2.3.2015 | 08:45
Álbirgðir í svartaþoku
Þegar litið er til framleiðslu á heimsvísu þá er hún í jafnvægi. [...] Umframeftirspurnin er hinsvegar mikil ef einungis er horft til heimsins utan Kína, ekki síst í Norður-Ameríku og Evrópu. Eftir stendur að eftirspurn í Evrópu fer vaxandi.
Textinn hér að ofan er úr grein sem framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda á Íslandi, birti seint á liðnu ári á mbl.is um stöðuna á álmörkuðum. Samkvæmt greininni er sem sagt mikil umframeftirspurn eftir áli utan Kína og sérstaklega er tekið fram að vaxandi eftirspurn sé eftir áli í Evrópu.
Þetta kann allt saman að vera satt og rétt - þó svo þróun álverðs hafi reyndar ekki beinlínis verið að endurspegla umframeftirspurn. Það er líka eftirtektarvert að í nýlegri frétt á Bloomberg, þar sem vitnað er í greiningadeild Harbor Aluminum, er ekki talað um vaxandi eftirspurn eftir áli í Evrópu, heldur þvert á móti talað um fallandi eftirspurn:
Falling demand in the region [Europe] and an increase in the availability of aluminum scrap and primary metal have pushed premiums lower. “Europe is where the eye of the storm is, and one of the reasons is because it has the biggest stealth stock in the entire world,” Vazquez said, referring to stockpiles of metal stored outside LME-monitored warehouses. Supplies are rising because “there are more Russian offers in the market,” Vazquez said. At the same time, Europe is receiving more offers than usual from China, India, the Middle East, Malaysia and even Mexico, he said.
Samkvæmt Harbor er eftirspurn á evrópska álmarkaðnum sem sagt í daufara lagi. Og markaðurinn sá sagður standa frammi fyrir óvenju miklum útflutningi af áli frá Rússlandi, Indlandi, Mið-Austurlöndum og Kína. Það verður svo að koma í ljós hversu mikið íslenskt ál verður með í þeirri holskeflu af áli sem þarna er sagt standa Evrópu til boða - og hvernig álverksmiðjurnar innan Samáls munu standa sig umræddri samkeppni. En það er eftirtektarvert hversu álit Harbor er í litlum takti við þau sjónarmið sem Samál hefur kynnt okkur.
Mikil óvissa um stöðuna á álmörkuðum
Allar spár um þróunina á álmörkuðum eru afar óvissar. Vissulega eru vísbendingar um að álbirgðir utan Kína séu byrjaðar að minnka - líkt og Samál heldur fram. Og ef það reynist vera rétt, þá gefur það vonir um að álverð kunni brátt að fara hækkandi - sem myndi bæði bæta afkomu álfyrirtækjanna hér og auka tekjur orkufyrirtækjanna hér sem selja raforku til álveranna. Á móti kemur að tölur um álbirgðir í heiminum eru taldar afar óáreiðanlegar nú um stundir.
Þar með eru óvissuatriðin á álmörkuðum langt í frá upptalin. Til viðbótar við óvissu um álbirgðir má nefna að undanfarin ár hefur verðmyndun á áli þróast þannig að álverð á álmarkaðnum í London (London Metal Exchange; LME) er löngu hætt að endurspegla verð á áli í viðskiptum milli framleiðenda og notenda. Það eitt og sér hefur bæði grafið undan trúverðugleika LME og skaðar t.d. hagsmuni raforkufyrirtækja sem selja raforku til álvera (þ.e. þegar raforkuverðið er tengt álverði, eins og er einmitt hér á landi í raforkusamningunum við bæði álver Century Aluminum í Hvalfirði og álver Alcoa á Reyðarfirði). Ennþá eitt atriði sem veldur óvissu á álmörkuðum eru sífellt sterkari vísbendingar um offramleiðslu á áli í Kína. Sú þróun vekur ugg um að þaðan komi senn flóðbylgja af kínversku áli sem muni skella á vestrænum álmörkuðum.
Allt er þetta til þess fallið að skapa mikla óvissu á álmörkuðum og veldur um leið aukinni óvissu um tekjur orkufyrirtækjanna hér. Hér á Orkublogginu í dag verður ekki tekið á öllum þessum álitamálum. Heldur látið nægja að líta til þess hvernig tölur um álbirgðir eru taldar óvenju óáreiðanlegar um þessar mundir.
Offramboðið virðist hafa minnkað en ekki er allt sem sýnist
Það er alkunna að um árabil hefur mikið og viðvarandi offramboð verið af áli. Það sem hefur komið í veg fyrir ennþá lægra álverð, en raunin hefur verið, er fyrst og fremst aukin og viðvarandi birgðasöfnun. Undanfarin misseri hefur þó álframleiðsla og notkun á áli verið að nálgast það að komast í jafnvægi. Þar kemur einkum til að nokkur stærstu álfyrirtæki á Vesturlöndum hafa lokað óhagkvæmustu álverum sínum.
Vandinn er bara sá að um leið og bera fer á verðhækkun á áli byrjar að losna um álbirgðirnar, sem ennþá eru geysimiklar. Þess vegna halda álbirgðirnar aftur af veðhækkunum - og geta jafnvel valdið nýrri dýfu á álverði.
Ennþá er ófyrirséð hvort eða hvenær birgðir af áli minnki umtalsvert. Þó þær virðist hafa minnkað eitthvað síðustu misserin, þá er sá samdráttur ennþá óverulegur. Á sama tíma lítur út fyrir að óhemju mikil offjárfesting í áliðnaði í Kína geti orðið þess valdandi að viðhalda offramboði á álmörkuðum.
Á liðnu ári (2014) tók að bera á því að útflutningur á áli frá Kína væri farinn að aukast umtalsvert. Einnig virðist sem hinn risavaxni kínverski áliðnaður sé nú byrjaður að að stunda dulbúinn álútflutning (þar sem álið er skilgreint sem ýmsar framleiðsluvörur úr áli í því skyni að komast framhjá kínverskum útflutningstolli á ál). Vegna þessarar þróunar vofir yfir að ál frá Kína muni þrýsta álverði á heimsmarkaði niður. Ekki síður athyglisvert er að undanfarið hefur borið æ meira á tregðu álframleiðenda til að gefa upp stöðu á álbirgðum. Allt vekur þetta grunsemdir um að offramboð af áli kunni jafnvel að standa yfir miklu lengur en vonir stóðu til í álbransanum.
Ekki lengur mark takandi á tölum um álbirgðir
Nú í febrúar sem leið (2015) bárust fréttir af því að Alþjóðasamtök álframleiðenda (International Aluminum Institute; IAI) hafi ákveðið að hætta að tilkynna um mánaðarlega birgðastöðu. Í þessari ákvörðun IAI felst i raun viðurkenning á því að yfirsýn um stöðuna á álmörkuðum sé svo þokukennd, að tilgangslaust sé að halda áfram að birta umræddar tölur.
Þetta kemur kannski ekki á óvart. Það er staðreynd að alþjóðlegi áliðnaðurinn hefur breyst mikið á síðustu árum. IAI hefur um skeið bent á að birgðatölur þeirra séu farnar að vera ansið óáreiðanlegar vegna versnandi upplýsingagjafar álfyrirtækja.
IAI á langa sögu að baki og upplýsingar um birgðastöðu hafa verið eitt af meginverkefnum samtakanna. Áður fyrr samanstóðu umrædd samtök einungis af nokkrum vestrænum álfyrirtækjum, sem þá gnæfðu yfir álviðskiptum í heiminum. Eftir hrun Sovétríkjanna bættist rússneski áliðnaðurinn í hópinn hjá IAI og þarna eru nú t.d. líka álrisar frá Persaflóaríkjunum og Kína.
Nýju félagarnir hafa aftur á móti sumir verið ansið tregir til að gefa upp reglulegar tölur um birgðir. Þess vegna hefur IAI undanfarin ár þurft að áætla tölurnar. En nú eru runnin upp tímamót hjá IAI. Samtökin treysta sér ekki lengur til að áætla birgðastöðuna. Ástæðan virðist fyrst og fremst vera sú að sífellt fleiri álfyrirtæki sinni upplýsingagjöfinni bæði seint og illa. Þess vegna er línuritið hér hér að ofan sennilega hið síðasta sem sýnir álbirgðir eins og þær eru metnar af IAI. Ein afleiðing þessa hlýtur að verða sú að verðmyndun á áli verði óljósari, þ.e. hún mun í auknum mæli ráðast af getgátum fremur en vönduðum upplýsingum. Það er afar óheppilegt.
Gjörbreytt álveröld
Þetta ástand er til marks um gjörbreytta álveröld. Þegar IAI var komið á fót snemma á áttunda áratug liðinnar aldar voru um 3/4 allrar álframleiðslu í höndum örfárra vestrænna álfyrirtækja; Alcan, Alcoa, Alusuisse, Kaiser, Pechiney og Reynolds. Í dag eru stærstu álfyrirtæki heimsins hvorki frá Bandaríkjunum né V-Evrópu, heldur eru rússneska Rusal og kínverska Chalco langstærst. Og álfyrirtæki Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Emirates Global Aluminum, er nú meðal fimm stærstu álfyrirtækja heimsins. Vestræni áliðnaðurinn er sem sagt á góðri leið með að verða hálfgert peð á álmörkuðum - og það þrátt fyrir að bæði bandaríska Alcoa og kanadíska Rio Tinto Alcan (sem er í eigu ástralsk-breska Rio Tinto) séu ennþá meðal stærstu álfyrirtækja heimsins.
IAI álítur að tölur frá Kína um áliðnaðinn þar séu afar óáreiðanlegar. Sama virðist upp á teningnum með rússneska áliðnaðinn. Og það vill einmitt svo til að rússneska Rusal og kínverska Chalco eru stærstu álframleiðendur heims (að auki er nú svo komið að meira en helmingurinn af heimsframleiðslu á áli á sér stað í Kína). Sú hegðun að vera tregur til upplýsingagjafar virðist líka hafa smitast til álfyrirtækja á Vesturlöndum. Og því segir IAI nú vera orðið útilokað að áætla birgðastöðu á álmarkaði af bærilegri nákvæmni. Afleiðingin er sú að staða álbirgða er nú hulinn ennþá svartari þoku en var.
Viðvarandi vanmat á miklu framboði?
Fólk hefur sjálfsagt mismunandi skoðanir á því hvað veldur aukinni tregðu á að gefa upp tölur um álbirgðir. Ein ástæðan gæti einfaldlega verið offjárfesting í áliðnaði víða um heim, þ.e. að verið sé að fela offramleiðslu. Það er a.m.k. óumdeilanlegt að álbirgðir eru ennþá með mesta móti. Það eitt og sér er til þess fallið að álverð hækki a.m.k. minna eða hægar en ella væri.
Vandinn er líka sá að álbirgðirnar eru ekki eins og einhver snjóskafl sem geti einfaldlega bráðnað hægt og rólega og álverð samhliða hækkað jafnt og þétt. Um leið og álverð myndi hækka að ráði má vænta þess að þá losni um stóran hluta af þessu áli sem nú er geymt í birgðageymslum. Það er því kannski hæpið að gott jafnvægi skapist á álmörkuðum í bráð nema ennþá fleiri álverum verði lokað.
Þess vegna er fremur sérkennilegt hversu bjartsýnn framkvæmdastjóri hagsmunasamtaka álfyrirtækjanna hér, Pétur Blöndal, er um að álfyrirtækin á Íslandi muni brátt finna fyrir aukinni áleftirspurn. Í skrifum hans um þetta virðist skautað framhjá því að álmarkaðir standa nú frammi fyrir því að álútflutningur frá Indlandi er að aukast - vegna mikillar framleiðsluaukningar þar en daufrar eftirspurnar. Þá eru álbirgðir teknar að safnast upp í Japan. Að auki er útlit fyrir að þrátt fyrir fremur lágt álverð séu tvö álver að fara aftur á stað í Evrópu (í Hollandi annars vegar og Þýskalandi hins vegar).
Allt er þetta til þess fallið að gera samkeppnina harðari á álmörkuðum; þ.á m. á álmarkaði í Evrópu. Þar munu íslensku álverin þó vafalítið spjara sig prýðilega - vegna óhemju lágs raforkuverðs og jafnvel ennþá hagkvæmara skattaumhverfis hér á landi (sbr. t.d. fréttir undanfarið um vaxtagreiðslur álvers Alcoa á Reyðarfirði til móðurfélags erlendis). Íslenski áliðnaðurinn er sem sagt almennt í prýðilegum málum enn sem komið er. Og kannski alveg rétt að svigrúm fyrir útflutning frá Íslandi hafi aukist verulega - eins og framkvæmdastjóri Samáls segir í áður tilvitnaðri grein. En þegar dýpra er kafað í stöðuna virðist þó skynsamlegt fyrir álverin hér að búast við aukinni samkeppni fremur en auknu svigrúmi. Og af sömu ástæðu má búast við því að íslensku orkufyrirtækin muni áfram þurfa að horfast í augu við að fá afar lágt verð fyrir bróðurpartinn af raforkusölunni sinni til álveranna hér.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Why Merrill Lynch Threw In the Towel on Aluminum
By Chris Lange March 4, 2015 10:55 am EST
Big aluminum took a hit Tuesday morning when Merrill Lynch issued downgrades for both Alcoa Inc. (NYSE: AA) and Century Aluminum Co. (NASDAQ: CENX). The downgrades were the direct result of worsening fundamentals in the aluminum industry. Merrill Lynch did not stop with big aluminum, as Noranda Aluminum Holding Corp. (NYSE: NOR) received a not-too-favorable call as well.
http://247wallst.com/commodities-metals/2015/03/04/why-merrill-lynch-threw-in-the-towel-on-aluminum/
Ketill Sigurjónsson, 4.3.2015 kl. 18:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.