Gasið í Egyptalandi

absim1.jpg

Síðustu vikurnar hefur Orkubloggarinn að sjálfsögðu fylgst spenntur með atburðunum í N-Afríku. Þegar maður var snáði voru sögurnar af Faraóunum með því mest spennandi sem maður las. Ekki var síður skemmtilegt að lesa um Aswan-stífluna, sem reist var í Egyptalandi á árunum 1960-70. Og um það hvernig risavaxnar fornminjarnar sem hefðu farið á kaf í uppistöðulónið voru sagaðar í sundur á vegum UNESCO og fluttar út fyrir lónstæðið. 

Stíflan við Aswan hefur fyrst og fremst það hlutverk að stýra rennsli hinnar miklu Nílar. En að auki er þarna virkjun í ánni upp á meira en 2.000 MW. Þegar ráðist var í þessar framkvæmdir þýddi það rafvæðingu sem á þeim tíma náði til um helmings egypsku þjóðarinnar. En í dag stendur raforkan frá Aswan einungis undir um 15% af raforkuþörf Egypta. Sem er til marks um þá gríðarlegu fólksfjölgun, sem orðið hefur í Egyptalandi eins og svo mörgum öðrum þróunarríkjum.

Þrátt fyrir að egypska lýðveldið sé orðið nærri 60 ára hafa einungis þrír forsetar ríkt yfir landinu á þessum tíma (ef við leyfum okkur að sleppa fyrsta forsetanum sem sat einungis í eitt ár). Þessir þrír voru Nasser (1956-70) sem þjóðnýtti Súez-skurðinn, Sadat (1970-81) sem samdi frið við Ísrael og svo Mubarak (1981-2011).

sadat-mubarak.jpg

Þarna er í reynd um að ræða eina samfellu, því bæði Sadat og Mubarak höfðu áður verið varaforsetar. Mubarak varð forseti landsins þegar Sadat var myrtur 1981 (myndin hér til hliðar mun hafa verið tekin örfáum andartökum áður en skothríðin buldi á Sadat; Mubarak slapp lítið særður). Sadat var hataður af mörgum leiðtogum annarra Arabaríkja fyrir friðarsamningana við Ísrael og um skeið var Egyptalandi vísað úr Arababandalaginu. En í staðinn varð Egyptaland einn helsti bandamaður Vesturlanda í Arabaheiminum. 

Mubarak viðhélt hinum kalda friði við Ísrael og þar með vinskap við Bandaríkin. Þrátt fyrir þjóðþing og lýðræði að nafninu til, var hann í reynd nær einráður; einræðisherra sem ríkti í skjóli "neyðarlaga" með aðstoð hersins og lögreglunnar. Hann hafði verið í forsetaembættinu í um þrjá áratugi nú þegar egypska þjóðin sagði hingað og ekki lengra og Mubarak mátti segja af sér með skömm.

egypt_petroleum-net.png

En það er vandséð að lýðræði eins og við skiljum það hugtak komist á í Egyptalandi. Og það blasa risavaxin vandamál við þjóðinni. Hún er afar fjölmenn - um 80 milljónir manna - og stór hluti hennar býr við sára fátækt. Opinberar tölur um atvinnuleysi segja það vera um 10%, en skv. sumum heimildum er það miklu meira. Verðbólga er einnig mikil; um 15% skv. tölum hins opinbera.

Við þetta bætist svo að Egyptar eru ekki lengur sjálfum sér nógir um olíu. Þó svo Egyptaland sé verulegur olíuframleiðandi - einn af þeim stærri í Afríku - er nú svo komið að framleiðslan stendur ekki lengur undir olíuþörf þessarar fjölmennu þjóðar.

Fyrir um 15 árum náði framleiðslan um milljón tunnum á dag, en slefar nú varla í 600 þúsund tunnur vegna hnignandi olíulinda. Það er nánast sama magn eins og þjóðin notar og því blasir við að senn muni olían ekki lengur skila Egyptum útflutningstekjum. Þvert á móti mun þessi fátæka þjóð senn þurfa að flytja inn olíuafurðir. Og keppa um þær á heimsmarkaði við okkur í vestrinu og aðra sem munu alltaf vera tilbúnir að yfirbjóða Egypta og aðrar snauðar þjóðir.

egypt_small.png

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Undanfarin ár hafa fundist miklar gaslindir út af óshólmum Nílar. Egyptaland hefur fyrir vikið stóraukið gasframleiðslu sína og útflutning á gasi. Svo gæti farið að landið verði einn af mikilvægustu gasbirgjum Evrópu. Löngu orðið tímabært að ESB tengist N-Afríkuríkjunum nánari böndum.

Einn af allra nýjustu gasvinnslu-samningunum sem egypsk stjórnvöld gerðu var nettur samningur við BP og þýska RWE upp á 9 milljarða USD. Undir hann var párað um mitt síðasta ár (2010). Og svo má ímynda sér hvort eitthvað lítilræði af þessum milljörðum dollara hafa runnið inn á reikninga í eigu Mubarak's í einhverjum ónefndum banka í ónefndu landi?

 


Álverskórinn syngur enn

Í vikunni sem leið bárust þær fréttir að Landsvirkjun og HS Orka hafi samið um raforkusölu til kísilverksmiðju, sem rísa á við Helguvík. Því miður er fólk samt ennþá að gæla við að álver Norðuráls muni taka þar til starfa - þó svo allir viti að það merkir að orka frá hundruðum MW verði þá seld álverinu á spottprís og með svo til engri arðsemi fyrir orkufyrirtækin.

kisilver-undirritun.jpgÞeir sem eru heitastir fyrir álveri í Helguvík hafa lítinn áhuga á arðsemi af raforkusölunni. Rétt eins og sumir þingmenn vilja að ríkisstjórnin taki ráðin af Landsvirkjun, sem "leiki lausum hala", horfa sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum eingöngu á störfin og umsvifin í kringum sjálfa framkvæmdabóluna. En til allrar hamingju eru orkufyrirtækin hér smám að færast frá því að vera byggðastefnutæki stjórnvalda, yfir í það að leggja áherslu á að auka arðsemi í raforkuvinnslunni. Þar hefur Landsvirkjun haft frumkvæði - og hefur nú sýnt að þar á bæ er svo sannarlega verið að fylgja eftir nýrri stefnu fyrirtækisins.

Vert er að geta þess að Orkubloggarinn er enginn andstæðingur álvera - þó svo hann álíti komið nóg af þeim á Íslandi. Og til eru þeir sem vilja ganga mun lengra í að draga úr raforkusölu til álvera á Íslandi. Í þessu sambandi má rifja upp athyglisvert viðtal sem Egll Helgason átti við Gísla Hjálmtýsson í Silfri Egils fyrir um ári síðan. Viðtalið má sjá í tveimur hlutum á YouTube (fyrirsagnirnar þar eru reyndar útí hött):

 

Og hér er seinni hluti viðtalsins við Gísla: 

 

 


Olían á þrotum?

Í vikunni sem leið fór sú frétt sem eldur í sinu um heimsbyggðina, að miklu minna af olíu sé í jörðu en menn ætluðu. Í fréttinni fólst nánar tiltekið að Sádarnir hafi stórlega ofmetið olíulindir sínar - um allt að 40%! Í reynd sé olían þar því hátt í helmingi minni en menn hafi talið.

Fréttin birtist upphaflega á vef Guardian og heimildin var Wikileaks-skjölin frá bandarískum stjórnvöldum; nánar tiltekið einhver memo frá ræðismanni Bandaríkjanna í Riyadh. Fréttastofur og fjölmiðlar um allan heim tóku andköf; átu fréttina upp hver eftir öðrum og báru hana áfram gagnrýnislaust sem einhver stærstu tíðindin úr Wikieaks-skjölunum. 

sadad_al-husseini.jpg

En allir sem nenntu að lesa fréttina ráku fljótt augu í nafn, sem fékk bæði Orkubloggarann og aðra orkubolta þessa heims til að glotta. Heimildin fyrir þessari "stórfrétt" var nefnilega maður að nafni Sadad al-Husseini. Sem áður var einn af framkvæmdastjórum Saudi Aramco og þykir því af einhverjum ástæðum sjálfkrafa af sumum vera örugg heimild - en er í reynd afar umdeildur. Enda haggaði þessi "stórfrétt" ekki við olíumörkuðunum.

Það má vel vera að Al-Husseini sé vel meinandi. En í reynd eru þetta allt saman tómar getgátur. Og þar að auki alls ekki ný tíðindi. Al-Husseini hefur í mörg ár verið ötull boðberi þess að olían í hinni heilögu jörð Allah sé ekki eins mikil eins og sumir vonist eftir. Frétt Guardian var m.ö.o. eldgömul og sjálfur hefur Al-Husseini flutt fjölda fyrirtlestra og veitt viðtöl um nákvæmlega þetta sama, allt frá árinu 2004. En bandaríski ræðismaðurinn í Riyadh virðist fyrst hafa frétt af þessari kenningu hans í samtali við Al-Husseini árið 2007. Og stökk þá til og sendi skýrslu heim til Washington. Skýrslu sem er óttalegt bull, en er nú allt í einu orðin heimsfrétt. Svolítið hjákátlegt. 

Umrædd Wikileaks-skjöl voru sem sagt gamlar fréttir. Þar að auki er innihaldið tómar getgátur sem lítið hafa með staðreyndir að gera. Auk þess sem bandarísku sendiráðsmennirnir virðast ekki hafa skilið hvað átt er við með grundvallar-hugtökum eins og proven reserves og oil in place. Sic.

peak-oil-apocalypse.jpgSvolítið dapurlegt að sjá hvernig menn stukku á fréttina gagnrýnislaust. Meira að segja Financial Times sló þessu upp sem meiriháttar frétt. En varð brátt að birta viðauka um að þetta væri reyndar ekkert sérstaklega merkilegt og að þarna væru í reynd engar nýjar upplýsingar á ferðinni. Orðrétt segir núna um þetta á vef FT (leturbreyting er Orkubloggarans):

Update: I'll leave the blog below in tact, but really I should point out that the reason the oil price hasn't moved is that the person quoted in the Wikileaked cable, Sadad al Husseini, is a well-known peak oil theorist who has said this in public many times before.

Nú standa sem sagt fjölmiðlarnir - a.m.k. þeir sem vilja láta taka sig alvarlega - sveittir við að árétta að fréttin byggði á misskilningi og að getgátur eru ekki staðreyndir. Það á ekki bara við um Financial Times, heldur líka New York Times - og eflaust fleiri.

 


Forsetar láta sig dreyma

Í dag birtist fyrsta færsla gjörbreytts Orkubloggs! Í stað þess að birtast reglulega á sunnudögum verður Orkubloggið héðan í frá með óreglulegar færslur - sem þó munu væntanlega almennt birtast á mánudögum. Önnur breyting er sú að færslurnar verða mun styttri en verið hefur og meira í líkingu við það sem var í upphafi Orkubloggsins árið 2008. En að færslu dagsins:

------------------------------ 

Obama forseti var nýverið að árétta metnaðarfull markmið sín í orkumálum. Þess efnis að stórauka nýtingu á endurnýjanlegum orkuauðlindum OG stórminnka þörf Bandaríkjanna fyrir innflutta olíu. Það skemmtilegasta er auðvitað að þessi ofurgræna orkustefna felst einkum í tveimur grundvallaratriðum. Annars vegar að byggja fjölda nýrra kjarnorkuvera. Kjarnorkuver losa jú engar gróðurhúsalofttegundir og eru þess vegna allt í einu orðin alveg skærgræn! Hins vegar ætla Bandaríkjamenn að þróa hrein kolaorkuver; Clean Coal. Sem felst í því að taka útblásturinn frá kolaorkuverunum og dæla honum niður í jörðina.

jon-stewart_oil-independence.pngÞað á sem sagt að grafa skítinn í jörðu. Og væntanlega setja kjarnorkuúrganginn í einhverja fjallahella. Dúndrandi grænt! Sannleikurinn er sá að Bandaríkin sjá enga von um að geta snúið frá olíuknúnum hagvexti. Þrátt fyrir mikinn uppgang í bæði vind- og sólarorku blasir ekkert annað við en að jarðefnaeldsneyti verði áfram grundvöllurinn að efnahagskerfi Bandaríkjanna. 

Þar á bæ hafa forsetarnir í áratugi tuggið sömu klisjuna um að gera landið orkusjálfstætt. Og umhverfisvænna. Það magnaða er að líklega var það hrappurinn Nixon sem tók mörg grænustu skrefin. Eins og háðfuglinn Jon Stewart bendir á í þessu bráðskemmtilega myndbandi. Hvet alla til að horfa á og njóta!

 ------

PS: Linkurinn á Jon Stewart virðist hættur að virka. En nú er myndbandið komið á YouTube (að vísu speglað!:

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband