Ylurinn frá Saudi Arabíu

Sádunum tókst að koma olíuverðinu aftur upp í 70 dollara. Með því að draga hressilega úr framleiðslunni. Þetta verð er viðmiðunin þeirra - ef verðið er lægra lenda þeir í halla á ríkissjóði. Svo bíða þeir bara eftir að kreppunni linni og munu þá horfa í að fá a.m.k. 90 dollara fyrir tunnuna.

al_naimi_bangHvatarnir að baki 70 dollara olíuverði eru reyndar margbreytilegri og flóknari en svo að þetta sé bara undir Sádunum komið. Olíuverð ræðst ekki bara af framleiðslumagni Sádanna og hinna ljúflinganna í OPEC. Inn í þetta spila fjölmörg önnur atriði; ekki síst sveiflur á dollar gagnvart öðrum helstu gjaldmiðlum og svo einnig hinn ægilega sveiflukenndi áhrifavaldur; spákaupmennskan!

Víða er fullyrt að það sé fyrst og fremst spákaupmennska sem valdi því að olíuverð hefur hækkað svo hressilega á ný. Það var komið niður í um 30 dollara tunnan fyrir nokkrum mánuðum Mögulegar ástæður fyrir miklum áhuga spákaupmanna á olíu nú um stundir eru eflaust af ýmsum og mismunandi toga. Sumir þeirra eru að veðja á að kreppunni muni brátt ljúka og olíueftirspurn þá aukast hratt með tilheyrandi verðhækkunum. Aðrir óttast verðbólgu og telja þess vegna sé best að koma aurunum sínum í hrávöru svo þeir brenni ekki á verðbólgubáli. T.d. setja peninginn í gull... eða olíu.

En hvað gerist ef snögglega mun draga úr ótta við verðbólgudrauginn? Eða upp komi vísbendingar um að enn sé langt í almennilegan efnahagsbata? Í báðum tilvikum gæti olíverð hreinlega hrunið. Í 30 dollara, 20 dollara, 10 dollara... Það er ekki víst að Sádarnir gætu gripið nógu fljótt inn í; það tekur dágóða stund að minnka framboðið til að vega upp á móti hratt lækkandi olíuverði. Þess vegna gæti olíuverð lækkað mikið og snögglega.

Saudi_Arabia_Oil_ShaybahFæstir virðast þó trúaðir á slíkt verðfall. Í flestum nýlegum könnunum þar sem „sérfræðingar" eru spurðir um olíuverð árið 2010 eru algeng meðaltöl í ágiskunum „sérfræðinganna" á bilinu 70-75 dollarar.

Orkubloggarinn er á því að þarna séu menn reyndar heldur bjartsýnir um stöðu efnahagsmála. Batinn í Bandaríkjunum er hugsanlega of hægur til að réttlæta núverandi verð. Og þar að auki er Kína ennþá með snert af efnahags-hiksta. Vissulega bendir tölfræðin til þess að Kína sé að rétta úr kútnum. En vegna þess hversu ástandið er viðkvæmt myndi Orkubloggarinn fremur veðja á að meðalverð olíu 2010 verði undir 70 dollurum. Nema ef Sádarnir draga meira úr framleiðslunni.

Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Óvissuþættirnir eru óteljandi. En það er athyglisvert að olíutunna upp á 70-90 dollara hefur þau áhrif að að draumurinn um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er fjær en nokkru sinni. Olíuverð yfir 50 dollara - tala nú ekki um 70 eða 90 dollara - gerir það nefnilega hagkvæmt að framleiða olíu úr ýmsum öðrum kolvetnisgjöfum. Jafnvel þó svo það sé orkufrek og dýr framleiðsla. Með olíverð hátt yfir 50 dollurum eins og nú er, er að verða ansið líklegt að senn muni framleiðsla á t.d. olíu úr kolum aukast umtalsvert. Hvernig heimurinn ætlar að höndla þá þróun og minnka kolefnislosun um leið, er vandséð.

Sasol_synfuelEn kannski skiptir litlu hvaða hagsmunir muni ná yfirhöndinni: Að Sádarnir fái sína 70 dollara fyrir tunnuna og ýti óvart um leið undir meiri framleiðslu á synfuel  og meiri losun gróðurhúsalofttegunda - eða að olíuverðið haldist lágt sem mun koma hjólum efnahagslífsins betur í gang með tilheyrandi aukningu á losuninni. Sama hvernig olíuverðið þróast mun kolvetnisbruni fara vaxandi. Við losnum aldrei við ylinn frá Sádunum og erum í reynd öll pikkföst í spennitreyju olíu, kola og gass.


First Solar á fyrsta farrými í Kína

Sólskinsvinur Orkubloggsins, bandaríski þunnselluframleiðandinn First Solar, er á blússandi ferð. Nú síðast voru þau hjá First Solar að að semja við Kínverja um að byggja risastórt sólarorkuver austur í Innri-Mongólíu.

PV_Solar_ValleyÞar mun First Solar leggja til sólarsellur upp á heil 2 þúsund MW. Þrjár Kárahnjúkavirkjanir úr sólarsellum! Kínverjana munar ekki um það. Soldið magnað þegar haft er í huga að rafmagn með sólarsellum kostar svona circa fimm sinnum meira heldur en ef rafmagnið er fengið með vatnsaflsvirkjun.

Kínverjarnir láta ekki svoleiðis smámuni vefjast fyrir sér. Enda vita þeir að í framtíðinni munu þeir lenda í stórkostlegri orkukreppu ef þeir draga lappirnar. Þeim er einfaldlega lífsnauðsynlegt að finna lausnir í orkumálum. Eina leiðin til þess er að prófa alla kosti og sjá hvað virkar best. Og ef framleiðslukostnaður á sólarsellum minnkar um 50% á hverju 5 ára tímabili næstu 20 árin eða svo, verður ekki amalegt að vera kominn með góða reynslu í að reisa stór sólarsellu-orkuver.

Samt vaknar sú spurning hvort þarna sé verið að skjóta hressilega yfir markið. Og taka óþarfa áhættu. Þetta verður stærsta sólarorkuver heims og með næstum því jafnmikla framleiðslugetu eins og allar virkjanir á Íslandi eru með samanlagt! Það væri ekki séns að reisa slíkt orkuver neins staðar annars staðar í heiminum en í Kína. Alger miðstýring raforkukerfisins er forsenda þess að svona orkuver eigi möguleika að lifa af í samkeppni við hefðbundna raforkuframleiðslu. Bæði hvað snertir verð og dreifingu. Aðkoma og algert vald stjórnvalda er einmitt megin ástæðan fyrir því að bæði sólarorkufyrirtækin og vindorkufyrirtækin liggja slefandi fyrir Kínverjunum. Þar eru lang mestu möguleikarnir fyrir þessa sniðugu en dýru tegund af rafmagnsframleiðslu. Ekki bara vegna fólksfjöldans heldur fyrst og fremst vegna þess að þarna ríkir alger miðstýring í orkugeiranum. Þess vegna segja bandarísku kapítalistarnir sem kaupa hlutabréfin í First Solar og GE Wind: „Guð blessi kommúnismann í Kína".

Ordos_desertNánar tiltekið á þetta gríðarstóra sólarorkuver að rísa við borgina Ordos  í nágrenni við Ordos-eyðimörkina í Innri-Mongólíu. Orkubloggarinn getur vitnað um að Innri-Mongólar eru afar meðvitaðir og stoltir af uppruna sínum. Ein bekkjarsystir bloggarans úr MBA-bekknum í Köben var einmitt frá þessu merkilega héraði á mörkum Kína og Mongólíu. Hvort hún He Mi er spennt fyrir þessu sólarorkuveri í sínu heimahéraði er svo allt annað mál.

Planið er að fyrsti áfangi versins verði 30 MW og honum verði lokið jafnvel strax á næsta ári (2010). Áfangar 2-4 hljóða svo upp á 100 MW, 870 MW og 1.000 MW og þetta á allt að verða risið innan áratugar eða árið 2019. Sala á raforkunni verður tryggð með niðurgreiðslum frá stjórnvöldum. Vonandi að rykið frá eyðimerkur-sandstormunum stúti ekki þessum laglegu sólarsellum.

Vegna stærðarinnar á þessu rosalega sólarorkuveri, er First Solar nú að spekúlera í að reisa sólarselluverksmiðju við Ordos. Samtals þarf hátt í 30 milljón þunnsellur í þetta ljúfa dæmi og heildarflatarmál landsvæðisins undir þær allar verður litlir 65 ferkm. Það slagar í stærð Þingvallavatns - eða er réttara sagt rúmlega 3/4 af flatarmáli vatnsins. Svona til viðmiðunar.

Michael_ Ahearn_First_SolarMichael Ahearn, sem ennþá er forstjóri First Solar þrátt fyrir margboðaðar breytingar þar á, er eðlilega drjúgur yfir þessum samningi við Kínverjana. Í reynd er þó einungis um viljayfirlýsingu að ræða. Og eins og Húsvíkingar vita manna best er svoleiðis plagg varla pappírsins virði. Það er sem sagt ennþá allsendis óvíst að eitthvað verði úr þessum metnaðarfullu áformum um risastórt sólarsellu-orkuver í Innri-Mongólíu.

Enda er þetta kannski álíka kjánaleg - eða jafngóð - hugmynd eins og risastórt álver við Húsavík. Það skemmtilegasta er auðvitað að báðar þessar hugmyndir byggja á því að bygging orkuvera í þessum tveimur löndum - Kína og Íslandi - hefur lítið með venjuleg viðskiptalögmál að gera. Heldur er um að ræða pólitískar ákvarðanir sem aðallega byggjast á niðurgreiðslum stjórnvalda og þar með almennings. Bæði íslenskum og kínverskum pólitíkusum finnst það bráðsnjöll hugmynd að taka rándýrar ákvarðanir um virkjanir eða rafmagnssölu, sem almenningur situr uppi með.

Nú er upplagt fyrir lesendur Orkubloggsins að opna veðbanka: Hvort mun rísa fyrr; sólaraselluverið við Ordos eða álverið við Húsavík? Tromm, tromm, tromm...


Græna kolaorkulandið

Taugarnar voru þandar til hins ýtrasta í vikunni sem leið við hina vindbörðu strönd Jótlands í Danaveldi. Gott ef ekki mátti sjá svitann spretta fram á enni þeirra Friðriks Danaprins, Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og Anders Eldrup, forstjóra danska ríkisorkufyrirtækisins Dong Energi.

Wind_Horns_Rev2_1Þessi ljúfa þrenning var að víga stærsta vindorkuver heims á hafi úti. Það nefnist Horns Rev 2  og er glæsilegur skógur af 2,3 MW Siemens-vindrafstöðvum. Alls standa þarna 91 turnar u.þ.b. hundrað metra upp úr sjónum og aflið er samtals heil 209 MW. Fyrir er Horns Rev 1  á sömu slóðum með 160 MW uppsett afl. Samtals geta því allar þessar túrbínur við Horns Rev, nokkrar sjómílur utan við Esbjerg, fræðilega séð framleitt 369 MW. Sem er óneitanlega talsvert.

Þó verður að minnast þess að meðalnýtingin vindorkuvera er ekkert í líkingu við t.d. vatnsaflsvirkjanir. Vindurinn er óstöðugur orkugjafi. Raunhæft er að ætla að nýtingin hjá Horns Rev vindorkuverunum sé jafnvel innan við 1/3 m.v. uppsett afli. Þarna er meðalvindurinn um 10 m/s, sem er nokkuð gott en samt langt frá því sem skilar fullum afköstum.

Horns_Rev2_02Horns Rev 2var sem sagt formlega vígt fyrir fáeinum dögum. Það var Friðrik krónprins sem ýtti á start-takkann; einhverjir spaðar tóku að hreyfast en svo varð allt kyrrt. Líklega misstu einhver hjörtu slag þegar sekúndurnar liðu og allt virtist pikkfast - fólk var farið að gjóa augum hvert á annað með spurnarsvip. Þeim mun meiri varð gleðin þegar spaðarnir skriðu loksins af stað eftir u.þ.b. hálfa mínútu. Sumir segja að feginsbylgja hafi þá farið um viðstadda, enda talsvert í húfi.

Horns Rev 2 mun vera fjárfesting upp á 3,5 milljarða danskra króna, sem í dag jafngildir meira en 70 milljörðum ISK. Það er óneitanlega hressilegt þegar haft er í huga að líklega skilar þetta vindorkuver álíka mikilli raforku eins og 75 MW vatnsaflsvirkjun. Enn sem komið er eru þessi vindorkuver á hafi úti miklu dýrari en á landi. Næstum milljarður á megawattið!

Horns_Rev_mapDanir fögnuðu því líka nú í vikunni sem leið að öflugasta vindorkufyrirtæki Bandaríkjanna horfir til þess að framleiða stórar og öflugar vindrafstöðvar sínar í Danmörku. Af þeirri einföldu ástæðu að Danmörk sé líklega besta land Evrópu til að stunda slíka framleiðslu í.

Þar er á ferðinni GE Wind. Sem er eitt af fyrirtækjum General Electric. Rætur GE Wind liggja reyndar hjá Enron, sem hugðist á sínum tíma hasla sér völl í vindorkuiðnaðinum. Eftir gjaldþrot Enron keypti GE vindarm þessa alræmda spillingarfyrirtækis og breytti nafninu í GE Wind. Sá bissness hefur gengið blómlega undir merkjum GE, sem m.a. hefur horft mjög til markaðarins í Kína. Markmið ESB um að hækka hlutfall endurnýjanlegrar raforkuframleiðslu í 20% fyrir 2020 gerir Evrópu spennandi fjárfestingarkost fyrir GE Wind.

Danir eru eðlilega upp með sér yfir því að GE skuli vera skotið í Danmörku. Og það er kannski verðskuldað. Danmörk er það land sem hefur náð mestum árangri í að byggja stór vindorkuver á hafi úti. Enn er þó ekki endanlega víst að GE Wind velji Danmörku sem sinn nafla í Evrópu. Annað konunglegt eyríki gæti reynst ennþá meira spennandi í augum GE. Bretar hafa sett sér afar metnaðarfull markmið um uppbyggingu nýrra vindorkuvera og þar gætu reynst bestu tækifæri fyrir fyrirtæki í vindorkuiðnaðinum.

Jack-Steinberger_1Það er ekki alltaf meðvindur með danskri vindorku. Fyrr í þessum mánuði móðgaði hinn aldni Nóbelsverðlaunahafi Jack Steinberger alla dönsku þjóðina þegar hann lýsti því yfir að það sé nákvæmlega ekkert vit í vindorku. Vindorka geti aldrei orðið það umfangmikil að hún leysi kol og gas af hólmi svo einhverju nemi. Þar verði menn að horfa til sólarorkunnar.

Steinberger, sem fékk Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1988, veðjar sem sagt á sól og gegn vindi. Um leið lýsti hann frati á mikla uppbyggingu vindorkuvera í löndum eins og Danmörku, Bretlandi og Þýskalandi. Steinberger nýtur víða mikils álits og því var þetta talsvert sárt fyrir Dani og aðrar vindorkuþjóðir.

Vindurinn blæs sem sagt úr mörgum áttum. Hvort dönsk vindorka mun í framtíðinni njóta meðbyrs eða mótvinds verður barrrrasta að koma í ljós. Ennþá geta Danir a.m.k. glaðst yfir því að stærsta vindorkufyrirtæki heims er danskt. Þó svo markaðshlutdeild Vestas  í heiminum sé nú öllu minni en var fyrir fáeinum árum, er Vestas ennþá af flestum álitið fremsta vindorkufyrirtæki í heimi. Þann sess munu Danir auglýsa grimmt þegar athygli heimsins beinist að Kaupmannahöfn í vetur - þegar ríki heims munu reyna að koma sér saman um ný markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Það á að gerast á 15. fundi  aðildarríkja Loftslagssamnings(FCCC) í desember. Danir vona að þá muni ný tímamótabókun í alþjóðalögum líta dagsins ljós; Köben-bókunin sem leysi Kyoto-bókunina af hólmi. Og að vindorkan fái mesta athygli sem hinn græni framtíðarorkugjafi heimsins.

GE_EnergySamkeppnin í vindorkuiðnaðinum er gríðarlega hörð. Siemens hefur á síðust árum komið eins og hvirfilbylur inn á markaðinn með risastórar vindrafstöðvar sínar og nú hyggst GE  ná stærri sneið af kökunni. Þetta verður ekki auðveld barátta hjá Vestas, jafnvel þó svo fyrirtækið hafi breiðfylkingu danskra stjórnmálamanna á sínu bandi.

Í reynd er Danmörk eins og kleyfhugi þegar kemur að endurnýjanlegri orku. Vel hefur tekist til með danska vindorku og fyrir vikið líta bæði ríkisstjórnir og almenningur um víða veröld á Danmörku sem fyrirmyndarríki í grænni orku. Raunveruleikinn er samt svolítið svartari. Í reynd fá Danir langstærstan hluta raforku sinnar frá kolaorkuverum - og danska ríkisorkufyrirtækið Dong Energi  er bullsveitt við að reisa fjölda nýrra kolaorkuvera um alla Evrópu. Að auki dæla Dong og Mærsk upp ógrynni af olíu og gasi úr danska landgrunninu; þessi vinnsla er meiri heldur en nemur gas- og olíunotkun Dana sjálfra. Danir eru sem sagt olíuþjóð sem hefur sérhæft sig í kolaorkuverum. Engu að síður er orkuásýnd Dana græn í gegn! Þetta hlýtur að vera eitt besta dæmið um snilldar markaðssetningu.

Olafur_Ragnar_natturaÞað verður ekki af Dönum tekið; þeir eru seigir. Við ættum kannski að fá danska spunameistara til að lappa upp á skaddaða ímynd Íslands á alþjóðavettvangi?

Það verður að halda því á lofti að Ísland nýtur algerrar sérstöðu í orkumálum. Engin önnur þjóð á jafn geggjaða möguleika í hagkvæmri framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Vonandi kemur Ólafur Ragnar þessu til skila á orkuráðstefnunni í Washington DC nú í komandi viku.


Bifreiðaeldsneyti framtíðarinnar

Hvað mun knýja bifreiðar á Íslandi eftir 30 ár? Bensín og díselolía, íslenskt rafmagn, DME unnið úr koldíoxíðútblæstri, vetni eða jafnvel íslenskt lífrænt fljótandi eldsneyti? Kannski blanda af þessu öllu saman?

Algae_biofuel

Eins og lesendur Orkubloggsins vita hefur stjórn Obama ýtt til hliðar hugmyndum um vetnisvæðingu. Þar sigraði raunsæið draumórana. Og nú er sagt að Ólafur Ragnar hafi fylgt fordæmi Obama og veðji á rafbílavæðingu. Í reynd eiga Íslendingar mun raunhæfari og hagkvæmari kost; að framleiða eigið lífrænt eldsneyti.

Hafa ber í huga að Ísland hefur mikla sérstöðu í orkumálum vegna hinnar gríðarlegu endurnýjanlegu orku, sem hér er að finna. Þessi sérstaða gerir það að verkum að hagsmunir Íslands í orkumálum fara ekki endilega saman við orkuhagsmuni annarra ríkja. Hér eru tækifærin einfaldlega miklu meiri en víðast hvar annars staðar til að þjóðin geti orðið orkusjálfstæð - og byggt það sjálfstæði alfarið á endurnýjanlegri orku. Þess vegna er fyllsta ástæða fyrir Íslendinga að vera bjartsýnir á framtíðina. Að því gefnu að rétt verði á málum haldið og hér verði komið á orkustefnu sem byggir á skynsemi og langtímasýn.

Nýlokið er 3ju ráðstefnu Framtíðarorku um framtíðarsýn í eldsneytismálum - þar sem áherslan er á sjálfbærar orkulausnir í samgöngum. Þau hjá Framtíðarorku eða FTO Solutions eiga heiður skilið fyrir að hafa komið þessum viðburði á fót - og náð að halda dampinum.

Eflaust hefur hver sína skoðun á því hvað athyglisverðast var við ráðstefnu Framtíðarorku að þessu sinni. Í raunsæishuga Orkubloggarans hljóta þau Hans Kattström og Ann Marie Sasty að hafa vakið mesta athygli fundargesta. Þó svo kínverska BYD og norsk/íslenski rafbíladraumurinn hjá Rune Haaland  hafi kannski verið það sem virkaði mest spennó. Þetta síðastnefnda er reyndar æpandi útópía.

Sakti3_logoHin jarðbundna Ann Marie Sasty er forstjóri sprotafyrirtækisins Sakti3, sem er að vinna að þróun endurhlaðanlegra rafgeyma. Enn sem komið er, er langt í land með að slíkir rafgeymar verði nógu öflugir og ódýrir til að rafbílar verði af alvöru samkeppnishæfir við hefðbundna bíla. Vissulega eru gríðarleg tækifæri í rafbílum, en alltof snemmt að spá hvort eða hvenær þeir munu ná mikilli útbreiðslu. Og það mun ekki gerast nema upp spretti fjölmörg fyrirtæki í líkingu við Sakti3 - þá mun kannski koma að því að eitthvert eða einhver þeirra finni réttu leiðina í rafgeymatækninni. Sakti3 er eitt af þeim fyrirtækjum sem Orkubloggið mun fylgjast spennt með í þessu sambandi.

ScandinavianGts_logoMaðurinn með skemmtilega nafnið,  Hans Kattström, er í forsvari fyrir sænska gasframleiðandann Scandinavian GtS, en Svíar eru einmitt í fararbroddi ríkja sem nýta lífrænt eldsneyti á bifreiðar. Með lífrænu gasi er átt við gas unnið úr lífrænum efnum, t.d. úr sorpi eða plöntum. Á ensku er þetta gjarnan kallað biogas; þetta er í reynd metan og er náskylt hefðbundnu náttúrugasi.

Metan er að mörgu leyti snilldarorkugjafi. Íslendingar ættu tvímælalaust að horfa til þess hvernig Svíarnir hafa farið að því að gera metan að alvöru orkugjafa í sænska samgöngugeiranum. Menn skulu þó hafa í huga, að til að fjárhagslegt vit sé í slíkri framleiðslu þarf hún bæði að verða umfangsmikil og afurðin vera á viðráðanlegu verði. Til að lífefnaeldsneyti eigi sér raunverulega framtíð og höggvi ekki stór skörð í kaupmátt almennings og/eða í tekjur ríkissjóðs m.t.t. skattlagningar ríkisins á ódýru, innfluttu eldsneyti, þarf iðnaðurinn sem sagt alfarið að miðast við fjárhagslega hagkvæmni!

Það er hæpið að sérhæfð metanframleiðsla geti keppt við jarðefnaeldsneyti. Nema með verulegum niðurgreiðslum eða styrkjum. Sennilega er mun álitlegra að fara með lífmassann alla leið, ef svo má að orði komast. Vinna úr honum lífræna hráolíu fyrir tilstilli endurnýjanlegrar orku.

Theistareykir_1Slíkur iðnaður myndi líklega henta mjög vel á Íslandi vegna þess hversu mikla endurnýjanlega orku við eigum. Þetta er einfaldlega raunhæfasti og nærtækasti kosturinn fyrir Ísland í orkumálum. Og þetta yrði ný og mikilvæg stoð í íslensku atvinnulífi og myndi að auki spara mikinn gjaldeyri. Myndi sem sagt bæði þýða meiri fjölbreytni í stóriðju, ný tækifæri í landbúnaði, arðmeiri nýtingu á orkuauðlindum Íslands og um leið draga stórlega úr þörfinni á innfluttu eldsneyti með tilheyrandi gjaldeyrissparnaði.

Sennilega væri skynsamlegt að nýta t.d. orkuna á Þeistareykjum til slíkrar framleiðslu, fremur en að nota hana í áliðnað. Orkubloggið hefur reyndar nokkrar áhyggjur af því að stjórnvöld hér átti sig ekki á þessum möguleikum og séu stundum helst til fljót að eyrnamerkja orkuna nýjum álverum. Það er mjög óskynsamlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og ber vott um ótrúlega skammsýni. Nú reynir á hvaða stefnu iðnaðarráðherra, ríkisstjórnin og Alþingi taka. Ný, raunhæf og betri tækifæri blasa við ef fólk bara nennir að staldra við og íhuga valkostina.


Norman Borlaug

Á Íslandi og í öllum vestrænum samfélögum virðist vera sívaxandi hópur fólks sem hefur það að leiðarljósi sínu að vera á móti framförum í heiminum.

ORF_logoFyrr í sumar átti bloggarinn leið um Suðurland og heyrði þá í útvarpinu auglýstan kynningarfund í Gunnarsholti um áætlanir íslenska fyrirtækisins Orf Líftækni  um tilraunaræktun með erfðabreytt bygg. Orkubloggaranum þótti þetta upplagt tækifæri til að heyra meira um þessa forvitnilegu tilraun Orfsmanna. Og varð heldur undrandi þegar í ljós kom að fundarmenn reyndust flestir fólk sem sá þessari ræktun allt til foráttu.

Niðurstaðan varð engu að síður sú að Orf Líftækni fékk leyfi Umhverfisstofnunar til ræktunarinnar, enda var fyrirtækið talið uppfylla öll lagaskilyrði þar að lútandi. Líklega hefur árangurinn þó orðið heldur snautlegur, því skemmdarverk voru unnin á ræktunarreitnum nú í sumar. Væntanlega mun verkefnið halda áfram á komandi sumri.

Norman_Borlaug-5Blogginu varð hugsað til þessa verkefnis Orf Líftækni í dag þegar fréttir bárust af andláti hins stórmerka landbúnaðarvísindamanns Norman Borlaug. Sem einmitt var fjallað um hér á Orkublogginu í færslu s.l. sumar (2008). Borlaug (f. 1914) náði miklum árangri í kynbótum á hveiti, maís og fleiri plöntutegundum, til að auka mætti framboð fæðu í heiminum. Þetta starf hans er sagt hafa bjargað mörg hundruðum milljóna manna frá hungurdauða og hlaut Borlaug mikla viðurkenningu fyrir. Þ.á m. Friðarverðlaun Nóbels árið 1970.

Borlaug var á síðustu árum og áratugum óþreytandi við að benda á nauðsyn þess að meira verði unnið að nýjum leiðum til að auka fæðuframleiðslu enn frekar. Raunveruleg hætta sé á því að heimurinn muni horfa fram á vaxandi hungur og skelfingar meðal fólks, ef ekki verði brugðist við í tíma. Borlaug gagnrýndi hvernig vestræn samfélög hafa í auknum mæli snúist gegn vísindatilraunum með matvæli og hann hefur furðað sig á þeirri forgangsröðun að fagna lífrænni ræktun en snúast gegn erfðabreyttum matvælum.

Borlaug_wheat_2Norman Borlaug áleit fátt ef nokkuð benda til þess að lífrænt ræktaðar afurðir séu hollari en þær sem ræktaðar eru með hefðbundnari aðferðum, þar sem notaður er tilbúinn áburður og skordýraeitur. Áhugi fólks á lífrænt ræktuðum matvælum byggi sem sagt á misskilningi eða jafnvel röngum upplýsingum. Þetta sé hið versta mál, því lífræn ræktun skili minni afurðum en hefðbundnari aðferðir. Hann var einnig harður á því að miklu meira þurfi að vinna að erfðabreyttri ræktun. Það sé mannkyninu algerlega nauðsynlegt til að geta mætt fæðueftirspurn í framtíðinni.

Orkubloggarinn er á því að við eigum að hlusta vel á það sem Borlaug sagði. Og ekki leggjast af ofstopa gegn erfðabreyttum matvælum. Að sjálfsögðu má þetta ekki gerast í blindri trú á tæknina; nauðsynlegt er að sýna varúð og forðast umhverfisslys. En þröngsýni og lúxusveröld Vesturlanda  má ekki verða til þess að aðrir hlutar heimsins búi við hungur og fátækt. Þess vegna er mikilvægt að nýta framþróun í erfðatækni og taka fyrirtækjum eins og Orfi Líftækni af opnum huga.

wheat-blueFyrir þá sem vilja kynna sér betur lífsstarf Borlaug‘s má t.d. benda á fróðlega grein sem birtist í tímaritinu The Atlantic árið 1997. Hana má sjá hér.


Þyrnirós vakin upp í Texas

Það ríkir nýtt gullæði í gamla olíuríkinu Texas. Æði sem kennt er við Barnett Shale.

George P. Mitchell_3Þarna í villta vestrinu er löngu búið að dæla megninu af svarta gullinu upp úr aðgengilegu olíulindunum sem svo auðveldlega mátti finna í stórum saltsteinshvelfingum undir yfirborði jarðar. En sumir vildu ekki afskrifa Texas. Til var maður sem var sannfærður um að þarna í fylki sjálfs JR Ewing hlyti að mega finna meiri olíu og gas. Ef maður bara sýndi nógu mikla þolinmæði og útsjónarsemi. Þessi maður er George P. Mitchell.

Í dag er olíubaróninn og fasteignakóngurinn George P. Mitchell kominn á tíræðisaldur (f. 1919 í Galveston í Texas, af grísku bergi brotinn). En þrjóska hans hefur borið ríkulegan ávöxt. Á síðustu tíu árum hafa villtustu draumar Mitchell um nýja olíu- og gasuppsprettu í Texas ræst svo um munar.

spindletop_texasForsaga þessa nýja ævintýris er í stuttu máli eftirfarandi: Í gegnum tíðina hefur Texas verið eitt mikilvægasta olíuvinnslusvæði í Bandaríkjunum. Olíu- og gaslindirnar þar má gróflega flokka í tvennt.

Annars vegar eru lindir þar sem olía og gas hefur safnast saman í eins konar hvelfingum og tiltölulega auðvelt hefur verið að bora niður og dæla gumsinu upp. Þessar olíu- og gaslindir eru lykillinn að baki því að Texas varð snemma helsta vinnslusvæði Bandaríkjanna.

Hins vegar  má finna þunn lög af olíu og þó einkum gasi í sjálfum jarðlögunum þar sem gasið hefur myndast í jörðinni. Það borgar sig sjaldnast að bora niður í þessi gasþunnildi, því oftast næst einungis örlítið magn þar upp. Svo þarf að færa borinn nokkur hundruð metra og bora aftur - og svo framvegis. Þetta er sem sagt mjög dýrt og því hafa þessi olíu- og gasþunnildi á milli grjótharðra sandsteinslaga að mestu legið í friði. Þrátt fyrir óseðjandi hungur Bandaríkjamanna eftir bæði olíu og gasi.

Þegar stóru og auðunnu olíulindirnar í Texas tæmdust smám saman töldu flestir stefna í að saga Texas sem olíufylkis væri senn á enda. Menn voru jafnvel farnir að sjá fyrir sér að rafmagnsframleiðsla með vindorkuverum yirði næsti stóriðnaður þessa risastóra og fornfræga fylkis.

Barnett_Shale_Geology_east-westGeorge Mitchell var á öðru máli. Athygli hans beindist að sérstökum jarðlögum sem kölluð voru Barnett-lögin. Ástæðan fyrir nafngiftinni er að í upphafi 20. aldar veittu jarðfræðingar athygli óvenju dökku jarðvegslagi við árbakka einn í Texas. Áin sú er kennd við landnema á svæðinu - John W. Barnett - og þetta jarðvegslag reyndist vera óhemjuríkt af lífrænum leifum.

Í ljós kom að hugsanlega mætti finna olíu og gas í Barnett. Víðast hvar er nokkuð djúpt niður á gumsið, þó svo þarna mætti sem sagt sjá það í bakkanum. Það hefur lengi verið tæknilega unnt að bora niður í slík jarðlög og ná bæði olíu og gasi upp. Vandamálið er að slík vinnsla borgar sig ekki nema þar sem olía eða gas hefur náð að safnast saman í miklu magni - og að auki er Barnett umlukið grjóthörðum sandsteini sem valdið hefur mönnum vandkvæðum. Hefðbundnar vinnsluaðferðir borguðu sig hreinlega ekki og þess vegna skeyttu menn lengst af ekki um þunnildin í Barnett.

Fyrir vikið sváfu gas- og olíulindirnar í Barnett áfram værum svefni. Í heil hundrað ár rétt eins og Þyrnirós. En þá birtist prinsinn á hvíta hestinum - prinsinn sem var nógu þolinmóður til að finna hagkvæma leið til að höggva niður þétt þyrnigerðið umhverfis kastalann sem geymdi  gasið í völundarhúsi sínu.

Prinsinn sá var reyndar maður kominn vel yfir miðjan aldur, en jafn mikill olíu-sjarmör fyrir því. Það var um 1980 að Geroge Mitchell, þá um sextugt, byrjaði að skoða möguleika á að þróa lárétta bortækni  til að nálgast Barnett-þunnildin. Og viti menn; með öflugu tuttugu manna teymi tókst honum að ná tökum á bortækni, sem byggðist á nýrri hugsun. Eftir nærri tveggja áratuga þróunarvinnu varð nú skyndilega unnt að ná upp feykimiklu af bæði gasi og olíu á svæðum sem fram til þessa höfðu verið álitin vonlaus.

Shale_technology_horizontalLykillinn í lausn George Mitchell og starfsmanna Mitchell Energy  fólst í því að nota háþrýstivatn  til að brjóta sér leið gegnum saltsteinslögin og sötra upp gasið. Eftir á virðist þetta ósköp einfalt. Í staðinn fyrir að nota hefðbundna bortækni ruddi Mitchell sér leið lárétt gegnum sandsteininn með sandblönduðu háþrýstivatni. Þar með varð leiðin greið til að reka rörin lárétt inn að þunnum gashólfunum og dæla gasinu og olíunni upp upp.

Næstu árin, þ.e. upp úr aldamótunum, fínpússaði Mitchell svo tæknina og fór að stórgræða. Björninn var unninn og nýtt gullæði hófst í Texas. Olíufyrirtækin tóku streyma aftur til gamla, góða olíufylkisins og bullsveittir útsendarar þeirra æða nú þar um héruð og kaupa upp vinnsluréttindi villt og galið. Og landeigendur brosa.

barnett_shale_mapÞó svo hér að ofan sé mikið talað um olíu er það þó fyrst og fremst gas sem er þarna að hafa. Sérstaklega eru þessi gullvægu gasþunnildi í gríðarlegu magni beint undir borgunum Dallas og Fort Worth. Og á nokkurra þúsunda ferkm svæði þar í kring.

Þarna liggur gasið sem sagt á milli afar þéttra sandsteinslaga sem eru ca. 320-360 milljón ára gömul og enginn hægðarleikur að komast þar í gegn. En með nýju bortækninni er unnt að láta rörin fara eins og snák lárétt eftir gaslindunum. Þetta er ekki dýrari vinnsla en svo að peningalyktin hefur á ný gosið upp í Dallas og nágrenni. Það er sem sagt kominn tími á Dallas Revisited þar sem hinn ungi, útsmogni og harðsvíraði John Ross Ewing II hefur byggt upp nýtt veldi; Ewing Gas! Og keppir þar auðvitað hvað harðast við hina gullfallegu frænku sína Pamelu Cliffie Barnes.

dallas_bobby_pamÞetta Barnett-stöff er sko ekkert smáræði. Þó svo líklega hafi fæstir Íslendingar orðið varir við umfjöllun um þetta ofboðslega magn af nýju Texasgasi í fjölmiðlum, má bera þetta saman við mestu olíuæðin sem urðu í Bandaríkjunum fyrr á tíð. Án gríns!

Þetta eru risaauðæfi og þess vegna sannkölluð efnahagsbylting yfirvofandi í Texas. Menn sjá fyrir sér að Texasgasið nýja muni skila landeigendum 35 milljörðum dollara og verða 100 milljarða dollara efnahagssprauta fyrir fylkið. Búið er að staðreyna nærri 70 milljarða rúmmetra af gasi í Barnett og taldar góðar líkur á að þar megi finna tíu sinnum meira eða 500-800 milljarða teningsmetra. Það lítur sem sagt út fyrir að beint undir Dallas og nágrenni sé einfaldlega stærsta gaslind í gjörvöllum Bandaríkjunum (að frátöldu landgrunninu auðvitað).

Barnett_Shale_production_2006Það hefur valdið borgaryfirvöldum í Dallas og Fort Worth nokkrum heilabrotum hvernig eigi að standa að gasvinnslunni. Þarna er ekki einfaldlega hægt að fara út á tún - eins og gildir um olíuþunnildin í Dakota - og barrrasta byrja að bora. Allt eins líklegt að við munum fremur sjá gasvinnslutól beint undir hraðbrautarfléttunum kringum miðbæjarháhýsin. Þetta er svona svipað eins og ef háhitasvæði uppgötvaðist allt í einu beint undir Austurvelli og Arnarhváli. Kannski iðnaðarráðherra ætti að kíkja undir stólinn sinn?

Á þeim tíma sem George Mitchell bisaðist við að ná til gassins í Barnett-jarðlögunum höfðu stóru olíufélögin engan áhuga á að standa í svona veseni. En þegar gasið byrjaði að streyma upp hjá Mitchell komu þau auðvitað strax æðandi - ásamt þúsundum annarra smærri spámanna. Meðal þeirra var Devon Energy sem sá hvað var á seyði og keypti Mitchell Energy  af þeim gamla árið 2002 á litla 3,5 milljarða dollara. George Mitchell taldi sig hafa sannað mál sitt, tók við aurunum og slakaði loksins á kominn á níræðisaldur. Reyndar alveg makalaust hvað menn virðast eldast vel í olíubransanum.

Devon_Energy_2Á síðustu árum hafa líklega tugþúsundir af nýjum borleyfum verið gefin út í sýslunum umhverfis Dallas og Fort Worth. Kapphlaupið er æðisgengið. Greiðslur frá gasvinnslufyrirtækjunum til landeigenda hafa rokið upp úr öllu valdi í viðleitni þeirra að tryggja sér sem mest land. Vaxtarmunar-slefið úr munnvikum íslenskra bankadólga er hreinn barnaskapur miðað við flóðið úr kjafti gasfyrirtækjanna þegar Barnett-gasþunnildin eru annars vegar.

Einungis örfáir brunnar hafa reynst þurrir; nýja bortæknin hefur hreinlega opnað gasgáttir út um allt. Og þar sem kemur upp gas, þar þarf að byggja gasleiðslur. Afleiðingin af þessu öllu saman er auðvitað enn eitt góðærið í Texas. Á örfáum árum hafa orðið til einhver 70 þúsund störf í kringum þessar nýju gaslindir og samt er ævintýrið bara rétt að byrja. Eins og svo oft áður á Texas framtíðina fyrir sér!

Barnett_Shale_derrick_workerAfleiðingarnar eru víðfeðmar - og stundum óvæntar. Nú er möguleiki á að gasleiðslunni, sem átti að byggja frá norðurströndum Alaska og alla leið suður til Alberta í Kanada, verði slegið á frest. Alaskabúum til sárra armæðu - leiðslan sú átti jú að verða mikil lyftistöng fyrir efnahaginn þar í dreifbýlistúttufylkinu á norðurhjara veraldarinnar.

Þegar allt í einu streymir ógrynni af nýju gasi upp í Texas sjá peningamenn lítinn tilgang í því að kosta stórfé til að flytja gas alla leið norðan frá Alaska og til Alberta og þaðan til Bandaríkjanna. Alaskaleiðslan nýja á að kosta 26 milljarða bandaríkjadala og t.d. hefur ljúflingurinn og einn besti vinur Orkubloggsins, gamli olíurefurinn T. Boone Pickens, sagt það tóma vitleysu að fara útí slíka fjárfestingu þegar nóg er af Texasgasinu. Pickens segir að best sé að setja Alaskaleiðsluna á ís í a.m.k. 10-15 ár, enda eins víst að unnt verði að finna samskonar gaslindir eins og í Texas í fjölmörgum öðrum fylkjum Bandaríkjanna. Það væri magnað.

Já - Pickens trúir á gasið. Og gasið í Texas virðist reyndar ætla að verða einn helsti bjargvættur Bandaríkjamanna á tímum hækkandi orkuverðs. Kannski væri besta efnahagsheilræðið handa íslenskum stjórnvöldum að taka Pickens á orðinu og byrja að kaupa upp gasvinnsluréttindi hingað og þangað um Louisiana, Arkansas og Pennsylvaníu.

barnett_US_ShalesÖll þessi fylki gætu haft að geyma svipaðar gaslindir þéttlokaðar milli sandsteinslaganna, rétt eins og við sjáum núna kringum Dallas og Fort Worth. Þess vegna ríkir nú mikil bjartsýni þar vestra um að auka megi gasvinnslu Bandaríkjanna verulega. Ekki veitir af.


Listagyðjan í olíubaði

Maður er nefndur Andrew Hall. Hann er að nálgast sextugt, fæddur í Bretlandi, er menntaður efnafræðingur og MBA og sést oft sitja við skrifborðið sitt í gömlu fjósi vestur í Connecticut í Bandaríkjunum. Þaðan stundar hann olíu- og önnur hrávöruviðskipti í gegnum tölvuna sína. Eins og svo fjölmargir aðrir gera út um víða veröld

Georg_Baselitz_Nude_Elke_2Vinnudagurinn hjá Andrew Hall á skrifstofunni í þessu gamla uppgerða fjósi er sem sagt ósköp svipaður eins og hjá svo mörgum öðrum vesælum drottinssauðum í óblíðri veröld kapítalismans. Starf hans er að höndla með verðbréf sem tengjast hrávörum og þá sérstaklega olíu.

Í störfum sínum reynir Hall einfaldlega að spá fyrir um þróun olíuverðs eftir bestu getu. Hann kaupir og selur samninga um olíuviðskipti til framtíðar með það einfalda leiðarljós að nota þekkingu sína og innsæi til að þessi áhættusömu viðskipti hans skili sem allra mestum gróða.

Svo virðist sem Andrew Hall sé einkar spámannslega vaxinn. Vart er ofsagt að þessi hægláti og dagfarsprúði maður sé einfaldlega einhver albesti fjárhættuspilarinn á olíumörkuðum heimsins. Meðan vinnuveitandi hans tapaði samtals næstum 19 milljörðum dollara og fékk nýverið tugi milljarða dollara fjárjagsaðstoð frá bandarískum stjórnvöldum til að forðast þrot, skilaði árangurstengdur launasamningur Hall honum 100 milljónum dollar í tekjur á síðasta fjárhagsári fyrirtækisins.

Anselm_Kiefer_artAndrew Hall starfar hjá gamalgrónu fyrirtæki sem lengi hefur sérhæft sig í hrávörumörkuðum og nefnist Phibro. Móðurfélag Phibro er öllu þekktara; nefnilega fjármálarisinn Citigroup. Gríðarlegar tekjur Hall á yfirstandandi ári bætast við 200 milljónir USD sem hann vann sér inn síðustu fimm árin þar á undan. Hann er m.ö.o. orðinn stórefnaður maður. Þrátt fyrir að vinnuveitandi hans - Citigroup - sé nánast á brauðfótum

Vegna hroðalegrar afkomu Citigroup og mikillar umræðu vestan hafs um ofurlaun, beindist kastljós fjölmiðlanna skyndilega að þessum rólynda verðbréfamiðlara. Sem reyndar er yfirmaður Phibro. Fjölmiðlaumfjöllunin um Hall tengdist ekki aðeins umræðunni um ofurlaun, heldur urðu fjölmiðlarnir líka forvitnir um hvað Andrew Hall gerði við alla þessa peninga sem hann græddi á olíuviðskiptunum.

Þeirri spurningu reyndist fljótsvarað: Launin sem Hall fær fyrir árangur sinn, notar hann hvorki í sportbíla né einkaþyrlur - heldur til að svala hrifningu sinni á þýskum nýexpressjónisma  (Neue Wilden).

Joerg_Immendorff_Cafe_DeutschlandSérstaklega er Hall sagður hrífast af verkum Þjóðverjanna Anselm Kiefer, Georg Baselitz og Joerg Immendorff. Listaverk þeirra prýða einmit þessa færslu - þó svo þetta sé heldur þungúin list að smekk Orkubloggarans. Einnig mun Andrew Hall vera skotinn í bandarískri nútímalist og er sagður safna verkum manna eins og David Salle, Bruce Nauman, Julian Schnabel og Andy Warhol.

Það er sem sagt listagyðjan sem hefur notið hinna gríðarlegu launabónusa sem Hall fékk fyrir að veðja rétt á stóraukna olíueftirspurn Kínverja upp úr 2003, fyrir að veðja á að olíuverð færi vel yfir 100 dollara á fyrri hluta 2008, fyrir að veðja á fallandi olíuverð á síðari hluta 2008 og loks veðja á hækkandi olíuverð 2009.

Schloss_Derneberg_gardenJá - Andrew Hall virðist hreinlega vera með a.m.k. einu skilningarviti meira en flestir aðrir þeir sem braska á sviði olíuviðskiptanna. Hann fer meira að segja létt með að slá Orkubloggarann út. Sem er jú nánast ómannlegt!

Líklega hefur Hall fundist óviðeigandi að hengja meistaraverkin upp á veggi skrifstofunnar sinnar í litla snobb-bænum Westport vestur í Connecticut. Því nú má berja dýrðina augum í þúsund ára gömlum kastala, sem hann festi kaup á í Þýskalandi. Nánar tiltekið Schloss Derneberg  skammt frá Hanover í Saxlandi. Þessi  sögufræga bygging mun einmitt áður hafa verið í eigu áðurnefnds listamanns Georg Baselitz!

Hall_Andrew_PhibroSjálfur er Andrew Hall aftur á móti dags daglega við skrifborðið sitt á skrifstofu Phibro. Í gamla fjósinu í smábænum fallega; Westport í Connecticut. Þar situr þessi breski flugmannssonur framan við skjáinn ásamt félögum sínum og veðjar áfram á það hvernig olíuverð muni þróast í framtíðinni. Sem er jú ein skemmtilegasta iðja sem unnt er ímynda sér - ekki satt?


BYD og Framtíðarorka

"Íslendingar gætu sparað rúmlega einn milljarð króna í gjaldeyri í hverjum mánuði með því að hætta að nota olíu og bensín á bílaflotann og skipta yfir í innlenda orkugjafa svo sem rafmagn og metan."

Þannig byrjar frétt  sem birtist á á Eyjunni fyrr í dag. Á tímum gjaldeyrisskorts eru frétt af þessu tagi óneitanlega spennandi fyrir Íslendinga. Og á hvaða tímum sem er hlýtur það að vera áhugaverður kostur ef Ísland myndi geta framleitt sitt elgið eldsneyti.

drivingsustainability-logoFréttin tengist ráðstefnunni Driving Sustainability, sem fer fram hér á landi nú eftir helgi á vegum Framtíðarorku. Þeir innlendu orkugjafar sem þarna er einkum horft til eru annars vegar metan og hins vegar rafmagn. Þó svo Orkubloggið telji nokkuð langt í að þessir orkugjafar geti talist jafn hagkvæmir eins og olíuafurðir, verður mjög áhugavert að heyra hvað fyrirlesarar á ráðstefnunni hafa að segja.

byd-f3dmSérstaklega er bloggið spennt fyrir því hvað boðskap talsmaður kínverska rafbílaframleiðandans BYD hefur fram að færa. Sá heitir Alex Zhu, en þetta makalausa kínverska fyrirtæki  gæti orðið helsti spútnikinn í rafbílavæðingu heimsins. Þarna í Shenzhen í SA-horni Kína hófu menn í árslok 2008 að bjóða fyrsta fjöldaframleidda tengil-tvinnbílinn. Sá er kallaður er BYD F3DM, en DM stendur fyrir Dual Mode.

Fyrirtækjaheitið BYD er sagt standa fyrir "build your dreams". Þetta er sannkallað risakompaní með um 130 þúsund starfsmenn! Og á sér stutta en merkilega sögu; dæmi um ameríska drauminn í Kína.

BYD_wang-chuanfuÞað var kínverski bóndasonurinn Wang Chuanfu  sem stofnaði BYD árið 1995 með peningum sem hann fékk lánaða frá ættingjum og vinum. Fyrstu árin einbeitti fyrirtækið sér að framleiðslu búnaðar fyrir farsíma og náði miklum árangri í að þróa endurhlaðanlegar rafhlöður í slíka síma. Rafhlöðurnar frá BYD eru nokkuð frábrugðnar hefðbundnari liþíum-jóna rafhlöðum, en reyndust svo vel að fyrirtækið varð á skömmum tíma einn stærsti farsímarafhlöðu-framleiðandi í heimi. Það er einmitt sú verðmæta tækni sem skapaði grunninn að því að BYD ákvað að hella sér í rafbílavæðinguna.

Framleiðslan á F3DM árið 2009 er sögð verða 350 þúsund bílar. Og BYD hyggst byrja bílasölu í Bandaríkjunum árið 2011. Það er ekki bara Orkubloggið sem er spennt fyrir BYD. Sjálf véfréttin frá Omaha - Warren Buffet- hefur keypt myndarlegan hlut í BYD. Buffet virðist hafa mikla trú á því að F3DM verði einn af fyrstu sigurvegurunum í rafbílavæðingunni sem senn mun fara af stað í Bandaríkjunum og víðar um heiminn.

Bissnessmódel Kínverjanna er svolítið spes. Í dag eru flestir bílaframleiðendur heimsins í reynd bara samsetningarverksmiðjur. En hjá BYD smíða menn hlutina sjálfir. Þarna er einfaldlega á ferðinni mjög óvenjulegt og forvitnilegt fyrirtæki.

Buffet_Electric_CarÞar sem rafbílavæðing er einn af hornsteinum orkustefnu Obama, eru gríðarleg tækifæri fyrir rafbílaframleiðendur í Bandaríkjunum. Nú standa stóru bandarísku bílarisarnir frammi fyrir því að Kínverjarnir nái forskoti á þeim risamarkaði. Þess vegna er nú hafið mikið kapphlaup í bransanum. Það ásamt ýmsum efnahagslegum hvötum kann að flýta fyrir því að rafbílavæðing verði loksins að veruleika.

Þarna er þó vissulega mikil óvissa uppi. En það væri risastór vinningur fyrir Ísland ef næðist að framleiða hagkvæman rafbíl. Þar með kæmist  umtalsverður hluti íslenska bílaflotans á innlent rafmagn. Þess vegna verður spennandi að fylgjast með þessari ráðstefnu Framtíðarorku.


HS Orka og Magma Energy

Orkuveita Reykjavíkur ætlar að selja hlut sinn í HS Orku. Til erlends fyrirtækis.

Ketill_Sigurjonsson-Silfur_Egils_2Egill Helgason fékk Orkubloggarann til að koma í Silfrið í dag til að ræða þessa sölu. Hér er tæpt á nokkrum helstu atriðunum, sem tengjast því spjalli.

Sumir segja þessa sölu eingöngu tilkomna vegna úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá júlí 2008. Þó svo niðurstaðan í samkeppnismálinu skipti auðvitað máli, er sérkennilegt að vera að hengja sig í það. Eins og stjórnarformaður Orkuveitunnar gerir sí og æ í viðtölum. Aðalatriði málsins hlýtur að snúast um grundvallaratriðið; ætla íslenskir stjórnmálamenn að halda áfram á leið einkavæðingar orkufyrirtækjanna eða að snúa af þeirri braut?

Hvað sem því líður þá er HS Orka nú í stökustu vandræðum. Eigið fé fyrirtækisins er líklega nánast allt gufað upp. Hugsanlega geta kröfuhafar yfirtekið fyrirtækið ef þeir vilja vegna ákvæða lánasamninga um lágmarkshlutfall eignfjár. Að auki eru talsverðar líkur á að HS Orka muni brátt lenda í greiðsluþroti. Það má a.m.k. öllum vera augljóst að staða fyrirtækisins er grafalvarleg og lífsspursmál að fá inn nýtt hlutafé.

Það er ekki einfalt mál í dag að afla fjármagns. Hvorki lánsfjár né hlutafjár. Orkubloggið hefur allt frá því í vetur sem leið talið nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld sýni framsýni og leiti leiða til að tryggja stöðu orkufyrirtækjanna. Ef illa skyldi fara og þau lenda í greiðsluþroti - þá þarf að vera búið að undirbúa hvaða úrræða gripið yrði til. Svo komast megi hjá því að endurtaka paníkina sem varð í byrjun október s.l. (2008) þegar bankarnir féllu.

Sérstaklega hefur Orkubloggarinn verið áhugasamur um að fá sterkt Skandínavískt orkufyrirtæki - hugsanlega norrænt ríkisorkufyrirtæki - sem eignaraðila að stóru íslensku orkufyrirtækjunum. Helst sem minnihluta-eiganda (þ.e. með allt að 49% eignarhlut). Íslensk stjórnvöld hljóta fyrir löngu að vera búin að íhuga og kanna þennan möguleika af mikilli alvöru. Ekki síst þegar í ríkisstjórn sitja flokkar, sem eru í takt við norræna velferðarpólitík. Þarna má t.d. hugsa sér aðkomu norska orkufyrirtækisins Statkraft, sem sérhæfir sig í endurnýjanlegri orku. Um slíkar þreifingar hefur ekkert heyrst og hafi þær ekki farið fram er það einfaldlega vítavert kæruleysi af ríkisstjórninni.

magma_energy_webEn hvað svo sem hefur gerst á bakvið tjöldin, þá virðist einungis einn aðili hafia áhuga á HS Orku. Kanadíski jarðhitafjárfestirinn Magma Energy. Stóra spurningin núna er hvort hér séu einhverjir voða vondir útlendingar á ferð. Sem ætla sér að hirða HS Orku á spottprís, blóðmjólka fyrirtækið og koma arðinum undan úr landi.

Orkubloggið á erfitt með að skilja ótta sumra Íslendinga við útlendinga. Hræða sporin? Hér hafa í áratugi starfað erlend fyrirtæki eins og álfyrirtækin. Blogginu er ekki kunnugt um annað en að samstarfið við þessi fyrirtæki hér á landi hafi almennt gengið prýðilega - sérstaklega á síðari árum. Það voru stundum einhver leiðindi í gangi með álverið í Straumsvík meðan Svissararnir ráku það - "hækkun í hafi" og eilífar vinnudeilur - en þau leiðindi eru löngu úr sögunni. Í reynd hefði líklega verið mun farsælla fyrir íslensku þjóðina ef meira hefði verið hér um erlendar fjárfestingar og minna um umsvif íslenskra fjárfesta!

Orkubloggarinn þekkir ekki persónulega til Magma Energy eða mannsins þar að baki; Ross Beaty. En hvergi hefur bloggarinn rekist á annað en fremur jákvæðar umsagnir um Magma og Beaty. Vissulega virðist þessi kanadíski Silfurrefur  vera einkar laginn að sjá hvenær verðsveifla er í botni og stekkur þá til. M.ö.o. er talsvert líklegt að hann hafi nú enn einu sinni reiknað rétt og sé að fá hlutinn í HS Orku á algerum spottprís. En ef enginn annar nægjanlega traustur kaupandi er finnanlegur, er þó vart hægt að klína því á Beaty að hann sé að blóðmjólka Ísland.

HS-orka-logoEf Magma Energy eignast hlut í HS Orku eða jafnvel fyrirtækið allt og gengur vel með fyrirtækið í framtíðinni, mun Magma eflaust hagnast mjög vel á þessum kaupum. Kannski er Beaty meira að segja strax búinn að semja við kröfuhafa HS Orku um að ef hann komi að rekstri HS Orku verði tilteknar skuldir fyrirtækisins felldar niður og afskrifaðar. Kannski er Magma Energy að eignast hlut í HS Orku fyrir ekki neitt - þegar upp verður staðið.

Sumum finnst fúlt þegar aðrir græða. Finnst jafnvel betra að allir tapi. Orkubloggið er ekki ósátt við þótt Magma geri þarna reyfarakaup og stórgræði á öllu saman. EF það leiðir til þess að sterkari HS Orka standi hér hnarreist eftir nokkur ár og fyrirtækið muni bjóða góða þjónustu á sanngjörnu verði og lúta að fullu leikreglum íslenskra laga.

Þjóðin öll á að geta treyst því að Orkuveita Reykjavíkur og íslensk stjórnvöld stefni að þessu sama markmiði. Og hafi lagst í mikla vinnu, sem sýni svo ekki verður um villst að Magma Energy sé fyrirtæki sem sé mjög líklegt til að ná góðum árangri og geri viðskiptavini sína ánægða. Nú reynir á hvort stjórn Orkuveitunnar, borgaryfirvöld og ríkisstjórnin hafi unnið þessa heimavinnu af eins mikilli vandvirkni og Orkubloggið væntir. Framtíðin mun væntanlega leiða það í ljós.

------------------------------------------------

Viðtalið í Silfrinu má sjá á vef RÚV; HÉR.


Græðgin á kreiki í Írak

Það er byrjað að úthluta olíuvinnsluleyfum í Írak. Og öfugt við það sem gerist svo víða í Mið-Austurlöndum, eru vestræn olíufyrirtæki nú velkomin til Írak. Enda ætti öllum að vera augljóst að til þess var leikurinn jú gerður; einn helsti drifkrafturinn að baki innrásinni í Írak var að opna Vesturlöndum aðgang að hinum risastóru olíulindum þessa forna menningaríkis.

IRAQ_OIL_Future-ProductionJá - nú eru loks horfur á að afkomendur hins bandaríska Standard Oil ásamt BP og Shell fái aftur yfirráð yfir olíulindunum í Írak sem þau "misstu" smám saman í hendur stjórnvalda eftir að nýlendutímabilinu lauk. Það fór jú svo að leiðtogar Íraka þjóðnýttu olíuiðnaðinn og fleygðu vestrænu olíufélögunum út úr landinu. Þar með misstu þau nokkrar stærstu olíulindir heims. 

Það eru sannarlega ógrynni af olíu í Írak. Þó svo hið nýja lýðveldi Íraka sé í dag „einungis" í fjórða sæti yfir þær þjóðir sem búa yfir mestum olíubirgðum í jörðu, er vel mögulegt að í Írak verði í framtíðinni mesta olíuríki veraldar. Í dag eru það auðvitað Sádarnir sem tróna í efstir með 270 milljarða tunna af sannreyndum olíubirgðum (proven reserves), Kanada er í öðru sæti með 180 milljarða tunna af olíusandgumsinu sínu norður í Alberta og klerkarnir í Íran í þriðja sæti með 140 milljarða tunna. Írak er svo í 4. sæti með 115 milljara tunna af olíu.

iraq-oil-gasoline_pumpsBúist er við gríðarlegri aukningu í olíuframleiðslunni í Írak nú þegar fjármagnið fer að streyma þangað á ný eftir áratuga hlé. Vegna áratugalangrar óstjórnar Saddam Hussein lenti íraski olíuiðnaðurinn í tómu veseni og var langt frá því að tækniþróun þar héldist í takt við það sem gerðist í olíuiðnaði annars staðar í veröldinni. Með auknu fjármagni og nútíma tækni eru góðar líkur á að senn verði unnt að staðreyna miklu meira af olíu í íraksri jörð. Sumir spámenn segja að senn megi fastsetja olíubirgðir í Írak upp á 400 milljarða tunna!

Þessi tala - 400 milljarðar tunna af olíu -er ekki komin frá neinum bjálfa. Heldur einum af æðstu yfirmönnum ítalska risaolíufélagsins ENI. sem eins og önnur vestræn olíufélög hafa lengi slefað við tilhugsunina um að komast til Íraks. Flestir spámenn í bransanum láta þó nægja að spá „einungis"  svona 200-250 milljörðum tunna  af olíu í Írak. Það mydni samt duga til þess að Írak yrði annað af tveimur lang stærstu olíuveldum veraldarinnar. Þess vegna var svo mikilvægt að tryggja aðgang Bandaríkjanna og Vesturlanda að olíulindum Íraks.

iraq_flag_oil_companiesOg jafnvel þó svo olíubirgðir Íraka ættu ekki eftir að vaxa um eina einustu tunnu, er af miklu að taka. Því brostu vestrænu olíufélögin breitt þegar innrásin var gerð. Norðursjávarolían er á hraðri niðurleið svo tímabært var að skaffa vestrænu olíufyrirtækjunum aftur aðgang að risalindunum í Írak. Auk vestrænu einkareknu olíufélaganna voru líka nokkur ríkisolíufélög sem hugsuðu sér gott til glóðarinnar. Þar á meðal var kínverski risinn CNPC, sem er að verða á stórtækur í olíuvinnslu víða um heiminn.

Það var í janúar s.l. (2009) að tilynnt var um fyrsta útboðið á olíuvinnslusvæðum í Írak. Þá voru liðin meira en þrjátíu ár síðan Saddam Hussen endanlega þjóðnýtti olíulindirnar. Það ásamt klerkabyltingunni í Íran 1979 varð nánast til þess að veita BP og breska olíuiðnaðinum náðarhögg. Þeim til happs leyndist mikið af olíu í Norðursjónum og BP fékk þar fljótlega aðgang að gnægð olíu - í bili.

Iraq_Oil_FieldsÍ fyrsta útboðinu var óskað eftir tilboðum í sex þekkt olíusvæði; Rumaila, Vestur- Qurna, Zubair, Missan, Kirkuk og Bai. Þarna á meðal eru sannkallaðar ofurlindir  og þetta fyrsta útboð á írösku olíulindunum mun reyndar hafa verið stærsta olíútboð sögunnar! Þannig að menn geta ímyndað sér hvar hugur olíufélagana hefur legið síðustu misserin.

Umhugsunarvert af hverju í ósköpunum íslensk stjórnvöld ákváðu að halda útboð sitt á Drekasvæðinu á sama tíma og olíufélög með glýju í augum sáu ekkert nema Írak. Að bjóða út Drekann á þessum tíma var svolítið eins og setja kjallaraíbúð við Hverfisgötu til sölu hjá fasteignasala sem sérhæfir sig í lúxusíbúðum. Enda var áhugi olífélaganna á Drekanum nánast enginn.

Eftir að hafa farið yfir þau fyrirtæki sem lýstu áhuga sínum, ákvað íraska olíumálaráðuneytið að leyfa 35 fyrirtækjum að bjóða í svarta gullið. Á hverju svæðanna sex skyldu fyrirtækin einfaldlega bjóða tiltekna upphæð pr. tunnu auk þess að tilgreina hversu mikið fjármagn þau hygðust setja í vinnsluna. Að sjálfsögðu voru öll stærstu vestrænu olíufélögin með í púkkinu. Tilboðin skyldu liggja fyrir 29. júní og biðu nú margir spenntir bæði í Bagdad, Washington og víðar. Eðlilega var mesta peningalyktin af risalindunum Rumalia, Kirkuk og Vestur-Qurna, sem hafa hver um sig að geyma litla 8-18 milljarða tunna af olíu (proven!). Sá sem fengi þó ekki væri nema eitt þessara geggjuðu olíusvæða yrði barrrasta nokkuð vel settur til langrar framtíðar.

Iraq_Oil_MinistryEn nú er kreppa og jafnvel stór olíufyrirtæki eiga í veseni með fjármögnun. Til að gera langa sögu stutta þá buðu stóru olíufélögin einfaldlega hroðalega lítið í írösku olíulindirnar. Mönnum hjá olíumálaráðuneytinu í Bagdad leist ekkert á þessa vitleysu og höfnuðu nánast öllum boðunum, sem reyndust hvert og eitt einasta vera langt undir viðmiðunarverðinu. Þetta var talsverð spæling.

iraqi_oilfield-PICSamt fór reyndar svo að eitt leyfi var gefið út. Eftir að hafa skoðað sameiginlegt tilboð frá breska BP (2/3) og kínverska CNPC (1/3), sem vildu fá 3,99 dollara fyrir vinnslu á hverri tunnu úr Rumalia-lindunum, var ákveðið að ganga til samninga við þau. Og svo fór að samið var um að þessi tvö nettu kompaní fái að vinna þessa milljarða tunna í Rumalia gegn því að tunnugjaldið til þeirra verði 2 dollarar. Af hverju þau töldu sig upphaflega þurfa 3,99 dollara fyrir tunnuna en sættust svo á 2 dollara er líklega eitthvað sem við dauðlegir menn munum aldrei fá skýringu á. Kannski kallast það græðgi?

Það var reyndar svo að BP og CNPC áttu þarna í keppni við ExxonMobil, en hið síðar nefnda hafði boðið 4,80 USD í tunnugjald. Írakarnir í olíumálaráðuneytinu slógu í borðið og sögðust borga 2 dollara fyrir tunnuna og ekki einu centi meira. "Litla" ExxonMobil treysti sér ekki í slíkt, en BP og CNPC slógu til. Það sem BP og CNPC vissu ekki, var að þarna í sama herberginu hjá olíumálaráðuneytinu þennan örlagaríka dag höfnuðu öll önnur olíufélög gagntilboðum Írakanna. Nú velta menn í bransanum því fyrir sér hvort BP og félagar hafi hlaupið á sig.

Iraq_oil_licensing_round2Það hversu lág tilboð bárust í írösku olíulindirnar í þessu fyrsta útboði olli talsverðum vonbrigðum hjá olíumálaráðherranum Hussain Ibrahim Saleh al-Shahristani  og félögum hans í íraska olíumálaráðuneytinu. En nú horfa menn spenntir til þess þegar næsta útboð  verður haldið eftir fáeina mánuði. Nú vita olíufélögin að þau þurfa líklega að vera aðeins rausnarlegri til að komast yfir þessar gríðarlegu olíuauðlindir og leika sér þar næstu áratugina. Nema þau standi öll saman um að bjóða barrrasta nógu lítið og reyni þannig að þjarma að Írökunum. Ætli Samkeppnisstofnun sé á tánum?

Iraq_oil_minister_Hussein al-Shahristani_3Orkubloggið mun að sjálfsögðu fylgjast spennt með þegar úrslitin í næsta olíuútboði Íraka liggja fyrir. Það á að verða í desember n.k. (2009). En auðvitað skiptir mestu að íraska þjóðin er orðin frjáls á ný - ekki satt? Og hlýtur því í ríkum mæli að fá að njóta arðsins af hinum geggjuðu orkulindum landsins. Rétt eins og gerist hjá íslensku þjóðinni, sem væntanlega á eftir að njóta gríðarlegra skattekna og auðlindagjalds frá starfsemi HS Orku.


Paradís á Jörðu?

Tree_of_KnowledgeÞar sem hin fornfrægu fljót Efrat og Tígris mætast má kallast vagga menningarinnar. Enda hafa verið uppi kenningar um að sjálfur Edensgarður hafi legið á þeim slóðum þar sem fljótin tvö mynda Shatt al-Arab, sem nú skilur að fjandvinina í Írak og Íran.

Þó svo langt sé um liðið síðan kviknakin Eva teygði sig eftir eplinu af Skilningstré góðs og ills í þessum þá dásamlega Paradísarreit, býr svæðið ennþá yfir mikilli og sérstakri fegurð. Nei - ekki af því að þarna á bökkum fljótsins sprangi gjafvaxta stúlkur um á Evuklæðum. Það ku vera löngu liðin tíð. Í dag er þetta svæði betur þekkt sem vettvangur hinna grimmilegu stríðsátaka Írans og Íraks í Persaflóastríðinu fyrra

Nútímafegurð svæðisins lýsir sér aftur á móti í því að í augum olíuspekúlanta er þarna hugsanlega að finna Paradís á Jörðu. Þarna undir liggja nefnilega einhverjar mestu peningauppsprettur framtíðarinnar. Olíulindirnar kenndar við Vestur-Qurna.

Shatt-al_Arab_mapOlíulindirnar við Qurna draga nafn sitt af samnefndu þorpi þarna í sunnanverðu Írak - ekki langt frá hinni umtöluðu Basra, sem við heyrum svo oft um í fréttunum. Þó svo lindirnar í Vestur-Qurna séu ekki stærstu olíulindirnar í Írak eru þær með þeim stærstu. Þar er talið að unnt sé að vinna 10-15 milljarða tunna af olíu og að dagsframleiðslan geti náð allt að 1 milljón tunna á dag.

Þetta eru vel að merkja sannreyndar birgðir (proven reserves). Og magnið slagar hátt í helminginn af allri olíuframleiðslu Norðmanna og er tíundi hluti þess sem Sádarnir gætu framleitt með því að setja allt í botn. Vestur-Qurna hefur sem sagt að geyma einhverjar mikilvægustu olíulindir heimsins.

Nú í sumar gafst öllum helstu olíufélögum heimsins kostur á að bjóða í risaolíulindirnar í Vestur-Qurna. Í einhverju stærsta olíuútboði sem nokkru sinni hefur farið fram - ef ekki einfaldlega það allra stærsta. Niðurstaðan lá fyrir nýlega og mönnum til mikillar furðu voru öll tilboðin í Vestur-Qurna svo lág að þeim var einfaldlega hafnað af íraska olíumálaráðuneytinu.

iraq_Oil_West-QurnaÞví miður voru Chevron, ExxonMobil og aðrir olíurisar heimsins sem sagt samstíga í því að bjóða skít og kanil í svörtu jarðeplin í Eden. Og var þess vegna hent út úr Edensgarði - í bili. Líka gaman að geta þess að meðal þeirra sem höfðu mikinn áhuga á að komast yfir olíuna í Vestur-Qurna voru frændur okkar hjá Mærsk og Statoil. Þau Skandínavísku félög mynduðu hóp með spænska Repsol og vildu komast í þessa milljarða tunna gegn því að Írakarnir greiddu þeim tæpa 20 dollara fyrir tunnuna.

Það þætti kannski mörgum prýðilegur díll fyrir írösku þjóðina nú þegar olíuverð er langt yfir 60 dollara tunnan og sumir spá því yfir 100 dollara innan skamms. Írösk stjórnvöld vildu aftur á móti einungis borga tunnugjald upp á 1,9 dollara!  Þarna á milli Norðurlandabúanna og Írakanna var sem sagt himinn og haf. Og enn hefur enginn náð samningum við Írak um aðgang að megalindunum í Vestur-Quarna. Það er sem sagt laust herbergi í Paradís. Og Freistarinn líklega ennþá á ferli þar í nágrenninu.


Hikstinn í Kína

Síðustu vikur og jafnvel í allt sumar hafa menn viða um heim gerst afar bjartsýnir og spáð því að kreppan hafi náð botni og viðreisnin sé byrjuð.

shanghai_3_monthOrkubloggið hefur varað við að fagna of snemma. Vísbendingar um bata hafa vissulega komið fram í Evrópu undanfarna mánuði og jafnvel enn frekar austur Asíu. En samt getur maður ekki komist hjá því að álykta sem svo að enn sé talsvert loft í kínversku hlutabréfabólunni, sem eigi eftir að streyma út.

Vöxturinn í Kína var lengi vel hreint ævintýralegur og var meðal þess sem dró olíuverð upp í hæstu hæðir árið 2007 og fram eftir 2008. En fallið var líka mikið. Svo fór Eyjólfur að hressast á ný, að því er virtist, og þegar batinn virtist vera að bresta á eftir því sem leið á 2009 urðu sífellt fleiri til þess að segja að kreppunni væri lokið.

Shanghai_3_monthDesværre fór Kína aftur að hiksta nú í águst. Og sú niðursveifla hefur þurrkað út hlutabréfahækkanir sumarsins.

Að mati Orkubloggsins er því miður allt of snemmt að spá því að kreppunni sé lokið eða rétt í þann mund að ljúka. Ekki er útilokað að fasteignamarkaðurinn í Kína eigi enn eftir að lofta hressilega út. Með viðeigandi afleiðingum fyrir hlutabréfavísitölur heimsins.

China_real_estate_3Ástandið þegar fólk í kauphugleiðingum beið í röðum á morgnana utan við kínverskar fasteignasölur var afar sérstakt. Vandamálið er bara að fyrir Íslending sem gengur út í hressandi haustloftið hér á Klakanum góða, er afskaplega erfitt að átta sig á hvað sé eðlilegt ástand í Kína. Er jafnvægi komið á þar í þessu risasamfélagi - eða á kínversk efnahagslíf enn eftir að taka svona eins og eina dýfu áður en botninum verður náð?


Áhrif olíunnar

Sem kunnugt er átti olíuvinnsla 150 ára afmæli fyrir tveimur dögum. Eins og Orkubloggið minntist á fyrr í þessum mánuði.

titusville_drillÞað væri líklega að bera í bakkafullan lækinn að fjalla meira um þetta stórafmæli hér á blogginu. Nær að vísa í fjölmargar aðrar góðar umfjallanir fjölmiðla víða um heim. En Orkubloggaranum finnst samt tilefni til að birta hér mynd af endurgerð olíuborsins sem þeir Drake og Smith notuðu sumarið 1859 vestur í Pennsylvaníu.

Margt og mikið hefur verið ritað um áhrif olíunnar á veröld okkar. Sem eru jú talsverð, svo maður noti hógvært orðalag. Og um áhrif olíunnar hafa risið fjölmargar athyglisverðar kenningar. Ein er sú að olían hafi bjargað búrhvelinu frá útrýmingu. Það er sennilega alveg hárrétt; olíulampar leystu lýsislampa af hólmi og þar með hrundi eftirspurn eftir hvalalýsi. Önnur skemmtileg kenning er að olían hafi komið í veg fyrir klofning Bandaríkjanna:

Lieutenant_BlueberrySkammt var liðið frá því olían tók að streyma upp pípurnar í Pennsylvaníu þegar bandaríska borgarastríðið hófst árið 1861. Sumir hafa haldið því fram að sala Norðurríkjanna á olíu til Evrópu hafi veitt Lincoln forseta og Yankee'unum fjármagnið sem var forsenda þess að Suðurríkin lutu í lægra haldi eftir 4ra ára baráttu. M.ö.o. er sagan sú að ef olíuiðnaðurinn hefði fæðst einungis örfáum árum síðar hefðu Suðurríkin náð fram vilja sínum og Ameríska þrælaríkið litið dagsins ljós sunnan við Bandaríkin. Þetta er auðvitað bara svona ef, ef leikur en skemmtileg pæling engu að síður. Það má líka halda áfram að fabúlera og ímynda sér hvað hefði gerst ef olíuiðnaðurinn hefði fæðst í Texas en ekki hjá Norðanmönnunum. Þá hefði Þrælaríkið í Suðrinu kannski orðið mesta iðnveldi heims á 20. öldinni?

Fyrstu árin var það steinolían sem var málið. Hún var mikið nýtt til lýsingar og einnig var olían nýtt sem smurefni í iðnaði. Það olli mönnum aftur á móti sárum leiðindum hvað mikið af öðru gumsi þurfti að hreinsa úr olíunni til að fá steinolíuna og aðrar nothæfar olíuafurðir. Meðal mestu drullunnar var illaþefjandi sull sem menn þarna vestra kölluðu gasoline (bensín). Hreinn viðbjóður og algerlega gagnslaust. Þetta breyttist reyndar dulítið um aldamótin 1900 þegar menn uppgötvuðu að bensín væri notadrjúgt í tækni sem er svo alkunn að óþarft er að rekja frekar. Bílaiðnaðurinn tók bensínið upp á sína arma og í einu vetfangi varð bensín mikilvægasta olíuafurðin í stað steinolíu.

gone-with-the-wind-posterNú eru margir sem óttast að búið sé að nota meira en helminginn af allri vinnanlegri olíu sem Jörðin hefur að geyma. Og að eftir einungis örfáa áratugi verðum við búin að nota megnið af þeirri olíu sem eftir er. Um þetta er í reynd alger óvissa - en vinnslan hefur vissulega smám saman orðið erfiðari og þess vegna dýrari. Það mun leiða til verðhækkana á olíu til framtíðar. En það hversu marga USD olían mun kosta á NYMEX árið 2020 er trilljóndollara-spurning. Sem enginn getur svarað af neinu viti.

Enda skiptir þetta engu máli. Því sama hvað verður um olíuna þá lifa hin mannlegu gildi áfram - og áfram mun ástin blómstra í anda Suðurríkjanna þó svo bæði Texas og Louisiana verði olíulaus. Góða helgi!

 


Kínverjar á orkuveiðum

Hvernig myndi Íslendingum líða í dag, ef Hafró hefði í vikunni birt lauflétta fréttatilkynningu um endurskoðað mat á stærð þorskstofnsins? Nánar tiltekið að líkur væru á að þorskstofninn hafi fram til þessa verið stórlega vanmetinn; um næstum 40 %. Það væri líklega tilefni til að skála í sosum eins og einum öl.

GAS-flamesTilefni þessara vangaveltna Orkubloggsins er að fyrir stuttu síðan birtist frétt um það vestur í Bandaríkjunum að gasbirgðir þar í jörðu séu að öllum líkindum 40% meiri en áætlað hefur verið. Þetta er enn eitt lóð á vogarskál þeirra sem ásamt Orkubloggaranum hafa talið að Bandaríkin standi þrátt fyrir allt nokkuð vel í orkumálum.

Þetta breytir því samt ekki að Bandaríkjamenn verða að huga vel að því hvaðan þeir eiga að fá olíu og gas í framtíðinni. Þeir kæra sig ekki um að lenda í sömu sporum og Evrópa - sem er orðin skuggalega háð gashrammi Rússa. Kínverjar og Indverjar eru líka meðvitaðir um mögulegan orkuvanda heimsins í framtíðinni. Jafnvel ennþá meðvitaðri en Bandaríkjamenn. Þess vegna fara þessi risastóru Asíuríki nú eins og eldur í sinu um heiminn í þeim tilgangi að tryggja sér yfirráð yfir orkulindum.

Þar hefur Kínverjunum orðið sérlega vel ágengt. Alkunnar eru t.d. fjárfestingar þeirra í olíulindum Angóla; þeim mikla olíuspútnik sem á örskömmum tíma er orðin annar stærsti olíuframleiðandi í Afríku. Og nú síðast voru Kínverjar að tryggja sér væna sneið af einhverri mestu gaslind í Suðurhöfum; nánar tiltekið gaslind utan við norðvesturströnd Ástralíu.

Hvorki Bandaríkin né Evrópa hafa sömu langtímahugsunina eins og kínversk stjórnvöld. Það hlægilegasta í þessu nýjasta dæmi suður í Ástralíu er kannski sú staðreynd að fyrirtækin sem munu næstu áratugina selja ástralska flotgasið (LNG) til Kína, eru öll með rætur í Bandaríkjunum og Evrópu.

Það verður íklega seint sagt að Shell, Chevron eða ExxonMobil  þjáist af sterkri föðurlandsást. Sá sem fær gasið sem þau vinna úr ástralska landgrunninu, er einfaldlega sá sem býður best. Með úttroðnar kistur af dollurum eiga kínversk stjórnvöld létt með að yfirbjóða allar aðrar þjóðir, nú í á tímum lánsfjárkreppu. Þess vegna hefur þetta vestræna olíuþríeyki nú samþykkt að selja Kínverjunum Ástralíugasið.

Gorgon gas project_mapÁstralska gasið sem Kínaverjarnir voru að festa sér mun koma frá svæði sem kallað er Gorgon  og liggur undir hafsbotninum um 80 sjómílur utan við NV-strönd Ástralíu. Hafdýpið þarna er víðast einungis u.þ.b. 200 metrar en í reynd ná umræddar gaslindir yfir 2 þúsund ferkílómetra svæði og dýpið sumstaðar allt að 1.300 m. Í samanburði við Drekasvæðið er þetta þó hreinn barnaleikur.

Gasið verður svo leitt eftir pípum dágóðan spotta (50 sjómílur) til Barrow-eyjar, sem mun breytast í gasvinnslustöð. Þar á þessari 200 ferkm eyju sem liggur í nágrenni við Montebello-eyjarnar, þar sem Bretar stunduðu kjarnorkutilraunir sínar á 6. áratugnum, verður gasinu umbreytt í flotgas  (LNG; liqified natural gas). Þaðan verður gasið flutt með sérstökum tankskipum um langan veg til kaupendanna í Kína og fleiri ríkja í A-Asíu.

Gas_Australia_Peter_GarretÞað var 18. ágúst s.l. að hún Donna Faragher, umhverfisráðherra fylkisins Vestur-Ástralía, veitti endalegt leyfi fyrir gasstöðvunum á Barrow-eyju og nú virðast allar hindranir úr vegi fyrir þessari gríðarlegu fjárfestingu. Að vísu þarf umhverfisráðherra alríkisstjórnarinnar í Canberra, Peter nokkur Garret, einnig að blessa gjörninginn, en talið er víst að það muni gerast nokkuð ljúflega. Framkvæmdaaðilarnir eru jafnvel að gæla við að geta hafist handa á Barrow-eyju strax núna í september.

Gorgon-gaslindirnar vestur af sólbökuðum eyðimörkum Ástralíu eru kenndar við risann ógurlega; ófreskjuna með gullvængina sem sagt er frá í grísku goðafræðinni. Þarna eru sagðir liggja heilir 1.100 milljarðar teningsmetra af gasi. Sem er nokkuð mikið - t.d. fimm sinnum meira en norsku Mjallhvítarlindirnar eru sagðar hafa að geyma. Sem sagt mikið - mjög mikið af gasi.

LNG-framleiðslan á að komast í gang 2014 og ganga fyrir fullum afköstum næstu 40 árin. Þegar framleiðslan verður í hámarki á að verða unnt að framleiða 15 milljón tonn af LNG árlega, sem samsvarar u.þ.b. 20 milljörðum rúmmetra af gasi á dag (Mjallhvít hin norska mun framleiða hátt í 6 milljarða rúmmetra árlega).

PetroChina_SignÞað er kínverski ríkisorkurisinn PetroChina  sem er nú búið að festa kaup á samtals rúmum fimmtungi af Gorgon-gasinu næstu 20 árin eða 3,25 milljónum tonna árlega. Seljendurnir eru áðurnefnd Chevron, Shell og ExxonMobil, sem hafa með höndum vinnslu á þessu geggjaða gassvæði. Nú eru horfur á að LNG sé sú orkuvinnsla sem mun vaxa hvað mest á næstu árum og áratugum. Það er aftur á móti óvíst að Vesturlönd fái mikið af þeim gasbita til sín. Sífellt meira er um það að Asíuþjóðir á borð við Kínverja, Indverja og Suður-Kóreumenn festi sér LNG áratugi fram í tímann.

Til marks um umfang Kínverja, þá er gassölusamningurinn vegna Gorgon hvorki meira né minna en stærsti samningur í ástralskri viðskiptasögu. Þessi risasamningur er til marks um það hvernig Kínverjarnir eru snillingar í að tryggja sér framtíðaraðgang að helstu auðlindum jarðar. Þar að auki gæti tímasetningin vart verið betri fyrir Kínverjana. Verð á gasi er í nefnilega djúpum skít þessa dagana. Af einhverjum dularfullum ástæðum hefur gasverð haldið áfram að lækka, þrátt fyrir verðhækkanir á olíu og aukna bjartsýni í efnahagsmálum.

LNG_ship_carrierM.ö.o. þá er gas einfaldlega á tombóluverði nú um stundir og Kínverjarnir með fullar hirslur af dollurum sjá sér leik á borði að kaupa nú upp gas langt fram í framtíðina. Enda veitir þeim ekki af. Búist er við að gasnotkun í Kína þrefaldist á næstu tíu árum. Í dag flytja Kínverjar inn um 6 milljón tonn af fljótandi gasi árlega og segjast ætla að auka þetta í 20 milljón tonn fyrir 2020. Þess vegna eru þeir nú í óða önn að tryggja sér aðgang að bæði gasi og olíu um veröld víða.

Hér heima á Klakanum góða er fólk eitthvað að rífast út af því að verið sé að selja útlendingum orkuauðlindir landsins. Það sorglega er að upphæðirnar sem þar er verið að tala um eru soddan tittlingaskítur. Í stað þess að vera að eyða tíma í þennan kanadíska Silfurref  frá Magma Energy og aurana sem hann þykist ætla að borga fyrir HS Orku, væri nær að gera þetta almennilega. Munum hvað Kínverjar eru hrifnir af drekum. Nú er barrrasta að nota tækifærið og einfaldlega selja þeim vinnsluréttindin á Drekasvæðinu.

Kronan_sekkurVerðið fyrir Drekann íslenska? Til dæmis sama upphæð og Kínverjarnir borga fyrir ástralska gasið frá Gorgon-lindunum: 40 milljarðar dollara. Það eru rúmir 5 þúsund milljarðar ISK á druslugengi dagsins. Ætti að bjarga okkur yfir versta hjallann eftir dýrasta viðskiptaævintýri sögunnar.

En svo talað sé í fullri alvöru... Nú er verið að stíga fyrstu skref í þá átt að selja íslensku orkufyrirtækin til útlendinga. Orkublogginu líst reynda nokkuð vel á þennan mann að baki Magma Energy; Ross Beaty. En því miður er samt ekki ólíklegt að hér muni þjóðin vakna upp einn daginn við það að orkufyrirtækin hafi verið seld - á slikk. Stjórnmálamönnum á Íslandi virðist a.m.k. einkar lagið að búa illa um hnútana þegar kemur að sölu (einkavæðingu) mikilvægra opinberra fyrirtækja.


Geitskór og gasið í Rúþeníu

Carpatho-Rusyn_sub-groups_-_Transcarpathian_Rusyns_in_original_goral_folk-costumes_from_Maramureº_.[1]Eih bennek, eih blavek!

Að Ísland eigi sér viðreisnar von er farið að verða svolítið hæpið. Hér virðist fjármálaspillingin hafa farið létt með að slá út bæði Enron og rússnesku einkavæðinguna. Heyrst hefur að meira að segja íbúar Rúþeníu hafi hugsanlega efni á meiri bjartsýni en Íslendingar.

Nei - Orkubloggið er ekki að grínast! Hér er fúlasta alvara á ferðum. Þó svo að þjóðbúningarnir í Rúþeníu og fjallendið þar hafi hugsanlega verið meðal þess sem gaf Hergé hugmyndina að Austur-Evrópuríkinu Syldavíu, er Rúþenía enginn tilbúningur.

tinni_VeldissprotiVissulega er Orkubloggarinn einlægur aðdáandi Tinnabókanna. Og þekkir því vel til hinna athyglisverðu samfélaga bæði Syldavíu og Bórdúríu. En vitund bloggarans og áhugi á Rúþeníu vaknaði aftur á móti ekki fyrr en fyrir örfáum mánuðum, þegar bloggarinn dvaldi nokkra daga austur í Kíev; höfuðborg Chernobyl-landsins Úkraínu. Hvar hið dúndrandi geislavirka fljót Dnepr streymir í gegnum borgina með alla sína miklu sögu og oft myrka fortíð.

Rúþenía er eitt af mörgum héruðum þessa merkilega lands og liggur í fjalllendinu vestast í Úkraínu, að landamærum Póllands, Slóvakíu, Ungverjalands og Rúmeníu. Sem sagt hjarta Evrópu!

Við nánari athugun bloggarans kom í ljós að Rúþenía er ekki aðeins hluti af hinum fallegu Karpatafjöllum, heldur er héraðið nánast í lykilhlutverki í orkubúskap allrar Evrópu. Af því tilefni ætlar Orkubloggið að staldra við þetta vestasta hérað Úkraínu, sem fyrir margt löngu naut þess í EINN DAG að vera sjálfstætt ríki.

Rutenia_skjaldarmerkiJá - lýðveldið Rúþenía lifði einungis í einn dag. Eða í mesta lagi þrjá, allt eftir því við hvaða heimild er miðað. Þetta gerðist á óróatímanum skömmu fyrir heimsstyrjöldina síðari og þá var héraðið hluti af Tékkóslóvakíu.

Eðlilega skapaðist mikil ólga á þessum slóðum þegar ofurhrammur Nasismans byrjaði að láta til sín taka. Sjálfstæðissinnar austast í Tékkóslóvakíu sáu sér leik á borði þegar Hitler tók Súdetahéruðin 1938. Víða urðu skærur og til eru sögur um grimmilega bardaga slóvenskra, rúþenskra og ungverskra herflokka í snævi þöktum Karpatafjöllunum veturinn 1938-39.

Svo fór að þann 15. mars 1939 lýsti rúþenska þjóðernishetjan Augustin Voloshyn  og fylgismenn hans yfir sjálfstæði Rúþeníu.

Avgustyn_Voloshyn_1Lýðveldið nefndu þeir reyndar ekki Rúþeníu heldur Karpata-Ukraínu  (Карпатська Русь). Héraðið liggur við vesturhlíðar Karpatafjallanna, sem er einhver mesti fjallgarður í Evrópu og lýðveldisnafnið endurspeglaði sterk tengsl Rúþena við Úkraínumenn fremur en Slóvaka, Ungverja eða Pólverja.

Þessar aðgerðir Voloshyn‘s  töldu Ungverjar vera upplagða tylliástæðu til að ráðast inn í héraðið af fullum þunga - að sjálfsögðu með blessun Hitlers. Einungis fáeinum klukkutímum síðar var mestöll Rúþenía á valdi ungverska hersins. Til eru hroðalegar frásagnir af því hvernig illa vopnaðir lýðveldissinnarnir frá Rúþeníu voru stráfelldir af Ungverjum. Þeir Rúþenar sem náðust lifandi voru leiddir fyrir aftökusveitir og frosnum líkunum svo hrúgað í fjöldagrafir. Það er erfitt að ímynda sér grimmdina sem ríkti þarna í hjarta Evrópu í aðdraganda heimsstyrjaldarinnar.

zakarpattia_valleyÞar með lauk hinni örstuttu sjálfstæðissögu Rúþeníu á ísköldum vordögum árið 1938. Þess má líka geta að við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar bjó mikið af gyðingum í héraðinu og voru þeir allir með tölu fluttir til Auschwitz og gjörsamlega útrýmt. Eftir síðari heimsstyrjöldina var Rúþenía gerð að sérstöku héraði vestast í Úkraínu og þar með hluti af Sovétríkjunum.  

Voloshyn  átti aldrei aftur eftir að strjúka um frjálst höfuð og mun hafa látist í sovésku fangelsi á árinu 1945. Héraðið var eftir yfirtöku Sovétríkjanna nefnt Zakarpattia og ber það heiti enn þann dag í dag. Héraðið er nú hluti af Úkraínu og er um 13 þúsund ferkílómetrar. Íbúafjöldinn í dag er um 1,3 milljónir og þar af eru um 80% Úkraínumenn, 10% Ungverjar en afgangurinn ýmis önnur þjóðabrot.

Kannski eru ekki margir Íslendingar sem kannast við Rúþeníu og reyndar er umdeilt hvort Rúþenar uppfylla lágmarksskilyrði til að geta talist sérstök þjóð. Bæði fólkið og tungumálið er náskylt Úkraínumönnum og úkraínsku (sem er mjög lík rússnesku) og sjálfstæðishugmyndir fólksins í Rúþeníu hafa óvíða fengið stuðning.

Ruthenia_gas_pipesEn á allra síðustu misserum hafa vonir sumra íbúanna þar um aukna sjálfsstjórn óvænt glæðst. Vegna þess að skyndilega er þetta flestum gleymda hérað skyndilega orðið mikilvægur hlekkur í orkukeðju Evrópu. Þarna um héraðið liggja nefnilega flestar af gasleiðslunum, sem flytja rússneskt gas til landa í Evrópusambandinu.

Vegna gasdeilna Rússa og Úkraínumanna og truflana á gasstreyminu til Evrópusambandsríkjanna hefur athygli manna óvænt beinst að Rúþeníu. Rúþenía - eða Zakarpattia - er allt í einu orðið mál málanna. Af þeim sökum hefur sjálfsöryggi og sjálfsvitund íbúa Rúþeníu líklega sjaldan verið jafn sterk eins og þessa dagana.

Sumir telja að þjóðin sem kennir sig við Rúþeníu (Rúþenar eða Rusyns eins og þeir kallast á erlendum tungum) telji hugsanlega allt að tvær milljónir manna - aðrir segja að þeir séu einungis um 50 þúsund. Sama hver talan er, þá er vitað að fæstir Rúþenanna búa í héraðinu. Stór hluti þeirra býr í öðrum héruðum Úkraínu og í nágrannalöndunum, eins og Karpatahéruðum Slóvakíu og Póllands og meira að segja í fyrrum lýðveldum Júgóslavíu.

andy_warhol_self_portraitÞekktasti Rúþeni allra tíma er oft sagður vera yfirfígúran og listamaðurinn Andy Warhol. Þegar hann var spurður hvaðan hann væri ættaður mun Warhol gjarnan hafa svarað að hann kæmi „from nowhere". Foreldrar Warhol voru innflytjendur frá Slóvakíu, en áttu ættir að rekja til héraðanna þar austan af og hafa mögulega verið Rúþenar (þó það sé reyndar óljóst; kunna að hafa verið af úkraínskum ættum). Warhol hitti þarna á góðan punkt; mörgum Rúþenum þykir einmitt erfitt að staðsetja rætur sínar og uppruna. Það er vandamál sem við Íslendingar þekkjum ekki hér á Klakanum góða.

Nú hefur skyndilega færst nýr kraftur í sjálfstæðissinna í Rúþeníu, undir forystu manns að nafni Pétur Geitskór  (reyndar heitir hann Petr Getsko). Það var í desember s.l. (2008) að Getsko ásamt nokkrum áhangendum lýsti yfir sjálfstæði Rúþeníu. Og þessi fríði flokkur útnefndi Getsko sjálfan sem forsætisráðherra hins nýstofnaða ríkis.

Europe_Gas_PipelinesÞetta uppátæki er einungis táknrænt og hefði hugsanlega ekki vakið mikla athygli, nema fyrir það að í viðtölum við fjölmiðla var Getsko sérlega duglegur að benda á eina markverða staðreynd. Nefnilega þá, að stór hluti af öllu gasinu frá Rússlandi til Evrópu fari um leiðslur sem liggja um Rúþeníu - þetta vestasta hérað Úkraínu.

Það á enn eftir að koma í ljós hvort eitthvað verður úr digurbarkalegum yfirlýsingum Getsko‘s um sjálfstæða Rúþeníu. Rætnar tungur segja að þarna hafi hann einungis fengið sínar 15 mínútur af frægð. Sem kunnugt er var það einmitt Rúþeninn Andy Warhol, sem mælti á sínum tíma þessi fleygu orð: „In the future, everyone will be world famous for 15 minutes". Warhol virðist svo sannarlega hafa séð Internetið fyrir.

Hvernig svo sem fer með sjálfstæðisyfirlýsingu Getsko's og fylgismanna hans, þá væri örugglega gaman að koma til Rúþeníu. Karpatafjöllin eru enn nokkuð óspillt og þar eru t.d. gríðarlega mikil tækifæri í uppbyggingu vetraríþróttasvæða.

zakarpattia-snowy_mtsEn Rúþenía lifir ekki aðeins sem gömul saga eða von um nýtt ríki. Það er nefnilega til frumefni (málmur) sem kallað er rúþen (ruthenium) og er talið geta nýst í sólarsellutækni. Nánar tiltekið við gerð sérstakra örþunnra sólarsella, sem eiga að verða margfalt hagkvæmari en núverandi sellur (Orkubloggið hefur að sjálfsögðu áður minnst á þessar s.k. thin-film  sólarsellur). Þannig tengist bæði Rúþenía og rúþenið Orkublogginu...


Volt: 1 lítri á hundraðið!

Einn af þeim rafbílum sem menn bíða spenntir eftir er tengiltvinnbíllinn Chevrolet Volt. Að sögn General Motors  fer nú að styttast í Volt‘inn, sem á einungis að eyða sem svarar 1 galloni á 230 mílur. Sem er sama og einn á hundraðið. Já - einn lítri á 100 kílómetra! Ef þetta reynist rétt eru þeir hjá GM búnir að búa til sannkallað furðuverk.

VOLT_Chevrolet_ConceptÞessa eyðsla yrði margfalt minni en uppgefin eyðsla eins helsta keppinautarins; Toyota Prius. Þar er opinbera talan í Bandaríkjunum 48 mílur á gallonið, sem jafngildir um 4,9 lítrum á hundraðið (niðurstaða Orkubloggsins var að Prius‘inn eyði reyndar um 5,9 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri).

Margir bílaáhugamenn urðu efins á svip þegar GM tilkynnti um þessa ofurlágu bensíneyðslu nú fyrir um viku síðan. Í reynd er þessi eyðsla háð nokkuð þröngum forsendum. Þannig er nefnilega að eyðslutölurnar miðast við tiltekna meðalvegalengd sem hinn almenni vísitölukani ekur á hverjum degi. Sökum þess að rafmagnshelðslan dugir fyrstu 40 mílurnar (64 km) og umræddur meðalakstur er lítið umfram það, er auðvelt að ná bensíneyðslunni í þessum tölfræðileik undir 1 l á hundraðið.

epa_logoNú bíða menn auðvitað spenntir eftir því hvort úrskurður bandarísku umhverfisstofnunarinnar EPA (US Environmental Protection Agency) um eldsneytiseyðslu Volt‘sins verði í samræmi við þessar yfirlýsingar GM. Verði það niðurstaðan verður Volt fyrsti bíll veraldar sem kemst í þann flokk sem kallast „triple-digit gas mileage". Það táknar að viðkomandi bíll komist meira en 100 mílur á einu galloni (eyði minna en 2,4 lítrum á hundrað kílómetra). Eyðslan hjá Volt‘inum á heldur betur að sprengja þennan skala; 230 mílur á gallonið eða 1 lítri á hundraðið, sem fyrr segir!

Rétt eins og Toyota Prius verður Volt knúinn bæði með hefðbundnum brunahreyfli og rafknúinn. En Volt‘inn verður að auki þannig útbúinn að hægt verður að hlaða rafgeyminn með venjulegri heimarafstungu. Hann er sem sagt enn eitt skrefið í átt að rafbíl; s.k. tengil-tvinnbíll.

Bíllinn á að verða tilbúinn á næsta ári (2010). Þar er þó einungis um að ræða nokkra tugi eintaka, sem eru fyrst og fremst sýningareintök. Nefna má að Volt'inn á að taka fjóra farþega og ná 160 km/klkst hraða. Liþíum-jóna rafgeymirinn á að geta enst í heilan áratug og til að gera bílinn ennþá umhverfisvænni verður hægt að fá hann með sólarsellurafhlöðu á þakinu. Það verður þó ekki standard-búnaður; almennt verður rafgeymirinn hlaðinn heima við yfir nótt.

Volt_2011Enn eru mörg tæknileg vandamál óleyst til að Volt verði að veruleika. T.d. mun hafa gengið heldur brösuglega að láta rafgeyminn og brunahreyfillinn vinna saman sem skyldi og einnig er talsvert langt í land með að rafgeymirinn verði nægilega endingagóður til að þetta dæmi gangi upp.

Loks hljómar verðið frekar hrottalega; fyrsta kynslóðin á að kosta í kringum 40 þúsund dollara. Hjá GM binda menn vonir við að bandarísk stjórnvöld hvetji til rafbílavæðingar með skattaafslætti, sem muni koma verðinu niður í allt að 30 þúsund dollara. Til samanburðar þá kostar t.d. nýr öflugur gæðajeppi einmitt um 40 þúsund dollara þar vestra og fá má prýðilegan 5 sæta fjölskyldubíl fyrir 15-20 þúsund dollara.

Auk tæknivandamála er ýmislegt annað sem veldur mönnum efa um að þetta Volt-ævintýri gangi upp hjá GM. Þetta er í raun stærra mál en margan grunar. GM er hugsanlega að leggja allt undir. Volt‘inn á að bjarga fyrirtækinu og ef hann floppar er GM kannski endanlega búið spil. Þar á bæ hafa menn reyndar viðurkennt að jafnvel þó svo færi að bíllinn seldist eins og heitar lummur á 40 þúsund dollara stykkið, myndi verða tap á framleiðslunni. Þarna virðist viðskiptaáætlunin byggð annað hvort á mikilli bjartsýni um að framleiðslukostnaðurinn muni senn hrynja eða að ívilnanir stjórnvalda til rafmagnsbílaframleiðslu muni tryggja hagnað af Volt.

Það var vissulega nokkuð snjallt af stjórnendum GM að láta framtíð fyrirtækisins ráðast af „grænum" bil. Þessi stefna stjórnunarteymisins byggðist í raun á þeirri lymsku, að með Volt mætti nánast endalaust réttlæta skattaívilnanir, niðurgreiðslur eða annars konar stuðning úr sjóðum bandarískra skattborgara. Þar með fengi GM svigrúm til að þróa Volt‘inn og aðra rafbíla, uns hagkvæmni yrði náð.

gm-meltdownEn því miður vann tíminn ekki með GM. Þeir sukku endanlega í skuldadýið í sumar sem leið og eftir lauflétt kennitöluflakk er stærstur hluti þessa gamla bílarisa nú í eigu bandaríska ríkisins. Hvort það verður gott eða slæmt fyrir þróunina á Volt mun tíminn leiða í ljós.


Svört bjartsýni eða björt svartsýni?

TIME_Japan_mar_1981Hagvöxtur í Japan varð þokkalegur á 2. ársfjórðungi. Fjölmiðlar stukku margir á agnið og átu hver upp eftir öðrum að kreppan væri búin. Vöxtur væri hafinn á ný.

Reyndar hafa líka verið að birtast fréttir um vöxt í Evrópu. Vandamálið er bara að það er alltof, alltof snemmt að fagna. Ein smá uppsveifla segir ekki neitt. Kannski er kreppan búin - en kannski er ennþá talsvert langt í land og kannski á heimurinn senn eftir að upplifa ennþá dýpri efnahagslægð en hingað til.

Þó svo hagvöxtur í Japan hafi numið 0,9% á 2. ársfjórðungi var hann í reynd minni en margir bjuggust við! Spár höfðu gert ráð fyrir meiri uppsveiflu þarna í landi hinnar rísandi sólar, eftir hinar hressilegu efnahagsaðgerðir japanskra stjórnvalda undanfarið.

Það er ekki nóg með japönsk stjórnvöld verði senn búin að kaupa upp nánast hverja einustu viðskiptakröfu milli japanskra fyrirtækja - þar hefur Seðlabankinn einnig hreinlega afnumið vexti á lánsfé til fyrirtækjanna. Fjárinn hafi það; varla er liðin vika síðan japanski Seðlabankinn ákvað að halda vöxtum áfram 0,1%! M.ö.o. þá er lánsfé nú svo gott sem ókeypis í Japan og búið að vera svo í dágóðan tíma. Samt varð vöxturinn á 2. ársfjórðungi minni en flestir höfðu gert ráð fyrir. Þarna er einfaldlega ennþá allt í kaldakolum.

Dow_Jones_August_17_2009Niðurstaðan í Japan núna ætti fremur að vekja vonbrigði en gleði. Og það vita verðbréfabraskararnir á Wall Street. Þess vegna lækkuðu hlutabréfavísitölur vestan hafs í dag um heil 2-3% (myndin hér til hliðar sýnir Dow Jones í dag, en hún lækkaði um 2%). Hér heima voru fréttirnar um "uppsveifluna" í Japan aftur á móti matreiddar eins og allt sé að smella í lag. Heldur öfugsnúið.

China_what_directionMenn hafa sem sagt verulegar áhyggjur... ekki síst af Asíu. Þessi útkoma í Japan er hundslöpp - og gæti verið undanfari enn válegri tíðinda. Nefnilega þeirra að Kína fari að hægja á sér fyrir alvöru. Þá fyrst yrði fjandinn laus.


Rennur endurnýjanleg orka útí sandinn?

IRENA_logoÞví miður rættist ekki sá draumur Orkubloggsins, að aðalstöðvar IRENA - nýju alþjóðasamtakanna um endurnýjanlega orku - yrðu staðsettar á Íslandi. Enda höfðu íslensk stjórnvöld lítinn áhuga á að vinna að því markmiði.

Irena_UEA_happyKannski getum við huggað okkur við það að Ísland hefði hvort sem er verið yfirboðið og hefði aldrei átt neina möguleika í að fá IRENA til sín. Meira að segja Þjóðverjarnir urðu að láta í minni pokann fyrir arabísku olíupeningunum í slagnum um aðalstöðvar IRENA.

Já - það er búið að ákveða að aðalstöðvar IRENA verði í gullna sandinum í olíuveldinu Abu Dhabi. Það er ástæðan fyrir því að þeir félagarnir Sheikh Mohammed bin Rashid Al Maktoum, varaforseti Sameinuðu Arabísku furstadæmanna og einvaldur í Dubai og hans hágöfgi Khalifa bin Zayed Al Nahyan, fursti í Abu Dhabi, ískra af kátínu þessa dagana. Þetta vitum við auðvitað öll af þeirri einföldu ástæðu að einn uppáhaldsvefurinn okkar orkufíklanna hlýtur að vera hinn safaríki vefur www.sheikhmohammed.ae!

uae-oilÞað voru sem sagt Arabarnir í Abu Dhabi sem unnu sigur í kapphlaupinu um aðalstöðvar IRENA. Þjóð furstadæmisins telur um eina milljón manns, en Abu Dhabi er eitt af sjö furstadæmum sem mynda ríkið Sameinuðu arabísku furstadæmin  (United Arab Emirates eða UAE). Þetta ofurríka olíuveldi býr yfir einhverjum mestu olíubirgðum heims; er með um 90% af allri olíu og gasi innan UEA og því einhver almesti olíupollur veraldar. Enda átti furstinn ekki í vandræðum með að yfirbjóða önnur ríki sem þyrsti í að hýsa IRENA innan sinna landamæra. Sigraði þar ekki aðeins Þjóðverja, heldur einnig Austurríkismenn, Dani og Tékka, sem allir sóttust eftir því að fá IRENA til sín.

Með loforðum um tugmilljóna dollara styrki til orkuverkefna í þróunarríkjunum tryggði Abu Dhabi sér stuðning fjölmargra þróunarríkja á undirbúningsráðstefnu IRENA og auk þess lofuðu þeir að kosta byggingu og rekstur skrifstofunnar þarna í steikandi eyðimörkinni. Þessi gylliboð dugðu til að tryggja Abu Dhabi sigurinn.

IRENA_renewablesAðrar borgir sem sóttust eftir að fá IRENA til sín voru allar evrópskar; Bonn, Kaupmannahöfn, Prag og Vín. Þjóðverjar töldu sig lengi vel eiga hvað besta möguleikann, enda ýmis góð rök með því að gera Þýskaland (Bonn) að heimsmiðstöð endurnýjanlegrar orku:

Í fyrsta lagi hafa þýsk stjórnvöld um árabil sýnt ríka viðleitni til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku og skapað vistvænni orku nokkuð hagstætt rekstrarumhverfi í landinu. Í annan stað eru nokkur af öflugustu fyrirtækjum heims á sviði bæði vindorku og sólarorku staðsett í Þýskalandi - þó svo nánast öll raforka þýsku þjóðarinnar komi reyndar frá kolum og gasi. Í þriðja lagi hefur það gríðarlega þýðingu fyrir Bonn að fá til sín slíka alþjóðastofnun; það vita allir sem hafa gengið um gömlu sendiráðsstrætin í Bonn og horft á tómar skrifstofubyggingarnar sem þar standa í röðum. Í Bonn eru nú þegar aðalstöðvar Eyðumerkursamningsins (Desertification Convention) og Loftslagssamningsins (Climate Change Convention), Enn er þó langt í að þessi fyrrum höfuðborg Vestur-Þýskalands nái sér eftir blóðtökuna sem varð þegar stjórnsýslan og sendiráðin fluttu sig til Berlínar eftir sameiningu þýsku ríkjanna tveggja.

Borse_Dubai_LogoEðlilega samglöddust leiðtogar hinna furstadæmanna sex meðbræðrum sínum í Abu Dhabi þegar niðurstaðan varð ljós. Það er talsvert púður í því fyrir Sameinuðu arabísku furstadæmin að fá til sín slíka alþjóðastofnun og sumir tala um að UAE hafi með þessu loks fengið viðeigandi viðurkenningu alþjóðasamfélagsins. Þó svo Abu Dhabi sé auðugast furstadæmanna innan UEA af olíu og gasi, hefur athygli umheimsins undanfarin ár meira beinst að öðru furstadæmi í þessu sérkennilega ríki. Nefnilega Dubai. Þar hefur um skeið ríkt nánast ævintýralegt byggingaæði og glæsilegar nýbyggingarnar fangað athygli bæði auðmanna og kvikmyndastjarna.

Kannski vonast höfðingjarnir í UAE til þess að kastljósið sem nú beinist að Abu Dhabi og UEA verði til þess að draga orkufyrirtæki að hinni nýju kauphöll Borse Dubai. Utan UAE vonast aftur á móti ýmsir til þess að staðsetning aðalstöðva IRENA í Abu Dhabi leiði til þess að olíupeningarnir frá furstadæminu verði drifkraftur í vexti endurnýjanlegrar orku um allan heim. Svo eru enn aðrir sem líkja þessari niðurstöðu við að Kínverjar myndu gerast helstu boðberar heimsins í mannréttindamálum. Logarnir sem standa upp af hinum óteljandi olíu- og gasbrunnunum í Abu Dhabi eru ekki beint í takt við ásýnd endurnýjanlegrar orku.

CSP_Torresol_TowerHvað sem þessu líður, þá virðast olíu-shékarnir í Abu Dhabi talsvert áhugasamir um endurnýjanlega orku. Orkubloggarinn minnist t.d. heimsóknar sinnar á liðnu ári (2008) til aðalstöðva spænska sólarorkufyrirtækisins Torresol suður í Madrid. Það athyglisverða fyrirtæki, sem hyggst veðja á CSP-turntæknina, er einmitt að stórum hluta í eigu fjárfestingasjóðs stjórnvalda í Abu Dhabi. Það er einungis eitt af mýmörgum dæmum um fjárfestingar olíusjóðsins í Abu Dhabi í endurnýjanlegum orkufyrirtækjum á Vesturlöndum og víðar í heiminum.

IRENA_green_ArabNú þegar olíushékarnir í Abu Dhabi hafa landað IRENA, er stefnt að því að þessi alþjóðlega miðstöð endurnýjanlegrar orku rísi senn í hinni furðulegu framtíðarborg Masdar. Takmark shékanna er sjálfsagt að IRENA verði ein af helstu táknmyndum þessarar „vistvænu og grænu" framtíðarborgar þarna í steikandi sandauðum hins olíuauðuga furstadæmis.

Engu að síður efast Orkubloggið um að skrifstofa IRENA í Masdar eigi eftir að láta að sér kveða af einhverju viti. Sem sárabót fyrir Þjóðverjana var nefnilega ákveðið að tæknimiðstöð IRENA (Center of Technology and Innovation) verði staðsett í Bonn. Í reynd er sólar- og vindorkan í Abu Dhabi mest upp á punt, meðan þetta er hvort tveggja alvöru bissness í Þýskalandi. Því þykir blogginu líklegt að hin raunverulega miðstöð IRENA verði í reynd tæknisetrið í Bonn.

En það merkir ekki að starfsfólkið í aðalstöðvum IRENA í Abu Dhabi verði verkefnalaust. Það eru nefnilega líkur á að þar verði mikil áhersla lögð á að sinna einni tegund orku sem reyndar er ekkert sérstaklega endurnýjanleg. Þ.e. kjarnorkan!

IRENA_Hélène_Pelosse_Interim_DirectorÞó svo myndir af grænustu möguleikunum í raforkuframleiðslu prýði gjarnan fréttir af IRENA, þá er stofnunin þegar farin að hneigjast í átt til kjarnorkunnar. Dæmi er að nýbúið er að ganga frá ráðningu kjarnorkusérfræðings sem forstjóra stofnunarinnar. Það er hin franska Hélène Pelosse. Þótt Helena sé gjarnan titluð sem sérfræðingur í endurnýjanlegri orku hafa störf hennar fyrir frönsku stjórnina að mestu tengst kjarnorku. Enda er Frakkland stórveldi á því sviði og framleiðir næstum allt sitt rafmagn með kjarnorkuverum. 

Að auki bætist svo við sú staðreynd að stjórnvöld í Abu Dhabi hafa nú uppi metnaðarfulla kjarnorkuáætlun. Og hafa í því sambandi komið á samstarfi bæði við bandarísk stjórnvöld og franska orkufyrirtækið Areva.

Sarkozy_Abu Dhabi_3Þetta er reyndar hluti af risastórri franskri kjarnorku-uppbyggingu í Persaflóanum, en um það hefur sperrileggurinn Sarkozy  verið sérlega áhugasamur. Í staðinn fyrir kjarnorkuþekkinguna, fá Fransararnir flotastöðvar og fleira fínerí á þessu strategíska mikilvæga svæði. Þannig klórar hver silkihúfan annarri og allir verða glaðir.

Það er þess vegna alls ekki ólíklegt að kjarnorkan komi til með að verða efst á blaði hjá IRENE í Abu Dhabi. Það er líka kannski barrrasta nokkuð lógískt. Hvað annað en kjarnorkan getur leyst núverandi orkugjafa af hólmi? Ætli hin sanna endurnýjanlega orka renni útí gulan Arabíusandinn eða drukkni þar í ofboðslegu olíugumsinu og glampandi kjarnorkuáætlunum?


150 ára afmæli olíuvinnslu - og leitin að "næsta búrhveli"

Ekki er ofsagt að olían hafi bjargað einu stærsta dýri jarðar frá útrýmingu. Búhvalnum.

Sperm_Whale_1Á 19. öld jókst eftirspurn eftir hvalalýsi hratt. Lýsið var bæði notað sem smurefni á vélar og í lýsislampa (þ.á m. stóra lampa í vitum). Þó svo bæði tólg og svínafita væri einnig nýtt í þessum tilgangi, þótti lýsið af búrhvalnum hvað best. Þess vegna voru búrhvalir eltir um öll heimsins höf og stundum af mikilli grimmd að sumum fannst. Sbr. sagan sígilda um Moby Dick.

Líklega hefði búrhvölum verið gjörsamlega útrýmt ef menn hefðu ekki allt í einu áttað sig á því að nýta mátti steinolíu í stað hvalalýsis. Þar kom til gamla góða lögmálið um framboð og eftirspurn.

george-bissellUm 1850 var verðið í Bandaríkjunum fyrir eitt gallon af hvalalýsi orðið ansið hátt eða sem nam fjórðungi af mánaðarlaunum góðs verkamanns. Þá kom til sögunnar bandarískur iðjuhöldur að nafni George Bissell  (1821-1884). Bissell hafði séð olíusullið, sem víða lak upp úr jörðinni í norðausturríkjum Bandaríkjanna og vissi að þetta var eldfimt efni. Hann velti þess vegna fyrir sér hvort etv. mætti nýta þetta dökkleita sull sem eldsneyti í stað hvalalýsis. Bissell bar málið undir efnafræðinga hjá Yale-háskóla, sem leist vel á hugmyndina og töldu vel mögulegt að koma þessu í framkvæmd. Svo fór að Bissell stofnaði félag í þeim tilgangi að vinna olíu og kallaðist félagið Pennsylvania Rock Oil Company (síðar breytt í Seneca Oil). Þetta var í raun fyrsta olíufélag heimsins og árið var 1854.

Helsta vandamálið var hvernig ná ætti olíunni upp í nægjanlega miklu magni til að þetta gæti borgað sig. Bissel og félagar vissu að menn boruðu víða niður í jörðina eftir salti, sem þar mátti finna í jarðlögum og töldu rétt að reyna að nota sömu bortæknina til að ná upp olíu. Að öðrum kosti yrði þetta aldrei arðbær bissness.

Drake_Oil_Tower_TitusvilleFlestum öðrum þótti hugmyndin einfaldlega fáránleg - eins og stundum vill vera með góðar hugmyndir. En Bissell var sama hvað öðrum fannst. Hann útvegaði sér mann til verksins, Edwin nokkurn Drake  og síðla árs 1858 byrjaði Drake að bora við bæinn Titusville í Pennsylvaníu.

Skemmst er frá að segja að í águst 1859 - fyrir nákvæmlega 150 árum síðan - gerðist það að Drake og Smith aðstoðarmaður hans hittu á olíulind. Eins og áður  hefur verið sagt frá hér á Orkublogginu. Olían sprautaðist af miklum krafti upp eftir rörinu og markaði upphaf bandaríska olíuævintýrisins. Sem ennþá er í fullum gangi.

Bissell lagði strax meiri pening í boranirnar í Titusville og varð fljótt vellauðugur af olíunni. Menn hlógu ekki lengur að Bissell og ekki leið á löngu þar til menn þyrptust til Titusville til að bora eftir svarta gullinu. Þessi bortækni varð grundvöllur að nýjum iðnaði óg fyrir vikið hefur Bissell oft verið kallaður faðir bandaríska olíuiðnaðarins.

Titusville_Oil_boomÞað var þó annar maður sem náði að verða ennþá auðugri af þeim ljúfa bransa. Til að olían kæmi að gagni þurfti að meðhöndla hana og svo fór að þar reyndust hvað mestu tækifærin liggja. Það var John D. Rockefeller sem þar sá sér leik á borði og náði hann brátt einokunaraðstöðu í olíuhreinsuninni.  En það er allt önnur saga.

Þeir sem höfðu mesta ástæðu til gleðjast þegar fyrsta olían spýttist upp rörin í Titusville voru samt ekki afkomendur Rockefeller's - heldur auðvitað búrhvalirnir. Smám saman leysti steinolían hvalalýsið af hólmi. Þannig tekur eitt við af öðru í veröld eldsneytisins og þar ræður hagkvæmnin alltaf lang mestu.

Elizabeth_I_TudorTil gamans má nefna annað dæmi um það hvernig jarðefnaeldsneytið hefur ítrekað bjargað lífríki á jörðinni. Á dögum Elísabetar I í lok 16. aldar voru skógar Englands helsta eldsneyti þjóðarinnar og höfðu verið um aldir. Nú var kominn upp talsverður iðnaður í ríki hennar hátignar og víða spruttu upp verksmiðjur sem unnu ýmist járn eða gler. Þessi þróun olli stóraukinni ágengni í trjávið í verksmiðjueldinn.

Fyrir vikið var nú svo illa komið fyrir mörgum skógum Englands að árið 1581 samþykkti þingið í London lög um stórfellda skógfriðun. Þetta var einn fyrsti „hvatinn" til stórfelldra breytinga í orkugeiranum. Iðnaðurinn leitaði nýrra lausna og skömmu eftir aldamótin 1600 fundu menn í gleriðnaðinum upp á því að nota kol í stað viðareldsneytis. Sem hendi væri veifað hófst nú stórfelldur kolanámarekstur í Englandi. Það reyndist snjöll hugmynd; tæknin var tiltölulega einföld og kolin reyndust ódýr lausn. Þar með hófst gullöld kolanna og næstu 350 árin voru þau helsti orkugjafi bresku þjóðarinnar.

coal_plant_modernNú standa menn á torgum og segja bæði olíuna á þrotum og vilja banna kolabruna vegna gróðurhúsaáhrifa. Ennþá eru kol og olía lang mikilvægustu orkugjafar mannkyns. Til að við getum lagt þessa orkugjafa til hliðar þarf að finna „nýtt búrhveli". Og það engan smá hval heldur risastórt kvikyndi sem helst getur veitt okkur öllum og kynslóðum framtíðarinnar orku um ókominn tíma.

Á tímabili voru margir sem trúðu því að kjarnorkan væri stóra lausnin. Það gæti reyndar verið rétt; kjarnorkan er líklega eini raunhæfi orkugjafinn til að leysa olíu, gas og kol af hólmi að verulegu leyti. Þ.e.a.s. tímabundið - því kjarnakleyf efni eru einungis til í takmörkuðu magni.

Nuclear_Fusion_SunKannski felst framtíðarlausnin í kjarnasamruna. Eins og menn eru að dunda við að þróa hjá kanadíska fyrirtækinu General Fusion. Eða að fundin verði ný, einföld og hagkvæm leið til að virkja sólarorkuna. Enn er lausnin ekki fundin, enda ennþá nóg af olíu, gasi og ekki síst kolum.

Kannski verður lausnin einfaldlega sú að hætta gróðurhúsatalinu og nota þau kol sem til eru. Unnt er að búa til olíu úr kolum og kolabirgðir jarðar gætu jafnvel nýst okkur og afkomendunum í einhverjar aldir enn. Með ömurlegum afleiðingum fyrir lífríki og umhverfi kolavinnslusvæðanna, en til bjargar orkuþyrstu mannkyni.

Þetta er auðvitað ekki sú græna leið sem við flest vonandi viljum. En kannski er þetta samt framtíðin næstu öldina eða svo. Það er vissulega nokkuð svört framtíðarsýn - en kannski raunsæ?


Skeppa af sojabaunum...

Eftir að verðafall varð á ýmsum hrávörumörkuðum á seinni hluta liðins árs (2008) hefur olía og ýmis önnur hrávara hækkað mikið í verði aftur síðustu mánuðina.

commodities_hottest_2009Nýlega tóku þrír starfsmenn CNBC saman yfirlit um hvaða hrávörur hafa hækkað mest frá síðustu áramótum (hugtakið hrávara er hér notað yfir enska orðið commodity, sem nær yfir margs konar einsleitar framleiðsluvörur, sem viðskipti eiga sér stað með).

Viðmiðunardagsetningin var 3. júní 2009, þ.e. reiknuð var verðbreytingin milli 1. janúar og 3. júní 2009. Einnig var skoðað hvernig verð á viðkomandi hrávörum hafði sveiflast síðustu 52 vikurnar fyrir umrædda dagsetningu, þ.e. yfir 12 mánaða tímabil.

Niðurstöðurnar eru nokkuð athyglisverðar. T.d. komst gull ekki á topp tíu listann yfir þær vörur sem hafa hækkað mest. Það kemur á óvart miðað við allt krepputalið sem verið hefur bæði vestan hafs og austan. Líklega verða menn ekki almennilega spenntir fyrir gullinu nema verðbólgan fari af stað. Tekist hefur að halda aftur af henni - næstum of vel því farið er að bera á verðhjöðnun - þó svo ýmsir telji reyndar enn möguleika á að verðbólgudraugurinn æði senn af stað víða um heim.

Ennþá er of snemmt að segja til um hvernig málin þróast út árið og full snemmt að tilnefna heitustu hrávörurnar 2009. Það eru t.d. ýmsir sem segja að olíubirgðir séu orðnar svo miklar út um allan heim, að olíuverð hljóti senn að falla hratt. Aðrir telja að von sé um að kreppan hafi þegar náð botni, en það muni valda aukinni eftirspurn og verðhækkunum á olíu og fleiri hrávörum. Menn eru skemmtilega ósammála um þróun efnahagslífsins næstu misserin.

Commodities_CCI_2009_07_17_chartHér til hliðar má sjá hvernig hrávöruvísitalan CCI  (Continuous Commodity Index) hefur þróast síðustu ár og fram í miðjan júlí s.l. (2009). Þessi þekkta hrávöruvístala er samsett úr 17 hrávörum og á m.a. að geta nýst til átta sig á því hvort verðbreytingar á hrávörum séu "eðlilegar" eða hvort spekúlantar séu að hafa mikil áhrif.

Gríðarlegar hrávöruhækkanir urðu í aðdraganda hrunsins á síðari hluta liðins árs (2008). Þá kom mikið fall, en nú hafa aftur orðið talsverðar hækkanir á mörgum hrávörum. Það skýrist væntanlega helst af vaxandi bjartsýni um að kreppunni sé brátt að ljúka.

oil_dollar_3Reyndar ber að hafa í huga að sveiflur á dollar hafa líka mikil áhrif á hrávöruverð. Hrávörumarkaðurinn notast við bandaríkjadal og lækkandi dollar hefur þau áhrif að hrávara hefur tilhneigingu til að hækka í dollurum - og öfugt.

Allra síðustu vikur hefur dollarinn verið að styrkjast og ef sú þróun heldur áfram gæti það slakað á hækkunum á hrávörumörkuðum. Verðmyndunin þarna er þó flókið samspil miklu fleiri þátta, svo í reynd er ómögulegt að segja til um þróunina. En skoðum hvaða hrávörutegundir hafa hækkað mest frá síðustu áramótum, skv. útreikningum CNBC:

commodities_hottest_2009_9_Heating_oilÍ 10. sæti kom nikkel. Þar var lokaverðið 13.950 dollarar á tonnið, sem er rúmlega 19% hækkun frá áramótum. Síðustu 12 mánuðina hafði verðið á nikkeli sveiflast á bilinu 8.850-25.000 dollarar fyrir tonnið. Hæsta verðið var sem sagt næstum þrefalt á við lægsta verðið á tímabilinu!

Næst kom olía til húshitunar í 9. sætinu. Þar var hækkunin svipuð og hjá nikkelinu eða um 20,5%. Einnig þar var mikil verðsveifla síðustu 12 mánuðina; milli 1.252 og 4.158 dollarar. Lokaverðið 3. júní s.l. var aftur á móti 1.738 dollarar.

commodities_hottest_2009_8_SoybeansSojabaunirnar voru í 8. sætinu með nánast sömu hækkun; 20,6% frá áramótum. Þarna sveiflaðist verðið síðustu 12 mánuðina frá 7,77 dollurum á skeppuna og upp í 16,35 dollara (bandaríska rúmmálseiningin skeppa  eða bushel  jafngildir um 35,24  lítrum). Lokaverðið á soja-skeppunni þann 3. júní s.l. var 11,82 dollarar.

Í 7. sæti var blessað kaffið, sem Orkubloggarinn getur ekki án verið. Lokaverðið var 1,383 dollarar pundið. Það merkir að verðið hækkaði um 23,5% á tímabilinu frá áramótum. Verðsveiflan á 12 mánaða tímabilinu var frá 1,025 dollurum pundið og upp í 1,563 dollara; sem sagt u.þ.b. 50% sveifla.

commodities_hottest_2009_4_orange_juiceHlaupum nú örlítið hraðar yfir sögu. Í 6. sæti kom hrásykur með 26,08% hækkun. Í 5. sæti yfir þær hrávörur sem hækkað hafa mest frá áramótum var silfur, en hækkun þess nam 35,55%. Þarna erum við sem sagt kominn upp um einn flokk, ef svo má segja. Hinar hrávörurnar höfðu hækkað þetta 20-25% en nú erum við komin í meira en 35% hækkun á fyrstu 5 mánuðum ársins.

Í 4. sæti kom svolítið skemmtileg hrávara, sem er ávaxtadjús. Eða réttara sagt appelsínudjús. Hann hækkaði um 36,6% á þessu 6 mánaða tímabili í dollurum talið.

commodities_hottest_2009_3_OilÞá erum við komin að máli málanna. Sem auðvitað er hráolían. Hún er þarna í 3. sæti; hefur hækkað um rúmlega 48% frá áramótum. Á 12 mánaða tímabili sveiflaðist olían milli 33,2 dollara og hinna háfrægu 147,27 dollara fyrir tunnuna. Lokaverðið 3. júní s.l. var 66,12 dollarar.

Bæði þessi 48% hækkun á hráolíu frá áramótum og verðsveiflan yfir 12 mánaða tímabilið er nokkuð mögnuð.  Og eiginlega er svolítið sérkennilegt að olía skuli hafa hækkað svo mikið síðustu mánuðina, á tímum mikils samdráttar í efnahagslífinu. Í dag eru, sem fyrr segir, afar mismunandi skoðanir uppi um það hvernig olíuverðið þróist næstu mánuði og misseri. Í trausti þess að Sádarnir lesi markaðinn rétt er Orkubloggið hallara undir þær skoðanir að verðið hækki til lengri tíma litið. Um skammtímasveiflur er aftur á móti ómögulegt að segja. Bloggið bíður auðvitað afar spennt eftir því hver niðurstaðan verður í þessu æsispennandi fjárhættuspili.

commodities_hottest_2009_2_copperEinungis tvær tegundir hrávara hafa hækkað meira frá áramótum en hráolían . Það eru kopar og bensín. Hækkunin á kopar á umræddu 5 mánaða tímabili nam tæpum 57% og var lokaverðið þann 3. júní s.l. 2.212 dollarar fyrir pundið. Þegar litið er til 12 mánaða tímabilsins sést að koparverðið hefur sveiflast milli 1,255 og 4,08 dollarar pundið.  Sem sagt mikil sveifla þar á ferðinni.

Þá komum við að sjálfum "sigurvegaranum", sem er bensínið. Bensín er sem sagt sú hrávara sem hækkað hefur mest á bandaríska hrávörumarkaðnum frá áramótum. Hækkunin nemur 79%!

commodities_hottest_2009_1_gasolineHafa má í huga að lítil fylgni getur verið milli verðbreytinga á hráolíu og bensíni. Þótt það kannski hljómi undarlega, er þetta staðreynd. Stundum verður verulegt misræmi milli birgðasöfnunar á bensíni annars vegar og olíu hins vegar. Það getur myndast stífla í bensínbransanum þegar mjög hægir á olíuhreinsun og vinnslu á bensíni úr hráolíunni. Þess vegna getur bensín t.a.m. hækkað mikið þó svo efnahagslífið sé í lægð - sem sumum finnst skrýtið. Ástæðan fyrir slíkum bensínhækkunum er sú að olíuframleiðslan skilar sér þá ekki í aukinni bensínframleiðslu - þess í stað fer hráolían öll meira eða minna í birgðageymslur til að hamla gegn verðfalli og þá getur bensínverð hreinlega rokið upp.

VLCC_darknessEin möguleg ástæða þess að bensín hefur verið að hækka meira undanfarið en hráolía, er m.ö.o. að menn séu að hamstra hráolíu en ekki að vinna hana jafnóðum í afurðir. Þetta gæti þýtt að birgðasöfnun á hráolíu sé komin útí vitleysu og olíuverðið muni senn kolfalla. Þarna er óvissan samt alger, sem einmitt gerir olíuspekúlasjónir svo geysilega skemmtilegar! Og minna má á sögur um að víða um heimsins höf liggi nú dularfull risatankskip drekkhlaðin af olíu, sem beðið er með að fari á markaðinn.

Hvað um það. Hækkunin á bensíni á bandaríska hrávörumarkaðnum frá síðustu áramótum nemur sem sagt meira en 79%. Sú þróun er ekki beint til þess fallin að hjálpa bandarískum bifreiðaframleiðendum í viðleitni sinni til að auka bílasölu. Lokaverðið á bensíni 3. júní s.l. var 1,9016 dollarar pr. gallon og verðsveiflan á 12 mánaða tímabili þar á undan var á milli 0.785 og 3,631 dollarar fyrir gallon af bensíni (eitt gallon samsvarar 3,8 lítrum).

oil_Prices_lookingÍ reynd eru svona upptalningar á verðbreytingum tilgangslitlar ef ekki tilgangslausar og segja manni nákvæmlega ekkert um það hvernig verðið muni þróast næstu mánuðina eða misserin. En af einhverjum undarlegum ástæðum hefur fólk oft voða gaman af svona talnaleikjum. Rétt eins og það er skemmtilegt að taka "quiz" á Fésbókinni um það hvaða poppstjörnur menn þekkja... eða hversu flinkur maður er í þeirri list að kyssa. Sem sagt óttalegt bull - en skemmtilegt engu að síður!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband