Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
18.4.2010 | 05:38
Æsilegt ævintýri Nóbelbræðranna
Öll þekkjum við þá sögu hvernig olíuiðnaðurinn varð upphaflega til. Vestur í Bandaríkjunum, þegar "brjálað" Drake notaði sérstakan bor til að ná olíu úr jörðu við bæinn Titusville í Pennsylvaníu.

Það var vel þekkt þarna í Pennsylvaníu á 19. öldinni að olía gubbaðist víða upp um holur og sprungur. Bændum til sárra leiðinda, þar sem þessum óþverra fylgdi megn ólykt, auk þess sem þetta mengaði vatnsból búsmala.
En einmitt vegna olíunnar sem þarna mátti víða finna í jarðveginum, varð Pennsylvanía fyrir valinu þegar menn sáu peningamöguleika i því að ná olíu úr jörðu. Til þess m.a. að keppa við hvallýsi sem lampaeldsneyti, en verð á því hafði hækkað mikið vegna fækkunar hvala afvöldum ofveiði. Þannig er upphaf olíuleitar í reynd nátengt Moby Dick.
Já - olíuvinnsla er oftast sögð eiga uppruna sinn í Bandaríkjunum. En eins og svo margt annað sem er fullyrt í heiminum, er þetta ekki alveg kórrétt. Þegar Drake hitti í mark var olíuvinnsla nefnilega komin á fullt á allt öðrum stað í veröldinni. Langt í austri við strendur hins landlukta og dularfulla Kaspíahafs. Í landinu þar sem Thor Heyerdahl taldi sjálfa æsina vera upprunna. Nánar tiltekið í þeim hluta rússneska keisaradæmisins sem liggur milli Rússlands og Íran - og nefnist Azerbaijan.
Það er óneitanlega svolítið sérstök tilfinning fyrir Orkubloggarann að vera kominn hér að ströndum Kaspíahafsins og einungis örstutt frá landamærunum að Íran. En það er sossum ekkert nýtt að orkuþyrstir Norðurlandabúar geiri sér erindi á þessar fjarlægu slóðir. Slóðir sem hafa að geyma einhverjar mestu og alræmdustu olíulindir veraldarinnar.

Það voru nefnilega einmitt náfrændur bæði Orkubloggarans og Thor's Heyerdahl, sem voru brautryðjendur í að leita og vinna olíu hér í Azerbaijan. Þar voru á ferðinni Svíar; sænski bræðurnir og athafnamennirnir Róbert og Lúðvík Nóbel.
Þeir Róbert og Lúðvík voru stóru bræður Alfreðs Nóbel, sem Nóbelsverðlaunin eru kennd við. Þetta voru allt saman miklir iðjuhöldar og uppfinningamenn og voru með mikil og góð viðskiptasambönd í Sankti Pétursborg og víðar í Rússlandi. Þau sambönd komu bæði til vegna ýmissa viðskipta þeirra sjálfra í Rússlandi, en þó ekki síður vegna viðskiptatengsla föður þeirra; Immanúels Nóbel.
Immanúel hafði hagnast vel á þeirri uppfinningu sinni að búa til krossvið og einnig hannaði hann og smíðaði gufuvélar í skip. En það var hergagnaiðnaðurinn sem skapaði fjölskyldunni mestu tekjurnar. Immanuel Nobel gerði það sérstaklega gott á tundurduflum sem hann þróaði og seldi Nikulási I Rússakeisara. Enda þurfti keisaraveldið á öllum nýjum hergögnum að halda í Krímstríðinu, sem geisaði um miðja 19. öldina og var eiginlega fyrsta tæknivædda styrjöld sögunnar.

Þannig má segja að Nóbel-fjölskyldan hafi snemma byrjað að maka krókinn á stríðsrekstri. Enda kannski lógískt að hugvitssamir menn reyndu fyrir sér í þeim bissness; 19. öldin var mikill óróatími víða í Evrópu og hönnun nýrra stríðstóla því ábátasamur bransi.
Reyndar fór svo að auðlegð Nóbelanna varð nánast að engu þegar Krímstríðinu lauk snemma árs 1856 og vopnasalan hrundi. Fyrirtæki föðurins í Skt. Pétursborg fór í þrot og var yfirtekið af kröfuhöfunum. Harmleikurinn varð þó enn meiri þegar yngsti sonur Nóbelhjónanna, litli bróðir þeirra Alfreðs, Róberts og Lúðvíks, fórst í sprengingu á vinnustofu í verksmiðju föðurins í Stokkhólmi árið 1864. Hann hét Karl Óskar og var aðeins tvítugur að aldri og var að vinna með föður sínum og Alfreð bróður sínum, að tilraunum með nítróglyserín. Þessi sorgaratburður fékk mjög á föðurinn, sem upp úr því varð heilsuveill en lifði þó fram til 1872.
Alfreð hélt engu að síður ótrauður áfram tilraunum með sprengiefni. Sem loks urðu til þess að hann fann upp dýnamítið árið 1867. Dapurleg örlög vopnafyrirtækis föður hans í Pétursborg - höfuðborg rússneska keisaraveldisins - þýddu því ekki aldeilis endalok á viðskiptaveldi Nóbelfjölskyldunnar. Alfreð var á góðri leið með að verða vellauðugur og ennþá stærra ævintýri var í fæðingu hjá bræðrum hans. Nefnilega æsilegt olíuævintýrið í Azerbaijan. Olía og dýnamít; er hægt að hugsa sér betri blöndu!

Í þeim hluta rússneska keisaraveldisins, sem lá að Kaspíahafi og nefndist Azerbaijan, voru aðstæður um margt svipaðar eins og vestur í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Allt hreinlega löðrandi í olíu! Enda var það svo, að alllöngu áður en hinir sænsku Nóbelar hófu olíuvinnslu sína við Bakú - sem nú er höfuðborg Azerbaijan - voru Rússar byrjaðir að þreifa sig þar áfram með að grafa eftir olíu.
Rétt er að geta þess að Azerbaijan var um aldir undir yfirráðum ýmissa múslímavelda í Mið-Asíu. En komst undir stjórn Rússlands í kjölfar stríðs Rússa og Persa í upphafi 19. aldar (s.k. Gulistan-friðarsamningur). Og sem fyrr segir, þá var þarna allt löðrandi í olíu og strax snemma á 19. öldinni stunduðu Rússar olíuvinnslu við Bakú. Frá brunnum sem grafnir voru með handafli; með hökum og skóflum!

Og svo farið sé ennþá lengra aftur í tímann, þá segir sjálfur Markó Póló frá kynnum sínum af logandi gosbrunnum og sérkennilegu svörtu glundri í nágrenni Bakú á leið sinni um Silkiveginn. Þá voru ennþá meira en 500 ár þangað til olíuævintýrið mikla myndi hefjast í Bakú. Strax á tímum Markó's Póló var fólk við Kaspíahafið þó byrjað að nota olíusullið í ýmsum tilgangi; fyrst og fremst sem einhvers konar lækningameðal. Ennþá var langt í að menn áttuðu sig á möguleikanum á að nýta það sem eldsneyti.
Allt gjörbreyttist þetta á 19. öldinni. Hvalalýsi var að verða svakalega dýrt og menn sáu að nýta mætti s.k. steinolíu, sem spýttist sumstaðar upp úr jörðinni, sem lampaeldsneyti. Og einnig hentaði þetta sull vel til að smyrja vélar í iðnríkjunum. Hugvitsamir menn sáu þess vegna tækifæri í því að finna leiðir til að safna þessu glundri saman og koma því á tunnur. Þar með varð stutt í að olíubrjálæði nútímans færi á fullt.

Árið 1846 boruðu rússneskir verkfræðingar fyrsta olíubrunn veraldar við Bakú. Ekki þurfti að bora meira en rétt um 20 metra, áður en olían gusaðist upp af miklum krafti í tignarlegum boga. Olíuvinnsla við Bakú í Azerabaijan var orðin að raunveruleika.
Þetta var vel að merkja meira en áratug áður en Edwin Drake auðnaðist að bora eftir olíu í Titusville vestur í Oklahóma í Bandaríkjunum. Olíuiðnaður nútímans á sem sagt í reynd upphaf sitt hér við Bakú við Kaspíahafið!
Þó svo nafn Edwin's Drake sé nú miklu þekktara en rússnesku verkfræðinganna í Bakú, var olíuæðið í Bakú engu minna en það sem varð í Bandaríkjunum. Nokkrar efnuðustu fjölskyldur heimsins - bæði í gamla heiminum og vestur í New York - voru fljótar að átta sig á peningalyktinni frá olíulindunum í Bakú. Um leið og einkaleyfakerfið í olíuvinnslu innan Azerbaijan (sem var hluti Rússneska keisaradæmisins) var afnumið af Rússakeisara upp úr 1870, tók fjármagnið að streyma þangað úr Vestrinu. Vinnsluleyfin (kvótinn) fóru á markað - eða öllu heldur til vildarvina keisarans - og útlendingar voru velkomnir að taka þátt í ævintýrinu.
Flugurnar runnu á peningalyktina og fé streymdi úr öllum áttum til fjárfestinga í olíuvinnslu við Bakú. Þeir sem áttu góðan aðgang að stærstu bönkum Evrópu og Bandaríkjanna voru margir snöggir að kaupa upp vinnsluréttindi og fljótlega urðu fáein fyrirtæki nánast allsráðandi í olíuvinnslunni kringum Bakú. Auk Nóbelanna komu peningar æðandi frá ekki minni spámönnum en Rothschild-fjölskyldunni og þangað hélt einnig nett breskt-hollenskt fyrirtæki að nafni Royal Dutch Shell.

Bakú varð sem sagt draumastaður kapítalismans nánast í einu vetfangi. Þar fór nýtt fyrirtæki þeirra bræðra Lúðvíks og Róberts Nóbel - Branobel - fremst í flokki.
Eftir ófarir föður þeirra í Pétursborg leituðu þeir nýrra viðskiptatækifæra og sú leit bar þá til Bakú. Þar reyndist allt hreinlega löðrandi í olíu. Fyrst og fremst voru þó Nóbelbræðurnir þarna á algerlega á hárréttum tíma - þegar keisarinn aflétti einokunarleyfum á olíuleitarsvæðunum. Ekki skemmdi fyrir að Lúðvík Nóbel var mjög vel tengdur Alexander II Rússakeisara, eftir að hafa um árabil framleitt og selt keisaranum skotvopn; afturhlaðninga sem hann framleiddi í verksmiðju sinni í Pétursborg.
Lykilatriðið í uppgangi Branobel var þó efnafræðiþekking bræðranna, sem nutu aðstoðar frá Alfreð litla bróður - en hann var jú líka ansið glúrinn í efnafræðinni sem kunnugt er. Þeim bræðrum tókst að þróa nýjar aðferðir við olíuhreinsun og fyrir vikið hafði Branobel verulegt forskot á flesta keppinauta sína.

Það var Róbert - með dyggri aðstoð frá Alfreð - sem átti heiðurinn af árangursríkri olíuhreinsun Branobel. Lúðvík var aftur á móti lykilmaður í að finna lausnir á því hvernig koma mætti olíunni frá Branobel á markað. Þá er enn ónefndur sjálfur undradrengurinn Emanúel Nóbel, sem var sonur Lúðvíks og var kominn á fullt að aðstoða föður sinn einungis 15 ára gamall. Lúðvík hafði þá misst konu sína og móður Emanuels - og tók unglinginn með sér í ævintýraleit sinni til Bakú.
Nóbelarnir kunnu svo sannarlega tökin á olíunni og viðskiptum með hana. Undir forystu Lúðvíks létu þeir fyrstir manna byggja sérstök olíuflutningaskip til að koma olíunni hraðar a markað. Það fyrsta var teiknað í Gautaborg strax á 8.áratugnum og kallaðist Saraþústra. Það sigldi svo með olíu milli hafna í Kaspíahafi frá árinu 1878, en gat einnig flutt olíu til Pétursborgar keisarans og alla leið til Svíþjóðar eftir vatnaleiðum Rússlands. Í anda gömlu víkinganna!

Branobel varð brátt stórtækasta olíufyrirtækið á svæðinu og Nóbelbræðurnir í hópi auðugustu manna veraldarinnar. Eftir andlát bræðranna (Lúðvík lést 1888 og þeir Róbert og Alfreð önduðust 1896) tók áðurnefndur sonur Lúðvíks, Emanuel Nobel, við stjórn Branobel og gerði fyrirtækið að ennþá meira viðskiptastórveldi.
Emanuel Nobel (f. 1859) varð svo sannarlega enginn eftirbátur afa síns, föður né frænda sinna. Hann var jú byrjaður með pabba sínum í olíubransanum nánast barn að aldri og varð náinn vinur næst síðasta Rússakeisarans, Alexanders III.

Emanuel var fljótur að koma auga á áhugaverðar nýungar. Þar má nefna þegar hann samdi við þýskættaða uppfinningamanninn Rúdólf Diesel árið 1889 og reisti fyrstu díselrafstöð heimsins í Skt. Pétursborg. Síðar áttu díselstöðvarnar eftir að verða mikilvægir viðskiptavinir Branobel og fyrirtækið græddi á tá og fingri.
Branobel óx hratt undir stjórn Emanuel og skömmu fyrir aldamótin 1900 kom sjálfur Alexander III keisari til Bakú til að skoða herlegheitin. Sagt er að hann hafi hrifist bæði af marmaraprýddum skrifstofum Branobel og olíuvinnslusvæðunum, sem jafnt og þétt dældu meiri olíu upp úr jörðinni við Bakú. Keisaranum var þó umhugað um að helstu eigendur þessa mikilvægasta fyrirtækis í Rússlandi væru ekki "útlendingar" og svo fór að Emanuel Nobel gerðist rússneskur ríkisborgari.
Upp úraldamótunum 1900 var Branobel stærsta olíufyrirtæki í Rússlandi og það næst stærsta í heiminum. Aðeins bandaríska Standard Oil hans John's D. Rockefeller var stærra. Þar á bæ stóðu menn nú í stappi við bandarísk samkeppnisyfirvöld, sem unnu hörðum höndum að því að búta fyrirtækið í nokkrar smærri einingar. Standard Oil hafði þegar hér var komið við sögu veitt Bakú litla athygli, enda nóg að stússa við að halda alræðinu í bandaríska olíuiðnaðinum.

Ekki er hægt a láta það ónefnt að Emanuel Nobel átti líka í merku samstarfi við annan þekktan olíubarón; Armeníumanninn Alexander Mantashev. Sá var einn ríkasti maður heims á þessum tíma og átti hvað stærstan þátt í að byggja stærstu olíuleiðslu veraldar. Það var rúmlega 800 km leiðsla sem náði frá Bakú við vesturströnd Kaspíahafs, þvert austur eftir Kákasushéruðunum og alla leið að hafnarborginni Batumi við Svartahaf! Leiðslan sú opnaði árið 1907 og hún, ásamt olíuskipunum og sérstökum olíuflutningavögnum sem Nóbelbræðurnir og Emanuel létu byggja fyrir járnbrautirnar, ollu algerri byltingu fyrir olíuviðskipti í Evrópu.
Fram að þeim tíma hafði olía aðallega verið flutt í timburtunnum, sem var mjög seinvirkt og kostnaðarsamt. Þetta voru sem sagt framsýnir bissnessmenn, sem umbyltu viðskiptum með olíu um alla Evrópu og víðar í heiminum. Þar að auki reyndust olíuhreinsunarstöðvar Branobel skila mun meiri gæðaolíu heldur en Standard Oil. Branobel var sem sagt eitthvert almikilvægasta og árangursríkasta fyrirtæki heimsins á þessum tíma.

Já - Branobel og tvö önnur olíufyrirtæki, félög í eigu áðurnefnds Alexander's Mantashev og Rothschild-fjölskyldunnar (sem var í samstarfi við Shell), báru höfuð og herðar yfir aðra í olíuiðnaðinum í Azerbaijan. En það voru líka nokkrir heimamenn meðal stóru olíufurstanna í Bakú.
Þó svo lesendur Orkubloggsins séu örugglega margir vel upplýstir um sögu olíunnar, kannast kannski fæstir þeirra við nöfn eins og Zeynalabdin Taghiyev, Musa Naghiyev eða Murtuza Mukhtarov. En á fyrstu áratugum 20. aldar voru allir þessir ljúfu Azearar í hópi mestu auðjöfra Evrópu. Og eins og hefur löngum verið tíska meðal auðmanna, þá veittu þeir miklu fé til velgjörðarmála og uppbyggingar í Bakú og víðar um Azerbaijan og voru frægir um veröld víða.
Eftir því sem olíuvinnslan við Bakú jókst urðu áhyggjur Standard Oil meiri. Þeir höfðu setið nánast einir að Evrópumarkaðnum fyrir steinolíu, en nú hreinlega hrundi markaðshlutdeild Standard Oil í Evrópu og Nóbelbræðurnir urðu jafn mikilvægir í efnahagslífinu þar eins og Rockefeller var í Bandaríkjunum. Þar að auki var olían frá Azerbaijan meira að segja farin að berast alla leið vestur til Bandaríkjanna.

Olíuauðurinn þarna við Kaspíahafið í kringum aldamótin 1900 gerði Bakú að einhverri nútímalegustu borg heimsins. Jafnaðist hún að mörgu leyti á við New York og í báðum tilvikum urðu borgirnar þekktar fyrir smartheit og hátísku; hvort sem var í klæðaburði eða arkitektúr. Meira að segja Art Deco náði að setja mark sitt á Bakú, jafnvel á undan New York. Bakú var einfaldlega heitasta borg heimsins á þessum tíma og var oft nefnd París Austursins.
Þessa sér enn merki í þessari stórmerkilegu borg, sem margir segja algjörlega einstaka upplifun. Þó svo nú sé liðin heil öld frá olíuævintýrinu mikla í Bakú, er Bakú dagsins í dag - þessi höfuðborg múslímaríkisins Azarbaijan - þekkt fyrir að vera ein af mestu stuðborgum veraldar. A.m.k. ef marka má Lonely Planet ferðabókaútgáfuna víðfrægu. Það er kannski ekki svo skrítið, því hér ríkir nú nefnilega nýtt olíuævintýri með tilheyrandi peningaflóði og velmegun.

En dveljum ekki lengur að þessu sinni við Bakú nútímans. Heldur höldum á ný til efnahagsuppgangsins þar fyrir hundrað árum síðan.
Það var ekki nóg með að fyrsti olíubrunnurinn hafi verið grafinn í Azerbaijan, heldur fór svo að þegar 20. öldin gekk í garð var Azerbaijan mesta olíuframleiðsluríki heimsins. Þar var þá framleiddur um helmingur allrar olíu veraldar og steinolían þaðan flutt út um veröld víða. Sennilega hefur hún líka ratað inn á skrifstofur íslensku Heimastjórnarinnar. Skyldi Hannes Hafstein hafa verið meðvitaður um það, að á lampanum brann olíu frá sjálfum Ásunum?

En sá tími að Bakú væri einhver mesta auðsuppspretta heimsins fékk snöggan endi. Í kjölfar febrúarbyltingarinnar í Rússlandi árið 1917 var þáverandi Rússakeisara, Nikulási II, steypt af stóli. Skömmu síðar var Lenín mættur til Pétursborgar úr útlegð sinni og Bolsévíkkarnir náðu undirtökunum í borginni og víðar um landið. Keisarafjölskyldan var myrt í júlí 1918 og smám saman breiddist byltingin út um gamla keisaradæmið.
Fall keisarastjórnarinnar olli að sjálfsögðu miklum titringi um öll Kákasushéruðin. Azearar eygðu möguleikann á sjálfstæði, en upp spruttu ýmsir sérhagsmunahópar og ringulreiðin varð alger. Herflokkar Bolsévíkka komu til Bakú og vorið og sumarið 1918 kom til harðra átaka víða um héraðið og hroðaleg fjöldamorð framin. Vestrænu stórveldin reyndu árangurslaust að miðla málum, enda höfðu stjórnmálamenn í vestrinu miklar áhyggjur af því hvað yrði um olíuauðlindirnar við Bakú. Tyrkir sendu þangað herlið og héldu þar til um skeið 1919, en þegar þarna var komið við sögu vissi enginn hvað gerast myndi í Bakú.

Í upplausnarástandinu sáu margir sér leik á borði til að hagnast á öllu saman. Sumarið 1919 virtist aðeins rofa til og allt í einu voru útsendarar bandaríska Standard Oil mættir til Bakú. Og gerðu þar samning við sitjandi stjórnvöld um olíuvinnsluréttindi í landinu - gegn hárri greiðslu. Þetta sama sumar, sem kannski má segja hafa einkennst af miklu svikalogni í Bakú, sá Emanuel Nobel aftur á móti sitt óvænna og taldi tímabært að koma sér burt og heim til Svíþjóðar.
Hann lét öðrum eftir að sjá um starfsemi Branobel í Bakú og er sagður hafa dulbúist sem rússneskur bóndi til að komast klakklaust gegnum Rússland og til Svíþjóðar. Hann lést árið 1932 og rétt eins og Alfreð, föðurbróðir hans, skildi Emanuel ekki eftir sig neina afkomendur. Enda er þeim frændum stundum lýst sem mest einmana milljarðamæringum sem veröldin hefur alið.
En þó svo Emanuel Nobel þætti bersýnilegt að lokastund erlends olíuiðnaðar í Azerbaijan væri runnin upp, virðist sem bæði Standard Oil og breska Anglo-Persian Oil Company (undanfari BP) hafi talið að ástandið myndi brátt batna. Og það jafnvel þó svo - eða kannski einmitt vegna þess - að hersveitir Bolsévíkka náðu Bakú á sitt vald snemma árs 1920.

Sérstaklega virðast æðstu stjórnendur Standard Oil hafa talið þessa þróun skapa tækifæri til að ná "stöðu" í olíuiðnaðinum í Bakú. Þessi skoðun virðist ekki síst hafa verið sterk hjá Walter Teagle, þáverandi forstjóra Standard Oil, sem Time hafði nýverið útnefnt mann ársins.
Kannski voru þeir hjá Standard barrrasta blindaðir af svekkelsi eftir að hafa misst af bestu dílunum í Azerbaijan, meðan Branobel mokaði til sín olíuverðmætunum í Azerbaijan og víðar um Mið-Asíu og Evrópu. En hver svo sem ástæðan var, þá voru þeir Teagle og félagar hans ekkert að tvínóna við hlutina og í apríl 1920 keypti Standard Oil hlutabréf Nóbelanna í Branobel!
Varla voru dollaramilljónirnar búna að skipta um hendur þegar Rockefellararnir áttuðu sig á því að hlutabréfin sem áttu að tryggja þeim yfirráð yfir stórum hluta allra ofurlindanna í Azerbaijan voru í reynd ekkert annað en gjörsamlega verðlausir pappírar. Bolsarnir voru komnir með tögl og haldir í borginni og fáeinum mánuðum eftir kaupin voru erlendu olíustarfsmennirnir reknir burt frá Bakú og olíufyrirtæki bæði útlendinga og heimamanna gerð upptæk. Meðal þeirra risafyrirtækja sem þá hurfu af sjónarsviðinu og inní gin Sovétsins var t.d. olíufélag áðurnefnds Alexander's Mantashev.

Mörgum hefur reynst erfitt að skilja þá ótrúlegu bjartsýni Standard Oil að þeir myndu fá að eiga og reka Branobel í friði. En mikið vill meira og Standard Oil, sem réð yfir öllum olíuiðnaði í Bandaríkjunum, vildi eðlilega ná restinni undir sig líka.
Reyndar segja sumir að Standard Oil hafi verið búið að semja við Lenín um samstarf um olíuvinnsluna í Azerbaijan, en að honum hafi svo snúist hugur. Þessi kenning leiddi til annarra samsæriskenninga um að Kalda stríðið hafi af hálfu Bandaríkjanna einungis haft einn tilgang; nefnilega þann að tryggja ExxonMobil og öðrum afkvæmum Standard Oil aftur yfrráð yfir olíuauðlindunum við Bakú! Alltaf gaman að samsæriskenningunum.
En það fór sem sagt svo að Í stað þess að Standard Oil tæki yfir starfsemi Branobel, var búið til sérstakt ráðuneyti hinna nýju kommúnísku stjórnvalda, sem þaðan í frá hafði olíulindirnar í Azerbaijan á sínum snærum. Og allt laut þetta ótakmörkuðu miðstjórnarvaldi hinna nýstofnuðu Sovétríkja. Kommúnisminn hafði haldið innreið sína í Azerbaijan, tekið þjóðina kverkataki og hélt þeim tökum sínum næstu sjö áratugina.

Nóbelfjölskyldan slapp óneitanlega betur frá innreið Bolsanna en flestir aðrir. Við valdatöku Bolsévíkkanna misstu olíubarónarnir í Bakú allar eigur sínar og margir í yfirstétt Azera voru ýmist drepnir eða sendir í útlegð. Skömmu eftir 1920 voru t.d. allir áðurnefndir þrír olíubarónar úr hópi Azera látnir og fjölskyldur þeirra tvístraðar og eignalausar. Þetta var þó aðeins lítið dæmi um yfirgengilegan harmleikinn sem fylgdi því sem átti að verða jafnræðisríki verkalýðsins - en varð í reynd eitthvert skelfilegasta einræðisríki í sögu heimsins. Sovétríki Stalíns voru í fæðingu.
Já - svo fór að olíulindirnar við Bakú runnu til sovéska ríkisins og urðu eitt veigamesta hjólið í hernaðarmaskínu Sovétríkjanna. Á tímum heimsstyrjaldarinnar síðari kom um 70% allrar olíu Rússa frá lindunum við Bakú og því ekki skrítið að þegar Hitler réðst inn í Sovétríkin, þá var aðalmarkmið hans að klippa á olíubirgðaflutningana frá Bakú til sovéska hersins á austurvígstöðvunum. Í framhaldinu átti þýski herinn að komast alla leið til Kaspíahafsins og þar með myndu Þjóðverjar komast yfir þessar gríðarlega þýðingarmiklu olíulindir. Þaðan yrði svo hægt að ráðast á Persíu og Írak og þar með yrði 1000 ára ríkið tryggt. Heimspólitíkin snerist um olíuna og svo er enn þann dag í dag.

Hernaðaráætlanir Htler's um innrás þýska hersins í Kákasus og töku Bakú, nefndust Fall Blau og Operation Edelweiß; sú síðarnefnda kennd við fjallablómið fallega, sem á íslensku nefnist alpafífill. Til er fræg ljósmynd af Hitler þar sem hann fær sér sneið af köku sem skreytt er landakorti af Austurvígstöðvunum. Kökusneiðin sem Hitler fær á diskinn er einmitt með Bakú! Að sjálfsögðu.
En Hitler virðist hafa orðið bumbult af sætindunum. Þó svo þýski herinn kæmist langt áleiðis í Kákasusfjöllunum og næði meira að segja að setja þýska fánan á Elbrustind í ágúst 1942, stóðust hersveitir Hitlers ekki bardagagrimmd Rússa við Stalíngrad.

Orrustan fræga um Stalíngrad var í raun orrusta um olíulindirnar við Kaspíahafið. Eftir hroðalegar mannfórnir við Stalíngrad veturinn 1942-43 gafst þýski hershöfðinginn Friedrich Paulus upp fyrir Rauðliðunum og Hitler ærðist af reiði. Þýski herinn var kominn á undanhald og olíulindirnar í Azerbaijan áfram utan seilingar Herraþjóðarinnar.
Þar með réðst framtíð Evrópu; einungis var tímaspursmál hvenær Þýskaland félli og Sovétríkin þar með búin að tryggja sér "ævarandi" áhrif í Evrópu og heiminum öllum. Og óheftan aðgang að olíulindum Azerbaijan, sem ennþá voru meðal þeirra mestu í heiminum. Þær áttu áfram eftir að verða Sovétríkjunum afar mikilvægar.
En Roosevelt var séður. Þrátt fyrir mikinn sjúkleika notaði hann tækifærið á leið heim frá Jalta-ráðstefnunni í febrúar 1945 og átti fund með Sádakonungi um borð í bandarísku herskipi á Súez-skurðinum. Þar tókst Roosevelt að tryggja Bandaríkjunum vináttu Sádanna og þar með aðgang að olíulindum Arabíuskagans, sem næstu áratugina áttu eftir að vera mikilvægasta auðsuppspretta bandarísku olíufyrirtækjanna og Vesturlöndum pólítískt afar mikilvægar. Og eru það enn.

Næstu áratugina eftir heimsstyrjöldina síðari voru olíulindirnar við Kaspíahafið líka meðal hinna mikilvægustu í veröldinni. Þó svo lítið væri um þær fjallað hér í Vestrinu rétt eins og gilti um ýmsa aðra merka hluti í hinum gráu Sovétríkjum.
Það var svo við fall Sovétríkjanna 1991 að Azerbaijan öðlaðist langþráð sjálfstæði og olíulindirnar þar opnuðust á ný vestrænum olíupeningum. Og þessa dagana er Azerbaijan ekki aðeins frjálst land á ný, heldur eru Azerarnir nú að upplifa jafnvel ennþá stærra olíuævintýri en þar var fyrir hundrað árum. Nýja olíuævintýrið við Bakú er ekki aðeins á landi, heldur miklu fremur úti á djúpi Kaspíahafsins, sem hefur reynst geyma sannkallaðar ofurlindir. Fyrir vikið er hér allt á floti í peningum og mikið að gerast.

Það sem sumum þykir kannski skemmtilegast við svarta gullæðið sem nú ríkir hér í Azerbaijan, er að Rockefellerarnir eru aftur mættir á svæðið. Og nú með mun betri árangri en fyrir 90 árum, þegar þeir máttu flýja burt með skottið milli fótanna.
Meðal þeirra fyrirtækja sem eiga hvað mesta hagsmuni í olíuvinnslunni í lögsögu hinna nýfrjálsu Azera er nefnilega einmitt ExxonMobil - sem kalla má elsta barnabarn Standard Oil samsteypunnar. Og nú er þetta afsprengi John's D. Rockefeller ekki að kaupa hér upp verðlaus hlutabréf, heldur að taka þátt í einhverri mestu olíufjárfestingu sem sögur fara af!
Kannski er olíubransinn bara leikur þar sem Rockefellarnir vinna alltaf að lokum? A.m.k. gera afsprengi Standard Oil það gott núna í Azerbaijan. Eru loksins komin með puttana í olíuna við Bakú - eftir að hafa beðið í næstum því heila öld. ExxonMobil er nefnilega eitt þeirra félaga sem á hlut í risaolíufélaginu Azerbaijan International Operating Company (AIOC), sem hefur með höndum nánast alla olíuvinnslu í lögsögu Azerbaijan. Samningurinn um stofnun þess hefur verið kallaður "samningur aldarinnar", enda hljóðar hann upp á litla 60 milljarða dollara fjárfestingu! Fyrir vikið getur gamli John D. Rockefeller væntanlega loks sofið vært í gröf sinni.
Og unga kynslóðin af Azerum getur vonandi líka glaðst yfir sjálfstæði þjóðarinnar, sem ætti nú loksins sjálf að fá að njóta arðsins af hinum mögnuðu olíuauðlindum landsins.
Olíuvinnslu sem því miður hefur gert sum svæði hér að einhverjum þeim mest menguðu á jörðinni allri. En krakkarnir láta það ekki aftra sér frá því að busla og leika sér í subbulegu Kaspíahafinu. Orkubloggarinn sendir lesendum sínum góðar kveðjur. Frá Bakú - í Azerbaijan.
11.4.2010 | 15:30
Langtíburtistan

Orkubloggarinn er á ferðalagi og á hlaupum. Svo færsla þessa sunnudags verður í snubbóttari kantinum. Réttara sagt engin færsla um orku.
En reynum samt að gera eitthvað úr þessu. Höfum færsluna barrrasta lauflétta getraun: Hvar er bloggarinn staddur?
Til að unnt sé að svara því er auðvitað nauðsynlegt að gefa einhverja vísbendingu:
Í síðustu færslu um ljúflingana hjá Glencore, var bloggarinn eitthvað að rugla um James Bond. Þess vegna er upplagt að sjálfur Bond gefi lesendum vísbendinguna um hvar Orkubloggarinn er.
Bloggarinn er nefnilega staddur á nánast nákvæmlega sama stað og eftirfarandi kvikmynda-atriði er tekið upp. Er hægt að hugsa sér fallegra útsýni?
4.4.2010 | 00:39
Gullmyllan Glencore

Það er stundum talað um að íslensku orkufyrirtækin mali Mörlandanum gull.
Hvort það er rétt eður ei, þá eru hinir einu sönnu gullgerðarmenn af öðrum toga. Sem dæmi þar um má nefna demantafyrirtækið De Beers, sem alla 20. öldina var með nánast algera einokun í demantaviðskiptum veraldarinnar. Þar má svo sannarlega tala um fyrirtæki sem malar gull. Eða jafnvel enn frekar ljúflingarnir hjá svissneska hrávöru-risanum Glencore International. Þeir geta næstum því talist vera jafnokar Mídasar konungs.
Glencore International er án efa bæði einhver öflugasta og alræmdasta gullmylla veraldarinnar. Það var bandaríski svaðatöffarinn Marc Rich (f. 1934) sem stofnaði Glencore árið 1974, eftir að hafa stórgrætt á olíuviðskiptum sem honum tókst að gera framhjá hafnbanni OPEC í olíukreppunni alræmdu. Rich var þá kominn með dágóða reynslu af hrávöruviðskiptum hjá öðrum góðkunningja Orkubloggsins; nefnilega hrávörumeistaranum Phibro. Þar sem nú ræður ríkjum listaverkasafnarinn Andrew Hall, eins og Orkubloggið hefur áður greint frá.

Glencore varð fljótlega eitthvert árangursríkasta fyrirtæki heims í gjörvöllum hrávörubransanum. Og í dag er Glencore talið vera í hópi tuttugu tekjuhæstu fyrirtækja veraldar! Þá eru vel að merkja ÖLL fyrirtæki á jörðu hér talin með; hvort sem þau eru skráð á hlutabréfamarkað, í ríkiseigu eða í einkaeigu. Af þeim öllum er Glencore meðal þeirra stærstu - og það langstærsta í einkaeigu.
Á þeim tíma sem Marc Rich var að byggja upp Glencore hét það vel að merkja öðru nafni eða einfaldlega Marc Rich & Co ehf! Það fékk núverandi heiti sitt 1994. Þessu risastóra hrávörufyrirtæki hefur oft verið lýst sem einhverju dularfyllsta kompaníi hér á jörðu. Aðalskrifstofurnar eru í smábænum Baar í Zug-kantónuninni sérkennilegu í Sviss. Þær láta lítið yfir sér, en það eru nokkuð villandi rólegheit; Glencore er með skrifstofur um allan heim og með um 2 þúsund starfsmenn. Og hjá iðnfyrirtækjum í eigu Glencore vinna meira en 50 þúsund manns.
Glencore stundar ekki síst viðskipti á svæðum sem engir aðrir hætta sér inná. Hjá fyrirtækinu felast daglegt störf t.d. í því að kaupa og reka gullnámu í Kongó eða að nálgast dularfulla úransölumenn og sigla með flutningaskip fullt af úrani um sjóræningjaslóðir á Adenflóa. Ef þú lesandi góður ert á ferð á um svæði, þar sem saman fer hrávöruframleiðsla og mjög sérstakar aðstæður sem bjóða upp á gífurlega hagnaðarvon, er eins víst að þú rekist á einhverja jaxla frá Glencore. Þetta gæti verið á hrörlegum bar í myrkviðum Mið-Afríku, við vegamót ógreinilegra bílslóða í saltstorknum eyðimörkum Bólivíu eða... eða í kerskála álversins á Grundartanga! Þar sem peningalyktin er óvenju sterk, þar eru menn frá Glencore líklegir til að vera í nánd.

Og hjá Glencore eru menn í raunverulegum viðskiptum, en ekki bara í einhverju fjárans verðbréfabraski. Meðan fölir pappírstígrar sitja við skrifborðin sin í háhýsum stórborganna og kaupa og selja allskonar samninga um olíu og aðrar hrávörur gegnum tölvuna sína, þá er Glencore í því sem Orkubloggið kallar alvöru áþreifanlegan bissness. Með skip, skóflur og trukka! Þar á bæ kaupa menn t.d. raunverulega olíu, koma henni á tankskip, sigla með hana útí heim og selja stöffið til þeirra sem greiða hæsta verðið.
Á meðan á öllu þessu stendur er ekki óalgengt að olían - eða önnur hrávara sem er í höndum Glencore - skipti mörgum sinnum um eigendur. Vel að merkja milli fyrirtækja sem öll eiga það sameiginlegt að vera í eigu Glencore-samsteypunnar. Fyrir vikið geta menn þar a bæ algerlega ráðið því hvar hagnaðurinn myndast eða hvar viðeigandi tap er búið til. Og gert það nánast gjörsamlega vonlaust fyrir nokkurn grájakkafata-embættismann að komast að því hvaðan hrávaran er ættuð eða hvernig eigi að skattleggja hagnaðinn. Enda hafa Marc Rich og strákarnir hans náð að raka saman óheyrilegum fjármunum, rétt eins og Glencore búi í veröld þar sem er eilíf brakandi heyskaparstemning og aldrei neitt haust. Hvað þá vetur. La dolce vita!

Þetta er sá hluti hrávörubransans sem t.d. stóru olíufélögin á hlutabréfamörkuðunum neyðast til að sneiða hjá. Af því að ef þau verða uppvís að vafsömum olíuviðskiptum við Íran eða að flytja olíu til Norður-Kóreu, þá eru þau Mulder & Scully samstundis mætt á svæðið með handjárnin. Bandarísku, bresku og frönsku olíufélögin þurfa að uppfylla viðeigandi löggjöf - og bara rannsókn ein og sér gæti leitt til dramatískra áhrifa á hlutabréfaverðið og jafnvel gjaldþrots slíkra fyrirtækja. Þau verða m.ö.o. almennt að halda sig innan gráa svæðisins.
Marc Rich og lærisveinar hans lifa aftur á móti mun utar á jaðrinum - nánast á mörkum raunveruleikans. Þeir láta ekki einhvern vafa um hinn leiðinlega ramma laganna koma í veg fyrir ábatasöm viðskipti. Og svo skemmtilega vill til, að það virðist skila mönnum óvenjulega miklum hagnaði. Þannig koma menn upp raunverulegri gullmyllu.
Stundum reynist slíku fólki þó erfitt að halda sig réttu megin við óljósu línuna yst á gráa svæðinu. Marc Rich fékk soldið subbukusk á hvítflibbann þegar hann árið 1983 mátti flýja heimalandið undan bandarísku réttvísinni. Tilefnið var að saksóknarar hugðust draga hann fyrir dóm fyrir meiriháttar skattsvik og ólögleg olíaviðskipti við klerkastjórnina í Íran. Alltaf tómt vesen með þessa kontórista, sem aldrei geta unað mönnum velgengninnar.

Sem kunnugt er rauk olíuverð upp úr öllu valdi þegar Khomeini og klerkarnir steyptu stjórn Íranskeisara og tóku völdin í þessu svakalega olíuríki árið 1979. Starfsmenn bandaríska sendiráðsins í Tehran voru teknir í meira en árslanga gíslingu og Persaflóinn varð eldfimasta svæði jarðarinnar þessi ár 79-80.
Meðan Carter hnetuforseti reyndi árangurslaust að ná sendiráðsfólkinu heilu og höldnu heim frá Tehran, notaði Rich tækifærið. Hann sá litla ástæðu til að gera of mikið úr viðskiptabanni á Íran og tókst að kaupa þaðan mikið magni af olíu og selja hana á margföldu verði. Það undarlega er að margt bendir til þess að Ísrael hafi keypt stóran hluta af þessari olíu, sem Glencora hafði útvegað frá höfuðóvinunum í Íran. Tvískinnungurinn hjá ísraelskum stjórnmálamönnum er óneitanlega skemmtilegur. Marc Rich er einmitt af gyðingaættum og hefur ávallt verið í sérlega nánum tengslum við stjórnvöld í Ísrael. Afgangurinn af klerkaolíunni er sagður hafa farið til aðskilnaðarstjórnarinnar í Suður-Afríku og eftir stóðu Marc Rich og félagar hans hjá Glencore með litla tvo milljarða USD í hagnað. Snyrtilegur díll.
Eftir flóttann frá Bandaríkjunum 1983 settist Rich að í Sviss, lét fyrirtækið heima í Bandaríkjunum semja um greiðslu vegna skattsvikamálsins og hélt áfram hrávöruviðskiptum sínum frá hinum þægilega leyndarhjúp sem umlykur fyrirtækjarekstur í Sviss. Þar dílaði hann áfram með hrávörur frá Íran, Súdan og öðrum eldfimum afkimum veraldarinnar og seldi hæstbjóðendum. Meðal ljúfra kaupendanna voru bæði aðskilnaðarstjórn hvíta minnihlutans í Suður-Afríku, feðgarnir furðulegu í Norður-Kóreu og ýmsir aðrir sem vantaði hefðbundið hrávörustöff en fengu ekki gegnum venjulegar leiðir. Nei - það geta ekki allir skroppið í Orkuna eða Bónus. En Marc Rich var ávallt tilbúinn að uppfylla þarfir hæstbjóðenda, enda er það jú grunnhugsunin í blessuðum kapítalismanum.

Það voru viðskiptin við Khomeini og klerkana í Íran og sala á olíu þaðan til Suður-Afríku og Ísrael sem sköpuðu Marc Rich og félögum hans ofboðslegan auð á örskömmum tíma. Annað ámóta gullið tækifæri fékkst svo þegar viðskiptabann var sett á annan risaolíuframleiðanda; Írakið hans Saddam's Hussein. Þar sáu Marc Rich og strákarnir hans sér leik á borði; Saddam var æstur í að selja olíu á slikk og mun hafa fengið þægilega "þóknun" fyrir, sem rann inn á leynireikninga hans í Sviss og víðar.
Kaupandinn fékk þannig olíu frá risalindum Saddam's á algerum spottprís, sigldi með hana nokkra hringi og eftir fáeinar laufléttar umskipanir var olían komin í hreinsunarstöðvar í Bandaríkjunum eða Frakklandi. Og nokkru síðar sem bensín eða díselolía á dælurnar í New York, Oxford, París eða á Ártúnshöfða. Þannig streymdi olían frá Írak á vestrænu markaðina þrátt fyrir viðskiptabannið. Beint frá Hussein í Hafnarfjörðinn; getur varla betra verið. Og Marc Rich stóð undir nafni og stórgræddi á öllu saman.
Þetta síðastnefnda brask með Íraksolíuna fór reyndar ekki í gegnum Glencore, enda var Rich þá búinn að "selja" það risafyrirtæki til æðstu stjórnendanna. Það gerðist 1994, á þeim tíma þegar bandarísk stjórnvöld voru á fullu að reyna að finna leiðir til að stinga hann með svefnlyfs-sprautu, koma honum í flugvél og heim fyrir bandarískan rétt. En þó svo Marc Rich hafi ekki haft nein formleg tengsl við Glencore í meira en 15 ár, eru stjórnendur Glencore þó oftast einfaldlega kallaðir skósveinar Rich. Og margir sem vilja meina að hann hafi ennþá tögl og haldir innan Glencore.
Glencore er stórt fyrirtæki. Mjög stórt. Árið 2009 velti það meira en 100 milljörðum dollara og meira en 150 milljörðum dollara hrávöruárið góða 2008! Það jafngildir öllum fjárlögum íslenska ríkisins í meira en aldarfjórðung. Og þetta er vel að merkja fyrirtæki í einkaeigu. Það er í eigu tiltölulega fámenns hóps manna sem hafa gríðarleg áhrif á hrávörumarkaði heimsins, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Og þetta er langstærsta einkafyrirtæki í heiminum - er hvergi skráð á hlutabréfamarkað og er af þeim sökum gjarnan kallað stærsta og voldugasta leynifélag veraldarinnar.
Svona öflugt fyrirtæki hefur áhrif víða. Og það mikil áhrif. Þannig er t.d. ólígarkaveldið, sem varð til eftir fall Sovétríkjanna, af sumum sagt vera hreint sköpunarverk Marc Rich og Glencore (og að Jeltsín hafi bara leikið með). Það kann að vera orðum aukið, en það er staðreynd að álarmur Glencore hefur verið í miklum bissness með Rusal. Sem er núna stærsta álfyrirtæki heims - og aðaleigandi Rusal, Oleg Deripaska, er einmitt sagður vera einn af bestu vinum Rich.
Deripaska er reyndar ekki aðeins góður kunningi Marc Rich og einhver valdamesti maður heimsins í álbransanum, heldur er hann einnig í náðinni hjá sjálfum Pútín. Svo skemmtilega vill líka til að annar góðvinur Deripaska, hinn bráðungi Nataníel Rothschild, hefur verið duglegur undanfarið að kaupa bæði hlutabréf í Rusal og skuldabréf útgefin af Glencore. Niðursveiflan í efnahagslífinu eftir metárin 2007-08 hefur valdið báðum þessum risafyrirtækjum talsverðum búsifjum. Þetta brall Rotskildans hefur vakið grun um að Rusal og Glencore kunni að fallast í faðma fyrr en síðar - ef ekki formlega þá a.m.k. eiga mjög náið samstarf. Það ætti því kannski ekki að koma neinum á óvart, ef álverin innan Glencore yrðu brátt seld eða sameinuð Rusal. Þar á meðal er einmitt íslenska Norurál.

Já - Glencore stundar veruleg viðskipti hér á Íslandi. Jafnvel þó svo Norðurál sé bara hálfgert peð í risatafli Glencore, þá hlýtur gula örin, sem bendir á Ísland á heimskortinu af vef Glencore, að fylla okkur bæði stolti og æsingi yfir því að vera þannig á fullu með í ofurhringekju þungaiðnaðarins. Og fá þannig að hirða nokkra þurra mola, sem falla af gylltum diskum Glencore. Hvort það eru nógu margir molar til að við getum sagt virkjanirnar okkar mala gull, er svo önnur saga.
Sem kunnugt er, þá er Norðurál í eigu fyrirtækis sem kallast Century Aluminum og er til húsa í snotra strandbænum Monterey vestur í Kaliforníu. Þar sem tunglið speglast í Kyrrahafinu eins og fallegur ostur og ekkert er fjarlægara huganum en stóriðja eða þungaiðnaður. Uppaflega var Century Aluminum stofnað í kringum álpakkann innan Glencore og var þá að sjálfsögðu í 100% eigu Glencore. En fljótlega var svo boðið út nýtt hlutafé í Century og í dag á Glencore "aðeins" 44% í þessu s.k. móðurfélagi Norðuráls. Sem er þó nægjanlega mikill eignarhluti til að allar ákvarðanir um Norðurál eru alfarið háðar vilja Glencore.

Frá hnotuviðarklæddum skrifstofum Century, við undirleik Kyrrahafsbrimsins, eru skipulagðir hrávörusamningar innan þröngs fyrirtækjahóps með það að leiðarljósi að hámarka afkomu Glencore. Gildir það jafnt um súrálið sem og álafurðirnar frá Grundartanga og öðrum álverum undir hatti Century og Glencore. Allt gerist þetta í nánu samstarfi við fyrirtæki eins og BHP Billiton, sem er stærsta málmafyrirtæki veraldar og á gríðarleg viðskipti við fyrirtæki í eigu Glencore.
Þannig myndast þessi líka fína gullgerðarmylla, sem mun vonandi tryggja að Glencore verði áfram flottasti gæinn í Hvalfirðinum. Og fái jafnvel líka orku fyrir Helguvík. Hvað eru nokkur hundruð megavött á milli vina?
Hvort Norðurál verður áfram undir hatti Glencore eða fer yfir til Rusal, skiptir okkur Íslendinga auðvitað engu. Af því við erum sannfærð um að virkjanirnar mali okkur gull og að hvorki Glencore né Rusal muni eiga roð í snjalla samningamenn OR eða Landsvirkjunar. Þó svo í ljósi sögunnar sé ansið hætt við því að það sé Glencore sem þarna er sigurvegarinn, skulum við barrrasta ekkert vera að hlusta á svoleiðis raus. Það er auðvitað bara tær snilld að Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur g HS Orka skuli öll eiga í verulegum viðskiptum við Glencore í gegnum álver Norðuráls á Grundartanga. Og eigi nú möguleikann á að mega útvega nýju Glencore-álveri við Helguvík raforku.

Að lokum er svo rétt að við samgleðjumst öll flóttamanninum og auðkýfingnum Marc Rich, sökum þess að hann þarf ekki lengur sífellt að vera að skima áhyggjufullur um öxl eftir dulbúnum FBI-mönnum. Í áratugi mátti hann lifa við þá ógn, jafnvel þrátt fyrir að fyrirtæki Rich í Bandaríkjunum hafi greitt himinháar sektir vegna skattalagbrotanna sem fyrirtækið varð uppvíst að þar vestra. Sjálfur var Marc Rich áfram eftirlýstur - m.a. vegna saknæmra viðskipta sinna við Íran - og gat ekki einu sinni heimsótt dóttur sína á sjúkrabeð þegar hún veiktist af hvítblæði og lést vestur í Bandaríkjunum.
Það var loks í ársbyrjun 2001 að sjálfur forseti Bandaríkjanna greip inní og tók sig til og veitti Marc Rich sakaruppgjöf. Það var bleikfésinn góði Bill Clinton sem náðaði Rich tveimur mínútum áður en hann lét af forsetaembættinu 20. janúar 2001. Þá var Rich búinn að vera eftirlýstur um allan heim af bandarísku alríkislögreglunni í nærri tvo áratugi.
Sagt er að náðunin hafi einkum komið til vegna mikils þrýsting frá ísraelsku leyniþjónustunni. En Rich hefur einmitt löngum verið sagður eiga náið samstarf við svartálfana hjá Mossad, sem ekki láta sér allt fyrir brjósti brenna. Svo hefur kannski heldur ekki skemmt fyrir að eiginkona Rich er sjálf sögð mjög góð vinkona Bill's Clinton (jafnvel of góð) og var örlát við kosningasjóði demókrata þar vestra. Sagan segir reyndar að Clinton hafi verið meinilla við að ljúka forsetaferlinum með svo umdeildri náðun, en látið sig hafa það.

En hvort sem náðunin á Marc Rich árið 2001 var tilkomin vegna koddahjals eða skipana frá Ísrael, þá hefur Rich samt ekki ennþá hætt á það að stiga fæti sínum aftur á bandaríska grund. Enda munu nú vera í gangi nýjar sakarannsóknir þar vestra, sem að honum beinast. Það er barrasta eins og klókir gæjar geti aldrei fengið að vera í friði.
Nebb - það er orðið löngu tímabært að Rich fái að njóta ríkidæmisins án þess að möppudýr og kontóristar vestur í Bandaríkjunum séu að trufla hann. Maðurinn sem bæði hefur verið kallaður snjallasti hrávörukaupmaður veraldar og mesta blóðsuga þriðja heimsins, var lengi vel ofarlega á lista FBI yfir most-wanted eintaklinga veraldar. Og þurfti meira að segja að sneiða hjá bandarísku loftrými þegar hann skrapp að sóla sig í Karíbahafinu. Er ekki nóg komið af svo góðu!
Sumir segja reyndar að "ofsóknir" bandarískra saksóknara á hendur Rich hafi fyrst og fremst stafað af ofurmetnaði hins unga saksóknara, sem einkum var með málið á sinni könnu og hét Rudy Giuliani. Og heitir það að sjálfsögðu ennþá! En Marc Rich fékk náðun og er nú að nálgast áttrætt. Vonandi nýtur hann lífsins, hvort sem það er í bleiku villunni sinni á bökkum Lúzern-vatns, í skíðaskálanum í St. Moritz eða í glæsíbúðinni á Marbella á Spáni. Þau gerast ekki mikið ævintýralegri, lífshlaupin í viðskiptaheimi veraldarinnar.

Orkubloggarinn er af fenginni reynslu löngu orðinn sannfærður um að raunveruleikinn er miklu æsilegri og skemmtilegri heldur en nokkur bíómynd eða skáldskapur. Það er kannski þess vegna sem bloggarinn fer núorðið næstum því aldrei á bíó og les sjaldnast fiction. Sem er nú sossum ekkert sniðugt né til að grobba sig af... en málið er bara að EF James Bond eða jafnoki hans er raunverulega til, þá er hann örugglega í vinnu hjá fyrirtæki eins og Glencore
Svo er bara fyrir Ísland að keyra áfram á fullu í stóriðjustefnunni og láta skuldum prýdda Landsvirkjun rífa upp nokkrar virkjanir í viðbót hér á Klakanum góða. Til að nýtt álver Norðuráls/Century/Glencore rísi hér sem allra fyrst. Það er auðvitað barrrasta æðislegt að við tökum fullan þátt í alvöru hasarleik með alvöru töffurum. Eins og strákunum hans Marc's Rich hjá Glencore. Og þar á meðal er líka hans leyndardómsfyllsti starfsmaður. "Shaken. Not stirred!" Gleðilega páska.
28.3.2010 | 00:08
Álsamkeppnin við Afríku

Ál er mikill snilldarinnar málmur og til margra hluta nytsamlegur. Og álfyrirtækin á Íslandi eru dugleg að minna á það hvernig þau skapa verðmæti úr hinum endurnýjanlegu íslensku orkugjöfum. Rétt eins og sjá má á myndinni hér til hliðar, sem er af vef Alcoa a Íslandi.
Þegar skoðað er hver rekstrarútgjöldin eru hjá álverum heimsins þessa dagana, er auðvelt að átta sig á því af hverju Ísland er svona eftirsótt þessa dagana fyrir álbræðslur. Þá skiljum við strax af hverju Norðurál er byrjað að byggja nýtt álver við Helguvík. Og af hverju Rio Tinto Alcan hefur áhuga á að stækka álverið í Straumsvík. Og af hverju Alcoa hefur áhuga á að byggja stórt álver við Húsavík. Það er nefnilega svo að rekstrarkostnaður álvera er nánast hvergi í heiminum jafn lágur eins og hjá álverunum á Íslandi.
Það er auðvitað hið besta má ef álverin á Íslandi eru vel rekin. En því miður er lágan rekstrarkostnað álvera á Íslandi fyrst og fremst að rekja til þess að hér hafa álver fengið raforkuna á hreinum spottprís. Sú ályktun liggur í augum uppi þegar litið er til þess sem segir í skýrslu Hatch um Norðurál, sbr. síðasta færsla Orkubloggsins. Og í annarri skýrslu sem Orkubloggarinn hefur undir höndum - nýlegri skýrslu sem byggir á upplýsingum frá CRU Group - kemur fram að aðeins á einu svæði í veröldinni sé rekstrarkostnaður álvera umtalsvert minni en á Íslandi. Og það er í Afríku.

Ástæður þess að Afríka er ódýrasti kosturinn fyrir álbræðslur, eru ekki síst hagstæðir raforkusamningar og hræódýrt vinnuafl. Þetta tryggir Álfunni Svörtu þann virðulega sess að vera álbesta svæði veraldar.
Reyndar er það svo, að mjög lágt verð á raforku til álvera á Íslandi fer langt með að koma okkur í flokk Afríkuríkjanna. Þó svo raforkuverðið til álvera í Afríku sé að meðaltali lægra en á Íslandi, þá er mismunurinn á rekstrarkostnaði álvera í Afríku og á Íslandi ekki meiri en svo, að í reynd er Ísland sennilega mun álitlegri kostur fyrir nýtt álver. Þegar litið er til pólitísks stöðugleika og öryggis í raforkuframboði, þá hlýtur Ísland í reynd að skora mun hærra en Afríka hjá álfyrirtækjum, sem leita að bestu staðsetningunni fyrir nýtt álver. Þó svo raforkuverðið hér sé nokkru hærra.
Það almagnaðasta er þó kannski sú staðreynd, að þegar litið er til nýlegra raforkusamninga við álver í Afríku virðist sem algengt verð þar sé í kringum 30 mills/kWh. Það er talsvert hærra raforkuverð en nefnt hefur verið sem verð til álveranna á Íslandi. Það er m.ö.o. mögulegt að álverin á Íslandi séu að fá rafmagnið ennþá ódýrara en sambærileg álver í Afríku!
Við höfum bersýnilega verið á fullu að keppa um álverin við þróunarríkin í Afríku. A.m.k. ef marka má CRU, sem þykir einhver fínasti pappírinn í ráðgjöf um álbransann. Það verður spennandi þegar Landsvirkjun gefur upp raforkuverðið til stóriðjunnar, á næsta aðalfundi fyrirtækisins um miðjan apríl, að sjá hvort þær tölur rýma vel við boðskapinn frá CRU. Varla ástæða til að ætla annað en að góð fylgni verði þar á milli, enda þykja ljúflingarnir hjá CRU traustsins verðir og ráðgjöf þeirra verðlögð í takti við það. Kemur í ljós.

Nánast alls staðar í heiminum (utan Afríku) er dýrara að reka álver en á Íslandi. Samkvæmt CRU eru það einungis Mið-Austurlönd sem geta boðið álverum jafn góða rekstrarafkomu eins og Ísland og Afríka. Í reynd á þessi tilvísun til Mið-Austurlanda fyrst og fremst við um Persaflóann. Enda spretta álverin þar nú upp eins og gorkúlur. T.d. í Dubai, sbr. stöplarnir hér til hliðar.
Risaálver Dubai Aluminum er búið að stækka mikið síðustu árin og er nú komið í 980 þúsund tonn! Og þessa dagana er einmitt verið að byggja risastór álver í bæði Katar og Abu Dhabi. Þessi mikla uppbygging álvera við Persaflóann kemur ekki síst til af því, að álbræðslurnar þarna við Flóann fá raforkuna frá gasorkuverum, sem geta boðið mjög góð kjör vegna gríðarlegs framboðs af ódýru gasi á þessum miklu gasvinnslusvæðum. Gaslindirnar utan við strönd Katar eru t.a.m. einhverjar þær stærstu í heiminum. Og þó svo t.d. Japanir séu vitlausir í að fá þaðan gas í fljótandi formi (LNG), þá er nóg eftir til að framleiða ódýrt rafmagn. Handa risastóriðju.

Þarna við Flóann rís nú einmitt enn eitt álverið; 585 þúsund tonna Qatalum-verið í Katar, sem knúið verður af 1.350 MW gasorkuveri. Og s.l. haust (2009) fór í gang nýtt álver Emirates Almuminum (EMAL) í Abu Dhabi, þar sem framleiðsla fyrsta áfangans verður um 750 þúsund tonn. Þessi glænýja álbræðsla fær raforkuna frá 2.000 MW gasorkuveri - og stefnt er að stækkun álversins í 1,5 milljón tonn!
Jafnvel þó svo gasorkuverin losi mikið koldíoxíð þykir þessi tegund af raforkuframleiðslu þokkalega semi-græn. Sökum þess að kolaorkuver losa helmingi meira kolefni. Það er ekkert flóknara. Og í heimi sem á nóg af gasi, er augljóst að gas verður einhver allra mikilvægasti orkugjafi mannkyns alla þessa öld. Og kannski lengur.
Vegna hins lága raforkuverðs sem álfyrirtækin njóta hér á Íslandi, er þar með upptalið hverjir veita Íslandi alvöru samkeppni í að bjóða álbransanum vildarkjör. Það eru Afríka og Persaflóaríkin. Hvorki Brasilíumenn með sitt ofboðslega vatnsafl né orkugnótt Rússland bjóða álverum jafn gott rekstrarumhverfi né jafn góða afkomu eins og Ísland. Og hafa þessi tvö fyrstnefndu ríki þó löngum þótt bjóða álbræðslum hagstæð kjör.
Afríka er ennþá almennt ódýrari en Ísland, en ýmsir þættir valda því að menn vilja oft fara annað með álverin sín. Í íslenska álbransanum erum við því í reynd fyrst og fremst að "keppa" við mestu gasorkulindir heimsins í Arabaríkjunum við Persaflóann. Einungis álfyrirtæki sem eru tilbúin í ennþá meiri áhættu, líta við því að byggja nýtt álver í Afríku. Og það er einmitt þessi áhætta sem skiptir verulegu máli þegar stórfyrirtæki ákveða hvar þau vilja setja milljarðs-dollara-álverið sitt niður. Þegar haft er í huga að raforkuverð á Íslandi til álvera er með því allægsta í heiminum, virðist hreinlega sem íslensku orkufyrirtækin og íslensk stjórnvöld hafi ekki áttað sig á því að það er fleira en orkuverðið eitt sem skiptir máli. M.ö.o. þá álítur Orkubloggarinn sterkar vísbendingar komnar fram um að hér hafi menn hreinlega samið af sér um orkuverðið i álveranna.

Þó svo Ísland, Persaflóaríkin og Afríka séu almennt hagkvæmustu staðirnir fyrir álver, sitja þessi svæði heimsins auðvitað ekki ein að hinum ljúfa álbræðslubransa. Nálægð við stóran markað gerir Kína t.d. áhugavert í augum álfyrirtækjanna, þegar þau íhuga stað undir nýtt álver.
En vandamál Kína er að þar treysta menn sér ekki til að bjóða álbræðslum nándar nærri jafn lágt raforkuverð eins og gerist á Íslandi eða Mið-Austurlöndum. Að meðaltali er raforkuverðið í Kína t.a.m. um helmingi hærra en álverum hefur boðist hér á Íslandi og sömuleiðis miklu hærra en við Persaflóann. Þar af leiðandi er Kína ekki alveg sá segull fyrir ný álver sem ella mætti kannski búast við.
Annað land sem hefur að mörgu leyti verið aðlaðandi síðustu áratugina fyrir álbræðslur er Rússland. Þar hefur raforkuverðið verið tiltölulega lágt. En sem kunnugt er, þá er ekki alveg á vísan að róa með pólitíkusana í Moskvu eða úti héruðunum og því talverð aukaáhætta sem því fylgir að setja svo stóra fjárfestingu þar niður.

Eflaust klórar einhver lesandi Orkubloggsins sér í höfðinu yfir því af hverju Orkubloggarinn virðist horfa framhjá því hagstæða álversumhverfi, sem finna má í Kanada og Ástralíu. Málið er bara að lágur meðal-rekstrarkostnaður álvera í Kanada er einfaldlega til kominn vegna þess að þar eru álverin mörg hver með mjög hagstæða gamla raforkusamninga. Eru í reynd að fá raforkuna langt undir því sem eðlilegt getur talist miðað við framleiðslukostnað á rafmagni í dag. Enda er lítill ágreiningur um það að raforka til álvera í Kanada sé í reynd niðurgreidd og þetta er farið að valda talsvert mikilli ólgu í stjórnmálunum þar vestra. Nýtt álver í Kanada þarf aftur á móti að greiða ansið hátt raforkuverð og nánast öruggt að rekstrarhagkvæmni nýrra álvera er talsvert meiri og betri á Íslandi en í Kanada, þrátt fyrir að raforkuverðið til álveranna sé að meðaltali mun lægra í Kanada.
Og þó svo áliðnaðurinn í Ástralíu hafi líka löngum verið þar á sannkölluðum heimavelli, þá hefur raforkuverð í Ástralíu hækkað gríðarlega síðustu árin. Þess vegna er sá tími sennilega liðinn - a.m.k. í bili - að Suðurálfan geti boðið nýjum álverum raforkuverð í líkingu við það sem nú gerist við Persaflóann eða á Klakanum góða.

Ísland er sem sagt fyrst og fremst að "keppa" um hylli álfyrirtæka við einungis tvö heimssvæði: Annars vegar við Afríku og hins vegar við Persaflóann. Stóra spurningin er hvort við viljum halda áfram að keppa við þessi svæði - eða hvort við viljum reyna að finna bæði arðsamari og skynsamari leiðir við nýtingu á íslenskri orku?
Í síðustu færslu Orkubloggsins kom fram að raforkuverð til álvera á Íslandi sé langt undir meðalverði og með því lægsta í heiminum. Það virðist líka nokkuð ljóst að einungis Afríka býður álverum umtalsvert lægri rekstrarkostnað en Ísland - og að afkoma álvera við Persaflóann er svipuð eins og á Íslandi. Hvergi annars staðar í heiminum bjóðast nýjum álverum jafn góð kjör. Engu að síður spretta nú upp álver víða um heiminn. Sem sýnir okkur að álfyrirtækin treysta sér bersýnlega til þess að láta eitthvað af álverunum sínum njóta mun minni hagnaðar en gerist í Afríku, á Íslandi eða við Persaflóann.
Við getum vissulega haldið áfram að virkja hérna útum allar trissur og selt raforkuna til bæði núverandi og nýrra álvera - og þar með tekið þátt í því að keppa við nánast botnlausar gaslindirnar Persaflóans. Við getum jafnvel boðið álverunum eitthvað hærra raforkuverð en gerist í Katar og annars staðar við Persaflóann. Vegna þess að við erum öruggari staður... "til að vera á".

En er þetta það sem við viljum? Viljum við halda áfram á þeirri braut að bjóða álbræðslum raforkuna okkar á lægra verði en flestir aðrir? Og láta orkufyrirtækin okkar áfram bera óhefta áhættu af því þegar álverð tekur dýfur? Eða viljum við rífa okkur upp úr gamla rassfarinu og horfa til framtíðar; nýta þá möguleika sem blasa við til að stórauka arðsemina af raforkuframleiðslunni? Væri ráð að hugleiða þann möguleika að gjörbreyta um orkustefnu? Láta gildandi raforkusamninga við stóriðjuna renna út og finna leiðir til að margfalda arðsemina af raforkuframleiðslunni? Þetta er vel raunhæfur möguleiki og gæti meira að segja gerst án þess að byggja eina einustu nýja virkjun.
Núverandi samningar við álfyrirtækin um raforkuviðskipti gilda líklega flestir til ca. 2020-2025 (lauflétt ágiskun hjá Orkubloggaranum). Við höfum sem sagt hugsanlega ca. 15 ár til að finna nýjan kaupanda að raforkunni frá Kárahnjúkum, Þjórsá, Nesjavöllum og fleiri kunnuglegum virkjunum - kaupanda sem með glöðu geði vill borga alvöru verð fyrir orkuna.
Miðað við þróunina í bæði endurnýjanlegri orku og nettækninni, er líklegt að á næstu áratugum muni t.d. rísa mikill fjöldi nýrra gagnavera og margar nýjar sólarkísilverksmiðjur, sem eru vön/vanar því að greiða meira en helmingi hærra raforkuverð en álverin hér gera. Að vísu hefur gengið fremur hægt að laða slíka starfsemi til Íslands, enn sem komið er. En það er nú bara svo að hlutirnir taka tíma og það er engin ástæða til að ætla annað en að smám saman muni áhugi meðalstórra iðnfyrirtækja á Íslandi aukast - ef markvissara kynningarstarf verður tekið upp. Auk hærra raforkuverðs myndi þetta skapa meiri fjölbreytni í íslensku atvinnulífi, sem hlýtur að vera kostur. Þetta þarf að skoða gaumgæfilega, áður en ráðist er í frekari virkjanaframkvæmdir fyrir áliðnað.
Kannski væri þó nærtækast að byrja á því að koma umtalsverðum hluta orkunnar, sem nú þegar er búið að virkja, yfir á hinn risastóra raforkumarkað Evrópu. Sem bæði hungrar í öruggt raforkuframboð og vill líka miklu meira af þeirri tegund af raforkuframleiðslu sem losar lítið kolefni. Þetta myndi gerast með laufléttum háspennustreng (HVDC-kapli) milli Íslands og Evrópu. Þá myndi arðsemi Landsvirkjunar a.m.k. tvöfaldast í einni svipan. Og slíkt verkefni gæti einmitt tekið um áratug, með tilheyrandi rannsóknum, umhverfismati og framkvæmd. Orðið tilbúið á sama tíma og hinir arfaslöppu raforkusamningar við álverin hér renna út.

Reyndar myndi pólitísk ávörðun um að fara þessa leið mögulega strax verða til þess, að álverin hér myndu sjá sitt óvænna og bjóðast til að greiða helmingi hærra verð fyrir raforkuna en þau gera í dag. Stjórnvöld þurfa að íhuga vandlega nýja strategíu, til að rífa Ísland upp úr þeim forarpytti sem núverandi orkusamningar við álverin eru. Eftir hverju er iðnaðarráðherra að bíða? Einungis því að eftirlaunapakkinn verði orðinn þægilegur - eða vill ráðherrann koma einhverju góðu til leiðar fyrir íslensku þjóðina?
21.3.2010 | 11:32
Strictly Confidential
Það var talsvert skúbb hjá fréttastofu RÚV fyrir um viku síðan þegar hún komst yfir athyglisvert leyndarmál; trúnaðarskýrslu ráðgjafafyrirtækisins Hatch, sem unnin var fyrir Norðurál.

Þar á bæ þótti eðlilega fréttnæmt að hið nýlega álver Norðuráls á Grundartanga greiði sem nemur um 25-30% lægra verð fyrir raforkuna, heldur en orkuverð til álvera í heiminum er að meðaltali. Þegar gluggað er í skýrsluna og farið í gegnum röksemdir Hatch um stöðu Norðuráls, kemur í ljós að Norðurál hefur fengið afar góð kjör hjá Landsvirkjun; kjör sem leiða til þess að álver Norðuráls er í hópi arðbærustu álvera í heiminum öllum.
Og eins og venjulega þegar einhver nýtur óvenju góðra kjara - sérkjara - er einhver annar sem er hýrudreginn. Í tilviki Norðuráls er því þannig fyrir komið að fyrirtækið hefur náð að lágmarka áhættu sína betur en flest önnur álver í heiminum. En þess í stað er það Landsvirkjun - og eigendur hennar - sem taka áhættuna af sveiflum á álverði.
Orkubloggarinn fékk umrædda skýrslu Hatch senda nú í vikunni og hefur verið að dunda sér við að lesa þetta athyglisverða plagg. Og ætlar að freistast til þess að hafa þetta efni sem færslu dagsins - þó svo nú rigni eldi og brennisteini á öðrum vígstöðvum. Bloggarinn vill hér með þakka öllum þeim sem sáu tilefni til að senda honum þetta ágæta skjal!
Skýrslan er frá maí 2003; ber titilinn Technical Appraisal Report og er merkt Strictly Confidential. En þar sem Orkubloggarinn hefur aldrei veitt Norðuráli né Hatch nokkra yfirlýsingu um trúnað, er auðvitað upplagt að bloggarinn fjalli um þessa athyglisverðu skýrslu hér á Orkublogginu.

Þetta plagg er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að hér er loksins komin fram raunveruleg heimild um hið eilífa deiluefni; raforkuverð til álvera á Íslandi. Sem seljandi raforkunnar hefur sjálfur kynnt sem "Lowest Energy Prices!!" - með tveimur upphrópunarmerkjum - meðan iðnaðarráðherra lýsir raforkuverðinu til íslensku álveranna sem meðalverði.
Þess vegna er svolítið sérkennilegt hversu litla umfjöllun skýrslan hefur fengið í fjölmiðlum. A.m.k. hefur Orkubloggarinn ekki heyrt eða séð aðra en fréttastofu RÚV fjalla um þetta gríðarlega mikilvæga mál. Mál sem bæði varðar grundvallaratriði í nýtingu á náttúruauðlindum Íslands og afkomu og arðsemi nokkurra mikilvægustu opinberu almannaþjónustufyrirtækja landsins; Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Og sömuleiðis Hitaveitu Suðurnesja.
Tilefni skýrslu Hatch var að Royal Bank of Scotland (RBC) og hollenski bankinn Fortis voru að spá í að endurfjármagna Norðurál til næstu 15 ára. Þess vegna var ráðist í s.k. áreiðanleikakönnun á Norðuráli eða due diligence upp á enska tungu. Hlutverk Hatch var að gefa álit sitt á því hvernig Norðurál væri í stakk búið - bæði tæknilega og fjárhagslega - til að geta staðið við nýja lánasamninga vegna endurfjármögnunar fyrirtækisins:
"For this study, Hatch was appointed byThe Royal Bank of Scotland plc (RBS) and Fortis Bank (Nederland) N.V. (Fortis) to undertake a technical and economic appraisal of existing operations at the Norðurál smelter... The scope of this current appraisal is to verify that the Norðurál smelter is capable of continuing to produce aluminium at current rates of production, and at operating cost levels that will permit the smelter owners to continue to service the debt" (feitletrun er Orkubloggarans).

Í hnotskurn þá má upplýsa lesendur Orkubloggsins um að í skýrslunni veitir Hatch Norðuráli þessa líka fínu umsögn. Þarna er sagt á ferðinni fyrirtæki með tryggan aðgang að nægri raforku, fyrirtæki sem greiðir raforkuverð sem er rúmum fjórðungi undir meðaltali álvera, fyrirtæki sem er stýrt af hæfum stjórnendum, fyrirtæki sem er vel staðsett og með góðan aðgang að hæfu vinnuafli, fyrirtæki með góða hafnaraðstöðu, fyrirtæki sem engar náttúrógnir steðja að og fyrirtæki sem á góða möguleika á áframhaldandi starfsemi með svipaðri afkomu eins og verið hafði. Niðurstaða Hatch var einfaldlega sú að rannsóknarspurningunni var svarað játand: "the Norðurál smelter is capable of long-term operations at its current level of production".
Í skýrslunni er að finna ýmsar pælingar um tæknilega getu Norðuráls, en hér í þessari færslu verður athyglinni einkum beint að þeim þætti skýrslunnar sem fjallar um raforkuverðið. Enda er það einmitt raforkuverðið - lágt raforkuverð - sem er hvað mikilvægasta röksemd Hatch fyrir jákvæðri niðurstöðu þeirra um rekstrarmöguleika álvers Norðuráls til framtíðar ("demonstrates the continued viability of Norðurál with respect to its electricity contract").

Það var sem kunnugt er athafnalögfræðingurinn Kenneth Peterson hjá Columbia Ventures, sem reisti álverið á Grundartanga. Sem var reyndar ekki nýtt álver heldur eldra ver frá Þýskalandi, sem hætt hafði starfsemi sökum þess að það þótti ekki lengur hagkvæmt. Og var því einfaldlega selt til Columbia, tekið niður og flutt til Íslands. Það var engin tilviljun að hann Ken Peterson valdi blessaðan Hvalfjörðinn sem stað undir bræðsluna. Eftir ítarlega athugun var niðurstaða Peterson's og Columbia Ventures að Ísland væri einfaldlega besti kosturinn.
Fyrsti áfangi Norðuráls - 60 þúsund tonn - var tilbúinn 1998 og stækkaði svo í 90 þúsund tonn árið 2001. Sú var einmitt stærð bræðslunnar þegar Hatch vann skýrslu sína, en þá þegar hafði Norðurál fengið tilskilin leyfi til að stækka álverið í 180 þúsund tonn og árið 2002 hafði fyrirtækið fengið grænt ljós frá Skipulagsstofnun á 300 þúsund tonna álver! Frá 2004 stækkaði álverið svo í nokkrum áföngum úr 90 þúsund tonna ársframleiðslu og í þau 260 þúsund tonn sem það er í dag.
Það er reyndar dálítið skondið að í umræddum úrskurði Skipulagsstofnunar frá 2002, eru rakin þau sjónarmið að fyrirhuguð stækkun álversins á Grundartanga í 180 þúsund tonn sé Norðuráli ekki nóg til að verða hagkvæm eining. Og að þess vegna væri fyrirtækinu mikilvægt að geta stækkað í 300 þúsund tonn. Í skýrslu Hatch, sem kemur út aðeins ári síðar en úrskurður Skipulagsstofnunar féll, er aftur á móti farið fögrum orðum um hagkvæmni 90 þúsund tonna álversins. Og það sagt í hópi hagkvæmustu álvera heimsins. Þetta væri eflaust tilefni fyrir einhverja að halda því fram að Norðurál hafi matreitt rangar eða villandi upplýsingar fyrir Skipulagsstofnun, en það er önnur saga.
Þegar skýrsla Hatch var unnin (2003) var álverið, sem fyrr segir, ennþá 90 þúsund tonn og framkvæmdir við stækkun ekki hafnar. Áreiðanleikakönnun Hatch var því alfarið miðuð við áframhaldandi starfsemi 90 þúsund tonna álvers og stækkunarmöguleikar einungis hafðir í huga í tengslum við stutta umfjöllun Hatch um framtíðarmöguleika fyrirtækisins.
Það var svo 2004 að bandaríski álframleiðandinn Century Aluminum keypti álverið af Peterson. Söluvaran þá var álver með 90 þúsund tonna framleiðslugetu, álver með leyfi til að stækka í 300 þúsund tonn og álver með óvenjulega hagstæðan raforkusamning. Þetta hefur því sennilega verið sannkallaður draumadíll hjá Peterson.

Almennt má segja að tónninn í skýrslu Hatch gagnvart Norðuráli sé mjög jákvæður. Þar er ítrekað hnykkt á því hversu vel Norðuráli hafi tekist að forðast áhættu með hagstæðum langtímasamningum um bæði súrálskaup, kaup á nauðsynlegum tæknibúnaði sem þarf að endurnýja jafnóðum í álverum og síðast en ekki síst með hagstæðum samningum um raforkukaup.
Skv. skýrslu Hatch var samningurinn um raforkusölu milli Landsvirkjunar og Norðuráls undirritaður 7. ágúst 1997 og var hann gerður til rúmlega tveggja áratuga; átti að renna út 31. október 2018. Þessi samningur tryggði raforku til 60 þúsund tonna álvers, en vegna fyrirhugaðrar stækkunar í 90 þúsund tonn var gerður nýr samningur 29. október 1999.

Þetta voru vel að merkja ekki neinir smá samningar - þó svo í dag sé varla minnst á álver nema tala um a.m.k. 300 þúsund tonna framleiðslu. Rafmagnið til Norðuráls 2003, þegar skýrsla Hatch kom út, nam um 20% af allri raforkuframleiðslu Landsvirkjunar. Samningurinn um raforkusöluna til Norðuráls var því afar þýðingarmikill fyrir rekstur Landsvirkjunar og mikilvægt að hann skilaði viðeigandi arðsemi, til bæði skemmri og lengri tíma.

Myndin hér til hliðar er úr umræddri trúnaðarskýrslu og sýnir raforkuverðið skv. samningi Norðuráls og Landsvirkjunar miðað við það sem gengur og gerist í áliðnaðinum. Þar kemur fram að verðið til Norðuráls snemma árs 2003 var 15 mills pr. kílóvattstund, en á sama tíma hafi meðalverðið í áliðnaðinum verið 20,4 mills.
Skv. upplýsingum sem Orkubloggarinn hefur frá CRU - sem er þekkt ráðgjafafyrirtæki á sviði áliðnaðarins - var meðalverðið 2003 jafnvel nokkuð hærra en segir í skýrslu Hatch eða 21-22 mills. Það er a.m.k. augljóst að verðið á raforku Landsvirkjunar til Norðuráls var einungis um 75% af heimsmeðaltalinu og hugsanlega aðeins um 70%.

Verðin sem fram koma á grafi Hatch frá 2003, hér að ofan, eru miðuð við álverð upp á 1.400 USD/tonn. En álverð getur sveiflast mikið; það hækkaði mjög þegar efnahagsuppgangurinn var hvað mestur. Ekki er lengra síðan en í apríl 2008 að Dick Evans, forstjóri Straumsvíkurfyrirtækisins Rio Tinto Alcan, sagði áltonn á 4.000 dollara vera handan við hornið. Hann hafði varla sleppt orðinu þegar verðið á áli féll eins og steinn og nálgaðist óðfluga þúsund dollarana! Evans sannaði þarna enn og aftur hversu snjallir spámenn þeir eru - heimsins hæstlaunuðustu stjónendur. Geisp. En hver veit; kannski fer verð á áli senn í 4.000 USD/tonn. Það hefur a.m.k. hýrnað aðeins yfir álverði á ný og í dag er áltonnið á um 2.200 USD/tonn.
Miðað við álverð dagsins er líklegt er meðalverðið á raforku til álvera í heiminum sé nú um 32-33 mills. Og verðið til Norðuráls sennilega um 24-25 mills; þ.e.a.s. 25-30% undir heimsmeðaltalinu. Nema þá að raforkan sem Norðurál keypti vegna mikillar stækkunar síðustu árin hafi verið verðlögð hærra. Það vitum við ekki.
Já - álver Norðuráls á Grundartanga hefur stækkað mikið síðan 2003 og framleiðir nú 260 þúsund tonn á ári. Það þurfti að virkja heil ósköp hér um allt SV-land, til að mæta orkuþörfinni vegna þessarar stækkunar. Orkuþörf Norðuráls í dag er m.ö.o. margföld á við það sem var árið 2003.

Auk orkunnar frá Landsvirkjun fær Norðurál nú raforku frá Nesjavallavirkjun Orkuveitu Reykjavíkur og einnig frá virkjunum HS Orku á Reykjanesi. Líklega muna lesendur Orkubloggsins vel eftir hörðum deilum um Norðlingaölduveitu í tengslum við stækkun Norðuráls, en Landsvirkjun undir stjórn Friðriks Sophussonar vildi skaffa Norðuráli raforku með miðlunarlóni inní Þjórsárver. Rökin voru mikil hagkvæmni Norðlingaölduveitu. Niðurstaðan varð reyndar sú að settur umhverfisráðherra, Jón Kristjánsson, takmarkaði með úrskurði sínum aðgang Landsvirkjunar að Þjórsárverum. Ætti að vera lesendum í fersku minni.
Að mati Orkubloggarans er grunnverðið í samningnum við Norðurál frá 1999 alveg úr takti við þróunina í áliðnaðinum, sbr. síðasta færsla Orkubloggsins (um leyndarmálið mikla). En til að vaða ekki um of víðan völl ætlar bloggarinn að reyna halda sig í dag við skýrslu Hatch. Og bara rétt að minnast á þau tækifæri, sem blöstu við mönnum, eins og áðurnefndum Ken Peterson. Þau fólust m.a. í ofboðslegri eftirspurn eftir áli sem var að myndast austur í Kína. Eftirspurn sem fór að bera á fljótlega upp úr 1990, eins og sést svo vel á grafinu hér fyrir neðan. Það voru örugglega ekki síst þær augljósu vísbendingar, sem ollu því að Ken Peterson sá sér leik á borði að kaupa gamalt álver í Þýskalandi og flytja það til Íslands. Þar sem raforkan fékkst ódýrari en annars staðar, raforkuframboð var 100% öruggt og aðstæður allar álveri mjög hagstæðar.

Hagstæður samningur Norðuráls árið 1999 bendir aftur á móti til þess, að hjá þeim sem sömdu fyrir hönd Landsvirkjunar um raforkuverðið hafi ennþá ríkt einhver.... dofi. Eftir að hafa misst af dílnum við Atlantsál um byggingu álvers á Keilisnesi á 10. áratugnum. Kannski var komin upp örvænting og litið svo á af hálfu Landsvirkjunar og stjórnvalda að ekkert álfyrirtæki hefði áhuga á Íslandi... nema þá að bjóða "lowest energy prices!!".
Það veit samt auðvitað enginn hvað gerist í "framtíðinni"; hvorki Ken Peterson, Landsvirkjun, Orkubloggarinn né aðrir. Í reynd snýst þetta allt saman mest um áhættustjórnun. Og hvort áhættunni hafi verið skipt milli samningsaðila með eðlilegum hætti.
Í skýrslu Hatch er skýrt tekið fram að raforkuverðið til Norðuráls sé tengt álverði með beinum hætti, eins og það er á London Metals Exchange. Þetta er sagt tryggja að Norðurál sé samkeppnishæft, jafnvel þó svo álverð myndi taka upp á því að lækka umtalsvert. Þetta orðalag í skýrslu Hatch - ásamt ummælum Hatch um lágt raforkuverð til Norðuráls - merkir í raun að það sé sama hvað gerist á álmörkuðunum; áhættan sé nánast engin fyrir Norðurál. Og það merkir ekkert annað en að áhættan vegna raforkuviðskiptanna sé fyrst og fremst á raforkusalanum. Í huga Orkubloggarans er slíkur samningur vondur.

Að öllu samanteknu komst Hatch að þeirri niðurstöðu að álver Norðuráls skili fyrirtækinu rekstrarárangri sem marki því sess meðal 25% af hagkvæmustu álverum heimsins (sbr. grafið hér til hliðar). Þetta segir Hatch bæði koma til af góðri stjórnun fyrirtækisins og hagstæðum samningum um súrál og þann tæknibúnað sem þarf að endurnýja reglulega. Og þó ekki síst vegna lágs orkuverðs, enda er raforkukostnaður almennt stærsti útgjaldaliður álvera (er almennt á bilinu 25-40% af rekstrarkostnaði álvera). Einnig er tekið fram í skýrslu Hatch að langtímasamningarnir tryggi það, að álbræðsla Norðuráls á Grundartanga muni áfram verða samkeppnishæft til framtíðar hvað sem líður álverði ("demonstrates that the smelter will remain competitive in the future").
Þessi niðurstaða Hatch er vel að merkja miðuð við áframhaldandi rekstur á 90 þúsund tonna álveri, eins og áður hefur verið nefnt. Við þetta var svo hnýtt að í ljósi þess að horfur á álmörkuðum séu góðar, kunni Norðurál að vilja skoða möguleika á stækkun. Tekið er fram í skýrslunni að fyrirtækið búi vel að slíkum möguleikum; nóg landrými sé til staðar á Grundartanga, hönnun versins geri stækkun einfalda og af viðræðum við Landsvirkjun megi ráða að að ekki muni standa á raforku. Auk þess séu spennuvirkin við álverið nægilega öflug, þ.a. ekki þurfi frekari fjárfestinga þar við af hálfu álversins þrátt fyrir stækkun.

Að öðru leyti er ekki fjallað um stækkunarmöguleika álversins í skýrslunni, enda er hún fyrst og fremst hugsuð sem áreiðanleikakönnun á áframhaldandi rekstri 90 þúsund tonna álvers. En við vitum öll að fljótlega eftir útkomu skýrslunnar var ráðist í stækkun og í dag er álver Norðuráls á Grundartanga nærri þrefalt á við það sem var árið 2003 (er nú 260 þúsund tonn). Það reyndist, sem fyrr segir, auðsótt fyrir Norðurál að fá leyfi Skipulagsstofnunar til að stækka í allt að 300 þúsund tonn, enda virtist stofnunin telja það mikilvæga forsendu þess að Norðurál gæti staðið í þessum bissness. Og nú er áhugi hjá fyrirtækinu á að byggja nýtt og jafnvel ennþá stærra álver við Helguvík, í nágrenni Keflavíkur. Ísland hefur greinilega reynst Norðuráli afar vel.

Það er líka athyglisvert að lesa það sem segir í skýrslunni um fyrirhugaðar breytingar á íslenska raforkumarkaðnum. Þar er m.a. fjallað um áhrif þess að á Íslandi verði brátt skilið á milli framleiðslu og dreifingar á raforku. Höfundar að skýrslu Hatch eru skynsamt fólk og sjá það strax að stofnun Landsnets muni ekki hafa í för með sér neina áhættu fyrir Norðurál. Það liggi í augum uppi að Landsnetið verði alfarið háð valdi Landsvirkjunar, sem í gegnum sinn eignarhlut muni hafa tögl og haldir á dreifikerfinu rétt eins og var þegar skýrslan var samin. Þá þegar lá fyrir að eignarhluti Landsvirkjunar í Landsneti yrði um 70% og svo er enn þann dag í dag (tæp 65%).
Það væri eflaust tilefni til að fjalla hér líka um það sem Hatch segir um umhverfismálin hjá Norðuráli. En hér verður látið nægja að nefna það, að Hatch sá ástæðu til að taka það sérstaklega fram, að skilmálar í starfsleyfi Norðuráls um mengun og kolefnislosun séu álverinu hagstæðir (favourable).
Loks skal tekið fram að skv. raforkusamningi Landsvirkjunar við Norðurál frá 1999 gildir samningurinn til októberloka 2019. Þ.a. að nú hefur hinn nýi forstjóri Landsvirkjunar rúm níu ár til að ákveða hver skuli verða verðstrategían gagnvart Norðuráli til framtíðar. Kannski verður þá kominn rafstrengur til Evrópu og álverið þá einfaldlega sett um borð í skip og flutt til... t.d. Katar eða Kólaskagans? Það er a.m.k. varla mikill áhugi hjá nýjum forstjóra Landsvirkjunar að láta álverið fá nýjan samning á svipuðum nótum eins og hinn sérkennilegi samningur frá októberlokum 1999.
Að auki er Norðurál nú líka með raforkusamninga við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, en ráðast þurfti í margar nýjar virkjanir vegna stækkunar Norðuráls úr 90 þúsund í 260 þúsund tonn (enda vandfundinn jafn svakalega orkufrekur iðnaður eins og álbræðslur). Þessir yngri samningar gilda líklega langt fram á 3ja áratug aldarinnar. Við vitum því miður ekki hvert orkuverðið er skv. þeim. En það er hæpið að það sé umtalsvert hærra en skv. upphaflega raforkusamningnum við Landsvirkjun. Sennilega svipað. Vonandi samt eitthvað hærra.

Í dag er álver Norðuráls á Grundartanga af mörgum sögð einhver hagkvæmasta einingin innan Century Aluminum. Og það sem helst fær Logan Kruger, forstjóra Century Aluminum og félaga hans, til að brosa þessa dagana. Enda er bersýnilegt af skýrslu Hatch, að álverið á Grundartanga þolir sveiflur á álmörkuðum betur en flest önnur álver heimsins. Áhættan þar liggur miklu fremur á þeim sem selja þeim rafmagnið. M.ö.o. á hinu opinbera og þar með á íslenskum almenningi. Það þykir Orkubloggaranum slæmt, enda eru lítil rök fyrir því að raforkuverðið til álvera á Íslandi þurfi að vera svo lágt að Norðurál sé í hópi arðbærustu álvera heimsins, án þess að taka áhættu, og að dýfur í álverði skelli eins og brotsjór á Landsvirkjun.

Sjálfum þykir bloggaranum fátt skemmtilegra en að hamast með skóflu úti á túni eða hlaða upp grjóti með snáðanum sínum og stífla bæjarlæki. En það er samt eittvað óeðlilegt við það að raforkuverðið hér til nýlegra álvera er svo miklu lægra en gengur og gerist í veröldinni. Og það er líka óeðlilegt hvernig lækkandi álverð bitnar á fullu á íslensku orkufyrirtækjunum, meðan það beinlínis stórlækkar rekstrarkostnaðinn hjá Norðuráli. Ósanngjörn áhættuskiptingin er skýrt merki um það, að íslensku orkufyrirtækin og kannski ekki síður íslenskir stjórnmálamenn þurfa að breyta um stefnu og viðhorf gagnvart því hvaða arðsemis- og áhættukröfur eigi að gera í tengslum við nýtingu á orkuauðlindum Íslands.
14.3.2010 | 00:14
Leyndarmálið um raforkuverð til álvera á Íslandi
Spennan eykst dag frá degi.
Í apríl n.k.verður haldinn aðalfundur Landsvirkjunar. Og þar verður gefið upp hvað fyrirtækið selur raforkuna á til einstakra atvinnugreina. Þá fær þjóðin væntanlega loksins aðgang að einhverju mesta leyndarmáli Íslandssögunnar. Nefnilega því hvað stóriðjan og þ.m.t. áliðnaðurinn á Íslandi borgar fyrir raforkuna.

Hvers megum við vænta? Ef allt hefur verið með eðlilegum hætti í starfsemi og ákvarðanatöku hjá íslensku orkufyrirtækjunum, ættu álverin að vera að greiða a.m.k. 40 mills pr. kWh fyrir raforkuna. Og nýjasta álverið - álver Alcoa á Reyðarfirði - ætti að vera að greiða a.m.k. 50 mills fyrir nýjasta græna rafmagnið frá Kárahnjúkavirkjun.
EF Rio Tinto Alcan, Alcoa og Century Aluminum eru a greiða lægra verð fyrir íslensku raforkuna, þá er það einfaldlega úr öllum takti við veruleika áliðnaðarins í veröldinni. EF orkuverðið er lægra, þá eru íslensku orkufyrirtækin að undirverðleggja raforkuna m.v. það sem gerist á hinum alþjóðlega álbræðslumarkaði. Og þá er almenningur á Íslandi í reynd að niðurgreiða rekstrarkostnað álveranna með óeðlilegum hætti. EF.
Enn sem komið er er raforkuverðið til álveranna á Íslandi hulið þoku leyndarinnar En því miður er ýmislegt sem bendir til þess að orkuverðið til álveranna á Íslandi sé mun lægra en umrædd 40-50 mills. Skoðum þetta aðeins nánar. Menn hafa reynt að nota bókhald bæði Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur til að reikna út hvað raforkuverðið til álveranna sé. Nýjasta álitið er líklega það sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birti á liðnu ári (2009).

Þetta leiðir hugann að glænýju útspili iðnaðarráðherra, sem í nýliðinni viku færði okkur þau tíðindi að orkuverðið til álveranna á Íslandi sé sambærilegt við meðalverð til álvera í heiminum. Um þetta vísar ráðherrann einmitt til fyrrnefndar niðurstöðu Hagfræðistofnunar. Í umræddri skýrslu Hagfræðistofnunnar sagði orðrétt (leturbreyting er Orkubloggarans):
"Raforkuverð til álvera á Íslandi er bundið í langtímasamningum og er það verð ekki gert opinbert. Út frá ársreikningum Landsvirkjunar má þó ætla að það hafi hin síðustu ár verið á bilinu 25-28 US mill á kWst. Til samanburðar má nefna að samkvæmt World Bureau of Metal Statistics var meðalverð í heiminum árið 2007 27 US mill á kWst. Verð hér virðist því vera á sama bili og annars staðar að jafnaði."
Orkubloggarinn er reyndar á því að "mill" í fleirtölu eigi að skrifa "mills" (eitt mill er sama og 1/1000 USD). Bloggaranum þykir þó litlu skipta hvernig menn skrifa þessa ágætu einingu. Verra er að sjá að í reynd leita höfundar skýrslunnar ekki heimilda hjá World Bureau of Metal Statistics, heldur vitna þeir til tiltekinnar greinar sem aftur vitnar til WBMS. Sem sagt ekki farið í frumheimildina, heldur beitt aðferðum sem minna á menntskæling sem vitnar til Wikipediu í skólaritgerð. Svona vinnubrögð eru kannski réttlætanleg í menntó eða á Hagfræðiblogginu (ef það væri til), en þetta geta tæplega talist boðleg vinnubrögð hjá stofnun innan Háskóla Íslands.
Þar að auki er þetta EINA heimildin sem höfundar umræddrar skýrslu Hagfræðistofnunar vísa í, um að meðal-raforkuverðið í heiminum hafi verið 27 mills á umræddum tíma. Þar er um er að ræða grein á vefnum www.alunet.net, sem er skrifuð af Svartfellingi nokkrum að nafni Goran Djukanovic.
Djukanovic þessi mun vera sérfræðingur í álmörkuðum. Engu að síður er erfitt að átta sig á því af hverju höfundarnir að skýrslu Hagfræðistofnunar skoðuðu ekki frumheimildina. Að auki hefðu þeir auðvitað líka átt að leita fleiri heimilda - og upplýsinga um það hvert meðalverðið var 2008. Loks er hálf glatað að sjá að þeir telji umræddan Goran Djukanovic vera að tala um meðalverðið 2007 - af því í reynd var grein Djukanovic's skrifuð snemma árs 2006! Þetta er m.ö.o. ekkert annað en fúsk hjá Hagfræðistofnun og afleitt að iðnaðarráðherra byggi yfirlýsingar sínar á svona vinnubrögðum.
En hvað um það. Samkvæmt þessari skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ, sem kom út um mitt ár 2009, var meðalverð á raforku til álvera árið 2007 2006 (sic) 27 mills pr. kWh og verðið til íslensku álveranna "síðustu ár" var talið vera á bilinu 25-28 mills. Þetta var af hálfu Hagfræðistofnunar talið benda til þess að fylgni sé milli meðalverðs í heiminum og verðsins á Íslandi.

Gott og vel. Kannski er það rétt að svo sé. En þá vaknar auðvitað spurningin, hvað er meðalverðið í heiminum í dag á raforku til álvera? Sökum þess að umrætt álit Hagfræðistofnunar er byggt á grein eftir áðurnefndan Goran Djukanovic hafði Orkubloggarinn einfaldlega samband við Goran nú undir kvöldið, þar sem hann sat við skrifborðið sitt í borginni Podgorica í Svartfjallalandi. Podgorica er einmitt höfuðborg þessu bráðunga lýðveldis, ef einhver skyldi ekki vita það, og gott ef þetta er ekki á slóðum Eldflaugastöðvarinnar hans Tinna!
Goran Djukanovic reyndist hinn mesti ljúflingur og upplýsti bloggarann án málalenginga um að hann telji að meðalverð á raforku til álvera árið 2008 hafi verið um 40 mills pr. kWh. Og að flest álver í Vestur-Evrópu borgi nú á bilinu 30-40 mills (kreppan og lækkandi álverð hafa lækkað raforkukostnaðinn). Goran bætti því einnig við að hæsta raforkuverðið til álvera sem hann hafi heyrt um sé 90 mills í Brasilíu. En að hann hafi ekki staðfestingu um að það sé rétt.
Orkubloggarinn er þakklátur fyrir hversu skjótt Svartfellingurinn Goran Djukanovic brást við fyrirvaralausum spurningum bloggarans. Og við skulum líka gefa Hagfræðistofnun HÍ séns. Jafnvel þó svo menn þar á bæ hefðu kafað djúpt ofaní fleiri heimildir og reynt að gæta þess að styðjast ekki við úreltar tölur, er alltaf erfitt að koma með hina einu réttu niðurstöðu um hvert meðalverð á raforku til álbræðslna er. Raforkuverð til álvera er gjarnan tengt álverði á heimsmarkaði og þess vegna er meðalverðið á raforkunni síbreytilegt, rétt eins og álverð. Það breytist fyrirvaralaust, rétt eins og veðrið hér á Klakanum góða, og getur lækkað jafnt sem hækkað. Trendið síðustu árin hefur verið hækkandi raforkuverð, en nú í kreppunni hefur orðið breyting þar á.
Tilefni áðurnefndra orða iðnaðarráðherra um raforkuverð til álvera á Íslandi, var önnur skýrsla. Skýrsla sem fréttamenn RÚV komust yfir frá Hatch Consulting, sem er stórt ráðgjafa- og verkfræðifyrirtæki. Skv. þeirri skýrslu má, að sögn fréttastofu RÚV, draga þá ályktun að Norðurál greiði um 25% lægra raforkuverð en álver í heiminum að meðaltali. Sé svo er líka freistandi að álykta ennþá meira - og segja sem svo að þetta eigi við um öll álverin á Íslandi. Að þau séu öll að greiða 25% minna en meðalverðið. Í dag mynda það þýða að raforkuverð til álveranna á Íslandi sé núna á ca. 23-26 mills (miðað við að meðalorkuverð til álvera í heiminum í dag sé 30-35 mills, eins og nánar er vikið að hér síðar í færslunni; Orkubloggarinn vill fara varlega í skaflinn og fellst ekki að svo búnu alveg á rök Goran Djukanovic um að meðalverðið sé 30-40 mills).
Iðnaðarráðherra segir þetta ekki vera rétt; að það sé ekki rétt að raforkuverðið til álveranna á Íslandi sé lægra en meðalverðið. Heldur að verðið hér sé einmitt sama eins og meðalverðið i heiminum. En af orðum ráðherrans virðist tvennt nokkuð augljóst: Annars vegar virðist hún ekki vita að meðalverð á raforku til álvera í heiminum er talsvert hærra en Hagfræðistofnun taldi vera, af því stofnunin mislas aldur hinna fábrotnu upplýsinga sem hún studdist við. Og hins vegar gerir ráðherrann sér ekki grein fyrir því að það væri algjör skandall ef raforkuverðið til álveranna á Íslandi er einungis sem nemur meðalverði til allra álvera í heiminum öllum. Í eftirfarandi hripi mun Orkubloggarinn leitast við að skýra þetta. Þó svo augnlokin séu aðeins farin að þyngjast hér undir miðnættið, að kvöldi þessa yndislega vordags hér í Fossvogsdalnum.
Það er vissulega erfitt að fullyrða nákvæmlega hvert meðalraforkuverð til álvera í heiminum er í dag. Vitað er að það var um 25 mills fyrir um 5 árum (sökum þess að þetta er blogg en ekki keypt sérfræðiálit hyggst Orkubloggarinn ekki gefa nánar upp heimildir sínar hér, en iðnaðarráðherra er að sjálfsögðu velkomið að gera Orkubloggaranum tilboð um ráðgjafarstörf!). Og meðalverðið var komið í a.m.k. 35 mills og jafnvel í 40 mills árið 2008 meðan allt lék í lyndi í efnahagslífinu. En vegna kreppunnar og lækkandi álverðs hefur raforkuverðið til álveranna lækkað talvert aftur - og mun vart hækka aftur á næstunni nema álverð hækki almennilega á ný. Orkubloggarinn veðjar á að spár þess efnis að meðalverð 2010 upp á ca. 30-35 mills séu líklegar til að ganga eftir. Það gæti þó jafnvel orðið ennþá lægra ef álverðið hikstar enn meira. Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá.
En hvort sem meðalverðið í dag er 30 mills, 35 mills eða eitthvað allt annað, þá er hreinlega ömurlegt ef það er rétt hjá iðnaðarráðherra að álverin á íslandi séu einungis að borga meðalverð. Meðalverð á raforku til álvera í heiminum er nefnilega sífellt togað niður í djúpið, af hinni köldu hendi gamalla raforkusamninga. Samninga sem voru gerðir þegar raforkuverð í heiminum var miklu lægra en nú er og eru margir hverjir ekki tengdir álverði. Það eru þessir gömlu raforkusamningar sem toga meðalverðið niður. Álver sem risið hafa í efnahagsuppganginum síðan 2003, hafa aftur á móti langflest mátt þola mun "óhagstæðari" raforkusamninga. Samninga þar sem verðið er langt fyrir ofan umrætt "meðalverð".
Ástæðan fyrir því að nýrri álverin hafa almennt þurft að greiða raforkuverð sem er mun hærra en meðalverðið, er tiltölulega einföld: Það er einfaldlega svo að nánast hvergi í heiminum er lengur unnt að virkja svo ódýrt, að raforkuverð upp á 27 eða jafnvel 30 mills standi undir kostnaði og eðlilegri arðsemi af nýrri virkjun. Ef álver borgar "meðalverð" eða þaðan af minna, bendir það til þess að álverið hafi verið reist fyrir mörgum árum, þegar raforkuverð var mun lægra.
Raforkusamningar til álvera eru oftast til langs tíma og gömlu samningarnir oft ekki tengdir álverði. Þess vegna eru t.d. til gömul álver í Kanada og Rússlandi, sem eru sum hver einungis að borga 5-6 mills/kWh! Álver af þessu tagi draga meðalverðið hreinlega ofaní svaðið. Hækkandi raforkuverð hefur valdið því að það eru nýlegu álverin sem toga meðalverðið eilítið upp; nýju álverin borga flest mun meira en meðalverðið. Á sama hátt toga gömlu álverin meðalverðið niður. Sem dæmi má nefna álver sem Alcoa rak til skamms tíma suður í Álfunni Svörtu:

Í Ghana hafa stjórnvöld lengi staðið í stappi við Alcoa, sem aðeins greiddi 11 mills fyrir kílóvattstundina þegar síðast fréttist (2008). Það orkuverð er dæmigert fyrir gömul álver í þriðja heiminum, sem reist voru í tengslum við virkjanaframkvæmdir þróunarríkjanna með lánsfé frá Alþjóðabankanum. Oft voru orkusölusamningarnir með einhverjum hætti tengdir annarri auðlindanýtingu og í tilviki Ghana voru það auðvitað hinar geggjuðu báxít-námur sem álfyrirtækin voru að tryggja sé. Með einu nettu álveri í leiðinni við hafnarborgina Tema þarna á gömlu Þrælaströndinni.
Þegar uppgangurinn mikli varð í byrjun 21. aldarinnar var Ghanamönnum nóg boðið. Þeir vildu semja upp á nýtt og fá 30 mills fyrir kílóvattstundina. En það reyndist ekki auðvelt fyrir Ghanamenn að sannfæra Alcoa um réttmæti þess að hækka raforkuverðið úr 11 mills og í 30. Enda byggir landið efnahag sinn að stóru leyti á samningum við Alcoa um báxítsölu og þarf þjóðin því að halda sambandinu við Alcoa í þokkalegri vinsemd. Ghanamenn framleiða sem sagt gríðarlega mikið af báxíti og áliðnaðurinn í landinu snýst því ekki bara um raforku. Þá er það auðvitað svo að álver Alcoa í Ghana var í sérstöku félagi - sem nefnist Volta Aluminum Company eða Valco - og í deilum sínum við stjórnvöld í Ghana lá það í loftinu að ef orkuverðið yrði hækkað í 30 mills myndi álverið einfaldlega verða sett í þrot og loka. Kannski verða flutt til Íslands?

Eftir áralangar deilur um orkuverðið og ítrekaðar hótanir Alcoa um að álverinu yri lokað ef Ghanamenn létu ekki af hugmyndum sínum um hærra raforkuverð, endaði þetta með því að Ghanastjórn keypti Alcoa út úr rekstrinum. Nokkrum mánuðum síðar útnefndi tímaritið Forbes Alcoa sem aðdáunarverðasta málmafyrirtæki veraldar eða "world's most admired metals company". Sætt.
Þetta er að mörgu leyti dæmigerð saga úr álheimi þróunarríkjanna og ætti öllum að vera augljóst hvers konar álbræðslur það eru sem toga "meðalverðið" niður úr öllu valdi. Iðnaðarráðherrann íslenski ætti líka að átta sig á þessu.
Í landi þar sem áliðnaður hefur vaxið mjög hratt á síðustu árum ætti raforkuverðið aftur á móti með réttu að vera talsvert mikið hærra en meðalverðið. Þess vegna myndi sá sem ekki vissi hvenær íslensku álverin voru reist og hefði t.d. ekki hugmynd um hversu nýtt álver Alcoa á Reyðarfirði er, en væri sagt að álverin á Íslandi greiði svipað verð fyrir rafmagnið eins og meðalraforkuverðið er í heiminum öllum, samstundis álíta sem svo að þetta væru allt fremur gömul álver sem enn nytu góðs af gömlum raforkusamningum.
Í reynd er staðan hér á Íslandi allt önnur. Hér búum við í raun að mestu við glænýjar álbræðslur. Saga áliðnaðarins á Íslandi er í grófum dráttum sú að þrátt fyrir að fyrsta álverið hafi verið byggt hér strax á 7. áratug liðinnar aldar, er stærstur hluti áliðnaðarins hér brand new. Álbræðslan í Straumsvík var lítil í upphafi en stækkaði í nokkrum skrefum og svo kom Kenneth Peterson og byggði álver í Hvalfirði. Það álver stækkaði verulega í nokkrum áföngum og svo varð sprenging í framleiðslunni árin 2007-2008 þegar álver Alcoa á Reyðarfirði tók til starfa.
Um 1995 var álframleiðslan hér á Íslandi um 100 þúsund tonn (og hafði þá verið óbreytt frá 1980), um aldamótin 2000 er framleiðslan komin í um 250 þúsund tonn, árið 2005 er álframleiðslan komin hátt í 400 þúsund tonn og 2010 er álframleiðsla á Íslandi næstum 800.000 tonn!

Vert er líka að vekja athygli á því að árið 1980 var álframleiðslan hér á Íslandi einungis um 12% af því sem hún er núna, en í alþjóðlegu samhengi er sambærilegt hlutfall um 50% (árið 1980 var heimsframleiðslan sem sagt um 50% af því sem hún er í dag). Og um aldamótin var þetta hlutfall á Íslandi um 33% en á sama tíma var þetta sama hlutfall úti í hinum stóra heimi hátt í 66% eða helmingi hærra en á Íslandi. M.ö.o. þá hefur íslenski áliðnaðurinn vaxið miklu hraðar á síðustu árum heldur en áliðnaðurinn á heimsvísu - og það sama hvort sem litið er einn eða tvo áratugi aftur í tímann.
Já - íslenski áliðnaðurinn er að megninu til mjög ungur og ætti því að vera að greiða nokkuð hátt verð fyrir raforkuna. Vegna þess að á þeim tíma sem nýju álverin voru byggð bauðst ekki sérstaklega ódýr raforka úti í hinum stóra heimi og verðsamkeppnin því ekki eins hörð eins og áður var, meðan álbræðslur áttu aðgang að skítbillegri raforku víða um heim. Hér sitja orkufyrirtækin því ekki uppi með mikið af gömlum lágverðs-orkusamningum frá þeim dögum þegar orkuverð í heiminum var miklu lægra en nú er. Þess vegna ætti orkuverð til álvera á Íslandi tvímælalaust að vera nokkuð langt yfir meðaltalinu í heiminum. Í löndum sem eru með umfangsmikinn gamalgróinn áliðnað er aðstaðan þveröfug; þar er eðlilegt að orkuverðið sé almennt mun lægra en meðalverðið og miklu lægra heldur en í löndum með nýlegan áliðnað.

Til að skýra þetta betur er gott að líta til ríkis (annars en Íslands) sem einnig hefur byggt upp mikinn áliðnað á allra síðustu árum. Kína er nærtækt dæmi. Þar hefur álframleiðsla rétt eins og á Íslandi margfaldast síðustu árin vegna hinnar alræmdu iðnaðaruppbygginningar þar í landi. Sem hefur m.a. falist í byggingu fjölda álvera; reyndar svo margra að sumir óttast að senn verði æpandi offramboð af áli, en það er önnur saga.
Stjórnvöld í Kína hafa fyrst og fremst notað kolaorku til að knýja þessi nýju álver, enda er vart til ódýrari leið til raforkuframleiðslu í Kína en að brenna brúnkolaskítnum sem þar er í hrönnum. Raforkuverðið til álveranna á mestu álbræðslusvæðunum í Kína er nú að meðaltali sagt vera um 55 mills pr. kWh (reyndar á bilinu 50-60 mills, sbr. m.a. glænýtt áliti frá Deutsche Bank). Í nokkrum héruðum Kína þekkist reyndar mun lægra raforkuverð til álvera og það eru jafnvel til dæmi um álver sem borga einungis 30-35 mills. En meðalverðið á raforkunni þar í Landi Drekans er sem sagt mun hærra en meðalverðið í heiminum. Og það er einmitt mjög lógískt vegna þess hversu kostnaðurinn við að reisa og reka ný raforkuver í dag er orðinn hár og slík orkuver hefur auðvitað þurft til að mæta nýjum áliðnaði.
Þegar haft er í huga að mjög stór hluti álframleiðslunnar á Íslandi á sér stað í nánast glænýju risaálveri, er satt að segja með ólíkindum ef raforkuverð til álvera á Íslandi er einungis sem jafngildir meðalverði í heiminum - eða jafnvel lægra en það! Þetta er eiginlega alveg skelfilegt ef satt reynist. En það myndi auðvitað skýra vel af hverju forstjóri Alcoa var svona duglegur að faðma austfirsk börn og kyssa blessunina hana Valgerði frá Lómatjörn í bak og fyrir, eins og sjá má í myndinni Draumalandið.

Það myndi líka skýra af hverju gljáandi nýtt Fjarðarálið reis hér á landi, en t.d. ekki í Kína. Þar hefði Alcoa sennilega þurft a borga mun hærra verð fyrir raforkuna - þ.e.a.s. ef verðið til Alcoa liggur á því bili sem Hagfræðistofnun nefndi. Raforkukaup eru gjarnan 25-40% af rekstrarkostnaði álvera og þess vegna skiptir raforkuverðið einfaldlega gríðarlegu máli fyrir álver. Næstum öllu máli því hinn stóri þátturinn er hráefnisverðið og hann er víðast hvar nokkurn veginn sá sami. Þess vegna verðskulda "lowest energy prices" auðvitað marga kossa.
Núverandi iðnaðarráðherra þarf að átta sig á því að meðalraforkuverð í heiminum til álvera merkir sama og lágt raforkuverð þegar í hlut á land þar sem stærstur hluti áliðnaðarins er nýr. Þegar meta skal hvort raforkuverð til álvera sé á skynsamlegum og eðlilegum nótum verða menn að líta til aldurs álveranna, hvenær þau voru reist, hvar þau eru staðsett og í hvers konar efnahagsumhverfi þau eru. Ef verðið á raforkunni til nýlegra álbræðslna á Íslandi er eitthvað í nánd við meðalverðið til allra álvera heimsins er það einfaldlega skandall.

Í löndum sem hafa mikið af álverum - gamlan, rótgróinn og umfangsmikinn áliðnað - er staðan önnur og raforkuverðið gjarna lágt að meðaltali. Þess vegna er t.a.m. raforkuverð til álvera í Kanada í lægri kantinum. Meðalverðið þar nær líklega varla 20 mills! Vegna þess að þar er fullt af kexgömlum álverum sem fá skítbillegt rafmagn skv. gömlum raforkusamningum.
Enda er núna uppi mikil umræða t.d. í Quebec-fylki um hversu fráleitt verð álverin séu að borga fyrir verðmætt vatnsaflið þar. Margir Kanadamenn eiga æ erfiðara með að kyngja verðinu til álveranna þar, þegar fyrir liggur að nýjar vatnsaflsvirkjanir í Quebec þurfa verð upp á 50-100 mills til að standa undir fjárfestingunni með eðlilegri arðsemi! Þetta er enda orðið mjög heitt pólitískt mál þarna hjá ljúflingunum í Montreal og nágrenni. Ekki ólíklegt að stjórnvöld þar muni senn fara í markvissar aðgerðir til að þrengja að álverunum, sem þykja vera orðin ansið hressilega niðurgreidd af kanadískum almenningi. Umræðan í Kanada núna snýst um réttmæti þess að almenningur sé í reynd að niðurgreiða þessi örfáu störf í álverunum; niðurgreiðslur sem gera þetta að einhverjum dýrustu störfum landsins. Kunnugleg umræða?
Það er sem sagt hægt að reikna út meðalverð á raforku til álvera í heiminum, sem nú um stundir gæti verið nálægt 30-35 mills pr. kWh. Og það er gjörsamlega útí hött að miða við þetta meðalverð sem ásættanlegt verð þegar verið er að reisa nýjar virkjanir. Eina gagnið sem hafa má af "meðalverðinu" er að það má nota sem eins konar undirmálsviðmiðun; grunn þegar reiknað er hversu miklu hærra verðið frá nýju virkjuninni eigi að vera heldur en meðalraforkuverðið alræmda.

Það er varla til nokkur staður í heiminum þar sem ný virkjun gæti staðið undir fjárfestingunni, ef selja á raforkuna á umræddu meðalverði. Nema kannski með einni eða tveimur undantekningum; t.d. kann að vera fjárhagslega réttlætanlegt að gasvirkjun hjá orkuboltunum ægilegu í Katar eða Abu Dhabi gæti þolað svo lágt verð. A.m.k. eru horfur á að verð á gasi muni ekki fara hækkandi næstu árin vegna síaukins gasframboðs. Líklega eru ríki með aðgengilegar og risastórar gaslindir hin einu sem í dag geta boðið nýjum álverum dúndrandi hagstæða langtímasamninga.
Ástæðan fyrir því að gasríkin kunna að velja þessa leið er einfaldlega sú að ella þyrftu þau að umbreyta gasinu í LNG og sigla með það langar leiðir til viðskiptavina í t.d. Japan eða S-Kóreu. Það er dýrt og þess vegna getur borgað sig fyrir gasríkin að fá til sín álver, þó svo raforkuverðið verði einungis nálægt meðalverðinu - eða jafnvel lægra.
Eins á horfurnar eru á gasmörkuðunum núna er útlit fyrir að allur orkufrekasti iðnaður heimsins muni á næstu árum sækja villt og galið í gasið sem orkugjafa. Engu að síður er líka fullt af álverum út um allan heim, sem kunna að vilja að ná meiri hagkvæmni í rekstri með stækkun. Þess vegna er kannski ennþá áhugi fyrir álversframkvæmdum á Íslandi - ekki síst ef Ísland ætlar að kyngja því að vera meðalskussi þegar kemur að verðlagningu á raforku til álvera. Meðan íslenskir pólitíkusar vilja liðka fyrir því að byggðar séu blokkir í gamalgrónum sjávarplássum - fjölbýlishús sem lánastofnanir þurfa svo að leysa til sín þegar partíið er búið - eiga ný álver á Íslandi eflaust séns.
Staðreyndin er því miður sú að allir sem koma að raforkubransanum vita vel að ef litið er til ríkja þar sem bylting eða þjóðnýting vofir ekki yfir annan hvern mánuð, þá er Ísland það land sem hefur löngum boðið stóriðjunni hagstæðasta raforkuverðið. Það skýrist ekki bara af hógværum viðsemjendum fyrir hönd Íslands, heldur endurspeglar þetta auðvitað þá staðreynd að hér er mikið af ónýttu afli, framleiðslukostnaður hógvær og við erum fjarri öllum stórum mörkuðum. Íslenska þjóðin hefur fyrir löngu fullnægt eigin raforkuþörf og hefur enn sem komið er ekki þann möguleika að selja rafmagn til annarra landa, eins og t.d. Norðmenn gera í stórum stíl. Samningsstaðan hefur verið veik og þeir sem séð hafa um samningana virðast hafa haft lítinn áhuga á arðsemissjónarmiðum (þ.e. ef við erum einungis að fá meðalverð eða þaðan af lægra verð fyrir raforkuna), en gert þeim mun meira úr byggðasjónarmiðum og von um tímabundna efnahagsþenslu. Nema að verðið til álveranna hér sé 40-50 mills; þá er þetta tómur misskilningur í Orkubloggaranum og vart hægt að kvarta yfir raforkuverðinu.

Því miður er líklegra að iðnaðarráðherra hafi rétt fyrir sér og að hér sé greitt meðalverð - eða jafnvel lægra en það. Og ef það reynist rétt, þá er það einfaldlega skelfilegt. Þá erum við nefnilega að tala um meðalverð sem m.a. tekur tillit til fjölda gamalla álvera hingað og þangað um heiminn sem eru að kaupa raforkuna skv. eldgömlum og oft fádæma ósanngjörnum raforkusamningum. T.d. álver í Afríku og víðar í þróunarríkjunum sem byggð eru fyrir tilstilli fjármagns frá Alþjóðabankanum og eru í fjötrum pikkfastra orkuverðssamninga við álfyrirtækin. Sú saga er ekki fögur.
Og við erum líka að tala um að áliðnaðurinn hér á landi er með einhvern þann flottasta og hagkvæmasta búnað sem hægt er að hugsa sér - a.m.k. ef marka má yfirlýsingagleði forstjóranna um hreinleika og æpandi hagkvæmni íslensku álveranna. Það er auðvitað barrrasta hið besta mál að íslensku álverin séu með nýjasta og besta búnaðinn. En það ætti að minna okkur á að þessu nokkur af nýjustu og hagkvæmustu álverum heimsins hljóta auðvitað að greiða umtalsvert hærra raforkuverð en meðaltalið er í heiminum.

Þess vegna er niðurstaðan þessi: Íslensku álverin hljóta flest ef ekki öll að vera að greiða a.m.k. 40 mills fyrir hina nýju, grænu raforku. Og nýjasta álverið á Reyðarfirði hlýtur að vera að greiða u.þ.b. 50 mills. Annað væri úr öllum takti við veruleika áliðnaðarins í veröldinni. En hvað sem því líður, þá er kannski barrrasta hárrétt hjá Pétri Blöndal að það sé nóg komið af áli hér á Klakanum góða.
Að lokum vill Orkubloggarinn nefna að EF raforkuverðið til íslensku álveranna er lægra en 40-50 mills, þarf einfaldlega að vinna að því að hækka það sem allra fyrst. En til að unnt verði að hækka raforkuverð til stóriðjunnar hér umtalsvert, þá er algert lykilatriði að geta sýnt fram á samkeppni um orkuna. Það gerist sennilega ekki nema með því að leggja laufléttan háspennustreng yfir til Evrópu.
Þangað myndum við geta selt rafmagnið á "spot"; ekki á spottprís heldur beint inn á raforkukerfi Evrópu þar sem verðið er allt að 120 mills og jafnvel ennþá hærra (sbr. taflan hér til hliðar). Kostnaðurinn við slíkan rafstreng er ekki meiri en svo, að þetta myndi einfaldlega margborga sig. Er einhver ástæða til að bíða?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
7.3.2010 | 10:46
Hróðgeir Hauer og Cantarell

"I've seen things you people wouldn't believe. Attack ships on fire off the shoulder of Orion. I've watched c-beams glitter in the dark near the Tannhauser Gate. All those moments will be lost in time... like tears in rain. Time to die".
Þarna var vel mælt! Hjá honum Rutger Hauer alias Roy Batty. En nú virðist komið að leiðarlokum hjá öðrum höfðingja. Risinn Cantarell gæti nefnilega líka verið búinn að vera!
Öðruvísi mér áður brá. Í áratugi hefur Cantarell verið ein rosalegasta olíulind veraldar og malað Mexíkönum gull (við sem erum fædd um miðjan 7. áratuginn tölum um Mexíkana en ekki Mexíkóa!). Í huga Orkubloggarans er það skemmtilegasta við Cantarell þó hvernig þar sameinast heimur olíunnar, jarðsögunnar, geimvísindanna...og regindjúp tímans. Allt er hverfult og ekkert er eilíft!

Segja má að olíuævintýrið þarna við ljúfar strendur Karíbahafsins, skammt út af Júkatan-skaganum, eigi sér upphaf í einhverjum mestu hamförum sem jörðin hefur orðið fyrir. Þegar risaloftsteinn kenndur við Chicxulub skall á jörðinni fyrir um 65 milljónum ára og útrýmdi risaeðlunum.
Það er reyndar umdeilt hvort þessar ofboðslegu náttúruhamfarir voru nákvæmlega það sem leiddi til þess að riseðlurnar dóu út. En það var a.m.k. kominn tími á risaeðlurnar tiltölulega fljótlega eftir þennan ofsalega árekstur. Og eftir Chicxulub myndaðist þarna innhaf, þar sem gríðarlegt magn af lífrænum leifum safnaðist á botninn og varð undirstaðan að miklum olíulindum. Sú æpandi fríkaða jarðfræðiþróun sem þarna varð, olli því líka að eftir 65 milljón ár voru þessar lindir jafn aðgengilegar eins og skreppa í Ríkið eftir bjórkassa.

Árekstur Chicxulub og jarðarinnar varð undir lok tímaskeiðs sem kallað er Krítartímabilið en jarðlög frá þeim tíma eru víða mikilvæg uppspretta olíu nútímans. Það sem við vitum enn betur, er að fyrir tæpum fjörutíu árum var sextugur mexíkanskur sjómaður að nafni Rudesindo Cantarell að veiðum nokkuð langt utan við ströndina, á grynningum sem voru prýðileg fiskislóð. Og eins of stundum vill verða hjá einmana sæhákum, sem freista gæfunnar á miðum Mexíkóflóans, lenti hann Rudesindo í smá veseni. Ekki þó hákörlum - heldur urðu netin hjá honum af einhverjum ástæðum gegnsósa af einhverju fjárans olíuklístri.
Rudesindo þótti nóg um þennan óhroða og kvartaði undan þessu við kollega sína. Sagan barst frá fiskimönnunum og inn á skrifstofur Pemex - mexíkanska ríkisolíufélagsins sem fullu nafni kallast Petróleos Mexicanos. Þar á bæ ætluðu menn að leiða þetta rugl hjá sér, en svo ákváðu skrifstofublækurnar að senda jarðfræðing á svæðið til að kíkja á aðstæður.
Þetta um að menn hjá Pemex hafi ætlað að virða ábendinguna að vettugi er reyndar skáldaleyfi Orkubloggarans! En til að gera langa sögu stutta, þá reru sem sagt jarðfræðingar frá Pemex útá Flóann og þá kom brátt í ljós að hann Rudesindo Cantarell hafði hvorki meira né minna en rambað á eina allra stærstu olíulind heimsins! Og þá stærstu utan Persaflóans. Bara si sona.

Já - Mexíkó hafði dottið í lukkupottinn. Þarna spýttist upp olía af miklum krafti á sáralitlu dýpi og brátt kom í ljós að þar var á ferðinni ekkert minna en sannkölluð risamegalind. Olíulind sem reyndist hafa að geyma um 35 milljarða tunna á mjög afmörkuðu svæði (um 180 ferkm).
Þar að auki var allt þetta ofurgums undir svo miklum þrýstingi að snillingarnir hjá Permex náðu varla að stinga fyrsta rörinu niður þegar 300 þúsund tunnur sprautuðust upp fyrsta daginn - sem er þúsund sinnum meira en venjulega næst upp úr fyrstu borholunum á álitlegu olíusvæði! Eftir lauflétt stöðumat var talið fullvíst að sáraeinfalt yrði að ná þarna upp a.m.k. 18 milljörðum tunna af olíu - og jafnvel ennþá meiru eftir því sem tækninni fleygði fram og nýting olíulinda batnaði. Þarna undir sjávarbotninum var sem sagt allt löðrandi í olíu og um að ræða eina stærstu olíulind sem nokkru sinni hafði fundist í veröldinni. Enda fór svo að fljótlega gusaðist þarna upp margfalt meiri olía en nokkur Mexíkani hafði látið sig dreyma um - jafnvel í villtustu draumum hinna Rómönsku kappa.

Eftir á að hyggja má kannski segja að æsingurinn hafi tekið völdin af skynseminni hjá Mexíkönunum. Líkt og við Íslendingar könnumst svo vel við, frá t.d. síldarárunum og nýliðnu fjármála-góðæri. Eftir á að hyggja er margt sem bendir til þess að Mexíkanarnir hefðu átt að fara sér hægar í að dæla olíunni upp úr Cantarell. Njóta hennar betur og leitast við að fullnýta lindina, fremur en að setja þar allt á fullt.
Flumbrugangurinn olli því m.ö.o. að Cantarell - þessi risastóra olíulind -missti fljótlega dampinn. Þó svo líklega sé nú búið að ná þarna upp heilum 13 milljörðum tunna, er orðið augljóst að menn fóru of geyst. Það er að vísu fullt af olíu eftir, en hún liggur mjög dreifð og það verður því sennilega rándýrt að elta pollana uppi.
En hvað um það. Cantarell hefur skilað um 13 milljörðum tunna og olli algerum straumhvörfum í efnahagslífi Mexíkó. Upp úr 1980 voru brunnarnir á svæðinu orðnir tvö hundruð talsins og upp spýttust meira en 1 milljón tunnur af olíu á dag. Framleiðslan jókst jafnt og þétt. Til að auka tekjur landsins voru sífellt fleiri brunnar boraðir og alltaf var nægur þrýstingur til að olían frussaðist upp af sjálfu sér, rétt eins og í góðum draumi.

Fljótlega fór nú samt að bera á minnkandi þrýstingi og þegar líða fór á tíunda áratuginn byrjuðu sumir brunnarnir að hiksta. Þrýstingurinn í elstu brunnunum lækkaði hratt; skuggalega hratt að sumum fannst. Cantarell var ekki lengur hin eilífa sæla og nú voru góð ráð dýr.
Mexíkanarnir litu í kringum sig og uppgötvuðu að ýmsar olíuþjóðir með hnignandi olíulindir voru búnar að þróa nýja tækni til að örva lindirnar. Ein leiðin var að dæla köfnunarefni ofaní brunnana og með því móti lifnaði heldur betur yfir Cantarell. Það var um aldamótin að byrjað var á þessari dælingu - um sama leiti og blessaður kallinn hann Rudesindo Cantarell lést í hárri elli og framleiðslan tók á ný kipp upp á við.
Þetta var þó meira en bara að segja það; til að hressa Cantarell við þurftu Mexíkanarnir að byggja einhverja stærstu köfnunarefnisverksmiðju í heimi og slíkt apparat er ekki aldeilis ókeypis. En með aðstoð þessarar tækni jókst framleiðslan frá Cantarell hratt og sló nú hvert metið á fætur öðru. Á örfáum árum tvöfaldaðist framleiðslan og slefið lak úr vitum stjóranna hjá Pemex, sem með gróðaglampa í augum töldu sig óstöðvandi. Árið 2004 skilaði lindin 2,3 milljónum tunna á dag! Þar með var þessi magnaða olíulind orðinn næst öflugasta olíulind heims; hálfdrættingur á við arabísku ofurbombuna Ghawar, sem framleiðir um 5 milljón tunnur á dag.
Þetta var sem sagt sannkallað Öskubuskuævintýri þarna utan við strönd Karíbahafsins. Munurinn er bara sá að Ghawar hefur gubbað upp umræddu magni á hverjum einasta sólarhring í marga áratugi. Það breytir því þó ekki, að Cantarell hefur verið metin sem áttanda stærsta olíulind heims!

En því miður sprakk Cantarell á limminu eftir aðeins fáeina mánuði. Þetta æpandi magn árið 2004 reyndist vera hið endanlega hámark hjá Cantarell og árið 2005 dróst framleiðslan umtalsvert saman. Öllu verra var að samdrátturinn hjá Cantarell hélt áfram þrátt fyrir örvæntingafullar leiðir Pemexmanna til að þröngva olíunni upp - og hnignunin varð hraðari en flesta hafði órað fyrir. Nú rættust svartsýnustu spádómar Húbbert-kúrfunnar. Ein stærsta olíulind veraldar var byrjuð í dauðateygjunum og því ekkert minna en alheims Peak Oil yfirvofandi á hverri stundu.
Árið 2006 varð enn meira hrun hjá Cantarell og það hélt áfram næstu árin. Á liðnu ári (2009) var framleiðslan vel innan við 800 þúsund tunnur á dag eða einungis um fjórðungur af því sem var fimm árum áður! Nú fullyrða sumir að í lok 2010 muni Cantarell varla ná 500 þúsund tunnum pr. dag. Og að Mexíkanarnir megi jafnvel þakka fyrir ef þeim tekst að kreista eina einustu tunna þarna upp í árslok 2011!

Þetta eru auðvitað afleitar fréttir fyrir Mexíkanana. Það er ekki nóg með að stjórnvöld hafa farið illa með ágóðann af Cantarell. Heldur hafa sæmilega bjartsýnar spásagnir Pemex barrrasta alls ekki gengið eftir. Þegar mörgum þótti útlitið framundan farið að vera nokkuð svart árið 2008, fullyrtu stjórnendur Pemex að fyrirtækið væri komið yfir verstu hnignunina og þó svo búast mætti við minnkandi framleiðslu hjá Cantarell myndi jafnvægi nást árið 2012 með um 500 þúsund tunna framleiðslu pr. dag. Svo kom 2009 og í september það ár fór dagsframleiðsla Cantarell einmitt undir 500 þúsund tunnur - þó svo 2012 væri ennþá langt undan.
Nú segja stjórnvöld í Mexíkó að Cantarell sé u.þ.b. að ná jafnvægi og muni skila um hálfri miljón tunna á dag í fjölda ára. Á meðan muni finnast nýjar, flottar lindir úti á Mexíkóflóanum, þ.a. Mexíkó verð áfram risi í olíuframleiðslu. Það má svo sem vel vera að það finnist prýðilegar olíulindir innan lögsögu Mexíkó úti á djúpi Flóans - en dýpið þar er margfalt meira og vinnslan yrði langtum dýrari en hjá Cantarell. Og þó svo þarna finnist fljótlega stórar olíulindir myndi olían þaðan ekki fara að skila sér á markað fyrr en eftir a.m.k. áratug eða meira. Þar að auki er mexíkanska ríkið búið að mergsjúga Pemex gegnum tíðina, þ.a. fyrirtækið hefur ekki átt neitt afgangs til að ráðast í dýrar rannsóknir á djúpi Flóans og hefur nákvæmlega enga þekkingu á slíku. Í reynd eru Mexíkanar komnir í algera sjálfheldu og munu sennilega þurfa að galopna olíuiðnaðinn hjá sér fyrir útlensku olíufélögin, til að geta aukið framleiðsluna svo einhverju nemi.

Já - Mexíkanarnir voru full æstir í að dæla þessu svakalega olíugumsi upp og brenndu brýrnar að baki sér. Nú er svo komið að framleiðslan frá Cantarell er að hrapa og er hnignunin miklu hraðari en nokkur hafði búist við. Jafnvel þeir alsvölustu í bransanum eru agndofa yfir þessari dramatík. Það er einfaldlega svo að Cantarell virðist vera á síðustu dropunum - með skuggalegum afleiðingum fyrir efnahag Mexíko.
Þó svo olíuútflutningur nemi nú einungis um 10% af öllum útflutningstekjum Mexíkó, þá stendur olían undir næstum helmingi allra ríkisútgjaldanna! Pemex skilar m.ö.o. hátt í helmingi allra tekna ríkissjóðs og þar af kemur helmingurinn frá einungis tveimur olíulindum; Cantarell og nágranna hennar í Flóanum sem kallast Ku-Maloob-Zaap.

Þróunin hjá Cantarell fær ekki aðeins Mexíkanana til að tárast. Í Bandaríkjunum eru menn líka með böggum Hildar, því þetta mun þýða að Bandaríkin verða ennþá háðari Persaflóaolíunni. Pemex er nefnilega einhver stærsti innflytjandi á olíu til Bandaríkjanna. Til að setja þetta í eitthvert samhengi, má nefna að Pemex var til skamms tíma stærri olíuframleiðandi en ExxonMobil!
Sem fyrr segir, þá tala Pemexar um að jafnvægi komist brátt á Cantarell í um 400 þúsund tunnum. Þeir sem eru orðnir þreyttir á ruglinu í Pemex-stjórunum, benda á að ef menn horfi á línuritið sé einfaldlega langlíklegast að síðasta tunnan úr Cantarell muni skila sér upp á yfirborðið skömmu eftir næstu áramót. Cantarell-lindin sé búin að vera. Og til eru þeir sem telja að hrunið í Cantarell muni valda alvarlegri olíukreppu á allra næstu árum - og ekki síðar en 2012. Ekkert sé á borðinu sem geti mætt þeim rúmlegu milljón olíutunnum sem Bandaríkjamenn höfðu vanist að flytja inn frá Cantarell á degi hverjum og afleiðingin verði risastökk í olíuverði

Bölmóðarnir alltaf samir við sig. Kannski er samt vissara fyrir bæði Orkubloggarann og aðra síbrosandi sakleysingja að hlusta á slík aðvörunarorð. Cantarell er ekki neinn venjulegur pollur, heldur langmikilvægasta olíulind í Mexíkó og þar með í Ameríku allri. Við skulum minnast þess að á síðustu árum hefur Mexíkó verið næst stærsti olíuframleiðandinn á Vesturlöndum með um 3,5 milljón tunnur á dag; einungis Bandaríkin hafa framleitt meira (Bandaríkin framleiða rúmlega 9 milljón tunnur á dag og Kanada er með um 3,4 milljónir tunna). Þessi olíuframleiðsla Mexíkananna hefur skipað þeim í sjötta sætið yfir mestu olíuframleiðsluríki veraldarinnar, en nú eru horfur á að þeir detti hratt niður stigatöfluna.
Pemex ræður yfir allri olíuframleiðslu í Mexíkó og þeir sem hafa ferðast þar um vita að nánast allar bensínstöðvar eru reknar af Pemex. Engin leiðinda samkeppni þar á ferð. En Pemex hefur ekki fengið að halda gróðanum til að leita að nýjum olíulindum. Gosbrunnurinn í Cantarell blindaði stjórnmálamönnunum í Mexíkó sýn og Pemex hefur verið notað sem mjólkurkú fyrir arfaslaka efnahagsstjórnun.

Olíuauðurinn olli því að lengi vel var Pemex stærsta fyrirtækið í allri Rómönsku-Ameríku - og reyndar eitt af allra stærstu fyrirtækjum heims. Síðustu árin hefur hallað undan fæti og í dag hafa Brassarnir hjá Petrobras siglt framúr Pemex. Þar með er Pemex þó ekki orðinn að neinum dverg; er líklega tíunda stærsta olíufélag heims nú um stundir og enn inni á topp-50 hjá Fortune. En leiðin virðist því miður liggja niður á við.
Rétt eins og Pemex, er Cantarell líka fallin í annað sætið; skilar nú einungis næstmestu olíuframleiðslunni í Mexíkó. Í janúar á liðnu ári (2009) datt Cantarell úr efsta sætinu og þar trónir nú olíulindin með skemmtilega nafnið; Ku-Maloob-Zaap. Allra nýjustu tölurnar - tölur sem birtar voru nú í vikunni um janúarframleiðsluna - segja að Cantarell hafi skilað af sér 463 þúsund tunnum daglega. Það er 31% minna en janúar í fyrra (2009)! Til samanburðar þá var nýi methafinn, Ku-Maloob-Zaap, nú í janúar með um 850 þúsund tunnur. Svona illa er komið fyrir Cantarell. En ljúflingarnir sem starfa á olíupöllum Ku-Maloob-Zaap hafa verið í góðu stuði undanfarið, enda glottu þeir barrrasta í kampinn og veifuðu til nágranna sinna: "Adiós, Cantarell". Ouch!

Það er samt hreinlega afleitt fyrir mexíkönsku þjóðina að sjá svo hratt eftir olíutekjum sínum. Og eflaust veldur þetta forsetanum Felipe Calderon nokkru hugarangri. Sennilega er eina leiðin til að örva olíuframleiðsluna innan lögsögu Mexíkó að galopna landið fyrir fjárfestingu erlendra olíufyrirtækja, en það væri alger stefnubreyting í næstum sjótíu ára olíusögu Mexíkó. Orkubloggarinn man ekki betur en einkaréttur ríkisins sé þar tryggður í sjálfri stjórnarskránni. Þetta er sem sagt stórpólitískt mál og engan veginn víst að sátt náist um breytingar þar á meðal hinna stríðandi stjórnmálaafla í Mexíkó.
Og jafnvel þó svo að nýjar lindir kunni að leynast undir botni Mexíkóflóans innan lögsögu Mexíkó, yrði a.m.k. áratugur í að olía fari að skila sér þaðan. Cantarell er ekki nein venjuleg olíulind og áframhaldandi hnignun hennar mun því óhjákvæmilega hafa talsvert neikvæð áhrif á efnahagslífið í Mexíkó. Fram að því munu Meíkanarnir berjast af örvæntingu við að kreista upp þungaolíuna í Chicontepec norðaustur af hinni geggjuðu Mexíkóborg. Það er hægara sagt en gert - jafnvel þó svo erlent lánsfé streymi nú í þessar framkvæmdir frá Japönum, sem eru stærsta hagkerfi heimsins sem ræður yfir sama sem engum olíulindum. Fátt virðist geta bjargað efnahagshruni í Mexíkó nema að ný sannkölluð risalind finnist. En því miður var Cantarell einmitt síðasta sannreynda risalindin sem fannst í heiminum!
Vissulega er ennþá of snemmt að fullyrða að Cantarell sé síðasta risaolíulindin sem við munum finna hér á jörðu. En það er a.m.k. svo að á þeim fjórum áratugum síðan mexíkanski sjómaðurinn rambaði á þessa ofsalegu uppsprettu, hefur ekkert fundist sem jafnast á við hana. Þeir dagar eru því miður löngu liðnir að einmana fiskimenn eða fjárhirðar útí haga, sem gæta um nætur hjarðar sinnar, rambi á olíulindir eða annan fögnuð. Að vísu hafa Brassarnir þóst hafa fundið nýjar svaðalindur utan við Ríó, en það er á megadýpi og getur vart talist jafnast á við billegt megastöffið kennt við Cantarell. Heimurinn stendur frammi fyrir æ dýrari olíuvinnslu - sem er reyndar barrrasta hið besta mál. Af því það mun skapa sterkari hvata til að finna nýja og jafnvel ennþá betri orkugjafa.
Jamm - öðlingurinn Cantarell virðist vera á leið á líknardeildina. Þrátt fyrir að þessi risalind hafi ekki fundist fyrr en seint á olíuöldinni, er saga hennar líklega brátt öll. En rétt eins og framfarir í læknavísindum ná að viðhalda lífinu æ lengur í öldruðu fólki, mun tæknin eflaust ná að láta Cantarell skila slatta af olíu enn um senn. Það breytir því samt ekki að þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur, þá virðist olíulindin kennd við Cantarell södd lífdaga. Hún hefur upplifað glæstar vonir Mexíkós, ægifögur stjörnuhröp Karíbahafsins og óteljandi hitabeltisstorma. Kannski getur Cantarell sagt rétt eins og Roy Batty - og af sömu rósemi; "Time to die":
28.2.2010 | 11:52
Hverjum... bjöllurnar glymja
Það er mikil kúnst að stjórna stóru fyrirtæki. Að bera ábyrgð á því að hámarka arð eigendanna, uppfylla margvíslegar þarfir viðskiptavina og starfsfólks og um leið lágmarka áhættu fyrirtækisins. Þeir sem eru flinkir að ná öllum þessum markmiðum, þiggja gjarnan há laun fyrir. Eðlilega. Í dag ætlar Orkubloggið að velta aðeins fyrir sér hvernig Orkuveitu Reykjavíkur hefur tekist til í þessu sambandi - og líta þar sérstaklega til áhættunnar.
Fyrst örstutt um sögu Orkuveitunnar, sem er orðin meira en aldarlöng. Fyrirtækið á rætur sínar að rekja til þess þegar Vatnsveita Reykjavíkur var stofnuð árið 1909 og vatni var beitt um bæinn frá Gvendarbrunnum. Svo kom Rafmagnsveita Reykjavíkur árið 1921, þegar Elliðaárstöð var reist, og árið 1930 tók Hitaveita Reykjavíkur að veita vatni í hús frá Laugardalnum.
Þá voru ennþá nokkur ár í að Hemingway héldi til Spánar og skrifaði upp úr því snilldarverkið Hverjum klukkan glymur. En svo lauk heimsstyrjöldinni síðari, Nýsköpunartogararnir færðu aflann að landi, Viðreisnin byggði álver, fjöldi sauðfjár náði hámarki (um 900 þúsund í lok 8. áratugarins), fiskveiðikvótakerfið var fest í sessi, íslenskir skuttogarar héldu í Smuguna, Viðeyjarviðreisnin var mynduð og bankarnir einka(vina)væddir. Orku- og veitufyrirtækin á höfuðborgarsvæðinu vildu líka taka þátt í dýrðinni og byrjuðu að sameinast undir merkjum Orkuveitu Reykjavíkur. Loks var lagt af stað í draumaferðina í átt að Reykjavík Energy Invest. En svo... fór eins og fór.
Það var árið 1999 að OR varð til við sameiningu Rafmagnsveitunnar og Hitaveitu Reykjavíkur. Ári síðar (2000) rann Vatnsveita Reykjavíkur líka inn í OR. Síðan hafa ýmis önnur veitufyrirtæki í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur sameinast Orkuveitunni, svo sem hitaveiturnar í Þorlákshöfn, Hveragerði, Borgarfirði og á Bifröst. Loks gerist það árið 2004 að fráveiturnar á Reykjavíkursvæðinu, Akranesi og Borgarnesi urðu líka hluti af Orkuveitu Reykjavíkur. Og ekki er nema rétt rúmur mánuður síðan Orkuveitan eignaðist tvær síðastnefndu hitaveiturnar að fullu, þegar OR keypti 20% hlut ríkisins - og þar með réttinn til að nýta sjálfan Deildartunguhver næstu hálfa öldina.

Þarna skapaði sveitarstjórnarfólkið sannkallað risafyrirtæki á fáeinum árum. Fyrirtæki sem getur með góðu móti sagst hafa meira en hundrað ára sögu að baki. En hversu mikinn æpandi auð hafa allar virkjanirnar og öll þessi starfsemi skapað íbúum Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaganna?
Síðasta uppgjör OR er frá septemberlokum á liðnu ári (2009). Samkvæmt því var eigið fé OR þá metið 36,5 milljarðar króna. Hafði rýrnað um u.þ.b. 25% á síðustu 9 mánuðunum; minnkað úr rúmum 48 milljörðum króna í árslok 2008. Sé litið til ársloka 2007 - þ.e. meðan allt lék í lyndi - þá var eigið fé OR í árslok heilir 89 milljarðar króna. Í dag er eigið fé Orkuveitunnar sem sagt einungis rétt rúmlega 1/3 af því sem var fyrir tveimur árum síðan. Meira en 50 milljarðar króna fuku útum gluggana á Bæjarhálsinum á fáeinum mánuðum; 2/3 af öllu eigin fé fyrirtækisins er horfið.
Það segir manni þó kannski enn meira um stöðu OR að skoða hlutfall eigin fjár. Hlutfall eigin fjár skv. síðasta uppgjöri var 13,6%. Til samanburðar má nefna að eiginfjárhlutfall danska Dong Energi er yfir 30% og hjá norska Statkraft er þetta hlutfall um 50%. Þessi samanburður er Orkuveitunni óneitanlega óhagstæður, svo ekki sé fastar að orði kveðið. En þannig er auðvitað víða þegar ísland er borið saman við nágrannalöndin þessa dagana.

Það sorglega er að þessi rosalega virðisrýrnun Orkuveitu Reykjavíkur hefði ekki þurft að eiga sér stað. Bara ef skynsamleg áhættustjórnun hefði verið höfð í heiðri af hálfu fyrirtækisins.
Um 90% skulda OR er í erlendum gjaldmiðlum - meðan einungis um 20% teknanna er í erlendri mynt. Þar af leiðandi hafði mikil gengislækkun krónunnar í kjölfar bankahrunsins mjög slæm áhrif á afkomu fyrirtækisins. Ástæða þess að svo hátt hlutfall skuldanna var í erlendum gjaldmiðlum, mun hafa verið sú að stjórninni þótti íslensku lánin dýr. Vextirnir á íslenskum þóttu alltof háir og þess vegna voru umfangsmiklar virkjanaframkvæmdir fjármagnaðar með lánum í erlendum myntum.
Stjórnarmenn hafa væntanlega talið að þrátt fyrir áhættuna af skammtímasveiflum í gengi íslensku krónunnar, myndi OR ráða vel við slíkar sveiflur. Og að til lengri tíma litið væri mun hagstæðara að taka lán í erlendri mynt, heldur en í íslenskum krónum. M.ö.o. að gengisáhættan væri ekki meiri en svo, en að það væri um að gera að veðja á "ódýru" erlendu lánin. Hvort sú spásögn OR gengur eftir verður bara að koma í ljós, í fyllingu tímans.
Orkuveita Reykjavikur hefur í um hundrað ár nánast verið í einokunaraðstöðu á orku- og hitaveitumarkaði höfuðborgarinnar. Staða fyrirtækisins í dag getur varla talist vera i í takti við það sem búast mætti við. Skv. þessari frétt Morgunblaðsins, þá gæti tiltölulega lítil gengislækkun í viðbót riðið fyrirtækinu að fullu. Þar með myndi aldarsaga Orkuveitunnar enda í hroðalegri skuldasúpu með uppbrunnu eigin fé. Vonandi kemur ekki til þess.

Umrædda frétt Morgunblaðsins má reyndar túlka svo að ef gengisvísitalan rjúfi 240 stiga múrinn verði saga núverandi OR öll. Nú er gengisvístalan í um 231 stigum. Krónan þyrfti sem sagt einungis að lækka um u.þ.b. 4% til að gengisvísitalan fari yfir 240 stig og felli Orkuveituna. Svitni, svitn.
Við getum líka rifjað upp aðra nýlega frétt um Orkuveitu Reykjavíkur: "Búist er við að slæm staða Orkuveitunnar birtist í orkuverði". Þannig hljóðaði fyrirsögn í Morgunblaðinu 7.desember s.l. (2009) og er þar vitnað til greiningardeildar Arion-banka um erfiða fjárhagsstöðu Orkuveitunnar. Sambærilega frétt mátti sjá á vefnum Visir.is þennan sama dag og þar sagði m.a.: "Þessi staða hlýtur að sníða OR mjög þröngan stakk á næstu misserum nema nýtt eigið fé verði sett inn í fyrirtækið eða krónan styrkist verulega. Hvorugt virðist mjög líklegt til skamms og meðallangs tíma. Að því gefnu þarfnast það skýringa við hvernig félagið geti eitt og óstutt komið metnaðarfullum áætlunum um nýfjárfestingar og áframhaldandi vöxt í framkvæmd með aukinni skuldsetningu."
En hvað veldur því að eftir margra áratuga rekstur, nánast við einokunaraðstöðu á raforku- og hitaveitumarkaði Reykvíkinga, skuli OR vera svona illa stödd?
Augljósasta skýringin á þessari erfiðu stöðu OR er snögg gengislækkun krónunnar. Í því sambandi má hafa í huga að Orkuveitan mun lítið hafa sinnt gengisvörnum - og heldur ekki hafa gripið til varna gegn mögulegum lækkunum á álverði (umtalsverður hluti tekna OR er tengdur álverði, vegna raforkusölunnar til Norðuráls - en sjálf telur Orkuveitan að innbyggð gengisvörn sé í álverðinu vegna þess að lækkandi álverð leiði almennt til lækkandi vaxta). Stóra spurningin er kannski sú, af hverju Orkuveitan sýndi ekki meira aðgætni (minni áhættu) í fjárfestinga- og fjármögnunarstefnu sinni? Sérstaklega gagnvart erlendu lánunum.
"Það voru auðvitað viðvörunarbjöllur klingjandi alls staðar, ef þannig má að orði komast. Þetta var hins vegar bjölluhljómur sem enginn fór eftir." Þetta athyglisverða sjónarmið - að hlusta ekki á viðvörunarbjöllur - er haft eftir núverandi stjórnarformanni OR í nýlegu viðtali við Viðskiptablaðið. Þarna er stjórnarformaðurinn m.a. að vísa til þess þegar stjórn Orkuveitunnar ákvað sumarið 2008 að panta nýjar túrbínur fyrir litla 15 milljarða ISK.

Þetta gerðist vel að merkja hið æsilega sumar 2008. Sumarið þegar Orkubloggarinn var að dunda sér með "græna fingur" útí garði á fallegum júnídegi - og fékk þá að heyra það frá einum kunningja sínum sem sótti Orkubloggarann heim í garðinn - að um alla borg væru menn kófsveittir á fundum við að reyna að koma í veg fyrir að Glitnir yrði gjaldþrota. Og að líkurnar á gjaldþroti bankans væru satt að segja meiri en minni. Staðan væri mjög alvarleg.
Skömmu síðar fékk Orkubloggarinn líka að heyra að þá þegar hefðu þeir Húsasmiðjufélagarnir Hallbjörn Karlsson og Árni Hauksson rölt niður í Glitni og tekið þaðan allt sitt fé. Og bent stjórnendunum á að þeir væru með gjaldþrota banka í höndunum. Hvort þetta er sönn frásögn, veit bloggarinn ekki. En þeir Hallbjörn og Árni eru bráðgreindir strákar og því eins víst að þetta sé dagsatt.
Já - þetta var mikið stuðsumar. Á sama tíma og óróinn í kringum Glitni varð sífellt meira áberandi skrifuðu forráðamenn Orkuveitu Reykjavíkur bæði undir stærsta borunarsamning í sögu fyrirtækisins OG líka stærsta fjárfestingasamning sem OR hafði nokkru sinni gert. Þessi fjárfestingasamningur átti reyndar eftir að reynast all nokkuð dýrari en menn upphaflega ráðgerðu, sbr. þessi frétt RÚV frá því snemma í október á liðnu ári (2009) um háa bótagreiðslu af hálfu Orkuveitunnar, sem þurfti að biðja um seinkun á afhendingu túrbínanna.
Af einhverjum ástæðum virðist stjórn Orkuveitunnar ekki hafa talið neina ástæðu til að doka við, þetta sérkennilega sólríka svikasumar 2008. Stjórnin var bersýnilega ekki jafn meðvituð um kolsvarta stöðu í íslenska fjármálaheiminum, eins og garðgestir Orkubloggarans. Það gengur svona. Eða var stjórn OR kannski einfaldlega barrasta gjörsamlega búin að tapa sansinum fyrir áhættu?

Sumum kann að þykja sem Orkubloggarinn sé hér að setja sig á háan hest. Auðvitað sá hvorki Orkubloggarinn né aðrir það fyrir, að algert banka- og efnahagshrun væri yfirvofandi. En bæði bloggarinn og ýmsir fleiri töldu engu að síður að íslenska bankakerfið væri á hálum ís í ofboðslegri áhættufíkn sinni og gagnkvæmum eigna- og skuldatengslum. Tengsl sem helst minntu áhjónaband Tarantúlunnar þar sem hver kóngulóin étur aðra eftir örstutt unaðskynni.
Þess vegna var t.d. Orkubloggarinn löngu búinn að losa sig við öll sín íslensku hlutabréf. Og hefði betur ráðlagt öllum vinum og kunningjum að gera hið sama. Bloggarinn gat þó auðvitað ekki verið viss í sinni sök - hafði ekki kristallskúlu fremur en aðrir - og þurfti að láta sér nægja að meta sjálfur áhættuna og taka afleiðingunum af gjörðum sínum. Rétt eins og stjórnendur OR hljóta að taka ábyrgð á sínum ákvörðunum.
Ástæður þess að OR sá hvorki ástæðu til að verja sig gegn gjaldeyrissveiflum né sveiflum í álverði eru ekki augljósar. En að sögn stjórnarformanns Orkuveitunnar, þá kom þetta til vegna þess að stjórnendur OR ákváðu að fara að ráðgjöf fjármálafyrirtækisins Askar Capital - ráðgjöf þess efnis að gengisvarnir væru óþarfar. Þetta kom fram í samtali Orkubloggarans við stjórnarformann OR, þegar sá síðar nefndi hringdi nýverið í bloggarann og skammaði hann fyrir að halda því fram að stjórnarformaðurinn hefði farið á hljómleika með Eric Clapton!
Rétt skal vera rétt. Því vill bloggarinn hér með biðja stjórnarformanninn innilega afsökunar á því að hafa gefið í skyn í eldri færslu á Orkublogginu, að stjórnarformaðurinn hafi farið á Clapton-tónleika í boði OR. Núverandi stjórnarformaður OR hefur sem sagt aldrei farið á tónleika með Eric Clapton - og ennþá síður í boði OR. Og það má líka minna á að viðkomandi stjórnarformaður - Guðlaugur Sverrisson - tók ekki sæti í stjórn OR fyrr en seint í ágúst örlagaárið 2008. Hann átti því nákvæmlega engan þátt í ákvörðun OR um kaup á nýjum túrbínum í fyrirhugaða Hverahlíðarvirkjun. Aftur á móti var áðurnefndur risasamningur við Jarðboranir gerður í september 2008, þ.a. Guðlaugur kom að honum. Enda óttaðist hann ekki viðvörunarbjöllurnar í þjóðfélaginu, eins og nefnt var hér fyrr í færslunni.
Reyndar þykir Orkubloggaranum að stjórnendur hjá opinberum fyrirtækjum í almannaeigu, eins og OR, verði að hafa svolítið þykkan skráp og eiga að geta þolað gagnrýna umfjöllun. Umfjöllun sem jafnvel kann á stundum að vera ósanngjörn. Í alvöru talað. En það er önnur saga.

Sem fyrr segir kom gengislækkun krónunnar afar illa við Orkuveituna, en fyrirtækið hafði ekki gripið til neinna gengisvarna vegna ráðgjafar Askar Capital. Það fullyrti a.m.k. stjórnarformaður OR í áðurnefndu samtali við Orkubloggarann og við hljótum að treysta að þar segi hann satt og rétt frá.
Þetta er kannski ekki eina ástæðan fyrir erfiðri stöðu OR. Aðrir hafa bent á mikla uppbyggingu í veitukerfi OR vegna ofurbjartsýnna áætlana Reykjavíkurborgar um ný íbúðahverfi upp um fjöll og firnindi. Og svolítið sérkennilegra fjárfestinga OR í rækjueldi og sumarbústaðabyggðum. En stóra vandamálið núna er augljóslega fyrst og fremst tilkomið sökum þess að með lántökustefnu Orkuveitunnar var veðjað villt og galið á styrkingu íslensku krónunnar. Valið að 90% skulda OR yrði í erlendum gjaldmiðlum, meðan einungis um 20% af tekjum fyrirtækisins eru í erlendri mynt. Þetta kallar Orkuveitan sjálf reyndar "góða áhættudreifingu", sbr. þetta ágæta skjal. Jamm.

Það er barrrasta eins og Orkuveitan átti sig ekki á því að þessi fjármögnunarstefna fyrirtækisins skapar gríðarlega gengisáhættu. Áhættan af miklum og djúpum skammtímasveiflum íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum - sveiflum sem mjög erfitt getur verið að yfirstíga - ætti að blasa við öllum þeim sem horfast í augu við raunveruleikann og taka eðlilegt tillit til áhættu. Það er kannski skiljanlegt að almenningur sem tók slík lán hafi ekki áttað sig á þessari áhættu. En það hlýtur að vera eðlilegt að gera ríkari kröfur um víðtækan fjármálaskilning, til þeirra sem taka að sér stjórnunarhlutverk í svo stóru og umsvifamiklu fyrirtæki.
Hvað um það. Það fór sem sagt svo að sumarið 2008 ákvað stjórn Orkuveitunnar að ráðast í einhverjar mestu framkvæmdir í sinni sögu. Stuttu síðar rættist því miður það sem Orkubloggaranum var sagt yfir garðverkunum síðla í júní 2008: Glitnir fór á hausinn og allt heila klabbið með. Krónan hrundi, skuldir Orkuveitunnar ruku upp og eigið fé fyrirtækisins þurrkaðist að verulegu leyti út. Þar að auki þurfti svo Orkuveitan að borga glás fyrir að fá afhendingu á túrbínunum seinkað; gott ef það var ekki nálægt heilum milljarði króna sem þar fóru fyrir lítið.

Orkuveitan ber sig þó vel, sbr. þessi yfirlýsing fyrirtækisins um "Nokkrar staðreyndir um fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur". Þar segir m.a. að Orkuveitan eigi mun meiri eignir en kemur fram í efnahagsreikningi fyrirtækisins, sökum þess t.d. að umtalsverður hluti allra hitaveituborholanna hafi þegar verið afskrifaður í reikningum Orkuveitunnar. Þá sé m.a. verðmæti vörumerkis OR ekki tekið inn í efnahagsreikninginn (sic) og að auki ýmsar lóðir og lendur. Skv. þessu sé sem sagt eigið fé fyrirtækisins umtalsvert meira en tölurnar segja til um.
Í umræddri yfirlýsingu segir einnig að tekjur fyrirtækisins standi undir greiðslu vaxta og afborgana allra langtímaskulda, jafnvel "þó gengi íslensku krónunnar falli niður í 260 stig", þ.e.a.s. þó svo gengisvísitalan fari í 260. Sem fyrr segir, þá stendur hún núna í rúmlega 230 stigum. Samkvæmt þessu er OR með u.þ.b. 11,3 prósenta-borð-fyrir-báru nú um stundir, ef svo má að orði komast. En hvað gerist ef krónan lækkar um þessi rúmu 11%? Þá myndi Orkuveitan væntanlega lenda í greiðslufalli.
Orkuveitan stendur frammi fyrir því að hafa tapað gríðarlega miklum fjármunum á stuttum tíma, vegna fjárfestinga- og fjármögnunarstefnu fyrirtækisins. Þetta er einfaldlega staðreynd - þó svo fyrirtækið kunni að ráða við afborganir af lánum sínum meðan aðstæðurnar versna ekki enn frekar. En jafnvel þó svo gengisvísitalan færi í 240, 250, 260 eða þaðan af verra, mun OR auðvitað ekki fara í þrot. Áður en til þess kæmi myndi Reykjavíkurborg væntanlega geta bjargað málunum. Með fjármagnsinnspýtingu - á kostnað skattgreiðenda. Eða að Orkuveitan reddi sér sjálf, með hækkunum á orkuverði til almennings og innlendra fyrirtækja.
Orkuveitan hefur ýmsar leiðir til að rétta úr kútunum - en það verða væntanlega skattgreiðendur sem munu borga brúsann. Svo munu pólitíkusarnir rífast eitthvað um þetta í næstu borgarstjórnarkosningum og meira eða minna sama fólkið verða kosið þar til valda á ný. Dásamlegt. Í reynd er Orkuveitan þannig séð í fínum málum! Enda hafa borgaryfirvöld ekki séð neina ástæðu til að hræra í stjórn fyrirtækisins.

En þetta þarf vissulega ekki að fara svona illa. Kannski fer Orkuveitan brátt að hjarna við og smám saman á ný að byggja upp hina glötuðu eiginfjárstöðu og vinna upp tapað fé borgarbúa. Um skeið hefur það hangið yfir fyrirtækinu að hafa sumarið 2008 pantað nýjar túrbínur í Hverahlíðarvirkjun - án þess að hafa haft kaupanda að orkunni. Eftir bankahrunið haustið 2008 ákvað OR að fá afhendingu á þessum túrbínum frestað og mátti punga talsvert hressilega út fyrir það. Ennþá meiri refsigjöld myndu fylgja því að afpanta túrbínurnar. Þess vegna hefur Orkuveitan væntanlega eytt síðustu misserunum í það að leita logandi ljósi að kaupenda a orkunni. Og líklega ekki beint verið í neinni súper-samningsstöðu um að fá sérstaklega gott verð fyrir raforkuna frá Hverahlíðinni.
Kannski er kaupandinn nú fundinn. Kannski - kannski ekki. Fyrir stuttu birtist a.m.k. frétt um að orkan frá Hverahlíðarvirkjun eigi að fara til sólarselluverksmiðju, sem muni rísa í nágrenni Þorlákshafnar. Þarna er að vísu ekki um bindandi samning að ræða. Ennþá er allsendis óvíst að þessi versmiðja Eyþórs Arnalds og félaga muni verða að veruleika. En þetta eru engu að síður góðar fréttir - í þeirri mjög svo þröngu stöðu sem Orkuveitan er. Auðvitað að því gefnu að orkuverðið sé nógu hátt til að skila viðunandi arðsemi af þessum fjárfestingum Orkuveitunnar.
Ekki vitum við hvað OR hefur hugsað sér að fá fyrir raforkuna frá Hverahlíðarvirkjun. Þetta síðast nefnda leiðir hugann að fréttum um nýja stefnu Landsvirkjunar. Þar virðast heldur betur blása ferskir vindar þessa dagana. Nýr forstjóri LV mun nú hafa tilkynnt að Landsvirkjun birti senn upplýsingar um það hvaða verð einstakar atvinnugreinar á Íslandi borga fyrirtækinu fyrir raforkuna. Það var löngu tímabært. Auðvitað eiga íslensku orkufyrirtækin að hætta þessum feluleik með orkuverðið til stóriðjunnar.
Það verður fróðlegt að bera langþráðar tölurnar frá Landsvirkjun saman við hvað t.d. stór iðnfyrirtæki borga fyrir raforkuna í öðrum vestrænum löndum. Því miður er hætt við því að þá bregði þjóðinni nokkuð í brún. Og muni þá sjá svart á hvítu að raforkusalan til stóriðjunnar á Íslandi hefur lítið sem ekkert með alvöru bissniss að gera. Nema auðvitað fyrir stóriðjuna, sem hér greiðir kannski svona 1/3 af því verði sem sambærileg fyrrtæki greiða í nágrannalöndum okkar sitt hvoru megin Atlantshafsins.
Vandamál íslensku orkufyrirtækjanna er skortur á samkeppni um orkuna. Meðan slík samkeppni er ekki fyrir hendi, þ.e.a.s. lítil eftirspurn, er ekki raunhæft að almennilegt verð fáist raforkuframleiðslu sem er langt umfram raforkuþörf þjóðarinnar sjálfrar í sínum daglegu störfum. Hvert einasta stóriðjufyrirtæki hefur að sjálfsögðu notfært sér þennan veikleika íslensku orkufyrirtækjanna; veikleikann sem felst í því hversu fáir kaupendur eru að orku frá nýjum virkjunum. Þess vegna hafa stóriðjufyrirtækin verið að fá orkuna á verði, sem annars staðar á Vesturlöndum myndi annað hvort kallast spottprís eða gjafverð.
Orkubloggaranum þykir líklegt að með nýjum forstjóra Landsvirkjunar muni stefna þess ágæta fyrirtækis breytast talsvert. Að þar verði sett í forgang vinna með það að markmiði að auka eftirspurn eftir íslenskri raforku - stöðugri og endurnýjanlegri orku sem byggir á þekktri og löngu fullreyndri tækni.

Þar kemur ýmislegt til skoðunar. T.d. markvisst kynningarstarf sem ekki byggist á gömlu subbutuggunni um "lowest energy prices", heldur t.d. "green baseload electricity produced with known tecnology, focusing on ambitious environmental responsibility". Og svo auðvitað að dusta rykið af hugmyndum um rafstreng til Evrópu. Þar hafa orðið ofboðslegar framfarir í jafnstraumstækninni á allra síðustu árum. S.k. Ultra High Voltage Direct Current strengir eru einhver hljóðlátasta en um leið heitasta tæknibyltingin í orkugeiranum það sem af er þessari öld. Og skapar frábæra möguleika fyrir Evrópu til að minnka þörf sína fyrir rússnesk gas og þess í stað bæði stórauka eigin framleiðslu á grænni raforku - og kaupa orku frá svæðum sem til þess hafa þótt of fjarlæg. T.d. orku frá Íslandi!
UHVDC er svo sannarlega einhver mesta ógnin sem nú steðjar að "íslensku" álverunum. Nema þau taki upp á því að vilja borga alvöru verð fyrir íslensku raforkuna. Til að ná slíku fram er kannski ekki nóg að Landsvirkjun ein breyti um stefnu. Orkuveita Reykjavíkur þarf einnig að vera með í því að gera íslenska raforku að almennilega arðsamri framleiðsluvöru.
24.2.2010 | 08:18
Askja Energy
Orkubloggið færir út kvíarnar.
Á Facebook-síðu Orkubloggsins birtast ýmsar íslenskar orkufréttir. Auk þess sem þar eru rifjaðar upp eldri færslur af Orkublogginu.
Á nýrri Facebook-síðu, Askja Energy, birtast alþjóðlegar orkufréttir, þ.e.a.s. áhugaverðasta orkufrétt vikunnar. Væntanlega oftast úr enskumælandi fjölmiðlum. Bæði íslenskir og erlendir orkuáhugamenn eru að sjálfsögðu velkomnir að fylgjast með!
21.2.2010 | 23:55
Ljúf og sæt í Cushing

Þegar Íslendingar heimsækja Vesturheim langar marga þeirra mest að fara til Graceland við Memphis, Tennessee. Orkubloggarinn getur vel skilið það, enda fáir sem jafnast á við sjálfan konunginn Elvis Presley. En lesendur Orkubloggsins hljóta þó að nota tækifærið - þegar búið er að láta mynda sig framan við Graceland - að halda all nokkuð vestar. Lengra inn á sléttur Bandaríkjanna. Til Cushing, Oklahoma.
Það er óneitanlega magnað að smábær sem fæstir hafa nokkru sinni heyrt nefndan á nafn - vesælt átta þúsund manna krummaskuð inni á sléttum Oklahóma - skuli vera einn af mikilvægustu brennipunktum hins alþjóðlega olíumarkaðar. Af íbúunum átta þúsund eru reyndar um eitt þúsund fangar, í fangelsinu þarna sem er einn mikilvægasti atvinnurekandi bæjarins! Þannig að hinir raunverulegu íbúar Cushing eru einungis um sjö þúsund. Ekki ósvipað eins og Selfoss.

Í eina tíð voru slétturnar umhverfis Cushing þaktar olíuturnum. En þegar lindirnar fóru að þverra og nýjar stórar olíulindir fundust í Suðurríkjunum og víðar um Bandaríkin, minnkaði olíuvinnslan í Oklahóma og smátt og smátt hurfu olíuturnarnir umverfis Cushing. Reyndar hafa olíuasnar á ný haldið innreið sína inn á akrana við Cushing, vegna hækkandi olíuverðs. En sú framleiðsla skiptir ekki sköpum - nema þá kannski fyrir bændurna sem eiga landið. Hið ljúfa olíulíf í Cushing hefur þróast í allt aðra átt.
Um áratugaskeið hefur Cushing nefnilega verið staðurinn þar sem vel flest olíusvæði Bandaríkjanna tengjast. Eins konar olíugatnamót Bandaríkjanna. Þarna mætast í mikilli spagettíflækju stórar olíuleiðslur frá sléttunum bæði austan og vestan Cushing, sunnan frá Texas og Mexíkóflóanum og allra nýjustu rörin tengja Cushing við sjálft olíusandsullið norður í Kanada. Þarna u.þ.b. klukkutímaakstur austur af Oklahómaborg er sem sagt hvorki meira né minna en einn mikilvægasti strategíski staðurinn í öllum bandaríska olíuiðnaðinum.

Það var ekki sérstök meðvituð ákvörðun sem upphaflega olli því að Cushing varð eins konar hjarta bandaríska olíuiðnaðarins. Þetta bara gerðist eiginlega alveg stille og roligt. Svæðið umhverfis Cushing var eitt af fyrstu olíuvinnslusvæðunum í Bandaríkjunum og varð þá fljótlega þekkt fyrir mikinn fjölda olíuhreinsunarstöðva. Þess vegna var nánast borðleggjandi að leggja leiðslu til Cushing frá sérhverju nýju olíusvæði; þar var þægilegur aðgangur að olíuhreinsunarstöðvum sem eru jú algert lykilatriði í því að olían verði að neysluvöru.
Svo þegar menn byrjuðu að versla með olíusamninga í kauphöllinni í New York þurfti að koma á samræmi með samningana. Slíkir samningar fela í sér rétt til ákveðins magns af ákveðinni tegund af olíu til afhendingar á ákveðnum tíma og á ákveðnum stað. Og þá var ákveðið að afhendingarstaðurinn yrði... Cushing.

Já - lesandi góður - þegar þú smellir þér á Nymex og kaupir t.d. samning sem hljóðar upp á 10.000 tunnur af olíu til afhendingar eftir 3 mánuði, þá væri fremur ópraktískt að fá allt gumsið sent heim í póstkröfu. Og jafnvel þó svo þú hafir kannski alls ekki haft í huga að fá nokkru sinni umráð yfir olíunni, sem samningurinn hljóðar upp á, heldur sért eingöngu að veðja á að olían hækki og hyggist svo selja samninginn með hagnaði eftir einn eða tvo mánuði, þá þarf að vera svo um hnútana búið að olían sem þar er kveðið á um, verði til og fyrir hendi á ákveðnum fyrirfram ákveðnum stað á þeim tíma sem olían á að skipta um hendur skv. samningnum. Það að allir samningarnir séu staðlaðir og kveði á um tiltekinn sameiginlegan afhendingarstað er ekki bara til að spara "póstkröfukostnaðinn". Heldur fyrst og fremst til að unnt sé að vera með eitt samræmt verð á allri olíunni, sem er jú framleidd hingað og þangað um Bandaríkin. Þetta var snjöll lausn til að skapa tiltölulega einfaldan risamarkað með þessa ljúfu hrávöru.
En það er ekki nóg að vera með einn sameiginlegan afhendingarstað. Sérhver olíutunna þarf líka að innihalda nokkurn veginn samskonar olíu. Olía er ekki bara olía - hún er af mjög misjöfnum gæðum og eiginleikum. Í Bandaríkjunum er algengasta olían s.k. West Texas Intermediate (WTI), sem er fremur þunnfljótandi, eðlislétt olía með lágt brennisteinshlutfall (minna en 0,5%). Þegar brennisteinshlutfallið er svo lágt er talað um að olían sé sæt - en ekki súr. WTI-olían er sem sagt ákveðin gerð eða staðall af olíu og er upp á ensku kölluð light sweet crude. Eða ljúfsæt hráolía á Orkubloggsku. Ljúf OG sæt. Gæti varla hljómað betur?

Þegar fjárfestar kaupa eða selja olíusamning á Nymex eru þeir sem sagt að eiga viðskipti með réttinn til að sækja tiltekið magn af svokallaðri West Texas Intermediate olíu (WTI) til Cushing á tilteknum degi í framtíðinni. Samningar af þessu tagi kallast futures contracts eða framtíðarsamningar upp á íslensku. Og það eru viðskipti með slíka samninga sem hafa vaxið með ægihraða síðustu árin og ekki síst verið draumastaður spákaupmanna.
Um viðskipti með slíka olíusamninga gilda sömu reglur og um alla aðra futures - reglur sem flestir lesendur Orkubloggsins líklega þekkja í þaula. Vert er að hafa í huga að veltan með olíusamningana á Nymex er auðvitað margfalt meiri heldur en sem nemur allri olíunni á tönkunum í Cushing. Við getum ímyndað okkur að verið sé að byggja tíu stykki af húsum sem eiga að afhendast eftir ár og kosta þá 50 milljónir stykkið. Á þessum tólf mánuðum fram að afhendingu skiptir kaupsamningur um hvert hús margoft um hendur, þ.a. á afhendingardaginn er veltan með húsið kannski orðin samtals 3.000 milljónir (ef samningurinn hefur að meðaltali skipt um hendur fimm sinnum í hverjum mánuði). Það væri góður bissness fyrir fasteignasalana - og af sömu ástæðu eru olíuviðskipti í formi futures afbragðssnjöll uppfinning verðbréfasalanna á Wall Street.

Framtíðarsamningar eru samt ekki bara spákaupmennska. Þvert á móti nýtast þeir líka þeim sem vilja tryggja sér að fá olíu á ákveðnum tímapunkti í framtíðinni á fyrirframákveðnu verði. Það getur skipt miklu við að draga úr áhættu, þegar menn nýta þessi viðskipti í þeim tilgangi. Það er sem sagt langt frá því að futures séu bara eitthvert brask í stíl við Vegas.
En hafi einhverjir lesendur Orkubloggsins nú smitast af þeim spenningi að græða á olíuviðskiptum er rétt að vara þá sömu við. Þegar menn leika sér með futures er auðvelt að græða - en ennþá auðveldara að tapa geysilegum fjárhæðum á örskotstundu. Þess vegna er vissara þegar menn "kaupa olíu" með þessum hætti að setja inn sölutilboð sem verður virkt við tiltölulega hóflega lækkun. Þannig tryggir maður að tapið verði viðráðanlegt - ef verðþróunin fer ekki á þann veg sem skyldi.

Á Nymex er auðvitað ekki bara verslað með olíusamninga í formi futures. Olíuviðskipti með valrétti (options) eru t.d. mjög algeng. Og sumir spákaupmennirnir láta sér ekki nægja að versla með framtíðarsamninga eða valréttarsamninga um olíu; þeir sem eru vissir um að olía muni senn hækka umtalsvert í verði og ætla sér að njóta ávaxtanna þegar að því kemur, halda gjarnan í olíuna. Og geyma hana þá oft í Cushing. Eða þá í olíuskipum, sem liggja við akkeri einhvers staðar um veraldarhöfin.
Þetta síðastnefnda er enn ein tegund af spákaupmennsku, sem reyndar hefur verið mjög áberandi síðustu misserin. Er nú svo komið að hátt í 10% af öllum olíuskipaflotaheimsins liggur fullur af olíu í eigu spákaupmanna, sem bíða þess að verðið hækki. Þessir kaupmenn eru ekki bara einhverjir nettir braskarar útí bæ; þarna eru líka á ferðinni bæði olíuframleiðendurnir sjálfir og líka fjölmargir stórir og þekktir fjárfestingabankar og vogunarsjóðir, eins og t.d J.P. Morgan o.fl.
Þessar miklu birgðir af olíu þurfa reyndar alls ekki bara að tákna von braskaranna um að olíafatið fari brátt að hækka í verði. Þvert á móti kann þetta að benda til offramboðs - hluti þeirra sem eru að geyma olíuna eru hugsanlega að reyna að minnka framboðið og koma þannig í veg fyrir snögga verlækkun. Kannski til að vernda stórar og áhættusamar stöður sem þeir hafa tekið í olíusamningum á Nymex!
Það eru sem sagt engar augljósar eða sjálfsagðar ástæður sem unnt er að grípa til þegar skýra þarf olíuverð og/eða olíubirgðastöðu á hverjum tíma. Þó svo sérfræðingar þykist ávallt hafa skýringar á reiðum höndum, er framtíðin á olíumörkuðunum í reynd hulin þykkri þoku og enginn veit hvað mun birtast úr sortanum. Á olíumörkuðunum er enginn óhultur!

Skylt er að geta þess líka hér, að viðskipti með olíusamninga á Nymex lúta ekki eingöngu að WTI-olíu til afhendingar í Cushing. Þar er líka hægt að kaupa olíusamninga um annars konar olíu, eins og t.d. evrópska Brent. En bandaríski WTI-standardinn er þó algengastur á Nymex, enda fellur mestöll bandaríska olían þar undir. Inní þetta allt blandast svo nýjasta viðmiðunin; Argus Sour Crude Index (ASCI) sem blessaðir Sádarnir "fundu upp" á liðnu ári (2009). Og nota nú í stað þess að miða við bandaríska standardinn (WTI). Olíumarkaðurinn verður sífellt margbrotnari. En stóra breytingin mun þó kannski ekki verða fyrr en Aröbunum og/eða Persunum tekst að koma olíuviðskiptum úr dollurum og í einhvern annan gjaldmiðil. Líkurnar á að það samsæri takist eru þó varla miklar.
Ástæða þess að Nymex valdi Cushing sem afhendingarstað vegna WTI-olísamninga sem fara um þennan ljúfa hrávörumarkað, var einfaldlega sú að þangað lágu allar leiðir olíunnar í Bandaríkjunum. Það var barrrasta einfaldast að Cushing yrði hinn staðlaði afhendingarstaður.

Og eftir því sem spákaupmennska með olíu jókst fjölgaði tönkunum hratt við Cushing. En þó svo olíugeymarnir umhverfis Cushing séu lykilatriði fyrir olíumarkaðinn á Nymex, er það ekki eina ástæðan fyrir risastórum olíutönkunum þar. Cushing er ekki bara birgðastöð heldur líka mestu olíuleiðslu-gatnamót Bandaríkjanna. Hvorki meira né minna en 75% allrar þeirrar olíu sem framleidd er innan lögsögu Bandaríkjanna rennur um Cushing-leiðslurnar! Þær eru því miður flestar grafnar niður, þ.a. við getum ekki notið þess að horfa á þetta undarlega olíuröra-spagettí. En einmitt vegna þess hversu olíuumferðin um Cushing er ofsaleg, hafa yfirvöld vakandi auga með öllu saman. Sumir hafa reyndar nokkrar áhyggjur a því að öryggisgæsla við Cushing sé ófullnægjandi og óttast að olíuleiðslurnar eða risastórir olíutankarnir sem þarna eru í hundraðavís verði fyrir árásum hryðjuverkamanna. Líklega er ekki skynsamlegt að vera með Berbaklút á höfðinu, ef maður ætlar að stoppa í Cushing og fá sér sossum eins og einn safaríkan hamborgara. Menn eru taugaveiklaðir og geta freistast til að skjóta fyrst og spyrja svo.

Þó svo Nymex-samningarnir miði við það að olían sé afhent í Cushing, er það ekki á ábyrgð Nymex. Þarna gilda sömu lögmál og í öðrum viðskiptum; kaupandinn treystir því einfaldlega að seljandi afhendi honum vöruna á réttum stað og á réttum tíma. Í dag er staðan reyndar sú að meðan birgðageymslurnar í Cushing geta líklega samtals geymt rúmlega 40 milljón tunnur af olíu, er heildarumfang olíusamninganna á Nymex í dag um 130-140 milljón tunnur. Það þýðir þó ekki endilega að allir geymarnir í Cushing séu núna stútfullir og allt farið að flæða uppúr. Hverju sinni er alltaf nokkuð langt í umsamda afhendingu á mest allri olíunni skv. Nymex-samningunum um WTI sweet light crude. En þetta rosalega misvægi er samt kannski góð vísbending um að spákaupmennirnir séu hugsanlega komnir langt fram úr hinum raunverulegu og jarðbundnu lögmálum framboðs og eftirspurnar. Sem gæti leitt til þess að olíuverðið gefi hressilega eftir, þegar líður á árið (2010). Kannski.
Í reynd eru olíuviðskipti orðin svo flókin og ógegnsæ, að það er nánast útilokað að spá rétt tvisvar í röð um þróun olíuverðs. Olíubirgðir í Bandaríkjunum á hverjum tíma - stuðpúðinn sem gefur til kynna hvort Bandaríkjamenn séu líklegir til að auka eða minnka innflutning sinn á næstu mánuðum - hefur vissulega ennþá mikil áhrif á það hvort menn vilja kaupa eða selja samninga sína um olíu til afhendingar eftir nokkra mánuði. En það er vart ofmælt að umfang þessara viðskipta með olíu framtíðarinnar hefur vaxið svo hratt að hætta á bólu- eða blöðrumyndun hefur margfaldast frá því sem var fyrir tíu eða fimmtán árum. Fyrir vikið telja margir sívaxandi líkur á miklum sveiflum í olíuverði. Og þegar fjárfestingasjóðir taka stór veðmál með olíuna, eins og virðist hafa gerst á síðustu mánuðum, getur snögg dýfa jafnvel riðið einhverjum þeirra að fullu.

Það virðist a.m.k. augljóst að Cushing er lengur sá cushion sem hægt er að treysta á. Svo Orkubloggarinn hætti sér útí laufléttan orðaleik á erlendri tungu. Og í reynd veit enginn hvaða staða er á birgðatönkunum í Cushing! Fyrirtækin sem eiga og reka olíutankana í Cushing, gefa yfirleitt ekkert upp um birgðastöðuna. Og það er varla að menn viti einu sinni hversu miklu af olíu unnt er að troða í alla þessa risatanka. Það er þó einhvers staðar í kringum eða rúmlega 40 milljón tunnur af olíu. Á verði dagsins væri verðmæti fullra olíubirgðastöðva í krummaskuðinu Cushing sem sagt um 3 milljarðar USD. Geri aðrir smábæir betur.

Sé mikið af olíu í Cushing álíta margir að það stafi fyrst og fremst af dræmri eftirspurn eftir olíu. Sem sé þá vísbending um að verðið fari senn lækkandi. Sé allt tómt í Cushing sé það aftur á móti til marks um umframeftirspurn, sem muni toga verðið upp. Í reynd virðist sem þessar vesælu 40 milljón tunnur sem geymarnir í Cushing geta umlukið - sem jafngildir rétt rúmlega 2ja daga olíunotkun í Bandaríkjunum - hafi hreint fáránlega mikil áhrif á þróun olíuverðs. Þetta er að vísu umdeilt og sumir vilja meina að Cushing skipti ekki lengur neinu máli. En aðrir telja að til skemmri tíma snúist olíuverðið á Nymex nánast eingöngu um það sem spákaupmennirnir lesa út úr meintri birgðastöðu í Cushing. Dæmi hver fyrir sig, en Orkubloggaranum hefur sýnst að meint birgðastaða í Cushing hafi ennþá mikil áhrif á verðið á Nymex. En það er vissulega útí hött að skitnar 40 milljón tunnur af olíu geti þannig stýrt verðinu í öllum heimsins olíuviðskiptum, sem nema meira en 2,5 milljörðum tunna í mánuði hverjum um allan heim. Þetta er skrítin veröld.

En þetta snýst allt meira eða minna um það hvort vísbendingar séu um minnkandi þörf Bandaríkjanna fyrir olíu eða hvort aukin eftirspurn sé þar líklegri. Bandaríkin nota næstum því 25% af allri olíu sem brennd er í heiminum á degi hverjum og eru langstærsti markaðurinn. Þess vegna hefur eftirspurnin í Bandaríkjunum og birgðastaðan í Cushing svo mikil áhrif á olíuverð í heiminum öllum.
Sökum þess að tölur um birgðastöðuna í Cushing liggja ekki álausu, leita menn ýmissa aðferða til að reyna átta sig á hvað sé að gerast þarna úti á sléttunni. A.m.k. þeir spekúlantar, sem telja að olíumagnið í Cushing sé einhver skýrasta vísbendingin um það hvort olíuverð fari upp eða niður. Ein aðferðin er sú að skoða verðþróunina á evrópskri Brent-olíu annars vegar og bandarískri West Texas Intermediate (WTI) hins vegar. Eftir því sem premíumið á Brent-olíuna eykst m.v. WTI, telja margir auknar líkur á að allt sé að verða stútfullt í Cushing, þ.e. að offramboð sé að myndast í Bandaríkjunum. M.ö.o. að spákaupmennirnir hafi farið offari í kaupum sínum á olíu og verðlækkun sé yfirvofandi.

Þetta premíum hefur einmitt vaxið talsvert undanfarið og það eru ein rök fyrir því að olía hljóti að lækka umtalsvert innan tíðar. Menn vita ekki fyrir víst hvað það er sem veldur misvæginu milli WTI og Brent, en sumir sjá þarna á ferðinni hreint svaðalega offramleiðslu. Og telja að það sem haldi verðinu á Brent svona háu, sé að þar séu menn á ferðinni sem treysta sér ekki að "gefa" olíuna til olíuhreinsunarstöðva (sem vilja ekki borga nema skít og kanil nú þegar bensínnotkun dregst saman) og setji olíuna þess í stað um borð í draugatankskip í von um að upp renni betri tíð með blóm í haga. Önnur útfærsla af þessu, þ.e. ástæða þess að allir tankar og tankskip út um heiminn fyllast skyndilega af olíu, þarf þó alls ekki að vera beint offramboð eða lítil eftirspurn. Ástæðan getur einfaldlega verið sú að verðið á olíu-futures (þ.e. á olíu sem afhent verður í framtíðinni) sé orðið "óeðlilega" mikið hærra en í staðgreiðslusamningum með olíu (spot). Þá myndast hvati til að kaupa olíu, halda henni og selja síðar. Það kostar að vísu pening að geyma olíuna, en þegar mismunurinn á futures og spot er orðinn nægjanlega mikill er þetta hugsanlega góð aðferð til að græða glás af pening á skömmum tíma.

Hljómar þetta öfugsnúið? Enginn ætti að láta hvarfla að sér að olíumarkaðurinn sé eins og opin bók. Þvert á móti er þessi markaður margfalt furðulegri en heil sería af Da Vinci lyklinum!
Mun betri kristallskúla um þróun olíuverðs, en misvægi milli verðs á WTI og Brent, er að skoða stöðuna í olíuhreinsunar-bransanum þarna vestra. Í Bandaríkjunum hafa undanfarið átt sér stað ekkert minna en raðlokanir á olíuhreinsunarstöðvum. Bensínneysla hefur dregist mikið saman og af þeim sökum standa olíuhreinsunarstöðvarnar einfaldlega ekki undir því að keppa við spákaupmennina núna þegar olíuverðið er yfir 70 dollara tunnan. Það þýðir ekkert fyrir olíuhreinsunarstöðvarnar að vinna bensín úr svo dýrri olíu; það myndi einfaldlega gera þær gjaldþrota í einni svipan. Eðlilega hafa því fyrirtækin sem reka olíuhreinsunarstöðvarnar dregið saman seglin og lokað fjölmörgum stöðvum.
Það er sem sagt ekki fjarri að fullyrða, að nú um stundir ríki umtalsvert misvægi milli olíuverðs og eftirspurnar. Kannski skiljanlegt að sumum þyki súrt að spákaupmennska geti valdið svo miklum hækkunum á olíuverði - hækkunum sem eru ekki í neinum takti við litla eftirspurn. En ef það er raunin að spákaupmennirnir eru komnir útí vitleysu, þá getur það ekki gengið endalaust. Þá er stóra spurningin bara hversu fallið verður mikið þegar þeir loksins springa á limminu. Þess vegna býður Orkubloggarinn nú rólegur eftir því að olíuverðið á Nymex falli niður í a.m.k. 60 dollara - og kannski jafnvel enn neðar. Ef, ef...

En þetta átti nú reyndar bara að vera smá umfjöllun um olíugeymana í Cushing, en ekki að vera færsla um olíuverð eða spekúlasjónir þar um. Orkubloggarinn á bara við það vandamál að stríða, að eiga erfitt með að hætta þegar hann á annað borð er byrjaður.