Bjargvætturinn Tight Oil

Orkumál léku talsvert stórt hlutverk í aðdragandi nýliðinna forsetakosninga vestur í Bandaríkjunum.

Romney-drill-drill-drill

Flest þeirra sem aðhyllast meiri endurnýjanlega orku fylktu liði að baki Barack Obama. Bandaríski olíuiðnaðurinn stóð aftur á móti þéttur að baki repúblíkananum Mitt Romney. Og þá ekki síst eftir að Romney útnefndi Harold Hamm sem talsmann sinn í orkumálum. 

Í dag beinir Orkubloggið sjónum að olíumanninum Harold Hamm og þeirri stefnu sem hann hefur boðað: Þess efnis að Bandaríkin geti innan örfárra ára orðið mesti olíuframleiðandi heimsins og jafnvel náð langþráðu orkusjálfstæði. Fyrst er þó rétt að setja málflutning Hamm's í samhengi við þróunina í bandaríska olíuiðnaðinum:

Fáar þjóðir eru jafn háðar olíu eins og Bandaríkjamenn

Orkumál og þá sérstaklega olíuvinnsla og olíuinnflutningur eru hápólitísk málefni vestur í Bandaríkjunum. Enda hefur olíunotkun Bandaríkjamanna (per capita) ávallt verið meiri en flestra annarra þjóða. Þessi mikla olíunotkun og stærð bandarísku þjóðarinnar hefur leitt til þess að undanfarin ár hafa Bandaríkjamenn notað um 20% af allri olíuframleiðslu heimsins. Og þar sem þeir framleiða langt frá því svo mikla olíu, hafa Bandaríkjamenn þurft að kaupa mikla olíu erlendis frá. Undanfarin ár hefur þessi innflutningur þeirra á olíu numið um 15% af allri þeirri olíu sem seld er og flutt á milli landa. Til samanburðar við þessar hlutfallstölur má hafa í huga að Bandaríkjamenn eru einungis um eða innan við 5% af mannkyni öllu.

World-top_ten_oil_importers-2011-flags

Í gegnum tíðina hefur olíunotkun og olíuinnflutningur Bandaríkjanna sveiflast talsvert - í takt við efnahagslífið. Undanfarin ár hefur olíuinnflutningurinn þar vestra numið um 60% af allri olíunotkun bandarísku þjóðarinnar.

Ekkert ríki flytur inn jafn mikla olíu og olíuafurðir eins og Bandaríkin. Kínverjar og Japanir eru í öðru og þriðja sæti, en hvort landið um sig er þó einungis u.þ.b. hálfdrættingar á við Bandaríkjamenn. Mikill olíuinnflutningur Kínverja er reyndar nýlega til kominn, en olíunotkun þeirra hefur aukist gríðarlega á stuttum tíma.

US-Oil-gross-imports-by-major-sources-2011

Bandaríkin hafa á síðustu árum aukið mjög olíuinnflutning frá Kanada. Ekkert eitt land flytur jafn mikla olíu til Bandaríkjanna eins og þessi góði nágranni þeirra. Árið 2011 nam olíuinnflutningurinn til Bandaríkjanna frá Kanada um 2,2 milljónum tunna daglega. Það segir nokkuð um þýðingu kanadísku olíunnar fyrir Bandaríkjamenn að þessi innflutningur frá Kanada er meiri en sem nemur allri olíuframleiðslu Noregs.

Mikið af olíunni sem Bandaríkjamenn nota kemur frá öðrum nágranna þeirra; Mexíkó. Stærsti hluti olíuinnflutningsins til Bandaríkjanna kemur þó frá OPEC-ríkjunum eða um 40% af öllum olíuinnflutningnum. Þar eru Sádarnir, Nígería og Venesúela með stærstan hluta. Öll þessi lönd eru sem sagt afar þýðingarmiklir olíuframleiðendur fyrir Bandaríkin.

Nixon-king-faisal-of-saudi-arabia-july-1974

Bandarískir stjórnmálamenn hafa lengi haft áhyggjur af því hversu mikla olíu Bandaríkjamenn þurfa að kaupa erlendis frá. Þessar áhyggjur eiga einkum og sér í lagi við um olíuna frá óraósvæðum og frá löndum sem eru ekki sérstaklega vinsamleg Bandaríkjunum.

Allt frá því að olíuframleiðslu i Bandaríkjunum tók að hnigna snemma á 8. áratugnum hafa forsetar Bandaríkjanna lagt áherslu á  mikilvægi þess að Bandaríkin minnki þörf sína á innfluttri olíu. Þar hefur árangurinn verið afar lítill. Þvert á móti hefur þróunin oftast verið sú að Bandaríkin hafa þurft sífellt meiri innflutta olíu. Þá sjaldan innflutningsþörfin hefur minnkað hefur það jafnan verið tímabundið - og ástæðan yfirleitt verið efnahagssamdráttur en ekki aukin innlend olíuframleiðsla. 

US-White-House-1979-Jimmy-Carter-PV-roof

Auknar áhyggjur bandarískra stjórnmálamanna af olíufíkn landsins og því að verða sífellt háðari erlendri olíu ýttu undir opinberan stuðning við ýmsa tækniþróun. Talsmenn etanólframleiðslu, vindorku, sólarorku og jarðhita brostu breitt, því nú opnuðust miklir opinberir sjóðir sem dældu fé í þessar grænu greinar orkugeirans.

Segja má að fyrsta græna uppsveiflan hafi orðið strax í tíð Nixon's og Ford. Í forsetatíð Jimmy Carter's var svo gengið enn lengra og til að sýna gott fordæmi var sólarsellum komið fyrir á þaki Hvíta hússins. Úti í Mojave-eyðimörkinni risu fyrstu stóru speglasólarorkuver heimsins (CSP) - fyrir tilstuðlan mikilla opinberra styrkja. Á þessum tíma var ekki byrjað að tala um gróðurhúsaáhrif og áherslan á endurnýjanlega orku á 8. áratugnum var eingöngu til kominn í því skyni að auka innlenda orkuframleiðslu. Meðal annarra verkefna sem bandaríska ríkið dældi fjármunum í voru tilraunir til að vinna olíu úr kolum, en það er bæði geysilega dýrt og mjög kolefnislosandi. Tilgangurinn var einfaldur; að stuðla að aukinni innlendri orkuframleiðslu í Bandaríkjunum og minnka þörfina á innfluttum orkugjöfum.

US-Oil-Potential-Federal-Lands-Continental-Shelf-2012

Bandaríski kolvetnisiðnaðurinn hefur aldrei verið mjög hrifinn af þessu grændekri. Og alla tíð frá því að olíuvinnsla í Bandaríkjunum fór að minnka, í kringum 1970, hefir bandaríski olíuiðnaðurinn barið á mönnum í Washington DC um að opna þeim leið að fleiri olíusvæðum innan bandarískrar lögsögu. Þar hefur einkum verið  horft til svæða sem njóta verndar sem alríkisland (Federal Lands) og einnig til landgrunnssvæðanna utan við bæði vesturströnd og austurströnd landsins. Einnig hefur olíuiðnaðurinn verið æstur í að komast inn á náttúruverndarsvæði norður í Alaska.

En alríkisstjórnin í Washington DC og meirihluti Bandaríkjaþings hafa aftur á móti lengst af verið treg til að hleypa olíufyrirtækjunum í þessi svæði; hvort sem eru verndarsvæði eða landgrunnið (að undanskildum Mexíkóflóa). Sú afstaða stafar ekki síst af áhyggjum um mengunarslys. Þess í stað hafa olíufyrirtækin verið hvött til að leggja enn ríkari áherslu á olíuleit á landi í einkaeigu og fengið til þess allskonar ívilnanir í formi hagstæðra skattareglna o.fl. 

Persian-Gulf-USS-Carl-Vinson-aircraft-carrier-january-2012

Mikill olíuinnflutningur Bandaríkjanna er líka ein af ástæðum sífelldra og umfangsmikilla afskipta Bandaríkjanna af Mið-Austurlöndum og mikilla umsvifa bandaríska sjóhersins þar i grennd (heimahöfn 5. flotans er einmitt í Bahrain við Persaflóa). Bandaríkin hafa talið afar mikilvægt að tryggja ótruflaða umferð olíuskipa til og frá Persaflóanum og líða engum að hindra siglingar þar.

En um afskiptin af Persaflóasvæðinu má þó sennilega segja að þar hafi skipt ennþá meira máli að Persaflóaríkin búa yfir stærstu og aðgengilegustu olíulindum framtíðarinnar. Olían þar og í löndum eins og Íran og Írak er olía sem mun vafalítið hafa mikla og vaxandi efnahagslega þýðingu eftir því sem árin líða. Í huga Bandaríkjastjórnar er nauðsynlegt að olíumarkaðir heimsins þurfi ekki að upplifa það að olíuframboð frá Persaflóanum snarminnki skyndilega vegna t.d. hernaðarátaka. Jafnvel þó svo Bandaríkin þyrftu enga olíu frá Persaflóanum myndi alvarleg (og jafnvel smávægileg) truflun á framboði þaðan snarhækka olíuverð um allan heim - og það gæti skaðað bandarískt efnahagslíf mjög. Þess vegna myndi jafnvel stóraukin olíuframleiðsla innan Bandaríkjanna vart hafa mikil áhrif á t.d. utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar gagnvart Mið-Austurlöndum.

US-presidents-hoping-for-oil-independence_1973-2012

Útgjöld vegna olíukaupa Bandaríkjamanna erlendis frá nema hundruðum milljarða USD á ári hverju. Vegna hækkandi olíuverðs hafa þessi útgjöld vaxið verulega síðustu árin. Það hefur bæði óhagstæð áhrif á vöruskiptajöfnuð landsins og veldur miklum tilflutningi fjármagns til stjórnvalda í ríkjum sem eru sum hver alls ekki vinveitt Bandaríkjunum.

Samhliða hefur hlutfall innfluttu olíunnar í olíunotkun Bandaríkjanna vaxið jafnt og þétt. Á þeim tíma sem Nixon tók að útlista áhyggjur sínar af þróuninni, snemma á 8. áratugnum, var umrætt hlutfall um 40%. Undanfarin ár hefur hlutfallið verið miklu hærra eða nálægt 60%.

Það eru því sterkir hvatar til þess að Bandaríkin reyni að draga sem mest úr olíuinnflutningi og auki framleiðsluna heima fyrir. Sennilega taka allir bandarískir stjórnmálamenn undir það. En raunveruleikinn hefur engu að síður verið sá að olíuinnflutningur Bandaríkjanna hefur farið sívaxandi.

Efnahagsveldi með hnignandi olíulindir 

Chrysler-1959-desoto

Bandaríkin eru sem sagt verulega háð innfluttri olíu og hafa lengi verið. En ekki má þó gleyma því að Bandaríkin hafa sjálf ávallt verið meðal mestu olíuframleiðsluríkja heimsins.

Í upphafi 20. aldar voru tvö lönd með yfirburðastöðu á olíumörkuðunum, þ.e. Bandaríkin (vegna olíuvinnslunnar í Oklahóma, Texas og víðar í landinu) og Rússland (vegna olíunnar frá Bakú). Brátt tóku Bandaríkin afgerandi forystu sem heimsins mesti olíuframleiðandi og langt fram eftir 20. öld voru Bandaríkin langstærsta olíuframleiðsluríkið.

US-Oil-Imports-Net_1910-2012

En þó svo Bandaríkin yrðu fljótlega mesti olíuframleiðandi heimsins olli efnahagsvöxturinn þar og stærð þjóðarinnar því að strax um 1950 voru Bandaríkin orðin nettóinnflytjandi að olíu og olíuafurðum (þ.e. framleiddu minna en sem nam notkun þjóðarinnar). Og jafnvel þó svo olíuframleiðsla innan Bandaríkjanna ykist hratt á 6. og 7. áratug 20. aldar náði sá vöxtur ekki að halda í uppganginn í efnahagslífinu og fjölgun þjóðarinnar, sem þurfti sífellt meiri olíuafurðir. Þess vegna jókst innflutningur á olíu jafnt og þétt þrátt fyrir sívaxandi olíuframleiðslu innanlands.     

World-Top-Oil-Producing-Countries_1969-2006

Svo gerðist það árið 1970 að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum náði hámarki (dagleg framleiðsla varð um 10 milljón tunnur). Og fór eftir það hnignandi. Framleiðslan tók reyndar kipp upp á við um og upp úr miðjum 8. áratugnum, þegar olía frá stórum olíulindum norður í Alaska byrjaði að streyma á markað. En almennt séð má segja að allt frá því 1970 hafi leiðin legið niður á við. 

Frá því Alaskaolían fannst hafa engar viðlíka olíulindir fundist innan lögsögu Bandaríkjanna. Hæst náði Alaskaframleiðslan að skila um 2 milljón tunna á dag, sem er geysilegt magn og t.d. meira en öll olíuframleiðsla Noregs í dag.

Alaskaolían varð ekki til þess að olíuframleiðslan innan Bandaríkjanna næði að bæta metið frá 1970. Það ár reyndist vera hið sögulega hámark bandarískrar olíuframleiðslu. Og um miðjan 8. áratuginn seig olíuframleiðsla bæði Saudi Arabíu og Sovétríkjanna (þáverandi) fram úr Bandaríkjunum. Það gerðist þrátt fyrir nýju Alaskaolíuna og þrátt fyrir að óvenju hátt olíuverð á síðari hluta 8. áratugarins væri hvati til meiri og dýrari borana í Bandaríkjunum.

US-Alaska-Oil-Production-share-of-total_1970-2007

Olíuframleiðslan í Alaska var fljót að ná toppi og þar að auki fóru flestar aðrar olíulindir innan Bandaríkjanna nú hnignandi. Þegar kom fram á miðjan 9. áratuginn varð hnignunin orðin áberandi; þá fór olíuframleiðsla Bandaríkjanna á ný að minnka nokkuð hratt.

Dapurt efnahagsástand síðustu ár áttunda áratugarins og í upphafi þess níunda varð reyndar til þess að olíunotkun í Bandaríkjunum dróst verulega saman. Sem varð til þess að olíuinnflutningur minnkaði og olíuverð lækkaði mjög (svo mikið að Sádarnir snardrógu úr sinni framleiðslu og Bandaríkin urðu tímabundið aftur stærri olíuframleiðandi en Saudi Arabía). En brátt kom að því að efnahagslífið tók við sér á ný og síðustu tvo áratugi 20. aldar jókst olíuneysla Bandaríkjanna verulega.

US-Oil-Production-Consumption-Imports_1949-2010

Þessi aukna olíuneysla samhliða minnkandi olíuframleiðslu innanlands varð til þess að olíuinnflutningur Bandaríkjanna óx nú aftur mjög hratt. Á tímabilinu 1985-2000 jókst olíuinnflutningurinn um meira en helming; fór úr u.þ.b. 5 milljónum tunna daglega og í um 11 milljónir tunna.

Á þessu sama tímabili (1985-2000) jókst hlutfall innfluttrar olíu og olíuafurða í Bandaríkjunum úr því að vera um 30% af olíunotkuninni árið 1985 og í að verða vel yfir 50% aldamótaárið 2000. Bandaríkin voru komin niður í það að framleiða minna en helming þeirrar olíu sem þjóðin notaði.

Þegar 21. öldin gekk í garð hélt olíuframleiðslan í Bandaríkjunum áfram að minnka. Rétt upp úr aldamótunum var olíuframleiðslan þar einungis um 5 milljón tunnur. Sem er um helmingur framleiðslunnar sem var árið 1970 og ámóta mikið eins og framleiðslan var um 1950, þ.e. hálfri öld fyrr! Enda stóð það ekki í bandarískum stjórnvöldum þarna í upphafi 21. aldar að fara útí tvö Persaflóastríð, sem augljóslega snérust mest um olíuhagsmuni. 

US-Oil-Imports-Share_1950-2003

Um 1950 fullnægði bandarísk olíuframleiðsla upp á 5 milljónir tunna daglega nær allri olíuþörf Bandaríkjamanna. En nú hálfri öld síðar, þegar dagsframleiðslan var aftur orðin einungis 5 milljón tunnur, voru tímarnir heldur betur breyttir. Því þarna um aldamótin þurftu Bandaríkjamenn að flytja inn um 12 milljónir tunna af olíu og olíuafurðum daglega. Og hlutfall innfluttrar olíu af allri olíuneyslunni í Bandaríkjunum var farið að nálgast 60%.

Og strax á fyrstu árum 21. aldarinnar fór bandaríska olíubókhaldið enn versnandi. Árið 2005 fór hlutfall erlendrar olíu í olíuneyslu Bandaríkjamanna í fyrsta sinn í sögunni yfir 60% og stefndi hraðbyri í að verða brátt 70%. Daglegur olíuinnflutningur landsins var kominn í tæplega 14 milljónir tunna og nettóinnflutningurinn var um 12,5 milljónir tunna. Um 40% alls olíuinnflutningsins kom frá OPEC ríkjum, eins og Venesúela og Persaflóaríkjunum. Olíuverð hækkaði líka hratt og bandarískum almenningi var orðið um og ó. Var bandaríska olían að klárast?

Hátt olíuverð er bæði kæfandi og hvetjandi!

China-Oil-Imports_2000-2010

Þarna á fyrsta áratug 21. aldarinnar var komin upp sú staða að Bandaríkjamenn þurftu að flytja inn meiri olíu en nokkru sinni fyrr. Við þetta bættist sú bagalega staðreynd að kominn var fram á sjónarsviðið nýr, stór og hratt vaxandi olíuinnflytjandi; Kína. Fyrir vikið tók olíuverð nú að hækka mjög.

Verðhækkunin varð sérstaklega áberandi um og upp úr 2003. Hækkandi olíuverðið þýddi að Bandaríkjamenn þurftu orðið að eyða sífellt meiri fjármunum í innflutta olíu. Og þrátt fyrir kreppuna sem skall á árið 2008 er olíuverð ennþá mjög hátt - sögulega séð - og hefur reyndar aldrei nokkru sinni verið jafn hátt yfir heilt ár eins og var 2011. Og það gæti farið svo að metið frá 2011 (þ.e. meðalverð yfir árið) verði slegið á árinu sem er að líða (2012). Olíuverð hefur nefnilega haldist afar hátt (sögulega séð) þrátt fyrir efnahagserfiðleikana í Evrópu og aðeins rólegri efnahagsvöxt í Kína.

Oil-Price_Annual-Average_1980-2012-with forecast-to-2040_EIA-dec-2012

Hækkandi olíuverð hefur á skömmum tíma leitt til gríðarlegra fjármagnsflutninga frá Bandaríkjunum og í vasa annarra olíuframleiðsluríkja. Síðustu árin hefur árlegur kostnaður Bandaríkjanna vegna kaupa á olíu erlendis frá verið nálægt 300 milljörðum USD (mun hafa verið 327 milljarðar USD árið 2011). Og til að bæta gráu ofan á svart fer stór hluti af þessu dollaramagni beint til olíuframleiðslulanda sem eru ekkert alltof vinsamleg Bandaríkjunum (lönd eins og Venesúela, Rússland og ýmis Persaflóaríki). Loks virðist fátt benda til þess að olíuverð lækki; þvert á móti gerir bandaríska orkumálaráðuneytið ráð fyrir því að líklegast sé að olíuverð haldi áfram að hækka næstu árin og áratugi (sbr. bláa línan á grafinu hér að ofan).

En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Fyrir bandarískt efnahagslíf er hátt olíuverð ekki endilega bara af hinu illa. Þetta háa verð er nefnilega líka hvati til að finna nýjar og hagkvæmar leiðir til að vinna meiri olíu innanlands. Mesti vandi bandarískrar olíuframleiðslu hefur ekki verið sá að engar nýjar olíulindir sé að finna - heldur kannski miklu fremur að olíuverðið var lengi vel svo lágt að fjármagnseigendur höfðu takmarkaðan áhuga á dýrri olíuleit í Bandaríkjunum. 

Oil-production_costs_break-even-2012

Hækkandi olíuverð hefur valdið því að olía sem áður var talið óhagkvæmt að vinna er allt í einu orðin dúndrandi bissness. Hækkandi olíuverð síðustu árin hefur t.d. leitt til þess að hafin er olíuvinnsla á miklu meira hafdýpi en áður þekktist (deepwater oil). Sama er að segja um olíuvinnslu úr olíusandi (oil sands). Sennilega væri nánast engin vinnsla djúpt úti í í Mexíkóflóanorður í Alberta í Kanada nema af því að menn eru fullvissir um að olíuverð muni á næstu árum og áratugum almennt haldast a.m.k. yfir 50-60 USD. Og það er ekki bara djúpvinnslan og olíusandurinn sem eru orðin áhugavert stúss. Menn eins og Harold Hamm, sem minnst var á hér í upphafi færslunnar, hafa fundið önnur og jafnvel enn betri tækifæri til að finna og vinna olíu - olíu sem fyrir einungis örfáum árum þótti alltof dýr að sækja iður jarðar.

Maðurinn sem keypti Norður-Dakóta

Umræddur Harold Hamm er í dag einn af efnuðustu mönnum í Bandaríkjunum. Hann á langa sögu að baki í bandaríska olíuiðnaðinum og er stofnandi og stærsti eigandi olíufyrirtækis sem nefnist Continental Resources.

Hamm-casual-1

Hamm er farinn að nálgast sjötugt (f. 1945) og alla tíð frá því hann byrjaði sem unglingsstrákur að vinna á bensínstöð í fæðingarbænum sínum, Lexington í gamla olíufylkinu Oklahóma, hefur hann verið viðloðandi olíu. Hamm var rétt skriðinn yfir tvítugt þegar hann byrjaði að vinna fyrir sér í olíuiðnaðinum í Oklahóma. Og áður en hann náði þrítugu hafði hann borað sinn fyrsta olíubrunn.

Næstu áratugina upplifði Hamm bæði ofsagróða og hrun. En það sem skapaði Harold Hamm sérstöðu var mikill áhugi hans á þeirri tækni að bora lárétta brunna (þ.e. bora niður og svo langt til hliðar) - til að nálgast olíu sem víða liggur í þunnum lögum, inniklemmd í sandsteininum.

Þessi tækni gengur út það að bora hreinlega út um allt; fyrst ca. 3-4 km niður og svo aðra 3-4 km lárétt og sprengja upp þétt sandsteinslögin með efnablönduðu háþrýstivatni. Þá losnar um olíu (og gas í þeim tilvikum sem það er að finna) sem liggur í þunnum og jafnvel örþunnum lögum klemmd inni í sandsteininum og þá er unnt að dæla olíunni upp á yfirborðið. Á ensku er þessi vinnsluaðferð nefnd hydraulic fracturing eða einfaldlega frackingUm láréttu boranirnar er notað hugtakið horizontal drilling.

fracking-the-bakken-0612-de

Tæknin sem felst í fracking hefur undanfarin ár verið notuð með geysigóðum árangri við gasvinnslu suður í Texas. Í því sambandi er talað um gasið sem shale gas, en sú gasvinnsla hefur á skömmum tíma stóraukið gasframboð í Bandaríkjunum (sem hefur valdið mikilli tímabundinni lækkun á gasverði og þar með líka lækkað raforkuverð vestra).

Góður árangur í þessari gasvinnslu varð til þess að fólk fór líka að horfa til þess að nota tæknina (þ.e. fracking) í olíuvinnslu. En margir voru hikandi. Þeir sem höfðu reynt fyrir sér með fracking í olíuleit suður í Texas höfðu margir brennt sig á því að eyða geysilegum fjármunum til einskis. Hver brunnur af þessu tagi er almennt margfalt kostnaðarsamari en hefðbundnir olíubrunnar - og ef menn náðu illa að hitta á olíu var fjárhagslega höggið mikið. Enn sem komið var þótti fracking því mjög áhættusöm aðferð í olíuiðnaðinum og freistaði fjárfesta lítt.

Harold Hamm var aftur á móti sannfærður um að unnt væri að ná góðum árangri í að beita fracking í olíuvinnslu og taldi þess virði að taka áhættuna. Honum varð sérstaklega hugsað til olíu sem vitað var að lá í þunnum lögum á stóru svæði djúpt undir Norður-Dakóta. Vitað hafði verið af þessari olíu í meira en hálfa öld, en vegna þess hversu erfitt og dýrt var að nálgast hana höfðu fáir séð þetta fyrir sér sem alvöru olíulindir.

bakkenmap

Svæðið nefnist Bakken og nær ekki aðeins yfir stór svæði í N-Dakóta, heldur teygir sig líka yfir til Montana og Saskatchewan í Kanada. Sem fyrr segir var ástæða þess að ekki hafði verið farið út í neina olíuvinnslu að ráði þarna á Bakken einfaldlega sú að það svaraði ekki kostnaði. Olíuverð var alltof lágt til að réttlæta útgjöldin við að bora eftir þessari olíu.

En Hamm trúði á hækkandi olíuverð og var fullviss um að Bakken gæti boðið upp á mikil tækifæri. Sagt er að einn daginn hafi hann stokkið upp í einshreyfils-flugvélina sína í Oklahóma, lent norður í Dakóta eftir fimm tíma flug og byrjað að kaupa upp vinnsluréttindi. Þetta var um aldamótin og verðið sem Hamm greiddi þá fyrir réttindin þarna norður í Dakóta var allt að hundrað sinnum lægra en gerist í dag (um leið og olíuæðið varð lýðnum ljóst snarhækkaði auðvitað verðið á slíkum vinnslurétti). Þessi kaup voru svo umfangsmikil að farið var að kalla Hamm manninn sem keypti N-Dakóta. Enn var samt nokkuð í að olíuævintýrið á Bakken færi almennilega af stað.

Töfraorðin "Tight Oil"

Oil-drilling-explained-1

Til að greina þessa olíuvinnslu frá hefðbundnum vinnsluaðferðum er olían sem liggur í þunnum lögum inniklemmd í sandsteininum djúpt undir yfirborði jarðar nefnd tight oil. Eins og minnst var á hér að ofan, þá er vinnsluaðferðin við að ná þessari tight oil upp á yfirborðið mjög svipuð þeirri sem notuð er í shale gasvinnslunni (horizontal drilling og hydaulic fracturing). Þess vegna væri kannski freistandi að nefna þessa olíu shale oil.

En sökum þess að það heiti, þ.e. shale oil, hefur löngum verið notað yfir olíumettuð grjótlög sem finna má í geysilegu magni í Kólórado og víðar í Bandaríkjunum, hafa þunn olíulögin í sandsteininum verið nefnd tight oil. Og það er sem sagt þessi olía, ásamt shale-gasinu, sem hefur á örfáum árum komið af stað nýju olíu- og gasæði vestra.

Harold-hamm-dakota-oil-rig

Sökum þess að umrædd tækni (olíuvinnsla með fracking) borgaði sig ekki nema að olíuverð væri a.m.k. 50 USD tunnan var áhuginn á tight oil ennþá lítill (meðalverð á olíu fór í fyrsta sinn yfir 50 USD árið 2005, en árin þar á undan var verðið yfirleitt að dansa í kringum 30 USD). Einungis þeir sem reyndust framsýnir... eða heppnir... létu sér detta í hug að kaupa vinnslurétt norður á Bakken.

Ennþá var altalað að "rétt" eða eðlilegt olíuverð á heimsmarkaði væri að hámarki 30 USD tunnan eða þar um bil. En það átti heldur betur eftir að breytast - á hreint undraskömmum tíma - og nú standa menn eins og Harold Hamm með pálmann í höndunum.

Já - olíuverð fór nú hækkandi og allt í einu spruttu olíuborar upp út um allt í friðsælum sveitum N-Dakóta. Fjölmargir fátækir smábændur urðu á svipstundu sterkefnaðir þegar þeir seldu olíufyrirtækjunum vinnsluréttindi á landi sínu. Continental Resources hans Harold's Hamm var þarna í fararbroddi. En brátt streymdu fleiri fyrirtæki á svæðið og meðan Bandaríkjamenn almennt sleiktu kreppusárin upp úr 2008 mokaði fólk saman fé norður í Dakóta. Og áður en Bandaríkjamenn vissu hvaðan á það stóð veðrið var olíuframleiðsla innan Bandaríkjanna hætt að minnka. Og þess í stað tekin að skríða hægt en örugglega upp á við.

Continental-Resources-Bakken-Development-Map

Árið 2007 hafði Continental Resources tryggt sér vinnslurétt á samtals meira en 1.200 ferkm svæði í N-Dakóta (síðan þá mun fyrirtækið reyndar hafa þrefaldað það land sem leyfi þeirra ná til). Vinnsla fyrirtækisins á tight oil jókst hægt og sígandi og reyndist, ásamt nýju olíunni frá djúpinu mikla á Mexíkóflóa, verða það sem þurfti til að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum hætti að dragast saman.

Svo fór að botninum í bandarísku olíuframleiðslunni reyndist vera náð árið 2008. Það ár var svo komið að dagleg olíuframleiðsla í landinu slefaði ekki í 5 milljón tunnur (að þetta væri botninn vissu menn auðvitað ekki fyrr en talsvert eftir á). Skyndilega tók framleiðslan á ný að skríða upp á við og brátt áttuðu æ fleiri sig á tækifærunum á Bakken. Þar greip um sig ekkert minna en alvöru gamaldags olíuæði og tight oil varð á allra vörum.

"Drill, drill, drill..." 

Þó svo stutt sé síðan olíuvinnslan á Bakken komst almennilega í gang hefur hún nú þegar skilað Continental Resources miklum arði og gert Hamm vellauðugan. Í dag er kallinn metinn á um 11 milljarða USD og er, eins og áður kom fram, einn af auðugustu mönnum Bandaríkjanna.

Continental-Resources-logo

En Hamm er samt ekki sáttur. Sérstaklega hefur hann verið óánægður með afskipti alríkisstofnana af umhverfismálum tengdum vinnslu Continental Resources á tight oil þarna á Bakken (við fracking er notað efnablandað háþrýstivatn og lengi vel giltu nánast engar reglur um hvaða sulli mátti blanda í vatnið en það hefur verið að breytast). Hamm bendir á að afskipti alríkisstofnananna skapi óþarfa kostnað sem standi olíuvinnslu á Bakkensvæðinu og annars staðar í Bandaríkjunum fyrir þrifum.

Oil-rig-and-tornado

Hamm fullyrðir að þarna norður í Dakóta og nágrenni séu tugþúsundir ferkm af ósnertu landi sem hafi að geyma gríðarlegt magn af tight oil. Ævintýrið sé rétt að byrja, því Bakken hafi að geyma 20-30 milljarða tunna af vinnanlegri olíu! Segir hann Hamm.

Til samanburðar þá hefur bandaríska orkumálaráðuneytið álitið að öll vinnanleg olía sem finna má í bandarískri lögsögu sé um 25 milljarðar tunna. Og að á Bakken sé í mesta lagi að finna á bilinu 3 - 4,3 milljarða tunna af vinnanlegri olíu. Hafi Harold Hamm rétt fyrir sér er næstum því helmingi meiri olíu að finna í bandarískri lögsögu en talið hefur verið. Það munar um minna!

Bakken-Oil-Production-N-Dakota_2000-oct-2012

Hamm hamrar á því að olían á Bakken geti losað Bandaríkin undan Persaflóaveseninu og stuðlað að langþráðu orkusjálfstæði Bandaríkjanna. Þess vegna eigi alríkisstjórnin í Washington DC að einbeita sér að því að meiri vinnsla komist þarna í gang. Og að farsælasta leiðin til þess sé einfaldlega sú að allar leyfisveitingar, umhverfisstaðlar, öryggismál o.þ.h. verði í höndum fylkjanna fremur en alríkisins.

Hvaða skoðun svo sem fólk hefur á þessum málflutningi hjá Hamm, þá er óumdeilt að hann er meðal þeirra manna sem eiga hvað mestan þátt í því að allra síðustu árin hefur olíuframleiðslan í Bandaríkjunum aukist verulega. Og horfur á að þetta ár (2012) verði framleiðsluaukningin jafnvel meiri en nokkru sinni áður.

US-and-Dakota-Oil-Production1990-2011

Á Bakken er framleiðslan nú komin í um 700 þúsund tunnur á dag og hefur aukist með ótrúlegum hraða. Fyrir örfáum árum var framleiðslan þarna einungis um 100 þúsund tunnur daglega. Hún hefur sem sagt u.þ.b. sjöfaldast á örskömmum tíma og er nú t.d. orðin meiri en öll framleiðsla OPEC-ríkisins Ecuador. Það er því kannski ekki skrýtið að nýverið útnefndi fréttatímaritið Time Harold Hamm sem einn af áhrifamestu mönnum samtímans.

Það er til marks um þýðingu olíunnar í N-Dakóta að slíkur kippur vegna nýrra olíulinda hefur ekki sést í Bandaríkjunum síðan menn skelltu sér í Prudhoe Bay í Alaska á 8. áratugnum. Enda hefur olíuæðið þarna í N-Dakóta nánast á svipstundu gert fylkið að einhverju mesta uppgangssvæði innan Bandaríkjanna. Atvinnuleysi hefur snarminnkað og verð á fasteignum og ýmissi almennri þjónustu hefur rokið upp úr öllu valdi á mestu olíusvæðunum. Sagt er að mánaðarleiga fyrir hjólhýsisræfil á túnbleðli sé um 2.000 USD og að þarna vinni menn allt að 16-20 tíma í striklotu við olíuboranir. Vegna verðlagsins og húsnæðisskorts sofa margir verkamennirnir einfaldlega í bílnum sínum (sbr. t.d. þetta myndband frá einum olíuverkamanninum). 

US-Tight-oil-production-versus-oil-price_2000-2012

Þessar nýju uppspretta bandarískrar olíu hefur valdið því að dagsframleiðsla Bandaríkjanna er skyndilega komin í um 6,5 milljón tunnur. Svo há tala hefur vel að merkja ekki sést þar vestra síðan um 1998.

Og horfur eru á að á þessu ári (2012) nái olíuframleiðslan í Bandaríkjunum jafnvel að fara yfir 7 milljón tunnur pr. dag. Svoleiðis tala sást síðast árið 1992! Gangi þetta eftir verður olíuframleiðsla Bandaríkjanna farin að nálgast framleiðslu Rússa og Sádanna, sem undanfarin ár hafa yfirleitt verið að framleiða á bilinu 8-10 milljón tunnur (hvort ríki um sig). Og það er einmitt þessi staðreynd sem hefur nú vakið vonir margra Bandaríkjamanna um að þeir verði senn á ný stærsti olíuframleiðandi heimsins. En til að svo verði þarf að bora ennþá meira, ennþá hraðar og ennþá víðar. Drill, drill, drill!

Barið á Obama 

Í kosningabaráttunni um bandaríska forsetaembættið nú í haust sem leið (2012) var Hamm óþreytandi við að gagnrýna styrkveitingar bandarískra stjórnvalda til endurnýjanlegrar orku. Og dásama möguleika Bandaríkjanna til að stórauka framleiðslu á olíu og gasi. Þar væri lykilatrið að alríkisstjórnin myndi hætta öllu þessu mengunarvarnastússi og afhenda fylkjunum yfirráðin og umsjón með olíuborunum á landi í eigu alríkisins (Federal Lands).

Obama-oil-rig

Alríkisstjórnin í Washington DC hefur nefnilega verið treg til að leyfa nýjar olíuboranir á alríkislandi. Þess í stað hefur Obamastjórnin lagt meiri áherslu á að styðja við tækniþróun og fjárfestingar í græna orkugeiranum.

Hamm og félagar telja aftur á móti að Bandaríkjamönnum sé afar mikilvægt að auka eigin olíuframleiðslu. Og að besta leiðin til þess sé að hefja umfangsmiklar boranir á landi í eigu alríkisins. Það muni ekki aðeins gera Bandaríkin sterkari gagnvart umheiminum, heldur skapa mikinn fjölda starfa og góðan efnahagsuppgang í landinu.

Hamm hefur nokkuð til síns máls. Með því að leyfa meiri olíuboranir á alríkislandi og líka bora bæði utan við austur- og vesturstrendur Bandaríkjanna myndi olíuframleiðsla Bandaríkjanna vafalítið aukast verulega. Á móti koma sjónarmið um mengunarvarnir, verndun lífríkisins, verndun vatnsbóla, neikvæð áhrif olíunotkunar á loftslag o.s.frv. 

US-Oil-Production-Bush-Obama_2001-2011

Sótsvartur olíubransinn er óþreytandi við að hamra á því hversu endurnýjanleg orka sé dýr og óhagkvæm. En passa sig þá líka vandlega á að skauta framhjá þeim beina og óbeina umhverfis- og heilsufarskostnaði sem fylgir notkun jarðefnaeldsneytis. 

Obama hefur viljað fara varlega í sakirnar og ekki gera stórar breytingar m.t.t. aðgengis að nýjum olíusvæðum. En það er reyndar svo að þrátt fyrir varkárni Obama hefur olíuvinnsla innan Bandaríkjanna aukist umtalsvert í hans forsetatíð. Það er því varla sanngjarnt að segja að stefna Obama-stjórnarinnar sé eitthvað ægilega óhagstæð bandaríska olíuiðnaðinum. Bransinn virðist bara pluma sig prýðilega. En auðvitað vill mikið alltaf meira.

Útspil IEA 

Olíuframleiðsla í Bandaríkjunum virðist sem sagt á traustri uppleið. Og nú er svo komið að farið er að tala um að eftir örfá ár verði Bandaríkin orðin hvorki meira né minna en mesti olíuframleiðandi heimsins! Verði stærri en Rússland og stærri en Saudi Arabía, en þessi tvö ríki hafa undanfarin ár verið að framleiða á bilinu 8-10 milljónir tunna daglega (sem er óneitanlega talsvert frá þeim 6,5 milljón tunnum sem framleiðslan í Bandaríkjunum er í dag).

IEA-US-Oil-Production-IEA-forecast_2011-2012

Slíka framtíðarsýn, um að Bandaríkin taki brátt forystuna í olíuframleiðslu heimsins, er einmitt að finna í glænýrri árlegri orkuspá Alþjóða orkumálastofnunarinnar (International Energy Agency; IEA). Þessi ágæta stofnun er reyndar alls ekki alþjóðleg, heldur samstarfsvettvangur ríkjanna í OECD. Alls eiga 28 af OECD-ríkjunum 34 aðild að IEA og Ísland er eitt af þeim sex ríkjum sem ekki eru aðilar að IEA. 

Í þessari nýjustu orkuspá IEA (World Energy Outlook 2012; WEO) urðu þau tíðindi að IEA er allt í einu komið á þá skoðun að vegna tight oil muni olíuframleiðsla í Bandaríkjunum æða upp á við á næstu árum. Og eftir einungis tæpan áratug verði olíuframleiðsla í Bandaríkjunum orðin meiri en í Rússlandi og meiri en í Saudi Arabíu!

IEA-WEO-2012_cover

IEA álítur sem sagt að innan örfárra ára verði olíuframleiðsla Bandaríkjamanna orðin meira en 10 milljón tunnur á dag. Og áður en árið 2020 renni upp verði hún orðin um 11 milljón tunnur. Gangi þetta eftir myndi olíuframleiðsla Bandaríkjanna ekki aðeins hafa tvöfaldast á innan við áratug, heldur jafnvel ná að slá gamla metið frá 1970.

IEA bendir á að þetta muni ekki aðeins hafa geysilega jákvæð áhrif á Bandarískt efnahagslíf heldur valda því að Bandaríkin muni nánast hætta að flytja inn olíu frá Saudi Aabíu og Mið-Austurlöndum (Bandaríkjunum muni nægja að flytja inn smáræði frá Mexíkó og svo auðvitað frá Kanada). Þetta muni valda því að olíuútflutningur Sádanna og nágranna þeirra til Kína stóraukist og áhrifin á þróun olíumarkaða og alþjóðastjórnmálin verði mikil.

Orðrétt segir IEA (leturbreyting er Orkubloggsins):

"The recent rebound in US oil and gas production, driven by upstream technologies that are unlocking light tight oil and shale gas resources, is spurring economic activity - with less expensive gas and electricity prices giving industry a competitive edge - and steadily changing the role of North America in global energy trade. By around 2020, the United States is projected to become the largest global oil producer".

IEA-fatih-birol-4

Og það er ekki nóg með að IEA spái því að Bandaríkin verði brátt stærsti olíuframleiðandi heimsins. Því í WEO 2012 bætir IEA því við að árið 2030 muni N-Ameríka framleiða meiri olíu en nemur eigin neyslu. Og árið 2035 verði Bandaríkin orðin orkusjálfstæð (framleiði meiri orku en sem nemur eigin notkun):

"The result is a continued fall in US oil imports, to the extent that North America becomes a net oil exporter around 2030. This accelerates the switch in direction of international oil trade towards Asia, putting a focus on the security of the strategic routes that bring Middle East oil to Asian markets. The United States, which currently imports around 20% of its total energy needs, becomes all but self-sufficient in net terms - a dramatic reversal of the trend seen in most other energy- importing countries."

US-Oil-Tight-Production_2000-2012

Þetta yrðu talsverð tíðindi. En fæst þetta staðist? Vissulega er framleiðsluaukningin í vinnslu á bandarískri tight oil mjög impressive. Sbr. grafið hér til hliðar, sem sýnir hvernig Bakken og nú síðast Eagle Ford svæðið í Texas eru nýjar og geysilegar olíuuppsprettur. En er raunhæft að þessi vöxtur geti haldið svona hratt áfram? Eru í alvöru miklar líkur á því að framleiðsla á tight oil í Bandaríkjum eigi eftir að aukast um nokkur hundruð prósent á einungis örfáum árum?

US-Oil-Production_1981-2012

Margir hafa gripið umrædda spá IEA á lofti og fagnað henni nánast sem gefnum hlut. Aðrir eru fullir efasemdar og segja að þetta sé ekki raunsætt hjá IEA. Og minna á að til að þetta geti gengið eftir þurfi langtum meiri og áhættusamari fjárfestingu en raunhæft sé.

Það er líka forvitnilegt að líta til fortíðarinnar. Þá kemur í ljós að þó svo framleiðsla á tight oil hafi vissulega aukist mjög á stuttum tíma, þá er ennþá langt í að hún jafnist á við Alaskaolíuna eða djúpið á Mexíkóflóanum (þetta sést vel á grafinu hér til hliðar).

Til að umrædd spá IEA rætist þarf olíuframleiðslan að aukast um 3-4 milljónir tunna í viðbót innan einungis nokkurra ára. Mest af þessari aukningu myndi koma frá svæðum eins og Bakken í N-Dakóta og Eagle Ford í Texas (sbr. rauði og guli liturinn á grafinu). Þegar litið er til olíusögu Bandaríkjanna yrði þetta hreint ótrúlega mikil aukning og t.d. miklu meira en aukningin sem Alaskaolían skilaði.

US-Saudi-Araba-Oil-IEA-forecast_1973-2012-2035

Eitt atriði enn er líka vert að hafa í huga - áður en maður byrjar að fagna því að Bandaríkin verði brátt nær laus undan innfluttri olíu: Það er nefnilega svo að í umræddri spá IEA er ekki bara að finna bjartsýni um hratt vaxandi olíuframleiðslu. Þar kemur nefnilega líka fram að stofnunin telur að Bandaríkin verði einungis stærsti olíuframleiðandi heims í örfá ár. Strax í kringum 2025 muni olíuframleiðslan í Bandaríkjunum aftur síga niður á við og Sádarnir (og jafnvel Rússar líka) taka forystuna á ný.

Loks er rétt að geta þess að bandaríska orkumálaráðuneytið er ekki jafn bjartsýnt eins og IEA. Hjá upplýsingaskrifstofu ráðuneytisins (EIA) álítur starfsfólkið ekki líklegt að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum aukist svo mikið eins og IEA heldur fram.

US-Oil-Production_1990-2040-2011

Í nýjustu spá EIA er vissulega að finna tölur um að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum muni aukast verulega á næstu árum. En ekki nærri eins mikið eins og birtist í spá IEA. Samkvæmt spá EIA mun olíuframleiðsla Bandaríkjanna ekki einu sinni ná 8 milljónum tunnum áður en fjara fer undan framleiðslu á tight oil. Þessi varfærni EIA helgast m.a. af því að reynslan hefur sýnt að hver einasta olíulind með tight oil hefur reynst nokkuð fljót að tæmast. Því þarf aukningin á borholum að verða mjög hröð ef unnt á að vera að viðhalda uppganginum í þessum tight oil iðnaði. Brunnar sem skila framleiðslu þurfa ekki aðeins að vera nokkur þúsund, eins og nú er á Bakken, heldur verða tugþúsundir.

Svo mikil og hröð aukning á nýjum og árangursríkum borholum, þar sem fracking er beitt, er vart möguleg nema með geysilegri fjárfestingu - og nánast afnámi stjórnsýslunnar og leyfisferlinu í kringum olíuleitina. Þar að auki eru, að mati EIA, ekki ennþá fyrir hendi gögn sem sýna að magnið af vinnanlegri tight oil sé neitt í líkingu við það sem t.d. Harold Hamm heldur fram. Fullyrðingar Hamm virðist sem sagt byggja meira óskhyggju en vísindum.

Mannkynið er olíufíkill

Já; menn sjá framtíðna misjöfnum augum. Enda er það svo að "prediction is difficult, especially about the future." Og hvort sem það var danski eðlisfræðingurinn Níels Bohr, bandaríski hafnaboltasnillingurinn Yogi Berra, Albert Einstein eða bara Jógi björn sem mælti fyrstur þessi fleygu orð, þá er ennþá ótímabært að lofa Bandaríkjamönnum því að þeir verði senn á ný stærsti olíuframleiðandi heims. Og jafnvel þó svo fari, yrði það að öllum líkindum einungis í mjög stuttan tíma.

Oil-addicts-US-China-August-2005

Svo blasir líka við að aukin olíuframleiðsla í Bandaríkjunum mun hvorki hafa góð áhrif á græna orkugeirann né leiða til minni kolefnislosunar. Þvert á móti er þessi þróun, ásamt ofurbjartsýnum spám um nýjar olíulindir, til þess fallin að tefja enn frekar fyrir takmörkunum á kolefnislosun.

Hætt er við að nýjar olíulindir muni valda því að Bandaríkjamenn freistist til að slá því enn frekar á frest að horfast í augu við orkuvanda framtíðarinnar og þá loftslagsvá sem vísbendingar eru um að uppi sé. En athafnaleysi Bandaríkjanna á þessu svið skiptir kannski ekki öllu máli. Því það er orðið nokkuð augljóst að leiðtogar heimsins almennt hafa lítinn áhuga á að sporna af alvöru gegn notkun jarðefnaeldsneytis. Við erum í reynd öll olíufíklar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott grein. Það verður áhugavert að sjá hvort þessar bjartsýnu spár rætast.

Hérna má líka finna áhugaverða grein um framleiðsluna í Dakota:

http://www.theoildrum.com/node/9506 

Þessi grein er reyndar birt á þekktri "Peak Oil" síðu en áhugaverð engu að síður.

Páll F (IP-tala skráð) 22.12.2012 kl. 10:57

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Kíki af og til inn á Olíutrommuna. Oft áhugaverðar greinar. Og þar má stundum líka sjá mikinn fróðleik í kommentakerfinu. En ég verð stundum pínu þreyttur á öllum peakoilspámönnunum. Hafði reyndar ekki séð þessa grein - sem er áhugaverð og skemmtilega barmafull af tölfræði.

Ketill Sigurjónsson, 22.12.2012 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband