Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Sólargangurinn

Þó svo Orkubloggið forðist almennt að mæla með hlutabréfum til kaups, eru glöggir lesendur bloggsins eflaust löngu orðnir meðvitaðir um hrifningu Orkubloggarans á bandaríska sólarsellufyrirtækinu First Solar.

First_Solar_Revenue_NetIncome_2006-2008Sú hrifning er enn til staðar. Þess vegna er auðvitað gaman að sjá hversu vel First Solar hefur spjarað sig nú í fjármálakreppunni ægilegu. Meðan Applied Solar virðist stefna hraðbyri í gjaldþrot og fjölmörg önnur sólarsellufyrirtæki hafa lent á heljarþröm síðustu mánuðinu, hefur First Solar haldið áfram að styrkja sig í sessi sem fyrirtæki með réttu hugsunina í sólarsellubransanum.

Í lok júlí var tilkynnt að hagnaður First Solar hefði rúmlega tvöfaldast á öðrum ársfjórðingi 2009 m.v. árið áður (181 milljón dollara 2009 m.v. 70 milljónir dollara 2008). Þetta var miklu meiri hagnaðaraukning en flestir höfðu gert ráð fyrir og er til marks um sterka stöðu First Solar í markaðssetningu á ódýru þunnsellunum sínum (Thin Film PV).

Hagnaðaraukning First Solar endurspeglast vel í vaxandi tekjum fyrirtækisins. Á öðrum ársfjórðungi í fyrra (2008) voru tekjur þessara ljúflinga vestur í Arisóna 267 milljón dollarar en í ár skilaði ársfjórðungurinn 526 milljónum dollara í tekjur. Töluglöggir lesendur taka eflaust líka eftir því að hlutfall hagnaðar af tekjum hefur aukist. Sólin skín sem sagt glatt á First Solar.

Thin_Film_PV_CdTeÞað virðist einkum vera sterk staða First Solar í Þýskalandi sem nú styður við þetta öfluga fyrirtæki Wal Mart-fjölskyldunnar. Kemur kannski ekki á óvart. Í Þýskalandi eru jú hvað sterkastir hvatar fyrir fólk og fyrirtæki til að auka hlutdeild endurnýjanlegrar raforku í orkunotkun sinni. Fyrir vikið eru sérstaklega mikil vaxtartækifæri þar fyrir hendi fyrir endurnýjanlega orkugeirann og PV er löngu orðin vel þekkt fyrirbæri þar í landi.

Það eru þó alls ekki bara niðurgreiðslur á endurnýjanlegri raforku eða aðrir hvatar af því tagi sem skýra góðan árangur First Solar. Til að First Solar geri það gott þurfa þeir að auka markaðshlutdeild sína jafnt og þétt og um leið framleiða sífellt ódýrari sólarsellur. Það er enginn hægðarleikur; samkeppnin í sólarselluiðnaðinum er hreint gríðarleg og ekkert gefið eftir í verðstríðinu.

Rífandi gangur First Solar kemur samt Orkublogginu ekki í opna skjöldu. Hinar örþunnu kadmín tellúríð sólarsellur (CdTe) hafa reynst lygilega ódýrar í framleiðslu miðað við hefðbundnar sílikonflögur, sem ennþá eru algengastar á sólarsellumarekaðnum. Nýju sellurnar hafa sannað gildi sitt og fyrir sílikon-sólarsellu-framleiðendur er svo sannarlega  ástæða til að hafa áhyggjur af uppgangi First Solar.

first_solar_costperwatt_milestonesÁ timum lánsfjárkreppu hafa sjónir manna beinst í enn ríkari mæli að því sem er ódýrast og hagkvæmast. Þetta gildir að sjálfsögðu líka um sólarsellubransann. Þó svo sílikon-sellurnar bjóði upp á betri nýtingu á sólarorkunni hefur kadmín-tellúríið reynst ódýrari lausn; hlutfallslega er nýting þeirra sólarsella betri miðað við framleiðslukostnaðinn. Eða eins og Orkubloggið hefur áður sagt: Hagkvæmnin skiptir öllu máli!

Svo virðist sem þessi árangur First Solar í Evrópu og bjartsýni vestra vegna orkuáætlunar Obama séu helstu skýringar þess að hlutabréfaverðið er nú um 50% hærra en eftir mikið fall bréfanna síðla árs 2008. En það er ekki fyrir taugaveiklaðar sálir að taka þátt í hlutabréfa-rússíbanareiðinni í sólaorkunni. First Solar var fyrst skráð á markað 2006 og á um einu ári rúmlega tífaldaðist verð hlutabréfanna; fór úr 25 dollurum og í 270 dollara í árslok 2007! Þetta wild-ride hélt áfram með olíuverðhækkununum á fyrri hluta ársins 2008. Þá fór verðið á First Solar hæst í um 310 dollara og allt virtist stefna í að sólarsellurnar væru gulls ígíldi. Svo fór olían að lækka, lánsfjárkreppan dró úr eftirspurn eftir sólarsellum og First Solar tók að renna hratt niður á við.

First_Solar_2007-2009Bréfin fóru vel niður fyrir 100 dollara í október 2008. Og hafa verið að sveiflast milli 150 og 200 dollaranna síðustu mánuðina. Í dag var verðið rúmlega 146 dollarar. Og sé kíkt inn á fjármálanetsíðurnar virðist sem margir „sérfræðingar" telji 130-160 dollara vera „rétt verð" fyrir bréfin. Geisp.

Helsta ógnin fyrir First Solar er eflaust hugsanlegt verðfall á sílíkoni. Slíkt mynda veikja samkeppnisstöðu First Solar all hressilega og fá hefðbundnari sólarsellu framleiðendur til að brosa breitt. Langvarandi kreppa gæti vissulega leitt til talsverðar verðlækkunar á sílíkoni, þó svo það sé kannski ekkert óskaplega líklegt. Svo er líka mögulegt að „kigsið" komi til með að sigra kadmín-tellúríið. Orkubloggið er engu að síður bjartsýnt fyrir hönd First Solar og kadmín-tellúríðs þunnildanna þeirra.

Thin_Film_PV_photoSamt skal fúslega viðurkennt að uppsveiflan á First Solar 2007-08 var yfirgengileg. Líklega má taka undir orð sumra raunsæismanna, að það sýni best geggjunina sem stundum tekur völdin á hlutabréfamörkuðunum, að P/E hlutfallið (V/H) hjá First Solar var á tímabili komið vel á annað hundraðið. Var meira að segja farið að nálgast 200 þegar verðið fór sem hæst árið 2008!

Það kostulegasta er að líklega voru margir verðbréfamiðlarar á háum launum við að mæla með kaupum á bréfunum á þessu ruglverði - og jafnvel þegið fínan bónus fyrir. Því miður virðist sem verðbréfamarkaðir þurfi alltaf að þróast yfir í glæpastarfsemi á 20 ára fresti eða svo.

Þetta hlutfall er aðeins skárra í dag; P/E First Solar er nú „einungis" rétt að slefa yfir 20. Það þykir Orkublogginu samt ennþá svolítið óþægilega hátt hlutfall. Engu að síður er bloggið sem fyrr hrifið af First Solar og Thin-Film stöffinu þeirra. En það eiga örugglega eftir að verða all svakalegar sviptingar í sólarselluiðnaðinum á næstu árum. Niðurstaðan kann að verða fremur fá en risastór sólarsellufyrirtæki. Í dag er fjöldinn hreint svimandi og allir þykjast vera með bestu lausnina. Þarna á hugsanlega eftir að verða svipuð þróun og í vindorkunni, þar sem einungis örfáir framleiðendur eru nú ráðandi á markaðnum.

SolstormurSólarsellumarkaðurinn er samt mun flóknari en gildir í vindorkunni og tæknilausnirnar margbreytilegri og styttra á veg komnar. Þess vegna er ekki víst að þessi iðnaður sé tilbúinn að þróast nákvæmlega eins og gerðist í vindorkunni, þar sem hefur orðið gríðarleg samþjöppun. Þó svo gaman væri að spá um hverjir verði hinir endanlegu sigurvegarar í sólarselluiðnaðinum, er það til lítils. Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Hvort First Solar kemur til með að verða Coca Cola eða bara Sól Kóla sólaselluiðnaðarins, mun tíminn leiða í ljós.


Laufið og „Le Cost Killer"

Næstu árin gætu orðið miklar breytingar í bílaiðnaðinum.

Nissan-Leaf-EV-1Margir veðja á biofuel - lífefnaeldsneyti - enda virðist Bandaríkjastjórn telja það vænlegasta kostinn. Tvinnbílar og tengiltvinnabílar munu eflaust líka smám saman verða útbreiddari og margir bílaframleiðendur að hella sér í þá samkeppni. Aðrir ætla að taka stóra skrefið og bjóða upp á tæran rafmagnbíl. Rafmagnsbíl sem stendur undir kröfum um að vera bæði notadrjúgur og ódýr í rekstri.

Nissan var að svipta hulunni af Laufinu sínu. Er hægt að hugsa sér grænna heiti á rafmagnsbíl; Nissan Leaf! Fyrstu Laufin eiga að koma á markað í Japan, Evrópu og Bandaríkjunum í árslok 2010 og fjöldaframleiðsla upp á 200 þúsund Lauf árlega á að vera komin í gagnið 2012.

Ghosn_Leaf_1Aðeins eru örfáir dagar síðan Carlos Ghosn, forstjóri Nissan, sýndi fyrsta fölbláa Laufið austur í aðalstöðvum Nissan í Yokohama. Ghosn og aðrir hjá Nissan binda bersýnilega gríðarlegar vonir við Laufið sitt. Tala um nýtt upphaf hjá fyrirtækinu. Það er líka táknrænt fyrir þessi tímamót að Nissan er nú aftur komið „heim" til Yokohama. Fyrir margt löngu voru aðalstöðvar fyrirtæksiins einmitt í hafnarborginni Yokohama, en hafa síðustu 40 árin verið í Tokyo.

Já - Nissan ætlar sér að ná forystu í rafbílavæðingunni. Haft er eftir Ghosn að árið 2020 verði tíundi hver bíll rafmagnsbíll! Gangi það eftir má kannski áætla að 2030 verði hlutfallið orðið þriðjungur? Það væri mun hraðari þróun í rafbílavæðingu en raunsæismenn telja horfur á. En auðvitað alls ekki ómögulegt.

Ghosn er á þeirri skoðun að tvinnbílakonseptið muni aldrei ná mikilli útbreiðslu. Sú tækni sé of dýr og miklu meiri möguleikar í því að fara barrrasta beint í fjöldaframleiðslu á rafbílum. Þarna er Ghosn ofurlítið einmana að mati Orkubloggsins. T.d. álítur Toyota og fleiri bílaframleiðendur að margir áratugir séu í það að rafbílar verði orðnir sæmilega hagkvæmir í rekstri og geti ekið nægilega langar vegalengdir til að höfða til fjöldans. Orkubloggið hallast að því sjónarmiði og sér lífefnaeldsneyti sem miklu vænlegri kost allra næstu áratugina. Þó svo auðvitað verði bensín og díselolía það sem víðast verður notað áfram!

nissan_leaf-plug_1Aðalmálið í rafbílavæðingunni er batteríið. Liþíum-jóna rafhlaðan. Framtíð rafbílsins á þess vegna mikið undir saltstorknum eyðimörkum Suður-Ameríkuríkjanna Chile og Bólivíu og ekki síður tíbetsku hásléttunnar. Ghosn segir að Laufið muni ná 140 km/klst hámarkshraða og hafi drægi upp á 160 km. Það nægi 80% af öllum ökumönnum heimsins. En það er bara ekki aðalmálið. Aðalmálið er nefnilega sjálft batteríið.

Liþíum-jóna rafhlaðan í Laufinu á að fullhlaðast á sjö tímum. En á reyndar að ná allt að 80% hleðslu á einungis 30 mínútum! Verðið á bílnum á að verða sambærilegt við bíla í viðkomandi stærðarflokki. En þar er smá svindl á ferðinni - því verðið á rafhlöðunni er ekki meðtalið. Það netta stykki kostar nefnilega um 10 þúsund dollara í framleiðslu! Það eru núna litlar 1,3 milljónir íslenskra krónuræfla. Sic.

Þetta ætla þau hjá Nissan að leysa með því að leiga batteríið á vægu verði. Þar að auki eru Ghosn og félagar bjartsýnir um að kostnaður við rafhlöðuframleiðsluna lækki mikið þegar fjöldaframleiðslan fer á fullt. Bjartsýni er góð. En þegar Ghosn segir að helsta vandamál Nissan sé að þeir muni kannski ekki ná að framleiða nóg af Laufum til að mæta æpandi eftirspurninni, finnst Orkublogginu sem þessi ljúflingur skjóti aðeins yfir markið. 

Reyndar hefur verið svolítið gaman að fylgjast með belgingnum í forstjórum helstu bifreiðaframleiðenda heimsins. Flestir þykjast þeir vera miklir sjáendur og geta spáð fyrir um þróunina. Meðan margir þeirra segja óralangt í fjöldaframleidda almennings-rafbílinn, hefur Ghosn fussað og sveiað yfir tvinnbílunum. Viðurkennir að vísu að líklega muni Nissan taka þátt í þeim iðnaði líka, því einhver þokkalegur markaður verði fyrir slíka bíla. En það sé samt heldur óspennandi.

Ghosn_Biz_WeekEins og sjá má af myndum hefur Ghosn ekki mikið japanskt blóð í æðum. Þessi litríki karakter er fæddur í Brasilíu 1954, en foreldrar hans komu frá Líbanon. Mamma hans flutti fljótlega aftur heim og Carlos litli ólst frá 6 ára aldri upp í Beirut. Mjög sterk söguleg tengsl eru milli Líbanon og Frakklands og þangað hélt Ghosn til náms í verkfræði. Hann hóf ungur störf hjá franska dekkjarisanum Michelin  og tengdist þannig fljótt bílaiðnaðinum. Þar var Ghosn í heil 17 ár og vann sig upp í að verða yfir öllum rekstri Michelin í Bandaríkjunum. Hann var hjá Michelin allt þar til hann fór til Renault  árið 1996. Þaðan lá leiðin til Nissan, en Nissan og Renault hófu samstarf 1999. Ghosn var svo gerður að forstjóri Nissan skömmu eftir að hann hóf störf þar. Og árið 2005 var bætt um betur og hann varð þá líka forstjóri Renault!

Nefna má að þegar Ghosn kom til Nissan var fyrirtækið á barmi gjaldþrots. Nánast allar bílategundir Nissan voru reknar með tapi en Ghosn sagðist geta losað fyrirtækið við allan 20 milljarða dollara skuldhalann á fimm árum. Hann greip til mikilla sparnaðaraðgerða, sagði upp starfsfólki í tugþúsundavís og lokaði verksmiðjum. Fyrir vikið fékk Ghosn ýmis viðurnefni eins og t.d. "Samúræinn svakalegi" og "Le Cost Killer"  upp á "frensku".

Ghosn_mangaÞessar aðgerðir voru mjög í andstöðu við japanskar fyrirtækjavenjur sem hafa löngum einkennst af miklum stöðugleika og trúnaði gagnvart starfsfólki. En tilþrif Ghosn skiluðu góðum fjárhagslegum árangri og mjög snöggum umskiptum til hins betra hjá Nissan. Fyrir vikið hafa Japanir tekið Ghosn í sátt og hann nú almennt elskaður og virtur þar í landi hinnar rísandi sólar. Það munu meira að segja vera til Manga-teiknimyndasögur þar sem Ghosn er súperhetjan sem kemur öllum til bjargar.

Loks má nefna að Ghosn situr að auki í stjórnum heimsþekktra fyrirtækja eins og t.d. Sony og var í stjórn IBM. Og svo er Ghosn væntanlega líka mikill Íslandsvinur því hann situr nú í stjórn Alcoa - sem á álverið á Reyðarfirði. Svona erum við Íslendingar nátengdir heimskapítalismanum og í raun alltaf nafli heimsins!


Veolia og vatnið í Kína

Hver er stærsti erlendi fjárfestirinn í Kína? Ekki ætlar Orkubloggið að reyna að svara því. En bloggið fullyrðir aftur á móti að sá erlendi fjárfestir sem vex hvað hraðast þessa dagana þar í landi drekans, sé franska risafyrirtækið með ljóðræna nafnið: Veolia Environment. Í dag ætlar bloggið að beina athyglinni að Veolia og vatninu í Kína.

Changzhou_Grand_canalHöldum til borgarinnar Changzhou við Yangtze-fljót. Sem einmitt tengist síðustu færslu Orkubloggsins, sökum þess að atvinnulíf borgarinnar hefur löngum byggst á kínverska undraskipaskurðinn Beijing-Hangzhou Grand Canal.

Eftir að skipaskurðurinn sá tengdist borginni þarna 150 km frá ósum Yangtze um árið 600, varð Changzhou afskaplega mikilvæg verslanamiðstöð og m.a. þekkt fyrir að vera einn helsti markaðurinn fyrir silki, hrísgrjón og te. Í dag hefur efnahagsuppgangurinn í Kína löngu haldið innreið sína í borgina og þar byggst upp mikilvægur textíliðnaður og einnig umfangsmikill matvælaiðnaður. Úrgangurinn frá bæði verksmiðjunum og mannfólkinu rennur beint út í Yangtze og þar er allur fiskur löngu horfinn og áin umbreyst á skömmum tíma í sorapoll. Mengunin er sem sagt gríðarleg og einnig hefur snögg fólksfjölgun í borginni valdið skorti á neysluvatni.

Water_China_Changzhou_1Þetta er ekki bara vandamál í Changzhou. Léleg vatnsveitukerfi einkenna fjölda borga og bæja í Kína og stjórnvöldum alþýðunnar hefur víða gengið fjarska illa að tryggja íbúum og atvinnulífi viðunandi vatn.

En Kínverjar kunna lausn á öllu. Rétt eins og þeir sáu möguleika í því að leyfa takmarkaðan kapítalisma  í sínu kommúníska hagkerfi til að örva efnahagslífið, hafa kínversk stjórnvöld nú tekið forystuna í því að einkavæða  vatnsveiturnar. Eftir að yfirvöld í Changzhou hófu samstarf við erlend vatnsveitufyrirtæki fyrir fáeinum árum hafa fjölmargar aðrar kínverskar borgir fylgt í kjölfarið. Þar á meðal er sjálf Shanghai, sem er ein fjölmennasta borg heims. Og æ fleiri kínverskar borgir hafa á síðustu misserum og árum bæst í þennan ljúfa vatnsveitu-einkavæðingarhóp.

Veolia_EnvironmentFyrirtækið sem hefur farið fremst í að semja við kínversk stjórnvöld um vatnsveitumál er einmitt hinn fyrrnefndi franski vatnsrisi Veolia Environment. Þetta franska fyrirtæki, sem stýrt er frá glæsibyggingu í nágrenni Sigurbogans  í miðri París, er í dag líklega langstærsta vatnsveitufyrirtæki heims. Eflaust svalur fílingur að stjórna kínverskum risavatnsveitum frá hundrað ára gömlu skrifborði við Avenue Kléber þarna í 16. glæsihverfinu.

Suez_constructionÞað er athyglisvert hvernig Fransmenn hafa orðið yfirburðarveldi í alþjóðlega vatnsveitubransanum. Þar að baki eru sögulegar ástæður. Frakkar hafa nefnilega löngum verið flinkir við að eiga við vatn. Upphafið má líklega rekja til franska fyrirtækisins Suez, sem hefur starfað samfleytt allt frá árinu 1822 og byggði einmitt Súez-skurðinn skömmu eftir miðja 19. öld.

Í dag er Suez Environment  eitt af stærstu vatnsveitufyrirtækjum heims, þó svo það sé reyndar aðeins peð í Suez-samsteypunni og jafnist ekki á við Veolia Environment. Bæði Veolia og Suez eru jafn frönsk eins og... eins og Gérard Depardieu. Þess vegna má hiklaust segja að Frakkar séu stórveldið á þessu sérkennilega sviði viðskiptanna.

Sá ljúfi bisness er ekki einungis rekstur í anda góðu gömlu Vatnsveitu Reykjavíkur. Líka er um að ræða tæknilega flókna hreinsun á vatni og endurnýtingu þess. Þetta er sá bransi sem vex hvað hraðast í Kína þessa dagana. Vatnsveitumál eru víða í hörmulegu ástandi í hratt vaxandi borgum þessa fjölmennasta lands í heimi og þess vegna hafa kínversk stjórnvöld horft til þess að bæta ástandið með einkavæðingu. Þarna eru einfaldlega ómæld tækifæri fyrir Veolia og aðra þá sem starfa í alþjóðlega vatnsveitubransanum.

veolia_LogoÁður en lengra er haldið er rétt að gefa smá hugmynd um stærð Veolia Environment. Svo skemmtilega vill til að starfsmannafjöldi fyrirtækisins er nánast nákvæmlega sá sami og fjöldi drottinssauða hér á Íslandi. Hjá Veolia starfa nefnilega um 320 þúsund manns. Á síðasta ári (2008) var velta þessa rótgróna franska fyrirtækis rúmlega 36 milljarðar evra, sem jafngildir um 6.500 milljörðum ISK. Til samanburðar má hafa í huga að allar tekjur Landsvirkjunar á liðnu ári voru innan við 60 milljarðar króna (m.v. núverandi gengi) og verg landsframleiðsla Íslands sama ár mun hafa verið innan við 1.500 milljarðar króna. Ársvelta Veolia er sem sagt vel rúmlega fjórum sinnum meiri en VLF Íslands.

enron_ken_lay_cartoonÞað er ekkert nýtt að stórfyrirtæki taki yfir vatnsveitur hingað og þangað um heiminn. Þarna fara fremur fáir leikendur með hreint gífurlega hagsmuni, sem snerta neysluvatn hundruða milljóna fólks.

Óneitanlega hræða sporin. Eitthvert þekktasta dæmið um sorgarsögu einkavæðingar á vatnsveitum, er þegar sú leið var farin í Buenos Aires  og víðar í Argentínu í kjölfar efnahagsþrenginga þar fyrir all mörgum árum. Meðal þeirra sem komu að þeirri einkavæðingu, var nokkuð þekkt fyrirtæki með bandarískar rætur - fyrirtæki að nafni Enron.

Já - vatnsveitur voru á tímabili eitt af stóru áhugamálum Enron, sem stefndi á að verða stór player á því sviði. En guggnaði á því í kjölfar þess að vera nánast fleygt útúr Argentínu fyrir afspyrnulélega frammistöðu sína.

Einkavæðing af þessu tagi hefur oft verið bjargarleið ríkja sem hafa lent í djúpri kreppu og bráðvantað gjaldeyri. Veolia hefur komið að slíkri einkavæðingu víða í Suður-Ameríku, en oftast með heldur slælegum árangri. Í þeirri rómönsku heimsálfu hefur einkavæðingin jafnan leitt til stórhækkunar á vatni til neytenda og fyrirtækja. Þá hafa gæði vatnsins oft verið fyrir neðan allar hellur og ævintýrin víða endað með ósköpum; uppþotum og ofbeldi.

Water_China_Changzhou_2Í Kína er hvatinn að baki einkavæðingunni aftur á móti af eilítið öðrum toga en var í Suður-Ameríku. Kínverjana skortir ekki gjaldeyri, heldur sjá þeir annan kost við aðkomu erlendra stórfyrirtækja að vatnsveitunum. Þessi fyrirtæki hafa nefnilega tækniþekkinguna og reynsluna sem Kínverja vantar svo sárlega í stórborgirnar, hvar iðnaðaruppbyggingin hefur farið langt fram úr innviðunum.

Þó svo Kínverjarnir hafi almennt verið miklu mun skipulagðari en t.d. indversk stjórnvöld og bæði rafmagns- og símatengingar séu víðast hvar í betra horfi í Kína en á Indlandi, hefur vatnsskortur víða verið áberandi í borgum og bæjum Kína. Kínversk stjórnvöld virðast hreinlega ekki hafa séð fyrir þá gríðarlegu mengun sem fylgdi iðnaðaruppbyggingunni og þess vegna lentu vatnsveitumálin svo víða í miklum ólestri.

China_water_smogLausnin hefur verið að veita Veolia og fleiri erlendum vatnsveiturisum tímabundin einkaleyfi í nokkrum borgum Kína. Þá er jafnan samið um sameiginlegt eignarhald, þar sem stjórnvöld eiga oft 50% í vatnsveitunni á móti einkafyrirtækinu. Það er kannski ekki svo galin leið í einkavæðingu.

Hin dæmigerða afleiðing hefur verið að verð á vatni hefur hækkað um léttan helming eða svo. En í staðinn hafa íbúarnir notið þess að fá mun hreinna vatn en áður - þó svo sumstaðar þurfi reyndar ennþá að sjóða vatnið til að tryggja að það sé ekki heilsuspillandi til drykkjar.

Vatnsveitusamningar Kínverjanna við Veolia hafa gjarnan verið til 50 ára þ.a. vatnið í milljónaborgum Kína á eftir að mala gull í áratugi fyrir Frakkana. En kínversk stjórnvöld eru útsmogin; sem fyrr segir eiga þau gjarnan stóran hlut í vatnsveitufyrirtækjum Veolia í Kína og njóta því líka góðs af hinum skyndilega arðbæra kínverska vatnsveitubransa.

Water_China_YantzeJá - þarna eystra hefur almenningur og atvinnulífið loks fengið betra vatn. Um leið fær Veolia pening í kassann og sameiginlegir sjóðir á vegum stjórnvalda njóta líka góðs af. Kannski má segja að allir séu sigurvegarar í kínversku vatnseinkavæðingunni. Á endanum er það þó auðvitað almenningur sem borgar brúsann - sama hvort í honum er vatn eða eitthvað annað.

Nú er bara spurningin hvort Orkuveita Reykjavíkur hugleiði að fara í vatnsveituútrás. Vatn Erlendis Invest. Er ekki VEI örugglega miklu flottara en REI?


Kínverski risaskurðurinn

Það er allt ofurlítið stærra í Kína en annars staðar. Um það þarf líklega ekki sérstök lýsingarorð. Einfaldlega stórt land og margt fólk.

China_Grand_Canal_2En sumt það ótrúlegast við Kína er lítt umtalað. Meðal þess er Skurðurinn mikli - oft kallaður Beijing-Hangzhou Grand Canal. Þessi nærri 1.800 km langi skipaskurður tengir saman milljónahundruðin í norðanverðu og sunnanverðu Kína og hefur í 2.500 ár verið einhver mikilvægasta samgönguleiðin í landinu. Í dag heldur Orkubloggið á slóð þessa merkilega skurðar þarna óralangt í austri.

Flestar stórár Kína renna frá vestri til austurs. Skipaskurðurinn liggur aftur á móti norður/suður og tengir því saman allar helstu ár Kína.

CHINA_Beijing-Hangzhou Grand Canal_MAPÞessi samgönguleið hefur haft ómælda efnahagslega þýðingu fyrir Kína í gegnum aldirnar. Þó svo rekja megi elstu hluta skurðsins þúsundir ára aftur í tímann var stærstur hluti hans grafinn á áratugunum í kringum aldamótin 600. Þetta var á tímum Sui-keisaraættarinnar en þá áttu sér stað miklar umbætur í landbúnaði og koma þurfti afurðunum á áfangastað. Sagt er að litlar 5 milljónir verkamanna hafi unnið við skurðinn á tímabilinu ca. 580-620.

Og til að gera laaaanga sögu stutta, skal látið nægja að nefna að næstu aldirnar var talsvert miklu bætt við þetta magnaða skurðakerfi. Sem í dag hlýtur að teljast eitt af verfræðiundrum veraldarinnar og jafnast á við sjálfan Kínamúrinn. Orkubloggarinn hefur reyndar aldrei séð þessi mögnuðu fyrirbæri með eigin augum. En Marco Polo hreifst af skurðinum og þó einkum af hinum mörgu glæsilegum brúm þar yfir.

Já - Kínverjar hafa lengi kunnað þá list að leika sér með vatn. Byrjuðu fyrir þúsundum ára á þeim lipra leik að grafa skurð þvert yfir landið til að tengja landshlutana saman. Og í dag er það Þriggja gljúfra stíflan - stærsta vatnsorkuver heims sem nú rís í ánni Yangtze - sem er helsta táknmyndin fyrir snilli Kínverja í að nýta vatnið.

China_Beijing-Hangzhou Grand Canal_2Allra mestu tækifærin í kínversku vatnssulli kunna þó að leynast í því að byggja upp nýjar og betri vatnsveitur í hinum hratt vaxandi stórborgum Kína. Vandamál sem skapast hafa vegna iðnaðaruppbyggingarinnar í Kína síðustu árin, hafa leitt til þess að kínversk stjórnvöld eru í stórum stíl að einkavæða vatnsveiturnar. Þarna í landi hins austræna kommúnisma eru evrópsk risafyrirtæki orðin stórtæk í einhverjum stærsta vatnsveitubransa veraldarinnar. Að reka vatnsveitur í Kína er sko engin sjoppubransi, heldur risavaxin viðskipti. Kannski meira um þau blautu en gríðarlega ábatasömu tækifæri í næstu færslu Orkubloggsins.


O tempora o mores!

Alveg er það MAGNA'ð hvernig Orkubloggarinn og aðrir Landar hafa verið blekktir upp úr skónum.

Katar_Olafur_SigurdurÍ einfeldni sinni hefur bloggarinn jafnan brugðist vel við þegar útlit hefur verið um aðkomu erlendra fjárfesta að íslensku atvinnulífi. Ekki síst ef umræddir fjárfestar hafa tengst orku.

Fyrst fagnaði  Orkubloggið því að Katarar væru komnir inn í eigendahóp Kaupþings. Í tengslum við þá frétt birtust víða myndir af Katarprinsinum, sem þar var sagður standa að baki. Hvar hann flaug í lax með Ólafi Ólafssyni, oftast kenndur við Samskip.

Þau alræmdu viðskipti í sumar sem leið (2008) virðast eingöngu hafa verið sýndarviðskipti í þeim tilgangi að halda uppi hlutabréfaverði í bankanum. Og þó svo við höfum í heiðri reglur réttarríkisins og segjum að menn séu sakleysur uns sekt þeirra er sönnuð fyrir dómstólum landsins, þá verður a.m.k. líklega einhver bið á því að gaspeningar frá Katar komi til Íslands. Smá bið. Geisp.

GGE_joyfulUm mitt síðasta ár var svo víða brosað út að eyum þegar Ólafur Jóhann Ólafsson og bandarískir fjárfestar gerðust hluthafar í jarðvarmahlutabréfasjóðnum Geysi Green Energy. Að því er fjölmiðlar sögðu. Nú er Ólafur Jóhann aftur á móti sagður vera búinn að selja sinn hlut í GGE og farinn úr stjórn, en þar var hann orðinn stjórnarformaður.

Orkubloggið hafði einmitt lýst sérstakri ánægju  með að Ólafur Jóhann hefði svo góð viðskiptasambönd vestra, að nú væru bjart framundan hjá GGE. Sic!

Nú bíður Orkubloggið spennt eftir örlögum GGE og hvort kaup kanadíska Magma Energy  á hlut í GGE ganga eftir. Eða eru íslenskar viðskiptafréttir kannski bara í takt við viðskiptalífið sjálft? Tómar blekkingar.

Orkubloggið telur vissara að taka lítið mark á bæði íslenskum fjölmiðlum og íslenskum stjórnmálamönnum.  Samt sperrast eyru bloggarans við nýjustu fréttirnar úr íslenska orkugeiranum, sem nú steypast yfir okkur. Það var að birtast skýrsla unnin á vegum fjármálaráðuneytisins, sem ku segja að orkusalan til stóriðjunnar sé í tómu rugli og arðsemin ömurleg. Við þetta bætast fréttir  um að móðurfyrirtæki íslensku álverksmiðjanna stundi bókhaldsaðferðir sem stórskaði þjóðarbúið.

En við erum samt engu nær. Álfyrirtækin segja fréttirnar tóman misskilning og ekki eiga sér nokkra stoð í raunveruleikanum.

Fridrik_LandsvirkjunOg skýrslan um hroðalega arðsemi af orkusölu Íslendinga til stóriðjunnar virðist samin án þess að bera málið undir Landsvirkjun eða leita upplýsinga frá fyrirtækinu (sem reyndar hefði hvort eð er ekki upplýst um verðið af "samkeppnisástæðum"). M.ö.o. virðist sem skýrsluhöfundar viti ekki af neinni nákvæmni á hvaða verði er verið að selja rafmagnið til stóriðjunnar. Er þá ekki svolítið erfitt að meta arðsemina í raun og veru? Eru þá ekki óvissumörkin heldur hressileg til að draga djúpar ályktanir?

Eitt er víst; íslenskur almenningur mun seint fá að vita sannleikann. Bananalýðveldið Ísland blómstrar sem aldrei fyrr. O tempora o mores!


Grænni framtíð

Toyota_Prius_WhiteNýverið ók Orkubloggarinn um á tvinnbílnum Toyota Prius í nokkra daga. Og tekur undir orð nágranna síns; "ef þetta er ekki framtíðin, þá veit ég ekki hvað!".

Það tók smá stund að venjast því að setja bílinn í gang með því að ýta á takka - rétt eins og þegar maður kveikir á ljósi. En Prius'inn reyndist í alla staði vel. Og eyðslan í blönduðum akstri var ekki nema 5,9 lítrar á hundraðið. Það þótti bloggaranum ótrúlega lítið, því ekki var um neinn sparakstur að ræða. Innan borgarinnar virtist bíllinn eyða u.þ.b. 6,3 l á hundraðið.

Reyndar skal fúslega viðurkennt að bloggið er haldið smá tortryggni gagnvart rafbílavæðingu. Og finnst líklegra að lífefnaeldsneyti verði hagkvæmari kostur. En þessir tvinnbílarnir og tengiltvinnbílarnir eru engu að síður mjög athyglisverðir. Þessi tækni ætti að leiða til betri eldsneytisnýtingar og fyrir Íslendinga væri auðvitað upplagt ef rafbílavæðing yrði að veruleika. Við sem erum með allt þetta endurnýjanlega rafmagn myndum njóta góðs af slíkri þróun.

European_Business_worst_bestÞað eru margir sem binda miklar vonir við rafbílavæðingu. Og telja hana jafnvel björtustu vonina í átt að grænni orkugeira. Fyrir stuttu síðan útnefndi tímaritið European Businesstíu bestu og verstu grænu orkutækifærin, sem nú eru mikið á vörum fólks. Og til að gera langa sögu stutta, þá var tengiltvinnbíllinn þar valinn besta og grænasta hugmyndin.

Toyota_Hybrid_X_ConceptÉuropean Business álítur sem sagt Plug in Hybrids  vera bestu og grænustu hugmyndina. Það er ekki alveg sama og Toyota Prius, heldur er þetta næsta kynslóð af tvinnbílum. Munurinn er sá að hægt verður að hlaða tengiltvinnbíla með því að stinga þeim í samband.

Tvinnbílarnir í dag - eins og t.d. Toyota Prius - eru aftur á móti nánast hefðbundnir bílar, sem einnig nýta rafmagn til að knýja bílinn. Bíllinn gengur sem sagt bæði fyrir rafmagni og hefðbundnu eldsneyti; er þess vegna kallaður tvinnbíll. Kannski væri tvíbíll  betri íslenska? Næsta kynslóð tvinnbíla er að auki hönnuð fyrir innstungu. Þar með mun bíllinn fara einu skrefi nær því að verða tær rafmagnsbíll.

European_Business-cover_jan_2009Það ætti að gleðja Landann að í annað sæti setja ljúflingarnir hjá European Business jarðhitaveitur. Þar er t.d. verið að horfa til þess að nýta hitann á lághitasvæðum í Þýskalandi og Svíþjóð. Sem kunnugt er hafa íslensk jarðvarmafyrirtæki einmitt komið að byggingu slíkra virkjana í Þýskalandi. Vegna veikrar stöðu Geysis Green Energy um þessar mundir er líklega óvissa uppi um framtíð útrásar af þessu tagi, sem hefur farið fram á vegum dótturfyrirtækja GGE.

Bestu hugmyndirnar eru sem sagt tengiltvinnbílar og jarðvarmavirkjanir. Verstu hugmyndina segir European Business aftur á móti vera fyrstu kynslóðar lífefnaeldsneyti. Sem unnið er úr korntegundum. Það þykir nefnilega ekki fínt að nota kornið, sem gæti farið til manneldis, til að framleiða etanól á bíla.

Af einhverjum ástæðum er European Business líka tortryggið á lífdísel  úr t.d. repju. Aðallega sökum þess að þetta sé fjárhagslega óhagkvæm leið og geti aldrei orðið nógu umfangsmikill iðnaður til að koma að einhverju raunverulegu gagni. Þarna erum við á kunnuglegum slóðum; Orkubloggið hefur einmitt bent á að það sé tómt mál að tala um nýjar tegundir af eldsneyti nema framleiðslan geti orðið mjög umfangsmikil.

European Business er ennþá verr við hugmyndir um að auka raforkuframleiðslu með nýjum gasorkuverum og s.k. „hreinum" kolaorkuverum. Um þetta síðast nefnda er Orkubloggið algjörlega sammála. Clean Coal er ekkert annað en markaðstilbúningur kolaorkufyrirtækjanna. Þessi meinta framtíðartækni í kolaorkuiðnaðinum er bæði rándýr og vægast sagt vísindalega vafasöm. Kannski meira um það síðar hér á Orkublogginu.

Skogasandur_lupinaLoks má nefna að auk tengiltvinnbíla og jarðvarmahitunar er European Business líka hrifið að vindorku, sólarorku og af viðskiptakerfi með kolefnisheimildir. Og þeir telja einnig annarrar kynslóðar lífefnaeldsneyti  vera snilldarhugmynd. Þar er um að ræða tiltölulega hefðbundinn lífeldsneytisiðnað, nema hvað eldsneytið er unnið úr plöntum sem ekki er hægt að nýta í fæðuframleiðslu.

Land eins og Ísland, með mikið af ræktarlandi sem betur mætti nýta, ætti tvímælalaust að skoða möguleika í þeirri athyglisverðu sneið orkugeirans. Íslenskur lífolíuiðnaður kann að vera mjög áhugaverður kostur.


Maritza

Maritza er hvorki heiti á tyrkneskri fegurðardís né albanskri ævintýraprinsessu. Maritza er aftur á móti búlgarskur svartálfur; risastórt kolaorkuver sem er einhver stærsta yfirstandandi einkaframkvæmd innan Evrópusambandsins og líklega langstærsta erlenda fjárfestingin í allri suðaustanverðri Evrópu.

Maritza_East_1_1Maritza, sem heitir reyndar fullu nafni Maritza East 1, er 670 MW brúnkolaorkuver, sem nú er í byggingu austur í Búlgaríu og á að hefja starfsemi síðar á þessu ári (2009). Þeir sem standa að uppbyggingu og fjármögnun orkuversins eru óþreytandi að kynna þá staðreynd að þetta sé lang umhverfisvænsta kolaorkuver sem hefur verið byggt í Búlgaríu og reyndar fyrsta raforkuverið sem þar rís í meira en 20 ár.

Ljúflingarnir á bak við Maritza East 1 er eitt stærsta raforkufyrirtæki heims: bandaríska AES Corporation. Þetta 25 þúsund manna fyrirtæki rekur orkuver út um allan heim (að Íslandi undanskildu auðvitað). Þetta er reyndar orðum aukið; AES er líklega einungis með starfsemi í um 30 löndum og með framleiðslugetu (uppsett afl virkjana) eitthvað yfir 40 þúsund MW. Þar af eru um 20 þúsund MW í kolaorkuverum og um 10 þúsund MW í gasorkuverum. AES eru einnig stórir í vatnsafli með um 7.500 MW og með um 1.500 MW í vindorku. Til samanburðar þá er uppsett afl allra íslenskra virkjana nú rúmlega 2 þúsund MW. Sem sagt; AES er örlítið stærra fyrirtæki en Landsvirkjun.

Maritza_Bulgaria_1En aftur að svartálfaprinsessunni Maritza. Það er auðvitað sérstaklega skemmtilegt að þetta glæsilega brúnkolaorkuver þarna austur í Búlgaríu er einmitt nánast af nákvæmlega sömu stærð og Kárahnjúkavirkjun. Báðar þessar virkjanir eru upp á tæplega 700 MW. Aftur á móti skilur nokkuð á milli þegar litið er til kolefnislosunar og ýmissar annarrar mengunar. Maritza East 1 mun eingöngu nota brúnkol í rafmagnsframleiðslu sína, en þau teljast einhver mesta drullan í kolaiðnaðinum. Sem kunnugt er nýtir Kárahnjúkavirkjun annan og eilítið umhverfisvænni orkugjafa; blessað vatnsaflið.

Maritza_Bulgaria_2Miðað við kostnaðaráætlun Maritza, sem hljóðar upp á 1,4 milljarða bandaríkjadala, má reyndar draga þá ályktun að kostnaður vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi verið mjög hóflegur og að sú virkjun sé afskaplega hagkvæm. Þar með er Orkubloggið þó ekki að lýsa neinni skoðun á raforkusamningnum við Alcoa, sem er jú ekki opinber. Og það er til lítils að byggja ódýra virkjun ef rafmagnið er selt á verði sem ekki stendur undir fjárfestingunni.

Raforkuna frá Maritza munu þau hjá AES selja til búlgarska ríkisraforkufyrirtækisins; Natsionalna Elektricheska Kompania(NEK). Verið sjálft er staðsett við bæinn Galabavo  í sunnanverðri Búlgaríu en það er mikið kolasvæði og þar hafa lengi verið starfrækt stór kolaorkuver. Framleiðslugeta veranna á svæðinu er um 3 þúsund MW, en nýja orkuverið kemur í stað eldra vers, auk þess sem það leysir af hólmi gömul kjarnorkuver sem Búlgarar lofuðu að loka þegar þeir gengu inn í Evrópusambandið. ESB er nefnilega af einhverjum ástæðum betur við það svartasta af öllu svörtu - gígantísk brúnkolaver - heldur en mengunarlaus kjarnorkuverin (sem að vísu fylgir kjarnorkuúrgangurinn). Orkubloggið er stundum ofurlítið hugsi yfir orkustefnu ESB. En vegna inngöngunnar í ESB þurftu Búlgarar nýlega að loka tveimur kjarnorkuverum með samtals tæplega 900 MW framleiðslugetu.

AES_LogoAuk þess sem rafmagninu frá Maritza East 1 verður dreift um suðausturhluta Búlgaríu verður það einnig selt til útlanda. Eigandinn, AES, hefur reyndar dundað sér í um áratug nokkuð víða í austur-evrópska orkugeiranum. Hefur m.a. keypt nokkur orkuver í Ungverjalandi, Tékklandi og einnig í Úkraínu. Þau hjá AES hafa verið spenntust fyrir kolaverunum, en hafa einnig fjárfest lítillega í vindorku á svæðinu. Ætli þessir ljúflingar hefðu líka áhuga á að kaupa í Landsvirkjun og OR?


Armstrong í Öskju

Earth_Rise_-Apollo8Í gærkvöldi þegar Orkubloggarinn (grútsyfjaður) minntist 40 ára afmælis fyrstu Tunglferðarinnar gleymdi hann aðalatriðinu! Sem er auðvitað æfingaferð Apollo-geimfaranna til Íslands.

Það mun hafa verið ári fyrir fæðingu Orkubloggarans að tíu af geimförunum í Apollo-áætluninni komu hingað norður á Klakann góða. Þetta var sumarið 1965. Það var jarðfræðingurinn góðkunni, Sigurður Þórarinsson, sem var leiðsögumaður þeirra hér á landi. Skyldi hann hafa sungið með þeim Þórsmerkurljóðið? Annar geimfarahópur kom svo á sömu slóðir árið 1967. Ásamt Sigurði Þórarinssyni mun Guðmundur E. Sigvaldason, jarðfræðingur, einnig hafa verið geimförunum innan handar hér á landi.

Ástæða þess að NASA sendi geimfaraefnin til Íslands var einföld. Ljúflingarnir hjá NASA töldu Ísland nefnilega þann stað á Jörðinni, sem mest minnir á Tunglið. Farið var með þá í Öskju (www.askja.blog.is!) og héldu þeir til í Drekagili. Þar skoðuðu þeir sig vel um og sérstaklega var athyglinni beint að jarðfræði svæðisins.

Geimfarar_AskjaÝmsar samsæriskenningar eru til um að í reynd hafi aldrei nokkur maður stigið fæti á Tunglið. Þetta hafi allt verið tóm blekking. Skemmtilegasta kenningin er auðvitað sú að "myndirnar frá Tunglinu" hafi hreinlega verið teknar upp í nágrenni Öskju. Alltaf gaman að svona rugli.

Myndin hér að ofan er einmitt tekin af geimförunum í Öskju. Þarna munu bæði vera þeir Buzz Aldrin og Eugene Cernan, sem nefndir voru í síðustu færslu Orkubloggsins. Og Neil Armstrong  er líka þarna, annar frá vinstri í fremri röð. Hér að neðan er aftur á móti ljósmyndi af Buzz á tunglinu sumarið 1969, tekin af Neil Armstrong.

apollo-11_buzzLeiðin lá sem sagt frá Bandaríkjunum til Tunglsins, via Iceland. Enda var þetta á blómaskeiði Loftleiða, þegar Ísland var algeng stoppistöð Bandaríkjamanna í ævintýraleit!


Síðasti tunglfarinn?

Um þessar mundir eru 40 ár síðan maður steig fyrst fæti á Tunglið. Fyrst hoppaði Neil Armstrong niður stigann frá Apollo 11 og skömmu síðar trítlaði Buzz Aldrin líka um Kyrrðarhafið; Mare Tranquillitatis. Þetta var 20. júlí það Herrans ár 1969. Reyndar vitum við öll að í reynd voru það Tinni og Kolbeinn kafteinn, sem fyrstir stigu fæti á Tunglið en það er önnur saga.

Eugene_Cernan_LRVOg nú eru 36 og hálft ár liðin frá því síðasti maðurinn yfirgaf Tunglið - í bili. Það var í desember 1972 þegar bandaríski geimfarinn Eugene Cernan  bremsaði Lunar Rovernum í tunglmölinni í síðasta sinn, klifraði upp stigann í lendingarhylki Apollo 17 og tók stefnuna stystu leið heim til Jarðar. Stóra spurningin er hvort Cernan verði í reynd síðasti maðurinn til að stíga á Tunglið?

Það er athyglisvert að mönnuðu tunglferðirnar stóðu einungis yfir í rúm þrjú ár; 1969-1972. Á þessum tíma stigu alls 12 menn á Tunglið og voru þeir þátttakendur í sex bandarískum geimferðum. Miðað við forskot Rússa í geimnum í kringum 1960 er alveg magnað hvernig Bandaríkin náðu að stela senunni. Í Washington fölnuðu menn upp þegar Sputnik fór fyrst geimfara á sporbaug um jörðu í október 1957 og árið 1966 varð rússneska geimfarið Luna 10 hið fyrsta til að fara sporbaug um Tunglið.

Meira að segja svo seint sem árið 1968 urðu Rússarnir fyrstir til að koma geimfari umhverfis Tunglið og aftur heim til jarðar heilu og höldnu (Zond 5). Það geimfar var þó vel að merkja ómannað. Muni Orkubloggarinn rétt voru farþegarnir í þessu merka Zondfari aðallega smáskjaldbökur. Sem komu allar feitar og pattaralegar aftur til Jarðar. Það hefur vafalaust verið huggun fyrir þá Neil Armstrong og félaga, sem senn áttu að halda í sína háskaför

Appollo_11_Aldrin_ModuleEn svo komu Apollo-geimförin á færibandi. Upphaf þeirra má rekja til þess þegar Kennedy forseti flutti ræðu árið 1961 þar sem hann nánast lofaði því að innan tíu ára myndu Bandaríkin senda mannað geimfar til Tunglsins... og koma geimförunum aftur heilum heim. Apollo-áætlunin var hafin.

Þessi djarfa áætlun gekk vonum framar og Bandaríkin unnu glæsilegan sigur í kapphlaupinu um Tunglið. Rússarnir áttu ekki roð við þessum mönnuðu geimflaugum NASA, sem skiluðu 12 bandarískum geimförum til Tunglsins. Og allir komu þeir aftur heilir heim. Eina slysið í Apollo-áætluninni var þegar sprenging varð í Apollo 1 á æfingu í janúar árið 1967. Þar fórust þrír geimfarar; einn þeirra var Gus Grissom, sem fékk heldur háðulega útreið í geimfaramyndinni skemmtilegu; The Right Stuff.

Constellation_LogoEkki er langt síðan NASA ákvað að hefja mannaðar tunglferðir á ný. Nú þegar geimskutlutímabilinu lýkur, verður ennþá metnaðarfyllri geimferðaáætlun ýtt af stokkunum. Hún hefur verið kölluð Constellation - Stjörnumerkjaáætlunin - og samkvæmt þeirri áætlun NASA á að koma mönnuðu geimfari ekki aðeins til Tunglsins, heldur einnig til Mars!

Planið hjá NASA er að geimfarið Orion 15 lendi með menn á Tunglinu árið 2019. Samkvæmt heimasíðu NASA  verður fyrsta geimskotið í Constellation-áætluninni þann 30. ágúst n.k. (2009). Gælt er við að menn lendi svo á Mars e.h.t. upp úr 2030. Gangi það eftir gæti Orkubloggarinn kannski á sjötugsaldri skálað fyrir nýjum Marsbúum.

Hætt er við að þessi draumur þeirra ljúflinganna hjá NASA verði heldur þyngri í vöfum en tunglferðirnar voru á sínum tíma. Þá var kalda stríðið drifkraftur þess að dæla peningum í geimferðir, en viljinn í Washington til að fjármagna Constellation er ekki alveg jafn mikill. Líklega er vafasamt að við sem nú nálgumst miðjan aldur á ógnarhraða eigum eftir að upplifa mannaferðir á Mars.

Aldrin_BuzzBuzz gamli Aldrin  er samt bjartsýnn. Í forvitnilegu viðtali við hann, sem nýverið birtist í tímaritinu frábæra Australian Geographic, lýsir hann framtíðarsýn sinni um geimferðir. Þar spáir Buzz því að mannað geimfar muni lenda á Marstunglinu Fóbos árið 2025 og að þangað muni verða farnar nokkrar ferðir fram til 2030. Að því búnu verði ekkert því til fyrirstöðu að mannað geimfar lendi á Mars - til frambúðar! Þetta verði nefnilega svo löng og ströng ferð að hún verði í anda skipsins Mayflower; tilgangurinn verði að geimfarið fari einungis aðra leiðina og snúi ekki til baka til Jarðar.

Sjónarmið Buzz Aldrin um mesta hvata Marsferða eru reyndar heldur drungaleg. Hann álítur helstu nauðsyn slíkra ferða vera þá að mannkynið verði að geta sest að á öðrum plánetum - af þeirri einföldu ástæðu að við munum ofbjóða og líklega eyða lífríki Jarðarinnar. Þetta sé eina leiðin til að koma í veg fyrir útrýmingu mannskyns. Orkubloggið sér reyndar ekki alveg til hvers að vera að sperra sig til Mars í þessum tilgangi. Ef við eyðum lífinu á Jörðinni, munum við þá ekki líka barrasta fara létt með að útrýma okkur á Mars? En kannski er Buzz þrjóskari en Orkubloggarinn og vill bjarga mannkyninu með því að eyða framtíðinni í að tipla á milli pláneta. Það er kannski ekkert verri framtíðarsýn en að reyna að hírast hér á Jörðu til eilífðarnóns.

Loks fylgir hér örstutt myndband - m.a. með hinni frægu ræðu Jack's Kennedy. Þar sem hann tilkynnir um áætlun Bandaríkjastjórnar að koma manni á Tunglið. Og aftur heim:

 


Upp... eða kannski niður?

Vilji maður vaða í villu og svíma er besta ráðið að hlusta á fréttir íslenskra fjölmiðla. Dæmi um það eru nýlegar fréttir af tveimur stórmeisturum; þeim Nouriel Roubini og Philip Verleger.

Roubini_2009Í dag birtir Visir.is  frétt um að kreppan hafi þegar náð hámarki. Að mati Nouriel Roubini.

Vísir.is er ekki einn um að útbreiða þessa meintu skoðun Roubini's, enda talsverð frétt að yfirsjáandinn Roubini skuli telja botninum náð. Vandamálið er bara að fréttin er kolröng, eins og allir áskrifendur RGE Monitor  vita! Og þessi ranga frétt hefur borist svo víða um heiminn að Roubini og RGE Monitor sáu sig knúna til að senda út ábendingu þess efnis.

Í reynd spáir Roubini því þvert á móti að efnahagsbati muni ekki byrja að líta dagsins ljós fyrr en eftir áramótin. Botninum sé sem sagt enn ekki náð. Og ekki nóg með það. Roubini varar við því að uppsveifla á árinu 2010 verði aðeins tímabundin. Í framhaldinu muni fljótlega geta orðið mjög slæm niðursveifla á ný - jafnvel enn verri en við höfum upplifað núna. Þessu lýsir Roubini sem W-sveiflu, eins og Orkubloggið hefur áður sagt frá. Eða eins og hann orðaði það sjálfur í skilaboðum sínum til Orkubloggarans - og annarra innvígðra:

RGE_logo"I have also consistently argued that there is a risk of a double-dip W-shaped recession toward the end of 2010, as a tough policy dilemma will emerge next year: on one side, early exit from monetary and fiscal easing would tip the economy into a new recession as the recovery is anemic and deflationary pressures are dominant." Kreppunni er sem sagt hugsanlega hvergi nærri lokið og enn langt í botninn.

Önnur skrítin frétt barst Orkubloggaranum til eyrna í hádegisfréttum RÚV á föstudaginn var. Já - þar sem bloggarinn stýrði jeppanum styrkum höndum upp við Búrfellsstöð með ægifagra Heklu í baksýn, upplýstu fréttamenn RÚV alþjóð um það að líklega myndi olíuverðið senn hrynja og fara niður í 20 dollara tunnan! Ástæðan væru ofsalegar olíubirgðir þar sem allar birgðageymslur heimsins væru útbólgnar og byrjaðar að leka á samskeytunum. Þetta myndi senn þrýsta verðinu hraustlega niður.

Heimildin að baki þessari frétt var svo sem enginn álfur. Heldur þvert á móti heimsþekktur olíuspámaður; einn af þessum sem fjölmiðlar heimsins virðast aldrei þreytast að vitna í. En það sorglega í þessu öllu er að umræddur "sérfræðingur" er sama marki brenndur og flestir aðrir sérfræðingar. Spárnar hans rætast vissulega einstaka sinnum - en oftast eru þær svo kolvitlausar að jafnvel Völva Vikunnar  myndi skammast sín fyrir árangurinn. Það er nefnilega svo að það veit enginn neitt um framtíðina. Spurðu sjálfan þig lesandi góður og þú munt fá alveg jafn gott og alveg jafn rétt svar, eins og að spyrja "sérfræðing" um framtíðarþróunina á mörkuðum heimsins. Nobody knows nuthin!

Philip_Verleger_2Umrædd olíuvéfrétt RÚV snerist um ljúflinginn Philip Verleger. Hann er núna prófessor við Calgary-háskóla, en er hvað þekktastur fyrir ráðgjafarstörf sín í orkumálum fyrir bandarísk stjórnvöld. Það er sem sagt Verleger sem nú segir ástandið á olíumörkuðunum þannig, að olíuverðið hljóti brátt að hrynja. Tunnan sé orðin yfirfull og eftirspurnin langt í frá nógu mikil til að halda uppi núverandi verði.

Í þessu sambandi er fróðlegt að rýna í fyrri spár Verleger. Árið 2004 varð hann heimsfrægur í bransanum þegar hann sagði ástandið þá vera orðið svipað eins og rétt fyrir olíukreppuna 1973. Nú væri úlfurinn kominn í alvöru og olíuverðið myndi brátt rjúka upp. Framleiðslan myndi ekki geta mætt eftirspurninni.

Þá hafði það nefnilega gerst, þarna í kringum afmælisdag Orkubloggarans um miðjan ágúst 2004, að olíuverðið hafði rokið upp í heila 48 dollara. Sú upphæð hljómar kannski engin ósköp í dag - en var þá hæsta olíuverð sem nokkru sinni hafði sést í dollurum talið! Þá rétt eins og núna voru deildar meiningar um hvað væri eiginlega að gerast. Sumir töldu þetta hreina blöðru, sem senn myndi springa, meðan aðrir sögðu ástæðu verðhækkunarinnar vera of lítið framboð og mikla eftirspurn.

Oil_price_US_1999_to_2008.svgVerleger var einn af þeim sem var hvað svakalegastur í að spá enn meiri verðhækkunum þarna síðsumars 2004. Taldi að verðið gæti farið í 60 eða jafnvel 70 dollara! Slíkar tölur um olíuverð þóttu á þessum tíma - fyrir einungis 5 árum - hreint geggjaðar. Þegar verðið hélt svo áfram að hækka fram eftir 2004 og fram á árið 2005 - og fór yfir hinn makalausa 60 dollara  múr - minntust menn orða Verleger. Spá hans hafði ræst og upp frá því hefur Verleger verið talinn einhver flinkasti sjáandinn í bransanum og baðað sig í dýrðarljóma frægðarinnar.

Sem kunnugt er tók olíuverðið reyndar að lækka á ný upp úr miðju ári 2005 og fór aftur undir 50 dollara árið 2006. Fjölmiðlar voru æstir í að heyra skoðun Verleger og ekki stóð á svarinu. Nú horfði Verleger heldur betur í hina áttina og sagði að olíuverðið væri byrjað í hrunadansi. Verðið myndi jafnvel fara niður í 15 dollara tunnan!

Verleger_LLCSú spá Verleger rættist nú reyndar ekki, Þvert á móti fór olían brátt að hækka í verði á ný og hækkanirnar héldu áfram allt árið 2007 og fram á mitt ár 2008. Sællar minningar. En þetta breytti engu um frægð Verleger - spádómur hans frá 2004 er lífsseigur og hefur tryggt honum sess sem einn mesti olíusérfræðingur heims. Það gengur svona. Fyrir vikið hefur ráðgjafafyrirtækið hans blómstrað og fyrirtæki og stjórnvöld víða um heim keppast við að borga sem allra mest fyrir olíuspár sem ekki rætast. Skondinn bransi.

Að lokum er kannski vert að minnast þess að spá Verleger nú, um að olíutunnan fari brátt niður í 20 dollara, gæti auðvitað ræst. Talan 20 getur komið upp á olíurúllettunni, rétt eins og hvaða tala önnur.

Ali_al_Naimi_coolEn EF það gerist þýðir það að besti vinur okkar allra, hann Ali Al-Naimi olíumálaráðherra Sádanna, hefur barrrasta lent í tómu rugli í nýja leðurjakkanum sínum. Og steingleymt að halda áfram að draga úr olíudælingunni upp úr sandinum gula, eins og Orkubloggið hefur margoft ráðlagt honum að gera. Skrúfa aðeins betur fyrir, til að tryggja 70 dollara verð í sessi.

Það kæmi Orkubloggaranum mjög á óvart ef Al-Naimi sofnaði á verðinum. Ef birgðageymslur eru að verða skuggalega fullar um veröld víða, líkt og Verleger heldur fram, hljóta Sádarnir einfaldlega að passa upp á að minnka framleiðsluna fljótlega um svona 2 milljón tunnur eða svo. Þjóð sem þarf 70 dollara fyrir tunnuna til að koma út á sléttu, má hreinlega ekki við því að olíutunnan fari niður í 20 dollara. Auðvitað væri það sætt ef svo færi að Sádarnir lýstu yfir gjaldþroti sínu sama dag og Ísland; gæti orðið skemmtilegur klúbbur. En það er barrrasta frekar ólíklegt að málin þróist á þann veg. Finnst Orkublogginu. En hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá.

VLCCÍ blálokin mætti svo kannski nefna að undanfarið hafa sumir stærstu fjárfestingabankarnir í óða önn verið að leiga risaolíuskip  til að geyma olíu. Hvort þeir eru að reyna að bíða af sér offramboð eða veðja á verðhækkanir veit enginn fyrir víst. En þetta  er sem sagt sú spákaupmennska sem virðist hvað mest í tísku þessa dagana. Fjárfestingabankarnir ætla sér greinileg áfram að vera ekkert annað en spilavíti og hafa bersýnilega hvorki lært af falli bandaríska húsnæðismarkaðarins né af lánsfjárkreppunni. Áfram skal spilað... og áfram er allt lagt að veði með svo ljómandi glöðu geði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband