Ölduvirkjanir

Wave_Oyster_3

Ölduvirkjanatæknin byggist á að virkja aflið í ölduhreyfingu sjávar. Þetta er því talsvert ólíkt sjávarstrauma- og sjávarfallatækninni.

Unnið er að hönnun og byggingu fjölda ölduvirkjana, m.a. í Danmörku, á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum. Þar prófa menn sig áfram með margvíslegar tækniútfærslur, en öldungis er óvíst hvaða aðferð mun sigra í þeirri samkeppni. Virkja má öldukraftinn á hafi úti, þ.e. all langt utan við ströndina, eða að aldan sé virkjuð með tæknibúnaði sem stendur á hafsbotninum nánast í fjöruborðinu. Einnig má virkja öldukraftinn þar sem aldan skellur á ströndinni. Útfærslurnar eru afar margar og mismunandi.

Wave_pelamis

Enn sem komið er hafa líklega einungis þrjár ölduvirkjanir verið settar upp í á sjó. Þar er  Pelamisvirkjunin við strendur Portúgal hvað þekktust (sbr. myndin hér til hliðar). Annað dæmi er virkjun WaveGen við skosku eyjuna Islay.

Báðar eru þessar ölduvirkjanir þó ennþá á tilraunastigi - og Pelamisvirkjunin liggur nú í portúgalskri höfn vegna bilana. Vert er einnig að nefna að síðustu ár hefur staðið yfir þróun á ölduvirkjun við Færeyjar, en þar eru Færeyingarnir eimitt í samstarfi við áðurnefnt fyrirtæki WaveGen.

Eitt af þeim fyrirtækjum sem nú vinnur að byggingu ölduvirkjana er Ocean Power Technologies í Bandaríkjunum. Það fyrirtæki er skráð á Nasdaq (OPPT) og er til marks um verulegan áhuga fjárfesta á þessum iðnaði.

Er ölduvirkjun vænlegur kostur við Ísland?

Wave_1

Ölduorka er óvíða meiri í heiminum en við suðurströnd Íslands. Reyndar kann aldan þar að vera of kraftmikil fyrir ölduvirkjanir, svo mannvirkin ráði hreinlega ekki við þann ægikraft náttúrunnar. Raunhæfara kann að vera að virkja ölduorkuna við Ísland innan fjarða eða í annars konar skjóli, þ.e. þar sem aldan er viðráðanleg.

Til eru nokkuð góðar upplýsingar um ölduhæð á hafsvæðinu umhverfis Ísland. Þær eru uppfærðar mjög reglulega á vef Siglingastofnunar og þar er einnig birt ölduspá - sem fyrst og fremst er ætluð sjófarendum. Gera þarf mun nákvæmari öldumælingar, t.d. inni á fjörðum eða nálægt landi, til að unnt sé að fullyrða nokkuð um hagkvæmni ölduvirkjana við Ísland.

M.ö.o. verður ekki hægt að leggja mat á hagkvæmni þess að setja upp ölduvirkjun við Ísland, nema að undangengnum ítarlegri rannsóknum og mælingum á ölduhæð á þeim stöðum sem kunna að vera álitlegir.

Wavegen-Islay_photo

Í samtölum við starfsfólk Siglingastofnunar kom fram að sérstaklega gæti verið áhugavert að kanna möguleika á ölduvirkjun við höfnina í Höfn í Hornafirði og einnig við höfnina sem nú er verið að gera við Bakkafjöru í Landeyjum.

Eflaust koma margir fleiri staðir til greina. T.d. þar sem klettar ná í sjó fram, sbr. ölduvirkjunartækni skoska fyrirtækisins WaveGen (sbr. myndin hér að ofan frá vesturströnd Skotlands). Þetta er einmitt fyrirtækið sem hefur verið í samstarfi við Færeyinga um uppsetningu ölduvirkjunar þar. WaveGen er nú að mestu í eigu Siemens.

Wave_Pelamis_Part

Þessi tækni er í reynd á algeru frumstigi, þótt svo eigi að heita að kannski tvær ölduvirkjanir hafi tekið til starfa. Áðurnefnd Pelamisvirkjun við strendur Portúgal er líklega eina ölduvirkjunin sem reynd hefur verið á hafi úti. Ölduvirkjun WaveGen við Islay í Skotlandi er hönnuð til að virkja ölduorkuna þegar aldan skellur á ströndinni. Það eru sem sagt til ýmsar útfærslur af ölduvirkjunum sem kortleggja þyrfti nákvæmlega til að átta sig á hvaða tækni er lengst komin.

Sagt hefur verið um þennan iðnað, að þar virðist mönnum einkar lagið að læra ekki af mistökum annarra. Kannski hefur þetta einkennst meira af kappi en forsjá, en með því að safna saman öllum upplýsingum og t.d. erindum sem flutt hafa verið á ráðstefnum um þessa sjávarvirkjunartækni, ætti að vera hægt að átta sig á hvar bestu tækifærin liggja.

wave_oyster

Tækniútfærslur ölduvirkjana eru, sem fyrr segir, afar fjölbreytilegar. Myndin hér til hliðar sýnir útfærslu skoska fyrirtækisins Aquamarine Power þar sem orkan í yfirborðshreyfingum sjávar rétt við ströndina er beisluð (sbr. einnig teikningin hér efst í færslunni).

Pelamis-virkjunin flýtur aftur á móti á yfirborðinu og minnir á langan snák sem samsettur er úr nokkrum einingum. Ölduhreyfingin veldur því að liðamótin milli einstakra eininga hreyfast og sú hreyfing er notuð til að framleiða rafmagnið.

WaveDragonDiagram

Einnig mætti t.d. nefna danska tækni, sbr. myndin hér til hliðar, þar sem aldan kastast upp í eins konar miðlunarlón. Þaðan streymir sjórinn niður eftir rennu og knýr þar hverfilinn. Fyrirtækið sem vinnur að þessari tækniútfærslu heitir Wave Dragon.

Til eru ýmsar aðrar útfærslur af ölduvirkjunum. Einhverjum þeirra verða eflaust gerð skil hér á Orkublogginu síðar.

-----------------------------------------------

Næsta færsla verður um seltuvirkjanir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir, mjög athyglisvert

Georg O. Well (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband