28.3.2011 | 10:10
Græningjar fagna
Græningjar voru að vinna mikinn kosningasigur í þýska sambandsfylkinu Baden-Württemberg. Tvöfölduðu fylgi sitt í þessu mikla hægrivígi; fengu rúmlega 24% og eru nú næststærsti flokkurinn á fylkisþinginu í Stuttgart.
Margir eru á því að þar hafi umræðan um þýsku kjarnorkuverin skipt sköpum. Það hefur reyndar lengi verið mikil andstaða við kjarnorkuver í Þýskalandi og í kjölfar kjarnorkuslyssins í Chernobyl 1986 stefndu þýsk stjórnvöld að því að mjög yrði dregið úr notkun kjarnorku í landinu. Um aldamótin voru meira að segja sett lög sem gerðu ráð fyrir því að því að síðasta kjarnorkuverinu í Þýskalandi yrði lokað árið 2021.
En það var svo á síðasta ári (2010) að ríkisstjórn Angelu Merkel ákvað að slá þeim áformum á frest. Enda er ekkert áhlaupaverk að ráðast í að loka öllum kjarnorkuverum í Þýskalandi. Þýskaland þjáist af miklu orkuósjálfstæði og ekki á það bætandi að þurfa t.a.m. að flytja inn ennþá meira af rússnesku gasi til að fullnægja orkuþörf þjóðarinnar.
Í síðustu færslu Orkubloggsins var einmitt minnt á þá staðreynd að þýsku kjarnorkuverin framleiða á hverju ári um 140 TWst - sem er um átta sinnum meira en öll sú raforka sem framleidd er í öllum virkjunum á Íslandi. Jafnvel stórþjóð eins og Þjóðverjar myndu lenda í margvíslegum vandræðum við að taka þvílíkt afl úr sambandi. Og það er athyglisvert að hvorki meira né minna en 60% raforkunnar sem notuð er í Baden-Württemberg kemur frá kjarnorkuverum! Og þarna er vel að merkja ekki um að ræða neitt smáfylki, heldur búa þar heilar 11 milljónir manna.
Hér til hliðar er skemmtileg mynd sem sýnir umfang kjarnorkunnar í heiminum. Þarna má m.a. sjá hversu mjög dró úr byggingu kjarnorkuvera eftir miðjan 9. áratug liðinnar aldar (Chernobyl!). Og hversu gríðarlega mörg kjarnorkuver Kína og Indland hafa áform um að reisa á næstu árum og áratugum.
Það er fremur hæpið að kjarnorkuslysið í Japan muni breyta miklu um þær áætlanir. En skammtímaáhrifin af slysinu gætu orðið veruleg - kansnki ekki síst í vestrænum stjórnmálum. Þessa dagana er a.m.k. gaman hjá Græningjunum í Þýskalandi.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.3.2011 | 00:08
Kjarnorkuver á undanhaldi?

Alvarleg óhöpp í kjarnorkuverum eru afar sjaldgæf. Og kjarnorkuver eru þokkaleg ódýr leið til að framleiða raforku. Og þau losa engar gróðurhúsalofttegundir.
Þess vegna hafa kjarnorkuver af mörgum þótt einhver besti kosturinn til raforkuframleiðslu. Enda eru allmörg ríki með áætlanir um að byggja mikinn fjölda nýrra kjarnorkuvera á næstu árum og áratugum. Orkubloggið hefur áður sagt frá metnaðarfullum kjarnorkuáætlunum Kínastjórnar. Og í Japan, þar sem kjarnorkan stendur undir um fjórðungi allrar raforkuframleiðslunnar, hafa stjórnvöld haft þá stefnu að hlutfall kjarnorkunnar í raforkuframleiðslu landsins hækki úr núverandi 27% í 40% fyrir 2017! Og að árið 2030 verði hlutfall kjarnorkunnar orðið 50%.

Þetta eru stórhuga áætlanir hjá Japönum. Þær hafa m.a. orðið til af þeim sökum að Japan er svo gífurlega háð innflutningi á bæði gasi og kolum - og auðvitað líka á olíu. Kjarnorkan skapar Japönum meiri fjölbreytni í raforkuframleiðslu og ný kjarnorkuver eru raunhæfasta leiðin fyrir japönsku þjóðina að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og forðast mengun vegna kolefnisbruna. Já - kjarnorkan hentar Japönum jafnvel þó svo þeir þurfi að flytja inn eldsneytið í kjarnorkuverin (úranið).
Þess vegna hafa Japanir veðjað á kjarnorkuna. Jafnvel þrátt fyrir þá nöturlegu staðreynd að engin þjóð þekkir betur skelfilegar afleiðingar kjarnorkunnar (þegar tveimur kjarnorkusprengjum var varpað á Japan í ágúst 1945).

Kjarnorkan sem orkugjafi átti blómaskeið á 7. og 8. áratugum 20. aldar. En eftir það dró mjög úr byggingu kjarnorkuvera. Ekki síst í Bandaríkjunum, en ástæða þess að kjarnorkan missti meðbyr var m.a. óhappið í kjarnorkuverinu á Þriggja mílna eyju árið 1979. Og eftir slysið 1986 í Chernobyl í Úkraínu (sem þá var hluti af Sovétríkjunum) jókst andstaða við kjarnorkuver víða í Evrópu. Fyrir vikið hafa mörg kjarnorkuríki í Evrópu stefnt að því að fækka kjarnorkuverum. Þar má t.d. nefna Svíþjóð og Þýskaland.
Sum ríki hafa aftur á móti haldið fullri tryggð við kjarnorkuna. T.d. hefur Frakkland gengið svo langt að framleiða um 75-80% allrar raforku sinnar með kjarnorku. Og kjarnorka stendur undir stórum hluta allrar raforkuframleiðslunnar í mörgum öðrum löndum Evrópu og hefur t.a.m. verið furðu lítið umdeild í Finnlandi, sem hefur verið að auka þýðingu kjarnorkunnar í raforkuframleiðslunni.

Þrátt fyrir nokkuð mikla andstöðu almennings við kjarnorkuver víða um lönd, má segja að sú andstaða hafi veikst þegar athygli fólks beindist að hlýnandi loftslagi - sem mögulega stafar einkum af bruna á kolum, olíu, gasi. Gott ef sumir voru ekki farnir að tala um kjarnorku sem græna orku! Bara vegna þess að kjarnorkuver losa ekki gróðurhúsalofttegundir - og þrátt fyrir margvíslegan og mikinn vanda sem getur fylgt geislavirkum úrgangi frá kjarnorkuverum. Þar að auki olli efnahagsvöxturinn í Asíu því að kjarnorkan fékk sífellt meiri athygli sem góður orkugjafi.
En svo varð jarðskjálftinn við Japan og enn á ný urðu kjarnorkuver ógnvaldur. Ennþá er ekki útséð hvernig fer með kjarnorkukljúfana í Fukushima og þetta atvik er sérstaklega ógnvænlegt þegar haft er í huga þéttbýlið á svæðinu (kjarnaverið er t.a.m. einungis um 200 km frá tugmilljónaborginni Tokyo). Ekki skrítið þótt á ný hafi blossað upp mikil andstaða gegn kjarnorkuverum og að stjórnvöld víða um hinn kjarnorkuvædda heim kippi að sér kjarnorkuhendinni.
En er raunhæft að við getum án kjarnorkunnar verið? Krafan um að loka kjarnorkuverunum virðist hvað háværust í Þýskalandi. Af allri raforkuframleiðslu þar í landi stendur kjarnorkan undir á bilinu 25-30%. Þýsku kjarnorkuverin framleiða á hverju ári um 140 TWst - sem er um átta sinnum meira en öll sú raforka sem framleidd er í öllum virkjunum á Íslandi. Jafnvel fyrir fjölmenna þjóð eins og Þjóðverja, er ekki neitt smámál að taka svo mikið afl úr sambandi (samanlagt afl þýskra kjarnorkuvera er um 21 þúsund MW - afl allra íslenskra virkjana er um 2.600 MW).

Öll sú orka myndi þá þurfa að koma annars staðar frá. Þetta myndi auðvitað ekki gerast á einni nóttu. Lausnin gæti verið að auka innflutning á gasi og á t.d. einum áratug væri hægt að reisa þúsundir og jafnvel tugþúsundir MW af nýjum vindrafstöðvum (í dag er uppsett afl þýskra vindorkuvera um 26 þúsund MW, sem geta sennilega framleitt jafn mikla raforku eins og ca. 7 þúsund MW kjarnorkuver). Og svo mætti bæta við slatta af sólarorkuverum. Og kannski líka nýjum kolaorkuverum!
Þetta væri hægt. En þessu myndi fylgja gríðarlegur kostnaður. Þrátt fyrir allt, þá er kjarnorkan miklu ódýrari orkugjafi heldur en vindorka og margfalt ódýrari en að virkja sólarorku. Þar að auki hefur kjarnorkan þann kost að vera yfirleitt mjög áreiðanlegur orkugjafi, meðan bæði sól og vindur eru óvissir raforkugjafar og þurfa að geta stuðst við æpandi mikið varaafl.

Því miður er engin góð lausn borðleggjandi. Þjóðverjar vilja forðast að verða enn háðari því að kaupa gas frá Rússum. Og vilja minnka stórlega losun gróðurhúsalofttegunda. Það er vandséð hvernig uppfylla á slík markmið ef loka á þýskum kjarnorkuverum í stórum stíl.
Það er vægast sagt afar hæpið að endurnýjanlegir orkugjafar geti þar orðið allsherjarlausn. Til þess er kjarnorkan einfaldlega of stór og mikil umfangs. Og jafnvel þó svo þetta kunni að vera fræðilega mögulegt yrði kostnaðurinn svimandi. Eftir raforkuverðhækkanir síðustu ára er hæpið að almenningur sé tilbúinn að kyngja miklum hækkunum í viðbót bara til að losna við kjarnorkuverin.
Samskonar sjónarmið eiga við um Japan og flest önnur ríki sem nýta kjarnorku. Ætli menn að gera alvöru úr þeim orðum sínum að minnka notkun kjarnorku umtalsvert og þá helst með endurnýjanlegum orkugjöfum, þá verður það afar kostnaðarsamt. Kannski svo dýrt að almenningur muni snúast á sveif með kjarnorkunni - þrátt fyrir áhættuna, sem nýting kjarnorkunnar skapar.

Orkubloggarinn er á því að EF slysið í Fukushima hefur þegar náð hámarki, muni það ekki hafa miklar langtímaafleiðingar á orkustefnu ríkja. En EF slysið á eftir að verða mun alvarlegra og veruleg geislun frá verinu berist til stórborga í Japan, yrði það mikið högg fyrir fylgjendur kjarnorkuvera. Sú atburðarás virðist þó á þessari stundu fremur ólíkleg. Vonandi hafa Japanir náð tökum á ástandinu í Fukushima. Og vonandi mun atburðurinn hafa þau jákvæðu áhrif, að rannsóknir og þróun á endurnýjanlegri orkuvinnslu verði stórefldar um allan heim.
Ríki heims þurfa að huga miklu meira að endurnýjanlegum orkugjöfum og sem flest ríki ættu að stefna í átt að orkusjálfstæði - ekki bara í orði heldur á borði! Kannski fara íslensk stjórnvöld loksins að hlusta á hvatningar Orkubloggsins - og byrja bráðum af alvöru að huga að því að skapa hér kjöraðstæður fyrir fyrirtæki sem t.d. vinna að framleiðslu á grænu eldsneyti og þróun sjávarorkutækni. Með sitt mikla vatnsafl og jarðvarma er Ísland kjörinn staður fyrir rannsóknir, þróun og framleiðslu á slíkri tækni. Þetta gæti meira að segja verið besta tækifærið í endurreisn íslensk efnahagslífs.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.3.2011 | 08:01
Spenna við Flóann

Margir olíuspekúlantar biðu spenntir eftir föstudeginum sem leið (11. mars 2011). Vegna þess að skyndilega höfðu margir veðjað á að olíutunnan ryki upp. Í 150 USD eða 200 eða þaðan af meira!
Ástæða þess að menn gerðust svo djarfir fyrir helgina að spá æpandi miklum verðhækkunum á olíu, var að boðað hafði verið til víðtækra mótmæla gegn stjórnvöldum í Saudi-Arabíu og áttu þau að fara fram s.l föstudag. Á ensku var talað um day of rage og sumir töldu þetta geta leitt til óeirða sem myndu trufla olíuframboð frá Sádunum. Eða a.m.k. valda því að markaðurinn færi af taugum og taka til við að hamstra olíu.
Þar að auki hafa þegar orðið einhverjar ryskingar í austustu héruðum Saudi-Arabíu. Það vill svo til að þar býr mikið sjítum, sem eru afar ósáttir við yfirstéttina sem allt eru súnnítar, eins og flestir íbúarnir í landinu. Þar brást lögreglan hart við og skaut á fólk. Og þó svo mótmælin þarna virðast hafa verið kæfð niður, eru menn alls ekki rólegir. Þarna í austurhluta landsins liggja nefnilega margar stærstu og mikilvægustu olíulindir heimsins; ofurlindir eins og Manifa, Khurais og risinn Ghawar.
En föstudagurinn varð ekki sá ófriðardagur í Saudi-Arabíu eins og sumir höfðu búist við. Kannski varð jarðskjálftinn rosalegi við Japan til þess að dreifa huga fólks. Eða kannski hafði stjórnvöldum tekist að hræða fólk - eða jafnvel kaupa sér frið með nýju loforði Sádakonungs um 36 milljarða dollara fjárframlög til ýmissa verkefna. Ekki veitir af í landi þar sem atvinnuleysi ungs fólks er um 40%!
En stjórnvöld í Riyadh ættu kannski ekki að fagna sigri of snemma. Stór hluti þjóðarinnar er löngu búinn að fá yfir sig nóg af einræðisstjórninni, sem með harðri hendi hefur haldið öllum umbótaöflum niðri. Þar að auki gæti ein allra minnsta þúfan orðið til þess að velta hlassinu. Þar er átt við nágrannaríki Sádanna; smáríkið Bahrain.

Bahrain á sér merkan sess í olíusögunni því fyrsti olíubrunnurinn á Arabíuskaganum var einmitt grafinn í sandinum í Bahrain (það var 1935). Í dag framleiðir Bahrain einungis um 40 þúsund olíutunnur á dag og skiptir því sáralitlu máli þegar rætt er um olíuframboð í heiminum. En Bahrain er eins og eyja í Súnnítahafi Arabíuskagans. Þar eru um 7/10 allra íbúanna sjítar, en öll valdastéttin eru súnnítar. Súnnítarnir eru lítt spenntir fyrir því að deila peningum og völdum með þorra þjóðarinnar og þarna á milli er því talsverð spenna. Sem gæti blossað upp núna þegar almenningur í öðrum Arabaríkjum hefur risið upp gegn ofríki þaulsetinna valdhafa. Og slíkar óeirðir gætu smitast yfir landamærin til Saudi-Arabíu.

Vert er líka að hafa í huga að líklegt er að sjítarnir í Íran styðji trúbræður sína í Bahrain - hvort sem er opinberlega eða með undirróðri - og hvetji til uppreisnar gegn súnnítastjórninni. Inní þetta blandast bandarískir hernaðar-hagsmunir, því mikilvægasta flotahöfn bandaríska sjóhersins við Persaflóann er í Bahrain. Og allar fyrrnefndar risalindir Sádanna eru rétt handan við landamæri Bahrain að Saudi-Arabíu. Bahrain er því sakleysisleg púðurtunna, sem gæti haft all svakalegar afleiðingar ef hún springur.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.3.2011 | 00:30
Vesturlandahræsnin

Líbýa er einn stærsti olíuútflytjandinn í Afríku. Er þar í hópi með Alsír, Angóla og Nígeríu. Þess vegna varð mörgum hér í Westrinu um og ó þegar óeirðir breiddust út þarna í ríki Gaddafi's. Truflun á olíuútflutningi frá Líbýu er miklu stærra efnahagslegt mál heldur en vesenið í Túnis eða Egyptalandi. Því olían stjórnar jú öllu.
Truflunin á olíuútflutningi frá Líbýu skýrir líka að miklu leyti þann svakalega verðmun sem undanfarið hefur verið á olíu á mörkuðum sitt hvoru megin Atlantshafsins. Í Bandaríkjunum er allt fljótandi í svarta gullinu þessa dagana og allar birgðageymslur að verða stútfullar. Olían frá olíusandinum í Kanada og nýju vinnslusvæðunum kennd við Bakken í Dakota stútfylla nú tankana í Cushing, Oklahóma. En í Evrópu er menn með böggum Hildar vegna minnkandi olíuframboðs frá Líbýu.

Fyrir vikið kostar olíutunna á Lundúnamarkaði nú sem samsvarar rúmum 116 USD, meðan sama magn af olíu kostar einungis 105 USD á Nymex. Þetta er meiri munur en flestir olíusvolgrarar muna eftir. Hreint magnað. Maður ætti kannski að leigja nokkra dalla og sigla með fáeina farma frá Mexíkóflóanum og austur til olíusoltinnar Evrópu?
En það er ekki bara að Evrópa kaupi mikið af olíu frá Líbýu. Líbýa er ekki aðeins mikilvægur olíuútflytjandi; landið býr nefnilega yfir langmestum olíubirgðum af Afríkuríkjunum öllum (sbr. stöplaritið hér að neðan sem sýnir vinnanlega olíu í jörðu). Þetta er einmitt helsta ástæðan fyrir ótrúlegum sleikjuskap og undanlátsemi Vesturlandaleiðtoganna gagnvart Gaddafi í gegnum tíðina.

Það er ekki eins og menn hafi verið að komast að því núna á þorranum eða góunni á því Herrans ári 2010 að maðurinn sé fauti. Í Líbýu hafa andstæðingar Gaddafi's iðulega horfið sporlaust og alþekkt er hvernig Líbýa hefur í áratugi stutt hryðjuverkastarfsemi hingað og þangað um heiminn.
Sumum var reyndar nóg boðið þegar farþegaþota PanAm var sprengd í loft upp af líbýskum terroristum yfir Skotlandi skömmu fyrir jólin 1988. En olían er bara meira virði en svo að menn væru að erfa þetta of lengi við kallinn. Bresk stjórnvöld leyfðu sprengjumanninum að trítla úr bresku fangelsi og vera fagnað sem þjóðhetju við komuna til Trípólí; höfuðborgar Líbýu. Að baki lá díll Breta við Gaddafi um að BP fengi að leika sér í olíuiðnaði Líbýu.

Olían verður bersýnilega ekki metin til mannslífa - a.m.k. ekki í augum breskra stjórnvalda. Einræðisherrar í olíuríkjum þykja einfaldlega hið besta mál, svo lengi sem þeir eru liðlegir til að flytja út olíu og leyfa olíufyrirtækjum Vesturlanda að koma þar að vinnslunni. Þá er allt fyrirgefið; jafnvel hryðjuverk og fjöldamorð.
Vesenið núna er í reynd ekki tilkomið út af því að þegnar Gaddafi's risu upp gegn honum. Ástæðurnar fyrir hörðum víðbrögðum Vesturlandaleiðtoganna eru miklu fremur að vegna uppþotanna í landinu er bæði olíuframleiðslunni í Líbýu ógnað og aukin hætta á að Gaddafi fleygi enn á ný erlendum olíufélögum út úr landinu. Þess vegna spretta ráðamenn Vesturlanda nú skyndilega fram og fordæma Gaddafi í hópum - eins og 40 ára harðstjórn hans sé eitthvert nýabrum.

En öllum er þeim í reynd skítsama um líbýsku þjóðina. Málið er einfaldlega að þarna þarf að komast á jafnvægi hið fyrsta - svo við hér í Evrópu getum áfram drukkið svarta blóðið frá Líbýu truflunarlaust.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)