Landsvirkjun laus úr tröllasal?

I.

Þegar Orkubloggarinn var snáði var einn föstu liðanna á dagskránni svohljóðandi: Alltaf á lokasprettinum þegar ég var á leið heim að Kirkjubæjarklaustri með foreldrum mínum úr kaupstaðnum (Reykjavík) þurfti ég að fá að heyra sömu frásögnina. Söguna um tröllskessuna í Holtsborginni sem fór að heimsækja vinkonu sína sem bjó austur í Orrustuhól. Skessuna sem sat of lengi yfir næturkaffinu hjá hinni ófrýnilegu vinkonu og varð að steini á heimleiðinni þegar fyrstu geislar sólarinnar birtust yfir Öræfajökli.

eldhraun_3Alltaf var þessi saga jafn skemmtileg og spennandi. Það var föst venja þegar komið var austur í Eldhraun og Holtsborgin kom í ljós, að þá minnti ég mömmu á tröllskessurnar og fékk söguna. Það stytti síðustu kílómetrana á grófum og seinförnum malarveginum uns Systrastapi blasti við rétt vestan við Klaustur. Og alltaf leið mér jafn vel að koma heim og vorkenndi vesalings börnunum sem bjuggu í kaupstaðnum!

Á þessari leið áður en komið er að Klaustri var ekið framhjá merkum raforkuslóðum. Vegna þess að bæði lá leiðin þá framhjá afleggjaranum að Svínadal vestan við Eldvatn og svo auðvitað framhjá Hólmi   í Landbroti. Á báðum þessum bæjum átti sér stað stórmerkilegt framtak, sem var þýðingarmikið skref á leið Íslendinga til nútímans og eins konar undanfari í rafvæðingu Íslands.

Þarna austur í núverandi Skaftárhreppi voru í áratugi smíðaðar túrbínur (hverflar) fyrir heimarafstöðvar bænda. Þetta ævintýri byrjaði löngu áður en íslensk stjórnvöld hófu af alvöru að reisa virkjanir. Lengi vel var Elliðaárstöð eina umtalsverða íslenska virkjunin (byggð 1920-21, með aflgetu upp á u.þ.b. 1 MW). Það var svo ekki fyrr en 1937 að Ljósafossstöð kom í gagnið (með tæplega 9 MW framleiðslugetu). Rafmagnið frá báðum þessum virkjunum var fyrst og fremst ætlað Reykvíkingum. Rafvæðingin á landsbyggðinni byggðist aftur á móti á framtaki hugvitsmanna í héraði, sem reistu heimarafstöðvar með skaftfellskum túrbínum víða um land. Það var svo loks á 6. áratugnum að almennileg hreyfing komst á virkjanaframkvæmdir stjórnvalda, þegar Írafossstöð og fleiri virkjanir voru reistar.

Svolitid_rafmagnVið byggingu heimarafstöðvanna fóru fremstir í flokki þeir Bjarni Runólfsson í Hólmi og Svínadalsbræðurnir Eiríkur og Sigurjón Björnssynir. Þetta voru miklir hagleiksmenn og nánast með ólíkindum hversu vel þeir náðu tökum á þeirri verklist að smíða túrbínur og setja upp virkjanir við jafnvel ótrúlega litla bæjarlæki.

Í dag er óneitanlega rólegra yfir þessum tveimur sveitabæjum heldur en var hér á árum áður þegar þetta voru sannkölluð tæknisetur. Svínadalur er kominn í eyði og í Hólmi er líkt og tíminn hafi staðið í stað í áratugi. Enn má þó sjá minjar frá þessum merku tímum bæði í Svínadal og Hólmi.

Svinadalur_jardbor_01Í Svíndal má líka ennþá sjá gamla jarðborinn í litla gilinu ofan við bæinn. Hvar Orkubloggarinn tók meðfylgjandi ljósmynd af bornum fyrir fáeinum dögum. Þessi heimasmíðaði jarðbor þeirra Svínadalsbræðra mun hafa verið notaður til að bora eftir vatni, en minnir mest á olíuborana frá fyrstu kynslóð olíualdarinnar vestur í Bandaríkjunum. Þeir Eiríkur og Sigurjón hefðu eflaust orðið olíubarónar, hefðu þeir fæðst vestur í Texas!

Margar af gömlu heimarafstöðvunum eru ennþá starfandi - aðrar hafa lokið hlutverki sínu. Stærri virkjanir þykja almennt hagkvæmari kostur í dag. Nefna má að þarna eystra er nú á dagskrá virkjun í Hverfisfljóti. Upphaflega var hún hugsuð sem nett rennslisvirkjun upp á örfá MW. En svo var gerð krafa um umhverfismat, sem er ansið kostnaðarsamt fyrir ekki stærri virkjun, og í framhaldinu var ákveðið að virkjunin yrði mun öflugri. Byrjað var að vinna út frá hugmynd um 15 MW virkjun, en á allra síðustu vikum hefur verið til skoðunar ennþá aflmeiri virkjun á vatnsaflinu í Hverfisfljóti. Þarna eru hugsanlega á ferðinni metnaðarfyllstu virkjanaáform einstaklinga á Íslandi. A.m.k. síðan Einar Ben og Fossafélagið Títan var og hét.

 

II.

Menn bíða enn eftir hvaða plön Landsvirkjun hefur vegna Skaftár. Eða eins og einn landeigandi í Skaftártungu orðaði það við mig nýlega: „Ef Landsvirkjun ákveður að virkja þá bara kemur hún og tekur landið sem hún vill af fólki og virkjar. Við fáum engu ráðið". Sennilega ekki óalgengt viðhorf gagnvart þessu mikilvæga fyrirtæki, sem hefur ekki beinlínis náð að starfa í sátt við umhverfi sitt. 

Thorolfur_ungurÞað verður spennandi að sjá hvernig nýr forstjóri mun móta ásýnd Landsvirkjunar. Þegar forstjórastaðan var auglýst um daginn, var Orkubloggarinn reyndar að vona að einhver alflinkasti, heiðarlegasti og mest sjarmerandi stjórnandinn úr verkfræðingahópi Íslands myndi sækja um starfið. Sem auðvitað er Þórólfur Árnason.

Orkubloggarinn minnist þess þegar Þórólfur - þá kornungur verkfræðinemi- dvaldi um skeið austur á Klaustri og var þar að skoða gömlu vatnsaflsvirkjanirnar sem hugvitsmenn í héraðinu smíðuðu á fyrstu áratugum 20. aldar. Þó svo skemmtilegast væri að sparka fótbolta með Þórólfi úti á túni (hann var ofboðslega flinkur með boltann) var samt líka gaman að lesa það sem hann skrifaði um muninn á Francistúrbínum, Kaplantúrbínum og Peltontúrbínum. Sem Skaftfellingarnir smíðuðu löngu áður en íslenska ríkið fór að huga að virkjun vatnsaflsins.

Í huga Orkubloggarans lauk þessum þætti eldhuganna í virkjanasögu Íslands að sumu leyti nú í sumar. Þegar minn gamli nágranni Jón Björnsson úr Svínadal lést í hárri elli, en hann bjó alla mína barnæsku ásamt Ingibjörgu konu sinni örstutt vestan við okkur; hinum megin við túnið. Þarna átti ég lengi heima undir hlíðinni á Kirkjubæjarklaustri - þar sem ilmurinn frá birkiskóginum er hvað sterkastur og hamingjusamur tjaldurinn vakti mann um bjartar sumarnætur með gleðiköllum sínum í ánamaðkaveislu á nýslegnu túni.

Klausturvirkjun_inntakslonJón var einmitt bróðir áðurnefndra Eiríks og Sigurjóns Björnssona úr Svínadal og var um áratugaskeið frystihússtjóri og umsjónarmaður heimarafstöðvarinnar á Klaustri. Vatnið í rafstöðina er tekið ofan af heiðinni úr Systravatni, en lítið inntakslón er þar við vatnið. Rörið liggur svo frá inntakslóninu og niður hlíðina á þeim slóðum sem göngustígurinn sveigist milli trjánna upp á fjallsbrúnina.

Fallhæðin er tæpir 80 metrar og lengd rörsins mun vera um 170 metrar. Þegar ég var lítill var skúrinn þar sem rörið kemur upp hjá inntakinu stundum ólæstur (hengilásinn brotinn). Þá freistaðist maður til að kíkja inn og horfa í sogandi hringiðuna, þar sem vatnið svolgraðast ofan í rörið. Og einstaka sinnum jafnvel feta sig eftir örmjórri steyptri bríkinni í kringum hringiðuna. Það var í senn dáleiðandi og ógnvekjandi.  "Hvað ef maður dettur!" Svo var hlaupið að sjálfu Systravatni og sullað þar í endalausri blíðu bernskuáranna.

Systrafoss_2Margir ferðamenn ganga á sumri hverju eftir stígnum í gegnum birkiskóginn og upp á fjallsbrúnina á þeim slóðum sem rörið liggur niður hlíðina. Þarna má í dag sjá glitta í hálfs metra breitt ryðlitt rörið undir mosanum efst í brekkunni ef vel er gáð. Þessar virkjunarframkvæmdir fóru fram á stríðsárunum - í upphafi 5. áratugarins. Mannvirkin eru sem sagt orðin hátt í sjö áratuga gömul. Sjálf túrbínan var smíðuð af Sigurjóni, bróður Jóns, og hefur snúist allan þennan tíma nánast viðhaldsfrí. Stöðin getur framleitt um 110 kW, en túrbínan mun vera ein sú stærsta sem smíðuð hefur verið á Íslandi. Sem sagt mikill merkisgripur.

Sjálft stöðvarhúsið liggur í gömlu húsaþyrpingunni sem sjá má við malarplanið vestast á Kirkjubæjarklaustri. Þar var jafnan mikill hávaði þegar maður leit við hjá Jóni og smurolíuangan í loftinu. Þaðan fengum við alla tíð rafmagnið heima hjá okkur. Jón var með litla afstúkaða skrifstofuaðstöðu inni í stöðvarhúsinu og ekki man ég betur en að þar hafi hann oft lumað á góðgæti handa okkur krökkunum. Og ég minnist margra ljúfra stunda sem smápatti heima hjá þeim Jóni og Imbu, hvar ég var svo oft í saltfiski í hádeginu á laugardögum og horfði á Stundina okkar á sunnudögunum. Alltaf notalegt að rifja upp þessar hlýju minningar.

 

III.

En aftur að Landsvirkjun. Orkubloggarinn hefur ekki hugmynd um hvort Þórólfur Árnason hafði áhuga á starfi forstjóra Landsvirkjunar. Enda var ekki gefið upp hverjir umsækjendurnir voru. En nú er alla vega búið að ganga frá ráðningu Harðar Arnarsonar  í starfið. Hann er líklega kunnastur fyrir það að hafa verið forstjóri Marel og nú síðast önnum kafinn við að bjarga því sem bjargað varð hjá sukkfyrirtækinu Sjóvá.

Holmur_taekiRifja má upp að í árslok 2006 varaði Hörður við peningastefnu Seðlabankans og stjórnvalda, sem hann sagði misheppnaða. Og þarna í desemberlok 2006 hafði Hörður einnig á orði, að íslenskir stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök þurfi að taka upp málefnalega umræðu um mögulega aðild Íslendinga að ESB og upptöku evru. Þessar varfærnu ábendingar Harðar um að ekki væri allt í stakasta lagi í íslensku efnahagslífi, í hinu alræmda áramótablaði Markaðarins við árslok 2006, eru athyglisverðar í ljósi þess sem nú hefur gerst. Orð hans voru óneitanlega nokkuð á skjön við hástemmdar yfirlýsingar og hlægilegt froðusnakk nánast allra annarra viðmælenda blaðsins um styrkar stoðir íslensks efnahagslífs og einstaka meðfædda ákvarðanasnilld Íslendinga. Vonandi mun Hörður áfram lesa glöggt í framtíðina og ná að stýra Landsvirkjun í farsæla höfn.

Systravatn_hvonnÞað sem er sérstaklega athyglisvert í sambandi við ráðningu Harðar sem forstjóra Landsvirkjunar, er að hann vann með Framtíðarlandinu. Sem fær suma virkjunarsinna til að sjá rautt. Þetta hlýtur að boða nokkuð afgerandi tímamót í sögu Landsvirkjunar. Að þar komi forstjóri, sem tengist þeim sem harðast hafa gagnrýnt Kárahnjúkavirkjun og ýmislegt annað í starfsemi Landsvirkjunar. T.d. hvernig fyrirtækið lét markaðssetja Ísland sem Álparadís með orkuútsölu, eins og lýst er í bók Andra Snæs.

Miðað við þann farsæla rekstur sem oft er sagður hafa einkennt flestar virkjanir Landsvirkjunar gegnum tíðina, er fjárhagsstaða fyrirtækisins í dag heldur nöturleg. Nú er svo komið að skuldir Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar gætu komið fyrirtækinu í veruleg vandræði. Reyndar ætti ríkið að hætta þessari vitleysu að gefa stóriðju afslátt  á grundvelli ríkisábyrgðar á virkjanaframkvæmdir. Ef raforkuframleiðsla fyrir stóriðju getur ekki staðið undir sér án slíkrar ábyrgðar, þá er eitthvað athugavert við bissness-módelið. Það er ekkert flóknara.

Hordur_Arnarson_4En hvað sem því líður, þá boðar aðkoma Harðar Arnarsonar vonandi bjarta tíma hjá Landsvirkjun. Og að fyrirtækið verði til framtíðar í ríkara mæli rekið í takt við bæði samfélagið og eðlileg viðskiptasjónarmið. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld líka að hætta með ríkisábyrgðina og láta Landsvirkjun að standa á eigin fótum.

 


Frjálsa olían á niðurleið

Þegar rætt er um olíuuppsprettur heimsins er þeim gjarnan skipt gróflega í tvennt: Um 40% heimsframleiðslunnar kemur frá OPEC-ríkjunum og um 60% frá ríkjunum utan OPEC. Þetta hlutfall hefur haldist furðufast síðustu 20-25 árin eða svo.

OPEC_Oil_BarrelsInnan OPEC  eru nokkrir af stærstu olíuframleiðendum heims. Eins og t.d. Alsír, Angóla, Íran, Írak, Katar, Kuwait, Líbýa, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Saudi Arabía og Venesúela. Sannarlega glæsilegur hópur.

Ríkin utan OPEC, sem lengi vel hafa framleitt u.þ.b. 60% olíunnar, eru afar mislit hjörð. En þarna eru t.a.m. allir olíuframleiðendurnir á Vesturlöndum; t.d. Bandaríkin, Kanada, Mexíkó, Noregur og Bretland. Og líka Kína og Brasilía. Og auðvitað Rússland!

Þegar aftur á móti er litið til þess hvaða ríki eru mestu olíuinnflytjendurnir annars vegar og olíuútflytjendurnir hins vegar, kemur eftirfarandi í ljós: Þeir sem flytja inn olíu eru nær öll OECD-ríkin, ásamt Kína og Indlandi. Og þeir sem eru helstu olíuútflytjendurnir eru OPEC-ríkin, auk vestrænu olíuveldanna Noregs og Mexíkó. Og auðvitað Rússland!

OPEC_russia-g8Það má því segja að veröld olíunnar hvíli á tveimur stoðum. Önnur stoðin er OPEC. Hin er Rússland. Þetta eru stóru aðilarnir í framleiðslu OG útflutningi á olíu. Okkur hinum er þar af leiðandi afar mikilvægt að fá olíu frá þessum tveimur stoðum - helst á sem bestu verði.

Hlutfall OPEC í olíuframleiðslunni hefur í grófum dráttum haldist lítið breytt síðustu tvo áratugi. OPEC-ríkin leitast við að stýra framboðinu, meðan ríkin utan OPEC aðhyllast aftur á móti (flest) frjálsan markaðsbúskap. Sökum þess að olíuverð hefur nánast alltaf haldist mun hærra en sem nemur kostnaði í olíuvinnslu, hafa olíufyrirtækin á Vesturlöndum lengst af reynt að framleiða eins mikið af olíu og mögulegt er. OPEC hefur aftur á móti verið í því hlutverki að reyna að bremsa framboðið af, til að fá sem allra hæst verð fyrir olíuna sína.

Það er óneitanlega mjög athyglisvert að skoða valdabaráttuna í olíuiðnaðinum. Þar virðist lengi vel hafa ríkt ákveðið valdajafnvægi. Þar sem OPEC hefur "leyft" Vesturlöndum og öðrum ríkjum utan OPEC að vera með u.þ.b. 60% af olíuframleiðslunni. Þetta jafnvægi hefur um leið komið í veg fyrir of mikið kverkatak OPEC á olíumörkuðunum. Þar með hafa OPEC-ríkin líka að mestu fengið að vera í friði fyrir hernaðarmaskínu Vesturlanda. Allt þar til Bandaríkin réðust á Írak.

En allt er breytingum háð. Miðað við þá miklu aukningu sem orðið hefur í eftirspurn eftir olíu síðustu tvo áratugina, er í reynd með ólíkindum að ríkin utan OPEC hafi náð að geta framleitt 60% olíunnar. Ástæður þess að þau náðu að auka framleiðslu sína, jafnframt aukinni eftirspurn, eru augljóslega ekki hinar hnignandi olíulindir í Alaska eða Norðursjó. Nei - aukninguna má fyrst og fremst þakka miklum vexti í rússneska olíuiðnaðinum!

Russia_geopoliticsHlutfall Rússa í olíuframleiðslu ríkjanna utan OPEC er svo sannarlega ekkert smáræði. Um ¼ allrar olíunnar utan OPEC kemur frá Rússunum.

En nú eru uppi vísbendingar um að olíuframleiðsla Rússa hafi náð toppi. Og þar að auki er Rússland ekki beinlínis á sömu nótum eins og almennt gerist um olíuiðnaðinn í OECD. Öllum helstu olíufyrirtækjunum í Rússlandi er stjórnað af ríkisvaldinu og rússnesku olíufélögin eiga í reynd miklu meira sameiginlegt með ríkisolíufélögunum í Arabíu, Venesúela og öðrum ríkjum innan OPEC, heldur en með einkareknu vestrænu olíufélögunum.

Þetta er farið að valda Bandaríkjamönnum, Evrópubúum og öðrum OECD-ríkjum nokkrum ugg. Olíuframleiðsla Vesturlanda er að dragast hratt saman og jafnvel þó svo Rússarnir nái að kreista upp ennþá meiri olíu, er útlit fyrir að ríkin utan OPEC nái samt ekki að viðhalda hlutfalli sínu í olíuframleiðslu heimsins. Flest þessi sömu ríki eru einmitt líka mestu olíuinnflytjendurnir, svo þetta er ekkert gamanmál. Þar að auki eru Rússar ekkert sérstaklega traustir bandamenn og gætu einn daginn verið komnir inn í OPEC.

Í stað þess að tala um OPEC-ríki annars vegar og ríki utan OPEC hins vegar, er hugsanlega skynsamlegast að skipta olíuiðnaðinum í ófrjálsa olíu og frjálsa olíu. Frjáls olía er þá olíuframleiðsla utan OPEC og utan Rússlands. Sé þessi póll tekin í hæðina blasir við sú staðreynd að hin frjálsa olíuframleiðsla hefur minnkað um 5% á örfáum árum. Og er nú innan við 45% af heildarframleiðslunni.

Oil_Non-OPEC-ex-Russia_2004-2009Vesturlönd (utan Rússlands) virðast m.ö.o. nú í fyrsta sinn í langan tíma eiga í erfiðleikum með að halda hlutfalli sínu í heimsframleiðslunni. Síðustu fimm árin hefur dagsframleiðsla þeirra dregist saman um heilar 2 milljón tunnur. Þetta segir eiginlega allt sem segja þarf. Þrátt fyrir vaxandi eftirspurn eftir olíu hefur framleiðsla á frjálsri olíu minnkað. Fyrir vikið eru OPEC og Rússland nú með meirihlutann í olíuiðnaði veraldarinnar. Þetta er líklega ein alvarlegasta ógnunin sem Vesturlönd standa frammi fyrir. Ekki aðeins efnahagslega, heldur er líka næsta víst að þessi þróun verður ekki beinlínis til að efla heimsfriðinn.

Eini ljósi punkturinn er sá að nú eru komnar fram vísbendingar um að olíuþörf Vesturlanda kunni að hafa náð hámarki. Það er fyrst og fremst aukinn áhugi á sparneytnari bílum sem því veldur.

Oil_future-production-2Um þetta er þó enn algjör óvissa. IEA og margir fleiri spá þvert á móti aukinni olíueftirspurn frá Vesturlöndum a.m.k. næstu 20 árin. En EF notkun Vesturlanda á olíu nær að dragast saman - jafn hratt eins og framleiðsla á frjálsri olíu minnkar - skapast kannski ekki stórvandamál. Ef aftur á móti myndast gat - ef olíuframleiðsla Vesturlanda mun áfram dragast hraðar saman en sem nemur olíunotkun þeirra - þá er voðinn vís.

Þau eru mörg EFin. Það er einmitt þess vegna sem stjórnvöld víðsvegar um Vesturlönd leita nú logandi ljósi að nýjum möguleikum til að knýja samgöngukerfið. Hinn hraði samdráttur í olíuframleiðslu Vesturlanda mun ekki aðeins hafa mikil áhrif í heimspólitíkinni, heldur verða einhver allra mikilvægasti hvatinn í þróun atvinnulífs, vísinda og tækni.

Varla er ofsagt að í reynd hafi nýlega orðið vatnaskil í orkumálum veraldarinnar. Þetta eiga Íslendingar að nýta sér. Og leggja höfuðáherslu á að að mennta ungt fólk um orkumál. Það væri farsæl leið til að efla íslenskt atvinnulíf og skapa hér ný tækifæri til framtíðar.

Háskólarnir hérna ættu að einbeita sér að orkugeiranum. Og að sama skapi eiga stjórnvöld að setja olíuleit á oddinn og hvetja fyrirtæki sem eru að þróa nýja orkutækni til að koma til Íslands - með því að skapa þeim hagkvæmt starfsumhverfi hér. Finnar veðjuðu á farsímatæknina. Við ættum að veðja á orkutæknina.

 


Mikilvægi tölfræðinnar

Ross Beaty og Magma Energy virðast í góðum málum. Voru að fá styrk uppá 10 milljónir dollar í jarðhitaverkefni vestur í Bandaríkjunum.

Geothermal_SodaUmrætt framlag kom úr bandaríska efnahagspakkanum  (sbr. American Recovery and Reinvestment Act). Upphæðin sem þarna rann til Magma Energy fer til tveggja jarðhitavirkjana Magma í Nevada; Soda Lake og McCoy. Fjárhæðin er sögð nema u.þ.b. helmingi af þeim kostnaði sem til stendur að leggja í þessi verkefni næstu tvö árin. Sem sagt umtalsvert.

Magma var ekki eina jarðhitafyrirtækið sem fékk slíkan glaðning nú rétt fyrir mánaðarmótin síðustu. Alls var þá veitt 338 milljónum USD í jarðhitastyrki, en verkefnin  eiga það flest sameiginlegt að stuðla að nýrri eða bættri jarðhitatækni. Þessum jarðhitaverkefnum er ekki aðeins ætlað að auka afköst jarðhitavirkjana þar vestra, finna betri tækni eða leita nýrra laghitasvæða, heldur einnig skapa þúsundir starfa og þar með draga úr áhrifum kreppunnar.

Hér heima virðast AGS og ríkisstjórnin aftur á móti ætla að vinna gegn kreppunni með því að dregið verði úr öllum framkvæmdum af þessu tagi. Og Alþingi ætlar meira að segja að auka skattlagningu á fyrirtæki; þ.m.t. fyrirtæki sem hyggja á ný verkefni eða vinna í þróun nýrra tæknilausna. Nánast eins og tilgangurinn sé beinlínis að vernda hið gamla og rotna atvinnulíf og bregða fæti fyrir snjöll sprotafyrirtæki.

Í Bandaríkjunum skynja stjórnvöld vel að besta leiðin út úr efnahagsógöngunum er að leita nýrra möguleika. Ekki síst með því að styðja við þróun nýrrar tækni og gefa nýjum hugmyndum tækifæri og svigrúm til að þroskast og dafna.

Mögulegt er að ofangreind stefna Bandaríkjastjórnar eigi eftir að auka hlutfall jarðhitans umtalsvert í orkugeiranum þar vestra. T.a.m. er ekki óalgengt að olíubrunnar hafa skilað margfalt meiru af heitu vatni, heldur en olíu. Hingað til hafa menn hvorki haft áhuga né tæknilega getu til að nýta þetta mikla jarðhitavatn. En núna var einmitt m.a. verið að styrkja rannsóknir á möguleikum þess að nýta þennan jarðvarma úr þúsundum olíubrunna víðsvegar um Bandaríkin. Einnig fengu mörg lághitaverkefni styrki. Það sem Magma fékk mun þó hvort tveggja vera vegna hefðbundnari háhitaverkefna. Kannski munu þeir sækja þar þekkingu til HS Orku?

DataMarket_logoLoks er athyglisvert að um 25 milljónir dollara fóru til verkefna sem horfa í að afla betri tölfræði  um jarðhita í Bandaríkjunum. Orkubloggaranum hefur einmitt þótt það eftirtektarvert hversu léleg eða óaðgengileg tölfræðin er, þegar kemur að endurnýjanlegri orku. Bæði upplýsingaskrifstofa bandaríska orkumálaráðuneytisins (EIA), BP og fleiri bjóða upp gríðarlega ítarleg og fróðleg gögn um jarðefnaeldsneytisiðnaðinn. Alveg hreint frábær gögn - þó þau séu reyndar stundum heldur klúðurslega fram sett (kannski EIA og BP ættu að hóa í hann Hjalla hjá DataMarket til að gera þessa upplýsingavefi aðeins meira djúsí og til ennþá meira gagns).

IRENA__Logo_largeEn þegar komið er út fyrir olíu, gas, kol... og kjarnorku, er upplýsingaflæðið vægast sagt heldur brotakennt og óáreiðanlegt. Úr þessu þarf að bæta. Kannski verður það eitt af mikilvægustu fyrstu verkefnum IRENA. Nýju alþjóðastofnunarinnar  um endurnýjanlega orku, sem verður staðsett í sólbrenndri framtíðarborginni Masdar í furstadæminu Abu Dhabi. Sú tölfræðivinna ætti auðvitað ekki að takmarkast við jarðhitann. Heldur verða besti og aðgengilegasti gagnagrunnur heims um endurnýjanlega orku. Góð tölfræði um endurnýjanlega orkugeirann er tvímælalaust mikilvæg forsenda þess að flýta fyrir tækniþróun og aukinni hagkvæmni í þessari hratt vaxandi atvinnustarfsemi, sem á að verða einn mikilvægasti lykillinn að því að draga úr kolefnislosun í heiminum.

steve-chu_2Þetta skilur hann Steven Chu, bandaríski orkumálaráðherrann, sem er hugmyndafræðingurinn að baki orkustefnu Obama-stjórnarinnar. Vonandi munu fleiri sem standa að baki fjármagni sem veitt er til þróunar og nýsköpunar komast á sömu skoðun. Orkubloggarinn trúir á mátt tölfræðinnar. Ekki síst þegar hún er aðgengileg og öllum opin. Free the data!


Er Miðjarðarhafsævintýrðið að rætast?

Nú er meira en ár liðið frá því Orkubloggarinn viðraði fyrst hugmyndir sínar um eitthvert áhugaverðasta tækifærið í endurnýjanlegri orku. Sem er iðnaðurinn að baki sólarspeglaorkuverunum.

CSP_Spiegel_1Sólarspeglaorkuver byggjast á þeirri tækni að spegla sólarljósinu í brennipunkt og nýta þannig ofsalegan hitann til að umbreyta vatni í gufuafl og framleiða rafmagn. Á ensku er þetta nefnt Consentrated Solar Power eða CSP.

CSP hefur það umfram sólarsellutæknina (PV) að vera miklu mun einfaldari tækni og getur þar að auki nýst til að framleiða rafmagn eftir sólarlag. Byrjað var að nýta sólarspeglatæknina í Bandaríkjunum upp úr 1980 í kjölfar þess að olíuverð rauk upp úr öllu valdi. Þegar til kom lækkaði olía og gas fljótlega aftur og þar með varð ljóst að CSP væri ennþá alltof dýr raforkuframleiðsla.

Þegar olíuverð fór að hækka umtalsvert á ný - upp úr aldamótunum - komust hugmyndir um CSP aftur á dagskrá. Og nú sáu fyrirtæki möguleika í að hefja fjöldaframleiðslu á speglunum sem notaðir eru í sólarspeglaorkuverunum. Það varð til þess að kostnaðurinn fór hratt lækkandi. Einnig voru nú komin miklu betri hitaþolin rör, en í þeim er olía sem sólargeislunum er beint að til að hita hana. CSP-tækni dagsins í dag er þar af leiðandi komin miklu lengra en var í árdaga tækninnar fyrir um aldarfjórðungi.

CSP_Spiegel_4Enn sem komið er, eru einungis tvö einkarekin sólarspeglaver starfandi, en nokkur slík CSP-orkuver eru í byggingu og fjöldamörg á teikniborðinu. Einkum á Spáni og í Bandaríkjunum, en einnig er verið að byrja á a.m.k. tveimur slíkum sólarspeglaorkuverum í Miðjarðarhafslöndum utan Evrópu.

Það eru einkum stórar spænskar iðnaðarsamsteypur sem hafa ráðist í að byggja þessi sérkennilegu raforkuver. Eitt ríkasta olíuríki veraldar - furstadæmið Abu Dhabi - hefur einnig sýnt þessum fjárfestingakosti mikinn áhuga. Og nú eru horfur á að mikill gangur sé að komast í þessum merkilega iðnaði og vöxturinn þar verði jafnvel örari en í nokkurri annarri tegund orkunýtingar.

CSP_Spiegel_5Í  júlí s.l. (2009) var stigið nýtt og mikilvægt skref í þá átt sem Orkubloggið hefur verið að tala fyrir. Að ESB taki höndum saman við önnur ríki kringum Miðjarðarhafið, í því skyni að byggja upp umfangsmikla raforkuframleiðslu með neti af nýjum CSP-sólarorkuverum. Já - í sumar gerðist það nefnilega að nokkur af öflugustu fyrirtækum Evrópu komu saman og ýttu af stokkunum áætlun um að innan fjörutíu ára muni keðja af sólarspeglaorkuverum frá Marokkó og alla leið austur til Saudi Arabíu framleiða rafmagn, sem muni mæta 15% af allri raforkuþörf ESB.

Þetta yrði sannkallað risskref í að breyta orkumynstrinu í Evrópu. Og Afríkulöndin og önnur ríki utan Evrópu sem verða með í þessum ljúfa sólarleik, munu að sjálfsögðu einnig að njóta góðs af. Raforkan frá CSP-verunum verður nefnilega líka notuð til að framleiða ferskvatn úr sjó (desalination). Ferskvatnið verður bæði nýtt sem drykkjarvatn og notað í áveitur - og svo vill til að umrædd lönd búa einmitt mörg við umtalsverðan skort á vatn. Svo verður vatnið auðvitað líka notað til að kæla og hreinsa búnaðinn í CSP-orkuverunum og er grunnur að gufuaflinu sem framleitt er í þessum gljáandi og glæsilegu raforkuverum.

CSP_Spiegel_11_Med_RadiationVegna örrar fólksfjölgunar í ríkjum N-Afríku og þar austur af og rangsælis kringum Miðjarðarhaf, þurfa þessi lönd nauðsynlega að huga að möguleikum til meiri matvælaframleiðslu og tryggja sér nægt vatn. Einmitt þess vegna ætti þeim að þykja CSP áhugaverður kostur, enda sólgeislun óvíða sterkari en einmitt í þessum löndum.

Þetta yrði reyndar ekki aðeins mikilvægt efnahaglegt skref fyrir bæði ESB og N-Afríku, heldur til þess fallið að færa þungamiðju Evrópu mun sunnar en nú er. Verkefnið hefur verið nefnt Desertec  og hefur fram til þessa aðallega verið áhugamál nokkurra ofurlítið sérviturra evrópskra vísindamanna - ekki síst innan þýsku Flug- og geimferðarstofnunarinnar (Deutsches Zentrum für Luft- und Raumfahrt.). Sbr. t.d. þetta ágrip af athugunum manna þar á bæ.

Nú í sumar gerðist það svo að nokkur fyrirtæki ákváðu að ganga til liðs við Desertec. Og það ekki smærri kompaní en Siemens, orkufyrirtækin E ON og RWE, sænsk-svissneski tæknirisinn ABB, Deutsche Bank og þýska Munich Re Group (Münchener Rück).

MunchenRe_Münchener_Rück_logoTekið skal fram að Munich Re  er ekki togari gerður út frá Reykjavík, heldur einfaldlega stærsta endurtryggingafyrirtæki veraldar. Þarna í hópnum eru sem sagt á ferðinni nokkur af öflugustu orku-, tækni- og fjármálafyrirtækjum Evrópu. Það er reyndar sérstaklega athyglisvert að fjármálarisinn Munich Re veðjar þessa dagana ekki aðeins á sólarorku sem helstu framtíðarlausnina í orkugeiranum. Þessir öflugu og áhættufælnu tölfræði-ljúflingar hafa nefnilega einnig mikla trú á jarðvarmanum. Mjög athyglisvert fyrir Íslendinga. Þarna gæti kannski verið kominn samstarfsaðili að endurvöktum útrásarhugmyndum í íslenska orkugeiranum. En það er önnur saga.

CSP_Spiegel_3_NevadaÞað eru ekki einungis evrópsk fyrirtæki  sem hrífast af Desertec. Altalað er í CSP-bransanum að bæði þýsk stjórnvöld og framkvæmdastjórn ESB styðji Desertec-áætlunina af heilum hug - þó svo engin slík opinber stefna sé reyndar enn fyrir hendi. Hvað sem því líður hyggjast áðurnefnd fyrirtæki á næstu áratugum fjármagna fjölda CSP-orkuvera og rafmagnskapla milli Afríku og S-Evrópu. Horft er til þess að þetta verði fjárfesting upp á samtals 400 milljarða evra, skili 100 þúsund MW í uppsettu afli (100 GW) og a.m.k. tuttugu stórum rafmagnsköplum eftir Miðjarðarhafinu og skapi um leið tvær milljónir nýrra starfa.

Við fyrstu sýn kann sumum að þykja nokkuð dýrt að hver þúsund MW af uppsettu afli í CSP kosti 4 milljarða evra. En hafa ber í huga að innifalið í kostnaðartölunni er allur nauðsynlegur tengibúnaður og þ.m.t. einir tuttugu rafmagnskaplar milli Evrópu og Afríku. Þannig að kannski er þetta barrrasta mjög bærilegt verð.

CSP_Spiegel_12_energy-linkedReyndar er erfitt að gera sér grein fyrir hagkvæmninni nema vita hversu stór hluti fjárhæðarinnar fer í flutningskerfið. Orkubloggaranum þykir jafnvel líklegt að hjá Desertec hafi menn vanmetið kostnaðinn - eða byggja áætlunina á hressilega bjartsýnni spá um miklar tækniframfarir og kostnaðarlækkanir í bæði CSP og rafköplum.

Hjá Siemens fullyrða menn reyndar að nýjasta háspennutæknin þeirra muni tryggja það að raforkutapið á leiðinni eftir botni Miðjarðarhafsins verði miklu minna en nú þekkist. Menn hjá Landsvirkjun ættu kannski að taka upp símtólið og bjalla í Siemens? Gleymum því ekki að á kortum Desertec er Ísland alls ekki gleymt og beinlínis gert ráð fyrir að hluti af grænni raforku meginlands Evrópu muni í framtíðinni ekki aðeins koma frá vindinum og sólinni í Afríku og Arabíu heldur líka frá grænum orkulindum Íslands. Og að þar verði ekki aðeins um að ræða raforku frá íslenskum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum, heldur einnig frá vindrafstöðvum. Já - kannski er tímabært að iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun fari að huga að byggingu risastórra vindrafstöðva við strendur Íslands! Og vegna stjórnmálaaðstæðna væri bersýnilega einfaldast fyrir Munich Re og félaga að byrja á því að setja upp tengingu við Ísland.

CSP_Spiegel_9_AfricaÁætlunin gerir ráð fyrir að fyrstu CSP-orkuverin í Desertec-áætluninni rísi við strendur Miðjarðarhafsríkjanna Afríkumegin. Vegna stjórnmálaástands horfa menn til þess að byrjað verði í Marokkó og Túnis, en einnig í löndum eins og Jórdaníu og Tyrklandi. Síðan muni verkefnið færa sig til annarra ríkja eins og t.d. Alsír og jafnframt innar í Sahara-eyðimörkina, þar sem sólgeislunin er hvað mest og nánast alltaf heiðskýrt. Þar er eðlilega lítil landnotkun nú um stundir og því endalausar víðáttur til að reisa sólarspeglaverin. Menn hafa reyndar reiknað það út, að einungis þurfi að nota 0,3% af Sahara til að fullnægja allri raforkuþörf meginlands Evrópu. Tölfræði gerir hlutina stundum svo skemmtilega einfalda. 

CSP_abengoa-troughJá - það virðist hreinlega sem spá Orkubloggsins um bjarta framtíð CSP við Miðjarðarhafið sé að rætast. Síðast í gær, 30. október 2009, var gengið frá stofnun sérstaks hlutafélags sem nefnist D II  og hyggst koma hugmyndum Desertec í framkvæmd. Þarna var á ferðinni sami fyrirtækjahópurinn og sagt var frá hér að ofan, en sá góði hópur hefur þó eflst umtalsvert frá því í sumar. Auk áðurnefndra Siemens, E ON, RWE, ABB, Deutsche Bank og Münchener Rück, hafa eftirfarandi ljúflingar nú bæst í hópinn: Sólararmur spænsku iðnaðarsamsteypunnar Abengoa, þýski bankinn HSH Nordbank, þýska sólarspeglafyrirtækið MAN Solar Millennium, alsírska matvælafyrirtækið Cevital, þýski hátæknispeglaframleiðandinn Schott og síðast en ekki síst þýski verkfræðirisinn M+W Zander.

Það er sem sagt talsvert mikið að gerast þessa dagana í kringum Desertec. Eiginlega barrrasta hægt að segja, að björtustu vonir Orkubloggarans og annarra talsmanna CSP séu að ganga eftir. Ef einhver lesandi Orkubloggsins vill rifja upp hvernig þessi tækni virkar í hnotskurn, má t.d. vísa á þessa færslu  bloggsins frá því sumarið 2008.

sahara-desert_sunEnn er auðvitað of snemmt að fullyrða hvort þessum hugmyndum Desertec verður raunverulega komið í framkvæmd. En viljinn fer a.m.k. vaxandi; bæði hjá alvöru fyrirtækjum og hjá stjórnvöldum. Með aukinni fjöldaframleiðslu á parabóluspeglum hefur kostnaðurinn á þessari rafmagnsframleiðslu farið lækkandi og nú binda menn vonir við að brátt verði búið að þróa nýjan vökva fyrir móttökurörin, sem verði miklu hagkvæmari en olían sem notuð er í rörin í dag. Þar með verði þetta einfaldlega ekki aðeins umhverfisvæn heldur einnig afar hagkvæm raforkuframleiðsla. CSP gæti átt bjarta framtíð í auðnum Norður-Afríku og Arabíu. En það er ennþá langt í land.

 


Drekinn II: Draumurinn lifir

Iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun eru sögð vera á fullu að undirbúa næsta leik á Drekasvæðinu.

DREKASVAEDID_JARDFRAEDISá leikur á reyndar að vera með svolítið öðruvísi fyrirkomulagi en hinn fyrsti. Samkvæmt fréttinni munu nú verða 5 leyfi í boði og umsækjendur geta valið hvaða reit sem er innan Drekans. Að öðru leyti munu skilmálar eiga að vera þeir sömu sem fyrr, þ.e. engar breytingar á reglum um vinnslugjald og skattlagningu.

Ráðgert mun vera að þessi framhaldsopnun Drekasvæðisins verði tilkynnt fljótlega eftir áramót. Og áhugasamir geti skilað inn umsóknum sínum á sjö mánaða tímabilið, sem verði 15. febrúar til 15. sept.

Hugsunin með því að bjóða alla reiti er væntanlega sú að það skapi meiri áhugi. Eins og of fáir reitir hafi verið ástæðan fyrir litilli þátttöku í fyrsta útboðinu! Orkubloggið ætlar að vera samkvæmt sjálfu sér. Og benda á að það eru talsverðar líkur á að áhuginn verði sáralítill. Enn er óvenjumikil óvissa á olíumarkaðnum, lánsfjárkreppan er ennþá við líði og áhuginn á nýjum áhættusömum olíusvæðum því takmarkaður.

Vanco_WorldEnn er þó kannski von um að Statoil láti til leiðast. Ólíklegt er að bresku eða bandarísku risafélögin sýni Drekanum áhuga í svona árferði. Og því miður jafnvel enn síður reynsluboltar í djúpvinnslu eins og Anadarko Petroleum eða Vanco Energy.

Anadarko er með gríðarlega reynslu á djúpi Mexíkóflóans og þau hjá Vanco hafa sýnt afburða árangur í djúpvinnslu utan við strendur V-Afríku. Það eru svona jaxlar, sem þurfa að koma á Drekasvæðið til að almennilega verði staðið að leitinni. Eini gallinn við bæði þessi félög er fremur lítil reynsla þeirra af basaltsvæðum. Þ.a. líklega væri heppilegast ef þau væri í samstarfi við t.d. Statoil eða ítalska Eni

Þegar olíuútboðið á Drekasvæðinu fór fram fyrr á þessu ári furðaði Orkubloggarinn sig á því hversu fáar efasemdarraddir heyrðust. Bloggarinn var líkt og hrópandi í eyðimörkinni í neikvæðni sinni gagnvart tímasetningu útboðsins. En nú segjast fleiri hafa varað við. Síðla í september s.l. birtist frétt á vef Viðskiptablaðsins, þar sem Ragnar Þórisson hjá Boreas Capital  gagnrýndi harðlega hvernig íslensk stjórnvöld hafa staðið að málum vegna Drekasvæðisins. Það er vart ofsagt að Ragnar telji að um hreint fúsk hafi verið að ræða:

Ragnar_Boreas_Capital"Að sögn Ragnars Þórissonar, vogunarsjóðsstjóra hjá Boreas Capital, er með ólíkindum að stjórnvöld skuli ekki vera búin að láta framkvæma svokallaðar þrívíddar rannsóknir (3D Seismic) á Drekasvæðinu en þessi nýja tækni gefur mun nákvæmari mynd af magni af olíu og gasi sem þarna er sem og dýpt. ,,Það er einnig alveg með ólíkindum að orkumálaráðherra okkar skuli ekki vera búinn að ráða olíumálaráðgjafa með áratugareynslu af þessum málum inn í ráðuneytið," sagði Ragnar... Ragnar segir að íslensk stjórnvöld séu að gera stórkostleg mistök þar sem verið er að fara fram á 59% skatt og enga kostnaðarþátttöku íslenska ríkisins."

Boreas_Capital_logoOg áfram heldur Ragnar: ,,Ísland vill bara háan skatt og enga þátttöku í kostnaði og þetta gæti endað með því að það koma bara 2-3 fyrirtæki fram sem vilja taka þátt í þessari rannsóknarleyfisveitingu í staðinn fyrir 15-25 fyrirtæki eins og fyrst var búist við. Þetta þarf að laga strax í samvinnu við olíuráðgjafa sem við þurfum að ráða strax".

Orkubloggarinn er reyndar hálf hræddur við að lýsa ánægju sinni með þessi ummæli um Drekaútboðið. Boreas Capital þykir nefnilega víst af ýmsum ekki par fínt þessa dagana - vegna tengsla sinna við Björgólf Thor. Reyndar grunar bloggarann að Ragnar og félagar hjá Boreas Capital hafi barrrasta lesið fyrri Drekafærslur Orkubloggsins og þannig áttað sig á staðreyndum málsins!

Syria_Oil_DrillingEn hvað sem því líður vill Orkubloggarinn þó benda á að strákarnir þarna hjá Boreas Capital virðast hafa gott þefskyn fyrir olíu. Til að mynda mun sjóðurinn hafa grætt vel á kaupum sínum í kanadíska olíufélaginu Tanganyika Oil. Olíuvinnsla Tanganyika er þó langt frá Kanada; nefnilega austur í Sýrlandi. Þetta ágæta félag ræður þar yfir um 130 brunnum á þremur svæðum sem nefnast Oudeh, Tishrine og Sheik Mansour. Og þeir brunnar hafa reynst skila mun meiri olíu en búist hafði verið við. Að kaupa í Tanganyika hlýtur að hafa reynst hreinn happdrættisvinningur fyrir Boreas.

Áður en Tanganyika hélt til Sýrlands hafði félagið verið að gera það gott í N-Afríku og því með trausta sögu að baki. Alls mun Boreas hafa keypt 6% hlut í Tanganyika en stóri vinningurinn fólst í því að árangur Tanganyika í Sýrlandi vakti þefskynið hjá kínverska risaolíufélaginu Sinopec. Seint í september 2008 gerði Sinopec tilboð í fyrirtækið upp á um 2 milljarða Kanadadollara. Kínverjarnir þóttu bjóða vel og ekki veit Orkubloggið betur en að þessi díll hafi gengið í gegn. Væntanlega með mjög góðri arðsemi fyrir hluthafa Tanganyika.

Lundin_AdolfOrkubloggið hefur ekki hugmynd um hvað  nákvæmlega varð til þess að Boreas Capital fékk áhuga á Tanganyika. Hugsanlega hafa norrænu tengslin spilað þarna inní. Rætur Tanganyika má rekja til sænsku olíu- og málmafeðganna Adolfs, Lúkasar og Ian Lundin. Lundin-ævintýrið byrjaði snemma á 8. áratugnum þegar ævintýramaðurinn Adolf Lundin (f. 1932) skellti sér í olíu- og gasleit til Katar og átti þátt í að finna einhverja allra stærstu gaslind veraldar (North Field) árið 1976.

Til varð Lundin Oil, sem selt var til kanadíska orkufyrirtækisins Talisman  árið 2001. Í kjölfar sölunnar til Talisman stofnuðu feðgarnir nýtt olíufyrirtæki; Lundin Petroleum. Í dag stýra synir Adolfs, þeir Lukas og Ian, bæði Lundin Mining og Lundin Petroleum, en Tanganyika var einmitt upphaflega ein af fjárfestingum Lundin Petroleum.

Að lokum er vert að geta þess að skömmu fyrir andlátið 2006 spáði Adolf Lundin því að stutt væri í að olíuverð færi í 100 dollara og jafnvel 300 dollara tunnan. Þá var tunnan í kringum 60 dollara og sem kunnugt er fór hún yfir 100 dollarana snemma árs 2008. Fólk taldi þessa spá Adolfs árið 2006 merki um elliglöp. Rétt eins og þegar hann um aldamótin 2000 sagði að innan 5 ára myndi olíutunnan kosta 60 dollara. Þá var verðið 20 dollarar, en spá Adolfs Lundin gekk að sjálfsögðu eftir.

Lundin_Petroleum_BannerÞað virðist sem sagt ekki alveg galið að ráðstafa fjármunum sínum á svipuðum nótum eins og Lundin-feðgarnir. Verst að þeir Lundin-bræður Ian og Lúkas skuli ekki hafa sýnt Drekanum áhuga.

 


Fljótandi flugdrekar

Fáar sjónvarpsminningar Orkubloggarans eru jafn notalega eins og Onedin-skipafélagið.

Onedin_line_completeOg kannski eru það einmitt hinir eftirminnilegu þættir um ævintýri hins harðsvíraða James Onedin og ofurhugans Baines skipstjóra, sem valda því að bloggarinn hefur lengi haft afar gaman af siglunum og látið sig dreyma um að festa sér fallega skútu. T.d. eina netta sænska Hallberg Rassy.

Sá draumur hefur reyndar lent í einhverri fjárans útideyfu. Hvað um það. Staðreyndin er sú, að í huga bloggarans hafa menn aldrei nokkru sinni smíðað neitt fallegra en gömlu seglskipin. Fyrir þá sem ekki eru komnir til vits og ára, er rétt að taka fram að Onedin var ein af fyrstu sápunum sem sýnd var í íslenska sjónvarpinu. Þetta voru enskir þættir frá BBC, gerðir á 8. áratugnum, og segja frá skipafélaginu Onedin, sem sigldi með farm sinn um heimsins höf á seglskipum sínum upp úr miðri 19. öldinni. Með tilheyrandi ævintýrum.

Þegar olían verður uppurin verðum við kannski aftur að grípa til seglskipanna. Það gæti verið verra; glæsilegri farkostir eru ekki til. En reyndar eru hugmyndaríkir menn nú þegar byrjaðir að markaðssetja vindinn sem orkugjafa nútímaskipa. Í Þýskalandi eru miklir snillingar, sem hafa hvorki meira né minna en fundið lausnina á því hvernig knýja á skipaflota framtíðarinnar. Auðvitað með fljúgandi flugdrekum! Getur ekki einfaldara verið. Virkjum vindorkuna til að draga skipaflota veraldarinnar yfir úthöfin. Natürlich.

SkySails_Beluga_2Nei - Orkubloggarinn hefur ekki rekið höfuðið í nýlega. Í útlöndum eru menn í alvöru búnir að verja bæði tíma og talsverðu fé í að sauma saman risastóran flugdreka, sem þeir festa í skip og láta vindinn svo um afganginn. Tölvustýrður búnaður á að sjá um að flugdrekinn haldi sig í réttri hæð og nýti vindinn sem best.

Búnaðurinn er bæði hugsaður fyrir gámaskip og önnur skip. Sérstaklega mæla þeir snillingarnir hjá SkySails með því að fiskiskip taki flugdrekanna þeirra til notkunar. Og lofa eldsneytissparnaði upp 10-35% og allt upp í 50% við „bestu skilyrði". Hvort það eru 5 eða 12 vindstig fylgir ekki sögunni. En til að sanna mál sitt um kosti þess að láta risaflugdreka draga skip, var gámaskip að nafni Beluga  útbúið með 160 fm flugdreka frá SkySails og svo haldið af stað þvers og kruss yfir Atlantshafi.

Styrjan (Beluga) lagði upp frá Bremerhaven um miðjan desember 2007 og hélt þaðan beint vestur til Venesúela. Nafn skipsins vísar til eigandans og samstarfsaðila SkySails; þýska flutningafyrirtækisins Beluga Shipping. Ferð skipsins yfir Atlantshaf mun hafa gengið áfallalaust. Eftir smá viðdvöl í baðsrandarparadís Húgó Chavez var stefnan tekin til kapítalismans á ný og siglt undir ádrætti flugdrekans til Bandaríkjanna og þaðan austur yfir og alla leið til Noregs, þar sem lagt var að höfn í mars 2008.

Skysails_ExplainedOrkubloggaranum er ekki kunnugt um hvort þaðan hafi skipið verið „flugdregið"heim til Brimaborgar, en það má vel vera. Hvað sem því líður, þá hafa forráðamenn SkySails, verkfræðingarnir Stephan Wrage og Thomas Meyer, fullyrt að MS Beluga hafi í þessari miklu og löngu ferð sparað að meðaltali 10-15% af eldsneyti vegna flugdrekans. Og sá sparnaður hafi numið 1.000-1.500 USD dag hvern. Enda er slagorð fyrirtækisins "Turn Wind into Profit". Hvort sá sparnaður er fyrirhafnarinnar virði verður væntanlega hver íslenskur skipstjóri að meta fyrir sig. Orkubloggarinn er engu að síður viss um að skipstjórunum hjá Samherja lítist bráðvel á hugmyndina. „Út með trollið og upp með Drekann!"

Tekið skal fram að SkySails telja flugdrekana sína henta togaraútgerðinni sérstaklega vel. Eða eins og segir á heimasíðunni: "Fish trawlers are also especially well suited for the employment of the SkySails-System due to their technical characteristics, those mostly windy fishing grounds and the typically low speeds while trawling".

SkySails_Beluga_3Vegir orkuhugmyndanna eru svo sannarlega órannsakanlegir. Tekið skal fram að frumkvöðlarnir að baki SkySails eru margverðlaunaðir og virðast njóta sín vel í hinni örvæntingafullu leit orkulítilla Þjóðverja að umhverfisvænum tæknilausnum.

Já - þetta eru miklir snillingar. Orkubloggarann grunar samt að t.d. þau hjá Marorku  hafi ekki sérstaklega miklar áhyggjur af harðri samkeppni frá SkySails. Bloggarinn er aftur á móti auðvitað sjálfur byrjaður að hanna flugdreka, sem hann ætlar að festa á Land Roverinn. Verður upplagt þegar haldið verður inn á snæviþakið hálendið í vetur. „Loft úr dekkjum og upp með Drekann!"


"Lögleysa" Egils Helgasonar

silfur_egils_2009"Hér skal áréttuð sú skoðun, að hlutdrægni Egils Helgasonar í afstöðu hans til manna og málefna geri hann óhæfan til að stjórna sjónvarpsþætti um þjóðmál, eigi þátturinn að lúta lögum um ríkisútvarpið. Lögleysan í kringum þátt Egils, verður ekki afsökuð með því, að hann sé einhver öryggisventill fyrir almenningsálitið, sem annars brytist fram á enn hroðalegri hátt en í nafnlausri illmælgi á bloggsíðu Egils. Hver hefur heimild til að leysa Egil Helgason undan lögum um ríkisútvarpið? Páll Magnússon, útvarpsstjóri? Sé svo, ætti hann að sýna eigendum RÚV hana." 

Þessi færsla Björns Bjarnasonar á vefsíðu hans, bjorn.is, er hreint stórfurðuleg. Og varð Orkubloggaranum tilefni til að senda eftirfarandi skilaboð til Björns:

------------------------------

Komdu sæll Björn.

Mig langar að koma á framfæri til þín eftirfarandi athugasemd vegna orða í bloggfærslu þinni í gær (20.okt) um Egil Helgason.

Þú segir Egil óhæfan til að stjórna sjónvarpsþætti um þjóðmál vegna þess að hann sýni hlutdrægni. Og þú virðist telja að þar með sé brotið gegn lagaákvæðum um óhlutdrægni RÚV.

Fyrst hélt ég reyndar að þú værir kannski að grínast. En svo er líklega ekki og þess vegna langar mig að setja hér fram nokkrar hugleiðingar mínar.

Í fyrsta lagi álít ég að það sé fráleitt að túlka lagaákvæðin um óhlutdrægni RÚV þannig að þáttastjórnendur og dagsárgerðamenn RÚV megi aldrei láta í ljós skoðanir sínar í störfum sínum.

Egill_snjorÍ öðru lagi hefur mér virst gestirnir í Silfri Egils af öllum toga og ekki séð merki þess að Egill misbeiti valdi sínu sem þáttastjórnandi. Hann hefur vissulega skoðanir á málum - en almennt þykir mér hann fara mjög vel með að draga fram ólík sjónarmið. Eina skiptið sem mér þótti hann ganga helst til langt, var þegar hann tók viðtal við Jón Ásgeir eftir Hrunið og nánast missti stjórn á sér af reiði. En jafnvel reyndum þáttastjórnanda getur líklega einstaka sinnum ofboðið siðblinda manna.

Ég velti fyrir mér hvort þú viljir í alvöru að helsti fjölmiðill landsins - RÚV og þ.m.t. Sjónvarpið - eigi að vera skoðanalaus? Bara einhver hlutlaus fréttaveita, sem hvorki spyr gagnrýninna spurninga né grefst fyrir um sannleikann?

Viljum við aftur fá RÚV eins og það var fyrir 30 árum eða svo? Þegar viðtölum lauk jafnan á þessum nótum: "Vill ráðherrann segja eitthvað að lokum?". Ég vil það ekki og sem einlægur aðdáandi bandarískrar lýðræðisuppbyggingar, álít ég gríðarlega mikilvægt að fjölmiðlar ræki hlutverk sitt sem "fjórða valdið". Það á líka við um RÚV.

Bjorn_Bjarnason_2Ég býst reyndar við því að þú eigir auðvelt með að neita því að þú viljir skoðanalaust RÚV. Og að ekki beri að skilja gagnrýni þína í bloggfærslunni svo. Þess vegna vil ég leggja áherslu, að jafnvel þó svo RÚV eigi að gæta að hlutleysi með því að leyfa ólíkum sjónarmiðum að koma fram, þykir mér afar vafasamt að ætlast til þess að þáttastjórnendur og dagskrárgerðarmenn eigi ávallt að vera skoðanalausir í störfum sínum. Ég álít reyndar þvert á móti mikilvægt að þeir séu ágengir og tel hreinlega bæði gott og nauðsynlegt að þeir séu sjálfir boðberar gagnrýninnar hugsunar.

Í slíkum störfum hljóta alltaf að koma fram, með einhverjum hætti, skoðanir viðkomandi starfsmanns RÚV. Sem sumir vilja kannski kalla hlutdrægni. Á móti segi ég að eitt það mikilvægasta í starfsemi RÚV ætti einmitt að vera málfrelsi og skoðanafrelsi ekki aðeins viðmælenda heldur einnig starfsfólksins.

Ég get tekið undir það að nafnlaust athugasemdakerfi, eins og á vefnum eyjan.is skapar ákveðin vandamál. Mér er reyndar ekki kunnugt um hvort eyjan.is tengist RÚV. En nafnlaus óhroði er eitthvað sem ekki er bundið við Eyjuna, heldur miklu stærra mál sem löggjafinn ætti kannski að huga að í heildarsamhengi. Tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það hér.

Jon_Asgeir_Silfrid_2Ef við getum lært eitthvað af hruninu, er það að fjölmiðlarnir hefðu átt að vera miklu ágengari í eftirlitshlutverki sínu. Og þar hefði RÚV átt að fara fremst í flokki. Of mikil áhersla á óhlutdrægni starfsfólks RÚV er beinlínis hættuleg samfélaginu og lýðræðinu. Íslendingar virðast oft eiga erfitt með að skilja mikilvægi tjáningarfrelsisins. Kannski hefðu hlutirnir hér farið á betri veg ef tjáningarfrelsið væri meira metið - þ.á m. tjáningarfrelsi starfsfólks RÚV í störfum þess.

Mér hefur löngum þótt þú sýna ríka skynsemi og þótt vænt um hversu duglegur þú hefur verið t.d. að sýna íslenskri menningu mikinn áhuga og stuðning. Þeim mun frekar þykir mér miður að lesa hina sérkennilegu gagnrýni þína á Egil Helgason.

Bestu kveðjur,
Ketill Sigurjónsson.


George Olah í Svartsengi

Olah_1Í dag var fyrsta skóflustungan  tekin að metanólverksmiðju CRI í Svartsengi á Reykjanesi.

Meðal viðstaddra voru hinn aldni og einstaklega viðkunnanlegi efnafræðingur og nóbelsverðlaunahafi George Olah. Olah er fæddur í Ungverjalandi árið 1927, en fluttist þaðan í kjölfar atburðanna 1956 þegar rússneski herinn stöðvaði lýðræðisbyltinguna í landinu. Eftir það starfaði hann fyrst nokkur ár hjá iðnaðarrisanum Dow, en varð svo prófessor við bandaríska háskóla.

Olah vann merkar rannsóknir á kolefni og gjörbreytti skilningi manna á eðli kolefnisins í efnafræðinni. Fyrir fróðleiksfúsa má t.d. lesa yfirlit um þessar rannsóknir Olah á vef  Nóbelstofnunarinnar. Lengi vel áttu kolefnissameindir hug hans allan, en á síðari árum beindist athygli Olah að metanóli. Hann hefur á undanförnum árum kynnt hugmyndir um að metanól sé einhver allra besti kosturinn til að leysa hefðbundið eldsneyti af hólmi. Og telur að metanólið sé mun vænlegri kostur en t.d. etanól- eða vetnisvæðing.

olah_Beyond Oil and Gas_The Methanol EconomyBoðskapur George Olah um kosti metanóls hefur gefið honum nafngiftina faðir metanólvæðingar efnahagslífsins. Sbr. ekki síst bók hans frá 2005; Beyond Oil and Gas: The Methanol Economy. Þetta snýst vel að merkja ekki bara um að nota orku til að búa til metanól, sem nota megi í stað bensíns. Metanólverksmiðja mun t.d. einnig geta framleitt DME; dimethyl ether sem er praktískt á díselvélar. Þetta er því tvímælalaust áhugaverður kostur til að leysa innflutt eldsneyti af hólmi; bæði fyrir Íslendinga og fleiri þjóðir.

Sennilega var umrædd bók og boðskapur hennar eitthvert áhugaverðasta innleggið í orkuumræðuna um það leyti sem bókin kom út. Á allra síðustu árum hafa reyndar komið fram vísbendingar um að þróunin í annarrar kynslóðar etanólframleiðslu og jafnvel enn frekar framleiðsla á lífhráolíu, geti verið hagkvæmari kostir en metanól. En slíkar vangaveltur eru ekki umfjöllunarefni þessarar færslu Orkubloggsins; höldum okkur við metanólið,

Metanólvinnsla er vel þekkt og stunduð í allmörgum löndum. En þá er jafnan notað kol eða gas í ferlinu. Í verksmiðjunni í Svartsengi mun aftur á móti koldíoxíð frá jarðhitavirkjuninni verða notað sem kolefnisgjafi og raforkan er að sjálfsögðu fengin með jarðvarma.

CRI_processÞetta verður þess vegna miklu umhverfisvænni metanólframleiðsla en sú sem þekkist í dag. Og það að nýta koldíoxíð til framleiðslunnar er sannkallað frumkvöðlastarf (aðstandendur CRI kalla þetta koldíoxíðendurvinnslu, eins og nafn fyrirtækisins ber með sér; Carbon Recycling International). Þessi nýting CRI á CO2 er líkleg til að vekja talsvert mikla eftirtekt í metanóliðnaðinum. Og ekki skemmir nafnið á verksmiðjunni: "George Olah CO2 to Renewable Methanol Plant"!

Á ýmsum stöðum í heiminum er nú unnið að því hvernig framleiða megi metanól með umhverfisvænni hætti en gert hefur verið fram til þessa. CRI virðist standa framarlega í þessum flokki, en einnig mætti t.d. nefna bandaríska fyrirtækið Carbon Sciences, sem einnig hyggst nýta koltvíoxíð til metanólframleiðslu. Orkubloggið mun kannski síðar segja frá tækninni sem menn þar á bæ hyggjast beita - þetta er dagur CRI.

Líklega eru Kínverjarnir langstærstir í metanóliðnaði veraldarinnar í dag. Kínversk stjórnvöld hafa marvisst hvatt til þess að kol séu notuð til að búa til fljótandi eldsneyti í formi metanóls og síðustu árin hefur metanólframleiðsla í Kína aukist hratt. Þar munu nú vera meira en 200 metanólverksmiðjur - flestar reyndar smáar í sniðum. Sá iðnaður byggir að öllu leyti á því að nýta kol til metanólframleiðslunnar, enda geysimikið um kol í Kína.

Methanol_Plant_ChinaKínverjar þurfa í dag að flytja inn næstum helminginn af öllu fljótandi eldsneyti sínu. Það er því vel skiljanlegt að þeir séu æstir í að framleiða metanól, etanól og eiginlega hvað sem er til að mæta sívaxandi eldsneytisnotkun sinni.

En það sem er svolítið illskiljanlegt í kínversku metanólvæðingunni, er hversu gríðarlega hátt hlutfall metanóls er í eldsneytisblöndunni - sem þeir nota á bæði strætisvagna og leigubíla. Algengt metanól-hlutfall þar er 85% (M85) en einnig er seld 15% blanda (M15). Eitt helsta vandamálið við metanól er tæringarmáttur þess og vatnssækni (sem getur valdið vandamálum við gangsetningu). Það virðist ekki vefjast fyrir Kínverjunum. Mjög athyglisvert. Ástæðan er sjálfsagt sú að metanól-bifreiðar Kínverjanna séu sérsmíðaðar til að þola metanóleldsneyti. Til að hinar venjulegu fjöldaframleiddu bifreiðar geti notað metanól þarf að gera breytingar á bílunum - eða breyta þeim í framleiðslunni - og þar stendur metanóliðnaðurinn frammi fyrir umtalsverðum þröskuldi. Tæringarvandinn kallar sennilega líka á einhverjar breytingar á þeim búnaði sem notaður er til að geyma og flytja eldsneyti.

CRI_process_3Að auki er orkuinnihald metanóls miklu lægra pr. rúmmál en í hefðbundnu fljótandi eldsneyti (bensíni). Meira að segja etanól hefur þarna talsvert sterkari stöðu en metanólið. Það eru sem sagt ennþá ýmsar hindranir í metanóliðnaðinum og metanólsamfélag ekki alveg að bresta á. En þarna eru samt ýmsir áhugaverðir möguleikar fyrir hendi - sérstaklega þegar metanólið er framleitt fyrir tilstilli endurnýjanlegrar orku eins og gert verður í Svartsengi. Slíkur metanóliðnaður getur t.d. dregið úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda.

Orkublogginu er ekki kunnugt um hvaða íblöndunarhlutfall CRI og samstarfsaðili þess (OLÍS) hafa hugsað sér. Líklega vart hærra en 5%. Það er a.m.k. ennþá langt í að metanól muni leysa bensín af hólmi. En þetta er engu að síður frábær viðbót í íslenskt atvinnulíf. Það er svo sannarlega fullt tilefni til að óska George Olah, KC Tran og félögum hans hjá CRI hjartanlega til hamingju með áfanga dagsins - og óska þeim góðs gengis í framtíðinni.

 


Dow: 10.000 flash back

Dow_Jones_1999-2009Menn láta sko ekki svartsýnina ná tökum á sér á Wall Street þessa dagana.

Dow Jones  hlutabréfavísitalan fór í vikunni aftur yfir 10.000 stig eftir dágott hlé. Þetta fær auðvitað Orkubloggarann til að hugsa tíu ár til baka - eða til mars 1999 þegar Dow fór í fyrsta sinn í sögunni yfir hinn magnaða 10.000 stiga múr. Lokaði í rétt tæplega 10.007 þann 29. mars 1999. Nú tíu árum síðar erum við aftur í þessari stöðu.

Apple_Computers_1999-2009Í tilefni af stigatölu Dow núna, er freistandi að bera nútímann saman við veröldina eins og hún var fyrir áratug. Þá kemur ýmislegt athyglisvert í ljós.

Orkubloggarinn minnist þess t.d. þegar hann keypti funheita bláa iBook hjá Radíóbúðinni í Skipholti í jólavertíðinni 1999. Nú þykir sú skemmtilega tölva hreinn hlunkur. Í dag höfum við MacBook Air  og það ekki aldeilis hjá Radíóbúðinni. Tölvan sú er nánast eins og pappírsblað, enda er Steve Jobs stoltur af kvikyndinu.

Já - allt er breytingum háð. Nema hvað Dow Jones er alltaf 10.000 stig. Af og til. Og þeir sem keyptu sér Sony Walkman fyrir geisladiskana árið 1999 eru núna líklega flestir komnir með Ipod Nano fyrir kvikmyndirnar.

Dow_Girlies_1999-2009Sumt hefur samt lítið breyst. T.d. virðist fegurðarskyn glanstímaritanna á svipuðum slóðum núna eins og var fyrir áratug. Hér í den-dow-10.000 (1999) þótti hin bráðunga skutla Sarah Michelle Gellar bera af og nú er það Kate Beckinsale. Og hjá körlunum hafði grásprengdur Richard Gere vinninginn 1999, en í nútímanum er ástralski leikarinn Hugh Jackman  sagður geisla hvað mest af kynþokka.

Orkubloggarinn sér ekki stóran mun þarna á. Nema hvað þetta er allt einhver allsherjar misskilningur hjá glanstímaritunum. Af því Richard Gere er augljóslega  miklu flottari í dag en hann var fyrir áratug! Og þær Naomi, Linda og vinkonur þeirra eru auðvitað alltaf mestu gellurnar. Ekkert slær 90's út og hananú.

US_National_Debt_1999-2009En að alvöru málsins. Þegar Dow Jones fór í fyrsta sinn yfir 10.000 stig - árið 1999 - voru þjóðarskuldir Bandaríkjanna u.þ.b. fimm þúsund og sex hundruð milljarðar dollara  (5,6 trilljónir USD). Í dag er  þessi skuld nokkuð hressilega hærri eða rétt um 12 þúsund milljarðar dollara  (11,9 trilljónir USD). Enda bandarísk ríkisskuldabréf og dollaraseðlar að sprengja allar peningageymslur austur í Kína. Ef Kínverjarnir taka upp á því að henda slatta af dollaragumsinu sínu út á markaðinn, er þessi grundvallargjaldmiðill líklega búinn að vera med det same.

Öllu verra er kannski að svo virðist sem eignirnar í Bandaríkjunum fari ört minnkandi þrátt fyrir auknar skuldir. Svolítið skuggalegur efnahagsreikningur það - nánast eins og hinn faldi raunveruleiki var hjá íslenskum bönkum.

Bill_Gates_1999-2009Gates er samt alltaf the man. Bill Gates bæði var og er ríkasti maður heims. En er samt blankur. Árið 1999 var hann metinn á 90 milljarða dollar en í dag eru þetta skitnir 50 milljarðar. Kalltuskan. Í staðinn geta Orkubloggarar ískrað af kátínu yfir því að Microsoftið  hans Gates - þetta hátæknisull - hefur vikið fyrir alvöru bisness.

Árið 1999 var Microsoft nefnilega verðmætasta fyrirtæki heims á hlutabréfamarkaðnum; markaðurinn mat það á litla 450 milljarða dollara! Í dag situr hinn ljúfi olíurisi ExxonMobil  í þessu virðulega sæti (Microsoft er í öðru sætinu núna). Að vísu er ExxonMobil nú einungis með markaðsverðmæti upp á 340 milljarða dollara - og það þrátt fyrir hátt olíuverð þessa dagana. Sú staðreynd að ExxonMobil nær varla að slefa 75% í það sem Microsoft var fyrir tíu árum, sýnir kannski vel hvernig dotcom ruglið gagntók breyska menn fyrir áratug.

Dow_Company_1999-2009Það merkir þó ekki að stál og hnífur hafi tekið öll völd. T.d. eru bæði Apple og Google  nú meðal tíu verðmætustu fyrirtækjanna á Wall Street, en hvorugt þeirra komst á þann lista árið 1999 (þess má geta að lénið google.com var fyrst skráð 15. sept. 1997 og fyrirtækið Google ekki skráð fyrr en ári síðar; 4. sept. 1998 - á þeim tíma sat Orkubloggarinn líklega á kaffihúsi við höfnina í Sydney og óraði ekki fyrir neinu sem kallast Blogg eða Gmail).

En eins og fyrr sagði; sumt virðist hreinlega aldrei breytast. Rétt eins og 1999 er Wal-Mart  nú í þriðja sætinu á SP 500 listanum. Og ekki bara í sama 3ja sætinu, heldur líka með nánast nákvæmlega sama verðmæti upp á dollar eins og var 1999! Hreint magnað. Reyndar má ekki gleyma því að dollarinn í dag er líklega 20-25% minna að raunvirði en var 1999. Vegna verðbólgunnar. Þannig að í reynd hefur Wal-Mart rýrnað umtalsvert á umræddum áratug. Í þokkabót mætti nefna að Dow datt aftur undir 10.000 stig fyrir lokun á Wall Street í gær - föstudaginn 16. október 2009. Aftur á byrjunarreit?

US_gasoline_gallon_price_1999-2009Auðvitað ljúkum við þessum brilljant bullsamanburði með því að líta til smásöluverðs á bensíni þar vestra. Fyrir áratug kostaði gallonið í Bandaríkjunum einungis 1,29 dollara, sem er náttlega barrrasta til skammar fyrir svona eðalvöru. Í dag er meðalverðið á bensíngalloninu vestra aftur á móti næstum tvöfalt hærra. LSG!

Kannski rétt að nefna að þetta ábyrgðarlausa kjánahjal í Orkubloggaranum á rætur sínar í samantekt á vef CNBC. Sem lesendur geta skoðað sjálfir ef þeir hafa áhuga á... þó svo ekkert okkar muni auðvitað nokkru sinni viðurkenna að eyða tímanum í svona vitleysu. Þessi færsla hlýtur barrrasta að vera gestapistill!


Funheit íslensk jarðhitaþekking í US

Einn hinna föllnu íslensku banka, Glitnir, lagði lengi vel áherslu á málefni sem Íslendingar þekkja vel. Fjármálaþjónustu á sviði sjávarútvegs og jarðhita.

Það var skynsamleg strategía hjá Glitni. Því miður þróaðist bankinn útí tóma vitleysu og féll. En Glitnir náði engu að síður að skapa sér merka sérstöðu, ekki síst í jarðhitanum. Það er sama hvar borið er niður í bandaríska jarðhitaiðnaðinum; jarðhitateymi Glitnis naut bersýnilega talsvert mikils álits í jarðhitageiranum vestra.

Glacier_BannerEftir að bankinn féll var þessi jarðhita-armur Glitnis seldur og í dag hefur fyrirtækið Glacier Partners  yfirtekið það hlutverk sem Glitnir hafði skapað sér í Bandaríkjunum. Ekki er Orkubloggaranum kunnugt hver er eigandi Glacier Partners, en fyrirtækið tengist Capacent á Íslandi og þar fer fremstur í flokki Magnús Bjarnason, sem áður var hjá Glitni.

Þess má geta að Orkubloggarinn varð nokkuð undrandi yfir því að Orkuveita Reykjavíkur skyldi ekki fá Glacier Partners til að matreiða hlut OR í HS Orku fyrir fjárfesta. Sú vinna kom í hlut Arctica Finance, sem mun eiga rætur sínar í gamla Landsbankanum. Magnús og félagar hljóta að hafa mun betri sambönd í jarðhitageiranum heldur en strákarnir hjá Arctica Finance - og Glacier Partners því væntanlega mun líklegri en Arctica til að geta fundið fleiri áhugasama kaupendur.

Pritchard Capital Partners LogoReyndar má nefna að Glacier Partners tengist bandarísku ráðgjafafyrirtæki sem heitir Pritchard Capital Partners, en það fyrirtæki vann einmitt að hlutafjárútboði Magma Energy  s.l. sumar. Svona er þetta nú lítill heimur. Skemmtilegt. Og Glacier Partners unnu einmitt með Pritchard að því þegar Magma keypti fyrst hlut í HS Orku af Geysi Green Energy í sumar. Þeim mun undarlegra að þeir hafi látið Arctica hreppa stóra dílinn nú í haust. Hlýtur að hafa verið smá spæling fyrir Jöklafélagana.

us_geothermal_potentials_2Hvað um það. Bandaríski jarðhitageirinn virðist fylgjast vel með því hvað Glacier Partners (GP) eru að bauka. Í gær birti hinn nýstofnaði jarðhitavefur Geothermal Digest  t.d. frétt um nýútkomna skýrslu GP um það sem við getum kallað hagfræði jarðhitans. Sjálfir nefna þeir hjá GP útgáfu sína Geothermal Economics 101, en þar er einfaldlega útskýrt hvað það kostar að byggja jarðhitavirkjun og hvaða arðsemi megi vænta af slíkri fjárfestingu.

Þar er lýst kostnaði á 35 MW jarðhitavirkjun, sem byggir á því sem Orkubloggarinn kallar varmaskiptatækni upp á íslensku (binary cycle). Þessi stærð er sögð vera meðalstærðin á dæmigerðu jarðhitaverkefni vestra. Í þessari stuttu en hnitmiðuðu úttekt eru forsendurnar vel útskýrðar og sömuleiðis sú óvissa sem gera verður ráð fyrir. Forsendur GP eru sagðar taka tillit til reynslunnar af jarðvarmavirkjunum í Nevada, en lesendur Orkubloggsins geta sjálfir nálgast umrædda úttekt á vef fyrirtækisins.

Orkubloggarinn hefur í gegnum tíðina lagt talsvert mikla vinnu í að setja upp módel fyrir hina ýmsu virkjunarkosti. En er ekki jafn gjafmildur eins og GP og hefur haldið þeim úttektum fyrir sjálfan sig. Bloggarinn telur sig hafa góðan samanburð á því hvaða virkjanakostir eru hagkvæmari en aðrir. Þó svo slíkir útreikningar séu jafnan háðir mikilli óvissu, gefa þeir samt þokkalegan samanburð. Og þetta er satt að segja ákaflega skemmtilegt og áhugavert rannsóknaefni.

Geothermal_NevadaJarðhitinn kemur vel út í slíkum samanburði. En ef kostnaðarlækkanir verða áfram jafn hraðar í vindorkunni, eins og verið hefur undanfarin ár, gæti vindorkan jafnvel þótt álitlegri fyrir áhættufælna. Ef hinir sömu treysta blint á uppgefnar meðaltölur um vindstyrk og nýtingu vindrafstöðvanna! Enn sem komið er, eru einungis tvær tegundir endurnýjanlegrar orku fjárhagslega skynsamar; jarðvarmi og vatnsafl. En vindorka og ekki síður CSP-sólarorkuver eiga mikil framtíðartækifæri.

Í þeim mikla gagnahaug sem bloggarinn hefur pælt í gegnum, er því miður fremur óvenjulegt að sjá jafn skýra framsetningu eins og í umræddri úttekt Glacier Partners. Hversu rétt þar er farið með tölur verður hver að meta fyrir sig. En þessi úttekt GP verður vonandi til þess að vekja enn meiri athygli á fyrirtækinu hjá jarðhitageiranum vestra.

Þar eru mikil tækifæri; jarðhitinn er einn af þeim virkjunarkostum sem njóta góðs af umtalsverðum fjárstuðningi  Obama-stjórnarinnar til endurnýjanlegrar orku. Þess vegna kann að verða fjárfest talsvert mikið í nýjum jarðhitavirkjunum í Bandaríkjunum á komandi árum. Vonandi mun íslensk þekking njóta góðs af þeirri þróun.

CSP_Spiegel_1Og ef Glacier Partners vilja bæta öðrum geira endurnýjanlegrar orku við sig, væri besta ráðið líklega að fókusera einnig á CSP. Sá iðnaður byggir á vel þekktri og tiltölulega einfaldri tækni - en hefur engu að síður fallið í skuggann af vindorkunni og rándýrri PV-vitleysunni.

Segja má að CSP-tæknin sé ekki jafn fjarskyld jarðhitanum eins og ætla má við fyrstu sýn. Þarna er nefnilega búið til gufuafl - með aðstoð sólar. Jarðhitinn hefur það umfram CSP að vera í gangi allan sólarhringinn, en þetta hefur verið leyst með því að geyma sólarhitann í saltlausn og nota hann svo eftir sólarlag. Vegna nýrra fjöldaframleiddra parabóluspegla, hagstæðra skattareglna í löndum eins og Spáni og Ítalíu og orkustefnu bæði ESB & Obama, er líklegt að CSP verði sú orkutækni sem vaxa mun hraðast á næstu árum. En það er auðvitað allt önnur saga.


Norðurskautsolían

Nú í ágúst s.l. urðu talsverð tímamót í olíuvinnslu á Norðurslóðum.

Russia_oil_production_1993-2009Þá settu Rússar  nýtt met í olíuframleiðslu sinni. Framleiddu í fyrsta sinn að meðaltali  meira en 10 milljón tunnur pr. dag í heilan mánuð. Eða nákvæmlega 10,01 milljónir tunna pr. dag. Og það sem meira er; þetta met má beinlínis rekja til þess sem lengi vel hefur verið litið á sem hreina framtíðarmúsík. Heimskautaolíunnar!

Aldrei áður hefur olíuframleiðsla Rússlands verið svona mikil (aftur á móti náðu Sovétríkin öll að framleiða yfir 12 milljónir tunna þegar mest var). Þetta virðist nokkuð á skjön við útbreiddar spár um að olíulindir Rússanna fari hratt hnignandi og lítið nýtt sé að finnast.

Vankor_Oil_RigÞó svo vel hafi gengið í olíuframleiðslu Rússa síðustu árin, gerðist það nefnilega 2008 að þá minnkaði framleiðslan umtalsvert. Hátt olíuverð 2006-08 hefði átt að verða hvati til að kreista hvern dropa upp. Samt sem áður dró úr framleiðslu Rússa 2008. Þetta var fyrsta samdráttarárið í Rússaolíunni í heil tíu ár eða allt frá efnahagskreppunni þar í kringum 1998.

Þessi samdráttur árið 2008 var af mörgum túlkaður svo, að Rússar hefðu augljóslega náð hinum endanlega framleiðslutoppi. Og héðan í frá myndi leiðin liggja niður á við, eins og hjá svo mörgum öðrum vestrænum olíuríkjum.

Russia_Arctic_Oil_RigEn nú hafa Rússar snúið blaðinu við. Og eru orðnir mestu olíuframleiðendur í heimi. Stærri en sjálf Saudi Arabía. Reyndar miklu stærri, því Sádarnir eru þessa dagana að dæla upp skitnum 8 milljónum tunna á dag.

Í dag eru Pútín og félagar sem sagt langstærsti olíuframleiðandi í heimi! Og að auki líka mesti olíuútflytjandinn. Í ágúst mun meðalútflutningur Rússa hafa verið um 7,3 milljón tunnur á dag meðan Sádarnir voru komnir niður í um 7 milljón tunnur.

Þessi uppsveifla í olíuframleiðslu Rússa núna er ekki síst til komin vegna olíunnar sem byrjuð er að streyma frá Vankor-risalindunum langt norðan heimsskautsbaugs. Ekki er ofsagt að þessar heimsskautalindir tákni nýtt og mikilvægt skref í olíuvinnslu. Að það sé búið að klippa á borðann og héðan í frá muni ríkin við Norðurskaut hefja æðisgengna olíuleit innan lögsögu sinnar kringum Norðurheimsskautið.

Arctic_Oil_PotentialsJá - rússneska heimsskautaolían er byrjuð að streyma á markaðinn. Og Rússar hafa sannað að kenningin um stórfellda olíuframleiðslu í framtíðinni á heimsskautasvæðunum, mun nær örugglega ganga eftir.

Í þessu sambandi má minna á glænýja niðurstöðu Bandarísku landfræðistofnunarinnar (USGS) þess efnis að vinna megi allt að 160 milljarða tunna af olíu norðan heimskautsbaugs. Stóran hluta af þeirri olíu má nálgast frá landi (t.d. í Síberíu) og mestur hluti afgangsins liggur undir fremur grunnum hlutum heimsskautahafanna (þar sem dýpið er minna en 500 m).

Með þetta í huga og þá staðreynd að olíuverð er nú þegar komið vel yfir þá upphæð sem stæði undir olíuvinnslu á ennþá erfiðari heimsskautasvæðum en Vankor, verður æ líklegra að olíufélögin snúi sér innan ekki of margra ára að Norðurskautinu. Um leið og menn trúa því að olíuverð upp á a.m.k. 70-90 dollara sé komið til með að vera, mun olíuleit færast nær Pólnum. Í framhaldinu gæti olíuframleiðsla Rússa hugsanlega aukist enn frekar og mörg ný olíu- og gassvæði norðan heimsskautsbaugs farið á fullt.

Arctic_AreaÞó svo Sádarnir eigi allra manna auðveldast með að auka framboð af olíu, er hugsanlegt að helstu olíuveldi framtíðarinnar verði löndin sem liggja að Norðurskauti. Rússland, Bandaríkin, Kanada og Noregur eru öll farin að horfa í þá átt. Grænlendingar eru líka vongóðir, enda talsverðar líkur á að verulegar olíulindir séu við NA-strönd Grænlands og jafnvel einnig við vesturströndina. Þetta er raunveruleikinn sem blasir við Norðurslóðum.

Ef spár um snögga og mikla olíuverðhækkun eftir ca. 3-5 ár rætist, mun þessi norðurbylgja fara almennilega í gang. Það er sem sagt mögulegt að eftir einungis örfá ár muni hreint olíuæði brjótast út á norðurslóðum. Mögulegt - en gæti auðvitað tafist eitthvað ef olíuverðhækkanir láta á sér standa.

Arctic_oil_rig_towedSennilegra væri skynsamlegra af Íslendingum að veðja á þjónustu við Norðurskautsolíuna, heldur en að vera að gæla við mikla skipaumferð í tengslum við NA- eða NV-norðurskautsleiðirnar. Það er ennþá í órafjarlægð að kaupskipasiglingar beinist að svo háskalegum hafíssvæðum. Aftur á móti gæti Ísland orðið mikilvæg þjónustumiðstöð fyrir olíuiðnaðinn á Norðurslóðum. EF slíkt yrði undirbúið í tíma.


TvöfaltWaff

Ali_Jungle_2Eftir snöggt hægri handar högg lætur ægilegur boxari gjarnan fylgja þungan vinstri. Eða öfugt. Stundum reynist þetta rothögg. Er þetta líka að gerast í efnahagslífinu? Er ný niðursveifla á hlutabréfamörkuðum á næsta leiti? Eða ný afskriftarbylgja? Og dollarinn kannski að falla fram af bjargbrúninni? Kannski. Kannski ekki.

Í sumar virtist sem aukin bjartsýni breiddist út á fjármálamörkuðunum. Menn voru farnir að brosa að nýju á Wall Street og víðar. Hlutabréf hækkuðu umtalsvert í verði og margir „sérfræðingar" sögðu kreppuna hafa náð botni og að bati væri innan seilingar. Olíuverð hækkaði um 50% á nokkrum mánuðum og virðist ekkert ætla að gefa eftir þrátt fyrir að birgðageymslur séu orðnar troðfullar. Og Orkubloggarinn virðist satt að segja hafa verið hálf utangátta í varkárni sinni.

Recovery_shapeBjartsýnismennirnir segja þetta vesen frá síðasta vetri hafa verið dæmigerða snögga V-laga kreppu og að ný uppsveifla sé nú byrjuð. Meira að segja sumir þeirra sem töldu þetta verða U-laga kreppu hafa eftir því sem leið á sumarið færst nær Vaffinu. Jafnvel Bölmóðarnir sem hafa boðað langvarandi L-laga kreppu hafa snúið baki við svartsýninni og byrjað að nálgast U og eru þar með ekki jafn fjarri Vaffinu eins og var.

Var þetta þá bara skammvinn V-laga kreppa? Orkubloggarinn hefur ekki aldeilis verið á því - heldur miklu fremur að í þetta sinn verði það tvöfaldavaffið sem muni hafa yfirhöndina. W-laga kreppa! Að önnur mjög slæm niðursveifla sé yfirvofandi. Við erum enn stödd útí hringnum og Ali heldur áfram að berja á okkur - leiftursnöggur og fallegur.

Orkubloggarinn er vanur því að vera svolítill lóner; á skjön við skoðanir hins háværa fjölmiðlaflugnagers.  En á síðustu dögum hefur reyndar skyndilega borið talsvert á röddum í fjölmiðlum sem virðast sama sinnis og bloggarinn! T.d. mátti á mánudaginn sem leið, lesa viðvörunarorð frá Michael Geoghegan, forstjóra risabankans HSBC. Hann varar nú við „ second economic downturn" sem muni kalla á ennþá meiri afskriftir og ennþá meira tap hjá bönkum heimsins.

Aðrir eru farnir að verða kvíðnir yfir því hvað muni gerast þegar áhrif fjármálainnspýting Bandaríkjastjórnar fer að fjara út. Hún hafi eðlilega haft jákvæð áhrif á markaðina, en nú virðast æ fleiri farnir að efast um að raunverulegur bati sé í sjónmáli. Jafnvel þó svo Bernanke og fylgismenn hans tali um að botninum sé náð og hananú.

meredith_whitney_2Þetta er þó ekki það sem Orkubloggaranum þykir skuggalegast. Heldur það að fyrir rétt um viku síðan geystist stjörnufjármálastelpan Meredith Whitney  enn á ný fram á skjánn og fullyrti að nú sé önnur gríðarleg afskriftarbylgja u.p.b. að skella á bandarísku efnahagslífi.

Varnaðarorð hinnar fertugu Meredith Whitney beinast að þessu sinni ekki síst að krítarkortaskuldunum - og fá marga til að sperra eyrun. Meredith varð nánast heimsfræg á einni nóttu í fjármálaheiminum í vetrarbyrjun 2007 þegar hún spáði djarflega en af fullu sjálfsöryggi fyrir um yfirvofandi stórvandræði hjá Citigroup- aðallega vegna vaxandi vanskila á húsnæðislánaum. Þegar sú spá gekk eftir var fjárhagsleg framtíð Meredith sem snilldarráðgjafa tryggð.

Einnig var hún var dugleg að hamra á þeirri skoðun sinni, að viðskiptavild hafi afbakað efnahagsreikninga margra fyrirtækja og búið til massíva hlutabréfabólu byggða á sandi og lélegri dómgreind stjórnenda fjármálafyrirtækja. Hún reyndist svo sannarlega sannspá.

Nú spáir Meredith Whitney því að næsta holskefla skelli senn á bandarísku fjármálalífi. Að innan ársloka 2010 þurfi bandarísk fjármálafyrirtæki að afskrifa 1.500 milljarða USD vegna kreditkortaskulda. Það muni höggva enn meira í bandaríska bankakerfið, sem rétt er að byrja að jafna sig eftir afskriftir á húsnæðistengdum verðbréfum.

Orkubloggarinn er á því að fjármálaheimurinn og aðrir eigi að hlusta á þessar viðvaranir. Enda er bloggarinn svolítið veikur fyrir Meredith, sem hóf starfsferil sinn hjá fjármálafyrirtækinu Oppenheimer, sem ráðgjafi á sviði olíu- og gasiðnaðarins. Þar reyndist hún ansið slyng að sjá fyrir markaðsþróunina.

Meredith_Whitney_Fortune_CoverÍ dag rekur Meredith sitt eigið fyrirtæki; Meredith Whitney Advisory Group. Og hefur það mikla vigt að viðtöl við hana í fjölmiðlum hafa bein og umtalsverð áhrif á hlutabréfaverð þeirra fyrirtækja sem hún gefur álit sitt á. Fjölmiðlarnir elska það sem stundum er kölluð grimmd eða miskunnarleysi Meredith - en er auðvitaða bara hreinskilni. Þann 18. ágúst 2008 komst hún á forsíðu Fortune  þegar hún boðaði æpandi svartsýna spá sína um stöðu nokkurra stærstu banka Bandaríkjanna. Varla var mánuður liðinn frá þeirri forspá Meredith þegar Merrill Lynch og Lehman Brothers riðuðu skyndilega til falls. Sem hafði víðtæk áhrif og svipti m.a. hulunni af íslensku bankaræningjabælunum.

Fortune notaði auðvitað tækifærið til að selja aðeins fleiri eintök af sjálfu sér og útnefndi Meredith eina af fimmtíu „Most Powerful Women in Business" jafnskjótt og Lehman var fallinn. Það er einungis ein af ótalmörgum viðurkenningum sem rignt hefur yfir stelpuna síðasta árið. Og hún virðist svo sannarlega eiga heiðurinn skilinn. En nú talar Meredith sem sagt fyrir Waffinu. W-laga kreppa! Ekki beint gæfulegt ef satt reynist.

Orkubloggarinn er þannig gerður að hann telur sérstaklega mikilvægt og árangursríkt að hlusta á klárar konur. Konur hafa eitthvað töfrainnsæi sem okkur karlana skortir. Það er a.m.k. trú bloggarans og varla neitt „verri trú en aðrar trúr". Þess vegna er Orkubloggarinn satt að segja skíthræddur um að Waffið sé óumflýjanlegt.

Saxo_foundersLíklega eru strákarnir hjá danska töffarabankanum Saxo sama sinnis. Því þeir eru nýbúnir að gefa út þá yfirlýsingu að hlutabréf séu nánast holdsveik þessa dagana. Að koma inn á hlutabréfamarkaðinn núna sé það vitlausasta sem fjárfestar geti gert. Þar sé nefnilega önnur djúp niðursveifla yfirvofandi. En hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá...!

Þetta lítur ekki alltof vel út. Nú síðast í dag var haft eftir Karlinum Ichan að ný dýfa sé leiðinni og "blóðbað" sé yfirvofandi. Það er sem sagt barrrasta allt í einu eins og skoðanir Orkubloggsins njóti grunsamlega mikils fylgis. Það eitt út af fyrir sig er kannski svolítið skuggalegt. En bloggarinn er sem sagt farinn að búa sig undir waffið.

Kronan_sekkurStóra spurningin er bara hvað maður á að sjorta. Bankahlutabréf? Olíu? Endurnýjanlega orkugeirann? Dollarann? Það er a.m.k. líklega alltof seint að fara að þeim góðu ráðum, sem kunningi Orkubloggarans búsettur í Texas, gaf bloggaranum um mitt ár 2008: "Shorten Iceland!"


Orkuskattar

Nú hefur umræða um auðlinda- og umhverfisskatta sprottið upp í þjóðfélaginu. Sbr. t.d. þessi forvitnilega grein eftir Jón Steinsson, hagfræðing. Það eru þó sérstaklega orkuskattar sem stjórnmálamönnunum þykja spennandi, enda ein af þessum einföldu leiðum til að fá glás af viðbótarpening í ríkiskassann.

Straumsvik_raflina_masturSjálfur hefur Orkubloggarinn talið vera ýmsar vísbendingar um að álfyrirtækin séu að fá raforkuna á óeðlilega lágu verði og orkulindirnar ekki að skila þjóðinni þeim arði sem eðlilegt væri. En er rétta leiðin til að laga þetta, sú að leggja nýjan "orkuskatt" á stóriðjuna?

Nú vill svo til að stóriðjan er ekki sjálf í auðlindanýtingu hér á landi. A.m.k. ekki enn sem komið er. Það eru Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki sem nýta orkulindirnar og selja raforkuna. Ef leggja á nýjan "orkuskatt", er kannski eðlilegast að sá skattur leggist á þá sem fá að virkja orkuna! Slíkar álögur myndu svo vissulega enda á kaupendum raforkunnar í formi hærra raforkuverðs.

Rafmagnið er ekki aðeins selt til stóriðjunnar, heldur að sjálfsögðu til annarra fyrirtækja og alls almennings. Ef umræddur "orkuskattur" á að vera sérsskattur sem leggst á orkukaupendur er þetta einfaldlega sama og hækkun á raforkuverði.

Það er sem sagt nokkurn veginn sama hvernig pólitíkusarnir útfæra "orkuskatt". Hann merkir í raun hærra raforkuverð. Og kannski væri hið besta mál að orkukaupendur og þó einkum stóriðjan borgaði eitthvað meira fyrir raforkunotkun sína.

jon_SteinssonOrkubloggarinn tekur að mestu undir orð Jóns Steinssonar á Deiglunni.  En bloggarinn óttast samt að orkuskattur yrði einfaldlega skref að nýrri og lúmskri leið ríkissjóðs að því að skattleggja landsmenn í stórum stíl. Fáum við bráðum öll nefskatt sökum þess að við megum ganga um landið, drekka vatn úr læk eða fyrir að anda frá okkur hinu ógurlega koltvíildi? 

Bloggarinn aðhyllist fyrst og fremst einfalt skattkerfi. Og fær grænar bólur þegar ríkið hleður endalaust nýjum sköttum í fjárlögin, með þeim afleiðingum að öll yfirsýn hefur glatast og skattkerfið orðið ruglingskennt og æpandi ósanngjarnt. Hugmyndin um auðlinda- og umhverfisskatt er áhugaverð - en getur jafnframt verið varhugaverð vegna hættunnar á að henni verði misbeitt.

Gagnvart stóriðjunni hlýtur aðalatriðið að vera sanngirni. Að stóriðjufyrirtækin greiði eðlilegt verð fyrir raforkuna og eðlilega skatta af tekjum sínum - frá upphafi. En ekki að mislukkaðir stjórnmálamenn dulbúi íslenska orkulindir eins og ódýra mellu til að laða stóriðju að landinu - afsakið orðbragðið - og laumi svo nýjum "sköttum" inn á fyrirtækin. Það er einmitt sú bútasaums-skattastefna sem við ættum að forðast. Einfalt, skiljanlegt, sanngjarnt og tiltölulega stöðugt skattkerfi, vinsamlegast.

 


Orkustefnan

Orkubloggaranum þykir Ísland einfaldlega langbezt í heimi. En eitt er það í sambandi við Ísland sem fer lauflétt í taugarnar á bloggaranum. Það er of-eða-van árátta þjóðarinnar.

Alcoa_ValgerðurDæmi er umræðan um virkjana- og stóriðjumál. Fólk virðist ýmist vilja virkja allt sem unnt er að virkja og helst fá risaálver í hvern fjörð og hverja vík - eða berjast af miklu afli gegn öllum slíkum áformum og jafnvel telja jarðvarmann hið versta mál og gott ef ekki bæði baneitraðan og mengunarspúandi.

Þetta eru hinir tveir andstæðu og háværu pólar virkjunarumræðunnar. Orkubloggaranum þykja bæði þessi sjónarmið hreint fráleit. Reyndar grunar bloggarann að ýmsir séu í reynd á sömu eða svipaðri skoðun og hann sjálfur: Að nýta beri orkulindir landsins af eins mikilli hagkvæmni og mögulegt er og gæta þess að orkulindirnar stuðli bæði að góðri arðsemi og sem mestri fjölbreytni í atvinnulífinu. Og að um leið verði farið gætilega gagnvart náttúrunni og virkjunum haldið frá svæðum sem búa yfir einstæðu umhverfi og/eða mikilli náttúrufegurð.

Orkubloggarinn er tortrygginn á þá stóriðjustefnu sem hér hefur lengi ríkt. Þetta hefur ýmist verið hreinræktuð byggðastefna eða skammtímalausn í efnahagsmálum. Stefnan virðist lítið hafa með arðbæran bissness að gera og þar hefur nánast eingöngu verið fókuserað á áliðnað.

Orkuverd_utsala_2Þar að auki hefur upplýsingum um arðsemi orkuvinnslunnar verið haldið leyndum. Og arðsemisútreikningar Landsvirkjunar miðast við að ríkið afhendir fyrirtækinu virkjanaréttindin án endurgjalds. Í stað þess að þessi réttindi ættu auðvitað að vera verðmetin til fulls og metin að raunvirði sem hlutafé greitt inn í Landsvirkjun.

Sömuleiðis vantar líka að verðmeta umhverfistjón af völdum virkjananna þegar arðsemin er metin. Dæmið hefur sem sagt aldrei verið reiknað til fulls. Í þessu ljósi ætti Landsvirkjun auðveldlega að vera stöndugasta fyrirtæki landsins. Þess í stað berst Landsvirkjun nú í bökkum með að greiða afborganir af lánum sínum og sú ógn vofir yfir að fyrirtækið lendi í greiðsluþroti. Þetta er sú furðulega og nöturlega staðreynd sem blasir við núna þegar núverandi forstjóri kveður Landsvirkjun. Ríkisstyrkt apparat í þröngri stöðu.

Í huga Orkubloggarans er áliðnaður orðinn háskalega stór hluti af íslensku efnahagslífi. Þröngsýn stóriðjustefna stjórnvalda hefur gert íslenskt atvinnulíf einhæfara en nokkru sinni. Þessu er orðið tímabært að breyta.

Engin önnur þjóð á hlutfallslega jafn miklar endurnýjanlegar orkulindir eins og við Íslendingar. Nú á tímum æ dýrari olíuvinnslu og sífellt meiri umræðu um nauðsyn þess að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, ættu þessar auðlindir að geta skilað okkur miklu meiri arði en þær hafa gert.

Solarlag_IslandOrkubloggið gerir þá kröfu til Alþingismanna, ríkisstjórnar og stjórnvalda að marka sér nýja, skýra og framsýna virkjanastefnu sem skili þjóðinni bæði miklum arði og fjölbreyttara atvinnulífi. Og að sú stefna gæti í ríkum mæli að umhverfinu og hafi varúð að leiðarljósi. Og að ráðherrar geti ekki snúið niðurstöðu faglegs umhverfismats eða skipulags eftir því hvernig pólitískir vindar blása - hvort sem þeir heita Siv eða Svanhvít.

Stóriðjustefna íslenskra stjórnvalda síðustu 30 árin hefur alls ekki skilað nógu góðum árangri og verið alltof einhæf. Hér þarf að verða alger hugarfarsbreyting hjá stjórnvöldum í orkumálum, þar sem langtímahagsmunir þjóðarinnar allrar í víðum skilningi verða ávallt hafðir í hávegum. Til að svo meigi verða þarf að taka möguleikana til heildarskoðunar, greina tækifærin ítarlega, af nákvæmni og raunsæi og horfa til framtíðar. Tækifæri okkar hafa aldrei verið jafn góð eins og nú, þegar veröldin þráir meiri endurnýjanlega orku og umræðan um gróðurhúsaáhrif er til að auka enn meira vindinn í segl Íslands. Það eina sem þarf er ný hugsun í orkumálum Íslands.


Er Peak Oil afstaðið?

Usain_Bolt_958Í ágúst sem leið var heimsmetið í 100 metra hlaupi karla slegið. Og það svo um munar; 9,58 sekúndur! Þarna var á flugferðinni Usain Bolt  frá Jamaica.

Orkubloggarinn veit vart skemmtilegra sjónvarpsefni en að horfa á slíkan viðburð í beinni útsendingu. Og er t.d. enn í fersku minni þegar Ben Johnson stakk Carl Lewis  af og hljóp á nýju heimsmeti á Ólympíuleikunum í Seúl 1988. Allir vita að Johnson var svo sviptur gullinu vegna lyfjaneyslu. Mikið drama.

100_meters_WRÞví hefur lengi verið spáð að mannkynið sé komið að þolmörkum  í spretthlaupum. Að heimsmetið í 100 metra hlaupi hreinlega verði ekki bætt. Eitt sinn sáu menn 10 sekúndur sem hin endanlegu mörk, allt þar til Jim Hines hljóp á 9,95 á Ólympíuleikunum í Mexíkó í október 1968. Lengi vel leit út fyrir að þetta heimsmet - 9.95 sek - yrði hið endanlega met í 100 m hlaupi. En svo kom Calvin Smith og hljóp á 9,93 árið 1983. Og þrátt fyrir að metið yrði enn bætt nokkrum sinnum næstu árin, hefðu líklega fáir trúað því fyrir örfáum árum að árið 2009 yrði vegalengdin hlaupin á undir 9,6 sekúndum! En nú er metið sem sagt 9,58. Og Bolt hreinlega búinn að slátra spekinni um rólega þróun 100 m heimsmetsins.

Þetta minnir mann á að hæfni mannsins er með ólíkindum. Þetta minnir Orkubloggarann líka á það að í áratugi hafa ýmsir spáð því að hámark olíuframleiðslu væri að bresta á. Að brátt yrði ekki lengur nógu mikil olía til að mæta eftirspurninni. Menn hreinlega kæmust ekki lengra í olíuvinnslu.

oil-discoveries_top1964Slíkar spár eru ekkert nýjabrum. Þær hafa fylgt olíuiðnaðinum meira eða minna nánast allt frá upphafi bílaaldar. En sjaldan hafa spámenn um yfirvofandi peak-oil verið sannfærðari en á allra síðustu árum. Það er ekkert skrítið. Þegar svartsýnismenn horfa á línuritin sem sýna gríðarlegan vöxt í olíunotkun heimsins og stöplaritin sem sýna hversu hægt gengur að finna nýjar olíulindir, er óneitanlega freistandi  að hlaupa æpandi út á torg: „The Oil Age is over. We are all doomed!!"

En ef þeir sömu myndu aðeins staldra við kemur nokkuð athyglisvert í ljós. Í fyrsta lagi eru menn ennþá að finna nýjar risalindir. Lindir með óhemju magni af olíu - sem verður að vísu mun dýrara að sækja heldur en eplin sem við höfum hingað til verið að tína af neðstu greinunum en segir okkur samt að enn er af nógu að taka.

Í öðru lagi er mögulegt að hið ógurlega peak-oil kunni þegar að vera að baki. Að eftirspurn eftir olíu hafi náð hámarki - ever! Og það bæði í gömlu Evrópu og hjá sjálfum olíufíklunum í Bandaríkjunum! Þetta er að vísu ekki hið hefðbundna peak-oil, sem dómsdags-spámennirnir óttast svo mjög. Sem felst einfaldlega í því að ekki sé lengur unnt að auka framboð af olíu af því lindirnar séu endanlega að tæmast. Nei - þvert á móti virðist sem eftirspurnartoppnum kunni að vera náð.

EIA_Liquid_Fuels_August_2009Eftirspurn eftir olíu og öðru fljótandi eldsneyti náði nýju hámarki árið 2008. Að sumra mati mun þetta metár aldrei verða slegið - héðan í frá muni þörfin á olíu og öðru fljótandi eldsneyti verða minni en þessi miklu nýliðnu uppgangsár 2005-08.

Ef satt reynist eru þetta óneitanlega talsverð tíðindi - svo ekki sé fastar að orði kveðið. Kenningin byggir vel að merkja ekki á því að heimurinn sé fallinn í eilífðarkreppu. Heldur að samfélagsbreytingar séu að eiga sér stað, sem munu draga úr eldsneytisnotkuninni.

EIA_2009_OilPrices_1980-2030

Aðalatriðið í þessari kenningu er að þetta tákni  í raun sigur tækniþróunarinnar. Að tæknin þróist í þá átt sem er best og hagkvæmast fyrir okkur mannfólkið og að sú þróun eigi sér stað áður  en við lendum í verulegum vandræðum með núverandi tækni. Samdráttur í olíuframleiðslu muni sem sagt hvorki leiða til efnahagshruns né hnignunar siðmenningar, heldur komi þessi samdráttur í eldsneytisnotkun til vegna t.d. sparneytnari ökutækja, meiri útbreiðslu rafmagnsbíla og -hjóla, nýrra lestarkerfa í mörgum stórborgum o.s.frv.

Það er vel þekkt að sum Evrópuríki hafa fyrir all löngu náð hámarki í eftirspurn sinni eftir olíu. Jafnvel þrátt fyrir þokkalega fólksfjölgun og efnahagsuppgang hefur notkun á fljótandi eldsneyti minnkað á síðustu árum í nokkrum löndum Evrópu - þar þurfti enga kreppu til. Danmörk er nærtækt dæmi.

En þróunin í Bandaríkjunum skiptir öllu meira máli en hjá Evrópumönnum. Bandaríkjamenn hafa um langt skeið verið hinir einu sönnu olíufíklar. Nú virðast sumir olíuspámenn telji að notkun Bandaríkjamanna á olíu og öðru fljótandi eldsneyti hafi náð hámarki. Hvernig má það vera? Bandarísku þjóðinni er enn að fjölga umtalsvert. Hlýtur þessi ofboðslega neysluþjóð ekki að þurfa meira af fljótandi eldsneyti?

Hummer_Prius_2Svarið við þeirri spurningu byggist ekki á sérstaklega djúpri speki: Kannski. Eða kannski ekki. Kannski er toppnum náð í olíuneyslu Bandaríkjamanna.

Skýringin á því að toppnum kann að vera náð í olíunotkun Bandaríkjanna felst aðallega í mikilli og góðri lyst Bandaríkjamanna á sparneytnari bílum. Og sá áhugi mun aukast ennþá meira ef olíuverð fer hækkandi. Slík umskipti frá SUV-menningunni (sem Orkubloggið vill reyndar einfaldlega kalla jeppa-menningu) myndu draga verulega úr olíunotkun í Bandaríkjunum. Þess vegna er mögulegt að notkun Bandaríkjamanna á olíu og öðru fljótandi eldsneyti hafi í reynd náð toppi.

Bandaríkjamenn nota hvorki meira né minna en um 25% af allri olíu sem framleidd er í heiminum! Samdráttur í olíunotkun þar gæti þýtt samdrátt á heimsvísu.

China_crowdEn hvað með vöxtinn í Kína og annars staðar í Asíu? Þar er miklum efnahagsuppgangi spáð á næstu árum og áratugum og langt í að bílaeign almennings í Kína verði sambærileg við það sem gerist hér í vestrinu. Hlýtur efnahagsuppgangurinn í Asíu og efling millistéttarinnar þar ekki örugglega að leiða til ennþá meiri olíunotkunar í heiminum? Erum við hvort sem er doomed út af uppganginum í Asíu?

Þetta gæti verið svo. Talsverðar líkur eru á að efnahagsuppgangur hjá Kínverjum og nágrönnum þeirra muni valda því að eftirspurn eftir fljótandi eldsneyti eigi eftir að fara langt yfir þær 85 milljón olíutunnur, sem heimurinn hefur undanfarið brennt á hverjum degi (kreppan hefur reyndar líklega minnkað eftirspurnina í ca. 83 milljón tunnur eða svo).

Á móti kemur að þróunin á ökutækjaeign í Kína verður hugsanlega allt öðru vísi en varð hér í Vestrinu. Þó svo hinir efnaðri í Kína fái sér vissulega stóra og kraftmikla bíla, þá mun hinn dæmigerði meðal-Kínverji mögulega horfa allt annað. Og olíueftirspurn af þeim sökum hugsanlega aukast mun hægar í Kína en margir hafa spáð. Jafnvel ennþá hægar en sem nemur samdrætti í olíueftirspurn Evrópu og Bandaríkjanna.

China_Electric_BikesÍ Kína er að verða sprenging í eftirspurn eftir rafmagnshjólum. Ekki mótorhjólum heldur rafmagnshjólum. Þetta hefur valdið því að orkuspáteymið hjá CERA, sem Orkubloggið hefur að sjálfsögðu áður minnst á, er nú sagt  hafa snúið við blaðinu. Skipt um skoðun. Að þeir hjá CERA „viðurkenni" nú að peak-oil sé skollið á! Eftirspurnartoppurinn vel að merkja.

Samkvæmt fréttinni þá telja þeir hjá CERA sem sagt að heildareftirspurn eftir fljótandi eldsneyti hafi náð hámarki og að það hafi gerst 2008.

cera_james_burkhard_2CERA-menn munu enn fremur nú vera komnir á þá skoðun að eldsneytisnotkun Kínverja muni ekki fara í sama farveg eins og á Vesturlöndum. Þar verði einkabíllinn ekki málið heldur muni kínverski samgöngugeirinn senn einkennast af nýrri tækni. Fyrst verði þar mikil aukning á notkun rafmagnshjóla. Og þegar svo kemur að því að kínverski fjöldinn getur tekið næsta neysluskref og stækkað við sig, verði komin ný tækni sem muni ekki kalla á fljótandi jarðefnaeldsneyti.

Þetta þýðir þó ekki að CERA búist við lækkandi eða stöðugu olíuverði. Öðru nær. Ljúflingarnir þar á bæ, með eldsneytis-spámanninn unga James Burkhard  í fararbroddi, telja skv. fréttinni nánast öruggt að eftir 3-5 ár verði gríðarlegar hækkanir á olíuverði. Jafnvel þrátt fyrir minnkandi heimseftirspurn. Framleiðslan muni einfaldlega ekki ráða við það að mæta framboðinu og það muni þrýsta verðinu upp. Ekki aðeins í skyndilegri og tímabundinni stíflu heldur til langframa.

CERA_Peak_Oil_slide_2009Umrædd skoðun CERA kom fram í kynningu áðurnefnds James Burkhard á samgönguráðstefnu, sem fór fram hjá Center for Strategic and International Studies (CSIS) vestur í Washington DC. Þessi slæda Burkhard's frá kynningunni sýnir reyndar einungis eftirspurnina í Bandaríkjunum, en af upptöku af fundinum má vera augljóst að Burkhard telur hámarkseftirspurn einnig vera náð á heimsvísu. Það að CERA-menn séu komnir á þessa línu eru talsverð tíðindi.

Þetta er vissulega bara skoðun eins manns og skiptir svo sem engu. Og hafa ber í huga að ljúflingarnir hjá CERA eru ekki óskeikulir frekar en aðrir menn. Til samanburðar mætti nefna að spáteymi Alþjóða orkustofnunarinnar (IEA) telur allt stefna í að árið 2050 verði olíueftirspurnin 70% meiri en er í dag. Sem sagt enginn eftirspurnartoppur í sjónmáli þar á bæ.

Orkublogginu þykir ennþá full snemmt að gæla við það að eftirspurn eftir olíu og öðru fljótandi eldsneyti hafi náð hámarki. Við þurfum auðvitað að „aka áfram" aðeins lengra svo við getum fullvissað okkur um þetta í baksýnisspeglinum. En Orkubloggið er engu að síður sammála því að olíuvinnslan er víða að verða ansið dýr. Þess vegna er svo sannarlega tímabært að við förum að draga úr olíunotkun og halla okkur í auknum mæli að öðrum orkugjöfum.

Biofuels_PumpFjölmargir hvatar leggjast á eitt að flýta þessari þróun. Dýrari olíuvinnsla, kolefnisskattar og umhverfissjónarmið. Enn er þó langt í land með að ný tækni leysi olíu af hólmi sem eldsneyti í samgöngugeiranum. Þess vegna verðum við öll á valdi olíunnar enn um sinn. Hugsanlega mun lengur en við kærum okkur um.

En það skemmtilega er að þessi þróun veitir Íslendingum ný tækifæri. Ef olíuverð helst áfram hátt verður hagkvæmt fyrir ríki með mikla endurnýjanlega orku, að framleiða hráolíu úr lífmassa. Þessi áhugaverða tækni til framleiðslu á vistvænu, hagkvæmu og orkuríku eldsneyti, sem getur leyst hefðbundið bensín, díselolíu og flugvélabensín af hólmi, kann brátt að að verða raunhæfur kostur í eldsneytisframleiðslu. Þá gæti Ísland orðið fyrsta landið í heiminum til að fullnægja allri sinni orkueftirspurn með vistvænni og endurnýjanlegri orkuframleiðslu.


Krókur á móti Beaty?

Svo virðist Steingrímur J. Sigfússon hafi nú kyngt því að eignarhlutur Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku  fari til Ross Beaty og Magma Energy. En hafi jafnframt teflt nettan gambít gegn Beaty og tryggt ríkinu meirihlutann í fyrirtækinu.

RioTintoAlcan_LogoEkki er ólíklegt að Magma Energy vilji eignast ráðandi hlut í HS Orku. Það væri í samræmi við aðrar fjárfestingar Magma í jarðhitaverkefnum í löndum eins og Argentínu, Perú og Bandaríkjunum.

Steingrímur veit að ef Magma eignast ráðandi hlut í HS Orku gæti hann vaknað einn daginn upp við það að t.d. málmarisinn Rio Tinto Alcan eða bandaríska Century Aluminum  væri orðið eigandi að HS Orku. Áliðnaðurinn ægilegi gæti jú keypt eignarhlut Magma og þar með eignast eitt stærsta orkufyrirtæki á Íslandi.

Þetta gæti að sjálfsögðu gerst. Þannig gerast kaupin á eyrinni. Þetta veit Steingrímur og er líklega ekkert alltof spenntur fyrir að þetta gerist. Þess vegna er hann eflaust búinn að róa öllum árum að því að ríkisbankarnir geti tryggt ríkinu meirihlutann í HS Orku - með því að ríkisbankarnir yfirtaki eignir Geysis Green Energy.

Miðað við nýjustu fréttir  virðist sem þetta verði niðurstaðan. Og skv. þessari frétt  eru ríkisbankarnir (eða öllu heldur ríkisstjórnin) bersýnilega að skipa GGE að selja hlut sinn til innlendra aðila. Líklega skiptir hér minnstu hver er tilbúinn að borga hæst verð fyrir hlut GGE í HS Orku. Bara að það séu ekki erlendir peningar.

Til að bjarga HS Orku mun væntanlega þurfa að auka hlutafé fyrirtækisins verulega. Nú er stóra spurningin hvort Steingrímur hafi áttað sig á því að ríkinu (og eftir atvikum einnig lífeyrissjóðunum) mun sennilega reynast mun erfiðara að fjármagna slíka hlutafjáraukningu heldur en Magma. Þess vegna gæti Magma Energy hugsanlega náð meirihluta í fyrirtækinu - þrátt fyrir úthugsað bragð Steingríms um að yfirtaka GGE.

Statkraft_logoKannski er Steingrímur búinn að hafa samband við norsku vini sína. Orkubloggið hefur reyndar ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að áhugavert gæti verið að fá norska ríkisorkufyrirtækið Statkraft sem meðeiganda að íslensku orkufyrirtækjunum. Þetta hefur orðið mönnum tilefni til að spyrja bloggarann hvort Norðmenn séu eitthvað betri en Kanadamenn?

Svar Orkubloggsins við þeirri spurningu er auðvitað blákalt nei. Norðmenn eru auðvitað hvorki betri né verri en Kanadamenn. Sennilega er Magma mun hæfari eigandi að HS Orku - Statkraft hefur enga reynslu í jarðhita. Þessi hugmynd bloggsins um aðkomu Statkraft er eingöngu til komin af því að íslenska þjóðin sé líklegri til að sætta sig við þá hjá Statkraft - eða aðra norræna frændur okkar - sem eiganda mikilvægs fyrirtækis í íslenskum orkuiðnaði. Þar að auki yrði hugsanlega auðveldara að fá Norðmenn til að fallast á að HS Orka verði ekki selt öðrum nema með samþykki íslenska ríkisins.

Magma_Energy_homepageÞetta gæti sem sagt orðið eins konar sáttaleið fyrir þjóðina; að fá erlendan fjárfesti að íslenskri orku án þess að ríkið missi algjörleg forræði á viðkomandi fyrirtæki. Hvort slík leið er eitthvað betri eða verri viðskiptalega en að t.d. að Magma Energy eignist HS Orku er svo allt annar handleggur.

En það sem kannski skiptir meira máli, er að ríkisstjórnin virðist reyna allt sem hún getur til að gjöreyða innkomu Ross Beaty inn í íslenskt atvinnulíf. Er það í alvöru skynsamlegt að hrekja slíka menn burtu frá Íslandi nú þegar krónan er sama sem ónýt og aukið atvinnuleysi er yfirvofandi?


Olíulindir Salómons konungs

Enn eru Evrópumenn í fjársjóðsleit í Afríku. Og enn er miklu kostað til í því skyni að komast í fjársjóðinn. Hvorki réttlætið né samviskan eru látin standa í vegi fyrir því að Vesturlönd geti svalað þorsta sínum eftir olíu og gasi.

Lockerbie_flight_2Stutt er síðan bresk dómsmálayfirvöld ákváðu að sleppa Líbýumanninum Abdelbaset Al Megrahi, sem dæmdur hafði verið fyrir að sprengja risaþotu Pan Am hátt yfir Skotlandi þann 21. desember 1988. Þar fórust alls 270 manneskjur. Margir munu hafa látist nær samstundis við sprenginguna, þegar loftþrýstingurinn féll svo snögglega að fólk sogaðist út og lungu þess féllu saman. Aftur á móti er talið að þeir sem voru með öryggisbeltin spennt hafi margir hverjir rankað við sér þegar þeir hröpuðu niður og súrefnið jókst. Fólk á jörðu niðri vitnaði meira að segja um að einhverjir hefðu verið með lífmarki eftir að hafa skollið á jörðinni eftir rúmlega 10 km fall. Fullorðnir og börn lágu eins og hráviði á við og dreif þar sem þau féllu niður við skoska bæinn Lockerbie. Rannsóknarskýrslurnar eru vægast sagt óhugarleg lesning.

Al Megrahi  var framseldur frá Líbýu 1999 í kjölfar viðskiptabanns sem var á góðri leið með að senda Líbýumenn aftur á steinöld. Hann var dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir aðild sína að tilræðinu. En fyrir örfáum vikum var Al Megrahi skyndilega látinn laus af mannúðarástæðum (compassionate grounds). Var sagður dauðvona af krabbameini. Það er svo væntanlega bara rosaleg tilviljun að um sama leyti gekk Líbýustjórn frá risastórum olíu- og gasvinnslusamningum við bæði breska BP og bresk-hollenska Shell.

UK_OIL_1970-2020Bretum er kannski vorkunn. Gamla stórveldið er á brauðfótum. Olían þeirra og gasið í Norðursjó er á hraðri niðurleið og ekki verður gaman að þurfa að stunda olíu- og gaskapphlaup í framtíðinni við Kína, Bandaríkin, Þýskaland, Ítalíu, Indland...

Með samningi Líbýu við Shell er tryggt að næstu árin munu tanksskip streyma í röðum frá gamla fiskiþorpinu Brega  á Miðjarðarhafsströnd Líbýu, hlaðin fljótandi gasi. Gasið kemur úr risalindunum Marsa el-Brega á hinu ævintýralega Sirte-svæði og er ætlað að vera hlekkur í framtíðarorkukeðju Bretlandseyja og knýja breskt efnahagslíf.

Búist er við að Shell muni setja 20 milljarða dollara í svæðið á næstu árum og fá afar góðan arð af þeirri ljúfu fjárfestingu. Þessi niðurstaða fær auðvitað „snillingana" í bæði Whitehall og City til að brosa út að eyrum. Enda mikilvægt að gamla breska ljónið geti ornað sér á elliheimilinu þegar ævafornar stórveldisminningarnar eru ekki nóg til að halda hita á kvikyndinu.

Gaddafi_uniform_Rome_June_2009Þessi samningur Shell við Gaddafi  hershöfðingja og félaga hans er ekki eini risasamningurinn sem gerir Bretana káta þessa dagana. Einnig BP var að ganga frá æpandi olíusamningi við Líbýumenn. Blekið á þeim snotra samningi var varla þornað á pappírnum þegar líbýski sprengjumaðurinn lenti heima í Trípólí.

Risalindirnar sem BP fær nú aðgang að eru líka á Sirte-svæðinu  í nágrenni hafnarborgarinnar Bengazi í norðanverðri Líbýu. Þaðan liggja lindirnar bæði úti á landgrunninu og langt inn undir fastalandið og af nógu að taka. Þetta verður einhver allra stærsta fjárfesting BP og þeir Tony Hayward  (forstjóri BP) og félagar eru strax stokknir berfættir útí sjóinn skríkjandi af kæti - enda sandurinn 50 stiga heitur.

Það er sem sagt búið að tryggja að líbýskt gas og líbýsk olía flæði hindrunarlaust til hins gamla stórveldis Betu Bretadrottningar næstu árin og jafnvel áratugina. Hvað Gaddafi og kumpánar hans ætla að gera við aurana veit enginn - nema kannski þeir sem taka við pöntunum í nýjar herflugvélar og eldflaugakerfi. Þó aldrei að vita nema líbýska þjóðin fái að njóta góðs af. Ekki veitir af; atvinnuleysi í Líbýu er hroðalegt (meira en 20%) og líbýskur almenningur almennt þjáður af verulegri fátækt. Þó svo ofsalegar olíulindir Líbýu ættu auðveldlega að geta gert þessar 6,5 milljónir íbúa að einhverri efnuðustu þjóð veraldar.

Africa_Oil_Reserves_2009Sem kunnugt er, varð Obama ekki par kátur þegar hann og aðrir í Washington DC fréttu af lausn sprengjumannsins frá Líbýu. Enda fórust 190 Bandaríkjamenn þegar þotan sprakk 31 þúsund fetum yfir Lockerbie, í þann mund sem hún var að beygja til vesturs í átt til New York. Reyndar kann raunveruleg ástæða fyrir megnri óánægju bandarískra stjórnvalda að vera af allt öðrum toga en minning fórnarlamba Flugs 103. Það er nefnilega svo að gaslindirnar við Marsa el-Brega voru i höndum bandarískra olíufélaga allan 7. og 8. áratuginn. Þegar Gaddafi hrifsaði völdin 1969 var hann snöggur að þjóðnýta olíuiðnaðinn í landinu og upp úr því misstu bandarísku félögin hverja lindina af fætur annarri.

Libya_Sirte_basinÞetta hefur ExxonMobil og félögum þótt heldur súrt, enda eru Sirte-lindirnar meðal hinna stærstu í heiminum. Þær eru sagðar hafa að geyma meira en 40 milljarða tunna af sannreyndri olíu (proven reserves)! Til samanburðar er áætlað að sambærilegt magn í gjörvöllum Bandaríkjunum sé einungis sem nemur helmingi af þessu. Það var því ekkert sérstaklega skemmtilegt fyrir bandarísku félögin að sjá hin evrópsku Shell og BP tryggja sér aðganginn að Sirte. Það svíður enn meira að hugsa til þess að þarna er hægt að skella borpöllum rétt utan við ströndina á sáralitlu dýpi - gumsið er bæði mikið OG aðgengilegt.

Svona risasamningar verða auðvitað ekki til bara upp úr þurru. Bæði Shell og BP hafa staðið í stífum samningaviðræðum við Líbýumenn síðustu 4-5 árin. Reyndar er talað um að heilinn á bak við dílinn sé „félagið" Blair Petroleum. Það er nefnilega sjarmörinn Tony Blair  sem á stærsta heiðurinn af því að samningarnir tókust. Hann hefur verið óþreytandi við að taka flugstrætóinn til Trípólí og setið þar langdvölum í bedúínatjaldinu hjá Gaddafi. Blaðrandi, brosandi og smjaðrandi.

Blair_Gaddafi_1Bæði stjórnendur Shell og BP hljóta að vera stráknum Tony ævarandi þakklátir fyrir þennan ljúfa greiða. Sem hefur líklega tryggt þeim öllum dágóðan kaupauka til framtíðar. Í huga annarra eru þeir silfurpeningar litaðir blóði fólksins sem fórst með Pan Am risaþotunni.

Þetta er kannski ekkert undarleg forgangsröðum hjá breskum stjórnvöldum. Allt í veröld okkar er drifið áfram af olíu. Eins og Andri Snær minnti okkur vel á í fyrrakvöld í hinum stórgóða þætti; Kiljunni. Olían stjórnar leikriti mannkyns. Það er ekkert flóknara.


Ætti að fara niður... en fer kannski upp

Undanfarið hefur Orkubloggið ýjað að því að snögg verðlækkun á olíu kunni að vera í spilunum. Kannski.

Cartoon_economic_crisisRökin þar að baki eru einkum þau að nú séu svo miklar uppsafnaðar olíubirgðir til staðar að verðið hljóti að gefa eftir.

En nú hafa skyndilega birst blikur á lofti. Í stað þess að lækka hressilega kann olíuverð þvert á móti að æða upp. Bandaríkjastjórn virðist vera að herða á afstöðu sinni gagnvart kjarnorkuáætlun Írana. Íran er ekki aðeins einn mesti olíuframleiðandi heims, heldur liggur landið að Persaflóa og spenna á svæðinu hefur því áhrif á allan olíuiðnaðinn við Flóann. Og þar með heimsmarkaðsverð á olíu.

Það gæti því verið alröng stefna að taka upp á því núna að sjorta olíu. Þvert á móti eru sumir strax farnir að finna blóðþefinn. Samsæriskenningasmiðirnir eru margir orðnir handvissir um að bandarísk stjórnvöld ætli sér að gefa blessuðum olíufyrirtækjunum ljúfa uppsveiflu á Wall Street. Með því að bregðast harðar við ögrunum Íransforseta og draga sverðin úr slíðrum.

Iran-president-finger-2Vaxandi líkur á átökum við Írani munu samstundis þrýsta olíuverði upp á við. Og um leið myndi eftirspurn væntanlega aukast eftir hlutabréfum í vestrænu olíufyrirtækjunum. Þeir sem nú vilja leggja allt að veði með svo ljómandi glöðu geði, ættu kannski að stökkva í olíusundlaugina. Með þá von í brjósti að eftir örfáa mánuði geti þeir baðað sig í stjarnfræðilegum ágóðanum.

Ef, ef, ef... Er þetta ekki barrasta alveg yndisleg óvissuveröld?


Afleitar afleiður?

Orkubloggarinn hefur undanfarnar vikur furðað sig á miklu bjartsýnistali í fjölmiðlum um allan heim, þess efnis að kreppan hafi náð botni.

Oil_burning_familyVelta má fyrir sér hvort þetta sé einhvers konar ómeðvituð sameiginleg ákvörðun manna um að tala viðskiptalífið upp úr kreppunni. Vonandi að svo sé ekki - vonandi er kreppan í alvöru á undanhaldi. En hættumerkin eru samt víða.

Víðskiptalíf veraldar beið spennt eftir því hvað myndi gerast á G20  fundinum vestur í Pittsburgh nú í vikunni. Yrði niðurstaðan vonbrigði gætu hlutabréfavísitölurnar lent í enn einni slæmri dýfu. Og olíuverð jafnvel hrunið.

Í fjármálabransanum eru margir sem telja að núverandi eftirspurn eftir olíu gefi ekki tilefni til hærra verðs en um 35 dollara. Samt hefur tunnan verið að dansa kringum 70 dollarana. Í hópi svartsýnismanna eru sem sagt margir sem telja að olíuverðið núna sé í reynd helmingi hærra en eftirspurnin gefi tilefni til. Og að ástæðan sé óhófleg bjartsýni spákaupmanna. Sádarnir hafi hreinlega dottið í lukkupottinn að fá verðið svo hátt á ný.

derivatives_1Þeir hinir sömu eru sannfærðir um að nú sé farin að spýtast olía út á samskeytunum í öllum birgðageymslum heimsins. Allt sé orðið stútfullt og það eina sem sé framundan sé fallandi olíuverð.

Lækkandi olíuverð yrði þó ekki vandamál fyrir okkur í vestrinu. Efnahagslífið tæki því að sjálfsögðu fagnandi - þó svo Norðmenn myndu auðvitað verða svolítið súrir á svipinn. Og slíkt verðfall yrði að líkindum nokkuð fljótt að ganga yfir. Til lengri tíma litið eru líkurnar á 90 dollara olíutunnu mun meiri en minni.

Nei - olían er ekki aðal áhyggjuefni dagsins. Það sem viðskiptaforkólfar á Vesturlöndum ættu að óttast mest þessa dagana er hinn risastóri afaleiðumarkaður. Að hann lendi senn í þvílíku niðurstreymi, að hann dragi okkur öll í ennþá dýpra drullusvað. Veikustu hlekkirnir núna á afleiðumörkuðunum eru af mörgum sagðir vera annars vegar hinn risastóri markaður þar sem veðjað er á vaxtakjör og hins vegar afleiður þar sem menn veðja á gjaldmiðlasveiflur.

Derivatives_1987-2007

Afleiðumarkaðir hafa á örfáum árum þanist út með ógnarhraða. Spilapeningarnir á þessum markaði eru því miður raunverulegir peningar sem hafa að stórum hluta verið fengnir að láni. Ef illa fer getur tapið orðið geigvænlegt og gert öflug fjármálafyrirtæki gjaldþrota í einni svipan.

Nærtækasta dæmið um alvarlegar afleiðingarnar misheppnaðra afleiðuviðskipta, er hrun bandaríska tryggingarisans AIG  fyrir nánast sléttu ári síðan. Fyrirtækinu var reyndar forðað frá gjaldþroti - en til þess þurfti ríkisvaldið að leggja AIG litla 85 milljarða dollara.

Ekki er víst að dollarinn þyldi nýja holskeflu af afleiðuhruni hjá bandarískum risafyrirtækjum. Það er umhugsunarvert að stjórnvöld í Bandaríkjunum og annars staðar skuli hafa leyft þessum viðskiptum að byggjast upp í jafn gríðarlegu magni og raunin varð. Vísir menn segja að heildarmarkaðurinn fyrir afleiður sé nú um 600 þúsund milljarðar dollara (600 trilljónir dollara). Sem er margfalt verðmæti allra hlutabréfa og skuldabréfa í heiminum og ku jafngilda næstum tífaldri þjóðarframleiðslu í heiminum öllum!

cartoon_derivatives_bankruptcyAfleiður geta verið snilldar fyrirbæri og t.d. hjálpað fyrirtækjum að forðast mikla áhættu í rekstri. En segja má að hver einasti afleiðusamningur skapi nýja áhættu á móti þeirri sem er takmörkuð - og geggjað umfang afleiðuviðskipta gerir það að verkum að öll yfirsýn hefur glatast og afleiðingar þess eru ófyrirséðar.

Fjármálaáhættan sem þetta skapar er nánast út fyrir mannlegan skilning. Og kannski vafamál að leiðtogar G20 ríkjanna geti gert nokkurn skapaðan hlut til að varna því að afleiðuhamfarir skelli á okkur - fyrr eða seinna. Þó svo þeir hafi vissulega reynt að nálgast þennan vanda, sbr. það sem segir undir tölulið 13 í yfirlýsingu  fundarins. Reyndar þykir hjátrúarfullum það eflaust afleitt að afleiðuályktunin komi undir tölulið nr. 13!

Spurningin er kannski bara hvort verði fyrr; afleiðuhrunið eða skuldabréfahrunið.


Drekinn mun snúa aftur

Er þetta í alvöru rétti tíminn að bjóða út leit á Drekasvæðinu? Tæplega."

Þannig sagði í einni færslu Orkubloggsins í janúar s.l. Bloggarinn taldi lágt olíuverð geta valdið áhugaleysi á Drekasvæðinu. Þó svo verðið hafi hækkað nú í sumar er samt ennþá mikil óvissa á markaðnum, þ.a. þessi röksemd er enn ekki orðin marklaus. Í febrúar bætti Orkubloggið um betur og varaði við því að fjármálakreppa væri afleitur tími fyrir slíkt útboð. Þar að auki væru óraunsæjar skattareglur í íslensku útboðsskilmálunum mögulega til þess fallnar að draga úr áhuga öflugra olíuleitarfyrirtækja á svæðinu. Sem sagt væri margt sem mælti með því að slá útboðinu á frest.

Aker_Sagex_logoSvo fór að einungis tvær umsóknir um leitarleyfi á Drekasvæðinu bárust áður en umsóknarfresturinn rann út í maí. Báðar frá minni spámönnum úr bransanum. Þegar það lá fyrir benti  Orkubloggið á að hvorugur umsækjendanna gæti talist áhugaverður. Og óneitanlega fylltist bloggarinn talsverðri kjánatilfinningu þegar iðnaðarráðherra lýsti  yfir ánægju sinni með niðurstöðuna og talaði um „stóran dag í íslenskri orkusögu". Þegar öllum sem til þekktu mátti vera ljóst að niðurstaða útboðsins var einfaldlega gríðarleg vonbrigði. En kannski var henni Katrínu Júlíusdóttur vorkunn; svona eiga pólitíkusar líklega að tala og fylla fólk bjartsýni á erfiðum tímum. Sannleikurinn er oft óttalega leiðinlegur.

Í sumar dró annar umsækjandinn umsókn sína til baka. Það var því miður áhugaverðari umsækjandinn; Aker Exploration. Og hefur hinn umsækjandinn sömuleiðis dregið sína umsókn til baka. Það var reyndar alltaf augljóst að Sagex  hefði vart nokkra burði til að fara í raunverulega olíuleit á Drekasvæðinu nema með aðkomu öflugra samstarfsaðila. Umsókn þeirra hjá Sagex var því frá upphafi afar veik og hefði væntanlega verið hafnað.

Áhugaleysið á Drekasvæðinu er m.a. komið til vegna alls þess sem Orkubloggarinn hafði varað við. Of háir skattar, erfitt árferði í að fjármagna leit á nýjum og áhættusömum olíusvæðum og óvenjumikil óvissa um þróun olíuverðs. Af samtölum sínum við hátt sett fólk hjá nokkrum öflugustu olíufyrirtækjum heims í djúpvinnslubransanum, verður bloggarinn þó að bæta hér einni ástæðu við: Allt of lítilli kynningu á Drekasvæðinu.

DrekasvaedidÁ allra síðustu árum hafa opnast möguleikar til olíuleitar á mörgum nýjum og mjög áhugaverðum olíusvæðum. Drekasvæðið er nýtt og lítt þekkt og er í samkeppni við ýmis önnur svæði þar sem leitaráhættan er mun minni og líkur á góðum ávinningi miklu meiri. Þar má t.d. nefna olíusvæðin utan við strendur Angóla og víðar við Vestur-Afríku, svæði í Kaspíahafi og í utanverðum Mexíkóflóa.

Til að vekja áhuga alvöru fyrirtækja í djúpvinnslubransanum þarf einfaldlega miklu meiri og betri kynningu á svæðinu. Stjórnvöld verða að horfast í augu við það að slíkt er bæði tímafrekt og kostar peninga. Það er út í hött að halda að menn geti fengið fyrirtæki til að leggja milljarða í olíuleit á Drekanum með nokkrum power-point kynningum á fáeinum olíuleitarráðstefnum. Þetta er erfið þolinmæðisvinna.

Hugsanlega hafa menn hér heima blindast af góðærinu, þegar þeir voru að undirbúa Drekaútboðið. Og haldið að Drekinn væri í augum allra æsispennandi - beztur í heimi - ekki síst þegar olíuverð rauk í næstum 150 dollara um mitt ár 2008.

Hvað um það. Verum ekki að nöldra yfir fortíðinni. Enda fyllsta ástæða til að brosa. Það er í reynd miklu betri niðurstaða að ekkert leitarleyfi sé gefið út á Drekasvæðinu, heldur en að gefa út leyfi til fyrirtækis sem myndi klúðra leitinni. Það hefði verið versta niðurstaðan.

Katrin_Juliusdottir_2Nú geta iðnaðarráðherra og Orkustofnun stokkað spilin upp á nýtt og horft björtum augum fram á veginn. Lært af reynslunni og undirbúið ennþá vandaðra útboð. Útboð sem mun skila alvöru umsækjendum, sem hafa mikla reynslu af olíuleit og vinnslu á erfiðum og djúpum hafsvæðum.

Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld m.a. að gæta þess að tímasetja útboðið vel. Þarna þarf bæði þekkingu og útsjónarsemi. Skynsamasti kosturinn væri auðvitað að ráða Orkubloggarann til að skipuleggja það ferli!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband