7.11.2014 | 08:35
Áhugaverð framtíðarsýn Bretlands í raforkumálum
Til að átta sig á því af hverju það kann að vera áhugavert að leggja rafstreng milli Íslands og Bretlands skiptir miklu að skoða orkustefnu Bretlands - og hvernig bresk stjórnvöld sjá fyrir sér þróun orkugeirans þar í landi næstu ár og áratugi.
Í þessu sambandi er áhugavert að lesa nýlega breska skýrslu sem ber titilinn UK Future Energy Scenarios. Skýrslan kom út í Bretlandi s.l. sumar og er gefin út af National Grid, sem er breska orkuflutningsfyrirtækið líkt og Landsnet er hér á landi. Að samningu skýrslunnar koma fjölmargir aðilar, m.a. af hálfu breskra stjórnvalda, auk þess sem samráð var haft við bæði hina ýmsu hagsmunaaðila og almenning.
Í UK Future Energy Scenarios er birt framtíðarsýn um þróun breska orkugeirans fram til 2035 og 2050. Settar eru fram mismunandi sviðsmyndir um þróunina og mismunandi valkostir til að mæta þeim áskorunum sem sviðsmyndirnar fela í sér. Megináherslan er lögð á tímabilið fram til ársins 2035, enda verður óvissan talsvert meiri þegar reynt er að spá fyrir um þróunina alla leið til 2050. Hér verður fjallað um þessa bresku skýrslu og umrædd framtíðarsýn Breta útskýrð. Umfjöllunin hér takmarkast við þann hluta skýrslunnar sem fjallar um raforkumálin.
Aukinn aðgangur að orku, aukinn sveigjanleiki og grænni orka
Það sem býr að baki raforkustefnu Bretlands og framtíðarsýn Breta í raforkumálum eru einkum þrjú grundvallaratriði eða hvatar. Í fyrsta lagi er að auka raforkuöryggið. Í þessu sambandi má t.d. benda á nýlega frétt í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins, þar sem fjallað er mikilvægi orkuöryggis og blikur sem þar eru á lofti víða í Evrópu.
Í auknu raforkuöryggi felst einkum tvennt. Annars vegar er bæði uppbygging nýrra orkuvera og styrking raforkuflutningskerfis innanlands. Hins vegar er að fá meiri aðgang að orku frá öðrum ríkjum sem boðið geta upp á trygga afhendingu. Í tilviki Breta fæst slíkur aðgangur með fleiri sæstrengjum og þá t.d. til Frakklands, Hollands, Noregs og Íslands.
Í öðru lagi byggist raforkustefna Bretlands á því að auka aðgang að sveigjanlegri raforkuframleiðslu svo vandræðalaust verði að mæta snöggum sveiflum í raforkueftirspurn. Þetta er nátengt fyrsta atriðinu, sem nefnt var hér ofar, en hér er áherslan á aðgang að tilteknum orkulindum. Sem eru fyrst og fremst jarðgas og vatnsafl.
Þetta gerist t.d. með því að bresk stjórnvöld tryggja nýjum gasorkuverum heima fyrir tilteknar lágmarkstekjur, en jarðgas er ásamt vatnsafli sú orkuuppspretta sem hraðast og öruggast getur mætt snöggum breytingum á raforkueftirspurn innan hvers sólarhrings. Annar þáttur í að auka sveigjanleikann er lagning nýrra sæstrengja, eins og fyrirhugaður sæstrengur milli Bretlands og Noregs. Þannig fæst aðgangur að vatnsafli, sem hefur einstaka eiginleika til að mæta sveiflum í raforkueftirspurn. Fyrir vatnsaflsfyrirtækin gefur þetta færi á að hámarka tekjur af nýtingu vatnsaflsauðlindanna. Þessi sjónarmið yrðu vafalítið einnig mikilvægur þáttur í viðskiptamódeli að sæstreng milli Bretlands og Íslands.
Í þriðja lagi eru að sjálfsögu umhverfisþættirnir. Þ.e. að minnka losun kolefnis í raforkuframleiðslunni. Leiðin að því er bæði að auka hlutfall raforku frá endurnýjanlegum auðlindum og að fá fleiri kjarnorkuver, auk þess að efla og þróa tækni til að binda kolefni. Hér má minna á nýútkomna skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, sem leggur áherslu á nauðsyn þess að draga hratt úr hlutfalli kolefnislosandi raforkuvera. Þær niðurstöður munu mögulega ýta enn frekar undir viðmið af því tagi sem Bretar leggja nú áherslu á.
Hagkvæmni
Athyglisvert er að allir umræddir þrír grundvallarþættir í raforkustefnu Breta eru til þess fallnir að gera sæstreng til Íslands áhugaverðan í þeirra augum. Svo er líka mikilvægt að hafa í huga að í öllum þessum grundvallaratriðum raforkustefnunnar er litið til hagkvæmninnar, þ.e. að velja kosti sem bjóða upp á fjárhagslega hagkvæmni.
Hagkvæmnisþátturinn er sem sagt mikilvægur hvati, rétt eins og aukið orkuöryggi, aukinn sveigjanleiki og minni kolefnislosun. Í þessu sambandi er vert að nefna að sæstrengur milli Bretlands og Íslands er líklegur til að vera Bretum mun hagkvæmari en t.d. uppbygging nýrra vindorkuvera við bresku ströndina. Og það jafnvel þó svo raforkuverð fyrir íslensku orkuna yrði ákvarðað geysihátt (og myndi því margfalda arðsemi íslensku orkufyrirtækjanna). Frá sjónarhóli Breta er því líklegt að sæstrengur til Ísland teljist uppfylla öll helstu viðmiðin sem búa að baki raforkustefnu þeirra. Það eitt og sér styður við væntingar um að verkefnið geti staðið undir hárri arðsemiskröfu, sem eðlilegt er að Íslendingar myndu setja sem skilyrði fyrir verkefninu.
Fjórar mismunandi sviðsmyndir
Skýrslan UK Future Energy Scenarios setur fram fjórar sviðsmyndir (scenarios) um þróun á raforkuframleiðslu Bretlands fram til 2035. Sú sviðsmyndanna sem endurspeglar best samþykkta stefnu breskra stjórnvalda um aukningu á hlutfalli endurnýjanlegrar orku og minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda nefnist Gone Green. Hinar þrjár sviðsmyndirnar nefnast No Progression, Low Carbon Life og Slow Progression.
Þessum sviðsmyndum verður ekki lýst sérstaklega hér, en auðvelt að kynna sér þær í sjálfri skýrslunni. Það sem endurspeglast í þessum sviðsmyndum er einkum minni áhersla á kolaorku og aukin áhersla á endurnýjanlega orkugjafa. Stærsta breytan er hversu jarðgas mun leika stórt hlutverk á breska raforkumarkaðnum. Það sem skiptir okkur Íslendinga þó mestu í framtíðarsýn Breta í orkumálum er sá hluti í stefnu þeirra sem tengist sæstrengjum.
Áhersla á nýja sæstrengi
Í skýrslu Bretanna kemur fram rík þörf á auknum tengingum með sæstrengjum. Þar eru sett fram markmið um auknar tengingar til ársins 2020 annars vegar og 2030 hins vegar. Gert er ráð fyrir að árið 2020 verði flutningsgeta sæstrengja sllt sð 2.000 MW meiri en nú er. Og að milli áranna 2020 og 2030 bætist þarna að auki við allt að 5.000 MW.
Þetta er talvert mikil aukning. En sökum þess að hver strengur verður sennilega á bilinu 1.000-1.500 MW eru þetta samt ekki svo margir strengir (hafa má í huga að strengurinn sem nú er í undirbúningi milli Bretlands og Noregs er ráðgerður um 1.400 MW). Það skiptir því miklu hvaða strengir eru áhugaverðastir í augum Bretanna og hverjir verða settir fremst í forgangsröðina. Hvaða strengir munu þarna verða að raunveruleika fram til 2020 og 2030 mun augljóslega mjög ráðast af því hvaða lönd sýna áhuga á orkusamtarfi við Breta og hvaða strengir uppfylla best áðurnefnd viðmið eða markmið í raforkustefnu Bretlands.
Í hnotskurn gefur umædd framtíðarsýn Breta og orkustefna breskra stjórnvalda til kynna að geysilega áhugavert sé fyrir bæði Bretland og Ísland að tengjast með rafstreng. Vert er að minna á að skv. orkustefnu breskra stjórnvalda er í boði raforkuverð sem nemur á bilinu 100-250 USD/MWst vegna nýrra raforkuverkefna. Til samanburðar er rétt að hafa í huga að við Íslendingar erum nú að selja um 75% raforkunnar til þriggja álvera á meðalverði sem er sennilega nálægt 25 USD/MWst. Nú er komið upp raunverulegt tækifæri til að selja raforku á margföldu því verði. Þarna gæti myndast mikill hagnaður í formi erlends gjaldeyris, með tilheyrandi jákvæðum þjóðhagslegum áhrifum. Það er því fullt tilefni til að verða við ósk breskra stjórnvalda frá því fyrir meira en ári síðan til að ræða þennan möguleika.