Beutel kurteis við Pickens

Ótrúlegt en satt. Sádunum mistókst að fá OPEC til að samþykkja að auka olíuframleiðsluna.

Á fundi fyrr í vikunni höfnuðu alls 7 af aðildarríkjum OPEC tillögu Sádanna um framleiðsluaukningu. Auðvitað er gott fyrir olíuútflutningsríkin að fá sem allra mest fyrir olíudropana sína - og þess vegna skiljanlegt að a.m.k. sum þeirra kæri sig ekkert um að auka olíuframboð með tilheyrandi lækkun olíuverðs.

ali-al-naimi-not-happy-2011.jpg

En Sádarnir hafa áhyggjur af því að olíuverð sé orðið svo hátt, að það muni hægja mjög á efnahagsvexti í heiminum og það valdi óheppilegri óvissu. Betra sé að stuðla að jafnvægi með því að olíuverð lækki. Þess vegna vilja Sádarnir að OPEC auki framleiðsluna núna um 1,5 milljón tunnur á dag og vilja ná olíuverðinu niður í ca. 75-80 USD (er nú um 100 dollarar á Nymex og tæpir 120 dollarar í London!).

Þeir eru reyndar margir sem segja að með þessari stefnu séu Sádarnir bara að hlýða fyrirskipunum frá Washington DC. Stjórnvöldum í Riyjadh sé umhugað að halda góðu sambandi við Bandaríkjastjórn. Ekki síst ef "arabíska vorið" breiðist út til Saudi Arabíu. Sádarnir vilji því verða við óskum bandarískra stjórnvalda um að auka olíuframboð.

En hver svo sem ástæðan er, þá lagði ljúflingurinn Ali al-Naimi, olíumálaráðherra Sádanna, hart að félögum sínum í OPEC á fundi fyrr í vikunni að auka framleiðslukvótana. Þannig að dagleg olíuframleiðsla OPEC fari úr tæplega 29 milljónum tunna í 30,3 milljón tunnur á dag.

ahmadinejad_chavez_iran-venezuela.jpg

Aldrei þessu vant þurfti ljúflingurinn Ali al-Naimi að láta í minni pokann að þessu sinni. Hann fékk stuðning nágranna sinna við Persaflóann, en Venesúela og Íran vildu ekki heyra minnst á framleiðsluaukningu. Segja slíkt undirlægjuhátt við sjálfan djöfulinn í DC. En það hrikalegasta fyrir Al-Naimi var að Alsír, Angóla, Ekvador, Líbýa og Írak studdu öll sjónarmið Írans og Venesúela.

Það voru sem sagt 7 af 12 aðildarríkjum OPEC á móti tillögu Al-Naimi's! Og Nígería sat hjá. Einungis nágrannarnir við Persaflóann greiddu atkvæði með tillögu Sádanna. Al-Naimi var ekki skemmt og sagði þetta einhvern allra versta fund OPEC nokkru sinni!

Það er samt engan bilbug á kallinum að finna. Sádarnir segjast einfaldlega munu auka framleiðsluna einhliða og fullyrða að þeir muni koma henni í um 10 milljón tunnur síðar í sumar (framleiðsla Sádanna undanfarið hefur verið um 8,8 milljón tunnur á dag). Það skondna er að samþykkt á tillögu Sádanna hefði gefið svo til nákvæmlega sömu niðurstöðu. Sádarnir eru nefnilega eina þjóðin sem getur aukið olíuframleiðsluna umtalsvert með stuttum fyrirvara. Það að ekki náðist samstaða á þessum fundi OPEC er þess vegna fyrst og fremst til marks um nokkuð óvænta pólítíska sundrungu innan samtakanna.

gaddafi-economist-feb-2010.jpg

Þar er ekki aðeins um að ræða mismunandi viðhorf gagnvart Bandaríkjunum. Heldur er þessi ágreiningur jafnvel enn frekar til marks um óvissuna sem uppreisnirnar í N-Afríku og Mið-Austurlöndum hafa valdið. Þessi opinbera sundrung, sem hugsanlega hefði mátt komast hjá með hljóðlegum viðræðum aðildarríkja OPEC utan kastljóssins í stað þess að kalla saman formlegan fund, gæti jafnvel verið fyrsta skrefið að falli OPEC. A.m.k. í þeirri mynd sem samtökin hafa verið undanfarin áratug.

Sundrung innan OPEC gæti orðið góð sprauta fyrir efnahagslíf þeirra ríkja sem þurfa að flytja inn mikið af olíu. Síðast þegar samstaðan innan OPEC rofnaði alvarlega varð afleiðingin sú að olía varð næstum ókeypis. Tunnan fór niður í um 10 dollara, sem á verðlagi dagsins í dag jafngildir u.þ.b. 15 dollurum. Það yrði aldeilis gaman að fylla jeppatankinn ef þetta endurtæki sig. Þvílíkt hrun á olíuverði yrði aftur á móti hvorki skemmtilegt fyrir Sádana né önnur aðildarríki OPEC, sem flest byggja nær allar útflutningstekjur sínar á olíu (og/eða gasi). Þess vegna eru lönd eins og Venesúela, Angóla og Alsír að taka verulega áhættu með því að standa uppi í hárinu á Sádunum og þar með eyðileggja samstöðuna innan OPEC. Það er eiginlega með öllu óskiljanlegt að peðin innan OPEC séu með þessa stæla. Þau ættu að vita betur.

Kannski eru stjórnvöld þessara landa barrasta farin að trúa spádómum Bölmóðanna. Sem segja að í reynd geti Sádarnir ekki aukið framleiðsluna eins mikið og þeir segjast. Að yfirlýsingar Sádanna um að keyra í 10 milljón tunnur daglega strax í sumar séu draumórar. Framleiðslan í Saudi Arabíu sé í reynd nálægt hámarki og einungis sáralítill böffer fyrir hendi.

ali-al-naimi-microphone.jpg

Já - nú spretta Peak-Oil-Bölmóðar fram úr öllum skúmaskotum. Og eins gott að Ali al-Naimi og félagar hans í eyðimörkinni sanni það í einum grænum að blessaðir Sádarnir klikka aldrei. Því ef þeir bregðast núna og ná ekki að framleiða í þennan nýja einhliða kvóta sinn, er hætt við að skelfing grípi um sig á olíumörkuðunum. Að sú furðulega staða komi upp að olíuverð æði upp, þrátt fyrir frekar slappt efnahagsástand í Bandaríkjunum. Slíkt yrði einsdæmi og er sviðsmynd sem Vesturlönd kæri sig alls ekki um.

Það eru vel að merkja um tíu ár liðin síðan Sádarnir síðast náðu tíu milljón tunnum af olíu úr jörðu á einum degi. Meira að segja vorið geggjaða árið 2008, þegar olíueftirspurn virtist takmarkalaus og allir sem vettlingi gáti valdið dældu eins miklu olíugumsi útá markaðinn eins og mögulegt var, náði framleiðsla Sádanna ekki nema u.þ.b. 9,7 milljón tunnum. Það er því kannski engin furða að efasemdir séu nú um að Sádarnir geti sisvona aukið framleiðsluna í 10 milljón tunnur. Og takist þeim ekki að standa við stóru orðin... úff.

peter-beutel_kudlow-report-may-2011.png

Engu að síður; í guðanna bænum ekki hlusta á bullið í Bölmóðunum. Sádarnir segjast léttlega geta farið alla leið í 13 milljón tunnur og 10 milljón tunnur verði því leikur einn. Minnumst þess líka að bandaríski olíuspekingurinn Peter Beutel, sagði nýlega að í reynd ætti olíuverð ekki að vera nema ca. 10 dollarar tunnan nú um stundir.

Þó svo sú fullyrðing hafi kannski bara verið lauflétt grín hjá Beutel, er Orkubloggarinn sannfærður um að hátt olíuverð nú um stundir hefur ekkert með lítið olíuframboð eða mikinn olíubruna að gera. Þarna er þvert á móti um að kenna óvissu efnahagsástandi, sem hefur skapað óvenjuega mikla spákaupmennsku með olíu. Sádarnir hafa til þessa verið traustir trúarleiðtogar okkar olíufíklanna og engin ástæða til að missa trúna á þá. 

boone-pickens-kudlow-report-may-2011.png

Beutel var aftur mættur á CNBC nú í vikunni. Ásamt besta vini Orkubloggsins, T Boone Pickens. Pickens er samur við sig og segir olíuverð í lok ársins verða í kringum 120-125 USD tunnan. Segir ekki séns að Sádarnir nái 10 milljón tunnum. Sic.

Beutel var kurteis gagnvart Pickens; nefndi enga 10 dollara í þetta sinn, sagði Pickens vera "great American" og að líklega fari olíverð ekki neðar en ca. 75-80 USD. Sem er ekkert annað en verðið sem Sádarnir álíta sanngjarnt. Rökrétt spá sem er líkleg til að ganga eftir.

ali-al-naimi-opec-sign.jpg

En það er óneitanlega æsispennandi sumar framundan á olíumörkuðunum. Sumarið 2011 þegar loksins reynir af alvöru á framleiðslugetu Sádanna! Orkubloggarinn ætlar að njóta hinna björtu nátta norðursins. Og þá er ekkert vit í að eyðileggja stemninguna, með því að hafa veðjað gegn Ali al-Naimi. Sádarnir hafa ekki brugðist Orkubloggaranum síðan hann byrjaði að spá í svarta gullið. Varla fara þeir að taka upp á því núna - er það nokkuð?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Hér er nýleg pæling um það hversu stór hluti af olíuviðskiptum núna er eingöngu vegna geggjaðrar spákaupmennsku:

http://ilene.typepad.com/ourfavorites/2011/06/floor-test-thursday.html

Ketill Sigurjónsson, 11.6.2011 kl. 15:12

2 identicon

Sæll.

Hér er áhugaverður glærupakki frá franska olíufélaginu Total sem er það stóra olíufyrirtæki sem einna helst hefur tekið undir möguleikann á Peak Oil. Þeir eru kannski ekki eins svartsýnir og mestu bölmóðarnir en samt áður telja meiri takmörk á þessu en margir aðrir. Ég get ekki betur séð en þeir spái hámarki framleiðslunnar í 95 milljónum tunnum á dag á árabilinu 2020-2030.

http://www.aspo9.be/assets/ASPO9_Wed_27_April_Mauriaud.pdf

Páll F (IP-tala skráð) 12.6.2011 kl. 11:03

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Páll F (IP-tala skráð) 12.6.2011 kl. 11:03; takk fyrir þetta. Án gríns; ég var einmitt að skoða þessa kynningu Total í gærkvöldi! Og vídeo frá kynningunni sem má líka nálgast á netinu (http://webcast.streamdis.eu/mediasite/SilverlightPlayer/Default.aspx?peid=06f1d67f6de24b0eac215e454fc869911d). Þetta er sérstaklega athyglisvert, því Total er eitt af stóru olíufélögunum og óvenjulegt að þau félög séu svona... raunsæ.

Ketill Sigurjónsson, 12.6.2011 kl. 12:06

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þúsund þakkir fyrir þína áhugaverðu pistla.. aldrei hélt ég að ég mundi fá áhuga á orkumálum , en þér hefur tekist að glæða þann áhuga sl ár með pistlunum þínum :)

Óskar Þorkelsson, 12.6.2011 kl. 15:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband