Silkileiðin á 350 km hraða

riding_the_iron_rooster.jpg

Riding the Iron Rooster. Það var titillinn á frábærri ferðabók uppáhalds-rithöfundar OrkubloggaransPaul's Theroux. Í henni segir frá ferðum Theroux þegar hann ferðaðist á sínum tíma með lestum um Kína og ennþá var langt í að þessi gamli dreki i austrinu yrði að efnahagsstórveldi.

Í dag er Kína ansið mikið breytt frá því sem var þegar nöldrarinn Theroux fór þar um í dásamlegri einsemd sinni fyrir aldarfjórðungi síðan. Nú fara kínversk stjórnvöld sem stormsveipur um heimsbyggðina með kistur fullar af bandarískum ríkisskuldabréfum og fjármagna olíuvinnslu í Suður-Ameríku, málmavinnslu í Afríku, íslenska Selabanka og annað eftir því.

Kínverjarnir hafa meira að segja boðið Arnold Schwarzenegger að sjá um að bæði byggja og fjármagna nýja ofurhraðlest, sem stendur til að byggja í Kaliforníu. Það stendur sko ekki í Kínverjum að reiða fram tugmilljarða dollara í það verkefni og að auki bjóða þeir bestu hraðlestatækni heims!

Jamm - í dag þurfa Kínverjar og aðrir þar í landi sko ekki að hjakka áfram með gömlum lestarskrjóðum. Meðal kínversku lestanna er nefnilega að finna flottasta hraðlestakerfi veraldarinnar. Þessi uppbygging er samt bara rétt að byrja. Kínversk stjórnvöld hyggjast á næstu fimm árum leggja 30 þúsund km af lestarteinum og mest af því verða ofurhraðlestar.

silk_road_train_10.jpg

Það er ekki nóg með að kínverska þjóðin fái þarna hraðskreiðar og góðar lestar; það athyglisverðasta er  sú staðreynd að það eru fyrst og fremst kínversk fyrirtæki sem standa að baki þessari tæknibyltingu. Það er einmitt þess vegna sem sjálf Kalifornía er á góðri leið með að semja við Kínverja um byggingu hraðlesta þar í sólarfylkinu sæla.

Þar er ekki um neina smá framkvæmd að ræða. Þetta er súperhraðlest sem liggja á milli San Francisco og LA og áætlaður kostnaður hvorki meira né minna en 43 milljarðar USD. En jafnvel metnaðarfullar áætlanir í Bandaríkjunum um bæði þessa hraðlest og aðra milli Chicago og Atlanta eru smámunir miðað við nýja lestakerfið sem nú rís með ægihraða austur í Landi Drekans. Bara á næstu þremur árum ætla Kínverjar að nota sem nemur 300 milljörðum USD í hraðlestarkerfið sitt og þar af fer stærstur hlutinn í glænýjar ofurhraðlestar.

silk_road_train_builders.jpg

Þarna er nú verið a ljúka við slíka hraðlest milli Shanghai og Beijing, sem styttir leiðina þar á milli megaborganna úr 10 klkst og í 4 klkst! Kínverjar eru einfaldlega orðnir fremstir í hraðlestatækninni og nú er á teikniborðinu sannkölluð ofurhraðlest; lest sem mun þjóta milli Kína og alla leið til Evrópu og fara gegnum um a.m.k. 15 ríki á leið sinni. Menn hafa freistast til að kalla þessar áætlanir Nýja Silkiveginn. Og þetta eru ekki bara draumórar. Kínverjar geta vel að merkja státað sig af nokkrum nútímalegustu hraðlestum heims og nú fullvissa þeir okkur efahyggjumennina í Vestrinu um að nýja hraðlestin milli Evrópu og Kína verði tilbúin eftir einungis 15 ár!

silk_road_train_5.jpg

Já - Kínverjar lofa því að eftir hálfan annan áratug geti maður sest upp í lestina í miðborg London og svo þotið austur eftir í þægindum og notalegheitum og verið kominn til Beijing eftir tvo sólarhringa. Þetta yrðu meiri tímamót en flestir gera sér grein fyrir. Vegna stjórnmálaástandsins á tímum Sovétríkjanna og Kína Maós voru nánast engar nýjar lestartengingar byggðar milli ríkjanna í austanverðri Asíu í áratugi.

Kommúnistastjórnin í Sovét var þar að auki svo "snjöll" að einangra Rússland með því að hafa annað bil milli lestarteinanna þar en er í Evrópu og það eitt hefur verið meiriháttar hindrun fyrir gömlu Sovétríkin að tengjast nágrönnum sínum með hraðlestum. Það er reyndar svo að almennileg hraðlest hefur ekki verið byggð þarna í hinu risastóra Rússkí eða öðrum fyrrum héruðum Sovétsins, síðan Síberíuhraðlestin  milli Moskvu og Vladivostok var opnuð árið 1916 - fyrir nærri hundrað árum!

silk_road_china_solar_eclipse_998856.jpg

Kínverjar eru nú í lestarframkvæmdum víða um heiminn, t.d. í Venesúela, Tyrklandi og Búrma. Þeir taka gjarnan að sér að fjármagna einnig framkvæmdirnar og t.a.m. greiðir Búrmastjórn herlegheitin með aðgangi Kínverja að liþíumnámum landsins. Enn eitt lestarverkefni Kínverja er bygging Pílagrímahraðlestarinnar svokölluðu milli Mekka og Medína í Saudi Arabíu. Kínverjar eru einfaldlega orðnir meistarar hraðlestanna.

Gert er ráð fyrir allt að þremur leiðum fyrir Silkihraðlestarkerfið, sem allar muni ná til Evrópu en fari þangað eftir mismunandi leiðum. Rétt eins og Silkivegurinn hér áður fyrr var ekki bara ein ákveðin leið, þá gera Kínverjar ráð fyrir að ofurhraðlestar tengi þá senn við velflest lönd milli Evrópu og Kína. Syðsta leiðin á að liggja um SA-Asíu og svo sveigja til Indlands og fara þaðan áfram í gegnum Íran og Írak, meðan sú nyrsta færi að hluta til gegnum Rússland og norður fyrir Svartahaf og þaðan til Evrópu. Loks færi þriðja hraðlestin beinustu leið gegnum Stan-ríkin og þ.á m. olíuríkin við Kaspíahaf og svo áfram til Evrópu um Tyrkland.

china_turkemnistan_presidents_2009.jpg

Það eru helst Rússar og Indverjar sem líta þessi áform hornauga. Stjórnvöldum í Moskvu þykir nóg um hvernig Kínverjar hafa seilst til áhrifa í fyrrum Sovétlýðveldunum austan við Kaspíahafið; lagt þangað olíuleiðslur og seilst til áhrifa. Reyndar segja sumir að Rússar hafi hreinlega sofnað á verðinum og eytt alltof miklum kröftum í deilur við Úkraínu og Georgíu. Á meðan hafi Kínverjar læðst vestur á bóginn og tryggt sér náin tengsl við lönd eins og Túrkmenistan, Úzbekistan og Kyrgysztan. Nú er t.a.m. byrjuð vinna við lagningu gríðarlegrar gasleiðslu milli allra þessara þriggja landa og Kína. Þessu umstangi öllu fylgja stórir samningar um orkukaup, en þar er um að ræða olíu og gas sem að óbreyttu hefði farið til Rússlands. Í staðinn aukast áhrif Kína hratt í Mið-Asíu og um leið dregur úr vægi Rússlands og Evrópu gagnvart þessum heimshluta.

Það eru ekki bara Rússar sem hafa áhyggjur af þessum tilþrifum Kínverja í Mið-Asíu. Indverjar sem eru hin megaþjóð veraldarinnar skynja einnig ýmsar meintar hættur tengdar því að Kína styrki stöðu sína gagnvart nágrönnum Indlands. Þessi hraðlestaáætlun Kínverja er m.ö.o. alls ekki óumdeild hugmynd.

silk_road_train_3.jpg

Það má vel vera að Kínverjar stefni að því að tryggja pólitísk áhrif sín enn betur með þessum nýju hraðlestatengingum við nágranna sína í Asíu og alla leið til Evrópu. Einfaldasta skýringin á þessum metnaðarfullu áætlunum er samt auðvitað sú, að með þessu séu Kínverjar að að bæta aðgang sinn að orku- og öðrum hráefnisauðlindum. Hvort sem það er olía í Írak, gas frá Persíu og Kaspíahafi eða kopar frá Afganistan. Kínverjar eiga einungis aðgang að sjó í austurátt og ef þeir tryggja sér ekki betra samgöngukerfi til annarra átta og þá einkum til vesturs munu þeir seint verða stórveldi í líkingu við Bandaríkin. Greiðar samgöngur eru nefnilega einn helsti lykillinn að því að verða risaveldi sem getur staðið traustum fótum til langs tíma.

china_speed-train-2.jpg

Öflugt hraðlestakerfi milli Kína og Mið-Asíu, ásamt gas- og olíuleiðslum, er eðlilegt skref fyrir Kína til að tryggja orkuöryggi sitt. Það væri nánast vítavert gáleysi ef þeir myndu ekki huga að slíku. Svo benda Kínverjar sjálfir á að þetta sé hárréttur tími fyrir ríki heims að ráðast í svona framkvæmdir; skapa þurfi ný störf nú í kreppunni og því henti afar vel að ráðast í risaverkefni af þessu tagi núna. Til hliðsjónar má nefna að meira en hundrað þúsund starfsmenn unnu við byggingu hraðlestarinnar milli Shanghai og Beijing, þ.a. Silkihraðlestin myndi augljóslega verða þokkalega atvinnuskapandi! Þar að auki segja Kínverjar verkefnið æpandi grænt, enda miklu minni kolefnislosun frá lestum heldur en farþegaþotum.

silk-road_ancient.jpg

Sumir eru eitthvað að nöldra útí það að Kínverjar séu hér á Klakanum góða að gera viljayfirlýsingar við Seðlabankann og Landsvirkjun. Fyrir fáeinum misserum hefðu hinir sömu líklega fullyrt að Kínverjar væru að ásælast olíuna á Drekasvæðinu. En í þetta sinn er Drekinn í austri ekki tengdur við íslenska drekann í norðri, heldur sagt að Kínverjarnir séu áfjáðir í að tryggja sér áhrif á Íslandi sökum þess að landið verði mikilvæg umskipunarhöfn fyrir NA-siglingaleiðina. Í reynd hefur Kínastjórn í áratugi sýnt Íslendingum vinsemd og varla óeðlilegt að samband ríkjanna sé áfram á þeim nótum

Vonandi eru sem flestir Íslendingar til í að prófa Silkihraðlestina og sjá Kína með eigin augum. Hér á öldum áður voru kameldýr þarfasti þjónninn á stórum hluta Silkileiðarinnar. Það verður örugglega talsvert önnur upplifun að þjóta þessa sex þúsund km leið milli Kína og Evrópu á um 350 km hraða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill eins og ævinlega. Þetta hraðlestabrölt kínverja er ótrúlegt ævintýri sem fær ekki nóga athygli á vesturlöndum. Þegar Íslendingar voru uppteknir við byggja upp „alþjóðlega fjármálamiðstöð“ í Atlantshafinu árið 2005 höfðu Kínverjar yfir að ráða 0 kílómetrum af hraðlestarteinum (hraðlest er þá skilgreind sem þær leiðir þar sem hægt er að viðhalda a.m.k. 200 km/klst meðalhraða).

Núna hálfum áratug og hrundu íslensku bankakerfi síðar eru kílómetrarnir orðnir rúmlega 6500 og hraðlestakerfi Kínverja þar með orðið hið langstærsta í heiminum. Þeir eru ekki hættir og áætla að vera með 50.000 kílómetra kerfi árið 2020! Þetta er óskiljanleg tala þegar maður hefur í huga að japanska hraðlestarkerfið sem er hið næst-stærsta er aðeins tæplega 2500 kílómetrar og franska kerfið sem er í þriðja sætinu er 1700 kílómetrar.

Eina hliðstæðan í sögunni sem manni dettur í hug er „Interstate“ hraðbrautakerfi Bandaríkjanna sem byrjað var á í forsetatíð Eisenhower. Kínverjar veðja þó sem betur fer á lestirnar sem samgöngumáta frekar en einkabílinn og flugið eins og Bandaríkin. Það þyrfti að þekja hálft landið með hraðbrautum og flugvöllum ef Kínverjar ættu að treysta á þá samgöngumáta í sama mæli og Bandaríkjamenn.

Bjarki (IP-tala skráð) 15.6.2010 kl. 15:04

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Fróðlegur og efnismikill pistill og tilsvarandi vinna að baki.

Varðandi hraðlestakerfi Kínverja vestur á bóginn verður manni ósjálfrátt hugsað til útþenslustefnu Rómverja til forna sem þeir grundvölluðu einmitt á því sem Kínverjar virðast vera að gera núna: Með hraðvirku og skilvirku samgöngukerfi á síns tíma mælikvarða. Vonandi og væntanlega er tilgangur Kínverja nú aðeins friðsamlegur til að tryggja hagfelld aðföng til og frá landinu og efla friðsamleg, öflugri og þægilegri samskipti milli landa.

Fyrir litla þjóð eins og Ísland er sjálfsagt að efla friðsamleg samskipti í anda yfirlýsts vinskapar milli landanna. Ég hef áður bloggað um sinnuleysi íslenskra stjórnvalda varðandi eflingu þessara samskipta á viðskiptalegum grundvelli og leggja þar með grunn að öðrum valkostum en hinum eina að einblína á ESB og það sem þar hangir á spýtunni. Það yrði aðeins til hagsbóta fyrir Ísland.

Kristinn Snævar Jónsson, 20.6.2010 kl. 21:09

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ég skil út af fyrir sig það sjónarmið hjá prinsipp-fólki að við eigum að sýna Kína að við séum ekki sátt við mannréttindabrot þar í landi. Aftur á móti er engin ástæða til að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart meintum velvilja Kínastjórnar gagnvart Íslandi. Hvað ættu Kínverjar að gera okkur illt? Hertaka landið? Reyna að ná á okkur fjárhagslegu tangarhaldi? Það sé ég ekki gerast. Eflum tengslin við Kina!

Ketill Sigurjónsson, 20.6.2010 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband