Orkustefnan

Orkubloggaranum þykir Ísland einfaldlega langbezt í heimi. En eitt er það í sambandi við Ísland sem fer lauflétt í taugarnar á bloggaranum. Það er of-eða-van árátta þjóðarinnar.

Alcoa_ValgerðurDæmi er umræðan um virkjana- og stóriðjumál. Fólk virðist ýmist vilja virkja allt sem unnt er að virkja og helst fá risaálver í hvern fjörð og hverja vík - eða berjast af miklu afli gegn öllum slíkum áformum og jafnvel telja jarðvarmann hið versta mál og gott ef ekki bæði baneitraðan og mengunarspúandi.

Þetta eru hinir tveir andstæðu og háværu pólar virkjunarumræðunnar. Orkubloggaranum þykja bæði þessi sjónarmið hreint fráleit. Reyndar grunar bloggarann að ýmsir séu í reynd á sömu eða svipaðri skoðun og hann sjálfur: Að nýta beri orkulindir landsins af eins mikilli hagkvæmni og mögulegt er og gæta þess að orkulindirnar stuðli bæði að góðri arðsemi og sem mestri fjölbreytni í atvinnulífinu. Og að um leið verði farið gætilega gagnvart náttúrunni og virkjunum haldið frá svæðum sem búa yfir einstæðu umhverfi og/eða mikilli náttúrufegurð.

Orkubloggarinn er tortrygginn á þá stóriðjustefnu sem hér hefur lengi ríkt. Þetta hefur ýmist verið hreinræktuð byggðastefna eða skammtímalausn í efnahagsmálum. Stefnan virðist lítið hafa með arðbæran bissness að gera og þar hefur nánast eingöngu verið fókuserað á áliðnað.

Orkuverd_utsala_2Þar að auki hefur upplýsingum um arðsemi orkuvinnslunnar verið haldið leyndum. Og arðsemisútreikningar Landsvirkjunar miðast við að ríkið afhendir fyrirtækinu virkjanaréttindin án endurgjalds. Í stað þess að þessi réttindi ættu auðvitað að vera verðmetin til fulls og metin að raunvirði sem hlutafé greitt inn í Landsvirkjun.

Sömuleiðis vantar líka að verðmeta umhverfistjón af völdum virkjananna þegar arðsemin er metin. Dæmið hefur sem sagt aldrei verið reiknað til fulls. Í þessu ljósi ætti Landsvirkjun auðveldlega að vera stöndugasta fyrirtæki landsins. Þess í stað berst Landsvirkjun nú í bökkum með að greiða afborganir af lánum sínum og sú ógn vofir yfir að fyrirtækið lendi í greiðsluþroti. Þetta er sú furðulega og nöturlega staðreynd sem blasir við núna þegar núverandi forstjóri kveður Landsvirkjun. Ríkisstyrkt apparat í þröngri stöðu.

Í huga Orkubloggarans er áliðnaður orðinn háskalega stór hluti af íslensku efnahagslífi. Þröngsýn stóriðjustefna stjórnvalda hefur gert íslenskt atvinnulíf einhæfara en nokkru sinni. Þessu er orðið tímabært að breyta.

Engin önnur þjóð á hlutfallslega jafn miklar endurnýjanlegar orkulindir eins og við Íslendingar. Nú á tímum æ dýrari olíuvinnslu og sífellt meiri umræðu um nauðsyn þess að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, ættu þessar auðlindir að geta skilað okkur miklu meiri arði en þær hafa gert.

Solarlag_IslandOrkubloggið gerir þá kröfu til Alþingismanna, ríkisstjórnar og stjórnvalda að marka sér nýja, skýra og framsýna virkjanastefnu sem skili þjóðinni bæði miklum arði og fjölbreyttara atvinnulífi. Og að sú stefna gæti í ríkum mæli að umhverfinu og hafi varúð að leiðarljósi. Og að ráðherrar geti ekki snúið niðurstöðu faglegs umhverfismats eða skipulags eftir því hvernig pólitískir vindar blása - hvort sem þeir heita Siv eða Svanhvít.

Stóriðjustefna íslenskra stjórnvalda síðustu 30 árin hefur alls ekki skilað nógu góðum árangri og verið alltof einhæf. Hér þarf að verða alger hugarfarsbreyting hjá stjórnvöldum í orkumálum, þar sem langtímahagsmunir þjóðarinnar allrar í víðum skilningi verða ávallt hafðir í hávegum. Til að svo meigi verða þarf að taka möguleikana til heildarskoðunar, greina tækifærin ítarlega, af nákvæmni og raunsæi og horfa til framtíðar. Tækifæri okkar hafa aldrei verið jafn góð eins og nú, þegar veröldin þráir meiri endurnýjanlega orku og umræðan um gróðurhúsaáhrif er til að auka enn meira vindinn í segl Íslands. Það eina sem þarf er ný hugsun í orkumálum Íslands.


Bloggfærslur 5. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband