Blikur á lofti í orkuframtíð ESB

european-union_flag.jpg

Það er þetta með Evrópusambandið.

Um það leyti sem Orkubloggarinn útskrifaðist úr lagadeildinni fyrir... fyrir svo ótrúlega mörgum árum, var bloggarinn sannfærður um ágæti þess að Ísland yrði aðili að ESB. Taldi ESB eiga svo mikla framtíðarmöguleika, að það væri eiginlega alveg borðleggjandi að leita eftir aðild að sambandinu.

Þetta var vorið 1991.Og bloggarinn er reyndar ennþá svolítið spenntur fyrir Evrópusambandinu. En ekki verður framhjá þvi litið að ESB stendur nú frammi fyrir miklum vanda í orkumálum, sem kann að veikja mjög stöðu sambandsins til framtíðar. Þar er Orkubloggarinn að vísa til vatnaskilanna sem urðu árið 2004 í efnahagssögu ESB. Árið 2004 var nefnilega fyrsta árið í sögunni sem ESB fékk meira en helminginn af orku sinni frá innfluttum orkugjöfum.

Í dag er hlutfall innfluttrar orku hjá ESB um 54% og flest bendir til þess að hlutfall innfluttrar orku muni vaxa á næstu árum (þó svo kreppan hafi nú aðeins slakað á orkuþörfinni - tímabundið). ESB er sem sagt að verða æ háðara öðrum um orku. Það á bæði við um olíu á samgöngutækin og gas til raforkuframleiðslu og annarra daglegra nota.

Nú framleiða einungis 9 af aðildarríkjunum 27 svo mikla orku að það fullnægi meira en helmingi af orkuþörf viðkomandi landa. M.ö.o. þá þurfa 18 aðildarríkja ESB að flytja inn meiri orku en þau framleiða (hér er átt við alla orku; alla raforku, eldsneyti til raforkuframleiðslu og olíuafurðir á samgöngutækin). Og það sem enn verra er; í hópi hinna 18 ríkja sem eru rauðu megin við strikið eru nefnilega nær öll fjölmennustu löndin innan sambandsins. Nær allar fjölmennustu þjóðirnar - Frakkar, Ítalir, Spánverjar og Þjóðverjar - þurfa að flytja inn meira en helming orkunnar.

eu_energy_dependency_1020927.pngAf stóru þjóðunum er staða Ítala verst. Ítalía flytur inn hátt í 90% af allri orku sem notuð er í landinu! Spánverjar flytja inn meira en 80% og Þjóðverjar rúmlega 60%.  Frakkar eru nánast á pari (50/50) þrátt fyrir öll kjarnorkuverin sín, en ekkert land framleiðir jafn mikið af rafmagni með kjarnorku eins og Frakkland. 

Sjá má hlutfall innfluttrar orku hjá hverju aðildarríkjanna í töflunni hér að ofan. Einungis eitt af aðildarríkjum ESB framleiðir meiri orku en það notar. Það er Danmörk! Og sem fyrr sagði þá flytur ESB nú inn um 54% af allri sinni orku. Hlutfallið væri ennþá svartara (hærra) ef ekki vildi svo vel að eitt fjölmennasta landið innan ESB - Bretland - er ennþá gríðarlegur orkuframleiðandi.

Bretar fullnægja enn um 80% af orkuþörf sinni með eigin framleiðslu. Það geta þeir þakkað miklum kolanámum og gríðarlegum olíu- og gasauðlindunum í Norðursjó. Pólland er annað afar fjölmennt ríki sem er nokkuð vel sett með orkulindir. En það er vel að merkja nær eingöngu að þakka geggjuðum kolanámum landsins. 

uk-electricity_coal-gas.gifStóra vandamálið er að á næstu árum mun staða Breta að öllum líkindum versna til muna. Allt frá 1980 hefur kolavinnsla í Bretlandi farið hnignandi og Bretar sífellt þurft að flytja meira inn af kolum. Olíu- og gasvinnslan innan breskrar lögsögu hélt þó áfram að vaxa enn um sinn, eftir að kolaframleiðslan hafði toppað. Þess vegna var einfalt mál að nota gasið sem orkugjafa í rafmagnsframleiðslunni og kom ekki að sök þó kolin væru farin að minnka.Fyrir vikið jókst hlutfall gass í raforkubúskapnum í réttu hlutfalli við það sem dró úr vægi kolanna.

En svo kom að því um aldamótin að einnig gasframleiðslan náði hámarki og síðustu tíu árin hefur bæði olíu- og gasframleiðsla Breta minnkað verulega. Í olíuvinnslunni hefur þetta gerst nánast með með ógnarhraða, en gasframleiðslan hefur ekki fallið alveg jafn hratt. En fer þó einnig hnignandi.

coal_plant_modern_1021152.jpgNú eru að vísu vonir um að nýjar olíulindir finnist djúpt úti af Skotlandi. Samt sem áður er líklegast að Bretar hafa náð bæði Peak Oil og Peak Gas. Og næsta víst að innflutningsþörf Breta á olíu og gasi mun aukast jafnt og þétt á komandi árum. Í þessu sambandi er líka athyglisvert að Bretland er það land Evrópusambandsins, sem á lengst í land með að ná markmiðum um að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Einmitt þess vegna eru frábær tækifæri fólgin í því að Ísland bjóði Bretum raforku - á marföldu verði miðað við hvað stóriðjan hér er að borga. En það mun ekki breyta því að senn fer Bretland sömu leið og hin stóru Evrópusambandsríkin. Uns Bretland verður heldur ekki orkusjálfstætt.

Talandi um endurnýjanlega orku frá Íslandi, er ekki hægt að sleppa að nefna þá svakalegu staðreynd, að sá orkugjafi sem framleiðir hæsta hlutfallið af öllu rafmagninu innan ESB er sá Svarti sjálfur: Kol! Þar að auki nýtur evrópski kolaiðnaðurinn massífra niðurgreiðslna og ríkisstyrkja - þó meira sé talað um háleit markmið ESB í grænni orku. Evrópusambandið er m.ö.o. kolsvart og líka sífellt að verða öðrum háðara um gas og olíu.

russia-gas-pipe.jpg

Já - lindirnar í Evrópu eru smám saman að tæmast og spurningin bara hversu langan tíma það tekur. Líklegt er að orkusjálfstæði Breta mun minnka nokkuð hratt á næstu árum og þar með syrtir enn í álinn fyrir orkubúskap ESB. Jafnvel þó svo jafnvægi kunni að vera að komast á í orkunotkun margra ESB-ríkjanna (þ.e. að orkunotkunin haldi ekki áfram að vaxa eins og verið hefur fram til þessa), bendir allt til þess að bandalagið muni þurfa að flytja æ meira af orkunni inn. Enn sem komið er kemur stór hluti af þessari orku frá Norðmönnum, en flest bendir til þess að þörf ESB fyrir bæði arabíska olíu og rússneskt gas fari nokkuð hratt vaxandi.

cartoon-gas-pipes-putin.png

Það að þurfa að flytja inn mikið af raforku eða orkugjöfum þarf sossum ekki að vera áhyggjuefni. A.m.k. ekki ef framboð af orku er nóg og verðið lágt. Vandamál Evrópu er aftur móti það, að álfan er mjög háð afar fáum orkubirgjum. Þar eru stærstu bitarnir olía og gas frá Noregi, olía frá Persaflóanum, olía og gas frá Rússlandi og gas frá Alsír og Katar. ESB fær sem sagt gríðarlega stóran hluta af allri sinni olíu og gasi frá einungis örfáum ríkjum. Þar eru Rússar langstærstir. Sérstaklega er þó athyglisvert að einungis einn af stóru olíu- og gasbirgjum ESB getur talist vera þeim viðunandi vinsamlegur. Nefnilega Noregur.

Já- í reynd er Noregur eini vinsamlegi orkuvinur Evrópu. En jafnvel þó svo Norðmenn nái að viðhalda gasframleiðslu sinni eða jafnvel auka hana eitthvað á næstu árum, er augljóst að ESB þarf að fá sífellt meira gas frá löndum eins og Rússlandi, Alsír, Líbýu og Katar. Jafnvel þó svo við myndum líta á gasviðskipti ESB og Rússa sem gagnkvæma hagsmuni þar sem allt er í góðu, þá eru margir sem telja að olíu- og gasframleiðsla Rússa sé búin að ná toppi og muni héðan í frá fara hnignandi. Það er m.ö.o. alls ekki víst að Rússar geti mætt innflutningsþörf ESB með þeim hætti sem nauðsynlegt er til að gasverðið rjúki ekki upp. Þess vegna horfa Evrópuþjóðirnar nú til tækifæra til að fá aðgang að nýjum olíu- og gaslindum. Og þar er einkum horft annars vegar til Mið-Asíuríkjanna við Kaspíahafið og hins vegar til Íraks.

eu_gas-pipelines_nabucco_nord_south_stream.gif

Þess vegna hefur ESB undanfarin ár róið öllum árum að því að fá lagða nýja gasleiðslu sem tengi sambandið við gasveldin við Kaspíahaf. Hugsunin er líka sú að í framtíðinni geti leiðslan sú tengst annarri leiðslu sem myndi liggja frá Írak og jafnvel annarri leiðslu frá Íran. Þessi þýðingarmikla gasleiðsla, sem tengja á Evrópu við Kaspíahafsríkin og verða lykill að framtíðartengingu við Írak, er kölluð Nabucco.

Því miður kæra Rússar sig ekkert um að ESB leggi olíu- eða gasleiðslur beint austur eftir Tyrklandi og til Kaspíahafslandanna. Rússar vilja fá sem mest af þeirri olíu og þó sérstaklega gasinu, eftir leiðslum inn til Rússlands. Svo þeir geti flutt það áfram til ESB, tekið gjald fyrir og þar að auki haft þannig sterkara tangarhald á orkunni sem berst ESB. Og vegna sterkra pólitískra tengsla við Kaspíahafsríkin er eins víst að Rússum muni verða ágengt í að ná fram þessari stefnu sinni.

Í þessum tilgangi hafa Rússar undirbúið lagningu mikillar gasleiðslu beint frá Rússlandi og til ESB, eftir botni Svartahafsins. Sú leiðsla er kölluð South Stream og undanfarið hefur átt sér stað mikið kapphlaup um það hvort Nabucco eða South Stream muni hafa vinninginn. Nú síðast varð ESB fyrir því áfalli að sjálfur Obama Bandaríkjaforseti lýsti yfir stuðningi við lagningu South Stream. Og veikti þar með enn frekar vonir ESB um að Nabucco líti dagsins ljós. Á Evrópa öngvan vin lengur?

china_gas_pipeline_worker.jpg

Þar að auki þarf ESB líka að horfast í augu við að undanfarin ár hafa Kínverjar verið öflugir við að styrkja tengsl sín við gasríkin á austurströnd Kaspíahafsins. Landa eins og Kazakhstan, Túrkmenistan og Úsbekistan. Kínverjarnir hafa látið athafnir fylgja orðum og eru nú þegar búnir að leggja leiðslur frá Kína og þarna vestur eftir. Það er því margt sem bendir til þess að Kaspíahafsgasið muni fyrst og fremst streyma til Kína og Rússlands, en að Evrópa fái lítinn beinan aðgang að þeim miklu auðlindum.

Nei- það blæs ekki byrlega þessa dagana í að tryggja ESB orku til framtíðar. Enda eru framkvæmdastjórarnir hjá ESB orðnir svo skelfilega ringlaðir að þeir eru farnir að tala um að orka frá öldu- og sjávarfallavirkjunum og lífmassa hafsins muni leysa orkuvandamál Evrópu. Þá fyrst er ástandið orðið alvarlegt þegar framkvæmdastjórar ESB láta út úr sér svona dómadags vitleysu. Þó svo virkjun sjávarorku sé mikil snilldarhugmynd, þá er þetta tækni á algeru frumstigi og ómögulegt að segja hvenær hún kemst á eitthvert flug. Það á við um allar tegundir sjávarorkuvirkjana. Og það á ekki síður við um þá hugmynd að framleiða fljótandi lífrænt eldsneyti úr sjávarlífi (þörungum). Það er einfaldlega svo að á næstu áratugum og jafnvel alla 21. öldina mun enginn orkugjafi geta leyst olíu, gas, kol og kjarnorku af hólmi svo neinu nemur. Að tala um sjávarorku sem leið fyrir Evrópu að losna undan gashrammi Rússa eða að slíkt muni minnka olíuþorsta Evrópu er í besta falli kjánalegt.

iraq_pipes.jpg

Orkubloggarinn er orðinn þreyttur á þessari vitleysu. Framkvæmdastjórn ESB verður að taka sig á. Og skilja það að skynsamasta leiðin til að tryggja öruggt orkuframboð í Evrópu er að byrja eins og skot að leggja Nabucco leiðsluna austur til Azerbaijan, áður en Kínverjarnir verða komnir þangað með enn eina leiðsluna. ESB þarf líka að stuðla að nánara sambandi við olíu- og gaslöndin í Norður-Afríku; Egyptaland, Líbýu og Alsír. Byggja þangað tengingar og auka þaðan framboð af bæði olíu og gasi.

Síðast en ekki síst þarf ESB að horfast í augu við það að þeir sem ráða munu yfir æpandi olíu- og gaslindunum í Írak verða í algerri lykilstöðu i alþjóðastjórnmálum framtíðarinnar. Það kann að vera bæði dýrt og erfitt að vera með herlið í Írak, en að skilja landið eftir í höndum Bandaríkjamanna og láta þá sitja uppi með að leysa úr vandanum væri galin niðurstaða.

Til að svo tryggja orkusjálfstæði Evrópusambandsins þarf risaátak og nánast æpandi framsýni stjórnmálamanna. Sennilega er eina vitið fyrir ESB að fara strax að huga í alvöru að stækkun bandalagsins til bæði austurs og suðurs. Þá myndi Evrópa enn á ný þróast í þá átt að verða bandalag allra ríkjanna í kringum Miðjarðarhaf, þar sem kristnir menn, arabar og gyðingar geta lifað í sátt og samlyndi.

tunis_summer-la-goulette-3.jpg

Mörgum kann að þykja slíkur samhugur trúarbragðanna vonlaus og þetta vera barnaleg draumsýn hjá bloggaranum. En í reynd eru öll þessi lönd fyrst og fremst byggð velmeinandi fólki. Það þarf einfaldlega að finna leiðir til að auka menntun og útrýma fátæktinni, sem þarna er svo víða að finna. Og þar með eyðileggja jarðveginn fyrir ofsatrúarhópana, sem þrífast á misskiptingu, vanþekkingu, fátækt og fordómum. Ef það tekst ekki, er hætt við að staðnað ESB Evrópulandanna einna, muni í framtíðinni enda sem orkulítill þurfalingur. Og verða peð í valdatafli orkustórveldanna Bandaríkjanna, Rússlands og Kína.

----------------------------------

PS: Myndin hér að ofan er úr bíómyndinni dásamlegu, Sumar í Goulette, sem gerist í Túnis rétt áður en sex daga stríðið skall á. Kvikmynd sem minnir okkur á hvernig stjórnmálaruglið við botn Miðjarðarhafsins hefur í meira en 40 ár mengað allt mannlíf á svæðinu. Dapurlegt.



Skammsýni ASÍ og SA

gylfi_vilhjalmur.jpg

Þeir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins og Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, eru með böggum Hildar þessa dagana. Og sortnar fyrir augu yfir þeirri tilhugsun að kannski verði ekkert af byggingu álvers Norðuráls í Helguvík.

Álbræðslur sækja þangað sem þau fá ódýrasta rafmagnið. Þar hefur Ísland um skeið boðið hvað best. Upplýsingar um raforkuverð til stóriðju sýna glögglega að raforkan hér hefur undanfarin ár verið seld jafnvel ódýrari en hjá vanþróuðum þjóðum Afríku. Og það þó svo hér fái álverin algerlega öruggt raforkuframboð, pólitískan stöðugleika og vel menntað vinnuafl í kaupbæti. Þetta er hinn nístingskaldi raunveruleiki, sem dregur svaðafyrirtæki eins og Glencore International, til Íslandsstranda. Harðjaxlagengið hjá Glencore eru einmitt aðaleigaendur Century Aluminum.

Orkubloggarinn á erfitt með að skilja af hverju menn sjá hagsmuni í því fyrir Íslendinga að fá tindáta frá mönnum, sem kallaðir hafa verið mestu blóðsugur þriðja heimsins, til að byggja álver suður í Helguvík. Bloggarinn er á því að þeir Gylfi og Vilhjálmur ættu fremur að tala fyrir því að það sé bæði hagur umbjóðenda þeirra og þjóðarinnar allrar að hætta að kyssa vöndinn! Við eigum að gera meiri arðsemiskröfu til nýtingar á íslenskum náttúruauðlindum, heldur en býðst með því að virkja fyrir álver. Vatnsaflið og jarðvarminn er fjöregg þjóðarinnar og verði áfram haldið á álbræðslubrautinni mun samningsstaða orkufyrirtækjanna gagnvart stóriðjunni versna enn frekar. Bygging fleiri álvera mun auka enn meira líkurnar á því að við verðum áfram föst í feni lágrar arðsemi í raforkuframleiðslunni til langrar framtíðar.

statnett_historical_menn_i_mast.jpg

Miklu skynsamlegra væri að nýta tækifærin sem nú bjóðast til að margfalda tekjur bæði Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Gera bæði þessi opinberu fyrirtæki að öflugri uppsprettu að gallhörðum erlendum gjaldeyri; gjaldeyri sem ekki aðeins myndi duga fyrir afborgunum lána, heldur gæti myndað stofn að öflugum íslenskum fjárfestingasjóði í eigu almennings. Til að svo geti orðið, er einfaldlega skynsamlegast að fara strax að undirbúa og vinna að fullu í því að lagður verði rafstrengur milli Íslands og Evrópu.

Það er eiginlega með ólíkindum að stóru orkufyrirtækin þrjú skuli ekki hafa stofnað með sér samstarfsvettvang um þetta fyrir löngu. En það er kannski skiljanlegt að af þessu hafi enn ekki orðið; Friðrik Sophusson fráfarandi forstjóri Landsvirkjunar virtist hafa það sem sérstakt áhugamál sitt að selja rafmagn á gjafverði til álvera, Orkuveita Reykjavíkur er á hausnum og HS Orka hefur átt nóg með eigendavandræði sín.

Því miður er nýr forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, ennþá sá eini sem virðist hafa áttað sig á tækifærunum sem liggja í rafstreng til Evrópu. Ekki einu sinni hinn glænýi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, Haraldur Flosi Tryggvason, minnist einu orði á þetta í þeim fjölmörgu viðtölum sem fjölmiðlar hafa átt við hann síðustu dagana. Þetta er sérstaklega sorglegt í ljósi þess að Haraldur Flosi er nú byrjaður að boða einföldu lausnina; gjaldskrárhækkanir. Þær verðhækkanir munu vel að merkja eingöngu beinast að almenningi og venjulegum fyrirtækjum, en stóriðjan verður stikkfrí með sína langtíma raforkusamninga.

helgi_thor_ingason_1019441.jpg

Stjórnarformaður OR þarf að gerast víðsýnni og ætti án tafar að fela hinum nýja "tímabundna" forstjóra Orkuveitunnar, Helga Þór Ingasyni, að leita samstarfs við evrópsk orkuframleiðslu- og raforkudreifingarfyrirtæki. Þeir Helgi Þór og Haraldur Flosi ættu jafnvel að leitast við að fá slík fyrirtæki inn sem eigendur að minnihluta í OR. Svo unnt verði að grynnka á skuldunum og gera eiginfjárstöðu Orkuveitunnar álitlega. Einnig væri upplagt fyrir lífeyrissjóðina að koma að Orkuveitunni - a.m.k. væri það lógískara heldur en að sjóðirnir séu að standa í braski með símafélög og byggingafyrirtæki.

Já - Orkuveitan þarf að fá í hópinn skynsama eigendur með langtímahugsun. Hin nýja stjórn og forstjóri OR þurfa að gera það að forgangamáli að finna góða framtíðarlausn fyrir OR. Stjórnendurnir mega ekki bara einblína á gjaldskrárhækkanir - þó þær séu auðvitað einfaldasta og auðveldasta leiðin til að bæta götin á hinu sökkvandi gráa skipi Orkuveitunnar. Byrja þarf strax að undirbúa það að fyrirtækið losni undan a.m.k. hluta af raforkusölunni til Norðuráls á Grundartanga og geti selt þá sömu orku á margfalt hærra verði til Evrópu. Þeir þurfa líka að skoða vandlega með hvaða hætti OR getur losnað undan raforkusölusamningi vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík (ef slíkur bindandi samningur er á annað borð kominn á). Vonandi er það í reynd svona stefna sem verið er að boða með nýjum forstjóra yfir Orkuveitunni.

Óneitanlega er Orkubloggarinn grænn af öfund útí Helga Þór. Af því varla er hægt að hugsa sér meira spennandi starf á Klakanum góða heldur en forstjórastarf hjá orkufyrirtæki á tímamótum. 

raforka_2010_askja-energy_1019254.pngÍsland er hvorki meira né minna en mesti orkubolta veraldarinnar. Þetta kann að skapa okkur mögnuð tækifæri til framtíðar. Engin þjóð framleiðir hlutfallslega jafn mikið af raforku eins og Íslendingar. Íslendingar framleiða nú rúmlega 50 þúsund kWst af rafmagni á ári per capita (þ.e. miðað við fólksfjölda). Og það allt saman með vatnsafli og jarðvarma - notar ekkert gas og engin kol til þessarar miklu raforkuframleiðslu.

Ekkert land í heiminum kemst nálægt því að vera þvílíkt ofsalegt grænt orkuveldi. Norðmenn komast næst okkur - með rétt rúmlega 35 þúsund kWst pr. mann (nánast allt frá vatnsafli). Í reynd kemst ekki nokkur þjóð nálægt því að framleiða eins mikið af raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum per capita, eins og við Íslendingar gerum.

Jafnvel þó svo við miðum ekki bara við raforkuframleiðslu, heldur teljum með alla orkuframleiðslu (bæði rafmagn og eldsneyti - alla endurnýjanlega orku svo og kol, gas og olíu) þá er Ísland þar í fararbroddi með örfáum öðrum þjóðum. Ríkjum eins og Noregi og olíuríkjunum svakalegu við Persaflóann. Það eru sem sagt bara örfá ríki í heiminum sem framleiða álíka mikið af orku per capita eins og Ísland og í raforkuframleiðslu er Ísland langfremst. Og sem fyrr segir byggir öll þessi mikla raforkuframleiðsla Íslands á endurnýjanlegum orkugjöfum.

gas_europe_map.jpg

Sérstaða Íslands í orkumálum er m.ö.o. æpandi mikil. Og tækniþróun í rafmagnsflutningum hefur nú skapað okkur einstakt tækifæri. Þar að auki hefur þróun orkumála innan ESB undanfarið verið eins og best verður á kosið, fyrir ríki með svo mikla endurnýjanlega raforkuframleiðslu eins og Ísland.

Nú á þessum síðustu og verstu tímum er þorsti ESB í meiri endurnýjanlega orku og í meiri orkuviðskipti við vinaþjóðir gríðarlega mikill. ESB horfist nú í augu við mörg vandasöm risaverkefni í orkumálum. Eitt er það að minnka þörf sína fyrir rússneskt gas. Annað að stórauka hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkubúskap aðildarríkjanna.

Til marks um erfitt ástand hjá bandalaginu má nefna að árið 2004 varð ESB í fyrsta sinn að flytja inn meira en helming allrar orkunnar sem notuð er innan sambandsins. Horfur eru á að þessi þróun muni halda áfram; að hlutfall innfluttu orkunnar hjá ESB eigi enn eftir að aukast. Þetta kemur ekki síst til af því hversu olíu- og gaslindirnar í Norðursjó eru að tæmast hratt. Þó svo kreppan hafi að vísu hægt aðeins á innflutningsþörfinni er ekkert annað í spilunum en að ESB þurfi i framtíðinni í æ meiri mæli að mæta bæði raforkuþörf sinni og eldsneytisþörf með innflutningi.

desertec_plan_map_1019514.jpg

Þetta er það umhverfi sem nú ríkir í næsta nágrenni okkar. ESB leitar logandi ljósi að leiðum til að vingast við nágranna sína til að tryggja frá þeim orkuframboð í framtíðinni. Þess vegna er ESB nú t.d. farið að horfa til þess að taka þátt í að reisa rándýr sólarorkuver í N-Afríku. Og leggur höfuðáherslu á að byggð verði ný ofur-gasleiðsla (Nabucco) sem tengi ESB við gasríkin í Mið-Asíu. Allt gengur þetta þó mjög hægt og fyrir vikið eru vesalings framkvæmdastjórar sambandsins farnir að rugla um "meiriháttar tækifæri" aðildarríkjanna í virkjun sjávarorku - tækni sem er á fósturstigi og ómögulegt að segja hvernig muni þróast. Á maður að hlæja eða gráta?

Í reynd eru fáir raunverulegir góðir kostir í stöðunni fyrir ESB. En þeir eru þó til. Þess vegna er nú búið að leggja háspennustreng milli Noregs og Hollands. Og í undirbúningi að leggja annan slíkan streng milli landanna og líka verið að skoða það að leggja slíkan streng milli Noregs og Bretlands. Þarna er um að ræða þekkta tækni í formi mjög öflugra háspennustrengja - tækni sem veitir ESB aðgang að endurnýjanlegri raforku frá ríkjum sem eru þeim vinsamleg. Og verðið sem fæst í ESB fyrir raforkuna er vel að merkja margfalt á við það sem stóriðjan hér borgar.

Þar með er Orkubloggarinn ekki að tala fyrir því að hér eigi að reka álfyrirtækin á brott. Alls ekki. Bara það eitt að láta t.d. Búðarhálsinn og svo afgangsorku sem er í kerfinu malla inná svona streng þegar verðið er hátt (á álagstímum) myndi borga hann upp á undraskjótum tíma. Straumsvík, Norðurál og Fjarðarál þurfa bara að átta sig á því að þau fái ekki lengur orkuna á kostnaðarverði. Bloggarinn er þess fullviss að þessi fyrirtæki hafa öll borð fyrir báru til að greiða a.m.k. 50% hærra verð fyrir raforkuna en þau gera. Og þau myndu fljótt verða viljug til þess, þegar háspennustrengur væri kominn til Evrópu. Óskiljanlegt að ekki skuli vera komin af stað pólitísk umræða um þennan valkost.

gylfi-vilhjalmur-johanna-stodugleikasattmalinn.jpg

Þó svo raforka frá Íslandi myndi auðvitað aldrei samsvara nema litlu broti af allri orkunotkuninni í ESB, er fráleitt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að kringumstæðurnar eru okkur afar hagstæðar. En í stað þess að nýta okkur þetta til að margfalda tekjurnar af raforkuframleiðslunni, eru sumir sem vilja barrrasta halda sig í gamla rassfarinu; selja raforkuna til þeirra sem þrífast á því að fá hana á verði sem ekki er hægt að kalla neitt annað en skít og kanil. Vonandi verður ekki meira klappað hér fyrir slíkum skelfilega gamaldags og stöðnuðum sjónarmiðum. Og vonandi fá hugmyndir um rafstreng frá Íslandi til Evrópu brátt öflugan stuðning hjá íslenskum stjórnmálamönnum og ríkisstjórninni. Sú strategía er hin eina rétta.

 


Gasrisi í úlfakreppu

eldgos2_jpg_620x800_q95.jpg

Hver voru dramatískustu áhrifin af eldgosinu í Eyjafjallajökli? 

Svarið liggur í augum uppi. Nefnilega hinn gjörsamlega misheppnaði fundur Gasbandalagsins, sem haldinn var í Oraníuborg í Alsír í apríl sem leiðÞar með verður einhver frestun á því að nokkur helstu gasútflutningsríki veraldarinnar nái samskonar kverkataki á gasmörkuðunum eins og olíuútflutningsríkin hafa í gegnum OPEC. Kannski eins gott - a.m.k. fyrir Evrópusambandið, sem er mjög háð gasinnflutningi.

Eins og kunnugt er olli eldgosið mikilli röskun á flugsamgöngum um alla Evrópu og reyndar víðar um heim. Fyrir vikið varð mætingin eitthvað slöpp á þennan tíunda fund hins óþroskaða  Gasbandalags (Gas Exporting Countries Forum eða GECF) í Oraníuborg. Þessi slaka mæting gaf tóninn fyrir árangurslítinn fund. Það eina sem út úr honum kom var afar loðin yfirlýsing; innihaldslaust hjal sem mun litlu breyta fyrir gasviðskipti veraldarinnar. 

gecf_meeting_oran_2010.jpg

Þetta voru vonbrigði fyrir Alsírmenn, sem höfðu bundið miklar vonir við fundinn. Fyrir hann var nefnilega altalað í bransanum að Alsíringar hafi verið búnir að leggja í mikla undirbúningsvinnu til að fá samþykkta tillögu um mjög nána samvinnu aðildarríkja GECF - m.a. um að stýra framboði af gasi. Það gekk ekki eftir og fátt bendir til þess að af því verði í bráð. Þó maður eigi auðvitað aldrei að segja aldrei!

chakib_khelil_hugsi.jpg

Já - á sama tíma og Orkubloggarinn dýfði tásunum í olíumengað Kaspíahafið og sötraði berfættur te á Arabakaffihúsi austur í olíuborginni Bakú í Azerbaijan, fór allt í vaskinn hjá ljúflingnum Chakib Khelil, orkumálaráðherra Alsír. Ekki að furða þó hann væri svolítið þreytulegur angaskinnið.

Ekki aðeins mistókst Khelil að fá GECF-samkunduna til að taka afgerandi ákvörðun um formlegt samstarf, sem myndi hjálpa Alsír að byggja upp frekari gasvinnslu í landinu, heldur var hann í þokkabót skömmu síðar rekinn úr stöðu orkumálaráðherra Alsír. En áður en við komum að þessu drama, er rétt að hafa hér smá inngang:

Það hefur lengi verið draumur nokkurra helstu gasútflytjenda veraldarinnar - landa eins og Alsír, Katar, Indónesíu, Malasíu og Rússlands - að stofna samtök í anda OPEC. Í þeim tilgangi að gæta sameiginlegra hagsmuna sinna; hagsmuna sem eru auðvitað aðallega fólgnir í því að stjórna framboði af gasi og þar með hafa áhrif á verðið. Samtök olíuútflutningsríkja (OPEC eða Organisation of Petroleum Exporting Countries) eru þekkt fyrir framleiðslukvóta sína og þó svo oft hafi gengið erfiðlega að ná samstöðu innan OPEC hafa samtökin í áratugi gegnt afar þýðingarmiklu hlutverki við að hámarka hagnað olíuútflytjendanna við Persaflóa og víðar. Því er ekki skrítið að stóru gasútflytjendurnir hafi fengið þá hugmynd að stofna e.k. GasPEC.

algeria_gas_flare.jpg

Eftir nokkrar þreifingar kom að því árið 2001 að áðurnefnt GECF var stofnað sem samstarfsvettvangur og skref í þá átt að vinna betur með þessa hugmynd um Gasbandalag. Stofnsamningurinn lá samt ekki fyrir fyrr en seint á árinu 2008, þ.a. að það er fyrst núna á allra síðustu árum að Gasbandalagið virðist geta orðið að veruleika.

En þó svo hugmyndin kunni að virðast borðleggjandi er vandamálið bara að það er talsvert erfiðara að stjórna gasmarkaði veraldarinnar heldur en olíumarkaðnum. Miklu flóknara er t.d. að geyma gas og verð á gasi hefur undanfarið farið lækkandi vegna nýrrar gasvinnslutækni vestur í Bandaríkjunum og aukins framboðs þar.

Allt þar til fyrir fáeinum árum einkenndust gasviðskipti af langtímasamningum, þar sem samningarnir voru oft til a.m.k. tuttugu ára og verðið jafnan tengt olíuverði. En vegna þess að framboð af gasi hefur verið að aukast hraðar heldur en framboð af olíu, hafa margir gaskaupendur í auknum mæli fært sig úr langtímasamningum og yfir í styttri samninga. Stuttu samningarnir skila nefnilega oftast lægra verði þegar framboðið er eins mikið og verið hefur undanfarið. Fyrir vikið hefur staða helstu gasútflytjendanna verið að veikast og er langt frá því eins sterk eins og hjá olíuútflytjendunum í OPEC.

Mikið framboð af gasi, svo og eðli gasviðskipta ætti auðvitað að hvetja gasútflytjendur til dáða um að auka samstarf sín á milli og reyna að hafa áhrif á framboð og verð. En þróunin síðustu misserin og óvissan í efnahagsmálunum hefur þvert á móti valdið vaxandi misklíð í hópnum.

Vegna vaxandi gasframleiðslu í Bandaríkjunum hefur þrengst þar að aðgangi fyrir innflutt gas (nema menn vilji selja fyrir skít og kanil). Og jafnvel þó svo Evrópa sé afar háð innfluttu gasi varð kreppan til þess að stórminnka eftirspurn Evrópu eftir gasi. Fyrir vikið hefur blossað upp titringur milli sumra af stóru gasútflytjendunum, sem allir vilja koma sínu gasi á þessa markaði.

lng-exporting-country-1982-2007.jpgDraumurinn um Gasbandalag markaðist ekki síst af því að framleiðsla og skipaflutningar með fljótandi gas (LNG) hefur verið að aukast mjög. Alsír var á sínum tíma sannkallaður brautryðjandi í LNG og hafa í áratugi selt fljótandi gas til Bretlands og fleiri ríkja. En Alsír hefur ekki náð að fylgja þessu eftir; þar hefur LNG-framleiðslan ekki aukist jafn hratt undanfarin ár eins og hjá nokkrum öðrum gasríkjum. 

Gasverð hefur sem fyrr segir lengst af verið mjög tengt olíuverði og þegar olían fór hækkandi sköpuðust skilyrði til ennþá meiri LNG-framleiðslu. Upp á síðkastið hafa t.d. Katarar, Norðmenn, Ástralar og fleiri gasríki sem liggja fjarri mörkuðunum veðjað mjög á LNG og byggt upp slíka vinnslu í stórum stíl. Og selja þaðan gas til t.d. Japan og Bandaríkjanna.

lng-exporters_2000-2004-2007.jpgÞessi sprenging í LNG-bransanum gerði gas að mun "hreyfanlegri" hrávöru heldur en þegar gas er eingöngu flutt um leiðslur til kaupanda tiltölulega nærri framleiðslusvæðinu. Vaxandi LNG-framleiðsla gerði það að verkum að gasmarkaðurinn fór um margt að minna á olíumarkaðinn. En LNG nemur einungis rúmum 5% af allri gassölu veraldarinnar - ennþá er langmest af gasi selt um gasleiðslur á markaði ekki mjög fjarri framleiðendunum. Fyrir vikið er gas ekki ennþá orðið að alþjóðlegri hrávöru í líkingu við olíu og þess vegna gilda ekki sömu lögmál um gas eins og olíu.

Þrátt fyrir að Alsíringar séu vel meðvitaðir um það, að erfitt geti verið fyrir gasútflutningsríki að stjórna framboði og verðmyndun á gasi, vita þeir líka að EF þeir myndu fá t.d. Rússa og Katara til að vinna meira með sér, gæti það mögulega gjörbreytt gasviðskiptum. Til hagbóta fyrir gasútflutningsríkin.

Þetta snýr ekki síst að Evrópu. Stærstu gasbirgjar Evrópu eru Rússland og Alsír, ásamt Noregi. Norska gasið fer fyrst og fremst til N-Evrópu, rússneska gasið til Þýskalands og Austur- og Mið-Evrópu og S-Evrópa fær mest af sínu gasi frá Alsír. Verulegur hluti af Evrópumarkaðnum getur bæði nýtt sér rússneskt og alsírskt gas, sem hefur valdið togstreitu milli þessara ríkja nú þegar gaseftirspurn minnkar. Nýja gasbandalagið átti einmitt að draga úr þeim núningi og koma þannig skipulagi á gasviðskipti að báðar þessar þjóðir myndu hagnast - auðvitað á kostnað kaupendanna. En togstreitan virðist vera það mikil að menn nái ekki að finna leiðina að Gasbandalagi í líkingu við OPEC.

gaspec-opec-comparsion_2006.jpg

Alsírmaðurinn Khelil vann hörðum höndum að því að koma GECF á fót. Hann hafði verið olíumálaráðherra Alsír í áratug og nú vildi hann taka næsta skref og gera GECF að alvöru áhrifabandalagi í anda OPEC. Á góðæristímanum 2007-08 hafði honum að því er virtist tekist að sannfæra Rússana um að svona Gasbandalag myndi henta öllum gasríkjunum afar vel. En svo skall kreppan á!

Það var auðvitað bara svona aulagrín hjá Orkubloggaranum hér í upphafi færslunnar að kenna Eyjafjallajökli um lítinn samhug á gasfundinum í Óraníuborg í apríl sem leið. Þar var miklu fremur um að kenna kreppunni og óvissunni sem nú ríkir á orkumörkuðunum, að svo fór sem fór á fundinum þeim.

Þegar þrengir að verður hver sjálfum sér næstur og skammsýni tekur völdin. Það á ekki síst við um Rússana, sem eru að fá þungt högg vegna lækkandi gasverðs og hafa um nóg annað að hugsa þessa dagana en langtímahorfur á gasmörkuðum. Það eitt og sér að kreppan hefur minnkað eftirspurn Evrópu eftir rússnesku gasi, ætti svo sem ekki að gera þá afhuga Gasbandalagi. En það sem Rússarnir hafa jafnvel ennþá meiri áhyggjur af þessa dagana heldur en verðlækkun á gasi, er hin hljóðlega en harða barátta þeirra við Kínverja um áhrif yfir gaslindum Mið-Asíuríkjanna við Kaspíahafið.

Kínverjar hafa stille og roligt verið að leggja gasleiðslur þangað vestur eftir og eru núna búnir að ná yfirráðum yfir verulegum hluta þess gass Mið-Asíuríkjanna, sem Rússar ætluðu sér að stjórna. Þetta er grafalvarlegt mál fyrir Rússa, því þeir ætluðu að láta þetta gas fara gegnum rússneskar gasleiðslur og hirða prósentur af allri sölu þess. Fyrir vikið virðist nú ríkja nokkur ringulreið í gasherbúðum Rússa og gasbandalag í anda OPEC ekki alveg forgangsatriði hjá hinu rússneska Gazprom þessa dagana. Þar skiptir meira máli hvernig orkuöxullinn mikli, sem tengir ESB, Rússland og Kína við Mið-Asíugasið, mun snúast í framtíðinni (segja má að miðpunktur eða hjarta þessa öxuls sé einmitt áðurnefnd Bakú í Azerbaijan, þó svo þarna sé í reynd um að ræða fjölhjarta kvikyndi).

gecf-gas-exporting-countries-forum.jpg

Þess vegna er nú allsendis óvíst hvenær formlegt "Gaspec" Rússa með Persaflóaríkjunum og N-Afríkumönnum kemst á. Þetta veldur Alsírmönnum talsverðum áhyggjum. Þar á bæ er æpandi þörf á auknum tekjum eftir ófriðartímana sem þar geisuðu meira og minna allan 10. áratug liðinnar aldar og stöðvuðu að mestu alla fjárfestingu í landinu. Í þeim langvarandi átökum féllu allt að hundrað þúsund manns og er ekki hægt að kalla þessa skelfingu neitt annað en hörmulegt borgarastríð. Loks eftir um áratugarátök var máttur dreginn úr ofsatrúarmönnunum og ástandið í Alsír hefur til allrar hamingju stórbatnað frá aldamótunum.

Fyrir vikið eru erlendir bissnessmenn nú loksins á ný farnir að líta til þessa risastóra og fjölmenna lands (íbúarnir eru um 35 milljónir) og spekúlera í að lána eða fjárfesta í orkuvinnslu þar. En það er langt í land með að nauðsynleg endurnýjun eigi sér stað í gasgeiranum í Alsír. Eftir næstum tveggja áratuga stöðnun er Alsírmönnum orðið lífsnauðsynlegt að endurnýja tæknibúnaðinn og hefja vinnslu á nýjum svæðum. En það hefur gengið hægt að fá fjármagn inní landið og Khelil sá stofnun raunverulegs Gasbandalags sem lykil að stóraukinni arðsemi í gasvinnslunni, sem myndi um leið laða fjármagnið að.

sonatrach_logo_1015428.jpg

Árið 2000 fullyrti Khelil að innan fimm ára (þ.e.a.s. 2005) myndi gasframleiðsla í Alsír aukast um 50%. Það hefur alls ekki gengið eftir og nú telja bjartsýnir menn að þetta markmið Khelil muni í ekki nást fyrr en áratug síðar en áætlun hans hljóðaði upp á (þ.e. 2015). Upphafleg stefna Khelil frá því hann tók við embætti olíu- og orkumálaráðherra hefur því einfaldlega beðið skipbrot.

Þó svo fyrirtæki með nauðsynlega tækniþekkingu séu nú aftur tilbúin að koma til Alsír, hefur sem sagt gengið mjög treglega að nálgast fjármagn til uppbyggingarinnar. Ofan á þessi vandræði bættist svo mikið spillingarmál, sem nýverið komst upp hjá alsírska ríkis-orkufyrirtækinu Sonatrach, þar sem framkvæmdastjórnin hafði misbeitt valdi sínu til hagsbóta fyrir útvalda verktaka. 

abdelaziz-bouteflika_angela-merkel.jpg

Þetta ásamt töfum í þróun Gasbandalagsins olli því að Khelil missti mikið af trúverðugleika sínum, jafnvel þó svo honum sjálfum verði ekki beinlínis kennt um vandræðin. Nú var hinum stutta en öfluga Abdelaziz Bouteflika Alsírforseta nóg boðið; í sumarbyrjun rak hann Khelil úr ráðherrastólnum og skipaði Youcef Yousfi í hans stað. Einnig var skipt um forstjóra yfir Sonatrach og settar nýjar og gegnsærri reglur um skipan útboðsmála hjá fyrirtækinu.

Sonatrach er ekki aðeins hið einráða ríkisfyrirtæki í gasiðnaði Alsíringa, heldur í reynd eitt helsta þjóðarstolt landsmanna. Alsírmenn þurftu að há langa og blóðuga baráttu fyrir sjálfstæði sínu og eftir að hafa hrakið nýlenduher Frakka á brott tóku þeir orkulindirnar í eigin hendur og stofnuðu Sonatrach. Sem síðan hefur verið þeirra líf og yndi.

Fljótlega eftir nýfengið sjálfstæði Alsír árið 1962 kom í ljós að jarðgas væri mun stærri hluti af náttúruauðlindunum þar í landi heldur en í flestum öðrum olíuríkjum. Nærri helmingur allrar kolvetnisvinnslu í Alsír hefur verið gas (hinn helmingurinn er auðvitað olía og Alsír er einn stærsti olíuframleiðandinn í Afríku). Fyrir vikið hefur gasvinnslan verið óvenju mikilvæg fyrir efnahag Alsírmanna.

yousfi.jpg

Nýi orkumálaráðherrann Youcef Yousfi er að taka að sér mun stærra og flóknara verkefni en bara það eitt að vera ráðherra yfir allri olíu- og gasvinnslu í Alsír. Hann þarf að endurvinna stolt Sonantrach og þar bíða tvö risaverkefni; annars vegar að hreinsa út spillinguna og vanhæfið hjá fyrirtækinu og hins vegar að tryggja farsælan rekstur þess til framtíðar. Í þessu síðarnefnda felst þróun nýrra gasvinnslusvæða svo gasframboð frá Alsír verði tryggt til framtíðar.

Yousfi er enginn nýgræðingur; hann var einmitt orkumálaráðherra þegar Bouteflika forseti komst til valda árið 1999. En Bouteflika vildi þá nýjan mannskap og hóaði í Khelil, sem þá hafði starfað lengi hjá Alþjóðabankanum vestur í Washington.

Framan af átti Khelil nokkuð farsælan feril og varð fljótlega einn öflugasti ráðherrann á vettvangi OPEC og skyggði á köflum jafnvel á sjálfan yfirljúflinginn Ali Al-Naimi, olíumálaráðherra Sádanna sem Orkubloggið hefur ósjaldan minnst á. Khelil virðist hafa verið ómeðvitaður um spillinguna innan Sonatrach, en sem orkumálaráðherra bar hann pólitíska ábyrgð á því. Eftir að Khelil hafi bæði mistekist að koma Gasbandalaginu almennilega áleiðis og lent í vandræðum með að laða fjárfesta að gasvinnslunni, var spillingarmálið innan Sonatrach dropinn sem fyllti mælinn.

algeria_gas-pipelines_map.jpg

Þetta voru sennilega tímabær mannaskipti - bæði í ríkisstjórninni og ekki síður hjá orkufyrirtækinu. Þannig gerast a.m.k. hlutirnir hjá stjórnsýslunni í Alsír! Menn sem ekki ná markmiðum eru látnir víkja og nýir taka við.

Slíkt þykir fullkomlega eðlileg og skynsamleg ráðstöfun hjá siðuðum stjórnmálamönnum - en vissulega ekki alls staðar. Í tilefni vandræðagangsins hjá Orkuveitu Reykjavíkur og nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga hér á Klakanum góða, sem leiddu til nýs stjórnarmeirihluta hjá OR,  má velta fyrir sér hvort eitthvað sambærilegt gerist nú hjá nánast gjaldþrota Orkuveitunni?

 


Hversu langur ætti afnotatíminn að vera?

Samkvæmt gildandi lögum geta einkaaðilar fengið leyfi ríkis og/eða sveitarfélaga til að nýta orkuauðlindir í þeirra eigu til allt að 65 ára í senn. Auk þess hafa fyrirtækin möguleika á framlengingu, sem unnt er að semja um þegar helmingur afnotatímans væri liðinn.

Lagaákvæðin um tímabundna afnotaheimild að orkuauðlindum komu í lög árið 2008, fyrir tilstilli meirihluta Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Skömmu áður hafði þáverandi iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, talað fyrir hugmyndinni - þ.e.  að leigja nýtingarréttinn - og vísaði til fordæmis Indónesa. Kannski má segja að þarna hafi Össur leitað heldur langt yfir skammt. Því Norðmenn höfðu þá í heila öld verið með fyrirkomulag um tímabundinn afnotarétt einkaaðila af vatnsaflsauðlindum í Noregi.

ossur-blogg-24-oct-2007.png

Þegar verið var að undirbúa frumvarpið í iðnaðarráðuneytinu um tímabundinn afnotarétt, voru uppi hugmyndir innan ráðuneytisins um að hæfilegur afnotatími væri 40 ár. Og engin framlenging. Þegar málið kom fyrir Alþingi var búið að setja 65 ára afnotarétt inní frumvarpið og í meðförum þingsins bættist svo framlengingarákvæðið við. Þingmenn VG vildu styttri tíma en sumir þingmenn Sjálfstæðisflokks vildu að afnotarétturinn yrði mun lengri og var nefnt allt að 99 ár. Niðurstaðan varð 65 ár + möguleiki á framlengingu.

Nú er rætt um það að stytta afnotatímann. Meðal þeirra sem tala fyrir slíku er Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra. Katrín var afgerandi í Kastljósviðtali s.l. fimmtudag um að hún álíti 65 ára afnotatíma of langan. Annars staðar hefur verið eftir henni að hæfilegur afnotatími vegna jarðvarmavirkjunar sé 30-35 ár en 40-45 ár þegar um vatnsaflsvirkjun er að ræða. Í vikunni var svo viðtal við Katrínu í Fréttablaðinu þar sem hún talar um ennþá skemmri tíma; 20-30 ár fyrir jarðvarmavirkjanir og 40 ár fyrir vatnsaflsvirkjanir.

katrin-jul_kastljos.png

Katrín virðist því heldur betur hafa skipt um skoðun frá því fyrir tveimur árum síðan, þegar hún sem þáverandi formaður iðnaðarnefndar Alþingis stóð að því að samþykkja 65 ára regluna OG framlengingarákvæði. Orkubloggarinn er á því að þrjóska í stjórnmálum sé ekki af hinu góða og barrasta hið besta mál ef fólk skiptir um skoðun... ef til þess eru góð rök. Kannski verður Katrín brátt áhugasöm um norska fyrirkomulagið um að einkaaðilar geti leigt virkjanir til max 15 ára. Þetta er samt allt dálítið skrítið og sumum þykir eflaust sem þessi hringlandaháttur einkennist ansið mikið af daglega veðurfarinu í stjórnmálunum.

Hafa ber í huga að þetta snýr eingöngu að einkaaðilum og því hafa Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur þarna lítilla hagsmuna að gæta. Og það er augljóslega ekki unnt að stytta afnotatímann einhliða gagnvart einkaaðilum, sem þegar hafa fengið 65 ára afnotarétt. Þess vegna myndi þurfa að semja um þetta við HS Orku, þ.e.a.s. ef stytta á afnotatíma þess fyrirtækis frá þeim 65 árum sem þegar er búið að veita fyrirtækinu. Þar að auki er sú jarðvarmaauðlind ekki í eigu ríkisins heldur Reykjanesbæjar og Grindavíkur, þ.a. ríkið hefur ekkert með þann jarðvarma að gera.  

Í reynd er því heldur seint í rassinn gripið gagnvart HS Orku eða Magma Energy - nema þá HS Orka yrði fús til að semja um styttri tíma að ósk sveitarfélaganna, sem eiga auðlindina. Menn geta spáð í það hvort HS Orka myndi nokkru sinni bótalaust afsala sér 30 árum af afnotatíma sínum.  Skeð er skeð og það að stytta umræddan afnotatíma orkuauðlinda í lögunum núna hefur einungis þýðingu gagnvart því ef t.d. HS Orka eða aðrir einkaaðilar óska eftir nýtingarétti á öðrum orkuauðlindum í eigu ríkis- eða sveitarfélaga.

Reyndar ganga óstaðfestar Gróusögur um að HS Orka sé út um allt að leita nýrra virkjunarmöguleika. Svo helst minni á ástandið í Noregi fyrir heilli öld, þegar útlend fyrirtæki voru á fullu að kaupa upp norska fossa og norska Stórþingið kom hjemfall-reglunni á. Magma Energy er sagt vilja komast yfir meiri orkuauðlindir á Íslandi, en í reynd gæti HS Orka að sjálfsögðu  allt eins staðið í slíku ef GGE eða þrotabú Glitnis ætti fyrirtækið. Til að koma í veg fyrir að að slíkt eigi sér stað er eina leiðin að setja í lög ákvæði þess efnis að einkaaðilar geti ekki fengið nein ný virkjanaleyfi. Og fylgja þar fordæmi Norðmanna, sbr. viðbrögð þeirra við því þegar EFTA-dómstóllin sagði hjemfall-regluna andstæða EES-rétti.

Breyting á afnotatímanum hefði sem sagt ekki þýðingu gagnvart núverandi rekstri HS Orku (kæmi fyrst til álita vegna framlengingar þegar umsaminn 65 ára afnotatími þeirra rennur út nokkru eftir miðja 21. öldina þegar flestir núverandi Alþingismanna verða komnir undir græna torfu). Engu að síður verður spennandi að sjá hvort þingmenn sættast á að stytta afnotatíminn - og þá í hvaða tíma. Þar verður hugsanlega einkum litið til nýlegs nefndarálits, sem forsætisráðuneytið fékk í hendur í mars s.l.

nesjavellir-pp.jpg

Skýrslan sú ber yfirskriftina "Fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu íslenska ríkisins - Skýrsla nefndar forsætisráðherra sem skipuð var samkvæmt III. bráðabirgðaákvæði laga nr. 58/2008". Nefndin var undir forsæti Karls Axelssonar, hrl., sem hefur af mörgum þótt vel að sér þegar kemur að eignarétti og öllu sem að honum lýtur. Þetta er mjög áhugaverð skýrsla - þó svo þar sé reyndar að finna nokkrar afar meinlegar villur - og ættu lesendur Orkubloggsins endilega að gefa sér tíma til að glugga í hana. Skýrsluna má nálgast á vef forsætisráðuneytisins.

Umrædd nefnd taldi 65 ára afnotarétt óþarflega langan tíma og leggur til að hámarkið verði á bilinu 40-50 ár. Það er sem sagt ekki fullt samræmi milli niðurstöðu nefndarinnar og yfirlýsinga iðnaðarráðherra núna, en hún nefnir allt niður í 20 ára afnotatíma. En það er athyglisvert að nefndin er komin á sömu slóðir eins og iðnaðarráðuneytið var á í upphaflegum drögum frumvarpsins; við erum sem sagt aftur farin að finna þef af 40 ára reglu.

geothermal_hs-orka.jpg

Um framlengingu á afnotatíma tók nefndin ekki afgerandi afstöðu. Sagði þó að til greina kæmi að framlengdur tími yrði hafður helmingi styttri en upphaflegur leyfistími, en taldi ekki útilokað að framlengdur leyfistími yrði jafnlangur upphaflegum leyfistíma. Í þeim orðum liggur að framlengingin yrði þá einhverstaðar bilinu 20-50 ár að áliti nefndarinnar. Að vísu er ekki ljóst hvort nefndin hafi gengið út frá því að einungis sé unnt að fá eina framlengingu á afnotaréttinum eða hvort framlengingar geti orðið fleiri (sbr. síðasta færsla Orkubloggsins).

Nefndin gerir sem fyrr segir ekki ákveðna tillögu, en ýjar þarna að því að passlegur heildarafnotatími sé á bilinu 60-100 ár (að því gefnu að aðeins sé unnt að fá framlengingu einu sinni). Svo getur hver og einn lesandi Orkubloggsins lagt sitt mat á það hvort slíkt sé hæfilegur afnotatíma einkaaðila af orkuauðlind í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

Í Noregi gilti í nær heila öld sú almenna regla að afnotin gætu orðið 60 ár - og að þeim tíma loknum skyldi virkjun einkafyrirtækisins sem hafði afnotaleyfið renna gratís til norska ríkisins. Og í dag gildir sú regla í Noregi að einkafyrirtæki geta ekki fengið að kaupa eða byggja fleiri virkjanir (nema þær séu minni en 4.000 hö eða undir 3 MW). En það er allt önnur saga.

 


65+65+65+65+65+... eða bara 15 ár?

Það eru ýmsir skemmtilegir fletir á Magma-málinu. Eða öllu heldur á þeim lagaákvæðum sem gilda um afnotarétt einkaaðila að orkulindum í eigu hins opinbera. Einn flöturinn er sá hversu lengi einkafyrirtæki getur haft afnotarétt af orkuauðlind í eigu ríkis- eða sveitarfélaga skv. gildandi lögum. Í dag ætlar Orkubloggarinn aðeins að velta vöngum yfir þessu.

althingishusid-bakhlid.jpg

Eins og allir ættu að vita segir í gildandi lögum að hámarkstími afnotaréttar orkuauðlinda í eigu ríkis- eða sveitarfélaga hverju sinni er 65 ár. En að auki er gert ráð fyrir því að fyrirtæki með afnotarétt geti fengið framlengingu.

Hámarksafnot hverju sinni eru því 65 ár og væntanlega getur framlenging því aldrei orðið lengri en 65 ár - í senn. En tekið skal fram að einkafyrirtækið á ekki neinn sjálfkrafa rétt að framlengingu. Það er háð samþykki eiganda auðlindarinnar, hvort sem það er ríki eða sveitarfélag.

Samkvæmt lögunum er ekki ekki unnt að semja um framengingu á afnotaréttinum fyrr en helmingur afnotatímans er liðinn. Þegar samið er um 65 ára afnot yrði því ekki samið um framlengingu fyrr en a.m.k. 32,5 ár eru liðin af 65 ára afnotatímabilinu. Sé þá samið strax um nýtt 65 ára tímabil verða afnotin samtals 97,5 ár. Það þarf þó alls ekki að semja um framlenginguna nákvæmlega á þeim tímapunkti; það má gera hvenær sem er síðar á afnotatímanum. Fræðilega séð má semja um framlenginguna alveg við lok afnotatímans og þá verður afnotatíminn samtals 130 ár (65+65).

En 130 ár þarf samt alls ekki að vera hinn endanlegi hámarks afnotatími. Það er ekkert í lögum sem segir að aðeins geti verið um eina framlengingu að ræða. Fyrir vikið má hugsa sér að einkafyrirtæki með afnotarétt fái hverja framlenginguna á fætur annarri. Fái t.d. afnotarétt í samtals 650 ár. Með því að fá fyrst 65 ára afnotarétt og síðan alls níu framlengingar. Þó svo sumum kunni að þykja þetta sérkennilegt og jafnvel vafasöm túlkun á lögunum, verður ekki betur séð en að þetta sé svona. 

bjork-beaty_halldor-baldursson_frettabladid_22-07-10.jpg

En af hverju er þá bara talað um 130 ára afnotatíma? Þegar Björk hrinti af stað undirskriftasöfnun sinni fyrir um hálfum mánuði, flutti hún stutta tölu og talaði þar um 130 ára afnotarétt HS Orku. Þarna hefur Björk greinilega gert ráð fyrir því að 65 ára heimildin verði fullnýtt og að samið verði um 65 ára nýtingu í viðbót í lok afnotatímans. Skúli Helgason, núverandi formaður iðnaðarnefndar Alþingis, er bersýnilega á sömu skoðun og Björk um lengd afnotatímans. Sbr.nýleg grein hans á Pressuvefnum, þar sem hann talar um allt að 130 ára rétt HS Orku til nýtingar.

Orkubloggaranum er hrein ráðgáta af hverju blessað fólkið er svona fast í þessum 130 árum. Það er staðreynd að það er ekki kveðið á um neitt endanlegt hámark í lögunum, heldur einfaldlega opnað á framlengingu "þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn." Færa má rök fyrir því að lögin heimili ekki bara eina framlengingu á afnotaréttinum, heldur leyfi lögin að hver framlengingin geti komið á fætur annarri. Þannig að afnotatíminn geti jafnvel orðið endalaus.

kannski er helsta ástæða þess að enginn talar um lengri afnotatíma en 130 ár sú, að þó svo mannslífið geti orðið hundrað ár eða jafnvel meira er svolítið erfitt fyrir fólk að hugsa í svona löngum tíma. Þess vegna hefur kannski enginn hugsað útí það að afnotatíminn gæti skv. gildandi lögum orðið miklu lengri en "bara" 130 ár.

petur-blondal-althingi.jpg

Þegar lögin voru samþykkt voru ekki alir þingmenn sáttir á að afnotatíminn yrði 65 ár plús möguleiki á framlengingu. Margir þingmenn VG vildu að afnotatíminn yrði mun styttri. Pétur Blöndal vildi aftur á móti að tíminn yrði 90 ár. En niðurstaðan varð 65 ár og óskýrt framlengingarákvæði. Hvort Alþingismenn skyldu þetta svo að aðeins gæti komið til einnar framlengingar eða að afnotatíminn geti orðið jafnvel endalaus, vitum við vesæll almenningur ekki. En það er ekkert skýrt og ákveðið hámark sett á afnotatímann í lögunum.

Sumum kann að þykja þetta hljóma sem tuð í Orkubloggaranum. Eða sem skaup. Þetta skipti hvort eð er engu, því alltaf megi breyta lögunum og setja á ákveðið hámark. T.d. með því að setja inn ákvæði þess efnis að aðeins sé unnt að fá eina framlengingu. Það er að sjálfsögðu rétt að öll lög geta breyst e.h.t. í framtíðinni. En í reynd er núna ekkert hámark í gildi.

 

Hver var skilningur Alþingis?

Er þetta kannski rangt hjá Orkubloggaranum? Felst einhver hámarks-afnotatími í lögunum? Til að fá vísbendingu um hvað þingmenn ætluðu sér en gátu ekki orðað með skýrum hætti í lögunum, er venjan sú meðal lögfræðinga að glugga í þau gögn sem lögð voru fyrir Alþingi í tengslum viðviðkomandi frumvarp. Því miður koma þau gögn hér að litlum sem engum notum. Það er einfaldlega alls ekki ljóst hvað meirihluti Alþingis hafði í huga þegar greidd voru atkvæði um framlengingarákvæðið.

svartsengi_power_plant_grindavik_1011390.jpg

Nei - hvorki í lögunum, frumvarpinu eða athugasemdum sem fylgdu frumvarpinu segir neitt að gagni um það hvernig skilja eigi framlengingarákvæðið. Enda var í upphaflega frumvarpinu alls ekki gert ráð fyrir neinni framlengingu umfram 65 ára afnotatíma. Það var sem sagt ekkert framlengingarákvæði í upphaflega frumvarpinu; það ákvæði kom inní frumvarpið í meðförum þingsins án þess að nákvæmar skýringar fylgdu sögunni.

Það er heldur ekki að finna neinar nákvæmar skýringar um framlengingarákvæðið í nefndaráliti meirihluta iðnaðarnefndar, sem lagði þó þetta framlengingarákvæði til. Og því lítið gagn í því nefndaráliti, þegar leita skal upplýsinga um hvað Alþingi eiginlega meinti með þessu.

Í umræðum á Alþingi komu fram allskonar skoðanir um það hvert afnotatímabilið ætti að vera. En ekki hefur Orkubloggarinn séð umræðu um það hvort einungis væri unnt að framlengja afnotaréttinn einu sinni eða oftar. Einstaka persónuleg ummæli Alþingismanna hafa reyndar almennt litla þýðingu við túlkun á lögum og skipta því litlu hér. En af umsögn iðnaðarnefndar má helst ráða að þetta framlengingarákvæði hafi einfaldlega verið sett inn til að þóknast einhverju orkufyrirtæki, eins og síðar verður vikið að hér í færslunni. 

iceland_satellite_28-09-2009.png

Hér er einnig mikilvægt að hafa í huga að þegar 65 ára reglan var lögfest án skýrra ákvæða um hámarksafnotatíma, var líka sleppt að kveða á um hvernig fara skal með virkjunina þegar afnotatíminn rennur út! Augljóslega hefur eigandi virkjunarinnar lítinn áhuga á að sitja upp með virkjunina ef ekki fæst áframhaldandi leyfi til að nýta orkuna. Lögin segja ekkert um það hvernig leysa á úr þeim vanda. En það er annar handleggur, sem ekki verður fjallað sérstaklega um í þessari færslu.

Lögin eru greinilega fáránlega óskýr og hroðvirknisleg. Um það voru þingmenn reyndar að nokkru leyti meðvitaðir þegar þeir greiddu atkvæði um frumvarpið. Því í lögunum er sérstaklega kveðið á um skipan sérstakrar nefndar sem skyldi fjalla um "leigugjald, leigutíma, endurnýjun leigusamninga og önnur atriði er lúta að réttindum og skyldum aðila" og einnig "meta hvaða aðgerða sé þörf til að tryggja í senn sjálfbæra og hagkvæma nýtingu auðlindanna".

Þessi lagasetning virðist því hafa verið hugsuð sem einhvers konar bráðabrigðaaðgerð. En ef hún var bráðabirgðaaðgerð, af hverju var þá ekki bara nóg að mæla fyrir um 65 ára afnotatíma? Af hverju þurfti þá strax að setja inn framlengingarákvæði? Það er hreinlega ekki heil brú í þessari löggjöf, né í hugsun Alþingismanna sem voru þarna að fjalla um einhverja mestu hagsmuni þjóðarinnar. Enda mun nú standa til að endurskoða lögin strax í haust. Vonandi tekst þinginu þá að búa lögin þannig úr garði að það verði algerlega á hreinu hversu langur afnotatíminn er, hversu oft sé unnt að framlengja afnotatímann, hvernig fara skuli með virkjanir í lok afnotatíma o.s.frv. 

 

Réðu hagsmunir GGE og FL Group ferðinni?

Ekki er augljóst af hverju Alþingi ákvað að 65 ár væri hæfilegur afnotatími, en ekki einhver allt annar árafjöldi. Ekki er heldur ljóst hvað nákvæmlega olli því að framlengingarákvæði var sett inn í frumvarpið í meðförum Alþingis. En þegar gluggað er í gögn þingsins virðist sem framlengingarákvæðið hafi komið inn í frumvarpið í  vegna þrýstings frá orkufyrirtækjunum. Eða eins og segir í nefndaráliti meirihluta iðnaðarnefndar (leturbreyting er Orkubloggarans):

fl_group_logo_large_1013056.gif

Margir umsagnaraðilar og álitsgjafar hafa vakið máls á þeim neikvæðu efnahagslegu áhrifum sem kunna að vera samfara opinberu eignarhaldi á auðlindum og telja að miklu varði hvernig staðið verður að fyrirkomulagi afnotaréttarins. Þá hafa einstök orkufyrirtæki og samtök þeirra lagt ríka áherslu á að þau taki þátt í því nefndarstarfi sem fjallað er um í umræddu bráðabirgðaákvæði auk þess sem þau vilja að hámarkstími afnotaréttar verði lengdur ... Meiri hlutinn leggur til að handhafi afnotaréttar skuli, að liðnum helmingi afnotatímans, eiga rétt á viðræðum við leigjanda um framlengingu...

Svo mörg voru þau orð. Málið hafði þróast frá upphaflegum hugmyndum innan iðnaðarráðuneytisins um 40 ára afnotatíma (sbr. umfjöllun hér örlítið neðar í færslunni) yfir í það að afnotatíminn væri 65 ár, auk þess sem opnað var á  framlengd afnot. Og það án þess að setja nokkuð ákveðið og skýrt hámark á afnotatímann. Kannski ekki alveg jafn reyfarakennt eins og REI-málið, en talsvert drama engu að síður.

Reyndar virðist sem a.m.k. einhver orkufyrirtækjanna eða eigendur þeirra hafi farið að beita sér í málinu talsvert áður en frumvarpið kom fyrir Alþingi. Tilefni er til að nefna hér minnisblað frá desember 2007, sem fyrir lá að beiðni iðnaðarráðuneytisins. Í þessu memorandum lýstu tveir sérfræðingar - þeir Friðrik Már Baldursson og norski prófessorinn Nils-Henrik M von der Fehr - m.a. áliti sínu á því hver væri hæfilegur hámarkstími afnotaréttar að orkuauðlindum. Tilefnið var að ráðuneytið var þá búið að vinna fyrstu drög að áðurnefndu frumvarpi, sem síðar kom fram á Alþingi, og í þeim frumvarpsdrögum ráðuneytisins var m.a. fjallað um þennan tímabundna afnotarétt.

Það er alveg sérstaklega athyglisvert að í umræddu sérfræðiáliti þeirra Friðriks Más og Nils-Henrik's kemur fram, að í frumvarpsdrögunum sem sérfræðingarnir fengu í hendur til að gefa álit sitt á, sagði að hámarkstími afnotaréttar yrði 40 ár. Þegar frumvarpið svo kom fyrir Alþingi nokkrum mánuðum síðar var aftur á móti búið að lengja þennan tíma í 65 ár. Og það þrátt fyrir að sérfræðingarnir hafi alls ekki gert sérstaka athugasemd þess efnis að 40 ár væri of stuttur afnotatími. Það virðist því augljóslega hafa verið eitthvað allt annað en álit sérfræðinganna sem olli því að ráðuneytið ákvað að leggja til lengri afnotatíma.

djupborun_tyr_krafla.jpg

Einnig má hér nefna að í minnisblaðinu bentu sérfræðingarnir á þann möguleika að afnotatíminn ("lengd leigutíma") yrði hafður mismunandi langur eftir því t.d. hvort um sé að ræða vatnsafl eða jarðhita. Sömuleiðis sögðu þeir afnotatímann geta verið mismunandi langan eftir því hvort einkaaðilinn væri að taka yfir orkufyrirtæki í rekstri eða að byggja slíkt fyrirtæki frá grunni. Í síðara tilvikinu eru nokkuð augljós rök fyrir lengri afnotarétti, heldur en í því fyrra. Engin þessara ábendinga sérfræðinganna virðist hafa hrifið þá sem sömdu frumvarpið; a.m.k. sér þeirra ekki merki í því frumvarpi sem kom frá ráðuneytinu.

Ekki verður séð að umrætt minnisblað sérfræðinganna mæli á nokkurn hátt sérstaklega með því að afnotatíminn verði lengri en þau 40 ár, sem mælt var fyrir um í frumvarpsdrögunum. Að vísu koma fram sjónarmið í áliti sérfræðinganna um að varast beri að hafa afnotatímann of stuttan - en sömuleiðis er þar skilmerkilega bent á ókosti þess ef tíminn sé hafður langur. Hvað sem því líður, þá ákvað ráðuneytið að falla frá hugmynd sinni um að hafa afnotatímann að hámarki 40 ár. Þegar frumvarpið kom út úr ráðuneytinu og barst Alþingi var þar mælt fyrir um 65 ára afnotatíma. Eftirfarandi texti er úr athugasemdum með frumvarpinu, sem samdar eru í ráðuneytinu:

ingolfur_hrunkranar.jpg

Í ákvæðinu er lagt til að hámarkstímalengd samninga um afnotarétt verði 65 ár. Nýting þeirra auðlinda sem frumvarpið nær til byggist í flestum tilvikum á miklum fjárfestingum í mannvirkjum, sem hafa langan afskriftatíma. Fjárfestingin skilar sér því á löngum tíma. Hins vegar er nauðsynlegt að setja einhver efri mörk á lengd leigutímans og er lagt til í frumvarpinu að sá tími verði til allt að 65 ára í senn.

Þarna er ekki að finna nein ítarlegri rök fyrir því af hverju ákveðið var að miða við 65 ár en t.d. ekki 30 ár, 40 ár eða einhvern annan tíma. Á móti má benda á að afskriftartími virkjana mun a.m.k. stundum vera um 40-60 ár og þar af leiðandi er svo sem vel unnt að rökstyðja afnotatíma sem er nálægt því. En óneitanlega eru 65 ár í lengra lagi - og ennþá einkennilegra er að ekki skuli vera betur rökstutt af hverju og í hvaða tilfellum eigi að heimila framlengingu.

Hvorki í athugasemdunum né í áliti iðnaðarnefndar var mikið verið að velta vöngum yfir þessu og freistandi að álykta sem svo að menn hafi þarna verið svolítið hallir undir sjónarmið orkufyrirtækjanna - þ.e.a.s. hinna einkareknu orkufyrirtæka. Þar er í reynd bara um að ræða Hitaveitu Suðurnesja (sem varð að HS Orku) vegna þáverandi eignarhalds Geysis Green Energy í fyrirtækinu, en GGE var þá að stærstu leyti í eigu FL Group með Hannes Smárason í fararbroddi. 

hannes-smarason.jpg

Er ósanngjarnt af Orkubloggaranum að segja það vera augljóst, að FL Group via Geysir Green Energy hafi þarna sem eini umtalsverði einkaaðilinn í íslenska raforkugeiranum á þessum tíma (eftir kaupin á hlutabréfum ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja) upp á sitt einsdæmi náð að fá afnotatímann lengdan úr 40 árum og í 65 ár + framlengingu?

Þetta var nú einu sinni á þeim tíma þegar Hannes Smárason var nánast tilbeðinn á Íslandi - þó svo brátt færi að fjara undan FL Group. FL Group var vel að merkja helsti hluthafinn i GGE frá stofnun þess í ársbyrjun 2007 og allt fram í febrúar 2008, þegar lauflétt flétta átti sér stað milli FL Group og Glitnis með bréfin. Hannes var þá yfir FL Group og horfði mjög til orkugeirans, sbr. líka REI-málið alræmda.

Það er kannski ofsagt að hagsmunir FL Group hafi þarna algerlega ráðið ferðinni. Kannski var niðurstaðan um 65 ára afnot og framlengingu bara einfaldlega sátt milli stjórnarflokkanna að afloknum vangaveltum þeirra og munnlegum skoðanaskiptum um hvað væri eðlilegur afnotatími. Stjórnmálamennirnir höfðu skyndilega áttað sig á því að ef ekki yrði brugðist hratt við gætu orkuauðlindirnar á Suðurnesjum og víðar (sbr. REI málið) brátt verið komnar í einkaeigu og hafa hugsanlega talið mikilvægt að flýta málinu og banna framsal og koma þess í stað á "afnotarétti". En það skýrir ekki af hverju afnotatíminn lengdist á fáeinum mánuðum úr 40 árum og í 65 ár meðan málið var í vinnslu og þar að auki bætt við framlengingarákvæði. Og miðað við vankantana á lögunum er augljóst að málið var alls ekki unnið af þeirri kostgæfni sem almenningur á rétt á að Alþingi sýni.

 

Samantekt

Einkafyrirtæki geta skv. gildandi lögum fengið allt að 65 ára afnotarétt af orkuauðlindum í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Einkafyrirtækið getur einnig fengið framlengingu á þessum afnotarétti til allt að 65 ára í senn og þannig getur afnotatíminn orðið allt að 130 ár. Og það er ekkert sem bannar að einkafyrirtækið fái margar framlengingar; m.ö.o. þá er ekkert ákveðið lögfest hámark á afnotatímanum.

Upphaflegar hugmyndir innan iðnaðarráðuneytisins voru að hafa afnotatímann 40 ár og enga framlengingu. Þegar frumvarpið kom frá iðnaðarráðherra til Alþingis var búið að lengja afnotatímann í 65 ár. Í meðförum Alþingis var svo framlengingarákvæðinu bætt við. Ýmis rök hníga að því að sjónarmið eigenda einkarekinna orkufyrirtækja hafi þarna fengið þægilegan meðbyr á Alþingi. Þar var í reynd fyrst og fremst um að ræða einungis eitt fyrirtæki; FL Group.

 

Lokaorð

Að lokum þetta: Það þarf augljóslega að hyggja miklu betur að málunum áður en nýtt frumvarp með ákvæðum um réttindi og skyldur raforkuframleiðenda verður lagt fyrir Alþingi. M.a. væri kannski ráð að skoða af hverju norska Stórþingið samþykkti nýlega að veita megi einkaaðilum leyfi til að reka virkjanir - en þó að hámarki til 15 ára í senn.

emstrur_winter_1.jpg

Já - það er að mörgu að hyggja áður en unnt er að ákveða skynsamlega framtíðarskipan á nýtingarétti á orkulindum Íslands. Þarna er einfaldlega á ferðinni eitthvert stærsta efnahagslega hagsmunamál þjóðarinnar og því eins gott að vandað sé til verka.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband