18.7.2011 | 00:15
Olían í Suður-Súdan
Þegar litið er til viðmiðana eins og barnadauða, menntunar eða samgangna þá er Suður-Súdan eitthvert vanþróaðasta samfélag heimsins. Engu að síður fagnaði fólkið þar af einlægni nýfengnu sjálfstæði sínu um nú fyrr í mánuðinum.

Súdan er um margt ævintýralegt land. Norðurhlutinn er hluti af hinni fornu Núbíu og höfuðborgin Khartoum liggur þar sem mætast stórfljótin Bláa-Níl og Hvíta-Níl. Þetta er gríðarlega stórt land; alls er flatarmálið um 2,5 milljón ferkílómetrar og íbúarnir eru um 45 milljónir. Um 10 milljónir af þessum 45 búa í suðurhlutanum, sem svo lengi hefur barist fyrir sjálfstæði frá norðurhlutanum. Og nú hefur það magnaða gerst. Frá og með laugardeginum fyrir viku síðan, er Suður-Súdan orðið sjálfstætt ríki.
Framan af 20. öldinni var þetta landsvæði hluti af nýlendum Breta í Afríku. Loks árið 1956 varð Súdan sjálfstætt ríki. En vandamálið var bara, eins og svo víða í Afríku, að það bjó ekki ein sameinuð þjóð innan landamæra hins nýja ríkis. Í norðurhluta Súdans ríkja múslímar með sterk arabísk tengsl. Í suðri búa aftur á móti aðallega blökkumenn, sem flestir eru kristnir og vilja ekkert af Múhameð spámanni vita.
Fyrir vikið var aldrei nein almennileg sátt eða þjóðarsamstaða fyrir hendi. Enda fór svo að um leið og Súdan varð sjálfstætt hóftst blóðug borgarastyrjöld milli norðurs og suðurs. Hún stóð nær sleitulaust hálfa öld, með vopnahléum af og til. Það var svo árið 2002 að samkomulag tókst um að suðurhlutinn fengi að kjósa um sjálfstæði frá norðurhlutanum.

Allt frá árinu 1989 hefur maður að nafni Omar Hassan Ahmad Al-Bashir ráðið ríkjum í Súdan í skjóli hervalds. Síðan hann rændi völdum er talið að um tvær milljónir manna hafi látið lífið í borgarastríðinu milli norðurs og suðurs. Stjórn Bashir's hefur líka orðið alræmd á Vesturlöndum fyrir stuðning við hryðjuverkamenn af ýmsu tagi. Og ekki síður vegna harðstjórnar og manndrápa í héraðinu Darfur í V-Súdan, en talið er að þar hafi 200-400 þúsund manns verðið drepin á nokkrum árum.
Súdan er olíuríki; nær allar útflutningstekjur Súdana koma frá olíu. Um 85% vinnslunnar kemur frá svæðum í Suður-Súdan, en allur olíuutflutningurinn fer engu að síður um Norður-Súdan. Súdan er nefnilega að miklu leyti landlukt og eini aðgangurinn að sjó er að Rauðahafi í norð-austur-horni landsins (þ.e. í Norður-Súdan). Þangað streymir olían frá vinnslusvæðunum í Suður-Súdan; fyrst til olíuhreinsunarstöðva í Norður-Súdan og þaðan um borð í olíuskip í hafnarborginni Port Sudan við Rauðahaf (sbr. kortið hér efst).

Svo til öll olíuskipin sem leggja úr höfn frá Port Súdan sigla til Asíu - flest þeirra til Kína. Kínverjar hafa verið stórtækir í að fjárfesta í olíuvinnslu í Súdan, en þar fer kínverska ríkisolíufyrirtækið China National Petroleum Corporation (CNPC) fremst í flokki. Mestöll olíuvinnsla í landinu er í höndum félags sem kallast Greater Nile Petroleum Operating Company (GNPOC), en þar er einmitt kínveska CNPC langstærsti hluthafinn (með 40% hlut - enda er skammstöfun þessara tveggja félaga skemmtilega lík). Afgangur hlutabréfanna í GNPOC er svo nær allur í höndum tveggja annarra olíufélaga; annað þeirra er indverska olíufélagið ONGC (sem indverska ríkið á að 3/4 hlutum) og hitt er ríksiolíufélagið Petronas í Malasíu.

Það eru sem sagt ríkisolíufélög frá Asíu sem hafa með höndum mestalla olíuvinnslu í Súdan. Örfá vestræn olíufélög eru í landinu, en það eru allt minni spámenn. Það er ekki bara áhugi asísku olíufélaganna sem er lykillinn að yfirburðum þeirra í olíuvinnslunni í Súdan. Það er nefnilega svo að bandarísk fyrirtæki hafa um árabil ekki mátt stunda olíuviðskipti í Súdan. Það kemur til vegna viðskiptaþvingana sem Bandaríkjastjórn setti á landið vegna stuðnings súdanskra stjórnvalda við hryðjuverkasamtök.
Þetta nýttu Kínverjarnir sér til að styrkja enn frekar stöðu sína í olíuvinnslunni í Súdan. Svo er það reyndar staðreynd að oft koma viðskiptaþvinganir gegn ríkjum verst niður á þeim sem síst skyldi, þ.e. fátækum almenningi. Kínverjarnir hjá CNPC er meðvitaðir um samfélagsáhrif sín og veita heilbrigðisþjónustu og margt fleira samhliða því að dæla upp olíu úr súdanskri jörðu og um borð í kínversk olíuskip.
Vegna atburðanna í Darfúr er Bashir, forseti Súdans, vel að merkja opinberlega eftirlýstur af Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum. En kínversk stjórnvöld hafa mótmælt handtökuskipun dómstólsins á hendur Bashir! Það gengur svona - þegar olían er annars vegar.

Hin nýju stjórnvöld í Suður-Súdan segjast fljótlega ætla að byggja fyrstu olíuhreinsunarstöðina þar í landi og svo leggja olíuleiðslu til Indlandshafs, í gegnum Kenýa. Það myndi gjörbreyta strategískri stöðu þessa nýsjálfstæða lands, sem nú framleiðir um 85% allrar olíu í Súdan og þarf að flytja hana alla til hreinsunarstöðva í N-Súdan.
En hvort af þessu verður gæti í reynd verið í höndum Kínverjanna, fremur en Suður-Súdana, sem hafa líklega hvorki fjárhagslega getu né tæknilega þekkingu til að ráðast í svona risaverkefni. Svo er reyndar líklegt að Bashir og félagar hans í norðri muni alls ekki kyngja slíkum áformum þegjandi og hljóðalaust.

Þegar eru uppi harðar deilur milli súdönsku ríkjanna um skiptingu olíteknanna. Í dag er olíuframleiðslan í Suður-Súdan um 350 þúsund tunnur á dag. Að auki eru framleiddar um 150 þúsund tunnur daglega á svæðunum sem tilheyra Norður-Súdan. Olíutekjurnar undanfarin ár hafa numið hátt í 95% af öllum útflutningstekjum Súdans, en fyrir Suður-Súdan er hlutfallið ennþá hærra eða um 98%! Í samningaviðræðum hefur verið litið til þess að meðan Suður-Súdan noti útflutningsleiðina um Norður-Súdan, fái hinir síðarnefndu líka hluta af tekjunum sem olían sunnanfrá skapar. Bashir segir að N-Súdan verði að fá a.m.k. helming teknanna, en eðlilega þykir Suður-Súdönum það nokkuð hátt gjald.

Hernaðarlega á Suður-Súdan við ofurefli að etja. En úrslitin í þessum deilum gætu ráðist af dómarkasti - þar sem Kínverjar einfaldlega segja mönnum að slaka á og að þeir muni sjá til þess að allir græði. Vísbendingar eru strax konar fram um að Kínverjar séu byrjaðir að koma sér vel fyrir gagnvart stjórnvöldum í Suður-Súdan.
Hvernig svo sem deilum milli norðurs og suðurs í Súdan lyktar, er hætt við að tugmilljónir Súdana muni aldrei sjá neitt af þeim ávinningi sem olían skapar. Reynslan frá öðrum olíuríkjum í Afríku sýnir hvernig iðnaðinum er yfirleitt stjórnað af gjörspilltum klíkum og stór hluti alls hagnaðar af nýtingu náttúruauðlinda rennur jafnan allt annað en til uppbyggingar í viðkomandi löndum. Gögn frá Wikileaks benda einmitt til þess að Bashir og hans lið hafi síðasta áratuginn stolið sem nemur um 10 milljörðum USD úr ríkissjóði. Leiðir hugann að því að á tímabili var Kaupþing komið í slagtog við olíusjóði í eigu Líbýustjórnar. Eru engir súdanskir olíupeningar í þrotabúi þess mikla spútnikbanka?
Héðan í frá munu hin nýju stjórnvöld í Suður-Súdan líklega fá í hendur um 2 milljarða USD árlega vegna olíutekna. Hversu mkið af þeim peningum fara í uppbyggingu á heilbrigðisþjónustu, skólum, bættar samgöngur o.s.frv. verður að koma í ljós. Það er a.m.k. augljóst að hið nýfrjálsa ríki Suður-Súdana á langa og holótta leið fyrir höndum. Einungis 15% fullorðinna í landinu eru læs. Helmingur þjóðarinnar lifir af minna en sem nemur einum USD á dag - og flestir hinna hafa lítið meira milli handanna. Landið er á stærð við Texas, en malbikaðir vegir munu samtals vera innan við 200 km og lestarteinar um 250 km.

Innviðir þessa nýjasta ríkis í veröldinni eru sem sagt vægast sagt í molum. Engu að síður ríkti mikil gleði í hinni nýju höfuðborg Juba og víðar í Suður-Súdan, þegar sjálfstæðinu var fagnað um síðustu helgi.
Þarna eru tvímælalaust spennandi tækifæri fyrir þá sem eru til í eitthvað allt öðruvísi. Sænska Lundin Petroleum hrökklaðist reyndar frá sunnanverðu Súdan fyrir nokkrum árum. En nú er kannski tímabært fyrir Norðurlandabúa að snúa aftur á þessar kolsvörtu slóðir. Ætli Ísland sé búið að viðurkenna sjálfstæði Suður-Súdans? Án þess fá Mörlandar varla vegabréfsáritun þangað á vit ævintýranna.
------------------------------------------------------------
Orkubloggið verður líklega með rólegra móti næstu vikurnar, meðan landsmenn njóta sumarsins hér á Klakanum góða.
11.7.2011 | 09:30
Virkjað í Eldsveitum

Í vikunni sem leið fjölluðu fjölmiðlar talsvert um drög að Rammaáætlun, sem nú virðist komin á langþráðan lokasprett.
Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði felst í mati á helstu virkjunarkostum hér á landi og þar er fjallað um áhrif þeirra á náttúru og minjar, umhverfi, hlunnindi og þróun byggðar. Hugsunin er að þetta mat verði haft að leiðarljósi við ákvörðun Alþingis og stjórnvalda um hvar skuli virkja og hvar ekki.
Alþingi á þó eftir að fjalla um áætlunina og ekki gott að segja hver niðurstaðan verður þar á bæ. En sé litið til skýrslunnar sem verkefnastjórn Rammaáætlunar skilaði af sér í liðinni viku má kannski leyfa sér að draga þá ályktun, að vilji verði hjá stjórnvöldum til að nýta t.d. flesta þá virkjanakosti sem Landsvirkjun horfir nú til. Og að sömuleiðis verði talsvert meiri jarðvarmi virkjaður á næstu árum bæði á Reykjanesi og á Hellisheiði. Að því gefnu auðvitað að kaupendur séu að raforkunni og það þá vonandi á verði sem skili orkuvinnslunni viðeigandi arðsemi.

Niðurstöður verkefnastjórnar um Rammaáætlun gefa líka vísbendingar um hvaða svæði verði friðuð, þ.e. ekki virkjuð. Þar er sumt sem kalla mætti sjálfsagða hluti. Að mati Orkubloggarans ætti t.d. öllum að vera augljóst að það væri galið að ætla að virkja í náttúrparadís eins og Vonarskarði. Sömuleiðis væri vart fyrirgefanlegt að fórna Dettifossi og þess vegna er einn allrastærsti virkjunarkosturinn á Íslandi líklega úr sögunni, sem er Arnardalsvirkjun.
Sökum þess hversu náttúröflin skekja Vestur-Skafafellssýslu hressilega þessi misserin, er vert að staldra við þá virkjunarkosti sem Rammaáætlunin fjallar um á þeim slóðum. Um sýsluna renna margar jökulár, sem ýmist koma úr Vatnajökli, Mýrdalsjökli eða Torfajökli. Þar mætti t.d. nefna Djúpá, Hverfsifljót, Skaftá, og Hólmsá.

Svæðið er einnig þekkt fyrir bergvatnsár af öllum gerðum, með tilheyrandi bleikju- og silungsveiði. Mörgum þykir skaftfellski sjóbirtingurinn einhver besti matfiskur sem hugsast getur. Orkubloggarinn mun seint gleyma glænýjum sjóbirtingnum, sem var stundum á borðum á æskuheimilinu á Krikjubæjarklaustri þegar öðlingurinn hann Valdi í Ásgarði hafði átt leið um hlaðið með þennan gljáandi fallega fisk. Ennþá hefur bloggarinn ekki bragðað ljúfengara hnossgæti og hefur þó víða um heiminn farið og margt gott fengið.
Ekkert af jökulvötnunum austur í Skaftafellssýslum hefur verið virkjað enn sem komið er - að frátalinni Smyrlabjargavirkjun austur í Suðursveit í A-Skaftafellssýslu (sú virkjun fær reyndar meira af afli sínu frá dragám en jökulvatni). Í Vestursýslunni er líklega Skaftá það fljót sem flestir kannast við og að henni verur athyglinni beint í þessari færslu Orkubloggsins.

Þess má geta að þó svo Vestur-Skaftfellingar hafi ekki ennþá virkjað jökulfljótin, er það engu að síður staðreynd að þar í Eldsveitunum var unnið gríðarlega merkilegt frumkvöðlastarf í upphafi vatnsaflsnýtingar á Íslandi. Þar var um að ræða bæði smíði á túrbínum og byggingu ótalmargra heimarafstöðva, sem margar hverjar hafa verið nýttar í hálfa öld eða meira. Á þessa merku sögu var einmitt minnst á hér á Orkublogginu í færslu haustið 2009.
Skaftá er áin sem sveitarfélagið Skaftárhreppur er kennt við. Áin setur mikinn svip á þessar slóðir, þar sem hún rennur úr Skaftárjökli og niður í sveitirnar. Leið Skaftár liggur vestan við Lakagíga og sker sig þar meðfram Fögrufjöllum, en hinumegin við þau liggur Langisjór. Áfram heldur Skaftá austan við Hólaskjól í nágrenni Eldgjár, en að byggð kemur áin fyrst við sveitabæina Skaftárdal (þar er reyndar ekki lengur heilsárbúseta) og Búland. Við Skaftárdal lækkar landið hratt og þar fellur áin í talsverðum flúðum og er hún þar stórfengleg á að líta í vatnavöxtum og hlaupum. Það er á þessum slóðum sem Skaftá mun áður fyrr hafa runnið í djúpu gljúfri, sem fylltist af hrauni í Skaftáreldum fyrir rétt rúmum tveimur öldum.

Þegar niður á undirlendið kemur klofnar áin í tvennt. Eystri kvíslin heldur heitinu Skaftá og rennur austur eftir Síðu, í farvegi á milli Eldhraunsins og móbergsfjallsins. Þegar áin kemur úr hrauninu við Eldmessutanga rennur hún áfram austur að Kirkjubæjarklaustri, en þar sveigir hún niður á flatlendið austan Landbrots og rennur loks til hafs niður á söndunum, þar sem heitir Skaftárós.
Vestari kvísl Skaftár nefnist Eldvatn. Sem eftir stutta ferð myndar upphaf Kúðafljóts (ásamt vatni úr Tungufljóti og Hólmsá). Að auki renna lænur úr Skaftá inní hraunið sem síar jökulleirinn burt og er það vatn væntanlega helsta undirstaðan að kristaltærum uppsprettunum sem koma undan hrauninu bæði í Landbroti og Meðallandi. Það er þetta vatn sem myndar þekktar veiðiár eins og t.d. Tungulæk og Grenlæk í Landbroti (sbr. myndin hér að neðan) og Eldvatn í Meðallandi. Síðastnefnda áin er vel að merkja allt annað Eldvatn heldur en það sem tengir Skaftá og Kúðafljót - og örnefnið Eldvatn á líka við um bergvatnsá sem rennur um eystri hluta Eldhrauns, austan við Orrustuhól. Leiða má líkum að því að eftir Skaftárelda hafi fólk freistast til að nefna ár Eldvatn sem leituðu í nýja farvegi eða spruttu undan hrauninu.

Sem fyrr segir þá er Skaftá ennþá óvirkjuð. Vatn úr ánni hefur þó verið nýtt fyrir heimarafstöðvar eins og þá sem t.d. var lengi við bæinn Hólm í Landbroti. Uppi hefur verið sú hugmynd að byggja netta rennslisvirkjun í ánni við bæinn Skál, sem er eyðibýli í hlíðunum ofan við Eldhraunið vestur af Kirkjubæjarklaustri, en Orkubloggarinn veit ekki hvort sú hugmynd er enn á sveimi.
Undanfarið hefur aftur á móti verið mikill gangur í að vinna rannsóknir til undirbúnings á byggingu stórrar virkjunar, sem nýti afl Skaftár þar sem fall hennar er mest, ofan við Skaftárdal. Er þá ýmist talað um Skaftárvirkjun eða Búlandsvirkjun, en útfallið myndi verða í nágrenni við bæinn Búland í Skaftártungu. Margir sem farið hafa um Fjallabaksleið nyrðri kannast við það býli, því helsta leiðin upp á Fjallabak liggur rétt hjá Búlandi.
Í Rammaáætluninni er fjallað er um þrjá virkjanakosti í Skaftá. Þar af eru tveir möguleikanna miðlanir eingöngu (þar sem vatni úr Skaftá yrði miðlað yfir á vatnasvæði Tungnaár og nýtt í virkjanirnar í Tungnaá og Þjórsá). Þessir þrír kostir til að virkja eða miðla Skaftá eru eftirfarandi:
A. Skaftárvirkjun / Búlandsvirkjun (virkjun auðkennd sem nr. 18 í Rammaáætlun).
Reist yrði stífla neðan Hólaskjóls, sem myndi veita Skaftá (ásamt Syðri-Ófæru) um jarðgöng í miðlunarlón á s.k. Þorvaldsaurum. Þorvaldsaurar liggja rétt vestan við vegaslóðann sem fólk ekur milli Hólaskjóls og Skaftártungu á Fjallabaksleið nyrðri. Lónið yrði myndað með byggingu annarrar stíflu, á þeim slóðum þar sem Tungufljót rennur nú (vatnsmagn Tungufljóts þar sem það fellur niður Skaftártungu, myndi því væntanlega minnka mikið ef af þessum virkjunarframkvæmdum yrði). Frá miðlunarlóninu yrði vatnið svo leitt inn í fallgöng að stöðvarhúsi neðanjarðar og svo áfram eftir göngum að útfalli skammt neðan við Búland.

Þarna næðist veruleg fallhæð eða alls um 180-190 m og afl virkjunarinnar yrði allt að 150 MW. Þetta yrði því myndarleg virkjun; myndi t.a.m. framleiða sem samsvarar hátt í fjórðungi af því rafmagni sem Kárahnjúkvirkjun nær að skila frá sér.
Þó svo Orkubloggaranum þyki eftirsjá af hvítfryssandi afli Skaftár þar sem hún steypist niður í þrengslum við Skaftárdal, er þetta sennilega skynsamlegur virkjunarkostur. Að því gefnu að menn hafi góða lausn á að takast á við svakaleg Skaftárhlaupin. Og að stíflurnar og fjúkandi jökulleir úr lónsstæðinu hafi ekki umtalsverð áhrif á ægifagurt svæðið í nágrenni Eldgjár.
Þessari virkjun myndi að sjálfsögðu fylgja einhverjar vegaframkvæmdir og lagning nýrrar háspennulínu, sem kann að vera óprýði af eins og oft er með slík mannvirki. Loks má nefna að það hlýtur að vera afar áríðandi fyrir heimafólk í Skaftárhreppi að sem mest af raforkunni yrði nýtt heima í héraði. Vegna hafnleysis kann að vísu að verða þungt að laða iðnað að svæðinu. En ef á annað borð verður ráðist í stærsta virkjunarkostinn á svæðinu, væri svolítið dapurlegt ef það væri til þess eins að selja orkuna burt.

B. Skaftárveita - án miðlunar í Langasjó (nr. 17). Sumir hafa nokkuð lengi gælt við þá hugmynd að veita Skaftá til vesturs, í tilbúið lón norður af Langasjó sem kallað hefur verið Norðursjór. Þaðan yrði vatnið leitt um jarðgöng til vesturs inn á vatnasvið Tungnaár.
Þessi miðlun myndi kippa fótunum undan áðurnefndri Skaftárvirkjun (Búlandsvirkjun). Því þykir Orkubloggaranum ólíklegt að slík miðlun myndi fást samþykkt af sveitarstjórn Skaftárhrepps, ef hún á annað borð kæmist af hugmyndastiginu. En þetta er sem sagt einn af þeim þremur möguleikum til að nýta Skaftá til raforkuframleiðslu, sem fjallað er um í Rammaáætluninni.

C. Skaftárveita með miðlun í Langasjó (nr. 16). Önnur hugmynd um að nýta Skaftá í virkjanir á Tungnaár- og Þjórsársvæðinu er að veita ánni í Langasjó. Og nota þannig þetta sérstæða og fallega stöðuvatn á hálendinu sem miðlunarlón, sem síðan yrði tengt Tungnaá með göngum og skurðum. Skv. samkomulagi umhverfisráðuneytis og sveitarstjórnar Skaftárhrepps fyrr á þessu ári (2011), er nú unnið að friðlýsingu Langasjávar (og Eldgjár). Það er því orðið ólíklegt að Langisjór verði nýttur sem miðlun fyrir Skaftá.
---------------
Talað er um að Rammaáætlun muni skapa sátt um orkunýtingu á Íslandi. Það er reyndar alls ekki víst að sú von gangi eftir. Hvað Skaftá snertir, þá mun talsverður stuðningur vera meðal heimafólks í Skaftárhreppi við byggingu Búlandsvirkjunar. En það er líka fyrir hendi andstaða við virkjunaráformin. Þar til marks má nefna nýstofnuð náttúruverndarsamtök, sem heita því hljómfagra og viðeigandi nafni Eldvötn.

Það er fyrirtækið Suðurorka sem hefur þennan virkjunarkost til athugunar, en þar er HS Orka stór hluthafi. Það hvort virkjunin verður að veruleika mun væntanlega ráðast af endanlegu útliti Rammaáætunarinnar, eftir meðferð Alþingis, auk þess sem afstaða sveitarstjórnar Skaftárhrepps hlýtur að skipta miklu. Ennþá eru líklega nokkur ár í það að niðurstaða liggi fyrir um hvort Búlandsvirkjun verði byggð eða ekki.
3.7.2011 | 20:46
Umræða um orkumál

Á þriðjudaginn sem leið var haldinn opinn fundur hjá Arion banka, þar sem formlega var ýtt úr vör samstarfi allmargra íslenskra fyrirtækja um íslenska jarðvarmaklasann. Þarna var fullt hús, í nokkuð stórum sal í aðalstöðvum bankans við Borgartún.
Sennilega voru margir gestanna fyrst og fremst mættir til að sjá og heyra erindi próf. Michael's Porter, sem enn og aftur var kominn til Íslands. Porter lék þarna við hvurn sinn fingur og virðist sem hann hafi tekið miklu ástfóstri við Ísland. Gaman að því. Um kvöldið var svo viðtal við karlinn í Kastljósinu.

Samt má segja að það hafi verið Landsvirkjun sem stal senunni þennan þriðjudag. Því þá var birt athyglisverð skýrsla sem unnin var af GAM Management (GAMMA) fyrir Landsvirkjun og ber titilinn Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.
"Svimandi framtíðarsýn" - titill ritstjórnargreinar Fréttatímans nú um helgina - er kannski til marks um fyrstu viðbrögð margra sem skýrsluna lesa. Enda lýsir skýrslan hreint mögnuðum tækifærum Landsvirkjunar og Íslands. Þ.e. að raforkuframleiðsla Landsvirkjunar kunni allt að tvöfaldast á næstu 15 árum og á sama tíma gætu tekjurnar þrefaldist. Miðað við spár um þróun raforkuverðs myndi þetta geta leitt til stórkostlegrar arðsemi hjá Landsvirkjun og í íslenska orkugeiranum.

Þessi sviðsmynd GAMMA gerir ráð fyrir því að meðalverðið sem Landsvirkjun fái fyrir framleiðslu sína, hækki úr núverandi 25 USD pr. MWst í 40 USD árið 2020 og verði komið í 60 USD árið 2030 (m.v. núverandi verðlag). Þessi framtíðarsýn byggir m.a. á erlendum spám um þróun raforkuverðs í Evrópu og að Ísland komi til með að tengjast Evrópu með sæstreng.

Gangi þetta eftir myndi Landsvirkjun skila miklum hagnaði. Og þá myndi arðgreiðslugeta fyrirtækisins, skv. forsendum GAMMA, fara úr því að vera nánast engin í dag (til þessa hefur raforkan verið seld stóriðjunni á sem næst kostnaðarverði) í að verða hátt í 600 milljón USD árið 2020 og rúmlega 1 milljarður USD árið 2030! Og skv. GAMMA næmu þá arð- og skattgreiðslur Landsvirkjunar ásamt afleiddum skattaáhrifum samtals hvorki meira né minna en 3-6% af landsframleiðslu og yrðu á bilinu 9-14% af tekjum ríkissjóðs Íslands.
Í skýrslu GAMMA eru settar fram ýmsar skemmtilegar viðmiðanir til að skýra betur þessar stærðir. Þar segir t.d. að arðgreiðslan frá Landsvirkjun til ríkissjóðs árið 2030 myndi jafngilda vel rúmlega helmingi af öllum kostnaði við íslenska heilbrigðiskerfið. Og yrði u.þ.b. tvöfalt meiri en allur kostnaðurinn við íslenska háskóla- og framhalsskólakerfið.

Önnur viðmiðun sem GAMMA nefnir er sú að ríkið gæti nýtt arðinn til að lækka tekjuskatt einstaklinga um helming. Einnig mætti nýta arðinn til að að greiða niður allar erlendar skuldir íslenska ríkisins á stuttum tíma. Í framhaldinu mætti svo láta arðgreiðslurnar renna í sérstakan sjóð - sem við getum nefnt Orkusjóð Íslands.
Slíkur Orkusjóður gæti orðið einskonar risa-sparibaukur Íslendinga, ekki ósvipaður norska Olíusjóðnum. Til sjóðsins mætti grípa til að halda fjárlögum hallalausum - og hann yrði e.k. trygging að grípa til þegar miður áraði í íslensku efnahagslífi. Orkusjóðurinn hefði það reyndar umfram Olíusjóð Norðmanna að orkuauðlindir Íslands eru endurnýjanlegar og því myndu væntanlega bætast háar arðgreiðslur í sjóðinn á ári hverju - um alla framtíð!

Vissulega kann sumum að svima við að heyra þessa framtíðarsýn um stórfelldar fjárfestingar í nýjum virkjunum sem muni skila æpandi arðsemi. En allt miðast þetta vel að merkja við bestu eða bjartsýnustu sviðsmyndina. Gangi hún ekki eftir gerir GAMMA ráð fyrir nokkrum öðrum möguleikum. Allt niður í það að engar breytingar verði á raforkuverði Landsvirkjunar og jafnvel að engar nýjar virkjanir verði reistar.
Flestir fjölmiðlar virðast hafa litið framhjá því að skýrslan boðar ekki endilega bjarta tíma hjá Landsvirkjun. Einn möguleikinn sem lýst er í skýrslunni, er sá að við munum áfram sitja uppi með hið ferlega lága raforkuverð til stóriðjunnar sem verið hefur. Og arðurinn af orkuauðlindum Íslands renni þar með áfram fyrst og fremst til hinna útlendu stóriðjufyrirtækja. Lesendur skýrslunnar ættu að gæta sín á að líta ekki fram hjá þessum möguleika og huga að öllum þeim mismunandi sviðsmyndum sem fjallað er um í skýrslunni (sbr. taflan hér að neðan, sem eins og gröfin í þessari færslu eru úr skýrslu og kynningu GAMMA, sem nálgast má á heimasíðu fyrirtækisins).

Sumir hafa brugðist afar illa við þessari skýrslu; líkt henni við stríðshanska og segja hana vera sprengju inní umræðuna um hina margumtöluðu Rammaáætlun. Þetta eru sérkennileg viðbrögð. Í reynd ætti það að vera jákvætt fyrir alla að fyrir liggi sem mestar upplýsingar um hvaða efnahagslegu áhrif orkuauðlindir Íslands geti mögulega haft í framtíðinni.
Skýrsla GAMMA gerir vissulega ráð fyrir því að einn kosturinn sé að hér verði mikið virkjað í framtíðinni. Þess vegna er kannski eðlilegt að þeir sem eru mjög andsnúnir virkjunum hrökkvi við. En þetta eru fyrst og fremst upplýsingar. Í skýrslunni er einfaldlega útskýrt hvað mismunandi kostir gætu þýtt fyrir rekstur og arðsemi Landsvirkjunar, að tilteknum forsendum gefnum. Eðlilega gefur hæsta orkuverðið og mikil framleiðsla þar mestu arðsemina.

Þetta eru upplýsingar sem varpa athyglisverðu ljósi á mikilvægi íslensku orkuauðlindanna. Fólk getur að vild sett fram ábendingar um þau atriði sem það telur rangt með farið í skýrslunni, gagnrýnt forsendur hennar o.s.frv. Slíkar umræður eru hið besta mál. En það er að mati Orkubloggarans afar ómálefnalegt að lýsa skýrslunni sem e.h.k. stríðsyfirlýsingu eða sprengju.
Það er reyndar svo að með þessari skýrslu er Landsvirkjun bersýnlega að kalla eftir meiri umræðu í þjóðfélaginu um hinar ýmsu leiðir sem hægt er að fara m.t.t. nýtingar á orkuauðlindum Íslands. Um þetta má vísa til greinar eftir forstjóra Landsvirkjunar, sem birtist í Fréttablaðinu núna um helgina, þar sem hann einmitt kallar eftir slíkri umræðu.
Svo er eitt atriði sem vert er fyrir alla Íslendinga að hafa í huga. Í skýrslunni kemur fram sú skoðun GAMMA, að raforkuverðið eitt og sér er það sem öllu skiptir fyrir afkomu Landsvirkjunar og arðsemi ríkisins af orkuauðlindunum. Þ.e. að öll önnur efnahagsleg áhrif af virkjanaframkvæmdum skipti í reynd litlu máli fyrir þjóðina. Orðrétt segir í skýrslunni: "Kjarni málsins er sá að þegar söluaðili raforkunnar er opinber aðili sem greiðir arð til ríkisins en kaupandi er erlent stórfyrirtæki sem flytur allan hagnað úr landi ræðst þjóðhagslegur ábati vegna raforkuframleiðslu fyrst og fremst af því raforkuverði sem þessir aðilar semja um á milli sín."
Þarna er bent á staðreynd, sem hefur því miður alltof lítið verið rædd hér á landi: Að í reynd hefur nær allur arðurinn af orkulindum Íslands runnið til erlendu stóriðjufyrirtækjanna. Og verði ekki tekið tillit til stefnumótunar núverandi stjórnenda Landsvirkjunar, er hætt við að svo verði áfram; að það verði Glencore, Rio Tinto Alcan, Alcoa og félagar sem áfram hirða einir svo til allan arðinn af raforkuframleiðslu á Íslandi. Varla er það sem við helst viljum? Í staðinn getum við haft að leiðarljósi, að bæta arðsemi Landsvirkjunar og þannig aukið efnahagslega velferð Íslendinga - eins og GAMMA einmitt bendir á.

Þessi skýrsla GAMMA er allrar athygli verð. Samt verður ekki komist hjá því að nefna að skýrslan hefði mátt lesast a.m.k. einu sinni enn fyrir birtingu. Því þarna eru nokkrar óþarfa villur sem geta virkað svolítið óþægilega á lesendur. Orkubloggaranum þótti t.d. skrýtið að lesa þarna að einn elsti sæstrengur í Evrópu sé frá 1986 og að danska orkufyrirtækið Dong Energi sé skráð á hlutabréfamarkað. Hið rétta er jú að áætlanir danskra stjórnvalda um hlutabréfaskráningu Dong hafa legið í dvala síðan 2008 - og rafstrengur milli Bretlands og Frakklands var upphaflega lagður upp úr 1960.
En þetta eru aukatriði; aðalatriðið er að íslenskur raforkumarkaður kann nú að standa á tímamótum og þar með lífskjör okkar Íslendingra allra. Vonandi skilja stjórnmálamennirnir hversu miklir hagsmunir þarna eru í húfi. Og átta sig á því að raforkuverðið skiptir algeru höfuðmáli.
Landsvirkjun er tvímælalaust á réttri leið og mikilvægt að stjórn fyrirtækisins og fulltrúi eigenda (fjármálaráðherra) styðji viðleitni stjórnenda Landsvirkjunar til að auka arðsemi þessa langstærsta orkufyrirtækis á Íslandi. Gleymum því ekki að hagsmunir Landsvirkjunar og þjóðarinnar eru samtvinnaðir og að þarna er um að ræða einhvern allra mikilvægasta hlekkinn í hagsæld Íslendinga.

Þar með er Orkubloggarinn ekki endilega að tala fyrir því að tvöfalda eigi raforkuframleiðslu Landsvirkjunar á einungis 15 árum eða svo. Umhverfissjónarmið og ýmis önnur sjónarmið kunna að valda því að æskilegra sé að fara hægar í sakirnar. Grundvallaratriðið er að Íslendingar séu meðvitaðir um möguleikana sem raforkuframleiðsla og raforkusala skapa okkur. Stjórnmálamennirnir og þjóðin eiga að ræða þessa möguleika vandlega og meta og ákveða hvaða leið sé farsælust. Umrædd skýrsla GAMMA fyrir Landsvirkjun er þarft innlegg í þá mikilvægu umræðu.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)