Blessar Guð Ísland?

Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu. 

stjornarskra_islands_forseti.jpg

Þannig segir í 26. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins. Mun forseti Íslands staðfesta Icesave-lögin? Eða mun hann hafna því? Og lögin verða borin undir þjóðaratkvæði?

Alþingi samþykkti umrætt frumvarp eftir mikla og nokkuð ítarlega umfjöllun. Varla er hægt að segja að þar hafi gerræði ráðið ríkjum. Engu að síður virðist mjög stór hluti þjóðarinnar vilja að málið komi til þjóðaratkvæðagreiðslu - og þar með má segja að myndast hafi "gjá milli þings og þjóðar". Samkvæmt því má kannski álykta sem svo að til að vera samkvæmur sjálfum sér hljóti forsetinn að synja lögunum um staðfestingu sína.

Lögin fela í sér ríkisábyrgð á skuldbindingum Íslands vegna milliríkjasamnings sem gerður var við Breta og Hollendinga um uppgjör á Icesave (í gegnum Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta). Sumir kunna að telja óeðlilegt að forsetinn bregði fæti fyrir milliríkjasamning. Ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar gera reyndar engan mun á því hvað um er fjallað í lögum, þegar kemur að staðfestingi forseta eða synjun. Af orðum þessarar stjórnarskrárgreinar má vera augljóst að forsetinn hefur vald til að synja lögunum um staðfestingu sína og þar með skjóta þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu.

althingi_bal.jpgMeðan stjórnarskráin er þannig úr garði gerð að forsetinn getur hafnað að staðfesta lög og vísað þeim í þjóðaratkvæði, er ekkert óeðlilegt við þá leið. Það er vissulega afar óvenjulegt að slíkt gerist; fjölmiðlalögin alræmdu eru eina dæmið fram til þessa. En þessi Icesave-lög eru heldur ekki neitt venjulegt mál! Í reynd er ómögulegt að segja hversu mikið muni fást uppí Icesave með eignum Landsbankans. Þetta er því í reynd mjög óáþreifanleg skuldbinding og gæti mögulega orðið þjóðinni afar þungbær, svo ekki sé fastar að orði kveðið. 

Í grein í Guardian í gær  er talað um að það geti tekið heila kynslóð Íslendinga að greiða skuldirnar sem ríkissjóður er að sökkva í. Í huga Orkubloggarans er málið sáraeinfalt: Einkafyrirtækið Landsbankinn safnaði innlánum undir merkjum Icesave, með loforði um óvenju háa vexti, til að afla fjár til að geta mætt skuldbindingum sínum. Þetta skilaði bankanum miklu fjármagni, en reyndist engu að síður ekki lausn á vanda Landsbankans. Bankinn fór í þrot.

Geir_blessi_IslandÞó svo aðalörsök þess að svo fór fyrir Landsbankanum, hafi verið glæfralegur rekstur stjórnenda bankans, áttu bresk stjórnvöld líka þátt í atburðarásinni. Þau lögðu sitt af mörkum til að koma ekki aðeins Landsbankanum - heldur öllu íslenska bankakerfinu - fram af hengifluginu. Með því að beita s.k. Hryðjuverkalögum.

Það má vel vera að bankarnir hafi algerlega verið komnir að fótum fram. Og það getur vel verið að Íslendingar geti sjálfum sér um það kennt að hafa í gegnum tíðina kosið yfir sig óhæfa Alþingismenn - og þar með einnig tryggt að hér var allt eftirlit með fjármálalífinu í skötulíki. Það var líka vafasamur gjörningur hjá íslenskum stjórnvöldum að tryggja að fullu innstæður í íslenskum bankaútibúum hér á landi, en telja sig geta hlaupist undan sambærilegri skuldbindingu gagnvart Icesave og öðrum bankainnistæðum í útibúum Landsbankans erlendis.

icesave_clear-difference_948443.jpgOrkubloggarinn er þeirrar skoðunar að þetta réttlæti samt ekki að hroðalegum skuldum einkafyrirtækisins Landsbankans vegna Icesave, verði velt yfir á íslensku þjóðina. Hér hrundi heilt bankakerfi. Slíkar efnahagslegar hamfarir valda því, að mati Orkubloggarans, að íslensk stjórnvöld eru í fullum rétti til að grípa til sértækra aðgerða og hafna ábyrgð vegna Icesave. Bretar eru ekki með hreinan skjöld og þrátt fyrir ömurlegt getuleysi íslenskra stjórnvalda gagnvart því að tryggja að íslenska fjármálakerfið myndi ekki lenda í slíkum ógöngum, hljóta neyðarréttarsjónarmið að koma hér til skoðunar. 

Naumur meirihluti þingmanna ákvað fyrir nokkrum dögum að ríkið taki á sig ábyrgð vegna Icesave í þeirri mynd sem nú hefur verið samþykkt. Um þessa niðurstöðu er mikill ágreiningur meðal þjóðarinnar. Hugsanlega er um að ræða gríðarlega þunga skuldabyrði - vegna einkafyrirtækis sem almenningur hafði ekkert með að gera. Þess vegna þykir Orkubloggaranum sjálfsagt að þjóðin fái að kjósa um þetta mál. Úr því Alþingi gat ekki ákveðið slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, hlýtur forseti Íslands að grípa hér inní og vísa málinu til þjóðarinnar.

Þar með væri forsetinn ekki að taka neina afstöðu. Hvorki með né á móti ríkisstjórninni, né með eða á móti Icesave-samningnum. Hann væri aðeins að inna af hendi sjálfsagða skyldu sína sem þjóðhöfðingi; að leyfa þjóðinni að tala í þessu gríðarlega mikilvæga máli.

olafurragnargrimsson.jpgÞað er samt augljóslega erfitt fyrir Ólaf Ragnar Grímsson að fara þannig gegn vilja ríkisstjórnarinnar; þessarar fyrstu vinstristjórnar í sögu íslenska lýðveldisins. Það væri vatn á myllu andstæðinga ríkisstjórnarinnar og klíkunnar sem hvað harðast hefur barist gegn Ólafi Ragnari. Þess vegna er kannski ólíklegt annað en að hann staðfesti lögin.

Engu að síður kann að vera að forsetinn láti andstöðu stórs hluta þjóðarinnar við lögin verða sitt leiðarljós. Og synji þeim um staðfestingu.

Ef til þess kemur er mikilvægt að vel verði hugað að því að þjóðin gangi vel upplýst til kosninga um þessa löggjöf. Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar væri mikilvægt að kynna með vönduðum hætti hvaða afleiðingar niðurstaðan muni líklega hafa. Fólk þarf að fá góðar upplýsingar til að geta tekið afstöðu til þess hvort skynsamlegra sé að undirgangast Icesave-samninginn með ríkisábyrgð eða að því sé hafnað. Síðari kosturinn kann að hafa alvarlegar pólitískar afleiðingar fyrir samskipti Íslands við önnur ríki og mikilvægt að kjósendur geti áttað sig á hverjar þær kynnu að verða. En lokaorðið um þetta mál á að vera hjá íslensku þjóðinni.

Loks má minnast þess hvernig fór um fjölmiðlafrumvarpið. Segjum nú að svipað gerist með þetta Icesave-frumvarp. Segjum sem svo að forsetinn synji um staðfestingu. Þá gæti ríkisstjórnin einfaldlega dregið frumvarpið til baka, eins og gert var við fjölmiðlafrumvarpið. Og gefið viðsemjendum sínum kost á að ganga að fyrri Icesave-samningnum, með þeim fyrirvörum sem þar er að finna og um varð víðtæk samstaða á Alþingi. Það væri kannski eðlilegasta niðurstaðan úr því sem komið er.

rikisstjorn_johanna.jpg

Orkubloggarinn lýsir sig algerlega mótfallinn nýja frumvarpinu, sem Alþingi var að afgreiða. Og vonast svo sannarlega til þess að forseti Íslands taki sig til og geri sitt til að þjóðin fái að sýna hug sinn gagnvart því. Íslenska þjóðin á að fá að eiga lokaorðið um gildistöku þessara ólaga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Baldursson

Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu og upplýsta þjóð...þá tel ég einna mikilvægast að fram komi skýr og óumdeild framsetning á skuldum þjóðarinnar. Hlutfall af landsframleiðslu og auk þess þarf að greina frá hversu stór hluti skulda þjóðarbúsins sitja inni á reikningum AGS (eða hvar sem þær eru geymdar).
Menn kippa inn og út skuldum, sem eru í raun líka inneignir, til að réttlæta sitt mál. Hlutverk fjölmiðla í að ná fram þessari sameiginlegu sýn er mikilvægt, en verður að líkindum ekki rækt sökum skotgrafarhernaðar.

Haraldur Baldursson, 4.1.2010 kl. 10:39

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Það er orðið fyrirferðamikið Icesavemálið. Þó ku það ekki vera nema 15-20% af skuldunum sem við eigum eftir að burðast með inn í nánustu framtíð.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál er því tilgangslaus í hinu stóra samhengi. Hún verður í besta falli leið til að hleypa út reiðinni sem er mikil meðal þjóðarinnar.

En hún getur kostað sitt, það þarf ekki neina spunameistara eða hræðsluáróður til þess að setja fram mögulegar afleiðingar.

Strax blasir við möguleg uppsögn viðsemjenda, Breta og Hollendinga. Slík ákvæði eru nú þegar virk í samningnum. Þá væri ekkert eftir til að kjósa um.

Þetta er erfitt.

Hjálmtýr V Heiðdal, 4.1.2010 kl. 11:51

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/04/bladamannafundur_i_fyrramalid/

Ketill Sigurjónsson, 4.1.2010 kl. 17:36

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er um margt mjög góð grein hjá Katli. Fáein atriði þarf þó að gera athugasemdir við, m.a. þessi:

1) Ríkisstjórnin getur ekki "einfaldlega dregið frumvarpið til baka, eins og gert var við fjölmiðlafrumvarpið," enda var það ekki gert við síðarnefnda frumvarpið, heldur fjölmiðlalögin, þ.e.a.s. með nýrri löggjöf voru þau felld úr gildi. Málið er ekki lengur á frumvarpsstigi núna, þannig að Icesave-ríkisstjórnin þyrfti að semja ný lög til samþykktar þess að afnema þessi Icesave2-ólög (já, ólög eru þau, því að þau brjóta gegn stjórnarskránni; þess vegna sóma þau sér bezt í ruslafötu Alþingis).

2) Er það í raun rétt hjá þér, Ketill, "að hér var allt eftirlit með fjármálalífinu í skötulíki" miðað við það sem var erlendis? – t.d. í Bretlandi og Hollandi! Fullyrðum ekkert um það, en líttu á þessa grein eftir Ómar Geirsson.

Um hugsanlegar "afleiðingar fyrir samskipti Íslands við önnur ríki", sjá hér: Hvað gerist, ef Icesave-frumvarpið verður fellt? – sbr. einnig þessa samantekt: Ástæðulaus er ótti kjarklítilla úrtölumanna við afleiðingar þess að hafna Icesave.

PS. 76,1% aðspurðra telja að Íslendingar eigi ekki að borga Icesave skv. Wall Street Journal.

Jón Valur Jensson, 5.1.2010 kl. 03:15

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

En vitaskuld, Ketill, er þetta í raun það sem mestu skiptir, þetta sem þú setur í þína yfirskrift: Blessar Guð Ísland?

Hjálmtýr, það er a.m.k. rangt hjá þér, að Icesave yrði 15–20% af "skuldum" okkar, ef þú átt við ríkisskuldir. Icesave yrði á endanum miklu meira hlutfall af þeim, nema enn verði haldið áfram að auka við þær. Iceslave-byrðin yrði með vöxtum aldrei undir 600 milljörðum og gæti leikandi farið í 1000–1200 milljarða við slæmar aðstæður. Vextirnir einir væru meira en 3 milljarðar á mánuði, meira en 100 milljónir (þrjár vænar íbúðir) á dag.

Og við EIGUM EKKI AÐ BORGA!

Vegna orða þinna um afleiðingarnar, vísa ég aftur í tengla mína (hér ofar) um þær.

Jón Valur Jensson, 5.1.2010 kl. 03:26

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Nú liggur ákvörun forsetans fyrir. Hann staðfestir ekki lögin, heldur vísar þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu. Orkubloggarinn er sáttur við þessa ákvörðun.

Ketill Sigurjónsson, 5.1.2010 kl. 11:20

7 Smámynd: Haraldur Baldursson

Það getur stundum verið erfitt að líma á sig andlitið aftur...aldrei nokkurn tíma datt mér í hug að Ólafur myndi synja undirritun.
Væri þetta allt saman ein stór leiksýning þar sem dugmiklir íslenskir stjórnmálamenn hefðu skrifað handrit og skipað til borðs fyglismönnum og andstæðingum Icesave niðurstöðunnar og lokakafli leikritsins (eða einn þeirra síðustu), væri að Forsetinn segi nei....þá væri þetta miklir garpar... reyndin er vitanlega ekki þessi.

Nú hefur Ólafur fest þessa "hefð" inni um túlkun stjórnarskráinnar og henni verður ekki breytt, nema með beinum breytingum á stjórnarskránni. Völd hans eru því nokkrum þrepum hærra en annnarra forseta hingað til.

Þjóðaratkvæði um þetta... hvað hugsa bretar og hollendingar um það ? Vitandi aðþetta kolfellur komi til atkvæðagreiðslu ?

Reyndar er svo önnur spurning.... bretar og hollendingar eru nú 2x búnir að setjast niður með ríkisstjórninni (eða öllu heldur fulltrúum hennar). Ætla þeir að fara semja að nýju við umboðslausa aðila ? Ekki myndi ég gera það í þeirra stöðu. Nú hafa þeir samning gildan miðað við samþykkt þingsins frá því í október....hver verður niðurstaðan ?

Haraldur Baldursson, 5.1.2010 kl. 13:11

8 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Sjálfur taldi ég líkurnar 50/50. Það var ómögulegt að sjá fyrir hver niðurstaða Ólafs Ragnars yrði. Þetta var sú niðurstaða sem ég taldi réttasta. En óvissan framundan er vissulega mikil.

Þetta er milliríkjadeila. Í slíkum deilum kann sjaldnast góðri lukku aðs stýra að aðilar semji beint sín á milli. Þá getur sá sterkari ætíð misbeitt afli sínu. Sanngjörn niðurstaða getur aldrei fengist nema með aðkomu öflugs hlutlauss sáttsemjara. ESB er í mínum huga ekki rétti aðilinn. Kannski eitthvert Norðurlandaríkjanna. Finnland? Friðarverðlaunahafinn Martti Ahtisaari?

Ketill Sigurjónsson, 5.1.2010 kl. 16:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband