu, en verði um leið áfram talsvert miklu lægra en í Evrópu (sem líklega er nauðsynlegt til að draga raforkukaupendur til Íslands).

Skv. grafinu er algengt heildsöluverð á raforku til iðnaðar í Evrópu nú um 60 USD/MWst. Það er vel að merkja langtum hærra verð en álver almennt ráða við að greiða og þess vegna ekki skrítið að álbræðslum í Evrópu fer fækkandi. Pöyry álítur að árið 2025 verði raforkuverðið komið í 90-100 USD að núvirði. Ef íslenskt heildsöluverð á raforku yrði þá um 40% lægra en í V-Evrópu, yrði það um 50-60 USD/MWst að núvirði. Það myndi merkja að verðið hér yrði líklega um 20-25 USD umfram kostnaðarverð pr. MWst.

LV-HA-2011-virkjanir-04-2

Það eru slíkar spár sem einkum réttlæta þá framtíðarsýn að raforkuframleiðsla Landsvirkjunar geti skilað gríðarlegri arðsemi til framtíðar. Þ.e. að síhækkandi raforkuverð í Evrópu muni styrkja samkeppnisstöðu Landsvirkjunar og gera það að verkum að veruleg eftirspurn verði eftir raforku fyrirtækisins á verði sem nemi allt að 60-70 USD/MWst árið 2025 (þ.e. hæsta verðið, en einnig væri boðið upp á mun lægri verð til stærstu kaupendanna). Þá yrði algengur hreinn hagnaður af hverri seldri MWst á bilinu 20-25 USD og í einhverjum tilvikum ennþá meiri. 

Þetta myndi auka arðsemi Landsvirkjunar mjög. En þessar áætlanir eru auðvitað alls ekki í hendi. Það er t.a.m. óvíst hvort spár um hratt hækkandi raforkuverð í Evrópu gangi eftir. Það er vissulega svo að áherslur Evrópusambandsríkjanna um að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku og draga úr kolefnislosun eru líklegar til að hækka raforkuverð í Evrópu. Á móti kemur að mjög hröð uppbygging nýrra vind- og sólarorkuvera í Evrópu og aukið gasframboð (sem er líklegt vegna nýrrar gasvinnslutækni) kunna að valda offramboði á raforku eða getur a.m.k. dregið mjög úr verðhækkunum. Það verður líka að hafa í huga að ef/þegar núverandi stóriðja fer að flýja hátt raforkuverð í Evrópu í ennþá meira mæli en verið hefur, mun eftirspurn eftir raforku þar minnka talsvert. Það eitt og sér gæti orðið til þess að raforkuverð í Evrópu (þ.e. innan ESB og Noregs) hækki ekki jafn hratt eins og sumar spár gera ráð fyrir.

LV-HA-2011-verd-02

Þess vegna er kannski mögulegt að enn um sinn verði það fyrst og fremst stóriðja sem lítur til Íslands sem áhugaverðar staðsetningar. En síður þau meðalstóru iðnfyrirtæki sem Landsvirkjun er bersýnilega mjög að horfa til þessa dagana.  Framtíðarsýn Landsvirkjunar er mjög áhugaverð og spennandi, en er háð margvíslegri óvissu.

Það er reyndar bersýnilegt að Landsvirkjun gerir sér fulla grein fyrir þessari óvissu. Og er þess vegna að skoða ýmsa aðra möguleika. Það var t.a.m. athyglisvert hversu rík áhersla var lögð á möguleikann á sæstreng milli Íslands og Evrópu á umræddum haustfundi. Þarna þótti Orkubloggaranum hann skynja nýjan og sterkari sæstrengstón.

LV-MB-nov-2011-2

Í stað þess að segja að rafstrengurinn væri einungis áhugaverður möguleiki, eins og verið hefur á fyrri kynningarfundum Landsvirkjunar, var nú sagt að þarna gæti verið um að ræða stærsta viðskiptatækifæri fyrirtækisins. Enda væri þá unnt að selja beint inn á spot-markað í V-Evrópu, þar sem raforkuverð er almennt gríðarlega hátt.

Af þessum orðum frummælanda má hugsanlega álykta sem svo að Landsvirkjun sé farin að huga að sæstengnum af mun meiri alvöru en verið hefur. Og að byrjað sé að skoða þann áhugaverða möguleika að etv. megi ná sérstaklega hagstæðum samningum um lagningu á rafstreng vegna þeirrar úlfakreppu sem sum ESB-ríkin standa frammi fyrir - til að geta staðið við bindandi markmið sín um að stórauka hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkubúskap sínum. Þar er nærtækt að líta til Bretlands, sem augljóslega mun þurfa að kaupa gríðarmikla endurnýjanlega orku erlendis frá til að geta uppfyllt afar metnaðarfullar skyldur sínar um hlutfallslega aukningu endurnýjanlegrar orku.

LV-Island-Vindorka-styrkur

Vandamálið er bara að til að það verði áhugavert að leggja umræddan sæstreng, þarf sennilega að auka orkuframleiðsluna hérna ansið mikið. Það eitt að ætla að selja umframorku gegnum svona streng er varla nógu mikið til að gera hann áhugaverðan í augum Evrópu. 

Í þessu sambandi er lógískt að Landsvirkjun virðist vera farin að verða mun áhugasamari um vindorku en verið hefur. Hér á landi er vindur með þeim hætti að stórar vindrafstöðvar á Íslandi kunna að geta skilað tvöfalt meiri nýtingu en gengur og gerist hjá evrópskum vindorkuverum. Og a.m.k. jafn mikilli framleiðslu (nýtingu) eins og vindrafstöðvar í sjó  gera, þ.e. vindrafstöðvar utan við strendur landa eins og Danmerkur, Hollands og/eða Bretlands (vindorkuver úti í sjó eru geysilega dýr). Því gæti mögulega verið hagkvæmt að byggja hér stór vindorkuver á landi og um leið leggja sæstreng milli Íslands og Evrópu.

Þess vegna er ekki útilokað að það styttist í að við munum sjá stór vindorkuver rísa á Íslandi. Á haustfundinum kom fram að Landsvirkjun álítur íslensk vindorkuver verða orðin samkeppnisfær við vatnsafl eftir áratug. Ef slíkar spár ganga eftir má hugsa sér tugi eða jafnvel hundruði turna - hver með 5 MW túrbínu - standa keika í hópum við suðurströnd Íslands. T.d. nálægt og útfrá Skaftarósi og á flatlendinu í Meðallandi. Skv. vindkortinu sem Landsvirkjun sýndi á haustfundinum eru þær slóðir einmitt ákjósanlegar til að nýta vindorku.

Skaftaros-1

En hvað sem líður þróun raforkuverðs í Evrópu og staðsetningu íslenskra vindorkuvera, þá blasa ýmis spennandi tækifæri við íslenska orkugeiranum. Landsvirkjun er bersýnilega að kalla eftir umræðu - bæði í þjóðfélaginu og meðal stjórnmálamanna - um mikilvægi orkuauðlinda Íslands. Um leið má segja að Landsvirkjun sé að benda á mikilvægi þess að stjórnvöld hér hugsi fram í tímann. Ekki ósvipað og Norðmenn gerðu á tíunda áratug liðinnar aldar, áður en frjáls samkeppni var innleidd á norska raforkumarkaðnum og áður en Norðmenn tengdust Hollandi með sæstreng. Höfum í huga það sem Hörður Arnarson sagði berum orðum á haustfundinum, þegar hann ræddi mikilvægi þess að auka arðsemi í orkuframleiðslunni og hækka raforkuverðið: "Ekkert eitt verkefni mun ráða jafn miklu um lífskjör á Íslandi í framtíðinni."

[Glærurnar í þessari færslu eru úr kynningum Landsvirkjunar, að undanskildum glærunum tveimur frá CRU].


Evrópa versus Gazprom

Evrópusambandið hefur á síðustu árum lagt mikla áherslu á græna orkustefnu. Í grófum dráttum felst stefnan í því að draga beri úr notkun á kolvetniseldsneyti (olíu, gasi og kolum), auka hlutfall endurnýjanlegrar orku, spara orku og minnka kolefnislosun.

eu-green-energy-flag

ESB hefur náð talsverðum árangri að koma þessari stefnu í framkvæmd. Hlutfall grænnar orku hefur farið vaxandi og ESB- ríkin eru í fararbroddi við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Í reynd snýst þó meginatriðið í orkustefnu ESB um allt annað en græna orku. Því langmikilvægasta hagsmunamál ESB-ríkjanna felst í því að tryggja sér betri, fjölbreyttari og öruggari aðgang að orkulindum utan sambandsins.

Evrópusamabandið er gríðarlega háð innfluttri orku. Eða öllu heldur flest aðildarríki þess. Af öllum aðildarríkjunum 27 er einungis eitt ríki innan ESB sem framleiðir meiri orku en það notar (sem er Danmörk, en það geta Danir þakkað olíuvinnslu sinni í Norðursjó). Þar að auki fer olíu- og gasframleiðsla innan ESB hratt hnignandi. Þess vegna stendur ESB mun verr að vigi í orkumálum en t.a.m Bandaríkin. Þar vestra hefur gasframleiðsla aukist mikið á undanförnum árum og í Bandaríkjunum eru jafnvel líka góðar líkur á að unnt verði að auka olíuframleiðsluna.

nord-stream-underwater-tie-ins_2965_20110421

Það er sem sagt svo að með hverjum degi sem líður verður ESB sífellt háðara innfluttum orkugjöfum (þó svo efnahagssamdráttur geti snúið þessu við tímabundið). Þetta er sennilega mesti veikleiki ESB. Enda fagna evrópskir stjórnmálamenn og leiðtogar sambandsins mjög, þegar áfangi næst í því að efla orkuöryggi ESB.

Slík fagnaðarlæti hafa reyndar orðið í tvígang núna í haust (2011). Þar var annars vegar um að ræða þau tímamót þegar fyrsti áfangi Nord Stream gasleiðslunnar var tekinn í notkun. Þar með byrjaði gas að streyma frá Rússlandi til Þýskalands, eftir 1.200 km langri gasleiðslunni sem nú liggur eftir endilöngum botni Eystrasaltsins. Gasið sem núna streymir um verkfræðiundrið Nord Steam er fyrsta gasið sem berst Þjóðverjum frá Rússum, án þess að þurfa að fara eftir gasleiðslum um lönd eins og Úkraínu eða Hvíta-Rússland. Þetta bætir afhendingaröryggi til muna, sem er fagnaðarefni fyrir bæði seljandann (Gazprom) og neytandann (í Þýskalandi og fleiri ESB-ríkjum).

Europe-Russia-Gas-Pipes-2011-1

Hitt tilefnið til að skála nú í haust af hálfu ESB var þegar aðildarríki sambandsins (utanríkisráðherraráðið) veittu framkvæmastjórn ESB umboð til að semja við stjórnvöld í Azerbaijan og Túrkmenistan um lagningu mikillar gasleiðslu eftir botni Kaspíahafsins. Leiðslan sú er oftast er kölluð Trans-Caspian Gas Pipeline, en um hana á að flytja gas þvert vestur yfir Kaspíahafið. Frá Túrkmenistan til Bakú í Azerbaijan og þaðan áfram eftir gasleiðslum gegnum orkubrúna Tyrkland og alla leið til Evrópusambandsins.

Náist samningar um þessa rosalegu Kaspíahafs-gasleiðslu aukast líkur á að ráðist verði í lagningu á hinni mikilvægu Nabucco-gasleiðslu (sem áður hefur verið fjallað um hér á Orkublogginu). Enda má segja að þessar tvær gasleiðslur séu svo nátengdar að annað hvort hljóti þær báðar að verða lagðar eða þá hvorug. Svo eru menn líka farnir að tala um að Kaspíahafsleiðslan muni ekki aðeins opna ESB aðgang að hinum gríðarlegu gaslindum í Túrkemistan, heldur einnig að miklu gasi norður í Kazakhstan.

EU-Barroso_Azerbaijan-President-Ilham- Aliyev

Það eru þessir hagsmunir um framtíðaraðgang að orkulindum Mið-Asíuríkjanna sem valda því að þeir José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Günther Oettinger, framkvæmdastjóri orkumála, hafa undanfarið verið á ferðinni bæði í Bakú í Azerbaijan og handan Kaspíhafsins í Ashgabat, höfuðborg Túrkmenistans. Þar hafa þeir félagarnir f.h. ESB faðmað forsetana báða; þá Ilham Aliyev í Azerbaijan og Gurbanguly Berdimuhamedow í Túrkmenistan. Og komið heim til Brussel með glansandi viljayfirlýsingar um að þessi Mið-Asíuríki bæði séu æst í að selja gas til Evrópu.

GAS-Central-Asia-Pipe-2

Vandamálið er bara að bæði Kínverjar og rússneska Gazprom sækja líka mjög í risavaxnar gaslindirnar í Mið-Asíu. Stóra spurningin er hver verður á undan að byggja gasleiðslur til þessara landa?

Það eru risavaxnir hagsmunir af þessu tagi sem nú hafa orðið til þess að innan ESB eru menn byrjaðir að tala um það að framkvæmdastjórnin þurfi að fá allsherjarumboð til að semja um og höndla með öll orkumál sem snerta aðildarríkin. Þar með yrði til ein sameiginleg orkustefna ESB þar sem framkvæmdastjórnin fengi mikil völd í sínar hendur. Þetta yrði meiriháttar stefnubreyting af hálfu aðildarríkja ESB, en kann að vera nauðsynlegt til að tryggja aðgang þeirra að öruggri orku til framtíðar. Við eigum eflaust eftir að heyra meira af þessum tillögum síðar hér á Orkublogginu - þetta snertir jú beinlínis hagsmuni Íslands sökum þess að við erum umsóknarríki um aðild að ESB.

GAS-Central-Asia-Pipelines-MAP

Það er sem sagt svo að það eru tvær neðansjávar-gasleiðslur sem eru mál málanna í orkustefnu ESB-ríkjanna þessa dagana. Leiðslur sem flytja munu gas til ESB frá löndum í austri; ríkjum sem búa yfir miklum gasauðlindum.

Önnur af þessum gasleiðslum er nú orðin að raunveruleika.  Það er engu að síður augljóst að gasið frá Nord Sream mun ekki losa Þýskaland eða önnur Evrópuríki undan gashrammi Rússlands. Reyndar virðist Gerhard Schröder nokk sama um það. Þegar Schröder lét af embætti kanslara Þýskalands tók hann fagnandi boði Rússa um að setjast í stól stjórnarformanns Nord Stream. Þar er rússneski gasrisinn Gazprom vel að merkja langstærsti hluthafinn með 51% hlut (afgangurinn skiptist á milla nokkurra þýskra og fleiri evrópskra fyrirtækja). Hlutverk þessa fyrrum kanslara Þýskalands og formanns þýskra jafnaðarmanna sem stjórnarformanns Gazprom, er væntanlega fyrst og fremst að gæta hagsmuna hluthafa Gazprom. Sem að stærstu leyti er rússneska ríkið! Skemmtilegt evrópskt bræðraþel þarna á ferð.

Putin-Schroeder-1

Það var gaman að sjá hversu vel fór á með þeim ljúflingunum Schröder og Pútín þar sem þeir voru staddir austur í Skt. Pétursborg núna í september sem leið (2011). Tilefnið var að þá var byrjað að prófa hvernig gengi að láta gasið streyma eftir glænýrri Nord Stream leiðslunni. Frá rússnesku borginni með sænska nafnið (Vyborg, sem er skammt frá Pétursborg) og til þýska þorpsins Lubmin, sem er skammt vestan pólsku landamæranna.

Það var svo núna í vikunni sem leið (s.l. þriðjudag) að hin formlega opnunarathöfn Nord Stream fór fram - í þýska þorpinu Lubmin. Þar voru saman komnar margar helstu silkihúfur evrópskra stjórnmálamanna. Sem í sameiningu skrúfuða frá gríðarstórum krana til marks um vígslu á þessari tíu milljarða dollara gasleiðslu (sbr. myndin hér að neðan). Í fremstu röð voru þau Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, en meðal gestanna mátti einnig sjá forsætisráðherra Frakklands, Hollands og fleira mektarfólk. Þarna fengu stjórnmálamennirnir að njóta sín, en rússneski gasrisinn Gazprom hélt sig til hlés.

Nord-Stream_official-opening-2011

Þvi miður var lítill púki sem truflaði gleðina. Nefnilega sjálfur efinn. Það er því miður allt eins líklegt að vígsla Nord Stream sé fyrst og fremst skýr táknmynd um að ESB muni í framtíðinni þurfa sífellt meira gas frá Rússum og Gazprom. Jafnvel að Evrópa þurfi að kaupa gas frá Mið-Asíuríkjunum í gegnum Gazprom!

Það er nefnilega svo að hljóðleg en gríðarlega hörð barátta stendur nú yfir um aðgang að gaslindum Mið-Asíuríkjanna. Kína er á góðri leið með að tryggja sér þarna væna sneið af kökunni. Og Rússar ætla sér svo sannarlega að koma í veg fyrir að þessi fyrrum Sovétlýðveldi selji gasið beint vestur til Evrópu. Þess í stað vilja þeir að gasið fari fyrst til Rússlands og þaðan til Evrópu - um lagnir Gazprom! Þar með fengju Rússar ekki aðeins væn flutningsgjöld, heldur líka sterkan pólítískan ávinning með því að geta hvenær sem er lokað á gasstreymið til Evrópu.

GAS_Central-Asia-pipeline_China-2

Kapphlaupið um beinan aðang að gaslindum Mið-Asíuríkjanna er eitthvert hljóðlátasta en um leið mikilvægasta hagsmunamálið í gjörvöllum orkugeiranum um þessar mundir. EF Evrópusambandsríkin tapa þessu kapphlaupi mun það gera ESB svakalega háð gasflutningum um Rússland. Vegna bæði landfræðilegra, sögulegra og pólítískra aðstæðna er óneitanlega líklegt að þarna muni Gazprom hafa betur en ESB. Og þess vegna lítur út fyrir að þrátt fyrir að North Stream sé komin í gagnið, þá kunni Evrópusambandið að vera í arfaslæmum málum.

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Á síðustu misserum hafa nefnilega orðið merkilegir atburðir í evrópska orkugeiranum, sem gætu hreinlega gjörbreytt aðgangi ESB að orku til langrar framtíðar - til hagbóta fyrir sambandið og á kostnað Gazprom! Það magnaða ævintýri snýst um hreint ótrúlegar gaslindir sem kann að vera að finna í austur í Póllandi, Búlgaríu og Úkraínu. Meira um þá dramatík síðar hér á Orkublogginu.


Tímamót í íslenskum orkumálum?

Stýrihópur um orkustefnu (Orkustefnunefnd) hefur lokið starfi sínu. Og birt skýrslu sem nú fer fyrir ríkisstjórn og verður svo væntanlega lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi

Orkustefnunefndin

Iðnaðarráðherra segir stefnuna marka tímamót. Það er nú kannski ofmælt - þó vissulega sé gott að íslensk stjórnvöld marki sér skýra stefnu í orkumálum. Í reynd er umrædd stefna yfirleitt mjög almennt orðuð. Og þar að auki látið vera að taka á sumum mikilvægum álitamálum. 

Þarna er t.d. nær ekkert fjallað um eignarhald á virkjunum eða orkufyrirtækjum. Samt var nefndinni beinlínis falið að taka eignarhald á orkufyrirtækjum til umfjöllunar og fara yfir helstu "leiðir varðandi eignarhald í orkuframleiðslu". Í þessu sambandi skyldi nefndin meta kosti og galla mismunandi eignarhalds og lýsa því hvaða leiðir séu þar vænlegastar. 

Þess vegna bjóst Orkubloggarinn jafnvel við því að skýrslan myndi innihalda skýra stefnumörkun um eignarhald að orkufyrirtækjum og/eða stærri virkjunum. En svo er ekki. Þarna er því t.d. ekkert minnst á hugmyndir sem hafa komið fram um að allar stærri virkjanir á Íslandi skuli að meirihluta vera í opinberri eigu, en að einkaaðilar geti eignast í þeim allt að þriðjung.

Kleifarvatn-vetur

Því má kannski segja að með orkustefnunni séu einfaldlega engar breytingar lagðar til á því fyrirkomulagi sem er í gildi um fjárfestingar í virkjunum á Íslandi. Þ.e. að slíkar fjárfestingar skuli heimilar öllum lögaðilum, hvort sem þeir séu opinberir eða einkaaðilar, og það eigi við um öll fyrirtæki innan EES-svæðisins. Og þar með leggi stýrihópurinn t.d. blessun sína yfir fjárfestingar eins og þegar Magma Energy Sweden keypti stóran hlut í HS Orku. Þetta eitt og sér er athyglisvert, þegar haft er í huga að VG átti væntanlega fulltrúa í stýrihópnum.

Eitt af þeim mikilvægu atriðum sem stýrihópurinn fjallaði um er hvort stytta eigi þann hámarksafnotatíma sem fyrirtæki geta skv. gildandi lögum haft að orkulindum í eigu hins opinbera. Í dag er hámarkstíminn þarna 65 ár í senn og framlengjanlegur. Meirihluti stýrihópsins álítur að stytta beri þennan hámarkstíma umtalsvert. Í skýrslunni er talað um "hóflegan tíma" og 25-30 ár nefnd í því sambandi.

Skafta-upptok-2

Stýrihópurinn var þó ekki einhuga um þetta mikilvæga atriði. Einn nefndarmanna skilaði séráliti þess efnis að þetta þurfi að skoða mun betur áður en lögð verði fram tillaga um svo mikla styttingu á nýtingartímanum. Þetta er sennilega skynsamlegt sjónarmið.

Þó svo Orkubloggarinn álíti að eðlilegt geti verið að hafa afnotatímann almennt mun styttri en 65 ár, þá er svolítið hæpið af stýrihópnum að leggja til svona mikla styttingu - án þess að leggja fram ítarlegan rökstuðning fyrir slíkum styttri afnotatíma. Þarna hefði líka gjarnan mátt setja fram samanburð við önnur ríki. Vatnsaflsvirkjanir eru einmitt víða um heim byggðar á sjónarmiðinu um BOT (build - operate - transfer) og þar eru því mýmörg dæmi um hver afnotatíminn er. Í skýrslunni er því miður engan slíkan samanburð að finna. Og ennþá síður fjallað um hugsanlegt transfer eða leiðir í anda norsku hjemfall-reglunnar (þ.e. að virkjun skuli í lok afnotatímabils afhent ríkinu endurgjaldslaust).

Nefndin leggur ríka áherslu á að orkunýting skuli stuðla að hámarksarðsemi opinberu orkufyrirtækjanna og að raforkuverð hér eigi að færast nær því sem gerist á "meginlandsmörkuðum Evrópu". Í þessu sambandi veltir stýrihópurinn fyrir sér hversu mikið orkuverð hér geti mögulega hækkað og þar með arður opinberu orkufyrirtækjanna aukist (og þá auðvitað líka arður orkufyrirtækja í einkaeigu). Um þetta lætur nefndin nægja að vísa til kynninga Landsvirkjunar um þessi efni. Og bætir þar litlu sem engu við.

Raforka-mostru-gufa

Þarna hefði nefndin hugsanlega átt að sýna örlítið meira sjálfstæði - og leita eftir fleiri sjónarmiðum um framtíðarþróun raforkuverðs í Evrópu. Það er nefnilega svo að talsvert mismunandi álit er uppi um það hvernig raforkuverð í Evrópu muni þróast á næstu árum.

Stýrihópurinn fjallaði einnig um það hvernig skuli standa að töku endurgjalds vegna nýtingu orkulinda í eigu hins opinbera. Bæði um leigu vegna auðlindanýtingar og um skattlagningu arðs af nýtingunni. Leggur nefndin til að stofnaður verði sérstakur Auðlindasjóður sem sjái um útleigu orkuauðlindanna og fái til sín endurgjald vegna nýtingarinnar.

Þó svo raforkuverðið hér hafi fram til þessa verið lágt og arður orkufyrirtækjanna því sáralítill er bæði forvitnilegt og nauðsynlegt að velta fyrir sér hvernig skynsamlegast sé að arðinum verði ráðstafað - þegar/ef hann myndast (þ.e. auðlindarentan). Í skýrslunni er lögð almenn áherslu á að í tilvikum sem hið opinbera er eigandi auðlindanna, skuli eigandinn njóta sem mest af auðlindarentunni þegar hún myndast. Í þessu sambandi eru nefnd nokkur dæmi um hvernig þetta megi gera, án þess að það sé nákvæmlega útfært. Að mati Orkubloggarans væri kannski nærtækt að fara þarna svipaða leiðir eins og gert er í Noregi. Vandinn er bara sá að arðsemin í orkuvinnslunni hér er sáralítil - og þar á verður vart mikil breyting í bráð vegna langtímasamninganna við stóriðjuna.

Thjorsa_fossar

Það er vel að stjórnvöld hugi að þessum málum. Þær breytingar sem eru raunhæfastar og nærtækastar á íslenskum orkumarkaði í nánustu framtíð, eru þó sennilega af öðrum toga. Þar mætti nefna álitaefnið hvort hér skuli tekinn upp spot-markaður með raforku. Í huga Orkubloggarans er nánast borðleggjandi að taka upp slík markaðsviðskipti hér á landi, en um þetta er lítt fjallað í umræddri skýrslu stýrihópsins. Vonandi er þó Landsnet á fullu að huga að slíkum málum.

Eflaust má segja að þessi skýrsla sé prýðilegt innlegg í umræðu um íslensk orkumál. Og skýrslan gæti reyndar markað tímamót - ef henni verður fylgt eftir af krafti. Það sem Orkubloggaranum þótti athyglisverðast við skýrsluna eru þær áherslur skýrsluhöfunda að afnema skuli ríkisábyrgð af virkjanaframkvæmdum ríkisfyrirtækja fyrir stóriðju, að auka skuli fjölbreytni í orkunýtingu (bæði í hópi viðskiptavina og með því að kanna með nýtingu fleiri orkugjafa) og að skoða skuli ítarlega þann möguleika að tengja Ísland evrópskum orkumarkaði með sæstreng. Áherslur af þessu tagi gætu breytt miklu í íslenska orkugeiranum. Að því gefnu að hugmyndir af þessu tagi séu raunhæfar.


Keisarasprengjan

Nýlega rakst Orkubloggarinn á athyglisvert myndband, sem sýnir allar kjarnorkusprengingar sem hafa átt sér stað á jörðu hér. Þarna er um að ræða allar þær kjarnorkusprengjur sem sprengdar hafa verið í tilraunaskyni og auðvitað líka sprengjurnar sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945.

Tsar_Bomb-1

Umrætt myndband er ansið áhrifaríkt. Og maður veltir fyrir sér hvort mannkynið hafi algerlega gengið af göflunum í kjarnorkukapphlaupinu. 

Til "gamans" má geta þess að stærsta kjarnorkusprengjan sem nokkru sinni hefur verið sprengd, var rússneska Keisarasprengjan (Tsar Bomba). Sprengjan sú var reyndar einungis helmingurinn af því sem til stóð. Þessi svakalega vetnissprengja átti upphaflega að vera 100 megatonn, en var á endanum höfð 50 megatonn til að forðast of mikla geislavirkni. Til samanburðar má nefna að sameiginlega voru sprengjurnar sem sprungu yfir Hiroshima og Nagasaki innan við 40 kílótonn.

Keisarasprengjan var sprengd fyrir nánast nákvæmlega hálfri öld. Það var þann 30. október 1961 að ofboðsleg eldkúlan og kjarnorkusveppurinn breiddi úr sér yfir rússnesku eyjunni Novaya Zemlaya. Það er einmitt ekki síður óhugnarlegt hversu mikið af kjarnorkutilraununum áttu sér stað hér á Norðurslóðum.

Í tilefni af stórafmæli Keisarasprengjunnar er viðeigandi að birta hér á Orkublogginu umrætt myndband af kjarnorkusprengingum hins viti borna manns. Fyrir óþolinmóða skal þess getið að myndbandið fer rólega af stað. En svo færist fjör í leikinn og allt verður hreinlega snarvitlaust. Uns þetta furðutímabil kjarnorkualdarinnar fjarar út, enda eru nú flest kjarnorkuríkin hætt að gera slíkar tilraunir:

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband