Hversu mjóu munaði?

Lindbergh_Goring_1938Ef, ef, ef.  Hvað ef...?

Orkubloggið hefur pínupons gaman af svoleiðis tilgangslausum vangaveltum. T.d. hvað hefði gerst ef furðufuglinn og flugkappinn Charles Lindbergh hefði boðið sig fram til forseta Bandaríkjanna og sigrað Roosevelt?

Á myndinni hér til hliðar er Lindbergh í Þýskalandi að heilsa upp á Göring. Árið er 1938. Lindbergh hafði talsverða samúð með Nasistunum í Þýskalandi, taldi Sovétkommana stórhættulega brjálæðinga og var enn fremur lítt hrifinn af gyðingum. Sem forseti Bandaríkjanna hefði hann kannski myndað bandalag við Hitler. Leyft honum að hirða Evrópu og slást við Sovétríkin - jafnvel með hergögnum frá Ameríku.

Þá hefðu drottnandi stórveldi heimsins út 20. öldina hugsanlega orðið Nasista-Þýskaland og Bandaríkin. Hver hefði þá fengið yfirráðin á Íslandi? Ef...!

Önnur og kannski raunhæfari "ef-ef atburðarás" er hugmyndin um yfirtöku Bandaríkjanna á olíulindum Arabíuskagans árið 1973. Fyrir fáeinum árum voru birt þrjátíu ára gömul skjöl, sem gefa til kynna að bandarísk stjórnvöld íhuguðu alvarlega innrás í olíuríki Mið-Austurlanda þetta örlagaríka ár. Í kjölfar þess að Arabarnir lokuðu á olíu-útflutning sinn, vegna stuðnings Vesturlanda við Ísrael. Með þeim afleiðingum að olíukreppa skall á Vesturlöndum.

TIME_Cover_Nov_1973Málið snérist sem sagt um það að tryggja aðgang Bandaríkjanna að mestu olíulindum heimsins. Þar vestra litu menn aðallega til innrásar í Saudi Arabíu og Kuwait. En einnig var leitað eftir stuðning Breta við innrás í Abu Dhabi. Á þessum tíma var Íran aftur á móti í vinfengi við Bandaríkin, undir harðstjórn Reza Pahlavi. Þannig að enga innrás þurfti í Íran.

Eitthvað voru þeir í Vesturálmuni þó hræddir um að olíu-innrás á Arabúskagann myndi valda heimsstyrjöld. Af því Írakar, sem þá voru komnir undir stjórn Saddam's Hussein, myndu hugsanlega ekki taka því þegjandi og hljóðalaust að nágrannaríki þeirra, Kuwait, yrði hertekið af Bandaríkjunum. Ef Írakar myndi lenda í stríðsátökum við bandaríska herinn, var talið líklegt að Sovétmenn myndu styðja Íraka - a.m.k. með hergögnum - og allt gæti þetta geta endað með skelfingu.

Ekkert varð af því að þessar hugmyndir yrðu að veruleika. Og allt fór þetta býsna vel að lokum, sem kunnugt er. Málið leystist þokkalega farsællega, þegar Arabaríkin féllust einfaldlega á að aflétta útflutningsbanninu. Enda voru þau nýlega búin að fá yfirráðin yfir verulegum hluta af olíulindunum sínum, sem áður höfðu allar verið í höndum bandarískra og breskra olíufélaga. Það var allra hagur að olíuviðskipti kæmust í eðlilegt horf.

US_1973_Gasoline_coupon

En heimurinn varð samt aldrei samur á ný. Vestrænu olíufélögin þurftu að greiða mun hærri upphæðir í vinnslugjald og olíuverð hækkaði margfalt frá því sem verið hafði.

Á sama tíma reyndist olíuframleiðslan í Bandaríkjunum hafa toppað - þó svo menn eygðu von um að Alaska gæti á ný aukið framleiðsluna. Sú von rættist vissulega, en þó engan veginn nóg til að mæta stóraukinni eftirspurn eftir olíu næstu áratugina. Bandaríkin voru orðin háð innfluttri olíu.

Kannski áttuðu ráðamenn í Washington DC sig ekki á því hversu Bandaríkin myndu í framtíðinni þurfa að kaupa svakalega mikla olíu erlendis frá. Ekki bara frá Kanada, heldur alls konar vafsömum og misvinveittum stjórnvöldum í fjarlægari löndum. Ef þeir hefðu vitað að Alaska geymdi ekki hina endanlegu lausn, hefði kannski verið gefið í annað og allt öðruvísi spil. Ef, ef...

Cartoon_Oil_Supply_Demand

Smám saman jukust áhrif bæði Arabaríkjanna og Íran. Ekki síst þegar Alaskaolían fór minnkandi og líka dró úr framleiðslu í Norðursjó. Og nú horfa menn fram á þann möguleika, að í næstu efnahagsuppsveiflu verði OPEC-ríkin nægilega samstíga, til að verðið rjúki upp í hæstu hæðir.

En er nokkur ástæða til að hafa áhyggjur af því? A.m.k. eru allir þeir Persar, Venesúelar og Arabar sem Orkubloggið hefur kynnst, hið prýðilegasta fólk. Fólk sem hefur nákvæmlega sömu viðhorf og markmið í lífinu eins og við flest... ef ekki öll. Að lifa góðu lífi og koma börnum okkar til manns.

Aðalatriðið er koma vitleysingum heimsins úr valdastólum sínum. Líklega er kreppan núna það besta sem gat komið fyrir. Því hún olli því að olíuverðið hrundi á ný. Snarbrjálaðir og/eða gjörspilltir einræðisherrar margra stærstu olíuútflutningsríkjanna hafa makað krókinn síðustu árin - en um leið vanrækt efnahagsstjórnunina og látið nauðsynlega uppbyggingu á innviðum samfélagsins heima fyrir sitja á hakanum. Þess í stað hefur olíugróðinn farið í tóma vitleysu. Og nú standa þeir margir skyndilega frammi fyrir yfirvofandi þjóðargjaldþroti, þrátt fyrir óhemju olíuauðlindir. Það leiðir vonandi til þess að þeir verði valtir í sessi og skynsamara fólk komi að landsstjórninni.

Chavez_&_Ahmadinejad

Já - þó svo Húgó Chavez sé skondinn náungi sem auðvelt er að hafa gaman af, er spillingin og óstjórn efnahagsmála í Venesúela alger. Að óbreyttu mun landið fara í þrot innan nokkurra ára. Land sem býr yfir einhverjum mestu auðlindum í heimi.

Og um sikkópatann Ahmadinejad þarf varla að fara um mörgum orðum. Íran ætti í reynd að vera eitthvert dásamlegasta þjóðfélag í heimi og Persarnir hamingjusamasta þjóðin. Miðað við auðlindir, náttúrufegurð og gjörvileika fólksins. En sköpunarkrafti þjóðarinnar er haldið niðri af geggjuðum valdsmönnum. Nú er bara að vona að olíuverðið haldist lágt nógu lengi, til að þeir endanlega missi völdin. Og skynsamari stjórnendur taki við. Keep on dreaming?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Minnir nú að helsta sök Chaves hafi verið að  selja olíuna á nánast ekkert til þegna sinna og restin af vitfirringunni skrifist á trúarbrögð eða skálkaskjól þeirra.  Minnir líka að Arabar sú undir þeim afarkostum að sirkúlera olíugróða sínum inn í Bandaríkin aftur og kaupa bonds og minnihluta í bandarískum fyrirtækjum.

Mér finnst þetta ansi undarleg grein og illa sýrð af Neoconservatívu ofstæki í anda  Zbigniew Brezinski. Kannski varstu að lesa hann eða Zionistaáróðurinn í skáldsögunni "Samsðærið gegn Bandaríkjunum" eftir: Philip Roth.

Amerísku Imperialismi er kannski það sem þú hrífst af og sú Plútókrasía eða Kleptókrasía, sem þeir hafa gengið í fylkingarbrjósti fyrir. Ég held þér væri hollt að lesa einhverja raunhæfari sagnfræði, en þú augljóslega hefur veriði að lesa. Með fullri virðingu.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.3.2009 kl. 22:41

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Nebb. Ég hef ekki lesið Brzeznski. Og heldur ekki Roth.

Veit reyndar ekki alveg hvað þú ert að fara... er maður neoconservatívisti ef maður gagnrýnir páfa eins og Chavez og Ahmadinejad?

Og hvar í ósköpunum má lesa einhverja sérstaka samúð með málstað Bandaríkjanna í færslunni? Þetta eru bara vangaveltur um hvað hefði hugsanlega geta gerst.

Chavez er mælskur og skemmtilegur karakter. En í Venesúela er bara einhver vitleysa í gangi. Nánast öll olíuhreinsunin fer fram í Bandaríkjunum (hjá CITGO). Fyrir vikið er Venesúela auðvitað háð því að selja Bandaríkjamönnum olíuna.

Allt tal hjá Chavez um brennisteinslykt þar sem forseti Bandaríkjanna (Kölski) fer um, er bara stælar. Honum væri nær að byggja upp hreinsunarstöðvar heima fyrir. Þess í stað er hann með stæla við erlenda fjárfesta. Fyrir vikið er engin uppbygging af viti í olíuiðnaðinum í Venesúela. Og framleiðslan að dragast saman, með ömurlegum afleiðingum fyrir þjóðina.

Ketill Sigurjónsson, 7.3.2009 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband