Strákarnir í Stavanger

Fridtjof_NansenÞó Ísland sé auðvitað laaaaaaangbest, er ekki annað hægt en að öfunda Norðmenn pínu pons.

Osló er um margt notaleg borg og í afskaplega fallegu umhverfi. Með þægilegt veður; mild sumur og stilla snjóavetur. Skútusiglingar á sumrin og skíði á veturna. Gerist ekki betra.

Svo finnst mér fátt skemmtilegra en að heimsækja söfnin út á Bygdöy, með flottu víkingaskipunum og Kon Tiki. Síðast en ekki síst er gaman að skoða Fram; skipið hans Nansen's. Hann var ein af æskuhetjunum mínum. Varla verið skrifuð skemmtilegri lýsing en sú, þar sem segir frá siglingunni með Fram og því hvernig Nansen og Johansen tórðu saman í 10 mánuði á hálfgerðu skeri langt norður af Svalbarða. Eftir að hafa reynt að komast á Norðurpólinn á skíðum. Þarna lifðu þeir á bjarndýrakjöti og rostungalifur. Þeir félagarnir hafa vart nokkurn tíman gleymt þessum langa og kalda vetri í íshafinu 1895-96.

Og þó svo einsemdin hljóti að hafa verið yfirþyrmandi þarna í ís og myrkri, leið dágóður tími þar til Nansen stakk upp á því að þeir myndu þúast og hætta að þérast! Þetta voru alvöru karlmenn.

Maria_Bonnevie

Já - lífið í Noregi er alveg eins og það á að vera. Og norsku jenturnar eru meira að segja bara nokkuð kjút. A.m.k. sú sem hann Hrafn Gunnlaugsson uppgötvaði hér um árið.

Sú heitir Marie Bonnevie og er í dag fræg leikkona (reyndar er hún norsk/sænsk - og myndin sem prýðir þessa færslu er auðvitað af Marie - en myndin hér ofar er af Nansen).

Auðvitað þurfti Íslending til að uppgötva Marie Bonnevie. Hrafn á þakkir skildar fyrir það. Það þurfti líka Íslending til að skrifa norsku konungasögurnar. Þeir Snorri Sturluson og Hrafn eru báðir snillingar. Hvor á sinn hátt.

Og svo ef maður þræðir norsku ströndina vestur á bóginn og svo norður, koma allir þessir fallegu firðir og blómlegu sveitir. En Norsararnir eru ansið hreint sparsamir og skynsamir. Maula nestið sitt í hádeginu, hver í sínu horni. Í stað þess að lifa hátt og hratt og spreða olíugróðanum. Þess vegna á maður kannski alls ekki að öfunda Norðmenn. Nei - þá er nú íslenski lífsstíllinn skemmtilegri! Enda höfum við ekki stundað þá dellu að leggja orkupeningana okkar i sparibauk. Mun meira fjör að brenna þá upp í misvelheppnuðu einkavæðingarævintýri og verðbólgubáli miðsumarnætur. Davíðsárin voru a.m.k. hvorki "dull nor depressive".

StatfjordA_photo3

Annars ætlaði ég reyndar að pára um allt annað. Nú hefur norski olíuiðnaðurinn nefnilega fengið nýjan ráðherra. Sá heitir Terje Riis-Johansen. Og eins og nafni hans og ferðafélagi Nansen's í íshafinu, er líklegt að Terje Johansen setji stefnuna norður á bóginn. Ekki var hann fyrr sestur í ráðherrastólinn, en að olíuiðnaðurinn steypti sér yfir hann með ítrekaðar óskir sínar um vinnsluleyfi á hafsvæðinu út af N-Noregi og á Svalbarðasvæðinu. Sökum þess að olíuframleiðsla Noregs hefur minnkað umtalsert síðustu árin og Norðursjávarolían fer hratt minnkandi, er líklegt að senn verði farið norðar með vinnsluna. Það mun gleðja strákana hjá Statoil í Stavanger. Og stelpurnar auðvitað líka.

Fyrir áhugasama skal upplýst að frestur til að skila inn umsókn um rannsóknaleyfi vegna olíu á norska Barentshafsvæðinu, rennur út þann 7. nóvember n.k. Nánar tiltekið kl. 12 á hádegi. Af hverju  hefur íslenska útrásin ekki að neinu leyti beinst að fyrirtækjum í olíuiðnaðinum? Það þykir mér hálf slappt. Held að ýmsum íslenskum fjárfestingafélögum hefði þótt gott að eiga í þessum geira núna.


mbl.is Norski olíusjóðurinn tútnar út á nýjan leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Killing an Arab"

"Standing on the beach, with a gun in my hand. Starting at the sea, staring at the sand. Staring down the barrel, at the Arab on the ground. I can see his open mouth, but I hear no sound".

Arab-child

Allt sæmilega þroskað fólk man eftir laginu frábæra, "Killing an Arab" með Robert Smith og félögum í Cure. Textinn er ekki hugsaður sem skítkast um Araba frá hendi Cure, heldur er þetta tilvísun til atburða í skáldsögu Albert Camus; Útlendingurinn eða l'Étranger.

Allt sæmilega þroskað fólk veit reyndar líka að Persar eru ekki Arabar. En Bush veit auðvitað ekki neitt um nokkurn skapaðan hlut. Nema að hann og félagar hans þurfa að komast yfir olíulindir heimsins. Með öllum tiltækum ráðum. Í þessari færslu ætlar Orkubloggið aðeins að spá í Íran.

Fjölmiðlar hafa skilmerkilega greint frá "hræðilegum" áformum Íransstjórnar um að koma upp kjarnorkuverum. Ísraelar óttast að í reynd ætli Íranar að framleiða kjarnavopn. Og Bandaríkjamenn taka undir þetta og ýmislegt bendir til þess að Bandaríkin muni senn ráðast á Íran.

Þetta er allt hið versta mál. Öfgamennirnir sem stjórna Íran með harðri hendi eru vissulega vísir til alls. Á móti kemur að Íran hreinlega verður að úvega sér meiri orku. Og þá er kjarnorkan eðlilegur valkostur.

iran-oil_flag

En hver er hin raunverulega ástæða þess að Bandaríkin viðra árás á Íran?

Það er nokkuð augljóst að Íran getur brátt staðið frammi fyrir algeru neyðarástandi í orkumálum. Þjóðin er í dag yfir 70 milljónir manna! Og fer hratt fjölgandi. Olíuframleiðslan vex aftur á móti engan veginn jafn hratt. Íran er afskaplega háð tekjum af olíu- og gasútflutningi sínum. Sem mest fer til Kína og Japan. Enn fremur er efnahagsástandið í landinu bágborið. Það er því hreinlega lífsnauðsynlegt fyrir Írana að framleiða meiri orku innan lands. Nefna má að Íranar standa framarlega í nýtingu vatnsorku. En til að fá raunverulegan og stóran valkost, er kjarnorkan kannski eðlilega það sem menn líta til.

Iran_oil_prices

Myndin hér sýnir vel hvernig olíuframleiðsla Írans hefur verið að dansa í kringum 4 milljón tunnur á dag síðustu árin. Íran, eins og mörg önnur olíuframleiðsluríki, virðist ekki geta aukið olíuframleiðsluna svo neinu nemi. Þrátt fyrir að nú bjóðist gott verð á markaðnum. Vísbendingar eru um að framleiðslan þar sé í hámarki. Ef Íran gæti aukið framleiðsluna myndi það tvímælalaust gerast, t.d. fyrir tilstilli fjárfestinga frá Kína.

Iran_Oil_consumption_production

Fjölgun írönsku þjóðarinnar og vonandi efnahagsuppgangur hennar í framtíðinni, mun leiða til þess að Íranar sjálfir þurfa að nota æ meiri orku. Það þýðir minni olíuútflutning og skertar tekjur. Þess vegna þurfa Íranar orku frá kjarnaverum. Þetta er ekki flókið. Og ekki ósanngjörn stefna.

En lítum burt frá kjarnorkuplönunum. Og skoðum einfaldlega strategískt mikilvægi Íran sem olíuframleiðanda.

Top_Oil_Producing_Counties

Íran er einn allra stærsti olíuframleiðandi í heimi. Aðeins Sádarnir, Rússland og Bandaríkin framleiða meira af olíu. Íran er lika 4. stærsti olíuútflytjandinn. Einungis Saudi Arabía, Rússland og Noregur eru stærri. Það er því kannski ekki skrýtið þó Bush og félagar horfi löngunaraugum til Íran. Sem forðabúrs.

Vegna gífurlegra náttúruauðlinda í Íran ætti að vera hægt að leysa þetta mál. Jafnvel án kjarnorkuvera. Ég óttast þó að það sé þegar búið að ákveða "lausnina". Það verði innrás. En það er afskaplega ógeðfelld lausn. Íranar hljóta, eins og aðrar þjóðir, að eiga rétt til að ákveða hvaða orkulindir þeir nýta. Þeir hljóta líka að verða hvattir, eins og aðrir, til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, með því að leggja aukna áherslu á orkuframleiðslu sem hefur minni loftslagsáhrif. Sama hvað hver segir; kjarnorkan er og verður helsta lausnin til að sporna gegn losun koltvíoxíðs. A.m.k. þegar litið er til ca. næstu 50 ára. 

Iran_Oil_woman

Ætli það sé ekki best að láta Cure enda þetta: "I can turn, or I can fire the gun. Staring at the sea, staring at the sun. Whichever I choose, it amounts to the same. Absolutely nothing!"


mbl.is Leyniaðgerðir gegn Íran auknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viva Espana. Viva Bandido.

Smá kæruleysi hjá Orkublogginu á svona fallegum sunnudegi. Í tilefni af leiknum í kvöld finnst mér rétt að hita upp með systkinunum söngglöðu, sem hafa heillað Spánverja og Evrópubúa í aldarfjórðung. Það eru auðvitað strákarnir í Los Chunguitos og systur þeirra í Azucar Moreno.

Fyrst koma strákarnir með "Me quedo contigo". Þetta er frá þeim góðu, gömlu dögum þegar fólk var snyrtilegt. Og átti á hættu að flækja sig í leiðslunni frá míkrófóninum. Hér eru tilfinningarnar allsráðandi:

 

Þessi spænska sígaunafjölskylda er heimsfræg á Spáni og viðar fyrir tónlistarhæfileika sína. Systur strákanna í Los Chunguitos, þokkagyðjurnar tvær í Azucar Moreno ("Brúnn sykur"), eru soldið poppaðri en bræðurnir. Íslendingar muna kannski eftir stelpunum í Júróvision 1990. Hvar þær sungu "Bandido" og hljóðkerfið fór allt í handaskol. Hér eru þær í spænska sjónvarpinu, með sama lag:

 

Annars á víst að kalla sígauna Roma-fólkið eða eitthvað svoleiðis. En ég er stundum slæmur með að vera mjög un-politically-correct.


mbl.is Ballack ekki með Þjóðverjum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Boss

springsteen

Orkubloggið klúðraði hressilega time-management hjá sér. Tónleikarnir með Springsteen annað kvöld hér í Parken eru á nákvæmlega sama tima og úrslitaleikurinn í EM!

Og í þokkabót er my team komið i úrslit. Spánn. Ég bara spyr; hvernig gat þetta gerst? Brúsi hefði auðvitað átt að spila í kvöld.

Já - þetta var smá klúður. Vona bara að Bossinn verði í góðu stuði. E-strætið er með honum. That's good!


mbl.is Þjóðverjar lofa Spánverja sem segja þýska liðið sigurstranglegra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég er betri en þú!"

Ísland er auðvitað að flestu leyti betra land en önnur lönd. Þess vegna viljum við eðlilega fá sérmeðferð. Líka þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda.

Í samningum er eðlilegt að hver og einn reyni að ná sem bestri niðurstöðu. Ekki síst ef sú niðurstaða er bæði best fyrir viðkomandi og fyrir heildina. Það er í reynd sjónarmið Össurar og fleiri, sem telja eðlilegt að Ísland njóti þess að bjóða upp á umhverfisvænni orku en aðrir gera.

clean_coal1

En menn skulu líka hafa í huga að þetta sjónarmið getur átt við um fleira en bara vatns- og jarðvarmaorku. T.d. er til tækni sem kallast "clean coal" (hrein kol). Eiga ríki sem geta nýtt þá tækni, ekki líka að fá sérmeðferð? Af því sú tækni losar minna koldíoxíð, en olíubruni eða venjuleg kolaorkuver.

Og hvað með kjarnorkuverin í Frakklandi? Frakkar framleiða nánast alla raforku sína með kjarnorku. Þannig koma þeir í veg fyrir gríðarlega losun gróðurhúsalofttegunda. Ef þeir myndu t.d. nota kol í staðinn fyrir kjarnorkuna.

SunBelt

Sólarorka býður líka upp á stórfellda möguleika í að byggja upp stóriðju, sem knúin er endurnýjanlegri orku. Þess vegna hljóta t.d. Spánverjar, Bandaríkjamenn, Kínverjar og aðrar þjóðir í sólarbeltinu að fá sérmeðferð. Og Kínverjar extra bónus fyrir t.d. risastóru vatnsorkuverin sín; þriggja-gljúfra stífluna.

 

Asterix_byplan

Kannski er best að ganga alla leið. Virkja allt virkjanlegt vatns- og gufuafl a Íslandi. Og fá stóriðju i hvern fjörð. Og bjarga heiminum.

Eða eins og rómverski arkitektinn sagði í einni af Ástríkisbókunum snilldarlegu (sem ég eignaðist á dönsku hér í Den):

"Naturen, det billige skidt, skal udryddes!"


mbl.is Umhverfisráðherra vill ekki fleiri álver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enron-stelpurnar

Það er þetta með viðskiptasiðferðið á Íslandi. Maður verður stundum ofurlítið hugsi. Þessi frétt um að bankastjóri Landsbankans vissi af trúnaðarupplýsingum um aðgerðir ríkisstjórnarinnar á íbúðalánamarkaðnum, er óneitanlega nokkuð athyglisverð. Fréttin snertir vel að merkja Halldór, en ekki Sigurjón (sem myndin er af).

SigurjonLandsbanki4

En stöldrum ekki við svona smámál. Man eftir því hér í Den að vera einhverju sinni í áramótapartýi hjá honum Sigurjóni á Bjarnarstígnum. Þá vorum við ungir menn og Sigurjón átti bara eina hæðina. Gott ef hann var ekki enn í verkfræðinni. Síðar varð hann bankastjóri og eignaðist allt húsið. Ég kunni alltaf afskaplega vel við Sigurjón.

Í þessu áramótapartýi voru eðlilega margar sætar stelpur.  Ein þeirra var auðvitað kærastan mín, hún Þórdís. Og talandi um stelpur... Gefur tilefni til að bæta nokkrum orðum við síðustu færslu. Sem var um Enron ("Fucking smart!"). Og rifja upp hvernig stelpurnar felldu Enron. Það voru nefnilega konur sem komu upp um svindlið innan Enron. Ég vil sérstaklega nefna eina þeirra.

enron_skilling-lay_bars

En fyrst nokkur orð um ótrúlega óskammfeilni þeirra félaga Jeff Skilling og Ken Lay. Eins og sagt var frá í "Fucking smart!", komu fram nokkrar athugasemdir um reikningsskil Enron á árinu 2000. Þetta varð þó aldrei stórmál. En það vakti auðvitað athygli þegar Skilling hætti fyrirvaralaust sem forstjóri um miðjan ágúst 2001. Fljótlega eftir það hrundi spilaborgin og áður en 4 mánuðir voru liðnir var Enron lýst gjaldþrota.

Það alveg makalaust að skoða hvað þeir Skilling og Lay sögðu um fyrirtækið þessa síðsumardaga í águst 2001. Tökum nokkur dæmi úr viðtölum við þá í blaðinu Business Week:

Ken Lay 20/8: "There are absolutely no problems that had anything to do with Jeff's departure... If there's anything material and we're not reporting it, we'd be breaking the law. We don't break the law..

Skilling 24/8: "Enron is in great shape, with a deep bench of talent, despite a 50% drop in the company's stock this year... I firmly believe that the model that Enron has created, that's the future of business... I am very proud of what I and others accomplished at Enron. We built a company that, 10 years from now, 20 years from now, is going to be a factor to be reckoned with."

Ken Lay 24/8: "There are no accounting issues, no trading issues, no reserve issues, no previously unknown problem issues. The company is probably in the strongest and best shape that it has ever been in".

Skilling 24/8: "There are a couple of things I have got to get done over the next year or two... I tend to be a very enthusiastic, optimistic kind of person. I've almost never gone more than 30 days without having some sort of earth-shattering idea, most of them probably pretty crazy. But over the next couple of years, while I'm doing what I need to do, I'll probably come up with some new ideas.... You probably haven't seen the last of me."

Enron_2002_ime_Whistle

Svo mörg voru þau orð. Því miður fyrir þá Skillng og Lay eyðilagði stelpa ballið fyrir þeim. Sandkastalinn var úrskurðaður gjaldþrota aðeins 4 mánuðum eftir þessi viðtöl. 

Myndin er af þeim Sherron Watkins frá Enron, Coleen Rowley frá FBI og Cynthia Cooper frá WorldCom (talið frá hægri). Þessar þrjár voru útnefndar menn ársins af tímaritinu Time 2002.

Rowley hafði komið upp um skelfilegt klúður FBI í aðdraganda hryðjuverkaárásanna 11. september 2001. Klúður sem annars hefði hugsanlega geta komið í veg fyrir flugránin. Cynthia Cooper var starfsmaður í innri endurskoðun WorldCom og kom upp um spillingu Bernard Ebbers og fleiri stjórnenda WorldCom.

Enron_Time_Year2002

Sherron Watkins hóf störf hjá Enron 1993 og fluttist í fjármálasvið fyrirtækisins 2001. Hún gegndi stöðu framkvæmdastjóri og lífið blasti við. En þarna runnu á hana tvær grímur.

Já - Sherron sá að eitthvað mikið var að því hvernig Enron hagaði reikningsskilum sínum. Hún bar málið undir Ken Lay og taldi nauðsynlegt að fyrirtækið lagaði missagnirnar og kæmi bókhaldsmálum sínum í lag. Þegar ekkert gerðist ráðfærði hún sig við kunningja sinn hjá Arthur Andersen, sem var endurskoðunarfyrirtæki Enron. Þá fyrst fóru menn þar á bæ að horfast í augu við ruglið sem var í gangi hjá Enron. Watkins varð síðar mikilvægt vitni þegar þeir Lay og Skilling voru dregnir fyrir dóm.

Frægðin sem Sherron Watkins hlaut af þessu máli skilaði henni auðvitað glás af pening. En bóndi hennar hefur þó sagt að tíðin hafi verið ennþá betri þegar þau nutu bónusgreiðslnanna meðan hún starfaði hjá Enron.

Enron_Women

Eftir að Enron-skandallinn komst í hámæli reyndu ýmsir starfsmenn - bæði stelpur og strákar - að gera sér pening úr því. Frægastar urðu auðvitað Playboy-myndirnar af "the women of Enron". Þetta tölublað hlýtur að vera safngripur meðal fjármálamanna í dag. Ætli greiningardeild Landsbankans eigi eintak?


mbl.is Halldór vissi en ekki aðrir starfsmenn Landsbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fucking smart!

Það eru gamalkunnug sannindi að eftir dag kemur nótt. En það er óneitanlega all svakalegt að gengi General Motors skuli nú einungis vera um 1/5 af því sem það var í ársbyrjun 2004. Og hefur ekki verið lægra síðan í fallinu mikla í kjölfar olíukreppunnar 1973!

Er þetta ekki bara prýðisinngangur að umfjöllun um eitt alstærsta hrun í sögu kapítalismans? Í gær lofaði ég smáræði um hið alræmda orkufyrirtæki ENRON.

Byrjum frásögnina af Enron með nokkuð svo dramatískum upphafsorðum: "The pain is overwhelming. Please try to forgive me. Cliff"

Enron_Lay&Skilling

Þó svo Enron geti rakið rætur sínar allt til ársins 1932, hefst saga hins eina og sanna ENRON árið 1986. Þegar Ken Lay (f. 1942) varð forstjóri og stjórnarformaður fyrirtækisins.

Þá var Enron tiltölulega hefðbundið orkudreifingarfyrirtæki, en varð fljótlega umsvifamikið í orkuframleiðslu og eignaðist orkuver viða um heim. Það var ekki síst ný löggjöf um frjálsari orkuviðskipti í Bandaríkjunum, sem gerði Enron kleyft að vaxa hratt; löggjöf sem Enron hafði eytt miklum tíma og peningum í að ná fram.

Hinn aðalleikarinn í Enron-hneykslinu, Jeff Skilling (f. 1953), vann fyrst með fyrirtækinu sem ráðgjafi, í verkefni um að koma á fót futures-markaði með gas. Ken Lay leist afar vel a þennan unga og metnaðarfulla mann og réð Skilling til Enron árið 1990. Þar kleyf hann hratt upp metorðastigann; varð aðstoðarforstjóri Enron 1997 og forstjóri 2001.

Skilling_happy

Ken Lay og Skilling voru fljótir að átta sig á möguleikanum sem Internetið bauð upp á. Enron var eitt af fyrstu fyrirtækjunum til að bjóða upp á viðskipti með hrávöru í gegnum Netið. Ein af frægum afurðum Enron voru "veðurafleiðurnar". Það kann að hljóma ævintýralega að eiga viðskipti með veður, ef svo má segja. En í reynd voru þetta afleiður sem nýttust vel i viðskiptum með ýmsar landbúnaðarafurðir. Enda afhending á þeim oft mjög háð veðri á ræktunartímanum. Og viðskiptakerfi Enron á Netinu (EnronOnline), varð afar vinsælt og var nýtt af flestum orkufyrirtækjum Bandaríkjanna. Þetta skapaði Enron miklar tekjur.

Þeir Jeff Skilling og Ken Lay urðu holdgervingar fyrir það hvernig ætti að þróa og reka stórfyrirtæki nútímans. Óbilandi sjálfstraust Skilling's hreif marga og hann var einfaldlega álitinn snillingur. Fræg er sagan af því þegar Skilling sótti um að komast i MBA nám við Harvard. Í viðtalinu vegna umsóknarinnar, á hann m.a. að hafa verið spurður hvort hann væri klár náungi. Skilling er sagður hafa glott hressilega og svarað að bragði: "I'm fucking smart!". Og hann var nokkuð klár. Útskrifaðist með MBA frá Harvard 1979 og var einn af þeim hæstu í bekknum. Og undir hans stjórn varð Enron ein helsta stjarnan í bandarísku viðskiptalífi.

enron_logo

Skilling átti svo sannarlega efni á því að vera glaðhlakkalegur, líkt og hann er á myndinni hér að ofan. Og efst, þar sem hann er með læriföður sínum, Ken Lay. Á tíunda áratugnum var Enron hvað eftir annað utnefnt fræknasta og framsæknasta fyrirtæki Bandaríkjanna. Slíkar útnefningar fékk fyrirtækið t.d. frá Fortune í sex ár samfleytt.

En hvar lágu svikin hjá Enron? Til að gera langa sögu stutta voru þau einkum tvenns konar.

Annars vegar voru samningar um gríðarlega orkusölu o.fl., sem náðu langt fram í tímann, bókfærðir eins og öll salan hefði þegar átt sér stað. M.ö.o. voru bókfærðar himinháar tekjur, sem í reynd voru hvorki orðnar til, né vissa um hvert verðið nákvæmlega yrði þegar salan ætti sér stað. Fyrir vikið var Enron að skila miklu meiri tekjum og hagnaði á pappírunum, en raunverulegt var.

enron_Lay_Liar

Hinn þáttur svikamyllunnar fólst í beinum blekkingum. Þegar stefna fór í það, að Enron gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar, fóru stjórnendurnir að selja bréfin sín í fyrirtækinu í stórum stíl. Án þess að tilkynna um það, eins og lög kveða á um. Og þegar orðrómur fór á kreik um að ekki væri allt með felldu hjá Enron, bættu þeir um betur með því að fullvissa markaðinn um að allt væri í stakasta lagi og mikill vöxtur framundan.

Sennilega hefur Netbólan hjálpað Enron í þessum feluleik. Markaðirnir voru spinnegal og allt virtist verða að peningum. Menn uggðu ekki að sér og gleymdu að spyrja eðlilegra spurninga. Þar að auki var sannleikurinn vel falinn hjá Enron með flóknu neti fyrirtækja um allan heim. Og samkvæmt endurskoðendum Enron, sem var hið stóra og virta endurskoðunarfyrirtæki Arthur Andersen, var bókhald Enron í stakasta lagi. Þetta notuðu þeir Lay og Skilling til að blekkja markaðinn áfram.

Enron_whole

En svo hrundi spilaborgin. Sumir fjármálamenn voru byrjaðir að klóra sér í höfðinu yfir reikningsskilum Enron þegar árið 2000. Og skyndilega byrjuðu hlutabréfin að sveiflast mun meira í verði en verið hafði fram til þessa. Inn í umræðuna blandaðist gagnrýni á Enron vegna rafmagnsvandræða í Kaliforníu og sögur voru á kreiki um slæmt gengi fyrirtækisins á Indlandi.

Síðar kom í ljós að þeir Skilling og Lay voru þegar byrjaðir að selja mikð af hlutabréfum sínum í fyrirtækinu. Sérstaklega eftir mitt ár 2000 þegar hlutabréfaverð Enron náði miklum hæðum og fór i 90 USD. En neikvæða umræðan var byrjuð. Og þó svo Lay ítrekað staðhæfði að búast mætti við enn frekari vexti og að hlutabréf í Enron myndu örugglega fara í 150 USD, lækkaði nú hlutabréfaverð Enron hratt. Sumir héldu reyndar að nú væri komið gott kauptækifæri og fjárfestu enn meira í Enron. Ekki síst fólk sem treysti Ken Lay.

Sumarið 2001 fer skriðan almennilega af stað. Starfsfólk hjá Arthur Andersen fer að rýna betur í bókhald Enron og leita eftir útskýringum á tilteknum viðskiptafærslum. Skilling segir skyndilega af sér um miðjan ágúst (af "persónulegum ástæðum"), en Lay fullvissar bæði starfsfólk og fjárfesta um að allt sé í stakasta lagi og Enron hafi ekki aðhafst neitt ólöglegt. En boltinn rúllar áfram - þó svo hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 beini athygli fjölmiðla annað. Rannsókn er hafin á bæði Enron og líka á Arthur Andersen. Hlutabréf í Enron halda áfram að falla og fara í 15 dollara í október.

Í desemberbyrjun 2001 er Enron lýst gjaldþrota. Fyrirtæki með yfir 20 þúsund starfsmenn, sem fáeinum mánuðum fyrr hafði tilkynnt um 50 milljarða dollara tekjur og hafði enn einu sinni sprengt allar væntingar. En nú var ballið búið. Þetta reyndist stærsta gjaldþrot í sögu Bandaríkjanna.

enron_5

En hvernig gat þetta gerst. Margir hafa bent á tengsl æðstu manna Enron við Bush-stjórnina og að fyrirtækið hafi notað fjármagn sitt til að ná fram lagabreytingum, sem beinlínis voru hagstæðar fyrirtækinu.

Ken Lay var mikill vinur bæði Bush og Cheney varaforseta. Líklega hefði málið valdið þeim miklum erfiðleikum, ef ekki hefðu komið til hryðjuverkin í Bandaríkjunum á sama tíma og Enron-málið var í hámarki.

Þetta er orðin nokkuð löng færsla. Enda málið bæði flókið og umsvifamikið og einungis rakið hér í algerum skeytastíl. En ekki verður við Enron skilið, án þess að minnast á örlög aðalleikarana.

Enron_KenLayin Cuffs

Í maí 2006 var Ken Lay fundinn sekur í flestum ákæruatriðunum. M.a. um stórfelldar bókhaldsfalsanir og fjársvik. Ákveða skyldi refsingu í október og var búist við að hann fengi 20-30 ára fangelsi. En áður en til þess kom fékk Lay hjartaáfall og varð bráðkvaddur þá um sumarið. Sennilega á dánarbúið lengi eftir að verjast skaðabótakröfum vegna Enron-málsins.

Skilling var einnig dæmdur sekur, m.a. fyrir ólögmæt innherjaviðskipti og falska upplýsingagjöf. Hann hóf afplánun sína á 24 ára fangelsisdómi í desember 2006 og spilar nú líklega tennis daglangt í fangelsinu í Minnesota. Verjandi hans var frægur bandarískur lögfræðingur; Daniel Petrocelli.

Að því ég best veit á mál Skilling's enn eftir að fara fyrir áfrýjunardómstól.

Arthur Andersen var eitt af öflugustu endurskoðunarfyrirtækjum í heimi. Með 28 þúsund starfmenn í Bandaríkjunum og 85 þúsund alls um allan heim. Leifarnar af þessu bogna stolti er lítil 200 starfsmanna endurskoðunarstofa. Fjöldi hluthafa Enron tapaði stórfé og eftirlaunasjóðir starfsfólks urðu að engu.

Enron_skillingcuffs

Ýmsir af helstu stjórnendum Enron fengu fangelsisdóma. Þó mun styttri en þeir Lay og Skilling. Það er Skilling sem á myndinni er leiddur af alríkislögreglumönnum fyrir dóm. Þess má geta að Skilling óskaði eftir að ganga frjáls þar til niðurstaða fengist um áfrýjun hans. En dómarinn féllst ekki á það og sendi hann nánast beint í steininn. Þetta er líklega einhver dramatískasti atburður í bandarískri viðskiptasögu.

En örlög sumra voru enn sorglegri. Clifford Baxter (f. 1958) var hamingjusamur 2ja barna faðir og einn af framkvæmdastjórum Enron. Hann hafði hagnast mjög á sölu hlutabréfa í fyrirtækinu og eftir að Enron-hneykslið komst upp stóð hann frammi fyrir líklegum ákærum. Hann er sagður hafa tekið það mjög nærri sér og þjáðst af þunglyndi.

Í janúar 2002 fannst Baxter látinn með skotsár í Bensinum sínum, skammt frá heimilinu í Texas. Hann hafði skotið sig með skammbyssu.

Baxter var 43 ára þegar hann lést. Við vitum ekki hvort hann var líka "fucking smart". En hann var einn af örfáum stjórnendum innan Enron sem hafði maldað í móinn vegna viðskiptahátta fyrirtækisins. Baxter skildi eftir sig handskrifað kveðjubréf til konunnar sinnar:

Enron_clifford_baxter

"Carol, I am so sorry for this. I feel I just can't go on. I have always tried to do the right thing but where there was once great pride now it's gone. I love you and the children so much. I just can't be any good to you or myself. The pain is overwhelming. Please try to forgive me. Cliff"

Endum þetta á nótum endurnýjanlegrar orku. Eitt af fyrirtækjunum í Enron samsteypunni var Enron Wind. Eftir gjaldþrotið var það selt General Electric. Sem kunnugt er, þá er GE í dag eitt af stærstu fyrirtækjum heims í vindorku. En það er önnur saga.


mbl.is Bréf í GM ekki lægri í 30 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóti kallinn?

Fyrirtæki eins og Exxon Mobil er af mörgum nánast sett í sama flokk og allra ljótustu kallarnir í bisness-lífinu. Litið skárri en krimmarnir í Enron. Tveir vinir mínir eru með starfsreynslu frá Exxon Mobil. Og annar þeirra er líka með Enron í CV-inu sínu! Þeir eru annars vegar frá Venesúela og hins vegar Dani, sem hefur búið í Bandaríkjunum um áratuga skeið. Hef satt að segja sjaldan hitt duglegri og heiðarlegri menn. Það gengur svona.

Rockefeller_18

Vert að fara nokkrum orðum um þessi "voðalegu" fyrirtæki. Exxon Mobil er, eins og flestir vita, eitt af afsprengjum Standard Oil hans John's D. Rockefeller. Þegar Standard Oil var nánast orðið einveldi í bandaríska olíuiðnaðinum um aldamótin 1900 kom að því að þetta risafyrirtækið var leyst upp með dómi Hæstaréttar Bandaríkjanna árið 1911.

Málshöfðun alríkisstjórnarinnar gegn Standard Oil byggði á samkeppnislögunum, sem sett voru árið 1890 (Sherman Act).

Standard Oil samsteypunni var skipt upp í 34 sjálfstæð fyrirtæki. Tvö þau helstu urðu Jersey Standard og Socony. Þau urðu síðar að Esso  annars vegar (Eastern States Standard Oil sem síðar varð Exxon) og Mobil hins vegar.

Time_Exxon_Mobiljpg

Önnur "smærri" afsprengi Standard Oil eru t.d. Chevron og Amaco. Sem dæmi um geggjaða stærðina, þá rann Amaco saman við BP í lok 20. aldar (réttara sagt keypti BP félagið og það gerðist 1998). Og það var þá stærsti samruni iðnfyrirtækja nokkru sinni í sögunni.

Exxon og Mobil fengu að sameinast á ný 1999. Það var þá stærsti fyrirtækjasamruni í sögu Bandaríkjanna.

Ekkert fyrirtæki, sem skráð er á markaði í heiminum, skilar jafn miklu tekjum eins og Exxon Mobil. Síðasta ár þénaði þetta netta kompaní meira en 400 milljarða USD og skilaði yfir 40 milljörðum dollara í hagnað. Haldist olíuverð áfram hátt, eða jafnvel hækki, eru hlutabréfin tvímælalaust góð kaup. Núverandi olíu- og gaslindir sem fyrirtækið ræður yfir eru taldar duga í allt að 14-15 ár. Svo mun Exxon Mobil auðvitað halda áfram að finna nýjar olíulindir og/ eða kaupa sér vinnsluréttindi.

Rockefeller-fjölskyldan er enn ein af ríkustu fjölskyldum Bandaríkjanna. Líklega má kalla David Rockefeller höfuð fjölskyldunnar í dag, en hann er eini eftirlifandi sonarsonur John's D. Rockefeller, stofnanda Standard Oil. Á myndinni hér að neðan er David litli í fanginu á John D. (afa sínum).

Rockefeller_johnD_david

David er fæddur 1914 og var lengi stjórnarformaður og forstjóri Rockefeller-bankans, þ.e. Chase Manhattan Bank. Sem í dag heitir JPMorgan Chase. Fjölskyldan er enn stór hluthafi í þessum risabanka.

Nýjustu fréttirnar af Rockefellerunum eru líklega þær, að fyrir tæpum mánuði síðan gerði fjölskyldan smá uppreisn á aðalfundi Exxon Mobil. Þar studdi fjölskyldan tillögur um að fyrirtækið einbeiti sér meira að endurnýjanlegri orku og leggi umtalsvert fé í rannsóknir á gróðurhúsaáhrifum. Og vildi líka ná því fram að Rex Tillerson, forstjóri Exxon Mobil, geti ekki líka gegnt stöðu stjórnarformanns.

exxon-mobil_dino

Engin af tillögunum mun hafa náð fram að ganga. Exxon Mobil heldur sínu striki sem "vondi kallinn". Tillerson virðist a.m.k. ekki ætla að mýkja ásýnd fyrirtækisins um of! Þó þykir hann skárri að þessu leyti en forveri hans, Lee Raymond, sem jafnan sagði gróðurhúsaáhrifin vera hreint bull. Og dældi pening í áróður gegn umhverfisvernd.

Á morgun reyni ég e.t.v. að koma með smá "framhald". Um hinn "vonda kallinn"; ENRON.

 

 


mbl.is Skaðabætur lækkaðar vegna Exxon Valdez
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíumælirinn nálgast "stríð"

Þó svo ég sé í afskaplega góðu skapi í dag, verður ekki hjá því komist að Orkubloggið sé á alvarlegum nótum. Hinar vikulega miðvikudagstölur um olíubirgðir í Bandaríkjunum voru heldur hærri í þetta sinn, en flestir væntu. Þetta er vísbending um minnkandi olíunotkun í landinu. Líklega vegna efnahagsástandsins þar, sem er ekki upp á marga fiska þessa dagana. Aftur á móti birtust líka í dag heldur nöturlegri fréttir:

OilWarPeace

Energy Information Administration (EIA) er tölfræðistofnun, sem heyrir undir bandaríska orkumálaráðuneytið. Fyrir ári síðan spáði EIA að 2010 muni olíuframleiðsla í heiminum verða 90,7 milljón tunnur á dag. Nú er talið að þetta gangi því miður ekki eftir; spáin frá í dag er einungis upp á 89,2 milljón tunnur.

Og það sem gerir spána enn svartari: Þó svo lækkunin sé einungis innan við 2% frá fyrri spá, er nú gert ráð fyrir að 2010 verði hinn vestræni heimur enn háðari OPEC-ríkjunum en fyrri spá hljóðaði upp á. M.ö.o. þá mun stærra hlutfall af framleiðslu-aukningunni koma frá OPEC.

Oil_go_to_war

Það stefnir sem sagt allt í það að ríki eins og Bandaríkin, Kína, Indland og Evrópusambandið verði enn háðari olíu frá OPEC-ríkjunum en þau eru í dag. Og nóg er nú samt. Þetta þýðir einfaldlega að enn meiri líkur en áður, eru á innrás Bandaríkjanna í Íran.

En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Hinar neikvæði fréttir eru sem vatn á myllu þeirra sem fjárfesta í endurnýjanlegri orkuvinnslu. Sól og vindur!


mbl.is Mikil lækkun á olíuverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrenndur grjónagrautur

Þegar húsnæðisverð hækkaði og hækkaði voru fáir sem töldu eitthvað óeðlilegt við það. Þetta var talið eðlilegt með hliðsjón af hækkun kaupmáttar og fólksfjölgun í heiminum, svo fátt eitt sé nefnt. Þegar "vel gengur" eru "sérfræðingar" fljótir að gleyma að það sem fer upp kemur líka niður. Og að almennt leitar efnahagur heimsins eftir jafnvægi. En stundum koma hressilegar sveiflur, sem valda því að skynsemin blæs útí veður og vind.

Rice_price_05_08

Nú eru fjölmiðlar fullir af útskýringum á hækkandi matvælaverði. Hrísgrjón eru sögð hækka vegna þess að framboðið sé minna en eftirspurnin. Sum ríki hafa tekið upp á því að takmarka útflutning til að tryggja fæðuframboð heima fyrir. Á örstuttum tíma hefur verðið á hrísgrjónum tvöfaldast. Og sé litið fáeina mánuði lengra aftur í tímann hefur verðið reyndar þrefaldast.

En trúið mér; það er nóg af hrísgrjónum. Þetta er allt saman út af því að fjármagnið missti trúna á hlutabréf og líka á skuldabréf. Og þá var ekki annað að gera en fara í gull, olíu og aðra hrávöru. Það er einfaldlega allt of mikið af peningum á floti í hrávörugrautnum.

Og þess vegna verður grauturinn of heitur. Og brennur við. Ekki furða þó margur sé með áhyggjusvip og óbragð í munni. Þessar svakalegu og skyndilegu verðhækkanir eru engan veginn eðlilegar og því tæplega komnar til að vera. En auðvitað verða einhverjir sem munu halda slíku fram. T.d. "sérfræðingar" hjá einhverjum fjárfestingabönkunum.

Borlaug_1943

En vissulega skapar þetta mikil vandræði hjá mörgum þjóðum. Tímabundið. Það er auðvitað stóralvarlegt mál.

Mig langar að nota tækifærið og minnast á einn mesta vísindamann okkar tíma. Snilling sem alltof fáir muna eftir. Sá er norski Bandaríkjamaðurinn með sérkennilega eftirnafnið; Norman Borlaug. Borlaug olli byltingu í fæðuframboði í heiminum. Honum tókst með aðferðum erfðafræðinnar að stórauka framleiðni á korni; fyrst hveiti og síðar tegundum eins og maís og hrísgrjónum.

Oft er sagt að enginn einn maður hafi bjargað jafn mörgum mannslífum eins og Borlaug. Án hans hefði hugsanlega allt að milljarður manna farist úr hungri á síðari hluta 20. aldar. Borlaug, sem er fæddur 1914, fékk friðarverðlaun Nóbels 1970. Undanfarið hefur Borlaug lýst áhyggjum sínum um að framfarir í fæðuframboði nú séu ónógar. Tvöfalda þurfi fæðuframboðið fyrir árið 2050. Þetta er svolítið ógnvekjandi framtíðarsýn. Er Borlaug á gamals aldri að breytast í Bölmóð spámann?

 


mbl.is Stefnt á aukna hrísgrjónarækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kókoshnetuveisla

Branson_2

Hef ávallt haft mikið álit á Richard Branson. Allt síðan ég sá þennan ofur sjarmerandi náunga standa brosandi á tröppum dómhússins í London (High Court), umkringdur sjónvarpsmyndavélum.

Þetta var líklega í janúar 1993. Held ég hafi verið á leið heim úr skólanum (LSE). Þá hafði ég ekki hugmynd um hver þessi síðhærði töffari i ljósu jakkafötunum var. Né hvert tilefni írafársins var.

Ekki leið á löngu þar til málin skýrðust. Þetta var nefnilega dagurinn sem Virgin flugfélagið og Branson unnu stórsigur á British Airways (BA) og kallinum með "litla" nafnið; honum Lord King. Á þessum tíma tengdi maður þó Virgin-nafnið auðvitað fyrst og fremst við plötubúðina Virgin Megastore. Sem mig minnir að hafi verið við Trafalgar torg. Þangað fór maður oft. Og þetta var sem sagt strákurinn, sem hafði stofnað Virgin plötufyrirtækið og síðar flugfélagið Virgin Atlantic.

Virgin-Atlantic-Plane

King lávarður og klíka hans hjá BA höfðu um langt skeið stundað mikla ófrægingarherferð gegn litla flugfélaginu með sæta nafnið; Virgin Atlantic.

Og nú, þennan milda vetrardag snemma árs 1993, hafði dómstóllinn rétt í þessu afgreitt dómssátt þess efnis að BA skyldi greiða Branson og Virgin samtals 600.000 pund í skaðabætur og 3 milljónir punda að auki vegna lögfræðikostnaðar. Þar að auki þurfti BA að biðjast afsökunar á óþverrabrögðum sínum. Ekki að furða að Branson brosti breitt þarna fyrir utan High Court.

Niðurlæging Lord King var algjör. Líklega hefur frú Tatcher, eins og Hannes Hólmsteinn kallar hana alltaf, ekki heldur verið hlátur í hug þennan dag. Lord King var uppáhaldið hennar. En ég fílaði svo sannarlega þennan Branson.

Ég hef alltaf haft tendens til að taka málstað þess minni máttar. Eða þess sem verður fyrir árásum frá hrokafullum merkikertum. Þess vegna var ég Loftleiðamaður en ekki Flugfélagsmegin. Svo var Alfreð Elíasson líka soddan sjarmör. Samt finn ég ég núna til með Icelandair.

ragnhildur_geirsdottir

Nýjar fréttir um mikinn niðurskurð hjá Icelandair koma samt ekki á óvart. Meðan þau Sigurður Helgason og Ragnhildur Geirsdóttir voru þarna við stjórn, var bersýnilegt að innan fyrirtækisins var verið að taka ákvarðanir til góðs fyrir félagið. Sérstaklega var ég hrifinn af leiðakerfinu, sem þau komu á fót. Mig grunar að Ragnhildur hafi átt mikinn þátt í því. Þó ég hafi svo sem ekki hugmynd um hvort það sé rétt hjá mér. En eins og færi að halla undan fæti eftir að hún fór frá fyrirtækinu. Held að kallarnir hefðu átt að hlusta betur á Ragnhildi.

Jón Karl Olafsson verkaði líka á mann sem mjög hæfur stjórnandi. A.m.k. virtist honum ganga vel að stýra innanlandsflugi félagsins. En ég fór að klóra mér í hausnum þegar menn byrjuðu skyndilega að kaupa í stórum stíl hlutabréf í Flugleiðum. Þar fór, sem kunnugt er, Hannes Smárason fremstur í flokki. Síðan hvenær hefur það verið góður bissness að kaupa flugfélag? Og svo var líka farið inn í Finnair og American Airlines. Menn hlutu að vera orðnir spinnegal.

Gordon_Gekko

En reyndar var fjárfestingin í Flugleiðum ekki alveg ósvipuð því sem gerðist í kvikmyndinni Wall Street. Þarna reyndust m.ö.o. vera fyrir hendi mikil dulin verðmæti, sem Hannes hafði áttað sig á. Það var snjallt hjá honum. En eftir stendur veikburða flugfélag, sem hugsanlega mun ekki ná sér á strik aftur fyrr en eftir óratíma.

En talandi um "Wall Street". Kannski ekki nein klassík, en samt var þar skapaður hinn eftirminnilegi Gordon Gekko. Og fáar kvikmyndir eru með jafn mikið af góðum frösum. "Money never sleeps, pal"! Gekko var svalur.

virgin-biofuel

Myndin hér efst og einnig sú hér til hliðar eru látnar fylgja, með hliðsjón af því að Branson er mikill talsmaður þess að nota lífrænt eldsneyti (biofuel) á flugvélar. Er það ekki einhverskonar kókoshnetuolía, sem þar er á ferð?


mbl.is Icelandair boðar niðurskurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sól, vatn og salt

Hér í gærkvöldi benti Orkubloggið á að ólíklegt væri að Sádarnir gætu aukið olíuframleiðsluna svo einhverju nemi. Sbr. færslan "Sápukúlur í eyðimörkinni". Svo virðist sem markaðurinn í dag sé sammála þessu. A.m.k. hækkaði olíufatið þrátt fyrir "góðu" fréttirnar.

OilWindCartoon

Langstærsti olíuneytandinn og olíuinnflytjandinn eru Bandaríkin. Hvernig komast þau út úr þessari orku-spennitreyju? Í mínum huga er svarið ekki ýkja flókið. Til skemmri tíma mun notkun á gasi aukast. Olíuvinnsla úr kolum verður meiriháttar iðnaður. Bandaríkin eiga gríðarlega mikið af kolum. Og svo verða byggð ný kjarnorkuver.

Vegna gróðurhúsaumræðunnar og umhverfismála mun þessi þróun ekki eiga sér stað þegjandi og hljóðalaust.

Stóraukin áhersla verður lögð á uppbyggingu í endurnýjanlegri orku. Skattkerfinu verður umbylt til að hvetja til slíkra fjárfestinga. Þá mun markaðsverðmæti fyrirtækja í þessum geira hækka hratt. Núna gæti verið rétti tíminn til að kaupa hluti í slíkum fyrirtækjum. Nema John McCain vinni kosningarnar. Þá er hætt við að litlar breytingar verði í bráð til hagsbóta fyrir fyrirtæki i renewables.

US_CSP_Potentials

Boone Pickens veðjar á vindorku. Um leið er hann að veðja á að vatnsréttindin á þeim svæðum, þar sem vindtúrbínurnar standa, muni færa honum mikil verðmæti. En það er önnur saga.

Ef vatnsréttindin væru ekki líka í spilunum hjá Pickens, er ég nokkuð viss um að hann hefði frekar veðjað á sólarorku fremur en vind. Þar kemur m.a. CSP-tæknin til skjalanna. Stór svæði innan SV-hluta Bandaríkjanna er meira eða minna sem sérhönnuð fyrir CSP orkuver. Hér koma nokkrir fróðleiksmolar um CSP:

CSP-orkuver er einfaldlega þannig, að með speglum eru sólargeislar notaðir til að framleiða hita. Og hitinn framleiðir gufuþrýsting, sem framleiðir rafmagn. Þetta er ekki ný tækni; hún var í reynd komin fram fyrir um 25 árum síðan. En var þá mjög dýr og því óhagkvæm. Fáein lítil tilraunver voru byggð og hafa þau verið starfrækt síðan með góðum árangri. Á allra síðustu misserum og árum hefur CSP fengið nýtt líf og er líklega áhugaverðasti möguleikinn í rafmagnsframleiðslu framtíðarinnar.

CSP_mirror_parabolic

Tæknin er einkum tvenns konar. Annars vegar eru notaðir bognir eða öllu heldur íhvolfir speglar. Speglarnir beina sólargeislunum að röri, sem er tengt hverjum speglanna. Þannig hita sólargeislarnir vökva sem rennur um rörin. Þessi rörakerfi eru nokkuð flókin framleiðsla og þurfa að þola mikinn hita. Í dag eru einungis tvö fyrirtæki í heiminum, sem framleiða þessi rörakerfi. Þau eiga mikla framtíðarmöguleika.

Vökvinn í rörunum (venjulega olía) er notaður til að hita vatn og myndar þannig gufuþrýsting. Sem knýr túrbínu og framleiðir rafmagn. Einungis eitt einkarekið CSP-orkuver hefur tekið til starfa og það byggir einmitt á þessari parabólu-tækni. Verið er í Nevada-eyðimörkinni í Bandaríkjunum, en er í eigu spænska fyrirtækisins Acciona. Það framleiðir um 64 MW.

CSP_solartower_seville

Hin algengasta CSP-tæknin er s.k. turn. Þá er sólargeislunum speglað frá flötum, hreyfanlegum speglum í einn punkt efst í turninum. Þar myndast gríðarlega mikill hiti (þ.a. móttakarinn er úr öðru efni en kertavaxi!). Hitinn hitar upp vökva og myndar gufuafl, sem knýr túrbínu og framleiðir rafmagn. Í dag er hitinn sem þarna myndast u.þ.b. 400 gráður celsius. En horfur eru á að hitinn geti orðið 700-900 gráður áður en langt um líður. Sem einfaldlega þýðir betri nýtingu á sólarorkunni pr. hvern fermetra af speglum.

Það sem meira er. Vindorkuver og PV-sólarorkuver geta ekki með hagkvæmum hætti geymt raforkuna, sem þau framleiða. CSP byggir aftur á móti á hita. Unnt er að geyma sólarorkuna í nokkurn tíma með því að hita upp saltlausn. Heitt saltið er svo síðar notað til að hita vatn og framleiða rafmagn, þegar orkueftirspurnin er meiri eða sólskinið minna. Þetta gefur CSP-tækninni verulega möguleika, sem t.d. vatnsorkuver og vindorkuver hafa ekki.

Nefna má nokkrar líklegar tækniframfarir á allra næstu árum í CSP-tækninni. Að í stað olíu verði unnt að hita vatnið beint. Að parabólutæknin víki að einhverju leyti fyrir nýjum flötum speglum, sem eru miklu ódýrari í framleiðslu. Að móttakarar í turntækninni þoli mun hærri hita en nú er. Að tæknin við að geyma hitaorkuna til rafmagnsframleiðslu síðar, taki framförum. Svo fátt eitt sé nefnt. Athuga ber að fleiri útgáfur eru til af CSP-tækninni. T.d. Sterling-diskurinn, sem kann að verða hagkvæmur til að framleiða rafmagn í mun smærri stíl. Kannski meira um hann síðar hér á Orkublogginu.

CSP_Potentials_2050

Undafarin ár hefur orðið ævintýralegur uppgangur í nokkrum geirum endurnýjanlegrar orku. Þar er vöxturinn hvað hraðastur í vindorkunni, eins og t.d. hinn danski vindtúrbínu-framleiðandi Vestas hefur fengið að njóta.

En þeir sem hafa hvað mesta þekkingu á CSP sannfærast flestir um að þar verður langmesti vöxturinn, ef horft er ca. 20-40 ár fram í tímann. Það eru nefnilega stór og ónýtt landsvæði víða um heim, þar sem sólargeislun er mjög sterk og tiltölulega stutt til stórra borga og fjölmennra svæða. Þess vegna eru nú mörg fyrirtæki farin að spá í þessa tækni. En einungis fá sem þegar eru byrjuð að hanna og byggja þessi mannvirki. Og þau hafa gott forskot.

Fæst þessara fyrirtækja eru á hlutabréfamarkaði og eru í eigu efnaðra evrópskra fjölskyldna. Merkileg þessi sterka hefð víða í Evrópu fyrir mjög öflugum en low profile fjölskyldufyrirtækjum.


mbl.is Verð á hráolíu hækkar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný heimsmynd

Bandaríkin standa frammi fyrir miklum vanda. Bush hefur sjálfur orðað þetta vel: "We are addicted to oil". Í forsetatíð hans hafa olíufyrirtækin notið mikils velvilja. Á meðan hafa fyrirtæki í óhefðbundnari orku þurft að sætta sig við mjög óreglulegan lagaramma, sem hefur spornað gegn fjárfestingum í t.d. sólarorkuverum.

Svæðið allt frá Texas og vestur eftir til Kaliforníu hentar mjög vel fyrir stór sólarorkuver. Því væri lógískt að sólarorkufyrirtæki í Bandaríkjunum byggju við hagstætt skattaumhverfi, til að hvetja til fjárfestinga í greininni. En repúblíkanar hafa staðið gegn því og einblínt á að styrkja olíuiðnaðinn.

Orkubloggið hefur all oft bent á gagnrýni Boone Pickens á bandarísk stjórnvöld. Þessi gamli olíurefur og gallharði repúblíkani hefur verið óþreytandi að benda á nauðsyn þess að Bandaríkin fjárfesti í vind- og sólarorku. Og stórefli kjarnorkuiðnaðinn.

Hirsch

Annar náungi (að vísu ekki jafn skemmtilega litríkur karakter og Pickens) talar á svipuðum nótum. Sá er Bob Hirsch, sem hefur verið álitsgjafi fyrir bandarísk stjórnvöld í orkumálum og stýrði m.a. umtalaðri skýrslu um þessi mál. Skýrslan sú var birt 2005 og kallast Hirsch-report. Það er ekki gæfuleg lesning fyrir Ameríku.

Og Robert Hirsch hefur jafnvel orðið enn svartsýnni á allra síðustu misserum. Nú er hann farinn að spá því að olíutunnan geti farið í 500 USD innan 3-5 ára. Það ótrúlega er að Hirsch verður vart flokkaður meðal hefðbundinna dómsdagsspámanna. Hann er maður með talsvert mikla vigt og þekkingu á málinu. Og setur sjónarmið sín fram með skýrum og einföldum hætti. Hér er eitt af viðtölunum við Hirsch:

 

Ekki er þar með sagt að Orkubloggið sé að öllu leyti sammála Bob Hirsch. En hann er góður "talsmaður" fyrir þá sem telja olíu-futures góða fjárfestingu.

Og hér er annað nýlegt viðtal við Hirsch. Hvar hann bendir m.a. á að það taki einn til tvo áratugi að finna lausnir á vandanum og það verði að bregðast við strax. Takið eftir lokaorðunum hjá Hirsch, þegar fréttakonan sáir fræum efa um að Hirsch hafi rétt fyrir sér:

 

Hér má sjá samantekt eða útdrátt úr skýrslu Hirsch's og félaga, sem unnin var fyrir bandaríska orkumálaráðuneytið:

http://www.acus.org/docs/051007-Hirsch_World_Oil_Production.pdf 

 


mbl.is Obama vill aukaskatt á olíufélög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sápukúlur í eyðimörkinni

Ali al-Naimi_8

Fundurinn í Jeddha fólst í því að Sádarnir blésu upp stóra og flotta sápukúlu. Sápukúlu sem fjölmiðlatuskurnar gleypa gagnrýnislaust, þrátt fyrir óbragðið. Sápukúlu sem mun springa beint í augun á Vesturlöndum. Og þá getur svíðið bæði fljótt og mikið!

Já - er ekki nánast skylda að færsla dagsins fjalli um olíufundinn stóra í Jeddah, sem haldinn var  um helgina? Það eru margar skemmtilegar fréttir í dag um þennan fund. Td. á Visir.is: "Sádí Arabía og fleiri OPEC ríki ætla að auka olíuframleiðslu til að mæta eftirspurn... Sádí Arabía mun auka framleiðslu um 9,7 milljónir tunnur á dag í júlí. 

Þetta er pínu vandræðaleg frétt hjá Vísi. Ef Sádarnir myndu ætla að auka framleiðsluna um 9,7 milljón tunnur á dag væri það nett 105% aukning! En Vísismenn hafa líklega lent í vandræðum með að þýða fréttaskeytið. Og það sem er kannski enn vandræðalegra, er að í annarri frétt á visir.is um fundinn í Jeddah er sama vitleysan aftur: "Sádí Arabar lýstu því yfir fyrir skömmu að þeir hefðu áhyggjur af þróuninni og því ákveðið að auka framleiðslu sína um níu komma sjö milljón tunnur á dag".

Hið sanna  í málinu er eilítið öðruvísi. Sádarnir ætla nú hugsanlega að auka framleiðsluna pínu pons. Kannski svona 200-300.000 tunnur. Og þar með framleiða samtals 9,7 milljón tunnur daglega. Það er EF þeir sannfærast um að framboðið sé ekki að anna eftirspurn. Allt mjög loðið.

Sjálfir segja þeir verðhækkanirnar fyrst og fremst að rekja til spákaupmennsku. Framboðið anni í reynd eftirspurninni. Og ef þeir trúa þessu sjálfir, sem þeir eru að segja, er eðlilega ekki spennandi í þeirra augum að dæla pening í ný olíusvæði og hugsanlega valda offramboði.

En hættum þessum hártogunum og fýlupokastælum. Og spáum í staðinn aðeins i það hvaða framleiðslumarkmið Sádarnir hafa - og hvað þeir hugsanlega munu geta framleitt. Flestir æðstu prestar í olíubransanum telja, að ef Sádarnir setja allt á fullt i olíuiðnaðinum hjá sér, geti þeir mögulega aukið framleiðsluna um allt að 1 milljón tunnur á frekar skömmum tíma. Svona max 11 milljón tunnur eða svo. En það er líka alkunna að framleiðslumarkmið Saudi Arabíu eru 12 milljón tunnur á dag, ekki síðar en á næsta ári (2009). Það þarf sem sagt mikið meiri pening í olíuiðnaðinn til að geta náð framleiðslumarkmiði næsta árs.

Ali al-Naimi_6

Stóru tíðindin af fundi helgarinnar eru þau, að nú er farið að tala um að Sádarnir hyggist setja stefnuna á allt að 12,5 milljón tunnur fyrir árslok 2009. Og hyggist fara af stað með stórfelldar nýjar fjárfestingar, sem muni skila heildarframleiðslu upp á allt að 13-15 milljón tunnur daglega innan tíu ára.

En þetta er ennþá bara orðrómur á markaðnum. Í annan stað, eins og Jón Baldvin sagði gjarnan og tók um löngutöng, er allsendis óvíst að Sádarnir geti fundið svo mikla olíu í víðbót. Í þriðja lagi eykst olíunotkunin a.m.k. um 800.000 tunnur pr. dag á ári hverju og jafnvel allt að tvöfalt meira en það þegar efnahagsvöxturinn er á góðu blússi.

Þetta þýðir einfaldlega að innan 10 ára þarf olíuframleiðslan að hafa aukist í a.m.k. 94 milljón tunnur pr. dag (úr núverandi 86 milljón tunnum). Þetta er miðað við lægstu spár! Sem er 1% aukning á ári. Ég myndi frekar veðja á að veruleikinn þýði að olíunotkunin aukist að meðaltali um ekki minna en 1,5% á ári næsta áratuginn.

Ali al-Naimi_9

M.ö.o. - eins og sagði hér í upphafi: Fundurinn í Jeddha fólst í því að Sádarnir blésu upp stóra og flotta sápukúlu. Sápukúlu sem fjölmiðlarnir gleypa þrátt fyrir óbragðið. Sápukúlu sem springur beint í augun á Vesturlöndum.

Ekki furða þótt olíumálaráðherra Sádanna, vinur minn hann Ali al-Naimi, klóri sér svolítið í höfðinu yfir þvi hvað það er auðvelt að leika sér með Vesturlönd. Og brosi svo út að eyrum. Alltaf flottur.

En nú er leikurinn byrjaður. Áfram Spánn!

------------ 

PS: Sweet. Nú eru Spanjólarnir glaðir. Loksins tókst þeim að vinna Ítali í alvöru leik. Ljótt af þeim að leggja þessa spennu á mann! Vítaspyrnukeppnir eru eitt það versta sem til er. Fyrir heilbrigði magans.


mbl.is Deilt um ástæðu verðhækkana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horft í sólarátt

Orkubloggið er heldur snubbótt þessa síðustu dagana vegna stífra funda suður á Spáni. En nefna má að tilefnið snertir einmitt land eins og Jórdaníu, sem á mikla möguleika í að nýta sólarorku í stórum stíl.  Með aðferð sem kallast Concentrated Solar Power.

Spánverjar eru að fjárfesta í þessari tækni í stórum stíl. Meðal aðalleikarana á þeim vettvangi er Abengoa Solar. Sem er hluti af risafyrirtækinu Abengoa. Í bili læt ég nægja a að benda áhugasömum á heimasíðuna þeirra:

http://www.abengoa.com/sites/abengoa/en/acerca_de_nosotros/organizacion/abengoa_solar/


mbl.is Verðbólga 12,7% í Jórdaníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í leit að sparibauk

"Helsta skýring lækkunar í gær er ákvörðun kínverskra stjórnvalda að hækka verð á eldsneyti", segir í fréttinni.

"Helsta skýringin" er kannski ekki hárrétt orðalag. Of mikið af peningum í leit að of litlu af hráefni. Það er staðan á markaðnum í dag. Fall dollarans og flótti af hlutabréfamarkaði er a.m.k. ein megin skýringin á hækkandi olíuverði. Þegar fjármagninu líst hvorki á hlutabréf né skuldabréf, hvað er þá til bragðs? Hrávaran getur þá reynst eini raunhæfi sparibaukurinn. Það er ástæðan fyrir olíuverðinu í dag. Smásveiflurnar verða svo vegna ýmiss konar taugaveiklunar. T.d. vegna hækkunarinnar í Kína.

En hrávaran er takmarkaður pakki. Og verður ekki aukin með "hrávöru-aukningu" eins og hægt er að gera á hlutabréfamarkaðnum með endalausum nýjum hlutafjárútboðum. Þess vegna getur orðið smá vesen þegar allir stökkva í einu yfir i hrávörubaukinnn.

Þegar fjármagnið streymir út af hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðunum og yfir i olíu og aðra hrávöru, eins og gerst hefur í kjölfar lausafjárkrísunnar, blæs verðið auðvitað upp. Ofan á þetta bætist svo aukin olíueftirspurn meðan framboðið stendur nánast í stað. Þetta er ekki mjög flókið.

En stóri efinn er hvort bóla hefur myndast eður ei. Ég er sallarólegur meðan verðið á olíutunnuninni er undir 150 USD. En ef það fer að skríða þar yfir kann að verða tímabært að fara út af markaðnum. Og telja fáheyrðan gróðann.

En freistast maður kannski til að vera afram inni? Hver vill missa af enn meiri gróða? Fer olíufatið kannski í alvöru í 200 dollara? Mikið vill jú meira.

Gott að afi átti Trabant hér í Den. Minnir mann á að "skynsemin ræður"! 


mbl.is Olíuverð hækkar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólarstud á Spáni!

Spánverjarnir hér í Madrid eru barrrasta sallartólegir yfir leiknum! En ég má til með að benda á uppháldshljómsveitina mína með lag úr uppáhaldskvikmyndinni minni: Ay que dolor" med Los chunguitos. Ó, að maður hefði svona hárgreiðslu!

http://youtube.com/watch?v=xNQPbFwk8xA&feature=related

Og sýnishorn úr myndinni. Deprisa Deprisa eftir Carlos Saura:

http://youtube.com/watch?v=uGUellrSyAw

Þessi einfalda, skemmtilega og sorglega mynd Carlos Saura frá 1980, er tvímælalaust hans langbesta. Hvað ætli hafi orðið um stelpuna sem lék aðalhlutverkið? Hún heitir Berta Socuéllamos. Hún var beib! 

DepDep2


mbl.is Fabregas: Erum tæknilega betri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bissness fyrir Björgun!

Það er soddan fjárans barlómur núna á Klakanum! Úr því verktakabransinn heima á Fróni er í einhverri leiðinda lægð þessa dagana, er kannski rétt að benda mönnum á möguleikana. Ég hef áður vitnað til þess að áhættufíklar geta hugsanlega grætt mikinn pening í Sómalíu, þar sem nú er loks að fara í gang olíuleit (sjá færsluna "Puntland - land tækifæranna";  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/563314).

Fyrir þá sem eru ekki alveg jafn áhættusæknir, mæli ég frekar með verktakasamningum á hefðbundnari svæðum. Þar sem viðsemjandinn er barrasta fremur líklegur til að borga. Þá kemur auðvitað upp í hugann langstærsta og öflugasta olíufyrirtæki heims; Saudi Aramco í Arabíu.

Khursaniyah_Manifa_Field_2

T.d. fékk belgískt fyrirtæki nýlega samning við Sádana vegna undirbúningsframkvæmda við olíuvinnslu á s.k. Manifa-svæði. Þetta er samningur upp á nettan 1 milljarð USD.

Belgíska fyrirtækið er eins konar risaútgáfa af barninu hans Kidda Guðbrands, Björgun hf. Fyrirtækið, sem heitir Jan De Nul, mun sjá um dæluverkefni, þar sem m.a. verða búnar til eyjar og landtengingar til að nota við olíuborunina þarna utan við ströndina.

Sem fyrr segir er verkefnið upp á 1 milljarð dollara.  En heildarfjárfestingin vegna Manifa olíusvæðisins mun vera tíföld sú upphæð; 10 milljarðar USD. Í þessum fyrsta áfanga. Skemmtilegt.

Tungulaekur

Minnir mig á það að nú er Björgun hf. orðin hluti af Jarðborunum. Og Tungulækurinn austur í Landbroti er ekki lengur griðastaður þeirra Kidda Guðbrands, Eyjólfs Konráðs og Jóhannesar Nordal. Það var stæll á þeim félögum austur á Klaustri á sumrin hér í Den. Þegar þrenningin renndi á karrýgula Reinsinum hans Kidda að Skaftárskála. Hvar ég var bensínsgutti í nokkur sumur. Alltaf fannst mér Kiddi Guðbrands glaðlyndur og passlega hress. Kúl töffari. Og þeir Eykon og Nordal líka ævinlega í góðu skapi. Það er svona þegar maður kemur í Landbrotið eða á Síðuna. Þar er hreinlega ekki annað hægt en að vera í góðu skapi.

KiddiGudbrands

En nú eru þeir Kiddi og Eykon farnir yfir móðuna miklu. Og Tungulækur kominn í leigu - eins og hver önnur venjuleg veiðiá. Það finnst mér miður - það var eitthvað alveg sérstaklega sjarmerandi við það meðan sjóbirtingurinn í læknum fékk að mestu að vera í friði. Og nú er Björgun kominn undir hatt Geysi Green Energy. Hvað ætli Kiddi segði um það? Ég labba stundum eftir "læknum" og rýni eftir fallegum, skaftfellskum sjóbirtingi. Og hugsa um Kidda og leitina að Gullskipinu. Það voru góðir dagar.

Að vísu hef ég ávallt verið andstæðingur þess sem kalla má ofur-álvers-stefnu Eykons (sem var eins konar "álver-í-hvern-fjörð", svipað og Norðmenn gerðu á sínum tíma). En þetta voru skemmtilegir kallar. Þegar þeir komu í sjoppuna og keyptu sér pilsner og prins pólo. Á karrýgula Reinsinum. 

Svona geta nú Arabía og Landbrotið verið nátengd. Ég olíuleit í Arabíu leitt hugann að skaftfellskum sjóbirting. Sem er besti matur í heimi. En nú þarf ég að hlaupa og ná flugi til Madrid...

--------------------- 

PS: Orkublogginu hefur verið bent á, að í reynd sé það Þorsteinn Vilhelmsson sem fer með eignarhaldið á Björgun hf. Líklegt er að Þorsteinn sé maður að skapi Kidda Guðbrands.


mbl.is Forsætisráðherra bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The nuke!

Það er auðvitað athyglisvert að olíuverðið hafi haldið áfram að hækka þrátt fyrir að Sádarnir ætli að auka framleiðsluna. Og þrátt fyrir að horfur séu á samdrætti í bandarísku efnahagslífi. Eftir síðustu færslu um orkudrauma framtíðarinnar, er rétt að koma sér aftur niður á jörðina og horfast í augu við veruleikann.

En eins og Orkubloggið hefur ítrekað bent á eru nýlegar ákvarðanir Arabanna um 300.000 tunna aukningu í mars og nú aukning um 500.000 tunnur, bara ekki nóg til að rétta olíuskútuna af. Heimsframboðið núna er liklega rétt um 86 B en þörfin a.m.k. 87 B og jafnvel meiri.

"B" merkir hér auðvitað "million Barrels pr. day" eða milljón Tunnur á dag. Og enn og aftur verð ég að hamra á því, að verð undir 150 dollurum á tunnu er bara alls ekki neitt sérstaklega hátt. Olíuverðið var orðið kjánalega lágt í sögulegu samhengi og tímabært að "leiðrétting" yrði.

figure_8

En hvað skal gera? Ef heimsbyggðin þarf meiri olíu en framleidd er. En Sádarnir geta ekki eða vilja ekki auka framleiðsluna?

Og þetta á ekki bara við um olíuna. Orkunotkun er sífellt að aukast. Ef olíuframleiðslan er nálægt toppi núna verður þörfin fyrir aukningu annarra orkugjafa ennþá meiri en verið hefur.

Þetta merkir einfaldlega að við þurfum fullt  af nýjum kjarnorkuverum. Og það strax. Orkubloggið leyfir sér enn á ný að vitna í Boone Pickens: "Get the Nuke started!" Þó svo vind- og sólarorka séu í miklum vexti mun sú orka ekki leysa olíuna af hólmi - fyrr en kannski eftir óratíma.

Í dag er kjarnorkan eini raunhæfi valkosturinn. En það tekur langan tíma að byggja kjarnorkuver. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að t.d. Bandaríkin og ekki síður Evrópa taki sig til og byggi fleiri kjarnorkuver án tafar.

Nuclear

68 kynslóðin var útá þekju. Mótmæli gegn kjarnorkuverum leiddu t.d. til þess að hætt var að byggja slík orkuver í Bretlandi og víðar um heim. Þetta stoppaði auðvitað ekki kjarnorkuvopnaframleiðslu og viðbúnaðarkapphlaupið æddi áfram. En þetta olli því að nú vofir orkuskortur yfir heiminum.

Bretland og meginland Evrópu eiga eftir að súpa seyðið af þessari strategíu. Og verða um langan tíma háð Rússum og öðrum enn vafasamari stjórnvöldum langt í austri, um gas og aðra orku þaðan. Má þakka fyrir ef þetta táknar ekki stórkostlega efnahagslega hnignun Vestur-Evrópuríkja. Við sjáum nú þegar mótmælin í Frakklandi og víðar í Evrópu vegna hækkandi olíuverðs. Hvað ætli gerist þegar Rússar byrja að leika sér með að skrúfa af og til fyrir gasið til Þýskalands?

Nuclear_reactors_age

En hvað er að gerast í kjarnorkunni? Í dag eru starfrækt u.þ.b. 440 kjarnorkuver í heiminum (nákvæmlega 439 ver í 31 landi). Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar var uppgangur kjarnorkunnar hvað mestur fyrir um 25 árum. Kjarnorkuslysin í Chernobyl 1986 og á Þriggja mílna eyju (Three mile Island) 1979 voru mikil áföll fyrir þennan iðnað. En eftir að gróðurhúsaáhrif komust í tísku er mögulegt að kjarnorkan hljóti uppreist æru. Enda tala menn nú um "endurreisn kjarnorkunnar".

Nuclear_World_Future

Um 30 ver eru í byggingu. Og önnur  200-300 ver eru á teikniborðinu. Þar af er Kína nú að byggja 4-5 ný ver og fyrirhugar að byggja yfir 100 kjarnorkuver að auki! En í Bandaríkjunum er ekki eitt einasta ver í byggingu! Hvað er eiginlega í gangi þarna fyrir vestan? Augljóslega hugsaði Bush um það eitt að hlaða undir olíu- og hergagnaiðnaðinn. Ekki furða þó margur horfi löngunaraugum til Obama. Enda glæsilegur og bráðskýr náungi.

 


mbl.is Hráolíuverð setur nýtt met
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin runnin upp?

PolarBearÞá vitum við það. Gróðurhúsaáhrifin eru komin fram á Íslandi. Með nokkuð öðrum hætti en spáð var. Héðan í frá verðum við líklega að venjast því að a.m.k. helmingurinn í 17. júní hátíðargöngunum verði... ekki skátar heldur hvítabirnir! Brilljant.

Af þessu tilefni vill Orkubloggið benda á aðra skemmtilega sögu. Þar sem framtíðin er kannski að bresta á í formi sem enginn átti von á. Í hnotskurn felst það í því að bráðum þurfum við ekki lengur að hafa áhyggjur af einhverju olíusulli frá Arabíu. Vegna þess að við höfum... pöddur!

Það ótrúlega er að ég er ekki að grínast. Og þetta er ekki vísindaskáldskapur. Menn eru í fúlustu alvöru að fjárfesta í tækni þar sem erfðabreytt skordýr éta rusl og gefa frá sér olíu! Og fjárfestirinn er ekki minni maður en Vinod Khosla, stofnandi Sun Microsystems og maðurinn á bak við fjármagnið í Ausra. Sem kunnugt er, þá er Ausra einn af aðalleikendunum í þróun CSP-tækninnar (concentrated solar power). Al Gore er líka fjárfestir í Ausra.

khosla5

Framtíðin er sem sagt þessi: CSP mun sjá heiminum fyrir rafmagni. Pödduolían mun leyfa okkur að nota áfram tækni sem byggir á olíubrennslu. Og það sem er enn betra; pöddukvikindin taka meira kolefni úr andrúmsloftinu en þau láta frá sér. Þannig að þau eru ekki bara lifandi olíuverksmiðja, heldur líka kolefnisætur sem minnka þannig gróðurhúsaáhrif. Málið er leyst!

Padda

Fyrsta pödduolíuverksmiðjan á að opna strax 2011. Ég er bjartsýnn að eðlisfari. Og tek sjaldnast trú á "heimsendaspám". En þetta er næstum of gott til að vera satt!

Hér má lesa meira um CSP:   http://askja.blog.is/blog/askja/entry/566905/

Og líka hér:  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/537664/

Og um bug crude er t.d. ágæt umfjöllun í The Times fyrr í þessari viku:  http://www.timesonline.co.uk/tol/news/environment/article4133668.ece

Skemmtilegt! 


mbl.is Reynt að ná birninum lifandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband