26.6.2011 | 02:34
Petoro

Í lögum nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis er að finna lauflétta lagagrein, sem heimilar iðnaðarráðherra að stofna félag sem komi að kolvetnisvinnslu á íslenska landgrunninu. Tekið er fram í viðkomandi lagagrein að ef slíkt félag verði sett á fót, skuli það alfarið vera eign ríkissjóðs og að það skuli ekki i starfa sem vinnslufyrirtæki. Það myndi sem sagt einungis vera hluthafi í vinnsluleyfum.
Þessi heimild til að stofna svona félag var reyndar ekki í umræddum lögum þegar þau voru upphaflega samþykkt snemma árs 2001. Ákvæðinu var ekki bætt inní lögin fyrr árið 2008. Því þá, sjö árum eftir setningu laganna, höfðu Alþingismenn og starfsfólk innan íslensku stjórnsýslunnar áttað sig á gífurlegri þýðingu norska ríkisfyrirtækisins Petoro. Fyrirtækisins sem er umfjöllunarefni Orkubloggsins í dag.

Þegar rætt er um ávinning Norðmanna af olíu- og gasvinnslunni á norska landgrunninu er jafnan mest talað um norska olíufélagið Statoil. Og norska Olíusjóðinn, sem í renna leyfisgjöld og skattgreiðslur frá kolvetnisvinnslufyrirtækjunum og arður vegna eignar norska ríkisins í Statoil. Vissulega er Statoil mikilvæg tekjulind fyrir norska ríkið - og sömuleiðir er Olíusjóðurinn risadæmi. En í reynd skiptir Petoro jafnvel ennþá meira máli, sökum þess að þetta feimnislega félag er stærsta tekjulind norska Olíusjóðsins.

Petoro er sem sagt ein mikilvægasta stoðin í norsku gullgerðarvélinni; vélinni sem 24 tíma á hverjum einasta sólarhring mokar til sín ómældum auðæfum af norska landgrunninu. Petoro er hvorki meira né minna en stærsti handhafinn að olíu- og gasvinnsluleyfum á landgrunni Noregs. Í gegnum þau leyfi ræður Petoro alls yfir um þriðjungi af öllum þekktum kolvetnisbirgðum í norsku lögsögunni. Og hlutfall þessa afslappaða ríkisfyrirtækis í olíu- og gasvinnslu á norska landgrunninu er um fjórðungur.
Það er að vísu ekki Petoro sjálft sem á vinnsluleyfin, heldur er Petoro bara umsýsluaðili. Vinnsluleyfin sem Petoro sér um, tilheyra sérstökum sjóði sem kallast Statens direkte økonomiske engasjement (SDØE) - eða State's Direct Financial Interest á ensku (þá skammstafað SDFI). Þessu mætti lýsa þannig að Petoro sé verktaki sem höndlar með eignir eignarhaldsfélagsins SDØE. Þó svo Orkubloggarinn þjáist af nákvæmnisáráttu, ætlar bloggarinn að gera líf lesenda sinna einfaldara með því að gera ekki of mikið úr skilunum milli Petoro og SDØE. Til einföldunar má segja að SDØE og Petoro sé eitt og hið sama, enda er norska ríkið eigandi að hvoru tveggja.

Það er sem sagt svo að Petoro sér um reksturinn á eignum SDØE, sem er stór hluthafi í miklum fjölda vinnsluleyfa á norska landgrunninu. Það þýðir þó ekki að Petoro sé sjálft að stússa í olíu- eða gasvinnslu (þ.e. ekki s.k. operator). Heldur er fyrirtækið einfaldlega rekstraraðili fyrir hönd SDØE, sem er bara hluthafi í viðkomandi vinnsluleyfum. Með SDØE er norska ríkið sem sagt beinn hluthafi í mörgum vinnsluleyfum. Og nýtur þá ágóðans í samræmi við eignarhald sitt og tekur sömuleiðis fjárhagslega áhættu í samræmi við eignarhald SDØE/Petoro í viðkomandi leyfum. Þeir sem svo vinna olíuna (og/eða gasið) skv. viðkomandi leyfum eru ýmis önnur fyrirtæki, sem eru einnig hluthafar í viðkomandi vinnsluleyfum (Petoro er aldrei 100% handhafi vinnsluleyfis). Þar má nefna fyrirtæki eins og Statoil, franska Total, bandaríska ExxonMobil o.s.frv.

Tilurð SDØE og Petoro má rekja til velgengni Statoil. Framan af norska olíuævintýrinu var olíuleit og -vinnsla á vegum norska ríkisins alfarið í höndum fyrirtækjanna Statoil og Norsk Hydro. Statoil var þá alfarið í eigu norska ríkisins og ríkið var að auki langstærsti hluthafinn í Norsk Hydro. Ýmis önnur útlend og einnig norsk olíufélög komu svo auðvitað líka að olíuvinnslu á norska landgrunninu. En Statoil var þar lang umsvifamest.
Á 9. áratugnum var hagnaður Norsk Hydro og þó enn frekar hagnaður Statoil af kolvetnisvinnslunni orðinn svo æpandi mikill, að menn sáu fram á að brátt yrði norska ríkið bara dvergur við hlið ofurfyrirtækisins Statoil. Margir norskir stjórnmálamenn töldu að yrði ekkert gert í málum myndi fyrirtækið nánast gleypa norska ríkið. Stærðarhlutföllin þarna á milli þóttu sem sagt orðin óheppileg. Þess vegna var nú ákveðið að breyta fyrirkomulaginu og skipta vinnsluleyfum Statoil milli félagsins annars vegar og sérstaks sjóðs í eigu norska ríkisins hins vegar. Sjóðurinn var nefndur Statens direkte økonomiske engasjement (SDØE) og skyldi hann verða hluthafi í kolvetnisvinnslu á norska landgrunninu til hliðar við Statoil.

SDØE-sjóðurinn var settur á stofn 1985 og við skiptingu á vinnsluleyfum Statoil milli fyrirtækisins og sjóðsins var almennt miðað við að 80% eignarhlutur féll í hlut SDØE og 20% til Statoil. Þrátt fyrir þessa aðgerð var Statoil falið að sjá um umsýslu eigna SDØE, þ.a. þetta breytti litlu fyrir daglega starfsemi Statoil.
En fljótlega eftir stofnun sjóðsins urðu þær raddir æ háværari í Noregi að skrá bæri Statoil á hlutabréfamarkað og gera það að alvöru einkareknu olíufélagi - félagi sem myndi keppa við önnur helstu olíufélög heimsins um víða veröld. Þetta gekk eftir um aldamótin - og árið 2001 var Statoil skráð á markað í Osló og New York. Norska ríkið er þó áfram langstærsti eigandinn að Statoil og einungis tæplega 30% hlutabréfa í fyrirtækinu eru á markaðnum.

Við þessa breytingu á Statoil þótti ekki lengur viðeigandi að fyrirtækið höndlaði með eignir SDØE. Þess vegna var Petoro sett á á fót samhliða einkavæðungunni á Statoil og skyldi þetta nýja fyrirtæki sjá um eignir SDØE. Og þangað rennur nú stille og roligt óhemju hagnaður á degi hverjum vegna eignarhaldsins í fjölmörgum vinnsluleyfum á norska landgrunninu.
Hagnaður SDØE er gríðarlegur og þar af leiðandi hefur sjóðurinn oft verið stærsti greiðandinn í norska Olíusjóðinn. Þetta sést einmitt vel á stöplaritinu hér að ofan (SDFI er skammstöfun á ensku heiti sjóðsins). Eins og sjá má er bláa súlan miklu stærri heldur en arður norska ríkisins af eign þess í Statoil. Og sum árin er blái arðurinn af SDØE meira að segja ennþá hærri tala heldur en allar skattgreiðslur af kolvetnisvinnslu á norska landgrunninu! Þetta griðarlega framlag frá SDØE/Petoro til norska Olíusjóðsins er athyglisvert í því ljósi að hluti af eignum SDØE í vinnsluleyfum á norska landgrunninu var lagður aftur til Statoil skömmu fyrir einkavæðinguna 2001. Engu að síður er Petoro bersýnlega með óhemjumikil verðmæti í höndunum og varla hægt að ímynda sér meira spennandi starfsvettvang fyrir fólk sem á annað borð hefur áhuga á að vera ríkisstarfsmenn.

Hér í upphafi þessarar færslu voru nefnd íslensku lögin um fyrirkomulag kolvetnisvinnslu á landgrunni Íslands. Sem voru upphaflega sett árið 2001 (lög nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis). Í þeim lögum var ekki að finna neitt ákvæði um svona beina aðkomu íslenska ríkisins að vinnsluleyfum. En árið 2008 var, sem fyrr segir, samþykkt ný lagagrein sem kveður á um heimild til handa iðnaðarráðherra að stofna hlutafélag í eigu ríkisjóðs um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisvinnslu á íslenska landgrunninu (og á öðrum stöðum þar sem Ísland á hlutdeild; eina dæmið þar um er líklega norski hluti Drekasvæðisins, þ.e. ákveðinn hluti norsku lögsögunnar sunnan við Jan Mayen).

Í umræddri lagagrein er sérstaklega tekið fram að félagið skuli ekki starfa sem vinnslufyrirtæki. Þarna er hugsunin bersýnilega mjög svipuð og gildir um SDØE/Petoro og augljóst að Alþingi gerir nú ráð fyrir því að mögulega gæti íslenskt Petoro orðið til. Þó svo það ætli að ganga heldur treglega að koma olíuleitinni þarna af stað, sbr. síðustu fréttir um að fresta þurfi öðru olíuleitarútboðinu. Vonandi sjáum við samt bráðum alvöru olíufyrirtæki sýna Drekasvæðinu áhuga.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.6.2011 | 00:21
Mun íslenska rokið loksins gera gagn?
Undanfarnar vikur hefur mátt sjá auglýsingar frá Landsvirkjun á nokkrum netmiðlum. Auglýsingarnar vísa til möguleika Íslands í vindorku og eru með hlekk á upplýsingasíðu um orkusýningu sem Landsvirkjun hefur sett upp í Búrfellsstöð.
Það er ekki langt síðan Landsvirkjun hóf athugun á þeim möguleika að nýta vindorkuna á Íslandi. Opinberlega komu þessar áætlanir fyrirtækisins líklega fyrst fram í vetrarbyrjun 2010. Þá flutti Úlfar Linnet, starfsmaður Landsvirkjunar, erindi í Háskólanum í Reykjavík með yfirskriftinni Vindorka: Möguleikar á Íslandi (tengillinn er á pdf-kynninguna sem flutt var við þetta tækifæri).
Þar kynnti Úlfar samnorrænt fjögurra ára verkefni, sem hófst árið 2010 og kallast IceWind. Síðar hefur Úlfar flutt fleiri kynningar um þetta verkefni og smám saman hafa fjölmiðlar tekið að sýna þessu áhuga. Um leið vakna einnig umræður og áhyggjur um hvernig vindrafstöðvarnar kunni að skemma útsýni eða verða sem óheppilegir aðskotahlutir í náttúrulegu landslagi. Þetta eru mikil mannvirki og því eðlilegt að slík umræða eigi sér stað.

IceWind-verkefnið beinist að þremur megin þáttum; í fyrsta lagi áhrifum ísingar á spaðana og annan tæknibúnað vindrafstöðvanna, í öðru lagi athugun á nýtingu vindorku á hafi úti (offshore wind) og loks í þriðja lagi fer hluti af peningunum í að rannsaka möguleika á að nýta vindorku á Íslandi og ljúka við íslenska vindatlasinn.
Hér á landi eru það Háskóli Íslands, Landsvirkjun og Veðurstofan sem eiga aðild að IceWind-verkefninu. Aðrir þáttakendur eru danski tækniháskólinn (DTU), danska vindtæknifyrirtækið Vestas, norska Statoil, norska veðurstofan, fáein norsk tæknifyrirtæki, háskólinn á Gotlandi í Svíþjóð og finnska tæknirannsóknastofnunin VTT.
Gert er áð fyrir að á vegum IceWind verði unnin fjögur doktorsverkefni og þar af tvö hér á Íslandi. IceWind gæti því orðið þýðingarmikið skref í að átta sig á því hvort og með hvaða hætti vindorka geti nýst okkur Íslendingum. Og þ.á m. hvar aðstæður eru bestar fyrir vindrafstöðvar á Íslandi.

Eflaust kannast sumir lesendur Orkubloggsins við sjónarmið þess efnis, að hér á Íslandi sé vindurinn alltof óstöðugur og óútreiknanlegar til að hann geti nýst stórum vindrafstöðvum. Slíkt tal stenst sennilega ekki skoðun; þvert á móti er líklegt að vindurinn hér bjóði upp á mun betri nýtingu vindrafstöðva en víðast hvar annars staðar í heiminum. Vonandi skýrist þetta betur með rannsóknunum í tengslum við IceWind.
Eðlilega fagnar Orkubloggarinn því að Landsvirkjun sé að skoða vindinn sem orkugjafa. Enda samrýmast þessar athuganir fyrirtækisins vel þeim niðurstöðum og tillögum sem bloggarinn setti fram í skýrslu sem hann vann var fyrir iðnaðarráðherra snemma árs 2009.
Vindrafstöðvar á Íslandi gætu að sjálfsögðu nýst til að framleiða rafmagn inn á Landsnetið. En þó ekki síður til að dæla vatni neðan vatnsaflsvirkjunar aftur upp í miðlunarlón. Síkt samspil vatnsorkuvera og vindorkuvera þekkist vel erlendis og hefur t.d. tíðkast í Sviss og talsvert verið til skoðunar í Noregi, Bretlandi og víðar.
Athygli vatnsaflsfyrirtækja hefur nú í auknum mæli beinst að því að vindorkuver geti verið hagkvæm viðbót - bjóði upp á samspil sem veiti tækifæri til að stýra raforkuframleiðslu vatnsaflsvirkjananna betur og auki arðsemi þeirra umtalsvert. Með blöndu af vatnsafli og vindorku opnast sem sagt möguleikar fyrir orkufyrirtækin til að ná ennþá betri nýtingu á vatnsaflsvirkjununum. Einnig getur þetta orðið til þess að gera slíkum fyrirtækjum auðveldara að uppfylla ýmsar reglur sem snúa að virkjununum, svo sem um gegnumrennsli, yfirfallsmagn, vatnshæð í uppistöðulónum o.fl.

Það er því kannski ekki skrýtið að sum helstu vatnsaflsfyrirtæki heimsins séu alvarlega að íhuga uppbyggingu vindorkuvera. Eitt af þeim orkufyrirtækjum sem er á fullu að vinna í slíkum verkefnum er bandaríska Bonneville Power Administration (BPA).
BPA er bandarískt ríkisorkufyrirtæki sem selur raforku frá um þrjátíu vatnsaflsvirkjunum á vatnasvæði Columbia-fljótsins í NV-hluta Bandaríkjanna. BPA kaupir sem sagt raforkuna frá þessum virkjunum og flytur hana eftir dreifikerfi sínu og selur áfram.

Nafn BPA er auðvitað dregið af hinni sögulegu Bonneville-virkjun sem liggur neðarlega í Columbia; virkjuninni sem Orkubloggið sótti einmitt heim fyrir um hálfu öðru ári síðan (myndirnar tvær hér að ofan / til hliðar eru einmitt af Bonneville-virkjuninni). Nær allar umræddar þrjátíu virkjanir á vatnasvæði Columbia eru reknar af bandarískum ríkisfyrirtækjum og -stofnunum. Margar þessara virkjana eru frá tímum New Deal, þegar Roosevelt forseti stóð fyrir miklum virkjunarframkvæmdum í NV-hluta Bandaríkjanna og víðar um landið. Meðal virkjananna á vatnasvæði Columbia er t.d. risavirkjunin Grand Coulee (tæp 6.800 MW) og nokkrar mjög stórar virkjanir í Snákafljótinu (Snake River).
Í dag er BPA sannkallað risafyrirtæki. Vatnsaflsvirkjanirnar sem útvega fyrirtækinu raforku eru samtals um 20 þúsund MW eða rúmlega tíu sinnum meira uppsett afl en Landsvirkjun er með. Vegna aukinnar áherslu á sólar- og vindorku í Bandaríkjunum hafa fjölmörk vindorkuver verið byggð á starfsvæði BPA á NV-horni Bandaríkjanna. Nú er svo komið að yfir 3.500 MW af vindafli eru tengd raforkudreifikerfi BPA og horfur á að hátt i 500 MW til viðbótar bætist þarna fljótlega við.

Til að ná sem mestri hagkvæmni út úr kerfinu öllu hefur BPA verið í nánu samstarfi við nokkur helstu vindorkufyrirtækin. Þar ber líklega hæst samstarf þeirra við spænska orkurisann Iberdrola og hefur BPA nú þróað sérstakt vindspálíkan, sem Iberdrola og önnur vindorkufyrirtæki nýta til að meta hversu mikið rafmagn vindorkuverin munu framleiða á næstu sólarhringum. Þessi spálíkön nýtast einnig vatnsaflsfyrirtækjum, sem nota þau til að meta hvernig best verði að standa að raforkuframleiðslu - t.d. í tengslum við útreikning á æskilegustu miðlunarhæð og því hversu miklu vatni eigi að sleppa í yfirföllin á næstu dögum.
Það virðist nokkuð ljóst að vatn og vindur geta spilað vel saman. Hér á landi háttar reyndar svo til, að afar hátt hlutfall af raforkunni fer til stóriðju (um 80%). Þess vegna þarf raforkukerfið hér á Íslandi að skila óvenju stöðugri framleiðslu allan sólarhringinn og má alls ekki við mikilli óvissu.

Þessi sérstaða kann að valda því að vindorka þyki lítt heppileg í íslenska dreifikerfinu. Aftur á móti gæti íslensk vindorka nýst til að dæla vatni aftur upp í miðlunarlón. Þannig mætti t.d. nýta sömu vatnsdropana í Þjórsá aftur og aftur.
Á móti kemur að enn er mikið vatnsafl (og jarðvarmi) á Íslandi óvirkjað og þeir kostir eru sennilega margir hverjir nokkuð ódýrir. Þ.e. svo ódýrir að vindorkan geti ekki keppt við þá, því vindrafstöðvar eru ennþá talsvert dýrar. Þess vegna er óvíst og kannski jafnvel ólíklegt að það borgi sig að virkja rokið á Íslandi - í bili. Engu að síður er auðvitað fyllsta ástæða fyrir Landsvirkjun að skoða slíka möguleika vandlega og komast að niðurstöðu um hagkvæmni íslenkrar vindorku. Það væri gaman ef rokið okkar gerði loksins gagn.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.6.2011 | 09:37
Norska gullgerðarvélin
Efnahagsleg velgengni Norðmanna þessa dagana er með ólíkindum. Þar ber hæst þá staðreynd að norski Olíusjóðurinn (Statens Pensjonsfond Utland eða SPU) er um þessar mundir verðmætasti fjárfestingasjóður heims í opinberri eigu.

Í norska Olíusjóðinn rennur arður af olíu- og gasvinnslu á norska landgrunninu. Þar er um að ræða leyfisgjöld vegna kolvetnisvinnslunnar, skatta á hagnað vinnslufyrirtækjanna og arð sem norska ríkið fær vegna eignar sinnar í Statoil (hlutur norska ríkisins í þessu risastóra olíufélagi er 67%).
Þann 19. nóvember 2010 skreið Olíusjóðurinn ífyrsta sinn yfir 3.000 milljarða NOK að verðmæti og um síðustu áramót var verðmæti sjóðsins nánast sléttir 3.100 milljarðar norskra króna. Nokkuð vel af sér vikið þegar haft er í huga að sjóðurinn var ekki stofnaður fyrr en árið 1990 og fyrsta greiðslan í sjóðinn kom ekki fyrr en 1996.
Sökum þess að mjög hátt hlutfall af eignum sjóðsins eru hlutabréf, sveiflast hann mikið. Ávöxtunin árið 2008 var t.d. döpur. En síðan þá hefur Norðmönnum tekist afar vel að ávaxta sitt pund og nú er sjóðurinn orðinn langverðmætasti opinberi fjárfestingasjóður veraldar (sovereign wealth fund). Næstir á eftir honum koma nokkrir sjóðir á vegum olíuríkjanna við Persaflóann.

Lengi vel var norski Olíusjóðurinn einungis í öðru sæti, talsvert langt á eftir fjárfetsingasjóði ljúflinganna í furstadæminu Abu Dhabi. En vegna afar vel heppnaðra hlutabréfakaupa Norsaranna undanfarin 2-3 ár, á sama tíma og fjárfestingar Arabanna í Abu Dhabi hafa skilað herfilegum árangri, er norski sjóðurinn nú orðinn sá verðmætasti. Og stendur nú, sem fyrr segir, í u.þ.b. 3.100 milljörðum norskra króna. Það er því ekki skrítið að hann Yngve Slyngstad, yfirmaður sjóðsins, sé kampakátur þessa dagana.
Hér er þó rétt að geta þess, að Abu Dhabi Investment Authority, sem lengst af hefur verið í efsta sætinu, er einhver leyndardómsfyllsti ríkisfjárfestingasjóður heims. Í reynd er enginn utan Abu Dhabi sem veit raunverulegt verðmæti hans. Sumir telja því að þrátt fyrir mikið skrið norska Olíusjóðsins undanfarið, sé Abu Dhabi þarna ennþá í efsta sætinu.

Það breytir því samt ekki að norski Olíusjóðurinn stendur nú í um 3.100 milljörðum norskra króna. Til að setja þetta í samhengi má nefna að 3.100 milljarðar NOK jafngilda um 570 milljörðum USD eða tæpum 66.000 milljörðum ISK. Og þessir aurar hafa safnast saman á einungis 15 árum.
Önnur ennþá skemmtilegri viðmiðun er að þetta verðmæti norska Olíusjóðsins samsvarar rúmlega 600 þúsund NOK á hvert mannsbarn í Noregi. Sem jafngildir um 13 milljónum ISK - á hvern einasta einstakling í Noregi. Eflaust myndi venjuleg íslensk 4ra manna kjarnafjölskylda þiggja það með þökkum að "eiga" nú sem nemur 52 milljónum íslenskra króna í auðlindasjóði Íslands.

En það er ekki nóg með að Norðmenn séu orðnir einhver ríkasta þjóð heims. Þar er efnahagslífið allt í miklum blóma þessa dagana (nema ef vera skyldi skipaútgerðin). Afkoma norskra fyrirtækja árið 2010 var einhver sú allra besta þegar litið er til tímabilsins 1995-2010. Einungis ofurárin 2006 og 2007 voru betri.
Meðan flest ríki heimsins prísuðu sig sæl ef þeim tókst að nýta árið 2010 til að krafla sig eilítið upp úr forarpyttinum sem þau lentu í vegna lánsfjárkreppunnar 2008, eru Norðmenn löngu komnir upp úr öldudalnum. Og eru einfaldlega á blússandi siglingu, langt á undan öllum öðrum. Þar í landi tala nú sumir um að framundan sé hinn gullni áratugur Noregs. Áratugurinn sem muni gera þá að langríkustu þjóð veraldar.
Systurnar velgengni og öfund er jafnan saman á ferð. Nú er svo komið að útlendingum er farið að ofbjóða peningastraumurinn til Noregs. Nýlegar deilur Þjóðverja og Frakka við Norðmenn um verð á gasi, eru kannski til marks um slíka óánægju.

Þannig er að Noregur er einn stærsti gasbirgir Evrópu. Evrópsk orkufyrirtæki eins og þýska E-On og franska GDF Suez eru risakaupendur að norsku gasi ogþar er norska Statoil helsti seljandinn. Sölusamningarnir eru nær allir til mjög langs tíma og gasverðið svo til alltaf bundið olíuverði.
Slíkir langtímasamningar hafa lengi verið forsenda þess að farið sé í uppbyggingu á gasvinnslu og lagningu langra gasleiðslna. Þ.á m. eru gaslagnirnar sem liggja þvers og kruss eftir botni Norðursjávar og flytja norskt gas til nágrannalandanna hinumegin við Norðursjó.

En gasmarkaðir hafa verið að breytast talsvert mikið allra síðustu árin. Stóraukin gasvinnsla í Bandaríkjunum hefur valdið mikilli lækkun á gasverði þar í landi og þessi þróun hefur nú borist til Evrópu.
Fyrir vikið hefur spot-verð á gasi engan veginn náð að halda í hátt olíuverð og gaskaupendur forðast nýja langtímasamninga. En vegna langtímasamninga evrópsku orkufyrirtækjanna við Statoil, hefur evrópskur almenningur og fyrirtæki áfram þurft að greiða mjög hátt verð fyrir norska gasið - í gegnum viðskipti sín við orkufyrirtækin heima fyrir sem kaupa gasið beint frá gasvinnslusvæðunum á norska landgrunninu. Verðið á gasinu í langtímasamningum Statoil við t.d. GDF Suez er t.a.m. meira en helmingi hærra en spot-verðið hefur verið undanfarið.
Stóru frönsku orkufyrirtækin hafa í meira en ár verið í viðræðum við Statoil um að lækka verð á gasinu - í átt að því verði sem spot-markaðurinn gefur færi á. Statoil hefur brugðist við þessum umleitunum af mikilli ljúfmennsku. Samt liggur enn ekkert samkomulag fyrir og áfram streymir rándýrt gasið eftir pípulögnum frá gasvinnslusvæðunum á norska landgrunninu og þaðan til orkufyrirtækjanna í Evrópu.
Þarna eru miklir hagsmunir í húfi. Sem fyrr segir eru evrópsku orkufyrirtækin að borga um helmingi hærra verð fyrir norska gasið en gengur og gerist á spot-markaði með gas. Og þessi innflutningur á norsku gasi til meginlands Evrópu er ekki bara sem nemur fáeinum gaskútum. GDF Suez, sem er eitt stærsta orkufyrirtæki Evrópu, fær næstum fjórðunginn af öllu sínu gasi frá Statoil. Á síðasta ári (2010) borgaði þetta franska risafyrirtæki um 17 milljarða NOK fyrir gasið frá Noregi (upphæðin jafngildir um 360 milljörðum ISK). Sama ár nam öll gassala Statoil til Evrópu u.þ.b. 162 milljörðum NOK (meira en 3.400 milljarðar ISK). Og 90% af öllu því gasi er selt skv. langtímasamningum

Ef við gefum okkur að "sanngjarnt" verð fyrir þetta gas sé helmingi lægra en verið hefur, sést að það eru engir smáaurar í húfi. Nú er svo komið, að evrópsku orkufyrirtækjunum er nóg boðið og eru þau farin að hóta Norsurunum málaferlum til að ná fram verðlækkun. Hvort sú krafa er á grundvelli meintra brostinna forsenda langtímasamninganna eða byggð á öðrum lagarökum, hefur Orkubloggarinn ekki upplýsingar um. En þegar maður les norsku blöðin virðist ljóst að Statoil sé nánast farið að blygðast sín fyrir geggjaðan gróðann af gassölunni til Evrópu.
Það er til marks um mikinn hagnað Norðmanna af gassölunni, að á síðustu tíu árum hefur sala þeirra á gasi tvöfaldast en tekjurnar þrefaldast. Gasið hefur sem sagt, rétt eins og olían, verið þeim sem gullgerðarvél.
Hagnaðurinn af gassölu Norðmanna er það mikill að Statoil gæti vel kyngt einhverri lækkun - jafnvel umtalsverðri. Og þrátt fyrir slíka lækkun er augljóst að Noregur er áfram í góðum málum efnahagslega. Enda æðir nú fasteignaverðið þar í landi upp - og vegna þenslunnar bráðvantar vinnuafl af ýmsu tagi.

Það er til marks um uppganginn í Noregi að sæmileg blokkaríbúð í Osló kostar nú sem nemur um 80 milljónum ISK. Og þokkalegt einbýlishús þar í borg er á u.þ.b. 200 milljónir ISK. Fyrir Íslendinga sem sækja þessa notalegu borg heim, er alltaf freistandi að rölta niður á Aker Brygge, velja sér gott sæti við sjóinn og horfa á sólina speglast í fögrum Oslófirðinum. Og þá kannski ósjálfrátt velta fyrir sér hvort ekki væri upplagt að fá sér íbúð þarna við bryggjuna. T.d. þessa hér við Bryggegata 16. Verðið er ekki nema 830 milljónir íslenskra króna. Greinilega skemmtilegur fasteignamarkaðurinn í Noregi; landinu sem er og verður heimili ríkustu þjóðar veraldarinnar. Ætli einhver norsk vegabréf séu á lausu fyrir afkomendur Snorra Sturlusonar?
11.6.2011 | 00:13
Beutel kurteis við Pickens
Ótrúlegt en satt. Sádunum mistókst að fá OPEC til að samþykkja að auka olíuframleiðsluna.
Á fundi fyrr í vikunni höfnuðu alls 7 af aðildarríkjum OPEC tillögu Sádanna um framleiðsluaukningu. Auðvitað er gott fyrir olíuútflutningsríkin að fá sem allra mest fyrir olíudropana sína - og þess vegna skiljanlegt að a.m.k. sum þeirra kæri sig ekkert um að auka olíuframboð með tilheyrandi lækkun olíuverðs.

En Sádarnir hafa áhyggjur af því að olíuverð sé orðið svo hátt, að það muni hægja mjög á efnahagsvexti í heiminum og það valdi óheppilegri óvissu. Betra sé að stuðla að jafnvægi með því að olíuverð lækki. Þess vegna vilja Sádarnir að OPEC auki framleiðsluna núna um 1,5 milljón tunnur á dag og vilja ná olíuverðinu niður í ca. 75-80 USD (er nú um 100 dollarar á Nymex og tæpir 120 dollarar í London!).
Þeir eru reyndar margir sem segja að með þessari stefnu séu Sádarnir bara að hlýða fyrirskipunum frá Washington DC. Stjórnvöldum í Riyjadh sé umhugað að halda góðu sambandi við Bandaríkjastjórn. Ekki síst ef "arabíska vorið" breiðist út til Saudi Arabíu. Sádarnir vilji því verða við óskum bandarískra stjórnvalda um að auka olíuframboð.
En hver svo sem ástæðan er, þá lagði ljúflingurinn Ali al-Naimi, olíumálaráðherra Sádanna, hart að félögum sínum í OPEC á fundi fyrr í vikunni að auka framleiðslukvótana. Þannig að dagleg olíuframleiðsla OPEC fari úr tæplega 29 milljónum tunna í 30,3 milljón tunnur á dag.

Aldrei þessu vant þurfti ljúflingurinn Ali al-Naimi að láta í minni pokann að þessu sinni. Hann fékk stuðning nágranna sinna við Persaflóann, en Venesúela og Íran vildu ekki heyra minnst á framleiðsluaukningu. Segja slíkt undirlægjuhátt við sjálfan djöfulinn í DC. En það hrikalegasta fyrir Al-Naimi var að Alsír, Angóla, Ekvador, Líbýa og Írak studdu öll sjónarmið Írans og Venesúela.
Það voru sem sagt 7 af 12 aðildarríkjum OPEC á móti tillögu Al-Naimi's! Og Nígería sat hjá. Einungis nágrannarnir við Persaflóann greiddu atkvæði með tillögu Sádanna. Al-Naimi var ekki skemmt og sagði þetta einhvern allra versta fund OPEC nokkru sinni!
Það er samt engan bilbug á kallinum að finna. Sádarnir segjast einfaldlega munu auka framleiðsluna einhliða og fullyrða að þeir muni koma henni í um 10 milljón tunnur síðar í sumar (framleiðsla Sádanna undanfarið hefur verið um 8,8 milljón tunnur á dag). Það skondna er að samþykkt á tillögu Sádanna hefði gefið svo til nákvæmlega sömu niðurstöðu. Sádarnir eru nefnilega eina þjóðin sem getur aukið olíuframleiðsluna umtalsvert með stuttum fyrirvara. Það að ekki náðist samstaða á þessum fundi OPEC er þess vegna fyrst og fremst til marks um nokkuð óvænta pólítíska sundrungu innan samtakanna.

Þar er ekki aðeins um að ræða mismunandi viðhorf gagnvart Bandaríkjunum. Heldur er þessi ágreiningur jafnvel enn frekar til marks um óvissuna sem uppreisnirnar í N-Afríku og Mið-Austurlöndum hafa valdið. Þessi opinbera sundrung, sem hugsanlega hefði mátt komast hjá með hljóðlegum viðræðum aðildarríkja OPEC utan kastljóssins í stað þess að kalla saman formlegan fund, gæti jafnvel verið fyrsta skrefið að falli OPEC. A.m.k. í þeirri mynd sem samtökin hafa verið undanfarin áratug.
Sundrung innan OPEC gæti orðið góð sprauta fyrir efnahagslíf þeirra ríkja sem þurfa að flytja inn mikið af olíu. Síðast þegar samstaðan innan OPEC rofnaði alvarlega varð afleiðingin sú að olía varð næstum ókeypis. Tunnan fór niður í um 10 dollara, sem á verðlagi dagsins í dag jafngildir u.þ.b. 15 dollurum. Það yrði aldeilis gaman að fylla jeppatankinn ef þetta endurtæki sig. Þvílíkt hrun á olíuverði yrði aftur á móti hvorki skemmtilegt fyrir Sádana né önnur aðildarríki OPEC, sem flest byggja nær allar útflutningstekjur sínar á olíu (og/eða gasi). Þess vegna eru lönd eins og Venesúela, Angóla og Alsír að taka verulega áhættu með því að standa uppi í hárinu á Sádunum og þar með eyðileggja samstöðuna innan OPEC. Það er eiginlega með öllu óskiljanlegt að peðin innan OPEC séu með þessa stæla. Þau ættu að vita betur.
Kannski eru stjórnvöld þessara landa barrasta farin að trúa spádómum Bölmóðanna. Sem segja að í reynd geti Sádarnir ekki aukið framleiðsluna eins mikið og þeir segjast. Að yfirlýsingar Sádanna um að keyra í 10 milljón tunnur daglega strax í sumar séu draumórar. Framleiðslan í Saudi Arabíu sé í reynd nálægt hámarki og einungis sáralítill böffer fyrir hendi.

Já - nú spretta Peak-Oil-Bölmóðar fram úr öllum skúmaskotum. Og eins gott að Ali al-Naimi og félagar hans í eyðimörkinni sanni það í einum grænum að blessaðir Sádarnir klikka aldrei. Því ef þeir bregðast núna og ná ekki að framleiða í þennan nýja einhliða kvóta sinn, er hætt við að skelfing grípi um sig á olíumörkuðunum. Að sú furðulega staða komi upp að olíuverð æði upp, þrátt fyrir frekar slappt efnahagsástand í Bandaríkjunum. Slíkt yrði einsdæmi og er sviðsmynd sem Vesturlönd kæri sig alls ekki um.
Það eru vel að merkja um tíu ár liðin síðan Sádarnir síðast náðu tíu milljón tunnum af olíu úr jörðu á einum degi. Meira að segja vorið geggjaða árið 2008, þegar olíueftirspurn virtist takmarkalaus og allir sem vettlingi gáti valdið dældu eins miklu olíugumsi útá markaðinn eins og mögulegt var, náði framleiðsla Sádanna ekki nema u.þ.b. 9,7 milljón tunnum. Það er því kannski engin furða að efasemdir séu nú um að Sádarnir geti sisvona aukið framleiðsluna í 10 milljón tunnur. Og takist þeim ekki að standa við stóru orðin... úff.

Engu að síður; í guðanna bænum ekki hlusta á bullið í Bölmóðunum. Sádarnir segjast léttlega geta farið alla leið í 13 milljón tunnur og 10 milljón tunnur verði því leikur einn. Minnumst þess líka að bandaríski olíuspekingurinn Peter Beutel, sagði nýlega að í reynd ætti olíuverð ekki að vera nema ca. 10 dollarar tunnan nú um stundir.
Þó svo sú fullyrðing hafi kannski bara verið lauflétt grín hjá Beutel, er Orkubloggarinn sannfærður um að hátt olíuverð nú um stundir hefur ekkert með lítið olíuframboð eða mikinn olíubruna að gera. Þarna er þvert á móti um að kenna óvissu efnahagsástandi, sem hefur skapað óvenjuega mikla spákaupmennsku með olíu. Sádarnir hafa til þessa verið traustir trúarleiðtogar okkar olíufíklanna og engin ástæða til að missa trúna á þá.

Beutel var aftur mættur á CNBC nú í vikunni. Ásamt besta vini Orkubloggsins, T Boone Pickens. Pickens er samur við sig og segir olíuverð í lok ársins verða í kringum 120-125 USD tunnan. Segir ekki séns að Sádarnir nái 10 milljón tunnum. Sic.
Beutel var kurteis gagnvart Pickens; nefndi enga 10 dollara í þetta sinn, sagði Pickens vera "great American" og að líklega fari olíverð ekki neðar en ca. 75-80 USD. Sem er ekkert annað en verðið sem Sádarnir álíta sanngjarnt. Rökrétt spá sem er líkleg til að ganga eftir.

En það er óneitanlega æsispennandi sumar framundan á olíumörkuðunum. Sumarið 2011 þegar loksins reynir af alvöru á framleiðslugetu Sádanna! Orkubloggarinn ætlar að njóta hinna björtu nátta norðursins. Og þá er ekkert vit í að eyðileggja stemninguna, með því að hafa veðjað gegn Ali al-Naimi. Sádarnir hafa ekki brugðist Orkubloggaranum síðan hann byrjaði að spá í svarta gullið. Varla fara þeir að taka upp á því núna - er það nokkuð?
Viðskipti og fjármál | Breytt 12.6.2011 kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.6.2011 | 08:34
Olía í norðri
Nú í morgun var að hefjast kynning á vegum Orkustofnunar í olíubænum Stavanger á vesturströnd Noregs. Þar sem reyna á að vekja áhuga manna á því að leita að olíu og gasi á Drekasvæðinu.
Í Stafangri eru Íslendingarnir komnir í einhvern mesta þekkingarbrunn olíuleitar og -vinnslu í Norðurhöfum. Landgrunnsolía Norðursjávar er löngu þekkt og sömuleiðis mikil olía út af vesturströnd Noregs. Heimskautasvæðin evrópsku hafa aftur á móti verið treg til að skila mönnum olíu. Til að mynda leituðu bæði Rússar og Norðmenn árangurslaust eftir olíu í Barentshafi í heilan aldarfjórðung. En fundu ekki deigan dropa.

Sú leit var samt alls ekki árangurslaus. Því þarna í Barentshafi fundust fyrir fáeinum árum æpandi miklar gaslindir. Fyrir vikið stunda Norðmenn nú umfangsmikla gasvinnslu á Mjallhvítar-svæðinu og einnig er verið að byggja upp gasvinnslu á Golíat-svæðinu skammt frá. Það fundust einnig stórar gaslindir Rússlandsmegin lögsögunnar í Barentshafi, sem kallast Shtokman. Og EF kolvetnisauðlindir finnast á Drekasvæðinu norðvestur af Íslandi gæti einmitt verið að þær yrðu aðallega í formi jarðgass fremur en olíu.
Þetta merkir þó alls ekki að olía sé útilokuð á landgrunnssvæðunum langt í norðri. Það gerðist nefnilega á sjálfan allt-í-plati-daginn 1. apríl s.l. (2011) að norska olíu-undrið Statoil gat sent frá sér fréttatilkynningu þess efnis að loksins, eftir aldarfjórðungsleit og samtals um 80 þurra brunna, hefði borinn í Barentshafi hitt í mark!

Það er svo sannarlega gleðilegt að rétt í þann mund sem Norðmenn voru farnir að hafa verulegar áhyggjur vegna þverrandi olíulinda í norsku lögsögunni, eru nú að opnast þar ný vinnslusvæði. Það er því engin furða að undrabarnið hann Helgi Lund, forstjóri Statoil, brosi út að eyrum.
Þetta nýjasta svæði ljúflinganna hjá Statoil er kallað Skrugard. Þarna telja menn sig vera búna að finna um 250 milljón tunnur af vinnanlegri olíu. Og að þetta sé bara smjörþefurinn af því sem norsku heimskautasvæðin eigi eftir að gefa af sér. Loksins geta menn í alvöru leyft sér að trúa því, að þarna sé vinnanlega olíu að hafa. Og það að öllum líkindum talsvert mikla olíu.

Sjálfir segja Norðmenn þetta merkasta viðburðinn í norskri olíusögu síðustu 10-20 árin. Þess vegna er svolítið broslegt að hjá Statoil fögnuðu menn þessum miklu tímamótum í olíuleit í Barentshafi með því að skála í áfengislausu kampavíni. Norska naumhyggjan greinilega allsráðandi. Og íslenskur apaútrásarhugsunarháttur víðs fjarri. Jamm - Norsararnir vinna alltaf.
Orkustofnunin íslenska verður líklega bara að vona að þessi nýjasta olíulind á norska landgrunninu verði ekki til þess að Barentshafið hirði alla athygli þeirra sem áhuga hafa á olíuleit í norðrinu. Vandamálið við Drekasvæðið er að það er algert virgin territory. Núna þegar menn fá hungraðan Barents-glampa í augun, er hætt við að óþekktur Drekinn þyki svolítið ægilegur og áhættusamur.
Á móti kemur að EF Drekasvæðið hefur mikið að geyma, er svolítið glatað ef enginn alvöru player er tilbúinn í áhættuna. Að verða brautryðjandi á svæðinu gæti skilað geggjuðum ávinningi. Kannski væri ráð að Orkustofnun og íslensk stjórnvöld viðurkenni að þau eru byrjendur í faginu. Og leiti einfaldlega eftir beinum samningum við Statoil og kannski líka ítalska ENI um olíuleit á Drekasvæðinu (ENI er nefnilega líka með mikla reynslu af Norðrinu) .

Kannski gætu þeir hjá Statoil meira að segja sent sama flotpall á svæðið; sjálft tækniundrið Polar Pioneer frá Transocean, sem er sérhannaður til olíuleitar á heimskautasvæðunum unaðslegu.
Úr því sem komið er verður þó líklega að ljúka við þetta annað útboð á olíuleitarleyfum á Drekanum. Og vonast eftir því að eftirspurnin verði allt önnur og betri núna en var þegar fyrsta útboðið floppaði gjörsamlega á fyrri hluta árs 2009. Vonandi var það fall barrrasta fararheill.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)