Mikil óvissa um þróun olíuframleiðslu Bandaríkjanna

Olíuvinnsla í Bandaríkjunum hefur vaxið hratt undanfarin ár. Þetta er fyrst og fremst vegna hreint ævintýralegrar aukningar í vinnslu á s.k. tight oil. Fyrir vikið hefur mjög dregið úr innflutningsþörf Bandaríkjanna á olíu... a.m.k. í bili. Stóra spurningin er hvort þessi þróun haldi áfram? Eða hvort það fari jafnvel á hinn veginn og Bandaríkin verði á brátt a ný sífellt háðari innfluttri olíu.

EIA-AEO-US-oil-imports-2014-1

Þarna virðist óvissan vera ansið mikil. Í nýjustu spá upplýsingaskrifstofu bandaríska orkumálaráðuneytisins (EIA) eru settar fram ákaflega ólíkar sviðsmyndir.

EIA segir að u.þ.b. árið 2035 kunni Bandaríkin að verða orðin algerlega sjálfbær um olíu! En EIA segir líka mögulegt að árið 2035 kunni innflutningsþörfin að verða talsvert mikil eða allt að 35-40% af olíuþörf Bandaríkjanna. Þarna er breitt bil. Raunveruleikinn mun fyrst og fremst ráðast af því hversu mikilli framleiðslu tight oil mun geta skilað næstu ár og áratugi.

Sviðsmyndin um mikla framleiðslu (sbr. græna línan á grafinu hér að ofan) gerir ráð fyrir því að þessi tegund olíuframleiðslu í Bandaríkjunum muni fara hæst í um 8,5 milljónir tunna á dag (og að það verði nálægt árinu 2035). Það muni leiða til þess að innflutningsþörf Bandaríkjanna á olíu verði engin; ekki muni þurfa að flytja inn einn einasta dropa af olíu. Þetta myndi vafalítið hafa geysilega þýðingu um allan heim, því Bandaríkin hafa löngum verið það land sem þurft hefur að flytja inn langmest af olíu (þessa dagana er innflutningsþörf Kina þó orðin á pari með Bandaríkjunum).

US-Oil-tight-Eagle-Ford-1

Sviðsmyndin um litla framleiðslu (sbr. rauða línan á grafinu hér að ofan) gerir aftur á móti ráð fyrir því að framleiðsla á tight oil muni ná hámarki strax árið 2016. Og framleiðslan á tight oil verði þá um 4,3 milljónir tunna á dag. Eftir það muni þessi tegund olíuframleiðslu innan Bandaríkjanna dala - og olíuinnflutningsþörf Bandaríkjanna taki að vaxa nokkuð bratt á ný.

Það er reyndar svo að EIA álítur líklegast að senn muni innflutningsþörfin ná lágmarki. Eftir það verði um skeið gott jafnvægi á innflutningsþörfinni (sem muni nema um 25% af olíunotkun Bandaríkjanna). U.þ.b. 2025 muni svo innflutningsþörfin fara að mjakast rólega upp á við og Bandaríkin þar með á ný þurfa að horfast í augu við óhagstæða þróun í olíubúskapnum. 

EIA-AEO-US-oil-production-2014

Það eru margir flóknir þættir sem munu hafa áhrif á það hversu mikil innflutningsþörf Bandaríkjanna á olíu verður á næstu árum og áratugum. Nefna má almenna þætti eins og þróun efnahagslífisins í heiminum og þróun olíuverðs. Ekki er síður óvissa um það hversu mikið af tight oil er í jörðu þarna vestra.

Það hversu hátt hlutfall Bandaríkin munu framleiða af olíuþörf sinni næstu árin og áratugina er sem sagt afar óvíst. Ef vel gengur álítur EIA að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum muni aukast hratt á næstu árum og ná toppi árið 2036 og verða þá sem nemur 13,3 milljónum tunna á dag (til samanburðar má nefna að mestu olíuframleiðendur heimsins, Rússland og Saudi Arabía, framleiða um 10-12 milljónir tunna á dag hvor um sig). Ef aftur á móti illa gengur mun olíuframleiðsla í Bandaríkjunum ná toppi strax árið 2016 og þá verða um 9,2 milljónir tunna á dag. Líklegast þykir þó að toppnum verði náð árið 2019 og það í 9,6 milljónum tunna á dag.

Til samanburðar má nefna að nú er olíuframleiðslan í Bandaríkjunum um 7,5 milljónir tunna á dag (þ.e. meðaltalið árið 2013, en var um 8 milljónir tunna á dag í árslok 2013). Hæst náði framleiðslan þarna vestra árið 1970 þegar hún slefaði í 10 milljónir tunna. EIA álítur sem sagt líklegast að þrátt fyrir geysilega aukningu í framleiðslu á tight oil, muni olíuframleiðslan í Bandaríkjunum vart ná toppnum frá árinu 1970 (og ekki ná því sem gerist í Rússlandi og Saudi Arabíu). En að þó sé möguleiki á því að framleiðslan nái að aukast miklu meira og að Bandaríkin verði um skeið mesti olíuframleiðandi heims.

Oil-and-Gas-production_US-Russia-Saudi-Arabia__2008-2013

Hvað þarna verður veit nú enginn - og verður bara að koma í ljós. Þróunin mun vafalítið hafa mikil áhrif á heimsmálin og samskipti risaveldanna. Í bili geta Bandaríkjamenn glaðst yfir því að þegar litið er til sameiginlegrar olíu- og gasframleiðslu eru Bandaríkin nú fremst í flokki. En Pútín er varla sáttur við það.


Bloggfærslur 8. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband