Framar björtustu vonum?

Öðru útboði Orkustofnunar um sérleyfi til rannsókna og olíuvinnslu á Drekasvæðinu á íslenska landgrunninu lauk nú í vor. Það skýrist svo væntanlega fljótlega hvort einhver eða einhverjir af umsækjendunum fái slíkt sérleyfi.

Dreki-licensing-round-2-2012-blueFyrsta sérleyfisútboðið á Drekasvæðinu skilaði ekki árangri. Það fór fram vorið 2009, en þá bárust einungis umsóknir frá tveimur fremur litlum norskum fyrirtækjum. Bæði drógu þau umsóknir sínar um sérleyfi til baka og því þurfti Orkustofnun aldrei að taka afstöðu til umsóknanna. Núna 2012 var áhuginn aðeins meiri. Þrjár umsóknir bárust eftir annað útboðið. Þar að baki standa tvö erlend félög og þrjú íslenskt félög.

Orkustofnun virðist mjög sátt við umsóknirnar. Í fjölmiðlum var haft eftir Guðna Jóhannessyni, forstjóra Orkustofnunar, að útkoman hefði verið mjög góð og framar björtustu vonum. Þarna vísar Guðni til eftirfarandi umsókna:

1) Eykon Energy.

Eyjolfur-Konrad-1

Fyrstur umsækjandanna (í stafrófsröð) er óskráð félag, sem skv. fréttatilkynningu Orkustofnunar nefnist Eykon. Í fréttum hefur félagið verið kallað Eykon Energy, en það virðist reyndar enn ekki hafa verið skráð hjá fyrirtækjaskrá.

Eykon Energy mun vera nefnt í höfuðið á þingmanninum Eyjólfi heitnum Konráð Jónssyni, sem var áhugasamur um að tryggja landgrunnsréttindi Íslands. Samkvæmt fréttum er Heiðar Már Guðjónsson í forsvari fyrir félagið, en auk hans munu eigendur Eykon Energy vera þeir Gunnlaugur Jónsson (frkv.stjóri hjá Lindum Resources), Jón Einar Eyjólfsson (sonur Eyjólfs Konráðs), Ragnar Þórisson (einn stofnenda Boreas Capital) og Norðmaðurinn Terje Hagevang.

Terje-Hagevang-Norge

Umræddur Terje Hagevang var einmitt framkvæmdastjóri Sagex, sem sótti um rannsókna- og vinnsluleyfi í fyrsta útboði vegna Drekasvæðisins árið 2009. Sú umsókn var, eins og áður sagði, dregin til baka áður en til þess kæmi að Orkustofnun tæki formlega afstöðu til umsóknarinnar. Síðar var Sagex keypt af breska félaginu Valiant Petroleum og Terje Hagevang varð starfsmaður Valiant.

Í fréttum íslenskra fjölmiðla af útboðinu hefur ítrekað verið sagt að Hagevang sé nú forstjóri Valiant, en svo er alls ekki. Hið rétta mun vera að Hagevang sé yfirmaður Noregsskrifstofu Valiant. En Hagevang er sem sagt í samstarfi með nokkrum Íslendingum, sem kenna sig við Eykon og óska eftir sérleyfi til rannsókna- og vinnslu á Drekasvæðinu.

2) Kolvetni ehf. og Valiant Petroleum.

Terje Hagevang gerir það ekki endasleppt. Auk þess að vera með í áðurnefndri umsókn Eykon Energy mun hann einnig vera aðili að annarri umsókn um rannsókna- og vinnsluleyfi á Drekasvæðinu. Því Hagevang er sagður vera hluthafi í íslensku félagi sem nefnist Kolvetni ehf. Það félag er umsækjandi um sérleyfi í samfloti við breska félagið Valiant Petroleum. Þarna er Hagevang því hluthafi í íslensku félagi sem sækir um sérleyfi og vinnuveitandi hans er meðumsækjandi.

Gunnlaugur-Jonsson-1

Samkvæmt fréttum fjölmiðla eru hluthafar í Kolvetni ehf., auk Hagevang, þeir Jón Helgi Guðmundsson (oftast kenndur við BYKO) og áðurnefndur Gunnlaugur Jónsson, sem einnig er sagður vera hluthafi í Eykon Energy. Fjórði hluthafinn í Kolvetni ehf. er svo verkfræðifyrirtækið Mannvit.

Þeir Jón Helgi og Gunnlaugur hafa unnið saman í íslenska fjárfestingafélaginu Lindir Resources, sem var á tímabili stærsti hluthafinn í norska Sagex, hvar Hagevang var einmitt framkvæmdastjóri. Þegar svo Sagex rann inn í Valiant Petroleum hafa Lindir væntanlega orðið hluthafi þar. Þessi umsóknarhópur er því tengdur innbyrðis með ýmsum hætti, ef svo má að orði komast. Valiant Petroleum er skráð á hlutabréfamarkaðnum í London (AIM Index).

3) Íslenskt kolvetni ehf. og Faroe Petroleum.

Þá er það þriðja umsóknin. Að henni standa breska félagið Faroe Petroleum og íslenska félagið Íslenskt kolvetni ehf. Faroe Petroleum var upphaflega stofnað vegna olíuleitar á færeyska landgrunninu, en hefur upp á síðkastið meira einbeitt sér að landgrunni Bretlands. Enda hefur færeyska olíævintýrið látið á sér standa.

KNOC-logo-2

Rétt eins og Valiant þá er Faroe Petroleum skráð á hlutabréfamarkaði í London (AIM). Stærsti hluthafinn í Faroe Petroleum er breska Dana Petroleum, sem er í eigu suður-kóreaska olíufélagsins Korea National Oil Corporation. Kóreumenn eru sem sagt með talsverð olíumsvif í Norðursjó og víðar. Kóreska félagið er þó ekki beinn aðili að umræddri umsókn Faroe Petroleum og Íslensks kolvetnis ehf. um sérleyfi á Drekasvæðinu.

Íslensku kolvetni ehf. standa þrjú íslensk fyrirtæki. Þau eru verkfræðistofan VerkísOlís (Olíuverslun Íslands) og fjárfestingafélag sem nefnist Dreki Holding. Fyrirtækin Verkís og Olís eru auðvitað vel kunn öllum lesendum Orkubloggsins. En bloggarinn hefur því miður ekki upplýsingar um hverjir standa að Dreki Holding; skv. fréttum eru það einhverjir Íslendingar en t.d. ekki nein félög úr olíubransanum.

Ekkert af stóru félögunum sótti um Drekann

Velta má fyrir sér hvort þetta séu sterkir umsækjendur. Kannski jafnvel svo sterkir að þeir séu framar björtustu vonum eins og forstjóri Orkustofnunar orðaði það? Um það eru sjálfsagt deildar meiningar.

Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða hvaða félög hafa fyrst og fremst verið að fá leyfi í útboðum á færeyska og grænlenska landgrunninu og á öðrum nýjum olíuleitarsvæðum í nágrenni Íslands. Þarna eru risafélögin áberandi; olíufélög eins og bandarísku ChevronConocoPhillips, og ExxonMobil, frönsku GDF Suez og Total, ítalska Eni, bresk-hollenska Shell og síðast en ekki síst norska Statoil. En ekkert þessara félaga sótti um Drekasvæðið.

Dreki-FP-Statoil-2012

Ekki sóttust heldur dönsku nágrannar okkur hjá Mærsk Oil eða  Dong Energi eftir að komast á Drekann. Og heldur ekki ýmis þaulreynd félög sem kalla má áhættusækin, eins og t.d. Cairn EnergyLundin PetroleumNoble Energy eða Talisman.

Flest ofangreind félög eru með umtalsverða reynslu frá olíusvæðum í nágrenni Íslands. Af einhverjum ástæðum hefur fimm ára undirbúningur olíuteymis Orkustofnunar ekki ennþá náð að vekja áhuga eins einasta af þessum félögum á Drekasvæðinu. Reyndar bjuggust einhverjir við umsókn frá Statoil nú í öðru útboðinu. En þegar til kom skilaði hún sér því miður ekki. 

Hversu áhættusamt er Drekasvæðið?

Drekasvaedid-norska-islenska

Athyglisvert er að minnast þess að ítrekað hefur verið haft eftir áðurnefndum Terje Hagevang að íslenska Drekasvæðið kunni að hafa að geyma heila 10 milljarða tunna af vinnanlegri olíu! Það er því kannski ekki skrýtið að Hagevang sé hluthafi í tveimur félögum sem eru meðal umsækjenda um þessi þrjú sérleyfi sem nú er sótt um á Drekasvæðinu.

En þó svo Drekinn kunni að hafa olíu og gas í iðrum sínum og það jafnvel í miklu magni, þá gæti allt eins verið að ekki sé þarna deigan dropa að finna. Vert er að hafa í huga að Drekasvæðið er fremur lítið þekkt svæði og nokkuð fjarri öllum innviðum olíuleitar. Þarna er nákvæmlega engin reynsla af olíuborunum eða -vinnslu. Og basaltið á svæðinu mun sennilega gera leitina þar mun erfiðari og dýrari en t.d. gerist í lögsögu Noregs og Grænlands.

heidar-mar-gudjonsson

Þarna er hafdýpið líka ansið mikið, t.d. miklu meira en í Norðursjó. Og þó svo aldur jarðlaganna gefi möguleika á olíu er í reynd alger óvissa um hvort þarna sé eitthvað að hafa. Hver sá sem hyggst leggja fjármuni í olíuleit á Drekasvæðinu getur leyft sér að vonast eftir verulegum ávinningi, en verður líka að gera ráð fyrir að allt féð sem fer í olíuleitina tapist. 

Fjárfesting í alvöru olíuleit á Drekasvæðinu er sem sagt afar áhættusöm. Þess vegna er líklegt að fjármögnun fyrirtækja vegna olíuleitar og tilraunaborana á Drekasvæðinu þurfi nær alfarið að koma sem eigið fé. M.ö.o. þurfa sérleyfishafarnir væntanlega ekki aðeins að ráða við verkefnið tæknilega séð heldur líka vera afar fjársterkir.

Er líklegt að ofangreindir umsækjendur fái sérleyfi?

Eftir á að koma í ljós hvort einhver eða einhverjir umsækjandanna þriggja fái sérleyfi hjá Orkustofnun til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu. Það ræðst af því hvort stofnunin telji umsækjendurna uppfylla þau lagaskilyrði sem gilda um slík sérleyfi.

Orkustofnun-oliuleit

Miðað við þau ummæli forstjóra Orkustofnunar að umsóknirnar núna séu framar björtustu vonum, virðist reyndar nánast öruggt að a.m.k. ein eða jafnvel fleiri af þessum umsóknum hljóti að leiða til sérleyfis. Slík yfirlýsing stjórnsýsluhafa á þessum tímapunkti, þ.e. áður en stofnunin var búin að yfirfara umsóknirnar af kostgæfni, er svolítið óvænt og kannski á mörkum þess að vera viðeigandi. En það er önnur saga.

Rannsókna- og vinnsluleyfi felur það vel að merkja í sér að leyfishafi hefur einkarétt til rannsókna og vinnslu kolvetna á viðkomandi svæði. Slíkum leyfum fylgja sem sagt umtalsverð réttindi. Að fá sérleyfi til rannsókna og vinnslu getur því augljóslega verið afar eftirsóknarvert og í því geta falist umtalsverð verðmæti.

Leiv-eirikkson-OIL-RIG-Greenland

Í næstu færslu Orkubloggsins verður nánar spáð í það hvort líklegt sé að Orkustofnun muni veita umsækjendunum sérleyfi. Verður þá athyglinni m.a. beint að því hversu tæknilega og fjárhagslega sterkir umsækjendurnir eru og hvaða skilyrði megi búast við að Orkustofnun setji þeim leyfishöfum sem hljóta sérleyfi.


Námuvinnsluævintýri á Grænlandi

Í eina tíð var Grænland mikilvægt námuvinnslusvæði - þó í smáum stíl væri.

Greenland-ivittuut-Cryolite_mine-old-photo-2

Þar var m.a. bæði grafið eftir zinki og kopar. En það sem mestu skipti var krýolítnáman í nágrenni við hinar fornu rústir af byggð norrænna manna á Grænlandi. Náman sú var nefnilega langstærsta krýolítnáma heimsins!

Krýolít (Na3AlF6) er nauðsynlegt í efnaferlinu þegar hreint ál er unnið úr súráli í álverum heimsins. Nær alla 20. öldina var þessi grænlenska krýolítnáma við Ivittuut á SV-Grænlandi lang mikilvægasta uppspretta alls þess krýólíts sem notað var í áliðnaði veraldarinnar. Og Grænland þar með afar mikilvægt gagnvart allri álvinnslu heimsins.

Þau sem lesið hafa Frøken Smillas fornemmelse for sne, eftir danska rithöfundinn Peter Høeg, vita auðvitað af tengslum Grænlands og krýolítsins. Sumir vilja meira að segja meina að tilvist námunnar í Ivittuut hafi verið einn þýðingarmesti þátturinn í áhuga Bandaríkjstjórnar á Grænlandi. Herstöðvarnar á Grænlandi hafi m.a. haft þann tilgang að varna því að óvinurinn kæmist yfir grænlenska krýólítið.

Greenland-ivittuut-Cryolite_mine-2

En svo gerðist það á níunda áratug aldarinnar að iðnaðarkrýolít leit dagsins ljós - og það á svo hagstæðu verði að grænlenska náman varð óþörf. Líkt og hendi væri veifað breyttist námubærinn Ivittuut á SV-Grænlandi í draugabæ.

Krýolítnámunni í Ivittuut var lokað árið 1987. Um sama leiti var einu zinknámunni á Grænlandi einnig lokað. Áður hafði fyrir löngu verið hætt bæði járn- og koparvinnslu á Grænlandi og það virtist hreinlega sem sögu námureksturs á Grænlandi væri svo gott sem lokið. Það var engu líkara en að tækniframfarir og lok kalda stríðsins væru endanlega að gera Grænland að hinum gleymda útnára heimsins.

En viti menn. Fljótlega eftir að 21. öldin gekk í garð tók hrávöruverð að hækka mjög. Á sama tíma varð námuvinnsla á hefðbundnum vinnslusvæðum í Kanada, Afríku, S-Ameríku og Ástralíu sífellt erfiðari og dýrari, vegna þess m.a. að málmaauðlindirnar var farið að þverra á mörgum bestu námusvæðunum. Þetta olli því að menn í námuiðnaðinum fóru aftur að hugsa til Grænlands og hinna ævafornu og málmríku jarðlaga sem þar er að finna. Samhliða þessu tóku grænlenskir jöklar að hopa hratt vegna hlýnandi veðurfars og sum áhugaverð námusvinnslusvæði á Grænlandi urðu aðgengilegri en verið hafði.

Nuuk-whale

Grænlensk stjórnvöld fóru brátt að finna fyrir þessum aukna áhuga. Fyrst í stað virtust menn reyndar einkum vera spenntir fyrir olíuvinnslu við Grænland. En í reynd var áhuginn á margskonar málmavinnslu og námugreftri ekkert síðri.

Þetta var einmitt á sama tíma og Grænlendingar og Danir áttu í viðræðum um aukna heimastjórn Grænlendinga. Árið 2009 gekk svo í gildi samningur þjóðanna um aukna sjálfstjórn Grænlands. Samningurinn veitir grænlensku heimastjórninni í Nuuk m.a. full yfirráð yfir nattúruauðlindum landsins, en þ. á m. eru málmar í jörðu, olía í landgrunninu o.s.frv.

Commodity Metals Price Index_1997-2012

Þó svo það sé fyrst og fremst olíuleitin við Grænland sem verið hefur í fréttum, þá er allt eins mögulegt að stóra efnahagstækifæri Grænlendinga liggi í námuvinnslu. Jafnvel þrátt fyrir efnahagskreppuna sem skall á árið 2008 hefur verð á ýmsum málmum og öðrum merkum jarðefnum haldist nokkuð hátt og er t.a.m. miklu hærra en var fyrir aldamótin. Fyrir vikið er námuvinnsla á lítt snertum málmríkum svæðum (eins og á Grænlandi) að verða mjög ahugaverð. Það er því kannski ekki skrítið að allra síðustu árin hefur umsóknum um rannsóknaleyfi nánast rignt yfir grænlensk stjórnvöld. Og nú er svo komið að allt stefnir í það að senn hefjist meiriháttar námuvinnsla á Grænlandi.

Greenland_Isua-rocks-iron

Sem dæmi má nefna fyrirhugaða járnnámu á vegum fyrirtækisins London Mining í nágrenni við Nuuk. London Mining er skráð á hlutabréfamarkaði í London og rekur járnnámu í Sierra Leone í Afriku, en er einnig með nokkur önnur verkefni í vinnslu. Þar á meðal er járnnáma á Grænlandi.

Orkubloggarinn var einmitt nýverið staddur á glæsilegum skrifstofum London Mining í Nuuk og fékk þar í hendur myndarlegt grjót frá þessu fyrirhuguða járnnámusvæði. Hnullungurinn minnti svolítið á hrafntinnu; var svarfgljáandi og í laginu eins og stórt laglegt hrafntinnugrjót. Munurinn var bara sá að bloggarinn var nærri því búinn að missa klumpinn á tærnar á sér - óvænt þyngdin var margföld á við venjulegan stein. "Grjótið" var nefnilega um 70% járn!

Greenland-isua-iron-mine-site-overview-1

Svo hátt hlutfall af járni er nær algerlega óþekkt í járnnámum nútímans. Enda telja menn hjá London Mining sig hafa fundið eina af bestu járnnámunum í heiminum.

Svæðið, sem kallast Isua, er í um 1.100 m hæð í fjalllendinu langt ofan við Nuuk, alveg upp við jökuljaðarinn. Hér ofar í færslunni sagði bloggarinn að vísu að þetta væri "í nágrenni við Nuuk", enda er Nuuk næsta byggða ból. En hér er vert að muna að við erum að tala um Grænland og þar eru vegalengdirnar ekkert smáræði. Loftlínan frá Nuuk og að námunni er um 150 km. Fyrst þarf að sigla u.þ.b.  80 km krókaleið inn fjörðinn (þar sem byggð verður höfn) og þaðan eru enn rúmlega 100 km upp að sjálfri námunni 1.100 metrum ofar - alveg upp við jaðar jökulsins.

Það hefur reyndar verið vitað af járninu þarna við jökulinn í Isua í meira en 40 ár. Rannsóknir á svæðinu hófust um 1970 og árið 1995 keypti risafyrirtækið Rio Tinto fjölda borkjarna og ýmis önnur gögn af dönsku fyrirtæki, sem hafði rannsakað svæðið. Það var svo árið 2005 að London Mining ákvað að athuga málið betur. Þeir keyptu gögnin og rannsóknaleyfið af Rio Tinto. Og þegar farið var að rannsaka svæðið ítarlegar kom í ljós að þarna væri gíðarlega mikið járngrýti og sennilega tækifæri til mjóg ábatasamrar námuvinnslu .

London-Mining-logo

Eftir að menn á vegum London Mining höfðu rannsakað svæðið við Isua í fimm sumur sýndu þúsundir bergsýna svo ekki varð um villst að þarna sé með góðu móti unnt að vinna mikið magn af járngrýti. Dýrar rannsóknir og undirbúningur London Mining hefur sem sagt skilað góðum árangri og nú er staðan sú að allt er til reiðu til að fara í uppbyggingu á námunni. Þ.e.a.s. um leið og grænlensk stjórnvöld veita vinnsluleyti og búið verður að fjármagna framkvæmdirnar. 

Greenland-Isua-iron-mine-map

Þarna er talið unnt að vinna u.þ.b. 15 milljónir tonna af hreinsuðu járngrýti á ári á 10-15 ára starfstíma. Að auki eru vísbendingar um að járngrýtið þarna við jökuljaðarinn teygi sig vel undir jökulinn og með frekari bráðnun og sprengingum megi vinna ennþá meira járngrýti en miðað er við í núverandi áætlunum. Skemmst er frá því að segja að taldar eru góðar líkur á að náman við Isua reynist svo stór að vinnslan muni standa yfir í allt að 30 ár.

Mati á umhverfisáhrifum vegna verkefnisins lauk í fyrrasumar (2011) og nú liggur umsókn um vinnsluleyfi hjá grænlenskum stjórnvöldum. Ef áætlanir ganga eftir munu framkvæmdirnar jafnvel hefjast strax á þessu ári (2012) og sjálf námuvinnslan yrði þá komin í gang 2015.

Þar verður um sannkallaða risafjárfestingu að ræða. Alls er kostnaðurinn talinn verða nálægt 2,5 milljörðum USD! Það er svipað eins og Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði til samans. Byggja þarf höfn, veg, flugvöll, um 135 MW díselrafstöðvirkjun við námuna og aðra 15 MW rafstöð við höfnina. Svo þarf auðvitað að reisa íveruhúsnæði fyrir allt starfsfólkið, sem verða um 300-400 talsins (en um 1.000 manns á uppbyggingartímanum).

Mining-trucks-2

Þá er ótalinn kostnaðurinn við sjálfan námugröftinn, en þar verður beitt stórvirkum vinnutækjum. Risatrukkar flytja grjótið í mulningsverksmiðju, sem reist verður í nágrenni við námuna, en þeir taka um 250 tonn á pallinn í hverri ferð.

Auk mulningsverksmiðjunnar sem grófmylur járngrýtið verður reist önnur vinnsluverksmiðja sem hreinsar grjót frá járni. Því fínmulda jarngrýti verður svo fleytt um rúmlega 100 km vatnslögn, sem verður reist frá vinnslustöðinni og allt niður að höfninni.

Þar við sjóinn verður járninu svo mokað um borð í skip, sem líklega munu sigla með herlegheitin alla leið til Kína. Ástæðan fyrir því að Kína er líklegur áfangastaður er m.a. sú að sennilega verður verkefnið að einhverju leyti fjármagnað af Kínverjum. Það á þó eftir að koma í ljós.

london-mining-isua-greenland

Hjá London Mining eru menn bjartsýnir um að vinnsluleyfið fáist afgreitt fljótlega. Ef einhverjir íslenskir bankar (sic) hafa áhuga á að fjármagna þessa risaframkvæmd, má nefna að ætlanir gera ráð fyrir að verkefnið borgi sig upp á um 3 árum. Reyndar mun London Mining hafa hugeitt að byggja sjálfa vinnsluverksmiðjuna, sem fínvinnur járnið úr mulningnum, á Íslandi! Það hefði kallað á allstóra virkjun hér á landi, en mun hafa reynst of dýrt, þ.a. horfið var frá þeim möguleika.

Þetta verður óneitanlega nokkuð afskekkt samfélag þarna við jökuljaðarinn lengst uppi á grænlenska fjalllendinu. Gott ef vinnubúðirnar sálugu við Kárahnjúka verða ekki taldar fínasta hressingarhæli miðað við járnnámuna í Isua. Sjálf náman verður það sem kallast "open pit" á fagmáli, þ.e. einfaldlega hola í jörðina, sem mun stækka hægt og sígandi eftir því sem skurðgröfurnar moka meira grjóti upp.

Greenland-Isua-helicopter-1

Í dag eru einungis örfá fyrirtæki með námuvinnsluleyfi á Grænlandi. Allt eru það ný verkefni þar sem vinnslan er u.þ.b. að hefjast. Á allra siðustu árum hefur aftur á móti orðið ekkert minna en sprenging í rannsóknum á nýjum námuverkefnum á Grænlandi. Rannsóknarleyfin eru orðin nálægt 200 talsins og þar af bættust við 70-80 leyfi á liðnu ári (2011).

Til samanburðar má nefna að í ársbyrjun 2010 voru öll gildandi rannsóknaleyfi á Grænlandi (þ.e. vegna eðalsteina, málma og ýmissa annarra frumefna) einungis um 80 talsins samtals. Fjöldi leyfa hefur því meira en tvöfaldast á aðeins tveimur árum! Leyfin ná til allskonar málma og annarra jarðefna. Auk járns má nefna demanta, gull, nikkel, kopar, platínu, zink og ýmis fleiri efni.

Það má reyndar velta fyrir sér hvaða geggjuðu efnahagslegu áhrif það muni hafa fyrir Grænland ef mörg (eða jafnvel bara fáein) þessara námuverkefna verða að veruleika á næstu árum. Sem fyrr segir er áætluð fjárfesting vegna járnnámunnar einnar við Isua áætluð um 2,5 milljarðar USD. Annað námuverkefni sem kennt er við Kvanefjeld hljóðar upp á um 2 milljarða USD. Þ.a. bara þessi tvö námuverkefni myndu þýða um 4,5 milljarða USD fjárfestingu á fáeinum árum. Og það hjá þjóð sem er innan við 50 þúsund manns. Svo hafa tugir annarra rannsóknaleyfa jú verið veitt og a.m.k. einhver þeirra munu sjálfsagt skila jákvæðri niðurstöðu.

Graenland-Nuuk-Ketill-Sigurjonsson-mai-2012

Þó svo bara tvö eða þrjú svona verkefni verði að veruleika og bætist við yfirstandandi olíuleitarverkefni í grænlenskri lögsögu, er afar líklegt að Grænland sé að ganga inn í eitthvert mesta góðæristímabil sem sögur fara af. Þess vegna kemur það ekki á óvart að stærsta og framsæknasta verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækið á Íslandi skuli nú sjá fyrir sér að spennandi tímar séu framundan á Grænlandi. Og kannski er heldur ekki svo skrítið að nú um stundir er húsnæðisverðið í Nuuk margfalt hærra en t.a.m. í Reykjavík og meira að segja hærra en í miðborg Kaupmannahafnar!

Óneitanlega vakna grunsemdir um að boginn hafi verið spenntur heldur hátt og að væntingarnar séu orðnar heldur miklar. Í huga margra Grænlendinga ríkir engu að síður eflaust mikil bjartsýni um að senn nái þjóðin efnahagslegu sjálfstæði. Enn þann dag í dag fá Grænlendingar um helming allra fjárlaganna sem styrk frá danska ríkinu. Eðlilega hljóta flestir Grænlendingar að óska sér þess að þjóðin geti staðið á eigin fótum. Og miðað við hinar geysilegu náttúruauðlindir landsins, kann að vera að það sé alls ekki fjarlægur draumur.

Nuuk-ketill-sigurjonsson

Það er afar skemmtilegt og áhugavert að koma til Nuuk. Í stað hefðbundinna borgarferða Mörlandans ættu Íslendingar miklu fremur að sækja Grænland heim. Bæði er að Grænland er alveg dásamlega fallegt land og Grænlendingar afar gestrisnir gagnvart Íslendingum.

Það verður spennandi að fylgjast með þróuninni á Grænlandi næstu árin. Vonandi tekst þessum góðu grönnum okkar í vestri vel til. Og vonandi fara íslensk stjórnvöld, íslenskir háskólar og íslensk fyrirtæki að huga meira og betur að samskiptum okkar við Grænlendinga. Auk viðskipatækifæra mætti þar t.d. hugsa sér meiri samskipti bæði á menntasviðinu og heilbrigðissviðinu, en fram til þessa hafa Grænlendingar sótt mest alla slíka þjónustu til Danmerkur. Þangað er um helmingi lengri flugtími en til Íslands.

Með öll þessi tækifæri í huga er svolítið dapurlegt að vita til þess að fyrirhugað íslenskt-grænlenskt viðskiptaráð, sem stendur til að stofna formlega síðar á þessu ári (2012), eigi aðeins að vera undirdeild í dansk-íslenska viðskiptaráðinu. Kannski skiptir þarna máli að Grænland er ekki ennþá sjálfstætt ríki og að dönsk stjórnvöld fara enn með utanríkismál vegna Grænlands. Engu að síður hefði Orkubloggaranum þótt eðlilegt og tilhlýðilegt að framámenn í íslensku viðskiptalífi hefðu þarna óskað eftir nánara og beinu samstarfi við Grænlendinga.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband