Afleitar afleiður?

Orkubloggarinn hefur undanfarnar vikur furðað sig á miklu bjartsýnistali í fjölmiðlum um allan heim, þess efnis að kreppan hafi náð botni.

Oil_burning_familyVelta má fyrir sér hvort þetta sé einhvers konar ómeðvituð sameiginleg ákvörðun manna um að tala viðskiptalífið upp úr kreppunni. Vonandi að svo sé ekki - vonandi er kreppan í alvöru á undanhaldi. En hættumerkin eru samt víða.

Víðskiptalíf veraldar beið spennt eftir því hvað myndi gerast á G20  fundinum vestur í Pittsburgh nú í vikunni. Yrði niðurstaðan vonbrigði gætu hlutabréfavísitölurnar lent í enn einni slæmri dýfu. Og olíuverð jafnvel hrunið.

Í fjármálabransanum eru margir sem telja að núverandi eftirspurn eftir olíu gefi ekki tilefni til hærra verðs en um 35 dollara. Samt hefur tunnan verið að dansa kringum 70 dollarana. Í hópi svartsýnismanna eru sem sagt margir sem telja að olíuverðið núna sé í reynd helmingi hærra en eftirspurnin gefi tilefni til. Og að ástæðan sé óhófleg bjartsýni spákaupmanna. Sádarnir hafi hreinlega dottið í lukkupottinn að fá verðið svo hátt á ný.

derivatives_1Þeir hinir sömu eru sannfærðir um að nú sé farin að spýtast olía út á samskeytunum í öllum birgðageymslum heimsins. Allt sé orðið stútfullt og það eina sem sé framundan sé fallandi olíuverð.

Lækkandi olíuverð yrði þó ekki vandamál fyrir okkur í vestrinu. Efnahagslífið tæki því að sjálfsögðu fagnandi - þó svo Norðmenn myndu auðvitað verða svolítið súrir á svipinn. Og slíkt verðfall yrði að líkindum nokkuð fljótt að ganga yfir. Til lengri tíma litið eru líkurnar á 90 dollara olíutunnu mun meiri en minni.

Nei - olían er ekki aðal áhyggjuefni dagsins. Það sem viðskiptaforkólfar á Vesturlöndum ættu að óttast mest þessa dagana er hinn risastóri afaleiðumarkaður. Að hann lendi senn í þvílíku niðurstreymi, að hann dragi okkur öll í ennþá dýpra drullusvað. Veikustu hlekkirnir núna á afleiðumörkuðunum eru af mörgum sagðir vera annars vegar hinn risastóri markaður þar sem veðjað er á vaxtakjör og hins vegar afleiður þar sem menn veðja á gjaldmiðlasveiflur.

Derivatives_1987-2007

Afleiðumarkaðir hafa á örfáum árum þanist út með ógnarhraða. Spilapeningarnir á þessum markaði eru því miður raunverulegir peningar sem hafa að stórum hluta verið fengnir að láni. Ef illa fer getur tapið orðið geigvænlegt og gert öflug fjármálafyrirtæki gjaldþrota í einni svipan.

Nærtækasta dæmið um alvarlegar afleiðingarnar misheppnaðra afleiðuviðskipta, er hrun bandaríska tryggingarisans AIG  fyrir nánast sléttu ári síðan. Fyrirtækinu var reyndar forðað frá gjaldþroti - en til þess þurfti ríkisvaldið að leggja AIG litla 85 milljarða dollara.

Ekki er víst að dollarinn þyldi nýja holskeflu af afleiðuhruni hjá bandarískum risafyrirtækjum. Það er umhugsunarvert að stjórnvöld í Bandaríkjunum og annars staðar skuli hafa leyft þessum viðskiptum að byggjast upp í jafn gríðarlegu magni og raunin varð. Vísir menn segja að heildarmarkaðurinn fyrir afleiður sé nú um 600 þúsund milljarðar dollara (600 trilljónir dollara). Sem er margfalt verðmæti allra hlutabréfa og skuldabréfa í heiminum og ku jafngilda næstum tífaldri þjóðarframleiðslu í heiminum öllum!

cartoon_derivatives_bankruptcyAfleiður geta verið snilldar fyrirbæri og t.d. hjálpað fyrirtækjum að forðast mikla áhættu í rekstri. En segja má að hver einasti afleiðusamningur skapi nýja áhættu á móti þeirri sem er takmörkuð - og geggjað umfang afleiðuviðskipta gerir það að verkum að öll yfirsýn hefur glatast og afleiðingar þess eru ófyrirséðar.

Fjármálaáhættan sem þetta skapar er nánast út fyrir mannlegan skilning. Og kannski vafamál að leiðtogar G20 ríkjanna geti gert nokkurn skapaðan hlut til að varna því að afleiðuhamfarir skelli á okkur - fyrr eða seinna. Þó svo þeir hafi vissulega reynt að nálgast þennan vanda, sbr. það sem segir undir tölulið 13 í yfirlýsingu  fundarins. Reyndar þykir hjátrúarfullum það eflaust afleitt að afleiðuályktunin komi undir tölulið nr. 13!

Spurningin er kannski bara hvort verði fyrr; afleiðuhrunið eða skuldabréfahrunið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þessi athugasemd barst mér í tölvupósti:

"Sæll Ketill!

Ég sá mjög áhugaverða færslu hjá þér á orkublogginu um afleiðubóluna. Þetta er sérstakt viðfangsefni hjá Webster Tarpley sem er nú staddur hér á landi og verður í Silfri Egils í dag. Endulega horfðu á það og mættu svo á fyrirlestra hans næstu fjögur kvöld kl. 20:00 uppí Reykjavíkurakademíu. Í fyrsta erindi hans á mánudaginn fjallar hann um efnahagslausnir fyrir Ísland og á þriðjudaginn um efnahagsástand heimsins (þá einkum afleiðubóluna). Næstu tveir verða svo um Obama stjórnina, sá síðari verður í Friðarhúsinu á Njálsgötu.

Endilega láttu fólk vita sem hefur áhuga á þessum málum.

Kær kveðja..."

Ketill Sigurjónsson, 27.9.2009 kl. 12:11

2 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Afleiðingarnar af þessu afleiðum er það að það sekkur allt dýpra í rugli sem enginn ræður við. Það eru afleiðurnar og afleiðingarnar.

Í dag erum við sokkin og núna ári eftir slysið þá veit enginn enn hvað á að gera eða hvernig eigi að bjarga skútunni, hvað þá fólkinu sem sökk með okkar ágætu þjóðarskútu.

Okkur vantar nýjar lausnir - engar galdralausnir

http://siggisig.blog.is/blog/siggisig/

Sigurður Sigurðsson, 27.9.2009 kl. 18:04

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Hér koma önnur skilaboð. sem mér bárust í tölvupósti. Og mér er ljúft að birta hér, þó svo mér þyki Tarpley stundum nokkuð stórtækur í samsæriskenningum sínum:

-----------------------------------

Til áhugafólks um alþjóða- og efnahagsmál (áframsendið)!

Bandaríski sagnfræðingurinn Webster Tarpley mun halda fyrirlestraröð 28. september - 1. október um alþjóða- og efnahagsmál auk þess að kynna sérstaka áætlun fyrir Ísland (drög fylgja í þessum pósti). Hann var í Silfri Egils í gær og er hægt að sjá viðtalið á eftirfarandi slóð:
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/streymi/4472535/4/


Dagskráin er sem hér segir:

------------------------------------------------------------------------------

Mán. kl. 20:00 - Reykjavíkuradademía, Hringbraut 121 (JL-húsið:
EFNAHAGSÁÆTLUN FYRIR ÍSLAND
Hvernig á að leysa efnahagsvandann?
Er raunhæft að Ísland greiði áfram sínar skuldir?
Hvað á að gera varðandi AGS og ESB?
Hvar liggja framtíðarmöguleikar Íslands?

Mán. kl. 20:00 - Reykjavíkuradademía, Hringbraut 121 (JL-húsið:
NÆSTA HRINA HEIMSKREPPUNNAR - AFLEIÐUBÓLAN OG FALL DOLLARSINS
Botninum er alls ekki náð
Yfirvofandi fall dollarsins
Enn frekara efnahagshrun vegna gríðarlegra afleiðuviðskipta (25-föld heimsframleiðsla)
Orsakir og afleiðingar efnahagshrunsins
Raunveruleg úrræði til þess að berjast gegn kreppunni

Mán. kl. 20:00 - Reykjavíkuradademía, Hringbraut 121 (JL-húsið:
DÖKKAR HLIÐAR OBAMA-STJÓRNARINNAR
Nýja 'Wall Street dúkkan' í Hvíta Húsinu
"No hope, no change"
Vonlaus efnahagsúrræði í þágu draugabanka og spákaupmanna
Hvert stefna Bandaríkin?

---------------------------------------------------------------------------------

Mán. kl. 20:00 - Friðarhúsið, Njálsgötu 87:
HIN NÝJA HERNAÐARHYGGJA OBAMA STJÓRNARINNAR
Endurkoma Zbigniew Brzezinski ("guðfaðir" islamskrar öfgastefnu og sá er kom Khomeini til valda í Íran)
Áframhaldandi valdaseta Robert Gates ("guðfaðir" Al Qaeda)
En frekari hernaður fyrirhugaður í Afganistan
Valdaránstilraunir í Íran
Aukin spenna gagnvart Rússlandi and Kína
Ný "stríðsleikjafræði" til þess að valda átökum milli ríkja í Evrasíu

------------------------------------------------------------------------------------------

Mán. 5. október - Háskólasvæðið
Fyrirhugaðar "kappræður" eða fyrirlestur um Obama stjórnina á vegum 'Alþjóðasamfélagsins', félags nemenda í alþjóðasamskiptum
- Nánar auglýst síðar

----------------------------------------------------------------------

Webster Tarpley hefur nú þegar skrifað tvær bækur um Barack Obama þar sem hann afhjúpar klíkuna á bak við hann og stefnu hans. Hann hefur einnig skrifað (afhjúpandi) ævisögu George Bush eldri. Þá skrifaði hann fyrir 10 árum síðan (nýlega endurútgefin) um fjármálakreppuna sem nú ríður yfir og hann hefur einnig skrifað bók um hryðjuverkin 11. september og almennt um tengsl vestrænna stjórnvalda við slík hryðjuverk ("false flags").

Tarpley hefur gífurlega víðtæka og djúpa þekkingu á nánast öllu sem viðkemur sögu, stjórnmálum og hagfræði. Hann hefur lagt fram sjaldséð sjónarmið og mikilvægar upplýsingar til þess að upplýsa fólk um heimsmálin sem ekki er að finna í hefðbundnum fjölmiðlum. Hér gefst fólki einstakt tækifæri til þess að fá nýja sýn og skilning á heimsmálin.


Hér eru nokkrir tenglar með frekari upplýsingum um Webster Tarpley:

Almennar upplýsingar:
http://en.wikipedia.org/wiki/Webster_Tarpley

Bækur eftir Tarpley:
http://books.google.is/books?as_auth=Webster+Griffin+Tarpley&source=an&ei=fuCbSvSnL4LX-Qb_lPGOBA&sa=X&oi=book_group&ct=title&cad=author-navigational&resnum=12

Útvarpsþáttur Tarpleys:
http://www.gcnlive.com/programs/worldCrisisRadio/

Ketill Sigurjónsson, 28.9.2009 kl. 07:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband