Hið góða

Mandela

Kannski er maður farinn að verða soldið meyr. Eða jafnvel væminn. En í tilefni af níræðisafmæli Nelson Mandela langar mig að nefna, að fyrir nokkrum árum las ég ævisögu Mandela. Sem kom út ekki löngu eftir að honum var sleppt úr fangelsinu á Robben-eyju. Það þótti mér frábær bók. Held að þeir séu fáir meðal okkar, sem búa yfir þvílíkum óhemju viljastyrk og þrautseigju, eins og Mandela. Hin hversdagslegu vandamál velferðarþjóðarinnar verða óneitanlega hlægileg, í samanburði við lífið og dauðann í Suður-Afríku undir Apartheid. Nelson Mandela er nánast táknmynd fyrir hið góða í mannkyninu. Og á það fyllilega skilið.

Það er einn af mestu kostunum við Ísland hversu lítið er um ofstæki á Klakanum góða. Ef við t.d. lítum á stjórnmálin og pólitíkusana, þá er enginn öfgaflokkur á Alþingi. Þetta er mjög óvenjulegt - víðast í nágrannalöndunum vaða ofstækismenn uppi í stjórnmálunum.

Og ég hygg að nánast allir þingmenn okkar séu alveg prýðilegt fólk. Ég er reyndar líklega það, sem kallað er pólitískt viðriðni. Held ég geti fundið bæði fólk og skoðanir í öllum flokkum heima, sem mér líkar vel við. Þó mér líki auðvitað betur við suma en aðra.  

ArniPall

Ef við t.d. lítum til þingmannanna held ég að mér sé hlýjast til Árna Páls. Ég veit um marga sem eru á allt annarri skoðun um þann ágæta pilt. En trúið mér - þarna fer maður sem vill vel og á vonandi eftir að dvelja dágóða stund í pólítík.

Og þó svo ég gæti nefnt marga fleiri góða Alþingismenn, ætla ég að sleppa því. Í þetta sinn. Og þó - auðvitað er eðlilegt að nefna a.m.k. einn af ráðherrunum. Og kannski líka þingmann úr stjórnarandstöðunni.

Fyrst skal þó viðurkennt að það er kannski engum greiði gerður að vera hrósað, um leið og Nelson Mandela. Þar er á ferðinni svo einstakur maður að aðrir blikna og nánast kjánalegt að vera nefndur í sama mund. En við búum nú einu sinni í mjög svo ólíku þjóðfélagi - og erum þar af leiðandi á nokkuð öðrum nótum í okkar stjórnmálabaráttu.  

Thorgerdur

Sá ráðherra sem ég vil nefna er Þorgerður Katrín. Hún hefur alltaf verkað vel á mig - alveg síðan ég kynntist henni fyrst í lagadeildinni. Heilsteypt og sjálfri sér samkvæm. Sjálfstæðisflokkurinn myndi leika góðan leik með því að gera hana að formanni. Jafnvel fyrr en seinna.

Ég vildi reyndar óska að Þorgerður Katrín tæki sig til og reyndi að afnema þá leiðinda venju að ráðherrar séu úti um allar trissur að klippa á borða og opna fundi. Ég hreinlega skil ekki þennan þreytandi ósið að alltaf þurfi að hafa ráðherra við slíkar uppákomur. Einstaklega kjánalegt.

Annað sem líka má nefna; fyrir þingræðið væri æskilegt að ráðherrar sætu ekki á Alþingi. Það þarf að styrkja þrískiptingu valdsins á Íslandi. Hygg að þetta sé mesti gallinn á íslenskri stjórnskipan og í reynd einhver leiðinda arfleifð frá konungdæminu. Þegar lagasetning og framkvæmdavald var á sömu hendi. Svo er auðvitað alger skandall að nú, árið 2008, sé það einhver ráðherra útí bæ sem skipar í öll dómaraembætti landsins. Stundum botnar maður ekkert í lýðræðishugsun Landans. Ef einhver ráðherra á að skipa dómara í Hæstarétt væri a.m.k. lágmark að meirihluti Alþingis þyrfti að samþykkja skipunina. Finnst mér. Og maður á að segja einsog manni finnst! Eins og strákurinn sagði í Cheerios auglýsingunni hérna um árið.

Katrín

Stjórnarandstaðan býr líka yfir mörgum frábærum manneskjum. Þar held ég hvað mest upp á unga konu; Katrínu Jakobsdóttur. Þó ekki væri nema bara fyrir það eitt hversu laus hún er við að setja sig í stellingar. Sumir eru alltaf að "vera eins og á að vera" eða "tala eins og pólitíkusar eiga að tala". Þá fer ég að gubba. En Katrín er algerlega hún sjálf, ákaflega eðlileg, einlæg og trúverðug.

Já - með þetta fólk á þingi held ég að við eigum prýðilega bjarta framtíð.


mbl.is Fagnar afmæli með fjölskyldunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband