Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
20.4.2009 | 00:39
Í hlutverki leiðtogans
Hann stráksi minn, 8 ára, gerði mig stoltan föður um helgina.
Við skruppum á bensínstöð með nokkra fótbolta og hjól, að pumpa lofti í. Líklega hefur einhver klaufast með bensíndæluna; a.m.k. var óvenjulega sterk bensínlykt þarna á planinu. "Ummmm, hvað þetta er góð lykt!", sagði stubburinn af mikilli einlægni þegar við stigum út úr Land Rovernum. Svei mér þá - þessi drengur veit hvað máli skiptir í heiminum!

Ég held ég hafi verið 13 ára þegar ég komst að þeirri niðurstöðu að veröldin snýst aðeins um eitt. Olíu! Þetta var á þeim tímum þegar klerkabyltingin varð í Íran. Keisarinn flúði og Khomeini erkiklerkur sneri heim úr útlegð frá París. Þessu öllu fylgdi gíslatakan í bandaríska sendiráðinu í Tehran, ævintýralegur björgunarleiðangur bandaríska hersins sem endaði með skelfingu í miðri eyðimörkinni og háðuleg útreið Carter's í keppninni við Reagan.
Khomeini var ekkert venjulegur. Maður skynjaði einhverja undarlega ógn frá þessum kuflklædda, hvítskeggjaða öldungi. Og feistaðist til að halda að Íranir væru allir snarbrjálaðir.
Löngu síðar átti ég eftir að kynnast nokkrum Persum, bæði búsettum í Tehran og landflótta Írönum. Allir virtust þeir eiga eitt sameiginlegt; sjaldan hef ég hitt gjörvilegra og ágætara fólk. Rétt að taka fram, til að forðast misskilning, að aldrei hitti ég Khomeini!
Einhvers staðar las Orkubloggarinn að aldrei hafi viðlíka mannfjöldi komið saman i sögu veraldarinnar, eins og við útför Khomeini's í Theran í júní 1989. Alls 10 milljón manns! Athyglisverð geggjun.

Nú virðist þó almennt viðurkennt að mannfjöldinn hafi "aðeins" verið tvær milljónir. En jafnvel það hlýtur að teljast þokkalegt. Í múgæsingunni munaði reyndar minnstu að fólkið hrifsaði líkið úr kistunni í öllu brjálæðinu, sbr. myndin hér til hliðar.
Það óskiljanlega í þessu öllu saman, var að Bandaríkin skyldu þegjandi og hljóðalaust horfa upp á Íran lenda undir stjórn klerkanna. Landið með einhverjar mestu olíulindir heims, var látið sleppa undan áhrifavaldi Bandaríkjanna, rétt eins og þetta væri Belgía, Timbúktu eða annað álíka krummaskuð.
Þó svo ljúflingurinn Jimmy Carter snerti alltaf einhvern notalegan streng í brjósti Orkubloggarans, skal viðurkennt að líklega hefur bandaríska þjóðin sjaldan fengið slakari forseta. Hnetubóndinn frá Georgíu barrrasta skyldi ekki alþjóðamál og allra síst mikilvægi olíunnar.
Það er reyndar makalaust hvernig jafn öflugri þjóð eins og Bandaríkjamenn eru, virðist einkar lagið að kjósa hálfvita yfir sig. Í huga Orkubloggsins verðskuldar t.d. Geoge W. Bush ekkert skárra lýsingarorð en fábjáni. Og líklega var faðir hans lítið skárri.

En inn á milli koma svo snillingar. Orkubloggarinn er þar hvað heitastur fyrir bleikfésanum Bill Clinton.
Því miður þurfti Clinton sífellt að vera að berjast við Bandaríkjaþing með repúblíkana í traustum meirihluta og fékk því litlu framgengt. Það væri betur komið fyrir Bandaríkjamönnum, ef Clinton hefði fengið meiru ráðið.
Kannski er þetta bull; kannski er ástæðuna fyrir hrifningu Orkubloggarans á Clinton barrrasta að rekja til þess að bloggarinn rakst eitt sinn á Clinton á Kaupmangaranum í Köben. Og kallinn geislaði svo af sjarma að maður hefur aldrei upplifað annað eins.

En nú hvílir ábyrgðin á Obama. Það sýnir mikilvægi karaktersins, hvernig Obama virðist með áru sinni og hlýju brosinu, ná að bræða frosin hjörtu eins og hjá Hugo Chavez. Nú reynir á hvort Obama hafi nægjanlega persónutöfra til að skapa líka þýðu milli Bandaríkjanna og Íran. Það væri svo sannarlega óskandi.
19.4.2009 | 10:37
Texas á Jótlandi?
Vonandi mun ekki koma styggð að ljónunum.

Það gæti nefnilega verið að olíuboranirnar þarna í nágrenni ljónadýragarðsins við Givskud á Jótlandi, muni valda titringi í jörðu - og sum dýr eru afar viðkvæm fyrir því þegar jörðin byrjar að hreyfast. Og nú fer að styttast í að fyrsti ameríski olíuborinn byrji að bora sig í gegnum jóskan leirinn, í leit að svarta gullinu sem talið er að leynist þar á 2,5 km dýpi.
Það eru ljúflingarnir frá GMT Exploration frá Denver í Kólórado, sem fengið hafa leyfi til að hefja olíuleitina. Þeir eru búnir að velja borstað úti á akri einum, rétt utan við þorpið Givskud, sem liggur skammt frá hinum fallega Vejlefirði á Jótlandi.

Akurinn er auðvitað hluti af bújörð, en ekki mun bóndinn þar á bæ hafa hoppað hæð sína í loft upp við komu tyggjójaplandi Kólóradó-búanna. Í Danmörku er það nefnilega ríkið, sem er eigandi allra náttúruauðlinda djúpt í jörðu. Baunarnir hafa komið á þeirri leiðinda skipan mála, að eignarétturinn þar sætir meiri takmörkunum en gerist í Mekka einstaklingshyggjunnar; Íslandi. Meðan Orkubloggarinn bjó í Danmörku átti hann alltaf erfitt með að skilja þessa sterku samfélagshugsjón Baunanna. En þetta kerfi ku reyndar bara virka nokkuð vel - en það er önnur saga.
Íbúar Givskud, sem eru um sex hundruð drottinssauðir, héldu spenntir á borgarafund sem boðað var til í ráðhúsinu kl. 19, þann 19. ágúst s.l. (2008). Dagsetningin hefur væntanlega verið valin með hliðsjón af því að þetta er einmitt afmælisdagur Orkubloggarans! Þar var kynnt hvernig staðið yrði að leitinni; um 20-30 manna teymi rá GMT mun nú n.k. sumar verja nokkrum vikum í tilraunaboranir, sem gert er ráð fyrir að muni kosta skitnar 40 miljónir danskra króna eða svo.

Það verður spennandi að fylgjast með því, hvort senn rigni svörtu gulli yfir ljónin við Givskud. Reyndar hafa nýjar vísbendingar komið fram um að olía kunni að leynast víða undir hinum danska leir. T.d. er Dong Energi nú að hefja nákvæmar rannsóknir á öðru afskaplega fallegu svæði í Danmörku; við bæinn Thisted við Limafjörðin.
Bændurnir við Limafjörðinn byrjuðu snemma að setja upp vindrafstöðvar og þær eru þarna hreinlega út um allt. Reyndar þótti Orkubloggaranum nóg um, þegar hann ók um þessar slóðir með börnum sínum og vinkonu þeirra nýlega (sbr. myndin hér að ofan af þeim Boga og Berghildi). Þarna við Limafjörðinn hafa turnarnir risið afskaplega tilviljanakennt í gegnum árum. Fyrir vikið eru þeir á víð og dreif og trufla augað verulega á þessum fallegu slóðum.

Nú er bara að bíða og sjá hvort s.k. olíuasnar muni senn líka bætast við á ökrum bændanna við Limafjörðinn. Mun Jótland senn verða Texas Evrópu?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2009 | 00:15
Sandhóla-Pétur
Eru einhverjir aðrir out-there, sem muna eftir bókunum skemmtilegu um Sandhóla-Pétur og ævintýri hans á hinni vindbörðu vesturströnd Jótlands?
Reyndar hefur Jótland aldrei þótt vera sérstaklega hot staður í huga Orkubloggsins. Enda verður manni helst hugsað til hákristinna hóglífismanna, þegar Jótland er nefnt. Svona nægjusamra ljúflinga, eins og okkur voru sýndir í skáldsögunni og myndinni frábæru; Babettes gæstebud.

En Jótarnir hógværu leyna á sér. Munum t.d prestsoninn fátæka; Villum Kann Rasmussen. Sem sagði eitt sinn í viðtali á gamals aldri "Jeg er daarlig til alt andet end at faa ideer". Og svo sannarlega fékk hann nokkrar góðar hugmyndir í gegnum tíðina.
Hann VKR- eins og Rasmussen var jafnan kallaður - fæddist í útnárabrauðinu Mandö árið 1909. Á þessum tíma var ólíklegt að slíkir piltar ættu efni á því að brjótast til mennta, nema þá helst að fara í prestaskólann. En fyrir tilstilli góðra manna gat VKR haldið til náms í Kaupmannahöfn og þar lauk hann verkfræðiprófi 1932.
Að því búnu var að reyna að vinna sér fyrir salti í grautinn þarna í kreppunni og síðar hernumdu landinu - og þá fékk VKR fyrstu góðu hugmyndina sína. Sem lagði grunninn að einhverum mesta auði, sem sögur fara af í Danaveldi.
Það er nefnilega svo að hógværð og auður geta vel farið saman. Fæstir Danir kveikja á perunni þegar hann VKR er nefndur. VKR-fjölskyldan er sem sagt það sem gjarnan er kallað svakalega low-profile. Samt er arfleifð VKR í dönsku viðskiptalífi jafnvel miklu meiri en sjálfs JR Ewingí sögu sápuóperanna. Í dag eru afkomendur hans VKR líklega næstefnaðasta fjölskylda í Danaveldi á eftir snillingnum Mærsk McKinney Möller og hans slekti.

Hugmyndin sem VKR fékk, var að hanna þakglugga til að gera lífið bærilegra fyrir fólk sem hírðist í rökkrinu undir húsþökum Kaupmannahafnar. Og þetta reyndist brilljant hugmynd. Í æpandi húsnæðisskortinum varð upplagt að innrétta íbúðir á þakhæðunum og setja þar upp Velux-glugga frá VKR. Það sem áður höfðu einungis verið myrkar kytrur fátækra vinnukvenna, urðu nú prýðilegar íbúðir fyrir áður húsnæðislausar fjölskyldur. Smám saman varð Veluxrisi á þakgluggamarkaði heimsins og ófáar lúxus-penthouse íbúðirnar eru prýddar gluggum frá Velux eða Velfac. Og ágóðinn af öllum þeim úrvalsgluggum rennur stille og roligt í digra sjóði VKR.
Ef maður rýnir í nýjustu ársskýrslu VKR Holdingkemur í jós að eigið fé fyrirtækisins var í árslok 2007 um 12,7 milljarðar DKK. Á núverandi fíflagengi reiknast það til að vera hátt í 290 milljarðar ISK. Dágott. Slær eigið fé Landsvirkjunar út og er reyndar meira en 150% af því sem LV segist eiga.

Og fólkið hjá VKR lifir sko ekki aldeilis fyrir það a gíra sig upp. Enginn útrásavíkinga-hugsanaháttur þar á ferð. Þarna er lífsfílósófían miklu heldur sú, að latir peningar séu góðir peningar. Eða kannski að einn fugl í hendi séu betri en tveir i skógi.
Þegar kíkt er á tölurnar hjá VKR kemur nefnilega í ljós að langtímaskuldir fyrirtækisins eru almennt... nálægt því að vera núll! Þarna fjármagna menn sig sjálfir og láta 290 milljarða ISK malla rólega eins og jóskan hafragraut á lágri suðu. Íslenskir útrásarvíkingar hefðu sjálfsagt þegið að komast í þennan "varasjóð VKR-sparisjóðsins".
Það er reyndar útí hött að Orkubloggarinn sé að leggja honum hr. VKR orð í munn og búa til einhver mottó fyrir þetta ofuröfluga danska fyrirtæki. Því hann VKR var sjálfur óspar á að boða lífsviðhorf sitt hverjum þeim sem vidi við hann ræða: "Den der lever stille, lever godt!" Það er ekkert flóknara.
Og það má svo sannarlega segja að hr. VKR og afkomendur hans hafi lifað eftir þessu ágæta rólyndis-mottói. Þó svo fjölskyldan stjórni sjóðum, sem eru feitari en bæði Lego, Grundfos og Novo Nordisk, er hún álíka áberandi í dönsku þjóðlífi eins og keldusvín í íslensku mýrlendi.

En nú kannski spyr einhver hvern fjárann Orkubloggið sé að eyða tíma í þetta Baunasnobb og gluggarugl? VKR-Holding er jú aðallega þekkt fyrir framleiðslu á þakgluggum, sem kannski kemur orku lítið við. En bíðið við. Fyrir nokkrum árum tók fyrirtækið upp á því að skoða aðra möguleika, sem tengjast kjarnastarfseminni. Sem hefur verið skilgreind svo, að færa ferskt loft og ljós í híbýli fólks (þessi stefna á einmitt að endurspeglast í lógói fyrirtækisins, sem sést hér á myndinni).
Þess vegna var nærtækt hvert VKR ætti að líta næst; auðvitað til sólarorku. Á allra síðustu árum hefur fyrirtækið varið ágóða sínum í að kaupa upp mörg af helstu fyrirtækjum Evrópu og víðar, sem sérhæfa sig í sólarhitakerfum. Og nú verður spennandi að sjá hvort VKR muni líka færa sig yfir í þann hluta sólarorku-iðnaðarins, sem felst í því að framleiða rafmagn úr sólarorkunni.

Já - Jótarnir eru orðnir stórtækir í sólarorku. En það makalausa er að brátt kann að vera, að á jóskum engjum megi senn sjá olíupumpur - rétt eins og svo víða á sléttum Texas. Nú eru nefnilega taldar góðar líkur á að undir hinum danska Jótlandsleir, megi finna myndarlegar olíulindir! Sem þar að auki verður líklega skítbillegt að bora eftir.
Skyldi Jótland verða hið Evrópska Texas? Með notalega "olíuasna" kinkandi kolli úti á túni? Kannski meira um það í næstu færslu Orkubloggsins.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2009 | 00:13
Bettino, prendi anche queste!
Í dag ætlar Orkubloggið að leyfa sér að endurtaka færslu frá því í fyrra og birta hana hér, eilítið breytta.

Ítalska ofurfyrirtækið Eni er eitt stærsta orkufyrirtæki í heimi. Afkvæmið hans Enrico Mattei sem margir telja að CIA eða leigumorðingjar hafi komið fyrir kattanef. Af því hann keypti olíu af Sovétmönnum og virtist jafnvel ætla að komast fram fyrir bandarísku olíufélögin í keppninni um olíuna frá bæði Írak og Persíu (Íran). En hér ætlar Orkubloggið ekki að fjalla um Mattei, heldur beina athyglinni að niðurlægingu Eni í upphafi 10. áratugarins.
Stundum er sagt að vald spilli. Og eftir því sem Eni varð valdameira jókst spilling innan fyrirtækisins. En hún fór hljótt - þó svo kannski hafi öll ítalska þjóðin vitað að eitthvað gruggugt hlyti þarna að eiga sér stað.
Árið 1992 hófst rannsókn á fjármálaóreiðu, sem tengdist heldur ómerkilegum ítölskum stjórnmálamanni. Um sama leyti var Eni í nokkrum kröggum vegna geggjaðrar skuldsetningar. Og viti menn - þá kom í ljós að Eni og ítalskir stjórnmálamenn voru tengdir með svolítið ógeðfelldari hætti en nokkur hafði látið sér til hugar koma. Nú opnuðust skyndilega rotþrær einhverjar mestu spillingar og mútugreiðslna sem sögur fara af í Vestur-Evrópu og þótt víðar væri leitað. Og spilaborgin hrundi.

Það má líklega segja að ítalski rannsóknadómarinn Antonio Di Pietro eigi mesta heiðurinn af því að fletta ofan af hinni ömurlegu pólitísku spillingu sem ítalska valdakerfið var gegnsósa af. Þessi fátæki bóndasonur skaust þarna upp á stjörnuhiminn réttlætisins og átti síðar eftir að hella sér útí stjórnmál.
Þar hefur hann verið mikill boðberi þess hversu varasamt sé að stjórnmálamenn geti sífellt sóst eftir endurkjöri og þannig orðið fastir á jötunni. Það leiði í besta falli til þess að þeir verði værukærir, en í versta falli gjörspilltir. Á síðustu árum hefur Di Pietro átt í miklum útistöðum við nýja yfirskíthælinn í ítölskum stjórnmálum- Silvio Berlusconi - en það er önnur saga.
Rannsókn Di Pietro upp úr 1990 opnaði flóðgáttir og leiddi til þess að flestir æðstu stjórnendur Eni voru handteknir. Síðar kom í ljós að mútuþægnin, hagsmunapotið og spillingin teygði sig meira og minna um allt valdakerfið og stóran hluta viðskiptalífsins á Ítalíu.
Di Pietro þrengdi fljótlega hring sinn um höfuðpaurana og nú fóru menn að ókyrrast verulega. Þegar ekki tókst að þagga málið niður og handtökur hófust, greip um sig örvænting í ormagryfjunni. Afleiðingarnar urðu hörmulegar; margir auðugustu og valdamestu manna á Ítalíu kusu að láta sig hverfa endanlega af þessu tilverusviði. Segja má að alda sjálfsmorða hafi gengið yfir æðstu klíku ítalskra embættismanna og viðskiptajöfra.
Í júlí 1993 fannst Gabriele Cagliari, fyrrum forstjóri Eni, kafnaður í fangaklefa sínum - með plastpoka um höfuðið. Cagliari sætti þá ákærum um stórfelldar mútur og hafði setið í varðhaldi í nokkra mánuði.

Og örfáum dögum seinna skaut Raul Gardini höfuðið af sér í 18. aldar höllinni sinni í Mílanó. Það sjálfsmorð vakti smávegis athygli, enda var Gardini yfir næststærstu iðnaðarsamsteypu á Ítalíu - Ferruzzi Group. Fyrirtæki Gardini's var einfaldlega allt í öllu í ítölskum iðnaði (einungis Fiat-samsteypan hans Gianni Agnelli's var stærri en viðskiptaveldi Gardini - og enginn meiriháttar sóðaskapur sannaðist á Agnelli).
Þetta var auðvitað sorglegur endir á ævi mikils merkismanns. Fáeinum mánuðum áður hafði Gardini baðað sig í dýrðarljóma, þegar risaskútan hans - Il Moro di Venezia náði frábærum árangri í America's Cup. Já mikil veisla fyrir Orkubloggið sem bæði dýrkar siglingar og olíu.
Allt var þetta angi af hinni algjöru pólitísku spillingu á Ítalíu Tangentopoli - sem náði bæði til kristilegra demókrata og sósíalista. Auk margslunginna mútumála, stórra sem smárra, snerist kjarni þessa máls í raun um greiðslur frá fyrirtækjum til stærstu stjórnmálaflokkanna.
Kannski má segja að hrun þessarar gjörspilltu klíku hafi náð hámarki þegar Bettino Craxi, sem verið hafði forsætisráðherra Ítalíu 1983-87, var tekinn til yfirheyrslu og ákærður.

"Dentro Bettino, fuori il bottino!" Inn með Bettino, út með þýfið, hrópaði ítalskur almenningur um leið og fólkið lét smápeningum rigna yfir Craxi. Hvar hann skaust milli húsa með frakkann á öxlunum. Ítalir eru ýmsu vanir en viðurstyggilegt siðleysi Craxi's varð til að þjóðinni ofbauð. Og þegar smápeningarnir skullu á skallanum á Craxi, söng fólkið "prendi anche queste!". Hirtu þessa líka!
Craxi flúði land - slapp undan réttvísinni til Túnis 1994. Hann snéri aldrei heim aftur, enda beið hans þar 10 ára fangelsisdómur. Það ótrúlega er nefnilega, að þrátt fyrir allt er til réttlæti á Íslandi... á Ítalíu vildi ég sagt hafa. En það má kannski segja að það hafi einmitt verið öll þessi upplausn sem kom Berlusconi til valda á Ítalíu. Sem var kannski ekki besta þróunin.

Craxi lést í sjálfskipaðri útlegð sinni í Túnis, í janúar árið 2000. Hann viðurkenndi aldrei neina sök; sagði greiðslurnar hafa verið hluta af hinum pólitíska veruleika og hann ekki verið neitt verri í því sambandi en aðrir ítalskir stjórnmálamenn.
Enda eru mútur þess eðlis, að oft er auðvelt að horfa fram hjá raunveruleikanum. Greiðslurnar verða hluti af venjubundinni vinsemd eða jafnvel sjálfsagður hluti af áratugalangri venju í samskiptum viðskiptalífs og stjórnmálamanna.
Svo þegar aðrir komast yfir upplýsingar um greiðslur af þessu tagi, er svarið jafnan hið sama: "Jamm, kannski var þetta óheppilegt. En þetta hafði auðvitað engin áhrif á ákvarðanir flokksins eða stjórnmálamannanna!"

Bettino Craxi fannst hann ekki hafa gert neitt rangt. En ítalska þjóðin var nokkuð einhuga í sinn afstöðu og Craxi uppskar það að verða einhver fyrirlitnasti sonur Ítalíu.
Ítalir þráðu breytingar og í stað Craxi fékk þjóðin gamlan viðhlæjanda hans; Silvio Berlusconi. Forza Italia! Kannski var þarna bara farið úr öskunni í eldinn?
Viðskipti og fjármál | Breytt 15.4.2009 kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2009 | 00:09
Hverjum klukkan glymur
Mikið er nú lífið stundum undursamlegt.

Eins og t.d. fyrir örfáum dögum þegar Akureyringur sá um að loka Nasdaq-markaðnum í New York. Reyndar sá Akureyringurinn ekki alveg einn um þetta, heldur fékk smá aðstoð frá fleiri "þekktum aðilum úr viðskiptalífi heimsins". Þ.á m. var viðskiptaráðherranna okkar, Gylfi Magnússon:
Akureyringurinn Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, lokaði í gær hinum þekkta Bandaríska verðbréfamarkaði NASDAQ í New York, ásamt Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra. Að því er blaðamaður Akureyri.net komst næst er þetta í fyrsta skipti sem Akureyringur lokar markaðnum, en í lok hvers viðskiptadags eru þekktir aðilar úr viðskiptalífi heimsins fengnir til að hringja lokunarbjöllunni. (Frétt af vefnum Akureyri.net).

Nú er bara að vona að þetta sé ekki illur fyrirboði. Hvorki fyrir Akureyri, Icelandair né viðskiptaráðherra. Óneitanlega verður manni hugsað til þess þegar fráfarandi forsætisráðherra tók þátt í þessu bráðskemmtilega bjölluglingri á Nasdaq, síðla í september árið sem leið.
Já - það var 24. september s.l. sem brosandi og áhyggjulaus Geir Haarde fékk að hringla með Nasdaq-bjölluna. Þá var Orkubloggarinn og jafnvel öll íslenska þjóðin ennþá i skýjunum eftir Ólympíusilfur handboltalandsliðsins og horfði grunlaus fram á góða haustdaga.

Enda var gjörsamlega útilokað að lesa það út úr brosi Geirs á Nasdaq, að í reynd væri Seðlabankinn búinn afgreiða íslensku bankana sem fallnar spýtur. Hvað þá að nokkurn gæti grunað, að þessa fallegu síðsumardaga stæðu stjórnendur bankanna sveittir við að skófla út fé til einkahlutafélaga í eigu þeirra sjálfra, vina eða kunningja og voru í þann mund að krassa með feitum túss yfir allar sínar eigin persónulegu sjálfsskuldaábyrgðir.
En því miður sáu stjórnendur bankanna ekkert nema eigið rassfar og gleymdu því að maður á líka að gleðja náungann. Hefðu auðvitað líka átt að fella niður veð og persónulegar ábyrgðir húnæðislántakenda og máske einnig strika yfir bílalán til blankra viðskiptavina. Gera þetta með stæl áður en þeir hentu leifunum af þessu bévítans bankarusli í ryðgaða tunnuna hjá ríkissjóði.

Og auðvitað hefðum við öll átt að sjá þetta allt fyrir. Við hefðum átt að vita það, að þetta árans bjölluglamur hans Geirs þarna á Nasdaq, var illur fyrirboði.
Hvernig fór ekki með Decode-ævintýrið? Kári Stefánsson mætti á sínum tíma á Nasdaq og hringdi örugglega bjöllunni af mikilli list. Því miður virðist Decode nú vera að syngja sinn svanasöng - a.m.k. í núverandi mynd. Það þykir Orkubloggaranum þyngra en tárum taki. Og það er barrrasta eins og fjárans hringlið í bjöllunni á Nasdaq hreinlega leggi bölvun á íslenskt viðskiptalíf. Bloggarinn hélt að hjátrú væri nokkuð rík í íslenskri þjóðarsál - og botnar eiginlega ekkert í því að nokkur Íslendingur skuli yfirleitt þora að snerta á þessum bjölluviðbjóði!

Þetta er svo sannarlega hverfull heimur. Hér hegðuðu bankastjórnendur sér eins og enginn morgundagur kæmi. Efnahagsuppgangurinn væri allt í einu orðinn eilífur og áhættufíknin það eina sem vert væri að lifa fyrir. Icelandic Banking a la James Dean; djæfa hátt og hratt og deyja ungur! Þetta var svo sannarlega Smart Banking.

Svo fór sem fór. Lífið er ekki alltaf dans á rósum. Nú sé ég í fréttum að Nýja-Kaupþing sé farið að herja á Björgólfsfeðga vegna vanskila á einhverjum aurum sem þeir fengu að láni hjá Búnaðarbankanum eða Kaupþingi; láni sem mun hafa farið í að borga kaupin á Landsbankanum á sínum tíma. Hvaða fjárans baunatalning er þetta? Látið þessa snillinga í friði. Never send to know for whom the bell tolls - it tolls for thee!"
9.4.2009 | 08:31
Hver á skuldir HS Orku?
"Án þess að gera fyrirvara við álit okkar viljum við vekja athygli á skýringu 25 í ársreikningnum þar sem greint er frá því að félagið uppfyllir ekki ákvæði lánasamninga við lánastofnanir þar sem kveðið er á um að fari eiginfjárhlutfall og rekstrarhlutföll niður fyrir tiltekin viðmið sé lánveitendum heimilt að gjaldfella lánin."

"Stjórnendur félagsins eru í viðræðum við lánastofnanir en þeim viðræðum er ekki lokið. Verði lánin gjaldfelld og ekki semst um endurfjármögnun þeirra ríkir óvissa um áframhaldandi rekstrarhæfi
félagsins."
Já - nú á þessum fallega Skírdagsmorgni hefur Orkubloggið stungið sér i ársskýrslu Hitaveitu Suðurnesja. Eða öllu heldur hins nýja fyrirtækis; HS Orku. Og ekki verður hjá því komist að vekja sérstaka athygli á ofangreindri umsögn endurskoðendanna. HS Orka er sem sagt með svo lágt eiginfjárhlutfall að hætta er á að lánin til fyrirtækisins verði gjaldfelld. Örlög fyrirtækisins eru m.ö.o. alfarið í höndum kröfuhafanna.

Nú hlýtur að reyna á hversu góð sambönd Ólafur Jóhann Ólafsson hefur í fjármálageiranum. Ólafur Jóhann er vel að merkja stjórnarformaður Geysis Green Energy, sem er annar stærstu hluthafanna í HS Orku (hlutur GGE í fyrirtækinu er sagður vera 32%).
Þar er enginn aukvisi á ferð. Úr því HS Orka þarf nú að endurfjármagna sig eða endursemja við kröfuhafa, er vart hægt að hugsa sér betri hluthafa í eigendahópi fyrirtækisins, en Ólaf Jóhann. Ísland er rúið trausti, en vafalítið hefur Ólafur Jóhann talsverða vigt í fjármálaheiminum vestra. Orkubloggarinn er reyndar á því að Ólafur Jóhann sé einn vanmetnasti Íslendingur nútímans, en það er önnur saga.
En víkjum aftur að ársreikningi HS Orku. Umrædd skýring nr. 25 í ársreikningnum 2008 er svohljóðandi:

"Á árinu 2008 veiktist gengi íslensku krónunnar umtalsvert sem leiddi til þess að skuldir félagsins tengdar erlendum gjaldmiðlum hækkuðu um 9.226 millj. kr. Ein af afleiðingum þessa er að félagið uppfyllir ekki lengur skilyrði í lánasamningum við lánveitendur sem kveða á um að eiginfjárhlutfall og að rekstrarhlutföll séu yfir ákveðnu lágmarki. Skipting á félaginu að kröfu laga getur valdið því að forsendur lánasamninga séu brostnar og veiti lánveitendum heimild til að gjaldfella lánin. Stjórn og stjórnendur vinna nú að því með lánveitendum sínum að endursemja um fjármögnun félagsins og telja að unnt verði að ljúka viðræðum innan skamms og að niðurstaða þeirra verði félaginu hagfelld".
Hér koma svo nokkrar tölur úr ársreikningnum: Niðurstaða ársins var nærri 12 milljarða króna tap. Rekstrarhagnaður nam nærri 2 milljörðum króna, en samt sem áður rýrnaði eigið fé fyrirtækisins um u.þ.b. 70%. Fór úr tæpum 20 milljörðum í árslok 2007 og niður í tæpa 6 milljarða í árslok 2008.

Rétt eins og hjá Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur voru það fjármagnsliðirnir sem fóru svo illa með fyrirtækið á liðnu ári. Hjá HS Orku varð geggjaður fjármagnskostnaðurinn til að skila þessum lið neikvæðum um alls 15,5 milljarða króna. Og fyrir vikið er eiginfjárhlutfallið komið undir lágmarksviðmiðunina í lánasamningum fyrirtækisins.
Niðurstaðan af þessu hlýtur að vera sú, að ef lánadrottnar HS Orku vilja eignast öflugt orkufyrirtæki á Íslandi, geta þeir nú notað tækifærið. Aðrir sem áhuga hafa geta sett sig í samband við kröfuhafana og boðið í skuldirnar. Sá sem á skuldir HS Orku á HS Orku. Óneitanlega væri forvitnilegt að vita hverjir stærstu kröfuhafarnir eru. Ætli einhverjir hrægammar séu þegar komnir á svæðið?
Kannski eru Suðurnesjamenn og þeir hjá GGE svo heppnir að enginn hefur áhuga á fyrirtækinu. Þ.a. kröfuhafarnir verða að gefa eitthvað eftir. En þetta er nú ljóta ástandið; það er bágt þegar vonin ein er eftir.

Undarlegast þykir Orkubloggaranum þó að hann - fölur gleraugnaglámur sem finnst fátt notalegra en að að liggja í volgri sinu og tyggja strá - virðist síðustu árin hafa sýnt meira innsæi og þekkingu á fjármálum heldur en flestallir "hæfustu" forstjórar landsins.
Kannski hefur það hjálpað, að bloggarinn hefur alltaf verið svolítið hrifinn af skákstíl Margeirs Péturssonar...?
8.4.2009 | 09:23
Orkuveitan: "Ég er fullur tilhlökkunar"
"Horfur eru góðar um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2008. Umsvif fara vaxandi og fjárfestingar eru miklar."

Þannig segir orðrétt í tilkynningu Orkuveitu Reykjavíkur, sem dagsett er 29. ágúst 2008. Reyndar er þetta tilkynning frá fyrirtæki, sem tapaði litlum 73 milljörðum króna þegar upp var staðið eftir 2008. Þannig að þessi tilvitnun er líklega eitthvert mesta öfugmæli í allri íslenskri fyrirtækjasögu.
Umrædd tilkynning OR birtist í tengslum við 6 mánaða uppgjör félagsins 2008. Kannski var þessi mikla bjartsýni OR í ágústlok sl. til marks um þann jákvæða viðsnúning, sem orðið hafði á 2. ársfjórðungi - eftir hroðalegan 1. ársfjórðung. Óneitanlega voru mánuðirnir þrír, apríl-júní, ansið mikið skárri í bókhaldi OR heldur en fyrstu þrír mánuðir ársins. En samt áttar Orkubloggið sig ekki alveg á því af hverju Orkuveitumenn urðu þarna í ágúst allt í einu svona hressilega bjartsýnir.
Það er eins og Orkubloggið rámi í, að horfurnar í efnahagsmálunum almennt hafi ekki verið alltof góðar þarna síðla í ágúst s.l. En kannski er það bara misminni; kannski leit þetta allt voða vel út. A.m.k. séð frá glæsihúsnæði Orkuveitunnar. Síðsumarútsýnið þaðan var örugglega yndislegt. Dýrðlegur blámi yfir borginni og framtíðin björt þátt fyrir nokkur gulnandi lauf.
En stundum er skynsamlegast að fagna ekki of snemma. Eftir að Orkuveitan birti umrædda bjartsýnis-tilkynningu sína um "góðar horfur 2008", varð íslenskt þjóðfélag fyrir örlitlu áfalli, sem kunnugt er. Þegar spilaborgin hrundi í einni svipan.
Niðurstaða ársins 2008 hjá Orkuveitunni varð allt annað en góð. Á síðasta ári var OR rekin með 73 milljarða króna tapi. Það er hátt í helmingi meira tap en Landsvirkjun varð fyrir sama ár. Reyndar varð ofurlítill rekstrarhagnaður hjá OR 2008; 4,7 milljarðar króna. En segja verður að heildarafkoma ársins hafi hreinlega verið skelfileg. Fjármagnsliðirnir voru neikvæðir um hvorki meira né minna en 92,5 milljarða króna. Og niðurstaðan varð sem sagt 73 milljarða króna tap!

Þetta risatap OR fær líklega bronsið í keppninni um mesta tap fyrirtækis í Íslandssögunni. Þá eru auðvitað undanskildir bankarnir og aðrir risar á brauðfótum, sem fóru beint í þrot. Og Orkubloggið hefur ekki enn séð subbulegar afkomutölur fyrirtækja eins og t.d. Exista vegna 2008. En í dag er OR með þungt bronsið um hálsinn.
Aðeins Straumur og Eimskip hafa náð að toppa þetta risatap OR. Meira að segja hið gígantíska tap FL Group árið 1997, upp á 67 miljarða króna, hverfur í skuggann af tapi Orkuveitu Reykjavíkur á liðnu ári. M.ö.o. er vart unnt að mótmæla því, að fjármögnunarstefna OR hafi reynst ennþá ömurlegri en glapræðisstefna Hannesar Smárasonar og félaga í fjárfestingum FL Group.
Í síðustu færslu var Orkubloggið með smá áhyggjur vegna 380 milljarða króna skuldar Landsvirkjunar. OR nær ekki að toppa það; skuldir OR um síðustu áramót voru "einungis" 211 milljarðar króna. Samt lítur reyndar út fyrir að OR sé jafnvel í ennþá verri málum en Landsvirkjun. Yfir árið 2008 rýrnaði nefnilega eigið fé Orkuveitunnar úr 89 milljörðum króna í 48 milljarðar króna. M.ö.o. þá myndi annað ámóta annus horribilis eins og 2008 hreinlega gjörþurrka út allt eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur.

Þegar litið er til þessara tveggja orkufyrirtækja, Landsvirkjunar og OR, er freistandi að draga eftirfarandi ályktun:
Landsvirkjun hefur þrátt fyrir allt staðið sig ótrúlega vel í að verja sig á þessum erfiðu tímum. Orkubloggarinn getur ekki annað en tekið ofan fyrir starfsfólki LV að þessu leyti. Það má ekki gleyma því sem vel er gert - þó svo LV sé vissulega í erfiðum málum, eins og áður hefur verið minnst á hér á Orkublogginu.
Aftur á móti virðist fjármálastjórn Orkuveitu Reykjavíkur ekki hafa einkennst af viðlíka varkárni. Meðan óveðursskýin hrönnuðust upp í efnahagslífi bæði heimsins og Íslands fram eftir árinu 2008, lýstu Orkuveitumenn yfir bjartsýni og virtust fullir stolts yfir árangri sínum.

Hvað um það. Þegar meirihlutinn í Reykjavík gerði Guðlaug Gylfa Sverrisson, verkefnisstjóra hjá Úrvinnslusjóði, að stjórnarformanni Orkuveitunnar í ágúst s.l. var haft eftir Guðlaugi: "Ég er fullur tilhlökkunar að taka við stjórnarformennsku í OR og veit að það er mikil ábyrgð".
Það er auðvitað stuð að verða stjórnarformaður í svona flottu fyrirtæki. Ekki síst um sama leyti og fyrirtækið býður glás af fólki á Clapton-tónleika í Egilshöllinni.
Og það er líka flott að gefa í skyn að maður ætli að sýna ábyrgð. En Guðlaugur Gylfi og félagar hans sáu samt ekki ástæðu til að setja eitt einasta orð í skýrslu stjórnarinnar, um það hvort þetta hrottalega tap Orkuveitu Reykjavíkur teljist eitthvert tiltökumál.
Sú staðreynd að hátt í helmingur af eigin fé Orkuveitunnar hreinlega fuðraði upp eftir að Guðlaugur Gylfi tók við stjórnarformennskunni, virðist ekki einu sinni verðskulda smá vangaveltur um hvernig brugðist hafi verið við þessu svakalega áfalli. Kannski var þetta ekkert áfall í hugum þeirra sem þarna ráða - þetta eru líkelga barrrasta einhver sýndarverðmæti í eigu almennings; skattborgara í Reykjavík og nokkurra annarra volaðra drottinssauða.
Nánast einu skýringarnar sem gefnar í skýrslu stjórnarinnar á þessu ofsatapi, eru eftirfarandi: "Þróun gengis íslensku krónunnar hefur orðið með allt öðrum hætti á árinu en áætlanir samstæðunnar gerðu ráð fyrir". Þetta er sem sagt ástæða þess að góðar rekstrarhorfur brettust í martröð. Gott fyrir okkur vitleysingana að fá að vita það. Eða eins og segir í ársskýrslunni: "Þessi þróun veldur því að fjármagnskostnaðurinn hækkar verulega á árinu og eigið fé rýrnar". Hvað getur Orkubloggarinn annað gert, en að kinka kolli íhugull á svip þegar svona mikil speki er framreidd?

Og að auki er það einfaldlega þannig, að tap OR er auðvitað ekki stjórn Orkuveitunnar að kenna, né gjörsamlega misheppnuðum áætlunum fyrirtækisins um gengisþróun og áhættudreifingu. Eins og alltaf þegar illa fer, er það auðvitað öðrum að kenna.
Þetta veit Guðlaugur Gylfi og líklega öll stjórn OR. Í skýrslu stjórnarinnar segir orðrétt: "Í fjárhagsáætlun Orkuveitunnar fyrir árið 2008 var gert ráð fyrir að gengisvísitalan yrði 155 í árslok og var það byggt á spám greiningadeilda bankanna og opinberra aðila" (leturbreyting hér).
Það var sem sagt ekki Orkuveitan sem brást - heldur greiningadeildir fallinna banka og einhverjir ótilteknir mistækir álfar hjá hinu opinbera. Hjá Orkuveitunni eru menn auðvitað stikkfrí og geta ekkert gert að því að aðrir séu svona vitlausir. Og eiga því auðvitað áfram að sjá um þetta fjöregg Reykjavíkurborgar og skattborgaranna.
Orkubloggið leyfir sér að ljúka þessari færslu um Orkuveitu Reykjavíkur með örfáum spurningum, sem lesendur geta kannski svarað hver í sínu hjarta:

Er eðlilegt, að í skýrslu stjórnar fyrirtækis sem skilar þvílíku megatapi, sé ekki stafkrók að finna um horfurnar framundan og hvort þetta fyrirtæki almennings telji sig þurfa hafa áhyggjur af því að tapið jafnvel haldi áfram? Er ársskýrsla kannski bara eitthvert leiðinda formsatriði?
Eða er kannski ársskýrsla Orkuveitu Reykjavíkur vegna 2008, einhver besta vísbendingin um ömurlegt "corporate governance" sem finnst alltof víða í íslenskri fyrirtækjamenningu?
Eða er Orkubloggarinn bara einhver leiðinda tuðari?
6.4.2009 | 05:32
Silfrið II: Landsvirkjun
Eftirfarandi eru glærur sem birtust í Silfrinu í gær í tengslum við umfjöllun um Landsvirkjun.

Þetta voru tvær glærur, sem birtust vegna Landsvirkjunar. Sú fyrri beindist að því hvert tap fyrirtækisins var á liðnu ári. Lítið hefur borið á því að mönnum þyki þetta umtalsvert tap. Litlir 40 milljarðar íslenskra króna. Þykir varla fréttnæmt. Jafnvel þó svo þetta nemi hátt í fjórðungi af öllu eigin fé fyrirtækisins um síðustu áramót.
Ef litið er til afkomu íslenskra fyrirtækja í gegnum tíðina, kemur í jós að líklega er þetta tap Landsvirkjunar á síðasta ári einfaldlega eitt stærsta tap í Íslandssögunni. Áframhaldandi tap af þessu tagi myndi kíla all svakalega niður eigið fé Landsvirkjunar á tiltölulega stuttum tíma. Ennþá geta menn þó staðið keikir og bent á þá staðreynd að eiginfjárstaða fyrirtækisins er mjög sterk.

Íslendingar kunna reyndar að vera orðnir dofnir gagnvart svona háum taptölum. Ekki síst eftir hroðalega útreið fyrirtækja útrásarvíkinganna. Fyrirtækja eins og t.d. FL Group, Eimskips og Straums. Eins og sá má á glærunni hér að ofan, hefur Íslandsmetið í tapi verið slegið hratt undanfarin misseri - fyrir vikið þykir 40 milljarða tap kannski ekkert tiltökumál.
Svona eru tölur nú afstæðar og tilfinningin fyrir þeim breytileg. Ekki eru mjög mörg ár liðin frá því mönnum nánast lá við yfirliði, þegar Þorsteinn Vilhelmsson seldi hlut sinn í Samherja fyrir einhverja 3,5 milljarða eða svo. Var það ekki örugglega árið 2000? Og svo var það að þríeykið glæsilega seldi bjórfyrirtækið sitt í Skt. Pétursborg fyrir 400 milljónir dollara. Það jafngildir í dag næstum 48 milljörðum ISK, en nam á þáverandi gengi líklega um 35 milljörðum.

M.ö.o. tapaði Landsvirkjun á liðnu ári álíka upphæð og söluverðið var á Bravo-bjórveldinu. En í dag þykja svona upphæðir bara smotterí eða hvað? Það er kannski ekki skrítið. Ógnin sem steðjar að Landsvirkjun er nefnilega önnur. Þó svo eigið fé fyrirtækisins rýrni hratt þessa dagana, er það ekki vandamál dagsins.
Ekki er hægt að horfa framhjá þeim möguleika, að Landsvirkjun lendi í greiðsluþroti. Þrátt fyrir öfluga eiginfjárstöðu. Að fyrirtækið geti ekki staðið við að greiða afborganir af skuldum sínum og lánin verði gjaldfelld. Staða Landsvirkjunar núna, er kannski ekki ósvipuð, eins og hjá íslenskri fjölskyldu sem notaði tækifærið í góðærinu og fékk sér bæði stærra húsnæði og öflugri jeppa. Á gengistryggðu láni. Munurinn er þó sá, að Landsvirkjun fær stóran hluta tekna sinna í dollurum, sem er eins gott. En á móti kemur gríðarleg lækkun á álverði. Landsvirkjunarfjölskyldan er sem sagt að sligast undan Kárahnjúkavillunni og Hummernum þar í heimreiðinni.
Það yrði ekki lítill skellur. Landsvirkjun skuldar u.þ.b. 3,2 milljarða USD; um 380 milljarða íslenskra króna! Fyrirtækið skuldar m.ö.o. sem nemur u.þ.b. tíu sinnum söluverð Bravo-veldisins í Rússlandi. Skuldin samsvarar næstum því 1,2 milljónum ISK á hvert einasta mannsbarn á Íslandi. Þar með taldir hvítvoðungarnir, sem fæddust nú í nótt.
Vonandi fyrirgefst Orkubloggaranum að þykja þetta hið versta mál. Ef Landsvirkjun lendir í greiðsluþroti, sem nú virðist alls ekki útilokað, fellur þessi skuldbinding á ríkið. Litlar 380 þúsund milljónir króna.

Undarlegast þykir þó bloggaranum kæruleysið sem fjármálaráðherra virðist sýna þessu máli. Hann ber hina pólitísku ábyrgð á velferð Landsvirkjunar. Ekki hefur heyrst af því að hann hafi minnstu áhyggjur af ástandinu. Enda er nú kosningabarátta á fullu og enginn tími til að vera a velta vöngum yfir vandræðum hjá Landsvirkjun. Vonandi er nýskipuð stjórn Landsvirkjunar meðvitaðri um þá miklu ógn sem nú steðjar að fyrirtækinu.
5.4.2009 | 14:34
Silfrið I: Drekasvæðið
Hér eru glærur frá Silfrinu fyrr i dag. Í því spjalli var annars vegar fjallað um Drekasvæðið og hins vegar Landsvirkjun. Fyrst koma hér Drekaglærurnar:

Sú fyrsta sýnir einfaldlega hvar Drekasvæðið er, á mörkum efnahagslögsögu Íslands og lögsögu Norðmanna kringum Jan Mayen.
Drekasvæðið allt er nálægt 40 þúsund ferkílómetrar og þar ef er um 75% svæðisins innan íslensku lögsögunnar (rauða svæðið). Stór hluti svæðisins fellur innan marka landgrunnssamnings Íslands og Noregs og skv. honum eiga ríkin gagnkvæma hagsmuni innan lögsögu hvors annars.

Næsta mynd sýnir í hnotskurn upphafið í olíuvinnslu á norska landgrunninu - og hvar fyrsta olían fannst (á Ekofisk-svæðinu). Fyrsta olían kom þar upp úr djúpinu árið 1971.
Fram til þessa dags hafa alls um 30 milljarðar tunna af olíu skilað sér upp á landgrunni Noregs. Þar af er rúmlega 2/3 olía og tæplega 1/3 gas, þar sem magn þess er umreiknað í olíutunnur.
Forstjóri Sagex Petroleum hefur sagt að hugsanlega muni finnast allt að 20 milljarðar tunna af olíu á Drekasvæðinu, þar af séu 10 milljarðar tunna Íslandsmegin. Slíkt myndi samstundis gera Ísland að einni mestu olíuútflutningsþjóð í heimi - ekki síst miðað við höfðatölu.
Orkubloggið veit ekki hvort kalla ber spár Sagex bjartsýni eða ofurbjartsýni... eða hreina fantasíu. En stundum rætast vissulega draumar. Og stundum vinnur fólk í lottóinu. Vinningslíkurnar eru samt afar litlar - og það ættu menn að hafa í huga vegna Drekans.
Einnig vill bloggið minna á að leitin og vinnslan á Drekasvæðinu verður dýr - væntanlega talsvert dýrari en almennt gerist í olíuvinnslu á norska landgrunninu. Bæði vegna dýpisins og svo verður olíuleitin eflaust mjög vandasöm vegna basaltsins á svæðinu. Það hefur reynst erfitt að finna lindirnar við slíkar aðstæður og eykur hættu á að hlutfall þurra brunna verði hærra en almennt þykir gott. Einnig má hafa í huga, að núverandi olíuverð er líklega talsvert of lágt til að vinnsla á Drekasvæðinu borgi sig. Svæðið verður ekki almennilega spennandi fyrr en olíutunnan fer aftur upp í 70 dollara. En engar áhyggjur; það mun gerast. Fyrr eða síðar!

Enn skal minnt á heildarolíuframleiðslu Norðmanna síðustu 38 árin; 30 milljarða tunna. Og spána um að 10 milljarðar tunna af olíu finnist Íslandsmegin á Drekasvæðinu; litla rauða svæðinu á kortinu.
Orkubloggið vill líka vekja athygli á hinum þremur gríðarstóru olíusvæðum Norðmanna; Norðursjó, Noregshafi og Barentshafi. Eins og sjá má eru þau norsku hafsvæði margfælt stærri en Drekasvæðið. Helstu rökin fyrir því að hugsanlega finnist olía á Drekanum, er einmitt að svæðið (Jan Mayen hryggurinn) er jarðfræðilega náskyldur norska landgrunninu. Einfaldur stærðarsamanburður er ekki mjög vísindalegur, en gefur þó til kynna hversu gríðarleg tíðindi það væru, ef 10 milljarðar tunna af olíu myndu finnast Íslandsmegin á Drekasvæðinu. Jafnvel sviðsmynd Orkustofnunar um að þarna finnist allt að 2 milljarðar tunna, er mikið. Mjög mikið.

Til samanburðar þá kunna Brassar sér vært læti af tómri kæti þessa dagana, vegna Tupi-olíulindanna. Sem eru sagðar geyma allt að 5-8 milljarða tunna af olíu. Slíkar fréttir þykja stórtíðindi í olíubransanum. Nú er bara að bíða og sjá hvort Ísland verði næsta bomban í bransanum.
Staðreyndin er auðvitað sú að þessar bjartsýnu spár um Drekann eru barrrasta sölumennska. Það er verið að reyna að fanga athygli olíufélaga, svo þau slái til og loks verði byrjað af alvöru að leita að olíu á íslenska landgrunninu. Íslendingum að kostnaðarlausu.
Þetta er kannski brilljant aðferðarfræði - en afar undarlegt að sumir íslenskir fjölmiðlar skuli nánast gleypa þessar ofurspár gagnrýnislaust.

By the way; þetta var frumraun Orkubloggarans í beinni sjónvarpsútsendingu. Alltaf gaman að prófa nýja hluti. Og kannski getum við bráðum öll fagnað því að verða olíuþjóð. Aldrei að vita.
Viðskipti og fjármál | Breytt 6.4.2009 kl. 04:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.4.2009 | 19:50
Björgunarsveit Landsvirkjunar

Í dag fékk Landsvirkjun nýja stjórn. Hún er valin af eiganda Landsvirkjunar, ríkissjóði, en hinn mannlegi hugur sem þessu réð er Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Stjórnina skipa:
Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi.
Stefán Arnórsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Þau Bryndís, Ingimundur og Páll sitja sem sagt áfram í stjórninni, en Sigurbjörg og Stefán eru ný. Einnig sýnist Orkublogginu að alveg hafi verið skipt um varamennina, að undanskilinni Vigdísi Sveinbjörnsdóttur, bónda. Varamenn eru nú:
Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent við Háskóla Íslands.
Birgir Jónsson, jarðverkfræðingur við Háskóla Íslands.
Huginn Freyr Þorsteinsson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri.
Jóna Jónsdóttir, viðskiptafræðingur við Háskólann á Akureyri.
Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir, bóndi á Egilsstöðum.

Óneitanlega finnst Orkublogginu sem þetta lykti örlítið af kjördæmahagsmunum og gagnkvæmum pólitískum skiptimyntaleik, sem enn virðist í hávegum hafður hjá sumum íslenskum ráðherrum.
Þetta er fólkið sem nú tekst á við einhverja mestu skuldahít sem sögur fara af. Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar vegna 2008 voru heildarskuldir Landsvirkjunar um síðustu áramót nettir 3,2 milljarðar USD. Eða sem samsvarar rúmlega 380 miljörðum ISK.
Já - Landsvirkjun skuldar meira en 380 þúsund milljónir króna. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru Íslendingar nú rétt tæplega 320 þúsund. Fjölskyldan hér á heimili Orkubloggarans ber skv. þessu ábyrgð á u.þ.b. 4.750.000 krónum af skuldum Landsvirkjunar. Hjón með tvö börn. Orkubloggarinn er satt að segja ekki alveg sáttur við þessa ábyrgð. En á allt eins von á að þessar skuldir muni brátt bætast við það skuldadíki sem bankarnir, Seðlabankinn, Björgólfsfeðgar, Jón Ásgeir og félagar hafa steypt íslensku þjóðinni útí.

Það eina sem getur bjargað þjóðinni frá því að fá þessar ofsalegu skuldir mígandi blautar beint í fangið, er að lánsfjárkreppan leysist í síðasta lagi innan 20 mánaða eða svo. Stjórnendur Landsvirkjunar segjast ráða við allar afborganir og rekstrarkostnað fyrirtækisins út árið 2010, þó svo enginn aðgangur verði að nýju lánsfé á þessum tíma. Jafnframt viðurkenna stjórnendur Landsvirkjunar að erlendir lánadrottnar séu farnir að bjalla upp í Háleiti og spyrja menn þar á bæ, hvernig þeir ætli eiginlega að fara að því að leysa úr þessu.
Hin nýja stjórn og stjórnendur Landsvirkjunar standa frammi fyrir risaverkefni. Skuldir fyrirtækisins eru, sem fyrr segir, um 3,2 milljarðar bandaríkjadala eða um 380 milljarðar íslenskra króna. Og ábyrgðin vegna þessara skulda hvílir á ríkinu - á þjóð með tæplega 320 þúsund íbúa. Þetta er arfleifð Valgerðar á Lómatjörn og Kárahnjúkaævintýrisins ljúfa.

Já - það var eflaust gaman að vera ráðherra og veðsetja þjóðina. Til allrar hamingju erum við svo heppin að Steingrímur J. Sigfússon leitaði og fann hæfasta fólk landsins til að takast á við þennan vanda. Það hlýtur a.m.k. að hafa verið markmið hans.
Þó svo Orkubloggarinn geti nú líklega gengið rólegur til náða án þess að hafa áhyggjur af Landsvirkjun, er samt einhver óeirð í bloggaranum. Og þykir tilefni til að árétta þá skoðun sína að Landsvirkjun og ríkið eiga strax að hefja viðræður við ábyrg orkufyrirtæki erlendis um aðkomu þeirra að Landsvirkjun. Íslenska ríkið er rúið trausti - farsælasta leiðin til að tryggja að Landsvirkjun lendi ekki í greiðsluþroti er aðkoma nýrra eigenda. Sem njóta meira trausts en íslenska ríkið og eiga greiðari leið að lánsfjármagni. Annars er hætt við að illa fari.
Viðskipti og fjármál | Breytt 4.4.2009 kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)