W-laga kreppa?

Cartoon_Oil_Supply_DemandOrkubloggið hefur lýst hrifningu á því hvernig Sádunum tókst ætlunarverk sitt á undraskömmum tíma. Að koma olíutunnunni í 70 dollara með því að draga passlega úr framleiðslunni.

En engin rós er án þyrna. Nú vofir sú hætta yfir að Sádarnir hafi lagt heldur þungar byrðar á veröldina. Hækkandi olíuverð muni kæfa þann bata í efnahagslífinu sem teikn hafa verið á lofti um upp á síðkastið, t.d. bæði í Bandaríkjunum og í Kína.

Ýmsir vitringar hafa verið að kasta fram spádómum um ýmist U eða L-laga kreppu. Loks þegar vísbendingar voru að byrja að koma fram um að kreppan gæti hugsanlega orðið U-laga - botninum væri náð og efnahagsbati framundan - eru nú komnir fram nýir spádómar. Nú er spáð að þetta gangi ekki svo ljúflega, heldur að veröldin stefni hraðbyri í W-laga kreppu. Þar sem síðari dýfan verði enn verri enn sú fyrri.

Roubini_recentHækkandi olíuverð ásamt vaxandi verðbólgu muni snarlega kýla efnahagslífið niður á ný og jafnvel steinrota það í langan tíma. Og það er sjálfur efnahagssjándinn Nouriel Roubini sem nú varar við þessu. Hann segir aðstæður vera að skapast fyrir enn meiri dýfu og að atvinnuleysi eigi líklega ennþá eftir að aukast umtalsvert.

Roubini gengur svo langt að segja að Evrópusambandið kunni að liðast í sundur. Þar séu bankarnir í enn verri stöðu en komið hafi fram til þessa og verndarstefna gangi nú ljósum logum innan margra aðildarríkjanna. Slíkt sé afleitt því einangrunarstefna muni einfaldlega draga kreppuna á langinn.

Í reynd erum við öll á valdi Sádanna. Þeir kæra sig þó alls ekki um að kæfa okkur; vilja þvert á móti að við blómstrum svo við getum borgað þeim offjár fyrir olíufíkn okkar. Þess vegna kann að vera skynsamlegt fyrir þá að auka nú aðeins við olíuframleiðsluna. Fá smá slaka í verðið, svo efnahagslíf Vesturlanda hrökkvi ekki alveg upp af.

Nú er mikilvægt að spila rétt úr möguleikunum. Ekki bara fyrir Sádana, heldur ekki síður fyrir fámenna þjóð norður í Dumbshafi. Íslendingar eru í þeirri nánast einstöku aðstöðu að rafmagnsframleiðsla okkar er algerlega óháð kolvetniseldsneyti. Ef við gætum líka framleitt að verulegu leyti eigið eldsneyti á bíla- og skipaflotann yrðum við líklega sigurvegarar kreppunnar. Nú kann að vera hárrétti tíminn fyrir íslensk stjórnvöld að hefja endurreisnarstarf með því að gera Ísland óháðara innfluttu eldsneyti (nema hvað flugið fær auðvitað að njóta flugvélabensíns enn um sinn).

Biofuel-CoverStjórnvöld ættu að vinna þetta hratt. T.d. setjast niður með samtökum bænda og leita leiða til að  landbúnaðurinn geti dregið úr starfsemi sem skilar litlum arði og þess stað framleitt eldsneyti á íslenska bílaflotann. Lífefnaeldsneyti (biofuel) er líklega raunhæfasta og fljótvirkasta leiðin til að draga úr olíufíkninni.

Orkubloggarinn hefur lengi verið tortrygginn á lífefnaeldsneyti sem framtíðarlausn í orkumálum. Og hefur þá verið að vísa til fyrstu kynslóðar af slíku eldsneyti, sem byggist á ræktun á hefðbundnu ræktarlandi, sem er óheppilegt fyrir fæðuframboð í heiminum. Aftur á móti bindur bloggið miklar vonir við að biofuel komi til með að verða góður kostur þegar unnt verður að vinna það úr þörungum  (algae).

En hugsanlega er lífefnaeldsneyti nærtækasta, ódýrasta og skynsamlegasta lausnin. Ekki verður fram hjá því litið, að nýlega lýstu bandarísk stjórnvöld því yfir að vetni verði aldrei raunhæfur orkugjafi í stórum stíl. Það sé einfaldlega allt of dýrt og ópraktískt. Þokkalegt rothögg fyrir þann ljúfa iðnað.

biofuel_carEinnig eru uppi efasemdir um að til sé nægjanlegt liþíum  í veröldinni til að standa undir stórfelldri rafbílavæðingu. Og nokkuð langt virðist í að metanólið eða DME verði raunhæfur kostur. Þess vegna freistast Orkubloggið til að veðja á lífmassann sem skásta kostinn þegar horft er til ekki of fjarlægrar framtíðar. E.h.t. kemur svo kannski að því að allt gangi fyrir sólarorku - en ekki alveg á næstunni! 

Þegar horft er til lífmassans er s.k. þriðju kynslóðar lífefnaeldsneyti auðvitað mest spennandi; eldsneyti unnið úr þörungum. Vonandi verður sá möguleiki raunhæfur sem fyrst, svo forðast megi að ræktarland heimsins umbreytist í fóðurakra fyrir bílaflotann. Hér á Íslandi getum við aftur á móti leyft okkur að hafa litlar áhyggjur af fæðuframboði. Hér er mikið af ræktarlandi, sem upplagt væri að nota til hefðbundinnar lífmassaframleiðslu.

Það mætti sem sagt nota íslenskt lífefnaeldsneyti til að minnka þörfina á innfluttri olíu; þannig mætti bæði spara gjaldeyri og skapa ný störf hér heima. Að vísu yrði ríkið þá væntanlega af tekjum, sem nú fást í tengslum við sölu á því bensíni og olíu sem lífmassinn myndi leysa af hólmi. Ekki er raunhæft að lífefnaeldsneytið þoli eins mikla skattlagningu; til þess er framleiðslan líklega enn of dýr.

repja_ThorvaldseyriHeildaráhrifin af því að auka hlutfall innlendrar orku ættu þó að verða prýðilega jákvæð. Þarna myndu verða til störf, byggjast upp verðmæt þekking og reynsla og allt yrði þetta enn eitt skrefið að því að gera Ísland framtíðarinnar algerlega orkusjálfstætt. Ekki amalegt markmið að stefna að.

En til að svo megi verða er ekki nóg að nokkrir hugsjónamenn eða sérvitringar séu að bauka við þetta hver í sínu horni. Orkustefna er grundvallaratriði hjá hverju ríki. Íslensk stjórnvöld eiga að taka af skarið og móta sér skýra orkustefnu . Ekki bara í virkjana- og raforkumálum, heldur einnig um það hvernig við getum komið bílum og skipum sem mest á innlent eldsneyti. Íslenskan lífmassa!


"Spurðu vindinn"

Hannes_PeturssonEinu sinni fyrir mörgum, mörgum árum varð ég samferða nokkrum körlum í ferð þeirra austur með Síðu. Einn þeirra var Hannes Pétursson, skáld.

Við Foss á Síðu, þar sem fossinn fellur svo fallega hvítfyssandi lóðrétt niður af heiðarbrúninni, var stansað, gengið um og myndavélarnar mundaðar. Hannes stóð aftur á móti tómhentur og deplaði augunum svolítið sérkennilega. Aðspurður kvaðst hann líka vera að taka myndir; "Taka myndir með augunum". Spurður að því hvort slíkar myndir varðveittust nægjanlega vel, svaraði hann að bragði: "Spurðu vindinn, vinur minn. Spurðu vindinn".

Sé litið er til ljósmyndanna tveggja hér eilítið neðar kunna sumir að spyrja sig hvað veldur mismuninum? Af hverju er danska ströndin hér að neðan þakin vindrafstöðvum, en hin íslenska auð? Þrátt fyrir að sú síðar nefnda njóti líklega bæði meiri og stöðugri vinds og kunni því að henta enn betur fyrir vindorkuver en sú danska.

Klasi_Slide15Svarið er ekki mjög flókið. Danmörk hefur jú lengst af fengið nær allt sitt rafmagn frá kolaorkuverum og þar er vindorkan því kærkominn orkugjafi. Bæði til að minnka þörfina á innfluttri orku og ekki síður til að draga úr mengun svo og að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá kolaorkuverum.

Ísland aftur á móti er með með gnægð af vatnsafli og jarðvarma. Hér hafa orkufyrirtækin því sérhæft sig í slíkum virkjanakostum - og kunna jafn lítið á að virkja vindinn eins og þau kunna mikið á að beisla vatnsafl og jarðvarma.

Þar að auki voru það alkunn sannindi allt fram undir aldamótin síðustu, að vindorka var almennt talsvert dýrari orkuvinnsla en bæði vatnsafl og jarðvarmi. Þess vegna hefur lítil sem engin ástæða verið fyrir íslensku orkufyrirtækin að vera að spá í slíka sérvisku, nema kannski á útnárum eins og í Grímsey. Þess vegna er t.d. ekki ein einasta vindrafstöð risin á suðurströnd Íslands, en myndin hér að neðan er einmitt tekin við Dyrhólaey.

Klasi_Slide16En nú eru aldamótin löngu liðin og næstum áratugur í viðbót! Framþróun endurnýjanlegrar orku á heimsvísu er æpandi hröð og á síðustu tíu árum hefur orðið gríðarleg uppsveifla hjá vindorkufyrirtækjunum. Náðst hafa fram hreint ótrúlegar kostnaðarlækkanir í þessum iðnaði á stuttum tíma. Það er varla ofsagt að þau tímamót séu nú runnin upp, að hagstæðustu vindrafstöðvarnar jafnist nú á við hagkvæma vatnsaflsvirkjun eða jarðvarmaorkuver.

Það er mikil breyting frá því sem var fyrir einungis áratug eða svo. Fyrir vikið skyldi maður ætla að íslensku orkufyrirtækin og iðanaðraráðuneytið væru nú byrjuð að íhuga alvarlega þann möguleika að hér á landi rísi vindorkuver.

Klasi_Slide20Þegar litið er fáein ár fram í tímann eru góðar líkur á að stórar vindrafstöðvar muni verða jafnvel ennþá hagkvæmari heldur en gamla, góða vatnsaflið. Kostnaðurinn kann að verða svipaður, en langvarandi umhverfisáhrif vindorkuveranna eru miklu minni. Það hversu vindorkan er að verða ódýr veldur því að orkuver af því tagi spretta nú upp með ótrúlegum hraða víðsvegar um ólík lönd eins og Bandaríkin, Spán og Kína.

Hér á landi er raforka til stóriðju svo geysilega hátt hlutfall af heildarorkuþörfinni, að líklega verður rafmagn frá vindorkuverum seint mjög stór hluti raforkuframleiðslu landsmanna. Til þess er vindorkan of sveiflukennd og ótrygg; hún hentar stóriðjunni ekki nægjanlega vel.

Engu að síður gæti verið hagkvæmt að stórar vindrafstöðvar framleiði allt að 5% raforkunnar á Íslandi. Í dag myndi það líklega þýða framleiðslu upp á 600 GWh (miðað við að heildarraforkuframleiðslan á ári sé um 12 þúsund GWh). Til að framleiða svo mikið af raforku frá vindrafstöðvum þarf mikið uppsett afl; varla er raunhæft að gera ráð fyrir meira en ca. 25-30% nýtingu hjá íslenskum vindrafstöðvum.

Wind-deepwater-offshoreIllmögulegt er að fullyrða af neinni nákvæmni um það hversu mörg MW af vindrafstöðvum þarf hér á landi til að framleiða þessar 600 GWh. Engin raunveruleg hagkvæmnisathugun hefur verið gerð um þetta og ekki verið framkvæmdar þær vindmælingar sem nauðsynlegar eru til að meta hagkvæmnina af einhverju viti.

Þess í stað æða menn hér út um allar trissur að skoða möguleika á nýjum vatnsaflsvirkjunum og jarðhitavirkjunum. Og virða um leið að vettugi möguleikann á því að skynsamlegt kunni að vera að huga af alvöru að því að reisa hér vindorkuver. Ekki virðist hafa hvarflað að neinum manni að við gerð Rammaáætlunar um virkjanakosti á Íslandi, væri eðlilegt að skoða líka kosti vindorkuvera. En þar er einungis litið til vatnsafls og jarðvarma.

Það er að öllum líkindum einungis tímaspursmál hvenær útflutningur á rafmagni frá Íslandi um sæstreng verður raunhæfur kostur. Norðmenn hafa nú þegar lagt slíkan sæstreng eftir botni Norðursjávar og til Hollands. Þeir gera ráð fyrir að stórauka raforkusölu með þessum hætti á komandi árum. Í því skyni stefna Norsararnir á að reisa fjölda stórra vindrafstöðva all langt utan við ströndina og jafnvel að þær verði fljótandi. Þeir ætla að umbreyta vindinum sem þar blæs svo hressilega, í beinharðar gjaldeyristekjur.

foss_siduHér virðast ráðamenn aftur á móti fremur vilja að þjóðin gerist peningaþrælar Hollendinga og Breta. Að mati Orkubloggsins er orðið tímabært að Íslendingar hefji vinnu með það að markmiði að Ísland selji raforku í stórum stíl til Evrópu. Frá stórum vindorkuverum. Iðnaðarráðherra og ráðgjafar hennar hljóta að fara að skoða þessa möguleika ekki seinna en strax. Annað væri mikil skammsýni.


Kolefnisvísitalan

Undanfarin ár hefur nánast öll umræða um orku- og umhverfismál snúist í kringum gróðurhúsaáhrif, hlýnun jarðar, kolefnisjöfnuð, endurnýjanlega orku og nauðsyn þess að jarðarbúar „snúi af braut olíufíkinnar".

Engu að síður telur Orkubloggarinn óumflýjanlegt að kol, gas og olía verði helstu orkugjafar heimsins um langa framtíð - jafnvel næstu hundrað árin eða meira. Og að heimsbyggðin muni áfram vinna bullsveitt við að kreista hvern einasta olíudropa sem unnt er úr iðrum jarðar.

Syngas_Plant_USAÞar er enn af miklu að taka; miklu meira en margir virðast halda. Heimsendaspárnar um að við séum nú meira en hálfnuð með olíubirgðir jarðar dynja á okkur nær daglega og að senn fari verðið á olíutunnunni í 200-300 dollara er ekki óalgeng spá. En í reynd er miklu líklegra að ennþá sé unnt að framleiða á þokkalegu verði jafnvel þrisvar til fjórum sinnum meiri olíu en gert hefur verið síðustu hundrað árin. Um þetta er vissulega mikil óvissa, en Orkubloggið hallast að því að meðalverð á olíu næstu árin verði vel undir 200 dollurum tunnan miðað við núvirði.

Ef olíuverðið helst hógvært mun ekkert draga úr eftirspurn eftir olíu. Ef aftur á móti verðið rýkur upp langt yfir 100 dollara tunnan, er líklegt að nýr svartur risaiðnaður líti dagsins ljós. Olíuvinnsla úr kolum. Það er sem sagt sama hvernig olíuverðið þróast; kolvetnisvinnsla verður grunnurinn í orkugeira heimsins um langa framtíð. Ódýr olía mun auka olíueftirspurn en dýr olía mun auka eftirspurn eftir gasi og kolum. Þetta er eins konar sjálfskaparvíti eða úlfakreppa.

Tæknilega er löngu orðið unnt að framleiða olíu úr kolum og af kolum eru til heil ósköp. Þessi framleiðsla er nokkuð dýr og hefur þess vegna ekki orðið umfangsmikil. En ef olíuverð fer til langframa yfir 100 dollara tunnan mun þessi s.k. synfuel-framleiðsla vaxa hratt - það er óumflýjanlegt. En það mun þýða hrikalega aukningu í kolefnislosun. Eflaust má segja að sú mengun ein og sér sé hreinn viðbjóður, en ýmsir óttast enn meira veðurfarsbreytingarnar sem kolefnislosun kann að valda.

Sasol_CEO_Pat_DaviesÞessi subbulegi synfuel-iðnaður - sem kannski mætti kalla kolaolíu upp á íslensku - vex hratt en hljóðlega. Eins og Orkubloggið hefur áður getið um er það Suður-Afríska fyrirtækið Sasol, sem er í fararbroddi synfuel-iðnaðarins. Æðsti presturinn í þessum kolsvarta bransa er tvímælalaust Pat Davies, forstjóri Sasol.

Þeir Sasol-menn standa langt í frá einir. T.d. hefur stærsta jarðhitafyrirtæki heims - sem reyndar er mun þekktara fyrir olíuframleiðslu sína - sett mikið fjármagn í synfuel-framleiðslu. Hér er auðvitað verið að tala um Chevron, en Chevron á nú í nánu samstarfi við Sasol.

Kannski eru þær kenningar hárréttar að kolvetnisbruni mannkyns valdi hlýnun á jörðinni. Kannski. Kannski ekki. Orkubloggarinn er svolítið efins um að þær kenningar gangi eftir - en þykir þó sjálfsagt að sýna aðgát og reyna að takmarka þessa losun. Þó ekki sé nema til að minnka mengunina sem stafar frá öllum kolaorkuverunum og samgönguflotanum.

En hvað sem umræðunni og tilraunum ríkja til að draga úr kolefnislosun líður, er þetta eiginlega dæmt til að mistakast. Við byggjum allt okkar líf á orkunni og hún er og verður að mestu framleidd með kolvetnisbruna. Þess vegna streymir fjármagnið sleitulaust í iðnað eins og synfuel. Þó svo auðvitað sé miklu meira talað um þá fáeinu aura sem iðnfyrirtækin láta renna til þróunar í endurnýjanlega orkugeiranum. Meðan ekki kemur fram ný grundvallarlausn í orkumálum heimsins, mun kolvetnisbruninn halda áfram að vaxa í heiminum. Hvað sem öllum fögrum fyrirheitum líður. Það þarf eitthvað mikið að koma til, til að breyta þeirri þróun.

sasol_chevron_logo_2Þetta kann að hljóma nokkuð neikvæð spá. En Orkubloggarinn þjáist af miklu raunsæi. Hugsanlega verða þóríum-kjarnorkuver lykilatriði í umbreytingu í orkugeiranum. Ennþá betra væri ef kjarnasamruni verður tæknilega mögulegur. Enn er þá eftir að koma með snilldarlausnina í samgöngugeiranum. Rafmagnsbílar verða kannski hluti af lausninni en þó vart neitt grundvallaratriði. Meira eins og að kasta krækiberjum í kolsvarta Kolefnisrisann. Hér þarf eitthvað miklu meira að koma til. Það má öllu raunsæju fólki vera augljóst að umbreytingin mun taka langan tíma og óumflýjanlegt að kolvetnisbruni mun halda áfram að aukast lengi enn.

Meðan hlutabréfavísitölur æddu upp komst lítið annað að í fjölmiðlunum en gagnrýnislausar hallelúja-fréttir um uppganginn í efnahagslífinu. Upp á síðkastið hafa verðbréfabréfamarkaðirnir orðið æstir í að miðla viðskiptum með kolefnisheimildir. Nýjasta útspilið í fjármálalífinu er sem sagt að gera sér bisness úr gróðurhúsaáhrifunum.

climate_change_billboardStærstu viðskiptamiðstöðvar heimsins hafa löngum skreytt sig með ljósaskiltum, sem sýna helstu verðbréfavísitölurnar. Nýjasta brumið er innlegg risabankans Deutsche Bank. Sem nú hefur líklega mestar áhyggjur af því hvort þeir þurfa að taka Actavis upp í skuldir.

Þar þykir mönnum ganga hægt að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Til að leggja áherslu á þetta komu þeir nýlega fyrir 25 metra háu skilti sem sýnir vegfarendum í New York magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Þar í hjarta Manhattan getur fólk nú séð teljarann æða áfram. Hver og einn verður svo að hafa sína skoðun á því hvort þetta sé raunveruleg dómsdagsklukka eða merkingarlaus tala.

Sagt er að hálf milljón manns sjái þetta skilti á degi hverjum. Við hin getum fylgst með tölunni hér.


Endurkoma styrjunnar?

Landsvirkjun undirbýr nú virkjanir í neðri hluta Þjórsár og þar á meðal stendur til að virkja Urriðafoss. Væntanlega stendur til að a.m.k. verulegur hluti þeirrar raforku fari í nýjan áliðnað á suðvesturhorni landsins. Á sama tíma eru nú uppi hugmyndir um að loka nokkrum af helstu vatnsaflsvirkjununum á vatnasvæði Columbiafljótsins vestur í Bandaríkjunum og láta stórar, nýjar vindrafstöðvar leysa þær af hólmi.

Wind_Oregon_2Vindorkuver spretta nú upp víða á vindbörðum sléttum Bandaríkjanna - og það jafnvel í nágrenni jarðhitavirkjananna í Kaliforníu og vatnsaflsvirkjana norðvesturfylkjanna Oregon og Washington. Vindorkan er einfaldlega að verða einn albesti kosturinn í virkjanamálum og stundum jafnvel sá sem bestur þykir.

Í síðustu færslu minntist Orkubloggið á hinar svakalegu vatnsaflsvirkjanir í Columbiafljótinu. Þær voru mikilvægur hluti í endurreisnaráætlun Roosevelt's forseta í Kreppunni miklu og veittu mörgum atvinnulausum Bandaríkjamanninum vinnu og nýja von. Ódýr raforkan frá virkjununum varð undirstaða gríðarlegs áliðnaðar þar vestra og sá iðnaður var lengi mikilvægur hluti atvinnulífsins í viðkomandi fylkjum.

En tíminn stendur ekki í stað og allt er breytingum háð. Að því kom að álverin í norðvestrinu gátu ekki lengur keppt við nýja kaupendur. Inn á svæðið komu háþróaðri fyrirtæki sem gátu skilað meiri virðisauka en álverksmiðjurnar og voru viljug til að borga mun meira fyrir raforkuna en álfyrirtækin treystu sér til.

Fyrir vikið hefur hverju álverinu á fætur öðru verið lokað þarna í nágrenni hinnar ægifögru náttúru í nágrenni Klettafjallanna. Og álfyrirtækin leitað á ný mið - til landa sem eiga mikið af ónýttri orku og eru með lítt þróaðan iðnað. Ekki skemmir ef í viðkomandi landi eru stjórnmálamenn við völd sem eru æstir í að virkja jafnvel þó svo lítill arður fáist af orkusölunni.

salmon-snake-riverHátækniálverin þarna vestra gátu sem sagt ekki keppt við "eitthvað annað" sem kom inn á svæðið. Það voru talsverð tímamót. Og nú gætu enn á ný verið að bresta á tímamót í orkuiðnaði Washington og Oregon. Það eru nefnilega uppi hugmyndir  um að nýta vindorku til að loka vatnsaflsvirkjunum í Columbiafljóti og endurheimta fjölbreytt lífríki árinnar.

Hugmyndin er sem sagt sú að vindorkan leysi vatnsorkuna af hólmi - að einhverju marki. Það er reyndar alls óvíst að þessar hugmyndir gangi eftir. Satt að segja þykir Orkublogginu heldur ólíklegt að svo fari, því stóru vatnsaflsvirkjanirnar í Columbia framleiða líklega einhverja ódýrustu raforku sem þekkist. Á móti kemur að virkjanirnar höfðu mikil neikvæð umhverfisáhrif í för með sér og freistandi að endurheimta hluta af hinum horfna heimi.

celilo_fallsColumbiafljót var áður m.a. þekkt fyrir gríðarlega laxagengd og margar fallegar fossaraðir. Heiti eins og Celilo Falls, Priest Rapids og Kettle Falls eru nú einungis endurminning um villt straumvatnið sem var kæft með stíflumannvirkjum fyrir mörgum áratugum og sökkt í djúpið. Vegna virkjananna og miðlunarlóna hvarf fjöldi flúða og fossa og laxinn gat ekki gengið lengur upp fljótið eins og verið hafði. Á svæðum þar sem áður höfðu veiðst milljón laxar á ári varð Columbia einfaldlega laxalaus. Efnahagslega bitnaði þetta einkum á indíánaættflokkum á svæðinu sem áttu veiðiréttinn og kannski var það ein ástæða þess að menn gerðu ekki mikið úr þessu á sínum tíma.

Sturgeon_Snake_riverAuk laxins hafði Columbia að geyma mikið af styrju, en vegna stíflnanna eyðilögðust mörg helstu hrygningarsvæðin og styrjan hætti að geta gengið upp með ánni eins og verið hafði síðan í árdaga. Í dag er stofn Hvítstyrjunnar í Columbia ekki svipur hjá sjón. Þar að auki fór talsvert mikið land undir miðlunarvatn, sem eftirsjá þykir í. Þess vegna eru margir sem nú vilja nota vindorkuna til að leysa virkjanir í Columbia af hólmi og færa hluta árinnar til fyrra horfs.

Maður hefði kannski ætlað að möguleikar í vindorku í Bandaríkjunum miðuðu fyrst og síðast að því að draga úr þörfinni á rafmagni frá gas- og kolaorkuverum! En nú eru sem sagt komnar fram hugmyndir um að vindorka leysi af hólmi einhverjar af stóru vatnsaflsvirkjununum á vatnasvæði Columbia-fljótisins. Raforkufyrirtækið Bonneville Power Administration (BPA), sem selur stærstan hluta raforkunnar frá virkjununum í Columbia, Snákafljóti og öðrum virkjunum á þessu gríðarstóra vatnasvæði, íhugar nú að auka mjög raforkuframleiðslu frá vindorkuverum. Einkum til að mæta vaxandi eftirspurn eftir raforku og líka til að skapa sér grænni ímynd. Með nýjum vindorkuverum gæti BPA dregið úr raforku sinna frá gasorkuverum, sem nú er næst stærsta raforkuuppspretta BPA (á eftir vatnsaflinu).

Wind_US_NorthWestVafalust bjuggust stjórnendur BPA við því að þessum áætlunum þeirra yrði fagnað með látum. En það fór ekki alveg eins og þeir vonuðust eftir. Því til eru þeir sem vita að laxastofnarnir í stórám norðvestur-fylkjanna voru annað og meira fyrir tíð vatnsaflsvirkjananna. Margir eygja nú möguleikann á að endurheimta eitthvað af forni frægð Columbia-laxins. Þess vegna hefur BPA vinsamlegast verið bent á að þeir eigi einfaldlega að nýta vindorkuna til að minnka þörfina á vatnsaflsvirkjununum, þ.a. þær megi rífa niður og frelsa laxinn úr áratuga ánauð sinni.

Það kom BPA örlítið á óvart að vindorkuverin þeirra yrðu vatn á myllu þess að loka virkjunum í Columbiafljótinu. Þeir hafa beint á að vatnsaflsvirkjanir og vindorkuver spili mjög vel saman. Henti vel til að jafna álagið og þetta sé einfaldlega samsetning sem smellpassar í raforkuframleiðslu. Vatnsaflið muni þróast í að verða varaafl, en það hlutverk er nú aðallega í höndum gasorkuveranna.

Það er óneitanlega athyglisvert ef aukning vindorku þarna í æpandi náttúrufegurð Oregon og Washington verður ekki til að fækka um eitt einasta gasorkuver og hvað þá kolaorkuver. Heldur að vindorkan leysi þess í stað gamlar og löngu uppgreiddar vatnsaflsvirkjanir af hólmi. Svolítið undarleg þróun, a.m.k. svona við fyrstu sín. Maður hélt jú að endurnýjanleg orka í bæði Evrópu og Bandaríkjunum hefði einkum það hlutverk að takmarka kolefnisbruna og þörf á innfluttri orku.

Augljóslega yrði kostnaðarsamt að ráðast í aðgerðir af þessu tag, þ.e. að loka vatnsaflsvirkjunum. En líklega hefur það þó sjaldan verið eins auðvelt og nú. Kreppupakkinn kenndur við Obama (Obama Stimulus Package) felur það í sér að lánamöguleikar BPA frá alríkisstjórninni hafa aukist úr tæpum 4,5 milljörðum dollara í næstum því 8 milljarða dollara. Fyrirtækið á nú m.ö.o. greiðan aðgang að miklu og ódýru lánsfé og þrýst er á þá að hugleiða sína siðferðislegu ábyrgð og bæta fyrir eitthvað af því mikla umhverfistjóni sem fylgdi virkjununum á vatnasvæði Columbia.

Snake_River_colourSérstaklega hefur verið bent á þann möguleika að rífa burtu virkjanirnar í neðri hluta Snákafljóts, sem er ein stærsta þverá Columbia. Virkjanirnar þar reyndust hafa hvað neikvæðust áhrif á laxinn og með því að fjarlægja þær mætti líklega stórefla lífríkið á svæðinu. Af hálfu BPA hefur verið bent á að bygging nýrra vindorkuver sem einungis myndu mæta framleiðslutapinu vegna umræddra virkjana, myndu kosta 400-550 milljónir dollara (til samanburðar má nefna að á liðnu ári voru heildartekjur BPA rétt rúmir 3 milljarðar dollara). Sumir segja aftur á móti að þetta séu smápeningar miðað við ávinninginn sem þetta myndi skila lífríkinu í Snákafljóti. Og nú sé tækifæri að láta enn umhverfisvænni orku bæta fyrir umhverfistjón fyrri tíma. Skyldi koma að því að vindorka verði meginuppspretta raforkuframleiðslu Landsvirkjunar, en vatnsaflið verði fyrst og fremst varaafl?


Græni herinn

At Bonneville now there are ships in the locks.
The waters have risen and cleared all the rocks.
Shiploads of plenty will steam past the docks.
So roll on, Columbia, roll on.

Woody_GuthrieÞessi texti sveitasöngvarans frábæra Woody heitins Guthrie, er líklega ágætis inngangur að umfjöllun Orkubloggsins um vatnsafl í norðvesturríkjum Bandaríkjanna.

Columbia sú sem þarna er sungið um er auðvitað Columbiafljótið, sem er mesta vatnsfall í norðvesturríkjunum. Það ber gríðarlegt vatnsmagn frá Klettafjöllunum og til Kyrrahafsins á um 2 þúsund km leið sinni gegnum bæði Kanada og Bandaríkin. Upptökin liggja í Kanada en tilkomumest er Columbia í Washingtonfylki. Alls mun vatnasvæði Columbia vera hvorki meira né minna en 670 þúsund ferkílómetrar!

Vegna mikillar fallhæðar hentar Columbiafljót afar vel til vatnsaflsvirkjana og stendur undir þriðjungi af öllu virkjanlegu vatnsafli í Bandaríkjunum. Enda eru nú samtals um hálfur annar tugur virkjana í fljótinu sjálfu, sumar þeirra gríðarstórar. Að auki er fjöldi annarra virkjana í þveránum, en af þeim er Snake River hvað þekktust.

Snákafljót er eitt af þessum dásamlegu örnefnum í bandarískri náttúru - nöfnum sem fá hjarta Orkubloggarans til að þrá frumbyggjalíf 19. aldar á indíánaslóðum. Ekki er stubburinn minn, 8 ára, síður spenntur fyrir Frumbyggjabókunum en pápi hans. Í kvöldlestrinum erum við einmitt komnir að lokabókinni í þessum skemmtilega norska bókaflokki og heitir bókin sú ekki amalegra nafni en Gullið í Púmudalnum!

Snake_River_AdamsFrægustu virkjanirnar í Columbiafljótinu eru kenndar við smábæinn Bonneville, en í reynd er nafnið Bonneville-stíflurnar(Bonneville Dams) oft notað sem samheiti yfir fjölmargar virkjanir í fljótinu. Þar eru stærstar Grand Coulee með hvorki meira né minna en um 6.800 MW framleiðslugetu og Chief Joseph Dam, sem getur framleitt um 2.600 MW. Til samanburðar þá er framleiðslugeta Kárahnjúkavirkjunar um 700 MW. Alls geta virkjanirnar í Columbiafljóti framleitt lítil 25 þúsund MW og eru þá virkjanirnar í Snákafljóti og öðrum þverám Columbia EKKI taldar með. Sem sagt dulítið rafmagn þarna á ferðinni.

Columbia_River_dams_mapLengi vel var stærstur hluti rafmagnsins frá Columbia-virkjununum nýttur til álframleiðslu. En með fjölbreyttari atvinnurekstri í Seattle og nágrenni fór svo að álfyrirtækin lentu í erfiðleikum með að keppa um orkuna. Á síðustu árum hefur hverri álverksmiðjunni á fætur annarri verði lokað þarna í hinu magnaða norðvestri. Samdrátturinn í áliðnaðinum þar er sagður allt að 80% á örfáum árum. Þess í stað fer orkan frá vatnsaflsvirkjununum nú til fyrirtækja eins og Google, sem hefur unnið að uppbyggingu gagnavera á svæðinu. Kannski umhugsunarvert fyrir Íslendinga?

Álfyrirtækin fóru aftur á móti að leita að ódýrara rafmagni en framleiðendurnir í Columbiafljótinu buðu. Og fundu það fljótt í þriðja heiminum - svo og á eyju einni norður í Dumbshafi þar sem stjórnvöld eru þekkt fyrir flaður sitt upp um álrisa.

Hvað um það. Annað atriði sem Orkubloggaranum þykir athyglisvert er hverjir standa að rafmagnsframleiðslunni í Columbaifljóti. Kannski halda sumir frjálshyggjusinnaðir Íslendingar að öll rafmagnsframleiðsla í Bandaríkjunum sé í höndum Mr. Burns og félaga hans. Sem sagt einkarekstur. Því fer fjarri. Meira að segja Bandaríkjamenn er vel meðvitaðir um mikilvægi þess að ríkið sé bakhjarlinn í rafmagnsframleiðslunni.

Bonneville_dam_explainedJá - öll fer þessi geggjaða orka frá Bonneville í gegnum ríkið. Sala og dreifing er í höndum ríkisfyrirtækisins Bonneville Power Administration (BPA), en rekstur og viðhald sjálfra virkjananna er á vegum sérstakrar alríkisstofnunar, sem nefnist því virðulega nafni US Army Corps of Engineers. Þetta er stofnun með meira en 35 þúsund starfsmenn sem heyrir undir bandaríska varnarmálráðuneytið og sagan háttar því svo að þessi merkilega stofnun hefur komið að byggingu og rekstri mikils fjölda vatnsaflsvirkjana þar vestra.

US_ACEUSACE sinnir einnig margs konar annarri uppbyggingu í landinu og er eitt af þessum undarlegu dæmum um ofboðsleg umsvif alríkisins í landi sem oftast er kennt við einkaframtak. Kannski mætti kalla þessa ágætu bandarísku stofnun hinn eina sanna Græna her?

Bygging Bonneville-virkjananna hófst árið 1934 í kreppunni miklu. Auk þess að skapa mikinn fjölda starfa fyrir atvinnulausa Bandaríkjamenn, reyndust þessar virkjanir ein mikilvægasta undirstaða iðnaðaruppbyggingar landsins í aðdraganda styrjaldarátakanna og þar með hornsteinn í sigri Vesturveldanna gegn Japan og Nasista-Þýskalandi. Orkan var, sem fyrr segir, að miklu leyti nýtt í álbræðslur á svæðinu, sem voru mikilvægur þáttur í hernaðarmaskínunni sem sigraði síðari heimsstyrjöldina.

Reyndar er öll saga BPA stórmerkileg. Fyrirtækið var stofnað af Bandaríkjaþingi í þeim tilgangi að sjá um dreifingu og sölu á öllu rafmagni frá Bonneville-virkjununum. Á næstu áratugum óx framleiðslugetan jafnt og þétt með nýjum virkjunum á svæðinu og samhliða því sá BPA um byggingu á sífellt öflugra dreifikerfi.

BPA_logoÍ dag kemur um 45% alls þess rafmagns sem notað er í norðvesturfylkjum Bandaríkjanna frá BPA og fyrirtækið rekur eitt stærsta dreifikerfi rafmagns í Bandaríkjunum. Það er m.ö.o. ekki bara einkarekstur sem tíðkast þarna vestra – þvert á móti er ríkið þar stórtækara en í mörgum löndum Evrópu. Það er kannski eitt af skemmtilegum leyndarmálum hagfræðinnar.


Icesave

Jon_HelgiJón Helgi Egilsson hefur rétt fyrir sér.

Og Orkubloggið sér Icesave-málið með þessum augum: Eftir hrun bankanna kom í ljós að innistæðutryggingakerfi ESB og EES var þess eðlis að það kom ekki að gagni við svo umfangsmikið fjármálahrun. ESB hafði einfaldlega gleymt að gera ráð fyrir að svona svakalegar fjármálahamfarir gætu átt sér stað í einu landi.

Með Icesave-skuldbindingunni eru íslensk stjórnvöld að gera Íslendinga ábyrga fyrir klaufaskapnum hjá ESB. Það er gjörsamlega útí hött.

Það er algerlega fráleitt að íslensk stjórnvöld velti skuldaábyrgð á íslenskan almenning, vegna skulda sem almenningur ber enga ábyrgð á lögum samkvæmt. Ef bresk og hollensk yfirvöld vilja fá þessa peninga aftur verða þau að eiga það við bankann, aðaleigendur hans og stjórnendur.

Cartoon_IcesaveVilji Bretar og starfsmenn ESB aldrei tala við okkur aftur ef við ekki kyngjum afarkostum þeirra, verður bara að hafa það. Við eigum ekki að samþykkja ofbeldi af þessu tagi.


Völva og snillingur

Í dag bárust skilaboð í tölvupósthólf Orkubloggsins. Frá EIA; upplýsingaskrifstofu bandaríska Orkumálaráðuneytisins.

Washington_DC_joyful_youngÞetta er svo sem ekki í frásögur færandi. Því sjálfsagt hafa milljónir annarra ef ekki miklu fleiri fengið nákvæmlega þennan sama póst. Sem fær okkur öll til að brosa út að eyrum. En Orkubloggarinn er sem sagt áskrifandi að öllum helstu tilkynningum EIA (US Energy Information Administration) um orkutölfræði.

Það athyglisverða við póst dagsins var að EIA sendi þarna út spá sína um að eftirspurn eftir olíu muni aukast á næstu vikum. Og verðið muni af þessum ástæðum stíga eitthvað á næstunni; a.m.k. fram í júlí.

Ekki vorum við aðdáendur svarta gullsins fyrr búnir að lesa þennan nýjasta spádóm olíuvölvunnar miklu en olíuverðið á Nymex tók að hækka. Og fór hvorki meira né minna en yfir 70 dollara tunnan nú þegar leið á daginn. Mikill er máttur skriffinnanna hjá EIA vestur í Washington DC.

Oil_Price_Nymex_jan-june_2009Hver hefði trúað því á frostdögunum í febrúar s.l. þegar olíutunnan lafði rétt í 35 dollurum, að verðið myndi verða tvöfalt hærra á sveittum sumardegi í New York fjórum mánuðum síðar? Vissulega var Orkubloggarinn ávallt staðfastur á því að olíutunnan færi í ca. 70-75 dollara. Það væri bara tímaspursmál hvenær Sádarnir næðu tökum á framboðinu. Kannski óþarfi að minna enn einu sinni á það að 70-75 dollarar er nefnilega einmitt verðið sem Sádarnir þurfa til að ríkiskassinn þar verði ekki tómur. Svo einfalt er það nú.

En jafnvel Orkuofvitann að baki blogginu óraði ekki fyrir því að þetta myndi gerast svona hratt. Vesturlönd eru í dúndrandi fjármálakreppu og samt er olíuverðið komið í þá tölu sem Sádarnir vilja... en Vesturlönd hata þetta sama verð!Ali_al_Naimi_cool

Hvað segir þetta okkur? Að framtíðin sé björt og efnahagslífið verði brátt komið á bullandi skrið um allan heim? Eða að besti vinur bloggarans, hann Ali Al Naimi olíumálaráðherra Sádanna, sé einfaldlega snillingur? Hann ætlaði sér að ná verðinu upp. Lét OPEC skera niður framleiðsluna í nokkrum áföngum - næstum helst til varlega að Orkublogginu fannst. En viti menn - aðeins hálfu ári síðar er óskaverð Sádanna komið fram. Alveg magnað.

Já - kallinn er brilljant. Og tilefni fyrir hann að kasta kuflinum í svona eins og eina kvöldstund og smella sér í kúl lúkkið. Svarti leðurjakkinn bíður í skápnum og nóttin er ung.

Illar tungur - eða öllu heldur apagreiningadeildirnar vestra - segja okkur reyndar að þessar hækkanir á olíuverði undanfarið séu bara til komnar vegna veikingar á dollar. Geisp. Alltaf eru þessir greiningadeildakjánar samir við sig. Málið er einfalt; olíuverðið er komið yfir 70 dollara tunnan vegna þess að honum Ali Al Naimi og félögum tókst ætlunarverk sitt. Nú þurfa þeir bara að passa upp á það að áframhaldandi hrun efnahagslífsins hér í Vestrinu dragi ekki olíuverðið niður á ný.

Ali_al_Naimi_cheerfulNei - ljúflingarnir þarna í sandinum gula mega ekki verða værukærir. En þeir geta a.m.k. leyft sér að brosa í dag. Sjálfur ætla ég núna í háttinn. Af einhverjum ástæðum sofna ég nefnilega alltaf svo vært þegar ég veit að honum Ali Al Naimi líður vel. Smitandi gleði.


Í jöklanna skjóli

„Vernd eða nýting?“. Þannig hljóðar fyrirsögn auglýsingar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag. Þar er verið að tilkynna um fund vegna rammaáætlunar íslenskra stjórnvalda þar sem unnið er að því að skilgreina virkjanakosti framtíðarinnar.

electricity_gridÍ kjölfar erindis sem Orkubloggarinn flutti nú um helgina á málþingi Náttúruverndarsamtaka Suðurlands var bloggaranum bent á að hann hafi oftrú á vexti. Okkur sé nær að stefna að jafnvægi fremur en að leita sífellt að vaxtartækifærum.

Þetta kann að vera sanngjörn ábending. Því verður a.m.k. ekki neitað að Orkubloggarinn er vissulega á þeirri skoðun að við verðum að leita vaxtartækifæra. Áfram, hraðar, hærra! Bloggarinn er líka fullviss um að rafmagnsnotkun og þar með orkunotkun muni áfram aukast um allan heim, hvað sem líður smá kreppuhiksta. Bloggarinn er einnig handviss um að ekki líði langur tími þar til stóriðjufyrirtæki muni á ný leita eftir orkusamningum á Íslandi með það að markmiði að byggja hér nýja stóriðju.

China_CarsVið stöðvum ekki tímann. Og enn fjölgar Íslendingum jafn og þétt. Orkubloggarinn er á því að samkeppnin sé manninum í blóð borin og að allt hjal sumra um að Vesturlandabúar eigi að sætta sig við að hámarki velmegunar sé þegar náð, sé út í hött. Reyndar myndi það ekki skipta neinu höfuðmáli þó svo Vesturlandabúar allt í einu gerðust almennt nægjusamir og sáttir við tilveru sína. Það eru nefnilega hundruð milljóna fólks úti í hinum stóra heimi, sem ekki sætta sig við sín kjör og dreymir um betra líf. Þetta kallar á sífellt meiri iðnað, sífellt meiri orkunotkun og sífellt meira peningamagn í umferð. Vöxtur efnahagslífsins er óhjákvæmilegur og sá vöxtur mun áfram þrengja að náttúruauðlindum jarðar.

Orkubloggarinn upplifir sig oft hálfgerðan einstæðing. Vegna þess að bæði er bloggarinn yfirleitt harður talsmaður náttúruverndar - en um leið fylgjandi því að fleiri virkjanir rísi á Íslandi. Af einhverjum ástæðum virðist algengt að fólk telji sig einungis tilheyra öðrum þessara hópa. Bloggarinn álítur aftur á móti að við eigum bæði að leitast við að fara vel með náttúruauðlindirnar og varast að ofnýta þær - og um leið þurfum við áfram að að huga að nýjum virkjanakostum. Það er ekkert „annað hvort eða“. Og hreinn barnaskapur að segja að nú sé komið nóg; þetta sé orðið gott. Í lýðræðisþjóðfélagi - þjóðfélagi þar sem fólk er frjálst að skoðunum og að haga lífi sínu eftir eigin höfði - er samkeppni nánast náttúrulögmál. Krafan um sífellt betri lífskjör er manninum eðlileg og um leið verður sífellt meiri þörf á raforku. Orka er undirstaða þjóðfélaga nútímans og til að viðhalda velferðarþjóðfélögunum og það sem er ennþa´mikilvægara – þ.e. að auka velferðina hjá fátækari þjóðum - þarf meiri orku.

ansel-adams-yosemiteÞað er absúrd hugmynd að mannkynið muni virða það að jörðin þoli einungis einhvern tiltekinn fjölda fólks sem takmarki neyslu sína við einhverja tiltekna viðmiðun eða tiltekið hámark. Í þessari skoðun felst alls ekki uppgjöf. Íslendingar eiga vel efni á því að t.d. taka frá tiltekin landsvæði og vernda þau líkt og Bandaríkjamenn hafa gert í Yosemite, Yellowstone og víðar. Náttúrufegurð kann að vera afstæð, en í huga Orkubloggsins er fáránlegt að t.d. Langisjór og Eldgjá skuli ekki vera vernduð svæði og hluti af þjóðgarði. Um leið er Orkubloggarinn hallur undir hugmyndir um að virkjanir rísi í einhverjum af jökulvötnunum í héruðunum suðaustan við umræddar náttúruperlur. Það er þó alger forsenda, að mati Orkubloggsins, að hið opinbera setji ekki fjármuni í slíkar virkjanir nema horfur séu á að þær skili viðunandi ávöxtun.

HVERFISFLJOT_FOSSVissulega er rétt að fara varlega í vatnsfallsvirkjanir á þessum svæðum landsins, þar sem vötnin eru t.d. undirstaða einstæðra veiðisvæða, þar sem skaftfellski sjóbirtingurinn er konungur ríkisins. En hjá þjóð sem mun í framtíðinni brátt þurfa meira rafmagn en hún framleiðir í dag er samt eðlilegt að horfa til þess að virkja í einhverju mæli það mikla og endurnýjanlega afl sem felst í jökulfljótunum suður af Skaftárjökli og þar austur af. Ef t.d. góðan og arðbæran virkjunarstað er að finna í Hverfisfljóti eða Skaftá hlýtur það að verða skoðað af skynsemi.

Cartoon_IcesaveEinhverjum kann að þykja þessi skoðun á skjön við fyrr yfirlýsingar Orkubloggsins um að Kárahnjúkavirkjun hafi verið misráðin. Ástæðan fyrir þeirri skoðun bloggarans er að þegar horft er til heildaráhrifa þeirrar miklu framkvæmdar, hafi ekki verið sýnt fram á réttmæti hennar. Það er t.d. með ólíkindum að við arðsemismat á Kárahnjúkavirkjun var verðmæti landsins utan eignarlanda virt að vettugi. Að auki var pólitísku valdi beitt til að hnekkja faglegu mati um umhverfisáhrif virkjunarinnar. Vísindunum var ýtt til hliðar og um leið var öll löggjöfin um umhverfismat höfð að háði og spotti. Að mati Orkubloggsins er það alvarlegt dæmi um virðingarleysi framkvæmdavaldsins við lýðræðið og dæmi um undirlægjuhátt Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Loks má líklega þakka fyrir ef skuldirnar vegna Kárahnjúkavirkjunar setja ekki Landsvirkjun á höfuðið. Þá fyrst verður Icesave bara smámál.

Thor_VilhjalmssonEn nú er Orkubloggarinn sennilega bæði búinn að misbjóða náttúruverndarsinnum og virkjunarsinnum. Svo það er réttast að ljúka þessu á tilvitnun í Thor Vilhjálmsson. „Maðurinn er alltaf einn“ Þessa dagana er reyndar vinsælla að vitna í Enar Ben: Maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur“.

Að lokum má nefna að fyrirsögnin í áðurnefdri auglýsingu í Morgunblaðinu hefði auðvitað átt að vera „Vernd OG nýting“!

 


Fall fararheill?

Tvö fyrirtæki sóttu um leyfi til olíuleitar á Drekasvæðinu. Annars vegar norska Aker Exploration og hins vegar norsk-íslenska Sagex (ásamt Lindum Resources, sem er í eigu Jóns Helga í BYKO, sem líka er hluthafi í Sagex).

drekasvSamkvæmt frásögn Orkustofnunar var  fjöldi fyrirtækja, sem sýndi svæðinu áhuga og þar á bæ virtust menn ánægðir með þróun mála. Þó svo umsóknirnar hefðu aðeins verið þessar tvær.

Íslenskir fjölmiðlar hafa ekki sýnt ríka viðleitni til að meta hversu áhugaverðir umsækjendurnir um Drekasvæðið eru. Orkubloggið verður þar af leiðandi að ríða á vaðið.

Í sjálfu sér er þetta einfalt. Niðurstaða útboðsins eru vonbrigði. Hvorugt þeirra félaga sem sóttu um leitarleyfi eru það sem kallast getur öflugt olíuvinnslufyrirtæki. Vissulega eru þetta fyrirtæki sem hafa þokkalega reynslu af olíuleit. Þau gera sér bersýnilega vonir um að finna megi enn betri vísbendingar um að þarna sé vinnanleg olía og að þá geti þau selt leitarleyfin áfram - eða fengið alvöru olíuvinnslufyrirtæki síðar inn sem partners. En þetta geta ekki talist sterkir umsækjendur.

dreki_langanes_logoÍ olíubransanum er alltaf eitthvað um það að spekúlantar veðji á að geta fundið olíu og selt leitarleyfið áfram til olíuvinnslufyrirtækja. Vissulega eru Sagex og Aker Exploration virðingarverðari fyrirtæki en svo að þau kallist spekúlantar. En það er að mati Orkubloggsins slæmt að ekkert hefðbundið og öflugt olíuvinnslufyrirtæki skuli hafa óskað eftir leitarleyfi á Drekanum. Þau eru miklu burðugri og líklegri til að leggja mun meira fjármagn í leitina.

Til samanburðar er fróðlegt að líta til þess hvernig fór með fyrsta olíuleitarútboð Færeyinga. Sem kunnugt er hefur nú í áratug verið leitað að olíu á færeyska landgrunninu og nýlega lauk þriðja útboðinu þar.

Faroe_Oil_1st_roundÞað var aldamótaárið 2000 að fyrsta leitarútboðið fór fram í Færeyjum. Þá sóttu velflest stærstu nöfnin um leyfi til olíuleitar. Þar mátti sjá funheit fyrirtæki eins og BP, Eni (Agip), Anadarko og Statoil. Meðal samstarfsaðila þessara fyrirtækja voru fleiri risar, eins og Shell, ConocoPhillips og auðvitað Dong Energi - og ekki leið á löngu þar til Chevron var líka komið með í fjörið á færeyska landgrunninu. Sem sagt alvöru olíuvinnslufyrirtæki - mörg þau allra öflugustu í bransanum - en ekki bara einhverjir vongóðir minni spámenn. Það var t.d. eitthvað af þessum nöfnum sem Orkubloggið vonaðist eftir að sjá sem umsækjendur um leitarleyfi á Drekasvæðinu.

Dreki_Sagex_licensesNiðurstaðan af fyrsta útboði Færeyinga varð sú að veitt voru 7 leyfi, sem náðu yfir heilan þriðjung af öllum þeim svæðum sem í boði voru á færeyska landgrunninu í það sinn. Öll leyfin sjö gerðu kröfu um ákveðnar jarðfræðilegar rannsóknir. Þar að auki var í þremur leyfanna kveðið á um skuldbindingar um samtals 8 brunna.

Sá raunveruleiki sem við Íslendingar horfumst í augu við er því miður allt annar. Ekkert af stóru olíufélögunum sótti um leitarleyfi á Drekanum. Það voru einungis tveir litlir spámenn sem ákvaðu að kanna möguleikana á því hvort Drekasvæðið geti skilað þeim einhverjum Matador-peningum.

Menn hljóta að spyrja sig hvaða líkur séu á því að Sagex og/eða Aker Exploration hafi raunverulega burði til að bora svo mikið sem einn einasta brunn á þessu nýja og lítt þekkta svæði. 

aker_exploration_logoJafnvel þó svo að annað félagið sé með orðið Aker í nafninu sínu og hafi tekið sín fyrstu skref í olíuvinnslu, er þetta reynslulítið fyrirtæki og varla heppilegasti kandídatinn til að ryðja brautina á nýju, djúpu og áhættusömu svæði eins og Drekasvæðið óneitanlega er. Þó svo Aker-samsteypan sé mikill risi, er Aker Exploration bara peð. Og Sagex er væntanlega einungis að sækja um leyfi með þá von í brjósti að fá sterkari aðila til samstarfs á síðari stigum eða að geta selt leyfið með hagnaði.

En kannski verðum við ljónheppinn. Kannski eru það einmitt reitir IS6708/1, IS6708/2, IS6808/11 og IS 6909/11 sem munu skila dúndrandi árangri. Kannski skiptir engu þótt líkurnar á því að þessi tvö fyrirtæki rekist á eitthvað spennandi, séu minni en að hitta með tennisbolta á miðpunkt Laugardalsvallar úr farþegaþotu, 30 þúsund fet yfir borginni. Orkubloggið má ekki sökkva í þunglyndi, þó svo það séu einungis pelabörn sem hafi sýnt nýja Drekasandkassanum áhuga.

Drekaopnun_Katrin_radherraOrkubloggið er á því að ekki hafi tekist vel til með útboðið á Drekasvæðinu. Þvert á móti er niðurstaðan gríðarleg vonbrigði - þó svo nýr iðnaðarráðherra láti af einhverjum ástæðum í ljós mikla bjartsýni. Enn á eftir að koma í ljós hvort Orkustofnun telur umsækjendurna vera hæfa. Það er ekki sjálfgefið. Miðað við svip þeirra sem viðstaddir voru opnun umsóknanna, er a.m.k. ekki að sjá að menn hafi vart kunnað sér læti af tómri kæti. Kannski væri nær að tala um jarðarfararstemningu?

Hvernig svo sem þetta fer, þá er það hreinlega arfaslæmt að ekki skuli hafa tekist að vekja áhuga sterkari og reynslumeiri bolta á Drekasvæðinu. Það er talsvert mikil áhætta fólgin í því fyrir Íslendinga að láta tvo litla spámenn um það að leika sér aleina á Drekanum. Slakur árangur af olíuleit þeirra gæti hreinlega skaðað framtíðarmarkaðssetningu á svæðinu.

Dreki_Spectrum

Orkubloggið var einmitt búið að vara við því að fjármálakreppan væri ekki besti tíminn fyrir útboð af þessu tagi. Afleiðingin gæti orðið fáir og lítt hæfir umsækjendur. Því miður gekk þessi spá bloggsins eftir.

Að mati Orkubloggsins kann að vera skynsamlegast að setja Drekann í salt og bíða þar til fjármálamarkaðirnir ná jafnvægi á ný. Þá mun olíutunnan rjúka upp og stóru olíufélögin vera tilbúin í hvað sem er - jafnvel íslenska Drekasvæðið.


Nú er það svart...

Ástralía er líklega eina landið utan Íslands, sem Orkubloggarinn gæti hugsað sér að búa í.

UNDPÞar er náttúran gríðarlega fjölbreytt og falleg og mannlífið þægilegt. Orkubloggarinn kann einnig afar vel við sig í Kanada. Og Noregur er líka notalegt land með mikla náttúrufegurð. Orkubloggarinn kann sem sagt nokkuð vel við sig bæði í Noregi og Kanada, en þó sérstaklega í Ástralíu. En auðvitað er Ísland bezt í heimi!

Þetta er reyndar ekki mjög frumlegt val hjá bloggaranum. Því skv. skrifstofu Sameinuðu þjóðanna er nefnilega einmitt langbest að búa á Íslandi, í Noregi, Ástralíu og í Kanada (sjá skýrsluna Human Development Report).

Ísland og Ástralía; þessi tvö ólíku lönd og íbúar þeirra eiga ótrúlega margt sameiginlegt. Það einkennir t.d. báðar þjóðirnar að vera svolítið afskekktar frá umheiminum. Það er líka skemmtileg veila í báðum þessum þjóðum. Við Íslendingar virðumst gegnsýrðir af vertíðarhugsun og þess vegna hvarflar almennt ekki að nokkrum manni hér að hugsa lengra en svona þrjá daga fram í tímann. Bankaruglið er líklega svakalegasta dæmið um þetta. Ástralir eru aftur á móti varkárari - og þykjast þar að auki vera ofurgrænir og elska höfrunga, meðan þeir fá nánast allt sitt rafmagn frá kolabruna. Skemmtilegar andstæður.

Australia_populationÞá þykir Orkublogginu athyglisvert að Ástralir og Íslendingar munu vera einhver þéttbýlustu samfélög heims! Einhverjum kann að þykja undarlegt að heyra Ísland og Ástralíu nefnd í tengslum við þéttbýli. En þegar litið er til þess hversu hátt hlutfall þjóða býr í þéttbýli, skora bæði Ástralía og Ísland mjög hátt. Hér sogar Reykjavíkursvæðið fólkið til sín - og í Ástralíu er mjög stór hluti þjóðarinnar á suðausturhorni landsins; einkum í borgunum Sydney og Melbourne. Fá dæmi munu vera um að heilar þjóðir þjappist svo hressliega saman í þéttbýli.

Í dag ætlar Orkubloggið að beina sjónum sínum að orkubúskap Ástrala. Sem er óneitanlega allt öðruvísi en orkunýting á íslandi. Bloggið ætlar að þessu sinni ekki að horfa til jarðhitavirkjana í Ástralíu, sem hugsanlega eiga mikla vaxtarmöguleika. Nei - hér verður þvert á móti litið til þess svartasta af öllu svörtu! Sjálfs risabrúnkolaorkuversins Hazelwood, á kolasvæðinu svakalega í Latrobe dalnum, skammt austan við Melbourne.

melbourne-1[1]Melbourne er næst stærsta borg Ástralíu. Íbúarnir eru um 4 milljónir - sem sagt litlu færri en í Sydney (íbúar Sydney eru ca. 4,5 milljónir). Milli þessara tveggja stærstu borga landsins er auðvitað mikill rígur. En almennt má segja að Sydney hafi vinninginn sem fallegri borg og með fjölbreyttara mannlíf. Það er a.m.k. mat Orkubloggarans, sem eitt sinn naut nokkurra mánaða í Sydney. Íbúar Melbourne yrðu þó líklega seint sammála bloggaranum um þessa niðurstöðu! Í þeirra augum er Melbourne málið og íbúar Sydney tómir letingjar og sukkarar.

En skellum okkur í kolin. Ein sérkennilegasta sjón sem Orkubloggarinn hefur upplifað eru risastórir kolahaugarnir utan við hafnarborgina Newcastle, á austurströnd Ástralíu, ekki langt norðan við Sydney. Það væri kannski nær að tala um kolafjöll -  þarna liggja kolin í gríðarmiklum haugum og bíða þess að verða mokað um borð í ryðdalla í Newcastle-höfn. Þaðan sigla dallarnir í röðum alla daga ársins, fullhlaðnir kolum til Japans, S-Kóreu og ýmissa annarra landa. Sem nota kolin til rafmagnsframleiðslu.

Australia_ElectricityÁstralía er langstærsti útflytjandi kola í heiminum, með hátt í 30% allra útfluttra kola. Það eru sem sagt gríðarlegar kolanámur í Ástralíu. Ástralir eru fjórði mesti kolaframleiðandi heimsins (á eftir Kína, Bandaríkjunum og Indlandi). Þess vegna kemur það sjálfsagt fáum á óvart að næstum 80% af rafmagnsframleiðslu Ástrala koma frá kolaorkuverum. Framleiðslugeta áströlsku kolaveranna í dag er líklega vel yfir 50 þúsund MW (50 GW). Það er næstum 25 sinnum meira en allar íslensku virkjanirnar geta annað. Menn geta ímyndað sér hvers konar geggjuð kolefnislosun stafar frá 50 þúsund MW kolaorkuverum. Og áströlsku verin eru þar að auki ekki beint þau tæknivæddustu í heiminum; þetta eru sannkölluð skítaver.

En það eru ekki bara Ástralir sem nota mikið af kolum. Sem fyrr segir eru þeir einnig stærsti kolaútflytjandi heims. Það eru sem sagt ýmsir aðrir sem eru gefnir fyrir að framleiða raforku með kolum. Í reynd eru kol einfaldlega mikilvægasti raforkugjafi heimsins. Það er bara ekkert voðalega mikið talað um það. Miklu skemmtilegra að velta t.d. fyrir sér hvort íslenskur jarðhiti sé ósjálfbær - nú þykir allt í einu voða smart að halda slíku fram. Kannski væri ráð að loka þessum ósjálfbæru og subbulegu jarðgufuvirkjunum og barrrasta frekar nota kol - eins og allir hinir!

Coal_Morwell_mine_1Um 40% alls rafmagns jarðarbúa er framleitt með orku frá kolum. Ástralir eru sú þjóð sem er einna háðust kolunum, með 80% hlutfall kolaorku í rafmagnsframleiðslu landsins. Til eru ennþá sótsvartari þjóðir; t.d. eru Pólverjar og Suður-Afríkumenn með yfir 90% rafmagnsins frá kolabruna. Líklega er Kína nú í 4. sæti með rétt tæplega 80% rafmagnsins frá kolum og í Bandaríkjunum er hlutfall kola í rafmagnsframleiðslunni um 50%.

Kol eru sem sagt einfaldlega mikilvægasti orkugjafi mannkyns, ásamt olíu. Og svo mun verða um langa framtíð - hvað sem líður fögrum fyrirheitum og vonum um græn og sjálfbær samfélög Vesturlandabúa. Af einhverjum ástæðum er meira talað um markmið ESB um 20% rafmagnsins frá endurnýjanlegri orku, en það að á næstu 5 árum eru horfur á að um 50 ný kolaorkuver rísi í Evrópu.

Vegna efnahagsuppbyggingarinnar í hinum fjölmennu löndum Asíu er augljóst að kolabruni á ekki eftir að minnka á næstu áratugum. Þvert á móti. Í Kína og á Indlandi opnar nú eitt nýtt kolaorkuver í viku hverri. Alþjóða orkustofnunin (IEA) telur að kolanotkun muni að jafnaði aukast um 2% á ári fram til ársins 2030, sem þýðir að þá verða brennd um 50% meira af kolum en gert er í dag (árið 1980 var vinnslan um 2.500 milljón tonn, 2006 var hún 4.400 milljón tonn og 2030 er hún áætluð 7.000 milljón tonn). Ef kenningin um gróðurhúsaáhrif reynist rétt, verður um 2030 væntanlega aðeins farið að volgna vatnið í Vestur-Hópi. Og víðar.

Vissulega er búist við að endurnýjanalegi orkugeirinn muni vaxa hlutfallslega miklu hraðar, þ.a. hlutdeild kola í heildarrafmagnsframleiðslunni mun fara eitthvað minnkandi. Þó það nú væri. Kannski verður hlutfall kola komið niður í 30% árið 2030? En kolanotkunin mun sem sagt fara vaxandi - og þar að auki er mögulegt að syngas-framleiðsla verði stóraukin, þ.e. að framleiða olíu úr kolum. Kannski er rafmagnsbíladraumurinn einmitt bara draumur og syngas hin raunverulega framtíð. Eigi kol ekki að verða "bjartasta" framtíðin í orkugeiranum þarf a.m.k. eitthvað  mikið að koma til. En það er önnur saga.

coal_handsVert er að geta þess að kol er að finna mjög víða um veröldina. Þess vegna eru talsverðar líkur á að hvorki Kína, Bandaríkin, Rússland né Evrópusambandið geti litið fram hjá kolaauðlindum sínum. Kolin eru þarna alls staðar - og þess vegna er framtíðin kolsvört. Allt hjal um annað er bara sjálfsblekking - þó svo framleiðsla grænnar orku eigi eftir að margfaldast á meðan kolanotkun eykst "einungis" um helming. Kol munu lengi enn verða ein helsta undirstaðan í rafmagnsframleiðslu heimsins og birgðirnar kunna að endast í allt að 2 aldir.

Kolaiðnaður Ástrala er sem fagurt blóm - séð út frá mælikvörðum fjármagnsins. Þessi iðnaður hefur vaxið að meðaltali um ca. 4% árlega síðasta áratuginn. Námurnar eru víða en þó aðallega í austurhluta landsins. Það eru fjögur risafyrirtæki sem ráða mestu á þeim markaði. Þar er svissneski iðnaðarisinn Xstrata framarlega í flokki. Sem kunnugt er, er Xstrata að stærstum hluta í eigu hrávörufyrirtækisins alræmda Glencore International.

marc_rich_GlencoreSaga Glencore er auðvitað miklu skemmtilegri en nokkur reyfari; Glencore er jú einkafyrirtækið hans Marc Rich, sem m.a. stundaði ólögleg olíuviðskipti við Íran og var svo snyrtilega náðaður af Bill Clinton á síðasta embættisdegi hans vestur í Washington hér um árið. Rich býr nú að sjálfsögðu í Sviss - gott ef hann er ekki kominn með íslenska bankadólga sem nágranna?

Hinir þrír risarnir á ástralska kolamarkaðnum eru allt saman gamlir kunningjar lesenda Orkubloggsins. BHP Billliton, Straumsvíkurmærin Rio Tinto (sem er eigandi Alcan) og loks Anglo American. Samtals grafa þessi nettu fjögur fyrirtæki nú um 400 milljón tonn af kolum úr ástralskri jörðu árlega, en þarna eru líka nokkrir smærri leikendur. Minna má á, að síðastnefnda samsteypan (Anglo American) er afkvæmi demantakaupmannsins Ernest's Oppenheimer, sem Orkubloggið hefur áður minnst á. Oppenheimerarnir eru ennþá umsvifamestu demantaframleiðendur heims undir merkjum De Beers og eiga líka enn dágóðan hlut í Anglo American. Helst betur á fénu en nýríkum íslenskum bankaþursum.

Hazelwood Power StationEn stöldrum ekki við námafyrirtækin, heldur lítum til þeirra sem kaupa af þeim kolin til að brenna. Sjálft "krúnudjásnið" þegar kemur að kolaorkuverum í Ástralíu hlýtur að vera ljúflingurinn Hazelwood við Melbourne. Það er að vísu ekki stærsta kolaverið í landinu, en framleiðir þó um 8% af öllu rafmagni Ástrala og Viktoríufylki fær um 25% af öllu sínu rafmagni frá Hazelwood (framleiðslugetan er 1.600 MW eða eins og rúmlega tvær Kárahnjúkavirkjanir). Verið er sagt eitt af þeim mest mengandi í veröldinni, enda notar það aðallega brúnkol úr Morwell-námunni, sem er ein af þessum fjölmörgu hroðalegu opnu kolanámum í Ástralíu.

Á tímabili stóð til að loka Hazelwood-verinu nú á þessu ári (2009), en árið 2005 framlengdu áströlsk stjórnvöld starfsleyfið til 2031. Bæði verið og Morwell kolanáman eru að mestu í eigu breska orkufyrirtækisins International Power, en það keypti verið þegar það var einkavætt fyrir hálfum öðrum áratug. International Power á þar með heiðurinn að því sem World Wide Fund for Nature (WWF) kallar skítugusta orkuverið í hinum vestræna heimi. Eða eins og sagði í fréttatilkynningu WWF:

Hazelwood Power Station_4"The 40-year-old power station in Victoria's Latrobe Valley spews out an astonishing 1.58 million tonnes of carbon dioxide every month. Hazelwood produces more carbon dioxide per unit of electricity delivered than the dirtiest coal-fired power stations in other leading industrialised nations."

Losunin var sem sagt sögð vera 1,58 milljón tonn af koltvísýringi pr. Twh, sem er fáránlega hátt hlutfall í samanburði við öll önnur kolaorkuver heimsins. Almennt virðast þó blessaðir Ástralarnir hafa meiri áhyggjur af hrefnuveiðum Vestfirðinga, heldur en Hazelwood.

Nýlega varð þó sú mikla breyting í Ástralíu að kjósendur losuðu sig loks við fábjánann John Howard og kusu ljúflinginn Kevin Rudd í stól forsætisráðherra. Hann hefur gjörbreytt stefnu Ástralíu til hins betra - að mati Orkubloggarans - í bæði utanríkismálum og umhverfismálum. En vegna kreppunnar ákvað Rudd reyndar að fresta áætlunum sínum um aðgerðir til að takmarka kolefnislosun fram til ársins 2011. Þar er af nógu að taka; Hazelwood-verið eitt er sagt losa um 17 milljón tonn af koltvísýringi á ári sem er um 5% af allri kolefnislosuninni í Ástralíu og hátt í 10% af allri losun frá rafmagnsframleiðslu í landinu. Það myndi því muna um minna ef verinu yrði lokað - spurningin er bara hvort íbúar Melbourne ætla að hætta að nota rafmagn?

Hazelwood Power Station_5Einnig má hafa í huga að það kemur iðulega fyrir að eldar kvikni í kolahaugunum við Hazelwood. Sem ekki er beint talið fýsilegt að gerist. Gríðarlegu magni af vatni er sprautað yfir kolin til að varna að þetta gerist, auk þess sem að sjálfsögðu þarf mikið kælivatn fyrir raforkuverið sjálft. Þarna í landi vatnsþurrðarinnar er heldur súrt til þess að vita hversu gríðarmikið vatn fer í þessa raforkuvinnslu.

En hvað sem því líður, þá er Ástralíu hreint frábært land. Þeir sem vilja lesa meira um reynslu Orkubloggarans af Down Under, geta nálgast tvær tíu ára gamlar ferðasögur frá Ástralíu hér á Moggavefnum; um vor í Sydney hér og aðra grein um ástralska sveitasælu hér. Þetta eru vel að merkja orðnar ansið gamlar greinar og lesist með það í huga.


Hin óbærilegu fóknu eignatengsl

bjorgolfur_gudmundsson_2

Enginn íslenskur kaupsýslumaður hefur náð viðlíka árangri eins og Björgólfur Guðmundsson. Honum tókst ætlunarverk sitt fullkomlega.

"Markmið okkar erlosa um flókin eignatengsl í félögum". Þessi orð lét Björgólfur eldri falla árið 2003 í tilefni af hinum gríðarlegu hlutabréfahrókeringum, sem menn höfðu þá farið í hér yfir eina friðsæla helgi. Þessi orð Bjögólfs voru m.a. rifjuð upp í athyglisverðri grein í viðskiptakálfi Fréttablaðsins í ágúst 2005 (sjá bls. 10 í blaðinu hér - sem er reyndar afskaplega skemmtileg heimild um veröld sem var).

unbearable_lightness_of_beingÞað tók okkur vitleysingana smá tíma að fatta hvað hann Björgólfur átti þarna við: Auðvitað að koma öllu heila klabbinu á hausinn, svo það myndi á endanum allt fara í hendur ríkisins. Já - það er svo sannarlega búið að vinda ofan af þessum óbærilega flóknu eignatengslum á Íslandi. Í reynd er bara einn eigandi að öllu draslinu; ríkið! Þetta var snjallt hjá þeim gamla Hafskipsmanni.

Líklega hafa þeir Björgólfsfeðgar komist að því austur í Rússlandi, að í reynd hafi hlutirnir barrrasta virkað langbest þegar Sovétið var og hét. Þeir lögðu bara ekki í að segja okkur frá því - fóru þess í stað smá hliðarleið til að koma á algeru eignahaldi íslenska ríkisins yfir íslenskum fyrirtækjum. Samsonarleiðina.

Og þetta var svo sannarlega skotheld leið. Landsbankinn, Eimskip, Straumur-Burðarás; allt er þetta í reynd komið í hendur ríkisins. Og ekki nóg með það. Þær skuldugu ríkislúkur fengu einnig til sín bæði Morgunblaðið bláa og hina rósrauðu Mál og menningu. Allt í sama pakkanum og allt i boði Björgólfs. Orkubloggið skilur samt ekki alveg það útspil Björgólfs að fleygja líka ensku fótboltaliði í fangið á okkur. En það er ekki nema von; Björgólfur er auðvitað með miklu meira og betra bissnessvit en vesæll Orkubloggarinn.

Joakim

Þetta var einfaldlega tær snilld hjá kallinum. Meira segja Andrés önd og frændi hans, aurapúkinn Jóakim, munu hafa siglt i þrot undir stjórn Björgólfs og hans gamla Hafskipsfélaga; Páls Braga. Ætli það sé eina dæmið í heiminum um að Disney-veldið hafi lent á vonarvöl? Það þarf a.m.k. óvenjulega hæfileika til að kaffæra endurnar yndislegu í skuldasúpu - jafnvel erfiðara en að koma Coca Cola eða Ikea á hausinn?

Verst að það náði einhver að grípa krumlunum um stélið á nánast gjaldþrota öndunum í Andabæ, áður en þær hlupu gargandi í faðm íslenska ríkisins.

Allra verst er þó að árans kjánaprikin hjá Nýja Glitni eða Íslandsbanka, föttuðu ekki snilldina í þessari allsherjar ríkisvæðingu og seldu Moggann aftur!

Aldrei hefði maður trúað því að bjórþefjandi Rússagullið gæti haft þessi töfraáhrif. Líka sniðugur sá lauflétti millileikur útrásarvíkinganna að mergsjúga öll veðmæti innan úr fyrirtækjunum, áður en þeim var fleygt í ruslakistu íslenska ríkisins. Aðdáunarvert.

Björgólfur Thor var iðinn við að líkja viðskiptareynslu sinni í Rússlandi við ígildi 3ja doktorsgráða. Orkubloggið tekur undir það sjónarmið og botnar ekkert í því af hverju þeir feðgar báðir eru ekki löngu orðnir heiðursdoktorar hjá a.m.k. Háskólanum í Reykjavík.

Bjorgolfur_i_myrkriÞessi rússneska viðskiptasnilli er samt ekkert miðað við Icesave-snilldina. Fyrir þá hugmynd ættu þeir Björgólfur eldri, stjórnarformaður Landsbankans, og Sigurjón Landsbankastjóri auðvitað að fá Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Sá lauflétti vaxtamunar-leikur var næstum því betri en seðlaprentvélar bandaríska Seðlabankans. Næstum því.

Mesta snilldin hefði þó auðvitað verið ef Dabbi kóngur Kristur hefði útvegað þetta Rússalán, sem hann var að gaspra um. En kannski er ekki öll nótt í Moskvu úti enn! Nú er bara að vona að Bjöggarnir sjálfir geti fengið Rússalánið. Og noti það til að kaupa Moggann aftur og setji hann aftur á hausinn, svo ríkið fái hann á ný. Það á aldrei að ganga frá hálfkláruðu verki. Björgólfur hreinlega verður að bregðast við því, að Glitnisálfarnir misskildu djókið. Bjánuðust til að selja Moggann, jafnskjótt og hann lá loks gjaldþrota í höndum ríkisins eins og úldinn fiskur.

glitnir_neo

Blessað Glitnisfólkið verður að átta sig á því, að með glæfrarekstri Moggans var bara verið að losa um flókin eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Og bankinn átti ekkert með það að standa í vegi fyrir því að Morgunblaðið yrði í ríkiseigu! Skilja þau Birna bankastjóri og félagar hennar ekki snilldina í þessu lauflétta plotti Björgólfs? Vilja þau kannski barrrasta að hér verði óbærilega flókin eignatengsl?


Suckers Rally?

Hvert stefnir hlutabréfamarkaðurinn?

Sakleysingjarnir

Orkubloggið beinir þessari spurningu auðvitað ekki að hinum sjálfdauða, gjörspillta og úldna íslenska hlutabréfasandkassa Bakkvararbræðra og félaga þeirra. Nei - hér er ekki verið að tala um þá ljúfu "sakleysingja". Heldur þvert á móti um sjálft markaðstorg guðanna - bandarísku hlutabréfin!

Vestra hafa spekúlantar fyllst nokkurri bjartsýni undanfarnar vikur og hlutabréf tekið að hækka á ný. Hjá JPMorgan segja menn  að bandarísk hlutabréf hækki líklega um 20% til ársloka 2009. Og hækkunin í Asíu verði jafnvel ennþá meiri - kreppan sé senn á enda og Kína u.þ.b. að komast aftur í stuð.

Í samræmi við bjartsýni af þessu tagi hefur líka komið smá kippur í olíuverðið. Þann kipp má að einhverju leyti einfaldlega rekja til veikingu á dollar. En það hefur a.m.k. ekki gerst að við sæjum olíuverðið hrapa niður í 20 dollara tunnan - eða jafnvel ennþá lægra eins og útlit var fyrir á tímabili. Þess í stað tók verðið að skríða upp á við. Reyndar þykir Orkublogginu það nú vera furðu hátt miðað við aðstæður (hátt í 60 dollarar tunnan).

DJIA_3months

Hefur botninum kannski verið náð í hlutabréfafallinu? Fyrr í vikunni talaði einn "sérfræðingurinn" um að snemma í mars s.l. hefðum við ekki aðeins séð botninn - heldur hafi þar hvorki meira né minna en verið um að ræða lægð kynslóðarinnar. Sem sagt sögulegt augnablik.

Héðan í frá muni leiðin almennt liggja upp á við - og okkar kynslóð eigi aldrei eftir að upplifa þvílíka hroðastöðu Dow Jones (DJIA) eins hún lagðist í fyrir fáeinum vikum. Uppgangurinn eigi þó eftir að verða með svakalegum upp- og niðursveiflum næstu mánuðina og margir eigi eftir að brenna sig illilega þar.

kass_doug_deborah

Það var Doug nokkur Kass, sem hafði þetta til málanna að leggja (á myndinni hér til hliðar er hann með systur sinni; listakonunni Debóru Kass). Doug Kass er forstjóri verðbréfafyrirtækisins Seabreeze Partners - sem Orkubloggaranum þykir reyndar frekar óáreiðanlegt nafn á fjármálafyrirtæki og að heiti sem þetta passi t.d. betur á ilmvatnsframleiðanda. En þessi gráskeggjaði ljúflingur virðist vita sínu viti, eins og nú skal gerð smá grein fyrir.

Kass sagði að vísu að hækkanirnar undanfarið hafi verið óeðlilega hraðar og nefndi uppsveifluna “Miley Cyrus sveiflu”. Hvorki hlutabréfin né stelpuskottið hún Miley Cyrus eigi innistæðu fyrir miklum vinsældum sínum þessa dagana. Fólk sé barrrasta að láta ytra útlit blekkja sig, en ekki að horfa til innihalds eða framtíðar!

Kass viðurkennir reyndar að í dag sé erfitt að hugsa mikið um framtíðina - skyndikynni skili hugsanlega mestu á hlutabréfamarkaðnum nú um stundir. Nákvæmlega ekkert vit sé í buy & hold þessa dagana.

Doug_kass_bottom

Það virðist reyndar vera alveg þess virði að hlusta á Doug Kass. Hann var einn fárra sem sáu fyrir hrunið. Árið 2007 sagði hann að húsnæðisbólan væri sprungin; afleiðingarnar yrðu mikill samdráttur í smásölu árið 2008 og að fjármálastofnanir myndu lenda í gríðarlegum erfiðleikum. Á sama tíma spáði hann mikilli hækkun olíuverðs og taldi að við myndum jafnvel sjá olíuna rjúka í 135 dollara tunnuna á árinu 2008.

Þetta þótti mönnum vel í látið - en þessi spá rættist ótrúlega vel. Reyndar fór olían ennþá hærra um mitt árið 2008 sem kunnugt er; yfir 140 dollara. Kass var líka löngu búinn að átta sig á slæmum fjárfestingum Warren's Buffet og hefur þar að auki spáð því að Berkshire Hathaway sé í reynd búið að vera! Ekki alveg í orðsins fyllstu merkingu, en að héðan í frá muni leið þess mæta fjárfestingafyrirtækis liggja niður á við. All svakalegt ef satt reynist.

Miley_Cyrus_dad

Loks má nefna að 2007 spáði Kass líka risastórum banka-skandölum í Evrópu í anda Enron: "There are several major Enron-like accounting scandals in 2008, causing investor confidence to plummet; these will come in some large financial companies in Europe”. Skyldi kallinn kannski sérstaklega hafa haft Ísland þarna í huga?

Já - það voru mörg fyrirtæki sem ekki áttu innistæðu fyrir himinháu verðmati hins óskeikula (sic) markaðar undanfarin ár. En hvort réttlætanlegt er að bendla Miley Cyrus eitthvað við það, er kannski annað mál.

maddoff_illistration

Það er reyndar ekki fyrr en maður les spá Kass fyrir 2009, sem hrollurinn fer að færast yfir fyrir alvöru. T.d. segist hann fullviss um að svikamylla Bernie's Madoff hafi aðallega falist í að þvo peninga fyrir rússnesku mafíuna. Er einhverjum fleirum sem þykir athyglisverð sú hugmynd að umsvifamiklir fjárfestar síðustu ára hafi bara verið leppar Rússamafíunnar?

Hvort spá Kass um "genrational low" í mars s.l. rætist, á eftir að koma í ljós. Kannski rétt að minnast þess að ofurspámaðurinn Nouriel Roubini hefur notað eilítið annað orðalag um uppsveifluna undanfarnar vikur. Kallar hana einfaldlega "suckers rally". Bjánauppsveiflu!  En þó svo Roubini sé öllu svartsýnni en Kass, eru þeir kumpánarnir a.m.k. sammála um að stöðugleiki sé ekki alveg í augsýn.

Doug_kass

Orkubloggið freistast til að veðja á Roubini og að við eigum eftir að sjá enn verri hlutabréfadýfu en til þessa. Fyrir bloggið er þó áhugaverðara að sjá hverju Kass spáir um olíuverðið 2009: Í spá sinni í árslok 2008 sagði hann að það myndi hækka mikið á fyrri huta ársins 2009 og það gekk svo sannarlega eftir. En Kass telur að yfir árið muni verðið vera að sveiflast þetta milli 25 og 65 dollara. Eins og þróunin hefur verið upp á síðkastið virðist reyndar sem olíuverðið geti jafnvel farið enn hærra. En kannski er vissara að taka mark á Kass?

Þetta lága á olíuverð telur Kass að muni skapa gríðarlega fjárfestingastíflu í olíuiðnaði Mið-Austurlanda. Það eru reyndar engar fréttir fyrir dygga lesendur Orkubloggsins! Og við hljótum að sjá olíuverðið hreinlega æða upp í hæstu hæðir þegar efnahagslífið nær sér aftur á strik. Þá mun framboðið hvergi geta mætt eftirspurninni og spákaupmennirnir græða svo stjarnfræðilegar upphæðir á fáeinum mánuðum að öllum verður flökurt. Öllum nema Orkubloggaranum auðvitað.

Aftur á móti vill Orkubloggið vara menn við að trúa því, að olíuverð fari varanlega upp í 200 dollara tunnan eða þaðan af hærra. Það þykir voða smart nú að spá slíku verði. Staðreyndin er aftur á móti sú að svo hátt olíuverð myndi draga svo svakalega úr eftirspurninni að verðið myndi lækka hratt aftur.


Síðasti söludagur Drekans

Af vef Orkustofnunar:

Drekasvaedid

Umsóknarfrestur vegna veitingar sérleyfa til rannsókna- og vinnslu kolvetnis á Drekasvæði rennur út kl. 16:00, þann 15. maí 2009.

Áætlað er að taka ákvörðun um veitingu sérleyfa til rannsókna- og vinnslu kolvetnis á Drekasvæði fyrir lok október 2009. 

Einhver sem á eftir að koma umsókn til skila? Ennþá nokkrir klukktímar til stefnu!

 


Er kapítalisminn Júdas?

Orinoco_map

Orinoco-oliusvæðið! Þar sem græna vítið og svarta gullið mætast. Konungsríki jagúarsins.

Ein bjartasta - eða kannski svartasta - framtíðin í orkumálum heimsins er kanadíski olíusandurinn vestur í Albertafylki. En olíusandurinn leynist víðar.

Önnur svæði heimsins sem eru hvað mest spennandi í þessu sambandi, eru þar sem Orinoco-fljótið streymir gegnum frumskóga Venesúela. Þetta svarta gull gæti orðið undirstaða nýs Inkaríkis nútímans, austan Andesfjalla.

Erfitt er að spá um það hvenær olíusandvinnslan í Venesúela kemst á fullt skrið. Venesúela undir hrammi Hugo Chavez er ekkert venjulegt land. Lífsfílósófían hans Húgó's er einföld: “Sósíalisminn er Kristur; kapítalisminn er Júdas!” Þessi einfalda og athyglisverða speki virðist nú breiðast nokkuð hratt um Suður-Ameríku. Skemmst er að minnast þess sem sagði um Bólivíu og Evo Morales í síðustu færslu Orkubloggsins.

orinoco_river_bridge

Mikilvægi olíusandsins í Venesúela - Faja Petrolífera del Orinoco - er ofboðslegt. Víða standa svartsýnir spámenn á götuhornum og æpa að olían sé að verða búin. Á sama tíma hafa menn fært fram góð rök fyrir því að olíusandurinn í Alberta-fylki í Kanada hafi að geyma yfir 170 milljarða tunna af vinnanlegri olíu og að samtals séu allt að 1.700 milljarðar tunna af olíu í kanadíska olíusandinum. Orinoco er enginn eftirbátur Alberta. Það eru meira að segja dágóðar líkur á að þetta venesúelska dæmi sé jafnvel ennþá stærra og mikilvægara en kanadíski drullupotturinn norður við Athabasca-ána í Albertafylki.

Talið er að Orinoco-svæðið í Venesúela hafi að geyma a.m.k. 1.200 milljarða tunna af olíu. Hreint makalaust ef satt reynist. Þetta er álíka mikið magn og öll sú olía sem mannkynið hefur notað síðustu hundrað árin! Nýjustu áætlanir um vinnanlegt magn úr Orinoco-olíusandinum hljóða upp á litla 230-240 milljarða tunna. Til eru þeir sem spá því að þarna verði unnt að vinna allt að 300 milljarða tunna. Eftir því sem tækninni fleygir fram og olíuverð hækkar, mun þessi tala hugsanlega hækka ennþá meira.

Orinoco_map_big_oil

Hefðbundnar olíubirgðir Venesúela eru þar að auki um 80 milljarðar tunna (Oil & Gas Journal hefur reyndar áætlað birgðirnar 99 milljarða tunna). Þær einar gera Venesúela að fimmta mesta olíuveldi jarðar (olíuvinnsla Venesúela nú um stundir er ca. 2,7 milljón tunnur daglega og þar af koma nú um 600 þúsund tunnur frá Orinoco-svæðinu). Sé olíusandurinn í Orinoco tekinn með er Venesúela einfaldlega næst stærsta olíuríki veraldar, á eftir Saudi Arabíu einni. Olíusandurinn í Venesúela hefur að vísu enn ekki verið viðurkenndur sem “proven reserves”, en það er líklega einungis tímaspursmál hvenær olíubókhald veraldar verður fært með þeim hætti.

Alls er Orinoco-svæðið um 55 þúsund ferkm, en einungis er byrjað að vinna olíusandinn á litlum hluta þess. Í reynd er vinnslan ennþá nánast bara á undirbúningsstigi; svæðinu hefir verið skipt niður í sex vinnslusvæði og í dag er starfsemi aðeins hafin á fyrsta svæðinu. Þar er gert ráð fyrir að fjárfest verði fyrir um 60 milljarða bandaríkjadala fram til ársins 2012 og langstærsti fjárfestirinn verði sjálft venesúelska ríkið. Chavez og félagar eru nefnilega ekki alltof hrifnir af peningum kapítalistanna og hafa sett sér það viðmið að ríkið eigi 60% í allri olíuvinnslunni.

Chavez_PDVSA

Eitt stærsta verkefnið fyrir stjórnvöld í Venesúela er að byggja upp olíuhreinsunarstöðvar í landinu. Allt fram til þessa dags hefur stór hluti olíuhreinsunarinnar farið fram í Bandaríkjunum. Að vísu undir merkjum CITGO - sem er gamalt bandarískt olíufélag í eigu Venesúela - en engu að síður í Bandaríkjunum en ekki heima í Venesúela. Móðurfélagið sjálft - Petróleos deVenezuela SA (PDVSA) - stefnir að því að byggja upp hreinsunarstöðvar í Venesúela sem munu stórauka afkastagetuna heima fyrir.

Chavez_Rafael_Ramírez

PDVSA er algerlega í ríkiseigu og það er sjálfur orkumálaráðherrann Rafael Ramírez, sem er forstjóri fyrirtækisins.

Bandarísk og fleiri erlend olíufélög hafa löngum haft nokkuð sterka stöðu í Venesúela. En eftir að Chavez komst til valda 1998 hefur hann marvisst unnið að því að þjóðnýta olíuvinnsluna. Fyrir vikið hafa t.d. bæði risarnir  ExxonMobil og ConocoPhillips hrökklast úr landinu. Sjálfsöryggi Chavez jókst enn meira þegar olíuverðið rauk upp 2006-08; þá ætlaði hann sér að sparka öllum erlendu félögunum út og eingöngu eiga samstarf við félög frá "traustum" vinaríkjum eins og Kína og Íran!

Chavez hefur þó mildast nokkuð eftir að olíuverðið féll á ný, enda hefur þjóðnýtingarstefna hans haft alvarlega fylgikvilla. Venesúela og PDVSA hafa engan veginn getað haldið uppi eðlilegri endurnýjun í olíuiðnaði landsins. Og óstjórnin í efnahagsmálunum þar á bæ hefur orðið til þess að hagnaður af olíuvinnslunni fer aðallega í dekurverkefni og niðurgreiðslur á orku til fátækra landsmanna (kjósenda!).

venezuela-oil_production_consumption

Hátt olíuverð olli því að peningarnir flæddu í ríkiskassann, menn sofnuðu á verðinum og vanræktu skynsamlega uppbyggingu í landinu. Kunnugleg saga fyrir Íslendinga? Tæknibúnaðurinn er fljótur að úreldast og því hefur olíuframleiðsla Venesúela minnkað ótrúlega mikið á tiltölulega skömmum tíma. Mesti vandinn er þó spillingin sem peningaflóðið skapaði og ekki víst að Chavez geti leyst sig úr því sjálfskaparvíti.

Þegar Chavez varð forseti Venesúela 1998 var framleiðslan um 3,4 milljón tunnur á dag. Á síðasta ári (2008) var meðalframleiðslan í Venesúela skv. bandaríska orkumálaráðuneytinu um 2,7 milljón tunnur á dag - en einungis um 2,3 milljónir tunna skv. skýrslum OPEC. Chavez sjálfur heldur því fram að framleiðslan hafi verið 3,3, milljónir tunna, sem er ekkert annað en kjaftæði.

Chavez_fancy_uniform

Það er einfaldlega staðreynd að þjóðnýtingarstefnan hefur leitt af sér stórkostlega minnkun á olíuútflutningi Venesúela. Þar að auki hefur karlálftin hagað málum þannig að mest allur útflutningur frá Venesúela hefur hrunið; þegar Chavez varð forseti 1998 komu um 70% útflutningstekna landsins frá olíu en nú er þetta hlutfall um 93%. Og það þrátt fyrir að olíuframleiðsla landsins hafi minnkað stórlega á þessu tímabili. Stjórnarhættir Chavez hafa einfaldlega verið afspyrnu slakir og eyðilagt mest alla atvinnustarfsemi í landinu.

Þegar olíuverðið féll aftur eins og steinn á síðari hluta ársins 1998 varð Chavez að viðurkenna að hann gæti ekki verið án erlendrar tækniþekkingar. Þess vegna var mörkuð ný stefna um að erlend fyrirtæki sem vilja fjárfesta í vinnslu á Orinoco-svæðinu mega eiga allt að 40% í vinnslunni. Ekki er langt síðan stórt útboð fór fram og í ágúst n.k. (2009) verður tekin ákvörðun um það hvaða félög fá að taka þátt í vinnslu á nýju svæði innan Orinoco. Meðal þeirra sem tóku þátt í útboðinu voru BP, Chevron, kínverska CNPC, spænska Repsol, franska Total og auðvitað norska StatoilHydro. Þar að auki eru portúgölsk og japönsk félög í pottinum og loks rússnesk samsteypa.

Chavez_China

Martröð Bandaríkjanna er að Chavez semji bara við kínversk félög, sem munu einfaldlega flytja olíuna til Kína. Sá ótti er þó líklega ástæðulaus - a.m.k. meðan flestallar olíuhreinsunarstöðvar PDVSA eru einmitt CITGO-stöðvarnar í Texas og Louisiana í Bandaríkjunum.

Chavez hefur einnig talað sérstaklega fjálglega um að semja við japönsk félög. Þó svo Japan búi yfir litlum orkuauðlindum, er aðkoma Japananna fyrst og fremst tæknilegs eðlis og það myndi líklega þjóna hagmunum Bandaríkjanna prýðilega að japönsk félög fái góðan bita af Orinoco.

Hagsmunirnir þarna eru ofboðslegir - það er nánast ekkert í heiminum sem jafnast á við það að fá aðgang að Orinoco. Þegar litið er til mögulegra svæða má helst jafna þessu við það að ráða yfir hinum geggjuðu olíulindum í Írak. Næsti repúblíkanaforseti í Bandaríkjunum mun eflaust verða snöggur að láta semja lauflétta innrásaráætlun vegna Venesúela.

Chavez_Scrtaes_Portugal_2007

Það er sama hversu mikla andstyggð olíufélögin hafa á Chavez  - þau eru öll slefandi yfir því að komast undir sængina til hans. En þetta er ekki beint öruggasta starfsumhverfi í heimi, þarna í ríki hins sósíalíska höfðingja. Sem kennir sig við Krist - rétt eins og Davíð Oddsson. Alltaf gaman að smá stórmennskubrjálæði.

Líklega eru það þó Ítalirnir sem brosa breiðast þessa dagana. Stjórnvöld í Venesúela eru nú þegar búin að semja við ítalska Eni um aðkomu að Orinoco. Þeir hjá Eni eru nefnilega óvenju snjallir í alls konar olíuvinnslu, hvort sem er á landi, á miklu hafdýpi eða í olíusandsubbinu. Að öllu samanteknu er varla útlit fyrir annað en að vinnslan í Orinoco eigi senn eftir að komast vel á skrið og olíuframboðið frá Venesúela aukist umtalsvert á komandi árum. Ef bandarísku olíufélögin fá sneið af þeirri köku verður kannski ekkert af innrás - í bili.

Til að þetta allt gangi eftir mun þurfa gríðarlega fjárfestingu á Orinoco-svæðinu. Stjórnvöld í Venesúela hafa sagt frá þeirri draumsýn sinni að koma framleiðslunni, sem nú er líklega um 2,7 miljón tunnur á dag, í nærri 6 milljón tunnur 2012. Hreint dæmalaus bjartsýni - en virkar vel á kjósendur sem brosa út að eyrum við tilhugsun um hina björtsvörtu olíuframtíð. Chevron hefur metið að Venesúela þurfi ekki minna en 200 milljarða dollara fjárfestingu til að þetta geti orðið. En hvað svo sem gerist, þá er olíusandurinn þarna til staðar og næsta víst að olíuframleiðsla Venesúela getur aukist mjög mikið ef vel er haldið á spöðunum.

Jaguar

En ef og þegar fjármagnið skilar sér - í nafni framfara og aukins kaupmáttar - er nokkuð augljóst að lítill friður verður fyrir jagúarinn og vini hans á bökkum Orinoco-fljótsins. Framfarir eru stundum tvíeggja orð.

 


Fangarnir í Sólhofinu

Sumir trúa því að rafbílavæðing eigi eftir að skapa risaiðnað. Ef það gerist má telja víst að eftirspurn eftir liþíum stóraukist. Vegna þess einfaldlega að sá málmur þykir hentugastur í létta og öfluga rafgeyma og honum fylgir þar að auki minni mengun en frá ýmsum örðum rafgeymum. Ef rafbílavæðingin fer af alvöru á skrið má búast við að það verði hreinlega allt vitlaust í liþíum-iðnaðinum.

Chevrolet_Volt

Auðvitað veit enginn fyrir víst hvernig  bílaiðnaðurinn mun þróast. En það er vissulega margt sem bendir til þess að stóru bílaframleiðendurnir ætli sér margir að veðja á rafmagnsbíla. Þó svo Orkubloggarinn myndi frekar veðja á lífefnaeldsneytið, sem framtíðareldsneyti fyrir fólksbíla, er augljóst að rafmagnsbílar verða einn þáttur í þróuninni. Það verður svo barrrasta að koma í ljós hvaða tækni mun verða hlutskörpust.

Og jafnvel þó svo rafbílavæðingin verði ekki það ofurævintýri sem ýmsir búast við, mun notkun liþíums væntanlega samt halda áfram að aukast frá því sem nú er. Með útbreiðslu farsíma og fartölva hefur eftirspurnin eftir liþíumi snaraukist. Fartölvur eiga eftir að verða enn útbreiddari og smá saman munu tæki í anda Blackberry og iPod verða æ algengari.

Bolivia_lithium_map

Já – það verður sífellt meiri þörf á léttum og öflugum rafhlöðum. Þess vegna horfa menn nú mjög til þeirra landa sem búa yfir stærstu liþíum-birgðunum, með það í huga að tryggja sér aðgang að þeim auðlindum.

Einhverjar mestu liþíumnámur heims eru í Chile, eins og Orkubloggið hefur minnst á í fyrri færslu um ljúflinginn Julio Ponce Lerou, tengdason hins alræmda einræðisherra Augusto Pinochet, ogfyrirtæki hans Sociedad QuímicaMinera de Chile (SQM). Tíbet (Kína) er einnig á mikilli uppleið í framleiðslu á liþíum og verulegar liþíum-námur eru einnig í Argentínu.

Langmestu liþíum-birgðirnar er aftur á móti að finna á saltstorknum Andeshásléttum Bólivíu. Svæðið heitir því sérkennilega nafni Salar de Uyuni -  er hátt í 10 þúsund ferkm að flatarmáli og liggur í hvorki meira né minna u.þ.b. 3.600 metra hæð. Þar á bólivísku hásléttunni er talið að finna megi meira en helminginn af öllum liþíumbirgðum jarðar!

Lithium_Bolivia_stacks

Um þetta er vissulega talsverð óvissa; það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að menn hafa lagst í vinnu við að meta þessa auðlind af einhverju viti. Sennilega er ekki fjarri lagi að áætla að í Uyuni-saltauðninni séu alls um 5-6 milljón tonn af liþíum - sem er meira en 10 sinnum meira en í Bandaríkjunum öllum. Heildarbirgðir heimsins af liþíum hafa verið áætlaðar um 11 milljón tonn. Þó er ekki útilokað að þær séu talsvert meiri og hafa verið nefndar tölur allt að 30 milljón tonn.

Bolivia_Salar de Uyuni_Lithium

Í reynd er allsendis óvíst hversu nákvæmar þessar tölur eru. En til að setja þetta í eitthvert samhengi, þá mun árseftirspurnin nú um stundir vera um 16 þúsund tonn af liþíum. Óbreytt notkun myndi sem sagt þýða að enn er nóg liþíum til að fullnægja eftirspurninni óralengi. En þörfin fyrir meira liþíum eykst gríðarlega hratt og ef villtustu spár rætast telja sumir að birgðirnar dugi einungis í örfáa áratugi. Ef það reynist rétt yrði rafmagnsbíllinn hálfgerð sneypuför.

Talsmenn Mitsubishi hafa lýst því yfir að liþíumvinnsla í Uyuni sé alger forsenda þess að stórfelld rafbílavæðing geti orðið að veruleika. Núverandi liþíum-námur muni tæmast á einungis tíu árum ef ekki komi til ný vinnslusvæði. Ef Toyota Prius, Chevrolet Volt eða aðrir rafmagnsbílar eigi að verða að þeim raunveruleika sem stefnt er að, sé afar mikilvægt fyrir allan bílaiðnaðinn að fá liþíum frá Bólivíu.

morales_fancy

Nú vill svo skemmtilega til að í Bólivíu ríkir ljúflingurinn Evo Morales. Sem er ekki beint besti vinur Bandaríkjanna eða bandaríska bílaiðnaðarins; telst fremur í hópi með þeim Castro á Kúbu og Hugo Chavez í Venesúela. Eitt af því fyrsta sem Morales kallinn gerði þegar hann komst til valda var að þjóðnýta hinar gríðarlegu gas- og olíulindir landsins - BP og fleiri olíufélögum til mikillar armæðu.

Ekki veit Orkubloggarinn hvort Morales er af ættum Inka – það er kannski ólíklegt enda er hann Bólivíumaður en ekki frá Perú. En indíánablóðið leynir sér ekki. Og Morales er örugglega meðvitaður um niðurlag innfæddra fyrir Spánverjum fyrr á tíð og ekki síður minnugur þess hvernig samstarfsmenn bandaríkjastjórnar drápu Che Guevara einmitt í Bólivíu. Þar var Che að útbreiða ekki ósvipuð sannindi og Morales sjálfur stendur fyrir.

Che_dead

Það er því ekki beint líklegt að Morales muni hleypa bandarískum - eða vestrænum fyrirtækjum yfirleitt - í hinar svakalegu liþíum-auðlindir, sem hvíla á saltstorknum hásléttum Bólivíu. Che á betra skilið en að við fjárans kapítalistarnir í vestrinu komumst yfir þá einstöku auðlind.

Og Morales er einnig minnugur þess hvernig minnstu munaði að bandaríski efnarisinn FMC Corporation kæmist yfir liþíum-auðlindir Bólivíu fyrir einungis u.þ.b. 15 árum. Það er fyllsta ástæða fyrir Evo að vera á varðbergi.

Bolivia_Uyni_mine

Risasamsteypur eins og Mitsubishi og Sumitomo gera engu að síður augljóslega ráð fyrir því að aðgangur að liþíum eigi eftir að skipta miklu. Þessi fyrirtæki hafa undanfarið verið að gera hosur sínar grænar fyrir hinum stolta indíána Morales og félögum hans. Japönsku fyrirtækin eru hvað lengst komin í að þróa hagkvæmar liþíum-jóna rafhlöður fyrir rafmagnsbíla og rafmagnshjól og nú horfir bandaríski bílaiðnaðurinn fölur upp á það hvernig Japanarnir koma sér í mjúkinn hjá Morales, meðan kallinn fussar og sveiar yfir bandarísku kapítalistasvínunum.

che-guevara

Já - Morales og verkalýðsleiðtogarnir hans eru fullir tortryggni gagnvart hinum gamla risa kapítalismans. Sporin hræða; í fjölda áratuga hafa bandarísk fyrirtæki makað krókinn á auðlindum Bólivíu, hvort sem er gúmmí, tin, silfur, gull, gas eða olía. Nú vilja Bólivíumenn sjálfir ráða hvernig fer með liþíum-auðlindina. Þess vegna lofaði Morales því fyrir forsetakosningarnar síðustu, að öll liþíum-námavinnslan í Bólivíu skyldi verða í eigu landsmanna (ríkisins).

Lykilatriðið í þessari stefnu er í raun að liþíumið verði ekki flutt út úr landinu eins og hvert annað hráefni. Bólivíumenn vilja tryggja að virðisaukinn sem t.d. myndast við framleiðslu liþíum-jóna rafgeyma verði eftir í landinu. Af hverju ættu Bólivíumenn að láta heiminn fá þetta hvíta töfraduft til að leika sér með og skapa arð langt utan Bólivíu?

Bolivia_Salar de Uyuni_FLOODED

Kannski er mögulegt að leysa málið með því að rafbílaiðnaðurinn eins og hann leggur sig haldi einfaldlega til Bólivíu. Vandamálið er bara að fjárfestum þykir afar ótryggt að byggja verksmiðjur sínar þar, vegna stjórnmálalegs óstöðugeika. Þar að auki er Bólivía landlukt og ekki á vísan að róa með aðgang að t.d. höfnum í Chile.

Loks verður reyndar alls ekki hlaupið að því að vinna þetta geggjaða magn af bólivísku liþíumi - jafnvel þó svo Morales væri allur af vilja gerður. Vegasamband við hásléttuna er afar bágborið og úrkoma kaffærir flata sléttuna á örskömmum tíma.

Það eru sem sagt margar ástæður fyrir því að jafnvel öflug námafyrirtæki eins og t.d. chileanska SQM eru ekkert voða spennt fyrir því að skella sér til Bólivíu (SQM ræður yfir gríðarlegum liþíumnámum í Chile, eins og Orkubloggið hefur áður sagt frá)

Bolivia_Salar de Uyuni_Worker

Ennþá er allsendis óvíst hvernig staðið verður að liþíumvinnslu í Bólivíu. Fram til þessa hafa menn eingöngu verið að stússa þarna i saltvinnslu, en liþíumið verið látið eiga sig.

Nýlega tilkynnti Morales um að ráðist yrði í tilraunvinnslu í nágrenni við þorpið Rio Grande við útjaðar Uyuni saltauðnarinnar. Það verkefni kallar á um 6 milljón dollara fárfestingu og framleiðslan þarna í hvíta vítinu á að vera byrjuð fyrir næstu áramót. Hæpið er að atvinnulausir Mörlandar þyrpist þangað í vinnu - ætli hitinn yfir sumarið fari ekki hátt í 40 stig og vetrarfrostið niður i -20 stig. Ekki alveg Pardís á jörðu.

Það er óneitanlega hálf skondið að rafbílarnir, sem eiga að minnka þörf Bandaríkjamanna á arabískri olíu, munu líklega gera bandaríska bílaiðnaðinn háðan stjórnvöldum í Kína og Bólivíu. Þetta mætti kannski kalla að fara úr öskunni i eldinn? Þetta er a.m.k. ein helsta ástæða þess að Orkubloggarinn er efins um að rafbílavæðing eigi eftir að verða jafn umfangsmikil hér á Vesturlöndum eins og sumir eru að spá.

Tintin-LeTempleduSoleil

Nema Kanar vilji fremur verða fangar í Sólhofinu, en að þurfa sífellt að vera að sleikja upp gjörspillta ráðamenn Saudi Arabíu. Í því ljósi er kannski mun betri kostur að rækta samband sitt við indíánana í La Paz. Og svo er auðvitað aldrei að vita nema kapítalisminn nái að lokum kverkataki á bólivíska ríkisnámufyrirtækinu COMIBOL. Annað eins hefur nú gerst í heiminum, þar sem blessaðir bandarísku ljúflingarnir eru á ferð. En kannski er þetta einmitt það sem Morales hræðist mest - og vill þess vegna fara varlega.

 


2009 Missouri Energy Summit

Í dag kom ég við í fornbókaversluninni hans Braga. Og var svo heppinn að ná þar í nánast óopnað eintak af Vesturförunum hans Vilhelm's Moberg.

Fisher_cool

Einnig skoðaði ég hornið þar sem Bobby Fisher sat löngum stundum - með ævisögur merkra manna á aðra hönd og skákbækur á hina. Skákbókahillan var í þetta sinn reyndar nánast tóm. Því erlendir stórmeistarar munu hafa keypt þær flestar; skákbækurnar sem flett var af snillingshöndum sjálfs Bobby's Fisher. Þær eru að sjálfsögðu merkir gripir. 

Og hvar ég stóð þarna í Fornbókabúð Braga á horni Klapparstígs og Hverfisgötu, varð mér hugsað til þess að ég hafði alltaf ætlað mér að fara með stubbana mína í verslunina og heilsa uppá Fisher. Til að krakkarnir hefðu séð þennan einstaka snilling. Og jafnvel kanna hvort hann væri fáanlegur til að árita svo sem eins og eitt eintak af bókinni eftir þá Friðrik Ólafsson og Freystein Jóhannesson um einvígi þeirra Spassky. Einvígið makalausa hér í Laugardagshöllinni sumarið 1972; einvígi aldarinnar. Nú - eða þá einvígisbókina skemmtilegu eftir Guðmund Daníelsson.

Báðar þessar bækur hafa lengi prýtt þungar bókahillurnar á heimili Orkubloggarans og eru marglesnar. Reyndar er ég á því að einvígi Karpov og Kortsnoj á Baguio á Filippseyjum 1978 hafi ekki síður verið stórmerkilegt kalt stríð, eins og einvígi aldarinnar í Laugardalshöll. En vissulega ekki með alveg jafn magnaðri taflmennsku eins og Fisher sýndi 1972.

tal_chess

Ég ætlaði mér sem sagt að ná í áritun Fisher's. Sem hefði verið a.m.k. jafn notalegt eins og sú lífsreynsla þegar ég tefldi við minn uppáhalds skákmann, Mikhail Tal, í fjöltefli hans í MÍR-salnum. Sálfan Töframanninn frá Riga. Það var líklega í kringum 1986 - held að hann hafi komið hingað til að keppa á Reykjavíkurskákmótinu.

En aftur að Fisher og planinu um áritun hans. Ég bjóst reyndar alveg eins við að hann myndi kasta bókinni í hausinn á mér með einhverjum ókvæðisorðum. Var reiðubúinn að taka við þeirri sendingu með brosi á vör. En svo var hann bara allt í einu látinn, blessaður karlinn. Og tækifærið runnið mér úr greipum. Það gengur svona.

Pickens_Missouri_2009

En að öðrum skemmtilegum öldungi. Sem að vísu jafnast ekki alveg á við þá Tal og Fisher, en er samt áhugaverður náungi og sannkallaður orkubolti. Þetta er kannski ekki alveg heilbrigt - en klukkustundin fyrir miðnættið hjá Orkubloggaranum nú í kvöld fór í að horfa á þetta tæplega klukkustundarlanga olíumyndband.

Og það sem alvarlegra er; bloggaranum fannst rosa gaman að horfa a þessa upptöku. 57 minutes of pure beauty! Ennþá skemmtilegra hefði auðvitað verið að vera þarna í Columbia, Missouri í hádeginu 22. apríl s.l. í eigin persónu. Og sjá gamla olíurefinn T. Boone Pickens ljóma í holdi og blóði við að segja frá sínu hjartans hugðarefni; að koma bandaríska flutningabílaflotanum af olíu og á gas og losna undan arabísku olíunni:

 

 


Paradísarheimt?

Canada_Fur_Traders

Orkubloggið hefur nú í all mörgum færslum haldið sig á sviði endurnýjanlegrar orku. Nú er orðið tímabært að klípa sig í handlegginn og snúa aðeins tilbaka að raunveruleikanum. Og hvað er þá betra en að halda á slóðir skinnaveiðimanna í norðanverðu Kanada?

Ekki er langt síðan Fort McMurray var einn af hinum hnignandi útnárum Kanada. Árið 1996 var þessi bær, norðarlega á eyðilegum sléttum Albertafylkis, með um 60 þúsund íbúa. Á þessum tíma benti flest til þess að íbúunum myndi halda áfram að fækka jafnt og þétt og að ekkert fengi snúið þeirri þróun.

athabascariver

En viti menn; þá gerðist það að olía tók að hækka í verði. Kanadíski olíusandurinn við Athabasca-ána, sem fram til þessa hafði nánast eingöngu verið til tómra leiðinda, varð nú til þess að skyndilega tóku milljarðar dollara af fjárfestingafé stóru olíufélaganna að streyma inn á svæðið við Fort McMurrray.

Á aðeins einum áratug óx bærinn um 50% - í 80 þúsund íbúa. Nú er slegist þar um hverja einustu íbúðarholu og jafnvel skúra á baklóðum. Sagt er að krakkarnir þar geti varla beðið eftir að klára skyldunámið; þaðan fari þau beint í olíuiðnaðinn og þéni þar meira en 100 þúsund dollara yfir árið. Sannkallað "síldarævintýri", enda er bærinn í dag gjarnan nefndur Fort McMoney.

Sumir halda að orkuframtíð heimsins sé græn. Og jafnvel að olían sé á síðustu dropunum. Sannleikurinn er hins vegar allt annar. Þó svo endurnýjanlegi orkugeirinn eigi örugglega eftir að vaxa gríðarlega í framtíðinni, þá er framtíðin næstu áratugina ekki græn heldur fyrst og fremst svört. Kolsvört - eins og olía og kol.

Canada-Arctic_satellite

Eftir því sem hinar góðu gömlu hefðbundnu olíulindir eiga erfiðara með að anna eftirspurninni, fara menn einfaldlega að sækja olíu á nýjar slóðir. Næstu áratugi verður svarta gullæðið líklega í hámarki á svæðum olíusandsins í Kanada og kannski einnig í Venesúela. Jafnskjótt og það svarta klístur fer að minnka, munu menn fara í heimskautaolíuna. Og kannski líka í bandaríska olíugrýtið (oil-shale), sem liggur á víð og dreif um t.d. Kólóradó og Mormónafylkið Utah.

Já - enn er af miklu að taka í olíubransanum og langt í það að heimurinn hverfi frá olíu sem aðalorkugjafa samgöngugeirans. Í dag er það kanadíski olíusandurinn í Alberta-fylki sem er mest spennandi, enda á tiltölulega aðgengilegu svæði sem þar að auki heyrir undir stjórnvöld sem hvorki eru grunuð um að grípa skyndilega til vopna né eignarnáms.

Athabasca_Oil_Sands_Map

Vissulega verður þessi óhefðbundna olíuvinnsla talsvert dýrari en sullið sem kemur nánast eins og sjálfkrafa gosbrunnur upp úr hinum gullslegna arabíska sandi. En þetta er þó ekki dýrari vinnsla en svo, að hún borgar sig ágætlega við 50 dollara markið og á sumum svæðum þolir þessi nýja olíuvinnsla líklega verð allt niður í 40-45 dollara tunnan.

Orkubloggið sagði nýverið stuttlega frá kanadíska olíusandinum. Og eins og lesendur kannski muna, þá er einfaldlega  allt STÓRT í sambandi við olíusandinn; miklar birgðir, stórir trukkar og há laun. Í dag ætlar bloggið að staldra aftur við þennan ævintýralega hroða og beina sjónum sínum sérstaklega að svæðunum við Athabasca-ána.

Þar á slóðum þvottabjarnaveiðimanna og skinnakaupmanna hefur veröldin snarsnúist á örfáum árum. Athabasca er ekki lengur tákn um lítt snortnar veiðilendur í anda sléttuindíánanna í Frumbyggjabókunum skemmtilegu. Þarna hafa dýragildrurnar vikið fyrir einhverjum tröllslegustu skurðgröfum heimsins, sem brjóta niður gisinn barrskóginn eins og eldspýtur og skófla upp svarta sandklístrinu í magni sem jafnvel stórhuga íslenskir Kárahnjúkahnakkar eiga erfitt með að ímynda sér.

Syncrude-Athabasca Oilsands-Fort McMurray

Í baksýn má svo sjá rauða logana frá gasorkuverunum, sem framleiða raforkuna sem notuð er til að kreista olíudropana úr drullunni Frá þessu öllu streymir brennisteinsmengað kælivatnið sem tekið er tært og fagurt úr Athabasca-ánni, en skilað útí sérstakar tjarnir sem ætlað er að geyma mengunina frá þessari subbulegu vinnslu í nokkra áratugi. Svo er bara að vona að banvæn brennisteinsdrullan leki ekki aftur útí drottninguna Athabasca á leið hennar áfram yfir sléttur Kanada og útí sjálft Athabasca vatnið.

Kannski rétt að rifja aðeins upp hversu stórt mál olíusandurinn er. Þegar menn reyna að meta hversu mikla olíu má vinna úr olíusandinum, ræður olíuverðið mestu um niðurstöðuna. M.ö.o. miða menn einfaldlega við það hvað vinnslan má kosta - auðlindin er þarna til staðar en hvort hún verður sótt ræðst af olíuverðinu hverju sinni.

OilPrice94_08

Það voru talsverð tímamót þegar olíuverðið rauk yfir 60 dollara tunnan árin 2005 og '06. Þetta varð til þess að stjórnvöld í Alberta endurmátu vinnanlegar birgðir af olíusandi í fylkinu. Niðurstaðan var birt 2007; litlar 170-180 milljarðar olíutunna eru nú sagðar vinnanlegar í Alberta m.v. olíuverð upp á 60 dollara. Fyrir vikið býr fylkið - og þar með Kanada - nú yfir næst mestu olíubirgðum heims á eftir sjálfri Saudi Arabíu!

Bæði Orkubloggarinn og aðrir guttar í bransanum lyftu augabrúnum í undrun og jafnvel yggldu brúnirnar fullir tortryggni, þegar þessar tölur voru fyrst settar fram af sjálfsöruggum Albertum. En olíuverðhækkanirnar 2007 og allt fram á mitt ár 2008 fengu iðnaðinn fljótt til að viðurkenna réttmæti þessara talna. Kanada var einfaldlega eins og hendi væri veifað orðin önnur stærsta olíuvon heimsins, á eftir sandbörðum Sádunum. Munurinn er sá að Sádarnir virðast eiga í smá veseni með að viðhalda framleiðslunni sinni, meðan Kanadamenn stefna í stóraukna framleiðslu.

Athabasca_Oil_Sands_Above

Niðursveiflan í efnahagslífinu núna hefur ekki breytt neinu um væntingar Kanadamanna. Kreppan mun í mesta lagi tefja það lítillega að byggja upp stórfellda vinnslu úr kanadíska olíusandinum. Spurningin núna er i raun aðeins sú, hvort vinnslan úr olíusandinum árið 2015 verði 3 milljónir eða 4 milljónir tunna á dag.

Það er orðið nokkuð óumdeilt að eftir örfá ár mun olíusandurinn við Athabasca einn skila jafnmikilli olíu eins og öll vinnsla Noregs gerir í dag. Og það er bara byrjunin á því að Kanada komist í hóp allra stærstu olíuframleiðenda í heimi (í dag er Kanada í 7. sæti með vel yfir 3 milljón tunnur og þar af kemur nú næstum helmingurinn eða um 1,3 milljón tunna frá olíusandinum). Sumir tala jafnvel um að Kanada verði fyrr en varir orðið þriðja eða jafnvel annað mesta olíuframleiðsluríki heims!

Nefna má til gaman að samtals er áætlað að þarna í Alberta sé að finna um 1.700 milljarða tunna af olíu! Til samanburðar gera hógværar (svartsýnar) spár um olíuvinnslu ráð fyrir því að í mesta lagi eigi núna eftir að nást upp u.þ.b. 1.200 milljarðar olíutunna í heiminum öllum. Kannski hafa peak-oil-bölmóðarnir gleymt að taka olíusandinn með í reikninginn?!

Athabasca_oil-sands-illustration

Málið er að líklega verða 90% þessa geggjaða magns af olíusandi aldrei sótt úr jörðu vegna of mikils kostnaðar. Þess vegna hljóðar vinnsluspáin "aðeins" upp á u.þ.b. 170 milljarða tunna af vinnanlegri olíu (10% af heildarmagninu). En það eitt er samt nóg til að gera Kanada að næststærsta olíuríki veraldar.

Olíusandinn í Alberta er að finna víða um fylkið. En svæðið við Athabasca-ána þykir mest spennandi - einfaldlega vegna þess að þar er unnt að vinna subbið með opnum námum. Það þarf bara að skafa um 75 metra jarðvegslag ofan af yfirborðinu til að komast að stöffinu - sem er oft i kringum 50 m þykkt lag af sandolíuklístri. Þessi vinnsla er í sjálfu sér ekki mjög frábrugðin því þegar Orkubloggarinn stóð sem stubbur, bullsveittur úti í móanum austur á Klaustri með Tonka-gröfu og stunguskóflu og mokaði djúpar holur sér til gamans. Skóflurnar við Athabasca eru bara aðeins stærri. Óneitanlega var vikurblönduð skaftfellsk moldin þrifalegri en olíuklístrið - en moksturinn þarna vestra er örugglega næstum því jafn skemmtilegur.

Oil_Sands_bitumen-extraction-in_situ

Víða er þó olíusandurinn ekki alveg svona aðgengilegur. Utan Athabasca-svæðisins er hann á mun meira dýpi og vinnslan því bæði flóknari og dýrari. Menn hafa skoðað ýmsar leiðir til að ná drullunni þar upp, t.d. með því einfaldlega að bora niður og koma þangað brennheitri gufu frá gasorkuveri eða jafnvel kjarnorkuveri, sem "bræðir" olíuna úr sandinum - svo hægt sé að dæla henni upp á yfirborðið.

Áður fyrr léku menn sér jafnvel að þeirri hugmynd að sprengja kjarnorkusprengjur neðanjarðar, sem myndu virka eins og fyrsta flokks sandbræðslukerfi og skilja eftir sig kolsvartar og þykkar olíulindir. Í dag þykja slíkar hugmyndir ekki alveg raunhæfar... nema kannski í huga Dr. Strangelove eða Mr. Burns.

Núna eru a.m.k. þrjár gríðarstórar olíusandnámur starfræktar á Athabasca-svæðinu. Sú stærsta er örugglega náman þeirra ljúflinganna hjá Syncrude; rétt tæplega 200 ferkm drullupyttur og í reynd einhver alstærsta náma í heimi. Til að vinna eina tunnu af olíu þarf Syncrude að skófla upp 2 tonnum af olíusandi og spreða allt að 35 rúmmetrum af gasi til að ná olíunni úr sandklístrinu. Þetta er m.ö.o einhver orkufrekasta olíuvinnsla sem þekkist - en borgar sig samt prýðilega.

Athabasca_sulphur_ponds

Þar að auki þarf vinnslan þúsundir sekúndulítra af vatni - úr Athabasca-ánni auðvitað. Bæði sem kælivatn og til að auðvelda dælingu á stöffinu. Sagt er að þegar áin er í lágmarki, sé allt að 15% af vatnsrennslinu tekið úr ánni. Vatnið sem verður eftir þegar búið er að nota það er gegnsósa af brennisteini og ýmsum öðrum skít. Það rennur útí sérstakar tjarnir - sem margar hverjar liggja alveg við hliðina á Athabasca-ánni. Vegna hverrar tunnu af olíu sem unnin er úr sandinum fara hundruð rúmmetra af brennisteinsmenguðu vatni í tjarnirnar. Þar er olíufélögunum ætlað að geyma mengað vatnið í nokkra áratugi, uns óhætt verður að sleppa því aftur út í vistkerfið.

Já - subbið tengt vinnslunni úr olíusandi er nánast yfirgengilegt. Og þá eru gróðurhúsaáhrifin enn ótalin. Raforkan frá gasorkuverunum (gasbruninn) sem fer í að hita olíusandinn og losa olíuna frá honum, hefur orðið til þess að kolefnislosun Kanada hefur aukist um 25% frá árinu 1990 (til samanburðar mun losun Bandaríkjanna "aðeins" hafa aukist um ca. 17% á þessu sama tímabili). Þessi losunaraukning Kanadamanna er ekki alveg í anda Kyotosamningsins. Skv. honum átti Kanada að minnka losun sína um 6% á tímabilinu 1990-2012. Það er reyndar ekki bara olíusandurinn sem á "heiðurinn" af þessum arfaslaka árangri Kanadamanna í að draga úr kolefnislosun; hérna spilar ýmis annar iðnaður stóra rullu.

Oil_tar_sands_truck_3

Í olíuiðnaðinum hlæja menn almennt ennþá að þessu Kyoto-rugli. En eru reyndar samt að byrja að verða smá áhyggjufullir yfir því að fá kannski bráðum á sig einhvern leiðinda losunarskatt. Eins gott að Obama hafi góða lífverði - að öðrum kosti er hætt við að við eigum eftir að upplifa heldur óskemmtilegt olíutilræði við kappann. En reyndar leikur Obama tveimur skjöldum. Á sama tíma og hann talar fyrir auknu hlutfalli endurnýjanlegrar orku er hann í óðaönn að treysta vináttuböndin við Kanadamenn - til að tryggja að svarta sullið frá olíusandinum renni beinustu leið suður yfir landmærin til síþyrstra Bandaríkjamanna.

Þarna eru miklir hagsmunir í húfi. Þegar síðast fréttist voru Kínverjar nefnilega komnir á lyktina af olíusandinum. Heyrst hefur að kínversk fyrirtæki séu á fullu að kaupa upp hlutabréf í helstu olíuvinnslufyrirtækjunum á Athabasca-svæðinu. Og þetta er ekki lengur bara kjaftasaga; PetroChina er hreinlega byrjað að byggja olíuleiðslu frá Athabasca, sem ætlað er að beina olíustreyminu vestur til Kyrrahafsstrandarinnar, í stað þess að hún fljóti öll suður á bóginn til Bandaríkjanna. Þaðan á svo að sigla með svarta gullið yfir Kyrrahafið, til Kína.

Obama_in_Canada

Það var engin tilviljun að Kanada var fyrsta ríkið sem Obama sótt heim eftir að hann varð forseti. Obama og félögum er mikið í mun að minnka þörfina á arabískri olíu og eru því í hörðu en hljóðlegu orkustríði við Kínverja um kanadísku olíuna. Til að skilja hagsmunina má nefna að kanadíski olíusandurinn gæti skilað mörgum milljónum tunna á dag - ekki bara í áratugi heldur í næstum tvær aldir. Nánast ekkert í heiminum jafnast á við þetta magn og það er því til mikils að vinna að tryggja sér aðgang að þessum risalindum.

Til gamans má nefna að norsku skotthúfurnar i StatoilHydro eru líka mættar á svæðið, undir merkjum dótturfyrirtækisins North American Oil Sands Corporation(NAOSC). Allir sem vettlingi geta valdið ætla að ná í sinn skerf af olíusandinum, sama hver umhverfisáhrifin verða. Meira að segja íslenskt fjármagn er þarna á ferli. Í gegnum fyrirtæki sitt, Lindir Resources, er Jón í Byko hluthafi í Athabasca Oil Sands Corp(AOSC). Um verkefni AOSC má t.d. lesa í þessari glænýju kynningu fyrirtækisins, sem einnig má nálgast á vefnum þeirra (kynningin er dagsett 4. maí 2009).

Wind_Canada_eole_logo

Kanadísku ljúflingarnir brosa auðvitað að öllu tilstandinu í kringum olíusandinn. Skreppa svo heim af skrifstofunni, losa af sér bindið, fara í flauelsjakkann og mæta á ráðstefnu um endurnýjanlegar framtíðarlausnir í orkumálum heimsins. Sitja þar ábúðamiklir á svip og kynna ný og glæsileg kanadísk vindorkuver. Lygna svo aftur augunum og og hugsa til dollaranna sem streyma í stríðum straumi frá olíusandinum. Það svarta ævintýri er bara rétt að byrja og er líklegt til að gera Kanada að Saudi Arabíu framtíðarinnar.

canada_flag_sunset

Á meðan eltast íslenskir stjórnmálamenn við ellimótt og orkuhnignandi Evrópusamband. Væri kannski nærtækara að horfa vestur um haf, til landsins sem býr yfir einhverjum mestu orkulindum í heimi og er ennþá með gríðarleg ónýtt tækifæri t.d. í byggingu jarðvarmavirkjana? Horfa til framtíðar! Er Kanada etv. draumalandið til að tengjast nánum efnahagslegum böndum?

Óneitanlega er Orkubloggið skotið bæði í hlynlaufinu og öllum kanadísku snillingunum - hvort sem þeir teljast grænir eða svartir. Þar að auki er glæsilegasti fugl Íslands, himbriminn, amerískur og enn ein sönnun þess að fegurðin ein ríkir fyrir vestan okkur en ekki austan. Kannski er Ísland kreppunnar bara óskilgetin Öskubuska, sem gæti fundið paradís hjá kanadíska prinsinum sínum.


Dagur jarðar

Ekki voru iðnaðarráðherrann og Orkubloggarinn fyrr búnir að birta skýrslu um möguleika Íslands í vindorku og sjávarorku, en að Obama stökk upp á stól og kynnti áform Bandaríkjastjórnar um að veita slík virkjanaleyfi utan við strendur Bandaríkjanna.

obama-energy

Þessi ágæti ljúflingur var staddur í Iowa fyrir nokkrum dögum á s.k. Earth-Day. Dagur jarðar á rætur að rekja til Bandaríkjanna, en þar byrjuðu menn fyrir um 40 árum að vekja sérstaka athygli á umhverfismálum 22. apríl ár hvert. Síðar tóku Sameinuðu þjóðirnar upp samskonar sið, en sá dagur mun miðast við vorjafndægur. 

Já - eins og í svo mörg öðru standa Bandaríkin hvað fremst í náttúrvernd og umhverfismálum. Þar var t.d. fyrst byrjað að meta umhverfisáhrif stórframkvæmda. Margir líta á Bandaríkjamenn sem umhverfissóða og það má vel vera réttlætanlegt. En samt er vart nokkur þjóð þeim fremri í náttúruvernd.

En Bandaríkin þurfa engu að síður að taka sér tak. Stefna þeirra í orkumálum hefur ekki beint haft sérstaklega græna ásýnd. Þar gæti senn orðið gífurleg breyting. Á næstu árum lítur út fyrir að það verði hreinlega allt snarbrjálað að gera í endurnýjanlegri orku þarna vestan hafs.

Obama_earthday_2009

Nú er svo sannarlega rétti tíminn fyrir íslenska ráðamenna að benda Obama á jarðhitaþekkingu Íslendinga. Reyndar eru Bandaríkjamenn sjálfir með mjög mikla þekkingu og reynslu á nýtingu jarðhitans. Þess vegna væri ekki síður mikilvægt ef Ísland gæti sérhæft sig í orkutegund, sem er stutt á veg komin og á góða möguleika á að vaxa gríðarlega á næstu árum og áratugum. Hér er Orkubloggarinn að vísa til sjávarorkunnar.

Hér að neðan má sjá ávarp Obama frá Degi Jarðar í heild (Orkubloggarinn bætti feitletrun við á nokkrum stöðum til áhersluauka, auk nokkurra mynda til skrauts):

 

THE WHITE HOUSE

Office of the Press Secretary

_________________________________________________________________

For Immediate Release                              April 22, 2009  

REMARKS BY THE PRESIDENT 
ON CLEAN ENERGY

Trinity Structural Towers Manufacturing Plant
Newton, Iowa

 12:52 P.M. CDT 

THE PRESIDENT:  Thank you so much.  Thank you, Rich, for the great introduction.  Thank you very much.  Please, everybody have a seat.

It is good to be back in Newton, and it's a privilege to be here at Trinity Structural Towers.  I've got a couple of special thank yous that I want to make, because I've got a lot of old friends -- not old in years, but been friends for a long time now.  First of all, your outstanding Governor, Chet Culver, please give him a big round of applause.  (Applause.)  His wonderful wife, Mari, I see over here.  She's not on the card, but -- (applause.)  My outstanding Secretary of Agriculture, who I plucked from Iowa, Tom Vilsack and his wonderful wife Christie Vilsack.  (Applause.)  We've got the Attorney General of Iowa, one of my co-chairs when I ran in the Iowa caucus and nobody could pronounce my name -- Tom Miller.  (Applause.)  My other co-chair, Mike Fitzgerald, Treasurer of Iowa.  (Applause.)  We got the Iowa Secretary of State, Mike Mauro.  There he is.  (Applause.)  We've got your outstanding member of Congress who's working hard for Newton all the time, Leonard Boswell.  (Applause.)  And your own pride of Newton, Mayor Chaz Allen.  (Applause.)  There he is, back there.  It's good to see you again, Chaz. 

earth-day6

It is terrific to be here -- and by the way, I've got a whole bunch of folks here who were active in the campaign, and precinct captains.  And I just want to thank all of them for showing up, and to all the great workers who are here at this plant -- thank you.  (Applause.)

I just had a terrific tour of the facility led by several of the workers and managers who operate this plant.  It wasn't too long ago, as Rich said, that Maytag closed its operations in Newton.  And hundreds of jobs were lost.  These floors were dark and silent.  The only signs of a once thriving enterprise were the cement markings where the equipment had been before they were boxed up and carted away.

Look at what we see here today.  This facility is alive again with new industry.  This community is still going through some tough times.  If you talk to your neighbors and friends, I know they -- the community still hasn't fully recovered from the loss of Maytag.  Not everybody has been rehired.  But more than 100 people will now be employed at this plant -- maybe more, if we keep on moving.  Many of the same folks who had lost their jobs when Maytag shut its doors now are finding once again their ability to make great products.

Now, obviously things aren't exactly the same as they were with Maytag, because now you're using the materials behind me to build towers to support some of the most advanced wind turbines in the world.  When completed, these structures will hold up blades that can generate as much as 2.5 megawatts of electricity -- enough energy to power hundreds of homes.  At Trinity, you are helping to lead the next energy revolution.  But you're also heirs to the last energy revolution.

Drake_Titusville

Think about it:  roughly a century and a half ago, in the late 1950s [sic], the Seneca Oil Company hired an unemployed train conductor named Edwin Drake to investigate the oil springs of Titusville, Pennsylvania.  Around this time, oil was literally bubbling up from the ground -- but nobody knew what to do with it.  It had limited economic value and often all it did was ruin crops or pollute drinking water.

Now, people were starting to refine oil for use as a fuel. Collecting oil remained time consuming, though, and it was back-breaking, and it was costly; it wasn't efficient, as workers harvested what they could find in the shallow ground -- they'd literally scoop it up.  But Edwin Drake had a plan.  He purchased a steam engine, and he built a derrick, and he began to drill.

And months passed.  And progress was slow.  The team managed to drill into the bedrock just a few feet each day.  And crowds gathered and they mocked Mr. Drake.  They thought him and the other diggers were foolish.  The well that they were digging even earned the nickname, "Drake's Folly."  But Drake wouldn't give up.  And he had an advantage:  total desperation.  It had to work.  And then one day, it finally did.

One morning, the team returned to the creek to see crude oil rising up from beneath the surface.  And soon, Drake's well was producing what was then an astonishing amount of oil -- perhaps 10, 20 barrels every day.  And then speculators followed and they built similar rigs as far as the eye could see.  In the next decade, the area would produce tens of millions of barrels of oil.  And as the industry grew, so did the ingenuity of those who sought to profit from it, as competitors developed new techniques to drill and transport oil to drive down costs and gain a competitive advantage in the marketplace.

Now, our history is filled with such stories -- stories of daring talent, of dedication to an idea even when the odds are great, of the unshakeable belief that in America, all things are possible.

And this has been especially true in energy production.  From the first commercially viable steamboat developed by Robert Fulton to the first modern solar cell developed at Bell Labs; from the experiments of Benjamin Franklin to harness the energy of lightning to the experiments of Enrico Fermi to harness the power contained in the atom, America has always led the world in producing and harnessing new forms of energy.

US_Oil_gap_1970-2020

But just as we've led the global economy in developing new sources of energy, we've also led in consuming energy.  While we make up less than 5 percent of the world's population, we produce roughly a quarter of the world's demand for oil.

And this appetite comes now at a tremendous cost to our economy.  It's the cost measured by our trade deficit; 20 percent of what we spend on imports is the price of our oil imports.  We send billions of dollars overseas to oil-exporting nations, and I think all of you know many of them are not our friends.  It's the same costs attributable to our vulnerability to the volatility of oil markets.  Every time the world oil market goes up, you're getting stuck at the pump.  It's the cost we feel in shifting weather patterns that are already causing record-breaking droughts, unprecedented wildfires, more intense storms.

US_oil_imports_2005

It's a cost we've known ever since the gas shortages of the 1970s.  And yet, for more than 30 years, too little has been done about it.  There's a lot of talk of action when oil prices skyrocket like they did last summer and everybody says we got to do something about energy independence, but then it slips from the radar when oil prices start falling like they have recently.  So we shift from shock to indifference time and again, year after year.

We can't afford that approach anymore -- not when the cost for our economy, for our country, and for our planet is so high.  So on this Earth Day, it is time for us to lay a new foundation for economic growth by beginning a new era of energy exploration in America.  That's why I'm here.  (Applause.)

Now, the choice we face is not between saving our environment and saving our economy.  The choice we face is between prosperity and decline.  We can remain the world's leading importer of oil, or we can become the world's leading exporter of clean energy.  We can allow climate change to wreak unnatural havoc across the landscape, or we can create jobs working to prevent its worst effects.  We can hand over the jobs of the 21st century to our competitors, or we can confront what countries in Europe and Asia have already recognized as both a challenge and an opportunity:  The nation that leads the world in creating new energy sources will be the nation that leads the 21st-century global economy.

wind-Offshore_blades

America can be that nation.  America must be that nation. And while we seek new forms of fuel to power our homes and cars and businesses, we will rely on the same ingenuity -- the same American spirit -- that has always been a part of our American story.

Now, this will not be easy.  There aren't any silver bullets.  There's no magic energy source right now.  Maybe some kid in a lab somewhere is figuring it out.  Twenty years from now, there may be an entirely new energy source that we don't yet know about.  But right now, there's no silver bullet.  It's going to take a variety of energy sources, pursued through a variety of policies, to drastically reduce our dependence on oil and fossil fuels.  As I've often said, in the short term, as we transition to renewable energy, we can and should increase our domestic production of oil and natural gas.  We're not going to transform our economy overnight.  We still need more oil, we still need more gas.  If we've got some here in the United States that we can use, we should find it and do so in an environmentally sustainable way.  We also need to find safer ways to use nuclear power and store nuclear waste.

But the bulk of our efforts must focus on unleashing a new, clean-energy economy that will begin to reduce our dependence on foreign oil, will cut our carbon pollution by about 80 percent by 2050, and create millions of new jobs right here in America -- right here in Newton.  

California_green

My administration has already taken unprecedented action towards this goal.  It's work that begins with the simplest, fastest, most effective way we have to make our economy cleaner, and that is to make our economy more energy efficient.  California has shown that it can be done; while electricity consumption grew 50 percent in this country over the last three decades, in California, it remained flat.

Think about this.  I want everybody to think about this.  Over the last several decades, the rest of the country, we used 50 percent more energy; California remained flat, used the same amount, even though that they were growing just as fast as the rest of the country -- because they were more energy efficient.  They put in some good policy early on that assured that they weren't wasting energy.  Now, if California can do it, then the whole country can do it.  Iowa can do it.

Through the American Recovery and Reinvestment Act, we've begun to modernize 75 percent of all federal building space, which has the potential to reduce long-term energy costs just in federal buildings by billions of dollars on behalf of taxpayers.   We're providing grants to states to help weatherize hundreds of thousands of homes, which will save the families that benefit about $350 each year.  That's like a $350 tax cut.

recovery_act_logo

Consumers are also eligible as part of the Recovery Act for up to $1,500 in tax credits to purchase more efficient cooling and heating systems, insulation and windows in order to reduce their energy bills.  And I've issued a memorandum to the Department of Energy to implement more aggressive efficiency standards for common household appliances, like dishwashers and refrigerators.  We actually have made so much progress, just on something as simple as refrigerators, that you have seen refrigerators today many times more efficient than they were back in 1974.  We save huge amounts of energy if we upgrade those appliances.  Through this -- through these steps, over the next three decades, we will save twice the amount of energy produced by all the coal-fired power plants in America in any given year.

We're already seeing reports from across the country of how this is beginning to create jobs, because local governments and businesses rush to hire folks to do the work of building and installing these energy-efficient products.

And these steps will spur job creation and innovation as more Americans make purchases that place a premium on reducing energy consumption.  Business across the country will join the competition, developing new products, seeking new consumers.

In the end, the sum total of choices made by consumers and companies in response to our recovery plan will mean less pollution in our air and water, it'll reduce costs for families and businesses -- money in your pocket -- and it will lower our overall reliance on fossil fuels which disrupt our environment and endanger our children's future.

So, that's step number one:  energy efficiency.  That's the low-hanging fruit.  But energy efficiency can only take us part of the way.  Even as we're conserving energy, we need to change the way we produce energy.

US_Renewabes_consumption

Today, America produces less than 3 percent of our electricity through renewable sources like wind and solar -- less than 3 percent.  Now, in comparison, Denmark produces almost 20 percent of their electricity through wind power.  We pioneered solar technology, but we've fallen behind countries like Germany and Japan in generating it, even though we've got more sun than either country. [ATH: Bandaríkin framleiða um 7-9% orkunnar með endurnýjanlegum orkugjöfum en þar sem lífenaeldsneyti er lítt notað til rafmagnsframleiðslu er hlutfall endurnýjanlegrar orku í rafmagnsframleiðslunni um 3%].

I don't accept this is the way it has to be.  When it comes to renewable energy, I don't think we should be followers, I think it's time for us to lead.  (Applause.) 

US_renewables_groth_2020

We are now poised to do exactly that.  According to some estimates, last year, 40 percent of all new generating capacity in our country came from wind.  In Iowa, you know what this means.  This state is second only to Texas in installed wind capacity, which more than doubled last year alone.  The result:  Once shuttered factories are whirring back to life right here at Trinity; at TPI Composites, where more than 300 workers are manufacturing turbine blades, same thing; elsewhere in this state and across America.

In 2000, energy technology represented just one half of one percent of all venture capital investments.  Today, it's more than 10 percent.

The recovery plan seeks to build on this progress, and encourage even faster growth.  We're providing incentives to double our nation's capacity to generate renewable energy over the next few years -- extending the production tax credit, providing loan guarantees, offering grants to spur investment in new sources of renewable fuel and electricity. 

My budget also invests $15 billion each year for 10 years to develop clean energy including wind power and solar power, geothermal energy and clean coal technology.

windfarm_Offshore

And today I'm announcing that my administration is taking another historic step.  Through the Department of Interior, we are establishing a program to authorize -- for the very first time -- the leasing of federal waters for projects to generate electricity from wind as well as from ocean currents and other renewable sources.  And this will open the door to major investments in offshore clean energy.  For example, there is enormous interest in wind projects off the coasts of New Jersey and Delaware, and today's announcement will enable these projects to move forward.

It's estimated that if we fully pursue our potential for wind energy on land and offshore, wind can generate as much as 20 percent of our electricity by 2030 and create a quarter-million jobs in the process -- 250,000 jobs in the process, jobs that pay well and provide good benefits.  It's a win-win:  It's good for the environment; it's great for the economy.

Even as we pursue renewable energy from the wind and the sun and other sources, we also need a smarter, stronger electricity grid -- some of you have been hearing about this, this smart grid -- a grid that can carry energy from one end of this country to the other.  So when you guys are building these amazing towers and the turbines are going up and they're producing energy, we've got to make sure that energy produced in Iowa can get to Chicago; energy produced in North Dakota can get to Milwaukee.  That's why we're making an $11 billion investment through the recovery plan to modernize the way we distribute electricity.

And as we're taking unprecedented steps to save energy and generate new kinds of energy for our homes and businesses, we need to do the same for our cars and trucks.

Right now, two of America's iconic automakers are considering their future.  They're facing difficult challenges -- I'm talking about Chrysler and GM.  But one thing we know is that for automakers to succeed in the future, these companies need to build the cars of the future -- they can't build the cars of the past.  Yet, for decades, fuel economy and fuel economy standards have stagnated, leaving American consumers vulnerable to the ebb and flow of gas prices.  When gas prices spike up like they did last summer, suddenly the market for American cars plummets because we build SUVs.  That's it.  It leaves the American economy ever more dependent on the supply of foreign oil.

Oregon_windpower

We have to create the incentives for companies to develop the next generation of clean-energy vehicles -- and for Americans to drive them, particularly as the U.S. auto industry moves forward on a historic restructuring that can position it for a more prosperous future.

And that's why my administration has begun to put in place higher fuel economy standards for the first time since the mid-1980s, so our cars will get better mileage, saving drivers money, spurring companies to develop more innovative products.  The Recovery Act also includes $2 billion in competitive grants to develop the next generation of batteries for plug-in hybrids. We're planning to buy 17,600 American-made, fuel-efficient cars and trucks for the government fleet.  And today, Vice President Biden is announcing a Clean Cities grant program through the Recovery Act to help state and local governments purchase clean-energy vehicles, too.  

We can clean up our environment and put people back to work in a strong U.S. auto industry, but we've got to have some imagination and we've got to be bold.  We can't be looking backwards, we've got to look -- we've got to look forward.

My budget is also making unprecedented investments in mass transit, high-speed rail, and in our highway system to reduce the congestion that wastes money and time and energy.  We need to connect Des Moines to Chicago with high-speed rail all across the Midwest.  (Applause.)  That way you don't have to take off your shoes when you want to go visit Chicago going through the airport. 

My budget also invests in advanced biofuels and ethanol, which, as I've said, is an important transitional fuel to help us end our dependence on foreign oil while moving towards clean, homegrown sources of energy.

And while we're creating the incentives for companies to develop these technologies, we're also creating incentives for consumers to adapt to these new technologies.  So the Recovery Act includes a new credit -- new tax credit for up to $7,500 to encourage Americans to buy more fuel-efficient cars and trucks.  So if you guys are in the market to buy a car or truck, check out that tax credit.

Obama_Time

In addition, innovation depends on innovators doing the research and testing the ideas that might not pay off in the short run -- some of them will be dead-ends, won't pay off at all -- but when taken together, hold incredible potential over the long term.  And that's why my recovery plan includes the largest investment in basic research funding in American history.  And my budget includes a 10-year commitment to make the Research and Experimentation Tax Credit permanent.  That's a tax credit that returns $2 to the economy for every dollar we spend.  That young guy in the garage designing a new engine or a new battery, that computer scientist who's imagining a new way of thinking about energy, we need to fund them now, fund them early, because that's what America has always been about:  technology and innovation.

And this is only the beginning.  My administration will be pursuing comprehensive legislation to move towards energy independence and prevent the worst consequences of climate change, while creating the incentives to make clean energy the profitable kind of energy in America.

Now, there's been some debate about this whole climate change issue.  But it's serious.  It could be a problem.  It could end up having an impact on farmers like Rich.  If you're starting to see temperatures grow -- rise 1, 2, 3 percent, have a profound impact on our lives.  And the fact is, we place limits on pollutants like sulfur dioxide and nitrogen dioxide and other harmful emissions.  But we haven't placed any limits on carbon dioxide and other greenhouse gases.  It's what's called the carbon loophole.

Now, last week, in response to a mandate from the United States Supreme Court, the Environmental Protection Agency determined that carbon dioxide and other tailpipe emissions are harmful to the health and well-being of our people.  So there's no question that we have to regulate carbon pollution in some way; the only question is how we do it.

I believe the best way to do it is through legislation that places a market-based cap on these kinds of emissions.  And today, key members of my administration are testifying in Congress on a bill that seeks to enact exactly this kind of market-based approach.  My hope is that this will be the vehicle through which we put this policy in effect.

And here's how a market-based cap would work:  We'd set a cap, a ceiling, on all the carbon dioxide and other greenhouse gases that our economy is allowed to produce in total, combining the emissions from cars and trucks, coal-fired power plants, energy-intensive industries, all sources.

Obama_rolling_stone

And by setting an overall cap, carbon pollution becomes like a commodity.  It places a value on a limited resource, and that is the ability to pollute.  And to determine that value, just like any other traded commodity, we'd create a market where companies could buy and sell the right to produce a certain amount of carbon pollution.  And in this way, every company can determine for itself whether it makes sense to spend the money to become cleaner or more efficient, or to spend the money on a certain amount of allowable pollution.

Over time, as the cap on greenhouse gases is lowered, the commodity becomes scarcer -- and the price goes up.  And year by year, companies and consumers would have greater incentive to invest in clean energy and energy efficiency as the price of the status quo became more expensive.

What this does is it makes wind power more economical, makes solar power more economical.  Clean energy all becomes more economical.  And by closing the carbon loophole through this kind of market-based cap, we can address in a systematic way all the facets of the energy crisis:  We lower our dependence on foreign oil, we reduce our use of fossil fuels, we promote new industries right here in America.  We set up the right incentives so that everybody is moving in the same direction towards energy independence. 

And as we pursue solutions through the public and private sectors, we also need to remember that every American has a role to play.  This is not just a job for government.  You know, some of you may remember, during the campaign, when gas was real high, I suggested during the campaign that one small step Americans could take would be to keep their tires inflated.  Do you remember that?  Everybody teased me.  They said, oh, look, look, that's Obama's energy policy.  My opponents sent around tire gauges.  But I tell you what, it turns out that saves you an awful lot of gas -- money in your pocket.  It also made sense for our energy use as a whole.  If everybody kept their tires inflated, that would have a big dent; it would produce as much oil savings as we might be pumping in some of these offshore sites by drilling.

So we've got to get everybody involved in this process.  I don't accept the conventional wisdom that suggests that the American people are unable or unwilling to participate in a national effort to transform the way we use energy.  I don't believe that the only thing folks are capable of doing is just paying their taxes.  I disagree.  I think the American people are ready to be part of a mission.  I believe that.  (Applause.)

It's not just keeping your tires inflated.  If each one of us replaced just one ordinary incandescent light bulb with one of those compact fluorescent light bulbs -- you know, the swirly ones -- that could save enough energy to light 3 million homes.  Just one light bulb each -- 3 million homes worth of energy savings.  That's just one small step.  So all of us are going to have to be involved in this process.  And like I said, if you make the investment upfront, you, the individual consumer, will save money in the long term, and all of us collectively will be better off. 

renewable-energy-revolution-US-legislation

Now, this is also a global problem, so it's going to require a global coalition to solve it.  If we've got problems with climate change, and the temperature rising all around the world, that knows no boundaries; and the decisions of any nation will affect every nation.  So next week, I will be gathering leaders of major economies from all around the world to talk about how we can work together to address this energy crisis and this climate crisis.

Truth is the United States has been slow to participate in this kind of a process, working with other nations.  But those days are over now.  We are ready to engage -- and we're asking other nations to join us in tackling this challenge together.  (Applause.) 

All of these steps, all of these steps we've taken in just the first three months, probably represents more progress than we've achieved in three decades on the energy front.  We're beginning the difficult work of reducing our dependence on foreign oil.  We're beginning to break the bonds, the grip, that fossil fuels has on us.  We're beginning to create a new, clean-energy economy -- and the millions of jobs that will flow from it.

Now, there are those who still cling to the notion that we ought to just continue doing what we do; that we can't change; Americans like to use a lot of energy, that's just how we are; that government has neither the responsibility nor the reason to address our dependence on energy sources even though they undermine our security and threaten our economy and endanger our planet.

And then there is this even more dangerous idea -- the idea that there's nothing we can do about it:  our politics is broken, our people are unwilling to make hard choices.  So politicians decide, look, even though we know it's something that has to be done, we're just going to put it off.  That's what happened for the last three, four, five decades.  Everybody has known that we had to do something but nobody wanted to actually go ahead and do it because it's hard.

wave_finavera-buoys

So the implication in this argument is that we've somehow lost something important -- that perhaps because of the very prosperity we've built over the course of generations, that we've given up that fighting American spirit, that sense of optimism, that willingness to tackle tough challenges, that determination to see those challenges to the end, the notion that we've gotten soft somehow.

I reject that argument.  I reject it because of what you're doing right here at Trinity; what's happening right here in Newton after folks have gone through hard times.  I reject it because of what I've seen across this country, in all the eyes of the people that I've met, in the stories that I've heard, in the factories I've visited, in the places where I've seen the future being pieced together -- test by test, trial by trial.

So it will not be easy.  There will be bumps along the road.  There will be costs for our nation and for each of us as individuals.  As I said before, there's no magic bullet, there's no perfect answer to our energy needs.  All of us are going to have to use energy more wisely.  But I know that we are ready and able to meet these challenges.  All of us are beneficiaries of a daring and innovative past.  Our parents, our grandparents, our great-grandparents adapted to much more difficult circumstances to deliver the prosperity that we enjoy today. 

And I'm confident that we can be and will be the benefactors of a brighter future for our children and grandchildren.  That can be our legacy -- a legacy of vehicles powered by clean renewable energy traveling past newly opened factories; of industries employing millions of Americans in the work of protecting our planet; of an economy exporting the energy of the future instead of importing the energy of the past; of a nation once again leading the world to meet the challenges of our time.

Obama_Chicago

That's our future.  I hope you're willing to work with me to get there.  Thank you very much.  God bless you.  God bless the United States of America.  Thank you.  (Applause.)

END                                       
1:25 P.M. CDT 


Vindorka og sjávarorka; niðurstöður og tillögur

Í dag lýkur samantekt Orkubloggsins um vind- og sjávarvirkjanir, sbr. skýrslan sem unnin var fyrir iðnaðarráðuneytið: www.idnadarraduneyti.is/Forsida_IVR/nr/2705

rivers

Hér landi er staðan sú að enn er mikið af óvirkjaðri vatnsorku og sama er að segja um jarðvarma. Ekki er unnt að komast að neinni skýrri niðurstöðu um það hvort Íslandi bjóðist góð tækifæri í virkjun vindorku eða sjávarorku, nema hér verði fyrst ráðist í meiri rannsóknir á þessum virkjunarkostum og bætt við ýmsar grunnupplýsingar sem eru alger forsenda þess að meta hagvæmni og arðsemi þessara virkjunarkosta.

Ef eingöngu yrði litið til peningalegra arðsemissjónarmiða við raforkuframleiðslu kann að vera ólíklegt að hér rísi stórt vindorkuver (og enn síður sjávarvirkjun) í náinni framtíð. Um þetta ríkir þó í reynd alger óvissa sem ekki verður eytt nema hér verði t.d. gerðar meiri og nákvæmari vindmælingar í þeirri hæð sem hentar nútíma vindorkuverum. Og sjávarorkutæknin ennþá of vanþróuð til að unnt sé að bera hana saman við aðra virkjunarkosti.

Vafsamt er að líta eingöngu til beins kostnaðar við uppsetningu og rekstur virkjana. Sé höfð hliðsjón af fleiri atriðum er t.d. mögulegt að vindrafstöðvar þyki áhugaverður og hagstæður virkjunarkostur á Íslandi þrátt fyrir að vera eitthvað dýrari en hefðbundnar íslenskar virkjanir.

Dæmi um slíka þætti, sem eðlilegt kann að vera að taka tillit til, eru t.d. landnotkun og umhverfisáhrif. Vindorkuvirkjanir hafa lítil sem engin óafturkræf áhrif á umhverfið og þetta á væntanlega líka við um hinar nýju tegundir sjávarvirkjana. Stórar vatnsaflsvirkjanir hafa aftur á móti almennt mun meiri varanleg umhverfisáhrif. Í samræmi við þetta og það sem sagði hér í fyrri færslu um kostnað við raforkuframleiðslu má setja upp mynd sem sýnir grófan samanburð á mismunandi virkjunarkostum.

Raforka_Island

Myndin sýnir samanburð á hagkvæmni sjávarorku, vindorku og hefðbundinnar raforkuframleiðslu á Íslandi. Til skýringar skal tekið fram að grænu örvarnar merkja einfaldlega að kosturinn er hagfelldur eða jákvæður, gulu örvarnar merka að kosturinn er heldur lakari og rauð ör táknar að verulega hallar á viðkomandi virkjanakost. Taka ber fram að talsverð óvissa er um endurheimtuhlutfall sjávarorkuvirkjana, en á móti kemur að þar á framleiðslukostnaðurinn væntanlega eftir að lækka umtalsvert á næstu árum eða áratugum. Einnig skal bent á að líklega mætti vel réttlæta rauða ör vegna landnotkunar þegar litið er til vatnsaflsvirkjana. Miðlunarlónin geta verið mjög stór og hafa þá eðli málsins samkvæmt mikil áhrif á landnotkun, eins og áður hefur verið minnst á.

Miðað við þessar einföldu forsendur sem myndin tekur tillit til, er staðan nú sú að vindorka telst almennt heldur lakari kostur hér á landi en vatnsorka eða jarðvarmi. Það sama má tvímælalaust segja um sjávarorkuna. Nú getur hún reyndar ekki talist raunhæfur kostur til umfangsmikillar raforkuframleiðslu, nema á þeim örfáu stöðum í heiminum þar sem straumar er mjög miklir, hvað svo sem verður í framtíðinni.

Í þessu sambandi má minna á að sama mátti segja um vindorkuna fyrir um það bil aldarfjórðungi, en nú er vindorkuiðnaðurinn mjög stór og undirstaða afar öflugra fyrirtækja. Ef t.d. mikil þróun verður í gerð ölduvirkjana, hinna nýju seltuvirkjana eða kostnaður við straum- og sjávarfallavirkjanir minnkar verulega, er vel mögulegt að sjávarvirkjanir verði öflugur og samkeppnishæfur iðnaður.

Í reynd er þessi myndræna niðurstaða einungis ónákvæm vísbending. Til að fá raunhæfa mynd af því hvort vindorka og/eða sjávarorka séu álitlegir kostir hér á landi, þarf miklu ítarlegri rannsóknir á vindi annars vegar og straumum og sjávarföllum hins vegar.

Af efni þessarar skýrslu skulu nú teknar saman helstu niðurstöður og settar fram tillögur um næstu skref:

 

Virkjun vindorku og uppbygging vindorkuiðnaðar á Íslandi - niðurstöður:

Gríðarleg vindorka er á Íslandi og ekki er ólíklegt að virkjun hennar sé að einhverju marki raunhæfur og hagkvæmur kostur hér á landi. Um þetta er þó ekki unnt að fullyrða nema ráðist verði í sérstakar rannsóknir og nákvæmari mælingar á vindi á áhugaverðustu svæðunum. Til að meta hagkvæmni þess að virkja þessa orku er lykilatriði að ráðast í meiri mælingar á vindi og þá sérstaklega mæla vindinn í meiri hæð en gert hefur verið fram til þessa.

Wind_World_installation_2001-2016

Kannski má segja að Ísland sé bæði besta og versta landið til að beisla vindorkuna. Best vegna mikils meðalvinds, en slæmt vegna þess hversu vindurinn hér er óstöðugur, stórviðri tíð og vegna þess að ekki er unnt að flytja þá raforku til notenda erlendis.

Fremur ólíklegt er að vindorka verði mjög stór þáttur í raforkuframleiðslu á Íslandi, nema til komi útflutningur á rafmagni um sæstreng. Ástæðan er einfaldlega sú að raforkuframleiðsla af þessu tagi er mjög óstöðug. Afar hátt hlutfall raforkunnar hér á landi fer til stóriðju og sá iðnaður má ekki við óstöðugu raforkuframboði. Meðan ekki er unnt að selja íslenskt rafmagn beint til útlanda er óraunsætt að ætla að hlutfall vindorku í raforkuframleiðslunni hér færi umfram ca. 5–10% og líklega er það nálægt lægra gildinu.

Engu að síður er fullt tilefni til að kanna nánar hagkvæmni vindorkunnar hér á landi, enda gæti hún t.d. reynst hagkvæm til að spara uppistöðulón og minnka þörfina á nýjum umdeildum vatnsafls- eða jarðvarmavirkjunum.

wind-Offshore_blades

Skynsamlegast er að beina sjónum að landshlutum þar sem vindskilyrði eru hagstæð samkvæmt fyrirliggjandi mælingum, en einnig mætti t.d. hafa hliðsjón af því hvaða svæði eiga ótraustan aðgang að raforku frá vatnsafli eða jarðvarma.

Vísbendingar eru um að náttúrulegar aðstæður fyrir vindorkuver á Íslandi séu hvað bestar á nokkrum svæðum á Suðurlandsundirlendinu. Til að geta svarað þessu þarf þó að gera vindmælingar í mun meiri hæð en gert hefur verið fram til þessa. Vegna fjármögnunar á slíkum rannsóknum kunna að vera tækifæri á vettvangi Norðurlandasamstarfsins.

Ekki er líklegt að hér á Íslandi geti byggst upp umtalsverður iðnaður tengdur vindorku. Vindorkuiðnaðurinn er háþróaður og þar hefur mikil samþjöppun átt sér stað. Hér á landi er hvorki stór markaður, sérþekking, hráefni né annað sem gerir Ísland sérstaklega aðlaðandi í augum fyrirtækja sem starfa í vindorkuiðnaðinum. Möguleikar Íslands í vindorkuiðnaðinum takmarkast því væntanlega við það að virkja vindorkuna hér á landi.

 

Lagt er til að gerðar verði ítarlegri vindmælingar á nokkrum stöðum sem núverandi veðurfarsgögn benda til að hagstæðir séu fyrir raforkuframleiðslu með vindorku. Sérstaklega er áríðandi að vindmælingar verði gerðar í meiri hæð en gert hefur verið fram til þessa, þ.e. að vindur verði mældur í 50–80 m hæð. Sennilega eru Gufuskálar heppilegastir í þessu skyni vegna masturs sem þar er nú þegar, en einnig er mikilvægt að gera slíka mælingar á fleiri stöðum á landinu. Svæði á Suðurlandsundirlendinu eru hvað áhugaverðust í þessu skyni. Til að hafa umsjón með þessu er lagt til að komið verði á fót vinnuhópi sérfræðinga, bæði sérfræðinga í veðurfari og í orkumálum, þ.m.t. frá stærstu orkufyrirtækjunum. Starfshópurinn meti hvaða rannsóknir þurfi að ráðast í til að kortleggja hvort og þá hvar vindrafstöðvar gætu verið hagstæður kostur á Íslandi.

 

Virkjun sjávarorku og uppbygging sjávarorkuiðnaðar á Íslandi - niðurstöður:

Virkjun á sjávarorku er almennt ung og óþroskuð iðngrein, en gæti orðið sá hluti hins endurnýjanlega orkugeira sem vex hvað hraðast næstu áratugina

Virkjun sjávarorku má greina í tvennt eftir því hversu mikil reynsla er komin á viðkomandi tækni. Annars vegar eru hefðbundnar sjávarfallavirkjanir sem byggjast á virkjun hæðarmunar sjávarfalla með stíflu og hafa lengi verið í notkun á nokkrum stöðum í heiminum, þótt fáar séu.

Hins vegar eru annars konar sjávarvirkjanir. Sumar þeirra eiga ýmislegt sameiginlegt með sjávarfallavirkjunum (sjávarfallastraumavirkjanir og aðrar straumvirkjanir, þ.m.t. hringiðuvirkjanir), en aðrar eru mjög ólíkar (ölduvirkjanir og seltuvirkjanir).

Sjávarfallavirkjanir, þar sem reist er stífla fyrir fjörð eða sund, eru ennþá eina tegund sjávarvirkjana sem fengist hefur veruleg reynsla af. Aftur á móti þykja slíkar sjávarfallavirkjanir stundum óæskilegar vegna talsverðra neikvæðra umhverfisáhrifa.

Wave_2

Síðustu ár hefur verið unnið að ýmsum hugmyndum um annars konar sjávarvirkjanir en að virkja sjávarföllin með stíflum. Þetta eru virkjanir sem geta haft lítil umhverfisáhrif. Þær felast bæði í nýrri tækni til virkjunar á sjávarföllum og í því að virkja ölduorkuna og jafnvel venjulega hafstrauma. Einnig eru aðrir virkjunarkostir mögulegir, þ.e. hringiðuvirkjanir og seltuvirkjanir.

Enn alveg óvíst hvaða tækni sjávarvirkjana reynist hagkvæmust. Talsvert mikla vonir eru bundnar við það að slíkar virkjanir geti í framtíðinni orðið raunhæfur og mikilvægur kostur til rafmagnsframleiðslu. Margar tegundir sjávarvirkjana hafa t.d. þann kost umfram vindorku að hafa enn minni umhverfisáhrif og valda sama sem engri sjónmengun. Þetta gerir virkjun sjávarorku að sérlega áhugaverðum kosti ef unnt verður að gera hana nægjanlega hagkvæma.

Hin nýja sjávarvirkjunartækni gæti hentað vel á nokkru svæðum við Ísland. Þar eru sjávarfallavirkjanir hvað áhugaverðastar, en einnig myndu koma hér til skoðunar aðrar tæknilausnir. Athugandi væri að kanna sérstaklega hvort slíkar sjávarvirkjanir kæmu til álita á svæðum sem eiga ótraustan aðgang að raforku frá vatnsafli eða jarðvarma, svo sem á Vestfjörðum.

Ómögulegt er að segja til um hvort ölduvirkjanir, hvað þá hringiðuvirkjanir, verði einhvern tíma góður kostur við Ísland. Úthafsaldan er mjög sterk og myndi jafnvel eyðileggja ölduvirkjanir, t.d. ef þær væru settar upp utan við Suðurströndina þar sem aflið er mest, nema  þær væru hafðar í vari innan við sjóvarnargarða. Þetta er engu að síður kostur sem vert er skoða og rétt er að fylgjast vel með þróun hans. Seltuvirkjanir, þ.e. osmósuvirkjanir, gætu einnig reynst raunhæfur kostur við Ísland.

Tidal_seagen_operation

Nú eru tilraunir með þróun sjávarorku einkum gerðar við strendur Bretlandseyja og Bandaríkjanna en einnig má t.d. nefna Noreg og Kanada. Náttúrulegar aðstæður hér, fjölbreytt gerð strandsvæðanna við landið, strjálbýli og gott aðgengi að svæðum við ströndina kunna að henta mjög vel til þróunar á þessari tækni. Einnig myndi verkfræði- og tækniþekking Íslendinga á vatnsaflsvirkjunum vafalítið nýtast vel í þessu skyni. Því er fyllsta ástæða til að íslensk stjórnvöld hugi vel að möguleikum á því að laða hingað fyrirtæki og fjárfesta sem áhuga hafa á sjávarvirkjunum.

Ísland gæti með því móti mögulega orðið leiðandi í þróun og byggingu sjávarorku-virkjana og hér gætu orðið til fyrirtæki með umtalsverða yfirburði í hinum alþjóðlega sjávarorkuiðnaði. Tæknin er enn skammt á veg komin erlendis og náttúrulegar aðstæður og íslensk tækni- og verkfræðiþekking eru góður grunnur til að byggja á. Jafnframt væri mikilvægt að fá núverandi orkufyrirtæki á Íslandi til að taka þátt í að afla þekkingar á sjávarorkutækni.

Miklar vonir eru bundnar við að sjávarvirkjanir muni þróast nokkuð hratt og verði brátt hagkvæmur virkjunarkostur víða um heim. Þetta gæti gerst með svipuðum hætti og gerðist í vindorkuiðnaðinum, þ.e. að bygging og raforkuframleiðsla með sjávarvirkjunum verði umsvifamikill og ábatasamur iðnaður innan 20 ára eða svo.

UK_Iceland_Marine

Mikill áhugi er á uppsetningu sjávarvirkjana í þeim ríkjum sem leggja ríka áherslu á aukið hlutfall endurnýjanlegrar orku og njóta hagstæðra náttúrulegra aðstæðna fyrir virkjanir af þessu tagi. Líklega verða Bretlandseyjar og nokkur svæði Bandaríkjanna mikilvægasti markaðurinn a.m.k. til að byrja með. Segja má að þessi iðnaður sé nú í svipaðri stöðu og vindorkuiðnaðurinn var um eða upp úr 1975 og að þróun sjávarorkuiðnaðarins geti orðið sambærileg við það sem varð í vindorkunni. Þetta gæti m.ö.o. orðið sá hluti hins endurnýjanlega orkugeira sem hraðast vex næstu áratugina.

Ef íslensk stjórnvöld marka sér þá stefnu að afla sér þekkingar á sjávarorku og geri sitt til að laða hingað fyrirtæki og fárfesta á sviði sjávarorku frá t.a.m. Bretlandi, Írlandi og Bandaríkjunum, er möguegt að þetta gæti í framtíðinni orðið mikilvæg iðngrein á Íslandi. Skapa þyrfti atvinnugreininni skýra og öfluga hvata, væntanlega í gegnum skattkerfið, til að laða hingað fjarfestingar í þessu skyni.

Vestas_logo_web

Í þessu sambandi má líta til þess hvernig danska vindorkufyrirtækið Vestas hefur þróast, en það er nú með um fjórðungshlutdeild á heimsmarkaðnum fyrir vindrafstöðvar og eitt af þeim fyrirtækjum sem mikilvægust hafa verið í því að skapa Danmörku jákvæða og hreina ímynd.

Sjávarorka er því athyglisverður kostur fyrir Íslendinga, bæði vegna möguleika á að nýta þessa orku hér við land og jafnvel enn frekar sökum þess að Ísland gæti orðið leiðandi á sviði tækniþróunar í þessari ungu en ört vaxandi iðngrein. Það gæti leitt til fjölda nýrra starfa hér á landi og skapað nýjar útflutningstekjur. Um leið gæti virkjun sjávarorkunnar og uppbygging íslensks sjávarorkuiðnaðar veitt Íslandi ímynd í anda þess sem vindorkan hefur veitt Danmörku og skapað okkur mikilvægt hlutverk í þessum iðnaði.

 

Lagt er til að íslensk stjórnvöld íhugi af mikilli alvöru þann möguleika að Ísland verði í fararbroddi í sjávarorkuiðnaðinum og setji sér metnaðarfull en raunhæf markmið til að svo megi verða. Í þessu skyni verði sett saman teymi sérfræðinga til að gera ítarlegri úttekt á möguleikum sjávarorku, semja skýrar tillögur um hver markmiðin skuli vera og útlista leiðir að takmarkinu. Viðkomandi teymi athugi sérstaklega með möguleika á að vekja áhuga fremstu sjávarorkufyrirtækja heims á Íslandi sem heppilegum stað til tilrauna og tækniþróunar.

 

--------------------------------------------------------------------

 

 

NIÐURSTÖÐUR Í HNOTSKURN:

[Þessi kafli er birtur í upphafi skýrslunnar til iðnaðarráðuneytisins og er því að einhverju leyti endursögn á niðurstöðukaflanum hér að ofan]. 

 

I.  Vindorka.

Gríðarleg vindorka er á Íslandi og ekki er ólíklegt að virkjun þessarar auðlindar sé raunhæfur og hagkvæmur kostur að einhverju marki hér á landi. Um þetta er þó ekki unnt að fullyrða nema ráðist verði í sérstakar rannsóknir og ennþá nákvæmari mælingar á vindi á áhugaverðustu svæðunum. Sérstaklega þarf að mæla vindinn í meiri hæð en gert hefur verið fram til þessa.

windfarm_Offshore

Í framhaldinu mætti nýta niðurstöðurnar úr þeim mælingum til staðarvals, mats á því hvers konar vindrafstöð væri heppilegust og gera ítarlega arðsemisútreikninga út frá þeim forsendum. Ef slíkar niðurstöður yrðu jákvæðar mætti ráðast í að nýta vindorku til að auka við virkjanlegt afl á Íslandi og draga úr þörfinni á byggingu umdeildra vatnsafls- og jarðvarmavirkjana.

Þeir kostir sem líklega eru áhugaverðastir eru eftirfarandi:

-         Að virkja vindorku í talsvert stórum stíl til að spara miðlunarlón.

-         Að reisa litlar vindrafstöðvar þar sem aðstæður leyfa, til að minnka þörf á aðkeyptu rafmagni og spara þannig dreifingarkostnað.

-         Ef útflutningur á rafmagni um sæstreng verður tæknilega og efnahagslega hagkvæmur, gæti vindorka frá mjög stórum vindrafstöðvum orðið áhugaverður valkostur.

Lagt er til að ráðist verði í ítarlegri vindmælingar á nokkrum stöðum á landinu sem veðurfarsgögn frá fyrri árum benda til að hagstæðir séu fyrir vindorkuframleiðslu. Sérstaklega er áríðandi að vindmælingar verði gerðar í meiri hæð en gert hefur verið fram til þessa, þ.e. að vindur verði mældur í a.m.k. 50–80 m hæð.

Sennilega eru Gufuskálar heppilegastir í þessu skyni vegna masturs sem þar er nú þegar, en einnig er mikilvægt að gera slíka mælingar á fleiri stöðum á landinu. Svæði á Suðurlandsundirlendinu eru áhugaverð vegna tiltölulega hagstæðra vindaskilyrða og fleiri staðir kunna einnig að koma vel til greina.

Til að hafa umsjón með slíku verkefni, m.a. mælingum og í framhaldinu hugsanlegu staðarvali og arðsemisútreikningum, er lagt til að komið verði á fót vinnuhópi sérfræðinga, þ.m.t. bæði sérfræðinga í veðurfari og í orkumálum, m.a. frá stærstu orkufyrirtækjunum. Vegna kostnaðar við slíkt verkefni, svo sem vegna vindmælinga og veðurfarsrannsókna, gæti verið upplagt að fjármagna hluta þess á vettvangi norræns samstarfs, þar sem nú er einmitt lögð mjög rík áhersla á endurnýjanlega orku.

 

II.  Sjávarorka. 

Sjávarorka er áhugaverður kostur fyrir Íslendinga og í því sambandi má t.d. nefna eftirfarandi tvær ástæður:
-  Sjávarvirkjun gæti reynst hagkvæmur kostur á fáeinum stöðum á Íslandi (kannski ekki síst í nágrenni Vestfjarða).
-   Umtalsverð efnahagsleg tækifæri gætu verið fólgin í því að Ísland marki sér þá stefnu að verða leiðandi í þróun sjávarvirkjana.
 


Lagt er til að íslensk stjórnvöld fylgist vel með framþróun sjávarvirkjana og skoði nánar virkjanamöguleika af þessu tagi; sérstaklega uppsetningu sjávarfallavirkjunar við Breiðafjörð og möguleika á sjávarvirkjun á Vestfjörðum og/eða í Hrútafirði. Fleiri staðir kunna að koma til greina.

Vestfirdir_sumar

Einnig er lagt til að stjórnvöld íhugi af mikilli alvöru þann möguleika að Ísland verði í fararbroddi í sjávarorkuiðnaðinum og setji sér metnaðarfull en raunhæf markmið til að svo megi verða.

Í þessu skyni verði sett saman teymi sérfræðinga til að gera ítarlegri úttekt á möguleikum sjávarorku og semja skýrar tillögur um markmið og leiðir. Viðkomandi teymi kanni sérstaklega möguleika á að vekja áhuga fremstu sjávarorkufyrirtækja heims á Íslandi sem heppilegum stað til tilrauna og tækniþróunar.

Loks skal ítrekað að hugsanlega hefur sjaldan verið betra tækifæri en nú til að fjármagna rannsóknir á þessum virkjunarkostum á Íslandi. Þar kemur ekki síst til mikill áhugi stjórnvalda á Norðurlöndunum á því að Norðurlandasvæðið verði fremst í heiminum á sviði endurnýjanlegrar orku. Fyrir vikið hafa talsvert miklir fjármunir nú verið settir í þennan málaflokk á vettvangi Norðurlandsamstarfsins. Ekki er ólíklegt að Ísland geti að einhverju leyti nýtt þennan vettvang til að fjármagna ítarlegar rannsóknir á hagkvæmni vindorkuvirkjana á Íslandi og/eða þróun á sjávarvirkjunum. Fyrst og fremst er þó mikilvægt að íslensk stjórnvöld marki sér skýra stefnu í þessum málaflokkum.

-----------------------------------------------------------

 

Eftirmáli:

Höfundur þessarar skýrslu um möguleika vindorku og sjávarorku fyrir Íslendinga, er Ketill Sigurjónsson. Margir lögðu til ýmsar upplýsingar, ráðleggingar og aðra aðstoð; þ.á m. starfsfólk hjá Hafrannsóknastofnun,  Háskóla Íslands, Iðnaðarráðuneytinu,  Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Orkustofnun, Siglingastofnun og Veðurstofunni, svo og ýmsir aðrir einstaklingar. Þeim öllum eru hér með færðar bestu þakkir.

Frumkvæðið að þessari vinnu átti Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra. Samantektin var unnin á fremur skömmum tíma og ef þar er að finna einhverja misfellur, missagnir eða rangfærslur skrifast þær alfarið á ábyrgð höfundar.


Efnahagslegt tækifæri fyrir Ísland?

Nýlega hafa orðið umtalsverðar breytingar á lagaumhverfi bæði í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu sem hvetja til meiri fjárfestinga í endurnýjanlega orkugeiranum. Þetta gefur tilefni til þess að við Íslendingar íhugum vandlega hvort og með hvaða hætti við getum leikið stærra hlutverk í virðiskeðju endurnýjanlega orkugeirans.

Oil_rig_Long_Beach

Einhver stærsti óvissuþátturinn og áhrifavaldurinn í vindorkuiðnaðinum og flestöllum öðrum greinum endurnýjanlegrar orku í heiminum er olíuverð. Hækkandi olíuverð framan af hinni nýju öld hafði mjög jákvæð áhrif á fjárfestingar í endurnýjanlegri orku. Þetta gerðist einnig á 8. áratug liðinnar aldar, í kjölfar olíukreppunnar 1973–4 og mikilla olíuverðshækkana sem hún olli.

Frá miðju ári 2008 hefur olíuverð lækkað verulega á ný. Haldist verðið lágt næstu árin kann að vera tilefni til að óttast að talsvert hægi á fjárfestingum og allri tækniþróun í endurnýjanlegri orku. Jafnvel þó að vindorka sé orðin vel þróuð og hagkvæmnin nálgist það sem t.d. þekkist hjá vatnsaflsvirkjunum og jafnvel gasorkuverum, hafa vindorkufyrirtæki fundið fyrir afleiðingum lægra olíu- og gasverðs og þó fyrst og fremst erfiðleikum vegna lánsfjárkreppu. Erfiðara hefur orðið að fjármagna ný vindorkuver og framleiðendur hafa einnig þurft að doka við með útrás sína.

Þrátt fyrir að olíuverðlækkanirnar nú minni sumpart á það sem gerðist á 9. áratugnum er staðan á orkumörkuðunum nú allt önnur en þá var. Á 9. áratugnum var olíusjálfstæði Vesturlanda t.a.m. miklu mun meira en er í dag. Þá voru nýjar olíulindir í Alaska og Norðursjó mikilvæg uppspretta olíu, en í dag eru nýjar olíulindir af því tagi ekki í augsýn á Vesturlöndum. Horfur eru á að Vesturlönd muni á næstu árum smám saman verða ennþá háðari innflutningi á olíu frá Mið-Austurlöndum. Sama má segja um gasinnflutning Japana og Evrópu sem er mjög háð rússnesku gasi. Þetta minnkandi orkusjálfstæði bæði Bandaríkjanna og Evrópu er einn helsti hvatinn að því hversu mikil áhersla er nú lögð á það beggja vegna Atlantshafsins að auka innlenda orkuframleiðslu. Það er einhver mikilvægasti hvatinn til stóraukinnar fjárfestingar í endurnýjanlegri orku og það gæti komið íslenskri orkuþekkingu til góða. Þetta gæti m.a. valdið því að orkuflutningar um langar leiðir með sæstreng verði hagkvæmur kostur.

Marine Current Turbines_6

Það er fyllsta ástæða til að ætla að endurnýjanlegi orkugeirinn spjari sig þrátt fyrir að ýmsar blikur séu á lofti. Þó svo að ekkert sé víst í þessum heimi kann að vera tilefni fyrir íslensk stjórnvöld að marka þá stefnu að Ísland verði leiðandi á fleiri sviðum orkugeirans en jarðhita. Þá er komið að spurningunni hvort hér á Íslandi gæti byggst upp vindorkuiðnaður eða sjávarorkuiðnaður?

Ekki er raunhæft að hér á landi byggist upp öflugt vindorkufyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun, þróun og smíði þeirra mannvirkja og tækja sem notuð eru í vindrafstöðvar. Vindorkuiðnaðurinn er orðinn mjög þróaður og á undanförnum árum hefur orðið mikil samþjöppun í greininni. Þar eru fáein stórfyrirtæki með yfirburðastöðu á markaðnum, eins og Vestas og Siemens. Að auki eru vissulega rekin mörg smærri fyrirtæki, en það er tvímælalaust mjög erfitt að hasla sér völl í þessari iðngrein, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Möguleikar Íslands í vindorkunni takmarkast því líklega við það að unnt sé að virkja þetta afl hér á landi.

Hafa ber í huga að íslensk stjórnvöld og/eða íslenskar stofnanir gætu e.t.v. að umtalsverðu leyti fjármagnað rannsóknir á möguleikum bæði vindorku og sjávarorku á Íslandi með framlögum úr sjóðum á vegum Norðurlandaráðs. Á Norðurlöndunum er nú mikill áhugi á að svæðið verði í fararbroddi í uppbyggingu á endurnýjanlegri orku. Í þessu skyni hefur verið komið á fót ákveðnu sjóðakerfi, sem ætlað er að stórefla rannsóknir á þessu sviði.

Wind_vestas_stor

Danir eru sú þjóð sem hefur náð að skapa sér sterkasta stöðu í vindorkuiðnaðinum. Það má upphaflega rekja til danska vindorkufyrirtækisins Vestas og markvissra aðgerða danskra stjórnvalda til að efla þennan iðnað. Þessi stefna var mörkuð meðan vindorkuiðnaðurinn var enn mjög óþroskaður. Fyrir vikið er Danmörk nú leiðandi í þessum  stóra og mikilvæga iðnaði og skýtur þar alþjóðlegum risafyrirtækjum ref fyrir rass.

Þegar fram liðu stundir byggðist mikill vöxtur Vestas ekki á innanlandsmarkaðnum, heldur fyrst og fremst á sölu til annarra landa. Nú síðast hafa Bandaríkin og Kína orðið æ mikilvægari markaður fyrir Vestas-vindrafstöðvar. Þetta hefði ekki gerst, nema vegna þess að dönsk stjórnvöld gerðu sér ljóst hve mikilvægt var að hlúa að þessum iðnaði meðan fyrirtækið var að stækka og eflast og sýndu þar þá þolinmæði sem er bráðnauðsynleg þegar um er að ræða nýjan geira í endurnýjanlegri orku.

Wavegen_technology

Sérstaklega áhugavert gæti verið fyrir íslensk stjórnvöld að stefna að því að Ísland verði leiðandi á sviði sjávarvirkjana. Að mati skýrsluhöfundar er réttlætanlegt að spá því að eftir um það bil 20–25 ár hafi sjávarorkan álíka stöðu í heiminum og vindorkuiðnaðurinn hefur í dag. Þau lönd sem hlúa að uppbyggingu sjávarorku gætu sem sagt orðið leiðandi í öflugum og mjög hratt vaxandi iðnaði.

Til að gefa vísbendingu um það hversu stór þessi iðnaður gæti orðið má taka áætlanir skoskra stjórnvalda sem dæmi. Þar hafa menn sett sér það markmið að meira en 30% raforkunnar komi frá endurnýjanlegum orkulindum árið 2012 og að þetta hlutfall verði komið í 50% árið 2020 (sjá skýrslu skoskra stjórnvalda frá 2008; Sustainable Development Commission: “On Stream – Creating energy from tidal currents”). Ekki hefur verið sundurliðað nákvæmlega hvernig þetta rafmagn skuli framleitt, en hvað mestar vonir eru bundnar við virkjun sjávarorkunnar vegna hagstæðra náttúrulegra aðstæðna.

Þessar metnaðarfullu áætlanir Skota hafa verið réttlættar með því að benda á að framleiðslukostnaður vindorku lækkaði um nærri 70% á tíu ára tímabili á níunda áratugnum og upphafi þess tíunda. Það sé því rökrétt að innan eins til tveggja áratuga verði risinn öflugur sjávarorkuiðnaður í heiminum sem mun velta gífurlegum fjármunum. Þarna gæti myndast iðnaður þar sem afar áhugavert væri fyrir Ísland að leika hlutverk.

Wave_Star4

Auk Bretlandseyja eru Bandaríkin og Kanada dæmi um ríki sem hafa lagt talsverða vinnu í að meta möguleika sjávarvirkjana heima fyrir. Næst á eftir þessum þremur löndum í þróun sjávarvirkjana koma svo Norðmenn og Danir. Það vill m.ö.o. svo til að nágrannar Íslands beggja vegna Atlantshafsins eru afar áhugasamir um sjávarvirkjanir og stjórnvöldum í þessum löndum er talsvert umhugað um að styðja við bakið á þessum unga iðnaði.

Einnig er athyglisvert að árið 2007 kynnti viðskiptaráð Bretlands (UK Trade & Investment) hugmynd um samstarf við Ísland á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Þessi hugmynd var sérstaklega nefnd í tengslum við kynningu á breskri þekkingu á sjávarorkutækni (kynning UK Trade & Investment í Reykjavík, 17. apríl 2007). Því má hugsanlega álykta sem svo að bresk stjórnvöld myndu sýna áhuga á samstarfi við Íslendinga um rannsóknir og þróun innan þessa iðnaðar.

Tidal_seagen_7

Eins og staðan er í dag, virðist líklegast að Bretland og Bandaríkin muni verða „Danmörk sjávarorkunnar“ og jafnvel einnig Kanada, Noregur og/eða Írland.  En þarna gæti Ísland líka átt tækifæri. Með því að bjóða hagstæð skattakjör til fyrirtækja sem nú þegar hafa náð athyglisverðri framþróun í virkjun sjávarorku, gæti Ísland hugsanlega orðið þátttakandi í þessari þróun. Samfara slíkri ráðstöfun má hugsa sér að lögð verði sérstök áhersla á sjávarorku innan verkfræðideildar Háskóla Íslands og/eða Háskólans í Reykjavík.

Sú mikla þekking sem hér er innan stofnana eins og t.d. Hafrannsóknastofnunar, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (áður Iðntæknistofnunar), Orkustofnunar, Siglingastofnunar og Veðurstofunnar kemur að góðum notum við slíka framkvæmd. Og ekki síður sú mikla verkfræðiþekking sem Íslendingar af aflað sér með orkuuppbyggingu sinni.

reykjanes04-duotone-filtere

Fyrst og fremst þyrftu stjórnvöld þó að vera sér meðvituð um sitt lykilhlutverk; bæði gagnvart rekstrarumhverfinu og líka því að efla hér rannsóknir og mælingar á t.d. straumum, sjávarföllum, ölduhæð og öðru því sem mikilvægt er í tengslum við rekstur og hagkvæmni sjávarvirkjana. Að sama skapi eru ítarlegri vindrannsóknir lykilatriði til að geta lagt raunsætt mat á hagkvæmni vindorkuvera á Íslandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband