Cajun Express

Skyldi Arnaldur Indriðason vera byrjaður á nýrri spennusögu? Ef ekki, þá er ég með hugmynd:

sam_shepard

Að næsta bókin hans gerist á nýjum risastórum olíuborpalli á íslenska Drekasvæðinu. Svo leikstýrir Balti kvikmyndinni. Með Sam Shepard í aðalhlutverki – hann túlkar veðurbarða harðjaxlinn, sem er æðsti stjórnandinn á borpallinum. Shepard er auðvitað hinn fullkomni karlmaður og smellpassar í þetta jaxlahlutverk!

Plottið er að olían hættir skyndilega að streyma á aðfangadagskvöld. Skömmu síðar verður sprenging í borholunni - og þegar búið er að slökkva eldinn liggja nokkrir dularfullir, grænglitrandi hnullungar á dekki borpallsins. Glitrandi grjót úr iðrum jarðar - ólíkt öllu því sem íslenska skutlan og jarðeðlisfræðingurinn Hannah Gertrude Belker hefur áður séð. Væntanlega leikin af Anitu Briem.

Hvað þetta dularfulla græna jólagrjót reynist vera er leyndarmál Orkubloggsins – ennþá. En ævintýrið mun auðvitað bæði minna áhorfendur á hvað skiptir máli í lífinu og hversu lítt við þekkjum innviði jarðar. Sannkölluð jólamynd um hina nýju “leyndardóma Snæfellsjökuls”. Ég er nokkuð viss um að þau Sámur Shepard og Anita Briem munu brillera. Í liprum höndum Baltasar Kormáks.

Siegele_jack_rig

Ein fyrirmyndin að persónunni, sem Shepard túlkar, gæti verið hann Paul Siegele. Sem árin 2005-8 var framkvæmdastjóri djúpvinnslu Chevron í Mexíkóflóa (varð einn af aðstoðarforstjórum Chevron 1. janúar s.l.).

Siegele þekkir vel tilfinninguna að koma fljúgandi á Bell 430 þyrlunni lágt yfir Flóann og horfa spenntur yfir sjóndeildarhringinn þakinn hundruðum og jafnvel þúsundum borpalla (nú munu alls vera um 3.800 pallar í vinnslu Í Mexíkóflóa - langflestir þeirra eru ómannaðir og skammt utan við ströndina). Og finna strauminn sem fer um mann, þegar þyrlan tyllir sér á lendingapallinn á risamannvirkinu Cajun Express.

Cajun Express er einmitt borpallurinn sem fann olíu á meira en 8 km dýpi undir sjávarmáli og 6 km undir hafsbotninum. Í Jack 2 brunninum - eins og Orkubloggið hefur áður sagt frá (færslan “Djúpið”).

Já - Cajun Express er svo sannarlega eitt alflottasta dótið í olíubransanum öllum. Að fá að nota þennan fljótandi borpall kostar líka meira en hálfa milljón dollara á dag. Eðlilega. Og eftirspurnin er gríðarleg, svo það er eins gott að fleygja inn pöntunarseðli með nokkurra ára fyrirvara. Ábending til þeirra sem hyggja á olíuævintýri á Drekasvæðinu.

Cajun_Express

Þegar við nálgumst pallinn á þyrlunni blasir gríðarlegt stálmannvirkið við. En maður áttar sig samt ekki á stærðinni til fulls, fyrr en við sjáum fólkið þar eins og litla depla í skæru samfestingunum sínum. Og minnumst þess að borskaftið nær u.þ.b. jafn langt niður fyrir yfirborð sjávar, eins og Everest-fjall nær upp. Cajun Express er svo sannarlega eitt af verkfræði-undrum veraldarinnar. Tær snilld.

Það er Transocean sem á Cajun Express, en þeir eru stærsta olíupallafyrirtæki heims. Chevron er einungis með pallinn á leigu. Í dag er Jack 2 brunnurinn í biðstöðu, en áhersla lögð á þrjá aðra megadjúpa brunna hjá Chevron: Blind Faith, Tahiti og Great White Perdido. Sennilega er Cajun Express nú á fullu í Tahiti-brunninum eða nágrenni.

Allir eru þessir brunnar langt úti á djúpi Mexíkóflóans. Til stendur að öll sú vinnsla verði byggð upp á árunum fram til 2010-12. Og þó svo Cajun Express muni eflaust koma að vinnslunni þar, verður hann ekki í aðalhlutverki. Nei – það verður hinn finnskættaði flotpallur Perdido. Sem í vor var dreginn þvert yfir Atlantshafið – litlar 7 þúsund sjómílur - og komið fyrir á ægidjúpi Mexíkóflóans.

Kannski meira um það frábæra ævintýri síðar. Perdido er nefnilega langt í frá að vera týndur - þó svo nafnið gefi það til kynna.

anita_briem_2

En þó svo bæði sögurnar af Cajun Express og Perdido séu heillandi, verður auðvitað ennþá meira spennandi að lesa reyfarann hans Arnaldar um grænglitrandi grjótið úr iðrum Drekans. Bókina sem ég er að vonast eftir í jólabókaflóðinu að ári. Titillinn hlýtur einfaldlega að verða Leyndardómar Drekasvæðisins.

Nema ég barrrasta hirði hugmyndina sjálfur. Og byrji jafnvel strax á kvikmyndahandritinu...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hagbarður

Þetta gæti orðið skemmtileg mynd. Tala ekki fyrir þá sem hafa áhuga á þessu dóti. Sat mest af gærkveldinu í að horfa á mynd af smíðinni á Eirki Rauða og þegar hann var fyrst prófaður í leiguverkefni fyrir EnCana.

Hagbarður, 3.12.2008 kl. 22:46

2 identicon

Áhugavert með hinn finnska Perdido. Hvenær ætla íslendingar að hefja smíði á íhlutum í borpalla eða hanna slíkt?  Eftirspurnin síðustu ár hefur verið gríðarleg en hún kannski hrynur núna með olíuverðinu?  Það er stórmerkilegt að engin skipasmíðastöð hér heima skuli hafa unnið eitthvað í kringum þennan iðnað...vona að það breytist í bráð.  Ketill ertu ekki með einhverjar góðar og einfaldar hugmyndi?

Halldór (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 21:36

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Hugmyndir? Kannski nærtækast að vísa í nýja færslu um "hvíta hákarlinn". Þar er m.a. minnst á íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki. Og "Hafboranir".

http://askja.blog.is/blog/askja/entry/717670/

Ketill Sigurjónsson, 5.12.2008 kl. 08:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband