Hluthafafundur Fáfnis Offshore

Á morgun, miðvikudag, fer fram hluthafafundur hjá Fáfni Offshore

Samkvæmt fundarboði má gera ráð fyrir að þar muni meirihluti hluthafa ná fram samþykki á því að félagið ráðist með hraði í skuldabréfasölu. Sem mun auka skuldir félagsins um ISK 195 milljónir. Tilgangurinn er að útvega félaginu fé til að eiga fyrir greiðslu til norsku skipasmíðastöðvarinnar Havyard vegna Fáfnis Viking. En Fáfnir Viking er þjónustuskip (Platform Supply Vessel; PSV) sem Havyard er með í smíðum fyrir Fáfni. Fyrir á félagið þjónustuskipið Polarsyssel, sem hefur verið í þjónustu fyrir Sýslumanninn á Svalbarða í sex mánuði á ári. 

Fafnir-Viking-IstanbulFyrir hluthafafundinum liggur einnig tillaga um að Fáfni Viking verði komið í annað félagi, sem yrði þá dótturfélag Fáfnis Offshore. Þá er á dagskrá fundarins að kjósa fimmta mann í stjórn fyrirtækisins. Auk nokkurra annarra dagskrárliða, þar sem m.a. stendur til að fara yfir tölvupósta fyrrum forstjóra félagsins; Steingríms Erlingssonar. Tilgangurinn með þessu síðastnefnda er ekki ljós, en kannski merkir þetta að stjórnin sé í leit að blóraböggli vegna slæmrar stöðu félagsins. Sem nú þegar er í vanefndum með lánasamninga, á ekki fyrir greiðslu til Havyard og hefur ekki ennþá tryggt lengingu á samningi við sýslumanninn á Svalbarða.

Miðað við þessa grafalvarlegu stöðu er augljóst að mikið þarf til ef forða á félaginu frá gjaldþroti. Hér verður reifað hvað núverandi stjórn hyggst þarna gera (miðað við þau gögn sem ég hef fengið aðgang að) og hvaða leið er skynsamlegust til að bjarga þarna einhverjum verðmætum.

Óljósar ástæður uppsagnar forstjórans

Minnt skal á að stjórn Fáfnis Offshore sagði Steingrími upp störfum snemma í desember sem leið (2015), en Steingrímur er stofnandi félagsins og var forstjóri þess frá upphafi. Af heimasíðu félagsins má ráða að ekki hafi ennþá verið ráðinn nýr forstjóri til fyrirtækisins. Það er umhugsunarvert að hvergi hefur komið fram, a.m.k. ekki með skýrum hætti, hver var ástæða uppsagnarinnar. Hún kom á mjög krítískum tíma. Þegar nýlega var búið að semja við sýslumanninn á Svalbarða um lengri leigutíma vegna Polarsyssel, en þó ekki búið að hnýta þar alla lausa enda. Fyrir vikið hefur sá geysilega mikilvægi samningur verið í uppnámi

Miðað við þau gögn sem ég hef séð, virðist sem hinn faglegi ágreiningur meirihluta stjórnar við Steingrím hafi einkum snúist um viðbrögð eða aðgerðir félagsins vegna Fáfnis Viking. Þar vildi meirihluti stjórnar færi mjög niður hlutafé núverandi hluthafa og fá inn nýtt hlutafé - til að geta greitt Havyard greiðslu sem var að nálgast gjalddaga (um ISK 200 milljónir). Steingrímur áleit þá leið óskynsamlega og jafnvel orka tvímælis lagalega að gera það með þeim hætti sem stjórnin eða meirihluti hennar vildi.

Það mat Steingríms virðist hafa verið rétt. A.m.k. hefur stjórnin nú ákveðið að fara aðra leið til að útvega þessa fjármuni (þ.e. með skuldabréfaútgáfu í stað nýs hlutafjár). Í því ljósi er uppsögn Steingríms ennþá einkennilegri. Auk þess sem með uppsögninni missti fyrirtækið persónuleg tengsl við mikilvægasta viðskiptavin sinn; sýslumanninn á Svalbarða.

Stærstu eigendurnir áhrifalausir

Stærstu eigendurnir að Fáfni Offshore eru tveir lífeyrissjóðir; lífeyrissjóðurinn Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna. En sökum þess að eign þeirra í fyrirtækinu er í gegnum tvo fjárfestingasjóði, á vegum Íslandssjóða (Akur) og Landsbréfa (Horn II), eru lífeyrissjóðirnir þarna áhrifalausir. Og skipta sér ekkert af fjárfestingunni. Þessir tveir sjóðir, Akur og Horn II, geta því ráðstafað þessari eign lífeyrissjóðanna að vild (innan ramma laga og viðeigandi samþykkta). 

Án þess að rekja það sérataklega hér, virðist sem ágreiningurinn milli forstjóra Fáfnis og stjórnarinnar hafi jafnvel fyrst og fremst verið af persónulegum toga; að einstaklingar í stjórninni hafi hreinlega ekki þolað Steingrím. Það hlýtur að vera umhugsunarvert fyrir lífeyrissjóðina, sem eiga mjög stóran hlut í fyrirtækinu í gegnum þátttöku sína í fjárfestingasjóðum, ef fyrirtækinu var stefnt í uppnámi út af slíkum persónulegum pirringi.

Það er þó engu að síður staðreynd að þarna var ágreiningur um hvað gera skyldi vegna Fáfnis Viking. Og úr því að stjórnin, eða a.m.k. meirihluti hennar, var þar ósammála forstjóranum má segja að uppsögnin kunni að hafa verið eðlileg. En annað mál er hvort hún var skynsamleg og í samræmi við fjárhagslega hagsmuni eigenda fyrirtækisins. Þar sem lífeyrissjóðir eiga í reynd mestu hagsmunina, eins og áður var nefnt. En sitja uppi með áhrifalausan Svarta-Pétur.

Hrikaleg vaxtakjör

Umrædd skuldabréfaútgáfa sem nú stendur til að Fáfnis ráðist í, er um margt athyglisverð. Skuldabréfin eiga að bera hvorki meira né minna en 20% ársvexti. Að auki er ráðgert að kaupendur bréfanna geti breytt þeim í hlutafé. Og þannig eignast allt að 60% hlut í félaginu. Og nafnvirði skuldabréfanna er vel að merkja einungis ISK 195 milljónir.

Polarsyssel-in-SvalbardMeð þessum gjörningi mun hlutur núverandi hluthafa þynnast úr sem þessu nemur. Sem sagt dragast saman um allt að 60%. Afar fróðlegt verður að sjá hver eða hverjir það verða sem kaupa þessi skuldabréf. Umræddir skimálar kunna að vera áhugaverðir fyrir einhverja sem ásælast háa vexti þrátt fyrir áhættuna. Eða einhverja sem þarna sjá tækifæri til að eignast ráðandi hlut í félaginu (og um leið fá háa ávöxtun af bréfunum í nokkur misseri eða ár).

Það virðist reyndar augljóst að kaupendahópurinn vegna skuldabréfanna hlýtur að vera nokkuð takmarkaður. Því staða Fáfnis Offshore er áfram afar óviss þrátt fyrir að áðurnefnd greiðsla verði innt af hendi til Havyard. Hér skiptir líka máli að skv. samningsdrögunum við sýslumanninn á Svalbarða, gilda ströng skilyrði um það hverjir mega eiga hlut í Fáfni Offshore. Þau skilyrði þrengja það mjög hver getur þarna leyft sér að sjá tækifæri í því að kaupa skuldabréfin - og bæði fá 20% ársvexti og í framhaldinu mögulega verða meirihlutaeigandi í félaginu. 

Gjaldfelling lána er yfirvofandi

Kannski lagar það stöðuna eitthvað ef Fáfni Viking er komið til hliðar. Að gert sé upp við Havyard vegna skelinnar af skipinu og hún sett inn í annað félag (sem þá er eftir atvikum unnt að setja í gjaldþrot án þess að það snerti Polarsyssel). En þetta er ekki ódýr aðferð; að auka skuldir Fáfnis Offshore um nærri ISK 200 milljónir á 20% vöxtum. Eða jafnvel þurfa að láta af hendi allt að 60% hlut í félaginu.

Þar að auki er fjárhagsstaða fyrirtækisins svo slæm að það á á hættu að þessi skuldabréfaleikur muni engu bjarga. Ekkert er í hendi um það að með þessum gjörningi muni nást að uppfylla skilmála vegna lána fyrirtækisins. Til að koma í veg fyrir að kröfuhafar gjaldfelli lánin þarf því líka að semja við þá um lausnir. Sem væntanlega myndu vera í formi frestunar gjalddaga. Að auki er svo samningur fyrirtækisins við sýslumanninn á Svalbarða ennþá í uppnámi. Og dýrt viðhald á Polarsyssel framundan.

Fáfnir Viking er skelin ein - verður hann nokkru sinni kláraður?

Eins og áður sagði þá hefur núverandi stjórn Fáfnis Offshore nú komist að samkomulagi við skipasmíðastöðina Havyard um að skipið sem verið er að smíða, Fáfnir Viking, verði tekið út úr Fáfni Offshore og sett í sérstakt félag. Tilgangurinn er væntanlega sá að forða því að gjalddagar sem eru framundan vegna smíðinnar á Fáfnis Viking ógni Fáfni Offshore. Þarna birtast reyndar ein mistök félagsins, þ.e. að hafa ekki frá upphafi haft sérstakt félag um Fáfni Viking.

Í dag er Fáfnir Viking skelin ein. Til að skipið verði klárað þarf mikla fjármuni. Miðað við hrikalega stöðuna í PSV-bransanum verður að teljast ólíklegt að Fáfnir Offshore (eða dótturfélag þess) muni fjármagna þá smíði. Þar með verður það skip komið út í horn og það þrátt fyrir umrædda greiðslu til Havyard núna upp á ISK 195 milljónir. Og vandséð að það skip muni nokkru sinni skila neinu til Fáfnis Offshore - nema útgjöldum.

Af hverju ekki selja?

Þrátt fyrir þessa erfiðu stöðu er stjórn Fáfnis Offshore nýbúin að hafna tilboði í fyrirtækið. Og sömuleiðis eru stærstu hluthafarnir, sjóðurinn Akur hjá íslandsbanka og Horn II hjá Landsbankanum, búnir að hafna öðrum tilboðum í sín hlutabréf í félaginu. Þetta er mjög athyglisvert. Minnt skal á að lífeyrissjóðir eru stórir eigendur í báðum þessum sjóðum. Miðað við þá miklu hættu sem Fáfnir Offshore er ennþá í - og verður í þrátt fyrir þær aðgerðir sem núverandi stjórn fyrirtækisins hyggst ráðast í - er eðlilegt að velta fyrir sér hvort það væri skynsamlegra að selja félagið. Og fá þannig a.m.k. eitthvað fyrir það - fremur en að búa við áframhaldandi mikla gjaldþrotahættu.

Polarsyssel-Fafnir-Offshore-Sysselmanden-SvalbardAllsendis óvíst er að þær aðgerðir sem stjórnin ætlar nú að ráðast í muni bjarga félaginu frá þroti. Þarna er auðvitað ekkert öruggt. Kannski gengur þetta upp hjá stjórninni. Og skilar núverandi hluthöfum eitthvað meiru en að selja fyrirtækið núna. Kannski. Kannski ekki.

En það er varla áhugavert fyrir lífeyrissjóðina eða aðra eigendur að horfa fram á það að Fáfnir Offshore þurfi nú að fara greiða 20% vexti af skuldabréfunum. Og óvissan um framtíð félagsins - þrátt fyrir að allar fyrirhugaðar aðgerðir stjórnarinnar nái fram að ganga - er í reynd alger.

Miðað við geysilega erfiða stöðu fyrirtækisins - í þessum útgerðarbransa sem nú er hörmulega ástatt fyrir vegna lágs olíuverðs - hefði maður haldið að það hentaði a.m.k. lífeyrissjóðunum betur að selja fyrirtækið. Og jafnvel hluthöfunum öllum. Þarna lá raunverulegt tilboð fyrir, sem skilaði a.m.k. einhverju af upphaflegu fjárfestingunni til baka.

Það vill svo til að það tilboð kom frá eina manninum í eigendahópnum sem hefur þekkingu á rekstri af þessu tagi; Steingrími Erlingssyni. Hann er auðvitað búinn að tapa svo til allri fjárfestingu sinni í félaginu - rétt eins og aðrir hluthafar. En hann er sá sem var með samböndin. Hann er sá sem útvegaði fyrirtækinu samninga við sýslumanninn á Svalbarða - á tímum þegar þessi skipafloti hér við Norðanvert Atlantshaf og um allan heim var meira eða minna að verða verkefnalaus. Er ekki líklegra að hann geti þarna bjargað einhverju - fremur en íslenskir bankamenn?

Stjórnarframboð - til að koma annarri áætlun á framfæri

Fram hefur komið í fjölmiðlum að sá sem þetta skrifar hafi gefið kost á sér í stjórn Fáfnis Offshore. Til stendur að stjórnarmanni verði bætt í stjórn félagsins nú í vikunni (á morgun; miðvikudag). Aðdragandi þessa framboðs var sá að s.l. föstudag fékk ég upphringingu frá Steingrími Erlingssyni, stofnanda Fáfnis Offshore. Þar sem hann óskaði þess að ég gæfi þarna kost á mér.

Vegna þess hversu framboðsfresturinn var þá orðinn skammur, gafst lítill tími fyrir mig að hugleiða þetta erindi. Engu að síður ákvað ég að slá til. Til að koma þeirri áætlun, sem við Steingrímur virtumst vera sammála um, milliliðalaust á framfæri við aðra stjórnarmenn. Af því virðist þó ekki geta orðið. Því ég hef nú fengið að vita að aðrir hluthafar hafi tilnefnt annan mann í stjórnina. Sem bendir til þess að þeir vilji alls ekki fá inn í stjórnina mann sem Steingrímur styður. Og það jafnvel þó svo Steingrímur eigi þarna rúmlega fimmtungshlut og myndi því eiga rétt á manni í stjórn ef um aðalfundarkosningu væri að ræða.

Gott og vel. Það er kannski eðlilegt hjá Akri og Horni II og öðrum hluthöfum að forðast að rödd mín geti komist þarna að. Því sú rödd myndi t.d. benda á það að sú tillaga sem sá hluthafahópur virðist ætla að koma í gegn, felur það t.a.m. í sér að skuldabréfaeigendur geti náð yfirráðum í félaginu - fyrir verð sem er ámóta og jafnvel lægra en það verð sem Steingrímur Erlingsson bauð nýverið fyrir hluti í félaginu. Þetta er óneitanlega einkennileg staða. Þar að auki er vandséð að Fáfnir Offshore án Steingríms muni verða betur í stakk búið til að finna ný verkefni fyrir Polarsyssel.

Steingrimur-Erlingsson-Fafnir-OffshoreSjálfur hef ég trú á því að með sín fjölbreyttu sambönd séu líkur á að Steingrímur Erlingsson gæti siglt félaginu í gegnum þá brimskafla sem félagið er nú statt í. Það er samt auðvitað alls ekki víst. Ástandið í bransanum er vægast sagt hrikalegt. En Steingrímur er að mínu mati líklegur til að geta lokið farsællega við samninginn við sýslumanninn á Svalbarða um að auka leigutíma skipsins úr 6 og í 9 mánuði árlega. Og hann er líklegur til að geta náð hagstæðari samningum við Havyard vegna Fáfnis Viking. Og finna verkefni vegna Polarsyssel þá mánuði sem skipið er ekki í verkefnum fyrir sýslumanninn á Svalbarða.

Steingrímur er sá hluthafanna sem er með útgerðareynsluna. Í þeim svakalega ólgusjó sem nú ríkir í þessum bransa er slík reynsla og persónuleg sambönd eins og Steingrímur hefur, ómetanleg.

Það er ansið hætt við því að sú leið sem núverandi stjórn Fáfnis Offshore hefur ákveðið að fara muni ekki skila hluthafahópnum hagstæðustu niðurstöðunni. Auðvitað er þarna ekkert víst. En gangi áætlun stjórnarinnar eftir verður fróðlegt að fylgjast með atburðarásinni. Og sjá hver það verður sem mun hagnast á þeirri vendingu sem þarna stendur til að taka. Sjálfur tel ég þó eðlilegt að stærstu eigendurnir í Fáfni Offshore segi hingað og ekki lengra - nú er nóg komið af áhættunni með þetta félag og skynsamlegast að selja það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þetta var fáránaleg hugmynd af fyrirtæki þegar tugir að olíuaðstoðarskipum lágu óhreyfð um víða veröld.

Valdimar Samúelsson, 23.2.2016 kl. 20:50

2 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Hahahahahahahaha, hafa þessir menn ekki síma eða tölvur? Þvílíkur glórulaus stjórnunarstefna og er sennilega heimsmet!!!!!hahahahahaha!!!!!!

Eyjólfur Jónsson, 23.2.2016 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband