Samtök álfyrirtækja til höfuðs Landsvirkjun?

katrin_juliusdottir-radherra.jpg

"Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir athugun iðnaðarráðuneytis og Hagfræðistofnunar Háskólans, benda til að álfyrirtækin greiði meðalverð fyrir orkuna en ekki fjórðungi minna eins og kemur fram í nýlegri trúnaðarskýrslu fyrir Norðurál. Ráðuneytið hafi fylgst með því sem vitað er um álverð á Íslandi. Niðurstaða ráðuneytisins sé sú að meðalverð fáist fyrir orkuna. Hagfræðistofnun hafi gert skýrslu fyrir ráðuneytið þar sem fram kemur að verðið sé sambærilegt við meðalverð."

Þannig sagði í frétt Ríkisútvarpsins 10. mars s.l. (2010). Eins og lesendur Orkubloggsins kannski muna, dró Orkubloggarinn í efa að ráðherrann færi þarna með rétt mál. Bloggarinn taldi gögn benda til þess að skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ, sem ráðherrann m.a. vísaði í máli sínu til stuðnings, væri varla pappírsins virði. Því miður væri það líklega nær lagi að álverin hér væru að greiða umtalsvert lægra verð. A.m.k. 20% lægra verð en meðalverðið - og jafnvel allt að 30% lægra verð.

Og nú er komið í ljós að tilgáta Orkubloggarans var mjög nálægt hinu rétta. M.ö.o. þá var ofangreind yfirlýsing iðnaðarráðherra rugl. Eflaust var ráðherrann í góðri trú - en ætti kannski núna að hafa tilefni til að finna sér betri ráðgjafa en hún virðist hafa.

lv_raforkuverd-til-storidju_2002-2010.jpg

Það er því miður svo að íslensku orkufyrirtækin hafa lengst af selt raforkuna á afar lágu verði til álveranna. Þetta birtist okkur skýrt og greinilega í gögnum sem kynnt voru á  stórmerkum fundi Landsvirkjunar fyrir um viku síðan. 

Þar var þjóðinni loksins sýnt svart á hvítu að frá árinu 2002 hefur raforkuverð Landsvirkjunar til stóriðjunnar hér á Íslandi verið talsvert mikið lægra en sem nemur meðalraforkuverði til slíkra fyrirtækja í heiminum. Það er meira að segja svo, að Landsvirkjun hefur verið að fá minna fyrir raforkuna heldur en sum álver í svörtustu Afríku greiða fyrir vatnsaflið þar.

T.d. greiða bæði álver í Ghana og Kamerún nú hærra raforkuverð heldur en álbræðslurnar á Íslandi. Og það þrátt fyrir að Ísland bjóði upp á mjög traust og stöðugt raforkuframboð (öfugt við það sem gerist í Afríku). Og þrátt fyrir að hér ríki sterkt lýðræði og pólitískur stöðugleiki, sem álfyrirtækin meta mikils. Jamm - þrátt fyrir marga góða kosti við að staðsetja álver á Íslandi, þá hafa íslensku orkufyrirtækin fallist á að útvega álbræðslunum raforku á ennþá lægra verði en gengur og gerist víða í Afríku. Fyrir vikið eru álfyrirtækin á Íslandi einhver þau allra hagkvæmustu í veröldinni. Sennilega eru allt að 75% allra álfyrirtækja heimsins með lakari afkomu en íslensku álbræðslurnar - en lifa samt þokkalega góðu lífi!

lv_raforkuverd-til-alvera_cru.jpg

Þetta er einfaldlega algerlega ólógískt og erfitt að átta sig á hvað veldur því að orkuverðið til álvera er svo lágt hér á Íslandi. Ekkert bendir til þess að vatnsaflsvirkjanirnar hér séu ódýrari en þær sem reistar hafa verið t.d. í Afríku. Framleiðslukostnaður raforkunnar hér á landi er m.ö.o. ekkert lægri. Kannski jafnvel þvert á móti hærri. Samt er raforkuverðið til álveranna hér svo lágt sem raun ber vitni. Og Orkubloggarinn er á því að innan Landsvirkjunar sé mjög hæft starfsfólk, sem hafi almennt sýnt mikla hæfni í framkvæmdum fyrirtækisins og áætlanagerð. En hver er þá skýringin á því hversu illa hefur tekist til að verðleggja söluvöruna til stóriðjunnar?

Eina skýringin sem virðist koma til greina er sú að stóriðju- og raforkustefna íslenskra stjórnvalda hafi einfaldlega ekki byggst á forsendum rekstrar og arðsemi. Heldur á einhverjum óáþreifanlegum pólitískum forsendum. Þar sem ríkisvaldið hefur fyrst og fremst horft til þess að koma á umfangsmiklum framkvæmdum; virkjanaframkvæmdum án tillits til þess hvaða arðsemiskröfu sé eðlilegt að gera til slíkra verkefna til lengri tíma litið.

fridrik_landsvirkjun_984604.jpg

Þó svo virkjanir Landsvirkjunar - og vonandi líka annarra orkufyrirtækja hér á landi - hafi almennt skilað hagnaði, er afar vafasamt að nota um þær frasann ferlega. Þann að virkjanirnar "mali okkur gull". Samanburðurinn sýnir að við höfum verið að undirverðleggja raforkuna til stóriðjunnar. Gott ef arðsemin hefði ekki orðið mun meiri ef einfaldlega hefði verið fjárfest í traustum erlendum ríkisskuldabréfum!

Það er vart ofsagt að virkjana- og stóriðjustefna íslenskra stjórnvalda síðustu áratugina hafi fyrst og fremst stjórnast af tilviljanakenndum draumum stjórnmálamanna, þar sem byggðastefna og verktakablöðruframkvæmdir hafa ráðið ríkjum. Kannski varla við öðru að búast, þegar haft er í huga að stjórn Landsvirkjunar er pólitísk, auk þess sem fyrirtækið var um árabil undir stjórn stjórnmálamanns, með nákvæmlega enga reynslu af rekstri stórra fyrirtækja.

lv_saestrengur_2010.jpg

Nú kveður aftur á móti við annan tón. Til Landsvirkjunar er kominn nýr forstjóri með æpandi mikla rekstrar- og fyrirtækjareynslu. En líklega er sumum stjórnmálamönnum hér á Íslandi um og ó, einmitt vegna þess að fagmaður er kominn þarna til starfa. Af því fókus á aukna arðsemi Landsvirkjunar gæti orðið til þess að pólitíkusarnir geti ekki lengur leikið sér með Landsvirkjun, í þeim tilgangi að búa til skammtíma efnahagsblöðrur og/ eða skapa sér vinsældir heima í héraði. Vinsældir sem virðast stundum hafa átt litla samleið með eðlilegum arðsemiskröfum.

Orkubloggarinn vonar svo sannarlega að sá tími sé liðinn að hér verði virkjað bara til að virkja. Og skorar á sitjandi iðnaðarráðherra, Katrínu Júlíusdóttur, að lýsa eindregnum stuðningi sínum við stefnu nýs forstjóra Landsvirkjunar. Og vera ekkert að bíða eftir áliti einhvers "stýrihóps". Kannski væri viðeigandi að ráðherrann myndi um leið útskýra furðulega yfirlýsingu sína um orkuverðið frá því í mars s.l., sem nefnd var hér í upphafi færslunnar. Var ráðherrann vísvitandi mataður á röngum upplýsingum?

En það eru ekki bara margir stjórnmálamenn sem eiga erfitt með að kyngja rekstraráherslum Harðar Arnarsonar. Álfyrirtækin telja þetta gefa tilefni til viðbragða. Þau hafa bersýnilega ákveðið að standa saman gegn þeirri ógnun sem þau sjá í hugmyndum Harðar um rafstreng frá Íslandi til Evrópu.

electricity_skyes.jpg

Samkvæmt nýlegri atvinnuauglýsingu er nefnilega búið að stofna Samtök álfyrirtækja og er verið að leita að einstaklingi til að gegna starfi framkvæmdastjóra þeirra samtaka. Smáfyrirtækin Rio Tinto Alcan, Alcoa og Glencore (Century Aluminum) ætla sér bersýnilega að standa saman gegn þeirri tilraun sem Landsvirkjun hefur nú boðað, um að hækka raforkuverð til álbræðslufyrirtækjanna á Íslandi. Það gætu orðið gríðarlega hörð átök. Baráttan um orkuauðlindir Íslands er rétt að byrja. Vonandi bera íslenskir stjórnmálamenn gæfu til að taka þar réttan pól í hæðina! Þó svo Orkabloggarinn sé eindreginn stuðningsmaður þess að hér starfi einhver álfyrirtæki - svo lengi sem þau borgi eðlilegt verð fyrir raforkuna - verðum við að gæta okkur á því að verða ekki um of háð þessum risastóru málma- og hrávörufyrirtækjum. Besta leiðin til þess er vafalítið sú að leggja héðan rafstreng til Evrópu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Ég er innilega sammála þessu, ein besta vörnin sem við getum fengið gegn yfirgangi og hótunum þessara risa er rafstrengur til útlanda, og slá vopnin úr höndum þeyrra um að þeyr muni loka álverunum ef við erum ekki góðir við þá og gefum þeym rafmagn. þannig má það ekki þróast. Við verðum ða fá að ráða sjálf í okkar landi

Eyjólfur G Svavarsson, 25.4.2010 kl. 13:15

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er mikilvægt að upplýsa fólk um þá rammskekktu umræðu sem orkusalan er lent í. Og mikilvægt að benda á tilhneiginguna í þá átt að segja einhvern sannleika um málið sem þjónar pólítskum tilgangi.

Svo má nefna að mér er fyrirmunað að skilja það að dreifing og innheimtugjöld þessarar innlendu orku til innlendra neytenda eru meira en þrefalt grunngjald fyrir orkuna.

Árni Gunnarsson, 25.4.2010 kl. 13:19

3 identicon

Flott færsla.

Verst að maður hefur takmarkaða trú á að eitthvað breytist. Iðnaðarráðherra virðist blinduð af álhjali álveranna, hef hana líka grunaða um að hugsa um byggðasjónarmið í staðinn fyrir hag heildarinnar.

Byggðarsjónarmið + illa upplýstir pólitíkusar með völd = mistök.

En þú átt heiður skilið fyrir að vekja athygli á þessu og setja þetta upp þannig að allir ættu að skilja að verið er að taka Íslendinga í óæðri endann. Mér líður reyndar ekkert betur með þessa vitneskju - en takk samt.

Lesandi (IP-tala skráð) 25.4.2010 kl. 19:34

4 identicon

Vinsamlega upplýstu hvers vegna þú talar um álbræðslur en ekki álver.

Andrés Ingi (IP-tala skráð) 25.4.2010 kl. 21:19

5 identicon

Var að lesa nýverið að orkuverð til stóriðju væri "einungis" krónu lægra en meðalverð til almennings, sem væri 3.5 kr/KWST. Það eru nú reyndar strax nærri  30% í mismun, en einhvern veginn rámar mig í að í samningum sem fóru í strand á hrun-tímanum hafi verið markmiðið að reyna að ná yfir 1 kr/KWST.

Á reikningnum mínum eru 6.9 á KWST og annað eins fyrir dreifinguna. Það er eitthvað rotið við þessar 3.5...en sum svín eru jú jafnari en önnur...

Jón Logi (IP-tala skráð) 25.4.2010 kl. 21:29

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

"Vinsamlega upplýstu hvers vegna þú talar um álbræðslur en ekki álver."

Ég nota reyndar þessi ágætu orð á víxl. "Álbræðsla" er þó líklega nákvæmari þýðing, þegar haft er í huga að á ensku er ávallt talað um "aluminum smelter".

Ketill Sigurjónsson, 25.4.2010 kl. 21:41

7 identicon

Gott hjá þér að vekja athygli á þessu í fjölmiðlum svo sem í Silfri Egils. Maður bara vonar að þetta haldi ekki svona áfram vegna atvinnuleysisins í þjóðfélaginu og vegna þrýstings frá hinum og þessum sveitarfélögum. Það verður að líta til heildarhagsmuna þjóðarinnar til lengri tíma.

Það er líka ótrúlegt að 75% af framleiddri orku hér á landi fari til álvera. Öll eggin í sömu körfunni eins og þú hefur oft bent á. Höfum við virkilega ekkert lært? Nú vilja menn fá álver í Helguvík og á Bakka og gera okkur enn háðari heimsmarkaðsverði á áli. Það væri kannski í lagi ef orkufyrirtækin skulduðu ekki svona hrikalega mikið.

Það er vonandi að við getum lagt sæstreng til Evrópu (auðvitað bara ef það borgar sig). Þá batnar samningsstaða okkar til mikilla muna.

Svo má ekki gleyma að við eigum ekki endalaust til af orku. Við viljum nú mörg vernda okkar merkustu náttúruminjar svo sem Jökulsá á Fjöllum (Dettifoss og Jökulsárgljúfur), Langasjó og Torfajökulssvæðið.

Páll F (IP-tala skráð) 25.4.2010 kl. 22:35

8 identicon

Líklega hefur hugsunin verið að fá vinnu fyrir fólkið í landinu + eignast orkuver á 20-30 árum. Sem sagt, orkuverðið þurfti bara að standa undir að borga upp framkvæmda- og rekstarakostnað á samningstímanum. Eftir þann tíma ættum við orkuver sem gæfi arð í 300-500 ár.

Ásmundur (IP-tala skráð) 26.4.2010 kl. 09:04

9 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þá erum við komin að þeirri spurningu hvernig best er að skapa ný störf:

http://www.visir.is/article/20100201/SKODANIR03/719768601/1266

Ketill Sigurjónsson, 26.4.2010 kl. 09:44

10 identicon

Þakka ljómandi grein...  ég skil samt ekki að það sé einhver almenn tenging milli stóriðju og byggðastefnu, allavega ekki eins og menn hafa að öllu jöfnu skilið það hugtak?   Nánast allar stóriðjur íslandssögunnar hafa verið á höfuðborgarsvæðinu, helsta undantekningin er nýjasta álverið á Reyðarfirði. Höfuðborgin (eða svæðið frá Hafnarfirði til Akraness) hefur þannig í gegnum tíðina notið lang-stærsta hluta þessa svokallaða byggðastyrks. Að vísu nota Íslensk stjórnvöld þetta byggðastefnuhugtak nokkuð frjálslega og þurfti til dæmis að skilgreina skattalegan stuðning við stóriðjufyrirtæki í Hvalfirði sem byggðastyrki til að komast framhjá Evrópureglum um ríkisstyrki.  Ég reikna ekki með því að menn telji vinnu við stíflugerð og raflagnir sérstakar byggðaaðgerðir þar sem það hefur sýnt sig að þar vinna oftast verktakar allstaðar að af landinu (og úr heiminum) en ekki "heimamenn" á viðkomandi svæði.

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 26.4.2010 kl. 10:38

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Álfyrirtækin eru að borga 2,5 kr. fyrir kw st. að raunvirði, miðað við 96% nýtingarhlutfall. Almennir smákaupendur eru að borga 1,96 kr. að raunvirði, miðað við sitt nýtingarhlutfall sem er 56%.

Svo er dreifingarkostnaðurinn annar handleggur en það hlýtur að koma raforkukaupandanum til góða ef afhendingarkostnaður orkunnar er margfalt ódýrari til þeirra en í dreifða notkun annars staðar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.4.2010 kl. 15:27

12 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Engar athugasemdir að sinni Ketill. Bara að þakka fyrir áhugaverðar orku-hugvekjur.

Ólafur Eiríksson, 27.4.2010 kl. 03:07

13 identicon

Sæstrengur frá íslandi til Evrópu yrði mun lengri (ca helmingi) en lengsti strengur sem lagður hefur verið.

Strengurinn yrði álíka dýr og bygging orkuvera til að útvega honum orku.

Orkutap um strenginn yrði ca 30%.

Að framansögðu þá þyrfti verðið fyrir orkusölu um sæstreng að vera meiri en tvöflat hærri en meðalverð á orkusölu innanlands til að borga upp strenginn og tapið í orkuflutningnum, og að auki myndi notkunin innanlands skapa mun fleiri störf. Hagkvæmni orkunotkunar innan lands mun alltaf vera meiri en til notkunar með orkuflutningi um sæstreng til Evrópu.

Á tíu ára fresti fer af stað umræða um flutning orku um sæstreng til þess að skapa fyrirtækjum vinnu við athugun og skýrslugerð, og síðan kemur alltaf sama niðurstaðan að þetta borgar sig ekki í dag miðað við orkuverðið, tæknina og bla bla bla.

Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 16:28

14 identicon

Merkilegt .. pulsugerð..

við fáum að eiga auðlindirnar meðan við seljum aðganginn að þeim nánast á konstnaðar verði.

Vonanadi.

Guðmundur Ragnar (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 16:49

15 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Skv. uppl. sem ég hef frá ABB yrði rafmagnstapið miklu minna. Það sýnir einnig reynslan af NorNed, sem er lengsti neðansjávar HVDC strengurinn í dag. Rafmagnstapið er ekki umtalsvert. Og miðað við raforkuverð á NordPool og í N-Evrópu er nú orðið fjárhagslega hagkvæmt að ráðast í lagningu á streng frá Íslandi til Evrópu.

Ketill Sigurjónsson, 28.4.2010 kl. 17:11

16 identicon

Ketill.

Hvað yrði orkutapið til þýskalands með sæstreng mikið? Getur þú gefið afrit úr gögnum eða link á netsíðu orðum þínum til stuðnings?

Ég sjálfur hef þetta 30% tap úr bloggi Ómars Ragnarssonar og mig minnir að Össur Skarphéðinsson nefndi sömu tölu á þingi. En ég mun leita frekari upplýsinga.

Hvernig væri að dusta rykið af eldri skýrslum orkuframleiðenda og skoða niðurstöður áður en farið er af stað með nýjar rannsóknir? Á ekki að vera hægt að sjá þessar skýrslur?

Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 22:26

17 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Ekki er ég með á hreinu hvert orkutapið er í sæstreng eða kosnaður við hann eða hvað orkuverð er í Evrópu, en inn í þessa jöfnu alla þarf að setja fjöldi þeirra starfa sem skapast og fleira og fleira.

Það er mjög mikilvægt að horfa á hlutina heildstætt en ekki í skömmtum. Vissulega er orkuverð til stóriðju hér lágt, en þó er ég ekki viss um að fleiri krónur yrðu til við að selja orkuna til Evrópu, um streng.

Tökum t.d. umdeildustu framkvæmdir til þessa á Íslandi. Kárahnjúkavirkjun og Álver Alcoa við Reyðarfjörð.

Virkjunin yrði reist og síðan yrði lagður strengur sem myndi kosta svipað og virkjunin sjálf, eða nálægt því það sama og Álverið. (er reyndar ekki alveg með tölurnar í kollinum en látum það kanski aðeins liggja á miklli hluta)

Það er ljóst að ef það á að flytja rafmagn til Evrópu þá dugir engin lítil byggðarlína, og virkja þyrfti af svipuðum krafti og gert var við Kárahnjúka, í það minnsta samanlagt.

Við skulum gefa okkur að það væru 4 virkjanir uppá sviipað afl og Kárhnjúkar. Þarna myndu í það heila starfa um 100 manns í þessum 4 virkjunum ásamt kanski 10 - 20 verktökum svona inná milli, en ekki með fasta vinnu.

Semsagt 120 störf.

Tökum síðan Álpakkan á þetta, eða eitthvað sambærilegt annað (man reyndar ekki eftir neinu öðru í svipin) Þar yrðu ef við miðum við tölur sem við þekkjum sem staðreyndir í dag, 490 störf í álveri, þar af um 18% með háskóla eða tæknimenntun, 300 verktakar að staðaldri, og um 150 verktakar inn á milli með hlutastörf tengd álverinu. Við þetta leggst svo svipaður fjöldi starfa og nefndur var hér að ofan við virkjanirnar eða um 120 störf.

Þetta gerir samanlagt um 1070 störf í stað 120 og þar af yrðu um ekki færri en 18% með háskólamenntun eða tæknimenntun..

Ég myndi í það minnsta vilja sjá þetta inni í jöfnuni, því að ef nið ætlum að virkja á annað borð, þá held ég að farsælast sé fyrir okkur að nýta orkuna innanlands, frekar en að flýtja hana ónýtta út, það minnir mann nú töluvert á gámafiskinn, sem fer héðan óunnin, og því skilar hann í raun minnu inn í þjóðarbúið þó svo að hann skili kanski örlítið meira í vara þeirrar áhafnar og útgerðar sem hann veiddi....

En flottur pistill samt Ketill, bloggið þitt er ávalt áhugavert og fræðandi...

Eiður Ragnarsson, 28.4.2010 kl. 23:54

18 identicon

Niðurstöður nokkura ára eða áratuga gamalla skýrsla um orkutap í sæstrengjum eru minna en einskis virði. Það hefur orðið hljóðlát umbylting á því sviði á allra síðustu árum.

Bjarki (IP-tala skráð) 29.4.2010 kl. 22:35

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Annað sagði mér doktorsnemi í rafmagnsverkfræði fyrir um ári síðan

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.4.2010 kl. 23:04

20 identicon

Það má ekki gleyma því í umræðunni um sæstreng, að hann leysir úr læðingi talsvert mikla orku, þ.e. umframrafmagn LV sem það hefur flest ár nóg af til þess að verjast "þurrum" árum. Þarna yrði útflutningur því háður vatnabúskap Íslands og jafnvel hægt að kaupa rafmagn til baka í einstaklega þurrum árum. Því þyrfti að virkja talsvert minna en við fyrstu sín.

Þá yrði rafmagn líklega aðallega selt sem topprafmagn yfir hádaginn um virka daga þannig að geta strengsins yrði aldrei fullnýtt. Þá hafa orðið framfarir í gerðum strengja síðustu árin, og stór hluti af töpunum er í AD/DC stöðvunum sitt hvoru megin, sem eru óháð lengd kapalsins á milli.

Þá mætti líka nota strenginn eins og rafmagnsgeymslu fyrir Evrópu, þ.e. við flytjum inn rafmagn á nóttunni og flytjum það út aftur á daginn þegar það kostar e.t.v. 3x meira og geymum það í lónum Landsvirkjar á meðan. 

Pólitíska þorið snýst hins vegar um að tenging við útlönd mun í raun setja "hreint" raforkuverð (þ.e. söluvirði raforku við stöðvar, til aðgreiningar frá brúttóverðinu með flutningi og dreifingu) til almennings í svipaðri hæðir og það er í Evrópu. Þetta mun hækka heildarorkuverð Íslendingar um x en hækka hag orkuframleiðenda um y*x (og y > 1) og vel útfært auðlindagjald myndi síðan sjá til þess að upphæð á milli y*x og x rynni í sameiginlega sjóði og lækkuðu skattbyrði þjóðarinnar um meira en x en líklea minna en y * x þannig að þetta yrði allra hagur. En til þess þarf þor og dug. Þetta er eins og þegar stjórnvöld í arabalöndunum er að selja olíuna til þegnanna á undir heimsmarkaðsverði til þess að hafa þá góða og sætta sig við einræði og óráðsíðu stjórnvalda, á meðan hagkvæmara væri að selja olíuna á heimsmarkaðsverði og lækka skattana (sem reyndar engir eru í sumum tilfellum þarna fyrir sunnan) um það sem meira væri.

Haukur (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 12:50

21 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

"Þá mætti líka nota strenginn eins og rafmagnsgeymslu fyrir Evrópu, þ.e. við flytjum inn rafmagn á nóttunni og flytjum það út aftur á daginn þegar það kostar e.t.v. 3x meira og geymum það í lónum Landsvirkjar á meðan".

Kannski er uppsöfnuð raforka í lón yfir nóttina ekki nógu mikil til að þetta sé raunhæfur kostur (stóriðjan mallar jú alla nóttina). Engu að síður áhugaverð ábending. Það er a.m.k. svo að augljóslega er full ástæða til að skoða bissness módelið m.t.t. rafstrengs mjög vandlega. Þarna kunna að leynast mikil tækifæri, sökum þess hversu ódýrt er að framleiða rafmagnið hér.

Ketill Sigurjónsson, 30.4.2010 kl. 13:04

22 identicon

Orkutapið á hinum 580 kílómetra NorNed streng á milli Noregs og Hollands er sagt vera 4% (http://search.abb.com/library/Download.aspx?DocumentID=POW-0048&LanguageCode=en&DocumentPartID=&Action=Launch&IncludeExternalPublicLimited=True)

30% orkutap á 800 kílómetra löngum jafnstraumsstreng á milli Íslands og Skotlands er því della, sennilega byggð á úreltum upplýsingum.

Bjarki (IP-tala skráð) 1.5.2010 kl. 17:09

23 identicon

Ég hef séð upplýsingar frá Iðnaðarráðuneytinu að tap í streng frá Íslandi til Þýskalands sé ca 11%, síðan má reikna með tapi í breytistöðvum í sinn hvorn enda á strengnum (AC/DC-breyti og DC/AC-breyti - raforkan er flutt í strengnum sem jafnstraumur). Það er ekki ósennilegt að samanlagt tap sé á milli 20 til 30% frá framleiðanda til kaupanda.

Kosnaður við framkvæmdir til að flytja orkuna þessa löngu vegalengd ( ca. 1800 Km til Þýskalands) er sá sami og að byggja orkuver til að framleiða þá orku sem á að flytja.

500MW orkuframleiðsla sem er verið að tala um til útflutnings  gæti skapað ansi mörg innlend störf ef orkan væri notuð fyrir innlend fyrirtæki.

Að framan sögðu þá þarf verð til útflutnings að vera rúmlega tvöfallt hærra en til notkunar innanlands til að fjárfestingar og orkutap vegna útflutnings verði dekkuð, og að auki gæfi notkunin innanlads af sér mun fleiri störf og skatttekjur en við útflutning.

Ég get ekki skilið af hverju er verið að reikna sama dæmið á tíu ára fresti til að fá sömu niðurstöðu. Orkutapið í strengnum sjálfum verður ekki hægt að breyta nema með því að finna upp nýjan ofurleiðara í stað kopars, og ef sú ótrúlega uppgötvun tækist þá myndi framleiðslukostnaður sæstrengs margfaldast. Framleiðslukosnaður sæstrengsins og lagning hans mun hugsanlega lækka, en aldrei það mikið að dæmið gangi upp hvað varðar hagkvæmni útflutnings á orku í stað notkunar innanlands 

Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 5.5.2010 kl. 14:11

24 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

"Kosnaður við framkvæmdir til að flytja orkuna þessa löngu vegalengd ( ca.

1800 Km til Þýskalands) er sá sami og að byggja orkuver til að framleiða þá

orku sem á að flytja."

Ég dreg þetta í efa. Skv. minum útreikningum og upplýsingum er virkjunin meira en 50% af heildarkostnaðinum. Hef líka heimildir fyrir því frá öðrum, sem hafa verið að skoða þetta og reikna. Raforkuverð hefur farið hækkandi í Evrópu og tæknin hefur eflst. Þess vegna er þetta núna (líklega í fyrsta sinn) orðið bæði fjárhagslega og tæknilega áhugavert fyrir Ísland.

Þetta vita álfyrirtækin sem hér starfa og fá raforkuna mjög ódýrt. Og þessi þróun veldur þeim áhyggjum. Það er engin tilviljun að það er nýbúið að stofna Samtök álfyrirtækja a Íslandi. Þó svo enginn fjölmiðill virðist sýna þeirri strategíu álfyrirtækjanna áhuga.

Ketill Sigurjónsson, 5.5.2010 kl. 14:27

25 identicon

Ketill. þú segir: "Ég dreg þetta í efa. Skv. minum útreikningum og upplýsingum er virkjunin meira en 50% af heildarkostnaðinum." 

Hversu mikið meira en 50% af heildarkostnaðinum fer í virkjun?

Ef það er hægt að fá tvöfalt hærra verð  fyrir orkuna um sæstreng til Evrópu, þá er orkuverð selt á undirverði á Íslandi eins og þú hefur sjálfur gefið í skyn og ætti því orkuverð á Íslandi að hækka umtalsvert.

Ef orkuverð á erlendum mörkuðum hækkar þá ætti orkan hér á landi að hækka í samræmi við það.

Þó við séum í samkeppni um orkufrek framleiðslufyrirtæki eða tölvuver við Evrópulönd, þá er óþarfi að gefa 50% afslátt af orkuverði hér miðað við orkuverð í Evrópu. Verðmunur þarf að öllum líkindum að vera einhver, og það er bara spurning hversu mikill verðmunurinn þarf að vera?

Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 5.5.2010 kl. 16:57

26 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ég vil halda því fyrir mig hver hlutfallsskiptingin er nákvæmlega. Skv. mínum niðurstöðum. En veit að það rímar við niðurstöður annarra sem hafa verið að skoða þetta. Lykilatriðið er að flest bendir til þess að það borgi sig að ráðast í sæstreng. Þó þarf fyrst að liggja fyrir hvaða orka eigi að fara um strenginn! Kárahnjúkaorkan verður því miður ekki á lausu á næstunni. En hugsanlega eru einhverjir stóriðjuraforkusamningar að komast á tíma vegna endurskoðunarákvæða.

Ketill Sigurjónsson, 5.5.2010 kl. 18:21

27 identicon

Ketill, þú segir: “Ég vil halda því fyrir mig hver hlutfallsskiptingin er nákvæmlega. Skv. mínum niðurstöðum. En veit að það rímar við niðurstöður annarra sem hafa verið að skoða þetta.”

Þetta hljómar þannig hjá þér að þetta sé einskonar atvinnuleyndarmál. Ert þú að starfa fyrir einhverja aðila sem hafa hagsmunum að gæta hvað varðar frekari rannsóknir á lagningu sæstrengs til Evrópu? Þú hefur ekki fært nógu góð rök fyrir þínum málum.

Ég hef aldrei skilið hvernig endalaust er hægt að gera rannsóknir á svo augljósum hlut að það mun alltaf vera hagstæðara að nýta orkuna hér innanlands í stað þess að flytja hana út. Það mun alltaf vera 11 til 20% orkutap við útflutning á orku um sæstreng til Þýskalands, og framleiðsla og lagning sæstrengs til Evrópu mun einnig alltaf vera óhemju kosnaðarsöm. Og ekki veitir okkur af þeim störfum sem 500MW orkusala innanlands mun skapa Íslendingum. Rökin eru öll með að nýta orkuna hér innanlands á meðan kaupendur fást, sem ætti ekki að vera vandamál. Það verður frekar vandamál að skaffa nógu mikla orku fyrir þá sem vilja kaupa.

Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 5.5.2010 kl. 23:27

28 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þekking er verðmæti. Þess vegna er manni stundum tamt að sitja á henni. Ég ætla mér að vinna áfram í að skoða þessa möguleika. Hef vel að merkja verið að gera þetta vegna eigin áhuga en ekki fyrir aðra.

Ketill Sigurjónsson, 6.5.2010 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband