Verður Ísrael næsti "Noregur"?

Norðmenn eru þakklátir skaparanum - eða náttúrunni. Nú í vikunni sem leið datt nýjasta útgáfa af Norwegian Continental Shelf inn um bréfalúgu Orkubloggarans og þar segir orðrétt:

norwegian-shelf-2-2010.png

Nature has been generous with Norway. That laid the basis for an adventure which began over 40 years ago and has led to the drilling of more than 3000 wells on the NCS. This in turn has made it possible to establish welfare provisions for the population which would otherwise have been impossible.

Já - norska olíuævintýrið hefur gert Norðmenn að einhverri allra ríkustu þjóð veraldar. En hvað með hina "einu sönnu Guðs útvöldu þjóð"; Ísraelsmenn?

Eins og fólk veit er allt löðrandi í olíu í næsta nágrenni Ísraels. Auðvitað mest við Persaflóann, en einnig í ýmsum löndum í næsta nágrenni flóans. Víða í löndum Norður-Afríku er að finna mikla olíu í jörðu - eins og t.d. í Egyptalandi og hjá Gaddafi í Líbýu - og meira að segja í Sýrlandi hefur fundist dágóður slatti af svarta gullinu. En ekki einn einasti dropi innan lögsögu Ísraels. Hvorki innan hins "upprunalega" Ísrael né innan hernumdu svæðanna - ekkert á Vesturbakka Jórdanár og ekkert á Gaza. Það vottar ekki einu sinni fyrir smá gasþunnildum undir sjálfri Jerúsalem.

golda_meir-time.jpg

Olían er sem sagt aðallega í einræðisríkjum "villutrúarmannanna"! Sumir Ísraelar gantast með að það sé líkt og Drottinn hafi ákveðið að láta alla við botn Miðjarðarhafsins njóta olíu nema Ísraela sjálfa. Golda Meir, fyrrum forsætisráðherra Ísraels mun hafa orðað þetta svo, að í fjörutíu ár hafi Móses leitt gyðinga um eyðimörkina til eina svæðisins í öllum Mið-Austurlöndum þar sem enga olíu er að hafa! Nema auðvitað ólífuolíu, sem þykir þó ekki alveg eins mikil náttúruauðlind í dag eins og var fyrir þúsundum ára.

Ekki hefur vantað viljann til að finna olíu í Ísrael. Í meira en hálfa lönd hafa menn staðið sveittir og leitað svarta gullsins um landið allt. Í leit sinni hafa sumir fyrst og fremst haft trúna að vopni. Eins og síonistinn og Texasbúinn John Brown, sem telur sig geta lesið vísbendingar í texta Gamla testamentisins um hvar finna megi olíu í landinu helga. En þrátt fyrir trúarhita Brown's hefur umfangsmikil leit fyrirtækis hans, Zion Oil, verið árangurslaus. Ekki minnsti dropi af nýtanlegum kolvetnisauðlindum hefur fundist í ísraelskri jörð. Né á öðrum svæðum sem Ísrael hefur hernumið. Og það þrátt fyrir að Zion Oil byggi leit sína á kýrskýrum vísbendingum úr Gamla testamentinu... sem reyndar ku heita Tóra  í gyðingdómnum ef Orkubloggaranum skjátlast ekki - en reyndar er trúarbragðafræði ekki hans sterkasta hlið.

israel-gas-map.gif

Fyrir fáeinum árum fannst reyndar vottur af gasi undir landgrunninu útaf Ísrael. En það var smotterí - og allt þar til fyrir rétt rúmu ári síðan leit út fyrir að Ísrael yrði um aldur og ævi háð fjárframlögum frá Bandaríkjunum til að geta keypt eldsneyti til að knýja þjóðfélagið.

Þetta var satt að segja farið að líta illa út; auknar efasemdarraddir voru farnar að heyrast frá Washingon DC um skilyrðislausan stuðning Bandaríkjanna við Ísrael og Palestínumenn voru farnir að eygja von um meiri sjálfstjórn. En viti menn. Einmitt þegar verulega var farið að þrengja að Ísraelsstjórn gerðist "kraftaverkið". Risastór gaslind fannst í lögsögu Ísraels um 50 sjómílur vestur af hafnarborginni Haifa. Gaslind sem hvorki meira né minna virðist hafa að geyma jafngildi 1,5 miljarða tunna af olíu.

Þetta var stærsta gaslindin sem fannst í heiminum árið 2009! Svæðið hefur verið nefnt Tamar, sem sérfróðir Biblíulesendur segja Orkubloggaranum að sé til heiðurs merkri konu sem sagt er frá í Gamla testamentinu. En varla höfðu fréttirnar af Tamar-gaslindinni borist til gyðingalandsins sérkennilega, þegar menn hittu enn á ný í mark á ísraelska landgrunninu. Og nú þótti ástæða til að kenna lindina við sjálft sæskrímslið ógurlega; Levíaþan. Sem mun vera einhvers konar Miðgarðsormur þeirra gyðinganna.

leviathan-destruction.png

Þessi nýjasta gaslind sem fannst um mitt þetta ár (2010) er sögð vera helmingi stærri en Tamar; þ.e. að hún jafngildi 3 milljörðum tunna af olíu. Sem er ansið hreint mikið og myndi gera Ísrael að jafn mikilvægu kolvetnisríki eins og Noregur er í dag. Nú blasir við að Ísrael verði ekki aðeins sjálfu sér nægt um orku, heldur verður landið stórútflytjandi á gasi. Enda er nú unnið hörðum höndum í ísraelsku stjórnsýslunni við að móta reglur um auðlindagjald og "olíusjóð" að norski fyrirmynd.

Enn eru allmörg ár í að gas fari að streyma frá fyrstu gasvinnslusvæðunum útaf strönd Ísraels. Ekki er orðið ljóst hvert gasið mun fara, en margt bendir til þess að auk innanlandsmarkaðar verði gasleiðsla lögð til Grikklands og gasið selt þangað og svo áfram innan ESB.

Þetta er þó enn ekki afráðið og það er kannski ennþá fullsnemmt að ætla að Ísraelar verði örugglega ofurrík kolvetnisþjóð. En vissulega er margt sem bendir nú til þess að Ísraelsþjóð eigi í vændum tugmilljarðadollara tekjur á næstu árum og áratugum.

burning-man-2007-crude_awakening_-art-installation.jpgHvort það mun styrkja friðarhorfur í Mið-Austurlöndum er allt önnur saga. Gasfundurinn er strax farinn að hafa slæm áhrif á sambandið milli Ísraela og Líbana, sem munu takast á um gaslindir á lögsögumörkunum. Sömuleiðis eru stjórnvöld í Egyptalandi á nálum. Egyptar hafa nefnilega gert samninga við Ísraela um stórfellda gas-sölu til Ísrael en sjá nú fram á óvissu um að þeir samningar verði efndir af hálfu Ísraelsmanna. Úps!

Nú eru jólin. Það er nokkuð ljóst að boðskapur kristninnar um frið og fyrirgefningu er ennþá víðs fjarri því að sætta þjóðir heimsins. Við sem búum hér svo fjarri stríðsátökum hljótum að freistast til að hugsa einmitt þau orð sem Bono söng hér um árið: Well, tonight, thank God it's them, instead of you! Jafnvel þó svo hér muni kannski aldrei finnast dropi af olíu, þá er Ísland alls ekki svo slæmur staður að fæðast á! Í reynd snýst lífið jú um allt annað heldur en olíu... eða orkublogg.

 


Olíuleki

Wikileaks-skjölin úr bandarísku stjórnsýslunni hafa opnað okkur athyglisverða sýn í veröld olíunnar.

obama-saudi-arabia.jpg

Þar kemur m.a. fram að yfirvöld í Saudi Arabíu vilji helst að Bandaríkin þurrki út Klerkastjórnina i Íran. Enda er Íran það land sem er með einhverjar mestu olíubirgðir veraldar og blessaðir Sádarnir treysta alls ekki trúbræðrum sínum í Persíu til að halda sig innan viðmiðana OPEC (þ.e. að virða framleiðslukvótana).

Ef olía tæki að streyma stjórnlaust á markaðinn frá Íran myndi olíuverð einfaldlega hrapa. Afleiðingin yrði sú að Saudi Arabía myndi samstundis lenda í miklum viðskiptahalla - með tilheyrandi innanlandsóróa. Þá gæti orðið stutt í byltingu gegn einræðisstjórninni, sem þar hefur setið að olíuauðnum og stýrt landinu með harða hendi trúarinnar að vopni.

julian-assange-time-cover_1049025.jpg

Hjá Wikileaks má líka finna skjöl um að í reynd sé það olíufélagið Shell sem stjórnar Nígeríu - miklu fremur en nígerísk stjórnvöld. Allar helstu ákvarðanir munu nefnilega vera bornar undir Shell áður en þær eru formlega teknar af sjálfum stjórnvöldum Nígeríu.

Einnig er þarna að finna skjöl um að bandaríski olíurisinn Chevron hafi skipulagt olíuviðskipti við Klerkana í Íran þrátt fyrir viðskiptabann Bandaríkjastjórnar. Þó það nú væri! Fátt er ábatasamara en slík ólögmæt olíuviðskipti, eins og eigendur Glencore og fleiri fyrirtækja á jaðri hins siðmenntaða heims þekkja manna best. Hingað til hafa flestir álitið að stóru olíufélögin sem skráð eru á markaði héldu sig frá slíku. Að fara framhjá viðskiptabanni er einfaldlega svakalega áhættusamt fyrir hlutabréfaverðið ef upp kemst. En menn virðast barrrasta ekki standast mátið. Enda fátt ljúfara en að kaupa olíutunnuna á svona ca. 5-10 dollara og svo selja hana á 80 USD á markaði.

venezuela-china-simon-bolivar.jpg

Kostulegast er þó að lesa um hvernig hinar ægilegu hótanir Hugó Chavez, forseta Venesúela, um að hætta að selja Bandaríkjamönnum olíu og selja hana þess í stað til Kína, hafa snúist í höndum hans. Reyndar hefur Orkubloggið áður minnst á að þessar hótanir séu mest í nösunum á kallinum, enda er CITGO með nær alla olíuhreinsunina sína í Bandaríkjunum og því væri þeim dýrt að framkvæma "hótanirnar". Engu að síður hefur ljúflingurinn Chavez látið athafnir fylgja orðum í þetta sinn. Kínverjar hafa gert nokkra stóra samninga um kaup á olíu frá Venesúela og þannig tekið þátt í að skapa þann pólitíska sýndarveruleika að Bandaríkjamenn geti sko alls ekki treyst á að fá olíu frá Venesúela.

En Wikileaks-skjölin afhjúpa þann veruleika að Kínverjarnir borga Chavez og félögum einungis skitna 5 USD fyrir tunnuna! Og nú er Chavez fjúkandi illur því hann grunar Kínverjana um að nota ekki olíuna heima fyrir, heldur að selja hana beint inn á markaðinn! Þar sem verðið hefur verið í kringum 80 USD tunnan undanfarið. 

chavez-venezuela-chine-globe.jpg

Skjölin benda til þess að sumt af þessari olíu sem Kína kaupir af Venesúela fari til viðskiptalanda Kína í Afríku. Mest virðist þó fara beint á Bandaríkjamarkað! Því verður ekki betur séð en að fulltrúar alþýðunnar séu farnir að stunda sama leikinn eins og örgustu ímyndir heimskapítalismans.

Hingað til hafa menn einungis haldið slík viðskipti stunduð af alræmdustu skuggafyrirtækjum veraldarinnar; að kaupa olíu á slikk frá einangruðum stjórnvöldum og selja hana svo áfram með ofsahagnaði. En nú eru það Venesúelamenn sem sitja eftir með sárt ennið eftir að hafa verið svona duglegir að sýna viðleitni til sósíalískrar samstöðu. Kannski ekki furða að karlálftin hann Húgó klóri sér í kollinum - og velti fyrir sér af hverju olíuskipin sem sigla frá Venesúela og vestur um Panama-skurðinn virðast aldrei ná til Kína.

 


Rothschild í hrávörustuði

Nathaniel Philip Rothschild virðist hafa mikinn áhuga á áliðnaðinum þessa dagana.

nathaniel-rothschild-1_1047815.jpg

Þessi helsta stjarna Rothschild-fjölskyldunnar nú í byrjun 21. aldarinnar varð nýlega hluthafi í hrávörurisanum Glencore International. Fyrirtækinu dularfulla sem ræður því sem það vill ráða í Century Aluminum, sem er m.a. eigandi Norðuráls í Hvalfirði. Og nú virðist Rotskild-strákurinn æstur í að eignast umtalsverðan hlut í Rusal'inu hans Oleg Deripaska.

Þar er um að ræða stærsta álfyrirtæki heimsins. Kannski æxlast þetta þannig að Rusal (og þar með Deripaska) verði brátt orðið eigandi að álverinu í Hvalfirði og grunninum í Helguvík? Þá færi kannski að hýrna aftur yfir þeim álfunum suður með sjó, sem seldu frá sér ættarsilfrið í iðrum Reykjanessins. Það væri svo auðvitað athyglisverður bónus ef sjálfir Rothschild'arnir myndu fylgja með í kaupbæti.

Það er sossum ekkert nýtt að Rothschild-fjölskyldan sé áhugasöm um hrávörur og þar á meðal ál. Minnumst þess að Rothschild-bankarnir voru einmitt meðal æstustu þátttakenda í olíuæðinu við Bakú um aldamótin 1900. Og Rothschild-fjölskyldan var mikilvægasti fjármögnunaraðilinn á bak við demantaævintýri Cecil Rhodes í sunnanveðri Afríku skömmu fyrir aldamótin 1900. Fjölskyldan fjármagnaði líka málmaveldið Anglo American, sem oftast er kennt við hinn þýska Ernest Oppenheimer. Og Rotskildarnir hafa að auki alltaf átt mikla hagsmuni í námurisanum Rio Tinto. Sem í dag heitir Rio Tinto Alcan og er eigandi álversins í Straumsvík.

edmond_de_rothschild_banknote--israel.jpg

Já - bæði nítjándu öldina og nær alla þá tuttugustu var þessi ofurefnaða gyðingafjölskylda meðal helstu þátttakenda í hrávöruviðskiptum heimsins. Og nú eru horfur á að einhver bjartasta von fjölskyldunnar, ungstirnið Nathaniel Rothschild, ætli sér að leggja ennþá meiri áherslu á hrávörumarkaðinn en verið hefur síðustu árin. Enda vita framsýnir menn að hugsanlega er þetta allt að verða uppurið. Enfaldir hlutir eins og jörð og grjót kann að vera sú fjárfesting veraldarinnar sem mun skila mestum hagnaði nú þegar við erum "running out of everything"!

Það er ekki nóg með að einhver alefnaðasti laukur Rothschild-fjölskyldunnar eigi nú bæði hagsmuna að gæta í Straumsvík, í Hvalfirði og í Helguvík. En jafnvel þó þetta séu allt saman stór verkefni á íslenskan mælikvarða, eru þetta hreinir smámunir í augum piparsveinsins Nathaniel Rothschild. Hann horfir á stærri dæmi, eins og þátttöku í Rusal. Þar væri hann orðinn samtarfsmaður álmannsins með drengsandlitið; milljarðamæringsins Oleg Deripaska.

Þarna eru á ferðinni menn sem vita hvert skal halda til að fá góðan arð af náttúruauðlindum. Það væri kannski viðeigandi að þessir tveir ljúflingar yrðu aðaleigendur einhverra af íslensku álbræðslunum. Fyrirtækjanna sem skófla til sín mest af þeim ábata, sem til verður af hinni ódýru grænu íslensku orkuframleiðslu.

amschel-rothschild-and-sons.jpg

En höldum í smá stund til upphafsins og sögunnar. Fólk kennt við Rothschild er rakið til þýska gyðingsins Amschel Rothschild, sem uppi var í Frankfurt í Þýskalandi um aldamótin 1800 (1744-1812). Á sama tíma og Íslendingar tókust á við Móðuharðindin, efnaðist Amschel Rothschild á fjármálavafstri og var sannkallaður útrásarvíkingur þeirra tíma. Hann stofnaði til viðskipta í öllum helstu borgum Evrópu og fjölskyldan varð brátt þekkt fyrir að vera einn helsti lánveitandi aðalsins um alla álfuna.

Sagt er að grunnurinn að æpandi auði fjölskyldunnar hafi einkum verið styrjöld Breta og Frakka sem endaði með niðurlagi Napóleons við Waterloo. Á þeim tíma var Nathan Rothschild, einn af sonum Amschel Rothschild, yfir öllum viðskiptum fjölskyldunnar í Bretaveldi. Ásamt bræðrum sínum var Nathan þessi, sem einmitt er forfaðir áðurnefnds Nathaniels í þráðbeinan karllegg, upphafsmaðurinn að umfangsmiklum viðskiptum með skuldabréf ríkja eins og við þekkjum svo vel í dag. Þessi viðskipti gerðu Bretum kleift að fjármagna stríðsreksturinn gegn Napóleon og sköpuðu bönkum Rothschild-fjölskyldunnar æpandi mikinn hagnað. Og lögðu þannig grunninn að fjármálastórveldi fjölskyldunnar

wellington_at_waterloo_hillingford.jpg

Illar raddir segja reyndar að ofsagróði Rothschild-bræðranna þarna snemma á 19. öldinni, í kjölfar sigurs hertogans af Wellington á Napóleon við Waterloo, hafi orðið til með fremur vafasömum hætti. Rothschild-fjölskyldan hafi einfaldlega búið yfir hröðustu upplýsingaveitu Evrópu og fengið fréttirnar frá Waterloo á undan enskum stjórnvöldum! Sem þýddi að Nathan Rothschild fékk í reynd innsýn í framtíðina og gat nýtt sér þessar upplýsingar til að taka viðeigandi ákvarðanir í kauphöllinni í London, áður en markaðurinn vissi hvað gerst hafði við Waterloo. Hvað sem sannleika slíkra sagna líður, þá varð Nathan Rothschild á skömmum tíma efnaðasti maður á Bretlandseyjum. Og var meira að segja talinn vera ríkasti maður veraldar, þegar hann lést árið 1836.

british-gas-logo_1047819.jpg

Í dag eru Rothschild'arnir ekki lengur bara í viðskiptum í Evrópu, heldur dreifðir um veröld viða. Á tímabili var fjölskyldan stórtæk í hrávöruviðskiptum og þá helst með olíu og gull. En á síðari árum er það bankastarfsemi og fjármálaþjónusta sem hefur verið hryggjarstykkið í fyrirtækjum fjölskyldunnar. Fjölskyldan hagnaðist t.a.m. gríðarlega á einkavæðingu Thatcher's í Bretlandi, þegar fyrirtæki þeirra sáu bæði um einkavæðinguna á bresku járnbrautunum og á gasfyrirtækinu British Gas.

En lífið er ekki alltaf dans á rósum. Eins og svo margir aðrir milljarðamæringar hefur Rothschild-fjölskyldan stundum fengið að kenna á óréttlæti veraldarinnar. Árið 1996 gerðist það t.a.m. að fjármálamaðurinn Amschel Rothschild fannst hengdur á hótelherbergi í París, einungis rétt rúmlega fertugur að aldri. Einnig hann var kominn í beinan karllegg af sjálfum höfuðpaurnum Nathan Rothschild, sem spáð hafði með afbrigðum vel fyrir um sigur Wellington's við Waterloo. Amschel átti einmitt að taka við stjórnun á fyrirtækjum fjölskyldunnar í Englandi og því var þessi illskiljanlegi sorgaratburður gríðarlegt áfall.

mitterrand-dans-la-nievre-1987-afp.jpg

Og Rothschild-fjölskyldan hefur ekki bara þurft að takast á við persónulega harmleiki. Oft hafa utanaðkomandi öfl gert fjölskyldunni mikinn grikk. Byltingarástandið 1848, Kreppan mikla og uppgangur nasismans voru atburðir sem hjuggu djúp skörð í bankaveldi Rothschild-fjölskyldunnar um alla Evrópu.

Jafnvel núna í nútímanum er enginn friður. Það var t.a.m. magnað þegar Mitterand þáverandi forseti Frakklands tók sig til árið 1981 og þjóðnýtti sjálfan fjármálarisann Banque Rothschild í Frakklandi! Til að strá salti í sárið var fjölskyldunni í nokkur ár meinað af frönskum stjórnvöldum að stofna nýjan banka með nafni fjölskyldunnar. Fljótlega varð þó hægri maðurinn Chirac forsætisráðherra í Frakklandi og nánast samstundis varð til Rothschild & Cie Banque. Upprisa fjölskyldunnar í Frakklandi var hafin.

Þessi flétta hjá frönsku sósíalistunum gegn Rothschild-fjölskyldunnu um miðjan 9. áratuginn var óneitanlega svolítið kaldhæðnisleg í ljósi þess að í heimsstyrjöldinni síðari voru það nasistarnir sem þjóðnýttu bankastarfsemi fjölskyldunnar (í Þýskalandi). Og leppar nasistanna í frönsku Vichy-stjórninni gerðu hið sama í Frakklandi. Rothschild'arnir hafa því hvorki fengið að vera í friði fyrir fasistum né sósíalistum. Það er vandlifað. Sumir segja þetta vera skýrt dæmi um djúpstætt gyðingahatur í álfunni gömlu. Ljótt ef satt er.

peter-munk_barrick-gold.jpg

En nú er sem sagt þessi ósigranlega fjármálafjölskylda komin á fullt í hrávörurnar eftir að hafa að mestu haldið sig frá þeim um tíma. Hér hefur verið minnst á álið og hver veit nema umræddur Nathaniel Rothschild verði senn orðinn helsti eigandi einhverra íslensku álfyrirtækjanna.

En hann er á fleiri vígstöðvum en bara í álinu. Nathaniel er t.am. í stjórn Barrick Gold, sem er stærsta gullnámufyrirtæki veraldarinnar. Þar er hann í slagtogi með öðrum ofurríkum gyðingi; sjálfum Peter Munk [sbr. myndin]. Munk þessi er um margt merkilegur náungi. Hann var einn þeirra sem slapp frá Ungverjalandi árið 1944 þegar nasistarnir leyfðu slatta af sterkefnuðum gyðingum að flýja til Sviss - gegn laufléttri greiðslu. Um 450 þúsund aðrir ungverskir gyðingar voru ekki alveg jafn lánsamir og voru sendir í gasklefana í Auschwitz. Stundum er gott að eiga pening.

Það vantar ekki dramatíkina í kringum evrópsku gyðingana. Hvort sem það eru ofsóknir, hörmuleg örlög eða ævintýralegur auður, er lífshlaup þeirra engu líkt. Og hinn geðþekki Nathaniel Rothschild er hvergi nærri hættur. Undanfarið hefur heyrst að hann sé um það bil að gera sannkallaðan risadíl austur í Indónesíu, sem tryggi honum yfirráð yfir stórum hluta allrar kolavinnslu þar í landi. Horfur eru á að þar með verði Nathaniel einhver mesti kolaútflytjandinn til Kína! Spennandi fyrir strákinn.

deripaska-shadow.jpg

Sumir álíta meira að segja að þessi nýjustu skref Nathaniel's í álinu og kolunum muni verða til þess að við sjáum senn nýtt risahrávörufyrirtæki í heiminum. Sem muni jafnast á við sjálft Glencore eða Xstrata. En hvað sem því líður, þá er augljóslega ástæða til að fylgjast vel með brallinu í Nathaniel Philip Rothschild, Oleg Deripaska og öðrum helstu vinum þeirra. Einhver sem hefur séð þá á rölti um miðborg Reykjavíkur?

 


Suðurlandið til sölu

Sértu strákur eða stelpa með meirapróf uppá vasann og smá ævintýraþörf í blóðinu, þá er Orkubloggið með hugmynd: Eyddu einu ári suður í Ástralíu og komdu svo heim um næstu jól með 10 milljónir ISK í rassvasanum.

castlemaine_xxxx.jpg

Til að láta þetta rætast þarftu einungis að vinna svona ca. 15 tveggja vikna vaktir undir stýri á einum af stærstu trukkum heimsins. Þess á milli geturðu t.d. flatmagað á ströndinni við Sydney og notið lífsins. Ekki amalegt.

Á 2ja vikna fresti er þér skutlað með flugvél þvert yfir landið, þar sem þú klifrar uppí ofurtrukkinn og keyrir með rauða jörð frá skurðgröfunum og til skips. Vissulega þarf smá seiglu í vaktirnar, sem eru 12 tímar hver. En eftir vakt má alltaf skola niður svona eins og einum ísköldum Castlemain XXXX og eiga góða stund á barnum áður en haldið er til koju.

Já - á einhverju eyðilegasta horni Ástralíu má úr órafjarlægð sjá rykbólstrana stíga upp í kjölfar risatrukkana. Þar sem þeir keyra stanslaust allan sólarhringinn með 300 tonn af rauðum jarðvegi í hverri ferð!

pilbara-iron-ore-area.jpg

Allt er þetta hluti af kínverska efnahagsundrinu, sem hefur haft gríðarleg áhrif á daglegt líf Ástrala. Nánast óendanleg eftirspurn frá Kína eftir áströlskum kolum, gasi, málmum, úrani og ýmsum öðrum hrávörum hefur valdið því að í Ástralíu koma menn af fjöllum þegar þeir heyra talað um kreppu. Enda er Ástralíudollarinn nú meðal þeirra mynta sem mest viðskipti eru stunduð með í heiminum. Aðeins bandaríkjadalur, japanskt jen, breskt pund og evra hafa meiri veltu.

australia-se-asia-map.jpg

Það hefur verið hreint magnað að fylgjast með uppganginum í Ástralíu. Ekka bara síðustu árin fyrir "heimskreppuna" - sem er bara alls ekki að ná til alls heimsins - heldur líka þess sem hefur verið að gerast þarna á Suðurlandinu mikla síðustu tvö árin. Það er einfaldlega rífandi gangur í atvinnulífinu og fátt sem virðist geta komið í veg fyrir að góðærið þar haldist lengi enn.

Efnahagsástandið í Ástralíu þessa dagana er svo sannarlega afar ólíkt því sem var, þegar Orkubloggarinn dvaldi þar við sólarstrendurnar dásamlegu í Sydney fyrir rétt rúmum áratug. Það var árið 1998 og áhrif Ásíukreppunnar voru ennþá mjög áberandi. Á leið sinni til þessa mikla og merka lands í suðri hafði bloggarinn haft viðkomu í Bangkok í Taílandi. Þar stóðu hálfbyggðir skýjakljúfar líkt og draugar út um alla borgina og ennþá langt í að Taíland næði sér upp úr kreppunni, sem hafði fellt gengi gjaldmiðils þeirra um helming. Enda var hægt að leyfa sér að gista þar á lúxushótelum og allt á spottprís - meira að segja fyrir Íslending.

aud-usd-1998-2010_1046558.png

Þegar komið var til Sydney virtist ástandið þar vera prýðilegt. En í reynd höfðu Ástralir orðið fyrir miklu höggi. Japan hafði verið þeirra mikilvægasti viðskiptavinur, en nú var japanska efnahagsundrið búið og ekkert virtist blasa við nema samdráttur. Efnahagslægðin í Japan olli því að Ástralíudollarinn snarféll, sem var auðvitað til góðs fyrir gestinn frá Íslandi. Það er alveg magnað að hugsa til þess að þá fór Ástralíudollarinn niður í hálfan bandaríkjadal, en í dag er gengið aftur á móti nánast 1:1! Það er svo sannarlega engin kreppa þarna í Suðrinu hinu megin á hnettinum.

Rétt um það leyti sem Orkubloggarinn kvaddi Ástralíu á steikjandi heitum desemberdegi 1998 fór æpandi uppgangurinn í Kína á skrið. Og á þessum rúma áratug sem liðinn er síðan þá, hafa viðskipti Ástralíu við Kína vaxið frá því að vera nálægt því engin og í það að nú fær Ástralía um fjórðung allra útflutningstekna sinna frá Kína! Vissulega flytja Ástralir líka mikið inn frá Kína, en viðskiptajöfnuðurinn við Kína er þeim samt hagstæður um tugi milljarða USD. Peningarnir sem sagt streyma frá Kína og til Ástralíu.

pilbara-truck-2.jpg

Það sem Kínverjar eru að kaupa svona mikið í Ástralíu þessa dagana er einfaldlega Ástralía sjálf. Náttúruauðlindir.

Áströlsk kol, ástralskt úran og ástralskt járn streymir sem aldrei fyrr til Kína. Hér í upphafi færslunnar var minnst á járngrýtið sem siglt er með í heilu skipalestunum frá rauðum auðnum NV-Ástralíu og til Kína. Jarðveginum er skóflað uppá sannkallaða risatrukka sem flytja það um borð í ofurpramma, sem svo færa góssið til Kína. Og þarna í Pilbara-héraðinu er af nógu að taka. Áætlað að auðnin þarna hafa að geyma um 40 milljarða tonna af þessum járnríka jarðvegi. Þ.a. þau milljón tonn sem nú er siglt daglega með frá Pilbara og gegnum sundin við Indónesíu og til Rauða Drekans, munu endast í dágóða stund.

xi-jinping_kevin-rudd_andrew-forrest-ceo-fortscue-metals.jpg

Þarna koma Kínverjarnir ekki bara fram sem laufléttir kaupendur að járngrýti og öðrum málmum og hrávörum. Þvert á móti hafa kínversk risafyrirtæki í námageiranum verið iðin við að kaupa upp áströlsk námafyrirtæki. Þarna eru á ferðinni nöfn eins og Sinosteel (stærsti járninnflytjandi Kína), kínverska ríkisfjárfestingafyrirtækið  CITIC og Chinalco (eitt stærsta álfyrirtæki heimsins). Ástralíumegin eru gamlir kunningjar lesenda Orkubloggsins eins og BHP Billiton og Rio Tinto (sem á m.a. álverið í Straumsvík undir merkjum Rio Tinto Alcan).

Stutt er síðan Chinalco keypti einmitt um 10% hlut í Rio Tinto og undanfarna mánuði hefur Kínalkóið verið að reyna að kaupa annað eins í viðbót. En nú var bæði áströlskum stjórnvöldum og öðrum hluthöfum Rio Tinto orðið nóg um - og díllinn var stöðvaður. Kínverjarnir tóku þá bara upp þá strategíu að verða stórir hluthafar í einstökum námaverkefnum í landinu; verkefni sem þeir fjármagna með Rio Tinto og öðrum slíkum fyrirtækjum. Og eru þannig smám saman að eignast stóran hlut í mörgum stærstu námum Ástralíu, þó svo kaup þeirra í áströlsku námarisunum hafi verið stöðvuð - í bili. Þar að auki er Kína einhver stærsti kaupandinn að skuldum Ástrala.

pilbara_gorgon-map.jpg

Utan við strönd Pilbara liggja svo hinar geggjuðu Gorgon-gaslindir, sem nýttar verða til að framleiða fljótandi gas (LNG) sem siglt verður með á risastórum tankskipum til Kína. Þar er á ferðinni fjárfesting upp á tugmilljarða USD, sem bætist við allt hitt fjármagnið sem streymt hefur í nýtingu ástralskra náttúruauðlinda síðustu árin. Búið er að undirrita samning við Kínverja um að þeir kaupi alla framleiðsluna næstu tuttugu árin. Kannski ekki skrítið að á liðnu ári (2009) hækkaði fasteignaverð í Pilbara um meira en 200%.

Ástralir fagna eðlilega góðu ástandi efnahagsmála. En núna þegar Kína stendur að baki um fjórðungi af öllum útflutningi frá Ástralíu eru menn farnir að spyrja hvort þetta geti verið tvíbent velmegun? Verði stöðnun í Kína er hætt við að efnahagur Ástralíu falli eins og steinn. Skyndilegt fall Ástralíudollarans í árslok 2008, þegar Kína tók lauflétta dýfu, er þörf áminning um þessa ógn.

pilbara-truck-1.jpg

Þeir Ástralir eru líka til, sem óttast að efnahagsstyrkur Kínverjar sé farinn að hafa óeðlilega mikil áhrif á ákvarðanatöku bæði ástralskra stjórnvalda og ástralskra kjósenda. Báðir þessir hópar hræðast fátt meira en efnahagslegan samdrátt og þess vegna er mikil freisting í þá átt að leyfa Kínverjum að fara sínu fram í Ástralíu.

Dæmi um þessa hugsun má t.d. sjá í því þegar vinstri stjórninni í Ástralíu mistókst að innleiða auðlindaskatt í landinu fyrir um ári síðan. Þar ætluðu menn að fara ekki ósvipaða leið eins og t.a.m. hefur verið gert í Noregi, enda vitað mál að kolin, járnið og úranið í Ástralíu mun ekki endast að eilífu og því æskilegt að koma á auðlindasjóði. En lobbýismi risafyrirtækjanna stöðvaði þessa tilraun til að koma á auðlindaskatti - og svo féll stjórnin í kosningunum þegar kjósendur refsuðu Verkamannaflokknum fyrir að leyfa ekki bara öllu að halda áfram með bensínið í botni. Það er jú bara svo gaman að gefa ennþá meira í!

iron-ore-ship.jpg

Og lífið gengur sinn vanagang í auðnum Ástralíu. Þar sem trukkarnir halda áfram að flytja ástralskar náttúruauðlindir til skipa, sem svo sigla með þær norður til Kína og kynda undir efnahagsuppganginn þar. Þarna eru gríðarlegir tekjumöguleikar fyrir vinnuafl, sem er tilbúið að halda á vit vertíðarlífsins í eyðimörkinni rauðu og nógir ísskápar fyrir bjórinn. Gæti varla betra verið.

Þó eru þeir til sem ofbýður atgangur Kínverjanna við uppkaup á námum og hrávörum í Ástralíu - og reyndar út um allan heim. En það má líka spyrja hvort nokkuð sé athugavert við það að fjölmennasta þjóð heimsins, með um 20% allra íbúa jarðarinnar, leitist við að festa sér a.m.k. sama hlutfall af auðlindum heimsins? Annað væri eiginlega vítavert gáleysi af hálfu Kínverja.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband