NorGer

Norðmenn eru að fara að slá enn eitt metið.

norned_hvdc-cable-work-1_1052495.png

Stutt er síðan lengsti neðansjávar-rafmagnskapall í heimi - NorNed - var lagður milli Noregs og Hollands. Og reynslan af þeim kapli er greinilega bærileg því nú eru Norsararnir ásamt vinum sínum sunnar í Evrópu að fara að leggja annan og helmingi stærri kapal milli Noregs og Þýskalands.

Já - nú er NorGer-verkefnið komið á fullt. Vegalengdin milli Noregs og Þýskalands, er svipuð eins og milli Noregs og Hollands, þar sem NorNed-kapallinn hefur nú legið í nokkur ár. Rétt eins og NorNed, þá verður NorGer um 600 km langur HVDC-neðansjávarkapall og dýpið sem báðir þessi kaplar fara um er svipað. Mest er það um 400 m, en þó talsvert minna stærstan hluta leiðarinnar.

Kapallinn verður grafinn niður í hafbotninn með sérstökum plóg en á svæðum sem það verður ekki unnt verður kapallinn hulinn grjóti. Sem fyrr segir þá verður flutningsgeta NorGer miklu meiri heldur en NorNed. NorNed er 700 MW en NorGer verður 1.400 MW og á hverju ári á hann að flytja allt að 11 TWst af raforku!

wind-turbines-blades-sea.jpg

Þetta jafngildir framleiðslu rúmlega tveggja Kárahnjúkavirkjana og um 2/3 af öllu rafmagni sem framleitt er á Íslandi í dag. Hér eru nú alls framleiddar um 17 TWst árlega, en til samanburðar þá framleiða Norðmenn samtals um 120 TWst að meðaltali á ári. NorGer mun þó ekki eingöngu flytja raforku frá Noregi, heldur líka til Noregs frá Þýskalandi - einkum á næturnar þegar raforkuverð er hvað lægst í Þýskalandi og heppilegt að safna orku í norsku miðlunarlónin og þess í stað nota t.d. raforku frá þýskum vindorkuverum.

NorGer verður sem sagt nokkuð öflugur strengur. Einmitt þess vegna varð Orkubloggarinn svolítið undrandi að sjá það að spennan verður einungis um 450-500 kV, sem er nálægt því sú sama og hjá NorNed (þar er hún 450 kV). Það er nefnilega svo að með hærri spennu yrði strengurinn hlutfallslega ódýrari og reksturinn hagkvæmari. Vandinn er bara sá að neðansjávarkapaltæknin er ekki komin lengra. Og ennþá eitthvað í að við sjáum t.d. 800 kV eða 1.000 kV HVDC-kapla í sjó - þó svo slíka kapla sé nú að finna á landi og þá ekki síst í Kína þar sem gríðarlangir HVDC-kaplar hafa hreinlega sprottið upp eins og gorkúlur á síðustu árum.

norger-map.png

Heildarkostnaður við NorGer-kapalinn og spennustöðvarnar vegna hans er ansið hár, sem er líka smá spælandi. Kostnaðurinn er nefnilega áætlaður 1,4 milljarðar evra, sem er meira en helmingi hærri upphæð en NorNed kostaði (hann kostaði um 600 milljónir evra). Þetta er kannski lógískt miðað við það að flutningsgeta NorGer er einmitt um helmingi meiri. Maður hefði samt búist við því að hlutfallslega yrði kostnaðurinn við NorGer eitthvað hógværari.

Það eru einnig nokkur vonbrigði að sjá að gert er ráð fyrir raforkutapi allt að 5% í NorGer. En þetta háa tap kemur til af því að spennan á strengnum á ekki að vera nema um 500 kV. "Ekki nema" hljómar kannski hjákátlega í eyrum einhverra lesenda - en málið er að hærri spenna myndi minnka raforkutapið verulega og þess vegna hefði mátt búast við að stefnt yrði að hærri spennu í kaplinum. Við erum t.d. farin að sjá HVDC-kapla á landi með 800 kV spennu og jafnvel ennþá meiri. En tæknin er bara ekki komin lengra en þetta í neðansjávarkapaltækninni.

norger-cable.jpg

Þess vegna hafa hugmyndir um kapal milli Íslands og Evrópu líka miðast við að kapallinn yrði með max 400-500 kV spennu. Raforkuverð í Evrópu er reyndar orðið það hátt að svona kapall milli Íslands og Evrópu myndi að öllum líkindum vera þokkalegasta fjárfesting. Þó kann að vanta svona eins og eitt hraustlegt tækniþróunarskref enn, til að nokkur vilji ráðast í slíka fjárfestingu þegar á reynir.

Kapall milli Íslands og Evrópu yrði vel að merkja rúmlega þrefalt lengri en NorNed eða NorGer og lægi um allt að þúsund metra dýpi. Þ.a. slíkur neðansjávarkapall verður talsvert stórt skref fram á við. Þetta er samt bara spurning um tíma. Mörg okkar eiga meira að segja hugsanlega eftir að upplifa rafmagnstengingu milli Evrópu og N-Ameríku. Í fúlustu alvöru - þó það sé vissulega enn bara framtíðarmúsík.

germany-city-electricity_1052502.jpg

NorGer á að vera kominn í gagnið árið 2015, en byrjað verður á sjálfu verkinu árið 2012. Fram að því verða m.a. gerðar ítarlegar rannsóknir á hafsbotninum þarna í Norðursjó til að finna bestu leiðina. Stærsti hluthafinn í strengnum verður norska ríkisorkudreifingar-fyrirtækið Statnett með 50% hlut. Að auki eru norsku raforkufyrirtækin Agder Energi og Lyse Produksjon og svissneska orkufyrirtækið Elektrizitäts-Gesellschaft Laufenburg eignaraðilar, en hvert þessarar þriggja orkufyrirtækja verður með 16.67% hlut.

Þróun raforkuverðs næstu misseri og ár mun sjálfsagt hafa einhver áhrif á tímaáætlunina. Gangi spár um síhækkandi raforkuverð eftir, þeim mun betri díll verður þessi kapall. En rætist aðrar spár um mikinn óstöðugleika á raforkuverði í N-Evrópu og þ.á m. um djúpar og jafnvel langvarandi dýfur af og til, gæti verið að áætlunum um NorGer muni seinka eitthvað.

ng_grid-lights-building-2.png

Það er sem sagt ekki borðleggjandi hvernig raforkuverð mun þróast í Evrópu á næstu árum og áratugum. En þessu þurfum við Íslendingar ekki að hafa áhyggjur af. Jafnvel þó svo færi að raforkuverð í Evrópu reynist nú hafa náð hámarki til langs tíma, þá er það orðið svo miklu hærra en raforkuverð á Íslandi að hér hafa skapast ný og spennandi tækifæri til að auka arðsemi í raforkuframleiðslunni á Íslandi. Við höfum nú öðlast gott svigrúm til að t.d. bjóða fjölbreyttri flóru evrópskra iðnfyrirtækja mun lægra verð heldur en þau eru nú að borga í Evrópu - en um leið talsvert hærra verð en stóriðjan hér er að greiða. Þetta skapar okkur mikil tækifæri; ábatinn af því hversu ódýrt er að framleiða rafmagn á íslandi gæti loksins farið að renna almennilega til almennings á Íslandi í stað stóriðjunnar.

Þessi staða er tiltölulega nýlega upp komin, því aðeins örfá ár eru síðan raforkuverð víða í Evrópu var miklu lægra og verðmunurinn milli Evrópu og Íslands miklu minni en nú er. Og nú orðið kemur það að auki oft fyrir að raforkuverðið í Evrópu hreinlega rýkur upp úr öllu valdi, sérstaklega þegar mikið er um bilanir eða viðhald í raforkukerfinu og/eða þegar miklir kuldar geysa. 

nps_dec-10-2010.png

Helstu ástæður þess að raforkuverð víða í Evrópu hefur hækkað mjög síðustu árin eru að kolaverð hefur farið hækkandi og einnig var of mikið byggt af raforkuverum sem leiddi til tímabundins offramboðs af raforku. Þá hefur dregið úr umsvifum ríkisvaldsins í raforkugeiranum víða í álfunni, en markaðsvæðing raforkugeirans hefur leitt til hækkandi raforkuverðs þrátt fyrir meinta aukna samkeppni. Í reynd hefur nefnilega oft tekist heldur hrapallega til með einkavæðingu orkufyrirtækja. Alræmdasta dæmið þar um er sennilega sú fákeppni sem nú er á breska einkavædda raforkumarkaðnum. En það er önnur saga.

Það er sem sagt svo að á fáeinum árum hefur raforkumarkaðurinn í Evrópu tekið miklum breytingum og verð á raforku til framleiðanda hefur þar víða hækkað mikið frá því sem var fyrir t.d. áratug síðan. Þetta hefur leitt til þess að farið var að huga að nýjum tengingum og þar er lagning NorNed og NorGer nærtækt dæmi. Það er algert lykilatriði að opinberu orkufyrirtækin hér á Íslandi, eins og Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, nýti sér þessi tækifæri. Bersýnilegt er að hjá Landsvirkjun eru menn afar meðvitaðir um þessi tækifæri, en lítið hefur borið á því að önnur orkufyrirtæki séu að huga að þessu. Sérstaklega er áberandi hvað lítið hefur heyrst frá Orkuveitu Reykjavíkur, þrátt fyrir að það sé nánast lífsnauðsyn fyrir fyrirtækið að eiga kost á betri arðsemi. A.m.k. ef ekki á að leggja allan skuldaklafann um háls Reykvíkinga og annarra almennra viðskiptavina fyrirtækisins.

past-present-future-sign1.jpgTil að auka hagnað íslensku orkuframleiðendanna er rafmagnskapall til Evrópu augljóslega áhugaverður. Hann er samt ekki eina leiðin - því í dag erum við einfaldlega samkeppnishæfari á raforkumörkuðunum en verið hefur og eigum góða möguleika á að nýta það til að laða hingað evrópsk iðnfyrirtæki af ýmsu tagi. Það myndi ekki aðeins bæta afkomu orkufyrirtækjanna heldur líka styrkja og auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Framtíðin er sem sagt björt ef menn halda rétt á spöðunum, hafa skýra framtíðarsýn, marka sér skynsama og raunsanna stefnu og fylgja henni eftir af fagmennsku og bestu þekkingu. Þess vegna eru íslensku orkuauðlindirnar okkur nú líka efnahagslega mikilvægari en nokkru sinni áður. Vonandi átta íslensk stjórnvöld og eigendur opinberu orkufyrirtækjanna sig á þessari stöðu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarna hittirðu naglann á höfuðið. Slóst hann reyndar vendilega í álhaus.

Stór-athugavert. Flutningur á orku héðan til t.d. Skotlands er þar af leiðandi ekki bara mögulegur á teikniborðinu, heldur einfaldlega eitthvað sem er verið að aðhafast nú þegar annars staðar um svipaðar vegalengdir.

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.1.2011 kl. 13:25

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þetta er sérlega áhugavert í ljósi þess að það er skortur á rafmagni á stórum svæðum í noregi. sérstaklea mið og vestur noregi, og Trond Giske orkumálaráðherra hefur legið undir ámæli fyrir "slurf". Hann selur út rafmagn ásama tíma og miðlunarlón noregs eru í sögulegu lágmarki og rafmagnsnotkun í sögulegu hámarki..

Svo standa gasorkuver norðmanna ónotuð vegna einhvers miskilinnar umhverfisverndunnar...

Óskar Þorkelsson, 9.1.2011 kl. 15:08

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Flöskuhálsar í dreifikerfi Statnett í Noregi valda þessum verðmun innanlands. Þeim er umhugað um að styrkja dreifikerfið með byggingu nýrra háspennulína. Það er reyndar sameiginlegt markmið allra Skandinavíuríkjanna að dreifikerfið verði svo gott að ávallt verði sama raforkuverð á öllu þessu markaðssvæði (í gegnum Nord Pool Spot). En núorðið er barrrasta orðið afar erfitt að fá leyfi fyrir nýjum háspennulínum; það verður hreinlega allt vitlaust ef leggja á línu einhversstaðar. Þetta er líka orðið mikið vandamál víða um Evrópu og sömuleiðis í US. Í Þýskalandi er t.a.m. verið að skipuleggja nýjar háspennulínur og menn tala um superháspennunet og smart grid og ég veit ekki hvað og hvað. En það verður efar erfitt að koma slíku í framkvæmd nema þá setja þetta í jörðu - sem er mjöööög dýrt. Þess vegna er líklegt að innan Evrópulandanna muni lengi enn mega já svakalegar sveiflur á raforkuverði. Sem norski vatnsaflsiðnaðurinn mun hagnast ofboðslega á með tengingunum um NorNed og NorGer.

Ketill Sigurjónsson, 9.1.2011 kl. 15:34

4 Smámynd: Björn Emilsson

Gæti kannske farið svo á Islandi, eins og í Washington fylki USA, að öllum 40 álverum þar hefur verið lokað, nema einu, vegna orkuverðs.

Björn Emilsson, 9.1.2011 kl. 16:41

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

var það gott eða slæmt Guðmundur ? eða var það eðlileg þróun.. álver eru lágtækniiðnaður

Óskar Þorkelsson, 9.1.2011 kl. 16:56

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Svært at forudse. En staðreyndin er sú að í dag er t.d. norsk stóriðja og ýmis annar iðnaður mjög að leita nýrra landa til að staðsetja sig á. Af þeirri einföldu ástæðu að virkjanir sem þeir hafa nýtt til iðnaðarins eru smám saman að falla til norska ríkisins vegna hjemfall-reglunnar. Þá fá þeir ekki lengur raforkuna skv. gömum langtímasamningum, heldur þurfa að greiða miklu hærra verð. Þurfa jafnvel að fara á spot-markaðinn, þar sem verðið er oft um 60 EUR pr. MWst, sem jafngildir um 78 USD eða 78 mills pr. kWst. Sem er meira en þrefalt það verð sem t.d. álfyrirtækin eru að borga hér. Akkúrat núna er system price á NPS reyndar heilar 73 EUR pr. MWst, sem jafngildir um 95 mills pr. kWst. Sem sagt nærri fjórfalt það verð sem Alcoa er að borga fyrir rafmagnið frá Kárahnjúkum. En okkur Íslendingum er samt væntanlega alveg sama ... því það er jú sælla að gefa en þiggja!

Ketill Sigurjónsson, 9.1.2011 kl. 17:08

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Björn Emilsson, 9.1.2011 kl. 16:41; í staðinn er rafmagnið frá vatnsaflinu í Washington og Oregon væntanlega að streyma í dúllustarfsemi eins og Boeing, Microsoft, Amazon, Expedia o.fl. Var Boeing annars ekki að flytja aðalstöðvarnar til Chicago nýlega?

Ketill Sigurjónsson, 9.1.2011 kl. 17:29

8 Smámynd: Björn Emilsson

Mikið rétt Ketill, Boeing fluttu aðalskrifstofurnar til Chicago eftir síðasta jarðskjálfta í Seattle . Framleiðslan er ennþá og verður áfram á mörgum stöðum í Washington. Þá er verið að reisa Boeing verksmiðju í North Charleston South Carolina til að anna eftirspurninni á 787 Dreamliner. Eg er mikill aðdáandi þinn og skrifa þinna. Væri gaman ef þú settir saman pistil um Boeing, sem er jú ekki neitt smáfyrirtæki. Skil ekki af hverju þú kallar þessi fyrirtæki dúllufyrirtæki!! Bestu kveðjur / Bjorn

Björn Emilsson, 9.1.2011 kl. 20:55

9 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

Ef Ísland tengist sameiginlegum orkumarkadi EU, hækkar ta ekki markadsverdid á íslandi?

Ef Orkuveita Reykjavíkur fengi t.d. norskt medalverd, afhverju ætti hún tá ad selja almenningi á Íslandi á brot af tví verdi?

Med kvedju ur Telemark...

Baldvin Kristjánsson, 9.1.2011 kl. 21:04

10 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Björn Emilsson, 9.1.2011 kl. 20:55; "dúllustarfsemi" var alls ekki illa meint. Meira svona til að leggja áherslu á það hversu ólík starfsemi þessara fyrirtækja er því að bræða ál! Ég hef einu sinni komið til Seattle (nóv. 2009) og ók þá góðan hring um Washington. Fór m.a. upp að Paradise á Mt. Rainer, að Bonneville-virkjuninni og ók um allan Olympic-skagann. Skemmtileg ferð. Þetta var í fyrsta sinn sem ég ferðast að ráði um US og ég steinféll fyrir herlegheitunum og víðáttunni. Þó ég sé reyndar ennþá hrifnari af Kanada því mér finnst meira öryggi þar. En leist vel á Seattle og ekki síður á fylkið. Jafnvel þó svo ég væri þarna um gráan vetur.

Baldvin Kristjánsson, 9.1.2011 kl. 21:04; það eru skiptar skoðanir um það hvort orkuverð hér á Íslandi myndi hækka ef slík tenging væri fyrir hendi. Ég hallast að því að það hljóti að gerast, en að það sé allt í lagi því þjóðhagslegur ábati af orkusölunni verði svo miklu meiri. Aðrir telja vel mögulegt að selja orku á innanlandsmarkað á sérstöku íslensku markaðsverði, sem áfram verði miklu lægra en verðið í Evrópu. Ég er, sem fyrr segir, efins um að það yrði hægt. En læt vera að fullyrða nokkuð um þetta.

Ketill Sigurjónsson, 9.1.2011 kl. 21:22

11 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Bonneville:

http://askja.blog.is/blog/askja/entry/982538/

Og hér er minnst á Þelamörkina:

http://askja.blog.is/blog/askja/entry/590699/

http://askja.blog.is/blog/askja/entry/997788/

Ketill Sigurjónsson, 9.1.2011 kl. 21:29

12 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

já, þú ert nú ekki ónýtur í þessum orkuheimi, svo mikið er ljóst. Góður pistill

Jón Gunnar Bjarkan, 10.1.2011 kl. 03:18

13 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

Takk fyrir kommentid, by einmitt rett hja upphaflegu Hydro virkjuninni sem tu skrifar um i eldri færslunni.

Ef folk motmælti hækkun OR i haust - hvad gerist ef reikningurinn hækkar 200-500%... ef orkufyrirtæki fá ekki ad mismuna kaupendum eftir markadssvædi...? Grunar ad ta fyrst tæki steininn úr og margir myndu vilja kútta á strenginn... en orkufyrirtækin yrdu moldrik. Nokkud vist ad islendingar koma ser ekki upp "oliusjod" ad hætti nordmanna, hvad ta ad hann dekkadi hækkud utgjold almennings - og Flúdasveppir leggdust af.

Væri gaman ad sja uttekt a hækkun raforkuverds til almennings i Noregi sl. ar vs Islands. Margir fjárfestar ordid rikir i Noregi a vatnsorkuspekulasjon, t.d. sa sem tenadi mest i Noregi i fyrra.

Baldvin Kristjánsson, 10.1.2011 kl. 09:56

14 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

38% rafmagnshækkun í Noregi í fyrra vegna ytri markaðsaðstæðna:

http://e24.no/makro-og-politikk/article3981089.ece

Baldvin Kristjánsson, 10.1.2011 kl. 11:04

15 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Rétt að taka fram að þegar ég hef verið að skrifa um raforkuverð hér á Orkublogginu, hefur það jafnan verið heildsöluverðið. Þ.e. verðið sem raforkuframleiðandinn fær fyrir raforkuna. Við þetta verð bætist svo flutnings- og dreifingarkostnaður og skattar. Í Noregi þarf að borga Statnett fyrir flutning, smásalanum fyrir dreifingu og svo að auki bæði vsk og umhverfisskatt.

Það að bera saman heildarverð á raforku milli landa getur verið talsvert villandi eða til lítils - því skattarnir eru afar misjafnir eftir löndum. Samanburður á heildsöluverðinu segir manni miklu meira um arðsemismöguleika raforkufyrirtækjanna.

Athyglisverðar fréttir nú um að Kínverjar séu að kaupa Elkem af Orkla. Nú segjast sumir Norðmenn hræddir um að Kínverjarnir muni flytja starfsemi Elkem frá Noregi. Sic! Það hefur blasað við í nokkur ár að verksmiðjur Elkem í Noregi séu brátt á förum þaðan. Árið 2009 seldi Elkem virkjanir sem fyrirtækið átti í Noregi og þar með var fyrirtækið í reynd að segja að það væri að undirbúa brottflutning á verksmiðjum sínum í Noregi eða lokun þeirra. Því orkuverð á markaði í Noregi er einfaldlega svo hátt að stóriðjan leitar óhjákvæmilega annað. Sumir spá því að þessi þróun sé að fara á fullt um alla Evrópu. Og þegar mest af stóriðjunni verður farin til Kína, Persaflóans eða Guð má vita hvert, muni eftirspurn eftir raforku verða miklu minni en framboðið og verðið þá falla eins og steinn um alla Evrópu. Eins og minnst var á í færslunni hér að ofan.

Þetta mun þó t.d. ráðast mjög af því hversu hraður þessi "flótti" stóriðjunnar frá Evrópu verður. Gerist þetta rólega mun það eðlilega hafa minni áhrif því þá munu raforkufyrirtækin fá betra svigrúm til aðlögunar. En, sem fyrr segir, er þessi þróun líkleg til að auka mjög eftirspurn eftir íslenskri raforku, sem er miklu ódýrari en í Evrópu. Þetta veit Ross Beaty. Synd að álfarnir hjá íslensku lífeyrissjóðunum skuli ekki hafa áttað sig á þessu.

Ketill Sigurjónsson, 10.1.2011 kl. 13:11

16 Smámynd: Óskar Þorkelsson

jæja, kínamennirnir búnir að fá Elkem og fengu "special" price á rafmagnið

http://www.nettavisen.no/nyheter/article3062067.ece

Óskar Þorkelsson, 11.1.2011 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband