20.4.2009 | 00:39
Í hlutverki leiðtogans
Hann stráksi minn, 8 ára, gerði mig stoltan föður um helgina.
Við skruppum á bensínstöð með nokkra fótbolta og hjól, að pumpa lofti í. Líklega hefur einhver klaufast með bensíndæluna; a.m.k. var óvenjulega sterk bensínlykt þarna á planinu. "Ummmm, hvað þetta er góð lykt!", sagði stubburinn af mikilli einlægni þegar við stigum út úr Land Rovernum. Svei mér þá - þessi drengur veit hvað máli skiptir í heiminum!
Ég held ég hafi verið 13 ára þegar ég komst að þeirri niðurstöðu að veröldin snýst aðeins um eitt. Olíu! Þetta var á þeim tímum þegar klerkabyltingin varð í Íran. Keisarinn flúði og Khomeini erkiklerkur sneri heim úr útlegð frá París. Þessu öllu fylgdi gíslatakan í bandaríska sendiráðinu í Tehran, ævintýralegur björgunarleiðangur bandaríska hersins sem endaði með skelfingu í miðri eyðimörkinni og háðuleg útreið Carter's í keppninni við Reagan.
Khomeini var ekkert venjulegur. Maður skynjaði einhverja undarlega ógn frá þessum kuflklædda, hvítskeggjaða öldungi. Og feistaðist til að halda að Íranir væru allir snarbrjálaðir.
Löngu síðar átti ég eftir að kynnast nokkrum Persum, bæði búsettum í Tehran og landflótta Írönum. Allir virtust þeir eiga eitt sameiginlegt; sjaldan hef ég hitt gjörvilegra og ágætara fólk. Rétt að taka fram, til að forðast misskilning, að aldrei hitti ég Khomeini!
Einhvers staðar las Orkubloggarinn að aldrei hafi viðlíka mannfjöldi komið saman i sögu veraldarinnar, eins og við útför Khomeini's í Theran í júní 1989. Alls 10 milljón manns! Athyglisverð geggjun.
Nú virðist þó almennt viðurkennt að mannfjöldinn hafi "aðeins" verið tvær milljónir. En jafnvel það hlýtur að teljast þokkalegt. Í múgæsingunni munaði reyndar minnstu að fólkið hrifsaði líkið úr kistunni í öllu brjálæðinu, sbr. myndin hér til hliðar.
Það óskiljanlega í þessu öllu saman, var að Bandaríkin skyldu þegjandi og hljóðalaust horfa upp á Íran lenda undir stjórn klerkanna. Landið með einhverjar mestu olíulindir heims, var látið sleppa undan áhrifavaldi Bandaríkjanna, rétt eins og þetta væri Belgía, Timbúktu eða annað álíka krummaskuð.
Þó svo ljúflingurinn Jimmy Carter snerti alltaf einhvern notalegan streng í brjósti Orkubloggarans, skal viðurkennt að líklega hefur bandaríska þjóðin sjaldan fengið slakari forseta. Hnetubóndinn frá Georgíu barrrasta skyldi ekki alþjóðamál og allra síst mikilvægi olíunnar.
Það er reyndar makalaust hvernig jafn öflugri þjóð eins og Bandaríkjamenn eru, virðist einkar lagið að kjósa hálfvita yfir sig. Í huga Orkubloggsins verðskuldar t.d. Geoge W. Bush ekkert skárra lýsingarorð en fábjáni. Og líklega var faðir hans lítið skárri.
En inn á milli koma svo snillingar. Orkubloggarinn er þar hvað heitastur fyrir bleikfésanum Bill Clinton.
Því miður þurfti Clinton sífellt að vera að berjast við Bandaríkjaþing með repúblíkana í traustum meirihluta og fékk því litlu framgengt. Það væri betur komið fyrir Bandaríkjamönnum, ef Clinton hefði fengið meiru ráðið.
Kannski er þetta bull; kannski er ástæðuna fyrir hrifningu Orkubloggarans á Clinton barrrasta að rekja til þess að bloggarinn rakst eitt sinn á Clinton á Kaupmangaranum í Köben. Og kallinn geislaði svo af sjarma að maður hefur aldrei upplifað annað eins.
En nú hvílir ábyrgðin á Obama. Það sýnir mikilvægi karaktersins, hvernig Obama virðist með áru sinni og hlýju brosinu, ná að bræða frosin hjörtu eins og hjá Hugo Chavez. Nú reynir á hvort Obama hafi nægjanlega persónutöfra til að skapa líka þýðu milli Bandaríkjanna og Íran. Það væri svo sannarlega óskandi.
19.4.2009 | 10:37
Texas á Jótlandi?
Vonandi mun ekki koma styggð að ljónunum.
Það gæti nefnilega verið að olíuboranirnar þarna í nágrenni ljónadýragarðsins við Givskud á Jótlandi, muni valda titringi í jörðu - og sum dýr eru afar viðkvæm fyrir því þegar jörðin byrjar að hreyfast. Og nú fer að styttast í að fyrsti ameríski olíuborinn byrji að bora sig í gegnum jóskan leirinn, í leit að svarta gullinu sem talið er að leynist þar á 2,5 km dýpi.
Það eru ljúflingarnir frá GMT Exploration frá Denver í Kólórado, sem fengið hafa leyfi til að hefja olíuleitina. Þeir eru búnir að velja borstað úti á akri einum, rétt utan við þorpið Givskud, sem liggur skammt frá hinum fallega Vejlefirði á Jótlandi.
Akurinn er auðvitað hluti af bújörð, en ekki mun bóndinn þar á bæ hafa hoppað hæð sína í loft upp við komu tyggjójaplandi Kólóradó-búanna. Í Danmörku er það nefnilega ríkið, sem er eigandi allra náttúruauðlinda djúpt í jörðu. Baunarnir hafa komið á þeirri leiðinda skipan mála, að eignarétturinn þar sætir meiri takmörkunum en gerist í Mekka einstaklingshyggjunnar; Íslandi. Meðan Orkubloggarinn bjó í Danmörku átti hann alltaf erfitt með að skilja þessa sterku samfélagshugsjón Baunanna. En þetta kerfi ku reyndar bara virka nokkuð vel - en það er önnur saga.
Íbúar Givskud, sem eru um sex hundruð drottinssauðir, héldu spenntir á borgarafund sem boðað var til í ráðhúsinu kl. 19, þann 19. ágúst s.l. (2008). Dagsetningin hefur væntanlega verið valin með hliðsjón af því að þetta er einmitt afmælisdagur Orkubloggarans! Þar var kynnt hvernig staðið yrði að leitinni; um 20-30 manna teymi rá GMT mun nú n.k. sumar verja nokkrum vikum í tilraunaboranir, sem gert er ráð fyrir að muni kosta skitnar 40 miljónir danskra króna eða svo.
Það verður spennandi að fylgjast með því, hvort senn rigni svörtu gulli yfir ljónin við Givskud. Reyndar hafa nýjar vísbendingar komið fram um að olía kunni að leynast víða undir hinum danska leir. T.d. er Dong Energi nú að hefja nákvæmar rannsóknir á öðru afskaplega fallegu svæði í Danmörku; við bæinn Thisted við Limafjörðin.
Bændurnir við Limafjörðinn byrjuðu snemma að setja upp vindrafstöðvar og þær eru þarna hreinlega út um allt. Reyndar þótti Orkubloggaranum nóg um, þegar hann ók um þessar slóðir með börnum sínum og vinkonu þeirra nýlega (sbr. myndin hér að ofan af þeim Boga og Berghildi). Þarna við Limafjörðinn hafa turnarnir risið afskaplega tilviljanakennt í gegnum árum. Fyrir vikið eru þeir á víð og dreif og trufla augað verulega á þessum fallegu slóðum.
Nú er bara að bíða og sjá hvort s.k. olíuasnar muni senn líka bætast við á ökrum bændanna við Limafjörðinn. Mun Jótland senn verða Texas Evrópu?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2009 | 00:15
Sandhóla-Pétur
Eru einhverjir aðrir out-there, sem muna eftir bókunum skemmtilegu um Sandhóla-Pétur og ævintýri hans á hinni vindbörðu vesturströnd Jótlands?
Reyndar hefur Jótland aldrei þótt vera sérstaklega hot staður í huga Orkubloggsins. Enda verður manni helst hugsað til hákristinna hóglífismanna, þegar Jótland er nefnt. Svona nægjusamra ljúflinga, eins og okkur voru sýndir í skáldsögunni og myndinni frábæru; Babettes gæstebud.
En Jótarnir hógværu leyna á sér. Munum t.d prestsoninn fátæka; Villum Kann Rasmussen. Sem sagði eitt sinn í viðtali á gamals aldri "Jeg er daarlig til alt andet end at faa ideer". Og svo sannarlega fékk hann nokkrar góðar hugmyndir í gegnum tíðina.
Hann VKR- eins og Rasmussen var jafnan kallaður - fæddist í útnárabrauðinu Mandö árið 1909. Á þessum tíma var ólíklegt að slíkir piltar ættu efni á því að brjótast til mennta, nema þá helst að fara í prestaskólann. En fyrir tilstilli góðra manna gat VKR haldið til náms í Kaupmannahöfn og þar lauk hann verkfræðiprófi 1932.
Að því búnu var að reyna að vinna sér fyrir salti í grautinn þarna í kreppunni og síðar hernumdu landinu - og þá fékk VKR fyrstu góðu hugmyndina sína. Sem lagði grunninn að einhverum mesta auði, sem sögur fara af í Danaveldi.
Það er nefnilega svo að hógværð og auður geta vel farið saman. Fæstir Danir kveikja á perunni þegar hann VKR er nefndur. VKR-fjölskyldan er sem sagt það sem gjarnan er kallað svakalega low-profile. Samt er arfleifð VKR í dönsku viðskiptalífi jafnvel miklu meiri en sjálfs JR Ewingí sögu sápuóperanna. Í dag eru afkomendur hans VKR líklega næstefnaðasta fjölskylda í Danaveldi á eftir snillingnum Mærsk McKinney Möller og hans slekti.
Hugmyndin sem VKR fékk, var að hanna þakglugga til að gera lífið bærilegra fyrir fólk sem hírðist í rökkrinu undir húsþökum Kaupmannahafnar. Og þetta reyndist brilljant hugmynd. Í æpandi húsnæðisskortinum varð upplagt að innrétta íbúðir á þakhæðunum og setja þar upp Velux-glugga frá VKR. Það sem áður höfðu einungis verið myrkar kytrur fátækra vinnukvenna, urðu nú prýðilegar íbúðir fyrir áður húsnæðislausar fjölskyldur. Smám saman varð Veluxrisi á þakgluggamarkaði heimsins og ófáar lúxus-penthouse íbúðirnar eru prýddar gluggum frá Velux eða Velfac. Og ágóðinn af öllum þeim úrvalsgluggum rennur stille og roligt í digra sjóði VKR.
Ef maður rýnir í nýjustu ársskýrslu VKR Holdingkemur í jós að eigið fé fyrirtækisins var í árslok 2007 um 12,7 milljarðar DKK. Á núverandi fíflagengi reiknast það til að vera hátt í 290 milljarðar ISK. Dágott. Slær eigið fé Landsvirkjunar út og er reyndar meira en 150% af því sem LV segist eiga.
Og fólkið hjá VKR lifir sko ekki aldeilis fyrir það a gíra sig upp. Enginn útrásavíkinga-hugsanaháttur þar á ferð. Þarna er lífsfílósófían miklu heldur sú, að latir peningar séu góðir peningar. Eða kannski að einn fugl í hendi séu betri en tveir i skógi.
Þegar kíkt er á tölurnar hjá VKR kemur nefnilega í ljós að langtímaskuldir fyrirtækisins eru almennt... nálægt því að vera núll! Þarna fjármagna menn sig sjálfir og láta 290 milljarða ISK malla rólega eins og jóskan hafragraut á lágri suðu. Íslenskir útrásarvíkingar hefðu sjálfsagt þegið að komast í þennan "varasjóð VKR-sparisjóðsins".
Það er reyndar útí hött að Orkubloggarinn sé að leggja honum hr. VKR orð í munn og búa til einhver mottó fyrir þetta ofuröfluga danska fyrirtæki. Því hann VKR var sjálfur óspar á að boða lífsviðhorf sitt hverjum þeim sem vidi við hann ræða: "Den der lever stille, lever godt!" Það er ekkert flóknara.
Og það má svo sannarlega segja að hr. VKR og afkomendur hans hafi lifað eftir þessu ágæta rólyndis-mottói. Þó svo fjölskyldan stjórni sjóðum, sem eru feitari en bæði Lego, Grundfos og Novo Nordisk, er hún álíka áberandi í dönsku þjóðlífi eins og keldusvín í íslensku mýrlendi.
En nú kannski spyr einhver hvern fjárann Orkubloggið sé að eyða tíma í þetta Baunasnobb og gluggarugl? VKR-Holding er jú aðallega þekkt fyrir framleiðslu á þakgluggum, sem kannski kemur orku lítið við. En bíðið við. Fyrir nokkrum árum tók fyrirtækið upp á því að skoða aðra möguleika, sem tengjast kjarnastarfseminni. Sem hefur verið skilgreind svo, að færa ferskt loft og ljós í híbýli fólks (þessi stefna á einmitt að endurspeglast í lógói fyrirtækisins, sem sést hér á myndinni).
Þess vegna var nærtækt hvert VKR ætti að líta næst; auðvitað til sólarorku. Á allra síðustu árum hefur fyrirtækið varið ágóða sínum í að kaupa upp mörg af helstu fyrirtækjum Evrópu og víðar, sem sérhæfa sig í sólarhitakerfum. Og nú verður spennandi að sjá hvort VKR muni líka færa sig yfir í þann hluta sólarorku-iðnaðarins, sem felst í því að framleiða rafmagn úr sólarorkunni.
Já - Jótarnir eru orðnir stórtækir í sólarorku. En það makalausa er að brátt kann að vera, að á jóskum engjum megi senn sjá olíupumpur - rétt eins og svo víða á sléttum Texas. Nú eru nefnilega taldar góðar líkur á að undir hinum danska Jótlandsleir, megi finna myndarlegar olíulindir! Sem þar að auki verður líklega skítbillegt að bora eftir.
Skyldi Jótland verða hið Evrópska Texas? Með notalega "olíuasna" kinkandi kolli úti á túni? Kannski meira um það í næstu færslu Orkubloggsins.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2009 | 00:13
Bettino, prendi anche queste!
Í dag ætlar Orkubloggið að leyfa sér að endurtaka færslu frá því í fyrra og birta hana hér, eilítið breytta.
Ítalska ofurfyrirtækið Eni er eitt stærsta orkufyrirtæki í heimi. Afkvæmið hans Enrico Mattei sem margir telja að CIA eða leigumorðingjar hafi komið fyrir kattanef. Af því hann keypti olíu af Sovétmönnum og virtist jafnvel ætla að komast fram fyrir bandarísku olíufélögin í keppninni um olíuna frá bæði Írak og Persíu (Íran). En hér ætlar Orkubloggið ekki að fjalla um Mattei, heldur beina athyglinni að niðurlægingu Eni í upphafi 10. áratugarins.
Stundum er sagt að vald spilli. Og eftir því sem Eni varð valdameira jókst spilling innan fyrirtækisins. En hún fór hljótt - þó svo kannski hafi öll ítalska þjóðin vitað að eitthvað gruggugt hlyti þarna að eiga sér stað.
Árið 1992 hófst rannsókn á fjármálaóreiðu, sem tengdist heldur ómerkilegum ítölskum stjórnmálamanni. Um sama leyti var Eni í nokkrum kröggum vegna geggjaðrar skuldsetningar. Og viti menn - þá kom í ljós að Eni og ítalskir stjórnmálamenn voru tengdir með svolítið ógeðfelldari hætti en nokkur hafði látið sér til hugar koma. Nú opnuðust skyndilega rotþrær einhverjar mestu spillingar og mútugreiðslna sem sögur fara af í Vestur-Evrópu og þótt víðar væri leitað. Og spilaborgin hrundi.
Það má líklega segja að ítalski rannsóknadómarinn Antonio Di Pietro eigi mesta heiðurinn af því að fletta ofan af hinni ömurlegu pólitísku spillingu sem ítalska valdakerfið var gegnsósa af. Þessi fátæki bóndasonur skaust þarna upp á stjörnuhiminn réttlætisins og átti síðar eftir að hella sér útí stjórnmál.
Þar hefur hann verið mikill boðberi þess hversu varasamt sé að stjórnmálamenn geti sífellt sóst eftir endurkjöri og þannig orðið fastir á jötunni. Það leiði í besta falli til þess að þeir verði værukærir, en í versta falli gjörspilltir. Á síðustu árum hefur Di Pietro átt í miklum útistöðum við nýja yfirskíthælinn í ítölskum stjórnmálum- Silvio Berlusconi - en það er önnur saga.
Rannsókn Di Pietro upp úr 1990 opnaði flóðgáttir og leiddi til þess að flestir æðstu stjórnendur Eni voru handteknir. Síðar kom í ljós að mútuþægnin, hagsmunapotið og spillingin teygði sig meira og minna um allt valdakerfið og stóran hluta viðskiptalífsins á Ítalíu.
Di Pietro þrengdi fljótlega hring sinn um höfuðpaurana og nú fóru menn að ókyrrast verulega. Þegar ekki tókst að þagga málið niður og handtökur hófust, greip um sig örvænting í ormagryfjunni. Afleiðingarnar urðu hörmulegar; margir auðugustu og valdamestu manna á Ítalíu kusu að láta sig hverfa endanlega af þessu tilverusviði. Segja má að alda sjálfsmorða hafi gengið yfir æðstu klíku ítalskra embættismanna og viðskiptajöfra.
Í júlí 1993 fannst Gabriele Cagliari, fyrrum forstjóri Eni, kafnaður í fangaklefa sínum - með plastpoka um höfuðið. Cagliari sætti þá ákærum um stórfelldar mútur og hafði setið í varðhaldi í nokkra mánuði.
Og örfáum dögum seinna skaut Raul Gardini höfuðið af sér í 18. aldar höllinni sinni í Mílanó. Það sjálfsmorð vakti smávegis athygli, enda var Gardini yfir næststærstu iðnaðarsamsteypu á Ítalíu - Ferruzzi Group. Fyrirtæki Gardini's var einfaldlega allt í öllu í ítölskum iðnaði (einungis Fiat-samsteypan hans Gianni Agnelli's var stærri en viðskiptaveldi Gardini - og enginn meiriháttar sóðaskapur sannaðist á Agnelli).
Þetta var auðvitað sorglegur endir á ævi mikils merkismanns. Fáeinum mánuðum áður hafði Gardini baðað sig í dýrðarljóma, þegar risaskútan hans - Il Moro di Venezia náði frábærum árangri í America's Cup. Já mikil veisla fyrir Orkubloggið sem bæði dýrkar siglingar og olíu.
Allt var þetta angi af hinni algjöru pólitísku spillingu á Ítalíu Tangentopoli - sem náði bæði til kristilegra demókrata og sósíalista. Auk margslunginna mútumála, stórra sem smárra, snerist kjarni þessa máls í raun um greiðslur frá fyrirtækjum til stærstu stjórnmálaflokkanna.
Kannski má segja að hrun þessarar gjörspilltu klíku hafi náð hámarki þegar Bettino Craxi, sem verið hafði forsætisráðherra Ítalíu 1983-87, var tekinn til yfirheyrslu og ákærður.
"Dentro Bettino, fuori il bottino!" Inn með Bettino, út með þýfið, hrópaði ítalskur almenningur um leið og fólkið lét smápeningum rigna yfir Craxi. Hvar hann skaust milli húsa með frakkann á öxlunum. Ítalir eru ýmsu vanir en viðurstyggilegt siðleysi Craxi's varð til að þjóðinni ofbauð. Og þegar smápeningarnir skullu á skallanum á Craxi, söng fólkið "prendi anche queste!". Hirtu þessa líka!
Craxi flúði land - slapp undan réttvísinni til Túnis 1994. Hann snéri aldrei heim aftur, enda beið hans þar 10 ára fangelsisdómur. Það ótrúlega er nefnilega, að þrátt fyrir allt er til réttlæti á Íslandi... á Ítalíu vildi ég sagt hafa. En það má kannski segja að það hafi einmitt verið öll þessi upplausn sem kom Berlusconi til valda á Ítalíu. Sem var kannski ekki besta þróunin.
Craxi lést í sjálfskipaðri útlegð sinni í Túnis, í janúar árið 2000. Hann viðurkenndi aldrei neina sök; sagði greiðslurnar hafa verið hluta af hinum pólitíska veruleika og hann ekki verið neitt verri í því sambandi en aðrir ítalskir stjórnmálamenn.
Enda eru mútur þess eðlis, að oft er auðvelt að horfa fram hjá raunveruleikanum. Greiðslurnar verða hluti af venjubundinni vinsemd eða jafnvel sjálfsagður hluti af áratugalangri venju í samskiptum viðskiptalífs og stjórnmálamanna.
Svo þegar aðrir komast yfir upplýsingar um greiðslur af þessu tagi, er svarið jafnan hið sama: "Jamm, kannski var þetta óheppilegt. En þetta hafði auðvitað engin áhrif á ákvarðanir flokksins eða stjórnmálamannanna!"
Bettino Craxi fannst hann ekki hafa gert neitt rangt. En ítalska þjóðin var nokkuð einhuga í sinn afstöðu og Craxi uppskar það að verða einhver fyrirlitnasti sonur Ítalíu.
Ítalir þráðu breytingar og í stað Craxi fékk þjóðin gamlan viðhlæjanda hans; Silvio Berlusconi. Forza Italia! Kannski var þarna bara farið úr öskunni í eldinn?
Viðskipti og fjármál | Breytt 15.4.2009 kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2009 | 00:09
Hverjum klukkan glymur
Mikið er nú lífið stundum undursamlegt.
Eins og t.d. fyrir örfáum dögum þegar Akureyringur sá um að loka Nasdaq-markaðnum í New York. Reyndar sá Akureyringurinn ekki alveg einn um þetta, heldur fékk smá aðstoð frá fleiri "þekktum aðilum úr viðskiptalífi heimsins". Þ.á m. var viðskiptaráðherranna okkar, Gylfi Magnússon:
Akureyringurinn Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, lokaði í gær hinum þekkta Bandaríska verðbréfamarkaði NASDAQ í New York, ásamt Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra. Að því er blaðamaður Akureyri.net komst næst er þetta í fyrsta skipti sem Akureyringur lokar markaðnum, en í lok hvers viðskiptadags eru þekktir aðilar úr viðskiptalífi heimsins fengnir til að hringja lokunarbjöllunni. (Frétt af vefnum Akureyri.net).
Nú er bara að vona að þetta sé ekki illur fyrirboði. Hvorki fyrir Akureyri, Icelandair né viðskiptaráðherra. Óneitanlega verður manni hugsað til þess þegar fráfarandi forsætisráðherra tók þátt í þessu bráðskemmtilega bjölluglingri á Nasdaq, síðla í september árið sem leið.
Já - það var 24. september s.l. sem brosandi og áhyggjulaus Geir Haarde fékk að hringla með Nasdaq-bjölluna. Þá var Orkubloggarinn og jafnvel öll íslenska þjóðin ennþá i skýjunum eftir Ólympíusilfur handboltalandsliðsins og horfði grunlaus fram á góða haustdaga.
Enda var gjörsamlega útilokað að lesa það út úr brosi Geirs á Nasdaq, að í reynd væri Seðlabankinn búinn afgreiða íslensku bankana sem fallnar spýtur. Hvað þá að nokkurn gæti grunað, að þessa fallegu síðsumardaga stæðu stjórnendur bankanna sveittir við að skófla út fé til einkahlutafélaga í eigu þeirra sjálfra, vina eða kunningja og voru í þann mund að krassa með feitum túss yfir allar sínar eigin persónulegu sjálfsskuldaábyrgðir.
En því miður sáu stjórnendur bankanna ekkert nema eigið rassfar og gleymdu því að maður á líka að gleðja náungann. Hefðu auðvitað líka átt að fella niður veð og persónulegar ábyrgðir húnæðislántakenda og máske einnig strika yfir bílalán til blankra viðskiptavina. Gera þetta með stæl áður en þeir hentu leifunum af þessu bévítans bankarusli í ryðgaða tunnuna hjá ríkissjóði.
Og auðvitað hefðum við öll átt að sjá þetta allt fyrir. Við hefðum átt að vita það, að þetta árans bjölluglamur hans Geirs þarna á Nasdaq, var illur fyrirboði.
Hvernig fór ekki með Decode-ævintýrið? Kári Stefánsson mætti á sínum tíma á Nasdaq og hringdi örugglega bjöllunni af mikilli list. Því miður virðist Decode nú vera að syngja sinn svanasöng - a.m.k. í núverandi mynd. Það þykir Orkubloggaranum þyngra en tárum taki. Og það er barrrasta eins og fjárans hringlið í bjöllunni á Nasdaq hreinlega leggi bölvun á íslenskt viðskiptalíf. Bloggarinn hélt að hjátrú væri nokkuð rík í íslenskri þjóðarsál - og botnar eiginlega ekkert í því að nokkur Íslendingur skuli yfirleitt þora að snerta á þessum bjölluviðbjóði!
Þetta er svo sannarlega hverfull heimur. Hér hegðuðu bankastjórnendur sér eins og enginn morgundagur kæmi. Efnahagsuppgangurinn væri allt í einu orðinn eilífur og áhættufíknin það eina sem vert væri að lifa fyrir. Icelandic Banking a la James Dean; djæfa hátt og hratt og deyja ungur! Þetta var svo sannarlega Smart Banking.
Svo fór sem fór. Lífið er ekki alltaf dans á rósum. Nú sé ég í fréttum að Nýja-Kaupþing sé farið að herja á Björgólfsfeðga vegna vanskila á einhverjum aurum sem þeir fengu að láni hjá Búnaðarbankanum eða Kaupþingi; láni sem mun hafa farið í að borga kaupin á Landsbankanum á sínum tíma. Hvaða fjárans baunatalning er þetta? Látið þessa snillinga í friði. Never send to know for whom the bell tolls - it tolls for thee!"
9.4.2009 | 08:31
Hver á skuldir HS Orku?
"Án þess að gera fyrirvara við álit okkar viljum við vekja athygli á skýringu 25 í ársreikningnum þar sem greint er frá því að félagið uppfyllir ekki ákvæði lánasamninga við lánastofnanir þar sem kveðið er á um að fari eiginfjárhlutfall og rekstrarhlutföll niður fyrir tiltekin viðmið sé lánveitendum heimilt að gjaldfella lánin."
"Stjórnendur félagsins eru í viðræðum við lánastofnanir en þeim viðræðum er ekki lokið. Verði lánin gjaldfelld og ekki semst um endurfjármögnun þeirra ríkir óvissa um áframhaldandi rekstrarhæfi
félagsins."
Já - nú á þessum fallega Skírdagsmorgni hefur Orkubloggið stungið sér i ársskýrslu Hitaveitu Suðurnesja. Eða öllu heldur hins nýja fyrirtækis; HS Orku. Og ekki verður hjá því komist að vekja sérstaka athygli á ofangreindri umsögn endurskoðendanna. HS Orka er sem sagt með svo lágt eiginfjárhlutfall að hætta er á að lánin til fyrirtækisins verði gjaldfelld. Örlög fyrirtækisins eru m.ö.o. alfarið í höndum kröfuhafanna.
Nú hlýtur að reyna á hversu góð sambönd Ólafur Jóhann Ólafsson hefur í fjármálageiranum. Ólafur Jóhann er vel að merkja stjórnarformaður Geysis Green Energy, sem er annar stærstu hluthafanna í HS Orku (hlutur GGE í fyrirtækinu er sagður vera 32%).
Þar er enginn aukvisi á ferð. Úr því HS Orka þarf nú að endurfjármagna sig eða endursemja við kröfuhafa, er vart hægt að hugsa sér betri hluthafa í eigendahópi fyrirtækisins, en Ólaf Jóhann. Ísland er rúið trausti, en vafalítið hefur Ólafur Jóhann talsverða vigt í fjármálaheiminum vestra. Orkubloggarinn er reyndar á því að Ólafur Jóhann sé einn vanmetnasti Íslendingur nútímans, en það er önnur saga.
En víkjum aftur að ársreikningi HS Orku. Umrædd skýring nr. 25 í ársreikningnum 2008 er svohljóðandi:
"Á árinu 2008 veiktist gengi íslensku krónunnar umtalsvert sem leiddi til þess að skuldir félagsins tengdar erlendum gjaldmiðlum hækkuðu um 9.226 millj. kr. Ein af afleiðingum þessa er að félagið uppfyllir ekki lengur skilyrði í lánasamningum við lánveitendur sem kveða á um að eiginfjárhlutfall og að rekstrarhlutföll séu yfir ákveðnu lágmarki. Skipting á félaginu að kröfu laga getur valdið því að forsendur lánasamninga séu brostnar og veiti lánveitendum heimild til að gjaldfella lánin. Stjórn og stjórnendur vinna nú að því með lánveitendum sínum að endursemja um fjármögnun félagsins og telja að unnt verði að ljúka viðræðum innan skamms og að niðurstaða þeirra verði félaginu hagfelld".
Hér koma svo nokkrar tölur úr ársreikningnum: Niðurstaða ársins var nærri 12 milljarða króna tap. Rekstrarhagnaður nam nærri 2 milljörðum króna, en samt sem áður rýrnaði eigið fé fyrirtækisins um u.þ.b. 70%. Fór úr tæpum 20 milljörðum í árslok 2007 og niður í tæpa 6 milljarða í árslok 2008.
Rétt eins og hjá Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur voru það fjármagnsliðirnir sem fóru svo illa með fyrirtækið á liðnu ári. Hjá HS Orku varð geggjaður fjármagnskostnaðurinn til að skila þessum lið neikvæðum um alls 15,5 milljarða króna. Og fyrir vikið er eiginfjárhlutfallið komið undir lágmarksviðmiðunina í lánasamningum fyrirtækisins.
Niðurstaðan af þessu hlýtur að vera sú, að ef lánadrottnar HS Orku vilja eignast öflugt orkufyrirtæki á Íslandi, geta þeir nú notað tækifærið. Aðrir sem áhuga hafa geta sett sig í samband við kröfuhafana og boðið í skuldirnar. Sá sem á skuldir HS Orku á HS Orku. Óneitanlega væri forvitnilegt að vita hverjir stærstu kröfuhafarnir eru. Ætli einhverjir hrægammar séu þegar komnir á svæðið?
Kannski eru Suðurnesjamenn og þeir hjá GGE svo heppnir að enginn hefur áhuga á fyrirtækinu. Þ.a. kröfuhafarnir verða að gefa eitthvað eftir. En þetta er nú ljóta ástandið; það er bágt þegar vonin ein er eftir.
Undarlegast þykir Orkubloggaranum þó að hann - fölur gleraugnaglámur sem finnst fátt notalegra en að að liggja í volgri sinu og tyggja strá - virðist síðustu árin hafa sýnt meira innsæi og þekkingu á fjármálum heldur en flestallir "hæfustu" forstjórar landsins.
Kannski hefur það hjálpað, að bloggarinn hefur alltaf verið svolítið hrifinn af skákstíl Margeirs Péturssonar...?
8.4.2009 | 09:23
Orkuveitan: "Ég er fullur tilhlökkunar"
"Horfur eru góðar um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2008. Umsvif fara vaxandi og fjárfestingar eru miklar."
Þannig segir orðrétt í tilkynningu Orkuveitu Reykjavíkur, sem dagsett er 29. ágúst 2008. Reyndar er þetta tilkynning frá fyrirtæki, sem tapaði litlum 73 milljörðum króna þegar upp var staðið eftir 2008. Þannig að þessi tilvitnun er líklega eitthvert mesta öfugmæli í allri íslenskri fyrirtækjasögu.
Umrædd tilkynning OR birtist í tengslum við 6 mánaða uppgjör félagsins 2008. Kannski var þessi mikla bjartsýni OR í ágústlok sl. til marks um þann jákvæða viðsnúning, sem orðið hafði á 2. ársfjórðungi - eftir hroðalegan 1. ársfjórðung. Óneitanlega voru mánuðirnir þrír, apríl-júní, ansið mikið skárri í bókhaldi OR heldur en fyrstu þrír mánuðir ársins. En samt áttar Orkubloggið sig ekki alveg á því af hverju Orkuveitumenn urðu þarna í ágúst allt í einu svona hressilega bjartsýnir.
Það er eins og Orkubloggið rámi í, að horfurnar í efnahagsmálunum almennt hafi ekki verið alltof góðar þarna síðla í ágúst s.l. En kannski er það bara misminni; kannski leit þetta allt voða vel út. A.m.k. séð frá glæsihúsnæði Orkuveitunnar. Síðsumarútsýnið þaðan var örugglega yndislegt. Dýrðlegur blámi yfir borginni og framtíðin björt þátt fyrir nokkur gulnandi lauf.
En stundum er skynsamlegast að fagna ekki of snemma. Eftir að Orkuveitan birti umrædda bjartsýnis-tilkynningu sína um "góðar horfur 2008", varð íslenskt þjóðfélag fyrir örlitlu áfalli, sem kunnugt er. Þegar spilaborgin hrundi í einni svipan.
Niðurstaða ársins 2008 hjá Orkuveitunni varð allt annað en góð. Á síðasta ári var OR rekin með 73 milljarða króna tapi. Það er hátt í helmingi meira tap en Landsvirkjun varð fyrir sama ár. Reyndar varð ofurlítill rekstrarhagnaður hjá OR 2008; 4,7 milljarðar króna. En segja verður að heildarafkoma ársins hafi hreinlega verið skelfileg. Fjármagnsliðirnir voru neikvæðir um hvorki meira né minna en 92,5 milljarða króna. Og niðurstaðan varð sem sagt 73 milljarða króna tap!
Þetta risatap OR fær líklega bronsið í keppninni um mesta tap fyrirtækis í Íslandssögunni. Þá eru auðvitað undanskildir bankarnir og aðrir risar á brauðfótum, sem fóru beint í þrot. Og Orkubloggið hefur ekki enn séð subbulegar afkomutölur fyrirtækja eins og t.d. Exista vegna 2008. En í dag er OR með þungt bronsið um hálsinn.
Aðeins Straumur og Eimskip hafa náð að toppa þetta risatap OR. Meira að segja hið gígantíska tap FL Group árið 1997, upp á 67 miljarða króna, hverfur í skuggann af tapi Orkuveitu Reykjavíkur á liðnu ári. M.ö.o. er vart unnt að mótmæla því, að fjármögnunarstefna OR hafi reynst ennþá ömurlegri en glapræðisstefna Hannesar Smárasonar og félaga í fjárfestingum FL Group.
Í síðustu færslu var Orkubloggið með smá áhyggjur vegna 380 milljarða króna skuldar Landsvirkjunar. OR nær ekki að toppa það; skuldir OR um síðustu áramót voru "einungis" 211 milljarðar króna. Samt lítur reyndar út fyrir að OR sé jafnvel í ennþá verri málum en Landsvirkjun. Yfir árið 2008 rýrnaði nefnilega eigið fé Orkuveitunnar úr 89 milljörðum króna í 48 milljarðar króna. M.ö.o. þá myndi annað ámóta annus horribilis eins og 2008 hreinlega gjörþurrka út allt eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur.
Þegar litið er til þessara tveggja orkufyrirtækja, Landsvirkjunar og OR, er freistandi að draga eftirfarandi ályktun:
Landsvirkjun hefur þrátt fyrir allt staðið sig ótrúlega vel í að verja sig á þessum erfiðu tímum. Orkubloggarinn getur ekki annað en tekið ofan fyrir starfsfólki LV að þessu leyti. Það má ekki gleyma því sem vel er gert - þó svo LV sé vissulega í erfiðum málum, eins og áður hefur verið minnst á hér á Orkublogginu.
Aftur á móti virðist fjármálastjórn Orkuveitu Reykjavíkur ekki hafa einkennst af viðlíka varkárni. Meðan óveðursskýin hrönnuðust upp í efnahagslífi bæði heimsins og Íslands fram eftir árinu 2008, lýstu Orkuveitumenn yfir bjartsýni og virtust fullir stolts yfir árangri sínum.
Hvað um það. Þegar meirihlutinn í Reykjavík gerði Guðlaug Gylfa Sverrisson, verkefnisstjóra hjá Úrvinnslusjóði, að stjórnarformanni Orkuveitunnar í ágúst s.l. var haft eftir Guðlaugi: "Ég er fullur tilhlökkunar að taka við stjórnarformennsku í OR og veit að það er mikil ábyrgð".
Það er auðvitað stuð að verða stjórnarformaður í svona flottu fyrirtæki. Ekki síst um sama leyti og fyrirtækið býður glás af fólki á Clapton-tónleika í Egilshöllinni.
Og það er líka flott að gefa í skyn að maður ætli að sýna ábyrgð. En Guðlaugur Gylfi og félagar hans sáu samt ekki ástæðu til að setja eitt einasta orð í skýrslu stjórnarinnar, um það hvort þetta hrottalega tap Orkuveitu Reykjavíkur teljist eitthvert tiltökumál.
Sú staðreynd að hátt í helmingur af eigin fé Orkuveitunnar hreinlega fuðraði upp eftir að Guðlaugur Gylfi tók við stjórnarformennskunni, virðist ekki einu sinni verðskulda smá vangaveltur um hvernig brugðist hafi verið við þessu svakalega áfalli. Kannski var þetta ekkert áfall í hugum þeirra sem þarna ráða - þetta eru líkelga barrrasta einhver sýndarverðmæti í eigu almennings; skattborgara í Reykjavík og nokkurra annarra volaðra drottinssauða.
Nánast einu skýringarnar sem gefnar í skýrslu stjórnarinnar á þessu ofsatapi, eru eftirfarandi: "Þróun gengis íslensku krónunnar hefur orðið með allt öðrum hætti á árinu en áætlanir samstæðunnar gerðu ráð fyrir". Þetta er sem sagt ástæða þess að góðar rekstrarhorfur brettust í martröð. Gott fyrir okkur vitleysingana að fá að vita það. Eða eins og segir í ársskýrslunni: "Þessi þróun veldur því að fjármagnskostnaðurinn hækkar verulega á árinu og eigið fé rýrnar". Hvað getur Orkubloggarinn annað gert, en að kinka kolli íhugull á svip þegar svona mikil speki er framreidd?
Og að auki er það einfaldlega þannig, að tap OR er auðvitað ekki stjórn Orkuveitunnar að kenna, né gjörsamlega misheppnuðum áætlunum fyrirtækisins um gengisþróun og áhættudreifingu. Eins og alltaf þegar illa fer, er það auðvitað öðrum að kenna.
Þetta veit Guðlaugur Gylfi og líklega öll stjórn OR. Í skýrslu stjórnarinnar segir orðrétt: "Í fjárhagsáætlun Orkuveitunnar fyrir árið 2008 var gert ráð fyrir að gengisvísitalan yrði 155 í árslok og var það byggt á spám greiningadeilda bankanna og opinberra aðila" (leturbreyting hér).
Það var sem sagt ekki Orkuveitan sem brást - heldur greiningadeildir fallinna banka og einhverjir ótilteknir mistækir álfar hjá hinu opinbera. Hjá Orkuveitunni eru menn auðvitað stikkfrí og geta ekkert gert að því að aðrir séu svona vitlausir. Og eiga því auðvitað áfram að sjá um þetta fjöregg Reykjavíkurborgar og skattborgaranna.
Orkubloggið leyfir sér að ljúka þessari færslu um Orkuveitu Reykjavíkur með örfáum spurningum, sem lesendur geta kannski svarað hver í sínu hjarta:
Er eðlilegt, að í skýrslu stjórnar fyrirtækis sem skilar þvílíku megatapi, sé ekki stafkrók að finna um horfurnar framundan og hvort þetta fyrirtæki almennings telji sig þurfa hafa áhyggjur af því að tapið jafnvel haldi áfram? Er ársskýrsla kannski bara eitthvert leiðinda formsatriði?
Eða er kannski ársskýrsla Orkuveitu Reykjavíkur vegna 2008, einhver besta vísbendingin um ömurlegt "corporate governance" sem finnst alltof víða í íslenskri fyrirtækjamenningu?
Eða er Orkubloggarinn bara einhver leiðinda tuðari?
6.4.2009 | 05:32
Silfrið II: Landsvirkjun
Eftirfarandi eru glærur sem birtust í Silfrinu í gær í tengslum við umfjöllun um Landsvirkjun.
Þetta voru tvær glærur, sem birtust vegna Landsvirkjunar. Sú fyrri beindist að því hvert tap fyrirtækisins var á liðnu ári. Lítið hefur borið á því að mönnum þyki þetta umtalsvert tap. Litlir 40 milljarðar íslenskra króna. Þykir varla fréttnæmt. Jafnvel þó svo þetta nemi hátt í fjórðungi af öllu eigin fé fyrirtækisins um síðustu áramót.
Ef litið er til afkomu íslenskra fyrirtækja í gegnum tíðina, kemur í jós að líklega er þetta tap Landsvirkjunar á síðasta ári einfaldlega eitt stærsta tap í Íslandssögunni. Áframhaldandi tap af þessu tagi myndi kíla all svakalega niður eigið fé Landsvirkjunar á tiltölulega stuttum tíma. Ennþá geta menn þó staðið keikir og bent á þá staðreynd að eiginfjárstaða fyrirtækisins er mjög sterk.
Íslendingar kunna reyndar að vera orðnir dofnir gagnvart svona háum taptölum. Ekki síst eftir hroðalega útreið fyrirtækja útrásarvíkinganna. Fyrirtækja eins og t.d. FL Group, Eimskips og Straums. Eins og sá má á glærunni hér að ofan, hefur Íslandsmetið í tapi verið slegið hratt undanfarin misseri - fyrir vikið þykir 40 milljarða tap kannski ekkert tiltökumál.
Svona eru tölur nú afstæðar og tilfinningin fyrir þeim breytileg. Ekki eru mjög mörg ár liðin frá því mönnum nánast lá við yfirliði, þegar Þorsteinn Vilhelmsson seldi hlut sinn í Samherja fyrir einhverja 3,5 milljarða eða svo. Var það ekki örugglega árið 2000? Og svo var það að þríeykið glæsilega seldi bjórfyrirtækið sitt í Skt. Pétursborg fyrir 400 milljónir dollara. Það jafngildir í dag næstum 48 milljörðum ISK, en nam á þáverandi gengi líklega um 35 milljörðum.
M.ö.o. tapaði Landsvirkjun á liðnu ári álíka upphæð og söluverðið var á Bravo-bjórveldinu. En í dag þykja svona upphæðir bara smotterí eða hvað? Það er kannski ekki skrítið. Ógnin sem steðjar að Landsvirkjun er nefnilega önnur. Þó svo eigið fé fyrirtækisins rýrni hratt þessa dagana, er það ekki vandamál dagsins.
Ekki er hægt að horfa framhjá þeim möguleika, að Landsvirkjun lendi í greiðsluþroti. Þrátt fyrir öfluga eiginfjárstöðu. Að fyrirtækið geti ekki staðið við að greiða afborganir af skuldum sínum og lánin verði gjaldfelld. Staða Landsvirkjunar núna, er kannski ekki ósvipuð, eins og hjá íslenskri fjölskyldu sem notaði tækifærið í góðærinu og fékk sér bæði stærra húsnæði og öflugri jeppa. Á gengistryggðu láni. Munurinn er þó sá, að Landsvirkjun fær stóran hluta tekna sinna í dollurum, sem er eins gott. En á móti kemur gríðarleg lækkun á álverði. Landsvirkjunarfjölskyldan er sem sagt að sligast undan Kárahnjúkavillunni og Hummernum þar í heimreiðinni.
Það yrði ekki lítill skellur. Landsvirkjun skuldar u.þ.b. 3,2 milljarða USD; um 380 milljarða íslenskra króna! Fyrirtækið skuldar m.ö.o. sem nemur u.þ.b. tíu sinnum söluverð Bravo-veldisins í Rússlandi. Skuldin samsvarar næstum því 1,2 milljónum ISK á hvert einasta mannsbarn á Íslandi. Þar með taldir hvítvoðungarnir, sem fæddust nú í nótt.
Vonandi fyrirgefst Orkubloggaranum að þykja þetta hið versta mál. Ef Landsvirkjun lendir í greiðsluþroti, sem nú virðist alls ekki útilokað, fellur þessi skuldbinding á ríkið. Litlar 380 þúsund milljónir króna.
Undarlegast þykir þó bloggaranum kæruleysið sem fjármálaráðherra virðist sýna þessu máli. Hann ber hina pólitísku ábyrgð á velferð Landsvirkjunar. Ekki hefur heyrst af því að hann hafi minnstu áhyggjur af ástandinu. Enda er nú kosningabarátta á fullu og enginn tími til að vera a velta vöngum yfir vandræðum hjá Landsvirkjun. Vonandi er nýskipuð stjórn Landsvirkjunar meðvitaðri um þá miklu ógn sem nú steðjar að fyrirtækinu.
5.4.2009 | 14:34
Silfrið I: Drekasvæðið
Hér eru glærur frá Silfrinu fyrr i dag. Í því spjalli var annars vegar fjallað um Drekasvæðið og hins vegar Landsvirkjun. Fyrst koma hér Drekaglærurnar:
Sú fyrsta sýnir einfaldlega hvar Drekasvæðið er, á mörkum efnahagslögsögu Íslands og lögsögu Norðmanna kringum Jan Mayen.
Drekasvæðið allt er nálægt 40 þúsund ferkílómetrar og þar ef er um 75% svæðisins innan íslensku lögsögunnar (rauða svæðið). Stór hluti svæðisins fellur innan marka landgrunnssamnings Íslands og Noregs og skv. honum eiga ríkin gagnkvæma hagsmuni innan lögsögu hvors annars.
Næsta mynd sýnir í hnotskurn upphafið í olíuvinnslu á norska landgrunninu - og hvar fyrsta olían fannst (á Ekofisk-svæðinu). Fyrsta olían kom þar upp úr djúpinu árið 1971.
Fram til þessa dags hafa alls um 30 milljarðar tunna af olíu skilað sér upp á landgrunni Noregs. Þar af er rúmlega 2/3 olía og tæplega 1/3 gas, þar sem magn þess er umreiknað í olíutunnur.
Forstjóri Sagex Petroleum hefur sagt að hugsanlega muni finnast allt að 20 milljarðar tunna af olíu á Drekasvæðinu, þar af séu 10 milljarðar tunna Íslandsmegin. Slíkt myndi samstundis gera Ísland að einni mestu olíuútflutningsþjóð í heimi - ekki síst miðað við höfðatölu.
Orkubloggið veit ekki hvort kalla ber spár Sagex bjartsýni eða ofurbjartsýni... eða hreina fantasíu. En stundum rætast vissulega draumar. Og stundum vinnur fólk í lottóinu. Vinningslíkurnar eru samt afar litlar - og það ættu menn að hafa í huga vegna Drekans.
Einnig vill bloggið minna á að leitin og vinnslan á Drekasvæðinu verður dýr - væntanlega talsvert dýrari en almennt gerist í olíuvinnslu á norska landgrunninu. Bæði vegna dýpisins og svo verður olíuleitin eflaust mjög vandasöm vegna basaltsins á svæðinu. Það hefur reynst erfitt að finna lindirnar við slíkar aðstæður og eykur hættu á að hlutfall þurra brunna verði hærra en almennt þykir gott. Einnig má hafa í huga, að núverandi olíuverð er líklega talsvert of lágt til að vinnsla á Drekasvæðinu borgi sig. Svæðið verður ekki almennilega spennandi fyrr en olíutunnan fer aftur upp í 70 dollara. En engar áhyggjur; það mun gerast. Fyrr eða síðar!
Enn skal minnt á heildarolíuframleiðslu Norðmanna síðustu 38 árin; 30 milljarða tunna. Og spána um að 10 milljarðar tunna af olíu finnist Íslandsmegin á Drekasvæðinu; litla rauða svæðinu á kortinu.
Orkubloggið vill líka vekja athygli á hinum þremur gríðarstóru olíusvæðum Norðmanna; Norðursjó, Noregshafi og Barentshafi. Eins og sjá má eru þau norsku hafsvæði margfælt stærri en Drekasvæðið. Helstu rökin fyrir því að hugsanlega finnist olía á Drekanum, er einmitt að svæðið (Jan Mayen hryggurinn) er jarðfræðilega náskyldur norska landgrunninu. Einfaldur stærðarsamanburður er ekki mjög vísindalegur, en gefur þó til kynna hversu gríðarleg tíðindi það væru, ef 10 milljarðar tunna af olíu myndu finnast Íslandsmegin á Drekasvæðinu. Jafnvel sviðsmynd Orkustofnunar um að þarna finnist allt að 2 milljarðar tunna, er mikið. Mjög mikið.
Til samanburðar þá kunna Brassar sér vært læti af tómri kæti þessa dagana, vegna Tupi-olíulindanna. Sem eru sagðar geyma allt að 5-8 milljarða tunna af olíu. Slíkar fréttir þykja stórtíðindi í olíubransanum. Nú er bara að bíða og sjá hvort Ísland verði næsta bomban í bransanum.
Staðreyndin er auðvitað sú að þessar bjartsýnu spár um Drekann eru barrrasta sölumennska. Það er verið að reyna að fanga athygli olíufélaga, svo þau slái til og loks verði byrjað af alvöru að leita að olíu á íslenska landgrunninu. Íslendingum að kostnaðarlausu.
Þetta er kannski brilljant aðferðarfræði - en afar undarlegt að sumir íslenskir fjölmiðlar skuli nánast gleypa þessar ofurspár gagnrýnislaust.
By the way; þetta var frumraun Orkubloggarans í beinni sjónvarpsútsendingu. Alltaf gaman að prófa nýja hluti. Og kannski getum við bráðum öll fagnað því að verða olíuþjóð. Aldrei að vita.
Viðskipti og fjármál | Breytt 6.4.2009 kl. 04:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.4.2009 | 19:50
Björgunarsveit Landsvirkjunar
Í dag fékk Landsvirkjun nýja stjórn. Hún er valin af eiganda Landsvirkjunar, ríkissjóði, en hinn mannlegi hugur sem þessu réð er Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Stjórnina skipa:
Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi.
Stefán Arnórsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Þau Bryndís, Ingimundur og Páll sitja sem sagt áfram í stjórninni, en Sigurbjörg og Stefán eru ný. Einnig sýnist Orkublogginu að alveg hafi verið skipt um varamennina, að undanskilinni Vigdísi Sveinbjörnsdóttur, bónda. Varamenn eru nú:
Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent við Háskóla Íslands.
Birgir Jónsson, jarðverkfræðingur við Háskóla Íslands.
Huginn Freyr Þorsteinsson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri.
Jóna Jónsdóttir, viðskiptafræðingur við Háskólann á Akureyri.
Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir, bóndi á Egilsstöðum.
Óneitanlega finnst Orkublogginu sem þetta lykti örlítið af kjördæmahagsmunum og gagnkvæmum pólitískum skiptimyntaleik, sem enn virðist í hávegum hafður hjá sumum íslenskum ráðherrum.
Þetta er fólkið sem nú tekst á við einhverja mestu skuldahít sem sögur fara af. Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar vegna 2008 voru heildarskuldir Landsvirkjunar um síðustu áramót nettir 3,2 milljarðar USD. Eða sem samsvarar rúmlega 380 miljörðum ISK.
Já - Landsvirkjun skuldar meira en 380 þúsund milljónir króna. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru Íslendingar nú rétt tæplega 320 þúsund. Fjölskyldan hér á heimili Orkubloggarans ber skv. þessu ábyrgð á u.þ.b. 4.750.000 krónum af skuldum Landsvirkjunar. Hjón með tvö börn. Orkubloggarinn er satt að segja ekki alveg sáttur við þessa ábyrgð. En á allt eins von á að þessar skuldir muni brátt bætast við það skuldadíki sem bankarnir, Seðlabankinn, Björgólfsfeðgar, Jón Ásgeir og félagar hafa steypt íslensku þjóðinni útí.
Það eina sem getur bjargað þjóðinni frá því að fá þessar ofsalegu skuldir mígandi blautar beint í fangið, er að lánsfjárkreppan leysist í síðasta lagi innan 20 mánaða eða svo. Stjórnendur Landsvirkjunar segjast ráða við allar afborganir og rekstrarkostnað fyrirtækisins út árið 2010, þó svo enginn aðgangur verði að nýju lánsfé á þessum tíma. Jafnframt viðurkenna stjórnendur Landsvirkjunar að erlendir lánadrottnar séu farnir að bjalla upp í Háleiti og spyrja menn þar á bæ, hvernig þeir ætli eiginlega að fara að því að leysa úr þessu.
Hin nýja stjórn og stjórnendur Landsvirkjunar standa frammi fyrir risaverkefni. Skuldir fyrirtækisins eru, sem fyrr segir, um 3,2 milljarðar bandaríkjadala eða um 380 milljarðar íslenskra króna. Og ábyrgðin vegna þessara skulda hvílir á ríkinu - á þjóð með tæplega 320 þúsund íbúa. Þetta er arfleifð Valgerðar á Lómatjörn og Kárahnjúkaævintýrisins ljúfa.
Já - það var eflaust gaman að vera ráðherra og veðsetja þjóðina. Til allrar hamingju erum við svo heppin að Steingrímur J. Sigfússon leitaði og fann hæfasta fólk landsins til að takast á við þennan vanda. Það hlýtur a.m.k. að hafa verið markmið hans.
Þó svo Orkubloggarinn geti nú líklega gengið rólegur til náða án þess að hafa áhyggjur af Landsvirkjun, er samt einhver óeirð í bloggaranum. Og þykir tilefni til að árétta þá skoðun sína að Landsvirkjun og ríkið eiga strax að hefja viðræður við ábyrg orkufyrirtæki erlendis um aðkomu þeirra að Landsvirkjun. Íslenska ríkið er rúið trausti - farsælasta leiðin til að tryggja að Landsvirkjun lendi ekki í greiðsluþroti er aðkoma nýrra eigenda. Sem njóta meira trausts en íslenska ríkið og eiga greiðari leið að lánsfjármagni. Annars er hætt við að illa fari.
Viðskipti og fjármál | Breytt 4.4.2009 kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.3.2009 | 09:16
Landsvirkjun: 40 milljarða tap
"Það er mat stjórnenda Landsvirkjunar að fyrirtækið geti mætt skuldbindingum næstu 24 mánuði þó að enginn aðgangur verði að nýju lánsfjármagni á þeim tíma."
Já - þannig segir í nýútkominni ársskýrslu Landsvirkjunar vegna ársins 2008. Nú þegar Eimskipafélagið hefur orðið leiksoppur braskara og er í dag jafnvel með neikvætt eigið fé, leyfir Orkubloggið sér að stinga upp á því að Landsvirkjun sé hið nýja óskabarn þjóðarinnar.
Og öðruvísi hafast þau að, gamla óskabarnið Eimskip og hið nýja; Landsvirkjun. Skv. ársreikningi Landsvirkjunar var eigið fé þessa öfluga orkufyrirtækis um síðustu áramót að jafngildi nálægt 1,4 milljörðum bandaríkjadala (Landsvirkjun gerir upp í dollurum). Hljómar dável.
Menn geta vissulega rifist um hversu "rétt" metnar eignir Landsvirkjunar eru. En það breytir ekki öllu. Til skemmri tíma litið - nú á tímum lánsfjárkreppu - skiptir meira máli hvort Landsvirkjun getur staðið við skuldbindingar sínar næstu misseri og ár. Að fyrirtækið hafi nægar tekjur og aðgang að fjármagni til að geta greitt afborganir af skuldum sínum, auk launa og annarra útgjalda.
Landsvirkjun er nú að öllu í eigu ríkissjóðs. Nánar tiltekið á ríkissjóður 99,9% eignarhlut og félagið Eignarhluti ehf. á 0,1%, en það félag er í eigu ríkissjóðs. Af þessu tilefni vill Orkubloggið vekja athygli á annarri "skemmtilegri" staðreynd: Ríkissjóður ber ábyrgð á 99,9% allra skuldbindinga Landsvirkjunar, sbr. lög sem um fyrirtækið gilda. Gömlu sameigendurnir, Reykjavíkurborg og Akureyri, eru reyndar ekki alveg stikkfrí. Því þessi tvö bæjarfélög eru líka í ábyrgð vegna allra skuldbindinga Landsvirkjunar sem eru eldri en frá ársbyrjun 2007 (þessi meðábyrgð gildir út árið 2011). Það er því augljóst að það er ekki bara ríkissjóður sem á allt undir vegna Landsvirkjunar. Bæði Reykvíkingar og Akureyringar eiga þarna ennþá meiri hagsmuni en aðrir landsmenn af því að fyrirtækið spjari sig og lendi ekki í greiðsluþroti.
Samkvæmt áðurnefndri tilvitnun hér í upphafi færslunnar, þá telja stjórnendur Landsvirkjunar ekki yfirvofandi hættu á ferðum. Telja að fyrirtækið ráði við skuldbindingar sínar næstu tvö árin, jafnvel þó svo enginn aðgangur verði að lánsfé. A.m.k. ef álverð lækkar ekki enn meira.
Orkubloggið hefur enn ekki gefið sér tíma til að kíkja almennilega á ársskýrsluna. Hefur rétt snuðrað af henni. Samt er ekki hægt annað en minnast strax á svolítið óþægilega staðreynd: Á síðasta ári (2008) voru fjármagnsgjöld Landsvirkjunar umfram fjármagnstekjur 660,6 milljónir dollara. Þetta er all svakaleg breyting frá árinu á undan. Árið 2007 var þessi mismunur 445,6 miljónir USD í plús, þ.e. fjármagnstekjurnar voru þá þessum hundruðum milljóna umfram fjármagnsgjöldin.
Þessi nokkuð svo hressilega neikvæða sveifla milli áranna er sem sagt 1.106,2 milljónir eða um 1,1, milljarður. Og hér erum við ekki að tala um íslenskar krónur, heldur bandaríkjadali. Í ársskýrslunni er þessi sveifla skýrð þannig að um sé að ræða breytingar "á hreinum tekjum og gjöldum af fjáreignum og fjárskuldum auk hækkunar vaxtagjalda".
Á sama tíma og fjármagnsgjöldin flæddu yfir Landsvirkjun og virði orkusölusamninga lækkaði, jókst engu að síður rekstrarhagnaður fyrirtækisins. Fór úr 181 milljónum USD 2007 og í 246 milljónir dollara 2008. Í ársskýrslunni segir að þessi aukni rekstrarhagnaður skýrist af "aukinni orkusölu með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar og hærra orkuverði". Orkubloggið stóð reyndar í þeirri trú að orkuverðið til Landsvirkjunar frá Kárahnjúkum lækkaði (í dollurum) samfara lækkandi álverði. En líklega hefur Landsvirkjun náð að verja sig að einhverju leyti gegn álverðslækkununum, með afleiðusamningum, auk þess sem afkoman á fyrri hluta ársins var væntanlega bærilegri.
Þrátt fyrir þennan þokkalega rekstrarhagnað leggur stjórn Landsvirkjunar það til, að ekki verði greiddur neinn arður til eigendanna í þetta sinn. M.ö.o. telur stjórnin bersýnilega að Landsvirkjun þurfi nú á hverri einustu krónu og hverjum einasta dollar að halda, í því undarlega árferði sem nú ríkir. Það kemur ekki á óvart. Minnumst þess að þrátt fyrir rekstrarhagnaðinn, skilaði Landsvirkjun verulegu tapi á liðnu ári. Þegar fjármagnsliðir eru teknir með, varð heildarútkoman tap upp á nærri 345 milljón dollara.
Já - Landsvirkjun tapaði meira en sem nemur 40 milljörðum ISK árið 2008. Það er súrt. Rekstrarhagnaður Landsvirkjunar jókst vissulega um 65 milljónir USD á árinu, en á meðan þyngdist fjármagnsbyrðin um 1,1 milljarð USD m.v. árið á undan. Það þætti mörgum Íslendingnum nokkuð óþægileg þróun í heimilisbókhaldinu. Á mannamáli þýðir þetta einfaldlega að Landsvirkjun stendur frammi fyrir gríðarlegri byrði vegna lánanna, sem hvíla á fyrirtækinu. Og það eru væntanlega fyrst og fremst lánin vegna Kárahnjúkastíflu og Fljótsdalsvirkjunar, sem nú eru að segja til sín.
Þeir sem hrífast af áliðnaði, stóriðju og miklum virkjanaframkvæmdum, tala gjarnan um að við Íslendingar eigum margar virkjanir sem séu nú nánast skuldlausar og mali gull fyrir þjóðina. Það má vel vera. En í ár fær ríkið ekki krónu í arð af þessari eign sinni í Landsvirkjun, sem nú er með eigið fé upp á 1,4 milljarða bandaríkjadala.
Orkublogginu finnst það barrrasta alls ekki nógu gott. Hvaða hluthafi í fyrirtæki með sem samsvarar tæpum 170 milljörðum ISK í eigið fé, væri sáttur við að fá engan arð af því fjármagni?! Þetta er hreinlega sorglegt. Að mati Orkubloggsins er eina vitið að leita eftir erlendum aðila, sem vill eignast hlut í Landsvirkjun. Og nota andvirðið sem fengist fyrir þann hlut, sem fyrsta framlagið í sérstakan orkusjóð íslensku þjóðarinnar- í anda norska olíusjóðsins. Þar með væri unnt að dreifa betur áhættunni og um leið myndi Landsvirkjun væntanlega losna við þær ásakanir að fjárfesta í óarðbærum virkjunum.
Með þessu væri sem sagt bæði unnt að losa Landsvirkjun við pólitíkina og um leið koma eggjunum í fleiri körfur. Það er orðið löngu tímabært að íslenska þjóðin fái skýrari og betri tilfinningu fyrir þeim arði, sem orkulindirnar skila. Stofnun slíks sjóðs gæti verið rétta skrefið til að skapa víðtæka samstöðu um auðlindanýtingu landsins. Þangað gætu hugsanlega líka runnið fiskveiðiheimildirnar - en það er annað og kannski flóknara mál.
Í ljósi þess sem sagt var í upphafi þessarar færslu um braskarana og Eimskipafélagið, kann það að hljóma sem þversögn hjá Orkublogginu að vilja selja hluta Landsvirkjunar. En munum að það eru ekki allir jafn ferlegir eins og nýríkir íslenskir auðmenn. Á Norðurlöndunum eru t.d. nokkur fyrirtæki, sem gætu verið heppilegur meðeigandi að Landsvirkjun ásamt íslenska ríkinu
Fyrsti mögulegi kaupandinn, sem kemur upp í huga Orkubloggarans er norska ríkisfyrirtækið Statkraft. Sem hefur fjárfest í endurnýjanlegri orku víðsvegar um heiminn. Er hugsanlegt að Statkraft vilji koma inn í íslenska orkugeirann og í framhaldinu öðlast meiri þekkingu á vatnsafli og jarðvarma? Fram til þessa hefur Statkraft verið dálítið utanveltu í jarðvarmanum - meira verið t.d. í vindorku. Með því að fá Statkraft til Íslands er enn fremur mögulegt að hér yrði farið að skoða aðra virkjanakosti af alvöru. Bæði vindorkuver og osmósavirkjanir, svo dæmi sé tekið. Eða sjávarvirkjanir. Það kann að vera tímabært að einblína ekki bara á vatnsorku og jarðvarma.
Og ef Statkraft hefur ekki áhuga má kanna með danska Dong Energi. E.t.v. væri þó nærtækast að tala við sjálfan skipa- og olíukonunginn Mærsk McKinney-Möller. Hann gæti haft áhuga á að Mærsk tengdist ekki aðeins olíuiðnaðinum, heldur færði út kvíarnar í endurnýjanlega orku. Þó svo Mærsk sé hálfgerðu basli þessa dagana, er vel þess virði að skoða slíkan möguleika. Gæti tilurð Mærsk Renewables orðið tækifæri Íslands?
En víkjum aftur að Landsvirkjun og fjármagnsþörfinni þar á bæ. Hvað mun lánsfjárkreppan standa lengi? Hvenær mun Landsvirkjun á ný geta nálgast lánsfé á vöxtum, sem eru viðráðanlegir? Er nóg að afgreiða þetta, með því að segja að þetta verði í lagi næstu 24 mánuðina? Orkubloggið hefði gjarnan viljað sjá eitthvað meira um þessa áhættu í ársskýrslunni.
Einnig er vert að hafa í huga að hlutfall bandaríkjadalsins í tekjum Landsvirkjunar hefur farið hratt hækkandi. Þetta hlutfall mun hafa verið um 50% 2006 og 2007, en var um 70% árið 2008. Samkvæmt ársskýrslunni er gert ráð fyrir að þetta hlutfall lækki eitthvað á ný og verði senn á bilinu 60-70%. Þetta er ekki útskýrt nánar, nema hvað sagt er að hlutfallið taki breytingum með þróun álverðs. Af þessu hlýtur Orkubloggið að álykta sem svo, að stjórnendur Landsvirkjunar telji að lækkun álverðs hafi nú þegar náð botni. En hafandi í huga að nú eru talsverðar líkur á enn meiri lækkun dollars, er kannski ekki heppilegt að hlutfall tekna Landsvirkjunar í dollurum skuli hafa hækkað.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins nú um helgina sagði fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Haarde, að líklega hefði ekki með nokkru móti verið hægt að bjarga bönkunum. Jafnvel þó svo fyrr hefði verið farið í markvissar aðgerðir, en raun varð á. Spurningin er hvort fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem situr í stól forstjóra Landsvirkjunar, sé sömu skoðunar um Landsvirkjun? Að þetta verði bara að ráðast.
Og hvað ætli stjórn Landsvirkjunar og nýi fjármálaráðherrann séu að bauka? Landsvirkjun heyrir vel að merkja undir fjármálaráðuneytið, þ.e. fjármálaráðherrann skipar stjórn Landsvirkjunar. Sökum þess að aðalfundur Landsvirkjunar á að fara fram í apríl n.k., er það Steingrímur nokkur Sigfússon, sem fær það hlutverk að skipa alla stjórn Landsvirkjunar að þessu sinni.
Fróðlegt verður að sjá hvaða fólk fjármálaráðherrann biður um að taka að sér þetta ábyrgðarmikla hlutverk, á þessum viðsjárverðu tímum. Ennþá meira brennandi spurning er sú hvort búið sé að semja nákvæma aðgerðaráætlun um það hvernig bregðast skuli við, ef Landsvirkjun lendir í greiðsluþroti? Eða ætla menn barrrasta að mæta í sjónvarpssal og segja "við borgum ekki skuldir... óreiðufyrirtækis"?
Tæplega nokkur hætta á því. Þar sem Landsvirkjun er jú í ríkiseigu og ríkið vil væntanlega helst ekki að einhverjir kröfuhafar hirði fyrirtækið - og þar með virkjanirnar. Þá myndi ríkið litlu sem engu ráða um það í hvaða hendur virkjanirnar myndu fara. Þess vegna hljóta menn að vera á tánum og vera með allt á hreinu hvað gera skuli EF illa fer hjá Landsvirkjun.
En það sem er undarlegast, er hversu lítið er um þetta fjallað á opinberum vettvangi. Fjölmiðlar virðast lítinn sem engan áhuga hafa á stöðu Landsvirkjunar. Né því hvort fyrirtækið sé að meta ástandið raunsætt, með því að segja stöðu Landsvirkjunar viðunandi og að fyrirtækið þurfi ekkert nýtt lánsfé næstu 24 mánuðina.
Menn geta kannski huggað sig við það, að enn sé allt í góðu hjá Landsvirkjun. En er það mat raunsætt - eða óskhyggja? Hvað ef álverð heldur áfram að lækka? Og lánsfjárkreppan dregst á langinn? Hversu snögglega gæti málið þróast á verri veg, ef vonir manna um hærra álverð ganga ekki eftir?
Orkubloggið vonast til þess að fólk hafi lært af reynslunni. Að nú sé þegar búið að stofna öflugt neyðarteymi, sem aðstoði starfsfólk Landsvirkjunar við að meta og takast á við þessar vægast sagt óvenjulega neikvæðu aðstæður, sem uppi eru í efnahagslífinu.
Og við treystum því að stjórn fyrirtækisins fylgist náið með þróuninni og leggi sjálfstætt og gagnrýnið mat á þær upplýsingar, sem frá fyrirtækinu koma. Við treystum því að þarna sé og verði áfram á ferðinni útvalsfólk, með nauðsynlega yfirburðarþekkingu á álmarkaðnum, fjármálageiranum og rekstrarfræði. Á endanum er það þó fjármálaráðherra, sem ber hina pólitísku ábyrgð á að Landsvirkjun farnist vel.
Jóna Jónsdóttir, viðskiptafræðingur.
Páll Magnússon, bæjarritari.
28.3.2009 | 00:10
Dan Yergin
Þegar litið er til baka, virðist manni sem hér hafi um skeið ríkt þau trúarbrögð að tilbiðja heimskuna. Menn sem þáðu hæstu launin í landinu, réttlættu þau með því að þeir væru að byggja upp gríðarleg öflug fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni. Fjármálastofnanir landsins myndu ekki fá að njóta hæfileika þeirra, nema að borga þeim feykilega vel. Annars myndu þeir óðar hverfa til annarra starfa - í útlöndum. Og Ísland sitja eftir með sárt ennið.
Þegar til kom sýndu þessir menn þann einstaka "hæfileika" að sigla öllum íslensku bönkunum í þrot, á örfáum árum. Þeir tóku við bönkunum eftir einkavæðingu og eflaust voru þeir vel meinandi - framan af. En svo opinberaðist hversu arfa slakir þessir nýju stjórnendur voru - og gjörsamlega siðlausir. Orkubloggið veltir fyrir sér hvort þetta sé heimsmet í lélegri fyrirtækjastjórnun.
En þetta er svo sem ekki séríslenskt fyrirbæri. Í útlöndum má svo sannarlega líka sjá þennan sama leiðinda tendens til að snobba fyrir mistækum kjánum.
Í orkugeiranum er maður sem heitir Daniel Yergin. Hann er forstjóri heimsþekkts ráðgjafafyrirtækis, Cambridge Energy Research Associates, sem einkum sérhæfir sig í orkumálum. Í hvert sinn Dan Yergin opnar muninn, hlustar orkugeirinn andaktugur á. Þeir hjá CERA þykja m.ö.o. einhver alfínasti pappírinn í bransanum, þegar kemur að því að spá fyrir um þróunina á olíumörkuðunum.
Þess vegna eru bæði ríkisstjórnir og orkufyrirtæki ónísk á að greiða háar fjárhæðir til CERA fyrir ráðgjöf þeirra. Af því þeir hjá CERA eru páfarnir í bransanum. Þetta er svolítið broslegt. Því ef maður nennir að skoða hvernig spár CERA hafa gengið eftir, kemur auðvitað í ljós að þeir eru alveg vonlausir í að spá rétt fyrir um þróunina á orkumörkuðunum. Eins og á við um fólk yfirleitt - nobody knows nuthin!
Almennt má segja að spár CERA einkennist af bjartsýni. Það er í anda Orkubloggsins. Hjá CERA eru menn t.d. handvissir um að peak-oil sé bara kjaftæði. Ennþá sé óralangt í að olíuframleiðslan byrji að hnigna - ennþá sé miklu meira en helmingur af vinnanlegri olíu veraldarinnar ósóttur í jörðu.
CERA hefur sett fram spár um að vinnanlegar olíubirgðir jarðar séu allt að 4-6 milljarðar tunna. Hingað til hefur einungis u.þ.b. 1,2 milljörðum tunna verið dælt upp. Sem sagt margfalt meiri olíu að hafa. Peak-oil spámenn eru aftur á móti flestir á því, að vinnanleg olía nemi einungis um 2-2,5 milljörðum tunna. Við séum u.þ.b. á framleiðslutoppnum, eða jafnvel komin yfir toppinn nú þegar.
Orkubloggið veit svo sem ekki í hvorn fótinn er best að stíga. En hallast að þeirri kenningu að peak-oil, eins og það er almennt skilgreint, verði aldrei náð. Það verði einfaldlega svo að breytingar í orkunýtingu muni valda því að eftirspurn eftir olíu minnki - og það muni halda aftur af hinum gríðarlegu olíuverðhækkunum sem óhjákvæmilega myndi fylgja náttúrulegri hnignun í olíuframleiðslunni. Framleiðslan muni sem sagt ná toppi, svo verða stöðug og loks byrja að minnka. Einfaldlega vegna minnkandi eftirspurnar - en ekki vegna vandræði í að halda uppi framboði.
Þessi skoðun Orkubloggsins stendur mun nær spádómum CERA, heldur en Bölmóðum peak-oil kenningarinnar. Engu að síður er langt frá því að bloggið trúi í blindni á CERA. Enda kemur í ljós, þegar að er gáð, að þeir eru satt að segja frekar mistækir.
Tökum dæmi. Í ársbyrjun 2002 spáði CERA að olíuverðið það ár myndi að meðaltali vera um 20 dollarar tunnan. Spáðu sem sagt lækkun; meðalverðið 2001 hafði verið um 26 dollarar. Niðurstaðan varð að 2002 var meðalverð á olíu nánast hið sama og árið áður, eða um 26 dollarar. Ekkert varð af þessari 20% verðlækkun sem CERA spáði.
Í upphafi 2005 spáði CERA olíuverði á bilinu 20-30 dollara yfir árið. Niðurstaðan varð að olíuverðið náði 65 dollurum tunnan í lok ársins. Smá skekkja þar! Um mitt ár 2007 var olíuverðið í um 68 dollurum. Þá spáði Yergin því að olían myndi brátt lækka í 60 dollara. Niðurstaðan varð þveröfug; olían hélt áfram að hækka allt fram á mitt ár 2008. Og skömmu áður en verðið steinféll á ný, náði CERA að setja fram spá um að líklega færi verðið yfir 150 dollara. Kallagreyin.
Niðurstaðan er sem sagt sú að CERA getur nýst ágætlega við að ákveða hvernig skuli fjárfesta í olíubransanum. Bara alltaf gera þvert á það sem kemur fram í spám CERA! Sem sagt sjorta olíuna þegar þeir spá að verðhækkanir séu framundan - og hamstra þegar þeir spá yfirvofandi verðlækkun. Þeir sem fylgt hafa þessari anti-fjárfestingastefnu hafa flestir líklega gert það nokkuð gott síðustu árin.
Já - vörumst að taka mark á sérfræðingunum. Sérstaklega þó þegar þeir segja að þeir séu ómissandi. Guð forði oss frá "óskeikulum" spámönnum í orkubransanum - og "ómissandi" snillingum í íslensku fjármálalífi. Orkubloggarinn getur nú alla vega þakkað fyrir það, að hafa síðustu 10 árin fylgt eigin hyggjuviti í fjármálum - en ekki því sem kom frá greiningadeildum íslenskra banka.
Auðvitað hefur Yergin oft haft rétt fyrir sér. En þá freistast maður til að segja "a broken clock is right twice a day"! En hvort sem menn taka mark á Dan Yergin eður ei, er "The Prize: The Epic Quest for Oil, Money and Power" auðvitað skyldulesning. Yergin fékk meira að segja sjálf Pulitzer-verðlaunin fyrir þau skrif. En hverju spá CERA-menn nú um framhaldið. Það vill svo til að nýjasta spáin þeirra birtist í dag, föstudag. Og hún er lítið annað en "ef þetta og ef hitt". En Orkubloggarinn staldraði við eftirfarandi:
Seven consecutive years of rising oil prices unprecedented in the history of the oil industry have come crashing down, thus burying the notion that the commodity price cycle was a historical relic. Instead, old truths have been reaffirmed. Sustained rising oil prices do, eventually, affect demand trends. One-way bets on oil prices eventually go awry.
Orkubloggið gæti ekki verið meira sammála. Markaðurinn lætur ekki bjóða sér hvaða olíuverð sem er. Þegar olíuverð æðir upp er það einfaldlega bóla. Ýmist vegna geggjaðrar spákaupmennsku, vegna tímabundinnar stíflu í að fullnægja aukinni eftirspurn eða vegna annarra álíka óvæntra eða ill-fyrirséðra atburða. Það er aftur á moti enn nóg af olíu í jörðu. En skoðum meira úr skýrslunni:
The question today is, as always, When will the next swing in oil price occur? Economic growth and oil demand will be key factors that also affect future supply. After declining in 2008 and 2009, CERA expects oil demand to pick up in 2010. CERAs analysis finds that, with the fall in oil prices, the pace at which new supply will grow and come onstream is already slowing. Given the global economic climate, short-term corporate cash flow problems will lead to project deferrals throughout the global industry, and financial pressures could spark a possible wave of merger and acquisition (M&A) activity. Oil-exploring countries face a large reduction in revenue compared with 2008 as well, and current indications are that as many as 35 new projects in OPEC countries will be delayed significantly.
Sem sagt; eftirspurnin mun aukast strax á næsta ári (2010) og hætt er við að framleiðslugetan muni ekki geta mætt eftirspurnin. Stífla af þessu tagi þýðir aðeins eitt: stórlega hækkun á olíuverði. Nú er bara spurningin hvort við trúum á að CERA og Yergin hitti naglann á höfuðið í þetta sinn.
Það magnaðasta er kannski að nú um stundir eru þeir hjá CERA og sjálfur yfirbölmóðurinn Matt Simmons nánast algerlega sammála. Sammála um það að rosaleg stífla sé að myndast í bransanum - stífla sem muni orsaka sprengingu í olíuverði innan ekki mjög langs tíma. Simmons er reyndar dramatískari, eins og svo oft áður. Og álítur að hugsanlega séu einungis 3 mánuðir í að tunnan rjúki yfir 100 dollara og þaðan af hærra. Þetta var haft eftir Simmons á CNBC í gær; fimtudag:
"We are three, six, maybe nine months away from a price shock. We are not talking about three to five years away -- it will be much sooner," Simmons told Reuters in London.
Í reynd veit Orkubloggið auðvitað nákvæmlega hvernig verð á olíu mun þróast. Það mun hækka eilítið, svo lækka, svo hækka, svo lækka, svo hækka...
27.3.2009 | 08:15
Karma
Ef þú, lesandi góður, ert ekki ennþá búinn að tryggja þér eintak af Fisker Karma, þá skaltu bregðast hratt við.
Orkubloggið hefur aldrei hrifist mjög af rafmagnsbílum. En nú er kominn fram rafmagnsbíll, sem hefur náð að heilla bloggið. Enda hefur bílnum verið lýst sem samblandi af því besta fra Maserati og Aston Martin. Ekki leiðum að líkjast.
Í sjálfu sér eru rafmagnsbílar engin stórtíðindi. Margir fyrstu bílanna fyrir hundrað árum voru einmitt rafmagnsbílar. Dæmi er bíllinn, sem fyrstur náði ægihraðanum 100 km/klst. Það var rafmagnsbíllinn "La Jamais Contente", sem Belginn Camille Jenatzy spændi upp í 106 km/klkst í nágrenni Parísar vorið 1899.
Smávægilegar breytingar hafa þó orðið á rafmagnsbílum á þessum rúmu hundrað árum sem liðin eru frá hraðametinu góða. En illa hefur gengið að láta rafmagnsbíla hafa roð við brunahreyflinum. Hefðbundna bílvélin hefur verið talsvert hagkvæmari og ódýrari í rekstri, en að láta bíla ganga fyrir rafmagni. Þetta gæti þó breyst hratt - ef olíuverð hækkar verulega á næstu árum líkt og margir spá. Og/eða ef settur verður sérstakur kolefnisskattur á bíla með brunahreyfil. Og það sem kannski skiptir hvað mestu; svo virðist sem nú séu loksins að bresta á miklar framfarir í rafhlöðutækni rafmagnsbílanna.
Bílaáhugamenn eins og Orkubloggarinn fitja upp á nefið þegar birtar eru myndir af smábílum, sem ganga fyrir rafmagni. Af einhverjum ástæðum líta þeir oft út eins og miniútgáfa af japönskum sardínudósum. Það er barrrasta ekki hægt að ætlast til þess að fólk, sem er að nálgast miðjan aldur og hefur dvalið drjúgan tíma lífsins í myndarlegum jeppum, eigi allt í einu að vilja klöngrast inní svona dollur! Dósir sem eru álíka spennandi eins og Ora-fiskbúðingur.
En nú er að koma á markaðinn svolítið smart kvikyndi, sem gengur fyrir rafmagni. Sá bíll kallast Fisker Karma og er eins og sniðinn fyrir menn, sem finnst árin farin að steypast óþarflegra hratt yfir og þurfa aðeins að fríska sig upp.
Já - þó Orkubloggarin sé jeppakall fremur en sportbílaálfur, hefur Fisker Karma heillað. Þetta verður tvinnsportari, sem einungis þarf að fylla tankinn einu sinni á ári. Að því gefnu að almennt sé ekki ekið meira en 80 km á dag. Bensíneyðslan verður aðeins meiri þegar maður setur sportstillinguna á, en þó sáralítil. M.ö.o. þá mun bíllinn mest allan tímann ganga fyrir rafhleðslunni, en stundum fá smá aðstoð fá bensíninu.
Liþíum-jóna rafhlaðan hleður sig yfir nóttina og er bara stungið í venjulega innstungu í bílskúrnum. Sem aukabúnað ætlar framleiðandinn reyndar að bjóða upp á sérstaka sólarrafhlöðu, svo orkusóðar í Bandaríkjunum eða Evrópu þurfi ekki að hlaða bílinn með subbulegu kola- eða kjarnorkurafmagni. Svo er gaman að vita af því, að það verða frændur vorir sem setja bílinn saman - verksmiðjan hér Evrópumegin verður í Finnlandi. Vestan hafs verður bíllinn auðvitað settur saman í Michigan.
Finnar eru seigir. Þar í bænum með skemmtilega nafnið, Uusikaupunki á suðvesturströnd Þúsundvatnalandsins, hafa Finnarnir nokkuð lengi dundað sér við að setja saman bíla - t.d. Porche og líka einhverja bíla frá Saab.
Sem kunnugt er, er sögu Saab-bílanna líklega brátt lokið. Sjálfur viðskiptaráðherra Svíanna stakk nýverið upp á því að Saab hætti þessari bílavitleysu og færi þess í stað að framleiða vindtúrbínur. Sem yrði lauflétt aðlögun að nútímanum, rétt eins og þegar finnska Nokia hætti að framleiða stígvél og fatnað fyrir Sovétið og breyttist í farsímafyrirtæki. Líklega eru Svíarnir að verða svolítið þreyttir á að sjá allar þessar dönskuættuðu Vestas-vindrafstöðvar spretta upp út um allt. Og vilja fá sænskan vindorkuframleiðanda. Saab Wind er kannski ekki svo galin hugmynd.
Það er auðvitað fagnaðarfrétt fyrir þá íbúa hins finnska Nýjabæjar, Uusikaupunki, að fá til sín Fisker Karma. En hafandi í huga Uusikaupunki er á stærð við Akureyri er vart hægt annað en að finna fyrir smá svekkelsi. Af hverju kom Fisker Karma ekki til Íslands? Og af hverju eru margir stærstu olíupallar heims smíðaðir í Finnlandi? Og af hverju er öflugasta farsímafyrirtæki heims finnskt? Og af hverju var Alvar Aalto finnskur? Og af hverju kaffærðu menn fallegustu byggingu á Íslandi - Norræna húsið - með því að troða húskofum þar ofaní? Í stað þess að leyfa húsinu að njóta sín áfram, eins og það hafði gert í áratugi.
Ljúflingurinn að baki Fisker Karma er ungur Dani; Henrik Fisker. Aðeins 3 árum eldri en Orkubloggarinn, er þessi snjalli bílahönnuður með "dósir" eins og BMW Z8 og Aston Martin DB9 í ferilskránni.
Þeir hjá bandaríska bílafyrirtækinu Tesla voru reyndar eitthvað ósáttir við Fisker. Fyrir fáeinum árum fengu þeir hann nefnilega til að hanna fyrir sig sport- og rafmagnsbílinn Tesla S og segja nú að Fisker hafi stolið dýrmætum upplýsingum frá sér. Óneitanlega ljótt ef satt væri.
Það sem álfarnir hjá Tesla gleyma, er að Henrik Fisker er einfaldlega bráðflinkur hönnuður og þarf ekki að sækja neitt til hans Elon's "PayPal" Musk eða hinna Kananna hjá Tesla í Kaliforníu. Við Norðurlandabúar verðum að standa saman! Reyndar man ég ekki betur en að hafa séð frétt um það í kringum jólin síðustu, að Fisker hafi unnið málið sem Tesa höfðaði gegn honum vestur í Ameríku.
Vert er að nefna að það eru sko engir slordónar sem hann Henrik Fisker fékk til að setja pening í Karma-ævintýrið. Heldur hinn víðfrægi ameríski fjárfestingasjóður Kleiner, Perkins, Caufield & Byers. Lesendur Orkubloggsins kannast auðvitað við þessa snillinga, enda hafa þeir fjárfest verulega í sólarorku og annarri endurnýjanlegri orku. Með ekki minni spámönnum en Vinod Khosla og Al Gore. Flottir kallar. Minnumst þess líka að KPCB komu t.d. snemma inn í vinningsfyrirtæki eins og Google og Genentech. Og yfir 50.000% ávöxtun þeirra í Amazon er víðfræg.
Nú er bara að sjá hvort þeir hjá KPCB hafi veðjað á réttan hest með Fisker Karma. Hægt verður að fá þessa 4ra sæta og 4ra dyra kerru með sólarrafhlöðu á þakinu, sem bæði mun hjálpa til við að endurhlaða Liþíum-jóna rafhlöðuna en hentar þó best við að keyra loftkælinguna meðan bíllinn stendur á stæði yfir daginn. Þetta er auðvitað bara einn af ýmsum skemmtilegum fídúsum, sem bílnum munu fylgja.
Fyrstu eintökin af Fisker Karma eiga að vera tilbúin til afhendingar á næsta ári (2010). Til að fá slíkan grip þarf að punga út litlum 80 þúsund bandaríkjadölum (fyrir ódýrustu útgáfuna). Staðfestingargjaldið sem greiða þarf við pöntun var nýlega hækkað úr 1 þúsund í 5 þúsund dali enda eru menn æstir í gripinn.
Fisker Karma á að verða u.þ.b. 6 sek í hundraðið. Og hámarkshraðinn verður 200 km/klkst! Sennilega verður freistandi að bæta smá í púkkið og fá sér 2ja dyra blæjuútgáfuna, sem kallast Karma Sunset.
Svo er vert að minna á að það heyrist væntanlega ekkert "brúmmmm" þegar gefið er í á Karmanum. Líklega bara eitthvað smá suð - líkt og í súperbýflugu. Haldiði það verði gaman að botna búrið á nýja Suðurlandsveginum! Bzzzzzzzz...
25.3.2009 | 08:39
Græni kapallinn
Eru íslenskir fjölmiðlar gersneyddir allri gagnrýnni hugsun?
Þegar maður renndi yfir helstu íslensku fréttasíðurnar á vefnum í gærkvöldi, mátti víða sjá frétt um að hér standi til að reisa "græna kapalverksmiðju". Þó svo maður rekist oft á ýmislegt skrítið hjá íslenskum fjölmiðlum, er Orkubloggarinn á því að þetta sé einhver almesta bjartsýni sem lengi hefur þar sést.
Læt hér fljóta með þessa frétt, eins og hún birtist á vef Morgunblaðsins (sjá hér neðar). Myndin hér að neðan er aftur á móti tekin af vefnum amx.is - sem kallar sig "fremsta fréttaskýringavef landsins". Og birtir sams konar frétt um þessi stórtíðindi. Og fréttavefur Ríkisútvarpsins étur þetta líka upp athugasemdalaust og segir að tekjur verksmiðjunnar muni verða sem nemur helmingi af veltu allra álvera á Íslandi.
Þetta er svo sem allt hið besta mál. Ekki ætlar Orkubloggið að finna að því, ef menn eru að vinna í metnaðarfullum hugmyndum af þessu tagi. Það ber að virða. Aftur á móti er þessi venja íslenskra fjölmiðla að birta fréttatilkynningar eins um frétt sé að ræða, ofurlítið undarleg. Og engum virðist detta í hug að spyrja sem svo, af hverju í ósköpunum svona mikill og hratt vaxandi bisness þurfi að fá sérstakan ríkisstyrk, eins og aðstandendur verkefnisins virðast gera sér vonir um. Enginn fjölmiðill virðist heldur hafa nokkurn áhuga á því að skoða hversu raunhæfar svona hugmyndir eru.
Orkubloggið ætlar að sökkva í sama dýkið og fjölmiðlarnir. Sleppa því að spá í hvort hugmyndin sé góð - eða arfavitlaus. Það verður barrrasta að koma í ljós. Aftur á móti er vel þess virði að staldra við skáldskap Friðriks Hansen. Sá var afi athafnamannsins stórhuga, sem nú er á ferðinni. Og Friðrik eldri orti m.a.:
Ætti ég hörpu hljóma þýða
hreina mjúka gígjustrengi
til þín mundu lög mín líða
leita þín er einn ég gengi.
--------------------------------
Rís fyrsta græna kapalverksmiðja heimsins á Íslandi?
Á næstu árum er ætlunin að hér á landi rísi fyrsta græna kapalverksmiðjan í heiminum sem framleiða mun, til notkunar innanlands en þó einkum til útflutnings, háspennukapla og sæstrengi og nota til þess rafmagn og ál sem hvoru tveggja er framleitt á Íslandi. Að þessu stendur íslenskt fyrirtæki, The North Pole Wire.
Samkvæmt upplýsingum Friðriks Þ. Guðmundssonar, fjölmiðlafulltrúa fyrirtækisins, er hér um að ræða grænan hátækniiðnað og mun kapalverksmiðja þessi veita á bilinu 300 til 500 manns vinnu þegar hún nær fullum afköstum og ámóta fjölda starfsmanna þarf til að reisa verksmiðjuna.
The North Pole Wire vill skapa hér eitt öflugusta útflutningsfyrirtæki landsins byggt á innviðum hins íslenska atvinnulífs. The North Pole Wire vill rísa eins og fuglinn Fönix upp úr öskunni og reisa á Íslandi fyrstu og einu kapalverksmiðjuna í heiminum sem framleiðir kapla með grænni orku. Ráðgert er að verksmiðjan rísi á næstu 3-4 árum, þar af tekur fyrsti áfangi 1-2 ár en allt er þetta háð því til verkefnisins fáist tilskilin leyfi, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Staðsetning verksmiðjunnar hefur ekki enn verið ákveðin, en ýmis landsvæði hafa verið skoðuð og sum teljast mjög vænleg, að sögn.
Stofnendahópur The North Pole Wire er innanlands í umsjá Verkfræðistofu FHG (Friðriks Hansen Guðmundssonar verkfræðings), en að baki verkefninu eru öflugir erlendir aðilar, sem ekki er að sinni tímabært að greina nánar frá en rétt að taka fram að þeir hafa ekki áður komið að starfsemi á Íslandi, segir í tilkynningunni.
Auk áætlana um að reisa verksmiðjuna á Íslandi kemur fram að þessir aðilar hafi átt í viðræðum við erlenda kaupendur, enda hafi verkefnið verið lengi í undirbúningi. Ef vel tekst til mun kapalframleiðslan á Íslandi ýta mjög undir að allar nýjar rafmagnslínur fari í jörð, sem og endurnýjum á eldri línum og gera lagningu sæstrengja til annarra landa fýsilega.
Aðstandendur fyrirtækisins segja að markaður fyrir jarð- og sæstrengi muni vaxa mjög á komandi árum og áratugum. Í dag er þessi framleiðsla að velta um 4 til 5 milljörðum bandaríkjadala á ári. Gert er ráð fyrir að þessi velta verði eftir 10 ár 40 til 50 milljarðar Bandaríkjadala. The North Pole Wire vill vera þáttakandi í þessari þróun. Í samstarfi við erlenda samstarfsaðila okkar þá viljum við, eftir 2 til 3 ár, vera komin í gang með fyrsta áfangann af slíkri kapalverksmiðju sem mun geta framleitt allar helstu gerðir hefðbundinna rafmagnskapla og strengja. Annar áfangi yrði framleiðsla á ljósleiðurum og sæstrengjum. Þriðji áfangi yrði þáttaka í þróun og framleiðsla á háhraða rafmagnsköplum einhvern tíma síðar.
Verksmiðjan, miðað við áfanga þrjú, er sögð þurfa 25 MW af orku og upplýst er að hún muni velta um helmingnum af veltu íslenska áliðnaðarins. Verði þriðji áfangi að veruleika þá gæti framleiðsla á köplum orðið ein af stærstu úrflutningsgreinum Íslands.
Bent er á að álframleiðsla sé mikil á Íslandi og hér sé hægt að kaupa ál á heimsmarkaðsverði beint frá framleiðendum. Innkaupsverð og flutningskostnaður á áli frá framleiðenda til verksmiðjunnar yrði því í algjöru lágmarki.
Fyrirtækið The North Pole Wire hefur óskað eftir beinum styrk frá Íslenska ríkinu, sem er hugsaður sem táknrænn stuðningur og gerir okkur kleyft að sækja til rannsóknarsjóða austan hafs og vestan. Styrkur frá Íslenska ríkinu myndi opna félaginu dyr að margfalt hærri styrkjum til væntanlegrar rannsóknar- og þróunardeildar. Óskað er eftir styrk til tveggja til þriggja ára til að greiða laun 15-20 íslenskra tæknimanna sem munu vera í starfsþjálfun hjá The North Pole Wire í þessi þrjú ár, hér heima og erlendis og taka þátt í starfi rannsóknar- og þróunardeildar fyrirtækisins.
23.3.2009 | 19:57
Olíusandur
"Bjargvættur Bandaríkjanna" væri e.t.v. betri titill á þessar færslu. Eða kannski "Hryllingurinn í Kanada". Olíusandurinn í óbyggðum Kanada er nefnilega allt í senn; bjargvættur olíuþyrstra Bandaríkjamanna og um leið orsök hroðalegra umhverfisspjalla í hinum ósnortnu kanadísku víðernum.
Það hefur stundum verið minnst á kanadíska olíusandinn hér á Orkublogginu - en einungis í framhjáhlaupi. Það er orðið löngu tímabært að gera þessum óvenju subbulega en athyglisverða iðnaði gleggri skil.
Tilefni þessarar færslu? Auðvitað það að í gær var tilkynnt um að Suncor Energy, sem er eitt stærsta olíufélagið í Kanada, er að kaupa Petro Canada. Þ.á m. eru hinar geggjuðu olíusandsauðlindir þeirra Petrómanna.
Þetta eru nokkuð mikil tíðindi. Fyrir vikið mun Suncor-samsteypan líklega stækka um 50%. Kaupverðið er sagt nema sem samsvarar um 15 milljörðum bandaríkjadala. Kaupin eru sem sagt enn að gerast á eyrinni - þrátt fyrir lánsfjárkreppu og annað leiðindavesen. A.m.k. er fjörið ekki alveg búið vestur í Kanada. Já - Kanada er málið eins og Orkubloggarinn hefur áður hamrað á.
Áður en lengra er haldið er rétt að nefna eina skemmtilega þverstæðu: Ekki er ólíklegt að eftir fáein ár muni Bandaríkjamenn standa allra þjóða fremst í framleiðslu á rafmagni frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Þar mun hlutfall grænu orkunnar m.ö.o. aukast hvað hraðast. En á sama tíma munu Bandaríkin líka stuðla að einhverjum mestu umhverfisspjöllum og umhverfismengun nútímans. Með því að verða helsti kaupandinn að olíu, sem unnin verður úr olíusandinum í Kanada og Venesúela.
Þörf Bandaríkjamanna á innfluttri olíu eykst nokkuð hratt, vegna minnkandi framleiðslu þeirra sjálfra. Þeir þurfa sífellt meira af innfluttri olíu. Ekki síst frá hinum góða nágranna; Kanadamönnum.
Æ stærri hluta af þeirri olíuþörf verður mætt með vinnslu úr olíusandi. Það er olíuvinnslu þar sem skógi vöxnum óbyggðum er umbreytt í olíuleðjugraut af verstu gerð. Þetta mun einfaldlega gerast. Hvað sem líður öllum góðum vilja pólitíkusa og almennings um umhverfisvernd. Og þrátt fyrir háleit markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Olían frá kanadíska olíusandinum er bæði fjárhagslega hagkvæm og dregur úr þörf Bandaríkjanna á enn meiri innflutningi á olíu frá Mið-Austurlöndum. Ekkert mun geta stöðvað þessa "framþróun efnahagslífsins". Olían úr kanadíska olíusandinum borgar sig nefnilega. Um leið og olíuverðið skríður á ný yfir 50 dollara eða svo, er olíuvinnsla úr olíusandi að skila prýðilegum hagnaði til olíufélaganna.
Þess vegna er olíusandurinn stórmál. Samt munum við sennilega ekki verða mjög svo vör við þennan sóðaskap. Því glanstímaritin og sjónvarpsstöðvarnar munu almennt ekki veita þessum afskekkta iðnaði mikla athygli. Þess í stað verða fjölmiðlarnir uppfullir af frásögnum um "stórkostlegar framfarir í endurnýjanlegri orku".
Stóru olíufélögin munu birta heillandi heilsíðuauglýsingar í blöðum og tímaritum og smart sjónvarpsauglýsingar með fallegum, hvítgljáandi vindtúrbínum og glampandi sólarsellum. Sem verða táknmynd fyrir hvort sem er Chevron, BP eða Shell. En á sama tíma munu bæði hin afskekktu barrskógasvæði Kanada og heimaslóðir jagúarsins á Orinoco-vatnasvæðinu í Venesúela, smám saman breytast í mengaða forarpytti. Fyrir tilverknað olíueftirspurnarinnar frá Vesturlöndum.
En hvað er olíusandur? Sennilega er best að þú, lesandi góður, ímyndir þér baðkar fullt af samanklístraðri sanddrullu sem olíu hefur verið hellt yfir. Þetta er reyndar alls ekki nákvæm samlíking. En gefur smá hugmynd.
Olíusandurinn í Kanada varð til fyrir milljónum ára þegar hreyfingar landmassans ollu því að gríðarmikil lífræn setlög blönduðust saman við sendinn jarðveginn. Sumstaðar liggur þessi olíusandur í yfirborðsjarðvegi og er einfaldlega mokað upp með stórvirkum vinnutækjum. En víðast hvar er hann á nokkru dýpi undir yfirborðinu. Þá er olían sótt með því að skafa fyrst hressilega ofan af yfirborðinu, bora svo niður og dæla þangað brennheitri vatnsgufu sem losar olíuna frá sandinum - svo unnt sé að dæla henni upp á yfirborðið.
Það er ekki mjög flókið að vinna olíuna úr olíusandinum. Lykilatriðið er hiti. Mikill hiti. Einungis þarf að ná drullunni upp og hita hana hressilega til að ná olíunni; aðskilja hana frá sandinum.
Til að geta höndlað olíusandinn er óhemju miklu af vatni dælt niður í sandinn og því blandað saman við hann. Að því búnu er þessu svo dælt upp á yfirborðið. Þegar sandolíugumsið er komið upp þarf að beita það enn meiri hita og miklum þrýstingi til að "kreista" olíuna úr drullunni. Hitinn sem til þess þarf er um 900 gráður á celsius.
En þó að þetta sé fremur einfaldur prósess, er þetta rándýrt. Því til að aðskilja olíuna frá sandinum þarf gríðarlegan hita - mikla orku.
Til að nálgast olíusandinn er beitt tröllauknum skurðgröfum, sem eru með skóflu á við 4ra-5 hæða blokk. Fyrst þarf þó auðvitað að fella barrskóginn á svæðinu. "Naturen - det billige skidt - skal udryddes", eins og arkitektinn ljúfi sagði í einni Ástríkisbókinni sem ég las sem stubbur í Köben hér í Den.
Menn hafa lengi vitað af olíusandinum í Kanada. En hann varð ekki spennandi til vinnslu fyrr en ljóst var að olíuverð undir 30 dollurum var að verða sagnfræði. Þess vegna eru aðeins um 10 ár síðan það varð efnahagslega hagkvæmt að fara í þessa tegund af olíuvinnslu. Fram að því hafði olíusandurinn að mestu legið óáreittur.
Reyndar notuðu indíánar olíusand til að þétta kanóana sína á tímum síðasta Móhíkanans. En mest alla 20. öldina þótti þetta heldur gagnlaus auðlind - meira upp úr því að hafa að þræða kyrrláta skógana og reyna að veiða bjóra í gildrur.
En nú er öldin skyndilega önnur. Þó svo þessi olíuvinnsla sé mjög dýr, er hún allt í einu orðin arðsöm. Þegar olíuverðið fór að skríða yfir 30 dollara tunnan, fóru olíufélögin skyndilega að finna peningalykt frá víðáttumiklum barrskógasvæðunum í Albertafylki í Kanada. Síðustu 10 árin hefur þessi vinnsla aukist hratt. Olíusandurinn er nútímagullæði í Kanada. Og trúið mér - það æði er bara rétt að byrja.
Til að gefa hugmynd um hversu dýr vinnslan er, er ágætt að hafa í huga hversu orkufrekur þessi iðnaður er í samanburði við hefðbundna olíuframleiðslu. Í hefðbundinni olíuvinnslu er hlutfall orkunnar sem olían skilar á móti orkunni sem fer í að sækja hana, oft u.þ.b. 1:10. Þegar um olíusand er að ræða er þetta hlutfall allt annað og helmingi óhagkvæmara eða nálægt 2:10. Til einföldunar má lýsa þessu sem svo að í hefðbundinni olíuvinnslu þarf oft einungis 1 lítra af olíu til að sækja 10 lítra úr jörðu. En það þarf helmingi meiri orku eða um 2 lítra af olíu til að vinna 10 lítra af olíu úr olíusandi. Og þá er bara verið að tala um orkuna sem fer í vinnsluna, en ekki annan kostnað.
Orkan sem þarf til að ná olíunni úr olíusandinum, er fengin frá gasi. Þess vegna má segja að í þessari olíuvinnslu séu menn að nota hreinasta jarðefnaeldsneytið (gas) í það að vinna einhverja sóðalegustu og mest mengandi olíu heimsins. En allt skilar þetta peningalegum hagnaði á endanum, skapar mikið af nýjum störfum og þess vegna brosa flestir Kanadamenn breitt yfir þessari hagkvæmu auðlind.
Þetta er sem sagt góður bissness. Að vísu er svolítið súrt, að til að ná olíunni úr sandinum þarf ekki bara að eyða mikilli orku - heldur líka skafa upp a.m.k. tveimur tonnum af sandi til að geta unnið eina skitna tunnu af olíu.
Enn verra er að frá vinnslunni rennur mikið vatn mengað af ammoníaki og brennisteinssýru, auk annarra mengandi efnasambanda. Til að koma í veg fyrir að mengunin dreifist út um flatlendið, eru útbúnar sérstakar tjarnir eða vötn til að geyma mengaða vatnið. Eina vesenið er að fuglar á svæðinu eru eitthvað slappir í lestri og átta sig ekki á viðvörunarskiltunum. Og svífa því þreyttir og sælir niður að tjörnunum - sem er um leið dauðadómur þeirra.
Sjálf olían fer aftur á móti beint í olíuleiðslur sem liggja suður á bóginn og yfir landamærin til Bandaríkjanna. Og allt er þetta þýðingarmikill hluti af æpandi efnahagsuppganginum í Alberta-fylki í Kanada. Þessi iðnaður hefur líka reynst mikill happdrættisvinningur fyrir atvinnulausa Kanadamenn frá austurhéruðunum. Þessi tvíræða dásemd, sem olíusandurinn er, hefur sem sagt stuðlað að því sem kallað hefur verið hagvöxtur.
Og þó svo olíuframleiðsla af þessu tagi sé enn einungis örlítið brot af allri þeirri olíu sem unnin er, þá er allt STÓRT sem tengist olíusandi. Trukkarnir og skurðgröfurnar sem notaðar eru við þessa vinnslu eru risastór tæki, enda þarf að moka upp og velta óhemju magni af jarðvegi fyrir hverja fáeina olíudropa.
Það almagnaðasta við olíusandinn er ekki endilega subbuleg vinnsluaðferðin. Heldur magnið! Þegar menn skoða ca. 5 ára gamlar tölur yfir olíubirgðir heimsins er Kanada svo sem ekkert sérstaklega, rosalega áberandi á þeim listum. En í kringum 2003 tóku menn að áætla hversu mikil olía er í olíusandinum og telja hana með "proven reserves". Og bara olíusandurinn í Albertafylki varð til þess að skyndilega skaust Kanada upp í 2. sætið yfir þau lönd sem búa yfir mestu olíubirgðum í heiminum. Einungis Sádarnir eru taldir eiga meiri olíubirgðir en kanadísku ljúflingarnir.
Í dag hljóða tölurnar þannig að Saudi Arabía hefur nú að geyma um 270 milljarða tunna og Íran er í þriðja sæti með um 140 milljarða tunna. Í öðru sætinu er Kanada með um 180 milljarða tunna. Og af þessum 180 milljörðum tunna af olíu lúra um 95% í olíusandinum í Albertafylki!
Já - þetta netta svæði í Kanada á svo sannarlega eftir að blómstra efnahagslega - ef olían fer brátt að hækka í verði á ný. En minnumst þess líka að það tók Alberta áratug að jafna sig eftir áfallið mikla, þegar olíuverð hrundi upp úr 1980 og fór undir 20 dollara á síðari hluta 9. áratugarins. Framtíðin er alltaf óviss!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.3.2009 | 08:48
Tölfræðistuð
"Please allow me to introduce myself. I'm a man of wealth and taste."
Hvort Orkubloggið telst vera auðugur fagurkeri er kannski álitamál. En bloggið er hrifið að gljáandi olíu og finnst útblásturslyktin úr þotuhreyflum með betri ilmum þessa heims.
Í samræmi við það er bloggið óþreytandi við að birta hin ýmsu línurit, skífurit, stöplarit o.s.frv. til að leggja áherslu á málflutning sinn um dásemdir orkuiðnaðarins. Enda segir mynd meira en 1000 orð!
Til eru þeir sem halda að olíuframleiðsla heimsins hafi náð hámarki - eða sé a.m.k. í þann mund að ná hámarki. Algengustu rökin fyrir þeim málflutningi eru hversu illa gengur að finna nýjar, stórar olíulindir. Ný olía er barrrasta ekki að finnast eins hratt og þörf er á - og það gengur mjög á þekktar lindir.
Færri vita hver hin raunverulega ástæðan fyrir hnignandi olíuframleiðslu er: Olíuframleiðsla er dauðadæmd af þeirri einföldu ástæðu að gott rokk er orðið sjaldgæfara en áður var! Síðhærðu rokkararnir jafnast ekki lengur á við þá sem var.
Þessari fullyrðingu til stuðnings, birtist myndin hér til hliðar. Hún sýnir okkur mat tímaritsins Rolling Stone á því hver séu 500 bestu rokklög allra tíma. Eða öllu heldur hvaða ár þessi 500 lög voru gerð.
Rauðu stöplarnir sýna sem sagt hversu mörg góð rokklög voru gerð á ári hverju. Bláa lína sýnir aftur á móti olíuframleiðsluna í Bandaríkjunum (utan Alaska). Þessi mynd sýnir, svo ekki verður um villst, að það er augljós fylgni milli góðra rokklaga og olíuframleiðslu!
Samkvæmt þessu má álykta sem svo, að t.d. rokkslagarinn frábæri Sympathy for the Devil sé helsta ástæðan fyrir gríðarlegri olíuframleiðslu Bandaríkjanna í kringum 1968. Það má hverjum manni vera augljóst. A.m.k. aðdáendum Mick Jagger og Rolling Stones - eins og Orkubloggarinn er.
Spurningin er bara sú, hvort minnkandi olíuframleiðsla í Bandaríkjunum hafi svona svakalega neikvæð áhrif á almennilega tónlist - eða hvort það er síversnandi tónlist, sem veldur því að gaurarnir og gellurnar í olíuiðnaðinum barrrasta ná sér alls ekki á strik!
Já - svona eru tengslin náin milli rokksins og olíunnar. Rétt eins og milli stjórnmálanna og fjármálalífsins. Kannski eru þessi tengsl einfaldlega náttúrulögmál. Verða ekki rofin, sama hversu vilji Orkubloggsins og jafnvel fleiri landsmanna til þess er mikill.
Þetta er svo sannarlega skrítin veröld. "And all sinners saints!" Spurningin er bara hvort pólítíkusinn í lok myndbandsins sé að selja banka? Jafnvel íslenskan banka?
Eða kannski er þarna barrrasta á ferðinni "arðgreiðsla" úr íslenskum sparisjóði? Sparisjóði sem nú er hruninn. Ætli menn taki kannski upp á því að skila "arðgreiðslunni"? Eins og Bjarni Ármannsson skilaði ágóðanum af starfslokasamningnum ljúfa. Við hljótum öll að bíða spennt...
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.3.2009 | 02:20
Olíutromman
Peak Oil! Það er varla að Orkubloggið þori að nefna þetta svolítið þreytandi hugtak eina ferðina enn. En af gefnu tilefni stenst bloggið ekki mátið.
Þannig er að Orkubloggið var nýlega viðstatt ágætan fund við Háskóla Íslands í Reykjavíkurborg, þar sem orkumál bar á góma. Þar var m.a. flutt prýðilegt erindi, þar sem komið var inn á olíuframleiðslu.
En blogginu til mikillar furðu fullyrti fyrirlesarinn, sem er einn af æðstu stjórnendum Háskóla Íslands, að olíuframboð hefði náð hámarki. Og framboðið myndi héðan í frá minnka.
Þessum orðum fylgdu prýðilega laglegar slædur. M.a. með hinni glæsilegu kúrfu, sem kennd er við Hubbert konung. Orkubloggarinn varð mjög undrandi að heyra og sjá málið sett fram með svo einhliða hætti og álítur það afar vafasamt að fullyrða að peak-oil hafi verið náð. Þ.e. að ekki verði unnt að auka framboðið, ef eftirspurnin er fyrir hendi. Slík fullyrðing er að mati bloggsins meira í ætt við trúarbrögð en vísindi.
Við nánari eftirgrennslan Orkubloggsins kom í ljós að að umræddar fullyrðingar fyrirlesarans studdust m.a. við rannsóknir nemenda í Háskólanum um þróunina í olíuvinnslu framtíðarinnar. Bloggaranum var tjáð að "heimildirnar sem nemendurnir fundu gáfu peak oil milli 2015 og 2010". Og að "aðeins ein heimild nefndi 2020". Sem sagt að viðkomandi háskólastúdentar fundu eina heimild um að olíuframleiðsla kunni að ná hámarki um eða eftir 2020.
Nú vill svo til að Orkubloggarinn hefur miklar mætur á Háskóla Íslands og þeirri starfsemi sem þar fer fram. En eitthvað hljómar þetta um heimildirnar einkennilega.
Um peak-oil eru vissulega til margar og mismunandi spár. Sá sem ætlar að kanna spár um olíuframleiðslu hefur úr svona cirka skrilljón mismunandi spám að velja. En þessi ályktun íslensku háskólanemanna getur tæplega talist mjög fagleg - eða er a.m.k. háð gríðarlegri óvissu, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Hvert skal leita til að fá þokkalegar upplýsingar um olíuspár eða þróun olíuframleiðslu til framtíðar? Ekki hefur Orkubloggið hugmynd um úr hvaða fróðleiksbrunnum umræddir háskólanemendur drukku af. Nema hvað mér var m.a. bent á Oildrum í því sambandi. Sic.
Á Oildrum matreiða menn svartsýnis-spádóma sýna af mikilli list. Orkubloggið hefur ósjaldan notfært sér gullfalleg línurit þeirra ljúflinganna, sem skrifa á Oildrum. En það vekur ofurlítinn hroll ef Háskóli Íslands tekur skoðanirnar sem birtast þarna á Trommunni, sem áreiðanlega heimild. Sjaldan er meiri þörf á gagnrýnni hugsun, en þegar maður flækist inn á Olíutrumbuna.
Hvar er bestu upplýsingarnar um olíuframleiðslu heimsins að finna? Bæði söguleg gögn og spádóma, byggða á frumgögnum en ekki getgátum? Fyrstu heimildirnar sem Orkubloggið myndi athuga eru eftirfarandi:
1) EIA (upplýsingadeild bandaríska orkumálaráðuneytisins; það er fátt sem slær út bandaríska tölfræðivinnu): Í nýjustu spá EIA segir að heildarolíuframleiðsla muni líklega aukast um ca. 30% fram til ársins 2030 og nemi þá 112,5 milljón tunnum á dag (var u.þ.b. 85-86 milljón tunnur árið 2008).
Hafa ber í huga að þegar settar eru fram spár um heildarolíuframleiðslu, er oftast miðað við allt fljótandi eldsneyti með sambærilega eiginleika og olía. Þ.m.t. er ekki bara hefðbundin olía og annað olíusull, heldur einnig t.d. bæði NGL (natural gas liquids) og lífefnaeldsneyti (biofuels).
2) IEA (Alþjóða orkustofnunin hjá OPEC). IEA byggir niðurstöður sínar mjög á bandarískum gagnabönkum. En þeir Faith Birol og félagar í spáteyminu hjá IEA lesa samt ekki endilega það sama út úr þeim upplýsingum, eins og snillingarnir hjá EIA í Washington DC.
IEA spáir því nú að hefðbundin olíuframleiðsla hafi u.þ.b. náð hámarki og verði nokkuð stöðug næstu ár og áratugi. A.m.k. fram til 2030. En fram að þeim tíma muni heildarframleiðsla á olíu engu að síður aukast um 20-25% frá því sem nú er. Fyrst og fremst vegna mjög verulegrar aukningar á framleiðslu á NGL, sem kemur til vegna síaukinnar gasvinnslu. Spá IEA um heildarolíuframleiðslu í heiminum árið 2030 hljóðar nú upp á 105-106 milljón tunnur. Sem er töluvert lægra en spá EIA, sem getið var um hér ofar. En engu að síður talsvert hærri spá, en hjá Háskóla Íslands.
Hér eru sem sagt komnar tvær spár, frá nokkuð svo öflugum stofnunum, sem báðar spá því að olíuframleiðsla aukist a.m.k. fram til 2030. En háskólanemarnir fundu, sem fyrr segir, bara eina einustu spá í þessa veru - og hún náði einungis til 2020. Einkennilegt.
En kíkjum nú á hvað meistararnir sem starfa í olíuiðnaðinum, segja um olíuframleiðslu framtíðarinnar.
3) Af einhverjum dularfullum ástæðum er tölfræðin frá Tony Hayward og félögum hans hjá BP af flestu ábyrgu fólki í olíubransanum talin einhver sú besta og áreiðanlegasta í bransanum. Töffararnir hjá BP nota ekki nákvæmlega sömu viðmiðanirnar eins og EIA eða IEA - telja t.d. hvorki lífefnaeldsneyti (biofuels) né fljótandi eldsneyti unnið úr kolum, með olíunni. Þess vegna eru tölur þeirra um heildarolíuframleiðslu eilítið lægri en hinna fyrrnefndu.
En til að gera langa sögu stutta, þá álíta þeir hjá BP að það verði ekkert vandamál að auka olíuframleiðslu verulega frá því sem nú er. Þeir eru aftur á móti handvissir um að eftirspurnin eftir olíu nái brátt hámarki - líklega fari eftirspurnin aldrei yfir 100 milljón tunnur á dag. Hvatar sem nú er verið að lögleiða, muni gera aðra orkugjafa áhugaverða fyrir fjárfesta. Þess vegna líði senn að því, að olíuneysla hætti að vaxa og nái jafnvægi. Þó svo tæknilega séð, sé unnt að framleiða langt yfir 100 milljón tunnur á dag einhverja áratugi í viðbót - ef á þarf að halda.
Þess má geta að James Mulva, forstjóri bandaríska olíurisans ConocoPhillips, hefur lýst svipaðri skoðun og Tony hjá BP. Þ.e. að ólíklegt sé að eftirspurn eftir olíu muni fara yfir 100 milljón tunnur pr. dag.
Fólk sem er meðvitað um efnahagsvöxtinn sem búist er við að verði á næstu árum og áratugum í Asíu og víðar utan hins vestræna heims, kann að undrast slíka spádóma um að aldrei verði þörf a meiri olíu en max 100 milljón tunnum pr. dag. Að eftirspurn eftir olíu nái senn hámarki. Að það geti varla verið rétt!
En málið er að olíunotkun stærstu olíusvolgraranna, Bandaríkjamanna, hefur staðnað undanfarin ár. Og jafnvel heldur minnkað. Þrátt fyrir nokkuð góðan vöxt í efnahagslífinu 2002-2007.
Og það munar um minna. Sama er uppi á teningnum í Evrópu. Vissulega eu þessir heimshlutar sífellt að verða háðari innfluttri olíu, vegna þess að olíuframleiðsla þeirra heimafyrir minnkar hratt. Engu að síður hefur olíunotkun bæði Evrópu og Bandaríkjanna verið á niðurleið, þrátt fyrir efnahagsvöxt síðustu ára. Hljómar kannski lygilega - en tölfræðin sýnir þetta svo ekki verður um villst.
Það kann að vera tilefni til að lýsa hér nokkrum öðrum spám um olíuframleiðslu framtíðarinnar. T.d. ljúflinganna hjá CERA og annarra slíkra, sem þykja nokkuð flinkir í faginu. Og spá flestir verulegri framleiðsluaukningu til framtíðar. En Orkubloggið lætur hér staðar numið - að þessu sinni.
Reyndar tekur bloggið ekki rassgat meira mark á fyrrgreindri heilagri þrenningu - EIA, IEA og BP - heldur en t.d. Bölmóði spámanni í Tinnabókinni góðu; Dularfulla stjarnan. Bömóður var brjálaði snillingurinn, sem reyndist ekki vera frá Stjörnuskoðunarturninum heldur hafði sloppið af vitfirringahæli. Og gekk um og spáði heimsendi, eins og allt sæmilega þroskað fólk hlýtur að muna.
Það sem Orkubloggið er að reyna að segja, er einfaldlega að það er til lítils að setja fram spár um það hvernig olíunotkun og olíuframleiðsla muni þróast í heiminum næstu ár og áratugi. Og það er vægast sagt undarlegt að heyra hátt settan starfsmann Háskólans setja fram þær fullyrðingar, sem hér var minnst á að ofan. Það þarf nánast að sýna vísvitandi viðutan vinnubrögð, ef menn finna bara eina þokkalega heimild um að olíuframleiðsla geti í mesta lagi aukist fram til 2020.
Auðvitað er ekki útilokað að olíuframleiðsla hafi náð toppi. Muni aldrei verða meiri en verið hefur allra síðustu árin. Það er a.m.k. óumdeilt að mjög hefur hægt á því að menn finni nýjar olíulindir. En óvissan er mikil; í reynd veit t.d. ekkert vestrænt kvikyndi hver staða mestu olíulinda heims er. Sérstaklega er mikil óvissa um hvað muni gerast í Saudi Arabíu. Sádarnir eru borubrattir og segjast geta aukið framleiðsluna umtalsvert og séu hvergi nærri hálfnaðir með olíuauðlindir sínar. Ýmsir í Vestrinu vefengja þetta og segja jafnvel að Ghawar - stærstu olíulindir heims - séu komnar yfir toppinn.
Það er auðvelt að falla í dómsdagsgildruna. En það sem skiptir mestu máli er líklega það hvernig efnahagslífið þróast. Ef mikill vöxtur er framundan, mun myndast hvati til að finna og sækja ennþá dýrari olíu en gert hefur verið hingað til. Enginn veit hvort eða hversu mikið olíuframleiðslan getur aukist í framtíðinni, né hversu margir áratugir eru í að lindirnar tæmist. Flest bendir þó til þess, að í jörðu séu ennþá a.m.k. 1.200-1.500 milljarðar tunna af vinnanlegri olíu. Sem er nokkru meira en öll sú olía sem hefur verið sullað upp fram til þessa. Sumir telja unnt að finna og dæla upp 2-4.000 milljörðum tunna í viðbót - og jafnvel ennþá meira!
Hvernig sem fer verður þó varla hjá því komist að olíuframleiðsla nái toppi innan ekki svo óskaplega langs tíma. Olíuvinnslan er að verða það dýr að nýir orkugjafar eru farnir að geta keppt við olíuna. Þar liggja vatnaskilin. Orkubloggið er að sjálfsögðu vel meðvitað um þá "ógn". Sem reyndar er ekki síður frábært tækifæri. Það er sem sagt talsvert líklegt að hámark olíuframleiðslunnar komi ekki til af skorti á olíu. Heldur einfaldlega vegna þess að á vissum tímapunkti mun eftirspurn eftir olíu hætta að vaxa; vöxturinn í orkunotkun komi frá öðrum orkugjöfum.
Líklegt er t.d. að senn komi fram önnur og hagkvæmari leið til að knýja umtalsverðan hluta af bíla- og skipaflota heimsins. Og þá hættir olíueftirspurnin að vaxa; mun fyrst stabílerast og svo láta undan síga. Olíuframleiðslan mun þá hafa náð toppi - ekki beinlínis vegna þess að það vanti olíu, heldur vegna þess að menn hafa ekki lengur sama áhugann á henni eins og verið hefur fram til þessa. Peak Oil Demand.
En þangað til mun þéttur taktur olíutrommunnar örugglega heyrast áfram úr fjarska. Meðan Ghawar blæðir út....
Viðskipti og fjármál | Breytt 22.3.2009 kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2009 | 10:22
Kraftur gegn kreppu
"Skapandi hugsun á öllum sviðum er besta ráðið til að vinna bug á þeirri efnahagskreppu og mikla atvinnuleysið sem nú steðjar að þjóðinni. Ríkisstjórnin brást við í þeim anda, þegar hún samþykkti frá mér ellefu tillögur um aðgerðir gegn atvinnuleysi sl. föstudag. Samtals fela þær í sér 4000 ársverk. ... Þessu til viðbótar kynnti ég ýmis orkutengd verkefni, sem eru í formlegum farvegi, og gætu á næstu misserum skapað 2000 ársverk til viðbótar. Í núverandi atvinnuleysi munar um 6000 ný ársverk."
Þannig skrifaði Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra, á bloggið sitt aðfararnótt föstudagsins í vikunni sem er að líða. Fyrirsögn færslu hans var "Kraftur gegn kreppu!"
Gott hjá honum. En Orkubloggið er samt nokkuð undrandi. Fyrir um þremur vikum sendi Orkubloggarinn iðnaðar- og utanríkisráðherranum nefnilega erindi þess efnis hvort ekki væri tilefni til að kanna möguleika á því, að aðalstöðvar IRENA verði staðsettar á Íslandi? Viðbrögð ráðherrans hafa einfaldlega verið engin. Í erindi Orkubloggsins til ráðherrans sagði:
"Gert er ráð fyrir að 120 manns muni starfa í aðalstöðvum IRENA. Hinum nýstofnuðu alþjóðasamtökum um endurnýjanlega orku. Væri etv. upplagt að Ísland leitaði eftir því að hér verði aðalskrifstofa IRENA staðsett? Varla er hægt að hugsa sér meira viðeigandi alþjóðastofnun á Íslandi. IRENA á að verða eins konar IEA hinnar endurnýjanlegu orku (IEA er ensk skammstöfun Alþjóða orkustofnunarinnar í París, sem fjallar fyrst og fremst um olíu og annað jarðefnaeldsneyti). Nú leita þeir hjá IRENA að stað fyrir aðalstöðvar samtakanna. Hvað með Reykjavík? Sem ráðherra iðnaðar- og utanríkismála ert þú í lykilstöðu að koma slíkri vinnu af stað."
Er þetta ekki barrrasta nokkuð einfalt og skýrt? En ráðherrann sá ekki ástæðu til að svara þessu. Óneitanlega varð Orkubloggarinn nokkuð vonsvikinn yfir því. Nú kann vissulega vel að vera að þessi uppástunga bloggsins sé lítt raunhæfur möguleiki. Engu að síður er vert að minnast þess, að þarna eru 120 störf í húfi. Og sá möguleiki að Ísland verði órjúfanlega tengt endurnýjanlegri orku í alþjóðlegu samhengi - með augljósum tækifærum fyrir útflutning á íslenskri orkuþekkingu
Vel má vera að Okubloggið sé hér á villigötum. Kannski er tilgangslaust fyrir Ísland að vera að sperra sig í alþjóðasamstarfi um endurnýjanlega orku. Kannski eru olían og álið bara málið.
Eini gallinn er sá að Century Aluminum virðist stefna beinustu leið á höfuðið. Gengi hlutabréfa þess var í um 80 USD á Nasdaq fyrir tæpu ári síðan. En er nú innan við 2 dollarar; rétt slefaði yfir einn og hálfan dal við lokun markaða í gærkvöldi! Hlýtur að rjúka upp aftur um leið og Helguvíkurfrumvarpið hans Össurar fer í gegn.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.3.2009 | 07:53
FPSO
Angóla! Orkubloggið minntist fyrst á þennan nýjasta olíuspútnik í færslu hér síðasta sumar. Þarna í hinni gömlu stríðshrjáðu portúgölsku nýlendu hafa demantar lengi verið mál málanna. En nú hefur skyndilega byrjað nýtt æði í Angóla. Þar hefur nefnilega fundist mikil olía, sem hefur á örskömmum tíma gert Angóla að mesta olíuframleiðsluríki Afríku.
Olíuævintýrið utan við strendur Angóla og á djúpi Gíneuflóans hefur dregið að sér tugi hungraðra erlenda olíufyrirtækja. Þarna í þessu furðulega landi, sem hýsir einhverja fátækustu þjóð í heimi en býr um leið yfir hreint geggjuðum náttúruauðlindum, blandast saman skuggalegur heimur blóðdemantanna og ofsagróði frá svarta gullinu.
Ástæður þess að olíufyrirtækin sækja mjög að komast í olíuna í lögsögu Angóla, eru í raun af tvennum toga: Mikil hagnaðarvon og lítil áhætta. Vinnslan þarna er mjög hagkvæm og nánast lygilega lítið um þurra brunna. Svarta gumsið er hreinlega út um allt og starfsemin þarna mun vænlegri til að skila hagnaði heldur en Mexíkóflóinn.
Og það sem meira er; olían úr landgrunni Angóla hefur reynst sannkallað hágæðastöff. Og hafsvæðið þarna er þar að auki ekki nærri eins áhættusamur staður eins og mörg önnur olíusvæði utan Vesturlanda. Nánast engin hætta á skemmdarverkum eða hryðjuverkum. Þetta kann að koma sumum á óvart, því Angóla er þekkt fyrir óhemju spillingu og ömurlega fátækt. Sem oft kallar á skemmdarverk og mannrán, eins og t.d. er algengt í nágrannalandi Angóla; Nígeríu. En Angóla liggur utan við hinn múslímska heim og þar er ekki að finna öfgahópa eins og í Alsír eða Nígeríu.
Loks er sáraeinfalt að sigla með olíuna frá landgrunninu og beinustu leið heim. Það er jú greið flutningsleið beint vestur um haf, frá Gíneuflóanum til olíuhreinsunarstöðvanna á austurströnd Bandaríkjanna. Það þarf ekki einu sinni að dæla olíunni í land í millitíðinni. Þess í stað er henni dælt um borð í sérstaka tankpramma eða tankskip. Sem í olíubransanum kallast FSO eða FPSO. Floating (Production) Storage and Offloading Units.
FSO eru í raun bara risadollur til að geyma birgðirnar, sem koma upp úr djúpinu. FPSO hafa að auki þann fídus, að þar er vinnslubúnaður sem skilur sjó og gas frá olíunni. FPSO-units eru því eins konar fljótandi vinnslustöðvar, sem geta bæði dælt olíunni upp, grófunnið hana og loks geymt mikið magn af olíu og verið e.k. birgðastöð. Sem olíuskipin svo tappa af í rólegheitum. Fyrir vikið verða t.d. dýrar neðansjávarlagnir frá vinnslupallinum og í land óþarfar. Þess vegna er FPSO heitasta málið í djúpvinnslubransanum um þessar mundir.
Já - líklega er það einmitt FPSO-iðnaðurinn sem er að hagnast hvað mest á djúpævintýrinu mikla í lögsögu Angóla. Fyrirtækin sem smíða þessa svakalegu hlunka.
Tankprammar (FSO) hafa lengi þekkst í olíuvinnslu á sjó. Ekki síst í Norðursjónum. Þegar Norðursjávarævintýrið hófst var vinnslan á sáralitlu dýpi. Miðað við það sem gengur og gerist í dag. Eftir því sem vinnslan færðist utar varð flóknara að koma olíunni í land. Þess vegna voru sérstök tankskip eða tankprammar notaðir til að taka við olíunni.
Svo fundu menn upp á því að byggja sérstakar fljótandi vinnslustöðvar, sem gátu tekið við mikilli olíu, unnið hana og geymt. Í dag eru þessar vinnslustöðvar FPSO einnig með hátæknilegan fjarstýrðan borunarbúnað, sem sækja olíuna í djúpið. Þessi fljótandi flykki líkjast ýmist gríðarstórum skipum eða prömmum. Á svæðum þar sem veður eru mjög válynd hentar betur að hafa skipslag á þeim. Svo hægt sé að sigla þeim í var þegar veðurofsinn geisar eða a.m.k. snúa þeim upp í ölduna og vindinn. Svo er líka tiltölulega einfalt að losa þessar vinnslustöðvar frá akkerunum og sigla þeim á ný olíuvinnslusvæði.
Hreyfanleikinn er sem sagt einn stærsti kosturinn við FPSO. Fyrsta FPSO-vinnslustöðin, var líklega pallskip sem var byggt fyrir Shell árið 1977 og notað í Miðjarðarhafinu utan við strönd Spánar. Í dag er FPSO afar mikilvægur þáttur í Norðursjávarvinnslunni og smám saman hafa vinsældir þessarar vinnsluaðferðar líka aukist í djúpvinnslunni. FPSO er þó ennþá nýjabrum í Mexíkóflóanum, enda er þar víða að finna mikið net neðansjávarleiðslna sem hefur getað tekið við olíunni. Og djúpvinnslan þar utarlega í Flóanum er enn nýjabrum.
Bandarísk stjórnvöld hafa reyndar verið svolítið hugsi yfir því hvort rétt væri að leyfa svona stórar vinnslustöðvar í Mexíkóflóanum. Ekki er óalgengt að fellibyljir valdi þar miklum hremmingum. Einn svona FPSO-vinnslupallur getur innihaldið allt að milljón tunnur af olíu - sem er svipað og risaolíuskip. Þess vegna væri ekki beint heppilegt ef slíkur pallur brotnaði í tvennt í blessuðum Flóanum. Og það hefur valdið því að bandarísk stjórnvöld hafa verið hikandi að leyfa þessa hlunka.
Með aukinni djúpvinnslu utar í Mexíkóflóanum er þó nánast öruggt að Flóinn mun verða vatn á myllu þeirra sem byggja FPSO. Brasilíumennirnir síkátu hjá Petrabras hafa nú nýlega einmitt fengið leyfi til að setja upp slíka vinnslustöð þarna í Flóanum ljúfa. Nánar tiltekið á um 2,5 km dýpi á "indíánasvæðinu" Cascade/Chinook. Geymslugetan verður 600 þúsund tunnur af olíu og framleiðslugetan 80 þúsund tunnur á dag.
Þessi fyrsta FPSO-vinnslustöð í Mexíkóflóanum á að vera tilbúin snemma á næsta ári (2010). Orkubloggið er á því, að enginn annar FPSO hafi unnið olíu af svo miklu dýpi. Metin falla hratt í djúpbransanum. Til samanburðar má hafa í huga að hafdýpið á Drekasvæðinu íslenska er einungis á bilinu 1-1,5 km. Pís of keik.
Málið er að flotpallarinir þ.e. sjálfir borpallarnir í djúpvinnslunni sem Orkubloggið hefur áður fjallað um - hafa venjulega ekki möguleika til að geyma mikið magn af olíu. Þess vegna kallar djúpvinnslutæknin á það að menn finni lausn á þeim vanda. Það er gert með því að hafa FSO - eða jafnvel enn frekar FPSO-vinnslustöð - til taks á svæðinu. Og um leið spara sér rándýra leiðslu í land.
Þetta á í raun við um alla flotapallalínuna. Hvort sem um er að ræða keðjufesta hálffljótandi borpalla (semisubmersibles) eða flothólka eins og SPAR-borpallana eða TLP (Tension Leg Platforms). Í fyrri færslum Orkubloggsins má einmitt lesa um einn af nýjustu og flottustu flothólkunum af þessu tagi; finnskættaða kvikyndið Perdido. Sem er alls ekki týndur, heldur er nú búið að draga hann þvert yfir Atlantshafið og koma fyrir á djúpinu mikla í Mexíkóflóanum. Yfir olíulindunum sem kallaðar eru Hvíti hákarlinn. Þetta meistarastykki mun í framtíðinni væntanlega fá einn myndarlegan FPSO sér til aðstoðar við vinnsluna.
Orkubloggið vill hér nota tilefnið og vara áhugamenn um olíuvinnslu við algengu rugli. Minni spámenn rugla nefnilega oft saman t.d. TLP og FPSO. Sic! Kannski gerist þetta vegna þess, að stífbundnir fljótandi borpallar (TLP) eru mjög oft tengdir FPSO-vinnslustöð. En þetta er sem sagt alls ekki eitt og hið sama. TLP-borpallur er eitt og FPSO allt annað.
Náskylt FPSO-vinnslustöðvunum eru áðurnefndir FSO (Floating Storage and Offloading units). Þá láta menn olíuborpall áfram um vinnsluna, en nota svo risastórt tankskip eða pramma sem birgðastöð. Þess háttar tankskip eru kölluð FSO, en þau eru ekki með neinn vinnslubúnað, né geta þau grófhreinsað stöffið. Eru bara gríðarstór fljótandi birgðastöð.
Gömul risaolíuskip eru gjarnan notuð í þessum tilgangi. Besta dæmið um slíkt er auðvitað Knock Nevis; stærsta skip heims. Sem er nærri hálfur km að lengd og er í dag nýtt í tengslum við olíuvinnslu utan við strendur Katar. Þessi fljótandi fituhlunkur er í eigu Fred. Olsen samsteypunnar, sem stýrt er af norska milljarðamæringnum Fredrik Olsen og Anette dóttur hans.
[Ath: Í þessari færslu stóð upphaflega að Fred. Olsen hefði grætt stórfé á olíuflutningum þegar stríðið geisaði milli Íran og Íraks. Þar varð eitthvert skammhlaup hjá Orkublogginu. Því það var jú ekki Fred. Olsen heldur landi hans, skipakóngurinn nýríki John Frederiksen, sem græddi svo svakalega á því "blessaða" stríði. Fred Olsen samsteypan eru aftur á móti "gamlir" peningar. Lesendur bloggsins eru margfaldlega beðnir afsökunar á þessum tímabundna Fredda-ruglingi, sem skyndilega sló niður í huga bloggsins við matborðið hér í kvöld yfir ítalskri kjötsósu!]
Norsararnir eru auðvitað meðal þeirra sem nýta sér þessa sniðugu FPSO-tækni. Þessa dagana eru Suður-Kóreumennirnir hjá Samsung Industries að leggja lokahönd á 800 milljón dollara risapramma fyrir norska Skarfasvæðið. Skarfurinn (og aðliggjandi Iðunnar-svæði) eru stórar olíu- og gaslindir, sem fundust undir Noregshafi 1998. Þær liggja um 3,5 km undir hafsbotninum þar sem hafdýpið er um 400 m. Þessi gríðarlegi vinnsluprammi, sem verður 300 m langur, á að vera kominn á sinn stað 2011 og verður einn afkastamesti FPSO í heimi. Norðmenn alltaf stórhuga.
Stærsta vinnslustöðin af þessu tagi í dag er Kizomba A, sem ExxonMobil er með á samnefndu svæði, tæpar 200 sjómílur vestur af strönd Angóla. Eins og unnendur afrískra dansa vita er Kizomba tilvísun í einn vinsælasta dans í Vestur-Afríku. Hlunkurinn Kizomba A er þó ekki beint til þess fallin að stunda slíkt sprell. Hann er 285 m langur og getur rúmað heilar 2,2 milljónir tunna af olíu. Dýpið á svæðinu er um 1.200 metrar.
Sá FPSO sem er nú á mesta dýpinu hlýtur aftur á móti að vera sjálfur Heilagur andi Espirito Santo þeirra hjá Shell. Hann á ættir að rekja til skipasmíðastöðvar í Singapore, en flýtur nú yfir hinum gríðarlegu brasilísku olíulindum skammt austur af draumaborginni yndislegu; Rio de Janeiro. Pallurinn er í vinnslu á um 1.800 metra dýpi.
Já - það eru bjartar horfur í FPSO-bransanum þessa dagana. Og til að afgreiða það af hverju þessi tækni hentar svo vel í olíuvinnslunni utan við Angóla, skal áréttað að vegna dýpisins og fjarlægðar frá landi er FPSO einfaldlega eins og sérhannað fyrir aðstæðurnar þar. Þar með losna menn við að byggja upp rándýrar vinnslustöðvar uppi á landi í Angóla. Olíunni er einfaldlega dælt upp, svo grófunnin um borð í vinnslustöðinni, geymd þar og loks dælt yfir í olíuskip og siglt með hana beinustu leið til olíuhreinsunarstöðva "heima" í Bandaríkjunum. Einfalt, þægilegt og ekkert vesen. En kannski myndast heldur snautlegur virðisauki af þessu meðal angólsku þjóðarnar meðan stjórnvöld þar hirða vinnslugjaldið og stinga því í ónefnda vasa.
Uppgangurinn í djúpvinnslunni síðustu árin hefur auðvitað verið sannkallaður draumur fyrir fyrirtæki, sem smíða þessar fljótandi vinnslustöðvar. Þetta þykir reyndar svo sniðug tækni að nú eru menn farnir að skoða möguleika á sömu þróun í LNG. Í vinnslu á fljótandi gasi. Í stað þess að dæla gasinu langar leiðir til lands í LNG-stöðvar þar, gæti í sumum tilvikum verið sniðugara að hafa þessar stöðvar úti á hafi og færanlegar. Þessi tækni er kölluð FLNG (Floating Liquified Natural Gas facilities).
Það magnaða er að með þessu geta menn sparað sér gaslögnina í land, í hefðbundna LNG-vinnslustöð. Það sparar ekki bara pening, heldur losar menn t.d. við umhverfismats-stússið í kringum slíkar lagnir. Hraðar ferlinu til muna. FLNG býður þar að auki upp á þann möguleika, að flytja stöðina á annað gassvæði þegar hentar.
FLNG er eflaust framtíðin í vinnslu á fljótandi gasi. En þó er ólíklegt að aðkrepptir bankar nútímans séu spenntir fyrir að fjármagna slík ný og áhættusöm verkefni þessa dagana. Það er ekkert grín að ætla sér að kæla gas niður í 160 gráður Celsius langt útá sjó. Sem sagt miklu flóknari prósess en FPSO og ennþá bara framtíðarmúsík. En þeir hjá Shell eru æstir í að láta þennan draum rætast og hreinlega slefa við tilhugsunina um FLNG. Enda mikil gróðavon á ferðinni. En FLNG er sem sagt ennþá aðallega framtíðardraumur meðan FPSO er orðinn þroskuð og afskaplega vel þekkt tækni.
Ef olía finnst á Drekasvæðinu er stóra spurningin hvort hún verði einfaldlega unnin um borð í FPSO - eða hvort menn vilji fá hana strax í land til vinnslu og hreinsunar. Þarna gætu mæst stálin stinn - hagsmunir olíufélaganna annars vegar og atvinnuhagsmunir í landi hins vegar.
Ekki virðist vera til stafkrókur um það hvaða stefnu íslensk stjórnvöld hafa í þessum málum, ef svart blóð skyldi finnast í Drekanum. Enda íslensk stjórnvöld ekki alltaf mikið fyrir að horfa fram í tímann. Vona samt að hann Össur skarpi sé búinn að hugleiða þetta og það verði gengið frá þessum álitamálum í samningum við fyrirtækin sem fá leitaleyfi á Dekasvæðinu.
Orkubloggið veðjar á að FPSO muni verða fyrir valinu, ef olía finnst á Drekasvæðinu. Bæði vegna þess að það er eiginlega útí hött að sigla með alla olíuna suðurúr og í land og svo dæla henni aftur um borð í skip til útflutnings. Og menn verða varla spenntir fyrir því að leggja rándýra olíuleiðslu í land frá Drekanum. Vert er að hafa í huga að FPSO hentar alveg sérstaklega vel þar sem olíulindirnar tæmast á tiltölulega stuttum tíma. Af því á slíkum svæðum borgar sig sjaldnast að leggja dýrar neðansjávarleiðslur í land.
Að lokum vill Orkubloggið mæla með því að menn með pening íhugi þann möguleika að fjárfesta í fyrirtækjum sem sérhæfa sig í smíði FSOP... FOSP...fpsss - ég meina FPSO! Eða fyrirtækjum sem reka slíkar fljótandi vinnslustöðvar og hafa verið forsjál að panta fleiri.
Í þessu sambandi er nærtækt að minnast aftur á olíuvinnsluna á djúpinu mikla undan ströndum Brasilíu. Þar virðast vera einhverjar mestu olíulindir í heimi og þær gætu kallað á margar nýjar fljótandi vinnslustöðvar. Enda hafa Brassarnir undanfarið hreinlega ryksugað upp stóran hluta af öllum fljótandi djúpvinnsluprömmum heimsins. Og þeir hljóta einnig að veðja sterkt á FPSO.
Á næstu þremur árum er gert ráð fyrir að smíðaðar verði allt að 125 flothlunkar af þessu tagi. Þar af verði um 80% FPSO og 20% FPS. Ekki er ólíklegt að Norsararnir hjá Aker muni ná góðri sneið af þeirri köku.
Kannski má segja, að olíu- og gasiðnaðurinn sé skemmtilegur leikur þar sem Norðmenn vinna alltaf. Sama hvert litið er og þrátt fyrir tímabundnar niðursveiflur. Heja Norge.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.3.2009 | 21:23
Sádarnir safna skuldum
Orkubloggið hefur stundum framreitt hér kostnaðartölur. Þ.e. hvað það kostar að framleiða eina tunnu af olíu í hinum ýmsu löndum.
Það er hægt að fabúlera endalaust um kostnað við olíuvinnslu. Og þetta er jafn matskennt viðfangsefni, eins og það að ákveða hver sé fallegasta kýrin í fjósinu. Skepnurnar eru ýmist fallega einlitar eða missjöldóttar; hyrndar eða kollóttar. Og engar tvær eru eins.
Það er sem sagt ekki til neinn staðall um kostnað við olíuvinnslu. Allar áætlaðar tölur verða ávallt háðar mikilli óvissu. Og eitt er að ná olíunni upp úr góðri lind - og annað að taka með allan kostnaðinn við olíuleit á nýjum og lítt þekktum svæðum.
Það kostar minna en 5 dollara að ná gumsinu upp á mörgum olíuvinnslusvæðum Sádanna. Sama má segja um sullið hans Húgó Chavez í Venesúela. En þar með er ekki sagt að þessi ríki séu í góðum málum með olíutunnuna í 40-50 dollurum, eins og nú er.
Meðalkostnaðurinn við að ná olíunni upp og hreinsa hana er oft 10-20 dollarar, hjá þeim sem eru með ódýra vinnslu. Þá er leitarkostnaður ekki talinn með. Og til að geta fjármagnað olíuleit og nýja vinnslu og til að geta rekið þessi þjóðfélög, sem að langmestu leyti byggja á olíutekjunum, þarf að fá öllu meira en 5 dollara fyrir tunnuna. Miklu, miklu meira.
Og sé olíuvinnslan stunduð á hafsbotni er þessi kostnaður oft á bilinu 30-50 dollarar á hverja tunnu. Vinnsla á djúpsvæðum eða á erfiðum svæðum eins og Bakken í Bandaríkjunum, er enná meiri. Fer ekki undir 70 dollarana og sumstaðar vel yfir 100 dollarana.
Fréttaveitan CNBC birti nýlega "sínar" tölur yfir meðaltalskostnað við olíuvinnslu í helstu olíuríkjum á Arabaskaganum, í Mið-Asiu og N-Afríku. Tölurnar sína það lágmarksverð, sem viðkomandi lönd þurftu að fá fyrir olíuna sína á nýliðnu ári 2008, til að geta skilað hallalausum fjárlögum. Einnig eru birtar áætlaðar tölur vegna 2009.
Forvitnilegt er að renna augunum yfir þessar tölur. Sem auðvitað verður að taka með talsverðum fyrirvara. Taka má fram að tölurnar hjá CNBC munu vera byggðar á upplýsingum frá Stjúpunni okkar vondu; Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.
Kostnaðartölurnar eru sem hér segir (og munum að undanfarið hefur verðið á olíutunnunni verið að dansa í kringum 40 USD):
Sameinuðu Arabísku furstadæmin (UAE)
(innan UAE er Abu Dhabi helsti olíuframleiðandinn):
2008: 23 USD
2009: 24 USD
Katar:
2008: 24 USD
2009: 24 USD
Kuwait:
2008: 33 USD
2009: 34 USD
Azerbaijan:
2008: 40 USD
2009 35 USD
Hér erum við komin að vatnaskilum dagsins (á NYMEX var verðið í kvöld tæpir 46 dollarar tunnan). Samkvæmt CNBC eru öll eftirtalin ríki því ekki að fá nóg fyrir olíuna sína til að geta skilað jákvæðum ríkisrekstri.
Miðað við olíuverðið eins og það er í dag, eru öll eftirfarandi ríki sem sagt á rauða svæðinu. Það þýðir einfaldlega barrrasta skuldaaukningu hjá þessum ríkjum - a.m.k. tímabundið þar til olíuverðið hækkar almennilega á ný.
Líbýa:
2008: 47 USD
2009: 53 USD
Saudi Arabía:
2008: 49 USD
2009: 54 USD
Alsír (myndin er af Alsírmanninum Chakib Kheilil, sem er forseti OPEC):
2008: 50 USD
2009: 60 USD
Kazakhstan:
2008: 59 USD
2009: 67 USD
Bahrain:
2008: 75 USD
2009: 84 USD
Óman:
2008: 77 USD
2009: 78 USD
Íran:
2008: 90 USD
2009: 90 USD
Írak:
2008: 111 USD
2009: 94 USD
Samkvæmt þessu eru það í raun einungis Katararnir og örfáar aðrar þjóðir sem geta andað sæmilega rólega þessa dagana. Enda spýtist olían og þó einkum gasið þar upp, án fyrirhafnar og með sáralitlum tilkostnaði. Eins og Orkubloggið hefur áður greint frá. Öll hin olíuríki Mið-Austurlanda eru að reka olíuvinnslu sína nokkurn veginn á sléttu þessar vikurnar eða jafnvel með tapi.
Þar að auki er olíugeirinn eina alvöru tekju-uppspretta þessara ríkja. Þannig að auðveldlega má gera ráð fyrir því að í reynd þurfi þessir ríkiskassar talsvert hærra olíuverð en hér segir, til að ríkissjóðir þessara landa ráði við að reka viðkomandi þjóðfélag.
Vert er að minna á að enginn veit hvað olíuvinnsla Sádanna kostar Hvorki CNBC, IMF né aðrir Meira að segja Orkubloggið veit það ekki alveg fyrir víst. Menn reyna auðvitað að áætla þennan kostnað eins vel og mögulegt er. En í reynd er þetta í þoku. Best varðveitta leyndarmál heims.
Samkvæmt upplýsingum frá innherjum Orkubloggsins í olíumálaráðuneyti Sádanna, er bloggið á því að Sádarnir geti varla sætt sig við neitt minna en 70-75 dollara fyrir tunnuna. Verðið núna er þar af leiðandi highway to hell fyrir hvít-kuflklæddu ljúflingana þarna í sandinum.
En af hverju minnka þeir þá ekki barrrasta framboðið ennþá meira til að verðið hækki? Svarið er einfalt; þeir vilja að OPEC haldi - mega ekki ofbjóða þeim OPEC-ríkjum sem vilja fara rólega í framleiðslusamdrátt.
Þar að auki vita Sádarnir auðvitað ekki hversu mikla framleiðsluminnkun þarf, til að koma verðinu í 70-75 dollara! Þessa dagana eru þeir einmitt, ásamt hinum OPEC-ríkjunum, að feta sig áfram olíueinstigið háskalega. Og hafa verið að minnka framleiðsluna talsvert síðustu mánuðina.
Kannski hafa þeir farið aðeins of rólega í samdráttinn. En Sádunum til hróss vill Orkubloggið árétta að verðið hefur a.m.k. ekki steinrotast. Þeim hefur enn tekist að koma í veg fyrir algert hrun á markaðnum. En sú ógn vofir ennþá yfir olíuríkjunum að eftirspurnin minnki svo hratt að verðið fari jafnvel undir 20 dollara tunnan. Þetta er línudans án öryggisnets.
Auðvitað getur Orkubloggið ekki látið hjá líða að horfa á þessar tölur frá IMF/CNBC gagnrýnum augum. Sem fyrr segir er nánast öruggt, að mati bloggsins, að Sádarnir þurfa meira fyrir olíuna sína en þarna segir.
Og það er líka svolítið hæpið að meðaltalskostnaðurinn við olíuvinnslu í UAE sé lægri en í Katar. Þetta er þó ekki útilokað; stór hluti vinnslunnar í Abu Dhabi er álitinn kosta einungis 2-3 dollara tunnan (Abu Dhabi er helsti olíuframleiðandinn innan Sameinuðu fyrstadæmanna; UAE). Já - 2ja dollara framleiðslukostnaður fyrir tunnu, sem við í vestrinu borgum nú meira en 40 dollara fyrir. Það gengur svona.
Viðskipti og fjármál | Breytt 12.3.2009 kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)