Sæstrengur sífellt betra tækifæri

Sífellt meira sést fjallað um það álit breska raforkudreififyrirtækisins (UK National Grid) að raforkuskortur vofi yfir Bretum.

UK_Coal-Power-PlantÞannig hófst grein hér á Orkublogginu fyrir um þremur mánuðum. Nú í janúar sem leið (2016) mátti svo enn á ný lesa um þessa hættu á orkuskorti í Bretlandi. Það sem þrýstir á þessa þróun í Bretlandi er áætlun um umfangsmikla lokun kolaorkuvera þar í landi. Það kallar á mikla fjárfestingu í nýjum orkuverum og þá einkum gasorkuverum. En horfur eru á því að sú uppbygging taki nokkuð langan tíma - og þess vegna aukast líkur á raforkuskorti.

Til að komast hjá slíkum vandræðum er ráðgert að setja verulega fjármuni í það m.a. að borga orkufyrirtækjum fyrir að auka afl sitt, sem geti verið til reiðu þegar á þarf að halda (sbr. capacity market). Það fyrirkomulag er mjög umdeilt og dýrt. Og hvað sem því líður, þá eru þessar aðstæður í Bretlandi til þess fallnar að bæta samningsstöðu þeirra sem geta boðið Bretum aðgang að meiri orku - og þá einkum og sér í lagi meiri endurnýjanlegri orku.

LV-hvdc-iceland-uk-london-august-2012Það er þessi staða sem er mjög áhugaverð fyrir Ísland að nýta. Mikill áhugi er á tengingu Íslands og Bretlands með raforkusæstreng. Og þar hefur tækifærið sjaldnar verið betra en einmitt um þessar mundir. Þess vegna er ástæða til að ætla að viðræður íslenskra og breskra stjórnvalda um slíka tengingu milli landanna muni skila þeirri niðurstöðu að slíkt verkefni sé jákvætt fyrir báðar þjóðirnar. Og muni verða að veruleika.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Sá stengur mun væntanlega kalla á 1000 MW.

Hvar ætlar þú að finna og taka þá orku?

Jón Þórhallsson, 1.2.2016 kl. 18:33

2 Smámynd: Jón Þórhallsson

"LÍKUR ERU Á RAFORKU-SKORTI EFTIR TVÖ ÁR". 

http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/1873004/

Jón Þórhallsson, 1.2.2016 kl. 18:36

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ísland er stærsti raforkuframleiðandi heims m.v. fólksfjölda:
https://askjaenergydotcom.files.wordpress.com/2012/12/slide04.jpg

Ef eitthvert land á möguleika að framleiða raforku sem útflutningsvöru þá er það Ísland. En vegna einangrunarinnar frá öðrum raforkumörkuðum er það stóriðja sem nýtur aðgangs að íslenskri raforku - á botnverði.  

Þar að auki sýnir Rammaáætlun það að næg orka er hér fyrir sæstreng.

Ketill Sigurjónsson, 1.2.2016 kl. 20:11

4 Smámynd: Jón Þórhallsson

Hvar er þessi ramma-áætlun?

Jón Þórhallsson, 1.2.2016 kl. 20:40

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

https://www.google.is/webhp?hl=en&gws_rd=cr,ssl&ei=T8OvVqiaK4SfPP6UhbgK#safe=off&hl=en&q=ramma%C3%A1%C3%A6tlun

Ketill Sigurjónsson, 1.2.2016 kl. 20:44

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þó Ísland sé stórasta landi í heimi varðandi framleiðslu á raforku miðað við hausatölu, erum við ansi smáir á Evrópskan mælikvarða, hvað þá heimsins.

Okkar framlag mun litlu sem engu breyta í vanda Breta varðandi orku, en mun hins vegar setja okkur sjálf í óendanlegan klafa þess að vera með öll eggin í einni körfu og það körfu sem við sjálf höldum þá ekki á.

Reyndar eru deildar meiningar um vanda Breta á sviði orkuöflunar. Ástæða þess að þeir eru að loka sífellt fleiri kolaorkuverum er vegna betra aðgengis að öðrum vistvænni orkugjöfum, bæði innanlands sem og erlendis frá. Í því dæmi spilar hugsanleg orka frá Íslandi, jafnvel þó öll okkar orka færi þangað, nánast engu og engin kaflaskil yrðu á breskum orkumarkaði af þeim sökum.

Fyrir okkur Íslendinga skiptir hins vegar öllu máli að sú orka sem við kjósum að framleiða sé nýtt hér á landi, að allur virðisaukinn sem af orkunni verður verði til hér á landi.

Gunnar Heiðarsson, 1.2.2016 kl. 22:48

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Flest rangt í athugasemdinni hér næst að ofan.

„Okkar framlag mun litlu sem engu breyta í vanda Breta varðandi orku“.
Svar: Margt smátt gerir eitt stórt og þar af leiðandi skiptir þetta máli fyrir Breta.

„...mun hins vegar setja okkur sjálf í óendanlegan klafa þess að vera með öll eggin í einni körfu“
Svar: Þetta er rangt. Með aðgangi að stærri orkumarkaði erum við þvert á móti að fjölga eggjunum. 

„Ástæða þess að þeir eru að loka sífellt fleiri kolaorkuverum er vegna betra aðgengis að öðrum vistvænni orkugjöfum“
Svar: Þetta er rangt. Bretar eru að loka kolaorkuverum vegna reglna um mengun og losun á koldíoxíði.

„Fyrir okkur Íslendinga skiptir hins vegar öllu máli að sú orka sem við kjósum að framleiða sé nýtt hér á landi, að allur virðisaukinn sem af orkunni verður verði til hér á landi“
Svar: Þetta er rangt. Fyrir okkur skiptir mestu máli að geta stóraukið arðsemi af raforkuframleiðslu.

Ketill Sigurjónsson, 1.2.2016 kl. 23:05

8 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þú ert alveg ágætur, Ketill.

Gunnar Heiðarsson, 2.2.2016 kl. 02:45

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Á myndinni efst á síðunni má sjá kæliturna fyrir eimsvala gufuhverfla. Upp úr kæliturnunum stígur tandurhrein vatnsgufa án koltvísýrings eða reyks frá bruna kola. Sams konar kæliturnar eru notaðir við orkuver sem kynnt eru með kolum, gasi, olíu eða kjarnorku. Á Hellisheiði eru einnig kæliturnar með hreinni gufu, en af annarri gerð. Ekki er hægt að sjá á myndinni hvers slags orkuver þetta er.

Ágúst H Bjarnason, 2.2.2016 kl. 17:52

10 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Myndin er af kolaorkuveri.

Í Bretlandi er um 30% raforkunnar nú framleidd með kolabruna, um 30% með jarðgasi, um 20% með kjarnorku og um 20% með vindi, lífmassa og öðrum orkugjöfum sem flokkast sem endurnýjanlegir.

Fyrir þá lesendur sem kunna að velta fyrir sér koltvísýringslosun frá raforkuverum sem nota jarðefnaeldsneyti má vísa á þessa upplýsingasíðu:
https://www.eia.gov/tools/faqs/faq.cfm?id=74&t=11

Ketill Sigurjónsson, 2.2.2016 kl. 19:15

11 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Flest sem Ketill segir, er rangt. Fyrir hvern er sæstrengur betra tækifæri? Ekki fyrir almenning, svo mikið er víst, þar sem slíkur strengur myndi hækka raforkuverð til hins almenna neytanda hér á landi. Hinn almenni neytandi er eigandi orkunnar. Ekki gleyma því, Ketill góður. Allt þetta tal um raforkustreng til Bretlands er tóm þvæla og undrun sætir að skuli finnast menn sem trúa því að þetta sé hagkvæmt fyrir okkur. Það er svosem í lagi að leyfa bretum að leggja snúru hingað upp á skerið á eigin kostnað, en um þá snúru fengist einungis afgangsorka. Við, eigendur orkunnar höfum hugsað okkur að nýta hana til heimabrúks, á hagstæðu verði og án afskipta einhverra snúrutrúargaura, eða annars útrásarillfyglis.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 2.2.2016 kl. 19:31

12 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ég álít, Halldór Egill góður, að ef þú getur ekki lagt neitt málefnalegra til umræðunnar en þetta ættirðu að sleppa því að vera að tjá þig um þetta hér. 

Hér má lesa um það af hverju þetta er áhugavert fyrir íslensku þjóðina:
http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/audlind/1341220/
http://askja.blog.is/blog/askja/entry/2110295/

Hversu áhugavert eða ábatasamt þetta verkefni er, mun ekki ráðast fyrr en niðurstaða liggur fyrir í samningaviðræðum breskra og íslenskra stjórnvalda. En ef Bretar reynast reiðubúnir að greiða lágmarksverð sem nemur 80 USD/MWst eða meira (þ.e. fyrir raforkuna sjálfa til íslenska framleiðandans), er líklegt að af verkefninu verði.

Ketill Sigurjónsson, 2.2.2016 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband