Spenna við Flóann

oil-graph-200-usd.jpg

Margir olíuspekúlantar biðu spenntir eftir föstudeginum sem leið (11. mars 2011). Vegna þess að skyndilega höfðu margir veðjað á að olíutunnan ryki upp. Í 150 USD eða 200 eða þaðan af meira!

Ástæða þess að menn gerðust svo djarfir fyrir helgina að spá æpandi miklum verðhækkunum á olíu, var að boðað hafði verið til víðtækra mótmæla gegn stjórnvöldum í Saudi-Arabíu og áttu þau að fara fram s.l  föstudag. Á ensku var talað um day of rage og sumir töldu þetta geta leitt til óeirða sem myndu trufla olíuframboð frá Sádunum. Eða a.m.k. valda því að markaðurinn færi af taugum og taka til við að hamstra olíu.

oil-collapse-2.jpg

Þar að auki hafa þegar orðið einhverjar ryskingar í austustu héruðum Saudi-Arabíu. Það vill svo til að þar býr mikið sjítum, sem eru afar ósáttir við yfirstéttina sem allt eru súnnítar, eins og flestir íbúarnir í landinu. Þar brást lögreglan hart við og skaut á fólk. Og þó svo mótmælin þarna virðast hafa verið kæfð niður, eru menn alls ekki rólegir. Þarna í austurhluta landsins liggja nefnilega margar stærstu og mikilvægustu olíulindir heimsins; ofurlindir eins og Manifa, Khurais og risinn Ghawar.

En föstudagurinn varð ekki sá ófriðardagur í Saudi-Arabíu eins og sumir höfðu búist við. Kannski varð jarðskjálftinn rosalegi við Japan til þess að dreifa huga fólks. Eða kannski hafði stjórnvöldum tekist að hræða fólk - eða jafnvel kaupa sér frið með nýju loforði Sádakonungs um 36 milljarða dollara fjárframlög til ýmissa verkefna. Ekki veitir af í landi þar sem atvinnuleysi ungs fólks er um 40%!

En stjórnvöld í Riyadh   ættu kannski ekki að fagna sigri of snemma. Stór hluti þjóðarinnar er löngu búinn að fá yfir sig nóg af einræðisstjórninni, sem með harðri hendi hefur haldið öllum umbótaöflum niðri. Þar að auki gæti ein allra minnsta þúfan orðið til þess að velta hlassinu. Þar er átt við nágrannaríki Sádanna; smáríkið Bahrain

bahrains-oil-importance_1068631.jpg

Bahrain á sér merkan sess í olíusögunni því fyrsti olíubrunnurinn á Arabíuskaganum var einmitt grafinn í sandinum í Bahrain (það var 1935). Í dag framleiðir Bahrain einungis um 40 þúsund olíutunnur á dag og skiptir því sáralitlu máli þegar rætt er um olíuframboð í heiminum. En Bahrain er eins og eyja í Súnnítahafi Arabíuskagans. Þar eru um 7/10 allra íbúanna sjítar, en öll valdastéttin eru súnnítar. Súnnítarnir eru lítt spenntir fyrir því að deila peningum og völdum með þorra þjóðarinnar og þarna á milli er því talsverð spenna. Sem gæti blossað upp núna þegar almenningur í öðrum Arabaríkjum hefur risið upp gegn ofríki þaulsetinna valdhafa. Og slíkar óeirðir gætu smitast yfir landamærin til Saudi-Arabíu.

us_navy_5th-fleet.jpg

Vert er líka að hafa í huga að líklegt er að sjítarnir í Íran styðji trúbræður sína í Bahrain - hvort sem er opinberlega eða með undirróðri - og hvetji til uppreisnar gegn súnnítastjórninni. Inní þetta blandast bandarískir hernaðar-hagsmunir, því mikilvægasta flotahöfn bandaríska sjóhersins við Persaflóann er í Bahrain. Og allar fyrrnefndar risalindir Sádanna eru rétt handan við landamæri Bahrain að Saudi-Arabíu. Bahrain er því sakleysisleg púðurtunna, sem gæti haft all svakalegar afleiðingar ef hún springur.

 


Bloggfærslur 14. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband