Áramótakveðja

north-sea-gas-flaringÞað að við Íslendingar puðrum upp nokkrum flugeldum um áramót þykir sumum illa farið með peninginn. Myndin sýnir logana frá brennandi jarðgasi á borpöllum í Norðursjó. Verðmæti alls þess jarðgass sem brennt er svona útí loftið á ári hverju í heiminum er talið jafngilda markaðsverðmæti sem nemur nokkrum tugum milljarða USD. Eða allt að 60 milljörðum USD (um 7.000 milljörðum ISK) ef miðað er við markaðsverð á gasi í Asíu. Svo koma gróðurhúsaáhrifin af þessum gasbruna með í kaupbæti. Það gengur svona. Orkubloggið óskar lesendum sínum farsæls komandi árs og þakkar samveruna á árinu sem er að liða.


Stórnmálamenn í viðjum stóriðjustefnu

Í þessum pistli er athyglinni beint að því hvernig stjórnmálaumræðan um orkageirann einkennist furðu mikið af skammtímasjónarmiðum og þröngum byggðastefnuhagsmunum. Sem sagt hinni klassísku íslensku stóriðjustefnu. 

Óheppilegur og jafnvel alvarlegur kerfisgalli

Í umræðu um virkjanaframkvæmdir á Íslandi er algengt að áherslan sé mjög á „að skapa störf" og „koma framkvæmdum í gang". Það að taka lán og virkja vatnsafl og jarðvarma - og skapa þannig störf og koma framkvæmdum í gang - verður oft að aðalatriði þegar stjórnmálamenn, verkalýðsforkólfar og fleiri tjá sig um orkugeirann og hlutverk opinberu orkufyrirtækjanna (einkum Landsvirkjunar). En arðsemin af þessum risastóru fjárfestingunum verður nánast að aukaatriði.

LV-haustfundur-idnadarradherra-2013

Gott dæmi um þetta var erindi iðnaðarráðherra á haustfundi Landsvirkjunar í nóvember sem leið (2013). Þar nánast snupraði ráðherrann stjórnendur og stjórn Landsvirkjunar fyrir það að leggja áherslu á að auka arðsemi í raforkuframleiðslunni. Í erindi sínu minntist ráðherrann ekki einu orði á mikilvægi þess að framkvæmdir Landsvirkjunar séu arðbærar. En var dugleg að lýsa óþreyju sinni á að hér fari verkefni í gang.

Ein ástæða þessarar óheppilegu forgangsröðunar eða litlu áherslu á arðsemi orkuframkvæmda, sem er furðu áberandi í tali íslenskra stjórnmálamanna, má sennilega að talsverðu leyti rekja til kerfisgalla. Kerfið hér eða lagaumhverfið er byggt þannig upp, að það eru alltof fáir sem sjá hag í því að arðsemin í orkuvinnslunni sé góð. Það virðist vanta skynsamlega hvata til handa stjórnmálamönnum og landsmönnum til að vilja auka arðsemi í raforkuvinnslunni. Þetta er bæði óheppilegt og einkennilegt. Því fjárfestingarnar í orkugeiranum eru ekki aðeins risastórar, heldur líka með ábyrgð hins opinbera og þar með skattborgara og almennings.

Stjórnmálamenn virðast margir hverjir fyrst og fremst vilja nýta orkulindirnar til að skapa snögga hagvaxtarsveiflu sem nýtist þeim til að stæra sig af í næstu kosningum. Sveitarstjórnarmenn þrýsta á um að framkvæmdir tengdar orkuvinnslu verði sem mest í þeirra heimahéraði - og hafa jafnvel ennþá minni áhuga á arðsemi fjárfestingarinnar heldur en þingmennirnir. Verkalýðsforkólfar og talsmenn atvinnulífsins virðast einnig fyrst og fremst horfa til skammtímahagssveiflunnar. Nánast enginn í hópi þessara valdamiklu eða áhrifamiklu einstaklinga gerir arðsemi fjárfestingarinnar að aðalatriði.

Iceland-HVDC-cable_Valdimar-K-Jonsson_Skuli-Jóhannsson

Og jafnvel þó svo mestar þessar framkvæmdir séu á vettvangi ríkisfyrirtækja eins og Landsvirkjunar og Landsnets, virðast ýmsir og jafnvel stór hluti almennings lítt áhugasamir um að arðsemin sé sett í forgang. Margt fólk er t.d. fljótt að hlaupa út á torg og kveina ef bent er á að sala á raforku um sæstreng til Evrópu gæti mögulega skilað okkur margfælt hærri arðsemi af orkuvinnslunni - og jafnvel gert raforkuframleiðsluna hér álíka mikilvægan eins og olían er fyrir Noreg.

Kveinin felast í því að þá muni raforkuverð til almennings og fyrirtækja á Íslandi hækka og það bæði skerði kaupmátt almennings og auki kostnað fyrirtækja. Betra sé að taka arðinn af orkulindunum út í lágu raforkuverði til almennings og fyrirtækja (og það jafnvel þó svo þá megi segja að hátt í 80% arðsins af orkulindunum fari til stóriðjunnar í formi lágs raforkuverðs). Þetta er hæpið viðhorf og hlýtur eiginlega að teljast andstætt grundvallarviðmiðunum þess hagkerfis sem við búum í.

Eins gott fyrir Noreg að hafa ekki beitt íslenskum aðferðum

Það er sem sagt svo að ofangreind sjónarmið stjórnmálamanna, sveitarstjórnarfólks, áhrifafólks í atvinnulífi og verkalýðsfélögum og verulegs hluta almennings eru fremur óskynsamleg. Til að útskýra það betur er nærtækt að taka norska olíugeirann til samanburðar.

Í Noregi er umfangsmikil olíuvinnsla stunduð á norska landgrunninu. Norska ríkið nýtur mikilla tekna af þeirri vinnslu. Þær tekjur og hagnaður væri miklu minni ef norsk stjórnvöld hefðu beitt „íslensku aðferðinni“, eins og hér virðist ennþá tíðkast gagnvart raforkuvinnslunni. Um 1960 sóttist bandarískt olíufélag (Phillips Petroleum) eftir víðtækum réttindum á norska landgrunninu, gegn greiðslu sem hefði tryggt norskum stjórnvöldum dágóðar fastar tekjur. En það fyrirkomulag hefði um leið stórlega skert möguleika Noregs til að hagnast mikið af kolvetnisvinnslu til framtíðar. 

Oil-Refinery-Exxon-Mobil-1

Norðmenn hefðu getað litið svo á að lang mikilvægast væri að fá erlenda fjárfestingu inn í landið eða lögsögu sína. Og gengið svo langt að ákveða að enginn skattur skyldi leggjast á fyrirtæki í olíuiðnaðinum umfram það sem almennt gerist hjá norskum fyrirtækjum. Norðmenn hefðu líka getað tekið þá ákvörðun að hafa lítið sem ekkert eftirlit með viðskiptaháttum olíuiðnaðarins og þ.á m. hafa lítið sem ekkert eftirlit með t.d. milliverðlagningu (transfer pricing) eða annarri mögulegri skattasniðgöngu erlendra fyrirtækja í norska olíuiðnaðinum. Aðalatriðið væri að fá erlenda fjárfestingu og sem allra minnst skyldi þrengja að henni.

Norðmenn fóru reyndar þá leið að heimila erlendum fyrirtækjum að fjárfesta í olíuleit á norska landgrunninu. En Norsararnir komu einnig á fót eigin ríkisfyrirtækjum (olíufyrirtækið Statoil og fjárfestingasjóðinn Petoro) sem nú eru þau umsvifamestu í vinnslunni á norska landgrunninu. Þrátt fyrir þessa aðferðafræði hefðu Norðmenn getað beitt „íslensku aðferðinni“. Það hefði t.d. verið hægt að tryggja að engin olía væri flutt út fyrr en að hafa verið unnin í olíuhreinsunarstöðvum í Noregi. Slíkt fyrirkomulag hefði verið í anda þess að íslensk raforka skuli helst ekki flutt út nema í formi álkubba eða s.k. barra.

Það eru reyndar nokkrar olíuhreinsunarstöðvar í Noregi (þar sem um 1/6 hluti olíunnar er unnin). En til að fylgja „íslensku aðferðinni“ sem best eftir, myndu Norðmenn hafa búið svo um hnútana að auk útflutningsbanns á óunna olíu væru allar olíuhreinsunarstöðvarnar í eigu erlendra fyrirtækja. Og þessum fyrirtækjum myndi Statoil selja olíuna á verði sem væri nálægt kostnaðarverði. Þannig væri leitast við að efla sem mest áhuga erlendra fyrirtækja á að fjárfesta á norska olíuhreinsunariðnaðinum. Að auki væri búið svo um hnútana að ein myndarleg olíuhreinsunarstöð væri í norskri ríkiseigu og hún seldi Norðmönnum bensínið, díselolíuna og aðrar olíuafurðir afar ódýrt.

Sambærilegt fyrirkomulag væri í norsku jarðgasvinnslunni. Í stað gaslagnanna, sem nú flytja norska gasið beint inn á markaði í Bretlandi og á meginlandi Evrópu, væri skylt að allt jarðgas bærist til sérstakra gasvinnslustöðva í Noregi. Þær stöðvar, sem væru allar í eigu erlendra fyrirtækja, fengju gasið nálægt kostnaðarverði, umbreyttu því í fljótandi gas (LNG) og seldu það á margföldu verði til þeirra markaða sem best borga (nú um stundir Japan og Suður-Kórea). Reyndar fengju norskir neytendur einnig að kaupa gas til upphitunar og eldunar á umræddu lágu verði, sem væri nálægt kostnaðarverði.

Oil-Workers-Sunset

Þó svo þetta fyrirkomulag myndi valda því að arðsemin af olíu- og gasvinnslu Statoil væri afar lág, væru Norðmenn samt almennt mjög ánægðir og stæðu flestir í þeirri trú að þetta væri snilldarfyrirkomulag. Því þannig væri jú búið um hnútana að norska fyrirkomulagið skapaði fullt af störfum í olíuiðnaðinum innan Noregs, laðaði að erlenda fjárfestingu og tryggði landsmönnum ódýrt eldsneyti. Norskir stjórnmálamenn myndu flestir styðja þessa stefnu á þeim grundvelli að hún skapi störf í norskum olíuhreinsunarstöðvum og í sjálfri olíuvinnslunni. Norskur almenningur myndi styðja stefnuna því eldsneytisverð í Noregi væri afar ódýrt.

Þetta kerfi myndi lágmarka arðsemi í norsku olíuvinnslunni og færa mest allan arðinn af þessari auðlindanýtingu til þeirra erlendu fyrirtækja sem ættu olíuhreinsunarstöðvarnar og gasvinnslustöðvarnar (LNG verksmiðjurnar). Svo til einu tekjurnar sem Norðmenn hefðu af olíuvinnslunni væru skatttekjur af störfum þess fólks sem ynni í iðnaðinum. Að auki myndu Norðmenn að sjálfsögðu „njóta góðs" af því að geta keypt ódýrt eldsneyti. Rétt eins og gerist í mörgum þriðja heims löndum sem hafa olíulindir innan sinnar lögsögu. Þar er nefnilega afar algengt að eldsneytisverð til almennings sé langt undir því sem gerist á hinum raunverulega heimsmarkaði. En sem fyrr segir myndi mest allur arðurinn af olíuvinnslunni á norska landgrunninu enda hjá erlendum fyrirtækjum utan lögsögu norskra skattyfirvalda. Við Íslendingar virðumst aftur á móti fremur aðhyllast þróunarlandastefnuna, þar sem stjórnmálamenn nýta sér orkulindirnar í pólitískum tilgangi og almenningur er deyfður með lágu orkuverði.

Norðmenn fóru ekki íslensku leiðina 

Eins og kunnugt er þá fóru Norðmenn ekki íslensku leiðina. Heldur aðra leið sem hefur m.a. valdið því að í dag er norski Olíusjóðurinn einhver allra stærsti ríkisfjárfestingasjóður heimsins og Statoil eitt þekktasta olíufyrirtæki veraldar og með starfsemi víða um heiminn.

Í hnotskurn þá felst norska leiðin í regluverki sem hvetur fyrirtæki til sem mestrar arðsemi (líka ríkisfyrirtækin!). En leggur um leið háa skatta á hagnað fyrirtækjanna og hefur geysilegt eftirlit með því að fyrirtækin komist ekki upp með að fela hagnað sinn - eða færa hann í skattaskjól áður en norska ríkið og norsku sveitarfélögin hafa fengið það sem þeim ber lögum samkvæmt. Þetta eru grundvallaratrið sem íslenskir stjórnmálamenn mættu veita meiri athygli.

Frá stóriðjustefnu til hvatakerfis

Norðmenn völdu þá leið gagnvart olíuiðnaðinum að hafa hámörkun arðsemi að leiðarljósi. En nú má vel vera að einhverjum þyki hæpið að bera svona saman olíuvinnsluna í Noregi og raforkuvinnsluna á Íslandi. Þess vegna er rétt að nefna hér nokkur atriði því til stuðnings að þessi samanburður sé að ýmsu leiti bæði sanngjarn og eðlilegur.

Norska aðferðin byggir á nokkrum mikilvægum meginatriðum. Í fyrsta lagi að skoða öll þau tækifæri sem geta verið í boði (fyrir íslenska raforkugeirann er eitt slíkt tækifæri mögulega að flytja út raforku um sæstreng). Í öðru lagi hafa Norðmenn forðast það að binda sig við kerfi sem valdið getur lágri arðsemi til langs tíma (íslenska stóriðjustefnan er andstæð þessu sökum þess til hversu langs tíma raforkusamningarnir við álfyrirtækin og aðra stóriðju eru).

Helguvik-alver-skoflustunga-

Stóriðjustefnan hér átti mögulega rétt á sér allt fram undir aldamótin síðustu. Þ.e. þegar raforkuverð var víðast hvar fremur lágt og afar fá tækifæri til að auka arðsemi í íslenska raforkugeiranum. En umhverfið hefur breyst mikið á síðustu tíu árum eða svo. Hér miðast kerfið þó ennþá mjög við stóriðjustefnuna. Og alltof fáir virðast átta sig á tækifærunum - og vilja jafnvel ríghalda í stóriðjustefnuna og sjá engan hag í því að arðsemin aukist.

Í næstu færslu hér á Orkublogginu verður fjallað sérstaklega um það hvernig megi breyta kerfinu hér. Og taka upp hvata sem gætu verið til þess fallnir að stuðla að jákvæðri hugarfarsbreytingu gagnvart þeirri auðlind sem orkulindarnar á Íslandi eru. Það væri afar mikilvægt að þetta myndi gerast. Það er nefnilega orðið tímabært að setja stóriðjustefnuna til hliðar. Og þess í stað gera sjálfa arðsemi raforkuvinnslunnar að aðalatriði.


Skattkerfið í norska vatnsaflsiðnaðinum

Noregur-raforka-skattar-4

Ísland og Noregur eru langstærstu raforkuframleiðendur í heimi (miðað við fólksfjölda). Bæði löndin byggja raforkuframleiðslu sína nær eingöngu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Í Noregi er vatnsaflið yfirgnæfandi og svo er einnig hér á landi, en að auki nýtum við Íslendingar jarðvarmann okkar til raforkuframleiðslu.

Það er athyglisvert að Íslendingar og Norðmenn eiga það einnig sameiginlegt að eignarhaldið á virkjununum í þessum tveimur löndum er mjög ámóta. Þ.e. yfirgnæfandi hluti þess er í opinberri eigu. Skattkerfi landanna gagnvart raforkuiðnaðinum er aftur á móti afar ólíkt.

Hér verður fjallað um norska skattkerfið. Og útskýrt hvernig það m.a. hvetur til þess að orkuauðlindirnar séu nýttar með sem mesta arðsemi í huga og hvernig nærsamfélög virkjana - og nærsamfélög annarra mannvirkja sem tengjast orkuvinnslunni - njóta margvíslegra tekna af þessari starfsemi.

Nærsamfélög í Noregi njóta virkjana

Í Noregi, rétt eins og á Íslandi, er litið svo á að vatnsföllin séu auðlind sem háð er einkaeignarétti landeiganda (þetta er ólíkt því lagalega fyrirkomulagi sem ríkir víða á meginlandi Evrópu þar sem eignaréttur landeiganda nær sjaldnast til vatnsfalla né til auðlinda djúpt í jörðu). Í Noregi er að reyndar litið svo á að þrátt fyrir þennan ríka einkaeignarétt eigi öll þjóðin rétt á að njóta verulegs hluta arðsins og ábatans af vatnsaflinu. Vatnsaflið er sem sagt að vissu leyti álitin sameiginleg auðlind þjóðarinnar, m.a. vegna þess að umtalsverðan hluta vatnsaflins er að rekja til þess vatns sem rennur ofan af hálendinu.

Noregur-raforka-skattar-5

Umrætt sjónarmið birtist t.d. í norsku reglunni um hjemfall. Sem felst í því að sá sem fær að virkja vatnsfall í Noregi hefur eftir tiltekinn árafjölda þurft að afhenda ríkinu virkjunina endurgjaldslaust. Sjónarmiðið um að öll þjóðin eiga að njóta verulegs hluta ábatans og arðsins af nýtingu vatnsaflsins kemur einnig fram í því að norski vatnsaflsiðnaðurinn er skattlagður verulega (heildarskattprósentan nálgast það sem er í norska olíuiðnaðinum!).

Í Noregi er að auki rík áhersla lögð á að nærsamfélög virkjana og vatnsfalla eigi sérstaklega rúman rétt til að njóta arðs af þeim auðlindum. Aukin arðsemi í raforkuvinnslunni skapar sem sagt ekki aðeins orkufyrirtækjunum auknar tekjur og meiri hagnað, heldur er norska kerfið þannig upp byggt að sveitarfélögum (og fylkjum) á nærsvæðum virkjana er tryggð ákveðin hlutdeild í tekjunum. Þetta kerfi virkar bæði sem hvati til að nýta orkuna og að arðsemi sé í fyrirrúmi í raforkuvinnslunni. Íslenska lagaumhverfið um orkugeirann hér virðir aftur á móti hvatann um aukna arðsemi að vettugi.

Skattkerfið í norska roforkuiðnaðinum í hnotskurn

Skipta má skattareglunum sem fjalla um norska raforkuiðnaðinn í sjö hluta. Upphæðirnar sem þetta skattkerfi skilar til hins opinbera skiptist í tvo nokkuð jafna hluta. Um helmingur fer til ríkisins og um helmingur til sveitarfélaga og fylkja (fylkin eru millistjórnsýslustig; hvert fylki samanstendur venjulega af nokkrum sveitarfélögum). Hlutfallið þarna á milli er þó ekki fast, heldur er það breytilegt.

Noregur-raforka-skattar-11

Skattkerfið er þannig hannað að það tryggi sveitarfélögum nokkuð jafnar skatttekjur af vatnsaflsiðnaðinum. Tekjur ríkisins af vatnsaflsiðnaðinum geta aftur á móti sveiflast verulega á milli ára. Þær sveiflur stafa fyrst og fremst af sveiflum í raforkuverði; í Noregi geta langvarandi þurrkar haft mikil áhrif á raforkuverðið því þar er lítið um afgangsorku og miðlun hlutfallslega minni en t.a.m. hér á landi).

Eins og áður sagði þá rennur u.þ.b. helmingur skattgreiðslnanna frá norska vatnsaflsiðnaðinum til sveitarfélaga (og fylkja). Þannig fá norsku sveitarfélögin til sín beinharða peninga sem þau geta nýtt til góðra verka og til að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi. Sveitarfélögin geta t.d. nýtt tekjurnar til að bæta þjónustu sína og/eða til að lækka skatta á íbúa og fyrirtæki sveitarfélagsins. Þannig ná þau að verða samkeppnishæfari og eftirsóttari en ella væri. Um leið nýtur norska ríkið góðs af fyrirkomulaginu, því verulegur hluti skatttekna af raforkuvinnslunni rennur til þess.

Í hnotskurn eru umæddir sjö skattar eftirfarandi: Í fyrsta lagi er innheimtur hefðbundinn tekjuskattur af raforkufyrirtækjunum (skattur af hagnaði) rétt eins við þekkjum á Íslandi. Í öðru lagi er lagður sérstakur tekjuskattur á fyrirtækin, sem er skattur á hagnað sem er umfram ákveðna viðmiðun. Í þessu sambandi er stundum talað um auðlindarentu (sem hér á landi rennur í reynd að mestu leyti til álfyrirtækjanna). Í þriðja lagi er lagður s.k. náttúruauðlindaskattur á raforkuvinnsluna í Noregi. Sá skattur er föst upphæð á hverja framleidda kWst. Í fjórða og fimmta lagi þurfa allar virkjanir að greiða sveitarfélögum árleg leyfisgjöld annars vegar og afhenda sveitarfélögum tiltekið magn af raforku á kostnaðarverði hins vegar (s.k. leyfistengd raforka). Í sjötta lagi geta norsk sveitarfélög ákveðið að leggja eignaskatt á virkjanamannvirki. Loks þurfa raforkufyrirtækin í vissum tilvikum að greiða auðlegðarskatt.

Hafa ber í huga að sérreglur gilda um norskar smávirkjanir. En meginreglurnar sem reifaðar eru hér eiga við um langstærstan hluta af norska vatnsaflsiðnaðinum. Og eins og áður sagði þá er sá iðnaður, rétt eins og íslenski raforkuiðnaðurinn, að langmestu leyti í eigu hins opinbera (í Noregi er það hlutfall um eða rétt yfir 90%). Eftirfarandi er stutt yfirlit um hvern skattanna í norska vatnsaflsiðnaðinum:

Tekjuskattur: Þetta er almennur fyrirtækjaskattur og hefur hann undanfarin ár numið 28% af hagnaði fyrirtækjanna. Upphæð tekjuskatts einstakra raforkufyrirtækja er mjög breytileg milli ára, því hagnaður fyrirtækjanna sveiflast verulega vegna mikilla sveiflna á raforkuverði (ræðst af úrkomu og fleiri atriðum). Tekjuskatturinn rennur alfarið til ríkisins. 

Grunnrentuskattur (auðlindarenta): Margar norsku vatnsaflsvirkjananna skila afar miklum hagnaði sökum þess að raforkuverð hefur farið hækkandi og virkjanirnar eru margar upp greiddar og fjármagnskostnaður því lítill. Í Noregi er talið eðlilegt að skattleggja þennan mikla hagnað með aukaskatti. Grunnrentuskatturinn er sem sagt viðbótarskattur á hagnað. Hann nemur 30% og leggst eingöngu á tekjur (hagnað) sem skilgreindar eru sem umframhagnaður eða auðlindarenta (skv. sérstökum reglum þar um). Grunnrentuskatturinn er reiknaður af hverri virkjun fyrir sig og upphæð hans getur verið afar breytileg milli ára vegna sveiflna á raforkuverði. Grunnrentuskattur rennur til ríkisins (rétt eins og tekjuskatturinn). Miðað við núverandi raforkuverð á Íslandi yrði vart um nokkurn grunnrentuskatt að ræða (skattur af þessu tagi kæmi etv. frekar til greina í íslenska sjávarútveginum). En ef t.d. raforka yrði seld um sæstreng héðan til Bretlands myndi grunnrentuskattur geta skilað Íslandi gríðarlega háum upphæðum.

Náttúruauðlindaskattur: Þetta er sérstakur skattur sem reiknast á vatnsaflsvirkjanir í Noregi. Skatturinn nemur fastri upphæð á hverja framleidda kWst (lagareglurnar um náttúruauðlindaskattinn eru óháðar því hvert raforkuverðið er á hverjum tíma). Viðtakendur náttúruauðlindaskattsins eru nærsamfélög virkjana og virkjaðra vatnsfalla. Náttúruauðlindaskatturinn rennur þó ekki eingöngu til þess sveitarfélags og fylkis þar sem sjálft stöðvarhúsið er staðsett, heldur t.d. líka til annarra sveitarfélaga og fylkja sem vatnsfallið fellur um. Um 85% skattsins rennur til sveitarféaga og um 15% skattsins rennur til fylkja. Hafa ber í huga að reglurnar um norska náttúruauðlindaskattinn hafa áhrif á upphæð tekjuskattsins og eru með þeim hætti að skatturinn skapar ekki aukaálögur á raforkufyrirtækin. Skattur af þessu tagi kann að vera óheppilegur í umhverfi þar sem lítill hagnaður er af raforkuvinnslu.

Leyfisgjöld: Sá sem fær virkjunarleyfi í Noregi þarf að sæta því að greiða sérstakt gjald á ári hverju, s.k. leyfisgjald. Leyfisgjöldin eru föst upphæð af hverri framleiddri kWst. Gjaldið rennur að stærstum hluta til sveitarfélaga. Viðtakendur eru öll sveitarfélög á vatnasvæði virkjunarinnar. Hér á landi eru leyfisgjöld í formi afar lágrar eingreiðslu við útgáfu virkjunarleyfis og íslenska fyrirkomulagið því mjög frábrugðið norsku leyfisgjöldunum.

Leyfistengd raforka: Sá sem fær leyfi til að virkja vatnsfall í Noregi þarf að sæta því að afhenda sveitarfélögum sem liggja að viðkomandi vatnsfalli allt af 10% raforkunnar á kostnaðarverði (samsvarandi skilyrði gildir um afhendingu á 5% af raforkunni til ríkisins, en því hefur ekki verið beitt). Hér á landi myndi þetta þýða að sveitarfélög hér fengju nú um 1,75 TWst af raforku afhenta á ári á kostnaðarverði, sem þau gætu síðan selt áfram. Vegna lágs raforkuverðs hér yrði þetta þó ekki jafn mikil hagnaðarlind eins og hjá sveitarfélögum í Noregi. Þetta yrði aftur á móti afar mikilvægur tekjustofn fyrir sveitarfélögin ef tækifæri væri til að selja raforku á hærra verði (t.d. til Bretlands gegnum sæstreng).

Eignaskattur (og auðlegðarskattur): Eignarskattur á virkjanir og dreifikerfi í Noregi getur numið 0,7% af verðmæti virkjunar / dreifikerfis. Sveitarfélög þurfa að taka sérstaka ákvörðun um að leggja skattinn á. Skatturinn er víða innheimtur vegna virkjana, en einungis í helmingi tilvika vegna dreifikerfa. Viðtakendur eignarskattsins geta verið öll þau sveitarfélög sem hafa virkjunarmannvirki /dreifikerfi innan lögsögunnar. Loks má geta þess að skv. norskum lögum geta raforkufyrirtæki þurft að greiða sérstakan auðlegðarskatt. Hann nemur 1,1% miðað við tiltekna eign umfram skuldir, en leggst ekki á hlutafélög og skiptir því litlu máli í norska vatnsaflsiðnaðinum.

Hér á Íslandi skortir hvata til aukinnar arðsemi 

Ýmis atriði í norska skattkerfinu eru þess eðlis að nærsamfélög virkjana hagnast á því að raforkuverð sé sem hæst og alls ekki hagkvæmt að raforkan sé t.a.m. seld nálægt kostnaðarverði til stóriðju. Skattkerfið virkar sem sagt hvetjandi fyrir íbúa nærsamfélaga virkjana til að vandlega sé hugað að því að ekki sé léleg arðsemi af orkusölunni.

Karahnjukar-Dam-Stranded-Energy-1

Í þessu norska kerfi er ekki bara litið til virkjananna sjálfra. Því reglurnar eru þannig úr garði gerðar að sveitarfélög sem hafa önnur mannvirki en sjálft stöðvarhúsið innan sinnar lögsögu njóta einnig skattgreiðslna.

Hér á Íslandi er kerfið aftur á móti þannig að litlir sem engir hvatar eru hjá nærsamfélögum virkjana til að arðsemi aukist í raforkuvinnslunni. Hér skiptir langmestu - og nær eingöngu - hvar sjálft stöðvarhús virkjunar rís. Nánast einu beinu skatttekjur sveitarfélaga hér af virkjunum eru fasteignaskattar af virkjuninni - og þeir hafa runnið óskiptir til þess sveitafélags sem hefur stöðvarhúsið innan sinna stjórnsýslumarka. Í þessu sambandi hefur engu máli skipt hvar uppistöðulón liggja, hvar aðrennslisskurðir liggja, hvar jarðgöng liggja, hvar stíflur liggja, né hvar háspennulínur liggja. Allt snýst um stöðvarhúsið, þ.e. í hvaða sveitarfélagi það er staðsett.

Í næstu færslu Orkubloggsins verður nánar fjallað um það hvernig fyrirkomulagið hér á Íslandi beinlínis vinnur gegn sjónarmiðum um að auka arðsemi í raforkuvinnslunni. Og hvernig það virðist hreinlega hafa læst okkur í óarðbærri stóriðjustefnunni. 


Magnaður Miðjarðarhafskapall

Ef/þegar rafmagnskapall verður lagður milli Íslands og Evrópu verður hann að lágmarki u.þ.b. 1.100 km langur (og færi þá til Bretlands). Og þessi langi sæstrengur mun fara niður á allt að 1.000 m dýpi.

hvdc-cable-iceland-europe-map

Eðlilega veltir fólk fyrir sér hvort þetta sé framkvæmanlegt og hvort áhættan af t.d. bilun komi í veg fyrir að unnt verði að fjármagna svona verkefni. Íslandskapallinn yrði nær helmingi lengri en lengsti rafstrengur af þessu tagi er í dag. Þar er um að ræða NorNed, sem er 580 km langur og liggur milli Noregs og Hollands (og liggur því á miklu minna dýpi). Flest bendir þó til þess að það sé bæði tæknilega gerlegt og fjárhagslega mögulegt að ráðast í Íslandskapalinn.

Þetta má rökstyðja með ýmsum hætti. Svo sem með tilvísun til góðrar reynslu af þeim sæstrengjum sem nú þegar hafa verið lagðir. Og með tilvísun til þeirra gagna sem fjalla um þá kapla af þessu tagi sem nú eru í bígerð. Það virðist í reynd einungis tímaspursmál hvenær svona geysilega langir rafmagnskaplar neðansjávar verða að veruleika. Það kann vissulega að tefjast eitthvað. En það er fyllilega tímabært að við skoðum þessa möguleika nákvæmlega og könnum til hlítar bæði tæknilegar og viðskiptalegar forsendur.

Líklegt er að sá sæstrengur sem næst mun slá lengdarmetið verði kapall sem stendur til að leggja milli Noregs og Bretlands (hann er merktur inn á kortið hér að ofan). Þessi kapall verður á bilinu 700-800 km langur (eftir því hvaða leið verður endanlega fyrir valinu). Og flutningsgetan verður tvöföld á við NorNed!

HVDC-Euroasia-Interconnector-1

Það á þó við um „norsku“ kaplana að þeir fara um hafdýpi sem er miklu minna en það sem mest er á milli Íslands og Evrópu. Þetta er þó ekkert úrslitaatriði. Það er vel þekkt að unnt er að leggja svona neðansjávarkapla þó svo hafdýpið sé afar mikið. Þannig fer t.d. rafstrengurinn sem liggur milli Ítalíu og ítölsku Miðjarðarhafseyjarinnar Sardiníu (SAPEI kapallinn) niður á um 1.600 m dýpi. Og nú eru áætlanir um ennþá stærri og dýpri Miðjarðarhafsstreng, sem mun slá öll núverandi met.

Þessi magnaði Miðjarðarhafskapall á að tengja raforkukerfi Ísraels, Kýpur og Grikklands. Gert er ráð fyrir að orkan sem fer um kapalinn verði fyrst og fremst raforka frá gasorkuverum í Ísrael og á Kýpur. Á landgrunninu innan lögsögu þessara tveggja ríka hafa á síðustu árum fundist geysilegar gaslindir. Þær væri unnt að nýta til að framleiða raforku til stóriðju heima fyrir eða að umbreyta gasinu í fljótandi gas (LNG) og sigla með það til viðskiptavina sem greiða gott verð (t.d. Japan og Suður-Kórea). Einnig væri mögulegt að leggja gasleiðslu yfir til meginlands Evrópu, þar sem gasverð er nokkuð hátt. Fýsilegast þykir þó að nýta a.m.k. verulegan hluta gassins til að framleiða rafmagn og selja það til Evrópu um rafstreng! Þannig er talið að hámarka megi arðinn af gaslindunum.

HVDC-Euroasia-Interconnector-map-1

Þessi nýi Miðjarðarhafskapall er kallaður EuroAsia Interconnector. Gert er ráð fyrir að heildarlengd kapalsins verði á bilinu 1.000-1.500 km (eftir því hvaða leið verður fyrir valinu) og stærðin um 2.000 MW. Þetta á sem sagt að verða risastór kapall og geysilega langur. Það sem þó verður erfiðasti hjallinn er vafalítið hið mikla hafdýpi á svæðinu. 

Milli Kýpur og Krítar þarf EuroAsia sæstrengurinn að fara niður á dýpi sem er á bilinu 2.000-2.500 m eða jafnvel nokkru meira. Þessi leið milli Kýpur og Krítar er jafnframt lengsti neðansjávarleggur kapalsins. Milli þessara tveggja eyja verður kapallinn mögulega allt að 880 km langur (nokkru styttri leið er þó möguleg). Sem fyrr segir er ráðgert að heildarlengd kapalsins verði 1.000-1.500 km, en bæði endanleg lengd og dýpi kapalsins mun ráðast af leiðarvalinu.

Nú má vel vera að einhverjir hafi litla trú á því að Ísraelar, Grikkir og Kýpverjar geti staðið að þvílíkri risaframkvæmd. En í því sambandi er vert að hafa í huga að ísraelsk fyrirtæki byggja mörg yfir geysilegri hátækniþekkingu. Þar að auki nýtur verkefnið mikils velvilja innan Evrópusambandsins. Enda er þessi sæstrengur í samræmi við þá stefnu ESB-ríkjanna að fá aðgang að meiri og fjölbreyttari uppsprettum raforku og styrkja þannig orkuöryggi sitt.

eu-pci-map-2013.pngÞað er til marks um áhuga ESB að nú í október sem leið (2013) var þessi magnaði kapall settur inn á lista ESB um lykilverkefni næstu ára á sviði orkumála. Þetta er góð vísbending um að Íslandskapall muni vekja mikinn áhuga bæði stjórnvalda og fyrirtækja í Evrópu. Fyrst og fremst verða það þó auðvitað íslenskir hagsmunir sem munu ráða því hvort og hvenær Íslandskapallinn verður lagður. Á síðustu mánuðum og misserum hafa komið fram afar skýrar vísbendingar um að það verkefni geti skapað okkur íslensku þjóðinni geysilegan hagnað og fordæmalausan arð af orkuauðlindunum okkar. Um það verður brátt fjallað nánar hér á Orkublogginu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband