22.8.2010 | 00:14
Skammsýni ASÍ og SA

Þeir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins og Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, eru með böggum Hildar þessa dagana. Og sortnar fyrir augu yfir þeirri tilhugsun að kannski verði ekkert af byggingu álvers Norðuráls í Helguvík.
Álbræðslur sækja þangað sem þau fá ódýrasta rafmagnið. Þar hefur Ísland um skeið boðið hvað best. Upplýsingar um raforkuverð til stóriðju sýna glögglega að raforkan hér hefur undanfarin ár verið seld jafnvel ódýrari en hjá vanþróuðum þjóðum Afríku. Og það þó svo hér fái álverin algerlega öruggt raforkuframboð, pólitískan stöðugleika og vel menntað vinnuafl í kaupbæti. Þetta er hinn nístingskaldi raunveruleiki, sem dregur svaðafyrirtæki eins og Glencore International, til Íslandsstranda. Harðjaxlagengið hjá Glencore eru einmitt aðaleigaendur Century Aluminum.
Orkubloggarinn á erfitt með að skilja af hverju menn sjá hagsmuni í því fyrir Íslendinga að fá tindáta frá mönnum, sem kallaðir hafa verið mestu blóðsugur þriðja heimsins, til að byggja álver suður í Helguvík. Bloggarinn er á því að þeir Gylfi og Vilhjálmur ættu fremur að tala fyrir því að það sé bæði hagur umbjóðenda þeirra og þjóðarinnar allrar að hætta að kyssa vöndinn! Við eigum að gera meiri arðsemiskröfu til nýtingar á íslenskum náttúruauðlindum, heldur en býðst með því að virkja fyrir álver. Vatnsaflið og jarðvarminn er fjöregg þjóðarinnar og verði áfram haldið á álbræðslubrautinni mun samningsstaða orkufyrirtækjanna gagnvart stóriðjunni versna enn frekar. Bygging fleiri álvera mun auka enn meira líkurnar á því að við verðum áfram föst í feni lágrar arðsemi í raforkuframleiðslunni til langrar framtíðar.

Miklu skynsamlegra væri að nýta tækifærin sem nú bjóðast til að margfalda tekjur bæði Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Gera bæði þessi opinberu fyrirtæki að öflugri uppsprettu að gallhörðum erlendum gjaldeyri; gjaldeyri sem ekki aðeins myndi duga fyrir afborgunum lána, heldur gæti myndað stofn að öflugum íslenskum fjárfestingasjóði í eigu almennings. Til að svo geti orðið, er einfaldlega skynsamlegast að fara strax að undirbúa og vinna að fullu í því að lagður verði rafstrengur milli Íslands og Evrópu.
Það er eiginlega með ólíkindum að stóru orkufyrirtækin þrjú skuli ekki hafa stofnað með sér samstarfsvettvang um þetta fyrir löngu. En það er kannski skiljanlegt að af þessu hafi enn ekki orðið; Friðrik Sophusson fráfarandi forstjóri Landsvirkjunar virtist hafa það sem sérstakt áhugamál sitt að selja rafmagn á gjafverði til álvera, Orkuveita Reykjavíkur er á hausnum og HS Orka hefur átt nóg með eigendavandræði sín.
Því miður er nýr forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, ennþá sá eini sem virðist hafa áttað sig á tækifærunum sem liggja í rafstreng til Evrópu. Ekki einu sinni hinn glænýi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, Haraldur Flosi Tryggvason, minnist einu orði á þetta í þeim fjölmörgu viðtölum sem fjölmiðlar hafa átt við hann síðustu dagana. Þetta er sérstaklega sorglegt í ljósi þess að Haraldur Flosi er nú byrjaður að boða einföldu lausnina; gjaldskrárhækkanir. Þær verðhækkanir munu vel að merkja eingöngu beinast að almenningi og venjulegum fyrirtækjum, en stóriðjan verður stikkfrí með sína langtíma raforkusamninga.

Stjórnarformaður OR þarf að gerast víðsýnni og ætti án tafar að fela hinum nýja "tímabundna" forstjóra Orkuveitunnar, Helga Þór Ingasyni, að leita samstarfs við evrópsk orkuframleiðslu- og raforkudreifingarfyrirtæki. Þeir Helgi Þór og Haraldur Flosi ættu jafnvel að leitast við að fá slík fyrirtæki inn sem eigendur að minnihluta í OR. Svo unnt verði að grynnka á skuldunum og gera eiginfjárstöðu Orkuveitunnar álitlega. Einnig væri upplagt fyrir lífeyrissjóðina að koma að Orkuveitunni - a.m.k. væri það lógískara heldur en að sjóðirnir séu að standa í braski með símafélög og byggingafyrirtæki.
Já - Orkuveitan þarf að fá í hópinn skynsama eigendur með langtímahugsun. Hin nýja stjórn og forstjóri OR þurfa að gera það að forgangamáli að finna góða framtíðarlausn fyrir OR. Stjórnendurnir mega ekki bara einblína á gjaldskrárhækkanir - þó þær séu auðvitað einfaldasta og auðveldasta leiðin til að bæta götin á hinu sökkvandi gráa skipi Orkuveitunnar. Byrja þarf strax að undirbúa það að fyrirtækið losni undan a.m.k. hluta af raforkusölunni til Norðuráls á Grundartanga og geti selt þá sömu orku á margfalt hærra verði til Evrópu. Þeir þurfa líka að skoða vandlega með hvaða hætti OR getur losnað undan raforkusölusamningi vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík (ef slíkur bindandi samningur er á annað borð kominn á). Vonandi er það í reynd svona stefna sem verið er að boða með nýjum forstjóra yfir Orkuveitunni.
Óneitanlega er Orkubloggarinn grænn af öfund útí Helga Þór. Af því varla er hægt að hugsa sér meira spennandi starf á Klakanum góða heldur en forstjórastarf hjá orkufyrirtæki á tímamótum.
Ísland er hvorki meira né minna en mesti orkubolta veraldarinnar. Þetta kann að skapa okkur mögnuð tækifæri til framtíðar. Engin þjóð framleiðir hlutfallslega jafn mikið af raforku eins og Íslendingar. Íslendingar framleiða nú rúmlega 50 þúsund kWst af rafmagni á ári per capita (þ.e. miðað við fólksfjölda). Og það allt saman með vatnsafli og jarðvarma - notar ekkert gas og engin kol til þessarar miklu raforkuframleiðslu.
Ekkert land í heiminum kemst nálægt því að vera þvílíkt ofsalegt grænt orkuveldi. Norðmenn komast næst okkur - með rétt rúmlega 35 þúsund kWst pr. mann (nánast allt frá vatnsafli). Í reynd kemst ekki nokkur þjóð nálægt því að framleiða eins mikið af raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum per capita, eins og við Íslendingar gerum.
Jafnvel þó svo við miðum ekki bara við raforkuframleiðslu, heldur teljum með alla orkuframleiðslu (bæði rafmagn og eldsneyti - alla endurnýjanlega orku svo og kol, gas og olíu) þá er Ísland þar í fararbroddi með örfáum öðrum þjóðum. Ríkjum eins og Noregi og olíuríkjunum svakalegu við Persaflóann. Það eru sem sagt bara örfá ríki í heiminum sem framleiða álíka mikið af orku per capita eins og Ísland og í raforkuframleiðslu er Ísland langfremst. Og sem fyrr segir byggir öll þessi mikla raforkuframleiðsla Íslands á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Sérstaða Íslands í orkumálum er m.ö.o. æpandi mikil. Og tækniþróun í rafmagnsflutningum hefur nú skapað okkur einstakt tækifæri. Þar að auki hefur þróun orkumála innan ESB undanfarið verið eins og best verður á kosið, fyrir ríki með svo mikla endurnýjanlega raforkuframleiðslu eins og Ísland.
Nú á þessum síðustu og verstu tímum er þorsti ESB í meiri endurnýjanlega orku og í meiri orkuviðskipti við vinaþjóðir gríðarlega mikill. ESB horfist nú í augu við mörg vandasöm risaverkefni í orkumálum. Eitt er það að minnka þörf sína fyrir rússneskt gas. Annað að stórauka hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkubúskap aðildarríkjanna.
Til marks um erfitt ástand hjá bandalaginu má nefna að árið 2004 varð ESB í fyrsta sinn að flytja inn meira en helming allrar orkunnar sem notuð er innan sambandsins. Horfur eru á að þessi þróun muni halda áfram; að hlutfall innfluttu orkunnar hjá ESB eigi enn eftir að aukast. Þetta kemur ekki síst til af því hversu olíu- og gaslindirnar í Norðursjó eru að tæmast hratt. Þó svo kreppan hafi að vísu hægt aðeins á innflutningsþörfinni er ekkert annað í spilunum en að ESB þurfi i framtíðinni í æ meiri mæli að mæta bæði raforkuþörf sinni og eldsneytisþörf með innflutningi.

Þetta er það umhverfi sem nú ríkir í næsta nágrenni okkar. ESB leitar logandi ljósi að leiðum til að vingast við nágranna sína til að tryggja frá þeim orkuframboð í framtíðinni. Þess vegna er ESB nú t.d. farið að horfa til þess að taka þátt í að reisa rándýr sólarorkuver í N-Afríku. Og leggur höfuðáherslu á að byggð verði ný ofur-gasleiðsla (Nabucco) sem tengi ESB við gasríkin í Mið-Asíu. Allt gengur þetta þó mjög hægt og fyrir vikið eru vesalings framkvæmdastjórar sambandsins farnir að rugla um "meiriháttar tækifæri" aðildarríkjanna í virkjun sjávarorku - tækni sem er á fósturstigi og ómögulegt að segja hvernig muni þróast. Á maður að hlæja eða gráta?
Í reynd eru fáir raunverulegir góðir kostir í stöðunni fyrir ESB. En þeir eru þó til. Þess vegna er nú búið að leggja háspennustreng milli Noregs og Hollands. Og í undirbúningi að leggja annan slíkan streng milli landanna og líka verið að skoða það að leggja slíkan streng milli Noregs og Bretlands. Þarna er um að ræða þekkta tækni í formi mjög öflugra háspennustrengja - tækni sem veitir ESB aðgang að endurnýjanlegri raforku frá ríkjum sem eru þeim vinsamleg. Og verðið sem fæst í ESB fyrir raforkuna er vel að merkja margfalt á við það sem stóriðjan hér borgar.
Þar með er Orkubloggarinn ekki að tala fyrir því að hér eigi að reka álfyrirtækin á brott. Alls ekki. Bara það eitt að láta t.d. Búðarhálsinn og svo afgangsorku sem er í kerfinu malla inná svona streng þegar verðið er hátt (á álagstímum) myndi borga hann upp á undraskjótum tíma. Straumsvík, Norðurál og Fjarðarál þurfa bara að átta sig á því að þau fái ekki lengur orkuna á kostnaðarverði. Bloggarinn er þess fullviss að þessi fyrirtæki hafa öll borð fyrir báru til að greiða a.m.k. 50% hærra verð fyrir raforkuna en þau gera. Og þau myndu fljótt verða viljug til þess, þegar háspennustrengur væri kominn til Evrópu. Óskiljanlegt að ekki skuli vera komin af stað pólitísk umræða um þennan valkost.

Þó svo raforka frá Íslandi myndi auðvitað aldrei samsvara nema litlu broti af allri orkunotkuninni í ESB, er fráleitt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að kringumstæðurnar eru okkur afar hagstæðar. En í stað þess að nýta okkur þetta til að margfalda tekjurnar af raforkuframleiðslunni, eru sumir sem vilja barrrasta halda sig í gamla rassfarinu; selja raforkuna til þeirra sem þrífast á því að fá hana á verði sem ekki er hægt að kalla neitt annað en skít og kanil. Vonandi verður ekki meira klappað hér fyrir slíkum skelfilega gamaldags og stöðnuðum sjónarmiðum. Og vonandi fá hugmyndir um rafstreng frá Íslandi til Evrópu brátt öflugan stuðning hjá íslenskum stjórnmálamönnum og ríkisstjórninni. Sú strategía er hin eina rétta.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)