Orkustefnan

Orkubloggaranum þykir Ísland einfaldlega langbezt í heimi. En eitt er það í sambandi við Ísland sem fer lauflétt í taugarnar á bloggaranum. Það er of-eða-van árátta þjóðarinnar.

Alcoa_ValgerðurDæmi er umræðan um virkjana- og stóriðjumál. Fólk virðist ýmist vilja virkja allt sem unnt er að virkja og helst fá risaálver í hvern fjörð og hverja vík - eða berjast af miklu afli gegn öllum slíkum áformum og jafnvel telja jarðvarmann hið versta mál og gott ef ekki bæði baneitraðan og mengunarspúandi.

Þetta eru hinir tveir andstæðu og háværu pólar virkjunarumræðunnar. Orkubloggaranum þykja bæði þessi sjónarmið hreint fráleit. Reyndar grunar bloggarann að ýmsir séu í reynd á sömu eða svipaðri skoðun og hann sjálfur: Að nýta beri orkulindir landsins af eins mikilli hagkvæmni og mögulegt er og gæta þess að orkulindirnar stuðli bæði að góðri arðsemi og sem mestri fjölbreytni í atvinnulífinu. Og að um leið verði farið gætilega gagnvart náttúrunni og virkjunum haldið frá svæðum sem búa yfir einstæðu umhverfi og/eða mikilli náttúrufegurð.

Orkubloggarinn er tortrygginn á þá stóriðjustefnu sem hér hefur lengi ríkt. Þetta hefur ýmist verið hreinræktuð byggðastefna eða skammtímalausn í efnahagsmálum. Stefnan virðist lítið hafa með arðbæran bissness að gera og þar hefur nánast eingöngu verið fókuserað á áliðnað.

Orkuverd_utsala_2Þar að auki hefur upplýsingum um arðsemi orkuvinnslunnar verið haldið leyndum. Og arðsemisútreikningar Landsvirkjunar miðast við að ríkið afhendir fyrirtækinu virkjanaréttindin án endurgjalds. Í stað þess að þessi réttindi ættu auðvitað að vera verðmetin til fulls og metin að raunvirði sem hlutafé greitt inn í Landsvirkjun.

Sömuleiðis vantar líka að verðmeta umhverfistjón af völdum virkjananna þegar arðsemin er metin. Dæmið hefur sem sagt aldrei verið reiknað til fulls. Í þessu ljósi ætti Landsvirkjun auðveldlega að vera stöndugasta fyrirtæki landsins. Þess í stað berst Landsvirkjun nú í bökkum með að greiða afborganir af lánum sínum og sú ógn vofir yfir að fyrirtækið lendi í greiðsluþroti. Þetta er sú furðulega og nöturlega staðreynd sem blasir við núna þegar núverandi forstjóri kveður Landsvirkjun. Ríkisstyrkt apparat í þröngri stöðu.

Í huga Orkubloggarans er áliðnaður orðinn háskalega stór hluti af íslensku efnahagslífi. Þröngsýn stóriðjustefna stjórnvalda hefur gert íslenskt atvinnulíf einhæfara en nokkru sinni. Þessu er orðið tímabært að breyta.

Engin önnur þjóð á hlutfallslega jafn miklar endurnýjanlegar orkulindir eins og við Íslendingar. Nú á tímum æ dýrari olíuvinnslu og sífellt meiri umræðu um nauðsyn þess að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, ættu þessar auðlindir að geta skilað okkur miklu meiri arði en þær hafa gert.

Solarlag_IslandOrkubloggið gerir þá kröfu til Alþingismanna, ríkisstjórnar og stjórnvalda að marka sér nýja, skýra og framsýna virkjanastefnu sem skili þjóðinni bæði miklum arði og fjölbreyttara atvinnulífi. Og að sú stefna gæti í ríkum mæli að umhverfinu og hafi varúð að leiðarljósi. Og að ráðherrar geti ekki snúið niðurstöðu faglegs umhverfismats eða skipulags eftir því hvernig pólitískir vindar blása - hvort sem þeir heita Siv eða Svanhvít.

Stóriðjustefna íslenskra stjórnvalda síðustu 30 árin hefur alls ekki skilað nógu góðum árangri og verið alltof einhæf. Hér þarf að verða alger hugarfarsbreyting hjá stjórnvöldum í orkumálum, þar sem langtímahagsmunir þjóðarinnar allrar í víðum skilningi verða ávallt hafðir í hávegum. Til að svo meigi verða þarf að taka möguleikana til heildarskoðunar, greina tækifærin ítarlega, af nákvæmni og raunsæi og horfa til framtíðar. Tækifæri okkar hafa aldrei verið jafn góð eins og nú, þegar veröldin þráir meiri endurnýjanlega orku og umræðan um gróðurhúsaáhrif er til að auka enn meira vindinn í segl Íslands. Það eina sem þarf er ný hugsun í orkumálum Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Ekki annað hægt en að vera hjartanlega sammála því sem þú setur hérna fram, eða eins og ég hef verið að reyna að halda fram: Vandfundin er sú þjóð sem rekur velferðarsamfélag og ekki lifir af landi sínu, það þýðir hins vegar ekki að það megi gera hvernig sem er. Öfgarnar í sitt hvora áttina er það sem þarf að forðast, en líklega þurfa þeir samt að koma fram þó ekki sé nema til þess að meðalhófið sé finnanlegt.

Ingimundur Bergmann, 5.10.2009 kl. 08:36

2 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Það sem alltaf vantar þegar byrjað er að tala um virkjanir og aðrar framkvæmdir er að skilgreina hvers vegna menn vilja fara út í framkvæmdir og ef menn eru sáttir við markmiðið að halda sig þá við það.

Yfirlýstur tilgangur Kárahnjúkavirkjunar var að skapa störf á Austurlandi.

Gott mál.

En það var slæm fjárfesting að fjárfesta 640 milljónir í hverju starfi. 260 milljarðar / 389 störf

Ef tilgangurinn var að skapa störf þá átti að halda sig við það, og einbeita sér að því að skapa hagkvæm störf.

Núna er verið að tala um að byggja tvö stór álver í viðbót og skrapa orkuna upp hingað og þangað. Mér sýnist allt benda til þess að kostnaðurinn við hvert starf í þessum tveimur Álverum verið ennþá hærri.

Þetta er svo ótrúlega vitlaust að maður trúir því varla, að menn séu að tala umm þetta í alvöru.

Vissulega verður voða gaman á framkvæmda tímanum, nóg að gera, margir pólverjar í vinnu o.s.frv.

En svo þarf að borga reikninginn. Orkufyrirtækin, sem selja orkuna á útsölu, virðast ekki geta borgað hann, svo almenningur verður væntanlega að gera það.

Þetta var einu sinni kallað að míga í skóinn sinn.

Sigurjón Jónsson, 5.10.2009 kl. 09:44

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég er sammála orkubloggaranum og tek undir áskorun hans til alþingis og annara ráðamanna að vinna nú þegar að samræmdri orkustefnu og gera breytingar á lögum sem tryggi að nýtingarréttur sé aðeins í höndum Íslendinga

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.10.2009 kl. 17:42

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þegar menn kvarta undan skorti á orkustefnu, er viðkvæði stjórnvalda jafnan það sama: Að það sé verið að vinna Rammaáætlunina og því verði að ljúka til að forsendurnar séu ljósar. Þá verði unnt að móta voða fína og heildstæða orkustefnu.

Það er sem sagt þannig að þjóðin þarf að bíða eftir Rammaáætluninni og því hvað gert verður við hana - en stjórnvöld þurfa ekkert að bíða eftir þessu og leyfa virkjanir hingað og þangað þó svo Rammaáætlunin sé ekki tilbúin.

Þetta vinnuplan er rugl.

Ketill Sigurjónsson, 5.10.2009 kl. 17:55

5 identicon

Oft hef ég lesið bloggið þitt með miklum áhuga. En nú verð ég að melda algjört samþykki. Sé spurt hvað stefnu menn hafa fylgt þá er ekki úr vegi að skoða þetta hérna "Lowest energy prices!!"

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 23:58

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

http://deiglan.com/index.php?itemid=12897

Húrra fyrir auðlinda- og umhverfissköttum

Jón Steinsson þann 08.10.09

...

Enn er ekki ljóst nákvæmlega hvers eðlis þær skattahækkanir verða sem eiga að auka tekjur ríkissjóðs um 60 ma.kr á næsta ári. Það er þó mikið fagnaðarefni að ríkisstjórnin stefnir að því að afla hluta af þessum tekjum með auðlinda- og umhverfissköttum. Þó fyrr hefði verið.

Stór hluti af tekjum margra ríkja koma í gegnum auðlindagjöld/skatta af sameiginlegum náttúruauðlindum (aðallega olíu). Ísland er líklega það land í heiminum sem býr yfir mestum náttúruauðlindum miðað við höfðatölu. En á Íslandi hafa skattgreiðendur ekki notið góðs af þessum sameiginlegu auðlindum svo neinu nemur. Þær hafa þess í stað verið afhentar án endurgjalds (í tilfelli fiskistofnanna) eða seldar með afslætti til erlendra álfyrirtækja (í tilfelli orkunnar). Það er tími til kominn að slíkt breytist.

Auðlindagjöld og umhverfisskattar hafa mikilvæga kosti fram yfir hefðbundna skatta. Hefðbundin skattlagning er vinnuletjandi. Hún dregur því þrótt úr hagkerfinu. Auðlindagjöld ef rétt útfærð eru þess í stað eðlilegt leiguverð fyrir afnot af sameiginlegri auðlind. Rétt eins og ef við Íslendingar ættum sameiginlega gríðarmikið af íbúðum í New York, leigðum þær út og lækkuðum skatta á móti. Umhverfisskattar eru enn betri. Þeir skapa tekjur og draga úr útblæstri sem er hvort tveggja af hinu góða.

Ketill Sigurjónsson, 8.10.2009 kl. 10:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband